138. löggjafarþing — 132. fundur
 7. júní 2010.
um fundarstjórn.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[11:11]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs þegar sjö þingdagar eru eftir af vorþinginu og vil lýsa áhyggjum mínum af stöðu mála í þinginu þar sem það eru u.þ.b. 108 mál sem ríkisstjórnin vill klára á þessum sjö dögum. Á dagskránni í dag á að greiða atkvæði um fjögur mál sem þurfa að koma inn á þingið með afbrigðum og enn bætist við málin. Við erum með talsvert mörg stórmál sem við viljum fá að ræða en eru í raun og veru að drukkna í málafjölda frá ríkisstjórninni. Með tiltölulega nýlegum breytingum á þingsköpum var ætlunin sú að taka á þessum tíma árs afstöðu til þess hvaða mál mundu flytjast fram í september og þess freistað að reyna að klára þá. Nú er svo komið að örfáir dagar eru eftir af þinginu og það eina sem við höfum í höndunum er listi upp á yfir 100 mál frá ríkisstjórninni sem hún vill að nái fram að ganga (Forseti hringir.) á þessum skamma tíma. Nú ríður mikið á að vel takist til í samráði flokkanna og undir forustu forseta þingsins að greiða (Forseti hringir.) þannig úr málum að eitthvert vit verði í því hvernig við ljúkum þingstörfunum í sumar.



[11:12]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá síðasta ræðumanni að fjölmörg mál liggja enn fyrir þinginu sem þarf að afgreiða áður en hlé verður gert á þingstörfum enda er þetta þing, eins og þingmenn þekkja, um margt óvanalegt og mjög mörg mál sem hafa komið til kasta þingsins eru stór og erfið, en ég vona sannarlega að við getum nýtt þann tíma sem við höfum þar til hlé verður gert. Ég hef kappkostað að reyna að hafa fundi með formönnum stjórnarandstöðunnar til að gera þeim grein fyrir stöðunni, mig minnir að ég hafi kallað þá tvisvar til fundar. Fundur átti að vera síðastliðinn föstudag til að fara aftur yfir stöðuna en þá voru nefndir enn að störfum fram á kvöld þannig að ég ákvað að sá fundur yrði haldinn síðdegis í dag eða í kvöld eftir því hvernig okkur miðar. Ég hef boðað formenn nefndanna á minn fund og fjármálaráðherra til að fara yfir stöðuna eftir þá nefndalotu sem hefur verið í gangi og til að sjá hvernig staðan er. Ég vona að málum fækki eitthvað og við sjáum til lands í þessu efni.



[11:14]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að það þarf að fara að skýra út hvernig við getum, vonandi í sameiningu, nýtt þá sjö þingdaga sem eftir eru. Hinn umræddi forgangslisti ríkisstjórnarinnar er náttúrlega ekki forgangslisti, hann er ágætur minnislisti um öll þau mál sem lögð hafa verið fram. En það er enginn forgangur, engin stefnumótun, engin forgangsröðun um þau mál sem brýn eru og mikilvægt er að við náum samstöðu um í þinginu að klára fyrir þinghlé og það eru þau mál sem snerta skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Á dagskrá í dag eru ýmis mál og ég tek eftir því að þar er stjórnarfrumvarp um happdrætti. Mér finnst það ekki vera forgangsmál. Ég legg því til að umræddur fundur verði haldinn fyrr en síðar þannig að við getum farið að einhenda okkur í þessi verkefni. (Forseti hringir.) Síðan vildi ég spyrja hæstv. forseta hverju það sætir að atkvæðagreiðslu sem við vorum að ræða áðan á þingflokksformannafundi hafi verið frestað.



