138. löggjafarþing — 132. fundur
 7. júní 2010.
stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir, 1. umræða.
stjfrv., 650. mál. — Þskj. 1201.

[22:22]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

Frumvarp þetta var unnið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samstarfi við Vegagerðina. Með stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í kjölfar efnahagshrunsins um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum var óhjákvæmilegt að gripið yrði til róttækra aðgerða, þar með talið með verulegum niðurskurði verklegra framkvæmda og með því að setja skorður við frekari skuldaaukningu ríkissjóðs. Þessar aðgerðir eru í samræmi við og byggðar á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í kjölfarið hefur orðið verulegur niðurskurður í vegaframkvæmdum frá því sem upphaflega var áformað þó að miklar framkvæmdir séu í gangi á þessu ári eða fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr.

Við þessar aðstæður hefur verið horft til annarra valkosta til þess að auka atvinnu og til að flýta mikilvægum samgönguframkvæmdum sem annars þyrftu að bíða. Auk hefðbundinnar fjármögnunar samgönguframkvæmda hefur verið horft til aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun stærri vegaframkvæmda með öðru fyrirkomulagi fjármögnunar, þ.e. með veggjaldi.

Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að skapa nauðsynlega umgjörð um aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun vegaframkvæmda sem lið í endurreisn atvinnulífs með innspýtingu nýs fjármagns til að draga úr atvinnuleysi og um leið að flýta arðbærum stórframkvæmdum í vegamálum. Lykilatriði við þá leið er að ekki verði um frekari skuldbindingar ríkissjóðs að ræða vegna þessara framkvæmda, þ.e. að þær verði fjármagnaðar með öðrum hætti en skuldsetningu eða ábyrgð ríkissjóðs. Lífeyrissjóðirnir verða því að meta hvert verkefni fyrir sig, áhættu af lánveitingunni og arðsemi verkefnisins. Skuldbinding hins nýja hlutafélags mun felast í því að innheimta veggjald í tiltekinn tíma til að standa undir árlegum endurgreiðslum lána frá lífeyrissjóðunum.

Virðulegi forseti. Í 5. gr. vegalaga, nr. 80/2007, er að finna heimild Vegagerðarinnar, með fyrirvara um samþykki samgönguráðherra, til að stofna félag eða félög sem hafi það hlutverk að sinna framkvæmda- og þjónustuverkefnum stofnunarinnar. Þessi heimild vegalaga var sett við aðrar aðstæður en eru í þjóðfélaginu í dag og ríma ekki við þær kröfur sem gera verður við núverandi aðstæður.

Ýmsar þjóðir hafa lagt á tímabundin veggjöld á afmörkuðum vegaköflum í því skyni að flýta einstökum framkvæmdum. Norðmenn hafa verið fremstir í flokki þjóða í gjaldtöku af þessu tagi og hafa tekjustofnar af henni þróast frá 30% af heildarframlögum á 9. áratugnum í um 50% eins og það er í dag. Hér á landi eru tvö dæmi um veggjöld til að flýta framkvæmdum, þ.e. vegna Reykjanesbrautar á 7. áratugnum og vegna Hvalfjarðarganga á 10. áratugnum. Eins og áður sagði hefur staða efnahagsmála hér á landi og alvarleg staða ríkissjóðs leitt til skoðunar á aðkomu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun vegaframkvæmda auk annarra framkvæmda í landinu. Forsendur aðkomu lífeyrissjóðanna eru einkum þær að sjóðirnir fái viðunandi arð af fjárfestingum sínum, fjárfestingarnar séu þjóðhagslega arðbærar og ríkið taki ekki á sig neinar skuldbindingar sem færa verður sem lán í bókum þess.

Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnað verði hlutafélag til að standa að tilteknum vegaframkvæmdum án þess að til komi ábyrgð ríkissjóðs á viðkomandi verkefnum.

Félaginu verður heimilað að annast rekstur, viðhald og lagningu vega, þar með talið áætlanagerð, hönnun, umhverfismat, útboð, samningsgerð við verktaka, eftirlit og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd. Um leið er opnað fyrir þann möguleika að fyrirkomulagið verði óbreytt frá því sem nú er, þ.e. hinu nýja félagi er veitt heimild til að semja um kaup einstakra eða allra verkþátta af Vegagerðinni eða annast þá sjálft. Gert er ráð fyrir að sú leið verði valin sem leiði til mestrar hagkvæmni í rekstri hjá félaginu.

Gert er ráð fyrir að hlutafélagið afhendi Vegagerðinni viðkomandi vegarkafla til rekstrar að aflokinni byggingu og hlutverk félagsins verði síðan að afla fjár með veggjöldum til afborgunar lána af framkvæmdunum, nema ákveðið verði að veggjöldin skuli einnig ná til kostnaðar við rekstur og viðhald.

Við frumútreikning á veggjöldunum hefur verið við það miðað að kostnaður við hverja framkvæmd verði greiddur á 25–35 árum og jafnvel 40 árum. Veggjöldin eru reiknuð miðað við núverandi umferð en við eðlilegar aðstæður má reikna með umferðaraukningu á þessu tímabili. Með aukningu umferðar gefst svigrúm til lækkunar gjaldanna með tímanum líkt og gerst hefur með Hvalfjarðargöng. Þá þarf einnig að gera ráð fyrir því í samningum við lánveitendur að í einstaka tilvikum náist ekki að endurgreiða lánin á áætluðum tíma og því þarf að vera svigrúm til að lengja lán. Gert er ráð fyrir að veggjöld verði afnumin þegar kostnaður við viðkomandi framkvæmd hefur verið að fullu greiddur.

Í aðalatriðum er gengið út frá því að hver einstök framkvæmd verði sjálfbær þannig að veggjöld sem tekin eru á tilteknum vegi greiði upp framkvæmdakostnað við hann. Einnig kemur til álita að framkvæmdir á sama svæði verði gerðar upp í einu lagi. Sem dæmi má nefna vegina út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut.

