138. löggjafarþing — 142. fundur
 15. júní 2010.
erfðabreyttar lífverur, 2. umræða.
stjfrv., 516. mál (EES-reglur, upplýsingagjöf til almennings). — Þskj. 903, nál. 1211 og 1330.

[20:22]
Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. umhverfisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, á þingskjali 1211.

Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölmarga gesti sem upp eru taldir á nefndarálitinu, fimmtu uppprentun þess, og ég vísa til þess, ég ætla ekki að lesa þá alla upp. Ég vek athygli á því að það nefndarálit sem hér er kynnt er ný útgáfa, önnur en sú sem birtist á vefsíðu Alþingis fyrir helgi ef það kynni að valda misskilningi. Þetta er fimmta uppprentun, nefndarálit sem gengið var frá síðastliðinn mánudagsmorgun.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur. Breytingunum er einna helst ætlað að kveða ítarlegar á um málsmeðferðarreglur þegar sótt er um leyfi til að markaðssetja, sleppa eða dreifa af ásetningi erfðabreyttum lífverum. Meðal annars er kveðið á um að leyfisbeiðandi skuli láta fara fram mat á umhverfisáhættu þegar hann sækir um leyfi til að sleppa eða dreifa erfðabreyttum lífverum auk þess sem nýjum ákvæðum er að meginstefnu ætlað að tryggja að almenningur hafi meiri aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku en verið hefur þegar erfðabreyttar lífverur eru annars vegar. Þá er lagt til að við lögin bætist gjaldskrárheimild. Samkvæmt gildandi lögum er Umhverfisstofnun nú þegar heimilt að krefja umsækjanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna sérstakra rannsókna eða úttekta sem gera þarf vegna umsóknar enda hafi umsækjanda verið tilkynnt um kostnaðinn og hann haft tækifæri til að draga umsókn sína til baka áður en til hans stofnast. Við þetta bætist nú heimild til að krefjast endurgreiðslu kostnaðar vegna kynningar sem fer fram á umsókn. Meiri hlutinn áréttar að ákvörðun um gjaldtöku fyrir kynningu og samráð skuli vera gagnsæ og skilmerkileg og telur nefndin að ákvæði 14. gr. frumvarpsins uppfylli það.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/ EBE. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 136. þingi og rann frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf út 28. mars 2008. Á 137. þingi, þ.e. á síðasta þingi, afgreiddi umhverfisnefnd málið frá sér með nefndaráliti og breytingartillögum. Málið hlaut þó ekki lokaafgreiðslu á því þingi en frumvarpinu hefur þó að mestu leyti verið breytt, að þessu sinni til samræmis við tillögur nefndarinnar.

Nefndin hefur fjallað um málið og telur meiri hlutinn mikilvægt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku vegna mála er varða sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Þrátt fyrir að meiri hluti þeirra breytingartillagna sem lagðar voru fram á 137. löggjafarþingi hafi verið færðar í frumvarpið telur nefndin að þörf sé á frekari breytingum.

Frumvarpið leggur til breytingar á markmiðsgrein laganna til að hnykkja á varúðarreglunni, eða því sem nefnt er Precautionary Principle, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar og 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Nefndinni hafa verið kynnt sjónarmið þess efnis að ekki væri rétt að fullyrða í markmiðssetningunni um skaðsemi erfðabreyttra lífvera og er tekið tillit til þeirra athugasemda í nefndarálitinu. Því er kveðið á í breytingartillögu um hugsanlega skaðleg og óæskileg áhrif. Er hér ekki um að ræða efnisbreytingu þar sem þetta samrýmist inntaki varúðarreglunnar. — Til að skýra þetta betur er orðinu „hugsanlega“ bætt inn.

Í tengslum við 2. gr. frumvarpsins ræddi nefndin nokkuð innflutning og merkingar á vörum sem innihalda erfðabreyttar lífverur. Meiri hlutinn áréttar að þrátt fyrir að lögin taki til innflutnings og merkinga, markaðssetningar, sölu og annarrar afhendingar erfðabreyttra lífvera og vöru eða hluta úr vöru sem inniheldur þær taka þau ekki til matvæla til manneldis. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að rétt væri að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins nr. 1829/2003/EB um erfðabreytt matvæli og fóður og nr. 1830/2003/EB um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem inniheldur erfðabreyttar lífverur. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að neytendur séu upplýstir um innihald þeirra matvæla sem þeir neyta og leggur áherslu á að umræddar reglugerðir verði innleiddar sem fyrst.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á a-lið 2. gr. frumvarpsins enda er ákvæðið ekki í samræmi við samsvarandi ákvæði tilskipunarinnar. Til samræmis eru einnig lagðar til breytingar á a-lið 7. gr. og 2. mgr. 13. gr. Til þess að gildissvið laganna sé í samræmi við tilskipunina er lögð til breyting á þessu orðalagi.

Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 4. mgr. 2. gr. laganna verði felld brott þar sem kveðið er á um að við framkvæmd laganna skuli höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð. Fyrir nefndinni kom fram mikil og hávær gagnrýni á að fella ætti ákvæðið brott og telur meiri hlutinn ákvæðið mikilvægt vegna sérstöðu náttúru landsins, hinnar fábreyttu flóru og viðkvæms vistkerfis sem rekja má til norðlægrar legu landsins. Þá telur meiri hlutinn rökstuðningi við þessa breytingu ábótavant og leggur til að ákvæðið haldist í lögunum.

Í c-lið 3. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hugtakinu „slepping og dreifing“. Í frumvarpstextanum er víðast hvar eingöngu notað orðið „slepping“ sem hefur ekki sjálfstæða orðskýringu. Í lögunum sjálfum eru þessi orð ávallt notuð til samræmis við orðskýringu. Til að gæta lagasamræmis og þess að merking laganna sé skýr leggur meiri hlutinn til að eins verði farið með þetta í frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um fullnægjandi tálmanir sem hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 15. gr. frumvarpsins enda er ákvæðið ekki í samræmi við samsvarandi ákvæði tilskipunarinnar þar sem í 9. gr. hennar er kveðið á um að aðildarríki skuli hafa samráð um fyrirhugaða sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu við almenning og eftir því sem við á við tiltekna hópa. Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að einungis verði um heimildarákvæði að ræða. Nefndin telur rétt að leiðrétta misræmi hvað þetta varðar í orðalagi íslenskrar þýðingar tilskipunarinnar og enskrar útgáfu hennar. Til að gera samráðsferlið aðgengilegt og almennt er mikilvægt að ljóst sé hvaða reglur og tímafrestir gilda um samráð og leggur því meiri hlutinn til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð sem kveði nánar á um fyrirkomulag samráðsins, tímafresti o.fl.

Meiri hlutinn fjallaði um nauðsyn þess að útskýra nánar hvað felst í hugtökunum líffræðilegur fjölbreytileiki, í hugtakinu varúðarreglu og hugtakinu sjálfbærri þróun og leggur meiri hluti nefndarinnar til breytingartillögu þess efnis.

Ég ætla að gera grein fyrir þessum orðskýringum eins og þær eru kynntar í breytingartillögunni. Líffræðileg fjölbreytni er skýrð þannig að eins og hugtakið lífríki nái hugtakið til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er gerð úr og birtingarforma hennar. Líffræðileg fjölbreytni spannar náttúrulegan og manngerðan breytileika á öllum skipulagsstigum lífsins, frá erfðavísum og tegundum til vist- og lífkerfa.

Sú orðskýring sem lögð er til um sjálfbæra þróun hljóðar þannig:

„Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum.“ — Hér á að standa komandi kynslóða, frú forseti, og ég geri þá athugasemd. — „Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar, sbr. 1. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.“

Hugtökin slepping eða dreifing eru skilgreind þannig: „Slepping eða dreifing er sú aðgerð þegar erfðabreyttar lífverur, eða vara eða hluti úr vöru sem hefur þær að geyma, eru ræktaðar, aldar eða þeim sleppt eða dreift af ásetningi utan húss án þess að þær séu lokaðar af með fullnægjandi tálmunum sem hindra að þær geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.“

Hér hefur bæst inn í orðskýringuna um sleppingu af ásetningi og vörur eða hluta úr vöru sem innihalda erfðabreyttar lífverur.

Varúðarreglan er síðan skýrð þannig að hún feli í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Það felur í sér að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar aðgerða fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans í samræmi við 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.

Aðrar breytingartillögur sem nefndin gerir birtast í sjálfu nefndarálitinu á þingskjali 1211.

Vegna misskilnings sem gætt hefur varðandi upplýsinga- og samráðsskyldu almennings vill meiri hluti umhverfisnefndar árétta að skylda Umhverfisstofnunar til að upplýsa um sleppingu erfðabreyttra lífvera, sem kveðið er á um í b-lið 7. gr., er ekki af sama toga og skylda stofnunarinnar til samráðs skv. 15. gr. frumvarpsins. Stofnuninni er skylt að upplýsa um sleppingu en áður en slík slepping á sér stað skal í samræmi við breytingartillögu nefndarinnar hafa samráð og nær það samráð til fyrirhugaðrar sleppingar, dreifingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera.