[11:15]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að koma hér að. Annars vegar þarf eins og við ræddum á fundi með forseta í morgun að koma því algjörlega á hreint hvaða mál það eru sem eiga að fara hér í gegn á næstu dögum. Vona ég svo sannarlega að þeim verði forgangsraðað út frá þessum brýnu hagsmunamálum sem snúa að heimilum og fyrirtækjum, atvinnulífinu í landinu. Hins vegar, frú forseti, þá kom það verulega á óvart að það er liðinn klukkutími frá því að þingflokksformenn ræddu með forseta dagskrá dagsins og þá var gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu núna. Svo tilkynnir forseti að það sé búið að fresta atkvæðagreiðslu til kl. 3. Ég óska líka skýringa á því, líkt og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði, hverju það sæti að fresta atkvæðagreiðslu með þessum hætti rétt eftir að við erum búin að ræða það á fundi okkar með forseta hvernig þingstörfin eigi að fara fram í dag.

Ég hef áhyggjur af því ef þetta er viðmiðið sem á að setja (Forseti hringir.) að hlutirnir breytist svona hratt.



[11:17]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Miðað við þá áætlun sem gefin hefur verið út af hálfu forseta þingsins um áætluð þinglok þá eigum við sjö daga eftir, að þessum degi meðtöldum. Það er auðvitað ekki heilög ákvörðun, það er ljóst að hér gætum við verið lengur að störfum ef því er að skipta. En ég held að mikilvægt sé að það komi fram í þessu samhengi hvort hæstv. forseti hyggst halda sig við þá ákvörðun að þingstörfum ljúki 15. júní eins og gert var ráð fyrir og hvort hæstv. forseti er ekki sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram að það þurfi að vera mjög skýr og ákveðin forgangsröðun í störfum þingsins til þess að unnt verði að ljúka þeim málum sem nauðsynlegt er að klára, ekki sem einhver ráðherra eða nefndarformaður (Forseti hringir.) eða einhver annar vill hugsanlega klára heldur sem nauðsynlegt er þjóðarinnar vegna að verði kláruð áður en þingið fer í sumarfrí.



[11:18]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það verður ekki með sanngirni sagt að manni birtist miklir verkstjórnarhæfileikar þessa dagana hérna í þinginu. Ákvörðun sem tekin var kl. 10 í morgun var afturkölluð kl. 11. Á annað hundrað mál bíða núna afgreiðslu frá ríkisstjórninni og ekkert kemur fram frá hæstv. ríkisstjórn um hvaða mál eigi að vera hér í forgangi og hvaða mál geti beðið. Í annan stað er það þannig að það er liðið á þriðja mánuð frá síðasta degi sem menn gátu lagt fram frumvörp án þess að óska eftir afbrigðum og enn er verið að leggja fram frumvörp á þinginu þar sem kallað er eftir afbrigðum til þess að þau komist á dagskrá. Það er greinilega allt hér í hers höndum og algjör losarabragur á öllum þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þess vegna verður ætlast til þess að eigi síðar en í dag liggi fyrir einhver stefnumörkun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Við verðum að fá tækifæri til þess að vinna þessi mál eðlilega og almennilega. Það liggur auðvitað (Forseti hringir.) á ákveðnum málum, en önnur mál geta að skaðlausu beðið.



[11:19]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því sem fram kemur hjá síðasta ræðumanni að einhver losarabragur sé á þinginu og fleiri mál órædd en verið hefur á umliðnum þingum, m.a. þegar íhaldið hafði tögl og hagldir í þinginu. Það er bara þannig að hér hafa verið mörg og erfið mál. Ég hygg að við séum ekkert ósammála því hvaða mál eigi að vera í forgangi eins og hér hefur komið fram. Ég hef talað um að það séu mörg mál sem snerta heimilin sem við þurfum að klára. Það eru mörg mál sem snerta atvinnulífið. Það eru mál sem snerta fjármálamarkaðinn. Þetta eru svona stóru málaflokkarnir. Síðan er það stjórnlagaþing, sem mikil áhersla er lögð á að afgreiða hér, þannig að hægt sé að kjósa til stjórnlagaþings næsta haust. Það er mál sem ég legg mikla áherslu á.

Af því að menn tala um á annað hundrað mála sem eigi að fara að keyra í gegnum þingið þá sýnist mér þau nú vera komin niður í 60 og hygg ég að við höfum margoft í gegnum árin séð slíkar tölur þegar sjö dagar lifa eftir af þinghaldi.



