138. löggjafarþing — 138. fundur
 12. júní 2010.
þjóðaratkvæðagreiðslur, 2. umræða.
stjfrv., 112. mál (heildarlög). — Þskj. 118, nál. 1292, brtt. 1293.

[17:43]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn lög um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, bæði þegar Alþingi ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og eins þegar skylt er samkvæmt stjórnarskrá að bera tiltekin mál undir þjóðaratkvæði.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum til Alþingis, sveitarstjórna og forsetakjörs. Jafnframt er tekið fram að við gerð kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslu skuli miðað við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Á einum stað í frumvarpinu eru ákvæði um talningu atkvæða og margvísleg atriði er lúta að framkvæmdaratriðum þjóðaratkvæðagreiðslu. Án þess að ég telji upp í ítarlegu máli öll þau atriði sem frumvarpið tekur til er í stuttu máli hægt að segja frá því að með þessu er búið svo um hnútana að þegar Alþingi ákveður að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu verði það framkvæmt með sambærilegum hætti og gert var þegar kosið var um Icesave-frumvarpið eftir synjun forseta Íslands. Sú framkvæmd tókst afar vel og ekki mikil þörf á lagfæringum eftir hana þannig að hér er í raun og veru verið að binda þá framkvæmd í lög.

Undir þetta nefndarálit skrifar meiri hluti allsherjarnefndar, auk undirritaðs hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Birgir Ármannsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir og Ögmundur Jónasson.

Þessi meiri hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.



[17:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í nokkrum tilfellum er getið um það í stjórnarskránni að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla, í 26. gr. og síðan greininni um þjóðkirkjuna, ef ég man rétt. Að öðru leyti er engin heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskránni. Ég vil spyrja hv. þm. Róbert Marshall, formann allsherjarnefndar, hvort ekki þurfi að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar áður en ráðist verður í að hafa alvöruþjóðaratkvæðagreiðslur um annað en þessi tvö atriði sem ég gat um.

Þegar menn fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin á að greiða atkvæði um eitthvað telur þjóðin að öllum líkindum að hún taki ákvörðun um málið en samkvæmt stjórnarskránni eru það þingmenn sem taka ákvörðun um lög frá Alþingi og engir aðrir. Þeir fara eingöngu eftir sannfæringu sinni og ekki eftir boðum frá kjósendum sínum. Eftir að þjóðin er búin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál kemur þingið og gerir eitthvað allt annað. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann minntist hvorki á það í nefndarálitinu né ræðunni, hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að hér fari fram alvöruþjóðaratkvæðagreiðsla, sem ég er afskaplega hlynntur?



[17:47]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get tekið undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að full ástæða sé til að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það er hlutverk stjórnlaganefndar, þjóðfundar og stjórnlagaþings sem verður vonandi að veruleika á hausti komanda. Ég get lýst þeirri skoðun minni í ræðustól að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni en ég tel jafnframt að það sé of erfitt eins og málum er nú háttað. Ég tel að t.d. kæmi til greina að hægt væri að breyta stjórnarskránni með einfaldri ákvörðun Alþingis sem síðan væri borin undir atkvæði þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin gæti þá staðfest stjórnarskrárbreytinguna. Ég held að það væri nægur varnagli þannig að stjórnarskránni væri ekki breytt eftir hentistefnu með skömmum fyrirvara af meiri hluta þings. Hann yrði alltaf að hafa meiri hluta þjóðarinnar með sér.



[17:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi stjórnlagaþing þá er það undir sömu sökina selt. Það getur ekkert ákveðið. Það hefur bara tillögurétt, (RM: Ráðgefandi.) það er ráðgefandi, þannig að á endanum tekur Alþingi ákvörðun og hver þingmaður samkvæmt sinni sannfæringu. Þetta finnst mér mikill ljóður. Ég held að allur þingheimur ætti nú þegar að hafa tilbúið frumvarp sem breytir 79. gr. í þá veru að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingu á stjórnarskránni, ef svo skyldi fara að það yrði þingrof og kosningar, sem maður veit aldrei hvort gerist. Þá þarf það að vera tilbúið. Það gerðist fyrir ári síðan og þá misstu menn af gullnu tækifæri. Ég minnti aftur og aftur á að menn ættu að hafa svona breytingu tilbúna.

Auðvitað þurfa breytingar á stjórnarskránni að vera mjög seigfljótandi. Ég hef lagt til að við breytingar á stjórnarskrá skuli um 60% allra kosningarbærra manna greiða því atkvæði, ella taki það ekki gildi. Jafnvel meira, 65%, ég er alveg tilbúinn að ræða það, þannig að alltaf verði góð sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Ég legg til að hv. þingmaður hafi slíkt frumvarp tilbúið, ef það skyldi allt í einu gerast að ríkisstjórnin færi frá. Um það eru vaxandi merki og hafa verið lengi en ekkert gerist þar frekar en annars staðar. Frumvarpið þyrfti að vera tilbúið þannig að ef við færum í kosningar gætum við skellt því inn á þing, samþykkt það og þá tæki það gildi eftir að næsta þing hefði samþykkt það aftur.



[17:50]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru fínar ábendingar hjá hv. þingmanni. Við erum hins vegar í þeim veruleika að það var ekki ráðist í þær breytingar sem hv. þingmaður talaði um á síðasta þingi og það hefur enga þýðingu í sjálfu sér, finnst mér, að rifja upp hvers vegna það var eða af hverju svo fór sem fór. Við erum í þeirri stöðu núna að við getum ekki sett stjórnlagaþing eða sett af stað stjórnlagavinnu utan Alþingis sem felur í sér bindandi niðurstöðu. Við erum í þeirri stöðu að tillögur sem koma frá stjórnlagaþingi verða að hljóta staðfestingu hjá Alþingi, svo verður þingrof og nýtt Alþingi þarf að staðfesta þær. Það er sá veruleiki sem við stefnum einfaldlega í.

Það er samhljómur á milli margra í þinginu um nauðsyn þess að þessi löggjafarsamkoma og fulltrúaþingmannasamkoma hér komi að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á stjórnarskránni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda mín og hlutverk sem þjóðkjörins alþingismanns að koma að þeim breytingum. Enn fremur hef ég áhuga á því að koma að þeirri vinnu sem þjóðfélagsþegn og einstaklingur sem hefur fylgst með þjóðmálum um langa tíð. Í mínum huga er í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Með þeirri framkvæmd sem við festum senn í lög um breytingar á stjórnarskránni er tryggt að aðkoma þjóðarinnar sé með margvíslegum hætti, að fulltrúar hennar fjalli um málið á a.m.k. þremur ólíkum stöðum. Ég held að það sé vönduð og efnismikil meðferð, enda þarf að mínu mati að ráðast í umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni í þetta sinn.



[17:52]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Allgóð samstaða hefur verið um málið og hv. allsherjarnefnd skilaði sameiginlegu áliti bæði um breytingar og eins um stuðning við málið í heild.