Hæstv. forseti. Ég vík nú að athugasemdum við helstu greinar frumvarpsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að lagningu tiltekinna vega ásamt nauðsynlegum undirbúningi. Eins og áður hefur komið fram er tilgangur frumvarpsins að stofna fyrirtæki til þess að skapa umgjörð um stærri vegaframkvæmdir sem byggjast á gjaldtöku af notendum en leiði jafnframt ekki til aukinna skuldbindinga ríkissjóðs.

Í 2. gr. er tilgangi félagsins lýst en hann er að annast lagningu vega auk þeirrar áætlanagerðar sem af því leiðir, þar með talið hönnun, útboð, samningsgerð við verktaka og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd. Gert er ráð fyrir að tilgangi félagsins verði nánar lýst í samþykktum þess, en nauðsynlegt kann að vera að tilgangi félagsins verði að einhverju leyti breytt frá því sem kveðið er á um við stofnun þess, og verða slíkar breytingar þá gerðar á hluthafafundi í félaginu í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga um breytingar á samþykktum.

Í 3. gr. er fjallað um hlutafé félagsins og forræði þess. Skal hlutafé við stofnun félagsins vera 20 millj. kr. og greiðast úr ríkissjóði. Mun fjármálaráðherra fara með hlut ríkisins og framkvæmd laganna. Í greininni kemur einnig fram að ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

Í 4. gr. er fjallað um stjórn félagsins og skal hún skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal stjórnin vinna að verkefnum sem félaginu eru falin í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefna. Í 4. mgr. er kveðið á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Rétt þykir að leggja áherslu á kröfur um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra við meðferð mála og undirstrika að þeir komi ekki að afgreiðslu máls þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta eða eru tengdir eða skyldir aðilum sem hafa slíka stöðu í samræmi við góðar stjórnsýslureglur.

Í 5. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að gera samninga við félagið um uppbyggingu, rekstur og viðhald vega í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma. Rétt þykir að skýra heimild þessa efnis sé að finna í lögum til þeirrar samningsgerðar þannig að ekki verði vafi um þær í ljósi samkeppnis- eða útboðsreglna.

Í 6. gr. er kveðið á um gjaldskrá félagsins en einn megintilgangur félagsins er að annast ákveðin verkefni gegn gjaldi. Gjaldinu er ætlað að standa undir öllum kostnaði við undirbúning og framkvæmd mannvirkja auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda. Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um að eigandi ökutækis eða umráðamaður, ef um kaupleigu er að ræða, beri ábyrgð á greiðslu gjalda en það er gert til að skerpa á skyldu eiganda eða umráðamanns til greiðslu veggjalda en gjöldin eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar ef til vanskila kemur.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[22:32]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög áhugavert mál sem ég er fyrirfram fremur jákvæður fyrir. Það felur í sér að hæstv. ráðherra fær heimild til að stofna hlutafélag um vegagerð. Þetta er mjög víðtæk heimild og á þessu stigi geri ég engar athugasemdir við það út af fyrir sig. Það vekur hins vegar athygli mína að um er að ræða stjórnarfrumvarp tveggja stjórnmálaflokka, Samfylkingarinnar og VG. Í ranni VG hafa menn nú verið fremur lítt hrifnir af hugmyndum eins og þeim að stofna opinber hlutafélög, hvað þá að fela opinberum hlutafélögum að leggja vegi og annast rekstur þeirra.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort frumvarpið njóti ekki örugglega stuðnings stjórnarflokkanna. Það er kannski sérkennilegt að spyrja um það þegar um er að ræða frumvarp sem ráðherra í ríkisstjórn mælir fyrir en reynslan af þessari ríkisstjórn er hins vegar þannig að maður veit aldrei almennilega hvort frumvörpin sem kölluð eru stjórnarfrumvörp séu það að öllu leyti. Er t.d. öruggt að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar standi að þessu frumvarpi? Liggur fyrir skilyrðislaust samþykki þingflokka beggja stjórnmálaflokkanna fyrir málinu?

Við vitum að þetta hefur dálítið þvælst fyrir í nefnd sem skipuð var af hæstv. fjármálaráðherra og hafði það hlutverk með höndum að hrinda í framkvæmd ýmiss konar undirbúningi að einkaframkvæmdum, m.a. vegna pólitísks ágreinings um fyrirkomulagið. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að það sé strax skýrt við fyrstu umræðu hver staða málsins er, hver sé hin pólitíska staða þess, hvort um sé að ræða stjórnarfrumvarp og hvort það njóti stuðnings beggja stjórnarflokkanna, skilmálalaust og skilyrðislaust.



[22:34]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir það sem hann sagði í byrjun, að þetta væri áhugavert mál, þessi víðtæka heimild. Eins og ég gat um í ræðu minni þá væri þetta í þriðja skiptið sem slíkt væri gert. Þetta var gert með Hvalfjarðargöngin þegar Spölur var stofnaður. Hér er farið í svipað far.

Já, þetta er stjórnarfrumvarp að sjálfsögðu. Samþykkt var í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum að leggja frumvarp mitt fram til umræðu og afgreiðslu á Alþingi. Ég á enga aðra von í brjósti en frumvarpið njóti víðtæks stuðnings allra. Ég hef undanfarna daga og síðast í dag átt fundi með þremur þingflokkum, ákaflega góða fundi eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson veit. Þar voru reifaðar hugmyndir um þessar stórframkvæmdir í vegamálum, m.a. til að skapa atvinnu en ekki bara til að skapa atvinnu, heldur byggja arðbæra, góða vegi og auka umferðaröryggi eins mikið og hægt er. Þessar umræður í öllum þingflokkum hafa verið ákaflega gagnlegar og mikilvægar og góðar. Þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að það verði þverpólitísk sátt um málið og það afgreitt héðan þannig. Eins og ég hef rætt um við þingflokkana, er hugmynd mín líka að skipa þverpólitíska nefnd til að vinna að frekari útfærslu á þessum atriðum, þar með talið nýrri aðferð við tekjuöflun til vegagerðar eins og ég hef kynnt, rafræna innheimtu. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að við stjórnmálamenn sem sitjum á Alþingi, fulltrúar allra flokka, fulltrúar fólksins í landinu, förum upp á háan hól og horfum yfir og vinnum þetta í sátt og samlyndi því að þetta er mikið þjóðþrifamál. Þetta er mikið hagsmunamál til framtíðar hvað varðar vegagerð og rekstur vegakerfisins.



