138. löggjafarþing — 142. fundur
 15. júní 2010.
innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, 2. umræða.
stjfrv., 255. mál (EES-reglur, heildarlög). — Þskj. 291, nál. 1285, 1316 og 1383, brtt. 1286.

[22:25]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta frá meiri hluta viðskiptanefndar.

Með frumvarpinu verða teknar upp í íslenskan rétt eftirfarandi tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins: 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta og 2009/14/EB um breytingar á tilskipun um innlánatryggingakerfi. Síðastnefnda tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem eru tilkomnar vegna bankahrunsins.

Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði ný deild í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, A-deild, sem taki við iðgjaldi frá innlánsstofnunum frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, og mun þá núverandi innstæðudeild verða B-deild og að meginstefnu starfa samkvæmt gildandi lögum nr. 98/1999, sbr. ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið.

Frú forseti. Ég mun nú fjalla um veigamestu breytingar á frumvarpinu og helstu álitaefni sem rædd voru í hv. viðskiptanefnd.

Nefndin leggur til að sjóðurinn tryggi innstæður á safnreikningum vegna séreignarsparnaðar, hvort sem um vörsluaðila eða lífeyrissjóð er að ræða. Einnig er lögð til sú breyting á 2. gr. að lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, peningamarkaðsinnlán, heildsöluinnlán og safnreikningar teljist ekki til innstæðna samkvæmt frumvarpinu. Tilgangur frumvarpsins og tilskipunar um innstæðutryggingar er fyrst og fremst sá að veita innstæðueigendum ákveðna tryggingavernd fari svo að innlánsstofnun geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hér er leitast við að afmarka með skýrum hætti hvaða fjármálaafurðir njóti umræddrar verndar og teljist þar með til innstæðna í skilningi frumvarpsins.

Einnig er lögð til breyting á 6. gr. Lögð er til viðbót við 3. mgr. þess efnis að kostnaður við rekstur sjóðsins greiðist af eignum hans í samræmi við hlutfall hverrar deildar í heildarkostnaði. Slíku fyrirkomulagi er ætlað að tryggja að hver deild standi undir þeim kostnaði sem stafar af henni og þannig muni t.d. ekki koma til þess að A-deild þurfi að bera kostnað af rekstri B-deildar. Þetta fyrirkomulag kemur einnig fram í 1. mgr. greinarinnar þar sem mælt er fyrir um að deildir sjóðsins hafi aðskilinn fjárhag og reikningshald og beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.

Þá eru lagðar til breytingar á 10. gr. sem fela í sér talsverðar breytingar á útreikningi iðgjalda. Lagt er til að ákvæði um iðgjaldagreiðslur verði einfaldað nokkuð frá því sem fram kemur í frumvarpinu, auk þess sem kveðið er á um viðbótariðgjald sem reiknast út frá áhættustuðli hverrar innlánsstofnunar. Með tillögum um breytta 2. mgr. leggur meiri hlutinn til að almennt iðgjald skuli nema á ársgrundvelli sem svarar 1% allra innstæðna sem njóta tryggingaverndar hjá viðkomandi innlánsstofnun en í frumvarpinu er hlutfallið 0,3% af tryggðum innstæðum. Álagningargrundvöllur iðgjalds er heildarfjárhæð allra innstæðna að undanskildum þeim sem njóta ekki tryggingaverndar sjóðsins.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á 12. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um greiðslur úr A-deild sjóðsins, þ.e. greiðslur til innstæðueigenda. Lagt er til að í stað fjárhæðarinnar 50.000 evrur verði vísað til 100.000 evra en nefndin leggur þó til að í ákvæði til bráðabirgða verði miðað við 50.000 evrur út árið 2010. Öðrum breytingum sem eru lagðar til er ætlað að skýra fyrirkomulagið nánar við greiðslur úr sjóðnum, framsal krafna og forgang.

Í 4. mgr. er kveðið á um að innstæður samkvæmt lögunum teljist til forgangskrafna skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Litið er svo á að kröfur innstæðueigenda og kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta njóti sama forgangs í þrotabú þar sem um sambærilegar og samkynja kröfur er að ræða. Af því leiðir að framhaldskrafa innstæðueiganda umfram það sem hann fékk bætt frá tryggingarsjóðnum og endurkrafa sjóðsins vegna þeirra krafna sem hann fékk framseldar frá innstæðueigendum teljast jafnréttháar.

Þá er lögð til breyting á 24. gr. um að sjóðnum fremur en Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að gera útibúum innlánsstofnana eða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sem hafa staðfestu í ríki sem er ekki aðildarríki, að setja frekari tryggingar fyrir því að þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Sjóðurinn kann að vera í betri aðstöðu en Fjármálaeftirlitið til að leggja nauðsynlegt mat á umrædd fyrirtæki en til grundvallar ákvörðun um að slík stofnun setji frekari tryggingu fyrir því að hún geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum verður að liggja mat á viðkomandi stofnun.

Frú forseti. Á vegum vinnunefndar hjá Evrópusambandinu er unnið að endurskoðun innstæðutryggingakerfisins og er almennt miðað við að innstæðutryggingakerfi teljist fjármögnuð á fullnægjandi hátt þegar þau ráða yfir handbæru fé sem nemur tæpum 2% af heildarupphæð tryggðra innstæðna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sambærilegt hlutfall verði 4%. Tryggingafræðilegar líkur á því að íslenska innstæðutryggingakerfið geti staðið við skuldbindingar sínar þegar sjóðsmyndun hefur náð 4% af tryggðum innstæðum eru því töluvert hærri en það sem aðrir telja fullnægjandi.

Bæði á fundum og í umsögnum sem nefndinni bárust var bent á að eðlilegt væri að kveða á um það í sjálfum frumvarpstextanum að fjárskuldbindingar sjóðsins nytu ekki ábyrgðar ríkisins. Meiri hlutinn bendir á að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og ekki í eigu ríkisins. Tryggingarsjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar enda er ekki tekið fram að svo sé.

Frú forseti. Ríkisstjórnin lýsti því yfir 9. desember 2009 að yfirlýsing hennar frá 3. febrúar 2009 væri enn í fullu gildi, þ.e. að allar innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar. Fram kom að yfirlýsingin yrði ekki dregin til baka fyrr en nýtt íslenskt fjármálakerfi, með breyttri umgjörð, hefði sannað sig og þá yrði gefinn aðlögunartími. Með frumvarpinu er tryggingaverndin aukin og hækkun iðgjaldagreiðslna í sjóðinn flýtir sjóðsmyndun. Því má gera ráð fyrir að ekki verði þörf á viðbótarábyrgð í náinni framtíð.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Björn Valur Gíslason, Mörður Árnason og Jónína Rós Guðmundsdóttir.



[22:34]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir framsögu hennar og samstarf um þetta mál í nefndinni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hver sé eiginlega hugsunin á bak við þá tillögu að stofna A- og B-deild og hvort ekki hefði verið eðlilegra annaðhvort að fara þá leið að stofna algjörlega nýjan innstæðutryggingarsjóð og skilja þá gamla innstæðutryggingarsjóðinn eftir til þess að klippa algjörlega á milli eða þá hreinlega að vera áfram bara með eina deild og að þá væri hægt að nýta innborganirnar sem koma frá fjármálakerfinu út af tryggðum innstæðum til þess að borga upp í þær skuldbindingar sem innstæðutryggingarsjóðurinn gamli stendur frammi fyrir. Áhugavert væri að heyra frá þingmanninum rökin fyrir því af hverju þessi leið var valin af stjórnarliðum og hver séu rökin á móti hinum tveimur leiðunum.



[22:36]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr hvers vegna sú leið er farin í þessu frumvarpi að stofna A- og B-deild undir sama hatti eða á sömu kennitölu. Í frumvarpinu kemur fram að fjárhagur deildanna er algjörlega aðskilinn þannig að ef t.d. B-deild, sem er í daglegu tali kölluð Icesave-deildin, yrði gjaldþrota mundi það ekki á neinn hátt hafa áhrif á fjárhag A-deildar, sem er þá þessi nýja deild sem bankarnir eiga að byrja að greiða iðgjöld í á þessu ári. Ástæðan fyrir því að þessar tvær deildir eru undir sama hatti er þá fyrst og fremst hagræðingaratriði, þ.e. að hafa innstæðutryggingarkerfið á sama stað frekar en á mörgum kennitölum.



[22:37]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað fundust mér þetta vera óskýr svör. Í Bretlandi var engin uppsöfnun í innstæðutryggingarsjóðnum heldur voru bara loforð frá ríkissjóði um að hann mundi hlaupa undir bagga með sjóðnum ef á þyrfti að halda og það náttúrlega reyndist vera svo þegar Bretar lentu í erfiðleikum með banka hjá sér. Síðan var hugmyndin sú að í framhaldinu mundu þeir náttúrlega taka inn frá fjármálakerfinu til að greiða þá skuld eða þá ábyrgð sem hafði orðið til gagnvart ríkinu.

Er ekki langeðlilegast, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að þar sem innstæðutryggingarsjóðurinn er sjálfseignarstofnun, sjálfstæð stofnun sem ekki er í eigu ríkisins, að þeir sem nota þjónustuna og eru í raun og veru að kaupa tryggingu frá innstæðutryggingarsjóðnum borgi (Forseti hringir.) kostnaðinn við það ef nauðsynlegt er að greiða út trygginguna?



