138. löggjafarþing — 140. fundur
 14. júní 2010.
námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.
fsp. GÞÞ, 596. mál. — Þskj. 1017.

[13:27]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ber upp fyrirspurn sem ég kom með í þingið 26. apríl og varðar hreindýraveiðar. Hreindýraveiðar eru umfangsmikil starfsemi á Austfjörðum og það eru hvorki meira né minna en 1.300 leyfi sem veitt eru til hreindýraveiða á hverju ári. Þó að þetta mál sé ekki eitt af þeim stóru málum sem blasa við okkur í þinginu er það samt þannig að það snertir bæði öryggi þeirra sem taka þátt í hreindýraveiðum og þeirra sem eru á þessu svæði, sem er ansi víðfeðmt, og sömuleiðis snertir það ferðaþjónustuna sem er mikið hagsmunamál í þessum landshluta. Hreindýraveiðar hafa gengið vel, leyfi ég mér að fullyrða, og hafa farið fram nokkurn veginn án slysa sem betur fer. Hins vegar má bæta mjög margt í umhverfinu varðandi hreindýraveiðar og það hefur vantað mikið upp á frumkvæði frá stjórnvöldum hvað þetta varðar. Væri æskilegt að heyra sjónarmið hæstv. umhverfisráðherra hvað þessa hluti varðar og sömuleiðis almennt en það er mjög langt síðan reglugerð um hreindýraveiðar var endurskoðuð.

Í stuttu máli er það tveggja mánaða tímabil sem hreindýraveiðarnar standa yfir en langmesta álagið er hins vegar á stuttum tíma, 25 dögum. Ekki hefur verið haldið námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn síðan árið 2001. Með öðrum orðum, það hefur ekki fjölgað í hópi hreindýraleiðsögumanna frá þeim tíma, sem er að verða áratugur. Um 80 leiðsögumenn eru starfandi núna, þeir eru á ýmsum aldri og eiga það auðvitað sameiginlegt með öðrum landsmönnum að þeir yngjast ekki. Það er því ekki þannig að þeir sem eru búnir að vera í þessu lengi fari að bæta meiru á sig. Dæmi eru um að þeir sem eru virkastir í þessu og halda þessu mest uppi taki frá 10–50 veiðimenn á tímabilinu og á ákveðnu tímabili eða frá ágústlokum og fram í miðjan september er álag mikið, sérstaklega á fjölmennasta svæðinu, sem er svæði tvö. Mjög margir veiðimenn hafa spurt mig að þessu og ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna hafa ekki verið haldin námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn síðan árið 2001 og hvenær stendur til að halda námskeið næst?



[13:30]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina um námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn. Það er skemmst frá því að segja að Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að halda námskeið fyrir leiðsögumenn fyrir hreindýraveiðimenn en stofnunin fylgist með og hefur eftirlit með framkvæmd hreindýraveiða eins og kunnugt er.

Undanfarin ár hefur stofnunin ekki talið þörf á því að haldin yrðu námskeið fyrir leiðsögumenn við hreindýraveiðar og því hafa námskeið ekki verið haldin og fer ég yfir rök stofnunarinnar til að svara fyrirspurn hv. þingmanns.

Umhverfisstofnun metur í lok hvers veiðitímabils hreindýra hvernig til tókst og skoðar hvort ástæða sé til að breyta einhverju fyrir næsta tímabil. Það er gert á hverju ári. Almennt hafa hreindýraveiðar gengið vel undanfarin ár, eins og kom fram í máli þingmannsins, og mestur hluti kvótans náðst á hverju ári. Ýmsar ástæður geta legið að baki þegar hreindýrakvóti hefur ekki náðst, t.d. að veiðimenn hafa ætlað seint til veiða en svo ekki komist þegar á reynir. Sumir veiðimenn sem ekki hafa mætt til veiða hafa ekki skilað inn veiðileyfi sínu til að hægt væri að úthluta því til annarra aðila á biðlista. Einnig geta skapast vandamál þegar sumir landeigendur hafa lokað löndum sínum fyrir hreindýraveiðum eins og gerst hefur á svæði níu sem er Hornafjörður eða það sem áður var Mýrahreppur og Borgarhafnarhreppur eða Suðursveit, og stundum hefur staðið tæpt að kvóti hafi náðst af þeim sökum.

