138. löggjafarþing — 142. fundur
 15. júní 2010.
afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[10:09]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að það sé ekki ásetningur hennar að afgreiða mál er varða skuldavanda heimilanna ókláruð og hálfkláruð héðan frá Alþingi. Það er tilefni fyrirspurnar minnar. Ég er mjög hugsi eftir eldhúsdagsumræður í gærkvöldi sem ég vona að hæstv. forsætisráðherra hafi haft tök á að kynna sér vegna þess að það var mikið rætt um virðingu Alþingis. Það kom fram hörð gagnrýni á Alþingi og vinnubrögðin. Ég hef verið að hugsa þetta núna og er algerlega komin á þá skoðun að þetta snúist fyrst og síðast um skipulagsleysi og skort á verkstjórn.

Í aðdraganda myndunar þessarar ríkisstjórnar var mikið rætt um að það hefði verið skortur á verkstjórn. Það er kannski ekki sú mynd sem menn fá af þinginu. Hér hafa fjöldamörg mál verið afgreidd. Um fjöldamörg mál sem eru á dagskrá dagsins í dag er ekki ágreiningur. Það fer minna fyrir því í fréttum. Nú þegar við stöndum hér á degi sem átti að vera seinasti dagur þingsins er staðan enn þannig að nokkur stór ágreiningsmál eru að þvælast fyrir því að við getum klárað þau mál sem sátt er um og, það sem verra er, það tefur okkur í að einbeita okkur að því verkefni sem á að vera okkar brýnasta og það er að klára skuldavandamál heimilanna.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að hæstv. forsætisráðherra taki á sig rögg, sýni nú þá miklu þingreynslu sem hún býr yfir, hokin af þingreynslu, reynslumesti þingmaðurinn í þessum sal, og setji til hliðar þau ágreiningsmál sem eru, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í ræðu sinni í gær mikilvæg, en ekki mest áríðandi (Forseti hringir.) þannig að við getum í verki sameinast um að klára brýn mál í sátt og Alþingi til sóma.



[10:12]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við þessu vil ég segja að ég held að allir sanngjarnir þingmenn hljóti að viðurkenna að sá vetur sem við höfum gengið í gegnum hefur verið mjög erfiður (Gripið fram í.) og miklu meiri, fleiri og þyngri mál verið flutt en gerist og gengur á almennum þingum undir eðlilegum kringumstæðum. Ég held að allur þingheimur hafi lagt sig fram um að leysa vel þau mál sem fyrir hann hafa verið lögð. Þau hafa verið óvenjumörg, þau hafa mörg komið seint fram, því miður, en við stöndum í fordæmislausum aðgerðum vegna hrunsins, bæði vegna heimilanna og fyrirtækja sem við erum að reyna að bjarga.

Það er alveg ljóst að menn leggja misjafnt mat á það hvað þeir telja stór og mikilvæg mál sem brýnt er að leysa og afgreiða með einhverjum hætti fyrir þinglok. Flokkarnir leggja misjafna áherslu á hvaða mál eru brýn og þurfi að afgreiða. Ég held að eitt standi þó upp úr og það er að flokkarnir leggja allir áherslu á að klára þennan svokallaða heimilispakka, aðgerðirnar fyrir heimilin. Ég vil fyrir mitt leyti standa að því að ef við þurfum meiri tíma en gert er ráð fyrir í dagskrá þingsins tökum við hann. Mér sýnist stefna í að við þurfum að vera hér einn dag síðar í þessum mánuði til að geta endanlega klárað þessi mál þannig að réttarfarsnefnd fái tækifæri til að fara yfir atriði sem ýmsir vilja að hún fari betur yfir þannig að við séum sæmilega örugg á því að við séum með heimilispakka sem haldi í öllum atriðum Menn vilja láta skoða áður örfá þeirra mála sem þar hafa verið rædd. Við sjáum vonandi til lands með þetta allt saman í dag. Ég hef boðað til formannafundar strax að afloknum óundirbúnum fyrirspurnum, (Forseti hringir.) og þá atkvæðagreiðslum ef fyrir hendi eru, til að freista þess að fá lyktir í þetta þinghald.



[10:14]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra ætli sér að taka ráðleggingum okkar sjálfstæðismanna og ganga þannig frá þessum skuldavandamálum að við getum verið sannfærð um að þau komi ekki í hausinn á okkur öllum sem óvönduð löggjöf. Ég fagna því. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra um að þetta hefur verið fordæmalaus vetur og það er svo sannarlega áherslumunur á milli flokkanna um hvað eru brýn áherslumál. Það er áherslumunur á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um það hvort breytingar á Stjórnarráðinu og sameining ráðuneyta með þeim hætti sem lagt er upp með sé forgangsmál. Ég hef fengið samtöl frá þingmönnum Vinstri grænna þar sem þeir nánast grátbiðja mig um að aðstoða sig við að koma í veg fyrir að mælt verði fyrir því máli. Þetta er ekki forgangsmál. Það er ekki forgangsmál að breyta varnarmálalögum með þeim hætti að hér séu allir hlutir í uppnámi, (Forseti hringir.) að við vitum ekki hvert verkefnin fara. Það er enginn ágreiningur um að við viljum leita leiða til að hagræða bæði í Stjórnarráðinu (Forseti hringir.) og varðandi öryggis- og varnarmál okkar en við erum ekki tilbúin til að gera það með einhverjum (Forseti hringir.) handarbakavinnubrögðum með allt í upplausn. Vinnum nú sannarlega saman það sem eftir er.



[10:15]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var aldeilis athyglisverð yfirlýsing að þingmenn Vinstri grænna séu grátandi á öxl hv. þingmanns og grátbiðji hana um að koma í veg fyrir að stjórnarráðsmálið fái umræðu á þingi. Það eru bara allt aðrar upplýsingar en ég hef. Ég hef verið í góðu sambandi við vinstri græna í þessu máli, líka þá sem ég veit að hafa verið andsnúnir því að þetta mál komi á dagskrá þingsins og fari til nefndar. Við leggjum mörg áherslu á þetta mál, ekki bara í hagræðingarskyni. Hrunskýrslan svonefnda leggur áherslu á að fækka ráðuneytum og sameina m.a. til að við getum farið í hagræðingar í stofnunum. Þetta er líka brýnt mál út af fjárlagagerðinni. Ég efa það ekki að ég geti náð góðri samvinnu við stjórnarliða um að það mál sem hv. þingmaður nefnir fái að komast til nefndar.

Af því að hér er talað um verkstjórn tel ég það vera kraftaverk við skyldum hafa náð stjórnlagaþinginu í gegn, sem er kannski eitt stærsta mál þingsins sem nú er að verða að (Forseti hringir.) lögum. Um það var bullandi ágreiningur fyrir tveimur vikum en ég tel að það sé m.a. vegna góðrar verkstjórnar sem það mál er að komast í höfn.