[22:38]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að varpa annarri spurningu til hv. þingmanns þar sem ég skil því miður ekki alveg hvaða vandamál hún sér við það að hafa sjóðina á sömu kennitölu þegar fjárhagur þeirra er algjörlega aðskilinn. Hvaða áhætta felst þá í því að vera með sjóðina á sömu kennitölu í stað þess að vera með þá hvorn á sinni kennitölunni? Ég sé það ekki alveg og læt það duga sem svar.



[22:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið í þessu og hvernig nefndin tekur á því. Í fyrsta lagi að hafa þetta í tveimur sjóðum á sömu kennitölu, það býður heim þeirri hættu að menn reyni að ná í það sem eftir situr, að þegar Icesave-deildin hefur verið gerð upp reyni þeir að ganga á hitt. Þó að einhverjar krónur sparist í rekstrarkostnaði skil ég ekki að menn skuli ekki hafa þetta á tveimur kennitölum til að vera algjörlega búnir að skipta þessu í sundur.

Það sem mér þykir verst í þessu er að tilskipunin 2009/14/EB hefur alls ekki verið tekin upp á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún hefur tekið gildi í Evrópusambandinu en ekki á Evrópska efnahagssvæðinu og þess vegna er óþarfi að taka hana upp. Það er óþarfi að taka hana upp því að í henni felst nefnilega ríkisábyrgð. Það er munurinn á þessum tveimur tilskipunum. Í tilskipun 1994/19/EB stendur mjög greinilega að kerfið skuli vera fjármagnað af innlánsstofnunum sjálfum eða fjármálastofnunum sjálfum. Þessi tilskipun segir að ríkin skuli tryggja að innstæður verði tryggðar upp að þessu marki. Það er sem sagt ríkisábyrgð á þessu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju í ósköpunum höfðu menn þetta ekki á tveimur kennitölum? Og í öðru lagi: Er ríkisábyrgð á þessum innstæðum upp að þessum mörkum?



[22:41]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr hvort ríkisábyrgð sé á þessum innstæðum. Það kom skýrt fram í nefndarálitinu að þar sem um væri að ræða sjálfseignarstofnun væri ekki um að ræða ríkisábyrgð þannig að alveg skýrt er að ekki er um ríkisábyrgð á sjóðnum að ræða og að í þeirri tilskipun ESB sem við erum í raun og veru að fara hér eftir og reyna að uppfylla, um að hvert og eitt aðildarríki að EES-samningnum eigi að koma sér upp innstæðutryggingakerfi, er ekki skýrt tekið fram hvort ríkisábyrgð eigi að vera á því og jafnvel margir sem halda því fram að svo sé ekki þar sem fyrsta tilskipunin tilgreinir það ekki sérstaklega.

Til þess að vera með það alveg á hreinu þá tilgreinir meiri hlutinn í nefndaráliti sínu að ekki sé um ríkisábyrgð á sjóðnum að ræða.



[22:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Hv. þingmaður svaraði ekki af hverju menn væru með þetta í tveimur deildum en ekki á tveimur kennitölum, algjörlega aðgreindum, og ég ætla að biðja hana um að svara því aftur því að ég tel að það sé óþarfaáhætta.

Svo vil ég benda hv. þingmanni á það að hún breytir ekki tilskipunum Evrópusambandsins, þær gilda. Ef menn vísa í lögum og í nefndaráliti til þess að hér sé verið að innleiða ákveðna tilskipun frá Evrópusambandinu, sem ekki er búið að taka upp á Evrópska efnahagssvæðinu, vegna þess að við viljum vera svo framarlega á merinni, á undan öðrum á Evrópska efnahagssvæðinu, þá eru menn að taka á sig miklu hærri upphæðir, 50 þúsund evrur, og auk þess eru menn að taka ríkisábyrgð á þessu, því að það stendur að ríkin skuli tryggja að innstæðukerfin haldi.

Það var ekki þannig í gömlu tilskipuninni frá 1994, þannig að ég óttast þetta verulega, frú forseti.



[22:44]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er enn og aftur spurð að því hvers vegna sjóðurinn er deildaskiptur en ekki tveir aðskildir sjóðir, A-sjóður og B-sjóður, sem ekki eru á sömu kennitölu. Ég get ekki séð að því fylgi meiri áhætta að vera með þetta á einni kennitölu en á tveimur kennitölum þar sem alveg skýrt er að fjárhagur þessara tveggja deilda er aðskilinn að öllu leyti og það er sama svar og ég hef gefið hér áður.



[22:44]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann þriggja spurninga varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi gengur þetta frumvarp út á það að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Sú tilskipun hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og það er ágreiningur, m.a. sem Norðmenn gera, um það með hvaða hætti eigi að innleiða hana í EES-samninginn. Í ljósi sögunnar og þeirrar hræðilegu reynslu sem við höfum af löggjöf Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún hefði ekki talið skynsamlegt að tilskipunin yrði fyrst tekin upp í EES-samninginn áður en hún væri innleidd í íslenskan landsrétt.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hv. þingmann, úr því að það er tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans að tryggingarsjóðurinn njóti ekki ríkisábyrgðar, enda ekki tekið fram að svo sé, hvers vegna það sé ekki tekið fram í lagatextanum sjálfum að ríkissjóður ábyrgist ekki skuldbindingar tryggingarsjóðsins eða þær lántökur sem hann þarf hugsanlega að fara út í vegna skuldbindinga sinna. Ég bendi á að ábending kom frá stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda um að öll tvímæli yrðu tekin af um þetta og ákvæði þar um sett inn í 6. og 8. gr. frumvarpsins.

Í þriðja lagi langar mig til þess að spyrja hv. þingmann spurningar sem er lykilspurning: Ef tryggingarsjóðurinn getur ekki staðið við lágmarkstrygginguna og er ekki fær um að slá lán fyrir lágmarkstryggingunni hver ber þá ábyrgð á þeim innlánum sem tryggingarsjóðurinn á að tryggja? Er það ríkið, eru það bankarnir eða enginn? (Forseti hringir.) Hver ber á endanum ábyrgð á innlánunum (Forseti hringir.) ef tryggingarsjóðurinn getur ekki gert það?



[22:47]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spyr mig þriggja spurninga sem ég ætla að reyna að svara. Í fyrsta lagi hvort ekki sé viturlegra að bíða þar til tilskipun ESB frá 2009 verði innleidd í EES-samninginn og tilgreinir að ástæðan fyrir því að ekki er búið að gera það sé sú að Norðmenn séu andvígir henni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu m.a. fram á fundi nefndarinnar hafa Norðmenn verið andvígir vegna þess að þeir tryggja hærri upphæð en sem nemur þessum 50 þúsund evrum, þeir hafa verið að tryggja 100 þúsund evrur. Það hefur nú þegar komið fram að Evrópusambandið mun ekki setja 50 þúsund evra lágmark heldur 100 þúsund evra lágmark og koma þar af leiðandi til móts við kröfur Norðmanna.

Varðandi það að setja í lagatextann að ekki sé ríkisábyrgð á sjóðnum þá er það hefð í íslenskri lagagerð að þegar eitthvað er ekki tilgreint sérstaklega í lögunum er það ekki bannað. Þess vegna þótti meiri hluta nefndarinnar ekki ástæða til að tilgreina sérstaklega að ekki væri ríkisábyrgð þar sem það er ekki ríkisábyrgð.

Síðan er spurt hver beri ábyrgð á því að lána tryggingarsjóðnum ef enginn viðskiptabanki lánar honum til að fjármagna bætur til innstæðutrygginga. (Forseti hringir.) Það er heldur ekki skýrt í þessari tilskipun.



[22:49]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur reglan verið sú að við innleiðum tilskipanir eftir að þær eru teknar upp í EES-samninginn en ekki áður en það er gert. Þannig hefur það verið í þinginu og þannig eru skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum. Okkur ber ekki skylda til að innleiða tilskipanir sem ekki hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Hv. þingmaður talar um hefð í íslenskri lagasetningu, að tiltaka ekki það sem ekki má, ef svo má segja. Sagan segir okkur hins vegar það og saga Icesave-málsins kennir okkur það að ef við ætlum ekki að leggja ríkisábyrgð á skuldbindingar tryggingarsjóðsins hljótum við að verða að taka það sérstaklega fram í lögunum vegna þess m.a. að í tilskipuninni eru lagðar miklu ríkari skuldbindingar á hendur aðildarríkjunum en gert var samkvæmt gömlu tilskipuninni.

Ég ítreka síðustu spurningu mína sem hv. þingmaður svaraði ekki: (Forseti hringir.) Hver ber að hennar mati ábyrgð á innlánum ef tryggingarsjóðurinn getur ekki gert það og getur ekki tekið lán fyrir lágmarkstryggingu? Er það ríkið, eru það bankarnir (Forseti hringir.) eða e.t.v. einhver annar?



[22:50]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er svona sannfærður um að innstæðutryggingarsjóður muni ekki geta fengið lán á viðskiptalegum grunni langar mig til að vita hvort hann trúi því að hér sé einhver grundvöllur fyrir einkabanka. Vegna þess að ef innstæðutryggingarsjóðurinn fær ekki lán til að bæta innstæðueigendum tap sitt og þarf þar af leiðandi að leita til ríkissjóðs þá er bara besta kerfið að hafa ríkisbanka til að tryggja að innstæðueigendur fái alltaf lágmarkstryggingu.