Frumvarpið felur í sér ákvæði sem eiga að tryggja að þegar efnt er til þjóðaratkvæðagreiðslu, annaðhvort á grundvelli þeirra heimilda — reyndar fáu — sem nú þegar eru fyrir hendi í stjórnarskránni eða í þeim tilvikum þegar Alþingi ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sem eðli málsins samkvæmt yrði ráðgefandi, sé fyrir hendi lagarammi um hvernig með framkvæmdina skuli farið. Frumvarpið er þannig að stofni til tæknilegt. Það felur í sér umgjörð, kosningareglur í þessum tilvikum, og er gott og vel unnið einmitt í því ljósi. Þetta hygg ég að sé talsvert mikilvægt vegna þess að sú hætta kann að vera fyrir hendi — það reyndi þó ekki á það þegar við settum sérlög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave 6. mars en það kann að koma upp — að þegar fyrir liggur þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni verði ágreiningur um atriði sem varða t.d. framkvæmdina, kosningareglurnar eða annað slíkt sem er alveg óþarfi að deila um þegar búið er að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því vissulega framför og gott að Alþingi skuli taka til meðferðar og vonandi ljúka innan skamms meðferð þessa máls.

Ég ætlaði að leiða örlítið hugann að málum sem varða frumvarpið sjálft og kannski fyrst og fremst vekja athygli á því að allsherjarnefnd breytti heiti frumvarpsins í frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, vegna þess að það heiti endurspeglar betur innihaldið en upphaflega heitið sem lá fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. Lagðar eru til ákveðnar breytingar sem ég ætla ekki að fjalla mikið um en í nefndarálitinu er gerð grein fyrir ákveðinni umfjöllun sem átti sér stað á vettvangi nefndarinnar um gildissviðið. Þar komu upp skiptar skoðanir vegna þess að þau sjónarmið heyrðust á vettvangi nefndarinnar að það væri eðlilegt að í lögunum væri einhvers konar binding eða frekari binding af þessu tagi. Það var hins vegar niðurstaðan, og í samræmi við álit stjórnskipunarsérfræðinga, að það gengi ekki miðað við stjórnarskrána og því var ekki farið út í það.

Á sama hátt var ekki farið út í atriði sem við sjálfstæðismenn höfum stundum tekið inn í umræður af þessu tagi, og raunar fleiri, að það væri nauðsynlegt að kveða á um einhvers konar lágmarksþátttöku eða lágmarksfjölda þeirra sem samþykktu mál í þjóðaratkvæðagreiðslu til að hún hefði gildi. Þar sem ekki er um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur að ræða mundi skjóta mjög skökku við að setja ákvæði af því tagi inn í svona frumvarp, einfaldlega vegna þess að það verður alltaf ákvörðun Alþingis að meta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi. Ef þátttaka er lítil hefur þjóðaratkvæðagreiðslan auðvitað minna vægi þegar mál koma til kasta þingsins. Þá geta þingmenn, eins og stundum gerist, deilt um hvort lítil kjörsókn sé til marks um stuðning eða andstöðu við frumvarp, áhugaleysi eða annað þess háttar, en auðvitað leiðir það af eðli málsins að mikil þátttaka og skýr niðurstaða af þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi hlýtur að hafa sterk pólitísk áhrif á þingið, þó að það sé rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gat um áðan að þingmenn eru engu að síður bundnir af sannfæringu sinni í störfum en ekki af fyrirmælum frá kjósendum sínum, jafnvel þótt þau komi fram í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Annað atriði sem við í nefndinni veltum nokkuð fyrir okkur — það er reyndar nokkuð um liðið síðan meginþungi umfjöllunar um þetta mál átti sér stað í nefndinni en það sem ég staldraði nokkuð við í umfjöllun nefndarinnar var í sambandi við auglýsingu og kynningu. Niðurstaðan er sú að valin er naumhyggjuleið í því sambandi með tilvísun til auglýsingar í Lögbirtingablaði og þriggja auglýsinga í Ríkisútvarpinu. Það er auðvitað álitamál hve mikið vægi svona lagað hefur. Maður hefur heyrt það sjónarmið frá öðrum fjölmiðlum að það sé óeðlilegt að draga tiltekna fjölmiðla inn en þarna er um að ræða ríkisfjölmiðla sem hafa tiltekið lögbundið hlutverk. Eins er rétt að vekja athygli á því að almennt á dómsmálaráðherra að sjá um kynningu á málinu, efninu og atkvæðagreiðslunni sem slíkri og auglýsingar í öðrum fjölmiðlum hljóta að geta fallið þar undir þó að það sé ekki tiltekið með sérstökum hætti.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna er spurningin um hvort telja eigi á einum stað eða í kjördæmum. Það var álitamál sem nefndin velti nokkuð fyrir sér. Gert er ráð fyrir því að almennt sé notast við það kerfi sem gildir í kosningum til Alþingis, þar á meðal þær kjörstjórnir sem þar gilda og skiptast eftir landshlutum. Þó var sameiginleg niðurstaða nefndarinnar að eðlilegra væri, miðað við eðli þjóðaratkvæðagreiðslu og tilgang, að talið væri á einum stað, enda væri þetta þjóðaratkvæðagreiðsla og niðurstaðan ætti að endurspegla vilja þjóðarinnar, eða alla vega þeirra atkvæðisbæru Íslendinga sem tækju þátt í henni. Þrátt fyrir að úrslit úr einstökum kjördæmum kynnu að vera forvitnileg fyrir áhugamenn um þjóðmál, stjórnmálafræðinga og fréttamiðla væri hitt þyngra á metunum, að tilgangur og eðli þjóðaratkvæðagreiðslu væri í rauninni landsmál, þjóðmál, en ekki bundið við kjördæmi.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um fleiri atriði í þessu frumvarpi sjálfu en auðvitað veltir maður fyrir sér þegar mál af þessu tagi kemur á dagskrá þingsins hvernig við Íslendingar viljum haga þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni. Ég tel að innan allra flokka sé ljóst að viljinn til þess að setja fleiri mál í dóm þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu hefur aukist mjög mikið á síðustu árum. Það er alls ekki bundið við atburði síðustu tveggja ára, bankahrunið og afleiðingar þess, heldur er það þróun sem hefur átt sér stað um lengri tíma. Ég get nefnt að í þeirri stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007 var samhljómur um að það væri eðlilegt að setja inn í stjórnarskrá ákvæði þar sem skýrar væri kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslur og í rauninni opnað á að þær gætu átt sér stað í fleiri tilvikum en stjórnarskráin gerir nú þegar ráð fyrir. Segja má að þar hafi komið fram skiptar skoðanir um marga þætti en markmiðið var hið sama, hygg ég, af hálfu allra aðila, og þar sátu fulltrúar allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi, um að þjóðaratkvæðagreiðslur væru tæki sem ætti að beita oftar hér á landi til að kalla eftir vilja þjóðarinnar.

Nú er það hins vegar svo að fyrirkomulag þessara mála í löndunum í kringum okkur er mjög misjafnt og tíðni þjóðaratkvæðagreiðslna einnig. Við getum horft til þeirra varðandi ákveðnar fyrirmyndir og við getum líka velt fyrir okkur hvaða áhrif þær hafa. Við vitum að í löndum eins og Sviss er veruleg hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og ég hygg að þær séu samofinn þáttur í stjórnmálamenningu þar í landi. Eftir því sem ég best veit hafa þjóðaratkvæðagreiðslur ekki skapað Svisslendingum nein sérstök vandkvæði þó að þær séu alltíðar. Við höfum dæmi um það úr einstökum fylkjum Bandaríkjanna að þar er hægt að kalla fram almenna atkvæðagreiðslu um einstök mál, sem stundum hafa að mínu mati leitt menn í ógöngur, t.d. í Kaliforníufylki. Þar hefur almennri atkvæðagreiðslu jafnvel verið beitt í of mörgum tilvikum og um mál sem kannski er ekki endilega ástæða til að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um. Það er álitamál.