Að lokum vill meiri hlutinn árétta mikilvægi þess að ráðgjöf vegna starfsemi erfðabreyttra lífvera sé ekki einungis byggð á náttúruvísindum heldur einnig á siðferðislegu og samfélagslegu mati. Mikilvægt er að þessi sjónarmið vegi jafnþungt á metum.

Þá leggur meiri hlutinn til smávægilegar breytingar til leiðréttingar á tilvísunum í kafla og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið kynntar og enn fremur þeim breytingum sem fram koma á nefndarálitinu á bls. 3 og 4.

Undir nefndarálitið rita Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Margrét Pétursdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Það má geta þess, frú forseti, í þessu samhengi að nefndin fjallaði allítarlega um frumvarpið. Hún hélt um það átta fundi og allnokkur vinna var lögð í nefndarálit sem hér liggur fyrir. Það er alveg ljóst að þetta mál snýst ekki um það hvort við erum með eða á móti starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Sú starfsemi fer fram í landinu nú þegar og starfandi eru fjölmörg líftæknifyrirtæki sem vinna með ræktun og tilraunir með erfðabreyttar lífverur. Hér er einungis verið að styrkja lagarammann og regluverkið utan um slíka starfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að málið hafi fengið góða og ítarlega umfjöllun í umhverfisnefnd og ég vil nota tækifærið og þakka nefndarmönnum, jafnvel þeim sem ekki eru á nefndarálitinu, fyrir samstarfið og fróðlegar og gagnlegar umræður sem fóru fram í nefndinni um málið.



[20:36]
Frsm. minni hluta umhvn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Áður en ég geri grein fyrir því nefndaráliti sem hér liggur fyrir á þingskjali 1330 vil ég taka undir ákveðna þætti í máli hv. formanns umhverfisnefndar, Ólínu Þorvarðardóttur. Það er vissulega svo að í sambandi við þetta frumvarp er ekki verið að taka afstöðu til þess í sjálfu sér hvort fyrir hendi skuli vera starfsemi sem byggir á erfðatækninni í sambandi við erfðabreyttar lífverur og rétt er að sú tækni er nýtt hér á landi. Greinilegt að það eru gríðarlega heitar tilfinningar og mjög skiptar skoðanir víða í samfélaginu um þann þátt en frumvarpið sem slíkt snýst ekki um þá grundvallarspurningu, það er hárrétt hjá hv. formanni nefndarinnar. Hins vegar verður ekki hjá því komist að geta þess að frumvarpið snýst að hluta til, a.m.k. að nokkrum hluta, um það hversu auðvelt eða erfitt fyrirtækjum sem byggja á þessari tækni í starfsemi sinni á að vera að starfa hér á landi. Um það held ég að núningsfletirnir á málinu snúist. Vilja menn gera málsmeðferð og aðra þætti sem snúa að starfsumhverfi fyrirtækja og annarra aðila sem starfa á þessu sviði þyngri í vöfum eða vilja menn gera þá léttari? Það er önnur hliðin. Hin hliðin er auðvitað sú hlið sem snýr að hagsmunum og réttindum annarra en þeirra sem beinlínis starfa á þessu sviði, hvernig hagsmuna þeirra er gætt, og eins og getið er um í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar er þar auðvitað stöðugt um hagsmunamat að ræða.

Eins og hv. formaður umhverfisnefndar gat um hefur málið tekið nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar. En rétt er að geta þess að þegar meiri hluti nefndarinnar tók ákvörðun um að taka málið út úr nefndinni með afgreiðslu á frumvarpinu þann 4. júní sl. var því mótmælt eindregið af hálfu minni hlutans, sem taldi málið með engu móti fullrætt innan nefndarinnar og taldi að fjöldamörgum spurningum væri enn ósvarað og fara þyrfti betur yfir málið. Þeim sjónarmiðum minni hlutans var hafnað á þeim fundi og segja má að þar hafi skorist í odda um þá málsmeðferð. Meiri hlutinn taldi að málið væri í þannig búningi að hægt væri að klára það en minni hlutinn taldi svo ekki vera. Meiri hlutinn hefur hins vegar tekið málið upp á fleiri fundum eftir að málið var tekið út úr nefndinni og gert breytingar á nefndaráliti sínu og breytingartillögum. Vissulega ber að fagna því að meiri hlutinn hafi talið ástæðu og í verki fallist á það að tilefni væri til að skoða ákveðna þætti málsins nánar. Það er út af fyrir sig jákvætt. Og ég held að sú umræða sem farið hefur fram í nefndinni á undanförnum kannski tveimur vikum hafi verið gagnleg fyrir alla þá aðila sem tóku þátt í henni og orðið til þess að skýra frekar suma þætti málsins, alls ekki alla að mínu mati og minni hluta nefndarinnar en þó orðið til þess að varpa frekara ljósi á málið. Hitt er annað mál að í ljósi þeirrar eftirmeðferðar sem málið hefur fengið af hálfu umhverfisnefndar eftir að málið var tekið út úr henni verður sífellt erfiðara að átta sig á því af hverju málið var tekið út í snarhasti á fundi þann 4. júní því að eins og kemur fram í 5. uppprentun á nefndaráliti meiri hlutans, sem dagsett er 14. júní, hefur þetta tekið töluverðum breytingum frá því sem áður var. Sumt er til bóta, annað finnst mér umhugsunarefni og ég kem kannski nánar að þeim þáttum í sambandi við einstaka þætti á eftir.

Við getum þess, minni hluti umhverfisnefndar, í áliti okkar, við byrjum á því að mótmæla afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpinu og ítrekum að við teljum að athugun málsins og umræðu hafi ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Þau ummæli standa þó að málið hafi fengið betri skoðun eftir fyrstu afgreiðslu af hálfu nefndarinnar. Það er rétt, eins og við getum um í nefndarálitinu og ég ætla ekki að lesa það upp, það er að finna í 2. mgr. álitsins, að af hálfu gesta og umsagnaraðila eru mjög skiptar skoðanir um efni þessa máls og það sem kannski hlýtur að valda okkur nefndarmönnum í umhverfisnefnd og öðrum sem um þetta fjalla mestum vandræðum er þetta, eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Fullyrðingar umsagnaraðila um mikilvæga þætti málsins stangast á og gerði nefndin ekki nægar tilraunir til þess að afla viðbótarupplýsinga þannig að unnt yrði að meta með fullnægjandi hætti hvað rétt sé í þeim efnum.“

Þetta stendur að mínu mati þó að ákveðnir þættir hafi verið upplýstir frekar en ég kem nánar að þeim atriðum á eftir. Síðan segir í nefndaráliti minni hlutans:

„Frumvarpið hefur þann tilgang að innleiða í íslenska löggjöf tilskipun Evrópusambandsins um erfðabreyttar lífverur í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst er að tilskipunin veitir aðildarríkjunum nokkurt svigrúm í sambandi við útfærslu einstakra ákvæða og er að sjálfsögðu mikilvægt að vandað sé til verka í þeim efnum. Ljóst er að útfærslan í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er með mismunandi hætti en talsvert skortir á að upplýst sé hver sá munur er. Þetta atriði skiptir verulegu máli, enda komu fram fyrir nefndinni bæði fullyrðingar í þá átt að með frumvarpinu væri gengið of skammt miðað við sum nágrannalöndin og að gengið væri of langt.“

Samanburður við önnur lönd er veigamikið atriði í þessu sambandi, ekki síst í ljósi samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og rannsóknastofnana á þessu sviði og möguleikum Íslands á því að byggja upp aukna starfsemi í líftækni, bæði í rannsóknum og iðnaði.

Á þetta vil ég leggja áherslu vegna þess að það er yfirlýst stefna stjórnvalda og ég hygg allra íslenskra stjórnmálaflokka að efla starfsemi á þessu sviði. Það hefur verið horft mjög til líftækni, eins og reyndar annarra greina í sprotastarfsemi hér á landi, að þar væri möguleiki á því að efla íslenskt atvinnulíf með því móti að fjölga störfum, vel launuðum áhugaverðum störfum fyrir fólk með mikla menntun að baki. Þegar samkeppnisstaðan er skoðuð í samanburði við önnur lönd áttum við okkur á því hvar skórinn kreppir og hvar við getum gert betur.

Í sambandi við meðferð þessa frumvarps er ekki hægt að segja að umhverfisnefnd hafi af neinu viti farið yfir það hvernig löggjöf í þessum efnum er háttað í nágrannalöndunum. Við fengum norska lagatexta en ekki frá öðrum löndum sem við hljótum líka að bera okkur saman við. Þetta skiptir máli af því að það var verið að vísa í það af hálfu umsagnaraðila og gesta hvernig hlutirnir væru annars staðar. Sumir sögðu að við værum að ganga allt of langt miðað við nágrannalöndin. Aðrir sögðu að við gengum allt of skammt. Ég veit ekki til þess að kallað hafi verið eftir því eða lagt fyrir nefndina neitt sem gefur okkur upplýsingar í þessu sambandi.

Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir fór á eigin vegum í ákveðna gagnaöflun í þessu sambandi. Það var hins vegar á síðustu stigum málsins og hún á þakkir skildar fyrir framtak sitt en það verður ekki hægt að segja að nefndin hafi gefið þessum þáttum nægan gaum í störfum sínum.

Í nefndarálitinu komum við inn á nokkra þætti sem við teljum að skoða þurfi betur, m.a. það að við sjáum gagnrýni frá ýmsum aðilum varðandi orðalag frumvarps og textatilskipunarinnar, að orðalagið sé ekki í samræmi við textann. Ég sé í nýjustu útgáfunni af nefndaráliti meiri hlutans að þar hefur verið komið að einhverju leyti til móts við þessar athugasemdir.

Í öðru lagi nefnum við að bent hefur verið á að orðið hafi töluverð þróun í rétti innan Evrópusambandsins á þessu sviði frá því að tilskipunin sem verið er að innleiða var sett fyrir níu árum. Það verður að segjast eins og er að nefndin hafði afar takmarkaðar upplýsingar um það hvernig sú þróun hefur verið.

Í þriðja lagi er atriði sem ég vék að áðan í sambandi við landsrétt annarra ríkja og við látum þá nægja að nefna bara þá þætti frumvarpsins sem eru kannski hvað umdeildastir.

Í fjórða lagi og hitt atriðið sem ég nefndi áðan er spurningin um það hvernig samrýmist frumvarpið þeim markmiðum stjórnvalda að ýta undir þróun rannsókna og nýsköpun og uppbyggingu atvinnustarfsemi á sviði líftækni. Þess vegna var það afstaða okkar, eftir að málið hafði verið til umfjöllunar hjá umhverfisnefnd milli 1. og 2. umr., að það væri nauðsynlegt að málið kæmi inn milli 2. og 3. umr. en ég veit ekki, í ljósi þess samkomulags sem hefur verið gert um lok þingstarfa á morgun, hvort raunhæft er að fara fram á það eða hvort það hefur yfir höfuð nokkra þýðingu. En alla vega er ljóst að þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni var það afstaða okkar að rétt væri að afgreiða ekki málið í vor heldur fresta því til haustsins þannig að betri tími gæfist til að skoða þá þætti sem við teljum að staldra þurfi betur við. Þetta var afstaða okkar og hún stendur þó að það hafi orðið ákveðnar breytingar á nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans.

Við teljum síðan upp í nefndarálitinu nokkur atriði sem við teljum að geti valdið vandkvæðum í sambandi við túlkun laganna, t.d. í sambandi við hugtakanotkun. Það er komin inn í ákvæði frumvarpsins tilvísun til líffræðilegs fjölbreytileika sem hefur ekki fastmótaða skilgreiningu í íslenskum lögum, og jafnvel þó að í tillögum meiri hlutans sé gerð tilraun til að orða það í lagatextanum, sem auðvitað hefur nokkra þýðingu og birtist m.a. í breytingartillögu 3.a í nefndaráliti meiri hlutans, erum við kannski ekki komin með neitt mjög skýrt mótaða reglu þar.

Sama á við um þá skilgreiningu sem sett er fram varðandi varúðarregluna í 3.d að það er álitamál hversu mikla leiðsögn má fá út úr þeirri reglu, sérstaklega þegar maður veltir fyrir sér hvernig menn ná þeirri vísindalegu fullvissu sem vísað er til í orðskýringunni samkvæmt breytingartillögunni. Það nægir alveg að benda á, ég hygg að jafnvel raunvísindamenn þekki það og hafi bent á það að erfitt geti verið að sýna fram á vísindalega fullvissu fyrir einhverju, og þá er spurning hversu strangar kröfur eru gerðar í því sambandi og við vekjum athygli á því. Þó að við hyggjumst ekki gera stóran ágreining um þetta atriði sérstaklega vekjum við athygli á því að þetta geti valdið vandkvæðum í framkvæmd einkum ef um er að ræða mjög stífa eða stranga túlkun á þessu ákvæði.

Það er vissulega rétt að hugtökin líffræðilegur fjölbreytileiki og raunar varúðarreglan líka eru liður í alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland á aðild að. Það breytir því hins vegar ekki að það getur verið erfitt. Við þekkjum það að alþjóðlegar yfirlýsingar og sáttmálar eru stundum orðaðir með tiltölulega almennum hætti sem getur verið erfitt að framfylgja með lögum. Þegar kemur að því að útfæra þetta og framfylgja með lögum getur verið erfitt að byggja á þeim almennu og mjög oft opnu skilgreiningum sem felast í hinum alþjóðlegu yfirlýsingum. Auðvitað er ákveðin ástæða til að ætla að ströng túlkun á þessum opnu hugtökum geti valdið vandkvæðum fyrir þá aðila sem þurfa að sækja um leyfi og annað slíkt eftir þeim reglum sem hér er verið að setja.

Til að stytta mál mitt ætla ég aðeins að nefna eitt atriði sérstaklega í viðbót sem varðar reyndar þrjá þætti í frumvarpinu. Það eru atriði sem varða svona ákveðin vandamál sem leyst eru af hálfu meiri hlutans í sambandi við breytingartillögurnar með því að veita ráðherra reglugerðarheimild. Þarna er um að ræða breytingarnar sem varða t.d. 6. gr. Í tillögum meiri hlutans segir:

„Við 6. gr. bætist nýr liður sem orðist svo: Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um fullnægjandi tálmanir sem hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur, líffræðilega fjölbreytni eða umhverfið.“

Þetta er eitt. Þarna vorum við að fást við þetta og sáum kannski ekki í fljótu bragði augljósa lausn í störfum umhverfisnefndar en þarna er þessu vísað alfarið til ráðherra að finna lausnina.

Í annan stað er það atriði í 10. breytingartillögu meiri hlutans, breytingartillögu við 15. gr. þar sem fjallað er um samráð við almenning o.fl. Þar segir í textanum:

„Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag samráðs og funda, t.d. tímafresti o.fl.“

Þarna staldra ég og við í minni hlutanum kannski helst við tímafrestina. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að í lagatexta sé endanlega útfært allt sem varðar framkvæmd funda af þessu tagi, en ég velti hins vegar fyrir mér hvort tímafrestir og annað séu ekki þess eðlis að kveða þyrfti á um það í lagatextanum. Mér er kunnugt um að t.d. umhverfisráðuneytið er annarrar skoðunar og telur að þetta sé í samræmi við það sem annars staðar gerist, en ég held að í ljósi þess og í ljósi ákveðinnar umræðu sem við höfum tekið um tímafresti í sambandi við málsmeðferð hjá stjórnvöldum, m.a. á sviði umhverfismála, væri til bóta ef þarna væri fjallað um tímafrest í lagatextanum.

Loks ætla ég að nefna eitt atriði og það varðar 14. gr. frumvarpsins sem lýtur að gjaldtökuheimild, lýtur að heimild Umhverfisstofnunar til að krefjast endurgreiðslu á kostnaði sem stofnunin verður fyrir vegna sérstakra rannsókna, úttekta eða kynningar. Þarna viljum við árétta af hálfu minni hlutans að við teljum fulla ástæðu til að hafa þessa heimild stofnunarinnar afmarkaða með skýrari hætti þannig að hún hafi ekki sjálfdæmi um þessa gjaldtöku. Ég heyrði í framsöguræðu hv. formanns umhverfisnefndar að hún lagði áherslu á mikilvægi þess að þarna væri um að ræða gagnsæi og slíkt og ég tek eindregið undir það. Ég átta mig hins vegar ekki á því í fljótu bragði hvernig það kemur fram í breytingartillögunum eða lagatextanum. En ég tek eindregið undir það markmið sem kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, Ólínu Þorvarðardóttur, að það væri mikilvægt að þarna væri um gagnsæi að ræða þannig að þeir aðilar sem sækja um leyfi geti fyrir fram gert sér glögga mynd af því við hvaða kostnaði þeir megi búast áður en ferlið fer af stað.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Þarna er um að ræða atriði sem eru kannski ekki svo stór í heildarsamhenginu, þ.e. þarna er fyrst og fremst um að ræða, við höfum séð það í umsögnum frá hagsmunaaðilum og fleirum, að það koma fram áhyggjur af því að með breytingum sem felast í frumvarpinu sé verið að opna á það að þeir þurfi að sæta strangari túlkun en áður. Ég hygg að með því að fara þá leið sem við í minni hluta umhverfisnefndar lögðum upp með í upphafi, að kæla málið niður ef svo má segja nú í vor og fresta afgreiðslu þess fram á haustið, hefði verið unnt að ná lendingu í a.m.k. talsvert fleiri af þeim álitamálum sem hér eru uppi. En það er vilji meiri hluta umhverfisnefndar að málið hljóti afgreiðslu nú og það liggur þá líka ljóst fyrir að það er í andstöðu við minni hlutann.