Umhverfisstofnun hefur ekki dæmi um að veiðimaður hafi ekki komist til veiða vegna skorts á leiðsögumönnum og því hefur stofnunin metið það svo að ekki hafi verið brýn nauðsyn á námskeiðum fyrir leiðsögumenn. Það var þó til skoðunar hjá Umhverfisstofnun að halda námskeið fyrir leiðsögumenn í vor, vorið 2010, en vegna yfirstandandi vinnu að breytingum á lögum nr. 64/1994, um hreindýraveiðar, var ákveðið að bíða með námskeiðið þar til eftir að þær breytingar hafa gengið í gegn þar sem nauðsynin þótti ekki brýn.

Ég vona að þessi yfirferð svari spurningu hv. þingmanns.



[13:32]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Mig langar aðeins til að árétta að við tölum um Austurland en ekki Austfirði, sérstaklega þar sem hreindýr eru. Ég hugsa að hreindýraeftirlitsmenn verði dálítið fúlir þegar talað er um hækkandi aldur þeirra því að þeir yngjast verulega í hvert skipti sem þeir fara á veiðar. Ég held að þeir líti þannig á að þeir séu eilífir að minnsta kosti, ef ekki enn meira.

Ég þekki svolítið til málaflokksins sem er okkur á Austurlandi afar mikilvægur og skapar heilmiklar tekjur og ég held að það sé alveg rétt að það þurfi að fara að hugsa fyrir því að einhver endurnýjun verði meðal leiðsögumanna. En mig langar til að ítreka að ég held að það sé afar nauðsynlegt að við höldum áfram eins og nú er að vera með staðkunnugt fólk sem þekkir aðstæður, því að oftar en ekki er verið að veiða í slæmu skyggni og oft hefur þoka verið ástæðan fyrir því að kvótinn hefur ekki náðst. Ég legg því áherslu á að mikilvægt er að leiðsögumenn séu staðkunnugir á þessum slóðum.



[13:33]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég heyrði að hæstv. umhverfisráðherra sagði að ekki væri þörf á að halda þessi námskeið og svo væri reyndar líka verið að breyta reglunum þannig að þetta tvennt hafi orðið til þess að námskeið var ekki haldið. Mér finnst svolítið merkilegt að matið á þessu máli er mismunandi. Í grein sem Sigmar B. Hauksson skrifaði ekki fyrir löngu síðan, en hann hefur verið í forsvari fyrir skotveiðimenn um langt skeið og hefur fylgst með þeirra málum og verið einn af framámönnunum í Skotveiðifélagi Íslands, segir að það hafi dregist úr hófi að halda nýtt námskeið og að mikil þörf sé á að fjölga leiðsögumönnum. Mér finnst því merkilegt að menn hafi svona mismunandi sýn á þessa hluti. Ég vildi því gjarnan heyra, ef hæstv. umhverfisráðherra getur í seinna svari sínu lagt mat á það, hvort það sé mjög mikil þörf á að endurskoða lögin um störf, nám og hæfniskröfur fyrir hreindýraleiðsögumenn, sem alla vega Sigmar B. Hauksson telur að séu ófullkomin eins og þau eru núna.



[13:35]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sem nýliða á þingi kom það mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá þetta mál á dagskrá á næstsíðasta degi þingsins en fékk síðan skýringu á því sem er góð og gild, þ.e. að verið sé að safna saman öllum fyrirspurnum. Hins vegar er ljóst að hreindýraveiðar og atvinnuvegur í kringum þær skipta Austlendinga mjög miklu máli. En það sem kom mér á óvart í máli hæstv. umhverfisráðherra er að Umhverfisstofnun skuli bera ábyrgð á leiðsögunámi fyrir hreindýraveiðimenn vegna þess að mér þætti þetta mál miklu betur komið hjá þeim sem standa því næst, þ.e. hjá Fræðsluneti Austurlands. Ég mundi leggja til að það yrði skoðað hvort ekki væri nær að Fræðslunetið tæki þetta að sér. Síðan var á þjóðfundi sem haldinn var á Austurlandi í lok janúar sl. alveg ljóst að Austlendingar eða Austfirðingar á sóknarsvæði Austursvæðis telja þessa atvinnugrein geta skapað fjöldamörg störf og hliðarstörf og ýmiss konar þjónustu í kringum þessa grein.