[22:36]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega til sanns vegar færa að ekkert sé eins og áður var. Einu sinni var það nú þannig að samstarfsflokkur hæstv. ráðherra í ríkisstjórn hefði haldið miklar ræður þegar svona frumvarp hefði komið fram og sagt okkur margar sögur um vonsku frjálshyggjunnar og hvernig færi þegar markaðinum væri afhent uppbygging á innviðum samfélagsins. Svona breytast nú tímarnir og mennirnir með. Nú er það svo að það er ríkisstjórn vinstri flokkanna, með þátttöku VG, sem leggur fram frumvarp með skilyrðislausum stuðningi VG um að fara svona einkavæðingarleið getum við sagt — einkavæðing er kannski ekki alveg rétt — fara frá þeirri ríkisforsjá sem við höfum haft um vegagerðina í landinu. Ég er ekki á móti þessari leið, ég er hins vegar að vekja athygli á því að í þessu felast dálítil pólitísk tíðindi, sem mér finnst óþarfi að liggi í þagnargildi.

Yfirlýsing hæstv. ráðherra var mjög skýr. Það er fullur stuðningur við málið í báðum stjórnarflokkunum, engir fyrirvarar hafa verið kunngerðir eða dúkkað upp eins og í ýmsum öðrum málum. Það er áhugavert að svona sé þetta. Ég styð auðvitað að við getum aukið vegaframkvæmdir í landinu og hraðað þeim með þeirri aðferðafræði sem hæstv. ráðherra kynnir hér. Auðvitað eigum við eftir að skoða útfærsluna og það allt saman, þannig að hér eru uppi allir fyrirvarar. Stóru tíðindin eru hin pólitísku tíðindi sem orðið hafa, vinstri flokkarnir í landinu hafa náð saman um að stofna opinbert hlutafélag um að leggja vegi í landinu. Það eru heilmikil tíðindi.



[22:38]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir jákvæða ræðu um frumvarpið. Ég vil þó segja, virðulegi forseti, af því að orðið „einkaframkvæmd“ kom fram í máli hans, að þetta er ekki bein einkaframkvæmd sem slík. Einkaframkvæmd er, eins og rætt hefur verið um það hingað til, ef verkefnið er fyrst boðið út til einhverra aðila, einhver býður best og sá fær verkefnið. Þá aflar hann fjár með útboði, hannar verkið, vinnur það, rekur vegina o.s.frv. Það er hin eiginlega einkaframkvæmd. Hér förum við í raun og veru aðra leið.

Þetta er opinbert hlutafélag, 100% í eigu ríkisins, og er í raun og veru Vegagerðin, þó með ohf-i fyrir aftan. Félagið fer í framkvæmdina og býður út verkefnið. Vegagerðin stendur í verkefninu, hannar og undirbýr og allt það og undirbúningsferillinn er ef til vill langur. Þetta félag getur keypt gögn af Vegagerðinni og farið í framkvæmdina, aflað fjár með lánum frá lífeyrissjóðum en ekki endilega útboði, þó má gera það líka, vegna þess að fleiri hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að fjármagna svona verk, fleiri aðilar eru til í það. Svo er verkið unnið en ekki endilega séð um rekstur, hér er frekar átt við að hefðbundnir vegir séu í rekstri eins og annað vegakerfi landsmanna, en ekki sem slíkir í einkaframkvæmd. Þetta var sú leið sem var valin. Á ágætri ráðstefnu í janúar þar sem við fengum marga Norðmenn frá norsku vegagerðinni til að fræða okkur um þetta, var ég hrifnastur af þessari leið. Norðmenn eru hins vegar (Forseti hringir.) byrjaðir að fikra sig yfir í hefðbundnar einkaframkvæmdir eins og ég lýsti áðan, en í miklu minna (Forseti hringir.) mæli.



[22:41]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar út í hugmyndirnar sem þessu tengjast, gjaldtökuna og veggjaldið og það nýja kerfi sem boðað er, þar sem hægt verður að fylgjast með notkun og keyrslu ökutækja. Eins og ég skil hana, er hugmyndin sú að skattleggja eftir notkuninni. Einnig vil ég nefna fjármögnunina, einhvern veginn verður að borga lán lífeyrissjóðanna til baka og þá með veggjöldum eða þessu nýja kerfi.

Nefnd hafa verið verkefni sem fyrirhugað er að fara í, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, og það sem eftir er af Reykjanesbraut. Ég tek eftir því að framkvæmdir annars staðar á landinu eru ekki nefndar eins og t.d. Héðinsfjarðargöngin í nágrenni við hæstv. ráðherra. Er það ekki rétt skilið hjá mér að kerfið eigi að ná til landsins alls og að fylgjast eigi með keyrslu og notkun bifreiða og skattleggja eftir því? Er nokkuð því til fyrirstöðu að það verði látið gilda fyrir allar framkvæmdir hér eftir? Það verði þá metið hvað Héðinsfjarðargöngin kosta út af fyrir sig, hvað Reykjanesbrautin kostar og síðan rukkað eftir því. Eða á þetta bara að ná til vegaframkvæmda út úr höfuðborginni?

Eins og sagt er í greinargerð með frumvarpinu eru tvö dæmi um veggjöld hér á landi til að (Forseti hringir.) flýta framkvæmdum: Reykjanesbrautin á 7. áratugnum og Hvalfjarðargöng. Ég sem Suðurnesjamaður segi því: (Forseti hringir.) Suðurnesjamenn eru búnir að taka veggjaldapakkann.



[22:43]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg í stuttu andsvari. Hún spyr um gjaldtökuna og hvernig hún verði í framtíðinni.