[20:59]
Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér rétt aðeins til þess að gera athugasemd við upphafsorð nefndarálits minni hluta hv. umhverfisnefndar þar sem minni hlutinn mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og vísar til fyrstu afgreiðslu nefndarinnar frá 4. júní. Málið var ekki afgreitt úr hv. umhverfisnefnd fyrr en 14. júní og máli er ekki lokið fyrr en því er lokið.

Ég mótmæli því að nefndin hafi ekki gert tilraunir til að upplýsa með fullnægjandi hætti eða afla frekari gagna vegna afgreiðslu þessa máls. Þvert á móti var töluvert á sig lagt til þess. Hv. þingmaður sat sjálfur fundinn þar sem formaður gerði könnun á því meðal nefndarmanna hvort vilji væri fyrir því að taka málið út og sá vilji reyndist vera fyrir hendi hjá meiri hluta nefndarinnar. Síðan tók formaður það beinlínis að sér að vinna málið betur með þeim breytingum sem síðan hafa orðið á þessu frumvarpi og málsmeðferð þess.

Þingmaðurinn vísar í það að þingmenn hafi á eigin vegum farið í gagnaöflun til þess að upplýsa málið frekar, það er vissulega rétt. Ég geri þá kröfu til allra nefndarmanna í öllum nefndum þingsins að þeir fari í sjálfstæða gagnaöflun vegna þeirra mála sem verið er að taka út úr nefndum. En auk þess lagði nefndin á sig töluvert starf við að afla gagna.

Síðan vil ég minna á það að hv. þm. Birgir Ármannsson var sjálfur á nefndaráliti vegna þessa máls á 137. þingi en það er nákvæmlega í þeim búningi sem málið var lagt á borð umhverfisnefndar að þessu sinni. Mér finnst því athyglisvert hversu ósáttur hann er við upplýsingaöflun og þann tíma sem farið hefur í að ræða þetta frumvarp í ljósi þess að hann tók þátt í umfjöllun þess allt þingið þar á undan og var á nefndarálitinu sem (Forseti hringir.) lagði drög að frumvarpinu eins og það var lagt fyrir nefndina núna.



[21:01]
Frsm. minni hluta umhvn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara örstutt. Það er rétt sem hv. þm. og formaður umhverfisnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, getur um að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson stóðum að afgreiðslu sambærilegs máls úr umhverfisnefnd í fyrrasumar þegar var verið að afgreiða með þó nokkru hraði fjöldamörg mál af því að menn héldu á þeim tíma að verið væri að efna til stutts sumarþings. Ég man ekki dagsetningarnar í þessu sambandi. En hitt er annað mál og ég játa það fúslega að ég hefði átt að kynna mér málið betur þá. Ég játa það fúslega. Þess vegna var ég staðráðinn í að láta þau mistök ekki endurtaka sig núna.

En varðandi málsmeðferðina þá hef ég aldrei orðið vitni að því áður í störfum þingsins að eitt mál sé jafnoft tekið út úr einni nefnd í sömu umræðu. Almenna reglan eins og ég hef kynnst störfum þingsins er sú að þegar mál eru tekin út úr nefnd þá er umfjöllun þeirra í nefndinni lokið, þ.e. mál eru ekki tekin út úr nefnd fyrr en umfjöllun er lokið. Síðan er sá möguleiki að taka mál aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. ef frekari breytingar hafa átt sér stað. Ég er alls ekki að gagnrýna hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að hafa tekið málið fyrir á nokkrum fundum eftir úttekt málsins, ég er ekki að gagnrýna hana fyrir það. Það eru harla óvenjuleg vinnubrögð en það er ágætt og upplýsti málið í þessu tilviki. Það sýnir að það var fullkomlega ótímabært að lýsa umfjöllun um málið lokið þann 4. júní þegar endanlegt nefndarálit meiri hlutans birtist ekki fyrr en 10 dögum síðar.



[21:04]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur. Mig langaði bara að segja frá því að í sjálfu sér hefði ég getað verið á hvoru nefndaráliti sem er, þ.e. bæði meirihluta- og minnihlutaálitinu. Ég er þeirrar skoðunar að þegar frumvarpið kom inn í þingið og til nefndarinnar hafi það ekki verið nægilega gott. Það sem mér þótti aðallega óþægilegt var að þar voru nokkur mjög gildishlaðin hugtök sem ég gat ekki og hef ekki enn fundið í tilskipun Evrópusambandsins sem er verið að leiða í lög með þessu frumvarpi.

Frumvarpið hefur lagast mjög mikið að mínu mati með hugtakaskýringum en ég vil þó hafa þann vara á að nefndin hafði ekki tök á að ræða skýringarnar neitt sérstaklega. Þær eru að vissu leyti alþjóðlegar, að vissu leyti staðlaðar íslenskar en þó ekki alveg og eftir því sem bestu fagmenn segja mér ber að íhuga vandlega hvernig svona gildishlaðin hugtök eins og um ræðir séu fléttuð inn í lög. En vissulega hefur frumvarpið tekið miklum breytingum til batnaðar eins og ég vildi segja og ég tel mjög mikilvægt að við sjáum til þess að líftækniiðnaðurinn fái að þróast á Íslandi. Að sjálfsögðu gætum við fyllsta öryggis. Það er mjög mikilvægt að við gætum fyllsta öryggis en ég frábið okkur að vera með mikið trúarofstæki í þeim efnum. Vísindamenn hafa hvorki getað sannað né afsannað hættuna af erfðabreyttum lífverum. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa í samtal sem ég átti við Svein Runólfsson landgræðslustjóra sem sagði að þetta væri mikill happafengur fyrir starfið fyrir austan í Gunnarsholti og það væri ekki nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af ræktun á bygginu sem þar fer fram. Svo lýsti hann því fyrir mér og ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Við verðum að átta okkur á því að líftækniiðnaðurinn getur skapað fjöldamörg hátæknistörf fyrir hámenntað fólk út um allt land og við megum ekki setja þannig hindranir inn í frumvörp að það verði ógerningur fyrir þessi fyrirtæki að átta sig á því hvort þau geti yfirleitt fótað sig hér á landi. Það er ekki hlutverk löggjafans að standa þannig að málum. Við verðum að setja skýran ramma þannig að leyfisveitingarvaldið viti hvernig það eigi að taka á umsóknum sem til þess koma, þ.e. Umhverfisstofnun. Við eigum að stuðla að því að líftækniiðnaðurinn fái blómstrað á Íslandi. Við eigum að vera með skýrar reglur. Við eigum ekki að setja óþarfar, óútskýranlegar hindranir inn í frumvörp sem þetta.

Ég ítreka enn og aftur, frumvarpið hefur tekið miklum bótum og ég tel að ekki líði á löngu þar til við þurfum að endurskoða lög um erfðabreyttar lífverur og það vonandi strax á næsta ári.



[21:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem er góðkunningi í þinginu og hefur eðlilega hlotið töluverða umræðu í þjóðfélaginu. Það hefur í raun verið mjög gaman að fylgjast með þeim vísindamönnum og aðilum sem hafa unnið að þróun eða að því að skapa iðnað á þessu sviði. Ég vil leyfa mér að segja eftir að hafa horft til og litið mjög vandlega á hvað þeir eru að gera að þar fari frumkvöðlar sem eiga eftir að ná árangri í framleiðslu sinni og verkefnum.

Frumvarpið sem hér kemur fram er í sjálfu sér góðra gjalda vert og nauðsynlegt að endurskoða sífellt eða fara yfir lögin, ekki síst þegar hlutirnir breytast hratt og mikil framþróun er í öllum vísindum og tækni. En ég held að við verðum alltaf að stíga mjög varlega til jarðar þegar við setjum takmarkanir sem þessar, ekki síst þegar við fjöllum um greinar og iðnað sem er alveg ljóst og ég held að allir geti verið sammála um það að felast mikil tækifæri í.

Nú veit ég að ákveðnir aðilar sem eru með starfsemi á þessu sviði hér á landi hafa m.a. kynnt starfsemi sína fyrir bændum, m.a. kornbændum sem eru líklega og hafa verið í gegnum tíðina einhverjir bestu vörslumenn lands á Íslandi. Hafa þeir sýnt áhuga á því að taka þátt í frekari framþróun hjá þessu ágæta fyrirtæki sem ég er með í huga, þar á meðal að taka þátt í að framleiða bygg sem inniheldur ákveðið iðnaðarensím eða -prótín o.s.frv. Eins og fram kemur í málsgögnum og nefndarálitum með þessu frumvarpi eru eðlilega — og ég segi eðlilega — skiptar skoðanir um það hversu langt á að ganga varðandi takmarkanir eða girðingar eða hvað á að kalla það um þessa starfsemi.

Ég tek undir að það þarf að fara varlega. Ég held þó að víða sé búið að sýna fram á að hægt sé að stunda þessa starfsemi án þess að skapa verulega hættu af. Ég er mjög fylgjandi því að þessi iðnaður sem tengist t.d. framleiðslu á erfðabreyttum jurtum eða slíku sem notað er til lyfjagerðar eða framleiðslu á iðnaðarprótíni eða einhverju álíka eigi fullan rétt á sér. Við eigum í raun að styðja við þessa starfsemi sé hægt að sýna fram á, sem ég held að hafi verið gert hér, að það sé hægt að stunda hana án þess að við stofnum einstakri náttúru okkar í hættu. Eitt af því sem ég vil alls ekki að verði gert er að menn tefli náttúrunni í tvísýnu og ég tel mikilvægt að koma því á framfæri.