[11:20]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Þetta skipulagsleysi á þinginu virðist vera mikið og viðvarandi vandamál og er ekkert nýtt. Ég leyfi mér að benda á varðandi þetta að Hreyfingin hefur lagt fram frumvarp um svokallaðan þingmálahala, þ.e. að þau þingmál sem næst ekki að afgreiða á yfirstandandi þingi færist sjálfkrafa yfir á næsta þing og að ekki þurfi að endurflytja þau. Frumvarpið gerir líka ráð fyrir að það sé skylda nefnda að afgreiða mál úr nefndum innan tilskilins tíma. Slíkt mundi liðka mjög fyrir þingstörfum og gera þingið ábyrgara í afstöðu sinni því að þingmenn yrðu að greiða atkvæði um öll mál. Þetta frumvarp hefur enn ekki litið dagsins ljós á dagskrá.

Dagskrá þingsins í dag er hins vegar með slíkum ólíkindum að það er náttúrlega greinilegt að eitthvað miklu meira er að hér á Alþingi en bara skipulagsleysi. Ég leyfi mér að benda t.d. á þá atkvæðagreiðslu sem átti að fara hér fram, síðan stjórnlagaþingið og svo þingsályktunartillöguna um aðild að spillingarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er hægt að vera með (Forseti hringir.) fúlli brandara hér en þetta?



[11:22]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hann hugðist halda hér atkvæðagreiðslu að loknum óundirbúnum fyrirspurnatíma en þar sem ekki voru nægilega margir í húsi ákvað forseti að fresta atkvæðagreiðslunni þar til eftir þingflokksfundi.



[11:22]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég kem hér upp vegna þessarar atkvæðagreiðslu því að hún var á dagskrá þingsins en var tekin út fyrir þingfund fyrir viku. Nú er henni frestað og ég velti fyrir mér, af því að hér var húsið fullt af fjölmiðlum áðan vegna óundirbúna fyrirspurnatímans, hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki þorað í atkvæðagreiðsluna um þetta umdeilda mál með húsið fullt af fjölmiðlum.



[11:23]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa vakið athygli á því hversu mörg mál það eru sem liggja fyrir þinginu og hversu óljóst það virðist vera hvernig skipulagi þingsins verður háttað þá daga sem eftir eru af þingstörfum. Við höfum margoft talað um það hér á þessu þingi, oftar en maður nær að telja, að bæta vinnulag þingsins. Nú kemur hæstv. forsætisráðherra og tilkynnir okkur að það séu eingöngu 60 mál sem eigi að afgreiðast hér á þinginu. Það er alveg fullljóst, frú forseti, að þetta er eitthvað sem ekki liggur ljóst fyrir. Það er því um að gera að reyna að kalla saman þann fund sem um hefur verið rætt hið fyrsta þannig að menn átti sig á því hvaða mál það eru sem eiga að fara í gegn og menn geti farið að skipuleggja sig eitthvað vegna þess að verklagið sem tíðkast hérna á þinginu er ekki til fyrirmyndar. Við hljótum að beita okkur fyrir því öll saman að þetta verði lagað.



[11:24]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það vekur óneitanlega nokkra furðu að þeirri atkvæðagreiðslu sem boðuð var hafi verið frestað og það læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess að það átti að kjósa hér um umdeilt máli í þinginu, svokallað Verne-mál, og að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni hafi ekki tekist að smala köttunum í hús til þess að greiða atkvæði með þessu máli. En við skulum sjá hvað setur kl. 3.