Það skal tekið skýrt fram, virðulegi forseti, að hugsunin er sú að endurgreiðslur á lánum frá lífeyrissjóðunum, ef af þeim verður, komi aldrei til fyrr en að lokinni framkvæmd, árin 2014/2015. Ég hef sagt, virðulegi forseti, að ég tel að við eigum að taka upp besta kerfið sem verið er að hanna í Evrópu. Búið er að taka það í notkun í nokkrum löndum. Það verði rafræn innheimta í gegnum gervihnött. Þá falla öll önnur gjöld niður, eins og olíugjöld og bensíngjöld, og verður aðeins um eitt gjald að ræða. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta eru hálfgerð notkunargjöld, notendagjöld eftir stað og stund. Þessi tækni hefur geysilega mikla möguleika í för með sér. Með henni er möguleiki á að taka tillit t.d. til búsetu manna. Ef menn eiga um langan veg að fara til þess að sækja vinnu eða fara í skóla, er hægt að setja inn í kerfið að viðkomandi aðili sé háður afslætti vegna keyrslu til og frá vinnu, eða fari langan veg til skóla. Einnig má taka tillit til flutningskostnaðar, eða taka tillit til þess ef menn keyra á ónýtum, gömlum moldarvegum eins og á sunnanverðum Vestfjörðum um þessar mundir. Möguleikarnir eru óteljandi.

Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, og það er svar mitt við spurningu frá hv. þingmanni, sem velti henni upp, að það sé verkefni hinnar þverpólitísku nefndar að fara í gegnum þetta allt. Hún hefur góðan tíma til að gera heildartillögur um heildarfjáröflun til vegagerðar og rekstur vegakerfisins. Þá er að mínu mati allt undir hvað það varðar — allt undir. Það þarf ákveðna fjárupphæð til að reka vegakerfið og það þarf ákveðna upphæð til að byggja nýja vegi og við þurfum hugsanlega ákveðna upphæð til að standa straum af afborgunum af lánum og því sem við gerum (Forseti hringir.) þannig að útfærsluatriðin eru ótal mörg. Í þeim efnum útiloka ég ekkert og menn verða að horfa mjög vítt yfir sviðið.



[22:45]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hæstv. ráðherra hugsaði þetta þannig að gjaldtakan, þetta nýja kerfi, þetta framsækna besta rafræna kerfi sem fer í gervihnöttinn, gæti einmitt verið með þeim hætti sem ég spurði um. Það er þá hægt að rukka fyrir Héðinsfjarðargöng, fyrir Óshlíðargöng og fyrir öll þessi göng fyrir vestan og austan sem gerð hafa verið og engin gjaldtaka er á. Það tel ég vera mikilvæga forsendu ef hugsunin er að setja á fót slíkt kerfi vegna þess að það verður aldrei um það sátt að gjaldtakan sé bara á einstökum framkvæmdum á einstöku landsvæði heldur yrði að gera hana að heildstæðu kerfi þar sem farið væri eftir einhverjum almennum reglum.

Ég óttast hins vegar að það verði erfitt að koma slíku kerfi á vegna þess að ég man eftir því þegar olíugjaldinu var komið á á sínum tíma. Þá átti að gera það þannig en svo var farið að taka tillit til alls konar sjónarmiða og alls konar gerða af ökutækjum og eftir atvinnugreinum o.s.frv. Þannig var kerfið sem átti að vera svo einfalt orðið afskaplega flókið og þau almennu sjónarmið sem lagt var upp með í upphafi urðu undir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi sjónarmið vegna þess að ef það á einhvern tímann að nást sátt um að setja veggjald á þá vegi sem fólk er búið að bíða eftir í áratugi, ég nefni t.d. Suðurlandsveginn, er ekki mikill skilningur eða þolinmæði hjá íbúum Suðurlands sem keyra þá og eru búnir að fá loforð eftir loforð um að vegirnir komi. Nú koma þeir (Forseti hringir.) en gegn því að það verði veggjald þar.



[22:47]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi hið framsækna kerfi sem ég gerði hér að umtalsefni. Það er sennilega alveg hárrétt orð yfir það. Þetta er mjög framsækið kerfi vegna þeirra möguleika sem það býður upp á. Skal ég enn einu sinni ítreka það, virðulegi forseti, að kerfið verður aldrei tekið upp nema með fullkominni sátt við Persónuvernd og að persónuverndarsjónarmið verði höfð í heiðri þannig að þau verði ekki misnotuð á einn eða neinn hátt.

Þetta framsækna kerfi eins og hv. þingmaður kallar það býður m.a. upp á að þegar bíll keyrir um borð í ferju, tökum það sem dæmi, þá tifi það inn í kerfið og þar með gjaldið líka. Þar með þarf viðkomandi ekki að borga í ferjuna. Við getum t.d. sagt ef við viljum mismuna á jákvæðan hátt: Íbúar tiltekinna svæða sem þurfa að fara í ferju geta verið á afsláttarkjörum meðan aðrir, ferðamenn eða aðrir, borga hærra. Þannig getur jafnaðarmannahugsjónin komið mjög vel fram í kerfinu til að koma til móts við íbúa og jafna aðstöðu manna, sama hvort það er í ferðum þeirra prívat eða vegna flutningskostnaðar.

Almenna reglan? Jú, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður talar um lituðu olíuna eða olíukerfið sem við tókum upp þar sem við ætluðum að leggja af þungaskattskerfið til einföldunar. Það náðist nú ekki. Þungaskatturinn lifir enn þá, því miður, en litaða olíukerfið — eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði á þingflokksfundi hjá sjálfstæðismönnum í dag þá man ég þá tíð þegar ég og hv. þingmaður töluðum frekar fyrir því að taka upp GPS-staðsetningartækin, eða þetta kerfi, í þá bíla sem áttu að vera á lituðu olíunni. Það hefði betur verið gert, virðulegi forseti, þá væri ekki verið að misnota það kerfi eins og því miður ýmislegt bendir til að sé gert.



