138. löggjafarþing — 132. fundur
 7. júní 2010.
húsaleigulög o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 559. mál (fækkun úrskurðar- og kærunefnda). — Þskj. 949, nál. 1194.

[17:28]
Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á húsaleigulögum, lögum um frístundabyggð og leigulóðir undir frístundahús, lögum um fjöleignarhús, lögum um húsnæðismál og lögum um félagsþjónustu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Norðurþingi, Reykjanesbæ, Alþýðusambandi Íslands, Kópavogsbæ, kærunefnd húsnæðismála, Magnúsi Sigurðssyni, Persónuvernd, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kærunefnd fjöleignarhúsamála, úrskurðarnefnd frístundahúsamála, Bláskógabyggð, Bændasamtökum Íslands, Grindavíkurbæ, Grímsnes- og Grafningshreppi, úrskurðarnefnd félagsþjónustu sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Sveitarfélaginu Árborg, Íbúðalánasjóði og Mosfellsbæ.

Með frumvarpinu er lagt til að fimm úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði húsa- og húsnæðismála verði sameinaðar og þeim fækkað í tvær. Lagt er til að kærunefnd fjöleignarhúsamála, kærunefnd húsaleigumála, og úrskurðarnefnd frístundahúsamála, verði sameinaðar í kærunefnd húsamála. Þá er lagt til að kærunefnd húsnæðismála og úrskurðarnefnd félagsþjónustu sveitarfélaga, sameinist í úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Að lokum er lagt til að fellt verði niður 15.000 kr. kærugjald til úrskurðarnefndar frístundahúsamála.

Ekki kom fram andstaða við þessa sameiningu nefndanna og það er ráðgert að hún lækki útgjöld ríkisins um 2–4 millj. kr. á ári vegna minni kostnaðar við nefndarstörf.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að hagrætt sé í starfi úrskurðar- og kærunefnda stjórnsýslunnar jafnframt því sem tryggt sé að sérþekking sé til staðar í tilteknum málaflokki við afgreiðslu mála. Telur nefndin frumvarpið framfaraskref í þessa átt þar sem nefndir eru sameinaðar en þeim sem eftir standa jafnframt gert kleift að leita ráðgjafar og kalla til sérfróða aðila sé þörf á.

Í nefndinni var m.a. rætt um allan þann fjölda úrskurðar- og kærunefnda sem væri á sviði ríkisvaldsins, ég man ekki töluna en þær eru á annað hundrað. Það væri eðlilegast að búa til sérstakan stjórnsýsludómstól og reyna þannig að ná fram skilvirkni í þessum úrskurðarnefndum. Nefndin taldi að það gæti orðið mjög til bóta fyrir réttarstöðu almennings.

Í umsögnum var hreyft við þeim sjónarmiðum að mikilvægt væri að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála birti úrskurði sína og miðli því sem betur megi fara til félagsþjónustu sveitarfélaga, en úrskurðarnefnd félagsþjónustu hefur til þessa ekki birt úrskurði sína. Í áliti sínu í máli 5060/2007 vakti umboðsmaður Alþingis athygli á nauðsyn þess að hugað yrði að því að úrskurðir nefndarinnar yrðu gerðir aðgengilegir. Sérstaklega þeir sem geta haft almenna þýðingu fyrir framkvæmd stjórnvalda, svo sem sveitarfélaga, og til skýringar á réttarstöðu borgaranna. Þá benti umboðsmaður á að úrskurðum æðra stjórnvalds og sjálfstæðrar úrskurðarnefndar væri framvegis ætlað að vera leiðbeinandi og fordæmi fyrir stjórnvöld við úrlausn sambærilegra mála og tryggja þannig réttarstöðu borgaranna.

Nefndin tekur undir sjónarmið umboðsmanns og umsagnaraðila hvað þetta varðar en áréttar þó að upplýsingar geta verið viðkvæmar og því þurfi að vega þessi atriði á móti persónuverndarsjónarmiðum. Málavextir eru oft með þeim hætti að þó svo að nöfn aðila og sveitarfélags séu ekki birt eru málin persónurekjanleg. Þá eiga oft svipuð rök við og um úrskurði í barnaverndarmálum, en slíkir úrskurðir eru ekki birtir.

Ljóst er að þörf er á leiðbeinandi reglum við úrlausn mála af þessu tagi og leggur nefndin því til að úrskurðarnefndin skili ráðherra skýrslu tvisvar á ári sem jafnframt verði send sveitarfélögunum. Í skýrslunni verði upplýsingar settar fram í samandregnu formi þar sem tilteknar eru helstu niðurstöður úr úrskurðum og þær reglur sem draga megi af þeim án þess að persónugreinanlegar upplýsingar komi fram.