Vegna þeirra orða sem féllu hjá hæstv. forsætisráðherra um að hér hefðu margoft verið mörg mál til afgreiðslu á síðustu dögum þings veit ég ekki betur en að árið 2007 þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, sem gleymist nú iðulega, hafi verið gerð breyting á þingsköpum til að lengja sumarþingið til þess að koma í veg fyrir að 100 mál væru óafgreidd. Til viðbótar var tekin sú ákvörðun fyrir örfáum dögum að lengja þingið til 15. júní. Einu afleiðingarnar sem það hefur hjá þessari hæstv. ríkisstjórn er að menn ýta bara málunum stöðugt á undan sér og niðurstaðan er sú að hér er algjört uppnám. Ég sé ekki fram á annað en að það verði svo (Forseti hringir.) þegar þingi lýkur nú, virðulegi forseti, í sumar.



[11:25]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Máltækið segir: „Sínum augum lítur hver á silfrið.“ Hæstv. forsætisráðherra er greinilega mjög stoltur af verkstjórninni hér á Alþingi þegar það liggur fyrir samkvæmt málalista hæstv. ríkisstjórnar að 108 mál sem liggja fyrir þinginu eru óafgreidd. Í annan stað liggur það fyrir að nú eru liðnir meira en tveir mánuðir frá því að átti að leggja fram frumvörp til afgreiðslu á þinginu sem hægt væri að taka á dagskrá án þess að leita eftir afbrigðum. Við höfum reynt að greiða fyrir málum með því að veita slík afbrigði þegar það hefur átt við. Auk þess er hæstv. ráðherra greinilega mjög stoltur af því að ákvarðanir sem eru teknar kl. 10 á morgnana séu afturkallaðar kl. 11. Þetta telur hæstv. ráðherra til marks um þá miklu festu og miklu verkstjórnarhæfileika sem birtast okkur hér í þingsölum.

Að lokum varðandi það sem hæstv. forseti sagði hér áðan. Ég fór fram og athugaði, það eru 45 þingmenn í húsi, það er ekki nein afsökun fyrir því að fresta þessum atkvæðagreiðslum af þeim ástæðum. Það kunna að vera einhverjar aðrar ástæður sem ég ekki þekki til, það kann að vera að menn séu minnugir orðanna að (Forseti hringir.) frestur sé á illu bestur og það bögglist eitthvað fyrir ríkisstjórninni að taka fyrir það mál sem lýtur að Verne Holdings, það mál sé eitthvað feimnismál sem menn (Forseti hringir.) reyna að ýta á undan sér. Við höfum séð að menn hafa ýtt því á undan sér undanfarna daga og núna klukkutíma fyrir klukkutíma (Forseti hringir.) til viðbótar.



[11:27]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin hér upp til að styðja þá þingmenn sem hafa talað um óstjórn og óstöðugleika sem er á Alþingi Íslendinga nú um mundir. Örfáir dagar eru eftir af þinginu og enn bíða yfir 100 mál.

Hæstv. forsætisráðherra kom hér upp og taldi upp það sem hún vildi sjá í forgangi á þeim dögum sem eftir eru og talaði fjálglega um stjórnlagaþing. Ég sit nú í allsherjarnefnd og þar hefur komið í ljós að það er ekkert svo mikil ánægja með frumvarpið um stjórnlagaþing, hæstv. forseti, vegna þess m.a. að það er ráðgefandi og ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir þau stjórnvöld sem nú sitja.

Hæstv. fjármálaráðherra kom líka upp og taldi upp nokkrar plágur, eldgos, hestaveiki, veiki í síldinni. Frú forseti, mesta plága okkar núna er ríkisstjórnin og ég vildi óska þess að hún mundi skila umboði sínu inn. (Gripið fram í.)



[11:28]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi atkvæðagreiðslufrestun situr aðeins í mér. Skýringar hæstv. forseta um að hér hafi ekki verið nægilega margir þingmenn í húsi gengur ekki upp. Það getur verið að það hafi ekki verið nægilega margir stjórnarliðar í húsi, það getur verið að það hafi ekki verið meiri hluti fyrir því máli sem ríkisstjórnin var að leggja til að yrði greitt atkvæði um. En það er ekki rétt hjá hæstv. forseta að segja að það hafi ekki verið nægilega margir þingmenn í húsi vegna þess að það lá fyrir að það var rúmlega helmingur þingmanna. Hér segir í 64. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslunni, sbr. 53. gr. stjórnarskrárinnar.“

Það er ekki skýring sem ég tel hæstv. forseta sæma vegna þess að hún er röng.