Í nefndarálitum er ágætlega farið yfir þetta mál. Hins vegar má ráða af nefndaráliti minni hlutans að hann telur málið hafa getað fengið og átt að fá enn betri yfirferð og umfjöllun en varð í nefndinni og velti ég fyrir mér hvort í raun sé ástæða til að málið fari í gegn, ekki síst af því að bent er á það í nefndarálitinu að von sé á skýrslu um reynslu landa innan Evrópusambandsins á því hvernig tilskipun sú sem við ætlum í rauninni að fullgilda eða fylgja eftir hafi gengið. Þetta er eitt af þeim málum sem fá mann til að velta fyrir sér af hverju við séum að flýta okkur þegar gagnrýnt hefur verið hvernig þetta hafi verið unnið og framkvæmt Það eru að koma fleiri upplýsingar og eins og kom fram í ræðu hv. þingmanna hafa jafnvel einstakir nefndarmenn þurft að leggja á sig töluvert mikla vinnu við að afla sér upplýsinga og gagna.

Í inngangi nefndarálits minni hlutans kemur fram að hann mótmæli afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpinu en það hefur líka komið fram að ákveðnar breytingartillögur og breytingar við frumvarpið liggi frammi frá meiri hlutanum og því ber að fagna. Í þeim breytingartillögum er ljós vilji meiri hlutans til að skýra þau álitaefni sem klárlega voru í nefndinni og ég held að það sé til bóta og sé jafnvel grunnur að því að um þetta mál geti orðið breiðari samstaða en ella.

Í áliti minni hlutans er jafnframt sagt frá því að fyrir nefndinni hafi komið fram ýmis sjónarmið, með eða á móti löggjöfinni og annað, og sneri gagnrýnin m.a. að því að menn töldu, minni hlutinn sérstaklega, ekki tilefni til að ganga lengra með þessa tilskipun en verið er að fullnægja með frumvarpinu.

Það eru settar fram ákveðnar spurningar við frumvarpið í nefndaráliti minni hlutans þar sem minni hlutinn rökstyður af hverju hefði þurft að vinna þetta mál enn frekar og nánar. Ég ítreka það aftur að ég er ekki sérstaklega mikill áhugamaður um að erfðabreyttar lífverur eða þessi starfsemi fái að vera óheft hér á landi, alls ekki, heldur þurfum við að vanda okkur þegar við setjum takmarkanir sem þessar til að við stofnum ekki í hættu eða stöndum í vegi fyrir mikilvægum möguleikum til framþróunar, nýsköpunar og tæknirannsókna. Við vitum að upp úr svona starfi spretta jafnan hliðarverkefni og áhugaverð verkefni. Iðnaður sem tengist þessu er að sjálfsögðu mjög verðmætaskapandi og getur skapað mikinn gjaldeyri. Þá er vitað að landbúnaðargeirinn og aðilar innan hans hafa unnið með aðilum í þessu eins og ég nefndi áðan að rannsóknum og þróun. Það er kannski til marks um að það hefur tekist að skýra málin og benda á að það sé hægt að gera þetta án þess að stofna náttúrunni í hættu.

Meðal þeirra atriða sem minni hlutinn telur að skoða þurfi er orðalag texta tilskipunarinnar, m.a. vegna þess að ekki hafi verið skýrt nógu vel hvernig það samræmist orðalagi frumvarpsins. Hér er talað um réttarþróun innan Evrópusambandsins af því að við erum vitanlega að fullnægja ákveðinni skyldu sem okkur væntanlega ber samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hvernig tilskipunin hefur verið innleidd í öðrum ríkjum og hvernig frumvarpið samrýmist markmiðum stjórnvalda um að ýta undir þróun rannsókna um nýsköpun o.s.frv.

Ég vil sérstaklega fagna því að í breytingartillögum meiri hlutans eru skýrð eins og ég sagði áðan hugtök og einstök orð. Það er t.d. komið út úr frumvarpinu að reisa veggi heldur er verið að tala um aðra þætti núna. Það er ekki eins hart kveðið að orði. Nýsköpun í þessum geira er að sjálfsögðu eitt sem við öll getum tekið undir að sé áhugaverð. Við hljótum að vilja hjálpa til við að þetta geti þróast og þeir vísindamenn sem að þessu starfa geti miðlað reynslu sinni og þekkingu en til þess þarf umhverfið vitanlega að vera í lagi.

Þó að það sé kannski ekki akkúrat til umræðu hér þá er mikið rætt um erfðabreytt matvæli út um allan heim. Ég held að sem betur fer hafi okkur Íslendingum tekist að hafa matvælaframleiðslu okkar hreina og lausa við slíkt. Við munum eiga og erum að sjálfsögðu í samkeppni um matvæli og matvælaframleiðslu og sölu á matvælum og mögulega getum við átt forskot ef við náum að halda þeim hreinleika sem er í afurðum okkar.

Við þekkjum deilurnar um kornið og hefur verið sýnt fram á að víða er mannskepnan að berjast um framleiðsluna á korni fyrir bílana við iðnaðinn þar sem notað er korn til að framleiða eldsneyti. Ég er ekki að mæla því bót en það kann að vera nauðsynlegt að nýta erfðatæknina til að sjá bifreiðum og öðru fyrir því eldsneyti svo að menn geti notið hreinna afurða.

Lyfjageirinn er gríðarlega stór og í honum felast mikil tækifæri. Þar erum við hins vegar að tala um mjög sérhæfða starfsemi, sérhæft prótín og annað sem er verið að framleiða. Hins vegar er ljóst að í ýmsum efnaiðnaði þar sem hægt er að nota unnar afurðir með þessari tækni, þ.e. nota erfðabreyttar lífverur til að framleiða ákveðna hluti fyrir framleiðsluna, eru mikil tækifæri. Hvort við erum sátt við þær hömlur eða takmarkanir sem við getum sett án þess að takmarka möguleikana til framsóknar er eitthvað sem við verðum að velta verulega fyrir okkur.

Frú forseti. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er þetta í sjálfu sér ekki nýtt mál í þinginu. Oft hefur verið rætt hvernig þetta eigi að líta út, þ.e. umgjörðin um þessa starfsemi. Hér í frumvarpinu er kafli um upplýsingagjöf til almennings og er hann góðra gjalda verður. Það er mikilvægt að við komum upplýsingum á framfæri við almenning um hvað þetta þýðir og hvaða starfsemi þetta er. Í athugasemdum við frumvarpið er rakin þessi breytingatilskipun og annað sem við erum að bregðast við og vona ég svo sannarlega að mál þetta verði til að skapa skýrari ramma utan um þessa starfsemi á sama tíma og ég óska þess svo sannarlega að við séum ekki að setja slíkar girðingar að þessi starfsemi geti ekki vaxið og þróast hér á landi. Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneyti munu að sjálfsögðu skipa veigamikið hlutverk í því að fylgjast með að starfsemin sé í lagi og eðlileg. Ég hef þá trú verði þetta frumvarp að veruleika eins og það er að þá skýri það út þessa hluti sem ég nefndi. Ég hef smá áhyggjur af því að það sé enn takmarkandi. Hvort það er svo takmarkandi að það komi í veg fyrir framþróun ætla ég ekki að fullyrða. Það er búið að breyta því töluvert til batnaðar en, frú forseti, ég hef samt áhyggjur af því hvert við stefnum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni þó að ég eigi smávegis eftir af ræðutímanum. Ég held að ég hafi komið meginsjónarmiðum mínum í málinu á framfæri. Ég hef fylgst með þessu og fleiri málum í töluvert langan tíma, fylgst með því hver þróunin í þessu er og tækifærin, setið fyrirlestra, sótt kynningarfundi og annað og ég fullyrði að mjög færir aðilar hér á landi höndla með þetta og í þessu felast mikil tækifæri.



[21:22]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Eins og fyrri ræðumenn hafa komið inn á fjallar það um umgengni við erfðabreyttar lífverur og möguleika á að nýta þær í ýmsu skyni á Íslandi. Ekki síst fjallar frumvarpið um möguleika á nýsköpun sem hefur orðið hjá hátæknifyrirtækjum, og um það ætla ég aðallega að ræða, að geta framleitt prótein, til að mynda úr íslensku byggi sem ræktað er á Íslandi. Það eru auðvitað fleiri möguleikar og fleiri fyrirtæki sem gætu komið hér við sögu. Ég get nefnt fyrirtækið ORF sem hefur staðið býsna vel að þessu og hefur í langan tíma þróað rannsóknir og vörur á þessu sviði og náð býsna góðum árangri. Það er nú þegar komið með vörur á markað sem eftir hefur verið tekið, m.a. hér innan lands, á gráa svæðinu milli snyrtivara og heilsuvara.