[22:51]Útbýting:

[22:52]
Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Þetta er um margt merkilegt mál og mér finnst eiginlega makalaust hve lítið hefur farið fyrir því. Þetta er stórmál og gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga og tengist einmitt því máli sem var einna mest til umræðu hér á landi á síðasta ári, þ.e. Icesave-málinu sem varðaði einmitt þennan sama sjóð.

Í frumvarpinu er lagt til að eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði veitt lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Til að unnt sé að veita þá vernd sem er kveðið á um í frumvarpinu er innlánsstofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að greiða iðgjald til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem skal inna af hendi greiðslu hvíli greiðsluskylda á honum.

Eins og kunnugt er hafa íslensk fjármálafyrirtæki greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta en eftir fall bankanna reyndist ekki nægt fé í sjóðnum til að mæta tapinu og nemur tap hans mörg hundruð milljörðum króna. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 94/19/EB um innstæðutryggingar skal sérhvert aðildarríki tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á einu eða fleiri innlánatryggingakerfum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skiptingu sjóðsins í A-deild (ný deild) og B-deild (núverandi deild) og skal B-deildin lögð niður þegar greiðslu skuldbindinga hennar er lokið vegna ábyrgða sem hafa fallið á hana fyrir gildistöku laganna. Frá gildistöku frumvarpsins munu iðgjöld renna inn í A-deild verði frumvarpið að lögum og er ætlað að mæta áföllum framtíðarinnar.

Í gildandi lögum er mælt fyrir um að verndin nemi 20.887 evrum — og það er okkur þingmönnum sem höfum fjallað um Icesave-málið gersamlega ógleymanleg tala. Samkvæmt frumvarpinu, sem við fjöllum um nú, er kveðið á um að verndin nemi 50.000 evrum og hefur meiri hluti nefndarinnar lagt til í breytingartillögum sínum að verndin muni nema 100.000 evrum frá og með 1. janúar 2011. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að Evrópusambandið hefði ákveðið að hækka verndina í þeim tilgangi að auka tiltrú á bankakerfi innan sambandsins.

Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að enginn tryggingarsjóður í heiminum væri fær um að mæta falli stærstu fjármálastofnunar sem starfsemi hans næði til. Þá var bent á að það muni taka marga áratugi að safna nægilegum sjóði til að geta mætt falli eins af hinum þremur stóru íslensku viðskiptabönkum. (Gripið fram í: 30.) Ljóst er að slíkur sjóður mun ekki gagnast núlifandi Íslendingum og að um falskt öryggi er að ræða. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur það einnig verið rætt að stofnaður verði sameiginlegur sjóður á öllu evrusvæðinu sem væri það burðugur að hann gæti greitt tap af falli stórra banka. Enn er þó langt í að slíkur sjóður verði stofnaður. Ég tel rétt að reynt sé að taka upp samstarf við stærri erlendan sjóð, t.d. norska tryggingarsjóðinn. Fram kom að ekki hafi verið reynt að koma slíku samstarfi á.

Á meðan fólk treysti bönkunum var nóg fyrir flesta að trúa því og treysta að innstæður þeirra væru öruggar í bönkunum. Það var ekki fyrr en fór að hrikta verulega í bankakerfinu að það skapaðist vantraust á kerfið sem leiddi af sér áhlaup á bankana sem þeir gátu ekki staðið af sér. Af því má sjá að falskt öryggi getur virkað ágætlega, svo lengi sem tiltrú á kerfinu er fyrir hendi. Nú er trú almennings hins vegar í lágmarki og því mun tómur eða félítill innstæðutryggingarsjóður ekki virka sannfærandi í augum fólks. Þá hefur bæði almenningur og bankamenn lært það af fenginni reynslu að í raun er ríkisábyrgð á innstæðum því þegar bankakerfið hrundi greiddi ríkið allar innstæður. Rökréttast er að gera ráð fyrir að komi til annars hruns mundi ríkisvaldið bregðast eins við.

Að stofna nýja en vanmáttuga deild í gjaldþrota sjóði er líkast því að sleppa því að koma upp öryggiskerfi í byggingu en setja límmiða sem gefur hið gagnstæða til kynna í gluggann. Húsið er algjörlega óvarið en einhverjir mundu hugsanlega trúa því sem á límmiðanum stendur og hætta við að brjótast inn.

Þar sem ljóst er að greiðslur í nýja deild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eru gagnslausar mæli ég með því að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að leita samstarfs við stærri og burðugri tryggingarsjóð á erlendri grund.



[22:57]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er að mínu áliti alvarlegasta málið sem við tökum fyrir á þessu þingi. Því miður er þetta frumvarp sem lagt er fyrir þingið til marks um það að ríkisstjórn Íslands, stjórnarmeirihlutinn og Alþingi hafa ekki dregið nokkurn einasta lærdóm af Icesave-málinu, því síður því sem stendur í 17. kafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað er um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt.

Við þekkjum öll Icesave-málið og ég ætla ekki að rekja það hér, það er okkur öllum í fersku minni. Hver eru tildrög þess máls? Jú, við Íslendingar tókum upp gallaða tilskipun Evrópusambandsins. Það liggur alveg fyrir og ég held að enginn sem sé að segja satt haldi því fram að sú tilskipun hafi ekki verið meingölluð, (Gripið fram í.) enda, eins og hv. þingmaður kallar fram í, hefur henni verið breytt. Ég verð að vísu að viðurkenna, virðulegi forseti, að það er nákvæmlega það sem við erum að fjalla um hér og þær breytingar sem Evrópusambandið hefur gert á þessari tilskipun sinni eru ekki gerðar með hag Íslendinga að leiðarljósi.

Í örstuttu máli var innstæðutryggingarkerfið sett á laggirnar á vegum Evrópusambandsins og þar af leiðandi þurftum við sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu að taka það upp. Hugmyndin var sú að hver innstæðueigandi gæti gengið að rúmlega 20 þúsund evrum ef viðkomandi banki mundi falla. Hugsunin var sú að einn banki af hverjum 100 eða 200 mundi falla á nokkurra ára fresti. Ekki var gert ráð fyrir kerfishruni og því síður að um væri að ræða módel eins og er á Íslandi þar sem þrír stórir viðskiptabankar sjá um 80% af innlánunum.

Ástæðan fyrir deilunni í Icesave-málinu er m.a. sú að Evrópusambandið og Bretar og Hollendingar hafa haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins og samkvæmt nýju tilskipuninni frá 11. mars 2009 eru þær breytingar helstar að nú er kveðið á um að ríki skuli tryggja að vernd sérhvers innstæðueiganda nemi 50 þúsund evrum. Með leyfi virðulegs forseta stendur í frumtextanum:

„Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50 000 in the event of deposits being unavailable.“

Í eldri tilskipun var ekki kveðið eins sterkt að orði og þar var mælt með að áskilið væri að innstæðutryggingar veittu innstæðueigendum vernd allt að 20 þúsund evrum. Í frumtextanum er það, með leyfi forseta:

„Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits being unavailable.“

Nú vill stjórnarmeirihlutinn taka þessa tilskipun upp en af henni má ráða að um sé að ræða harðari eða ákveðnari skuldbindingar um það að ríki eigi að koma að málum. Meiri hlutinn vill að við setjum þetta í lög núna, áður en þetta kemur inn í EES-samninginn. Þrátt fyrir að búið sé að fara yfir það margoft í umfjöllun nefndarinnar og öllum sé ljóst að sjóðurinn verður aldrei tilbúinn til þess að taka við falli eins af stóru íslensku viðskiptabönkunum. (LMós: Ríkisbönkunum.) Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem kallar fram í ríkisbankar, telur að það sé lausn á vandanum þá má hv. þingmaður alveg eiga það við sig. Það breytir ekki eðli málsins.

Virðulegi forseti. Ef vilji stjórnarmeirihlutans nær fram að ganga að klára þetta sem lög frá Alþingi og ef einhver heldur að það sé fullkomlega útilokað að einhver af stóru viðskiptabönkunum þremur fari yfir er rétt að upplýsa að fyrrverandi bankastjóri Landsbankans fór yfir það að ef stefna ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið nái fram að ganga muni það ríða ríkisbankanum, Landsbankanum, að fullu.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn ætlar ekki að láta staðar numið við 50 þúsund evrurnar, heldur vegna þess að embættismaður fór í heimsókn í Evrópusambandið og fékk upplýsingar um að Evrópusambandið vildi að þetta færi upp í 100 þúsund er það lagt til. Ekkert af þessu er komið inn í EES-samninginn, ekkert. En svo mikið liggur á að verða einhvers konar — ég ætla ekki að segja hvað — í augum Evrópusambandsins að menn ætla að hlaupa til og gera þetta að lögum, menn ætla ekki aðeins að setja tilskipun sem er ekki komin í Evrópska efnahagssvæðið heldur ætla menn að setja ákvæði sem er ekki einu sinni komið í tilskipunina.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta kerfi er svo gott að enginn innstæðutryggingarsjóður í Evrópu þolir fall stærsta bankans. En stjórnarmeirihlutinn ætlar að hlaupa til með bundið fyrir augu og setja þetta kerfi hér. Nú getur vel verið, virðulegi forseti, að í einhverjum ríkjum séu 80% innstæðna hjá þremur viðskiptabönkum. Ég veit það ekki, það má vera. En þau yrðu þá í jafnvondri stöðu og við sem munum aldrei geta þolað fall eins af viðskiptabönkunum. Þessi innstæðutryggingarsjóður veitir falskt öryggi. Bara svo því sé til haga haldið þá er þetta evrópska innstæðutryggingarkerfi svo gott að meira að segja stóru þjóðirnar gátu ekki reitt sig á það í bankakreppunni, ekki Þýskaland, ekki Bretland, ekki Írland. Þau ríki þurftu að hlaupa til og koma með önnur úrræði. Ég spyr, virðulegi forseti, eftir allar ræðurnar, alla umræðuna um að við ætluðum að læra af mistökunum, vanda okkur betur og hugsa hlutina til enda. Eftir alla þá umræðu sitjum við með frumvarp sem gæti alveg eins heitið: Við ætlum að gera sömu mistökin aftur en nú ætlum við að leggja aðeins meira í þau. Það gæti verið heitið á þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Röksemdafærslan er nákvæmlega sú hin sama og hefur verið frá því að við fórum inn í Evrópska efnahagssvæðið: Af því að þetta kemur frá Evrópu hlýtur þetta að vera gott og við þurfum endilega að klára þetta. Hér, virðulegi forseti, hefur stjórnarmeirihlutinn hamast í stjórnarandstöðunni og krafist þess að þetta mál verði klárað með hraði. Skiptir engu þó að allir umsagnaraðilar færu yfir að það væri ekki skýrt eða réttara sagt, ekki væri tekið fram, sem ætti að vera tekið fram, að ekki ætti að vera nein ríkisábyrgð á þessu. Það skiptir engu máli þótt allir umsagnaraðilar færu yfir það að þessi sjóður mundi aldrei veita neina vernd nema í besta falli við fall á litlum sparisjóði, eins og það var orðað. Það skiptir engu máli. Það skal keyra þetta mál í gegn.