[11:29]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef oft gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir aðgerðaleysi og mál sem mér finnst að hún ætti að standa betur að. Hef ég líka gagnrýnt starfshætti Alþingis og tel að þeim mætti breyta. Ég er einnig ósammála þeirri forgangsröðun sem nú hefur verið lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er samt ósammála félögum mínum í stjórnarandstöðunni um að hér þurfi að gera róttækar og gagngerar breytingar strax. Ég held að við ættum frekar að einbeita okkur að því að vinna öll saman að því að klára þau mál sem eru mikilvæg, hratt og örugglega. Við getum svo seinna tekið upp starfshættina og breytt þingskapalögum þannig að ásýnd Alþingis og það sem þjóðinni finnst um okkur þingmenn muni batna.

Ég mun (Forseti hringir.) þess vegna greiða fyrir góðum málum sem hér hafa verið lögð fram en um leið gagnrýna þau mál sem ég er (Forseti hringir.) andstæður efnislega.



[11:30]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt gagnvart okkur þingmönnum sem eru mættir hingað til að sinna dagskrá þingsins að hæstv. forseti fari fram eins og hún gerir með ákvörðun sinni um að fresta atkvæðagreiðslum fram eftir degi. Það getur verið að þingmenn hafi verið búnir að gera plön og hafi öðrum hnöppum að hneppa kl. þrjú í dag. Við erum nægilega mörg mætt hingað til þess að koma í gegn þessu ágæta máli um Verne Holdings á Suðurnesjum. Það væri ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan hleypur undir bagga þannig að hægt sé að greiða atkvæði í þinginu. Það væri ekki í fyrsta skipti sem það yrði að veruleika.

Mæting hv. stjórnarþingmanna á þingfundi er fyrir neðan allar hellur og nýverið hefur gagnrýni komið fram úr þeirra eigin röðum, virðulegi forseti, á hve illa þeir mæta á nefndarfundi. Eftir stendur að stjórnarandstaðan er oft með meiri hluta í vinnu á nefndarfundum. (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt (Gripið fram í.) og ef ríkisstjórnin getur ekki haft betri tök á sínum mannskap verðum við hin bara að klára (Forseti hringir.) þetta.



[11:32]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Til að allrar sanngirni og velsæmis sé gætt í gagnrýni á meiri hlutann varðandi skipulag þingsins þarf líka að minna á að í þarsíðustu viku tók þingið sér hlé í viku til þess að þingmenn og ráðherrar gætu endasenst um kjördæmin og stutt við bakið á sínu fólki í sveitarstjórnarkosningum — með litlum árangri, sem betur fer. Þingið tók sér hlé til að taka þátt í pólitískri baráttu á kostnað Alþingis, á kostnað almennings. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Þinginu hefði lokið heilli viku fyrr ef alþingismenn hefðu haft þá sæmd að sitja hér og taka þátt í þingstörfum í staðinn fyrir að blanda sér í sveitarstjórnarkosningar. Svona á þingið ekki að haga sér. Þingmenn Hreyfingarinnar voru þeir einu á þinginu sem gagnrýndu þetta fyrirkomulag. Allur fjórflokkurinn eins og hann lagði sig studdi þetta og það er skömm að því.



[11:33]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp undir þessum lið, sem ég geri eiginlega aldrei, vegna þess að mér blöskrar það ef við ætlum að eyða þessum sjö dögum í að ræða fundarstjórn forseta. Ég sat sem forseti á síðasta kjörtímabili undir 600 ræðum um fundarstjórn forseta og ef það er það skynsamlegasta sem við gerum á þinginu er illa komið fyrir okkur.