Þá leggur nefndin til smávægilega breytingu til leiðréttingar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í fyrsta lagi leggjum við til breytingu við 18. gr. í stað „4. mgr.“ í d-lið komi: 3. og 4. mgr.

Í öðru lagi erum við með breytingartillögu við 24. gr. d-lið sem orðast svo: „Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo: Nefndin skal eigi síðar en 15. maí ár hvert skila félags- og tryggingamálaráðherra skýrslu um störf sín og helstu niðurstöður og þær leiðbeinandi reglur sem greina má út frá úrskurðum nefndarinnar. Upplýsingar sem koma fram í skýrslunni skulu vera á samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir. Skýrsluna skal senda sveitarfélögum og birta opinberlega. Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um störf og skrifstofuhald úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.“

Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið ritar Pétur H. Blöndal, Margrét Pétursdóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Þuríður Backman, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, framsögumaður.



[17:34]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, lögum um fjöleignarhús, lögum um húsnæðismál og lögum um félagsþjónustu.

Um þetta mál var ágætt samstarf í nefndinni, félags- og tryggingamálanefnd, enda er markmið frumvarpsins að einfalda kerfið og eins og ég hef sagt áður er það mjög gott markmið. Fjölmargar úrskurðar- og kærunefndir starfa innan stjórnsýslunnar, mér telst til að þar á meðal séu u.þ.b. tíu sem falla undir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þetta hljómar eins og þarna sé mjög mikið kerfi að baki en oft og tíðum koma mjög fá mál til meðferðar í kærunefndunum og þess vegna er mjög eðlilegt að reyna að styrkja þær nefndir sem fyrir eru með því að sameina nefndir.

Það kom aðeins til tals í nefndinni, eins og hv. formaður nefndarinnar kom inn á, hvort ekki væri einfaldlega kominn tími til að koma á fót dómstól, sérstökum stjórnsýsludómstól sem gæti tekið öll þessi mál og fleiri til og þannig gætum við styrkt stjórnsýsluna. Það er ekki á verksviði félags- og tryggingamálanefndar að koma fram með slíkar tillögur en ég fagna þeirri umræðu sem fór fram innan nefndarinnar um þetta atriði. Ég tel að við Íslendingar séum nú komin á þann stað í þróun stjórnsýslu okkar að þetta sé atriði sem við eigum að fara að setjast yfir og einsetja okkur að reyna að koma í betri farveg, og það skref sem hér er verið að stíga er ágætt fyrir sitt leyti þótt það sé kannski ekki sérstaklega stórt.

Mig langar að fjalla aðeins um þær umsagnir sem komu um frumvarpið. Þær voru flestar jákvæðar en vakin var athygli á nokkrum merkilegum staðreyndum, sérstaklega í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið en sambandið lýsir sig að sjálfsögðu sammála því meginmarkmiði frumvarpsins að hagræða í starfi kærunefnda á sviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Það eru aðallega tvær kærunefndir sem falla saman við verksvið sveitarstjórna, annars vegar úrskurðarnefnd félagsþjónustu og hins vegar kærunefnd húsnæðismála. Þessar kærunefndir fara báðar með heimildir til að endurskoða ákvarðanir sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru eins og allir vita misstór og mismikil stjórnsýsla að baki hverri sveitarstjórn og því er mjög mikilvægt að það kerfi sem tekur við kærum vegna starfa sveitarstjórna og þeirra stofnana sem sveitarfélögin reka, virki og sé fullnægjandi í réttarkerfi okkar. Reyndar hefur úrskurðarnefnd félagsþjónustu talsvert verið nýtt en það er fágætara að kærunefnd húsnæðismála hafi skorið úr ágreiningi. En það er mjög mikilvægt, þótt málin séu kannski ekki mörg sem þarna reynir á, að sveitarfélögin geti lært af þeim tilvikum sem koma upp og þeim tillögum sem fara fyrir kærunefndirnar.

