138. löggjafarþing — 133. fundur
 8. júní 2010.
notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun, frh. síðari umræðu.
þáltill. GStein o.fl., 354. mál. — Þskj. 641, nál. 1193.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:18]

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 45 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AMG,  AtlG,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BirgJ,  BjarnB,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  JóhS,  JRG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MPét,  MT,  OH,  ÓBK,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RM,  SDG,  SER,  SII,  SKK,  SF,  SkH,  SJS,  TÞH,  UBK,  VBj,  VigH,  ÞSa,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ.
18 þm. (ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁsmD,  BÁ,  BJJ,  HHj,  HöskÞ,  JBjarn,  JónG,  KaJúl,  MÁ,  ÓÞ,  RR,  SIJ,  SSv,  ÞSveinb,  ÖS) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:13]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hér erum við að samþykkja stefnumótandi ákvörðun þingsins um að ráðast í mikla mannréttindabót fyrir fólk með fötlun á Íslandi. Hún snýst um það að fatlað fólk geti hagað lífi sínu á sjálfstæðan hátt til jafns við fólk sem er ekki fatlað. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi sem hafa verið innleidd með notendastýrðri persónulegri aðstoð í nágrannaríkjum okkar og við ætlum sem sagt að gera það hér. Ég fagna þeirri samstöðu sem náðist í félags- og tryggingamálanefnd um þetta mál og ég fagna þeirri samstöðu sem ég sé hér á atkvæðatöflunni.

Ég vil nota tækifærið og óska til hamingju þeim sem hafa barist fyrir þessum málum í grasrótarsamtökum fatlaðra á Íslandi og aðstandendum fatlaðra. Það voru þau sem opnuðu augu fjölmargra þingmanna fyrir þessu máli sem hefur leitt til þess að við höfum samþykkt þessa stefnumótandi þingsályktunartillögu núna.

Ég veit ekki hvort Gaui í MND-félaginu er á pöllunum en afgreiðsla þessa máls og samstaðan um það sýnir að þrátt fyrir ýmislegt karpið sem fer fram hér inni erum við (Forseti hringir.) þegar kemur að svona framfaramálum og mannréttindabótum öll (Forseti hringir.) á einhvern hátt Guðjón sá einn og sami bak við tjöldin.



[11:14]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að hverfa frá stofnanavæddri þjónustu sem hefur oft og tíðum verið sundurlaus. Það hefur verið kvartað dálítið mikið undan því. Hún er dýr og ekki alveg í samræmi við þarfir þeirra sem njóta. Það er verið að hverfa frá þeirri þjónustu yfir í að notandinn sjálfur skipuleggi og ákveði sína þjónustu. Ég tel það mikið til bóta, þjónustan verði betri og það er jafnvel talið að þetta sé ódýrara en sú þjónusta sem veitt er í dag í gegnum dýrar stofnanir. Ég segi já.



[11:15]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í dag tökum við stórt og mjög mikilvægt skref til þess að tryggja fólki sem þarf á aðstoð að halda vegna fötlunar sinnar ný tækifæri til að ráða sjálft hvernig þjónustu það vill og með hvaða hætti hún verður veitt. Það er mjög mikilvægt að sjá samstöðuna sem birtist hér í dag og það er mikilvægt að við ræðum þessi mál þrátt fyrir efnahagsástand þjóðarinnar og þrátt fyrir að við stöndum í daglegu karpi um marga hluti. Ég vek athygli þingheims á því hversu mikilvægt skref við tökum hér í dag. Ég hlakka til að sjá tillöguna sem félags- og tryggingamálaráðuneytið mun leggja fram á komandi haustþingi og fylgja eftir þeim nauðsynlegu lagabreytingum sem þurfa að koma í kjölfarið. Til hamingju með daginn.



[11:16]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að afgreiða þetta mál. Í umræðum í gær tók ég fyrir aðdraganda málsins og nefndi þá aðila sem eru ekki hv. þingmenn en settu þessi mál af stað. Hér hafa verið nefnd nöfn eins og Guðjón Sigurðsson í MND, Evald Krog, Sigursteinn Másson, Svanur Kristjánsson og ýmsir aðrir sem hafa unnið góða undirbúningsvinnu til þess að kynna þetta fyrir þingmönnum, borgarfulltrúum og öðrum. Við erum komin á þennan stað. Þetta er ekkert ósvipuð aðgerð og Svíar gerðu í sinni bankakreppu, að fara í þessa vegferð sem ekki aðeins skilar sér í betri virkni einstaklinga í þjóðfélaginu heldur kemur sömuleiðis vel út fjárhagslega fyrir hið opinbera.

Þetta, virðulegi forseti, er bara fyrsta skrefið. Núna kemur að því að framkvæma þetta og ég vona að það verði jafngóð samstaða um það og þessa atkvæðagreiðslu hér í dag.



[11:17]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis eins og aðrir þingmenn fagna afgreiðslu þessa máls. Það er tvímælalaust framfaraskref fólgið í þessari stefnumótun. Það bíður hins vegar mikil vinna við að útfæra þetta á vegum ríkis og eftir atvikum kannski meira sveitarfélaganna verði af færslu málefna fatlaðra þangað yfir. Ég er sannfærður um að þetta er rétt stefna óháð aðstæðum þótt þær séu vissulega erfiðar. Hvort tveggja á að vera hægt, að gera þessa þjónustu persónulegri og betri og ekki síður að ná árangri við að veita hana á hagkvæman hátt þótt það sé gert á þessum forsendum. Þetta er mannréttindamál, þetta er sjálfstæðismál og jafnréttismál sem varðar okkur öll og það er ánægjulegt að inni á milli, eins og hér var sagt, karpsins sem hér fer fram um mismerkilega hluti gerast þeir atburðir að við sameinumst öll um hluti af þessu tagi.

Úr því að menn nefndu hér nöfn, þótt það orki alltaf tvímælis að gera slíkt þegar baráttumenn fyrir góðum málum eiga í hlut, leyfi ég mér að bæta í þann hóp nafni sem ég heyrði ekki áðan og það er Guðmundur Magnússon, núverandi formaður Öryrkjabandalags (Forseti hringir.) Íslands.