Það sem ég óttast, og kem þess vegna hér upp til að ræða það, eru þær hugmyndir sem koma fram í frumvarpinu og gera það að verkum að þessu fyrirtæki sem og öðrum sambærilegum sem vinna á þessum markaði er gert erfiðara fyrir. Nóg er nú samt því að auðvitað snýst þetta líka um samkeppnisstöðu við önnur ríki, fyrst og fremst Evrópuríki. Við þurfum að skoða hvaða möguleika við veitum íslenskum fyrirtækjum sem og hvaða möguleika við erum að opna á.

Það sem er jákvætt í frumvarpinu og ég vil gjarnan ítreka og taka undir eru nokkrir þættir sem snerta upplýsingagjöf til almennings. Einnig er skilgreint nákvæmar hvernig slíkar auglýsingar og tilkynningar eiga að fara fram, þ.e. eins og fram kemur í II. kafla um meginþætti frumvarpsins, „um upplýsingagjöf til almennings og rétt almennings til að gera athugasemdir vegna fram kominna umsókna um að setja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær á markað“. Fjallað er einnig um að nauðsynlegt sé að fræða almenning um þær ráðstafanir sem gerðar eru við framkvæmd Evróputilskipunarinnar um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið.

Eins og fram hefur komið er lagt til að Umhverfisstofnun sem hefur samkvæmt lögunum yfirumsjón með framkvæmd þeirra, beri skylda til að kynna fyrir almenningi útdrátt úr umsókn sem henni berst um að setja erfðabreyttar lífverur eða vöru sem inniheldur þær á markað. Almenningur hefur þá ákveðinn rétt til að bera fram athugasemdir sem síðan er fjallað um og stofnuninni ber jafnframt að veita almenningi aðgang að svokölluðum matsskýrslum. Það er búið að tryggja með ákveðnum hætti aðgang almennings að þessu máli.

Frumvarpið kveður reyndar líka á um trúnaðarskyldu Umhverfisstofnunar og umsagnaraðila um upplýsingar sem skaðað gætu samkeppnisstöðu umsækjanda. Vissar upplýsingar er þó óheimilt að fara með sem trúnaðarmál og eru þær tilgreindar sérstaklega í frumvarpinu.

Einnig er nánar fjallað um það í frumvarpinu með hvaða hætti nákvæmari málsmeðferð skuli vera með umsóknum og leyfisveitingum til sleppingar eða markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær.

Annað atriði, fyrir utan skýrari og betri almannarétt, kemur fram í I. kafla frumvarpsins og er áréttað í meirihlutaáliti hv. umhverfisnefndar. Þar er fjallað um að tekið sé sérstakt mið af varúðarreglunni en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er varúðarreglan meginregla í umhverfisrétti. Hún er m.a. eins og stendur á bls. 5 í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er m.a. að finna í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Hún felur í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.“

Ég vil árétta að ekkert megum við gera ef einhver óvissa er um afleiðingar þess í náttúrunni. Náttúran skal auðvitað njóta vafans.

Eins og oft áður þegar við tökum upp Evróputilskipanir er okkur gefinn ákveðinn frestur til að fjalla um þær. Ef ég man rétt er nokkuð um liðið frá því að lágmarksfrestur rann út til að fjalla um þessa tilskipun. Það var ákvörðun hinnar sameiginlegu EES-nefndar að þetta yrði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hinn 28. september 2007. Hefðbundinn sex mánaða frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf rann því út 28. mars 2008. Það er því ekki eins og við séum að fara einn mánuð fram yfir og í því ljósi er rétt að velta því upp hvort það geri svo mikið til ef við mundum fara betur yfir málið, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans. Þá mætti líka velta því upp hvort menn trúi því að öll Evrópusambandsríki eins og Grikkland, Ítalía eða Rúmenía séu búin að innleiða allar þessar tilskipanir og við séum einasta landið í heiminum sem eigum það eftir. Það væri að minnsta kosti áhugavert að skoða það.

Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta að upplýst hafi verið að væntanleg sé skýrsla frá Evrópusambandinu um mat á reynslu aðildarlandanna af umræddri tilskipun og kostir hennar og gallar metnir. Þess vegna væri skynsamlegt að við mundum ekki flýta okkur um of í þessu máli. Það kemur líka fram í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og telur að athugun málsins og umræðu innan nefndarinnar hafi alls ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Málið var fyrst afgreitt frá nefndinni í miklum flýti og þótt málið hafi síðar verið tekið aftur til skoðunar er mörgum spurningum enn ósvarað og fyrir hendi ýmis álitaefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.“

Síðan er fjallað um það að verulega skiptar skoðanir eru um frumvarpið og forsendurnar sem það byggist á og það má einnig ráða af umsögnum og orðum gesta nefndarinnar. Eins höfum við heyrt það hér í ræðustól, ef til vill ekki í kvöld en þegar málið hefur fyrr verið rætt.

Þess vegna væri skynsamlegt að við gæfum okkur örlítið meiri tíma til að vanda til verka. Það er þannig með Evróputilskipanir að þær veita aðildarríkjunum yfirleitt nokkurt svigrúm þótt mismunandi sé í einstökum málum við útfærslu einstakra ákvæða. Það ættum við að tileinka okkur. Því þurfum við að velta fyrir okkur hvaða ákvæði henta íslenskum aðstæðum best en ekki taka Evróputilskipanirnar upp óbreyttar, eins og menn kannski gerðu á fjármálamarkaði með ekki svo góðum árangri.

Um hvað snýst þetta? Hvaða mikilvægi er það sem ég nefndi að ég vildi ræða? Jú, víða um heim hafa menn notfært sér að hægt er að fara inn í erfðaefni plantna með prótein úr dýraríkinu sem hægt er síðan að nota í lyf og snyrtivörur til að mynda og ýmsan iðnað, ensímiðnað. Það er hægt að klippa inn í erfðaefni plantnanna upplýsingar sem gera það að verkum að plantan framleiðir þessi efni sem eru mjög dýrmæt. Þau hafa verið framleidd á annan veg hingað til en með þessum hætti er bæði hægt að framleiða mun betri efni og hreinni, líkari því sem menn sækjast eftir, og á miklu ódýrari hátt þar sem plöntur eru miklu ódýrari í framleiðslu en til að mynda dýrafrumur eða að vinna þetta á tilraunastofum.

Þetta hefur sem sagt tekist með bærilegum árangri. Víða erlendis hefur þetta þó verið gert í plöntum eins og maís eða öðrum sem eru ekki einærar í þeim löndum, þ.e. þær geta farið út í náttúruna og fjölgað sér á náttúrulegan hátt. Þannig hefur komist óorð á, þetta geti farið út í náttúruna og smitað yfir í náttúrulegan maís eða aðrar þær plöntur sem hafa verið notaðar. Það er allsendis óásættanlegt og ég tel að við getum aldrei leyft það. Það þarf því að skoða hvaða hluti við mundum nota í þetta verkefni.

Íslenska fyrirtækið ORF hefur komist langt með að þróa þetta í íslensku byggi. Byggið hefur þar fyrir utan þann eiginleika að það lifir ekki af íslenskan vetur og getur þar af leiðandi ekki sáð sér sjálft. Það þarf að sá til þess á hverju ári með sérstökum hætti. Líkurnar á því að erfðabreytt korn með innskotnum próteinkeðjum eða erfðaefni fari út í náttúruna eru þar af leiðandi engar eða í það minnsta hverfandi. Það þarf að fara yfir það hvort ekki sé hægt að tryggja að líkurnar séu engar.

Byggið hefur verið ræktað í gróðurhúsum með ágætum árangri og þannig hefur verið hægt að sýna fram á að tæknin virkar og möguleikarnir eru fyrir hendi að framleiða vörur sem ganga á markaði. Það hefur jafnframt verið prófað í tilraunareitum svo þetta er hægt líka úti í náttúrunni. Menn hafa síðan skoðað hvort hægt væri að gera þetta í stórum stíl. Víða á landinu háttar þannig til að hægt væri að nota akra sem ekki eru notaðir til matvælaframleiðslu til að rækta erfðabreytt bygg. Þeir yrðu í varúðarskyni auðvitað hafðir sér og ekki í nánum tengslum við hina akrana sem eru notaðir til matvælaframleiðslu. Eins og ég sagði áðan er hættan hverfandi eða engin þar sem íslenskt korn getur ekki lifað af veturinn.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að hér gæti verið um að ræða umtalsverða ræktun á tugum ef ekki hundruðum hektara. Þá hættum við fljótlega að tala um milljónir króna eða hundruð milljóna og gætum talað um milljarða. Eitt af því sem menn hafa stefnt að í atvinnusköpun í landinu er að efla fjölbreytnina, efla nýsköpunina, efla hátækniiðnaðinn, þar á meðal þennan lífræna iðnað. Ég held að það væri mjög varhugavert af okkur ef við gengum á einhverjum tímapunkti lengra en til að mynda Norður-Evrópuríkin gera. Sérstaklega þegar við munum eftir að hér er ekki um að ræða plöntur sem geta farið út í náttúruna af sjálfsdáðum heldur þarf að sá til þeirra á hverju ári.