Samband íslenskra sveitarfélaga lagði áherslu á það í umsögn sinni að úrskurðarnefnd félagsþjónustu húsnæðismála birti úrskurð sinn opinberlega. Það kemur fram í umsögn sambandsins að misbrestur hafi verið á því og er vísað til álits umboðsmanns Alþingis í þessu tilliti, mál nr. 5060/2007, þar sem mælst er til þess að úrskurðir nefndarinnar, sérstaklega þeir sem gætu haft almenna þýðingu fyrir framkvæmd stjórnvalda, séu birtir. Það er einfaldlega til þess að menn geti lært af reynslunni og það er jú það sem við ættum öll að gera. Auðvitað þarf að gæta að því í þeim viðkvæmu málum sem geta heyrt undir þessa kærunefnd að úrskurðirnir séu ekki rekjanlegir til einstakra fjölskyldna eða einstakra persóna. Í jafnlitlu samfélagi og Ísland er eru þetta oft fá mál sem koma upp í hverju sveitarfélagi og því er kannski auðvelt, ef úrskurðurinn er birtur í heild, að rekja hann til einhverra sérstakra staðhátta og finna út frá því eða geta sér til um hvaða einstaklinga þarna er um að ræða. Félags- og tryggingamálanefnd ákvað því að fara ákveðna millileið sem er sú að hin nýja, sameinaða kærunefnd skuli skila einu sinni á ári skýrslu um störf sín og helstu niðurstöður til félags- og tryggingamálaráðherra, þar verði dregnar fram helstu niðurstöður og leiðbeinandi reglur sem draga má úr úrskurðum kærunefndarinnar. Þarna er auðvitað ekki verið að stíga skrefið alla leið, það er ekki verið að mæla fyrir um að allir úrskurðir skuli birtir eins og umboðsmaður Alþingis mundi kannski vilja hafa hlutina, heldur er farin ákveðin millileið og það er aðallega gert vegna persónuverndarsjónarmiða. Ef til vill hefði verið heppilegra að ganga alla leið og birta úrskurðina en við skulum sjá hvaða reynslu þetta fyrirkomulag gefur því að, eins og ég sagði áðan, þegar um fáa úrskurði er að ræða er þetta auðvitað viðkvæmt mál. Ég tel að a.m.k. um sinn sé hægt að samþykkja að þessi aðferð verði viðhöfð og við getum svo í framhaldinu séð til hvort þetta er fullnægjandi. Það er síðan lagt í hendur félags- og tryggingamálaráðherra að setja nánari ákvæði um störf úrskurðarnefndar í reglugerð þannig að það á eftir að setja aðeins betri umgjörð utan um þetta, en ég hygg að það verði fullnægjandi.

Frú forseti. Vegna þessa tilefnis, frumvarpsins sem við ræðum hér, tel ég að við þingmenn sem sitjum í hv. félags- og tryggingamálanefnd ættum að velta því upp á öðrum vettvangi og þá í samvinnu við aðra ágæta alþingismenn í hvaða farveg við setjum þessar hugleiðingar um sérstakan stjórnsýsludómstól. Þetta mál hefur verið í umræðunni í mörg ár, allt frá því að ég fór að fylgjast með þeim umbreytingum sem hafa orðið á íslenskri stjórnsýslu síðustu áratugi, hvort þörf sé fyrir slíkan dómstól. Ég tel að þrátt fyrir að ekki séu til miklir fjármunir í dag banni það okkur ekki að hugsa til framtíðar, þvert á móti, við eigum að leggja okkur öll fram við að bæta íslenska stjórnsýslu. Íslensk stjórnsýsla hefur sína kosti og galla. Hún er lítil og það getur haft kosti og galla. Gallarnir eru að sjálfsögðu þeir að menn standa oft mjög nálægt hver öðrum og verða af þeim sökum oft ekki hæfir til að taka ákvarðanir. Smæð stjórnsýslunnar gerir það líka að verkum að ákvarðanir eru rekjanlegri til ákveðinna einstaklinga varðandi málsatvik. Þetta eru helstu gallarnir. Kosturinn við íslenska stjórnsýslu felst hins vegar líka í smæðinni. Boðleiðir eru stuttar, stjórnandinn er ekki mjög fjarri notanda þjónustunnar o.s.frv. Þetta er kostur. Við eigum ekki að gera lítið úr þessum kosti þótt gallarnir séu stundum meira áberandi.