Annað vekur athygli mína og það er að hér standa menn og ráðast á ríkisstjórnina í sambandi við það hvernig þingið á að starfa. Við höfum kallað eftir því að þingið hafi meiri völd og meiri áhrif. Hér liggja fyrir 100 mál og það er þingið sem forgangsraðar. Nefndirnar forgangsraða. Það er samkomulag milli formanna um það hvernig menn liðka fyrir þannig að hlutirnir fari í gegn. Forgangsröðunin liggur mjög skýrt fyrir. Fyrst er vinna í nefndunum sem er gríðarlega mikilvæg og snýr að heimilunum, fyrirtækjunum og fyrirtækjamálunum, þeim sem varða endurreisn á fjármálafyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Það er það sem við ætlum að reyna að klára á næstu sjö dögum. Í guðanna bænum, látum málin hafa forgang en ekki umræður um fundarstjórn forseta.



[11:34]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek í sama streng og síðasti hv. ræðumaður, Guðbjartur Hannesson, og vil að við einbeitum okkur að þeirri dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi. Þar er að finna fjölmörg gríðarlega mikilvæg mál sem lúta að lýðræðisumbótum og bættri réttarstöðu skuldugs fólks og fyrirtækja. Hér er búið að koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri sem ég tel fulla ástæðu til að koma til móts við, þ.e. að farið verði yfir dagskrána og málum forgangsraðað á þeim sjö dögum sem fram undan eru en að við eyðum ekki klukkutíma í karp um fundarstjórn forseta. Eru það raunverulega skilaboðin og lærdómurinn sem við drögum af hruni heils bankakerfis og stjórnmálakerfis og niðurstöðum síðustu sveitarstjórnarkosninga að menn standi hér og ræði hver á fætur öðrum um fundarstjórn forseta og flytji sömu ræðurnar aftur og aftur í algerri tímaeyðslu? Það er ámælisvert að ganga svoleiðis fram. Þetta snýr að öllum þingmönnum. Förum í dagskrá fundarins (Forseti hringir.) og göngum í þau mál sem liggja fyrir fundinum en eyðum ekki tímanum í svona vitleysu.



[11:36]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls um að þingið einbeiti sér að þeirri dagskrá sem hér liggur fyrir. Það er einmitt það sem stjórnarandstaðan hefur talað um, að eftir henni verði farið og að greidd verði atkvæði um frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Kjarni málsins, sem verið er að gagnrýna, er að ekki hafi verið farið eftir dagskránni. Það er alveg hárrétt að það voru nægilega margir þingmenn í Alþingishúsinu til þess að greiða atkvæði. Að mati stjórnarmeirihlutans voru bara ekki réttir þingmenn í húsinu vegna þess að allt bendir til þess að ríkisstjórnin hafi ekki haft meiri hluta fyrir eigin máli.

Við vitum öll að það hafa verið vandamál í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og (Forseti hringir.) miklar eldglæringar á milli ríkisstjórnarflokkanna en ég held að með þessari uppákomu hafi steininn tekið úr (Forseti hringir.) varðandi óeiningu og innanmein innan ríkisstjórnarinnar.



[11:37]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Róberti Marshall og Guðbjarti Hannessyni þegar þeir segja að þingið eigi að ráða för. En hvaða meiningar eru það þá að breyta dagskrá sem var ákveðin fyrir klukkutíma síðan? Er réttur hv. þingmanna enginn til að standa upp og gera athugasemdir við slík vinnubrögð? Ég held að það sé aldeilis þannig og við höfum þennan lið til þess. Það er full ástæða til að gera athugasemdir við svona vinnubrögð. Auðvitað á þingið að stjórna. Meiri hluti þingmanna var tilbúinn til þess að taka við stjórn í þessu þingi. Það var alveg nægur fjöldi til þess en það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta dagskrá þingsins, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, og engra annarra.

Ég vil segja við hv. þingmenn Hreyfingarinnar að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga tel ég að sem alþingismaður eigi ég fullt erindi við kjósendur. Mörg málefni sveitarstjórna og landsmála skarast. Við þingmenn eigum fullt erindi við kjósendur í þessu landi, alla vega tel ég það, þó að þingmenn Hreyfingarinnar (Forseti hringir.) séu ekki sammála því. Mér er alveg sama þó að þingið (Forseti hringir.) framlengist um eina til tvær vikur vegna þeirrar vinnu.