Í Evrópu eru reglurnar mismunandi. Ég held að þjóðaratkvæðagreiðslur séu langtíðastar t.d. á Ítalíu og án þess að hafa kynnt mér það náið er ég ekki viss um að hinn mikli fjöldi þjóðaratkvæðagreiðslna þar hafi endilega haft jákvæð áhrif eða hafi skapað þá tilfinningu hjá Ítölum að þeir ráði meiru um eigin örlög en aðrar þjóðir. Í löndum Vestur-Evrópu hefur staðan verið sú að þjóðaratkvæðagreiðslur hafa oftast, alla vega á síðustu 20–30 árum, farið fram um mál sem tengjast Evrópusambandinu og nýjum samningum á vettvangi þess. Annars staðar, t.d. í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, eru þær tíðari. Þar eru nýrri stjórnarskrár og þeim er beitt í fleiri tilvikum. Ef við horfum á Norðurlöndin eru þjóðaratkvæðagreiðslur frekar sjaldgæfar. Þær eru kannski flestar í Danmörku, enda gerir danska stjórnarskráin frá 1953 ráð fyrir fjölmörgum mismunandi leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég er þeirrar skoðunar að við mótun reglna á þessu sviði hér á landi sé ekki óeðlilegt að við horfum nokkuð til þeirra ákvæða sem finna má í dönsku stjórnarskránni. Í Noregi er t.d. ekki heimild fyrir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu heldur eingöngu ráðgefandi og á síðustu öld áttu sér einungis stað fjórar þjóðaratkvæðagreiðslur í Noregi, sex í Svíþjóð og aðeins tvær í Finnlandi þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur í næstu nágrannalöndum okkar, sem eru skyldust okkur að menningu og hefð, eru kannski ekki svo algengar. Danir hafa þó beitt þessu formi mest og ég hygg að reynslan af þjóðaratkvæðagreiðslum sé prýðisgóð þar í landi. Því tel ég ekki óeðlilegt að við horfum til reynslunnar þaðan þegar við endurskoðum stjórnarskrá okkar og mótum reglur á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Um grundvallaratriði þessa máls, þ.e. spurninguna um það hvort bera eigi mál undir atkvæði þjóðarinnar, er í sjálfu sér ekki ágreiningur eins og ég rakti áðan. Það er ekki ágreiningur um að sum mál séu svo stór og mikilvæg fyrir alla þjóðina að rétt sé og eðlilegt að leita afstöðu hennar þegar úrslit eiga að ráðast. Þannig hefur t.d. ekki verið ágreiningur um það hér á landi að ef við værum komin á þann stað að þurfa að taka afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu þyrfti sú niðurstaða að byggja á ákvörðun meirihlutavilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við minnumst þess að síðasta sumar var nokkur ágreiningur um hvort ástæða væri til að gera það að skilyrði að slík atkvæðagreiðsla yrði bindandi eða hvort nægilegt væri að hafa hana ráðgefandi. Ég held að sú umræða sé í sjálfu sér ekki endilega tímabær á þessum tímapunkti, enda virðist aðild að Evrópusambandinu allfjarri okkur eins og staðan er í dag. Ég held að það sé vaxandi skilningur á því víðast hvar í þjóðfélaginu og hér á þingi að ekki sé um að ræða mál sem kalli á miklar ákvarðanir eða stór skref í bili. Þess vegna held ég að við þurfum ekki að velta þessu fyrir okkur. Sá tími mun þó koma að við þurfum að velta fyrir okkur hvort eðlilegra sé að atkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu verði ráðgefandi eða bindandi. Það er eindregin skoðun mín að sú atkvæðagreiðsla sem kann að koma til um aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi að vera bindandi. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni áður en við komumst á þann stað í ferlinu, t.d. með þeim hætti sem við höfum fyrirmyndir að í stjórnarskrám ýmissa ríkja í kringum okkur að í stjórnarskrá sé kveðið sérstaklega á um það hvernig landið geti orðið aðili að alþjóðlegum eða yfirþjóðlegum samtökum og að þjóðaratkvæðagreiðsla verði nauðsynlegur þáttur í því ferli.

Ég fer ekki nánar út í þessa sálma að sinni en þetta er hins vegar umhugsunarefni sem við þingmenn þurfum að fjalla um á næstu árum. Staðan í sumar er allt önnur en síðasta sumar og ljóst er að sá þrýstingur sem þá var uppi af hálfu Samfylkingarinnar í þessari ríkisstjórn á að keyra aðildarumsókn í gegn hefur dofnað. Ferlið er formlega í gangi en hins vegar virðist ósköp lítið vera að gerast og líkurnar á því að við þurfum að taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að haga þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið — við getum orðað það þannig að sú spurning er orðin fjarlægari í tíma en hún var fyrir ári þegar mikill þrýstingur var á það af hálfu annars stjórnarflokksins að keyra þetta mál áfram. Andstaðan meðal þjóðarinnar hefur aukist, andstaða í þinginu virðist hafa aukist, andstaðan innan Vinstri grænna er að harðna og sífellt ólíklegra er að þetta mál komist á dagskrá þannig að þing og þjóð þurfi að standa frammi fyrir ákvörðun, alla vega á næstu árum.



[18:13]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var aðeins of sein að berja í borðið til að fara í andsvar við hv. þm. Róbert Marshall sem er formaður allsherjarnefndar en þar sem það kemur fram í nefndarálitinu að þær breytingar sem verið er að leggja til eru lagðar fram af fulltrúum nær allra flokka vildi ég gjarnan spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson sömu spurninga.

Ég hef verið að velta svolítið fyrir mér gildi atkvæðaseðla og hvort það hafi verið rætt sérstaklega í nefndinni. Ekki endilega bara varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur heldur atkvæðagreiðslur almennt, hvort löggjöfin á Íslandi sé nógu skýr varðandi það hvernig á að meta hvenær atkvæðaseðill er gildur og hvenær ekki. Ég tók þátt í kosningaeftirliti í forsetakosningunum í Úkraínu og þar var farið í gegnum kosningalöggjöfina og talað um þessa þætti, hvenær á að dæma seðil gildan og hvenær á að dæma hann ógildan. Ég var þarna á vegum ÖSE en afar áhugavert er að þar er áherslan lögð á að telja atkvæðaseðil gildan ef vilji kjósanda er skýr. Það væri mjög áhugavert að heyra frá hv. þm. Birgi Ármannssyni hvort þetta sé nógu skýrt í íslenskum lögum, að það sé ekki hægt að dæma atkvæðaseðla ógilda vegna þess að x-ið er sett fyrir utan kassann eða menn skrifa eitthvað á seðilinn ef það er mjög skýrt hver vilji kjósanda er.

Síðan hef ég líka verið að velta fyrir mér öðru sem fellur kannski ekki undir þetta, en í forsetakosningunum í Úkraínu var t.d. ekki nóg með að það væri hægt að strika yfir þá sem voru í framboði heldur var einnig lína sem bauð upp á eitthvað annað, þ.e. að velja hvorugan kostinn. (Forseti hringir.) Gæti verið að í staðinn fyrir að segja bara já eða nei (Forseti hringir.) ætti einnig að vera í boði að kjósanda líkaði við hvorugan valkostinn?