Það mætti jafnframt skoða hvort hægt væri að nota afganginn sem verður til fyrir utan kornið sjálft, þ.e. hálminn. Hann mætti nota m.a. til að framleiða í verksmiðjum etanól sem hægt er að blanda í bensín, allt að 15%. Það gætum við síðan nýtt til að spara gjaldeyri og til að minnka útblástur á koltvísýringi. Þannig getur margt jákvætt skapast af þessu og mörg hliðarverkefni. Við slíka framleiðslu er þar fyrir utan hægt að framleiða alls kyns aðrar aukavörur sem menn hafa verið að skoða hjá ýmsum fyrirtækjum eins og Íslenska lífmassafélaginu og fleiri fyrirtækjum sem vinna á þessu sviði .

Það skiptir máli að það sem við gerum á þinginu í málum sem þessu trufli ekki eða hindri hreinlega vöxt þessara fyrirtækja. Eins og ég sagði upphaflega megum við að sjálfsögðu heldur ekki gera neitt sem raskar ró okkar um að náttúran njóti vafans. Eins er rétt að almannarétturinn sem ég nefndi líka í inngangi mínum sé virtur

Við gætum sem sagt verið að tala um stórfelldan iðnað á þessu sviði og stóraukna tekjumöguleika þeirra sem eiga aðgang að landi eða nýta land, eiga ábúðarrétt á landi, og þar með gætum við verið að styrkja byggð um stærstan hluta landsins. Staðreyndin er sú að hægt er að rækta bygg víðast hvar á landinu þó að ekkert megi bregða út af í veðráttu til þess. Það er einmitt eitt af því, svo ég ítreki það enn frekar, sem gerir það að verkum að hér á landi er einn extra þröskuldur umfram það sem menn hafa verið að skoða annars staðar.

Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að meiri hlutinn hefur fallið frá hugmyndum sem voru settar fram um sérstaka veggi og slíkt sem auk þess voru óskilgreindir. Við erum þannig kannski smátt og smátt að nálgast það sem við þurfum að gera í þessu máli. Við erum að fullgilda Evróputilskipun um umgengni um erfðabreyttar lífverur en við verðum jafnframt að muna að við erum líka að fjalla um fyrirtæki sem á næstu árum og áratugum eru kannski líkleg til að bera upp vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi. Vonandi verður þetta eitt í þeirri fjölbreyttu flóru sem við getum nýtt okkur við að nýta náttúruauðlindir okkar.

Eins og ég hef nefnt þá kemur fram í minnihlutaálitinu í síðasta kafla að minni hlutinn leggur á það áherslu að íslenskum stjórnvöldum og Alþingi beri að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir nýsköpun og uppbyggingu rannsókna og þróunar í atvinnulífinu eins og stendur hér, með leyfi forseta, „sem getur skilað ótvíræðum ávinningi fyrir þjóðarbúið“. Ég vil kannski ganga lengra og fullyrða að það geti ekki bara heldur muni skila ótvíræðum ávinningi fyrir þjóðarbúið og er nú þegar farið að gera það.

Minni hlutinn undirstrikar jafnframt, eins og ég hef gert í ræðu minni, að það sé tekið nægilegt tillit til umhverfissjónarmiða og hagsmuna annarra eins og til að mynda almennings og viðurkennd sé nauðsyn þess að löggjafinn og stjórnvöld veiti eðlilegt aðhald til að tryggja að slíkt markmið náist.

Að lokum, svo ég vitni beint til umsagnar minni hlutans, með leyfi forseta:

„Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar felur í sér breytingar sem geta haft hamlandi áhrif umfram það sem nauðsynlegt er, og getur minni hlutinn því ekki stutt það nema fram fari nánari athugun á efni þess og ýmsar breytingar verði gerðar umfram þær sem finna má í áliti og breytingartillögum meiri hlutans.“

Þessi lokaorð ætla ég að gera að mínum og hvetja stjórnarmeirihlutann eða meiri hluta umhverfisnefndar til að vera tilbúinn að taka málið hreinlega til baka og fara (Forseti hringir.) betur yfir þetta. Ég held að við gætum gert þennan aðbúnað enn tryggari og enn betri. Ekki síst ættum við að bíða eftir skýrslu Evrópusambandsins sem væntanleg er innan mánaðar þar sem fram kemur mat á reynslu annarra landa af umræddri tilskipun.



[21:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að blanda mér aðeins í þessa umræðu vegna þess að hér er á ferðinni mál sem er um margt merkilegt og ég tók þátt af fullum þunga í umræðu um svipað mál sem kom inn í þingið sl. sumar. Ljóst er að verið er að reyna að innleiða ákvæði vegna tilskipunar Evrópusambandsins og þá vakna alltaf spurningar hjá okkur þingmönnum um það með hvaða hætti það er gert og hvort við séum að gera það með opin augu.

Í þessu máli tel ég algjörlega ljóst að mikill vafi leikur á hvort gengið sé of langt miðað við orðalag tilskipunarinnar sjálfrar. Þess vegna er full ástæða til þess að fara enn og aftur vel yfir málið og vinna það betur, eins og bent er á í nefndaráliti minni hlutans, og fara vel yfir þann rökstuðning sem hér liggur frammi. Sérstaklega í ljósi þess að hér eru nokkur fyrirtæki sem ætla sér og hafa þegar komið á fót öflugri starfsemi sem hætta er á að þetta frumvarp geti þrengt verulega að.

Það er engin ástæða til þess að hætta á það þegar það eina sem út af stendur er að fara aðeins betur yfir málin, bera saman texta tilskipunarinnar og frumvarpið, sem hér liggur frammi, og fara yfir það með hvaða hætti aðrar þjóðir, sérstaklega í Norður-Evrópu, hafa innleitt þessa tilskipun Evrópusambandsins, einfaldlega til þess að ástunda vönduð vinnubrögð.

Maður fær það stundum á tilfinninguna, frú forseti, að verið sé að drífa mál í gegnum þingið með miklum hraði einfaldlega til þess að geta sagst hafa afgreitt einhver mál. Ég hélt einhvern veginn að við hefðum lært eitthvað af því bankahruni sem hér varð, sérstaklega með hvaða hætti við innleiddum ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins sem í ljós kom að höfðu víðtækar afleiðingar á íslenskan efnahag. Þar er ég að tala um tilskipunina um innstæðutryggingarsjóðinn.

Gott og vel, frú forseti, meiri hlutinn hefur ákveðið að þetta frumvarp skuli verða að lögum og þá er rétt að fara aðeins yfir það hvaða þætti þess þarf að skoða betur. Það fyrirtæki sem fremst er í okkar ranni á þessu sviði er ORF Líftækni. Það þekkja allir þá miklu umræðu sem spannst í kringum frumvarpið sem lagt var fram í fyrrasumar um erfðabreyttar lífverur. Misskilningurinn í orðræðunni við það frumvarp og í kringum það allt saman og viljinn, eiginlega einbeittur vilji til þess að vera á móti framförum á þessu sviði var mjög bersýnilegur og endaði á því sorglega athæfi að tilraunaakur fyrirtækisins í Gunnarsholti, þar sem byggi hafði verið sáð, var eyðilagður.

Einhver mikill misskilningur er í gangi varðandi þessi mál. Það bygg sem þarna var sáð var ekki ætlað til manneldis, við erum ekki að tala um erfðabreytt matvæli, þannig að ljóst er að einhver mikill misskilningur er í gangi og æsingurinn og mér liggur við að segja umhverfisfasisminn sem hér reið öllu á þeim tíma var ekki til fyrirmyndar og ég vonast til þess að við eigum aldrei eftir að sjá svona hluti aftur. Ég spyr mig hvort ástæðan fyrir því að þetta frumvarp lítur út fyrir að ganga lengra en tilskipunin eigi rætur sínar að rekja til misskilnings af því tagi. Ég vænti þess að meiri hlutinn hér í þinginu hugsi sig vel um hvort menn vilji virkilega ganga svo langt.

Við höfum öll talað fyrir því að það þurfi að efla íslenskt atvinnulíf og fjölga tækifærum, það þurfi að fjölga eggjunum í körfunni, stækka markaðinn og koma með ný sóknarfæri. Við eigum slík tækifæri og eitt af flaggskipum okkar til framtíðar þar er ORF Líftækni. Ætlum við nú að segja að ástæða sé til að þrengja það verulega að starfsemi þess fyrirtækis að það gæti komið niður á því með hvaða hætti slík starfsemi þróast?

Ég hef áhyggjur af þessu. Menn, m.a. vinstri menn, komu hér fram og sögðu þegar til stóð að virkja fyrir austan, Kárahnjúkavirkjun, að það væri hægt að gera svo margt annað. Það væri hægt að skapa 500 störf bara með því að gera eitthvað annað.

Eitthvað annað, hvað er það? Ég man eftir því að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sögðu þegar ljóst var að virkja ætti á Austfjörðum þrátt fyrir allt: Fínt, viljið þið vinstri menn ekki koma með þessi 500 störf hingað vestur, hér vantar fleiri atvinnutækifæri? Komu þessi störf? Komu vinstri menn með hugmyndirnar vestur? Nei, þeir gerðu það ekki.