[11:38]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mig langar fyrst og fremst til að bregðast við orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Ég get tekið undir að formlega er það auðvitað svo, eins og við þekkjum, að þingið hefur forræði yfir afgreiðslu mála í þinginu en ekki ríkisstjórnin. Þess vegna er eðlilegt að þingmenn taki mál upp við forseta, eins og gert er í þessari umræðu, og gagnrýni það sem þeim finnst ábótavant, enda eru umræður um fundarstjórn forseta sá vettvangur sem þingmenn hafa til þess að koma gagnrýni á framfæri þegar þeim finnst yfir sig gengið.

Eins og hv. þingmaður þekkir reynir stjórnarmeirihluti oft að ganga yfir minni hlutann og við höfum séð dæmi um það í fjölmörgum nefndum undanfarna daga. Þar hefur verið (Forseti hringir.) gengið yfir minni hluta í nefndum. Því er ekki nema eðlilegt að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan noti þau fáu tækifæri sem hún hefur (Forseti hringir.) til þess að koma mótmælum á framfæri, þó að meiri hluti stjórnarflokkanna, þegar hann er fyrir hendi, (Forseti hringir.) komi málum sínum hugsanlega endanlega í gegn. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar.



[11:40]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann sem þeir hafa. Hv. þingmaður fór hátt í 26 sekúndur fram yfir ræðutíma sinn.



[11:40]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum vissulega að ræða um fundarstjórn forseta, þá dagskrá sem liggur fyrir fundinum í dag og þær dagskrár sem liggja fyrir fundum næstu daga. Það er réttmæt gagnrýni sem komið hefur fram að mjög mörg mál hafa komið of seint fram hjá ríkisstjórninni. Það er þingsins að forgangsraða. Við erum með fjölmörg mál á dagskrá í dag sem er full sátt og samkomulag um. Auðvitað eigum við að sameinast um að afgreiða þjóðþrifamál á Alþingi, góð mál sem sátt er um að afgreiða. Við erum aftur á móti í pólitík vegna þess að við höfum mismunandi pólitískar skoðanir.

Þessi ríkisstjórn og meiri hlutinn á Alþingi stendur frammi fyrir mörgum mjög erfiðum verkefnum sem eru afleiðingar bankahrunsins, mikillar efnahagskrísu sem varð hér. Þau úrlausnarefni eru þung og erfið og auðvitað reynum við í ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum að komast sem best í gegnum hrunið saman. (Forseti hringir.) Við þurfum líka aðstoð þeirra sem bera ábyrgð á þessum málum (Forseti hringir.) til þess að finna lausnir en við erum í pólitík vegna þess að (Forseti hringir.) við höfum mismunandi sýn á hvernig (Forseti hringir.) leysa á málin.



[11:41]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áminnir þingmenn um þann tíma sem þeir hafa til umræðu.



[11:42]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að við eigum að sameinast um að afgreiða þau mál sem við erum sammála og sátt um og ekki ríkir mikill ágreiningur um. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. forseta og forustumenn í þingflokkunum til þess að setjast niður sem fyrst til þess að koma skikki á þetta. Mín skoðun er sú að tíminn sem fer í umræðu um fundarstjórn forseta sé ekki vel nýttur.

Ástæða þess að ég kom hingað upp er kannski fyrst og fremst sú — ég gerði það líka fyrir viku síðan og er þó mjög seinþreyttur upp í þessum lið — að ég lagði fram skriflega fyrirspurn fyrir tæpum mánuði síðan sem mér hefur ekki borist svar við. Samkvæmt þingsköpum á mér að hafa borist svar eftir tíu virka daga og því vil ég spyrja hvort hæstv. forseti geti upplýst mig um hvort ég geti átt von á að þessari fyrirspurn verði svarað eins og þingsköp gera ráð fyrir.



[11:43]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti mun ganga á eftir því að fyrirspurn hv. þingmanns verði svarað.