Ég tel hins vegar í ljósi þeirra fjölmörgu úrskurðarnefnda og fjölmörgu mála sem lúta að stjórnsýslunni og taka þarf á og skera úr um og koma upp á ýmsum stöðum, m.a. í hinum fjölmörgu kærunefndum sem tilheyra stjórnsýslunni, sé vel þess virði að setja af stað formlega skoðun á því með hvaða hætti íslenskur stjórnsýsludómstóll gæti starfað. Við eigum nóg af hæfum sérfræðingum sem geta farið yfir það mál með okkur. Ég tel að þetta yrði mjög til bóta bæði fyrir stjórnsýsluna og íbúa landsins sem reiða sig á þjónustu stjórnsýslunnar og þurfa jafnframt að eiga greiða leið, greiðar kæruleiðir ef eitthvað kemur upp á. Jafnframt er algjörlega ljóst að þeir aðilar sem starfa innan stjórnsýslunnar, t.d. sveitarfélögin, eins og kemur fram í umsögn þeirra, hafa mikinn áhuga á að læra af mistökum sínum, að sjálfsögðu. Allir sem starfa innan stjórnsýslunnar vilja gera vel. Hins vegar er enginn fullkominn eins og við höfum heldur betur fengið að læra af undanfarin missiri. Það besta sem við getum gert í þeirri stöðu er að reyna að sjá kostina og styrkleikana við okkar ágæta land og okkar ágæta kerfi og þar á meðal stjórnsýsluna og byggja á þeim og hugsa til framtíðar. Ég tel að það sé kjarni málsins í því litla frumvarpi sem hér er komið fram að við eigum að einsetja okkur að setja af stað skoðun á því með hvaða hætti stjórnsýsludómstóll gæti tekið við þessum verkefnum og með hvaða hætti slíkur dómstóll gæti starfað, á hvaða sviðum og hvaða málasvið ættu að heyra þar undir.

Frú forseti. Að lokum þakka ég öðrum nefndarmönnum í félags- og tryggingamálanefnd fyrir ánægjulegt samstarf í þessu máli sem og fjölmörgum öðrum. Ég vonast svo til að geta fylgt þessu máli úr hlaði alla leið þangað til það hefur verið lögfest.



[17:45]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum eitt af þremur málum frá hv. félags- og tryggingamálanefnd sem láta lítið yfir sér, eru ekki stór í sniðum en hafa samt sinn tilgang. Hér er lagt til að fækka kærunefndum og það á að spara ríkissjóði 2–4 milljónir. Mér finnst það reyndar allt of lítill sparnaður til að það taki því að leggja fram heilt frumvarp til laga og fara í gegnum alla nefndavinnuna. Ég held að menn ættu að vera dálítið stórtækari. Þarna er t.d. lagt fyrir að það séu skipaðir sex menn með ýmiss konar þekkingu í húsanefnd og í kærunefnd húsamála, eins og það heitir. Ég held að hv. Alþingi ætti að taka sér tak og skoða að steypa þessu öllu saman í eina kærunefnd eða jafnvel nýjan stjórnsýsludómstól þannig að við tökum skrefið til fulls.

Einföld lög og rökrétt leiða sjaldan til ágreinings, það hefur sýnt sig. Menn átta sig strax á gildi laganna og sjá hvernig þeir eiga að hegða sér, vita að þeir eiga þennan rétt en ekki hinn og þá er ágreiningur mjög lítill. Þegar lög eru hins vegar flókin og snúin og fjalla kannski líka um snúin málefni, svo maður tali ekki um mál sem varða barnavernd og annað slíkt, þá eru málin miklu erfiðari. Mér finnst að menn eigi fyrst og fremst að vinna að því að hafa lög einföld og rökrétt og í öðru lagi þurfa menn að gæta að því að borgarinn hafi greiða leið að úrskurði ef hann lendir upp á kant við ríkisvaldið eða aðra borgara. Úrskurðurinn þarf að vera hraður og þá væntanlega rökréttur með hæfu fólki.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að hafa frekar dómstól sem starfar stöðugt og hefur sæmilega mikið af verkefnum en úrskurðarnefnd sem fær kannski örfá verkefni á ári, hittist öðru hverju en klárar ekki málin strax vegna þess að ekkert liggur fyrir. Það tekur því kannski ekki að hittast út af einu máli og þannig geta málin dankast. Þannig getur það gerst að þegar dómstóll fjallar um mjög fá mál, vegna þess að lögin eru einföld og rökrétt eða vegna þess að það eru lítil umsvif undir viðkomandi lögum, leiði það í rauninni til verri þjónustu við borgarann. Ég held nefnilega að við ættum að skoða í alvöru þá hugmynd sem var reifuð dálítið í nefndinni, um að taka upp eina allsherjarúrskurðarnefnd í öllum málum hjá stjórnsýslunni. Hún getur þá skipt með sér verkum, kannski gætu fleiri aðilar komið þar að og einn hópur tekið aðallega fyrir barnaverndarmál, annar húsaleigumál og annað slíkt, skemmdir á byggingum o.s.frv. Þá er viðbúið að starfið verði formlegra og afgreiðslan miklu hraðari og fljótari á þeim málum sem vísað er til kærunefndarinnar eða þessa úrskurðardómstóls.