138. löggjafarþing — 137. fundur
 11. júní 2010.
umræður utan dagskrár.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:03]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mjög alvarleg sótt steðjar nú að íslenska hrossastofninum. Hún hefur einkenni veirusýkingar en er smitsjúkdómur sem má segja að hafi heltekið hesta um allt land. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta séu mestu vandræði í hrossarækt á Íslandi frá upphafi. Þetta er ekki alvarlegur sjúkdómur í þeim skilningi að hann hafi dregið hesta til dauða, en hann er alvarlegur fyrir margra annarra hluta sakir. Einkennin eru væg í fyrstu. Það er talið að pestin sé 12 vikna ferli, fyrstu fjórar vikurnar eru einkennalausar eða -litlar en það versnar þegar á líður.

Afleiðingarnar af þessari hestapest eru mjög alvarlegar og má reyndar segja að þær séu gríðarlegar um allt land. Því var vel lýst af forsvarsmönnum íslenskra hestamanna sem heimsóttu okkur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að minni ósk fyrir fáeinum dögum. Eins og einn lýsti því gengur allt eins fyrir sig og áður, útgjöldin eru hin sömu en fólk hefur bara engar tekjur. Það er kjarni málsins og lýsir alvöru þess. Á undanförnum árum hefur okkur tekist mjög vel til við uppbyggingu hestamennskunnar í landinu. Hestarnir hafa tekið miklum framförum, fjöldi fólks stundar núna nám á þessum sviðum ár hvert með það fyrir augum að hasla sér völl í hestatengdri starfsemi og það leikur enginn vafi á því að núna erum við með glæsilegasta hestastofn sem við höfum nokkurn tímann getað státað af hér á landi.

Staðan er núna sú að menn geta illa hreyft hestana vegna þessarar pestar. Atvinnustarfsemin sem er gríðarlega umfangsmikil og skiptir miklu máli úti um allt land, bæði í dreifbýli og þéttbýli, er mjög löskuð af þessum sökum. Gáum að því að heildarfjöldi hrossa hér á landi er talinn vera um 80.000. Heildarverðgildi hrossanna er að mati þeirrar nefndar sem ég skipaði á sínum tíma um möguleika í hrossarækt talið vera um 8 milljarðar kr. og heildartekjur sem hrossastofninn gefur eru taldar vera um 3 milljarðar kr. Við sjáum með öðrum orðum að hér er gríðarlega mikið í húfi. Utan Íslands eru um 150.000 íslenskir hestar og félagsmenn í hestamannafélögum tæplega 50.000.

Afleiðingarnar birtast okkur þessa dagana í því að búið er að taka ákvörðun um að Landsmót hestamanna sem átti að halda um næstu mánaðamót á Vindheimamelum í Skagafirði verður fellt niður. Þangað hefði mátt ætla að hefðu komið 10.000–15.000 manns, þar af 3.000–5.000 útlendingar. Fyrir þessara hluta sakir ríkir núna mjög mikil fjárhagsleg óvissa um Landsmót hestamanna, það fyrirtæki sem hefur staðið fyrir landsmótinu undanfarin ár. Sú spurning sem þarf að svara alveg á næstunni er hvort menn hafi fjárhagslega burði til áframhalds og til að undirbúa mót að ári.

Útflutningurinn liggur niðri. Þetta er alvöruútflutningsgrein sem hefur gefið okkur milljarð í gjaldeyristekjur og ríflega það að mati margra. Hestatengd ferðamennska hefur haslað sér völl í vaxandi mæli. Menn áætla að 80.000–100.000 erlendir ferðamenn fari á hestbak. Þetta hefur líka áhrif á fjölþætt námskeiðahald, m.a. fyrir ungt fólk sem verið er kynna fyrstu skrefin í hestamennskunni. Járningar eru atvinnustarfsemi sem skiptir máli. Atvinna knapa er líka í uppnámi fyrir þessar sakir sem og lengri og styttri hestaferðir og áfram mætti telja. Auðvitað hefur þetta gríðarleg áhrif á þá sem hafa atvinnu sína að öðru leyti af hestamennsku af margs konar toga, ekki síst í sveitum landsins. Nú bíða menn þess í ofvæni hvort fædd og ófædd folöld kunni að bíða skaða af pestinni. Síðast en ekki síst spyrja menn um smitleiðir úr því að þetta er smitsjúkdómur.

Ég vil þess vegna árétta að við erum að tala um alvarlega hluti sem við þurfum að hyggja að. Í fyrsta lagi þarf að komast til botns í þessum sjúkdómi. Frekari rannsóknir þurfa að fara fram. Það hefur verið hvatt til þess að leggja sérstaka fjármuni til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til að rannsaka megi til hlítar þann smitandi hósta sem herjar núna á íslenska hrossastofninn.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að leggja fjármuni til þessa verkefnis sem talið er að kosti um 10 millj. kr. Í öðru lagi spyr ég hvort ætlunin sé að styðja með einhverjum hætti við Landsmót hestamanna ehf. sem hefur orðið fyrir þessu gríðarlega og óafturkræfa fjárhagslega tjóni til að tryggja að halda megi landsmót hestamanna að ári. Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að stuðla að kynningarstarfsemi til þess að draga úr líkum á því að slíkur sjúkdómur nái að stinga sér niður á nýjan leik. Menn þurfa að vera miklu varkárari í ýmsum efnum sem menn hafa kannski ekki áttað sig á. Og kynningarstarfsemi sem þarf þess vegna að eiga sér stað mun kosta peninga.

Spurningin er þessi: Verður með einhverjum hætti reynt að styðja við þetta? Hér eru almennir hagsmunir í húfi

Loks hljótum við að spyrja hvort einhverjum af þeim miklu peningum sem ætlaðir eru núna til landkynningar, 300 millj. kr. af fé ríkisins, verði varið sérstaklega til landkynningar í tengslum við íslenska hestinn og landsmótið sem ætlunin er að halda að ári í Skagafirði. (Forseti hringir.)

Ég vil árétta að það er búið að leggja mikla peninga í slíka kynningu af hálfu hestamanna. (Forseti hringir.) Þeir peningar eru nú að glatast á vissan hátt vegna þess að landsmótinu var frestað og spurningin er hvort hægt sé að nýta að hluta til þá fjármuni sem ríkið hefur þegar lagt til landkynningar (Forseti hringir.) sérstaklega í þessu skyni.



[15:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka upp þetta alvarlega mál sem er smitandi hósti í hrossum og hefur haft gríðarleg áhrif á heila stóra atvinnugrein sem er hestamennskan og það sem henni tengist. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hefur undanfarna mánuði ríkt mjög alvarlegt ástand í hrossarækt og hestamennsku hér á landi þar sem þessi nýi smitsjúkdómur, smitandi hósti, hefur komið upp í hrossastofninum og veikin hefur lamað alla hestatengda starfsemi í á þriðja mánuð og valdið gríðarlegu tjóni í hrossaræktinni, hestamennskunni og tengdum greinum og raunar í samfélaginu öllu sem tengist svo margþætt þessari atvinnugrein.

Svo virðist sem nánast öll hross hafi smitast af þessum sjúkdómi. Rannsóknir á orsökum og uppruna sjúkdómsins hafa enn ekki leitt fram viðhlítandi svör þó að mikilvægar upplýsingar hafi komið fram og sjúkdómsmyndin sé að skýrast. Nauðsynlegt er að halda þeim rannsóknum áfram samkvæmt sérstakri rannsóknaráætlun. Einnig er mikilvægt að auka skipulegar sóttvarnir í því skyni að lágmarka tjón af völdum sjúkdómsins verði hann landlægur hér. Þá er nauðsynlegt að yfirfara alla þætti í smitsjúkdómavörnum landsins til að fyrirbyggja eins og nokkur kostur er að enn alvarlegri eða kostnaðarsamari smitsjúkdómar berist til landsins.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hafa afleiðingar sjúkdómsins þegar verið grafalvarlegar og aflýst hefur verið Landsmóti hestamanna sem halda átti á Vindheimamelum um næstu mánaðamót. Nánast öll hestamennska og hestatengd starfsemi liggur niðri. Landsmótið verður haldið að ári en tekjutjón sem af þessu hlýst er eigi að síður gríðarlegt. Engin dul er dregin á að ástandið í hrossabúskap og hestamennsku landsmanna um þessar mundir er grafalvarlegt.

Hv. þingmaður spurði mig nokkurra spurninga í upphafi umræðunnar. Sú fyrsta var hvernig ég hygðist bregðast við þeim vanda sem upp er kominn vegna þessarar veiki. Því er til að svara að ráðuneytið og Matvælastofnun vinna með ráðum og dáð í samvinnu við búgreinina og hestamannahreyfinguna að hvers konar aðgerðum til að bæta heilbrigðisástand hrossanna og hamla gegn áfallinu fyrir greinina.

Þingmaðurinn spurði hvort lagðir yrðu sérstakir fjármunir til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til að rannsaka megi til hlítar orsakir sjúkdómsins. Að beiðni minni unnu þessir aðilar ítarlega greinargerð og rannsóknaráætlun um hvað þyrfti að gera í þessum efnum og gerðu tillögur um það. Þær voru lagðar fyrir ríkisstjórn á þriðjudaginn sem og áætlunin sem gerir ráð fyrir, eins og hv. þingmaður minntist á, einhvers staðar á bilinu 15–20 millj. kr. fyrir þessar tvær stofnanir til að takast á við þá bráðaaðgerð sem þar er tilgreind.

Markmiðið með þessari sérstöku rannsóknaráætlun sem ráðast þarf í er að greina orsök sjúkdómsins og uppruna hans, kortleggja smitdreifingu og varpa ljósi á eðli sjúkdómsins og þá þætti sem hafa áhrif á alvarleika hans. Markmiðið með sérstakri sóttvarnaáætlun er að efla varnir gegn því að smitsjúkdómar berist til landsins, gefa út sértækar leiðbeiningar um smitvarnir vegna smitandi hósta í hrossum og framkvæma úttekt á smitvörnum almennt í hrossahaldi þar sem ný tækni við þjálfun hrossa hefur rutt sér til rúms. Endurskoða þarf viðbragðsáætlanir og skerpa á tilkynningarskyldu dýralækna og hrossaeigenda og hraða vinnu við gerð þeirra.

Hv. þingmaður spurði mig hvort við hygðumst stuðla að kynningarstarfsemi. Ég veit að þessir aðilar hafa þegar átt fund í iðnaðarráðuneytinu sem fer með þetta sérstaka kynningarátak fyrir Ísland í tengslum við ýmsar hamfarir sem dunið hafa yfir.

Þá eru einnig spurningar um stöðu og tap hjá þeim sem stóðu að því að halda Landsmót hestamanna. Ég veit að það hefur verið rætt um að Byggðastofnun, Framleiðnisjóður eða slíkir aðilar (Forseti hringir.) gætu komið þar að, en þessi mál eru öll á frumstigi, frú forseti. Verið er að safna (Forseti hringir.) gögnum um það en okkur er alveg fyllilega ljóst að hér er alvarlegt mál á ferðinni.



[15:14]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli og eins þakka ég fyrir svör ráðherra sem voru ágætlega skýr og svöruðu flestu af því sem mér heyrðist hv. þm. Einar K. spyrja um. Mig langar aðeins að fara yfir nokkra hluti sem tengjast þessu og rifja upp að fyrir 12 árum kom hér upp hitasótt í hrossum, meltingarfærasjúkdómur sem olli verulegu tjóni, talsverðum dauða, en kannski minna fjárhagslegu tjóni en við horfum upp á núna. Það reyndist mjög erfitt að staðfesta um hvaða vírus var að ræða og í kjölfarið var sett á sölubann og útflutningsbann eða -höft sem urðu greininni mjög erfið. Ég árétta að ég held að stjórnvöld og yfirvöld þessara mála hafi tekið réttar ákvarðanir í aðdraganda þessa máls, en það er augljóst að það vantar bæði meira fjármagn og meiri vinnu til að rannsaka hvað hér er í gangi. Ekki einasta er um vírussýkingu að ræða, heldur hefur komið í kjölfarið alvarleg bakteríusýking sem veldur fyrst og fremst hestunum veikindum og tjóni.

Við þurfum hins vegar að velta fyrir okkur hvað við ætlum að gera hér í framtíðinni. Ég er ekki endilega talsmaður frekari boða og banna eins og við erum komin með nóg af, en við þurfum að rifja upp hluti eins og tveggja daga reglu um það þegar menn fara milli landa, milli húsdýra. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við eigum að taka upp harðari reglur eins og menn gera á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu hjá þeim aðilum sem ferðast á milli, með dýrahald í huga.

Ég er ekki að leggja til að við tökum upp bólusetningar en á meðan við erum að skerpa viðbragðsáætlanirnar ættum við að láta gera úttekt á því hvað það mundi kosta. Við þurfum að horfast í augu við það að í (Forseti hringir.) framtíðinni eigum við hugsanlega yfir höfðum okkur alvarlegri sjúkdóma en þessa tvo vírusa sem hér hafa komið ef við breytum ekki einhverju í atferli okkar. Ég held að áður en við gætum tekið slíkar ákvarðanir þyrfti að (Forseti hringir.) gera úttekt á slíkum kostnaði.



[15:17]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa þingmenn fullu nafni.



[15:17]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Íslenski hrossastofninn og atvinna honum tengd er ein af auðlindum okkar og sú auðlind okkar er nú bundin í fjötra vondrar lítt þekktrar pestar. Þessi vaxandi atvinnugrein er eins og í þyrnirósarsvefni, tamningar, útreiðar, járningar, reiðkennsla og sala á hestum liggja nánast niðri og takmarkaðar tekjur koma því inn í greinina á tíma sem átti að vera sérstakur blómatími vegna fyrirhugaðs Landsmóts hestamanna í Skagafirði í sumar þar sem íþróttamenn á öllum aldri og ræktunarmenn kynbótagripa ætluðu að sýna hestaáhugamönnum, íslenskum og erlendum, afurðir þrotlausrar vinnu sinnar undanfarin ár. Von var á þúsundum erlendra ferðamanna á landsmót með tilheyrandi tekjuöflun fyrir ferðaþjónustu og hestafólk. Ljóst er að við frestun landsmótsins er tjón þessara aðila verulegt og eðlilegt að stjórnvöld komi að þessum náttúruhamförum hestamennskunnar á Íslandi með einhverjum hætti.

Ég talaði við nokkra hrossabændur í gær og fannst þeir bera sig kappalega í raunum sínum, enda eru þeir ekki vanir öðru en að þurfa að treysta á sjálfa sig, því að opinber framlög til þessarar greinar eru í algjöru lágmarki. Það sem mér fannst ég lesa úr orðum þeirra er ósk um þríþætt liðsinni. Í fyrsta lagi þarf að rannsaka pestina betur og finna á grundvelli þeirra rannsókna hvernig best verður brugðist við henni, frekari útbreiðslu hennar og endurtekningu. Síðan þarf að styðja við landsmótið sjálft sem stendur nú uppi með fjárfestingar sem ekki munu skila neinum arði fyrr en að ári liðnu. Hugsanlega má nota þar einhverja blandaða leið láns og styrks. Síðast en ekki síst þarf að fara í öflugt markaðsátak til að efla á ný markaði fyrir íslenska hestinn og hestatengda þjónustu erlendis þegar við höfum náð valdi á pestinni.

Mér finnst þessar hugmyndir hrossabænda hógværar og skynsamlegar og styð þær eindregið og vona að ríkisstjórnin geri það líka. Með því skerum við hratt og örugglega á fjötra greinarinnar.



[15:19]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hann er aðdáunarverður sá mikli árangur sem náðst hefur í hrossarækt hérlendis á undanförnum árum og áratugum og af þessu hefur skapast gríðarlega mikil atvinna og verðmæti. Þessi hrossapest er því alvarlegt áfall, ekki aðeins fyrir greinina heldur fyrir atvinnulífið í landinu. Þetta er eins og ef hver önnur nokkuð öflug atvinnugrein mundi lamast tímabundið. Í sjálfu sér er enn þá ófyrirséð hverjar afleiðingarnar verða af þeirri alvarlegu pest sem hér stingur niður fæti. Full ástæða er til þess að ekkert verði til sparað til að komast til botns í því hvernig þetta smit hefur borist til landsins. Við þurfum að leggja mikla áherslu á það og kosta til þess því sem til þarf að efla þær rannsóknir og hraða þeim sem mest. Það er grundvallaratriði til að geta brugðist við vágesti sem þessum í framtíðinni og til að reyna að fyrirbyggja það að svona nokkuð endurtaki sig.

Líta verður á þær alvarlegu afleiðingar sem þetta hefur fyrir greinina og skoða hvaða möguleikar eru til að hjálpa greininni til að standast þetta áfall. Sérstaklega verður að horfa þar til landsmótsins og þess mikilvæga starfs sem þar er í húfi og reyna að greiða því leið að það megi halda um leið og él birtir.

Virðulegi forseti. Þetta minnir okkur einnig á hversu viðkvæmir íslenskir dýrastofnar eru vegna þeirrar einangrunar sem landið hefur búið þeim í gegnum aldirnar og þetta brýnir okkur enn í því að við þurfum að efla sjúkdómavarnir í landinu. Við þurfum að ganga raunhæft til verka á þeim vettvangi. En það er alveg ljóst að þetta á að vera okkur þörf áminning um það, og ekki bara gagnvart hrossarækt, heldur búfjárrækt almennt, hversu viðkvæmir (Forseti hringir.) dýrastofnar okkar eru gagnvart sjúkdómum sem hugsanlega berast erlendis frá.



[15:22]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fékk hagsmunaaðila nýlega á sinn fund eins og hér hefur komið fram. Það er ljóst að málið er grafalvarlegt og áfallinn og áfallandi kostnaður er mjög umtalsverður á öllum sviðum hrossamennsku. Ég nefni bara eitt, að það er talið að 20% ferðamanna sem koma til landsins tengist hestamennsku með einum eða öðrum hætti. Frummælandi hefur gert afar góða grein fyrir þessum hliðum málsins og aðrir og ég vil leggja áherslu á nokkra hluti sem komu fram á fundinum.

Fram hafa komið einkenni veirusýkingar og það hefur verið prófað fyrir þeim, en prófanirnar reynast neikvæðar. Þetta virðist því vera áður óþekkt veira. Þetta er loftborið smit sem hefur valdið hraðri og mikilli útbreiðslu sem veldur verulegum áhyggjum. Þetta passar raunar betur við bakteríusýkingu en menn eiga erfitt með að trúa því vegna þess að smitið virðist berast með vindinum.

Hér hefur komið fram að þetta eru mestu vandræði í hestamennsku og hrossarækt frá upphafi vega og gríðarlegt áfall fyrir þessa afar svo blómlegu og vaxandi atvinnugrein.

Ég tek undir það að hagsmunaaðilar leggja meginþunga á að fé verði lagt í rannsóknir og menn komist fyrir rætur sjúkdómsins, finni út hvað er í gangi og bregðist við því. Ekki síður hafa þeir lagt þunga áherslu á að gerð verði sóttvarnaáætlun í nánu samstarfi við hagsmunaaðila, en sóttvörnum virðist vera mjög ábótavant í dag. Menn ganga að því er virðist hirðuleysislega um, sérstaklega í tengslum við ferðir erlendis, jafnvel með reiðtygi og búnað sem þeim fylgja.

Ég tek sérstaklega undir ályktun hagsmunaaðila frá 31. maí 2010 og beini því til ríkisstjórnarinnar að ljúka málinu hið fyrsta, klára framlagið til greinarinnar, og til sjávarútvegsráðherra að setja af stað vinnu við sóttvarnaáætlun.



[15:24]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er að vissu leyti sorglegt um að litast í hesthúsahverfum höfuðborgarsvæðisins, varla sála á ferli og eins og um einhvers konar draugaborgir sé að ræða. Íþrótta- og tómstundastarf þúsunda manna liggur niðri, svo ég tali ekki um þá fjölmörgu sem hafa atvinnu af starfi í kringum hesta. Einhvern veginn er það svo að maður hugsar til þess að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Námskeið, mótahald, sleppitúrar, ferðalög og landsmót, allt er fyrir bí að þessu sinni. En við núverandi áföll hefur okkur öllum orðið svo greinilega ljóst hversu umfangsmikil starfsemi tengist hestamennskunni og hversu langt hestamennskan teygir anga sína. Þessi staða mála hlýtur að velta upp fjölmörgum spurningum, eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum við þessa umræðu, svo sem hversu vel við erum við í stakk búin til að bregðast við hestapestum yfirleitt.

Ég held að sú staða sem upp er komin hafi einnig sýnt okkur um leið hversu miklu máli íslenski hesturinn skiptir fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar, en það er mat mitt að við höfum hvergi nærri fullnýtt alla þá möguleika sem íslenski hesturinn getur gefið okkur til verðmætasköpunar.

Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum við umræðuna að mikilvægt er að efla rannsóknir á því hvað gerðist, hvers vegna og hvernig við getum komið í veg fyrir að þetta gerist áfram og aftur. Einnig verður að skoða möguleika á markaðsátaki því að margfeldisáhrif slíkrar fjárfestingar eru mikil — við sjáum það mjög vel á því markaðsátaki sem nú stendur yfir fyrir ferðamennskuna heilt yfir — og um leið að koma með einhverjum hætti til móts við þá aðila sem hugðust halda landsmót í Skagafirði um næstu mánaðamót, svo viðkomandi geti brúað bilið til næsta landsmóts a.m.k.



[15:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum hér er alvarlegt mál, grafalvarlegt mál, því að við erum að tala um áhrif þessarar pestar sem teygja sig í raun út um allt land og um allt samfélagið, á ýmsa þætti, bæði hvað varðar atvinnuvegi og einnig og ekki síst tómstundir og annað. Ég veit ekki hvort menn gera sér alveg grein fyrir hversu mörg störf eru í hestamennsku ef við horfum bara á störfin. Gerð hefur verið úttekt á því að bara í Skagafirði þar sem búa 4.300 manns er talið að á milli 80 og 100 störf eða ársverk séu tengd hestamennsku. Ef þetta er fært, hv. þingmenn og virðulegi forseti, yfir á landið, getum við hugsað okkur hversu gríðarlega margir hafa í raun atvinnu af hestamennsku eða málefnum tengdum henni.

Ferðaþjónustan er þáttur sem við öll þekkjum og er gríðarlega vinsæl. Hestamennskan sem slík veltir hundruðum milljóna eða milljörðum í íslensku samfélagi. Það er mjög mikilvægt að við höfum það í huga þegar við ræðum þessi stóru mál.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að stjórnvöld finni leiðir til að koma að þessu, bæði til að reyna að ráða bug á því að þetta endurtaki sig eða koma í veg fyrir aðrar pestir berist hingað. Við verðum að standa vörð um búfjárstofnana á Íslandi með öllum þeim ráðum sem við mögulega getum. Síðast en ekki síst verða stjórnvöld að leita leiða til að gera þeim sem halda uppi landsmótum og öðru sem er gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnugreinina sem slíka, fyrir sölu, fyrir ræktun, mögulegt að halda áfram hinum glæsilegu landsmótum og öðru sem tengist atvinnugreininni og einnig tómstundum. Jafnvel þó að sum okkar sem hér stöndum séum ekki í hestamennsku eða förum sjaldan á hestbak, höfum við gríðarlega gaman af því að horfa á þessar fögru skepnur og þekkjum marga sem hafa tekjur af því að rækta, (Forseti hringir.) selja, þjálfa, vinna með fötluðum, vinna með unglingum og börnum í þessari grein. Þetta er mikilvægt mál.



[15:28]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa jákvæðu og áhugaverðu umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná.

Ég sakna þess hins vegar að í svörum hans kom ekki fram að teknar hafi verið ákvarðanir um þau mál sem ég nefndi sérstaklega. Á ég þá ekki síst við og alveg sérstaklega spurninguna um það hvort lagðir verði fjármunir til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum til að rannsaka þennan sjúkdóm. Tíminn skiptir nefnilega miklu máli í þessu sambandi. Það fer ekkert á milli mála að í þessum efnum verðum við að herða okkur. Við verðum einfaldlega að standa þannig að málum að við vinnum með skynsamlegum og skipulegum hætti að þessum rannsóknum.

Ég er ekki talsmaður þess að hið opinbera leggi fjármuni almennt inn í atvinnustarfsemi, en þetta er ekki spurning um það. Við erum að fást við hamfarir, hamfarir sem eru mjög alvarlegar fyrir atvinnugrein sem er gífurlega fjölbreytt, eins og hefur glögglega komið fram í umræðunni, atvinnugrein sem teygir anga sína um land allt og hefur m.a. þá sérstöðu að vera bæði þýðingarmikil í dreifbýli og þéttbýli. Þess vegna er gríðarlega mikið í húfi.

Til viðbótar við þetta vil ég árétta það sem ég sagði áður. Það er að í öðru lagi þurfum við að efla almenna kynningarstarfsemi, þá á ég ekki við landkynningarstarfsemi í því sambandi, ég á við hina almennu kynningarstarfsemi sem lýtur m.a. að umgengni við hesta til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma eins og þessa. Í þriðja lagi vil ég síðan nefna landkynningarmálið. Það vill þannig til að íslenska ríkið leggur núna af mörkum 300 millj. kr. og þess vegna horfa menn auðvitað til þessara fjármuna og spyrja: Er ekki hægt að nota hluta af þessum peningum þannig að hestamennskan fái sinn skerf til að efla á ný landkynningu í tengslum við hestamennskuna? Nú er búið að leggja mikla peninga til landkynningarstarfsemi bókstaflega í tengslum við landsmótið sem átti að halda um næstu mánaðamót. Þeir peningar munu auðvitað nýtast að einhverju leyti en hins vegar er ljóst að hluti af þeim (Forseti hringir.) peningum er glataður vegna þess að landsmótið verður ekki haldið. Þess vegna hljótum við (Forseti hringir.) að horfa til þess að ríkið leggi hluta af þeim peningum sem búið er að taka frá til landkynningarstarfsemi sérstaklega til þessara verkefna.



[15:30]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu, þau innlegg, þær ábendingar og hvatningu sem hv. þingmenn hafa komið með um það alvarlega mál sem þessi hrossapest er. Ég tek undir þær áherslur sem komu fram, m.a. hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, um að menn eigi að huga að því hvernig betur megi tryggja upplýsingar fyrir þá sem eru að ferðast um á milli landa eða koma inn í landið og sporna þannig gegn því að smit komist inn í landið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að allir sem koma inn í landið séu meðvitaðir um þessa hættu, ekki bara varðandi hrossapestina heldur fleira. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að farið verði ofan í alla ferla varðandi þetta eftirlit og ábendingar og upplýsingagjöf í þeim efnum og hvort þar sé hægt að gera betur.

Af hálfu stjórnvalda, eins og ég gat um áðan, hefur verið tekið á málinu og það sett í farveg. Skipaður var vinnuhópur ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta, landbúnaðar- og sjávarútvegs-, menntamála- og iðnaðarráðuneyta. Hann hefur síðan unnið að áætlun um hvað þurfi að gera, bæði hvað varðar rannsóknir og viðbrögð og sóttvarnir. Ég tek alveg undir með m.a. hv. þm. Atla Gíslasyni um sóttvarnaáætlun sem þarf að vera til staðar. Ég legg þó áherslu á að ég tel að allir aðilar sem hér eiga hlut að máli hafi samt brugðist vel og rétt við. Það var ekki ljóst hversu mikið umfang þessarar veiki var, en ég tel að bæði hestamenn og hrossaeigendur, dýralæknisembættið og eftirlitsaðilar hafi samt brugðist vel við. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að horfa á þetta sem viðfangsefni til að takast á við. Við skulum líka gæta þess að hafa ekki um þetta of stór orð þannig (Forseti hringir.) að þetta skaði ekki ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar sem við getum vonandi haldið úti í sumar (Forseti hringir.) þrátt fyrir þessa veiki og þrátt fyrir þann skaða sem hefur orðið. (Forseti hringir.) Öll þau mál eru í skoðun.