[13:36]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að vera í þessum mikla kvennafans og ræða hreindýraveiðar. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég ætla ekki að fara að karpa um hvaða landshluti þetta er, við þekkjum það öll, en ég lít svo á að þetta sé, ég segi kannski ekki vannýtt auðlind en að hægt sé að gera miklu betur hvað varðar hreindýraveiðar, bæði varðandi faglega þáttinn og sömuleiðis þjónustuna og atvinnutækifæri fyrir Austurland. Það er enginn vafi í mínum huga.

Ég, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, furða mig aðeins á svörum hæstv. ráðherra og vek athygli á því að hæstv. ráðherra hefur alla vega ekki tilgreint hvenær næsta námskeið verður haldið. Ég held að það sé sjálfsagt að fara yfir alla þætti, m.a. hæfniskröfur. Staðbundin þekking er afskaplega mikilvæg, en það gengur mikið á, ef maður getur orðað það þannig, það er mikið að gerast á þeim dögum þegar álagið er mest. Þá er gríðarlegt álag á leiðsögumönnum sem sem betur fer leggja það á sig að sjá til þess að kvótinn náist. Það væri auðvitað hægt að ná betri árangri með því að dreifa álaginu og það er mikilvægt, en ég sé engin efnisleg rök fyrir því að halda ekki námskeið þótt ekki væri nema einu sinni á fimm ára fresti.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi mál vel og skoða þetta með heimamönnum sérstaklega. Mér finnst athyglisverð hugmyndin sem kom frá hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur. Aðalatriðið er að menn vinni þetta með fólkinu sem býr þarna og á hvað mestra hagsmuna að gæta. Auðvitað eiga allir Íslendingar hagsmuna að gæta að vel sé farið með þá dýrastofna sem hér eru og að við nýtum þau tækifæri sem eru í ferðaþjónustu og þarna eru mjög spennandi tækifæri. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að hugsa það örlítið betur hvort ekki sé rétt að halda námskeið, það eru að verða tíu ár frá því að það var haldið síðast.



[13:38]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka enn ágæta umræðu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að taka þær ábendingar til skoðunar sem hér koma fram og held raunar að það, eins og fyrirspyrjandi tók saman í lokin, sé prýðileg hugsun sem næsta skref í málinu, þ.e. að skoða og fara yfir stöðu mála með heimamönnum. Ég held að þeir séu best til þess fallnir að skoða málið.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi greinaskrif Sigmars B. Haukssonar varðandi þörfina á námskeiðum. Ég tek undir það sem hún veltir hér upp að þetta eru þær upplýsingar sem ég fæ frá Umhverfisstofnun að ekki sé þörf á því að halda námskeið og hafi ekki verið þörf á því. Ég held hins vegar að fullur sómi sé að því að halda námskeið þegar tíu ár eru liðin frá því síðasta. Ég held að við getum því sagt það hér að það er vilji minn að halda námskeið vorið 2011 og það verði þannig.

Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir nefndi möguleika á aðkomu Fræðslunets Austurlands sem mér finnst afar spennandi og full ástæða til að kanna það mál sérstaklega. Það er, eins og hún bendir réttilega á og hefur náttúrlega komið fram á þjóðfundum víða um land, mjög mikilvægt að nýta bæði þá þekkingu og þá möguleika á störfum og uppbyggingu sem eru heima í héraði sem farveg fyrir starfsemi af þessu tagi. En það er gríðarlega mikill slagkraftur og sóknarkraftur í hreindýraveiðunum sem ég held að við eigum að horfa til og nota og einn hluti af því er auðvitað að halda reglulega námskeið fyrir leiðsögumenn.