[22:50]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur nú mælt fyrir.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að lífeyrissjóðirnir fjármagni stærri vegaframkvæmdir í kjölfar verulegs niðurskurðar eins og lesa má úr samgönguáætlun sem nú liggur fyrir þinginu. Þá er einnig gert ráð fyrir að tekin verði upp veggjöld sem eru ekki ný af nálinni á Íslandi en þó er gert ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu að þau verði víðtækari en áður hefur þekkst hér á landi.

Hvað varðar fjármögnun stærri vegaframkvæmda tel ég rétt að stjórn hins opinbera hlutafélags, ef af verður, skoði fleiri kosti en lífeyrissjóðina sem leið til að fjármagna hugsanlegar framkvæmdir. Vil ég í því sambandi helst nefna Evrópska fjárfestingarbankann og jafnvel aðrar fjármálastofnanir tengdar Evrópusambandinu sem allar líkur eru á að opnist okkur Íslendingum þegar við fáum formlega stöðu aðildarviðræðuríkis, hugsanlega eftir tíu daga.

Á heimasíðu Evrópska fjárfestingarbankans er að finna yfirlit yfir lánveitingar og reyndar líka fjármögnun ýmissa verkefna til ríkja sem eiga í formlegum aðildarviðræðum við sambandið. Markmið bankans með þessum lánveitingum er að stuðla að því að hugsanleg aðildarríki standi jafnfætis núverandi aðildarríkjum þegar og ef til aðildar kemur. Á heimasíðunni má m.a. sjá að áhersla hefur verið lögð á að lána til stórra samgönguverkefna, ýmist á föstum eða breytilegum vöxtum. Nú skal ég ekki segja til um hvaða kjör okkur Íslendingum mun bjóðast hjá Evrópska fjárfestingarbankanum en tel þó skynsamlegt að kanna hvaða kostir bjóðast í þeim efnum enda gæti komið sér vel að hafa úr fleiri en einni fjármögnunarleið að velja þegar kemur að því að leita leiða til fjármögnunar stórra vegaframkvæmda. Einnig kunna aðrir kostir að vera í boði sem ég ekki þekki en hæstv. ráðherra kann kannski einhver frekari skil á.

Nú liggur ekki endilega fyrir hvaða vegarkafla hugsanlegt hlutafélag mun telja eftirsóknarvert að ráðast í en umræðan í þessu sambandi hefur einkum beinst að stóru stofnbrautunum út frá höfuðborginni, þ.e. Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég tel skynsamlegt að horfa á stofnbrautir út frá höfuðborginni sem eina heild, enda rímar það vel við hugmyndir um að skilgreina Suðvesturhorn landsins sem eitt sóknarsvæði. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að tryggja góðar samgöngur innan svæðisins þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna búa.

Reyndar kemur aftur upp í hugann sú staðreynd að við Íslendingar fáum væntanlega innan skamms formlega stöðu aðildarviðræðuríkis gagnvart Evrópusambandinu. Það þýðir m.a. að við munum hefja vinnu við að undirbúa tengingu íslenska samgöngunetsins við hið samevrópska samgöngunet sem gengur undir heitinu TEN-kerfið. Með leyfi frú forseta, Trans-European Network. Það kann að hljóma mjög undarlega í eyrum fólks að íslenska samgöngukerfið verði skilgreint sem hluti af hinu evrópska en staðreyndin er reyndar sú að við höfum verið hluti af þessu kerfi í nokkur ár, aðallega að nafninu til. Við höfum ekki tekið þátt í mótun stefnu og þróunarverkefnum á sviði samgöngumála og það er sá þáttur sem við munum fá þjálfun í á næstu missirum núna þegar kemur að því að vera aðildarviðræðuríki.

Ég er sannfærð um að við getum lært ýmislegt af öðrum þjóðum í samgöngumálum þar sem áhersla er lögð á vistvænar samgöngur og samþættingu allra samgöngumáta. Af því að ég minntist á samgöngur á Suðvesturhorni landsins má geta þess að sérstakt stuðningskerfi er að finna innan Evrópusambandsins sem vinnur sérstaklega að því að þróa lausnir og leita fjármögnunar í samgöngumálum á borgarsvæðum og í nágrannasveitarfélögum þeirra. Ég tel að við getum sótt ýmislegt í þá smiðju þegar og ef til þess kemur að við verðum hluti af þessu samfélagi.

Aðildarríki Evrópusambandsins fá styrki frá sambandinu til að viðhalda sínum hluta af TEN-netinu og munum við Íslendingar eflaust geta sótt í þá sjóði ef til aðildar kemur. Ég bind talsvert miklar vonir við að sú þjálfun sem við munum eiga rétt á á komandi missirum og þeim upplýsingum og fræðslu sem ég gat um áðan muni reynast okkur farsæl og því hef ég lagt til að fulltrúar í samgöngunefnd fái að taka þátt í þeirri vinnu og verði þannig betur í stakk búnir til að fjalla um og móta samgöngustefnu til 12 ára sem lögð verður fram á komandi haustþingi.

Þá að veggjöldum, frú forseti. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hinu opinbera hlutafélagi verði heimilt að innheimta gjald fyrir notkun á mannvirkjunum. Gert er ráð fyrir að gjaldið standi undir kostaði við undirbúning og framkvæmd viðkomandi mannvirkja auk eftirlits, kostnaðar við innheimtu, viðhald og rekstur. Erfitt er að segja til um hvert gjaldið verður eða hvort það verður mismunandi eftir því hvaða stofnbraut er ekin. Þó verður að teljast líklegt að eitt og sama gjaldið verði innheimt á þessum þremur stofnbrautum, a.m.k. ef af framkvæmdum verður, og þær fjármagnaðar og skipulagðar sem ein heild. Í mínum huga er það grundvallaratriði að gæta jafnræðis í þessum efnum og finnst mér því sjálfsagt að teknir verði upp vegtollar á öðrum dýrum umferðarmannvirkjum, eins og í Héðinsfjarðargöngum og Bolungarvíkurgöngum, ef ákveðið verður að taka upp veggjöld á Suðurlandsvegi, Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi.

