138. löggjafarþing — 142. fundur
 16. júní 2010.
stjórn fiskveiða, 2. umræða.
frv. EKG o.fl., 468. mál (tilfærsla aflaheimilda). — Þskj. 808, nál. 1333.

[00:44]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið. Hafa nefndinni borist umsagnir frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum eigenda sjávarjarða, Sjómannasambandi Íslands, Umhverfisstofnun og Viðskiptaráði Íslands. Frumvarpið varðar nýtt fyrirkomulag tilfærslna aflaheimilda til jöfnunaraðgerða, ívilnana og uppbóta sem stoð hafa í fiskveiðistjórnarlögum. Frumvarpið var flutt af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum.

Fram kom að viðfangsefni málsins hafi snertifleti við mál sem rædd eru í endurskoðunarnefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og að sú nefnd ljúki væntanlega störfum áður en þing kemur saman í september.

Leggur nefndin því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og var full samstaða innan nefndarinnar um það.

Hv. þm. Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir álitið rita hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, Margrét Pétursdóttir, Ásbjörn Óttarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Eygló Harðardóttir auk þess sem hér stendur.

Frú forseti. Ég vil að endingu nota tækifærið til að þakka nefndarmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir afar gott samstarf í vetur um þetta mál sem önnur, einnig mál sem ágreiningur var um í nefndinni. Okkur tókst farsællega að afgreiða þau frá nefndinni þannig að öllum var til mikils sóma.



[00:45]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sannarlega hefði ég kosið að þingið hefði getað tekið afstöðu til efnisatriða þessa máls. Ég er 1. flutningsmaður málsins ásamt hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Hugsunin á bak við frumvarpið er ósköp einföld. Þannig er mál með vexti að allnokkrum aflaheimildum er varið til tilfærslna og millifærslna vegna byggðakvóta, skel- og rækjubóta, línuívilnunar og nú síðast vegna strandveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að þær fisktegundir sem koma til úthlutunar á grundvelli þessara millifærslna séu eingöngu fjórar, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Eins og málum er háttað núna eru aflaheimildir í þessum fjórum tegundum skertar sem nemur því aflamagni sem fer til ráðstöfunar úr þessum millifærslu- og tilfærslusjóðum eða pottum eins og þeir eru oft kallaðir í daglegu tali. Þetta fyrirkomulag veldur því að skerðing á aflaheimildum þeirra báta sem eru sterkastir í tegundunum fjórum verður hlutfallslega mun meiri en hjá þeim bátum og útgerðum sem hafa tiltölulega minni aflaheimildir í þeim. Ýmsir hafa talið þetta óeðlilegt, þar á meðal við hv. flutningsmenn sem teljum miklu eðlilegra að grundvöllur þess sem menn leggja af mörkum inn í þessar millifærslu- og tilfærsluleiðir sé reiknaður út frá heildarþorskígildum viðkomandi útgerða og skipa. Þar með getum við sagt að byrðin af því að leggja af mörkum inn í þessa millifærslu- og tilfærslusjóði dreifist jafnar á allar útgerðir í landinu.

Auðvitað koma upp ákveðin álitamál í þessu sambandi sem við tökumst á við í frumvarpinu sjálfu, m.a. hvernig beri að bregðast við ef útgerð er í þeirri stöðu að eiga ekki aflaheimildir í þessum fjórum tegundum. Þá er gert ráð fyrir því að viðkomandi útgerð hafi umþóttunartíma um tveggja mánaða skeið til að bæta þar úr, þannig að hún geti þá annaðhvort leigt til sín aflaheimildir í þessu skyni eða orðið sér úti um varanlegar heimildir til að geta staðið straum af þessu í framtíðinni.