[18:15]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur, sérstaklega vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni, bæði við framkvæmd kosninga hér á landi og raunar einnig erlendis, að ekki sé alltaf samræmd framkvæmd á því hvenær atkvæðaseðill teljist gildur og hvenær ekki. Þetta er ekki atriði sem við fórum sérstaklega yfir í meðförum þessa máls í allsherjarnefnd en ég hygg hins vegar að þetta sé mál sem full ástæða er til að gefa gaum, hvort með einhverjum hætti sé hægt að gera löggjöfina skýrari þannig að vafamálum fækki og framkvæmdin verði hugsanlega skýrari.

Ég held að það sé frekar almennt viðhorf meðal þeirra sem koma að þessum málum að það beri eftir föngum að leita eftir vilja kjósandans, að túlka vafamál þannig að vilji kjósandans nái að koma fram. En þarna geta auðvitað verið ákveðin álitaefni, hvenær er vilji kjósandans nægilega skýr og hvenær ekki? Það verður kannski aldrei hjá því komist að upp komi einhver deilumál. En ef við getum lagað kosningareglur hérna almennt þannig að slíkum vafamálum fækki held ég að það sé ávinningur.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns vildi ég segja það að ég held að það sé einfaldlega viðfangsefni þeirra sem efna til kosninga að setja fram skýra valkosti. Ef kjósandi getur ekki sætt sig við annan hvorn þeirra kosta, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða einhvern þeirra kosta sem eru í boði (Forseti hringir.) á kjósandi alltaf þann möguleika að skila auðu.



[18:17]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Í sveitarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði skilst mér að þriðji stærsti hópur kjósenda hafi skilað auðum eða ógildum atkvæðaseðlum. Þar kom mjög skýrt fram að kjósendur, ég held allt að þriðjungur kjósenda, voru mjög ósáttir við það sem var í boði. Þá hefði maður getað hugsað sér að þeir kjósendur hefðu getað merkt við þann valkost að þeir vildu ekki kjósa neitt af því sem var í boði og þar með hefði vilji þeirra komið skýrar fram.

Ég vonast líka til þess að við veltum því aðeins fyrir okkur að reyna að samræma betur á milli talningarstaða, hvað er það sem gerir atkvæðaseðil gildan og hvað gerir hann ógildan? Í því sveitarfélagi sem ég bý í bauð Framsóknarflokkurinn t.d. ekki fram í þarsíðustu sveitarstjórnarkosningum en fékk eftir sem áður eitt atkvæði því að einhver skrifaði stórt X-B á einn atkvæðaseðilinn. Það hefði kannski verið gaman ef hægt hefði verið að upplýsa það formlega frá kjörstjórninni en ekki bara úr þessum ræðustóli.

Ég velti líka fyrir mér ástæðunni fyrir því að tekin er ákvörðun um að telja á einum stað, ég veit að þetta hefur verið aðeins rætt. Í ákveðnum tilvikum gæti verið mjög áhugavert að sjá hvort í þjóðaratkvæðagreiðslum er munur á milli kjördæma, það kæmi fram ef talið væri í kjördæminu en ekki bara á einum stað eins og lagt er til í frumvarpinu.



[18:19]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi aðra kosti en þá sem eru í boði. Ég hef alltaf túlkað það svo að ef kjósandi mætir á kjörstað og velur ekki neinn af þeim kostum sem í boði eru sé hann einfaldlega að senda mjög skýr skilaboð um að hann sætti sig ekki við neinn kost sem er í boði og ekki þurfi að hafa sérstakan reit á atkvæðaseðlinum til að útskýra það. Það geta verið einhverjar aðrar kosningafræðilegar vangaveltur sem ég ekki er kunnugur sem gera það að verkum að einhvers staðar sé boðið upp á möguleikann „eitthvað annað“ en í mínum huga hefur það verið mjög skýrt að ef menn skila auðu eru þeir að segja: Ég sætti mig ekki við neinn af þeim kostum sem eru í boði.

Varðandi það sem hv. þingmaður var að ræða hér síðar um talningu á einum stað þá var þetta álitamál uppi í nefndinni og raunar einnig í óformlegum undirbúningshópi sem ræddi þessi mál nokkuð síðasta sumar meðan drög að frumvarpinu voru í smíðum. Vissulega voru skiptar skoðanir um þetta en menn töluðu sig niður á þá niðurstöðu í allsherjarnefnd að rétt væri að hafa þetta á einum stað. Það byggir í rauninni á þeirri forsendu að kosningin er fyrir allt landið, kosningin á að endurspegla vilja þjóðarinnar í heild. Það getur verið forvitnilegt og áhugavert fyrir stjórnmálafræðinga og stjórnmálaspekúlanta aðra að vita nánar hvernig kjósendur skiptast eftir landshlutum (Forseti hringir.) eða eftir einhverjum öðrum forsendum, en er ekki réttara að það gerist bara í skoðanakönnunum (Forseti hringir.) frekar en í talningunni sjálfri?



[18:22]Útbýting:

[18:22]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta er að mínu mati afskaplega merkt mál. Þegar stefndi í það að Alþingi mundi samþykkja lög um heimildir handa fjármálaráðherra til að skrifa undir Icesave-samkomulagið 28. desember sl. flutti ég í örvæntingu minni breytingartillögu einmitt um þjóðaratkvæðagreiðslu til að reyna að hindra þau ósköp sem þar hefðu dunið yfir þjóðina. Sú tillaga var felld á Alþingi og er áhugavert að kanna hverjir greiddu atkvæði gegn því að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þetta merkilega mál. En þeir þingmenn sem samþykktu lögin um Icesave þurfa náttúrlega að gera kjósendum sínum grein fyrir því hvers vegna í ósköpunum þeir samþykktu þessi ósköp, hvernig stóð á því að þeir létu þetta verða að lögum. En sem betur fer kom Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, til skjalanna að samþykktum lögunum, hann beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar og vísaði málinu til þjóðarinnar. Þjóðin var mjög afdráttarlaus í skoðunum sínum og kolfelldi þessi lög sem betur fer, enda hef ég sagt síðan að sérhver dagur sé góður dagur á meðan við ekki erum búin að skrifa upp á Icesave og það heldur þannig áfram. Ég vona að við náum góðu samkomulagi um að við þurfum að borga lítið sem ekki neitt í þessu máli vegna þess að við eigum ekki að borga neitt, en við mundum hugsanlega gera það vegna þess að við viljum sýna góðan lit í samstarfi við aðrar þjóðir og hjálpa þeim við að halda uppi trausti á bankakerfið í þeim löndum. En þetta er eitt dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég lagði til.

Nú er það ekki þannig að ég hafi flutt þessa breytingartillögu og allt í einu fallist á að það væri gott að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu til að bjarga í þessu eina máli. Nei, frú forseti. Ég er almennt séð mjög hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum þannig að þetta mál var mjög vel til þess fallið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um.