Til að setja þetta í samhengi þá tekur það 96 ár fyrir innstæðutryggingarsjóðinn að ná innstæðum til að ráða við fall stærsta viðskiptabankans. Það er umræða um að fækka þessum viðskiptabönkum úr þremur í tvo. Í þessum útreikningum var að vísu bara gert ráð fyrir því að um væri að ræða 50 þúsund evra vernd en látum það liggja á milli hluta. Svo sannarlega er það þannig, svo við höldum öllum staðreyndum til haga, að innstæðutryggingarsjóðurinn á að ganga á undan öðrum við fall banka þannig að hann á að hafa forgang í kröfur. En það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að bankar á Íslandi verða trauðla fjármagnaðir nema fjármögnun fái veð á undan innstæðutryggingarsjóðnum þannig að ljóst er að menn þurfa að reiða sig á söfnun í innstæðutryggingarsjóðinn þegar menn ábyrgjast sem svarar 16 millj. á hvern reikning.

Hér voru ágætisorðaskipti áðan á milli hv. þingmanna. Hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Eygló Harðardóttir og Pétur Blöndal spurðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur út í ríkisábyrgðina. Það kom nefnilega skýrt fram hjá fulltrúum meiri hlutans að þeir túlka lögin með þeim hætti að ef — vonandi gerist það aldrei — fjármálastofnun, banki eða sparisjóður, fer á höfuðið … (PHB: Það gerðist.) Það gerðist og getur gerst aftur. En þá þarf innstæðutryggingarsjóðurinn að taka lán og það kom alveg skýrt fram í túlkun hæstv. ráðherra og hv. þingmanna í meiri hlutanum að þá þyrfti ríkið að sjá til þess að sjóðurinn fengi fjármögnun. (Gripið fram í: Í staðgreiðslu.) Að ríkið þyrfti að tryggja að sjóðurinn fengi fjármögnun heitir á íslensku ríkisábyrgð. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem talar sem betur fer oft skýrt svaraði ekki skýrt fyrirspurn um þetta áðan en það var gert í nefndinni. Þar kom þetta mjög skýrt fram. En gefum okkur það, virðulegi forseti, að hér sé vafi, að við séum ekki alveg viss. Ætlum við þá eftir allt sem á undan er gengið að hafa vafa á þessu risastóra máli.

Virðulegi forseti. Rök hæstv. ríkisstjórnar eru þau að nú séum við með ríkisábyrgð á öllum innstæðum og þurfum að losna út úr því og þess vegna þurfum við að koma á innstæðutryggingarkerfi. Við skulum fara yfir það því ljóst er að þetta frumvarp er ekki lausnin. Því fer víðs fjarri. Ef við förum þessa leið erum við að festa ríkisábyrgð. Virðulegi forseti. Ef einhver hefur gleymt því eða það farið fram hjá einhverjum vil ég vekja athygli á því að við eigum enn þá í harðri viðskiptadeilu út af Icesave. Það er ekki þannig að Evrópusambandið, Holland og Bretland hafi metið það sem svo að við séum laus allra mála. Nei, virðulegi forseti. Því fer víðs fjarri.

Hér erum við að taka upp tilskipun frá Evrópusambandinu sem er ekki komin í EES-samninginn. Við ætlum að vísu að bæta um betur út af upplýsingum sem ágætur embættismaður fékk frá Evrópusambandinu og ganga skrefi lengra heldur en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir. Við vitum að þessi lagabálkur mun einungis veita falska vernd. Við ætlum að loka deildinni sem á að greiða út Icesave-skuldbindingarnar. Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Það þýðir að það koma ekki frekari greiðslur inn í þá deild. Við ætlum að búa til nýja deild sem er algerlega ljóst að mun aldrei geta sinnt því hlutverki sem lagt er upp með. Það þýðir að ef hlutirnir fara á versta veg erum við með sín hvora deildina sem við verðum í deilum um hvort ríkið beri ábyrgð á eða ekki. Svo við höldum öllu algerlega til haga og segjum hlutina eins og þeir eru þá er enginn að tala um bankakerfið eins og það var. Allir útreikningar og allar forsendur gera ráð fyrir því að við séum að tala um stærð bankakerfisins á Íslandi, eins og hún er núna, enga útrás, ekkert slíkt. Þetta er bara bankakerfið eins og það blasir við okkur í dag og við gerum ekki ráð fyrir að það muni stækka.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt í smærri kantinum sem menn hafa farið í sem er til bóta. Menn hafa hækkað iðgjaldið, sett áhættustuðla og ýmislegt annað og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En það breytir ekki stóru myndinni. Ef vilji meiri hlutans nær fram að ganga þá verður þetta frumvarp að lögum. Það yrði skelfilegt slys og mér finnst ótrúlegt að við séum að taka þessa umræðu korter yfir ellefu þann 15. júní og það sé í alvöru vilji meiri hlutans að klára þetta mál. Það er fullkomin nauðsyn á því og hefur aldrei verið mikilvægara að ríkisstjórnin — og þá höfum við sjálfstæðismenn lýst yfir vilja okkar til samvinnu og ég held allir í stjórnarandstöðunni — hafi frumkvæði að samvinnu við Evrópusambandið og önnur lönd um aðra lausn á þessu máli. Nú er það svo, virðulegi forseti, að menn geta haft alls konar skoðanir á Evrópusambandinu en hins vegar er það þannig að þau lönd sem eru í Evrópusambandinu og í þessu tilfelli Evrópska efnahagssvæðinu hafa margoft gætt hagsmuna sinna gagnvart því og oftar en ekki hefur það borið árangur. Hefur sú hagsmunagæsla borið árangur? Þegar ég var ráðherra í ríkisstjórn fór ég og talaði við framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út af lyfjamálum. Þá fékk ég mörgum sinnum að heyra að það þýddi ekki neitt, þetta væri Evróputilskipun og það væri eins og eitthvað sem væri greypt í stein en niðurstaðan varð sú, virðulegi forseti, að það bar árangur og hefði örugglega borið betri árangur hefðu eftirmenn mínir í embætti fylgt því betur eftir. En aðalatriðið er þetta: Þessi leið, þessi túlkun er ekki fær fyrir okkur Íslendinga, hún er ekki fær. Hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans verða að skilja það og taka það alvarlega. Þetta snýst ekki um það að ganga frá einhverju máli á færibandi. (LMós: Hvernig ætlum við að tryggja innstæður?)

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hv. þm. Lilja Mósesdóttir kalli ekki bara úr sal heldur fari í andsvar og í orðaskipti við mig út af þessu máli. Hún spyr úr þingsal: Hvernig ætlum við að tryggja innstæður? Það er verkefnið, virðulegi forseti, því að það er alveg ljóst að þessi leið er ekki fær. Við viljum öll losna undan þeirri ríkisábyrgð sem er til staðar hjá ríkisstjórninni. Allir eru sammála um það. En það að ábyrgjast 16 millj. á hvern innlánsreikning og segjast vera með sjóð sem allir vita að er ekki burðugur og mun ekki geta tekið við þeim áföllum er ekki lausn. Þetta mál verður að vinna betur. Bent hefur verið á að hugsanleg lausn sé að taka þátt í samvinnu í stærri sjóðum. Ég veit ekki hvort það er gerlegt. Menn hafa oft talað um sameiginlegan evrópskan innstæðutryggingarsjóð, hann er a.m.k. ekki að detta inn, virðulegi forseti. Slíkt væri mjög æskilegt ef svo væri en þá ættum við að gera ráðstafanir til að vera þar og vita hvernig þau mál standa en miðað við þær upplýsingar sem við höfum og komu fram í nefndinni þá er það ekki að gerast. Og hvort einhverjar þjóðir vilja vinna með okkur að þessu, þ.e. að við gætum tekið þátt í sjóðum hjá einhverjum stærri þjóðum, ég veit ekki hvort það er fjarlægt eða raunhæft. En ég tel að málstaður okkur gæti ekki verið mikið sterkari en hann er í dag. Það þarf ekki að útskýra það fyrir einum eða neinum, hvorki forsvarsmönnum Evrópusambandsins né öðrum þjóðum að við höfum ekki áhuga á að fara sömu leið og við fórum varðandi Icesave-málið. Hver maður sér að ef túlkun meiri hlutans er rétt og ríkissjóður þarf að koma að þessu á einhverjum tímapunkti þá er það eitthvað sem hann getur ekki borið. Það liggur alveg fyrir.