Hér erum við akkúrat með fyrirtæki sem er að gera eitthvað annað, sem er að gera eitthvað nýtt, sem er að sækja fram og kemur til með að gera frábæra hluti ef við bara sköpum þau skilyrði að ríkið gangi ekki með einhverjum undarlegum ákvörðunum lengra en nokkurt ríki innan Evrópusambandsins eða á Evrópska efnahagssvæðinu í því að setja löggjöf sem takmarkar starfsemi slíkra fyrirtækja og takmarkar þá möguleika til framþróunar á þessu sviði, sem mér sýnist hér vera gert.

Frú forseti. Ég harma að það hafi ekki verið farið betur yfir málið í nefndinni og ég vonast til þess, af því að enn er möguleiki, að fulltrúar meiri hlutans í umhverfisnefnd taki það nú upp hjá sér að fara aftur yfir þetta mál, það er engin ástæða til að vera með asa vegna þessa máls. Það væri í anda vandaðra vinnubragða að fara enn einu sinni yfir þetta. Jafnframt finnst mér svolítið vera reynt að komast fram hjá óþægilegum hlutum. Ég játa að nefndin gerir breytingar á frumvarpinu sem eru til bóta en hins vegar er verið að færa vald til ráðherra. Það er ráðherra sem setur nánari ákvæði í ýmsar reglugerðir, t.d. um fullnægjandi tálmanir sem eigi að hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur og líffræðilega fjölbreytni í umhverfi. Það er verið að færa þetta vald yfir til ráðherra í staðinn fyrir að setja það inn í löggjöfina. Það er svo sem í lagi ef maður vissi hvaða sjónarmið mundu þá ráða.

Hvaða sjónarmið eru það sem ráðherrann ætlar að hafa í huga þegar hann setur slíkar reglugerðir? Þetta eru knýjandi spurningar sem ég sé ekki að svör hafi komið við hér í umræðunni og ég tel að full ástæða væri til að ræða betur inni í umhverfisnefnd.



[21:49]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Ég er á nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar. Það vildi svo skemmtilega til eins og oft áður að umhverfisnefnd klofnaði í afstöðu sinni og má fyrst og fremst rekja það til þess að vinnubrögðin eru eins og við þekkjum í þinginu, svona í flestum málum. Nefndin fékk til sín marga gesti og sýndist sitt hverjum. Margir eru alfarið á móti þessum breytingum og lögunum af því að þetta fjallar um sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera.

Hér á landi eru starfandi fyrirtæki sem skapa mikinn gjaldeyri fyrir þjóðina og eru komin af stað með rekstur. Þetta mál hefur mikið að segja fyrir þau því að afurðin sem út úr þessu kemur nýtist til lyfjaframleiðslu og annarra slíkra hluta. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur hér á Íslandi, þrátt fyrir að landið okkar sé eyja, að taka fullan þátt í þeirri þróun sem á sér stað í heiminum og þá sérstaklega í Evrópu. Þetta snýr að því að við verðum með sambærilegar kröfur og hið títtnefnda Evrópusamband, því að þetta byggist fyrst og fremst á tilskipun og reglugerð frá Evrópusambandinu. Þetta frumvarp er reyndar ekki bein þýðing á Evróputilskipunum og reglugerðum heldur eru gerðar meiri kröfur, og það hefur verið svo í gegnum tíðina, þegar um er að ræða umhverfismál hér á landi en Evrópulöggjöfin segir til um. Það er gott vegna staðsetningar landsins og einangrunar eyjunnar sem við búum á en oft og tíðum er gengið of langt í þeim efnum, alla vega að mati þeirra sem eiga í hlut.

Ég sagði á nefndarfundi að mér þætti Umhverfisstofnun vera orðin ansi valdamikil stofnun. Hún sér um starfsleyfi og annað sem að rekstri lýtur og snýr að umhverfismálum og þeim rekstri sem þarf að ná markmiðum ýmissa laga. Ég er flutningsmaður á minnihlutaáliti umhverfisnefndar ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, eins og komið hefur fram í umræðunni, og hafa þeir báðir farið yfir málið. Í upphafi nefndarálitsins segir, með leyfi forseta:

„Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og telur að athugun málsins og umræðu innan nefndarinnar hafi alls ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Málið var fyrst afgreitt frá nefndinni í miklum flýti og þótt málið hafi síðar verið tekið aftur til skoðunar er mörgum spurningum enn ósvarað og fyrir hendi ýmis álitaefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.“

Það vildi þannig til, frú forseti, að við í minni hlutanum vorum ekki bara á þessari skoðun heldur var áberandi að stjórnarflokkarnir voru ekki samstiga í málinu. Það segir kannski sitt að Vinstri grænir eru umhverfisflokkur en eins og um mörg önnur mál í þinginu keyrði Samfylkingin það áfram. Vinstri grænir fljóta síðan með þrátt fyrir örlítil mótmæli oft og tíðum en yfirleitt gefa þeir eftir.

Í nefndinni var mikil umræða um eitt orð, um það lögfræðilega úrlausnarefni hvað hugtakið veggur þýðir, því að þarna var komið inn í frumvarpið að til þess að mega sleppa og dreifa erfðabreyttum lífverum þyrfti að vera veggur í kringum þá ræktun. Ég fékk spurningu utan úr bæ sem laut að því hvort gróðurhús teldist veggur í lögfræðilegum skilningi og þá benti ég á að það færi eftir því hvort það hugtak væri túlkað þröngt eða vítt. Þessu var breytt á þann hátt að það var rýmkað. Eins og ég sagði áðan var Umhverfisstofnun gefin ákveðin valdheimild til að hafa samráð við almenning og eftir því sem við á tiltekna hópa um alla þætti fyrirhugaðrar sleppingar, dreifingar eða markaðssetningar.

Annað sem við ræddum í umhverfisnefnd var orðanotkunin líffræðileg fjölbreytni, sjálfbær þróun, varúðarregla. Það hefur verið lenska hér á landi að vísa í þessi hugtök sem enginn veit nákvæmlega hvað þýða. Í íslenskri löggjöf hafa þau verið þýdd á mismunandi hátt þannig að það er alltaf verið að vísa í eitthvað sem áður hefur verið gert. Upphaflega var vísað í erlenda lagatexta. Raunverulega hefur varúðarreglan aldrei verið skilgreind almennilega en í ýmsum lögum er vísað í hana og hún svo skilgreind á mismunandi hátt. Það er komin skilgreining samkvæmt íslenskum rétti eða málnotkun á sjálfbærri þróun í staðardagskrá og hún hefur verið notuð í löggjöf undanfarið. Nú eru settar þarna inn skilgreiningar og held ég að það sé vel, því að þá vita þeir aðilar sem eru í rekstri og ætla að hefja rekstur á grundvelli þessara laga að hverju þeir ganga. Þá er skilgreining í breytingartillögum meiri hlutans að hugtakið líffræðileg fjölbreytni nái til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er gerð úr og birtingarforma hennar o.s.frv. Varúðarreglan er einnig komin inn í lagatexta.

Það er svo sem óþarft að eyða tíma þingsins í þetta öllu meir. Ég vildi koma þessu að og hnykkja á því enn og aftur að eftir stendur, eftir vinnu við þetta mál í umhverfisnefnd, að ég hvet meiri hlutann til þess að breyta vinnubrögðum sínum í takt við vinnubrögð allsherjarnefndar í vinnunni um stjórnlagaþing. Það sjá náttúrlega allir að svona vinnubrögð ganga ekki. Mál eru drifin inn í nefndir og rifin út úr þeim aftur í ósætti við nefndarmenn og þá álitsgjafa sem koma og eru þingmönnum til ráðgjafar. Lítið er hlustað og asinn er slíkur að svo virðist vera að meiri hlutinn sé tekinn fram fyrir sáttina og er það miður. Það hafa orðið tíðar mannabreytingar í umhverfisnefnd eins og í allsherjarnefnd — ég ber þær saman af því að ég sit í báðum nefndunum — og það gerir þetta kannski enn verra að þegar sífellt er skipt um formenn og varaformenn í nefndunum byggist upp mikið óöryggi. Þeir aðilar sem stjórna nefndunum þurfa þá að stóla mikið á t.d. nefndasviðið og ritara nefndanna. Málin verða náttúrlega alltaf fyrst og fremst að vera á forræði hins pólitíska afls, sem hefur á Íslandi í gegnum árin verið meiri hluti á móti minni hluta með örfáum undantekningum. Það er von mín, frú forseti, að á haustþingi breytist þessi vinnubrögð, að við þingmenn höfum þá meiri tíma til að fjalla um málin og að ríkisstjórnin færist ekki of mikið í fang eins og hún hefur gert. Eins og ég hef bent á áður stríðir sú lagasetning sem hefur verið viðhöfð oft gegn öðrum lögum og stjórnarskrá. Það er því einlæg ósk mín að meiri hlutinn taki þessi orð til sín.