Margir hafa sagt að við kjósum fulltrúa á þing til að taka afstöðu til mála og það eigi að vera hlutverk þingmanna að mynda ramma utan um þjóðfélagið, setja lög og taka ákvarðanir og að þeir eigi ekki að skjóta sér undan því með því að vísa málum til þjóðarinnar. Ég er sammála þessu að mestu leyti en þó eru nokkur mál þess eðlis að ég tel að þjóðin eigi að hafa með þau að gera og hafa um þau að segja. Eitt þeirra er Icesave-skuldbindingin þar sem er alveg sérstaklega mikil óvissa og svo Evrópusambandið, ef svo illa skyldi vilja til að það næðist samningur við það verður það að sjálfsögðu borið undir þjóðina. En það hefur gleymst í allri umræðunni, frú forseti, að segja þjóðinni að það er ekkert að marka þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur algerlega gleymst að segja þjóðinni að sú þjóðaratkvæðagreiðsla er bara upp á punt og plat vegna þess að við erum ekki búin að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og ég talaði um í andsvari við hv. formann nefndarinnar sem um þetta mál hefur vélað og er með nefndarálit er ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi nema varðandi 26. gr. og þegar breyta á ákvæðum um þjóðkirkjuna.

Að öðru leyti koma öll önnur mál til Alþingis og alþingismenn taka ákvörðun á grundvelli sannfæringar sinnar og ekki eftir boðum eða skipunum frá kjósendum sínum. Það stendur í stjórnarskránni. Ég tel að það þurfi að byrja á því að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um breytingar á stjórnarskránni sem nú er þannig að þjóðin greiðir aldrei atkvæði um stjórnarskrána. Það er svo merkilegt. Ákvæðið er þannig að það skal samþykkt á einu þingi tillaga um að breyta stjórnarskrá og um leið og það hefur verið samþykkt skal þing rofið og efnt til kosninga. Þetta þýðir alla jafna að allar breytingar á stjórnarskrá koma fram í lok kjörtímabils af því að þingmenn vilja klára ýmis önnur mál og vilja ekki fara í kosningar strax. Breytingartillögur koma fram í lok kjörtímabils, síðan er kosið og svo kemur nýtt þing saman. En í þeim kosningum kýs fólk þingmenn og Alþingi til næstu fjögurra ára. Hvað skyldu menn vera að hugsa um þegar þeir kjósa þingmenn til næstu fjögurra ára? Jú, hvernig landinu verði stjórnað næstu fjögur árin. Það er það sem menn eru að kjósa um. Menn eru ekki að kjósa um breytingar á stjórnarskránni sem þó ætti að vera meginmálið. Svo kemur nýtt þing saman og þar kjósa þingmenn samkvæmt sannfæringu sinni og annaðhvort fella breytinguna eða samþykkja hana. Hún hefur hingað til, held ég, alltaf verið samþykkt þegar búið er að fara í þennan feril, enda eru stjórnarskrárbreytingar yfirleitt gerðar í mikilli sátt og eiga að vera það. Ég tel því mjög brýnt að þingið breyti 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að kosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur, séu ekki bara upp á punt, séu ekki bara plat.

Ég sagði áðan að sumir teldu að þingmenn ættu að taka afstöðu til allra mála og það sé heilmikil vinna einmitt að kynna sér mál og annað slíkt. Ég minnist þess að þegar frumvarp um fjölmiðla var til umræðu 2004 sagði þáverandi stjórnarandstaða, sem mig minnir að hafi verið Samfylking og Vinstri grænir — einmitt þeir sem sitja nú í stjórn, það er dálítið athyglisvert — eftir þriggja mánaða umræðu, þriggja mánaða langar ræður í þinginu og eftir þriggja mánaða kynningu á málinu að þeir væru bara ekki búnir að kynna sér málið nógu vel. Þrír mánuðir hefðu ekki dugað til að kynna sér málið nógu vel og þeir vildu meiri tíma. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvernig ætti þjóðin að geta tekið afstöðu til þessa máls? Hvernig ætti hinn almenni verkamaður og iðnaðarmaður, verkakona, verslunarkona að taka afstöðu til t.d. fjölmiðlamálsins ef þingmenn sem gera ekki annað allan daginn þurfa þrjá mánuði til þess og það dugar ekki til til að kynna sér málið? Hvernig ætti þá hinn vinnandi maður sem er að sinna allt öðru og hefur kannski ekki mjög mikinn eða ódrepandi áhuga á málinu að kynna sér málið, að taka afstöðu til þess í hvelli? Þetta er það sem mælir gegn því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um allt of mörg mál. Sum mál eru kristaltær. Ég tel að Icesave-málið hafi verið mjög kristaltært, annaðhvort samþykkir maður þennan samning eða fellir hann. Það var í mínum huga gífurleg skuldbinding annars vegar og hins vegar von um einhvern betri samning sem svo kom í ljós að var skárra, strax í næsta tilboði munaði 80 milljörðum þannig að menn græddu mjög mikið á því að fella þann samning. Eins er ábyrgð þeirra þingmanna sem greiddu frumvarpinu atkvæði mjög mikil þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla krefst kynningar á málinu. Hún krefst þess að málið sé tiltölulega einfalt og afgerandi. En það þarf líka að vera mikilvægt. Við getum ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu út af einhverju smotteríi. Þess vegna þurfa þeir ferlar sem leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrir. Ég vil minna á að hér er ekki verið að ræða um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og frumvarpið heitir heldur eins og hv. nefnd kemur með breytingartillögu um, þ.e. þetta er frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega ekki verið að tala um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan sjálf á að eiga sér stað. Ég vil samt koma inn á það dálítið því að það skiptir töluverðu máli. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, sem ég tel bráðnauðsynlegt að sé rædd, finnst mér að það eigi að vera mjög þungt og erfitt að breyta stjórnarskránni. Ég vil hafa það svo þungt að jafnvel 65% þjóðarinnar verði að samþykkja breytinguna, ella eigi hún sér ekki stað. Það þýðir að það þarf að vera mjög góður samhljómur um málið og mikill áhugi líka. Það verða þá alla vega 65% kjósenda að taka þátt því að annars nást ekki þessi mörk.

Önnur mál sem hafa minna vægi, t.d. breyting á fjölmiðlalögum sem ég tel ekki eins mikilvæga og breytingar á stjórnarskránni, eru mál sem kannski 50% eða 55% af kjósendum þurfa að samþykkja og lágmarksþátttaka væri kannski 60% allra kjósenda, eitthvað svoleiðis. Það mætti alveg skoða. Svo mætti jafnvel hafa það þannig að 50% kjósenda samþykktu það. En þetta er eitthvað sem þarf að ræða þegar kemur að því að við förum að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslur sem slíkar en ekki bara framkvæmd þeirra.

Ég sakna þess í þessu nefndaráliti að ekki sé talað um, eða alla vega hef ég ekki getað séð það, rafrænar kosningar, sem ég tel að séu það sem koma skal. Við erum nú þegar komin með marga rafræna þætti, ég millifæri alla vega viðstöðulaust í bankanum mínum alla daga og gef upp kennitölu og leyniorð og eitthvert svona dót. Og nú er að koma nýtt kort sem á að gera menn persónugreinanlega fyrir móttakandann, þá er það nokkuð öruggt þannig að ég held að menn þurfi að stefna að því að hafa svona kosningar rafrænar. Þá geta menn kosið heima hjá sér og reyndar hvar sem er í heiminum. Þá falla utankjörstaðaatkvæði niður. Ég get verið staddur í Tókýó og greitt atkvæði á Íslandi, kjörfundur opnaður klukkan þetta, ég tek þátt og atkvæðið er talið um leið. Ég held að menn ættu að hafa rafræna kosningu líka í huga í þessu og jafnvel er spurning um hvort nefndin ætti ekki að skoða málið milli 2. og 3. umr.