Það er alveg ljóst að eftir því sem slíkar millifærslur hafa aukist á undanförnum árum með hækkandi línuívilnun og núna með strandveiðum er þetta farið að hafa heilmikið að segja. Millifærslur í þorski t.d. eru sem svarar 8,3% og það telur sérstaklega hjá þeim útgerðum sem eru háðastar þorskveiðum. Þetta á ekki síst við um minni útgerðir, t.d. krókaaflamarksbátana sem fyrst og fremst hafa aflaheimildir í þorski, ýsu og að einhverju leyti ufsa og steinbít, misjafnt auðvitað eftir svæðum, og þess vegna er þetta farið að taka dálítið í. Ýmsar stærri útgerðir og aðrar útgerðir sem ekki eru með miklar aflaheimildir í þessum tegundum sleppa tiltölulega auðveldlega út úr því að taka þátt í millifærslu- og tilfærslupottunum. Þetta eru eins konar félagsleg úrræði innan sjávarútvegsins, ef við getum sagt sem svo, og þess vegna er ekkert óeðlilegt að allir sem hafa aflaheimildir á annað borð taki þátt í því að standa undir þessu. Þetta frumvarp er lagt fram til að hægt sé að jafna byrðarnar, ef þannig má að orði komast.

Eins og hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og framsögumaður þessa máls, vakti athygli á háttar svo til að nú er að störfum sérstök nefnd sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði. Nefndin er að endurskoða fiskveiðilöggjöfina og búast má við því að hún taki m.a. afstöðu til þeirra álitamála sem frumvarpið tekur á. Það má gera ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum áður en Alþingi kemur aftur saman til fundar í byrjun september. Þess vegna er það skynsamlegt sem nefndin komst að niðurstöðu um að málinu yrði vísað til hæstv. ríkisstjórnar með rökstuddri dagskrá þar sem gert yrði ráð fyrir því að ríkisstjórnin fæli nefndinni að taka afstöðu til þessara álitamála og notaði þetta frumvarp sem eins konar gagn í því máli.

Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir góðar óskir og þakkir hv. formanns nefndarinnar og enn fremur segja að samstarf okkar í nefndinni hefur verið mjög gott. Ég tel að hv. formaður hafi lagt sig fram um að vanda vinnu nefndarinnar. Ég hef verið ákaflega ósáttur við mjög margt af því sem við höfum fjallað um en ég hef hins vegar ekki verið ósáttur við vinnubrögð hv. formanns og fyrir það vil ég þakka.



[00:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi ásamt forsvarsmanni málsins og flutningsmanni, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Ásbirni Óttarssyni. Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns lýtur þetta frumvarp að réttlætisjöfnun sem við teljum að full þörf sé á að fara í. Fram kom hjá hv. þingmanni að um er að ræða útgerðir sem bera í raun uppi jöfnunaraðgerðir í dag, sem eru með aflaheimildir að meginhluta til í fjórum tegundum, þ.e. það eru fjórar tegundir sem bera uppi þessa jöfnun. Hugmyndin gengur út á að dreifa þessu jafnar yfir greinina, ef svo má segja, þannig að skerðingin verði öðruvísi en í dag, því að sjálfsögðu skerðast aflaheimildir hjá þeim útgerðum sem láta af hendi heimildir til þessara jöfnunaraðgerða.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. flutningsmanni að það sem hér er lagt til er að sjálfsögðu ekki óumdeilanlegt. Fyrirkomulag það sem hefur verið við lýði er eins og oft gerist búið að festa sig í sessi. Hins vegar er það að okkar mati eðlileg krafa að þarna verði farið í ákveðnar breytingar. Það að reikna þetta út frá heildarþorskígildum er að sjálfsögðu hugmyndafræði sem lögð er fram og í raun er gefið svigrúm til þeirra sem ekki hafa slíka heimild til að verða sér úti um hana til að uppfylla það sem hér er lagt fram.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að í ljósi þeirrar vinnu sem er í gangi varðandi hina svokölluðu sáttanefnd í sjávarútvegi og endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum og -kerfinu er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt að þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar, eins og kemur fram í áliti nefndarmanna. Það er hins vegar mikilvægt að við fylgjum því eftir að þessi þáttur verði ekki út undan í öllum þeim breytingum sem verið er að skoða nú varðandi sjávarútvegskerfið, að hann verði tekinn til alvarlegrar skoðunar líkt og aðrir þættir. Ég vona svo sannarlega að svo verði, hvort sem er í áðurnefndri nefnd eða á öðrum vettvangi. Það er sem sagt lagt til að þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og ég styð það að sjálfsögðu og vona að þetta mál fái eðlilega umfjöllun þar sem það á við.



[00:54]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikið réttlætismál sem byggist á því að allir sem eru með aflaheimildir, í hvaða tegund sem þær eru, setji að jöfnu inn í svokallaða potta sem eru notaðir til að koma til móts við þá sem verða fyrir skakkaföllum, hvort sem það eru rækju- eða skelbætur eða það sem er tekið til línuívilnunar eða strandveiða. Það er löngu tímabært að þetta verði gert vegna þess að það kemur glögglega í ljós í töflum sem fylgja þessu frumvarpi, sem ég er meðflutningsmaður að ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Einari K. Guðfinnssyni, sem er 1. flutningsmaður frumvarpsins, hvernig ójafnvægið og óréttlætið hefur í raun og veru verið. Það eru einungis fjórar fisktegundir notaðar til að rétta af þau skakkaföll sem verða í rækju- og skelbótum eða þegar notuð er línuívilnun eða strandveiðar og það er mjög ósanngjarnt. Sumir láta ekki neitt, aðrir láta upp í 4,5–5% af sínum heimildum inn í þessar aðgerðir og síðan þegar strandveiðarnar verða dregnar frá í næstu úthlutun, þ.e. í haust, munu þeir sem eru með þorskveiðiheimildir þurfa að láta um 8,3% af sínum heimildum í þorski inn í þessar jöfnunaraðgerðir. 8,3% er rosalega há tala, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hafa aflaheimildir í þorski verið skornar niður, sem kemur þá tvöfalt niður á þeim aðilum sem eru með aflaheimildir þar.

Á síðasta fiskveiðiári var um 1/3 af ýsukvótanum skorinn niður, um 34%, en samt sem áður þurfa þeir aðilar sem hafa veiðiheimildir í ýsu að setja af þeim heimildum, eftir að hafa verið skornir niður, inn í jöfnunarpottinn til þeirra sem urðu fyrir áföllum í skel- og rækjubótum, línuívilnun eða strandveiðum. Það sjá allir sem vilja hversu óréttlátt þetta er og ég vísa sérstaklega í töflur sem fylgja þessu frumvarpi sem sýna svart á hvítu hvernig þetta kemur niður á ákveðnum útgerðarfélögum. Mig langar að nefna tvö þeirra. HB Grandi, sem er afskaplega stórt fyrirtæki, lætur um 1,4% af sínum heimildum inn í jöfnunaraðgerðirnar á meðan útgerðarfélag eins og Vísir lætur um 4% af sínum heimildum til að rétta þetta af. Í þessu er fólgið mikið óréttlæti og ég tel mjög mikilvægt að þetta verði leiðrétt. Það hefði þurft að vera löngu búið að því.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að ég er mjög sáttur við að þetta mál fari inn í endurskoðunarnefnd eins og lagt er til í nefndaráliti, sem enginn ágreiningur var um í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, og verði tekið þar til umfjöllunar. Vonandi koma tillögur í þá átt sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þar sem þetta er sennilega síðasta umræðan um sjávarútvegsmál á þessu þingi vil ég nota tækifærið og þakka hv. þm. Atla Gíslasyni, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, fyrir góð störf. Hann hefur náð góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna og gert allt sem í hans valdi stendur til að reyna að leysa málin sem best. Á sama tíma verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur farið í þveröfuga átt, t.d. í svokölluðum strandveiðum þar sem hann neitaði að upplýsa okkur þingmenn um það hvernig hann hygðist hafa svæðaskiptinguna. Þegar við afgreiddum málið hélt hann því frá og vildi ekki gefa það upp en klúðraði henni svo algerlega, eins og við bentum á í umræðum. Það var mjög óeðlilegt að þegar lögin áttu að taka gildi daginn eftir og hann átti að gefa út reglugerðina þá neitaði hann að gefa það upp og allir þekkja hverjar afleiðingarnar eru. Þær eru svo hörmulegar að það þarf ekki að eyða mörgum orðum í þær, það var eiginlega ekki hægt að klúðra því meira. Síðan eru það einstrengingsleg áform hæstv. ráðherra um að banna dragnótaveiðar á sjö fjörðum án þess að hafa fyrir því nokkur efnisleg rök. Á sama tíma og ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir hans vönduðu vinnubrögð og störf í nefndinni verð ég að lýsa yfir jafnmiklum vonbrigðum með störf hæstv. ráðherra. Enn á ný er verið að samþykkja frumvarp þar sem hann hefur alræðisvald sem ég treysti honum engan veginn fyrir.