Það er að mínu viti algjörlega óásættanlegt og deili ég þar með skoðunum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að reisa tollmúra umhverfis höfuðborgina innan sóknarsvæðis Suðvesturlands en láta aðra landshluta njóta góðs af því að framkvæmdir þar eru kostaðar af ríkissjóði. Íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi eiga ekki að þurfa að greiða toll ef þeir sækja vinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Frú forseti. Það er stór ákvörðun að taka upp veggjald á þjóðvegum landsins. Hún stríðir á vissan hátt gegn jafnaðarhugsjóninni sem við í Samfylkingunni höfum að leiðarljósi. Aðstæður nú eru hins vegar þannig að við þurfum að styðjast við bjargráð sem ekki eru endilega efst á óskalistanum, m.a. til að skapa störf í landinu og hrinda í framkvæmd arðbærum og skynsamlegum framkvæmdum. Með því að taka einstakar stórar framkvæmdir út fyrir sviga samgönguáætlunar og fjármagna þær með þessum hætti getum við vonandi á sama tíma reynt að halda við núverandi vegakerfi um allt land.

Eins og fram kom í máli hæstv. samgönguráðherra hér áðan þá munum við að mörgu leyti feta í fótspor frænda okkar í Noregi sem hafa 70 ára reynslu af notkun veggjalda við að fjármagna stórar framkvæmdir. Það hefur einmitt verið eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig áhersla eða hlutfall vegafjár hefur aukist ár frá ári í vegagerð þeirra.

Mér finnst mikilvægt að líta á sérstök veggjöld sem tímabundna aðgerð til að fjármagna sérstakar framkvæmdir og með þessari GPS-tækni sem rætt hefur verið um hér í þessu sambandi verður auðveldara að innheimta þessi gjöld. Þá er líka mikilvægt fyrir neytendur að þeir verði vel upplýstir um skattlagningu á akstur þegar þar að kemur.

Að öðru leyti finnst mér þessi tækni mjög áhugaverð og ég held tvímælalaust að við verðum að stuðla að því að innleiða hana þegar færi gefst, árið 2017 eða fljótlega upp úr því.

Ég tel að frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir sé góðra gjalda vert. Ég ítreka þá skoðun mína að væntanlegt hlutafélag leiti eftir lánsfé víðar en hjá lífeyrissjóðunum og ég nefni aftur sérstaka lánastofnanir Evrópusambandsins í því samhengi. Þau lánakjör sem hlutafélaginu bjóðast munu ráða miklu um það hversu há veggjöldin verða. Það er því nauðsynlegt að geta valið á milli lánveitenda þegar og ef til þess kemur að þetta opinbera hlutafélag verður stofnað.



[22:58]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags í eigu ríkisins til að fara í einkaframkvæmdir í vegamálum. Ástæðan fyrir því að þetta gekk svona fram er mjög einföld. Það er vegna þess að við erum í raun og veru að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að við megum ekki taka á okkur meiri kostnað inn í ríkissjóð eða færa skuldbindingar sem lán í bókum ríkissjóðs vegna þessara framkvæmda. Þá er hugsunin sú að farið verði í ákveðna framkvæmd sem er hugsanlega fjármögnuð af lífeyrissjóðunum. Þeir eru oftast nefndir í þessu sambandi og er líka hægt að vitna í stöðugleikasáttmálann. Síðan munu notendagjöldin greiða upp kostnað við framkvæmdina þannig að þetta þýði ekki aukaútgjöld fyrir ríkissjóð.

Mig langar aðeins að koma inn á kunnuglegan texta sem kom frá fjármálaráðuneytinu í umsögn um frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þeir aðilar sem koma að fjármögnun vegaframkvæmda verða því sjálfir að leggja mat á og taka sjálfir á sig þá áhættu sem kann að felast í tekjuáætlunum tiltekinna framkvæmda.“

Þetta er nánast orðrétt eins og sagt er í sambandi við byggingu nýs landspítala. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að skoðun mín er sú að ef einhver vafi er á að tekjuáætlun muni standa undir framkvæmdinni muni þeir aðilar sem taka framkvæmdina að sér gera ávöxtunarkröfu til að tekjuáætlun standi undir framkvæmdinni. Mér finnst menn skauta dálítið létt fram hjá þessu. Ef tekjuáætlun verður lakari koma að sjálfsögðu annaðhvort hærri vegtollar eða hærri ávöxtunarkrafa á verkið í heild sinni, þannig að það sé alveg skýrt.

Ég vil taka fram að ég tek frekar jákvætt í þetta mál og tel það mjög gott til að koma efnahagslífinu af stað aftur. Ég hef þó vissar efasemdir um það og tel að við þurfum að fara varlega. Ég vil fyrst nefna að í þessu tilfelli erum við að fara í einkaframkvæmdir með þessu félagi, en eins og fram kemur í samgönguáætlun eru uppi áætlanir um að fara í 33,3 milljarða framkvæmdir í vegáætlunum, þ.e. menn fara í einkaframkvæmd, bjóða verkið út, reka það og greiða með notendagjöldum. Á sama tíma erum við með 6,5 og 6 milljarða eða 7 og 7,5 milljarða í vegáætlunum 2011 og 2012 sem þýðir í raun og veru að af því að við ræðum fjögurra ára áætlun til 2014 erum við farin að setja stærri hluta inn í framkvæmdaþátt í vegagerð en við höfum sett í almennan þátt.

Einnig vil ég benda á að eins og ég sagði í upphafi máls míns erum við raunverulega að gera þetta til að hafa framkvæmdirnar fyrir utan efnahag ríkisins, fyrir utan ríkisreikninginn sjálfan. Mér telst til að þegar og ef þetta mál verður klárað verðum við komin með um 120 milljarða fyrir utan efnahag ríkissjóðs, þ.e. ef Landspítalinn verður byggður og farið verður í þessar vegaframkvæmdir, tónlistarhús og hjúkrunarheimili. Þetta eru á bilinu 110 til 120 milljarðar og ég set mjög stórt spurningarmerki við það. Ég tel að við séum komin út á mjög hála braut. Ég verð líka að minna á að þegar við afgreiddum fjárlög sl. haust gerðum við ákveðið samkomulag við stóriðjufyrirtækin um að þau greiddu fyrirfram skatta á árunum 2010, 2011 og 2012 sem byrjað verður að greiða til baka á árunum 2013, 2014 og 2015, en það eru um 1.200 millj. á ári. Við verðum aðeins að dempa okkur og átta okkur á umfangi ríkisfjármálanna í heild sinni því að það er ekki skynsamlegt að halda endalaust áfram á þessari braut. Ástandið er hins vegar þannig að þetta er gert til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og líka til að uppfylla þau skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við megum ekki færa skuldbindingar, þótt þær séu það sannarlega, inn í bækur ríkisins.

Það hefur verið rætt um tækni við að innheimta gjöldin sem er svokölluð GPS-tækni eða rafræn innheimta. Ég held að hún sé skynsamleg til framtíðar og í frumvarpinu koma reyndar fram ákveðin rök sem hníga að því að hitt muni fjara út og verða úrelt á nokkrum árum þegar notkun á umhverfisvænum bílum eykst. Ég tel þá tækni til mikilla hagsbóta og hæstv. ráðherra fór vel yfir að hægt sé að nýta hana á marga vegu, hvort heldur menn fara um borð í ferjur, í gegnum göng eða hvernig sem það er. Einnig er hugsanlegt að setja einhvern afslátt þar inn. Ég er þó dálítið hugsi yfir því sem gerist á tímabilinu 2014–2017. Áætlað er að við verðum búin að taka í notkun fyrstu framkvæmdina árið 2014 en þetta kerfi verður ekki tilbúið til innheimtu fyrr en árið 2017. Upphaflega var áætlunin sú að kerfið yrði tilbúið til innheimtu árið 2011 en því hefur verið seinkað um sex ár og ekki er útilokað að því seinki enn meira. Þá verða tvær aðferðir hugsanlegar og jafnvel fleiri. Önnur gæti verið sú að ekki væru greidd veggjöld eða vegtollar fyrr en árið eftir að hægt yrði að hafa þess konar innheimtu og hin að tekið yrði af vegafé viðkomandi árs til að greiða framkvæmdirnar niður. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að sennilega færi stærsti hlutinn, ef ekki allt vegaféð, í að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum framkvæmdum. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta.

Síðan verð ég líka að taka undir með hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur og Ragnheiði E. Árnadóttur um að það er ekki sanngjarnt að fara í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar fyrir ákveðna íbúa landsins, t.d. í Hveragerði eða á Reykjanesi, til að þeir geti sótt vinnu og að þeir þurfi að borga vegtoll en aðrir ekki. Það er ekki sanngjarnt og verður aldrei. Við þekkjum það með Hvalfjarðargöngin að þau hafa kostað mikið á því svæði og fyrir þá sem nýta þau. Menn verða að taka þetta í heild sinni og gæta sanngirni gagnvart öllum, þótt ég sé í öðru kjördæmi.

Ég vil líka koma örlítið inn á að þó að þetta mál fari til úrvinnslu í hv. samgöngunefnd tek ég heils hugar undir, og tók sérstaklega eftir því þegar hæstv. ráðherra sagði það áðan, að það væri skynsamlegt að skipa þverpólitíska nefnd sem skoðaði alla vinkla á þessu máli, kosti og galla. Ég hef einnig rakið hvort við förum óvarlega eða fram úr okkur í einkaframkvæmdum og því að taka fyrir utan ríkisreikning, sem og það sem komið hefur fram í máli hv. þingmanna og snýr að þeim íbúum sem þessar framkvæmdir ná til en ekki að öðrum, þar sem framkvæmdir eru fjármagnaðar með vegafé almennt og íbúarnir þurfa því ekki að greiða vegtolla. Við erum sannarlega að marka nýja braut og taka vegtolla í miklu víðari skilningi en við höfum gert áður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við förum vel yfir þetta. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að málið verði unnið þannig að við getum rætt það á þverpólitískan hátt og vonandi komist að niðurstöðu.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég tek jákvætt í þetta mál en vara hins vegar við því að mjög stór hluti af fjárlögum ríkisins sé tekinn fyrir utan efnahag og komi ekki fram í ríkisreikningi.



[23:07]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðu að kvöldi um þetta frumvarp. Mér finnst það hafa fengið virkilega góðar viðtökur og er mjög þakklátur fyrir það. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Ásbjörn Óttarsson, sagði um þverpólitíska nefnd sem hefur tíma til að fara í gegnum þetta, útfæra og finna, eins og hv. þingmaður sagði, sanngjörnustu leiðina þannig að sem mest og breiðust sátt náist um framkvæmdina og breytt gjaldheimtukerfi eða tekjuöflunarkerfi til framtíðar.

Okkur liggur á að hleypa lífi í atvinnumarkaðinn. Ég verð að segja alveg eins og er, og ég hef sagt það áður, að í ár vinnum við í vegagerð fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr. Það er há upphæð á þessu erfiðleikaári en á næsta ári er ekki ráðstafað nema 1,5 milljörðum kr. Það er vegna þess að mörg verk klárast á þessu ári og árið 2012 eru ekki verk inni nema fyrir 500 millj. kr.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem situr í samgöngunefnd og ræðir þessi mál af mikilli þekkingu, gat um ríkishlutann eða samgönguáætlunina, að við höfum útboðsmöguleika á verkum upp á 6 milljarða, verkum sem við munum bjóða út síðar á þessu ári til að koma þessu í gang. Sá stóri hluti sem hér er inni er hvorki meira né minna en 32–33 milljarðar, með Vaðlaheiðargöngum, á þessu fjögurra ára tímabili. Við verðum að átta okkur á því að e.t.v. fer þetta yfir á árið 2015 ef við komumst seinna af stað en við mundum þá halda að við hefðum gert virkilega vel við þessa atvinnugrein.

Ég óttast það sem ég sá á vef RÚV áðan þar sem sagði, með leyfi forseta:

„Öllum starfsmönnum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða á Selfossi, 60 talsins, verður sagt upp frá næstu mánaðamótum. Ástæðan er sú að engin verkefni liggja fyrir í haust en fyrirtækið er eitt hið stærsta í landinu í almennri verktakastarfsemi eins og í vegagerð, vatnsborunum og þungaflutningum.“

Nú er það svo, virðulegi forseti, að framkvæmt verður fyrir 11,5 milljarða á þessu ári, á næsta ári komumst við í að vinna verk fyrir 6 til 7 milljarða og á þarnæsta ári, 2012, líka fyrir um 6 milljarða — þetta eru töluverðar framkvæmdir í sögulegu tilliti miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Samt sem áður þurfum við að gera meira. Það vantar svo marga til að kaupa verk af þessari atvinnustétt, þ.e. það vantar sveitarfélög, almenning og fyrirtæki. Ríkið er langstærsti aðilinn í þessum bransa í dag og í þeim verkum sem eru í gangi. Þess vegna talaði ríkisstjórnin um að gera þetta svona, gefa í með lánum frá lífeyrissjóðnum o.s.frv.

Hv. þingmaður spurði hvað gerðist á árunum 2014–2017, eða við skulum segja 2015–2017 ef hið nýja kerfi verður ekki tilbúið. Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að það sé ástæðan fyrir því að Hollendingar ætla að gera þetta árið 2017. Ég bíð eftir gögnum frá Hollandi um það. Það getur verið að einhverjar aðrar ástæður séu fyrir því en tæknin. En hv. þingmaður nefndi tvær leiðir sem ég tek heils hugar undir að vert sé að skoða, vegna þess að ekki eyðum við peningum í annað kerfi á meðan eða kaupum kerfi sem ekki er framtíðarkerfi. Einn af plúsunum við þetta kerfi er að þegar evrópskir bílar koma til Íslands fara þeir beint inn í þetta samevrópska kerfi. Eins ef við förum með bílana okkar út fer það inn í sama kerfi þannig að þetta verður samræmt.

Hv. þingmaður talaði líka um arðsemi, fjármögnun og allt það. Það er alveg rétt sem fram kom að inni í því sem talað er um eru vangaveltur um hver umferðin verði. Verður hún meiri eða minni en áætlanir gera ráð fyrir á meðan lífeyrissjóðirnir meta sitt? Það er alveg rétt. Menn telja að við fáum verri vaxtakjör vegna þess að við getum ekki sett á þetta ríkisábyrgð. Það er alveg ljóst. Ef við gætum sett á þetta ríkisábyrgð fengjum við betri kjör, en þá þyrftum við líka að færa þetta í ríkisreikning. Nú telst ég ekki talsmaður þess að við fölsum það mál. Hér er verið að tala um að stofna opinbert hlutafélag sem á að afla fjár á annan hátt en með skatttekjum og þess vegna er eðlilegt að það sé utan við, líkt og Spölur hefur verið frá upphafi Hvalfjarðarganga. Spölur hefur aldrei verið færður inn í ríkisreikning.

Ég vil líka þakka hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur fyrir ræðu hennar og það sem hún færði í tal. Það er ákaflega merkilegt og ég hef áður hlustað á hv. þingmann fjalla um möguleika á því að fleiri komi að þessu en lífeyrissjóðirnir. Það er alveg hárrétt. Til mín hafa komið erlendir aðilar, að vísu fyrir nokkuð mörgum mánuðum síðan, sem spurðu út í þetta og höfðu jafnvel áhuga á að koma með fjármagn inn í slíkar framkvæmdir. Þeir sáu sér hag í því en ég hef ekki heyrt í þeim upp á síðkastið. Hv. þingmaður nefnir Evrópska fjárfestingarbankann, hvort einhverjir möguleikar opnist ef við verðum í aðildarviðræðum landa á næstunni. Sannarlega er það, eins og hv. þingmaður sagði, virkilega af hinu góða að við leitum til fleiri aðila eða fleiri aðilar vilji bjóða okkur peninga. Þó að það hafi ekki komið fram gagnvart vegaframkvæmdunum sem slíkum hafa komið fram varðandi samgöngumiðstöð og stækkun flugstöðvar á Akureyri óformlegar sendingar frá ákveðnum bönkum um að þeir geti hugsað sér að taka þátt í fjármögnun verkefnanna, sem eru náttúrlega miklu minni en það sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja þinghaldið meira um þetta mál. Ég fagna því sem komið hefur fram frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, Ragnheiði E. Árnadóttur, Ásbirni Óttarssyni og Önnu Margréti Guðjónsdóttur. Viðbrögð við málinu hafa verið ákaflega jákvæð og vonandi fær það virkilega góða vinnu í samgöngunefnd sem slíkri og að þar verði unnið hratt og vel, vegna þess að okkur liggur á. Síðan er það aftur útfærsluatriði varðandi hið nýja tekjuöflunarkerfi með þverpólitískri nefnd sem ég hef líka nefnt við forustumenn allra flokka á Alþingi. Allir hafa tekið vel í það vegna þess að þar höfum við meiri tíma til að finna upp sanngjarnt kerfi sem við Íslendingar getum sætt okkur við, vegna þess að það borgar enginn annar en við sjálf rekstur vegakerfisins. Í dag borgum við í raun og veru vegtolla með olíugjaldi og bensíngjaldi þegar við ferðumst um vegina og eftir því sem við ferðumst meira og eyðum meira eldsneyti því meira borgum við til ríkissjóðs. Þess vegna þurfum við að finna sanngjarnara kerfi sem virkar fyrir alla sem ferðast um vegina, sama hver orkugjafinn er. Þetta er tvímælalaust framtíðin sem ég hef gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Síðustu orð mín skulu vera til þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig um frumvarpið með kærum þökkum fyrir jákvæð viðbrögð. Ég vona að það fari til samgöngunefndar og verði unnið þar vel. Ég hygg að við getum myndað þverpólitíska samstöðu um þetta þjóðþrifa- og framfaramál.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.