Síðan er spurningin um að skila auðu. Ég tel að þegar kjósandi ómakar sig á kjörstað og skilar auðu sé hann að segja eitthvað með því. Hann er eiginlega að segja mér það sama og þeir kjósendur í Reykjavík sem kusu Besta flokkinn, flokk sem gaf sig út fyrir að hafa enga stefnu en fékk samt mjög mikið fylgi. Ég sagði að það væri fyrir mig sem stjórnmálamann nánast eins og gula spjaldið, kjósendur gefa öllum stjórnmálamönnum langt nef með þessu og segja að stjórnmálamenn hafi eiginlega enga stefnu. Kannski er það rétt hjá kjósandanum. Hann er ekkert óskynsamur, ég neita því alveg. Reyndar trúði ég ekki þessum skoðanakönnunum sem voru fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Ég hélt að hinn skynsami kjósandi mundi sjá að sér og finna til ábyrgðar í kjörklefanum og kjósa svo þessa hefðbundnu flokka. En þegar það gerðist ekki áttaði ég mig á því að þetta var miklu alvarlegra. Þessir kjósendur skiluðu auðu, þeir gáfu öllum þingmönnum langt nef og sögðu í rauninni að stjórnmálamenn nytu ekki trausts. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Ég hef skoðað það mikið í huga mínum hvað vantar upp á traustið. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að í öllum svona kosningum sé alltaf reitur sem heitir „Skila auðu“ og ég vil að það sé alltaf gerður mikill munur á því að skila auðu og að ógilda atkvæðaseðil. Menn ógilda atkvæðaseðil í fíflaskap, af vankunnáttu eða eitthvað slíkt, það er engin meining á bak við það. En að skila auðu er ákveðin meining og sérstaklega ef maður þarf að krossa við reitinn „Skila auðu“ eða „Sitja hjá“. Þá segja menn að þeir séu ekki ánægðir með neinn af flokkunum sem eru í kjöri. Það held ég að þurfi að telja sérstaklega og jafnvel þarf að hafa sérstakan reit á kjörseðlinum eða í þessu rafræna formi, einhverja listabókstafi o.s.frv. í tölvunni. Þar sé einn reitur sem segir: „Skila auðu“, sem á að vera merki til stjórnmálamanna um það að þeir nái ekki tengslum við kjósendur.

Auðvitað eiga kjósendur að eiga auðvelt með að kjósa flokka. Það getur verið erfitt að velja milli tveggja flokka með svipaða stefnu en flokkarnir eiga allir að hafa afdráttarlausa stefnu og kjósandinn á að geta sagt: Ja, þessi flokkur ætlar að stefna þangað með mitt sveitarfélag eða mína þjóð eða mitt ríki, ef um er að ræða sveitarstjórnarkosningar eða þingkosningar. Þá á kjósandinn að geta sagt: Þessi flokkur vill fara þangað og mér hugnast sú stefna. Þess vegna kýs ég hann. Menn eiga sem sagt að kjósa eftir stefnumálum og eftir framtíðarsýn flokka og frambjóðenda en ekki vegna þess að þeir styðja þá bara eins og fótboltalið: Ég kýs þennan af því að hann kýs mig eða eitthvað svoleiðis. Ég held að hv. þingmenn þurfi að horfa dálítið í barm sér. Ég held að það sem kjósendur hafa verið að segja sé, og ég hef hugleitt þetta mikið, að kannski vanti á stefnuna. Kannski vantar á það að menn átti sig á því hvaða stefnu þessir flokkar og þessir frambjóðendur hafa. Erum við hv. stjórnmálamenn þessa lands nógu skýrir í orðum okkar til að kjósandinn viti hvert við erum að stefna? Þetta kemur inn í þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að þær verða einmitt um svona mál sem eru hugsanlega umdeild og mikilvæg. Þess vegna tel ég að þegar menn ætla að setja þjóðaratkvæðagreiðslu í gang þurfi meiri hluti þingmanna að samþykkja það, jafnvel aukinn meiri hluti eða 10% kjósenda. 10% kjósenda ættu líka að geta sett ákveðin mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. hvort flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni. Það gæti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða þá einhver önnur mál sem eru umdeild og menn vilja fá niðurstöðu í og niðurstaðan á að vera í samræmi við vilja þjóðarinnar. Þetta tel ég vera mjög brýnt þannig að ég er mjög hlynntur þessu frumvarpi svo langt sem það nær. Það er svo til eingöngu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er ágætt að hafa það. Ég mundi vilja að nefndin skoðaði þetta jafnvel milli 2. og 3. umr. Ég er ekki að leggja það til endilega, heldur að hún skoði þennan rafræna flöt á þessu máli, að það sé líka hægt að hafa rafrænar kosningar því að það er örugglega það sem koma skal. Þegar menn eru farnir að spjalla við skattinn sinn, bankann sinn o.s.frv. í gegnum netið ættu þeir alveg eins að geta spjallað við ríkið sitt í gegnum tölvu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er hlynntur þessu máli. Ég vil hins vegar að menn vindi sér í að búa til breytingartillögu við 79. gr. stjórnarskrárinnar og hafi hana tilbúna í handraðanum þannig að ef allt í einu skyldi koma til kosninga núna eftir helgi, sem maður veit aldrei með þessa hæstv. ríkisstjórn, sé hægt að skella breytingartillögu fram og samþykkja hana þannig að um málið sé eining. Þegar búið er að breyta 79. gr. getum við farið að halda þjóðaratkvæðagreiðslur og sett ákvæðið inn í stjórnarskrána með þeirri breytingu þannig að meiri hluti þjóðarinnar geti tekið afgerandi afstöðu til ákveðinna mála. En á meðan það hefur ekki verið gert eru allar þjóðaratkvæðagreiðslur nema úr 26. gr. og úr þessari takmörkun um þjóðkirkjuna meira upp á punt. Ég hugsa að það verði dálítið undarlegt upplitið á sumum kjósendum þegar þeir eru búnir að leggja á sig að greiða atkvæði og kynna sér eitthvert ákveðið mál, greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo er þeim sagt af þinginu: Þetta er nú eiginlega ekkert að marka, við ætlum að gera eitthvað allt annað.