Þess vegna, virðulegi forseti, þurfum við að vinna þetta betur og höfum lýst okkur tilbúna til að taka þátt í þeirri vinnu. En hvort sem okkur líkar betur eða verr verður frumkvæðið að koma frá ríkisstjórninni. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þrátt fyrir góðan vilja hv. þingmanna er mál eins og þetta á forræði hæstv. ríkisstjórnar. Ég er tilbúinn til að leggja mjög mikið á mig til að hjálpa til við að finna lausn á þessu máli því það má ekki fara í gegnum þingið eins og það liggur fyrir núna. Það er lykilatriði að það gerist ekki og ég hvet hv. þingmenn í meiri hlutanum til að vinna með okkur og hafa forustu um að finna aðra lausn því að engin málefnaleg rök hafa komið fram sem mæla með því að við klárum þetta með þeim hætti sem lagt er upp með hér.



[23:21]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við ræddum þetta mál ítarlega í viðskiptanefnd. Ég sem varaformaður nefndarinnar stend fullkomlega á bak við þá ræðu sem formaður nefndarinnar flutti áðan. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka það sem þar kom fram en ég vildi koma í andsvar við hv. þingmann vegna þess að þótt ég deili að einhverju leyti sumum af þeim skoðunum sem hann varpaði á loft í ræðu sinni vil ég samt sem áður gera eina athugasemd. Að óbreyttu tel ég að við séum í þó nokkuð verri málum ef við gerum ekki neitt í þeirri stöðu sem við búum við. Við höfum gjaldþrota sjóð sem fær litlar inngreiðslur og við búum í dag við 100% ríkisábyrgð á öllum innstæðum á Íslandi.

Við búum líka í dag við þá stöðu að við tryggjum innstæður sem ekki er hægt að skilgreina sem valkost fyrir almennan sparifjáreiganda. Við styðjum fjárfestingarkostinn. Með nýju frumvarpi verður mikil breyting á hækkun inngreiðslna þannig að sjóðurinn mun safna fjármunum miklu hraðar. Inngreiðslur verða miklu tíðari þannig að sjóðurinn verður miklu betur í stakk búinn til að bregðast við breytingum, þ.e. sjóðsmyndunin verður óvenjuhröð.

Óbreytt staða er sýnu verri en sú að takast á við vandamálið, reyna að leysa það með einhverjum hætti og þar af leiðandi styrkja sjóðinn, skilja gjaldþrota sjóðinn eftir með fortíðarvandamál, sem við þekkjum öll og óþarfi er að ræða hér, en draga línu í sandinn, horfa fram á við og byrja að safna í nýjan sjóð til að við getum horfið frá því að vera með 100% ábyrgð á öllum innstæðum á Íslandi.



[23:23]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fór aðeins yfir það í ræðunni að þetta eru röksemdir stjórnarliða. Svarið er einfalt, það breytist ekki neitt við að setja í þennan sjóð. Í versta falli erum við með hina deildina sem við skildum eftir og getum því miður ekki bara horft til framtíðar. Við þurfum að loka því máli. Þar hafa stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar deilt mjög mikið. Ég þarf ekki að rifja upp Icesave-málið. Sem betur fer felldi þjóðin þau lög sem stjórnarliðar fóru fram með þar. Ef þau hefðu verið samþykkt væri svo sannarlega útilokað annað en að við þyrftum að greiða gríðarlega háar fjárhæðir inn í þessa gjaldþrota deild. Ef við viljum hækka iðgjaldið og greiða hraðar inn getum við gert það. Við þurfum bara að breyta þeim þætti laganna. Við ráðum því alveg, virðulegi forseti, en að taka upp þá tilskipun sem er ekki einu sinni komin inn í EES-samninginn er svolítið meira í lagt. Við erum ekki komin með neina niðurstöðu í þennan gamla sjóð og þó að sjóðsmyndunin sé hraðari en hún hefur verið erum við alveg búin að reikna út að það hefur ekkert í þessa vernd að gera. Við vitum það. Ef við erum neydd til þess af Evrópusambandinu að taka það upp með þessum hætti erum við með skuldbindingar fram í hið óendanlega og þá væri kannski hreinna að greiða áfram í þessa hít sem væri gjaldþrota deildin.



[23:25]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Mín skoðun á þessu máli er sú að óbreytt staða sé verri en sú sem lögð er til í þessu frumvarpi. Óbreytt staða með gjaldþrota sjóð sem safnar litlum peningum er verri en nýr sjóður sem fer að safna peningum og getur tekið lán byggt á framtíðarfjárstreymi.

Mér þykir líka eilítið skrýtið þegar sjálfstæðismenn fara í andsvör og flytja ræður og kvarta yfir því að hér sé ýjað að því að hér sé ríkisábyrgð og vilja fá skýr svör um hvort það eigi að vera ríkisábyrgð eða ekki. En bíðum við, ef ekkert er gert, ef enginn sjóður verður til og við byrjum ekki að safna peningum til að standa á bak við innstæður, sitjum við uppi með það að enn þá lengur verður 100% ríkisábyrgð á öllum innstæðum (Gripið fram í.) þannig að ef menn vilja ekki hafa ríkisábyrgð hljóta menn að horfa til þess að fara að leysa vandamálin með einhverjum hætti. Hér er komin lausn á borðið.

Ef ríkisábyrgð á innstæður er ekki hluti af framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins hljóta sjálfstæðismenn að vilja sjá einhverjar breytingar, að menn fari að safna í nýjan sjóð, horfa alvarlega á sjóðsmyndun.



[23:27]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta andsvar hv. þingmanns hræddi mig mjög og sannfærði mig um að það verður að berjast með oddi og egg gegn þessu frumvarpi.

Við erum með þrjá viðskiptabanka sem eru með 80% af innstæðum. Það er alveg ljóst að þessi sjóður mun aldrei geta varið þá. Það er bara hjóm eitt að tala um að ríkisábyrgð sé eitthvað að fara. Hún er ekkert að fara. Menn geta ekkert sagt, við tókum umræðuna í nefndinni og það liggur alveg fyrir að meiri hlutinn telur að ríkið eigi að koma að málinu því að það verði að fjármagna sjóðinn. Í alversta falli sitjum við þá uppi með tvær gjaldþrota deildir. Það er ekki glæsileg framtíðarsýn.

Við höfum alltaf sagt að þetta vandamál fari ekkert. Málið fer ekki og við erum alveg tilbúin til að gera allt hvað við getum til að finna aðra lausn á því. Við komumst ekki hjá því að eiga samskipti við aðrar þjóðir í tengslum við þetta. Þetta er Evróputilskipun, þetta tengist samningnum við Evrópska efnahagssvæðið, en sá aðili sem getur átt samskipti við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er hæstv. ríkisstjórn Íslands. Það þýðir ekki að gefast upp fyrir verkefninu. Þetta frumvarp er uppgjöf og menn eru að búa til í besta falli falska vernd og ímynda sér að þetta leysi málin. Það gerir það ekki. Stjórnarmeirihlutinn veit þetta, verður að horfast í augu við það og ef þeir gera það getum við unnið okkur út úr þessu, öðruvísi ekki.



[23:29]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég stend að nefndarálitinu með 2. minni hluta viðskiptanefndar og get líka tekið undir mjög margt af því sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta viðskiptanefndar. Ég er svo sem ekki komin hingað upp til að endurtaka það sem þegar hefur komið fram en í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir hlutfalli af handbæru fé sem innstæðutryggingarsjóðurinn eigi að ráða yfir og eigi að vera 4% af tryggðum innstæðum, sem er þá tvöfalt hærra en það sem almennt er gert ráð fyrir að innstæðutryggingarsjóðir í Evrópu ráði yfir. Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var kynnt fyrir okkur í viðskiptanefnd að raunar enginn af þeim innstæðutryggingarsjóðum sem eru til staðar í Evrópu, hvorki fyrir hrun né eftir bankakreppuna, gæti staðið undir því ef einn af stærstu bönkum þeirra færi í þrot. Þessi upphæð, þar sem miðað er við 2% eða 4% af heildarupphæð tryggðra innstæðna, virðist því vera enn ein talan sem gripin er úr lausu lofti.

Ef við veltum aðeins þessum tölum fyrir okkur er núna gert ráð fyrir því að það séu um 2.000 milljarðar sem skilgreina má sem innstæður í íslenska bankakerfinu. Af þeim ættu um 600 milljarðar að vera tryggðir, eða um þriðjungur af innstæðum, samkvæmt þessu frumvarpi. Þó að það sé ætlunin að fara frá því sem þegar er búið að samþykkja upp í 50 þúsund evrur og síðan samkvæmt þessari breytingartillögu meiri hlutans upp í 100 þúsund evrur þá bætast ekki svo háar upphæðir við vegna þess að það eru ekki margir reikningar með svo háar upphæðir í viðbót. Við getum því haldið okkur við að í kringum 30% af innstæðum séu tryggð þegar ríkisábyrgðin fellur úr gildi, eða yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð. Miðað við 4% af þessum 600 milljörðum er að stefnt að því að þá verði 24 milljarðar í innstæðutryggingarsjóðnum. Til að við gerum okkur grein fyrir því hvað sú upphæð er raunar fáránleg þá eru á milli 400 og 500 milljarðar inni í Nýja Landsbanka í innlánum og þriðjungur af þeirri upphæð ætti að vera í kringum 120 milljarðar. Landsbankinn er okkar stærsti banki og því sjáum við að 24 milljarðar munu duga mjög skammt.

Ef við horfum síðan á þær upphæðir sem gert er ráð fyrir að verði rukkaðar inn frá fjármálafyrirtækjum árlega til að byggja upp þennan sjóð þá eru það 2,7–3 milljarðar sem verða iðgjöld í innstæðutryggingarsjóðinn. Þrír milljarðar eru þokkaleg upphæð í huga flestra en svo að við sjáum hvað þessar tölur eru afstæðar er bara vaxtakostnaðurinn við Icesave 3 milljarðar á mánuði. Þessir peningar eru því mjög fljótir að fara. Fyrir bankahrun kom fram í samráðshópnum að mig minnir, alla vega er vitnað í það í rannsóknarnefndarskýrslunni að þar hafi verið bent á að þegar Sparisjóður Mýrasýslu lenti í erfiðleikum hefðu innstæðurnar varla dugað. Upphæðin sem var í innstæðutryggingarsjóðnum hefði varla dugað til þess að tryggja innstæðurnar í Sparisjóði Mýrasýslu. Þessi 4% duga því ef lítill sparisjóður fellur. Þegar búið verður að taka af þessa yfirlýsingu um ríkisábyrgð má gera ráð fyrir því á næstu árum að einu innstæðurnar sem verða tryggðar út frá sjóðum innstæðutryggingarsjóðsins séu þær upphæðir sem eru til staðar í litlu sparisjóðunum.

Við getum hins vegar huggað okkur við það að reynslan af bankahruninu sýnir að það eru kannski einmitt minnstu sparisjóðirnir sem eru líklegastir til að lifa af svona áföll. Þeir sýndu mestu íhaldssemina, mestu varkárnina og voru fyrst og fremst í hefðbundnum bankaviðskiptum. Þeir tóku við innlánum, voru í mjög hefðbundnum og þröngt skilgreindum útlánum og því sem er skilgreint sem kortaþjónusta. Þegar við vorum að ræða frumvarp um fjármálafyrirtæki sem tók gildi nýlega, umfangsmiklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, var samþykkt tillaga um að sett yrði á stofn nefnd sem mundi vinna ákveðna pólitíska stefnumörkun um hvers konar fjármálakerfi við treystum okkur til að hafa á Íslandi og gætum í raun og veru haft. Þar talaði ég um að það væri einmitt mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum ekki að aðskilja — og þetta er eitthvað sem ekki bara við framsóknarmenn höfum rætt heldur líka sjálfstæðismenn og þingmenn Hreyfingarinnar — fjárfestingarbanka og viðskiptabanka þannig að innlánstryggingar nái aðeins yfir mjög hefðbundin, þröngt skilgreind fyrirtæki sem eru bara í viðskiptabankastarfsemi sem er mjög íhaldssöm. Það er mjög mikilvægt að við skoðum þetta vel vegna þess að það hefur sýnt sig að það að vera tryggður hvetur til áhættusækni. Þetta er nákvæmlega það sem menn hafa bent á að sé gallinn við innstæðutryggingar, að þær umbuna í raun og veru áhættusömum fjármálafyrirtækjum, og það getum við engan veginn sætt okkur við.

Daginn eftir að skýrsla rannsóknarnefndar kom út voru umræður í þinginu. Þá kom hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, upp í ræðustól, tilgreindi sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sagði að við ættum að sitja í salnum, hlusta og læra. Ég sat og ég hlustaði og ég vona að ég hafi lært eitthvað. En þegar maður horfir á þetta frumvarp, þetta nefndarálit og þá umfjöllun sem hefur verið í nefndinni hefur maður miklar áhyggjur af því að kannski hefði frekar átt að beina þessum tilmælum til þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, því mér finnst þetta vera mjög mikið „déjà vu“. Við erum að endurreisa gamla Ísland en við höfum því miður greinilega ekki lært nóg.

Það sem er undirliggjandi — því megum við ekki gleyma og verðum svo sem að virða það við meiri hlutann — er að við erum skuldbundin samkvæmt EES-samningnum til að búa enn á ný til innstæðutryggingarkerfi sem byggir á gallaðri tilskipun og gallaðri hugmyndafræði. Þegar maður hlustar á umræður í Evrópuþinginu og les þau gögn sem unnin voru þegar þeir ætluðu sér að gera bragarbót á sinni tilskipun sést að þeir voru komnir takmarkað langt í því að gera sér virkilega grein fyrir takmörkun innstæðukerfis þeirra. Þingmenn á Evrópuþinginu, stjórnmálamenn sem sitja í framkvæmdastjórninni, voru ekki tilbúnir að gera sér grein fyrir því að innstæðutryggingakerfið sjálft er stórlega gallað. Það er því stórt verkefni. Ég tel að það þurfi að vera algert forgangsatriði hjá þessari ríkisstjórn, af því að við erum að tala um svo háar upphæðir og svo mikilvæga þætti, að nú verði farið og bankað upp á hjá Evrópusambandinu og talað um þetta, að við höldum áfram að berja á þeim. Núna er ekkert innstæðutryggingarkerfi í einu einasta Evrópuríki sem getur staðið við það sem það á að gera án þess að fá stuðning frá ríkisvaldinu. Ég tek algerlega undir það sem kemur fram í nefndarálitum minni hluta viðskiptanefndar og nefndaráliti okkar að það er nauðsynlegt að taka upp samstarf við stærri erlendan sjóð, hvort sem Norðurlandaþjóðirnar vilja vinna með okkur, sem væri langbest, eða um væri að ræða samstarf í allri Evrópu.

Hér hef ég fyrst og fremst talað um falskt öryggi og hvers konar fjármálamarkað við þurfum í rauninni að hafa til að geta staðið við þessar innstæðutryggingar — en vonandi þurfum við, íslenskir skattgreiðendur, aldrei að standa við þær. Í vinnslu þessa máls hef ég líka lagt mikla áherslu á gengisáhættuna. Það er eitt af því sem ég veit að nefndarmenn í rannsóknarnefndinni höfðu miklar áhyggjur af, að við erum að tryggja innstæður í annarri mynt. Ég bið stjórnarmenn og starfsmenn innstæðutryggingarsjóðsins að hafa í huga þá ábendingu sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um möguleika til að takmarka gengisáhættuna, að færa gengisáhættuna frá sjóðnum yfir á innstæðueigendur. Ef aftur kemur til bankahruns, jafnvel þótt einn stór banki fari, verður gengið okkar fyrir áfalli.

Ég vil líka ítreka það sem ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur um varðandi A- og B-deildina. Ég tek líka að vissu leyti undir það sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði að ef EES-samningurinn gerir kröfu um að við þurfum að vera með innstæðutryggingarkerfi, að við þurfum að vera með þessa ábyrgð, þá er betra að ríkið ábyrgist 600 milljarða en 2.000 milljarða. Vandinn er bara sá að ríkið á hvorugt, það á hvorki 2.000 milljarða né 600 milljarða. Ég hefði raunar helst viljað að ekki hefði verið stofnaður nýr innstæðutryggingarsjóður, að við hefðum ekki haft áhyggjur af því að kröfuhafarnir út af Icesave gætu hugsanlega komist í þessa nýju peninga heldur að það væri einn sjóður áfram. Ég fagna breytingartillögum við frumvarpið sem koma frá meiri hlutanum, ég tel að þær geri það betra, en við erum ekki að taka grundvallarumræðuna um að það sé fjármálakerfið sem borgi á endanum fyrir áfallið. Það er verið að tryggja innstæðurnar og að fólk treysti sér til að setja peningana inn í bankakerfið og að sjálfsögðu eiga það að vera fjármálafyrirtækin sjálf sem borga þennan kostnað. Þegar ég fór í gegnum upphæðina áðan sást hve þessi iðgjöld ná skammt. Þrír milljarðar í vaxtakostnað á mánuði, ef við höldum okkur við þann Icesave-samning sem er á borðinu hjá okkur, og 3 milljarðar í iðgjöld á ári út af þessari tryggingu. Það var svo sem önnur spurning sem ég bar líka upp, hvort ekki væri hægt að hækka iðgjöldin enn þá frekar, en þetta er niðurstaðan.

Ég er engan veginn sátt en ég skal hins vegar viðurkenna að ég hef ákveðinn skilning á afstöðu meiri hlutans út frá þeim alþjóðlegu samningum sem við höfum gert og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur. Þetta er þá væntanlega það sem við lítum á sem kostnaðinn við EES-samninginn.



[23:43]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mörg af þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á þessu þingi eru að mínu mati afar vond. Slæm frumvörp og vond lagasetning sem mér hugnast ekki. En af öllum þeim frumvörpum tel ég að frumvarpið sem við ræðum hér, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sé það versta af þeim öllum og er þó samkeppnin hörð.

Eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta viðskiptanefndar sem ég skrifa undir er frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta til marks um að ríkisstjórn Íslands og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafi hvorki dregið nokkurn lærdóm af Icesave-málinu né af því sem fram kemur í 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt.

Í rauninni er það svo að með því að leggja fram þetta frumvarp lætur ríkisstjórnin eins og Icesave-málið hafi aldrei komið upp og að rannsóknarskýrsla Alþingis hafi aldrei verið skrifuð. Látið er eins og þau sjónarmið sem þar koma fram og öll þau vandræði sem ríkisstjórnin hefur verið í út af Icesave-málinu og þær ábendingar sem fram koma í rannsóknarskýrslunni, mjög vandaðar og yfirgripsmiklar ábendingar, skipti engu máli.

Frumvarpið sem við ræðum hér tekur ekki á stóru spurningunni, stóra álitamálinu sem uppi er í Icesave-málinu: Eiga íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast innlán í bönkum þegar þeir verða gjaldþrota?

Það furðulega við málið er að með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslensk lög tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 um innstæðutryggingar sem ekki hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Það segir beinlínis í greinargerð með frumvarpinu að þessi tilskipun hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn og hafi ekki fengið þar endanlega umfjöllun. Tilskipunin er enn þá á borði sameiginlegu EES-nefndarinnar og á eftir að fá þar efnislega umfjöllun og afgreiðslu. Það er þannig og það veit ég ágætlega, hafandi setið á þingi frá árinu 2003, að almenna reglan er ekki sú að við innleiðum í íslenskan rétt tilskipanir áður en þær eru teknar upp í EES-samninginn heldur eftir að það hefur verið gert.

EES-samningurinn gengur m.a. út á að þegar Evrópusambandið samþykkir og lögfestir löggjöf fari af stað ákveðið ferli sem leiðir til þess að aðildarríkin að samningnum innleiða meginreglur þeirrar löggjafar. Því ferli er ekki lokið. Það hefur ekki einu sinni verið farið yfir það hvort íslensk stjórnvöld telji að þeim beri að innleiða allar efnisreglur tilskipunarinnar. Við höfum áður brennt okkur á því að innleiða með bundið fyrir augun tilskipanir Evrópusambandsins sem síðar kom í ljós að við þurftum ekki að innleiða. Ég nefni sem dæmi löggjöf um raforkumarkaðinn. Það er dæmi um löggjöf sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins og Íslendingar gengu allt of langt í að taka yfir og þurftu að gjalda fyrir það. Það er ótrúlegt að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna skuli sætta sig við að svona sé á málum haldið svo ég tali nú ekki um þingmenn Vinstri grænna sem hafa haft ákveðnar efasemdir um Evrópusambandið og aðkomu þess að löggjafarstarfi á Íslandi. Við erum þó enn sjálfstæð og fullvalda þjóð sem eigum að ráða málum okkar sjálf og það skulum við gera í málum sem varða innstæðutryggingar ef við eigum þess nokkurn kost.

Eins og fram kom í andsvari mínu við hv. þm. Lilju Mósesdóttur þá tel ég að það sem er helst að þessu frumvarpi, helsti ókostur þess er að í því eru ekki tekin af öll tvímæli um hvort lagt sé til að íslenska ríkið beri ábyrgð á innstæðum bankanna og beri ábyrgð á skuldbindingum hins nýja tryggingarsjóðs og lántökum sem hann kann að þurfa að fara út í til að standa undir þeim skuldbindingum sem honum ber að standa undir.

Það kom beinlínis fram hjá forsvarsmönnum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem komu á fund hv. viðskiptanefndar að taka yrði af öll tvímæli um hvort verið væri að leggja til að lögfest yrði ríkisábyrgð á starfsemi og skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Þau hjá tryggingarsjóðnum óskuðu eftir að úr því yrði skorið, með vísan til 6. og 8. gr. frumvarpsins. Á það var ekki fallist af hálfu meiri hlutans. Það er auðvitað ótrúlegt í ljósi Icesave-málsins. Icesave-málið og sú deila öll gengur út á það hvort ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins, hvort um ríkisábyrgð sé að ræða, hvort íslenskir skattgreiðendur eigi að blæða fyrir það þegar bankar fara á hausinn. Það er krafa Breta og það er krafa Hollendinga en við sem viljum standa með Íslendingum og berjast fyrir íslenskum hagsmunum höfnum því að ríkisábyrgð sé sett á skuldir einkafyrirtækja sem innlán eru. Út á það gengur Icesave-málið. Við höfnum því að íslenska ríkið eigi að ábyrgjast skuldsetningu Landsbanka Íslands. Þeir sem eru ósammála því taka undir kröfu Breta og Hollendinga og það mun ég aldrei gera.

Ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur að því í andsvari áðan og varpaði þeirri spurningu reyndar einnig fram á nefndarfundi til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar, hver bæri ábyrgð á því þegar bankastofnun verður gjaldþrota og fellur og tryggingarsjóðurinn kemur til skjalanna og þarf að greiða lágmarkstryggingu til innstæðueigenda en getur ekki staðið undir þeirri skuldbindingu og er heldur ekki í færum til að taka lán til að standa undir lágmarkinu. Hver ber þá ábyrgð? Er það ríkissjóður? Er það bara tryggingarsjóðurinn sjálfur? Eru það bankarnir eða hver? Hv. þm. Lilja Mósesdóttir gat ekki svarað þeirri spurningu minni áðan og það sem verra er, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ber ábyrgð á málinu og ber það fram svaraði ekki spurningunni. Hann hefur ekki svarað spurningunni þrátt fyrir að ég hafi spurt hennar þrisvar sinnum á sama fundinum og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er auðvitað ekki viðstaddur þessa umræðu nú frekar en áður. Sá hæstv. ráðherra virðist ekki hafa neinn áhuga á því að taka þátt í umfjöllun um eigin frumvörp eða standa fyrir þeim. Ég vorkenni hv. þm. Lilju Mósesdóttur að þurfa að svara fyrir öll þau frumvörp sem frá því ráðuneyti og hæstv. ráðherra koma og sérstaklega þessu frumvarpi vegna þess að það er augljóst að hv. þingmaður hefur ekki mikla sannfæringu í málinu.

Af hverju spurði ég þeirrar spurningar hver bæri ábyrgð þegar tryggingarsjóðurinn getur ekki staðið við lágmarksskuldbindinguna, er ekki í færum til að taka lán fyrir henni, af hverju spurði ég að því? Vegna þess að í 5. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þetta ein stærsta spurningin sem rannsóknarnefndin veltir fyrir sér í umfjöllun um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Hér er langur kafli, 17. kafli skýrslunnar, líklega upp á 200 blaðsíður þar sem fjallað er mjög vandlega um þetta. Þar fer rannsóknarnefndin yfir hver sé ábyrgð ríkisins á innstæðum og skuldbindingum tryggingarsjóðsins þegar hann getur ekki staðið undir lágmarksskuldbindingum sínum og er ekki í færum til að taka lán fyrir þeim. Hver er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar?

Þeir sem lesa 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis reka sig á það að þar kemur fram skipulagður, kerfisbundinn lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því að íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda samkvæmt tilskipuninni frá 1994. Það er algerlega skýrt af lestri rannsóknarskýrslunnar. Rannsóknarnefndin vísar t.d. til aðfaraorða þeirrar tilskipunar, þ.e. tilskipunar nr. 94/19/EB, með leyfi forseta:

„Í 24. málsgrein aðfaraorða tilskipunar 94/19/EB sagði hins vegar þá og segir enn: „Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.““

Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslunni á bls. 264–265. Það eru ekki bara aðfaraorð tilskipunarinnar sem rannsóknarnefndin vísar til og leiðir þessa niðurstöðu sína af. Hún vísar líka til skrifa fræðimanna eins og Mads Andenæs prófessors og Nevenko Misitas þá gestaprófessors við Stokkhólmsháskóla. Það er vísað til Michel Tisons sem er breskur fræðimaður. Það er vitnað til doktorsritgerðar Inge Kaasens við lagadeild Háskólans í Ósló, skýrslu Financial Stability Forum og skýrslu Seðlabanka Frakklands. Niðurstaðan er klár að mati rannsóknarnefndarinnar. Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Nú er hins vegar verið að innleiða nýja tilskipun í íslensk lög og um hana fjallar rannsóknarnefndin. Þar kemur fram enn ein sterk vísbending um að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast kröfur Breta og Hollendinga á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. Hana má finna í umfjöllun nefndarinnar um þær breytingar sem gerðar voru á innstæðutryggingum innan Evrópusambandsins með nýrri tilskipun um þær, nr. 2009/14/EB. Það er sú tilskipun sem hér er verið að leiða í lög.

Um samanburð á þessari nýju tilskipun Evrópusambandsins og gömlu tilskipuninni sem Icesave-málið gengur út á segir nefndin:

„Þegar hin nýja tilskipun er skoðuð vekur það athygli að til viðbótar þeim atriðum sem lagt var til að breytt væri með tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá 15. október 2008 voru gerðar breytingar á orðalagi 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar 94/19/EB en samkvæmt tilskipuninni frá 1994 hljóðaði það ákvæði svo í íslenskri þýðingu af tilskipuninni: „Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.“ Í hinni nýju tilskipun nr. 2009/14/EB hljóðar ákvæði fyrsta málsliðar 1. mgr. 7. gr. svo: „Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50 000 in the event of deposits being unavailable.““

Í stað þess að gamla tilskipunin mæli fyrir um það að aðildarríkjunum sé skylt að tryggja að hér sé innstæðutryggingarkerfi þá mælir nýja tilskipunin fyrir um það að aðildarríkin skuli ábyrgjast lágmarkstrygginguna. Eins og komið hefur fram er svo sem lítið í lögskýringargögnum sem skýrir af hverju þessi breyting er gerð en það hlýtur að vera vegna þess að Evrópusambandið hefur talið að ríkisábyrgð samkvæmt nýju tilskipuninni væri ekki nógu traust þannig að breyta þyrfti orðalaginu.

Nú er það þannig að samkvæmt nýju tilskipuninni sem hv. þingmaður og hæstv. ríkisstjórn ætlar að innleiða, skal leggja ríkisábyrgð á innlán og skuldbindingar tryggingarsjóðanna. Þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að í frumvarpinu séu tekin af öll tvímæli um þetta atriði, þ.e. að í lagatextann komi inn yfirlýsing frá löggjafanum um að ekki sé ríkisábyrgð á innlánum bankanna. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur einkavætt tvo banka og við vitum ekki einu sinni hverjir eiga þá. Þá finnst ríkisstjórninni eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur séu gerðir ábyrgir fyrir innlánum sem í þeim finnast ef farið er á hausinn. Það er ekki svo fjarlægt að íslenskar bankastofnanir fari á hausinn. Ásmundur Stefánsson, fráfarandi bankastjóri Landsbanka Íslands, kom fyrir nefndina og lýsti því yfir að færi ríkisstjórnin eftir stefnumörkun sinni og léti framkvæma fyrningarleið í sjávarútvegi þá mundi Landsbankinn fara á hausinn. Þá kemur til kasta tryggingarsjóðsins. Það sama gildir um hina bankana. Þá eru það ekki bara 20.000 evrur heldur ætla menn að ábyrgjast 100.000 evrur, eins og skattgreiðendur séu með fulla vasa fjár og séu reiðubúnir til að greiða fimm sinnum hærri lágmarkstryggingu en var í Icesave-málinu.

Virðulegi forseti. Þetta mál er afar vont. Það má ekki samþykkja með þeim hætti sem hér er lagt til. Sagan á að kenna mönnum að íslenska ríkið á ekki að taka á sig ábyrgðir vegna skulda einkabanka, ekki frekar en annarra fyrirtækja. Það er ekki sanngjarnt gagnvart íslenskum skattgreiðendum, gagnvart venjulegum launamanni að hann þurfi að standa undir þeim skuldum sem útrásarvíkingar eða kaupahéðnar ráðast í. Ég veit að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson er mér sammála um þetta. Það hlýtur að vera. Við eigum að læra af sögunni, við eigum að læra af Icesave-málinu og við eigum að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem fjallar um þetta en því miður er það ekki gert í þessu frumvarpi.

Bráðum lýkur 2. umr. um þetta mál og það gengur til nefndar milli 2. og 3. umr. Þá þarf að snúa þeirri þróun við sem fram kemur í frumvarpinu og við þurfum að reyna að finna aðrar leiðir til að leysa málið. Ég veit vel að það þarf að vera innstæðutryggingakerfi en við skulum ekki fara þá leið sem þetta frumvarp mælir fyrir um. Við skulum reyna að finna aðrar leiðir, að minnsta kosti þar til tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Við skulum leita leiða til að kanna hvort önnur ríki eru reiðubúin til að fara í samstarf við okkur um tryggingakerfið eins og það er.



[00:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þrjú nefndarálit frá hv. viðskiptanefnd um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Nú er ég ekki í viðskiptanefnd þannig að ég hef ekki getað fylgt þessu máli eftir eða fengið þær upplýsingar sem nefndin hefur fengið. Ég hef sinnt heimilunum meira og því hefur þetta orðið dálítið út undan hjá mér, en þetta er óskaplega mikilvægt mál.

Það er rétt sem hérna hefur komið fram, frá varaformanninum held ég, að við verðum að gera eitthvað. Núna mokum við iðgjöldum í sjóð sem er gjaldþrota. Við skulum bara hafa það alveg á tæru. Það er alveg óháð Icesave-samkomulaginu af því að Icesave-innstæðueigendur eiga kröfur fyrir þvílíkum upphæðum að það mun aldrei duga, hann er gjaldþrota.

Þá er það spurning hvað getum við gert. Ég held að menn hafi farið út á dálítið hættulegar brautir. Í nefndaráliti og í frumvarpinu vísa þeir í nýja tilskipun í Evrópusambandinu sem tekur upp ríkisábyrgð á þann hátt að ríkin skulu tryggja að kerfin haldi. Eftir nokkur ár sé ég ekkert annað en ríkisbanka hjá Evrópusambandinu. Það má vel vera að það gleðji einhvern en ríkisbankar geta líka farið á hausinn og hafa gert og þá lenda ábyrgðirnar á ríkissjóði hvort sem er, þannig að það bjargar ekki neinu.

Ekki nóg með það, heldur hækkuðu þeir upphæðina á hvern reikning úr 3 millj. kr. upp í 100 þúsund evrur sem er eitthvað um 16 millj. kr. Mér finnst Evrópusambandið vera á rangri leið. Það sem Evrópusambandið átti að gera svo ég kannski nefni það var að sjálfsögðu ekki að hækka upphæðina. Það átti að koma á samtryggingarkerfi milli allra innstæðutryggingarsjóða í Evrópu þannig að þeir aðstoði hver annan ef þeir verða fyrir áfalli, sérstaklega ef þeir verða fyrir hruni. Það varð ekki.

Það er til önnur leið, frú forseti, og þá ætla ég að biðja formann viðskiptanefndar að hlusta. Hún er sú að stofna nýjan sjóð með nýrri kennitölu en á grundvelli gömlu tilskipunarinnar 94/19/EB sem gildir enn þá í Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Sú tilskipun er ekki með ríkisábyrgð, það er alla vega minn skilningur. Ég er búinn að lesa báðar þessar tilskipanir í þaula út af Icesave-málinu, sem ég af vissum ástæðum varð að kynna mér mjög vel, og sú tilskipun er ekki með ríkisábyrgð. Hún tryggir upp að 20.887 evrum og er miklu viðráðanlegri. Ég legg nú í alvöru til, og þá bið ég bæði formann og varaformann að hlusta, og af því að ég veit að formaðurinn er mjög sjálfstæður einstaklingur legg ég til að hann skoði það hvort ekki væri skynsamlegt að breyta frumvarpinu þannig að það vísi í gömlu tilskipunina. Til bráðabirgða yrði settur upp nýr sjóður með nýrri kennitölu sem vísaði í gömlu tilskipunina með gömlu upphæðirnar. Þannig gætum við unnið í kannski eitt eða tvö ár og á meðan yrði leitað samstarfs við Noreg og Liechtenstein, sem eru enn þá á EES-svæðinu, um gagnkvæmar tryggingar. Ég held að þetta gæti verið góð leið. Svo ættu menn að sjálfsögðu að senda sendinefnd til Evrópusambandsins og segja þeim að þeir séu á algjörum villigötum.

Tæknilega séð er þetta iðgjaldið, sem var 0,15% af innstæðum á ári og átti að fara upp í 1%, sem þýddi það að á sjö ára fresti mátti einn banki fara á hausinn. — Nei, fyrirgefið, einn af hverjum hundrað bönkum mátti fara á hausinn á sjö ára fresti af því að það fór upp í 1%. Það er ekki óvenjulegt að svona gerist reglulega.

Umræðan er dálítið á villigötum. Í venjulegri bankastarfsemi standast eignir, skuldir og eigið fé á, þannig að bankinn á alltaf fyrir innstæðum. Ef illa fer verða eignirnar oft minna virði en bókhaldið gerir ráð fyrir og það er það sem við erum að lenda í. Auðvitað situr alltaf eitthvað eftir af eignum, það væri mjög undarlegt ef eignirnar hyrfu algjörlega. Innstæðusjóðurinn þarf því ekki að eiga algjörlega fyrir öllum innstæðum en menn þurfa að eiga nokkuð vel fyrir þeim af því að eignirnar rýrna mjög hratt.

Í þessari nýju tilskipun er gert ráð fyrir því að þetta fari upp í 4% í staðinn fyrir 1% áður með 0,3% iðgjald. Það tekur þá 13 ár með þessu áframhaldi að ná upp í þetta hámark. Þá duga 4% ekkert voða mikið ef einn banki fer á hausinn, hvað þá þrír. Neyðarlögin gera ráð fyrir því að innstæður hafi forgang. Það er spurning hversu lengi þau gilda og það þarf að ræða.

Það sem mér finnst verst við þetta er að nota á nýju tilskipunina þó að við þurfum þess ekki, þar er ríkisábyrgð og mun hærri upphæð. Ég held að menn séu að fara út á verulega hálan ís, sérstaklega af því að nú eru bankarnir komnir í eigu erlendra aðila sem munu taka yfir eftir tvö, þrjú ár. Þá bara stofna þeir reikninga í Grikklandi og úti um alla Evrópu með mjög háum vöxtum og hrúga inn peningum sem þeir lána sjálfum sér. Síðan fer bankinn á hausinn og við berum ábyrgð á innlánum úti um alla Evrópu nákvæmlega eins og Icesave. Ég ætla að vona að það gerist ekki. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn hafi augun opin þegar þeir samþykkja svona frumvarp.