[18:42]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við erum með til umfjöllunar frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í meðförum allsherjarnefndar er gerð tillaga um breytingu á nafni frumvarpsins og lagt til að það heiti frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem lýsir miklu betur efni þess frumvarps sem er um að ræða. Hér er verið að setja ramma utan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur en það er ekki verið að taka afstöðu til eða ganga lengra í því að kynna til sögunnar þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði í lok ræðu sinnar að það mundi kannski koma mörgum á óvart þegar frumvarp þetta fer í gegn að það skuli ekki vera um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Eins og við þekkjum er það einungis í þremur tilvikum sem stjórnarskráin heimilar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og það er þegar um er að ræða synjun forseta á lögum frá Alþingi, þegar breyta þarf kirkjuskipan eða þegar forseta er vikið frá. Við höfum í tvígang reynslu af því að forseti Íslands hafi nýtt sér heimild þá sem lengst af hefur verið mjög umdeild. Ég hef ekki verið sammála túlkun forseta lýðveldisins á synjunarvaldi sínu og heimild hans til að flytja mál til þjóðarinnar. Ég hefði talið að í samræmi við þau sjónarmið sem hafa lengst af verið uppi í stjórnskipunarrétti væri sú heimild ekki fyrir hendi en þegar forseti hefur nú í tvígang túlkað stjórnarskrána með þeim hætti að unnt sé að vísa málum til þjóðarinnar til bindandi niðurstöðu þá gerir það auðvitað það að verkum — það hefur reyndar verið skoðun okkar sjálfstæðismanna alveg frá 2004 þegar forseti synjaði lögum í fyrra sinn að það væri ástæða til að endurskoða þann þátt stjórnarskrárinnar. Eftir synjunina 5. janúar vegna Icesave-samningsins hefur sú skoðun fengið mun meiri hljómgrunn hjá þeim flokkum sem andmæltu því áður að nauðsynlegt væri að breyta 26. gr. og töldu afar mikilvægt að þessi öryggisventill forsetaembættisins væri fyrir hendi. En svona blása hinir pólitísku vindar. Þarna hefur orðið viðhorfsbreyting og ég tel ekki ástæðu til annars en að ætla að þegar menn fara í það verk að endurskoða stjórnarskrá, sem ef að líkum lætur mun styttast í verði frumvarp ríkisstjórnarinnar að veruleika sem nú er til umfjöllunar í allsherjarnefnd, þá muni þetta verða einn af þeim þáttum sem menn munu skoða. Það vekur hins vegar spurningar um hvort ástæða sé til að vera með ákvæði í stjórnarskrá um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Atkvæðagreiðsla um Icesave-málið var um margt mjög merkileg. Hún hafði auðvitað afgerandi áhrif á framvindu þess máls og hún sýndi líka fram á að kjósendur eiga að sjálfsögðu alveg með sama hætti og þegar menn taka afstöðu til flokka fyrir kosningar í sveitarstjórnum og alþingiskosningum einnig að geta tekið afstöðu í einstökum málum sem varða þá sjálfa og það þjóðfélag sem þeir búa í. Ég tel það vera skynsamlegt fyrir okkur að velta því upp að smíða hér reglur um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur en það krefst mjög nákvæmra reglna til grundvallar og að miklum aga verði beitt við framkvæmd þeirra. Í mínum huga mundi þurfa töluvert stóran hluta manna úti í þjóðfélaginu til að kalla eftir slíkri atkvæðagreiðslu. En hitt er annað mál, það er andrúmsloftið nú í þjóðfélaginu, við skulum gæta okkar á því að meðhöndla ekki stjórnskipunina með þeim hætti að hún eigi alltaf að kallast á við tíðaranda sem getur kannski oft breyst en það er ekkert launungarmál og ég hjó líka eftir því í máli hv. þm. Péturs Blöndals að úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor þegar horft er til þéttbýlli svæða, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar, hljóta að vekja spurningar um hvaða skoðun kjósendur hafa á stjórnmálamönnum, málflutningi þeirra og framgöngu. Ég held að það sé óumflýjanlegt fyrir stjórnmálamenn að líta í eigin barm og reyna að skilja hvað það var sem olli því að stór hluti kjósenda í Reykjavík taldi ekki þörf á því að kjósa flokk sem hefði yfirlýsta stefnu, að stór hluti kjósenda í Hafnarfirði kaus að skila auðu og stór hluti kjósenda á Akureyri greiddi L–listanum atkvæði sitt. Reyndar er það dálítið öðruvísi þar sem um var að ræða framboð sem hafði verið starfandi í bæjarfélaginu í langan tíma og haft sjónarmið uppi í sínum málflutningi en engu að síður voru það skilaboð til hinna flokkanna um að það væri eitthvað athugavert við þá.

Ég hef velt því fyrir mér undanfarna daga og vikur eftir þessi úrslit hvort það megi túlka þau svo að kjósendur trúi hreinlega ekki því sem stjórnmálamenn segja, að það hafi verið of mikið um að menn gerðu ekki það sem þeir höfðu sagst ætla að gera og þegar svo fer og það stendur lengi yfir þá sé alveg eins gott að kjósa flokk sem hefur enga stefnu vegna þess að þá sé a.m.k. ekki verið að svíkja hana. Þetta eru stór orð en ég held að þetta sé samt sjónarmið sem við verðum dálítið að velta fyrir okkur. Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig við getum mætt þessum áhyggjum kjósenda og gagnrýninni sem beindist jafnt yfir alla hefðbundnu stjórnmálaflokkana. Það er ekki hægt að skýra það með þeim hætti að einn hafi sérstaklega verið tekinn fyrir.

Þá kemur þessi spurning hvort það sé ástæða fyrir okkur að bjóða í ríkara mæli upp á að kjósendur geti milli kosninga tekið afstöðu til mikilvægra mála, kannski mála sem taka breytingum frá kosningum, aðstæður skapast í þjóðfélaginu sem eru með þeim hætti að ríkjandi stjórnvöld snúast t.d. í einstökum málum og fara þá gegn því sem menn stóðu fyrir í kosningabaráttu, hvort ástæða sé til þess að reyna að smíða reglur utan um slík mikilvæg mál þannig að þau færu beint í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru dæmi um það sem gleymast oft að kjósendur á sveitarstjórnarstigi taki afstöðu í beinu lýðræði eins og oft er kallað en það er þegar verið er að sameina sveitarfélög. Við þekkjum það mjög vel þegar verið er að sameina sveitarfélög að þá eru þær ákvarðanir bornar undir sveitarstjórn á viðkomandi stöðum og það á sér allt stoð í viðeigandi lögum þannig að þar sjáum við fordæmi fyrir því að slík mikilvæg hagsmunamál sveitarfélaganna og íbúanna eru borin beint undir kjósendur til samþykktar eða synjunar en ekki tekin um það ákvörðun af hálfu bæjarstjórnar án þess að kjósendur í viðkomandi sveitarfélagi komi að því. Ég held að það sé rétt fyrir okkar að minnast þessara atkvæðagreiðslna vegna þess að þetta hefur heppnast vel, menn hafa verið ánægðir með hvernig þetta hefur farið fram og það gleymist dálítið hversu skýrt þetta er þegar kemur að sameiningum sveitarfélaga. Ég held að þetta sé dæmi um mál þar sem er skynsamlegt að leita til íbúa um afstöðu þeirra. Það hefur stundum eins og við þekkjum þurft að fara í gegnum fleiri en eina atkvæðagreiðslu til að ná þeirri niðurstöðu sem kannski sveitarstjórnirnar eða valdhafar hafa viljað koma fram og stundum hefur það engan veginn gengið en það er þó alla vega ekki hægt að gera það án þess að það sé rætt við íbúana á viðkomandi stöðum.

Það skiptir í mínum huga miklu máli og í þessu andrúmslofti að frumvarpið fjalli um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við ræddum náttúrlega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að einhverju leyti í allsherjarnefnd en það voru engin efni til þess fyrir okkur á þessu stigi að taka mikla umræðu um það þar vegna þess að við vitum að það krefst breytinga á stjórnarskrá. Það hafa verið uppi sjónarmið um að gera slíkar breytingar en við höfum ekki enn sem komið er farið í djúpa umræðu um það á vettvangi allsherjarnefndar þó að vissulega hafi í vetur fjöldamörg mál verið þar á borðum sem snúa að ýmsum þáttum þessara hluta. Ég tek sem dæmi annað mál, persónukjör, þar sem við förum í kringum þessi mál og ræðum þau fram og aftur. Þetta mál er mjög mikilvæg rammalöggjöf utan um ákveðna hluti en ég er alltaf að færast nær þeirri niðurstöðu, alltaf nær og nær, að við ættum að ganga mun lengra í að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í einstökum málum en við höfum verið tilbúin til að tala um. Þá er ég að tala um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það hefur verið sagt að það sé svo mikill ávinningur í því fólginn að hafa lög um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi í raun og veru binda þingmenn með þeim hætti að það yrði erfitt að fara gegn slíkri niðurstöðu. Þetta var t.d. mikið til umfjöllunar þegar við vorum að ræða um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og menn höfðu uppi mismunandi skoðanir á því hvaða áhrif slík ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla mundi hafa. Ég er alveg sannfærð um að í því felist ákveðin vísbending en ég get ekki borið saman slíka atkvæðagreiðslu og bindandi atkvæðagreiðslu þegar kemur að þessu vegna þess að það er aldrei þannig að alþingismenn, ef þeir hafa mjög eindregna sannfæringu í vissum málum þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, geti horfið frá sannfæringu sinni. Við höfum nú heyrt það hér þar sem Evrópusambandsmálið er svo heitt hjá mörgum að það eru margir sem munu ekki fallast á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu gangi hún gegn sannfæringu manna. Það á reyndar líka við um stjórnarskrána eða stjórnarskrárbreytingar og þess vegna hefur verið svo mikilvægt í mínum huga og það hef ég rætt hér undir öðru máli, málinu um stjórnlagaþingið, þegar kemur að stjórnarskránni þegar það mál kemur inn í þingið úr stjórnlagaþinginu, að alþingismenn séu óbundnir af því sem þar kemur fram þó að vissulega komi mat þeirra til umræðu alveg eins og ef um væri að ræða stjórnskipunarnefnd. Svo ég haldi sjónarmiði mínu á lofti þá lít ég svo á að það sé alveg ljóst að alþingismenn hafi frjálsar hendur um það hvernig þeir líti á breytingar á stjórnarskrá og það geti aldrei verið öðruvísi en á grundvelli sannfæringar þeirra um það hvernig þjóðskipun landsins sé best háttað.

Þess vegna held ég í framhaldi af þessu, þó að það geti aldrei verið allsherjarlausn og megi aldrei einfalda hlutina svo að það sé hægt að koma með einfaldar lausnir á flóknum viðfangsefnum, að það sé ákveðið svar við því vandræðaástandi sem hefur verið að undanförnu að menn velti fyrir sér beinu lýðræði með mun ákveðnari hætti en gert hefur verið. Ég segi fyrir mig að flokkur sem leggur alla áherslu á frelsi einstaklingsins og hans val hlýtur að sjá að það rímar mjög vel við það grundvallarstef að kjósendur hafi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri eða geti knúið stjórnmálamenn til að vísa málum til þjóðarinnar. Umgjörðin um það þarf auðvitað að vera mjög skýr og öguð. En þegar almenningur kallar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hann gerði auðvitað með því að skora á forseta lýðveldisins að hafna annars vegar fjölmiðlalögunum og hins vegar Icesave-lögunum, gríðarlegur fjöldi í bæði skiptin og reyndar óhemju margir í síðara skiptið vegna þess að það var greinilega mikill skoðanamunur manna á milli, kjósenda og okkar sem sitjum í þessum sal, er það ekki þingsins að ákveða hvenær slík mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hins vegar eðlilegt í þessu tilviki þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það var töluvert um það rætt í nefndinni okkar góðu, allsherjarnefnd, þegar við vorum að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur hvort skoða ætti kjördæmaskipan, það kæmi af þessu, hvort við ættum að hverfa frá hinni hefðbundnu kjördæmaskipan. Um það eru líka afskaplega skiptar skoðanir. Það eru náttúrlega sjónarmið uppi um að landið eigi að vera eitt kjördæmi og sumir halda því fram að þegar við ræðum svona mál sé engin þörf á því að vera með kjördæmaskil. Ég er reyndar á þeirri skoðun að það sé miklu áhugaverðara að vera með miklu minni kjördæmi og hallast dálítið að því að við ættum að líta langt aftur í tímann og skoða einmenningskjördæmi þar sem þá yrði nálægðin töluvert mikil við kjósendur. Ég veit ekki hvort við getum kallað þetta þremenningskjördæmi en þegar við skoðun kjördæmaskipan — ég hef ekki hugmynd hvað gerist þegar menn fara að endurskoða stjórnarskrána — þá vona ég að menn festist a.m.k. ekki í þeirri hugmynd að landið sé eitt kjördæmi. Sú afstaða var tekin í allsherjarnefnd að það væru ekki efni til þess í frumvarpinu að leggja til breytingar á kjördæmaskipan. Hins vegar var ákveðið að það væri rétt að telja á einum stað til að þau sjónarmið sem fram kæmu í atkvæðagreiðslunni mundu birtast skýr á einum stað. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að endurskoða kjördæmaskipanina sem var ákveðin síðast. Ég tala fyrir mig sem hef reynslu af því að hafa verið annars vegar þingmaður hálfs Reykjavíkurkjördæmis og síðan þingmaður í Norðausturkjördæmi. Ég held því að þessa kjördæmaskipan verði að skoða og það er að vissu leyti furðulegt og skrýtið að Reykjavík sé tvö kjördæmi en miklu verra er það þó að vera þingmaður í kjördæmi af slíkri stærð sem landsbyggðarkjördæmin þrjú eru, Norðausturkjördæmi allt frá Siglufirði til Djúpavogs með mjög strjálbýlum svæðum þar á milli, ég tala ekki um Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, þannig að þar held ég að menn hafi gengið allt of langt í því að stækka kjördæmin. Þau eru líka svo ólík innbyrðis að það er á margan hátt erfitt að endurspegla þau sjónarmið sem þar eru uppi þannig að ég held að það sé óumflýjanlegt að þessi kjördæmaskipan verði endurskoðuð. Þetta var hluti af þeirri umræðu sem kom fram í allsherjarnefnd, það var farið svolítið um víðan völl um þessi mál og hvernig best væri að gera þetta.

Síðan í miðju kafi í umræðunni fórum við í atkvæðagreiðslu um Icesave. Þá vorum við búin að prufukeyra svona þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú framkvæmd gekk mjög vel og eftir það voru ekki efni til þess af hálfu allsherjarnefndar að gera verulegar breytingar á frumvarpinu til að laga einstaka þætti sem hefðu getað farið úrskeiðis í þeirri atkvæðagreiðslu þannig að ég held að það sé ágætisskref að koma með rammalöggjöf um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. En hin umræðan finnst mér miklu áhugaverðari og það væri gaman ef við mundum einhvern tíma skiptast á skoðunum um það. Það getur vel verið að við ættum að taka sérstaka umræðu um það utan dagskrár á góðum degi. Ég held að það sé margt sem bendir til þess að við eigum að skoða það rækilega að koma með reglur og hugmyndir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum.