138. löggjafarþing — 144. fundur
 16. júní 2010.
Stjórnarráð Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 658. mál (sameining ráðuneyta). — Þskj. 1258.

[11:17]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Samkomulag er milli þingflokkanna um fyrirkomulag umræðunnar sem mun standa í röska fjóra og hálfa klukkustund. Samfylkingin hefur hálfa klukkustund í umræðunni, Sjálfstæðisflokkur eina og hálfa klukkustund, Vinstri hreyfingin – grænt framboð hálfa klukkustund, Framsóknarflokkur eina og hálfa klukkustund og Hreyfingin hálfa klukkustund.

Andsvör verða aðeins leyfð við ræðum formanna flokka eða talsmanna. Andsvör eru hluti af ræðutíma flokkanna en svör við andsvörum koma til viðbótar áðurgreindum ræðutíma hvers flokks.



[11:17]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráðið. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð til fækkun ráðuneyta úr tólf í níu með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá er lagt til að heiti umhverfisráðuneytisins verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti og hlutverk þess innan Stjórnarráðsins eflt.

Í ljósi umtalsverðra breytinga á íslensku samfélagi á undanförnum árum, m.a. í kjölfar bankahruns og efnahagssamdráttar, er tímabært og nauðsynlegt að endurskoða skipulag ríkisrekstrar í heild sinni. Markmiðið með frumvarpi þessu er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Hér er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og að færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Markmiðið með stækkun ráðuneyta er jafnframt að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flókin stjórnsýsluviðfangsefni og að tryggja formfestu. Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs, eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Með frumvarpi þessu er því einnig verið að bregðast við mikilvægum ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins eins og heitið hefur verið.

Þær breytingar á Stjórnarráði Íslands sem öðluðust gildi um mánaðamótin september/október 2009 með lögum nr. 98/2009 voru fyrsti þátturinn í þeim umfangsmiklu stjórnkerfisumbótum sem áformaðar eru en í þeim fólst m.a. flutningur verkefna milli ráðuneyta og til varð nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Lögð hefur verið aukin áhersla á forustu- og verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins innan Stjórnarráðsins, skipulag ráðuneytisins endurskoðað og settar á fót ráðherranefndir til að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar á ákveðnum málefnasviðum. Í þeim lögum var einnig mælt fyrir um breytingar á verkaskiptingu nokkurra annarra ráðuneyta og nöfnum þeirra breytt til að endurspegla betur hlutverk þeirra. Þær breytingar sem áformaðar eru í þessu frumvarpi eru rökrétt framhald þess sem þegar hefur verið unnið og næsta skref mun síðan snúa að því að halda áfram endurskoðun stofnanakerfisins og bæta gæði opinberrar þjónustu. Núverandi efnahagsaðstæður gera það síðan enn brýnna en ella að ráðuneyti og stofnanir endurmeti með opnum hug öll verkefni sem þau sinna, samþætti þjónustu, eyði óskýrri verkaskiptingu og komi í veg fyrir tvíverknað. Í þeim efnum er afar mikilvægt að ráðuneyti gangi á undan með góðu fordæmi og taki rækilega til í sínum ranni og er frumvarp þetta liður í því.

Með sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verður til öflugt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar þar sem aðkoma ríkisins að stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar og nýsköpun verður samræmd á einum stað til hagsbóta fyrir samfélagið. Það er auðvitað rangt sem haldið hefur verið fram að með þessu sé verið að veikja stjórnsýslu sjávarútvegs og landbúnaðar. Þvert á móti er verið að styrkja umgjörð þessara mikilvægu atvinnugreina með sameiningu. Sameining leiðir til þess að á einum stað í stjórnkerfinu verður til heildarsýn yfir atvinnulífið. Hún mun því stuðla að því að til verði heildstæð atvinnuvegastefna sem gerir ekki upp á milli atvinnugreina og auðveldar stjórnvöldum að bregðast við breytingum og þróun í atvinnuháttum þjóðarinnar.

Nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti mun þannig fá aukið vægi í rannsóknum, stefnumörkun og áætlunum sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda og mun hafa heildstætt yfirlit yfir stöðu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Ráðuneytið mun eiga náið samstarf við nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en stofnanakerfi ráðuneytanna beggja verður endurskoðað sem og verkaskipting milli þeirra, m.a. til þess að tryggja skilvirkni og náið samstarf ráðuneytanna við að framfylgja stefnu um sjálfbæra þróun.

Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig stofnanakerfi þessara tveggja nýju ráðuneyta verður breytt. Á þetta m.a. við um starfsemi Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar en mikilvægt er að samráðsferlið verði nýtt til þess að skýra þau mál.

Mörg dæmi eru um óskýra verkaskiptingu á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar sem bitnað hefur á þeim sem eiga rétt á velferðarþjónustu og aðstandendum þeirra. Í því sambandi má benda á að heildarsýn hefur vantað vegna skipulags öldrunarþjónustu, eftirlits og forvarnaúrræða í tengslum við félags- og heilbrigðisþjónustu. Velferðarráðuneytið mun á grundvelli laga frá Alþingi sjá um að móta heildstæða stefnu á sviði velferðarþjónustu á öllum stigum frá félagslegum stuðningi til heilbrigðisþjónustu.

Nýtt innanríkisráðuneyti mun skapa ramma um innanríkismál, varnarmál og innviði samfélagsins, öryggismál á lofti, sjó og landi og þar með allar stofnanir sem sinna stjórnsýslu og þjónustu á þeim sviðum. Þá felast í sameiningunni möguleikar á að þróa stjórnsýsluviðmið ríkisins og áform um eflingu sveitarstjórnarstigs á sama stað innan stjórnsýslunnar. Nýtt innanríkisráðuneyti mun einnig gegna lykilhlutverki við endurskipulagningu þjónustu hins opinbera úti um allt land.

Fyrirhuguð sameining ráðuneyta er umfangsmikið verkefni og vanda þarf til verka við framkvæmdina. Mikilvægur þáttur vinnunnar sem fram undan er er samráð við samtök og aðila sem eiga hagsmuna að gæta. Þegar greiningarvinnu og samráðsferli lýkur og mótuð hefur verið stefna fyrir nýtt ráðuneyti er áformað að leggja fram frumvarp til breytinga á þeim sérlögum sem endurskipulagning Stjórnarráðsins leiðir af sér. Fyrir liggur að skoðanir eru helst skiptar um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en meiri sátt virðist ríkja um aðrar sameiningar. Ýmis samtök sem málið varðar hafa ályktað gegn þessum áformum varðandi atvinnuvegaráðuneytið en sérstök áhersla verður lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og framvindan metin í ljósi árangurs af því samstarfi.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði byggt upp í samstarfi við atvinnulífið og samtök starfsmanna á þeim vettvangi. Eitt mikilvægasta verkefnið fram undan er að tryggja atvinnu og útrýma atvinnuleysi. Samþætt og heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland skiptir þar meginmáli og er það trú mín að nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem horft er til allra atvinnugreina marki nýtt upphaf í þeirri sókn. Rætt hefur verið um stofnun atvinnuvegaráðuneytis í mörg ár og hafa flestir stjórnmálaflokkar sem nú eiga fulltrúa á þingi ályktað á undanförnum árum um nauðsyn þess að horfa á atvinnumál þjóðarinnar heildstætt í einu ráðuneyti. Ég hef því mikla trú á að hægt verði að ná breiðri samstöðu um þessa breytingu á næstu vikum og mánuðum.

Virðulegi forseti. Sameining ráðuneyta og stofnana tekur tíma. Um er að ræða flókið ferli og því er afar mikilvægt að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd sem best. Tækifærin sem felast í sameiningu eru einnig mikil og hafa verður í huga að það getur tekið tíma uns árangur kemur fyllilega í ljós. Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til lögreglulaga, sem nú er til umfjöllunar í þinginu, kemur fram að stór hluti af hagræðingu og sparnaði sem náðst hefur á þessu ári og því síðasta hjá embættinu liggur í því að embættin voru sameinuð í upphafi árs 2007. Þetta dæmi sýnir að stærri og öflugri einingar eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem nú er glímt við í ríkisrekstri. Í umræðum um sameiningu ráðuneyta þarf því að horfa til langs tíma og átta sig á þeim tækifærum sem felast í færri og öflugri ráðuneytum og síðan verkaskiptingu og samvinnu þeirra stofnana sem munu heyra undir þau.

Sú stefnumörkun sem felst í því að fækka ráðuneytum úr tólf í níu er mikið heilla- og framfaraspor að mínu viti. Með því eru send skýr skilaboð um að Stjórnarráðið þróist í takt við breytingar í samfélaginu og hafi vilja og burði til að takast á við þau krefjandi verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Góð samstaða um fækkun ráðuneyta er skýr skilaboð til annarra opinberra aðila um að endurskoðunar sé þörf á öllum sviðum en eins og ég hef áður nefnt felast miklir möguleikar í endurskipulagningu stofnana og verkefna í kjölfarið. Það er því mikilvægt þegar verið er að skoða sameiningu og hagræðingu í stjórnkerfinu almennt og þá möguleika og tækifæri sem felast víða í sameiningu og samlegðaráhrifum hjá stofnunum að ráðuneytin sjálf hafi gengið á undan með góðu fordæmi og hagrætt og endurskipulagt sem leiðir til sparnaðar í samfélaginu og öflugri og styrkari eininga í stjórnkerfinu.

Slík endurskipulagning mun leiða af sér fjárhagslega hagræðingu til framtíðar en einnig faglega styrkingu þjónustu ríkisins á mörgum sviðum. Ég er sannfærð um að þessi breyting á Stjórnarráðinu mun ekki aðeins auðvelda okkur sameiningu og hagræðingu í stjórnkerfinu heldur leiða til mikils sparnaðar þannig að hægt verði að hlífa betur velferðarkerfinu í þeim efnahagsþrengingum sem við erum í og fram undan verða e.t.v. á næstu 1–2 árum. Ég bind miklar vonir við að í sumar fari fram málefnaleg umræða um skipulag Stjórnarráðsins og í framhaldinu geti þingheimur sameinast um að Stjórnarráðið verði eflt til framtíðar sem samstæð heild sem hrindi stefnumálum löggjafans og ríkisstjórna á hverjum tíma í framkvæmd. Mikilvægt er að málið fari nú til umsagnar áður en hlé verður gert á þingstörfum þannig að umsagnaraðilum gefist góður tími til að fjalla um málið áður en þing kemur saman á ný í haust.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[11:28]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna og vil koma að nokkrum athugasemdum sem ég mun að sjálfsögðu fylgja eftir í ræðu minni hér á eftir.

Það segir í þessu máli að til standi að fara í heildarendurskipulagningu á stofnanakerfinu. Hefði ekki verið ágætt fyrir hæstv. forsætisráðherra að kynna aðeins fyrir okkur hvað felst í þeirri heildarendurskipulagningu? Mér finnst þetta mál vera dæmi um frumvarp sem er eins og mörg önnur sem ríkisstjórnin kemur fram með, óskað er opinnar heimildar til að gera eitt og annað sem síðar kemur í ljós hvað á að verða. Fyrir utan það er hér margoft vísað til starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við á þinginu erum með rannsóknarskýrsluna til skoðunar. Við munum koma með okkar eigin skoðanir á henni vegna þess að við berum ábyrgð á eftirliti með framkvæmdarvaldinu. (Forseti hringir.) Við munum mynda okkur okkar eigin skoðanir á því hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað hjá framkvæmdarvaldinu og í stofnanakerfinu. (Forseti hringir.) En áður en þingið hefur lokið því starfi sínu kemur forsætisráðherrann að sjálfsögðu með tilbúið frumvarp á grundvelli vinnu starfshóps um rannsóknarskýrsluna, áður en þingið hefur lokið sinni skoðun. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað algjörlega ólíðandi.



[11:29]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Með vísan til þess síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá er einungis verið að vísa til þess að rannsóknarnefndin taldi ástæðu til þess að benda á að það væri nauðsynlegur liður í endurskipulagningu að styrkja ráðuneytin, einfalda þau og fækka þeim. Það er auðvitað ástæða til þess þegar verið er að ræða svona frumvarp að þessi ábending komist á framfæri.

Í forsætisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum hefur verið unnið að því um nokkurt skeið að endurskipuleggja stofnanakerfið í heild, hvort og hvernig hægt sé að fækka stofnunum. Um það er til ítarlegur listi og öll ráðuneyti hafa í sínum ranni farið yfir hvar möguleikar eru á hagræðingu og sameiningu og unnið þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess í góðu samráði og samstarfi við þær stofnanir sem til greina kemur að sameina. Ég er hér með ítarlegan lista yfir þær stofnanir sem verið er að skoða hvort hægt sé (Forseti hringir.) að sameina og hagræða í og auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að sú nefnd sem fær málið til umsagnar fái þann lista sem verið er að vinna að og tekur auðvitað sífellt breytingum.



[11:30]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega dæmi um það sem ég nefndi áðan. Það er til einhver listi sem ekki fylgir málinu, ríkisstjórnin er með sínar hugmyndir um það hvernig vinna á heildarendurskipulagningu stofnanakerfisins en hefur ekki séð ástæðu til að láta þær hugmyndir fylgja málinu. Þetta er akkúrat dæmi um það að ríkisstjórnin óskar opinnar heimildar til að gera hluti sem hún ætlar ekki einu sinni að deila með þinginu.

Varðandi viðbragðshóp ráðuneytisins vil ég bara ítreka það að þingið átti frumkvæði að gerð rannsóknarskýrslunnar, þingið er með skýrsluna til skoðunar, þingið mun mynda sér sína eigin skoðun á því að hve miklu leyti þarf að efla stjórnsýsluna vegna þess sem hér gerðist.

Ég vil þó hafa sagt það og mun að sjálfsögðu ítreka það í máli mínu á eftir að við erum ekki að tala um að standa í vegi fyrir aukinni hagræðingu í stjórnsýslunni. Við viljum hins vegar að málið fái mikla umfjöllun og vandaða faglega meðferð í þinginu (Forseti hringir.) og ég geri athugasemdir við það að ráðherrann komi hér inn með frumvarp sem hún óskar eftir að verði klárað strax á haustþinginu. Það verður þingsins að ákveða hvenær málið er tilbúið til afgreiðslu.



[11:32]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið leynt að unnið er að hagræðingu í stjórnkerfinu, m.a. með því að leita leiða til að sameina stofnanir, til þess að þurfa ekki að skera eins mikið niður í útgjöldum t.d. sem snúa að velferðarmálum. Opinberlega hefur verið greint frá ýmissi af þessari sameiningu vegna þess að það hvílir engin leynd yfir henni, eins og sameiningu skattumdæma, sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits, sameiningu stofnana í umhverfisráðuneytinu, sameiningu stjórnsýsluverkefna á sviði samgöngumála, sameiningu slysarannsóknastofa, sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða, sameiningu sýslumannsembætta, sameiningu lögregluembætta, sameiningu héraðsdómstóla, sameiningu á starfsemi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Það hefur engin leynd hvílt yfir þessu. En raunverulega er hægt að afgreiða málið sérstaklega varðandi ráðuneytin sem slík og styrkja þau samhliða því að verið er að undirbúa hagræðingu (Forseti hringir.) og sameiningu ýmissa stofnana í stjórnkerfinu.



[11:33]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er allt saman unnið með öfugum klónum. Það er byrjað á röngum enda eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur bent á. Nú er það boðað, m.a. í greinargerð þessa frumvarps, að þegar frumvarpið hafi verið lagt fram, þegar það er komið til nefndar, eigi að hefja samráðið um frumvarpið.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, flutningsmann málsins: Hvað er þá undir í þessu samráði? Hvað ætla menn að hafa samráð um? Er ekki búið að leggja hér meginlínurnar, er það ekki þannig að hæstv. ráðherra ætlar að hafa lögin í meginatriðum eins og frumvarpið gengur út frá? Út á hvað á þetta samráð að ganga? Hvað telur hæstv. ráðherra að geti komið til skoðunar þegar farið verður yfir þessi mál? Er hæstv. ráðherra að boða eitthvað með þessum orðum, eru þetta bara falleg orð á blaði, svona friðþægingarorð eða er hér eitthvað á bak við sem við eigum að trúa að geti leitt til þess að eftir samráð vilji hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin skoða einhverja þætti sérstaklega (Forseti hringir.) sem komi til greina að endurskoða, í ljósi þess að það er bullandi ágreiningur um þetta mál í ríkisstjórninni, hjá stjórnarliðum og hjá öllum þeim sem við eiga að búa?



[11:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ítarlega farið yfir það í greinargerð frumvarpsins hvernig við teljum rétt að haga samningsferlinu, bæði meðan málið er til meðferðar og umræðu í þinginu og eftir að það hefur verið samþykkt, verði það gert að lögum, hvernig samvinna verður höfð við þá aðila sem málið helst varðar, hagsmunaaðila. Talað er um tengingu við þingflokka o.s.frv. Fara þarf í ákveðna greiningarvinnu varðandi stofnanaskipulagið í heild sinni, m.a. hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og varðandi umhverfisráðuneytið. Skoða þarf samspilið á milli þessara ráðuneyta, hvernig best er að haga stofnanakerfinu á milli ráðuneytanna, verði frumvarpið að lögum. Ég nefndi Hafrannsóknastofnun sem dæmi um stofnun þar sem ekkert hefur verið ákveðið með en menn vilja hafa samráð um. Þess vegna hef ég t.d. lagt áherslu á að þetta mál komist til nefndar og umsagnar til að hægt sé að hefja sameiningarferlið (Forseti hringir.) sem er mjög mikilvægt fyrir marga hagsmunaaðila sem hafa gert athugasemdir við sameininguna, m.a. Bændasamtökin og aðilar á sviði sjávarútvegs.



[11:36]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra staðfesti það sem ég sagði áðan, að samráðið í þessu máli á að vera eftir á. Það er grunntónninn í þessu frumvarpi. Þegar maður les í gegnum greinargerðina blasir þetta við. Það liggur einfaldlega fyrir að það er bullandi ágreiningur um málið hvarvetna sem litið er, í stjórnarflokkunum og hjá hagsmunaaðilum, og auðvitað gerir ríkisstjórnin sér grein fyrir að hún hefur ekki fullt vald á málinu. Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir að hún verður á einhverjum tímapunkti að slá af kröfum sínum.

Af því sem hæstv. ráðherra sagði hér fannst mér athyglisverðast að ráðherra var að opna á það að upphaflegu hugmyndirnar um að færa Hafrannsóknastofnunina frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sem ég hygg að nýja ráðuneytið eigi að heita, yrðu ekki að veruleika. Því vil ég spyrja: Mun þetta þá ekki líka eiga við um aðra auðlindanýtingu sem lýtur t.d. að málum sem snúa að iðnaðinum? (Forseti hringir.) Er ekki sjálfgefið, ef farið er í að endurskoða þessi áform, að farið sé líka í endurskoðun á öðrum áformum sem snúa sérstaklega að iðnaðinum?



[11:37]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt hluti af því samráðsferli sem við viljum að fari af stað vegna þess að það hefur ekki verið ákveðið, eins og mér fannst hv. þingmaður ýja að, það hefur á engum stigum verið ákveðið að færa Hafrannsóknastofnun alveg yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Margt mælir með því og það er líka ýmislegt sem mælir á móti því. Það er spurning hvort skipta eigi stofnuninni upp með einhverjum hætti, það eru líka gallar á því. Þess vegna viljum við fara í þá greiningarvinnu sem hér er nefnd í samráði við hagsmunaaðila, fara yfir þetta lið fyrir lið, hverjir eru kostirnir varðandi stofnanakerfið, hvorum megin á það að liggja og hvernig viljum við haga stjórnskipulagi stofnana innan þessara ráðuneyta við sameiningu.

Það er auðvitað rangt sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu, að forsætisráðherra ætli að hafa málið í meginatriðum eins og það er í frumvarpinu. Ég vil fara í samráðsferli við þessa aðila, sérstaklega þá sem hæst hafa deilt um þetta, eins og Bændasamtökin og aðilar í sjávarútvegi, (Forseti hringir.) og það er einmitt þess vegna sem við viljum hafa þetta uppi. Ég minni á að flestir stjórnmálaflokkar hafa ályktað í gegnum tíðina um að sameina eigi atvinnuvegamálin í eitt ráðuneyti.



[11:38]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að fara í gegnum frumvarpið og kynna okkur það eins og það lítur nú út af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er með tvær spurningar sem mig langar að varpa til hæstv. ráðherra. Önnur snýr að því að hér er fjallað talsvert um sameiningu ríkisstofnana og því má velta fyrir sér hverju það hafi skilað á liðnum árum. Ég spurði í fyrirspurn til fjármálaráðherra fyrr í vetur hvaða markmið menn hefðu sett sér við sameiningu ýmissa ríkisstofnana á síðustu fimm árum, hvernig þeim markmiðum hefði verið náð og ekki síst hinum fjárhagslegu markmiðum og hvernig þau væru mæld. Staðreyndin er sú að í svarinu sem kom frá öllum ráðuneytum er enginn ávinningur eða lítill og hvergi mældur vegna þess að hann er yfirleitt metinn svo að hann muni síðar meir skila nokkru en það sé allsendis óljóst. Þess vegna langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig menn hafi hugsað sér að mæla þann ávinning (Forseti hringir.) sem ætlaður er að verði og kemur fram í greinargerðinni að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir „að öllu virtu“, eins og þeir segja, að muni skila um 360 millj. kr. til lækkunar á ári (Forseti hringir.) þegar áhrifin eru að fullu komin fram. Hvernig ætla menn að (Forseti hringir.) mæla þetta og hvernig ætla menn að ná þessu (Forseti hringir.) því að það hefur ekki tekist til þessa?



[11:40]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti verður að biðja hv. þingmenn að virða ræðutímann.



[11:40]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður bendir á er hér ítarleg umsögn frá fjármálaráðuneyti, fjárlagaskrifstofunni, um áætlaðan sparnað sem menn telja að geti orðið af þessari sameiningu þegar hún er að fullu komin fram. Það er að vísu svo og það vita allir að þegar verið er að sameina og hagræða tekur það tíma að hagræðingin og sparnaðurinn komi að fullu fram. En ég tel að á ýmsum sviðum geti hann komið mjög fljótt fram. Strax þegar verið er að fækka ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum, ráðherrum o.s.frv., eins og ítarlega er getið hér í ágætu áliti fjárlagaskrifstofu, er alveg augljós sparnaður í því og hann er metinn hér upp á 300 milljónir. Þetta er auðvitað eitt af því sem nefndin mun fara ítarlega yfir en allir sem að þessu koma eru sannfærðir um að í þessu felist ótal tækifæri til sparnaðar bæði hjá ráðuneytunum sjálfum og ekki síst í þeim samlegðaráhrifum sem við munum sjá ef hægt er að (Forseti hringir.) fara í sameiningu á stofnunum.



[11:41]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur enn og aftur það svar að talið er að þetta muni skila sér með einhverjum hætti. Hvorki er búið að setja skýr mörk um það hvernig því skuli náð né hvernig það skuli mælt. Við erum auðvitað fyrst og fremst að hugsa um að spara á næsta ári eða næstu tveimur eða þremur árum. Ef þetta eiga að vera bráðaaðgerðir sem eiga að skila einhverju í þessu mun það ekki gerast á þeim árum.

Hin spurningin sem ég var með snertir atvinnuvegaráðuneytið. Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að þar væru allir atvinnuvegirnir undir. Auðvitað er það ekki svo. Fjármálamarkaðurinn er ekki hér og ekki hinn gríðarlega stóri opinberi markaður og ýmsir aðrir markaðir, atvinnumarkaðir sem eru á gráu svæði. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals að í landi eins og Íslandi, þar sem sjávarútvegur skilar um 40% af útflutningstekjum aftur eins og hann gerði áður og sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta sem tengist matvælaframleiðslu eru gríðarlega mikilvægir þættir, hefði verið skynsamlegra að (Forseti hringir.) stofna matvælaráðuneyti frekar en atvinnuvegaráðuneyti með eins ólíkum atvinnuvegum og iðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði.



[11:43]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að þeim sparnaði sem hv. þingmaður dregur í efa. Ég vil minna á að ég nefndi í framsöguræðu minni áðan að í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til lögreglulaga sem nú er til umfjöllunar í þinginu kemur fram að stór hluti af hagræðingu og sparnaði sem náðst hefur á þessu og síðasta ári hjá embættinu liggur í því að embættin voru sameinuð í upphafi árs 2007. Ég held að þetta sé bara eitt dæmi af mörgum sem munu sýna okkur fram á mikla hagræðingu og sparnað í þessu og það sem er, eins og ég sagði, mikilvægast af öllu er að geta með því hlíft velferðarkerfinu í gegnum næstu erfiðu missiri.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um matvælaráðuneyti hefur það verið skoðað eins og margt annað en niðurstaðan eins og hún liggur fyrir er að það sé skynsamlegast að sameina ráðuneytin með þessum hætti. Og þar sem mér finnst margir benda á að með þessu sé verið að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þá er þvert á móti verið að styrkja það ráðuneyti. Þar vinna 50 manns og þar er verið að bæta iðnaðarráðuneytinu við þar sem 15 manns vinna. (Forseti hringir.) Hvernig sem á málið er litið er verið að styrkja þessar atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað, með sameiningu þessara ráðuneyta í atvinnumálum.



[11:44]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður les þetta frumvarp sér maður að þetta er mikil hrákasmíð og þarna er fyrst og fremst um að ræða slagorð í staðinn fyrir vandaða vinnu. Það er ótrúlegt að fara í gegnum þetta og sjá að menn hafa ekki einu sinni kostnaðargreint þessa hluti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er það ekki gert? Er það rétt sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að fyrir yfirmannastöðurnar sem á að spara verði mönnum boðnar sérfræðistöður í staðinn og það sé gert ráð fyrir 200 millj. kr. biðlaunakostnaði í tengslum við það? Og af hverju er ekki eftir allan þennan tíma búið að útfæra húsnæðiskostnaðinn? Eins og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu er það bara hreinlega eftir.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst þetta vera enn eitt popúlistamálið hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur verið að stöðva sameiningu stofnana og samvinnu þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafi látið skoða það sérstaklega að það mundi spara gríðarlega fjármuni, í einu tilviki (Forseti hringir.) rúmlega milljarð á ári.



[11:45]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að frumvarpið sé hrákasmíð og tel það hreina móðgun við þá aðila sem hafa lagt á sig mikla vinnu við undirbúning þessara mála í samráði við önnur ráðuneyti og ýmsa aðila. Eg held að þingmaðurinn verði að skoða hug sinn áður en hann sendir þessu starfsfólki skeyti um að frumvarpið sé bara hrákasmíð.

Varðandi kostnaðinn þá er ítarlega farið yfir hann frá fjárlagaskrifstofunni í greinargerðinni. Það eru augljósir sparnaðarmöguleikar í því að fækka yfirmönnum t.d. í ráðuneytum. Varðandi húsnæðiskostnaðinn þá liggur fyrir að til er nú þegar húsnæði sem tilheyrir sjávarútvegsráðuneytinu svo dæmi sé nefnt. Ég nefni húsnæði í heilbrigðisráðuneytinu sem væri hægt að nýta fyrir velferðarráðuneytið og ég nefni sjávarútvegshúsnæðið sem væri hægt að nýta fyrir atvinnuvegaráðuneyti. (Forseti hringir.) Varðandi innanríkisráðuneytið má nýta þann húsnæðiskost sem fyrir er þannig að ég hef ekki trú á öðru en það verði hagræðing í húsnæðismálum, frekar en aukinn kostnaður.



[11:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skeytið var til hæstv. forsætisráðherra og það er lítilmannlegt af hæstv. forsætisráðherra að fela sig bak við starfsmenn. Skeytið er til hæstv. forsætisráðherra. Frumvarpið er hrákasmíð. Það kemur hér fram að einn kosturinn við að sameina í velferðarráðuneyti er að það er hægt að sameina heimahjúkrun og heimaþjónustu. Virðulegi forseti. Það er búið að gera það. Það hefur ekkert að gera með sameiningu ráðuneyta og í þessu kemur fram ótrúleg vanþekking.

Hæstv. ráðherra heldur áfram að segja að það sé fullt af sparnaðarleiðum í þessu. Ég spurði: Af hverju er ekki búið að reikna þær út? Það kemur fram að ef menn fara í þetta verkefni muni biðlaunakostnaður verða allt að 200 millj. kr. Það kemur fram að ekki á að segja einum einasta yfirmanni upp heldur bjóða þeim aðrar stöður. Og það kemur fram að það á algjörlega eftir að reikna út sparnaðinn hvað þetta varðar.

Ef menn loka húsnæði er oft og tíðum um langtímaleigu (Forseti hringir.) að ræða, þetta liggur allt fyrir. Af hverju er ekki búið að reikna þetta út?



[11:48]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sparnaðurinn sem við munum sjá, verði þetta frumvarp að lögum, verði ekki síst í hinu áformaða velferðarráðuneyti með sameiningu félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Hv. þingmaður veit sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra að þar eru ýmsir sparnaðarmöguleikar fyrir hendi og ég held að þetta muni auðvelda okkur flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna sem unnið er að. Það hafa verið mikil skörunarvandamál í öldrunarþjónustunni og það veit hv. þingmaður mætavel, við tókumst á um það, ég sem félagsmálaráðherra og hann sem heilbrigðisráðherra. Þar eru ýmis skörunarvandamál sem munu leysast. Það er hægt að skipuleggja og hagræða miklu betur innan velferðarkerfisins með heildarsýn í huga, t.d. í öldrunarmálum og forvarnamálum, með því að þetta sé undir einu ráðuneyti með þá heildaryfirsýn sem þarf. (Forseti hringir.)

Varðandi kostnaðaráætlunina þá held ég að það sé nú mjög ítarlega farið í þá kostnaðaráætlun sem liggur fyrir í umsögn (Forseti hringir.) fjárlagaskrifstofu. Það er sjaldan sem gerð er svona ítarleg kostnaðaráætlun eins og hér fylgir með. En auðvitað fer nefndin yfir þetta mál eins og annað þegar hún fær það til meðferðar.



[11:50]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það er í sjálfu sér, þegar maður skoðar efnisatriði frumvarpsins, afskaplega einfalt. Verði frumvarpið að lögum breytir það gildandi lögum ekki á annan veg en þann að nokkur ráðuneytaheiti breytast í lögum um Stjórnarráðið. Gert er ráð fyrir því í 2. gr. að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011 með undantekningu sem fram kemur í 2. gr.

Þegar greinargerðin sjálf er skoðuð sjáum við auðvitað að að baki málinu býr stórt plan, plan um að efla stofnanakerfið og fækka ráðuneytum og, eins og segir í frumvarpinu sjálfu, að efla stjórnsýsluna.

Mig langar til að byrja á því að segja að svona miklar stjórnkerfisbreytingar, eins og hér eru í farvatninu, eru mál sem best færi á að vinna þvert á flokka og í góðu samráði við alla sem að málinu koma. Þannig færi t.d. best á því að ráðherra kynnti áform sín um mál af þessum toga fyrir þinginu, efndi til umræðu um þær hugmyndir og tæki síðan athugasemdir sem fram kæmu í slíkri umræðu með sér aftur í ráðuneytið til að vinna úr þeim frekar. Einnig að hagsmunaaðilar, hvar sem þeir eru í samfélaginu og eftir því undir hvaða ráðuneyti sem þeir heyra eða til hvaða ráðuneytis þeir líta fyrst og fremst, fái tækifæri til að lýsa sjónarmiðum sínum.

Þannig hefur ekki verið unnið að þessu máli. Ef við skoðum frumvarpið sjálft, greinargerðina, sjáum við að fyrst og fremst byggir það á samkomulagi milli flokkanna sem rata inn í stjórnarsáttmálann án mikils aðdraganda. Í öðru lagi er oft vísað í frumvarpinu til viðbragðshóps eða starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Varðandi þann starfshóp vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari við hæstv. forsætisráðherra: Starfshópur forsætisráðuneytisins mun ekki vera ráðandi um viðbrögð þingsins við rannsóknarskýrslunni. Það er þingnefndin sem er með rannsóknarskýrsluna sjálfa til umfjöllunar sem verður ráðandi á endanum um helstu viðbrögð þingsins í tilefni af skýrslunni. Sú nefnd sem hér starfar hefur ekki lokið störfum, hefur ekki skilað af sér.

Eins og sjá má af umræðunni sem farið hefur fram hér í andsvörum við hæstv. forsætisráðherra er ljóst að það er auðvelt að efna til allnokkurra deilna um þessar hugmyndir. Á hinn bóginn væri tiltölulega einfalt mál að efna til samstöðu um það sem skynsamlegt er að gera. Á þeim tímum sem við nú lifum er augljóst að það er skynsamlegt að reyna að ná fram hagræðingu, td. í stofnanakerfinu. Það er tiltekið í frumvarpinu hversu margar stofnanir eru í stjórnsýslunni og teflt fram því yfirmarkmiði að reyna að fækka stofnunum og gera þær að öflugri einingum. Það er skynsamlegt markmið. Það ætti ekki að þurfa að halda þannig á málinu að um það verði mikill ágreiningur. En þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarpið og vill fá opna heimild til að æða fram í slíku máli er mjög stutt í ágreininginn. Það er nefnilega enginn bragur á því að þingið veiti opna heimild til að ráðast í miklar stjórnkerfisbreytingar án þess að fyrst hafi farið fram eðlileg og nauðsynleg umræða. Sérstaklega á það við þegar samráð hefur verið af jafnskornum skammti og augljóst er í málinu.

Eitt af því sem getur gerst við sameiningu ráðuneyta í mjög stórar einingar er að viðkomandi ráðherra sem fer fyrir ráðuneytinu tapar yfirsýn. Ef hinir kjörnu fulltrúar, fulltrúar fólksins í landinu sem hafa fengið það hlutverk að sitja á þingi og rata kannski síðan í ráðuneytin, tapa yfirsýn yfir málaflokkana, hvað gerist þá? Jú, þá eykst vald embættismannanna í kerfinu. Það getur varla verið sérstakt markmið með frumvarpinu að auka vald embættismannanna í kerfinu á kostnað fulltrúa fólksins, eða er það nokkuð?

Annað sem maður sér augljóslega af þeim hugmyndum sem reifaðar eru í frumvarpinu er að það er hægt að fara fleiri en eina leið í því að sameina ráðuneyti. Hér er farin sú leið að stofna eitt sérstakt atvinnuvegaráðuneyti en gríðarlega mikilvægur þáttur er skilinn undan sem er auðlindamálin. Það er ekki fyllilega ljóst með hvaða hætti hugmyndin er að gera það samkvæmt frumvarpinu en í prinsippinu stendur til að koma þeim fyrir með umhverfismálunum í nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að auðlindamálin hljóti að eiga að vistast með þeim atvinnuvegaráðuneytum sem byggja á viðkomandi auðlindum, þ.e. að auðlindamálin geta ekki verið skilin að fullu frá viðkomandi ráðuneytum. Tökum sem dæmi sjávarútvegsráðuneytið. Auðlindastýringin þar er kjarnaþáttur í sjávarútvegsráðuneytinu, í því hvernig við stýrum auðlindinni og nýtum hana. Það er kjarninn, það er hjartað í sjávarútvegsráðuneytinu. Ef taka á þann þátt út úr sjávarútvegsráðuneytinu og færa annað tel ég að málefnum sjávarútvegsins sé stefnt í mikið óefni.

Mig langar líka að nefna velferðarráðuneytið. Ef öll þau mál sem heyra undir félagsmálaráðuneytið í dag, þ.e. allur tryggingaþátturinn, eiga að renna saman við verkefni heilbrigðisráðuneytisins og þeim steypt saman í eitt velferðarráðuneyti er nauðsynlegt að huga að því hversu hátt hlutfall útgjalda ríkisins er þá komið undir eitt þak. Ég tel augljóst að þarna yrði um allt of umsvifamikið ráðuneyti að ræða undir einu þaki. Að gera einum ráðherra það að fara með svo stóran hluta ríkisútgjaldanna er óraunhæft að mínu viti. Ég geri hins vegar ekki lítið úr því að stærri einingar geta verið öflugri og skilvirkari og auðvitað er gríðarlega mikill munur á stærð einstakra ráðuneyta eins og stjórnkerfið er í dag. Tökum sem dæmi gamla landbúnaðarráðuneytið sem nú hefur runnið saman við sjávarútvegsráðuneytið. Gamla landbúnaðarráðuneytið var auðvitað afskaplega lítil eining í samanburði við stærstu ráðuneytin, eins og t.d. heilbrigðisráðuneytið. Það var skynsamlegt á sínum tíma að láta þessi tvö ráðuneyti renna saman. Það má vel vera að við getum náð aukinni hagræðingu og betra skipulagi með því að koma á fót sérstöku atvinnuvegaráðuneyti, það vil ég alls ekki útiloka, en mér finnst það vera grundvallaratriði að auðlindamálin séu þá ekki skilin þar frá.

Mér finnst líka koma til greina að ýmsar framkvæmdaáætlanir sem ekki fylgir neinn sérstakur rekstur séu fluttar yfir til fjármálaráðuneytisins. Byggðaáætlun, samgönguáætlun og fleira slíkt gæti vel átt heima í fjármálaráðuneytinu. Á hinn bóginn væru samgöngumálin að öðru leyti í innanríkisráðuneyti þar sem félagsmál, samgöngumál, umhverfismál jafnvel og dómsmál væru á einum og sama staðnum. Með þessu er ég að segja að ég sé enga augljósa þörf fyrir það að halda sérstaklega í umhverfisráðuneytið.

Allt eru þetta mál sem geta haft mikil áhrif á skilvirkni stjórnsýslunnar til framtíðar. Þetta eru mál sem þarfnast umræðu á þinginu. Nú horfir svo við að hæstv. forsætisráðherra teflir fram þessu máli u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að síðasti framlagningardagur er liðinn, þ.e. 1. apríl. Þetta mál kom ekki fram í þinginu fyrr en í júní og svo fylgir málinu að æskilegt sé að það verði klárað strax í haust. Ég heyri ekki annað á forsætisráðherra en að það sé ætlast til þess að þingið afgreiði málið strax í september. Þetta eru auðvitað fullkomlega óraunhæfar hugmyndir. Mér finnst beinlínis óeðlilegt að þinginu sé nánast skipað fyrir, eins og gert er í frumvarpinu, að klára málið á einhverjum tilteknum tíma. Eitt er að setja gildistökuákvæði í frumvörp sem markmið um það hvenær lögin eigi að taka gildi en þá verður auðvitað að fylgja því eitthvert raunsæi. Auk þess sem gildistökuákvæði hefur verið sett fram er fjallað sérstaklega um það í greinargerð með málinu hvenær þingið eigi að ljúka afgreiðslu þess. Þetta verður auðvitað ekki þannig.

Hér þarf að vanda til verka. Langeðlilegast hefði verið að við hefðum fengið umræðu í þinginu um þessi mál í heildarsamhengi hlutanna og í framhaldi af því hefði forsætisráðuneytið byrjað að vinna með hugmyndir í góðu samráði. Hér skortir allt samráð, það hefur ekkert samráð átt sér stað. Ég veit t.d. til þess að ýmsir aðilar innan Samtaka atvinnulífsins óskuðu eftir því á sínum tíma að efnt yrði til sérstaks samráðs þannig að málin yrðu unnin í góðri sátt við þá sem eiga hlut að málum, t.d. aðila í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þarna var sérstaklega tekinn fram samstarfsvilji til að vinna að þessum málum.

Þetta er í heild sinni dæmi um illa undirbúið, illa ígrundað mál, mál sem hefði átt að vinna lengra áður en því var teflt fram á þingi, mál sem hægt er að stefna í ógöngur en er algjörlega ástæðulaust að gera. Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ítrekað komið fram með mál á þinginu sem tiltölulega auðvelt ætti að vera að skapa sáttagrundvöll um en gerir það þannig að menn leggja af stað á röngum fæti. Oft er það þannig að setji menn rangan fót fram þegar þeir leggja af stað í grindahlaup, þá fella þeir fyrstu grindina og síðan allar grindurnar sem þar á eftir fylgja og komast ekki eins hratt yfir og að var stefnt.

Ég ætla að fara að stytta mál mitt en mér finnst mikilvægt að það komi fram að við í Sjálfstæðisflokknum erum tilbúin til þess að eiga samstarf um allar góðar hugmyndir um að auka skilvirkni stjórnsýslunnar, um að spara í rekstri ríkisins. Við viljum vinna góðum hugmyndum um eflingu einstakra ráðuneyta framgang. Ég tel að það sé margt hægt að gera til að auka skilvirknina, spara skattfé og auka getu ráðuneytanna til að sinna sínum málum. En við munum ekki samþykkja það og ekki taka þátt í því á þinginu að afgreiða illa unnin mál, illa ígrunduð, frá Alþingi og veita ríkisstjórninni opna heimild til að haga málum að eigin vild í framhaldinu. Þannig verður það ekki. Breytingar á Stjórnarráðinu, endurskipulagning ráðuneytanna og heildarendurskoðun stofnanakerfisins eru ekki mál sem hægt er að kippa í gegnum þingið án umræðu og nauðsynlegs aðdraganda.



[12:05]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarna Benediktssyni verður tíðrætt um opnar heimildir. Ég sat í ráðuneyti Geirs Haarde á árunum 2007–2009. Þar voru nokkur ráðuneyti sameinuð, m.a. voru verkefni færð úr landbúnaðarráðuneyti í umhverfisráðuneyti og ef ég man þetta rétt þá var líka tekin ákvörðunin um sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. Minnið er reyndar ekki alveg upp á sitt besta þennan morguninn.

Þáverandi forsætisráðherra lagði fram reglugerð sem var algjörlega opin, opin heimild hét það. Nú er einmitt verið að bæta og breyta vinnubrögðum. Hér eru málin til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga í opinni umræðu, fara inn í þingnefnd, og að sjálfsögðu verður það þannig, frú forseti, að þingmenn og þingnefnd taka þann tíma sem þarf í þetta mál. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Við vitum hins vegar og þekkjum það vel að hæstv. ráðherrar ýta mjög á eftir málum sínum. Þá gildir einu hver ráðherrann er eða úr hvaða flokki hann kemur.

Hér eru vinnubrögðin ný, opin, góð og gegnsæ. Auðvitað byggja þessi mál á stefnu flestra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þó að útfærslan sé ekki nákvæmlega sú sama hjá öllum.

Að síðustu, frú forseti, vildi ég inna hv. þm. Bjarna Benediktsson eftir því hvort ég hafi skilið hann rétt. Vildi hann að öllum breytingum yrði slegið á frest þar til þingmannanefnd um rannsóknarskýrsluna hefði skilað af sér? Því er ég algjörlega ósammála. Eitt útilokar ekki annað í því. Að sjálfsögðu mun þingmannanefndin skila sínum tillögum hér inn. En það breytir því ekki að löggjafinn hefur lesið skýrsluna, tekið mið af henni og þar er hægt að draga skýrar ályktanir um nauðsyn þess að styrkja stjórnsýsluna á Íslandi.



[12:07]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um síðastnefnda atriðið, þ.e. um rannsóknarnefndina og nefndina á þinginu sem vinnur að rannsóknarskýrslunni, þá eru mínar athugasemdir einfaldlega þessar: Mér finnst hæstv. forsætisráðherra vinna á eigin forsendum úr skýrslunni og tefla fram hugmyndum áður en þingið hefur lokið sínum störfum. Nýjasta dæmið um það er ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því í gær þar sem hún segir að ætli nefndin á þinginu ekki að efna til rannsóknar á einkavæðingarferli bankanna muni forsætisráðherra gera það.

Hvað er þetta annað en skilaboð til þingsins um það hvernig það á að haga störfum sínum? Ég ætlast til þess að þingið sé sjálfstætt í skoðun sinni á rannsóknarskýrslunni og frábið mér svona sendingar frá hæstv. forsætisráðherra.

Varðandi samráðið þá er ég hérna með bréf sem undir skrifa Bændasamtök Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband stangaveiðifélaga, Samtök atvinnulífsins, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Landssamband veiðifélaga, Samtök fiskvinnslustöðva og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna, þar sem lýst er furðu á því að þetta mál sé komið fram og til standi að tefla því fram.

Eins og segir hér í bréfinu:

„Með vísan til þess sem að framan greinir kemur það okkur algjörlega á óvart að ríkisstjórnin hyggist ljúka málinu með framlagningu lagafrumvarps á næstu dögum…“

Viðkomandi aðilar hafa boðist til að eiga samráð við ríkisstjórnina um það hvernig vinna eigi að þessum málum. Þetta er nú allt samráðið.

Varðandi gagnsæið segir hér í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Fyrir liggja tillögur um umfangsmiklar breytingar sem gera ráð fyrir að ríkisstofnunum hér á landi fækki verulega.“

Hefði ekki verið ágætt að fá þessar hugmyndir hér fram? Hvert er gegnsæið í málinu? Hvers vegna hafa þær ekki verið ræddar hér á Alþingi, þessar umfangsmiklu breytingar (Forseti hringir.) á ríkisstofnunum og fækkun þeirra?



[12:10]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá svar frá hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins um vinnubrögð fyrri ríkisstjórna í þessum málum með opnum reglugerðarheimildum og breytingum á stjórnarráði án þess að það hafi nokkurn tíma farið sem frumvarp í gegnum þingið. (Gripið fram í.) Það er ágætt að halda staðreyndum til haga í svona umræðu, frú forseti, til þess að skýra málin.

Hvað varðar meintar hótanir eða leiðbeiningar þá er málið, frú forseti, á forræði Alþingis. Samráðsferlið fer hér fram eins og þingmenn vita. Málið fer í nefnd. Það fer til allra þeirra sem kunna að hafa á því skoðun og vilja lýsa skoðun sinni á því hvort vinnubrögðin séu vond eða slæm, frú forseti. Málið er í þessari umræðu og síðan verður því vísað til nefndar á forræði Alþingis Íslendinga. Hvernig geta þingmenn verið óánægðir með það að tillaga um grundvallarbreytingar — ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi legið fyrir áratugum saman en það kunna ekki allir að vera sammála því. Þær munu styrkja stjórnsýsluna, þær munu styrkja þjónustu við atvinnuvegina, þær munu styrkja vinnubrögð og lýðræði í þessu landi og þar af leiðandi styrkja það verk sem við vinnum fyrir fólkið í landinu. Hvernig getur það verið með einhverjum hætti vont, ógagnsætt eða skortur á samráði að málið sé komið til löggjafans og sé þar til umfjöllunar þar sem það fær umfjöllun næstu vikur og mánuði? Þar munu að sjálfsögðu koma fram öll sjónarmið um málið. Að sjálfsögðu munu flokkarnir, þingmenn og fulltrúar almennings taka afstöðu til þeirra sem byggð er á staðreyndum og réttum upplýsingum.



[12:12]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samanburðinn við hagræðingaraðgerðir fyrri ríkisstjórnar vil ég bara draga fram það sem augljóst er. Þegar þingið kom að málum var það skýrt innrammað hvaða verkefni væri um að ræða, hvert þau áttu að fara og hvað var skilið eftir. Þannig var það. Málið var tilbúið til afgreiðslu þegar það kom til þingsins, hugmyndirnar voru útfærðar.

Hér er algjörlega óútfært mál. Það er svipað og frumvarpið um Varnarmálastofnun, það er ýmislegt hægt að gera, við viljum fá opna heimild frá þinginu til þess að gera eitthvað. Margt má laga. Hægt er að ná fram hagræðingu og gera skipulagsbreytingar. Hver getur verið á móti því að efla stjórnsýsluna?

Við hér á Alþingi veitum ekki svona opnar heimildir. Við viljum fá útfærðar tillögur sem við getum tekið afstöðu til. Allt tal um forræði þingsins á málinu er auðvitað ekkert nema innantómir frasar. Þetta eru algjörlega merkingarlausir frasar. Forræði þingsins á málinu, um hvað snýst þetta mál? Það snýst um að breyta heitum á nokkrum ráðuneytum. Í kjölfarið á að nýta sér lagabreytingu til þess að gera umfangsmiklar kerfisbreytingar á stjórnsýslunni.

Málið er ekki á forræði þingsins, það er ekki byggt upp þannig. Það er ekki hægt að tala um þetta frumvarp eins og það sé einhver hvítbók sem er til umfjöllunar. Það er verið að óska eftir lagaheimild til þess að fara í heildarendurskoðun og endurskipulagningu á stjórnsýslunni og uppstokkun ráðuneyta og tilfærslu verkefna. Að svo miklu leyti sem málið snýst um forræði þingsins er það auðvitað á forræði þess að segja já eða nei. Annars þarf að vinna málið algjörlega frá grunni.



[12:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri á því að ýmislegt mætti laga í uppbyggingu Stjórnarráðsins. Hér liggur fyrir tillaga sem er lögð fyrir Alþingi. Ég hef lýst því áður að ég skil ekki almennilega hvað hv. þingmenn eiga við þegar þeir tala um samráð. Mér sýnist það einmitt vera þegar frumvarp af þessu tagi kemur inn í þingið, þá hefst opið samráð við alla stjórnmálaflokka í þingnefndum. Þingnefndir geta auðveldlega sett niður í nefndaráliti hvernig þær telja að þessum tilflutningi verði best hagað.

Ég vil líka, hæstv. forseti, nefna þetta skilningsleysi sem mér finnst margir hafa á samráði. Það einkennir Samtök atvinnulífsins. Hjá þeim eins og hjá Sjálfstæðisflokknum þýðir samráð: Ég ræð. Ég vil spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að taka þetta á jákvæðu nótunum frekar en eins og alltaf og eilíflega á neikvæðu nótunum sem liggja hér yfir? Þannig móttökur fá öll mál sem lögð eru fram í þessum sal.



[12:16]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er greinilegt að ég og hv. þingmaður höfum ólíkan skilning á hugtakinu samráð. Er verið að óska eftir einhverju samráði við þingið hér? Ég les það ekki út úr málinu. Ég les það út úr málinu að óskað er eftir því að málið verði afgreitt sem lög í september, sem opin heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að gera grundvallarbreytingar á stjórnkerfinu. Er þetta kallað samráð? Ef hugmyndin er sú að þingið geti kollvarpað málinu þá er í raun og veru verið að biðja þingið um að veita einhverja leiðsögn vegna þess að ekki er leiðsögnina að finna í málinu sjálfu. Það er svo augljóst af greinargerðinni að allt er galopið með það hvernig vinna eigi málið áfram. Þessu er dengt fram sem hugmyndum, það er vísað í að til séu listar um sameiningu ríkisstofnana, það er vísað í það að viðbragðshópurinn hafi talið að efla mætti stjórnsýsluna með því að fækka ráðuneytum o.s.frv.

Það sem ég er að kalla eftir er samtal á milli þings og framkvæmdarvalds þar sem framkvæmdarvaldið kemur með útfærðar hugmyndir og við hér á þinginu bregðumst við þeim. Það er samráð. Það er ekki samráð þegar ríkisstjórnin kemur og segir: Við viljum fá risastóra óskilgreinda opna heimild til þess að fækka ráðuneytum, við erum að velta fyrir okkur hinu og þessu og sjáum að margvísleg tækifæri liggja í breytingum, viljið þið ekki vinsamlegast veita okkur lagaheimild til þess að leggja af stað? Þetta finnst mér ekki vera samráð. En við getum auðvitað snúið þessu máli upp í það að þingið veiti ríkisstjórninni leiðbeiningar um hvað það telur rétt að gera.

Ég segi það í þriðja sinn í þessari umræðu: Ég tel rétt að leita hagræðingar í stjórnsýslunni. Ég tel að það megi vafalaust sameina ráðuneyti. Ég tel að við getum margt gert til þess að nýta fjármuni betur, til þess að auka skilvirknina í kerfinu, til þess að þær stofnanir sem við erum með í ríkisrekstrinum og ráðuneytin sjálf mæti betur þeim væntingum sem eru hjá atvinnulífinu vegna framgangs einstakra mála. Það má margt gera. En til þess að hér geti átt sér stað einhver vitræn umræða þurfa að (Forseti hringir.) liggja fyrir betur útfærðar hugmyndir (Forseti hringir.) og menn þurfa að hafa vandað betur til samráðsins. (Forseti hringir.)



[12:18]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki vel að mér í því hvernig breytingar á Stjórnarráðinu hafa nákvæmlega verið gerðar en ef ég man rétt var fyrir einhverjum árum var einfaldlega notaður forsetaúrskurður til að breyta uppbyggingu ráðuneyta, hvort það var út af iðnaðarráðuneytinu eða hvað, ég man það ekki nákvæmlega. Ég þori ekki alveg að fara með þetta en ég held að þetta hafi verið einhvern veginn þannig.

Ég held að hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, yrði ekki mjög glaður ef hingað hefði komið inn fullyrðing um að við ætluðum að breyta þessu ráðuneyti og að þessi stofnun ætti að fara þangað, þetta yrði svona og þetta svona, og gjörið þið svo vel og komið nú og segið já. Þá held ég að hv. þingmaður hefði sagt að hér skorti á samráð og væri bara verið að bjóða þinginu upp á það að skrifa upp á verkefnalista.

Hér er boðið upp á samráð og við skulum ræða þetta í nefndum. Á síðustu orðum hv. formanns Sjálfstæðisflokksins mátti heyra að hann er sammála markmiði frumvarpsins um hagræðingu, um meiri skilvirkni og um allt sem þetta stefnir að. Þá skulum við bara vinna saman að því að ná niðurstöðu, góðri niðurstöðu fyrir okkur öll og gera það með jákvæðum hætti en ekki því niðurrifi sem ríkir í þessum sal.



[12:20]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ástunda ekki niðurrifsvinnubrögð hér, ég er einfaldlega að benda á augljósar staðreyndir. Ég benti t.d. á það áðan að tíu heildarsamtök buðu ríkisstjórninni samstarf við að vinna að þessum hugmyndum og að þau hefðu síðan skrifað forsætis- og fjármálaráðherra bréf þar sem þau lýstu vonbrigðum sínum með að slegið hefði verið á þær hugmyndir, að málið hefði verið unnið alla leið til þingsins án þess að látið væri reyna á þetta.

Fyrir utan þessi tíu heildarsamtök er þess getið í bréfinu að fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Samorku hafi líka lýst yfir þungum áhyggjum af þessum áformum. Ef hugmyndin er sem sagt sú að taka þetta mál hér inn í þingið bara til að efna til samráðs er það ágætt en það fer afskaplega illa saman við það sem segir í frumvarpinu sjálfu að niðurstaða þurfi að liggja fyrir strax á haustmánuðum. Það fer líka illa saman við efnisgreinar frumvarpsins sem eru í raun og veru ekkert annað en nafnabreytingar á nokkrum ráðuneytum og gildistökuákvæði. Ef það sem þingið á að afgreiða héðan sem lög er hvað ráðuneytin eiga að heita er samráðið til afskaplega lítils.

Hvernig hefði ég viljað sjá þetta? Hefði ég talað eins og hv. þingmaður gerði ráð fyrir ef hér hefðu komið fram útfærðar hugmyndir? Nei, ég hefði ekki gert það. Þær hefðu gefið tilefni til þess að taka málefnalega umræðu um það hvernig við ætlum nákvæmlega að gera þetta. En áður en slíkt útfært frumvarp hefði komið fram hefði ég gjarnan viljað sjá skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra, eftir samráð við ýmsa hagsmunaaðila, um hugmyndir um hvar menn ætluðu að ná hagræðingunni fram og aukna skilvirkni, skýrslu sem hefði verið afhent þinginu og tekin hér til umræðu. (Forseti hringir.) Ef frumvarp hefði síðan komið fram með útfærðum (Forseti hringir.) hugmyndum í kjölfarið á því (Forseti hringir.) þá hefði verið mjög vel vandað til verka.



[12:22]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Áform um það að hagræða og endurskipuleggja Stjórnarráðið eru ekki ný af nálinni. Á umliðnum árum hafa þessi mál iðulega verið til umræðu og oftast hefur umræðan hnigið í þá átt að skynsamlegt væri að fækka ráðuneytum og styrkja þau sem eftir stæðu. Ég hygg að flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar sem nú starfa á Alþingi, kannski að Hreyfingunni undanskilinni, hafi á umliðnum árum eitthvað ályktað í þá veru, með mismunandi hætti þó, og væri fróðlegt að fara yfir það.

Staðan nú er hins vegar sú að við erum í meiri þörf fyrir það en um áratugaskeið að fara rækilega í gegnum allt skipulag okkar og stjórnsýslu og skoða með hvaða aðgerðum, ekki síst skipulagsbreytingum, við getum náð fram betri nýtingu fjármuna og öflugri og skilvirkari starfsemi með sem minnstum tilkostnaði. Það eru margvísleg rök af því tagi sem mæla með því að nú sé farið yfir þetta verk og þá er ég ekki fyrst og fremst að tala um Stjórnarráðið heldur allan hinn opinbera rekstur og um 200 stofnanir ríkisins. Rökin eru fjárhagsleg og þörf er fyrir það að sú stjórnsýsla sem við erum með sé eins burðug, fagleg, vel sérhæfð og kraftmikil og kostur er á og þar eru kostir í stærri og sterkari einingum. Það eru m.a. þau rök sem rannsóknarskýrslan bendir réttilega á og fer rækilega yfir.

Síðan á þróun sér alltaf stað. Ný tækni, nýjar aðstæður og ný stefnumótun kalla á það að menn þori að endurskipuleggja hlutina. Ég nefni umhverfismál, að sjálfsögðu þarf stjórnskipulag okkar að taka mið af þróun umhverfisréttarins sem hefur verið hröð síðustu 1-–20 árin og endurspeglast í styrkri stöðu umhverfismála. Sérhæfing hefur aukist, sérmenntun og fagmenntun af ýmsum toga, og það er kostur að hafa stærri einingar sem búa yfir meiri sérþekkingu og mannskap sem hægt er að færa til eftir því hvernig álagið fellur til.

Það er mikilvægt að vanda til verka við svona vinnu, um það erum við vonandi öll sammála, en það þarf auðvitað að byrja einhvers staðar. Það þarf að eiga samstarf og samvinnu við þá sem við eiga að búa, ekki fyrst og fremst og eingöngu hagsmunasamtökin. Það sem skiptir mestu máli er að fá starfsfólk, forstöðumenn, stjórnendur og starfsmenn með í verkefni af þessu tagi. Þá skila þau árangri og þá náum við markmiðum okkar um hagræðingu og bætta stjórnsýslu. Að sjálfsögðu þarf líka að reyna að ná eins góðu samkomulagi um þessa hluti og kostur er við heildarsamtök hagsmunaaðila, atvinnugreinarnar sem í hlut eiga eftir atvikum o.s.frv.

Áformin sem kynnt eru í frumvarpinu voru skrifuð með tilteknum hætti inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að undangenginni vinnu í aðdraganda stjórnarmyndunarviðræðna þar um, þannig að þau eiga ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Þau hafa þó tekið breytingum, fyrstu skrefin voru tekin sl. haust og nú er stefnt að því að gera viðameiri breytingu nálægt miðbiki kjörtímabilsins þannig að ráðuneytunum fækki úr tólf í tíu, jafnvel um næstu áramót, og nokkru síðar verði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Að sjálfsögðu eru rök bæði með og á móti í þessum tilvikum eins og alltaf og við skulum ræða þau. Ég held að endalaust tuð um það hvort leggja eigi af stað í ferðina svona eða hinsegin skili okkur ekki miklu því allar ferðir hefjast á einhverju skrefi. Hér er málið opnað með frumvarpi sem er fyrst og fremst lagt fram til kynningar og til að koma því í vinnu- og samráðsfarveg í sumar og fram á haustið.

Ég er persónulega sannfærður um það, eftir að hafa legið dálítið yfir tölum um fjármál og útgjöld hins opinbera að stærsta einstaka hagræðingaraðgerðin sem hægt sé að ráðast í í ríkisrekstri á Íslandi sé að stofna velferðarráðuneyti. Þar eru mestu útgjöldin og skörun málaflokka er mjög mikil milli félagsþjónustuþáttarins og heilbrigðisþjónustuþáttarins, milli almannatrygginga og sjúkratrygginga, þar eru samþættingarmöguleikarnir mestir. Með nákvæmlega sama hætti og hefur skilað sér hjá þeim sveitarfélögum sem hafa fengið og yfirtekið frá ríkinu málefni fatlaðra og jafnvel heilsugæsluna á grundvelli tilraunaverkefna eða þjónustusamninga hefur samþættingin skilað góðum árangri. Akureyrarmódelið er dæmi um slíkt.

Með færslu málefna fatlaðra, sem vonandi verður af um áramótin, yfir til sveitarfélaga og síðan í kjölfarið færslu málefna aldraðra mun umfang velferðarráðuneytis minnka nokkuð og ég endurtek það að skoðun á þessum hlutum hefur sannfært mig um það að þó að ráðuneytið verði stórt og viðamikið verða líka fólgnir í því gríðarlega miklir möguleikar, ekki fyrst og fremst í sameiningu tveggja ráðuneyta heldur þeim viðamikla rekstri sem að baki liggur.

Sama má segja um innanríkisráðuneytið. Mörg hagræn og gild rök eru fyrir því að góður kostur sé að búa til eitt öflugt ráðuneyti innviða og öryggismála í landinu. Veruleg samlegðaráhrif eru í mörgum af þeim stofnunum sem að baki liggja og hafa þau verið kortlögð.

Um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti er það að segja að sennilega er mestur ágreiningur uppi um þau, sérstaklega hið fyrra. Hvað umhverfis- og auðlindaráðuneytið varðar hefur það lengi verið baráttumál okkar Vinstri grænna að efla stöðu umhverfismála í stjórnsýslunni og gefa þeim sterkari stöðu, að umhverfisráðuneytið fengi stöðu jafnvel hliðstæðari fjármálaráðuneyti eða öðru slíku. Umhverfismálin eru málaflokkur sem verðskuldar að fá sterkan sess í stjórnsýslu okkar. Það þarf að leita sátta milli þeirra systra verndunar og nýtingar og það á ekki að stilla þeim upp sem andstæðum. Það er úrelt og gamaldags hugsun. Sjálfbær nýting og sjálfbær þróun eru hugtök sem eiga að vera hönd í hönd.

Varðandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru vissulega mörg sterk fagleg rök fyrir því að það geti orðið málefnum hins almenna atvinnulífs til góðs að sameina þau í einu sterku ráðuneyti, að landamærin milli atvinnugreinanna frá fornu fari hverfi. Margt leggst vel saman með landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, nýsköpun og atvinnuþróun, sjóðunum sem eru vistaðir í báðum ráðuneytunum í dag o.s.frv.

Iðnaðarráðuneytið er minnsta ráðuneytið, leifar af ráðuneyti sem skipt var upp þegar vantaði stóla fyrir nokkrum árum síðan og kostaði í rekstri 140 millj. kr. á ári. Það var ekki hagræðingaraðgerð. Þar sáum við öfug samlegðaráhrif. Hins vegar er talið að rekstrarkostnaður sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sé 40 millj. kr. lægri á ári en framreiknað hefði kostað að reka ráðuneytin hvort í sínu lagi. Þar sjáum við hið gagnstæða. Það er því engin leið að mæla á móti því að hagræðingar- og sparnaðarmöguleikar eru í þessu.

Hins vegar eru skiptar skoðanir og andstaða við tilurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ég skil mörg af þeim rökum og ýmsar áhyggjur sem þar liggja að baki. Þess vegna er rétt og skylt að fara vandlega yfir það með þeim sem í hlut eiga. Það verður gert og er boðað í greinargerð frumvarpsins. Þess vegna er því máli gefinn lengri tími og sérstaklega tekið fram að það eigi að nota sumarið og haustið í samráð við ekki síst landbúnaðinn og sjávarútveginn og meta síðan framvindu málsins í ljósi þess hvernig það samstarf gengur. Ég tel að þar skipti verkaskiptingin mestu máli. Ef vel tekst til að ná sáttum um landamærin milli umhverfis- og grunnrannsókna og auðlindaþáttarins annars vegar og nýtingar- og atvinnuþáttarins hins vegar má vinna mikið með því.

Samtök atvinnulífsins sendu frá sér bók í morgun og ég fór lítt sofinn til að spjalla um hana inni á Grand hóteli. Hvað er þar sagt um þessi mál? Komið er inn á þau og sagt að ríkisstjórnin hyggist fækka ráðuneytum niður í níu og að núverandi hugmyndir ríkisstjórnarinnar gangi of skammt í þá átt. Samtök atvinnulífsins vilja átta ráðuneyti, að vísu að einhverju leyti öðruvísi útfærð. Hvað segja sjálfstæðismenn um það? Holland er að skoða það að fækka sínum ráðuneytum úr 14 niður í átta. Um öll lönd eru menn að leita leiða til hagræðingar í þessum efnum, ekki síst vegna erfiðleika í ríkisbúskapnum. En það þarf að vanda til verka og það stendur ekkert annað til. Ég mun ekki standa að því að þessar breytingar fari á endastöð, vitandi það og horfandi á það hversu mikilvægt er að þeir sem eiga að vera í framkvæmdinni skapi samstöðu og þátttöku í verkefninu, sérstaklega stjórnendur og starfsmenn, öðruvísi en ég hafi sæmilega sannfæringu fyrir því að það muni takast.



[12:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að í greinargerð með frumvarpinu er talað um að eftir framlagningu þess verði framvindan metin í ljósi árangurs af því samráði sem verður.

Í upphafi þessarar greinar er talað um að málinu skuli lokið í haust. Getur ekki verið að þarna stangist svolítið á textinn í frumvarpinu og það sem stjórnvöld eru að fara með inn í þingið? Það er búið að gefa út hvenær þetta mál eigi að vera klárt, sagt er að einhvers konar samráð eða samskipti eigi að vera við aðila, en ef ég skil þetta rétt hafa menn gefið sér að það eigi að klára þetta mál í haust.

Hvað þýðir það? Ef það verður ósætti, ef það verða miklar deilur um þetta mál, á þá samt að klára það í haust? Ég vil minna hæstv. fjármálaráðherra á hans eigin orð í þingsal í desember 2007 (Forseti hringir.) þegar hann talaði um mikilvægi þess að ná samstöðu um breytingar á Stjórnarráðinu og önnur slík mál.



[12:32]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sömu skoðunar og þá og þess vegna er m.a. kveðið á um það í greinargerð frumvarpsins að æskilegt væri að fá tengiliði frá öllum þingflokkum til að fylgjast með og vera þátttakendur í þessari vinnu í sumar. Það er rétt að áformað er að afgreiða þetta mál í haust, við getum sagt í september eða október, ekki síst vegna þess að við bindum vonir við að sæmileg samstaða geti orðið um tvær af þessum breytingum, þ.e. að velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið taki til starfa um næstu áramót. Það er langhandhægast að gera slíkar breytingar um áramót og það er eftir miklu að slægjast í hagræðingu, við vitum það, við sjáum það. Hvert ár sem breytingarnar tefjast um er tapað ár í þeim skilningi að þá er ekki lagður grunnur að því að sú hagræðing skili sér á þeim árum sem á eftir koma.

Þegar við horfum á stöðu ríkisfjármála nú, horfum á viðfangsefnin, ekki bara á næsta ári, sem verður erfitt, heldur það að meira þarf til 2012 og 2013, þá megum við ekki láta frá okkur möguleika sem geta hjálpað okkur á þeirri vegferð að ná endum saman í ríkisbúskapnum og snúa halla í afgang. Ef hagræðing og (Forseti hringir.) endurskipulagning, sameining stofnana og sameining innan Stjórnarráðsins geta orðið okkur veganesti í þann leiðangur (Forseti hringir.) megum við ekki vera svo fælin í málinu að við þorum ekki að leggja af stað.



[12:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í riti fjármálaráðuneytisins í desember 2008 er fjallað um sameiningarferli á vegum ríkisins og þar er vísað til þess að rannsóknir sýni að umfangsmiklar sameiningar skili þeim árangri sem vonast er eftir í eða undir 15% tilvika. Þetta kemur fram í riti frá fjármálaráðuneytinu. Maður veltir fyrir sér hvort búið sé að meta það hjá ríkisstjórninni, hjá hæstv. ráðherrum, hvort þetta muni virkilega vera hinum megin við þessi 15%.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í samþykkt sem gerð var á flokksráðsfundi VG í janúar þar sem skorað var á eða samþykkt í rauninni að endurskoða öll áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Þar er talað um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar o.s.frv., ég veit að hæstv. ráðherra þekkir þá ályktun. Það er ekki nein dagsetning á breytingum á Stjórnarráðinu í stjórnarsáttmálanum að því er ég veit. Hvers vegna í ósköpunum fer hann með þessum hætti í raun gegn samþykkt flokksráðs síns eigin flokks, (Forseti hringir.) frá því fyrir (Forseti hringir.) nokkrum vikum?



[12:35]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að rifja upp flokkssamþykktir mínar. Ég ætti kannski að rifja upp flokkssamþykktir Framsóknar um að fækka ráðuneytum og stofna atvinnuvegaráðuneyti, ef við viljum fara í þá umræðu.

Það er alveg rétt að fjármálaráðuneytið hefur verið að byggja upp þekkingu á því hvernig þarf að standa að málum til að sameining stofnana skili því sem ætlast er til. Þar hefur byggst upp mikil sérþekking og á henni er byggt í undirbúningi þessa máls. Eðli málsins samkvæmt er fjármálaráðuneytið sú eining stjórnsýslu okkar þar sem mest sérþekking og fagþekking er samankomin á því hvernig þarf að standa að málum í þeim efnum ef vel á til að takast.

Ég hygg að uppskeran á undanförnum árum hafi oft verið of rýr vegna þess að menn settu sér ekki skýr markmið fyrir fram í þeim efnum, menn undirbjuggu hlutina ekki á réttan hátt. Ég fullyrði þvert á það sem ég hef heyrt í þessari umræðu að mikill og vandaður undirbúningur sé þegar til staðar og liggur hann að baki því frumvarpi sem hér er komið fram. En það er líka vinna eftir sem snýr að því að ræða við starfsfólkið og í vissum tilvikum draga upp endanleg landamæri milli verkefna og því er heldur ekki haldið fram hér að þetta sé (Forseti hringir.) endanlegur sannleikur eða eina mögulega leiðin sem fær er. Ég geri það ekki, (Forseti hringir.) en þetta eru að mínu mati góðar tillögur og vel ígrundaðar.



[12:36]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í morgun fór fram ráðstefna um nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra sótti og flutti framsöguerindi á. Ég tók jafnframt þátt í pallborði á þeirri ráðstefnu og í þeim bæklingi sem Samtök atvinnulífsins voru að gefa út eru margar mjög gagnlegar ábendingar.

Lokamarkmiðið með þeim hugmyndum sem við erum að ræða er auðvitað jákvætt og gott en það er verklagið sem er ófullkomið, þ.e. aðdragandi málsins sem lýsir sér m.a. í því að eftir að málið er komið til þingsins segir framkvæmdarvaldið við okkur: Við ætlum að halda áfram samráði í sumar. Þá spyr ég einfaldlega: Hvar er málið eiginlega statt? Hver fer með forræði málsins? Ætlar ríkisstjórnin sem sagt að halda forræði málsins eftir að hafa lagt fram frumvarp um það á þinginu?

Það er þetta verklag, þingið hefur það hlutverk að setja lög og veita ríkisstjórninni aðhald, en (Forseti hringir.) samspil þingsins og framkvæmdarvaldsins er allt í tómu rugli hér.



[12:38]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig vill hv. þingmaður leggja af stað? Ætlar hann að taka tvö skref aftur á bak fyrst? Það verður að hefja allar ferðir á einhverju skrefi og það þarf helst að vera áfram. Hér er það gert og það er ekki eins og þessar hugmyndir detti af himnum ofan. Þetta eru allt saman tillögur sem hafa verið ræddar og skoðaðar á undanförnum árum og flokkarnir hafa margir hverjir talað um möguleikann á því að búa til atvinnuvegaráðuneyti. Menn hafa margrætt möguleikann á því að hér yrði til einhvers konar innanríkisráðuneyti sem yrði öflugt ráðuneyti innviðanna í samfélaginu, öryggismálanna og þeirra hluta. Og menn hafa mjög mikið velt fyrir sér möguleikanum á að samþætta velferðarþjónustuna. Þetta eru allt kunnuglegar hugmyndir.

Það má kannski segja að það hafi fyrst og fremst verið hugmyndin um velferðarráðuneytið sem að mörgu leyti hafi verið hik á mönnum gagnvart vegna þess að menn sögðu réttilega: Það verður svo stórt. Það er alveg rétt, það verður stórt. En það mun þó minnka að vægi þegar málefni færast í auknum mæli yfir til sveitarfélaganna.

Kosturinn við það að fá t.d. öflugt 70 manna atvinnuvegaráðuneyti er m.a. sá að þá er það orðið nokkurn veginn jafnoki segjum fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins, (Forseti hringir.) að burðum, í mannskap. Ég hef þá tröllatrú á því duglega fólki sem (Forseti hringir.) vinnur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að það líti ekki svo á að það sé lagt niður þó að (Forseti hringir.) 18 manns komi yfir í sjávarútvegshúsið frá iðnaðarráðuneytinu.



[12:39]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki að mælast til þess að við tökum tvö skref aftur á bak áður en við förum að skoða þessi mál. Ég er bara að kalla eftir því að menn komi með mótaðar hugmyndir til þingsins ef þeir óska eftir því að um þessi mál verði samþykkt lög. Af umræðunni og þingmálinu sjálfu er augljóst að hugmyndirnar eru mjög á floti. Á meðan ríkisstjórnin veit ekki nákvæmlega hvað hún ætlar að gera getur hún ekki farið fram á það við þingið að það afgreiði málið.

Ríkisstjórnin getur hins vegar óskað eftir því við þingið að það taki málið til skoðunar en þá er forræði málsins komið hingað. Ekki segja þá við þingið á sama tíma, hæstv. ráðherrar, að þið ætlið að halda áfram samvinnu við einhverja aðila úti í þjóðfélaginu um það hvernig málið verði unnið áfram. Forræði málsins er á öðrum hvorum staðnum.

Varðandi þessar sameiningar þá er það rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að eflaust má ná fram hagræðingu, t.d. með skipan nýs velferðarráðuneytis. En ég spyr mig hvort allur félagslegi þátturinn þurfi að fara þar inn. Ég hef miklar áhyggjur af því að ráðuneytið verði of stórt, það verði mikið skrímsli í ríkisrekstrinum og hvort ekki mundi duga (Forseti hringir.) að færa þar inn alla þjónustu og umönnun en láta (Forseti hringir.) félagslega þáttinn annað, t.d. í innanríkisráðuneytið.



[12:40]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að þrátt fyrir þessa sameiningu ráðuneyta og fækkun þeirra niður í níu, sumir vilja átta eða færri, eigi eftir að eiga sér stað umræða um mögulega tilfærslu afmarkaðra þátta milli ráðuneyta í framtíðinni. Það er mjög líklegt enda væri óskynsamlegt að reikna með öðru en því að menn gætu komist að þeirri niðurstöðu að einhverjir hlutir ættu betur heima annars staðar.

Þetta á að mínu mati ekki að vera svo rígbundið í einhverri vanahugsun að tiltekin verkefni verði bara að heyra undir tiltekið nafn, eða hvað er það sem skiptir máli? Er það ekki starfsemin, er það ekki þjónustan, er það ekki að fjármunir nýtist vel? Jú, það hélt ég. Þess vegna útiloka ég ekkert í þeim efnum, t.d. að þegar yfirfærsla málefna til sveitarfélaganna er komin á sinn stað kunni menn að gera einhverjar breytingar á móti af ríkisins hálfu. Ég er reyndar mjög hallur undir þá aðferðafræði sem er almennt ríkjandi annars staðar á Norðurlöndunum að framkvæmdarvaldið hafi miklu meira svigrúm til að ákvarða þessa hluti sjálft og gera á þeim breytingar, búa til ný ráðuneyti, færa á milli, (Forseti hringir.) sameina, og þurfi ekki að bera það undir löggjafarvaldið. Við erum hins vegar að gera það (Forseti hringir.) hafandi þó heimild til hins gagnstæða af því að við viljum bæði hafa Alþingi með í þessu og líka aðila úti í samfélaginu.



[12:42]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er að verða æ skrautlegra. Upphaflega var okkur greint frá því að það væri að fæðast stjórnarfrumvarp um uppstokkun og sameiningu ráðuneyta. Svo skýrðist það að það var í raun og veru ekki eiginlegt stjórnarfrumvarp því allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar stóðu ekki að því. Það var heldur ekki stjórnarfrumvarp í þeim skilningi að þingmenn stjórnarliðsins stæðu að málinu, það hefur verið upplýst að umtalsverður hópur í öðrum stjórnarflokknum er þessu máli andvígur.

Nú kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir okkur að þetta frumvarp sé lagt fram til kynningar. Hæstv. forsætisráðherra leggur hins vegar mikla áherslu á að þetta mál verði afgreitt hér á haustþingi. Mér finnst vera fullkomin óvissa um hvað við erum að ræða. Erum við að ræða um eitthvert kynningarefni frá ríkisstjórninni eða erum við að ræða um eiginlegt frumvarp? Það væri gott að fá svar við þeirri spurningu.

Út af fyrir sig er gott og blessað að ætla að fara af stað í samráð núna eftir á en hefði ekki verið skynsamlegra að leita eftir því samráði fyrr þannig (Forseti hringir.) að menn vissu nokkurn veginn hvað væri mögulegt og hvað væri pólitískt fært í þeim efnum?



[12:43]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ekkert vera í þessu hjá hv. þingmönnum, þetta er óskaplegt tuð. Málið er einfalt. Þetta er stjórnarfrumvarp en fyrir liggur að fyrirvarar eru á stuðningi við eða eftir atvikum andstaða við tiltekna efnisþætti þess frá einum ráðherra í ríkisstjórninni og a.m.k. tveimur þingmönnum í þingflokki Vinstri grænna. Punktur. Þetta er staða málsins, það er ekkert verið að fara í neinar felur með það.

Það er heldur ekki farið í felur með það í greinargerðinni að við vitum vel af þeirri andstöðu sem hefur m.a. birst í ályktunum fjölda samtaka gagnvart tilteknum þáttum þessara áforma. Við horfumst í augu við það, við viðurkennum það og ætlum að ræða við þá aðila og sjá hvernig það gengur. Þegar ég segi að málið sé lagt fram til kynningar á ég við á þessu vorþingi. Það stóð aldrei annað til en að málið kæmi bara hér fram og engar hugmyndir voru um afgreiðslu þess á þessu vori.

Það gerði hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn vorið 2007, eða hvað? Þegar hann sameinaði ráðuneyti á örfáum vikum, ef ég man rétt. Þá var reyndar lagður grunnur að því að búa til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti (Forseti hringir.) með sameiningu tveggja ráðuneyta. Voru þá ekki einhverjir að tala um að það gæti verið fyrsta skrefið (Forseti hringir.) eða fyrra af tveimur í því að búa til atvinnuvegaráðuneyti?



[12:44]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra þyki það tuð þegar við vekjum athygli á því að fullkomin óvissa er um stöðu þess máls sem hér er um að ræða. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra leiðist að það sé rifjað upp að mikil andstaða er við þetta mál í hans eigin flokki. En við skulum ekki gera það að stærsta málinu í þessari umræðu.

Stóra málið er einfaldlega það að hér er verið að leggja fram frumvarp sem er afrakstur einhverra pólitískra hrossakaupa, það er niðurstaðan. Málið er síðan sett fram í fullkominni óvissu, þetta er eins konar kynningarefni sem við eigum að ræða hér. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að mikil andstaða væri við tiltekna þætti þessa máls, m.a. á meðal hagsmunaaðila. Hefði ekki verið eðlilegt að vinna málið t.d. þannig að reyna að leiða saman þau sjónarmið, koma fram með einhverjar skýrari hugmyndir að þessu leyti?

Sú leið er greinilega ekki farin. Hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp á þessu viðfangsefni sínu, kýs að leggja fram kynningarefni í þinginu á haustdögum sem þingið á síðan að (Forseti hringir.) leysa úr. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga er örugglega betur til þess fallið, a.m.k. minni hlutinn, (Forseti hringir.) að takast á við þetta mál en ríkisstjórnarflokkarnir.



[12:46]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það og það eru skiptar skoðanir um tiltekna efnisþætti þessa máls í okkar flokki. Það er ekki nýtt, þetta var rætt á fundum í okkar flokki fyrir einu eða einu og hálfu ári. Þá komu fram áhyggjur og efasemdir um að stofna atvinnuvegaráðuneyti og við vorum hvött til þess að beita okkur fyrir því að þessi áform yrðu endurskoðuð og það höfum við gert.

Hugmyndin var, eins og þetta var skrifað inn í tímalínu stjórnarsáttmálans eða samstarfsyfirlýsingarinnar, að næstu skref á eftir efnahags- og viðskiptaráðuneyti yrðu atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, jafnvel lögtekið strax fyrir síðustu áramót, en það varð ekki. Þvert á móti eru þau áform nú komin aftast í tímaröðina til að gefa því meiri tíma að ræða þau mál og við höfum þar af leiðandi staðið við það sem þessi flokkssamþykkt kvað á um, að beita okkur fyrir því að þessi áform yrðu tekin til endurskoðunar og þau tækju breytingum.

Ég hygg reyndar að það sé mikilsvert viðfangsefni að ræða sérstaklega við landbúnaðinn og sjávarútveginn um þær áhyggjur sem þeir hafa í þessu sambandi. Ég skil þær vel og ég þekki þær, ég nauðaþekki þær. Ég þarf enga sérstaka hjálp, hvorki frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni né öðrum, í þeim efnum. Ég veit að það eru viðkvæmir þættir sem tengjast verkaskiptingunni, landamærunum (Forseti hringir.) og tilteknum stofnunum, hvar þær verða vistaðar og jafnvel hjá hvaða flokki svona ráðuneyti gæti lent.



[12:47]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef upplifað þessa umræðu er tilfinning mín sú að mestur ágreiningur sé um breytingarnar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og þá að fella þau saman við iðnaðarráðuneytið, eða hluta af því sem fellur undir iðnaðarmál, í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég hefði því áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hugsanlega kæmi til greina í staðinn fyrir að fara þessa leið að stofnað yrði matvælaráðuneyti sem færi með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál sem og hollustuvernd og horfa þá frekar til þess að málefni sem varða aðrar atvinnugreinar færu þá undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem þess vegna yrði þá kallað efnahags- og atvinnuvegaráðuneyti.



[12:48]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, ástæða er til að ætla að það sé kannski hvað mestur ágreiningur um stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og jafnvel einfaldlega meiri áhyggjur af því að sameina atvinnugreinarnar í einu ráðuneyti en ekki endilega sama andstaða við systurina hinum megin, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, að því tilskildu að menn nái sæmilegu samkomulagi um landamærin og verkaskiptinguna þar á milli.

Að sjálfsögðu koma ýmis fleiri módel til greina. Ég þekki ágætlega fyrirkomulagið t.d. í Danmörku þar sem er hið stóra og öfluga „fødevareministerium“ sem fer með þau mál og mjög marga málaflokka þar í geiranum. Það er eitt tiltekið fyrirkomulag sem Danir völdu m.a. og ekki síst vegna þess að landbúnaður er mjög stór og mikilvægur hjá þeim og þeir tengdu matvælagreinarnar allar saman undir það ráðuneyti.

Að sjálfsögðu eru ýmis fleiri hugsanleg módel sem við getum skoðað í þessum efnum ef út í það er farið. Ég er ekkert viss um að við séum komin að endastöð í því til lengri tíma litið hvernig stjórnarráð á Íslandi þróast á komandi árum. Kannski ættum við einmitt að vera kjarkmeiri gagnvart þessu og leyfa okkur meiri (Forseti hringir.) sveigjanleika, hafa ríkari heimildir til þess að færa til verkefni eftir því sem best (Forseti hringir.) þykir henta hverju sinni.



[12:49]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara benda á að ég held að það hafi verið þingsályktunartillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu á sínum tíma um stofnun matvælaráðuneytis þannig að maður mundi halda að sá flokkur væri tilbúinn að skoða þá hugmynd. Það væri þá spurning hvort Vinstri grænir mundu standa gegn því að stofna öflugt og flott matvælaráðuneyti.

Ég tók líka eftir því að rætt var um það að Framsóknarflokkurinn hefði verið með ákveðnar hugmyndir um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég hefði áhuga á að heyra hvort ráðherrann hefði kynnt sér þær og þá ekki endilega eins og við erum að tala um hér, sem sagt skipan, nafn á ráðuneytum og hvaða málaflokkar fara þar undir. Ég sat í þeirri nefnd sem vann ákveðna tillögu um breytingar á lögum um Stjórnarráðið á sínum tíma og skilaði af sér 2007. Þar var grundvallarbreyting á því hvernig við ættum að nálgast Stjórnarráðið og við vorum jafnvel mun róttækari en núverandi stjórnarflokkar í því að gefa ríkisstjórninni meira vald sjálfri til þess að skipta með sér verkum, (Forseti hringir.) frekar en löggjafinn, og að horfa á Stjórnarráðið sem ákveðnar grunneiningar sem væru byggðar upp á skrifstofum sem mætti þá færa reglulega á milli ef þess væri óskað.



[12:51]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist hv. þingmaður að mörgu leyti vera svipaðrar skoðunar og ég, að það væri æskilegt að skoða vel hvort ekki ætti að rýmka heimildir framkvæmdarvaldsins og hafa þetta þjálla í verki.

Það eru margir kostir við matvælaráðuneyti og vissulega erum við Íslendingar matvælastóriðja með okkar sjávarútveg, landbúnað og matvælaiðnað. En það eru líka margir kostir við öflugt atvinnuvegaráðuneyti sem fer með allar greinar hins almenna atvinnulífs þar sem landamærin hverfa. Hugsum okkur ferðaþjónustuna, sem er önnur til þriðja stærsta gjaldeyrisöflunargrein landsmanna. Hún hefur aldrei átt sitt ráðuneyti. Ég menntaðist í húsi vestur á Melum sem heitir Atvinnuvegahúsið af því að þar var atvinnumálaráðuneytið á sínum tíma. Kannski fer sagan í svolitla hringi.

Ég tel að það hafi marga kosti, t.d. núna í baráttunni við atvinnuleysið og þegar þörfin er meiri og knýjandi að styðja atvinnulífið og byggja það upp, að það eigi sér öflugt, burðugt ráðuneyti sem er þyngra í stjórnsýslunni, hefur meira vægi og er sterkara og burðugra með fleiri sérfræðinga sem það getur fært til o.s.frv. (Forseti hringir.) Það eru því miklir kostir í því eins og það geta verið kostir við matvælaráðuneyti.



[12:52]Útbýting:

[12:52]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn eitt málið sem kemur með bægslagangi, vil ég leyfa mér að segja, inn í þingið og er hálfvanbúið í raun. Ég hef ýmislegt við frumvarpið að athuga og aðferðafræðina sem hér er viðhöfð og sett fram.

Frú forseti. Ég vil í upphafi taka fram að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið á móti því að skoða breytingar á Stjórnarráðinu eða stjórnkerfinu. Hins vegar höfum við haft skoðanir á því hvernig það er gert og ekki síst á hvaða tímapunkti við böslumst við það allt saman.

Frumvarp þetta er samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna, það er alveg ljóst. Af þeim orðum sem ég hef heyrt í dag, þ.e. af ræðum hæstv. ráðherra, þá get ég ekki betur heyrt en að niðurstaðan sé fyrir fram ákveðin. Niðurstaðan sem kemur fram í frumvarpinu er sú sem verða skal í haust. Því veltir maður eðlilega fyrir sér, hvaða tal er þetta um samráð og samskipti við aðra ef þetta er með þessum hætti? Hæstv. fjármálaráðherra hefur í fórum sínum ályktun frá flokksráði Vinstri grænna sem samþykkti á fundi sínum í janúar að endurskoða ætti öll áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Er það virkilega þannig að frá því í janúar hafi samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn enn og aftur kengbeygt forustumenn Vinstri grænna í ríkisstjórninni til að fylgja þeim stefnuviðmiðum sem sá flokkur vill helst hafa uppi? Það er alveg ljóst að það hefur verið stefna Samfylkingarinnar í mörg ár að reyna að koma málum þannig fyrir að málefni landbúnaðar og sjávarútvegs verði sem veigaminnst og með þeim hætti að auðvelt sé að hafa „kontról“, ef ég má nota það orð, á öllu sem þar kemur, ekki síst í ljósi þeirra drauma sem sá ágæti flokkur hefur um að fara með Ísland undir alþjóðlega yfirvaldið í Brussel. Þetta tengist allt, það er alveg ljóst. Og liður í því að breyta ráðuneytunum er liður í þeirri vegferð að mínu mati.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og að færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum.“

Síðan er farið yfir málið og ýmsar hugmyndir reifaðar og annað en ég verð að segja það, frú forseti, að mér sýnist að það sé mjög djúpt á þessum samlegðaráhrifum og þau jafnvel frekar illa rökstudd. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“ — Það á sem sagt að auka sérhæfingu með því að steypa ráðuneytunum saman í stærri pott. Er ekki nær að styrkja ráðuneytin eins og þau eru þannig að þau geti sérhæft sig í þeim málaflokkum sem þau glíma þegar við? Þetta finnst mér stangast á.

Síðan segir, með leyfi forseta, á bls. 2:

„Núverandi aðstæður gera það enn brýnna en ella að ráðuneyti og stofnanir endurmeti með opnum huga öll verkefni.“ — Núverandi aðstæður. Hvað með framtíðina? Hvernig sjáum við framtíð þessara málaflokka og þeirra stjórnsýslueininga sem hérna er um að ræða? Sjáum við fyrir okkur landbúnað, sjávarútveg og iðnað í einu bixi þar sem engu af þessu verður gert hátt undir höfði? Það er til þess eins að undirbúa að fella stjórnsýsluna enn frekar að stjórnsýslu Evrópusambandsins eins og lengi hefur verið ljóst.

Áfram ætla ég að halda áfram með greinargerðina. Á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Samhliða endurskipulagningu á ráðuneytum er unnið að heildarendurskipulagningu á stofnanakerfi ríkisins á grundvelli framtíðarsýnar um skilvirkan og þjónustumiðaðan ríkisrekstur. Sú endurskipulagning sem hér um ræðir er tengd við sóknaráætlun 20/20, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi í tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt …“ — Það liggur við að maður þurfi að fara að auglýsa eftir þessu 20/20 því það hefur ekkert til þess spurst í mjög langan tíma. Er það virkilega þannig að það eigi að aðlaga og breyta ráðuneytunum til að koma til móts við miðstýringarhugmyndirnar sem koma fram í 20/20-áætluninni og í ræðum forsvarsmanna þess verkefnis? Það er að sjálfsögðu enn og aftur hluti af því að við erum að aðlaga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu, enda er 20/20-hugsunin og -hugmyndin sótt þangað.

Síðan stendur á bls. 4, ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“ Síðan segir neðar:

„Eftir framlagningu frumvarps verður því sérstök áhersla lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, og framvindan metin í ljósi árangurs af því samráði.“

Það er hins vegar búið að gefa það út í fyrri setningunni að frumvarpið verði samþykkt í haust hvað sem tautar og raular með samráð og það sem kemur út úr því samstarfi sem á sér stað. Það hefur einnig komið fram í ræðum í dag og m.a. í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að 10 stór hagsmunasamtök á Íslandi furða sig á þessum vinnubrögðum og furða sig á því að þau skuli ekki hafa verið með í ráðum þegar frumvarpið var mótað. Það á mögulega að kalla þá aðila til núna þegar hlutirnir liggja fyrir og þá standa menn frammi fyrir orðnum hlut. Ef við þekkjum ríkisstjórnina rétt þá verður það ekki hægt fyrr en búið verður að troða nákvæmlega þessum hugmyndum niður í kok þingmanna. Þannig hafa vinnubrögðin verið.

Frú forseti. Það er ýmislegt fleira um frumvarpið að segja og vinnubrögðin í málinu. Ég ítreka það enn og aftur að Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin viljað taka þátt í umræðu um breytingar á Stjórnarráðinu og hefur talið rétt að hafa um það sem víðtækast samráð. Því tel ég að þær hugmyndir okkar eigi mjög vel upp á pallborðið hjá hæstv. fjármálaráðherra sem sjálfur sagði í þingsal, með leyfi forseta, í desember 2007:

„Að mínum dómi eiga grundvallarleikreglur eins og stjórnarskráin sjálf, kosningalög í landinu, þingsköpin og að mörgu leyti einnig skipan Stjórnarráðsins að kalla á að menn leggi mikið á sig til að ná samstöðu um breytingar. Það er ekki nýtt að á það sé bent og menn hafa gegnum tíðina jafnan talið sjálfgefið að þannig ætti að standa að málum.“

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, hefur talað fyrir samráði og því spyr maður sig hvort það verði hans hlutverk að sjá til þess nú að samráð við aðra stjórnmálaflokka, við hagsmunasamtök og aðra sem að þessu vilja koma verði að veruleika eða hvort það eigi að hunsa þetta eins og annað á þeim bænum þegar kemur að málum tengdum ríkisstjórninni. Þá er einfaldlega hlaupið á eftir duttlungum Samfylkingarinnar.

Það er búið að ræða ýmsa þætti er lúta að þessum ráðuneytum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég hef frétt af vefsíðunni Tíðarandanum þar sem fjallað er um þessar hugmyndir um breytingar á Stjórnarráðinu, kostnað og annað slíkt. Hér segir, með leyfi forseta:

„Á meðal starfsmanna Stjórnarráðsins eru miklar efasemdir um málið, einkum um sparnaðaráhrif.“

Þetta kemur að sjálfsögðu heim og saman við reynslu starfsmanna Stjórnarráðsins af slíkum sameiningum samanber það sem ég vitnaði til áðan í riti fjármálaráðuneytisins frá 2008 þar sem kemur fram að svona stórar sameiningar heppnast einungis í 15% tilvika. Fyrst spyr maður sig hvort þarna sé betra heima setið en af stað farið. Síðan segir hér, frú forseti:

„Ráðuneytin [eru] nú þegar undirmönnuð og væntur sparnaður af sameiningu byggi[r] á óskhyggju fremur en veruleika.“ — Enn fremur segir á þessari fréttasíðu, og við verðum að hafa það í huga að þetta er vitanlega fréttasíða, að miklar efasemdir séu innan Stjórnarráðsins. Vill fréttamaðurinn í það minnsta benda á að bak við tölur um sparnað og annað sem nefnt er í frumvarpinu liggja ekki neinar áætlanir. Hægt sé að ná fram töluverðum sparnaði t.d. með því að fækka ráðherrum í rauninni og minnka allt umstang í kringum þá en ekki fækka ráðuneytum. Það er eitt af því sem hér er nefnt. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið skoðað.

Öll helstu samtök sem koma að þeim atvinnuvegum sem þarna um ræðir hafa mótmælt þessu á einn eða annan hátt og hafa sagt að það leggist gegn þeim hagsmunum er þau berjast fyrir og um leið hagsmunum þjóðarinnar, að gera þetta með þessum hætti.

Það er líka sérkennilegt ef maður horfir á Vinstri græna í þessu sambandi að forsvarsmenn flokksins hafa ekki meðtekið þá ábendingu sem Vinstri græn fengu í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þar fékk sá flokkur einna mest á baukinn þegar horft er á landið í heild. Það er ekki hægt að sjá skýrari skilaboð um að kjósendur hafi verið óánægðir með þá stefnu sem var viðhöfð. Nú hlæja í hliðarsal samfylkingarþingmenn sem ég held að ættu að líta í eigin barm líkt og við framsóknarmenn höfum gert í Reykjavík.

Fram undan er, samkvæmt því sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja, töluvert mikil vinna við að fara í gegnum málið. Ég leyfi mér því miður, frú forseti, að efast um að svo sé. Ég held að það sé búið að semja um lok málsins vegna þess að ef svo er ekki gæti það truflað þá vegferð sem ríkisstjórnin hefur hafið, og ég tek það fram að það eru mjög skiptar skoðanir um hana innan Vinstri grænna, þ.e. aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er ekkert annað veigameira í frumvarpinu heldur en akkúrat þetta. Það er mjög sérkennilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri grænna, skauta létt yfir þann mikla ágreining sem er í flokki hans um þetta mál, ekki bara á Alþingi heldur úti um allt land. Það sjáum við og þekkjum og við munum eftir ályktunum sem komið hafa um það mál. Við hljótum að gera þá kröfu að stjórnsýslan, sem fjallar um þær undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar sem við byggjum að hluta til okkar sjálfbærni á og sjálfstæði, verði ekki lögð í það púkk sem menn díla um núna varðandi Evrópusambandið.

Við sáum áðan ágætt dæmi þegar rætt var um hvalveiðar og hvernig á að tækla þær. Þjóðverjar eru nánast búnir að segja að Íslendingar verði að hætta hvalveiðum, það er nánast búið að gefa það út. Er ætlunin að halda áfram þessari vegferð með það upp á vasann að Þjóðverjar eru búnir að segja okkur að við verðum að hætta hvalveiðum? Ætla menn að halda áfram í ljósi þess að það er líka búið að segja að engar varanlegar undanþágur séu í boði, aðeins tímabundnar tilslakanir? Ætlum við þá að gefa eftir rétt okkar til að stunda hvalveiðar? Mönnum getur fundist hvað sem er um það hvort hvalveiðar séu merkilegar eða ekki en þær eru hluti af sjávarútvegsstefnu landsins. Þær eru hluti af sjávarútvegsstefnunni og við hljótum að horfa á þær með sömu augum og aðrar atvinnugreinar. Það er því alveg ljóst, frú forseti, að gangi plön ríkisstjórnarinnar eftir um þessa sameiningu — það mun að sjálfsögðu reyna á það í sumar og haust hversu mikill vilji er til að eiga samráð um þetta stóra mál — þá mun koma í ljós hvað raunverulega býr að baki.

Í frumvarpinu er verið að leggja til fastmótaðar tillögur um hvernig ráðuneytið muni líta út. Ég sakna þess að ekki er í rauninni opnað á það að aðrar hugmyndir séu skoðaðar. Það er ekki verið að opna á það sem hér hefur verið rætt, t.d. varðandi matvælaráðuneytið, en af orðum hæstv. fjármálaráðherra vona ég svo sannarlega að þeirri hugmynd verði að minnsta kosti gefinn smásjens og að hún verði skoðuð ofan í kjölinn.

Síðan er vitanlega nauðsynlegt að benda á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið afar duglegur við að benda á hversu vitlaust það sé að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar talar hæstv. ráðherra að sjálfsögðu af reynslu enda þekkir hann málaflokkinn vel og hefur verið ráðherra um þó nokkurt skeið í ráðuneytinu. Það hefur líka komið fram í orðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að áform um sameiningu ráðuneytanna samkvæmt sáttmála ríkisstjórnarinnar voru ódagsett. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum sé verið að ana áfram með málið á þessari stundu þegar það liggur ekki fyrir, ekki búið að staðreyna, ekki búið að sýna og sanna að þessi sparnaður verði að veruleika. Það eina sem við vitum hins vegar er að hér er hraðlest á ferðinni inn í Evrópusambandið og ríkisstjórnin er þar að mestu leyti, fyrir utan einn líklega, á fyrsta farrými. Það er einfaldlega þannig.

Ég velti líka fyrir mér hvort það sé ástæða til að minna á að það eru margar aðrar leiðir til að sameina ráðuneyti og jafnvel af mun meiri skynsemi ef það er markmiðið. Við munum að við vorum með eitt iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sem gafst ágætlega. Sú nýja ríkisstjórn sem hér er við völd ákvað hins vegar að skipta því upp. Það er ekkert sem bannar að farið verði aftur í sama farið. Það er hægt að ræða um umhverfisráðuneyti með öðrum ráðuneytum, mennta- og menningarmálaráðuneyti svo dæmi sé tekið. Það hefur hins vegar verið yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar, sem er að sjálfsögðu hennar val, að lyfta umhverfisráðuneytinu og gera veg þess meiri. En það kemur líka fram að ætlunin er, ef ég skil frumvarpið rétt, að færa þau verkefni sem nú þegar eru t.d. í sjávarútvegsráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þarf að taka ákvarðanir um þau mál þá verður umhverfisráðuneytið að vera búið að heimila það og blessa.

Hér stendur, með leyfi forseta, um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:

„Nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti tekur til allra atvinnugreina utan opinbera geirans og fjármálamarkaðarins.“ — Nú má velta fyrir sér af hverju það sé. Þetta eru ekki litlar atvinnugreinar. — „Þar verða teknar ákvarðanir um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.“ — Samkvæmt þessu á að veita umhverfis- og auðlindaráðuneyti, eins og það mun heita, vald til að segja við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið: Þið megið samkvæmt okkar ráðgjöf veiða svona mikinn fisk, hafa kvótann svona og landbúnaðarkvótann með þessum hætti og landbúnaðarafurðirnar og allt sem við erum að díla um. Viljum við þetta? Viljum við gera í raun landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eða nýtt atvinnuvegaráðuneyti eða hvað það heitir í sjálfu sér áhrifalaust varðandi þau mál er heyra undir það, svo sem varðandi aflaheimildir? Samkvæmt þessu verður ekki hægt að gera neitt nema fyrst komi til ráðgjöf eða stimpill frá umhverfisráðuneytinu. Ég sé fyrir mér töluvert flækjustig og árekstra þar.

Haldnar hafa verið nokkrar ræður um þetta mál og samráð hefur verið ofarlega á baugi. Því miður hefur þingsalur misjafna reynslu í bland af samráði. Dæmi eru um að hér séu enn stunduð þau vinnubrögð að mál séu keyrð í gegn og tekin út í ósætti og slíkt. Það er vitanlega ljóst að svo verður gert ef þetta er einbeittur vilji forustumanna ríkisstjórnarinnar — ég vil segja forustumanna ríkisstjórnarinnar og nota þau orð því ég veit að á bak við þessar hugmyndir og breytingar er alls ekki einhugur innan stjórnarflokkanna. Er það virkilega svo að fara eigi með málið í gegn án þess að sátt um það náist, þrátt fyrir fögur orð á fyrri stigum?

Frú forseti. Í lok ræðu minnar kem ég enn og aftur að því sem ég held að sé meginástæðan fyrir þessum breytingum. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér. Ef boðið verður upp á aðra hluti, sátt og samræður um málið, skoðaðar verða aðrar lausnir og niðurstaðan verður önnur, þá hef ég væntanlega rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega, frú forseti, að ég hafi rangt fyrir mér um þær breytingar sem hér eru boðaðar, að þær séu gerðar til að flýta fyrir aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn stynja yfir þeirri skoðun minni og því sem ég held fram. Það er mín bjargfasta trú að það sé mál númer eitt, tvö og þrjú á bak við þetta. Flýtirinn við að gera þetta með þessum hætti, koma með frumvarpið inn í þingið með þeim bægslagangi sem það er gert og neyða þingið í raun til að taka málið á dagskrá í stað þess að ræða það undir eðlilegum kringumstæðum í haust, er að sjálfsögðu hluti af því að menn og stjórnvöld vilja senda út „rétt“ skilaboð til Evrópu.

Það er nefnilega sorglegt að það skuli blandast inn í þetta með þessum hætti því nauðsynleg umræða um breytingar á Stjórnarráðinu mun að sjálfsögðu litast af þessu. Því er mjög mikilvægt á næstu vikum og mánuðum að ríkisstjórnin og þeir sem leiða þessa vinnu muni sannreyna það og sýna fram á að sá sem stendur hér túlki málið á rangan hátt, að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega að svo sé því ég get alls ekki staðið hér og fellt mig við það að grunnatvinnuvegunum verði fórnað í einhverju bixi til að flýta fyrir vegferðinni inn í Evrópusambandið. Ég lít svo á að verði þessi sameining að veruleika sé verið að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Verið sé að leggja það niður en ekki sameina það öðru ráðuneyti eða annað ráðuneyti því. Heiti ráðuneytisins mun að sjálfsögðu breytast og þá er ekkert ráðuneyti sem gefur skýrt til kynna hversu mikilvægir þessir atvinnuvegir eru fyrir íslenska þjóð. Við erum annars vegar að tala um sjávarútveginn sem skapar líklega um 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar í dag og hins vegar landbúnaðinn sem sparar verulega gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Að fara þessa leið er að mínu viti rangt út á við og einnig rangt inn á við.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að svo komnu máli en óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.



[13:17]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er afar mikilvægt fyrir áætlun um sterkari stjórnsýslu á Íslandi. Með samþykki þess skapast góður grunnur fyrir skynsamlega hagræðingu í ríkisrekstri. Við höfum byggt upp ríkisrekstur og þjónustu sem gerir ráð fyrir tekjum sem við fáum ekki aftur í bráð.

Í efnahagslægðinni erum við neydd til að endurskipuleggja. Þar liggja einnig tækifærin til að byggja upp betra kerfi sem nýtir enn betur mannauð og starfsaðstæður. Færri og stærri ráðuneyti verða öflugri starfseiningar, og yfirsýn yfir málaflokka og þarfir þeirra sem nýta sér þjónustu ráðuneytanna verður betri og styrkir starfsemina. Of fámenn ráðuneyti takmarka möguleika til sérhæfingar. Einnig takmarkar fámennið sveigjanleika sem felst í því að færa starfsmenn á milli viðfangsefna eftir því sem álag gefur tilefni til. Fleiri ríkisstofnanir heyra undir hvert þeirra nýju ráðuneyta og samlegðaráhrif verða sýnilegri og sameining stofnana augljósari kostur. Því auðveldar þessi skipulagsbreyting ein og sér sameiningu stofnana en einnig þarf að sameina verkefni sem sinna má þvert á öll ráðuneyti.

Undirbúningur fyrir fjárlagagerðina árið 2011 er sérstakur að því leyti að samhliða þeirri vinnu er unnið að stórfelldri breytingu á ríkisrekstrinum. Sameining ráðuneyta sem sinna fleiri verkefnum á svipuðu sviði er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju. Skipulagsbreytingin er nauðsynleg til að ná fram hagræðingu á öllum sviðum ríkisrekstrar. Markmiðið er að við rekum færri og sterkari ráðuneyti og færri og sterkari stofnanir og allt fyrir minna fé en nú er gert. Hagkvæmni og gæði fara saman og því tel ég ákaflega mikilvægt að vinna frumvarpinu brautargengi.

Einnig finnst þeirri sem hér stendur að við ættum að ganga lengra. Við ættum að líta annað innan Norðurlandanna og veita hæstv. ríkisstjórn heimild til að breyta ráðuneytum eftir aðstæðum hverju sinni. Með því að festa í lög heiti ráðuneyta og hlutverk ganga breytingar á þeim og tilfærsla verkefna og starfsmanna eftir álagi og aðstæðum seinna fyrir sig en ef um opna heimild væri að ræða. Sveigjanleikann vantar í kerfið að þessu leyti.

Þann 13. júní árið 2007 var samþykkt breyting á lögum nr. 73/1969, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þar var gefin heimild um að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta. Sá möguleiki var fyrir hendi að fara þá leið við að fækka ráðuneytum og sleppa samráðsferlinu sem valið er með frumvarpinu sem hér er til umræðu. Á þetta vildi ég sérstaklega benda vegna umræðunnar áðan um vinnubrögð og skort á samráði hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli.



[13:21]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum núna hefur tekið á sig æ sérkennilegri og skrautlegri myndir, ekki bara á síðustu dögum og vikum heldur líka í þessari umræðu. Ég get ekki sagt að þetta mál hafi beinlínis verið að skýrast. Það er alveg ljóst að málið er afrakstur pólitískra hrossakaupa milli stjórnarflokkanna sem eru ósammála um það hvernig eigi að standa að uppstokkun ráðuneyta landsins.

Við vitum að Vinstri grænir hafa verið andsnúnir þeirri breytingu sem hefur kallað fram mesta umræðu, þ.e. hugmyndum um að steypa saman þessum meintu atvinnuvegaráðuneytum. Þær fela jafnframt í sér að taka út úr þeim veigamikla þætti og færa inn í önnur ráðuneyti. Auðvitað reyna menn að orða hugsun sína varlega á flokksfundum stjórnmálaflokka þegar formaður flokksins á í hlut og í vetur kaus flokksráðsfundur Vinstri grænna að tala um að taka þessi mál til endurskoðunar. En það fer ekkert á milli mála eins og þau mál hafa verið túlkuð, m.a. af þingmönnum og ráðherrum flokksins, að flokksráðsfundurinn sýndi forustu flokksins rauða spjaldið hvað þetta mál áhrærir. Málið hefur verið átakamál innan ríkisstjórnar og milli stjórnarflokkanna. Alveg eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði voru áform um að leggja frumvarpið fram fyrir síðustu áramót. Það tókst ekki vegna þess að ekki var til þess pólitískur stuðningur. Núna kemur málið skröltandi inn í þingsalinn með sprungið á a.m.k. einu ef ekki tveimur dekkjum og óvíst hvort varadekkin eru í lagi. Þannig er staða þessa máls í raun og veru núna. Þetta mál er bara afgreitt þannig vegna þess að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um það. Því er hent galopnu inn í þingið og sagt: Veskú. Nú skuluð þið koma og taka við.

Það má segja sem svo að það sé ákveðin aðferðafræði að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér ekki saman um meginlínur í þessum efnum og Alþingi taki þá málið að sér. En þá er málið jafngalopið og -óútfært og það hlýtur að vera eðli málsins samkvæmt. Það er hreint uppnefni að reyna að láta sér detta í hug að kalla þetta frumvarp stjórnarfrumvarp. Þetta er ekki stjórnarfrumvarp. Þetta er, alveg eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, lagt fram til kynningar. Þetta er kynningareintak af þeim sjónarmiðum sem við getum sagt að sé lægsti samnefnarinn í samstarfi þessara tveggja stjórnmálaflokka.

Mér finnst sérkennilegt hvernig þetta er hugsað. Málið er lagt þannig fram að það eina sem er handfast í því er breytingar á heitum ráðuneytanna. Það má kannski segja að í heitum ráðuneytanna felist á vissan hátt einhvers konar stefnumótun en hún er hins vegar ekki mjög vel útfærð. Þegar maður les rökstuðninginn, það sem kallað er helstu rök fyrir sameiningu ráðuneytanna, sést að þetta eru óskaplegir orðaleppar. Þetta eru orðaleppar sem maður hefur séð áður, samræmd stefnumörkun, samþætting stofnana, einhver orð sem hafa tiltölulega litla meiningu þegar þau eru krufin til mergjar. Eitt er alla vega ljóst, við lestur þessarar greinargerðar finnast ekki neinar röksemdir fyrir því að fara þá leið sem frumvarpið leggur til. Sparnaðurinn er allur í skötulíki. Það er talað um að ekki eigi að segja upp fólki. Það er samt sem áður talað um að þetta leiði til sparnaðar. Það skapast mikil óvissa hjá því ágæta starfsfólki sem starfar í ráðuneytunum. Jafnframt á að stokka stofnanir ráðuneytanna mikið upp. Þar skapast sömuleiðis óvissa og ekki bætir þetta frumvarp úr skák. Það lagar ekki þetta mál sem er sett inn galopið og í fullkomnu ósætti, ekki bara innbyrðis milli stjórnarflokkanna heldur einnig við alla þá sem við eiga að búa.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir því hjá stjórnarliðum hvort einhver hagsmunasamtök í sjávarútvegi og landbúnaði hafi lýst yfir stuðningi við þetta mál. Ég hef lúslesið það. Ég kem ekki auga á það í fljótu bragði að nokkur einustu hagsmunasamtök kalli eftir þessu. Þess vegna liggur mér við að segja að það sé hreinlega móðgun þegar talað er um að hafa eftir á samráð á þessum vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Ef menn ætla að taka mark á þessu samráði þá hlýtur ríkisstjórnin að hverfa frá þessum áformum sínum. Annars er þetta tal um áform hjómið eitt og ekkert að marka. Það er ekkert samráð, eins og lýst var í bréfi frá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi og landbúnaði, þegar menn eru kallaðir til skrafs og ráðagerða í hagsmunaráðuneytinu. Þegar þeim fundi er lokið eru höfð uppi fögur fyrirheit um að eiga síðan gott samstarf. Það næsta sem fréttist er að frumvarpið er komið fram með hugmyndum sem ganga þvert á vilja sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Ég veit að þetta er ekki vilji hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann var ofurliði borinn í ríkisstjórninni. Honum var stillt upp við vegg og þess vegna er þetta frumvarp eins og það er.

Menn spyrja: Hefur það ekki legið fyrir hjá stjórnmálaflokkunum að áhugi hefur verið á því að gera breytingar á Stjórnarráðinu? Það er alveg rétt. Auðvitað þurfum við að endurskoða ýmislegt í Stjórnarráðinu. Við höfum svo sem verið að gera það. Það var gert t.d. með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta sem ég hygg að hafi tekist býsna vel. Hæstv. fjármálaráðherra sem hafði reyndar allt á hornum sér þegar það mál var fyrst borið fram á árunum 2007 og 2008 vitnaði til þess með mikilli velþóknun að það hefði leitt til 40 millj. kr. sparnaðar. Það er ánægjulegt að verða vitni að því. Engu að síður er þetta allt saman í mikilli óvissu. Þetta meinta samráð sem á að fara fram verður í skötulíki nema menn ætli í raun og veru að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið.

Ef lesinn er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar fer ekkert á milli mála að þar voru uppi áform um samráð. Þar var nánast í gadda slegið að ætlunin væri að taka stofnanir eins og Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Matís og Veiðimálastofnun undan sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytunum og færa þau inn í umhverfisráðuneytið. Það hefði verið algerlega hlálegt og fáránlegt í raun og veru að sitja uppi með ráðuneyti sem ætti að fjalla um sjávarútvegsmál sem mig minnir að menn kalli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þetta verða svo löng orð að maður verður nánast sakaður um málþóf þegar maður tekur sér þau í munn. Hugsunin var sú að taka út burðarstoðirnar varðandi auðlindanýtingu á sviði iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar og grýta þessu inn í umhverfisráðuneytið. Hér er að vísu stigið eitt skref til baka sem er skref í rétta átt vegna þess að hér er slegið úr og í. Það er gefið til kynna að það kunni að vera skynsamlegt og eðlilegt að færa þetta inn í umhverfisráðuneytið nýja, ofurráðuneyti umhverfismála. Í textanum á bls. 6 þar sem fjallað er sérstaklega um hið nýja umhverfis- og auðlindaráðuneyti er einnig rætt um skynsemina á bak við það að færa þessi mál meira og minna inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið. En svo er eins og að menn fái bakþanka og láti sér detta í hug viðurhlutamikill samráðsvettvangur þar sem sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn fá að vera í hlutverki Gluggagægis. Þeir fá að kíkja á gluggann og vita hvað er að gerast á þessum vettvangi þar sem vélað er um meginhagsmuni þessara atvinnugreina, eins og hvernig eigi að standa að nýtingu sjávarauðlindarinnar, mál sem snúa að Veiðimálastofnun sem snerta beint landbúnaðinn, sömuleiðis iðnaðinn og orkuna. Hugmyndin er sú að þessar grónu atvinnugreinar verði í hlutverki Gluggagægisins og fái að fylgjast allra náðarsamlegast með þó að síðan sé gert ráð fyrir því að hin endanlega ákvörðun verði tekin einhvers staðar annars staðar. Þetta er algerlega fráleitt, enda kemur það á daginn þegar eftir því er leitað að menn eru ekki lengur vissir í sinni sök. Menn hafa áttað sig á því að þetta fyrirkomulag getur ekki gengið upp. Það er ekki síst þetta sem bent er á í athugasemdum sjávarútvegsins og landbúnaðarins að menn verði að endurskoða.

Mál eins og þetta þarf heilmikinn undirbúning. Það er alveg rétt, menn hafa rætt þetta á pólitískum vettvangi og almennt að það þurfi að fara í endurskoðun og uppstokkun á Stjórnarráðinu. Það neitar því enginn að það er skynsamlegt að fara í það með einhverjum hætti. En það er alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði, það gengur ekki að það sé gert ofan frá og í fullkomnu ósætti við alla þá sem við eiga að búa.

Auðvitað er það hið pólitíska vald sem tekur ákvörðun að lokum, en aðeins eftir að hafa farið mjög vel yfir málið. Nú segja menn að samráðsferlið eigi að eiga sér stað á sviði þingsins. Það þarf enginn að kenna okkur sem höfum setið á þingi lengur en eitt eða tvö ár að auðvitað fer fram samráð þingnefnda þegar málum er vísað til viðkomandi nefnda. Hins vegar verður framkvæmdarvaldið að rækja ákveðið samráðshlutverk í máli eins og þessu. Við undirbúning málsins er það auðvitað á forræði framkvæmdarvaldsins, þetta er stjórnarfrumvarp og þar hefði átt að fara fram eðlilegt samráð.

Auðvitað veit ríkisstjórnin að hún leggur þetta mál fram þvert á vilja þeirra sem við eiga að búa. Menn standa einfaldlega frammi fyrir tvennu, annaðhvort keyra menn leiðina gegn vilja þeirra sem við eiga að búa eða leita einhvers konar niðurstöðu sem gæti fengist með því að tala saman. Það er algerlega ljóst að ekki hefur verið gerð tilraun til neins slíks. Þess í stað er fylgt eftir einhverri pólitískri kreddu varðandi þessa sameiningu. Engin eðlileg greining er gerð eða spurninga spurt, eins og hvort þetta styrki pólitíska ábyrgð. Það er alveg ljóst eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áðan, frumvarp af þessu taginu mun auðvitað veikja stöðu ráðherranna og efla stöðu embættismanna. Ég hefði haldið að í ljósi þeirrar umræðu sem oft hefur farið fram um mikilvægi pólitískrar ábyrgðar sé þar með stigið skref í ranga átt.

Það væri hægt að hafa mörg orð um þetta mál. Það má segja sem svo að ríkisstjórnin hafi á vissan hátt gefist upp við verk sitt. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að hún hefði trú á því að við gætum náð samstöðu um þetta mál. Þá spyr ég: Af hverju gerði ríkisstjórnin ekkert í þessu? Hún hefur haft nægan tíma. Var hún ekki mynduð fyrir rúmu ári? Af hverju var þá ekki reynt að leita eftir slíkri samstöðu um þetta mál? Ég segi bara eins og stendur í helgri bók: Kona, mikil er trú þín. Ef málið kemur núna fram algerlega óútfært, það er eitthvað fimbulfambað um þetta í greinargerðinni, er ekki hægt að búast við því að grundvöllur verði til að ná eðlilegri samstöðu.

Ég ítreka það sem ég tel að skipti miklu máli. Ef menn ætla sér að hafa alvöruiðnaðarráðuneyti, ef menn ætla sér að hafa alvörulandbúnaðarráðuneyti, ef menn ætla sér að hafa alvörusjávarútvegsráðuneyti byrja menn ekki á því að draga burstir úr nefi þessara atvinnugreina. Það er einmitt gert. Það er boðað í þessu frumvarpi að færa mikilvægustu burðarþættina úr þessum ráðuneytum. Það á að færa auðlindanotkunina og skylda hluti út úr þessum ráðuneytum sem þó eru kölluð atvinnuvegaráðuneyti og inn í önnur ráðuneyti. Það mun auðvitað veikja þessar atvinnugreinar. Það er alveg rétt sem Bændasamtökin hafa bent á, þetta mun leiða til þess að staða landbúnaðarins veikist. Það er ekki á það bætandi, allra síst við þær aðstæður sem við búum við núna og allra síst í þeirri óvissuför sem lagt er af stað með með þessari dæmalausu inngöngubeiðni til Evrópusambandsins. Þess vegna verður að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún láti af þessum hugmyndum sínum. Ég tel engar líkur á því að hægt verði að afgreiða þetta mál í september. Það er gjörsamlega vanbúið og þarf meiri tíma. Nálgunin er röng. Málið er lagt fram í fullkomnu ósætti, það verður ósætti um það í þinginu og að mínu mati kemur ekki til greina að málið verði afgreitt í september.



[13:36]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við afgreiðslu á þingflokksfundi VG um frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu mánudaginn 31. maí sl. lagðist ég gegn framlagningu þess og bókaði eftirfarandi rök, með leyfi frú forseta:

„1. Samning frumvarpsins og framlagning er í andstöðu við reglur samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007, samanber einnig ræður mínar á Alþingi við stjórnarráðsbreytingar á haustþingi 2007. Eftirásamráð, þarfagreining o.fl. breytir hér engu þegar ákvarðanir hafa verið teknar.

2. Tímasetning er að mínu mati röng í ljósi þess að öll ráðuneytin eru önnum kafin vegna uppbyggingar Íslands eftir efnahagshrunið og ekki síður í tengslum við ESB-umsókn.

3. Samkvæmt frumvarpinu verða ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð fjórir á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar í stað fimm og fimm eða fjórir og fjórir. Það veikir pólitíska stöðu VG.

4. Um leið grefur frumvarpið undan baráttu okkar gegn ESB bæði út frá fækkun ráðherra og eins út frá því að gert er ráð fyrir því að helsti talsmaður VG innan ríkisstjórnarinnar gegn ESB-umsókn og aðlögunarferli víki sem ráðherra.

5. Frumvarpið fer gegn samþykkt flokksráðsfundar VG, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010.

6. Mikil andstaða er á landsbyggðinni og fjöldi hagsmunasamtaka hefur ályktað gegn því, einkum hvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varðar.

7. Þverpólitískrar samstöðu hefur ekki verið leitað.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég leggst almennt ekki gegn sameiningu og breyttri verkaskiptingu sem unnin er lýðræðislega frá grunni í samræmi við áður tilvitnaða handbók og að tímasetningar séu réttar. Enn fremur séu verkefni flutt til þeirra ráðuneyta sem rétt sé að sinni þeim út af fyrirframþarfagreiningu og samráði við hagsmunaaðila.“

Að þessari bókun standa einnig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason.



[13:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að koma hér upp í kjölfar ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og heyra þann ágreining sem reynist vera innan stjórnarflokkanna um þetta mál og það kemur svo sem ekkert á óvart, við höfum skynjað hann á síðustu dögum og vikum hvað þetta mál varðar en einnig um fjölmörg önnur mál.

Mig langar í upphafi máls míns að fjalla aðeins almennt um fækkun ráðuneyta og skynsemi þess. Framsóknarflokkurinn hefur eins og margir aðrir flokkar ályktað í þá veru á landsfundum sínum að það sé ekki óskynsamlegt og síðan er það kannski spurning með hvaða hætti menn gera það og hvaða afrakstur er af því. Hér hefur talsvert verið fjallað um frumvarpið sjálft eins og eðlilegt er og þær beinu tillögur sem þar eru, m.a. hefur verið nefnt velferðarráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og menn hafa vitnað til fortíðarinnar um það og það má alveg gera það. Í Handbók Alþingis sem dreift var fyrir nokkrum dögum á borð okkar þingmanna getum við farið til þriðja, fjórða og fimmta áratugarins og séð að ráðuneytin voru aðeins þrjú til fimm, kannski væri skynsamlegt að stefna að því og byggja þetta upp með þeim hætti og þá væri ábyggilega pláss fyrir eitt atvinnuvegaráðuneyti ef ráðuneytin væru til að mynda aðeins þrjú. Á sjötta og kannski aðallega á sjöunda áratugnum voru félagsmál, heilbrigðis- og tryggingamál gjarnan á hendi sama ráðherra og þar af leiðandi sama ráðuneytis og það er kannski velferðarráðuneyti og ég tek undir að það gæti verið margt skynsamlegt í því.

Málin hafa hins vegar þróast út í það að hér eru ansi margir ráðherrar og við viljum þar af leiðandi leita eftir sparnaði. Því er mjög áhugavert að velta þeirri spurningu upp, sem við gerðum í andsvari við hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hefur gengið að sameina ríkisstofnanir og hvaða markmið hafa menn sett sér, hvernig á að mæla það og á hvaða tíma? Staðreyndin er sú að þetta hefur ekki verið gert. Það er hvorki gerð tilraun til þess í þessu frumvarpi að setja fram slík skilgreind markmið né heldur hvernig skuli mæla og hvaða ávinningi menn ætli að ná. Það er talið, segir í lok umsagnar fjármálaráðuneytisins, að ef allt muni skila sér geti þetta leitt til um 360 millj. kr. lækkunar á kostnaði á ári eftir einhver ár en væntanlega er kostnaðurinn meiri hér til að byrja með.

Svo vitnað sé aðeins til greinargerðarinnar stendur þar, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 2010 var gripið til aðgerða sem leiddu til 43 milljarða kr. lækkunar útgjalda frá því sem annars hefði orðið og við afgreiðslu á fjárlögunum var áætlað að samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum þyrfti að bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 50 milljarða kr. á árinu 2011. Fyrirsjáanlegt er að verulegur hluti afkomubatans á árinu 2011 verði að koma til með lækkun ríkisútgjalda.“

Þetta kemur svo sem ekki á óvart.

Aðeins seinna í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Veikleika stofnanakerfisins gagnvart öflugum hagsmunum í atvinnulífinu má að nokkru leyti skýra með smæð þess og takmörkuðum mannafla.”

Nú verðum við auðvitað að velta því fyrir okkur hvort við erum fyrst og fremst að tala um fjármál og sparnað, og sá sparnaður mun ekki skila sér fyrr en á næstu árum, ekki á árinu 2010 og væntanlega í mjög litlu magni á árinu 2011, því að hvernig ætlum við annars vegar að efla ráðuneytin og stofnanirnar og hins vegar á sama tíma að fara að draga saman og segja upp fólki? Verkefnin eru þarna eftir sem áður.

Hins vegar er undirtónninn sums staðar í greinargerðinni sá að til lengri tíma eigi að styrkja embættismannakerfið gagnvart öðrum og það er líka umhugsunarefni hvort það sé hin rétta pólitíska handleiðsla.

Það stendur líka hér, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Sameiningar ráðuneyta og stofnana geta tekið nokkurn tíma t.d. þar til fjárhagslegur ávinningur skilar sér að fullu. Um er að ræða flókið ferli og því er afar mikilvægt að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd sem best.“

Þá getur maður spurt sig: Hefur það verið gert? Hvar eru áætlanirnar um markmiðin, hvernig á að mæla þetta og á hvaða tíma? Í þessi sparnaður að skila sér núna vegna 2011 eða erum við að tala um eitthvert langtíma- og framtíðarplan?

Á sama tíma höfum við verið að setja ný lög þar sem við höfum verið að skjóta upp nýjum stofnunum, jafnvel allt niður í eins, tveggja eða þriggja manna stofnanir. Það er því ekki alveg eins og hægri höndin viti hvað sú vinstri gjörir.

Tímasetningin, ég ætla að taka undir það sem nokkrir þingmenn hafa komið að, þetta er afar vitlaus tími. Við erum að rugga bátnum á viðkvæmum tíma við endurreisn atvinnulífsins og uppbyggingu efnahagslífsins og í raun stjórnsýslunnar og það er erfitt að standa að þessu öllu í einu á sama tíma og við erum að fara í miklar breytingar. Þetta veikir stjórnsýsluna og hún var veik fyrir. Maður veltir fyrir sér, eins og komið hefur fram hjá einstaka hv. þingmanni, hvort það sé vegna Evrópusambandsaðildarinnar sem menn eru hreinlega markvisst að veikja til að mynda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin sem í skýrslu Evrópusambandsins hefur þó verið bent á að séu allt of veik fyrir, sérstaklega landbúnaðarráðuneytið. Þetta er svolítið sérstakt. En ef við horfum á tímasetninguna bara út frá sjónarhóli starfsfólksins er einasta leiðin sem hægt er að ná upp sparnaði — og það kom m.a. fram í svari hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, hæstv. ráðherra nefndi ávinninginn hjá lögreglunni og það er fyrst og fremst vegna fækkunar yfirmanna lögreglu, þ.e. að fækka lögreglumönnum og síðan einstaka aðrir hlutir, en það er þó ekki nema einn þriðji af því sem menn ætluðu að ná fram í sparnaði og það er alveg óljóst hvernig á að ná öðrum sparnaði.

Svo virðist til að mynda vera, ef við hugsum okkur það eitt að sameina nokkur ráðuneyti í eitt, að það þurfi að segja upp ráðuneytisstjórum og skrifstofustjórum. Hvernig á á sama tíma að hvetja það fólk til að vinna extravinnu, m.a. að Evrópusambandsumsókninni sem hugsanlega fer á fullt eftir ákvörðun sambandsins á morgun, 17. júní af öllum dögum? Eins hangir í loftinu, ef við ræðum atvinnuvegaráðuneytin, þ.e. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eins og það heitir í dag, að það gæti þurft að fara í mikla vinnu varðandi nýjar umræður um WTO. Hvernig á að segja upp fólki og vekja óvissu um starfsöryggi þess og á sama tíma að hvetja það til að vinna extra við sífellt lægra kaup og erfiðari starfsskilyrði? Ég get ekki skilið hvernig þetta getur verið snjöll tímasetning, ég verð að segja alveg eins og er.

Síðan er kannski ein spurning: Hvernig á að standa að þessu? Auðvitað er alltaf hægt að deila um hvernig samráð eigi að vera, á hvaða tímapunkti það kemur inn og hvenær það er skynsamlegast, en ég hefði talið eðlilegast að menn hefðu lagt hér upp með betri og skynsamlegri eða dýpri þarfagreiningu sem hefði byggst á verkefnaflutningi. Ég tek undir það sem nokkrir þingmenn hafa nefnt hér og hefur verið skoðun mín lengi að það væri kannski skynsamlegra að hafa þessa hluti með ráðuneytin og Stjórnarráðið lausari þannig að hægt væri að breyta með einfaldari hætti en þá þarf greiningin að vera skýr og snúast fyrst og fremst um verkefnaflutning en ekki endilega pólitískar meiningar. Maður veltir fyrir sér hvort hæstv. ríkisstjórn sé hér með lista frá til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eins og stundum hefur verið nefnt, og verið sé að haka við það sem farið er inn samkvæmt kröfum hans.

Aðeins í sambandi við einstök ráðuneyti, ég hef nefnt fyrr í ræðu minni velferðarráðuneytið og ég tek undir það sem komið hefur fram hjá ýmsum ræðumönnum, eins og t.d. hæstv. fjármálaráðherra, að þar gæti verið nokkuð að spara. Við getum horft til þess að þar séu talsvert margir þættir sem snúa að samlegðaráhrifum og augljósum og ef við horfum bara 20 ár aftur í tímann var það einmitt með þeim hætti sem við höfðum þetta í landinu og þetta gæti verið skynsamlegt og mundi skila nokkrum árangri.

Eins má segja með innanríkisráðuneyti að það gæti verið skynsamleg ráðstöfun, það hefur reyndar verið mín skoðun lengi að það væri skynsamlegt að ná þessu öllu saman undir einn hatt. Ég tek undir það sem kemur fram í greinargerðinni um helstu rökin, þ.e. samþætting á sviði öryggismála og að stærra ráðuneyti væri færara um að hafa eftirlit með stórum og öflugum stofnunum og þær verði kannski einsleitari á landsvísu. Það sem maður verður hins vegar að varast og passa er að þjónustan verði ekki öll miðstýrð frá einum stað úr Reykjavík, þá verður sparnaðurinn hugsanlega fljótur að fara út vegna ferðakostnaðar og alls kyns annarra hluta, menn verða að kunna að deila út verkefnum og halda uppi uppbyggingu öflugra stjórnsýslumiðstöðva á ýmsum stöðum, sem reyndar er nefnt hér sem einn af þeim þáttum sem rök væru fyrir. Ég tek undir að þetta gæti verið skynsamlegt.

Þá kem ég að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það er auðvitað hin pólitíska yfirlýsing, sem m.a. hefur komið fram hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna sem hér hafa talað að sé þeirra hjartans mál, það má vel vera að það sé það og við gætum tekið þá umræðu. En ég velti því fyrir mér: Var það gert á grundvelli þarfagreiningar eða bara pólitískra markmiða? Er það gert á grundvelli skynsamlegra verkefnaflutninga þar sem samlegðaráhrifin eru eða er það bara pólitískur ávinningur?

Að lokum ætla ég að nefna í nokkrum orðum og kannski fjölmörgum það sem mér finnst vera galnast í þessu og það er atvinnuvegaráðuneytið. Ef menn hefðu farið í skynsamlega þarfagreiningu og velt fyrir sér hvaða verkefni liggja fyrir í slíku ráðuneyti og hvaða samlegðaráhrifum menn ætla að ná hefðu menn séð að það væru meiri rök fyrir því að hafa hér matvælaráðuneyti en atvinnuvegaráðuneyti. Eins og ég nefndi fyrr, ef við værum við að tala um þrjú, fjögur ráðuneyti, eins og á þriðja, fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, gætum við kannski haft eitt atvinnuvegaráðuneyti. En þegar við erum að tala um níu, og kannski væri nóg að hafa átta ráðuneyti og ráðherra alla vega, held ég að væri afar skynsamlegt að hafa hér matvælaráðuneyti og ég ætla að færa fyrir því nokkur rök. Við höfum fjallað um það á liðnum árum á fjölmörgum þingum þar sem við höfum verið að koma á fót mjög öflugri stofnun, Matvælastofnun, og að færa allt matvælaeftirlit í landinu undir eina stofnun. Það hefur verið gert m.a. á grundvelli Evrópusambandstilskipana, einna sex tilskipana, og þetta tókst á yfirstandandi þingi. Ég held að þarna höfum við kannski náð þeim samlegðaráhrifum í matvælabransanum sem menn hafa verið að leita eftir. Þess vegna er svolítið óskiljanlegt að mínu viti að sömu hugsunar skuli ekki gæta þegar menn fara að velta fyrir sér ráðuneytis- og stjórnarráðsskiptingunni.

Í því ljósi verðum við að minnast þess að við erum ekki eins og hvert annað meðalríki í Evrópu. Hér er sjávarútvegur alveg gríðarlega öflug atvinnugrein, sennilega er útflutningsmikilvægi hans aftur orðið um 40% þó að það hafi farið niður á árunum 2006 og 2007 og jafnvel 2008. Landbúnaðurinn er okkur gríðarlega mikilvægur líka, ekki síst hvað varðar fæðuöryggi og ákveðna öryggisstaðla sem tryggir það að við getum verið sjálfstæð þjóð ef eitthvað annað kæmi upp í heiminum sem við sjáum ekki fyrir. Í dag framleiðum við aðeins um 50% af þeim landbúnaðarvörum sem við neytum og það er algjört lágmark þess sem væri skynsamlegt. Ég tel að öflugt matvælaráðuneyti mundi geta komið þarna vel að verki annars vegar til að efla og styrkja sjávarútveginn, sem verður okkar helsta atvinnugrein um langan tíma vonandi, þó að auðvitað viljum við fá fleiri egg í körfuna og vera með fjölbreyttara atvinnulíf en við höfum haft um langt skeið, og eins að styrkja landbúnaðarhlutann.

Síðan eru ákveðin samlegðaráhrif. Ef við til að mynda færum ferðaþjónustuna undir matvælaráðuneytið vegna þess að ferðaþjónustan byggir auðvitað mjög mikið á íslensku hráefni og ef við tökum einstaka þætti ferðaþjónustunnar eins og „Beint frá býli“ eða slíka þætti eru það auðvitað augljós tengsl við matvælaframleiðsluna. Eins getum við líka velt fyrir okkur ýmsum sýningum aðila í ferðaþjónusturekstri, sérstaklega í landbúnaði eða úti um byggðir landsins, en það er einnig vaxandi áhugi á því í sjávarútveginum að koma að ferðaþjónustunni, sýna atvinnugreinina og ná slíkum tengslum og samlegðaráhrifum. Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða.

Ég heyrði á ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann tók undir það að skynsamlegt væri að skoða matvælaráðuneyti. Hv. þm. Atli Gíslason ítrekaði mikilvægi þess og kom inn á skoðanir Vinstri grænna, þriggja þingmanna sem höfðu bókað það í þingflokki Vinstri grænna. Þingmenn Samfylkingarinnar fyrir nokkrum árum, þar á meðal hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, tók undir slík mál, að það væri skynsamlegt að stofna matvælaráðuneyti þegar lögð var fram þingsályktunartillaga þess efnis fyrir nokkrum árum af einum af þáverandi þingmönnum eða varaþingmönnum Samfylkingarinnar og undir það tóku fleiri þingmenn þess flokks. Ég held að við séum í raun og veru að tala um eitthvað sem skiptir máli og við ættum að velta því fyrir okkur hvort þarfagreining, eðlilegt samráð á fyrsta stigi, hefði ekki leitt til þess að í frumvarpinu hefði staðið að hér skyldi vera matvælaráðuneyti í stað atvinnuvegaráðuneytis.

Síðan mætti velta fyrir sér hvort önnur verkefni til, að mynda eins og fjármál er snerta samninga eins og ívilnanir og slíka hluti við iðnfyrirtæki, ættu ekki frekar heima í fjármálaráðuneytinu, enda hefur það komið fram að iðnaðarráðuneytið er afar lítið og veikburða ráðuneyti í sjálfu sér og því ætti að vera auðvelt að skipta því upp í núverandi ráðuneyti og færa þau verkefni til annarra þátta. Ég held að við ættum að íhuga þetta.

Ég ætla að enda ræðu mína á því sem ég hóf hana á, að benda á að það er mjög merkilegt að hér skuli vera stjórnarfrumvarp á ferðinni þar sem stór hluti af þingmönnum annars stjórnarflokksins, þar á meðal einn ráðherra, skuli beinlínis leggjast gegn því og hafa lagt til að það kæmi ekki fram. Þetta er auðvitað merkilegt ástand sem við því miður upplifum hér aftur og aftur. Sumir halda því fram að þetta sé merki um nýja lýðræðistíma en það virðist vera að þetta sé kannski frekar merki um að ríkisstjórnin gangi afar óstyrk og ósamstiga til nánast allra verka.

Maður veltir fyrir sér hvort hin furðulega ákvörðun, tímasetning vil ég enn og aftur segja, að sækja um aðild að Evrópusambandinu á síðastliðnu sumri hafi valdið þeim trúnaðarbresti sem er á milli stjórnarflokkanna í mörgum málum. Ég held að sá efi og tortryggni sem ríkir orðið í samfélaginu í garð Evrópusambandsins, og kemur m.a. fram í því að um 60% landsmanna telja að draga eigi umsóknina til baka, geri það að verkum að menn fyllast nokkrum efasemdum um hvort þetta stjórnarráðsfrumvarp snúi m.a. að því að veikja stjórnsýsluna til að auðveldara sé að fara í aðlögunarferlið, því að eins og fram hefur komið, m.a. í umræðum um hvalveiðar og fleiri hluti, landbúnaðinn og sjávarútveginn, erum við að fara inn í aðlögun að evrópsku umhverfi en umsóknarferlið snýr að aðlögunarferlinu. Þetta er umhugsunarefni sem við þurfum að velta fyrir okkur. Ég vona svo sannarlega að í umfjöllun í nefndum taki menn þetta til alvarlegrar skoðunar og íhugunar, til að mynda hvort matvælaráðuneytið sé ekki miklu skynsamlegri leið á Íslandi við þær aðstæður sem við búum við því að við erum ekki eitthvert meðaliðnríki í miðri Evrópu.



[13:58]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að fagna sérstaklega því frumvarpi til laga sem hér er til umfjöllunar. Það stafar af því stórhugur og það er tímabært að stjórnsýslan sjálf, Stjórnarráðið, horfi inn á við þegar kemur að þeirri hagræðingarþörf sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir á næstu mánuðum og missirum. Stjórnarráðið getur ekki skorast þar undan.

Hér er vitaskuld um 1. umr. málsins að ræða og vænta má breytingartillagna milli umræðna og vonandi verða þær málefnalegar og uppbyggilegar. En, frú forseti, ég hef hlustað á margar ræður stjórnarandstöðuþingmanna og -kvenna og skil reyndar ekki alveg þær efasemdir sem hér eru settar fram af hálfu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem margir hverjir telja að þetta sé liður í því að smygla Íslandi inn í Evrópusambandið. Ég tel að svo sé aldeilis ekki, hér er í rauninni verið að styrkja Stjórnarráðið, auka sveigjanleika milli ráðuneyta og koma í veg fyrir þá miklu skörun sem er á verkefnum ráðuneyta nú þegar.

Það ber líka að horfa til þess sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa áður sagt í þessu efni. Sjálfstæðismenn hafa verið ólatir við að tala um „báknið burt“ og ungir framsóknarmenn hafa einmitt talað um þá forneskju sem tíðkast hefur í Stjórnarráði Íslands, nú síðast með samþykkt Sambands ungra framsóknarmanna frá árinu 2002 þar sem Stjórnarráðinu er lýst eins og það var þá. Með leyfi forseta, segir í samþykkt Sambands ungra framsóknarmanna frá 2002:

„Þessi skipan er barns síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerðir ríkisvaldsins til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinnar atvinnugreinar framar annarri.“

Þetta eru orð og samþykktir Sambands ungra framsóknarmanna frá árinu 2002 og get ég ekki annað en tekið fyllilega undir hvert orð í þessari samþykkt ungra framsóknarmanna sem í ljósi meðalaldurs þingmanna hafa margir hverjir skilað sér hingað inn á þing og hljóta enn að vera sammála sínum eigin orðum.

Frú forseti. Hvað erum við í reynd að gera hér? Við erum að reyna að hagræða í ríkisrekstri svo sem við þurfum. Við erum líka að auka á sveigjanleika í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu öllu. Þar ber vitaskuld að horfa til annarra landa sem hafa farið og eru að fara þennan veg. Ég nefni Norðurlöndin sem eru með giska sveigjanlegt kerfi í stjórnsýslu sinni og stjórnarráðum þar sem menn einfaldlega stofna til nýrra ráðuneyta eftir verkefnum eins og dæmin sanna. Við getum líka horft til annarra landa í kringum okkur svo sem eins og Hollands þar sem er verið að fækka úr 14 í 8 ráðuneyti og er það þó 14 milljóna manna þjóð og gott betur sem við könnumst vel við frá síðustu mánuðum af misjöfnu.

Það eru líka giska furðuleg skilaboð út til almennings, út til fólks sem enn hefur vinnu, út til allra sem horfa til verkefna næstu mánaða ef við ætlum ekki að byrja á toppnum í aðhaldi og eðlilegum niðurskurði á þeim tímum sem við búum við núna. Það væri beinlínis verið að misbjóða fólki úti í samfélaginu ef ráðuneytin sjálf horfðu ekki inn á við og hagræddu í sínum ranni. Þar er eðlilegt að byrja og fara svo niður á við en byrja ekki niðri í viðkvæmustu stéttunum og fara þaðan upp, í hagræðingaraðgerðum stjórnvalda sem nú eru fram undan og verða klárlega mjög erfiðar og viðkvæmar.

Stærsta hagræðing í ríkisrekstri er stofnun velferðarráðuneytis þar sem samþætting er gríðarleg og getur verið og skörun á milli stofnana hefur verið hvað mest. Þar hafa menn verið að horfa til verkefna sem sveitarfélögin hafa tekið að sér, svo sem eins og á Akureyri þar sem samþætting þessara verkefna hefur skilað sér í gríðarlegum árangri, sparnaði, hagræðingu og betri fagmennsku að því er menn telja. Við horfum hér líka til ráðuneytis innviða og öryggismála, svokallaðs innanríkisráðuneytis sem felur líka í sér mikla hagræðingu, að ég tali ekki um nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem verður eftir sameiningu sterkt ráðuneyti, sterkara ráðuneyti svo sem fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp þetta og er tíundað hér á nokkrum blaðsíðum. Það er ekki verið að veikja þetta ráðuneyti að mínu viti með sameiningu, það er ekki verið að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Það sem er verið að gera er að flytja 18 manns úr iðnaðarráðuneytinu, einu því minnsta, yfir í eitt sterkara atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og er tími til kominn að atvinnuvegirnir allir séu saman komnir í einu faglegu sterku ráðuneyti sem getur sótt fram til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.

Þá er til þess að taka að við þurfum líka að þróa þessi ráðuneyti áfram til þeirra verka sem blasa við á nýjum tímum og það er beinlínis, að mínu viti, krafa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að farið sé í þessar aðgerðir. Á bls. 3 í athugasemdum við lagafrumvarpið er einmitt vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Veikleika stofnanakerfisins gagnvart öflugum hagsmunum í atvinnulífinu má að nokkru leyti skýra með smæð þess og takmörkuðum mannafla.”

Hér er beinlínis verið að lýsa því yfir að ráðuneytin hafi ekki getað tekið með nægilegum þrótti á þeim verkefnum sem þeim hafi verið ætluð. Við erum að koma til móts við þessar kröfur sem eru eðlilegar miðað við þá erfiðleika sem hafa blasað við Íslendingum á síðustu mánuðum og missirum.

Að síðustu vil ég geta þess að við þurfum líka að hagræða faglega innan ráðuneytanna. Að mínu viti, og það má svo sem lesa úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hafa ráðuneytin verið samfélag vina og félaga í póstnúmerinu 101 Reykjavík og það hefur ekki loftað nægilega um þessi ráðuneyti þar sem menn hafa verið fastir á sínum stólum, fastir í sínum ranni.

Ég legg það til úr þessum ræðustóli að horft verði til þess að a.m.k. einu af þessum nýju ráðuneytum verði fundinn staður úti a landi. Ég nefni Akureyri sem dæmi. Og það er kannski til marks um umræðuhefðina um byggðamál á Íslandi að þegar ég hef nefnt þessa hugmynd um nýtt, stórt og sterkt atvinnuvegaráðuneyti úti á landi er fremur brosað að þeirri hugmynd en að hún sé tekin alvarlega og það er kannski til marks um þá stöðu sem byggðamál okkar Íslendinga eru í í dag að það þykir síður koma til greina að koma a.m.k. einu ráðuneyti upp úti á landi en að hafa þau öll á einum bletti í Reykjavík. Ég held að (Forseti hringir.) skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi kennt okkur að (Forseti hringir.) það þurfi að dreifa þessari stjórnsýslu betur um landið.

(Forseti (SII): Forseti vill biðja þingmenn að virða tímamörk.)



[14:07]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það sem hefur vakið athygli þeirra sem hafa hlustað á umræðuna og ég tala ekki um þeirra sem hafa lesið frumvarpið er að þetta eru fyrst og fremst slagorð. Þetta er varla frumvarp, þetta eru fyrst og fremst slagorð. Við höfum séð að hæstv. forsætisráðherra hefur litið svo á að það að hræra í stjórnkerfinu sé eitthvert sérstakt tæki til að ná í vinsældir og vegna þess að fólk er fljótt að gleyma ætla ég að fara aðeins yfir hvað hefur gerst á síðustu tveim, þrem árum í þeim efnum.

Árið 2009 hætti dóms- og kirkjumálaráðuneytið að heita dóms- og kirkjumálaráðuneyti og heitir dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Það er nokkurn veginn einsdæmi í heiminum, ég held að það sé í Lesótó sem eitthvert ráðuneyti heitir mannréttindaráðuneyti og allt í góðu með það. En núna árið 2010 ætla menn að breyta dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og sameina það samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og láta það heita innanríkisráðuneyti. Einhver kynni að spyrja: Af hverju var verið að breyta nafninu með tilheyrandi kostnaði ári áður en menn fara að breyta ráðuneytinu aftur? Er þetta ráðdeild og hagræði í ríkisrekstri? Eru þetta skilaboðin sem menn ætla að gefa hér til stofnana og almennings um það hvernig haga eigi ríkisfjármálum?

Árið 2007 varð samgönguráðuneytið að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti en núna 2010 á það að sameinast dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og verða innanríkisráðuneyti.

Árið 2007 var viðskiptaráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu skipt upp og tóku ráðherrar Samfylkingarinnar við þeim ráðuneytum. En 2009 var viðskiptaráðuneytið sameinað í efnahags- og viðskiptaráðuneyti og árið 2010 á iðnaðarráðuneytið að fara ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Árið 2007 var heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sérstaklega skipt upp í tíð Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Ein helstu rökin fyrir því voru þau að það væri mjög skynsamlegt að skilja þessa málaflokka að og mjög mikilvægt að um væri að ræða hreint heilbrigðisráðuneyti sem væri bara með heilbrigðismálin. Þetta var fyrir tveimur árum síðan. Núna á að sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið í velferðarráðuneyti, en árið 2007 tók félagsmálaráðuneytið við tryggingahluta heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og sveitarstjórnarmálin voru færð yfir í samgöngumálin.

Árið 2007 voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sameinuð en árið 2010 á að bæta við iðnaðarráðuneyti og búa til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Og loks núna árið 2010 ætla menn hvorki meira né minna en að bæta við nafn umhverfisráðuneytisins þannig að það heiti umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Hver nafnbreyting, svo við tökum bara nafnbreytinguna, kostar nokkrar milljónir. (PHB: Og lengir ræðutímann.) Já, og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að það lengi ræðutímann, menn þurfi að fara með lengri nöfn en áður og það kemur auðvitað niður á störfum þingsins en látum það liggja á milli hluta.

Hér eru menn búnir að vera að hræra í nöfnum ráðuneyta og verkefnum og ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um kostnaðinn bara við síðustu nafnbreytingarnar og það voru nokkrar milljónir. Það er hins vegar bara toppurinn á ísjakanum. Það er gríðarlegur kostnaður, vinnustundir og annað slíkt sem fer í að færa verkefni á milli ráðuneyta. Í ofanálag hafa menn ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu þannig að það fólk sem þarna starfar fékk alveg extra verkefni fyrir utan eina bankakreppu og gjörbreytta stöðu í ríkisfjármálum en látum það liggja á milli hluta.

Sjáum nú hvernig ríkisútgjöldin líta út ef framganga forsætisráðherra nær fram eða eigum við að segja ríkisstjórnarinnar, af því að ég sé hérna hv. þingmann VG, sem er held ég eini stuðningsmaður hæstv. forsætisráðherra í þingflokki VG, einn af sárafáum, en almenna reglan er sú að hv. þingmenn VG koma hér og mótmæla þessu hástöfum. Einn og einn sem hristir höfuðið, já, sleppum því. (ÁÞS: Það held ég nú að þú ættir að gera.) Hv. þingmaður talar kannski um málið á eftir og hjólar þá væntanlega í samflokksmenn sína í VG sem hafa fundið þessu máli af ástæðu allt til foráttu.

Ef við förum yfir hvernig ríkisútgjöldin skiptast ef þessi nýju ráðuneyti ná fram að ganga verður innanríkisráðuneytið með 13,5% af ríkisútgjöldunum, velferðarráðuneytið verður með 50%, virðulegi forseti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið verður með 5%, umhverfis- og auðlindaráðuneytið með 1,5%, forsætisráðuneytið með 0,75%, mennta- og menningarmálaráðuneytið með 13%, utanríkisráðuneytið með 2,6%, fjármálaráðuneytið með 12%, efnahags- og viðskiptaráðuneytið með 0,6%.

Virðulegi forseti. Eitt ráðuneyti verður með helminginn af ríkisútgjöldunum og rökin fyrir því eru ekki tíunduð hér. Hvernig ná á fram hagræðingu eða sparnaði þar er ekki tíundað í þessu frumvarpi eða í fylgigögnum með því. Það hefur hins vegar komið fram í umræðunni og hæstv. ráðherra farið yfir það að hér séu alveg gríðarlegir hagræðingarmöguleikar. Við hljótum, virðulegi forseti, að kalla eftir því í hv. heilbrigðisnefnd að fundað verði um það og fyrirætlanir hæstv. forsætisráðherra um sparnað við sameiningu þessara tveggja ráðuneyta útskýrðar. Hæstv. forsætisráðherra kom hér og sagði að þetta væri allt uppi á borðinu, það væri enginn feluleikur í þessu. Við hljótum að kalla eftir því og ég mun fara fram á það að hv. heilbrigðisnefnd komi saman og ræði sérstaklega hugmyndirnar um að ná fram sparnaði í þessum tveimur ráðuneytum við sameiningu þeirra. Það kemur nefnilega ekki fram í gögnunum, virðulegi forseti, það kemur þvert á móti fram í gögnum frumvarpsins að menn hafa ekki reiknað út neinn sparnað, ekki nokkurn, og ekki heldur kostnaðinn í kringum þetta, það kemur skýrt fram. Talað er um að það séu gríðarleg tækifæri í húsnæði. Nú er það svo að flest ráðuneytin eru annaðhvort í húsnæði í eigu ríkisins eða með húsnæði í langtímaleigu þannig að menn hlaupa ekkert út úr því á nokkrum mínútum, klukkustundum eða mánuðum.

Það liggur fyrir að ekki á að segja neinum manni upp í tengslum við þessar breytingar, allir yfirmenn sem missa stöður sínar fá boð um önnur störf sem sérfræðingar. Hins vegar er gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að þeir verði svo margir sem hafna því að biðlaunakostnaðurinn verði 200 millj. kr. Síðan vísa menn viðstöðulaust í einhvern vinnuhóp sem pólitískir gæðingar hæstv. forsætisráðherra unnu í, sem heitir viðbragðshópur vegna þeirra vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis fór í, og alla vega miðað við það sem kemur fram í greinargerðinni er fyrst og fremst talað um að það þurfi að stækka ráðuneytin, það sé lausnin.

Virðulegi forseti. Þetta gengur eðli málsins samkvæmt ekki upp. Og það er auðvitað kómískt að menn séu að veifa því hér að þetta snúist um hagræðingu og sparnað. Núverandi ríkisstjórn stoppaði það sérstaklega að sameina stofnanir þrátt fyrir að reiknað hafi verið út að það þýddi gríðarlegan sparnað. Sama ríkisstjórn er búin að koma í veg fyrir verkaskiptingu á milli stofnana þó svo að reiknað hafi verið út að bara á einu svæði á landinu sparaði það rúmlega milljarð, ég held að það hafi verið 1,4 milljarðar á ári. Og sama ríkisstjórn stoppaði það en þykist núna ætla að koma fram með frumvarp sem eigi að leiða til hagræðingar og sparnaðar en sýnir hvergi fram á það. Það litla sem maður getur lesið út úr fjárlagakaflanum í þessu frumvarpi er útgjöld. Síðan er tekið fram að það eigi eftir að skoða þetta allt saman. Hvernig dettur mönnum í hug, virðulegi forseti, að leggja fram frumvarp sem á að leiða af sér hagræðingu og sparnað og upplýsa svo blygðunarlaust að það sé ekkert búið að skoða þetta? Ekki neitt. Það er bara talað um gríðarleg tækifæri, sérstaklega í velferðarmálunum, virðulegi forseti. Menn hljóta að kalla eftir þeim upplýsingum.

Og rökin um skörun milli ráðuneyta, við leysum skörunina ekki með þessu. Halda menn virkilega að það sé ekki skörun á milli heilbrigðisráðuneytisins núna og mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og í forvarnamálum? Það er meira að segja skörun þegar kemur að heilbrigðismálum á milli heilbrigðisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Það er skörun alls staðar og þetta snýst svo um hvernig mönnum gengur að vinna saman því að í ríkisstjórn, eins og annars staðar, þurfa ráðherrar að vinna saman.

Núverandi ríkisstjórn fór að vísu þá leið að taka ákveðinn hluta heilbrigðismálanna, þ.e. hjúkrunarheimilin, og dreifa honum á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins af því að þar var um mikil hrossakaup að ræða á milli hæstv. ráðherra. Þetta leysir það ekki. Ef menn eru þannig innstilltir að fara út í hrossakaup með hjúkrunarheimili munu þeir fara út í hrossakaup með eitthvað annað ef þeir bera ekki meiri virðingu fyrir málaflokknum en svo. (PHB: Allt opið.) Þetta er opinn tékki á alls kyns æfingar.

Virðulegi forseti. Það fylgja engin rök þessu frumvarpi, það hafa engin rök komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra en sagt er að það séu gríðarleg sóknartækifæri í velferðarmálunum, sparnaður og hagræði. Við hljótum að kalla eftir rökum.

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það að hv. heilbrigðisnefnd komi saman og ræði þessar tillögur hæstv. forsætisráðherra. Þær hljóta að liggja einhvers staðar. Það er útilokað að hæstv. forsætisráðherra komi hér og tali bara eitthvað út í loftið með þetta. Ég meina, trúir því einhver? Öll umræðan um að við þurfum að vinna betur faglega og undirbúa hlutina betur, halda menn að það sé ekki alveg pottþétt að hæstv. forsætisráðherra sé með eitthvað niðurnjörvað, vel ígrundað, skoðað? Það getur bara ekki annað verið. Við hljótum að kalla eftir því á vettvangi hv. heilbrigðisnefndar að fá öll þessi gríðarlega mörgu tækifæri.

Í þessu plaggi hljóta menn í besta falli að hafa verið að gantast, því að hér er talað um hluti eins og samþættingu velferðarúrræða, t.d. heimahjúkrun og heimaþjónustu. Það er búið að gera það, virðulegi forseti, það næst ekkert fram með breytingu á Stjórnarráðinu, það er búið að gera það og það hefur ekkert með ríkið að gera. Þetta snýst um það að heimahjúkrun er í heilbrigðisráðuneytinu en heimaþjónustan hjá sveitarfélögunum. Ég gekk í það sjálfur að sameina þennan stóra þátt á höfuðborgarsvæðinu sem var hvað erfiðast, það er auðveldara að gera þetta úti á landi. Þetta hefur ekkert með stjórnkerfið að gera, ekki neitt. Sá sem skrifaði þetta er bara ekkert inni í málunum, veit ekki að þetta er búið og veit augljóslega ekki að heimaþjónustan er hjá sveitarfélögunum en ekki í einhverju öðru ráðuneyti en heilbrigðisráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Það hlýtur bara eitthvað að vera hérna sem enginn segir frá. Við skulum ekki ætla það að leyndarhyggjan sé slík hjá hæstv. ríkisstjórn að hún vilji ekki upplýsa þingmenn um hvað menn ætla sér hvað þetta varðar. Hér á ekki að ræða þessa hluti að neinu marki, ef ég skil samkomulagið rétt. Við hljótum því og munum kalla eftir fundi í hv. heilbrigðisnefnd þar sem við förum yfir væntanlega vel ígrundaðar, rökstuddar og faglega unnar hugmyndir hæstv. forsætisráðherra um gríðarlegan sparnað og hagræðingu í velferðarmálum í kjölfar þess að þessi ráðuneyti verða sameinuð.



[14:20]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vísa til ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hér áðan og þeirrar bókunar sem hann las þar upp. Ég vil hér leggja áherslu á og ítreka hversu mikilvægt það er að vanda allar breytingar sem gerðar eru á stofnunum og stjórnsýslu ríkisins. Þetta á ekki hvað síst við um breytingar á ráðuneytum og reyndar er skilyrði að um slíkar breytingar ríki almenn sátt og samstaða og að þær séu unnar á þeim grunni.

Áform um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í sinni mynd og sameina öðru í eitt atvinnuvegaráðuneyti verður því að vera vel rökstutt og um það almenn samstaða. Hvorugu þessara skilyrða virðist fullnægt um þessar mundir.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin voru sameinuð í eitt ráðuneyti fyrir tveimur árum. Jafnframt áttu sér stað mjög veigamiklir flutningar á verkefnum, Landgræðslan, Skógrækt ríkisins og landbúnaðarskólarnir fluttust frá þessum ráðuneytum en í staðinn komu matvælamálin inn. Þessari sameiningu er í sjálfu sér ekki enn lokið, margt er óunnið og því hefur engin greining farið fram á því hvort t.d. hagræðing hafi hlotist af. Allar tölur um slíkt eru því hugarburður en ljóst er að stofnkostnaður sem hlaust af þessum umskiptum skipti hundruðum milljóna króna.

Eins og áður sagði er þessi sameining í sjálfu sér ekki gengin yfir en mikið álag er á ráðuneytinu og starfsmönnum stofnana þess vegna mikilvægis þessarar atvinnugreinar fyrir endurreisn efnahagslífsins. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu lagðist einnig mjög þungt á atvinnugreinarnar sem, eins og öllum er kunnugt, þurfa að taka á sig mestar fórnir í því ferli. Andstaðan við aðild er hvað sterkust hjá þessum atvinnugreinum og íbúum á landsbyggðinni en hún er auðvitað mikil hjá þjóðinni allri. Margir líta á aðgerðirnar varðandi ráðuneytin sem niðurlagningu á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og flutning stoðkerfa sem hluta af atlögu gegn landsbyggðinni. Fjöldi ályktana sem berast ber þess skýr merki og tortryggni gætir víða gagnvart þessum áformum.

Sjávarútvegurinn er hornsteinn íslensks atvinnulífs og meginuppspretta útflutningstekna okkar og ímyndar. Áform um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, þótt ekki væri nema bara heiti þeirra, eru að mínu mati bein aðför að þeirri ímynd. Danir sem stofnuðu matvælaráðuneytið eru nú auðvitað búnir að breyta því aftur og nú heitir það matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.

Ég hef tekið mark á þessum afdráttarlausu yfirlýsingum frá landsbyggðinni, félögum mínum í grasrótinni og frá samtökum atvinnugreinanna sem heyra undir þau verkefni sem ráðuneytið er með. Ég hef gagnrýnt vinnubrögð í málinu en mér finnst þau vera unnin ofan frá en ekki neðan frá. Ég hef ekki tekið afstöðu til breytinga á öðrum ráðuneytum enda ekki sett mig efnislega inn í þær en eins og málið liggur nú fyrir hef ég gert grein fyrir því að ég er andsnúinn því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eins og áformin um það eru kynnt í frumvarpinu.

Þó að málið verði nú lagt fram verður það alfarið í meðförum þingsins og á ábyrgð þess og minn skilningur er sá að ekki verði ráðist í neinar breytingar á ráðuneyti eða stofnunum þess eða undirbúning fyrir þær fyrr en lög um það hafa verið samþykkt á Alþingi þannig að það sé á lagalegum grunni unnið.



[14:25]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur verið fjallað bæði um form og efni þessa frumvarps og með formi er ég að vísa til bæði undirbúnings, aðdraganda, sem og forms frumvarpsins sjálfs. Varðandi efnið vil ég taka undir það sem áður hefur komið fram frá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins að við útilokum að sjálfsögðu ekki að gerðar verði breytingar á skipan ráðuneyta í landinu. Við tókum þátt í því fyrir þremur árum tæpum að gera ákveðnar breytingar og í þeirri umræðu sem þá átti sér stað kom fram að við teldum að það gæti komið til greina að gera frekari breytingar.

Varðandi efnisatriðin að öðru leyti ætla ég að láta mér nægja að segja að þetta frumvarp er óskýrt í allri framsetningu. Það hefur í rauninni ekki að geyma neina útfærslu á því sem kalla má efnisatriði málsins og þess vegna er erfitt á þessu stigi að fjalla svo nokkru nemur um efnið að öðru leyti en því sem sjá má í greinargerð, en þar er fyrst og fremst um að ræða almennt orðaðar yfirlýsingar en fáar tillögur sem hönd á festir. Það setur okkur þingmenn því í ákveðinn vanda að ræða þetta mál hér við 1. umr. hve margar eyður eru í málinu þegar þetta frumvarp er lagt hér fram. Það er stundum talað um eyðuákvæði í lögum en það má eiginlega segja að þetta frumvarp sé eitt stórt eyðufrumvarp eins og það er orðað.

Ég ætla í þessari stuttu ræðu að víkja aðeins að forminu því að það skiptir líka máli í þessu sambandi vegna tengsla við efnið að framsetningin og formið eru með þeim hætti að það er ekki svo auðvelt að átta sig á hinu raunverulega efnisinnihaldi.

Við tvær síðustu breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, annars vegar á haustþingi 2007 og hins vegar á sumarþingi í fyrra, 2009, sem voru talsvert umdeildar breytingar, voru lögð fram frumvörp sem fólu í sér miklu skýrari útfærslu á þeim hugmyndum sem lágu til grundvallar en hér er að finna. Það var ekki látið nægja að tiltaka breytingar á heitum ráðuneyta heldur voru lagðar fram tillögur, ákvæði, sem fólu í sér breytingar á ákvæðum annarra laga sem haldast í hendur við breytta skipan ráðuneytanna. Það gaf þingmönnum kost á því að sjá hvað var í pakkanum. Með því voru komnar af hálfu þáverandi hæstv. ríkisstjórna tillögur um það hvað fólst í pakkanum. Það er ekki fyrir hendi í dag með sama hætti. Almenn orð í greinargerð hafa ekki sömu merkingu og formlegar tillögur sem lagðar eru fram sem greinar í frumvarpstexta, það er allt annað mál.

Þetta skiptir máli vegna þess að þegar við hér á þingi erum að fjalla um mál og taka afstöðu til þess skiptir máli að menn átti sig á því hvað tillöguflytjendur eru að fara með framlagningu frumvarpsins. Þessar stóru eyður leiða hugann að því hvers vegna þetta frumvarp kemur fram á þessum tímapunkti. Af hverju gátu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn ekki beðið með að leggja þetta frumvarp fram þangað til það var tilbúið, þangað til búið var að vinna þá undirbúningsvinnu sem öllum má vera ljóst að á hreinlega eftir að fara fram áður en málið er fullmótað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?

Þá kunna menn að segja: Ja, er það ekki þingið sem er löggjafinn? Er það ekki þingið sem á að taka afstöðu til mála? Jú, það er rétt, þingið á að taka afstöðu til mála sem lögð eru fram á þingi. Ef hæstv. forsætisráðherra eða aðrir hæstv. ráðherrar eða hæstv. ríkisstjórn telja ástæðu til að leggja fram frumvörp er lágmarkskrafa að lagðar séu fram einhverjar skýrar tillögur. Þingið getur síðan tekið afstöðu til þeirra. Af þessari ástæðu finnst mér þetta frumvarp koma í mjög einkennilegum búningi.

Ég vísa til þess og bið hv. þingmenn, sérstaklega í ljósi umræðu sem átti sér stað snemma í umræðunni í andsvörum, að skoða frumvörpin frá 2007 sem ég átti þátt í að samþykkja, og síðan frumvarpið frá 2009 sem ég var talsvert á móti. Bæði fólu þau í sér miklu skýrari útfærslu á þeim tillögum sem lagðar voru fram af hálfu þáverandi hæstv. ríkisstjórna og í báðum tilvikum áttu þingmenn miklu auðveldara með að átta sig á því hvað var í pakkanum. Þetta er atriði sem ég vildi nefna á þessu stigi.

Í annan stað er auðvitað rétt, svo maður víki orðum að undirbúningnum, að undirbúningurinn virðist ekki hafa verið með þeim hætti sem ætlast má til varðandi mál af þessu tagi. Ég heyrði prýðilega ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hér áðan þar sem hann vísaði m.a. í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út 2007. Þess má geta að hv. þm. Atli Gíslason er samkvæmur sjálfum sér því að hann var, einkum þegar hann var í stjórnarandstöðu, mjög duglegur að benda mönnum á það, ráðherrum og stjórnarþingmönnum, ef honum þótti vikið frá leiðbeiningunum sem í handbókinni má finna í einhverjum efnum, og hann gerir það líka núna og ekki að ástæðulausu. Ég hef stundum velt því fyrir mér þegar ég hef skoðað stjórnarfrumvörp í þinginu núna á síðustu mánuðum og ekki síst á síðustu vikum hvort það sé einhver ákvörðun af hálfu ríkisstjórnar Íslands að hafa þessa handbók, sem unnin var af forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis í sameiningu, að engu, hvort hún er einskis virði eða einskis metin í dag. Það er önnur saga.

Undirbúningnum tengist líka samráð eða skortur á samráði. Það er eitt af þeim atriðum sem eru tiltekin í þessari ágætu handbók en það er góð regla við undirbúning lagafrumvarpa endranær að hafa samráð við þá aðila sem málið varðar, hvort sem um er að ræða skipulögð hagsmunasamtök, starfsmenn eða fulltrúa þeirra stofnana sem undir heyra o.s.frv. En af frumvarpinu sjálfu og greinargerðinni með því verður ekki ráðið að um slíkt samráð hafi verið að ræða og ég gat ekki heyrt á máli hæstv. forsætisráðherra hér áðan eða hæstv. fjármálaráðherra að þetta samráð hefði átt sér stað. Einungis var sagt að nú væri málið komið til þingsins og það væri þá kominn rétti tíminn til þess að eiga þetta samráð. Það er sjónarmið en það er í ákveðnu ósamræmi við það sem áður hefur verið sagt af hálfu þessarar ríkisstjórnar, bara svo dæmi sé tekið í sambandi við samráð.

Ég minni á að þegar breytingarnar fóru í gegn hér í fyrrasumar, 2009, var að nokkru leyti sama gagnrýni uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ekki hefði verið samráð í aðdraganda málsins. Þá var meira samráði heitið í greinargerð með frumvarpi og í ræðum sem fluttar voru, m.a. ræðum hæstv. forsætisráðherra og í nefndaráliti þáverandi meiri hlutans í allsherjarnefnd, bara svo ég vitni beint í greinargerðina sem fylgdi frumvarpinu 2009. Verið var að fjalla almennt um breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnkerfisbreytingar, þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þær breytingar sem fram undan eru mun jafnframt verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila.“

Ekkert kemur fram um að slíkt samráð hafi átt sér stað. Þetta var í fyrra, þá var lofað samráði líka, það var lofað samráði þá, ítrekað í þingræðum, ítrekað í nefndarálitum. Þetta samráð virðist þó ekkert hafa átt sér stað. En nú þegar kemur nýtt frumvarp er aftur sagt: Ja, nú skulum við hafa samráð út af þessum breytingum.

Þetta er ekki mjög trúverðugt, hæstv. forseti, það er það ekki. Það gerir það auðvitað að verkum að maður hefur fyrirvara á þessu máli þegar það kemur hér fram, mikla fyrirvara.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri að þessu sinni, hæstv. forseti. Ég vildi bara árétta það sem kom fram í máli og svörum hv. þm. Bjarna Benediktssonar við upphaf umræðunnar vegna orða hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar áðan þar sem hann vísaði í tiltekin orð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að flutningur frumvarpsins væri viðbrögð við því.

Það er lykilatriði að það var Alþingi sem ákvað að setja á fót þessa rannsóknarnefnd og það var Alþingi sem ákvað að bregðast við skýrslu þessarar rannsóknarnefndar með því að setja á fót sérstaka þingmannanefnd til þess að meta viðbrögð þingsins, m.a. hvað varðar lagabreytingar, stjórnkerfisbreytingar og fleira þess háttar því að stjórnkerfismálin eru auðvitað að miklu leyti bundin í lög. Undir það hljóta þessi mál að heyra sem tengjast skipan ráðuneytanna. Þessi mál eru í höndum þingmannanefndarinnar og því má kalla það nokkurt bráðlæti af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar að fara með málið af stað á þessum forsendum núna án þess að gefa sér mikinn tíma eins og t.d. með því að bíða fram í september til þess að sjá að hvaða niðurstöðu hin ágæta þingmannanefnd kann að komast í þessum mikilvægu atriðum.



[14:38]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni ætla ég einna helst að bregðast við ræðum þeirra sem hafa farið upp í stólinn á undan mér. Það er alltaf ánægjulegt og skemmtilegt þegar þingmenn í öðrum flokkum hafa fyrir því að lesa stefnu Framsóknarflokksins. Mér hefur hins vegar alltaf fundist hálfeinkennilegt og fyndið þegar þeir fara síðan að túlka eða segja mér sem framsóknarmanni hvað við framsóknarmenn eigum við varðandi stefnu okkar.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom upp í ræðustól og vitnaði í ákveðnar ályktanir frá Sambandi ungra framsóknarmanna frá árinu 2002. Hann gerði ráð fyrir að við hefðum öll verið í flokknum frá því að við fæddumst en það skal viðurkennast að sú sem hér stendur gekk ekki í flokkinn fyrr en um áramótin 2002/2003 þannig að ég kom ekki að vinnslu þessarar stefnu. Svo virðist vera að hv. þingmaður hafi ekki flett alveg nógu langt fram í tímann því ég sat aftur á móti í nefnd sem kölluð var stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins og við skiluðum af okkur tillögum og drögum að lagafrumvarpi varðandi breytingar á Stjórnarráðinu árið 2007, þannig að það er aðeins styttra síðan það var. Ég viðurkenni að ég kannast enn þá ágætlega við krógann og ætla að fara í gegnum þær tillögur sem komu fram í skýrslunni.

Meginatriðin í tillögu nefndarinnar eru að við teljum að ríkisstjórnin — við viljum jafnvel ganga enn þá lengra en er gert í þessu frumvarpi — eigi sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn. Í staðinn fyrir að vera í tæknilegum úrlausnarmálum, eins og þetta frumvarp virðist fyrst og fremst snúast um — þar er verið að endurnefna frumvörp og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að þetta hefði verið stundað töluvert frá árinu 2007 — vildum við skipta Stjórnarráðinu í ákveðnar einingar sem miðuðust við skrifstofurnar undir ráðuneytunum. Við vildum horfa á Stjórnarráðið sem ákveðið verkefni og fórum í mikla vinnu við að greina þessar skrifstofur. Við töldum að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að skipta grunneiningum Stjórnarráðsins upp í um 60 skrifstofur.

Tillögur okkur voru að mál sem eðli málsins samkvæmt heyra saman féllu undir sömu skrifstofu og það væri hægt að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta en framkvæmdarvaldið færi fyrst og fremst með það sjálft. Síðan lögðum við til að samsetning, fjöldi og heiti væru ekki bundin í lög heldur ættu raunar forsætisráðherra og ríkisstjórnin sjálf að geta ákveðið það. Forsenda fyrir þessu væri þó að mál sem stangast á heyrðu ekki undir sama ráðherra. Dæmi um þetta, sem var töluvert rætt í nefndinni, var Hafrannsóknastofnun en við töldum líka að það væru ákveðnir örðugleikar varðandi heilbrigðisráðuneytið sem bæði veitti þjónustu og keypti hana, að það stangaðist á. Varðandi sjávarútvegsráðuneytið töldum við — við horfðum á einingarnar og stofnanir þar undir — að þar sem sjávarútvegsráðherra er falið að ákvarða heildarmagn af aflaheimildum væri í hæsta máta óeðlilegt að þar undir væri líka sú stofnun sem á að stunda umhverfisrannsóknir og leggur til ákveðnar tillögur um hvað sé veitt og hvað samrýmist stofnstærðinni. Ýmsir innan hópsins töldu að hægt væri að færa Hafrannsóknastofnun undir umhverfisráðherra. Forsætisráðherra ætti alla jafna ekki að fara með önnur mál en æðstu yfirstjórn og ég held að það sé komin nokkuð mikil sátt um það milli allra stjórnmálaflokka.

Við töldum líka í ljósi ákveðinnar reynslu sem við upplifðum sem flokkur að það ætti að vera hægt að skipa aðstoðarráðherra. Sérstaklega væri mikilvægt að það væri hægt að skipa aðstoðarutanríkisráðherra í ljósi þess að utanríkisráðherra er oft mjög mikið erlendis. Það hefði skapast ákveðin hefð fyrir því að formenn stjórnarflokka skiptu með sér annars vegar forsætisráðuneytinu og hins vegar utanríkisráðuneytinu og það gerði að verkum að mjög erfitt væri fyrir formann flokks að vera bæði utanríkisráðherra og á sama tíma formaður stjórnmálaflokks, eins og ég held að Samfylkingin hafi fengið að upplifa eins og við.

Við ítrekuðum líka í niðurstöðum nefndarinnar að það væri mjög mikilvægt að ráðherrar sætu ekki á þingi meðan þeir gegna ráðherraembætti, þannig að það væri klippt enn frekar þar á milli. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur flutt þessa tillögu nokkrum sinnum og ég hef verið meðflutningsmaður með henni alla vega á tveimur þingum. Til að okkar tillaga geti gengið eftir er gert ráð fyrir breytingum á stjórnarskrá en núna hefur komið fram tillaga frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um að hugsanlega væri hægt að breyta þingsköpum. Að mínu mati er alger forsenda fyrir því að hægt væri að samþykkja slíkt að því væri lofað að lagt yrði til við stjórnlagaþingið að þeir legðu áherslu á að ráðherrar færu af þingi og það yrði sett í stjórnarskrá.

Þeir kostir sem við sáum við þessar breytingar eru að horft yrði á grunneiningarnar og ekki væri verið að róta í verkefnunum sjálfum heldur héldust þau alltaf í sömu einingu og þar með væri ekki dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt, og það kemur einmitt fram í skýrslu Gunnars Helga Kristinssonar og hóps hans sem fór sérstaklega í gegnum athugasemdina um stjórnsýsluna í framhaldi af rannsóknarnefndarskýrslunni, að styrkja pólitíska forustu í Stjórnarráðinu. Við höfum náð þeim áhugaverða og að mínu mati ótrúlega — það er svo sem ekkert til að monta sig af — áfanga að vera bæði með veika pólitíska stjórnsýslu og veika faglega stjórnsýslu. Maður hefði haldið að það ætti að vera annaðhvort eða en við höfum náð þeim merka áfanga að takast að búa til hvort tveggja í íslensku stjórnsýslunni.

Við lögðum síðan fram frumvarp, tillögu að drögum að breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, og bentum á að það hefðu raunar mjög litlar breytingar orðið á þessu frumvarpi frá því að það var fyrst skrifað fyrir rúmum 40 árum. Eitt sem ég vil nefna sérstaklega er að við töldum að það ætti að vera hægt að skipa ráðherra utan ráðuneytis. Mig minnir að það sé þannig í Danmörku og ég held jafnvel í Svíþjóð líka. Þeir hafa að vísu kannski verið með aðstoðarráðherra. En ástæðan fyrir þessu er að það geta komið upp ákveðin málefni þar sem mikilvægt er að samræma aðgerðir tveggja, þriggja eða fjögurra ráðuneyta. Þá er einhver fenginn í ákveðið átaksverkefni, sérverkefni, og ráðinn tímabundið — þá væntanlega án auglýsingar — til að vera ráðherra án ráðuneytis og sinna því verkefni. Þegar því er lokið hættir viðkomandi sem ráðherra. Enn í dag, þremur árum síðar, eru þetta mjög róttækar hugmyndir. Ég geri athugasemdir við þetta frumvarp sem fram er komið, fyrst og fremst af því að mér finnst það ekki ganga nógu langt. Mér finnst vinstri flokkarnir því miður ekki vera nógu róttækir. Það er mat fyrrverandi ungs framsóknarmanns.

Ég vil líka taka fram að ég hef að meginhluta til ekki athugasemdir við breytingarnar á ráðuneytunum, verkskipulaginu, nema hvað varðar hugmyndir um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Í nefndinni talaði ég mikið um að skoða hvernig þetta hefði verið gert í Danmörku, að búa til sérstakt matvælaráðuneyti. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef lengi barist fyrir því, sérstaklega innan sjávarútvegsins, að menn tali um sig sem matvælaframleiðendur. Við höfum allt of mikið einblínt á að vera hráefnisframleiðendur en ekki gert okkur nógu vel grein fyrir því að sjávarútvegur og landbúnaður framleiða matvæli fyrir fólk og dýr. Ég tel að vel væri hægt að stofna níu ráðuneyti, eins og lagt er til hér, og eitt af þeim yrði þá matvælaráðuneyti sem færi með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, sem og hollustuvernd. Ákveðnir þættir sem eru undir Umhverfisstofnun núna færu undir þetta ráðuneyti en umhverfis- og auðlindaráðuneytið fengi í staðinn Hafrannsóknastofnun sem fer með rannsóknir og okkar stærstu auðlind sem er sjávarútvegurinn.

Ég tel líka mjög mikilvægt að farið verði í þessar breytingar á innanríkisráðuneytinu og mér finnst það mjög spennandi. Í nótt, um tvöleytið held ég, fórum við eins og „Speedy Gonzales“ í gegnum breytingar á varnarmálalögunum. Þar talaði ég sérstaklega fyrir því að beðið yrði með að fara í þessar tæknilegu breytingar, að leggja niður Varnarmálastofnun, þar til búið væri að stofna ráðuneyti sem tæki við málaflokknum varnar- og öryggismál. Ég veit að menn hafa séð fyrir sér að málaflokkurinn fari undir innanríkisráðuneytið en ég benti líka á að það væri áhugavert í ljósi þess sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum að þessi málaflokkur færi undir forsætisráðuneytið. Það er reyndar ekki alveg í anda þess sem ég lagði til á sínum tíma um að forsætisráðuneytið færi fyrst og fremst með yfirstjórn annarra ráðuneyta.

Síðan ætla ég líka aðeins að fá að bregðast við því sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um í andsvörum við hv. þm. Bjarna Benediktsson en það var þessi eilífðarspurning um hvað sé samráð og hvað sé samvinna. Mig langar til að vitna í erindi eftir Gunnar Helga Kristinsson, sem er að mörgu leyti uppáhaldsfræðimaðurinn minn sem ég vitna í. Hann hefur lengi stúderað íslenska stjórnkerfið og komið fram með mjög áhugaverðar pælingar þótt ég sé ekki alltaf endilega sammála honum. (Gripið fram í.) Hann bendir á að það þurfi að skilgreina samráð og vill skilgreina þrjár tegundir af samráði. Það er í fyrsta lagi samráð sem er í rauninni aðallega kynning. Síðan er samráð sem hann vill kalla samstarf. Í staðinn fyrir að leggja fram fyrir fram mótaðar lausnir hafa þeir sem menn ætla sér að eiga samráð við raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif á mikilvæg atriði. Þriðja tegund samráðs er raunar það víðtækasta og í því felst valdaafsal á afmörkuðu sviði. Við í stjórn og stjórnarandstöðu tuðum mikið fram og til baka um skilgreiningu á því hvað þetta blessaða samráð og samvinna er innan þingsins og ég held að ég geti sagt að þetta mál flokkist undir samráð af þeirri tegund sem telst kynning. Það er búið að kynna málið fyrir okkur og það er mikil pressa á að klára það en þetta er alls ekki samstarf og þaðan af síður valdaafsal. Ég ætla ekki að vera svo bjartsýn að fara fram á að stjórnarflokkarnir fari í einhvers konar valdaafsal gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni en það væri hins vegar ágætt að reyna að fara í samstarf, þannig að við höfum aðeins meira um það að segja áður en málið er kýlt inn í þingið og síðan dregið út úr nefndum, stundum með gráti og gnístran tanna.



[14:51]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að nú stendur loks til að fara að gömlu baráttumáli Vinstri grænna og raunar sjónarmiðum sem eru eldri á vinstri vængnum en tilvist þess flokks. Þar er um að ræða styrkingu og eflingu umhverfisráðuneytisins.

Í ágætu riti sem heitir Græn framtíð er m.a. fjallað um stjórnsýslu umhverfismála og segir þar, með leyfi forseta:

„Úrelt skipan mála innan Stjórnarráðsins má ekki lengur standa í vegi fyrir nauðsynlegum áherslubreytingum hvað snertir fjármagn og tilfærslu verkefna milli ráðuneyta. Jafnhliða mikilli eflingu umhverfisráðuneytisins þarf að huga að tilfærslu verkefna milli annarra ráðuneyta og hugsanlegri fækkun þeirra, meðal annars með uppbyggingu eins atvinnuvegaráðuneytis.“

Fyrr í þessum kafla kemur fram að mikilvægt sé að auðlindamálin verði samhliða umhverfismálunum í stjórnsýslunni. En af hverju er það? Í raun og veru er um að ræða afar mikilvæga kerfisbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Það er nefnilega grundvallarþáttur í velferð þjóðarinnar til lengri framtíðar að rannsóknir á auðlindunum og ráðgjöf um nýtingu þeirra séu í ákveðnu skjóli frá nýtingarsjónarmiðum. Þannig eru áformin um umhverfis- og auðlindaráðuneyti ekki aðeins spurning um hagræðingu, heldur ekki síður ákveðin framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir Ísland.

Það er, frú forseti, afar mikilvægt að ræða þetta mál sem við erum að fjalla um út frá málefnalegum forsendum en ekki í yfirlýsinga- og kreddustíl sem tengir hvaðeina við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er afar mikilvægt að umræðan sé upplýst, ekki síst vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem hvílir á þinginu við úrvinnslu þessa frumvarps. Úrvinnslan verður að vera í þágu þeirra markmiða sem við setjum okkur. Þar er um að ræða fjárhagsleg markmið, hagræðingarmarkmið, sem hér hafa verið rædd allnokkuð. Við höfum líka rætt stjórnsýsluleg markmið og þar má m.a. nefna þá staðreynd að Stjórnarráðið verður öflugra þar sem samlegðaráhrif verða mikil og styrkari einingar tryggja traustari faglegan grunn að stefnumótun og ákvarðanatöku í hverju ráðuneyti fyrir sig.

Markmiðin eru líka pólitísk og snúast um framtíðarsýn fyrir Ísland. Mikilvægast er þó að við freistumst ekki til þess að verða svo sjálfhverf í tíma og rúmi að gleyma því að Stjórnarráðinu er ætlað að tryggja lýðræði, gagnsæi og skilvirkni. Sú grundvallarsýn og grundvallarskylda sem hvílir á okkur þegar við erum að fjalla um þessi mál má ekki kafna í tímabundnum hagsmunum einstaklinga, atvinnugreina eða annarra aðila. Af því tilefni er rétt að nefna að áskoranir og ályktanir margumræddra hagsmunasamtaka og samráðsaðila koma allar frá þeim sem hafa með nýtingu náttúrunnar að gera. Þau hagsmunasamtök og þeir talsmenn sem hafa með hagsmuni náttúrunnar og sjálfbærrar þróunar að gera hafa ekki verið nefnd í þessari umræðu. Það eru þau samtök sem taka sér stöðu með sjálfbærri þróun, með náttúrunni til langrar framtíðar þannig að við getum nýtt hana til hagsbóta fyrir samfélagið til langs tíma en ekki skamms.

Umfjöllunin í nefndinni fram undan er auðvitað til þess fallin að vinna málið opið og af krafti og ég fagna þeim þingmönnum sem hér hafa fjallað um málið af ábyrgð og á efnislegum nótum eins og fyrrverandi ungur framsóknarmaður eins og hún kallaði sjálfa sig, hv. þm. Eygló Harðardóttir. Það hvílir mikil skylda á þinginu að rýna frumvarpið í hörgul og við verðum, eins og ég nefndi áðan, að taka það hlutverk okkar alvarlega til að breytingarnar verði til góðs og þinginu til sóma. Ég heyri á málflutningi téðs fyrrverandi ungs framsóknarmanns að sjónarmið okkar fara býsna víða saman í þeim efnum. Ég nefni það þess vegna sérstaklega til umhugsunar og tek undir þau orð hennar hvort við séum hér í raun að taka of lítið skref, hvort við séum ekki nógu róttæk. Eins og kunnugt er og hér hefur aðeins verið fjallað um er á Norðurlöndunum ekki kveðið á um verkaskiptingu framkvæmdarvaldsins með lögum eins og hér er gert, heldur er kerfið sveigjanlegt þannig að framkvæmdarvaldið getur skipt með sér verkum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni eftir verkefnum. Sú leið er opnari, hún er sveigjanlegri, nútímalegri og kemur mun betur til móts við fjölbreytt hlutverk og síbreytilegt samfélag en það kerfi sem við búum nú við hér á landi.

Frú forseti. Ég hef miklar væntingar til framgangs þessa máls í þinginu og heyri mér til ánægju af málflutningi ýmissa stjórnarandstæðinga að það eru miklar líkur á því að hér takist farsæl uppstokkun Stjórnarráðsins Íslandi til heilla.



[14:58]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomu þessa máls. Ég tel að það sé í heildina frekar jákvætt. Ég vil líka aðeins rekja stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli af því að við höfum skoðað frekar lengi hvernig hægt er að bæta Stjórnarráðið, hvernig má einmitt breyta skipan ráðuneyta til að vera meira í takt við tímann. Þetta er verkefni sem hefur verið lengi á okkar borðum.

Við ályktuðum á síðasta flokksþingi mjög skýrt um að við viljum skýrari verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Við viljum líka taka tillit til samfélags- og atvinnuhátta og við viljum fara eftir tillögum nefndar Framsóknarflokksins um skipan Stjórnarráðsins. Það er búið að tipla aðeins á þeim tillögum en þær eru mjög skýrar.

Við sögðum líka að við vildum að ráðuneytin yrðu ekki fleiri en 10. Við viljum fækka ráðuneytum. Við vildum líka að breytingar á Stjórnarráðinu yrðu skoðaðar á stjórnlagaþingi, enda er það eðlilegur vettvangur þegar það verður haldið. Stefna okkar er mjög skýr, við viljum fækka ráðuneytum og við viljum fara eftir tillögum þeirrar nefndar sem hefur unnið þetta mál fyrir okkur innan flokksins og sú stefna er skýr. Mig langar aðeins að rekja hana líka.

Sú er hér stendur gæti brugðið á það ráð að fara í gömlu skotgrafirnar og halda sig í þeim. Það er mjög auðvelt að gagnrýna þetta frumvarp ef maður vill það. Það er auðvelt að segja að þetta komi seint fram, allt of lítið samráð hafi verið haft við aðra flokka um skipan þessara mála. Vinstri grænir eru klofnir í þessu máli. Hér er búið að lesa upp bókun frá þingflokki þeirra þannig að það er hægt að leggjast ofan í þessar skotgrafir. Það er mjög auðvelt. Sú er hér stendur ætlar ekki að gera það. Ég tel að við séum á þeim tímapunkti í samfélagi okkar að sá tími sé liðinn að við getum leyft okkur það. Nú eigum við að kalla eftir nýjum vinnubrögðum og sýna þau í verki. Þess vegna á maður að halda sig við það að tala jákvætt fyrir góðum málum ef maður hefur þá trú að málin séu góð og líka að reyna að halda sig þokkalega við stefnu sinna flokka, sérstaklega ef það fer eftir sannfæringu þeirra sem eru kjörnir á þing. Í þessu máli fer það saman, sannfæring mín er að það sé rétt að endurskoða Stjórnarráðið og það er líka stefna Framsóknarflokksins þannig að þetta fer saman. Hér mun ég sýna sanngirni, hafa réttlæti að leiðarljósi og sýna hógværð. Það held ég að sé það sem við þurfum að gera almennt núna á Alþingi Íslendinga, bæði vegna aðstæðna og líka til að auka hér traust og vera sanngjörn almennt.

Ég ætla að fara í smáættfræði, virðulegur forseti. Á flokksþingi 2005 var samþykkt að fara í að endurskipuleggja Stjórnarráðið, fækka ráðuneytum o.s.frv. Við ákváðum að setja á laggirnar sérstakan málefnahóp til að gera það. Það var gert. Í kjölfarið var skipaður málefnahópur. Fyrsti formaðurinn var þar um tíma Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur. Hún varð síðan frá að hverfa vegna annarra starfa og þá tók við Gísli Tryggvason. Í nefndinni voru tveir fulltrúar úr hverju kjördæmi og svo var líka fulltrúi í svokallaðri stjórnarskrárnefnd. Það var farið mjög vel yfir þessi mál öll saman.

Í skýrslunni er líka vitnað í stefnu Sambands ungra framsóknarmanna. Ég vil aðeins tilgreina þá stefnu vegna þess að Samband ungra framsóknarmanna hefur líka skoðað þessi mál um langt skeið. Þar kemur fram að Samband ungra framsóknarmanna gerði skýrslu sem heitir Umbætur á Stjórnarráðinu árið 2007. Þá var formaður Sambands ungra framsóknarmanna Dagný Jónsdóttir. Þar kemur ýmislegt fram. Þar segir orðrétt, virðulegur forseti:

„Í dag [er ráðuneytum] sem fara með atvinnumál skipt eftir einstökum atvinnuvegum. Þannig fer sjávarútvegsráðuneytið með málefni útgerðar og fiskvinnslu, landbúnaðarráðuneyti fer með málefni landbúnaðarins, samgönguráðuneytið fer með málefni ferðaþjónustu og samgöngufyrirtækja, viðskiptaráðuneytið með málefni fjármagnsmarkaðarins og iðnaðarráðuneytið með málefni iðnaðar og orkugeirans.“

Hér er farið yfir hvernig þessi ráðuneyti eru. Nú ætla ég að hefja aftur tilvitnun beint í ályktun ungra framsóknarmanna:

„Þessi skipan er barn síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerða ríkisvaldsins til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinnar atvinnugreinar framar annarri.“

Mér finnst þetta þess virði að fara nokkuð náið yfir þetta hér, virðulegur forseti, af því að Samband ungra framsóknarmanna sem skoðaði þetta segir að núverandi fyrirkomulag sé — hvað? Barn síns tíma. Það er rétt, virðulegur forseti. Þetta er barn síns tíma. Þetta verðum við að endurskoða og laga. Framsóknarmenn skoðuðu þetta í nefndinni og ég er hér að fara yfir skýrslu hennar, stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins. Gísli Tryggvason, formaður nefndarinnar, skoðaði sérstaklega skipan Stjórnarráðsins, gerði það þegar hann var í laganámi í Háskóla Íslands, fór þar í nýsköpunarsjóðsverkefni og skoðaði sérstaklega þessi atriði með skipan Stjórnarráðsins. Hann hafði mjög mikil áhrif á nefndarstarfið þegar hann tók við því. Síðan skilaði nefndin af sér skýrslu og þar var sérstaklega tilgreint, virðulegur forseti:

„Mikil samstaða náðist um niðurstöðuna í nefndinni.“

Í flokksstarfinu okkar náði fólk úr öllum kjördæmum, tveir úr hverju kjördæmi, formaður og einn úr stjórnarráðsnefnd, niðurstöðu og það var mikil samstaða. Hver er niðurstaðan sem Framsóknarflokkurinn ætlar að fara eftir? Hún er svona, virðulegur forseti:

„Meginatriði í tillögum nefndarinnar eru eftirfarandi:

Áréttað er að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn.

Grunneiningar Stjórnarráðsins verði um 60 skrifstofur.

Mál, sem eðli máls samkvæmt heyra saman, falla undir sömu skrifstofu.

Unnt verður að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta.

Samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum.

Illsamrýmanleg mál eiga ekki að heyra undir sama ráðherra.

Forsætisráðherra fer að jafnaði ekki með önnur málefni en æðstu yfirstjórn.

Áréttuð er heimild til þess að skipa ráðherra án ráðuneytis.

Bætt er við heimild til þess að skipa aðstoðarutanríkisráðherra.

Ráðherrar sitja ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.“ — Ég skýt því hér inn í að sú er hér stendur hefur einmitt flutt mál af þessu tagi hér.

„Ekki er dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika.

Pólitísk forusta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfi er stórefld.“

Þetta eru punktarnir. Þetta eru framsóknarmenn sammála um að gera og áréttuðu það á sínu síðasta flokksþingi sem var fyrir ári, eftir hrun.

Ég vil líka tilgreina af því að ég var að vitna í ályktanir frá Sambandi ungra framsóknarmanna á sínum tíma að ungir framsóknarmenn hafa einnig ályktað síðar, bæði 2008 og 2009. Það eru nýjustu ályktanirnar og þar ítreka ungir framsóknarmenn að það eigi að fækka ráðuneytum. Ég ætla ekki að lesa það upp vegna tímaskorts, virðulegur forseti.

Ég vil líka segja af því að sú er hér stendur talar jákvætt um þetta mál, eins og heyra má, að það er mjög mikilvægt núna, eftir bankahrunið, að við reynum að koma málum þannig fyrir að almenningur styðji stjórnvöld í þeirri viðleitni að spara og hagræða. Það er þörf á því. Þá er rétt að topparnir byrji líka á sjálfum sér, þ.e. að Stjórnarráðið byrji á sjálfu sér við að fækka ráðuneytum og sameina. Þetta mál er þess eðlis. Það er verið að gera það. Það er mjög erfitt fyrir stjórnvöld ef þau gera ekkert hjá sjálfum sér að fara til undirstofnana og segja: Nú verðið þið að sameinast. Það þarf að sameina og hagræða í ljósi kreppunnar sem hér er. Það er miklu erfiðara að gera það ef menn byrja ekkert á sjálfum sér. Ég held að í heildarsamhengi sé líka rétt einmitt núna að byrja á því að endurskipuleggja Stjórnarráðið.

Eins og hér hefur komið fram er þessi stefna skref í áttina og hún er í anda þess sem framsóknarmenn hafa talað um lengi en við viljum taka þetta lengra. Við viljum að þetta sé ekki bundið í lög og þá þarf ekki að taka alltaf svona mál hérna inn, taka einn og einn ráðherra af lífi eins og tíðkast að segja á mannamáli. Það er erfitt og það blasir bara við. Af hverju kom þessi bókun frá hluta þingflokks Vinstri grænna? Það er m.a., ekki eina ástæðan, af því að einn hæstv. ráðherra úr þeirra hópi liggur svolítið undir. Það er erfitt þegar á að gera þetta með lögum og því væri rétt að taka málið alla leið og koma því þannig fyrir að ríkisstjórn hvers tíma gæti gert svona breytingar án þess að fara með þær inn í lagasetningarvaldið í hvert skipti. Þannig er þetta gert á Norðurlöndunum, miklu meiri sveigjanleiki og hægt að vera með miklu eðlilegri áherslu miðað við þann takt sem er í samfélaginu á hverjum tíma. Þetta þýðir ekki það sama og upplausnarástand, alls ekki. Það verða áfram grunneiningar, svokallaðar skrifstofur, sem menn geta svo flokkað eftir því hvernig samfélagsskipanin þróast. Að okkar mati er ekki eðlilegt að taka þetta alltaf inn til lagasetningar í hvert skipti af því að það er mjög erfitt að gera svona hluti nema þeir séu gerðir bara við stjórnarskipti. Það er svo erfitt að fækka ráðuneytum, það er svo erfitt að taka ráðherra frá nema við stjórnarskipti. Það er erfitt að taka menn út af og það þekkja menn, og það þekkir líka sú er hér stendur. Það þurfti að taka ráðherra út af á sínum tíma hjá okkur. Það var vegna þess að það samdist þannig á milli flokka að við ákveðna tímasetningu, 15. september, færðist eitt ráðuneyti frá öðrum flokknum yfir til hins. Þetta var allt mjög erfitt. Það er sama eðlis þegar menn fækka ráðuneytum.

Ég er í heildina séð jákvæð fyrir þessu máli. Þetta er skref í rétta átt. Ég vil sýna sanngirni, ég vil líka reyna að koma til móts við þær raddir í samfélaginu sem segja að við eigum ekki að vera í skotgröfum. Ef málin eru góð er talað jákvætt um þau. Við eigum ekki að draga kjarkinn hvert úr öðru hérna heldur styðja góð mál. Þetta mál er í anda Framsóknarflokksins. Við hefðum samt viljað ganga lengra. Þetta er skref í rétta átt þannig að ég ber talsverða virðingu fyrir því að við erum komin með þetta mál inn. Ég er samt ekki að segja að þetta þurfi ekki að skoðast vel hérna inni en ég er sammála stefnunni um að eðlilegra væri að taka stærra skref.

Vera má að nefndin sem mun fjalla um þetta mál geti skoðað tillögur framsóknarmanna. Ef ekki er auðvitað hugsanlegt að menn flytji hér breytingartillögur, þeir sem eru á þeirri skoðun. Sú er hér stendur er á þeirri skoðun að best væri að nefndin skoðaði þetta. Að öðrum kosti getur vel verið að menn flytji breytingartillögur til að ganga enn lengra. Þetta er þó a.m.k. jákvætt skref í rétta átt, virðulegur forseti.



[15:11]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Með því frumvarpi sem við ræðum hér er lagt til að ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands verði fækkað og töluverð breyting og uppskipting verði á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins eins og við þekkjum það í dag. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég er alls ekki andsnúinn því að ráðuneytum sé fækkað og að ríkið spari í rekstri sínum, síður en svo. Ég hef margoft talað fyrir þeim sjónarmiðum og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans margoft gert, bæði hér og á öðrum vettvangi. En ég verð að segja það að ég get hvorki fallist á þá leið sem hér stendur til að fara né get ég samþykkt þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhefur í málinu.

Það er engin samstaða um málið, hvorki innan þings né utan. Í umræðunni hefur verið farið yfir það að hagsmunaaðilar víðs vegar í samfélaginu lýsa furðu sinni yfir því að málið sé komið fram í þeim búningi sem við verðum vitni að. Stjórnarandstaðan eða að minnsta kosti stærstur hluti hennar hefur lýst andstöðu sinni við frumvarpið og það er ekki einu sinni samstaða um málið í ríkisstjórninni sjálfri eða í stjórnarflokkunum. Það hefur komið fram opinberlega að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, styður ekki frumvarpið. Í ljósi þess veltir maður því eðlilega fyrir sér hvort frumvarpið sé í rauninni stjórnarfrumvarp. Sú regla hefur verið viðhöfð að þegar ríkisstjórnin flytur mál og leggur fram frumvörp og mælir fyrir þeim þá standi ríkisstjórnin heil á bak við þann málatilbúnað en því er ekki að heilsa í þessu máli.

Við höfum líka orðið vitni að því að einstakir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru andsnúnir málinu og lögðust beinlínis gegn því að það yrði lagt fram til umræðu á þinginu. Það kom berlega í ljós í heiðarlegri ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem fór yfir sjónarmið sín og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar. Þetta frumvarp og sú ósamstaða sem um það ríkir gerir það að verkum að maður getur ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að það sé mikil ósamstaða innan ríkisstjórnarinnar og það ekki í fyrsta skipti.

Það er ekki langt síðan hv. þm. Ögmundur Jónasson hrökklaðist úr ríkisstjórninni vegna afstöðu sinnar til Icesave-málsins og heiðarlegrar og málefnalegrar baráttu gegn því að það mál næði fram að ganga. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að í þessu frumvarpi sé vegið að öðrum hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. Nú sé komið að því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra taki pokann sinn að kröfu hæstv. forsætisráðherra og í þökk hæstv. fjármálaráðherra vegna andstöðu sinnar við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Það er illa komið fyrir ríkisstjórn sem þannig er háttað um og það er illa komið fyrir forustu slíkrar ríkisstjórnar sem kemur þannig fram við menn sem berjast með heiðarlegum hætti fyrir sjónarmiðum sem þeir telja að séu rétt og mikilvæg fyrir landið og þjóðina sem þeir starfa fyrir.

Ég hef undir höndum flokksráðssamþykkt Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá fundi flokksins 15.–16. janúar 2010 sem sýnir viðhorf grasrótarinnar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til málsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref eru tekin.“

Á þetta hlustar hæstv. fjármálaráðherra ekki, heldur leggur fram frumvarpið í trássi við skoðanir flokksfélaga sinna og berst hér fyrir því. Í greinargerð með samþykkt flokksráðsfundar Vinstri grænna segir, með leyfi forseta:

„Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Þeim finnst enn fremur slík aðferð til þess fallin að veikja samningsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Með fyrirhugaðri sameiningu hverfur sú sérstaða sem þessir málaflokkar fæðuöflunar og fæðuöryggis hafa haft innan stjórnsýslu landsins. Fjölmargir aðilar hafa lýst sig mótfallna því að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar, hagsmunaaðilar til lands og sjávar, sveitarstjórnir á landsbyggðinni og flokksfélög Vinstri grænna.

Engu að síður kýs formaður Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra, að leggja málið fram í trássi við skoðanir flokksfélaga sinna og kemur þeim skilaboðum til þeirra sem hafa málefnalegar athugasemdir við frumvarpið að þeir hafi gerst sekir um að vera með eitthvert óttalegt puð. Það er sú virðing sem hæstv. fjármálaráðherra sýnir málefnalegum sjónarmiðum þeirra sem ekki eru reiðubúnir til að fallast á sjónarmið sem í frumvarpinu felast. Í flokksráðssamþykkt Vinstri grænna segir einnig, með leyfi forseta:

„Einnig er hægt að benda á að ekki er ásættanlegt að skipan Stjórnarráðs Íslands fari eftir meirihlutavilja þeirra flokka sem við völd eru hverju sinni. Þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum árið 2007 og vinnubrögð stjórnarmeirihlutans í þeim málum geta ekki verið okkur til eftirbreytni, okkar flokki sem öðru fremur kennir sig við lýðræði, bætta stjórnsýslu og aukið þingræði. Það ætti því ekki að dyljast neinum hversu mikilvægt það er að ná samstöðu allra flokka um afgerandi breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnarskrá.“

Þrátt fyrir þessa samþykkt flokksráðs Vinstri grænna er farið gegn öllum þeim sjónarmiðum sem fram koma í henni og það vekur óneitanlega furðu að formaður flokksins skuli vera þar í fararbroddi og fara gegn samþykktum eigin flokks og eigin félaga.

Ef ég hefði lengri ræðutíma til að fara yfir málið mundi ég fara nánar yfir þessa samþykkt flokksráðs Vinstri grænna. Það er vísað til sjónarmiða sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafði uppi á árinu 1958 til að undirstrika þau sjónarmið sem hér hafa fram komið og ég hef reifað. Það er jafnframt vísað til þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í umræðum á Alþingi 4. júní árið 2007 þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„En til þess að endurskipulagning af þessu tagi geti tekist vel er alger forsenda að vandað sé til undirbúnings og víðtæk pólitísk samstaða verði um þær breytingar.“

Ég held að allir sem hafa hlustað á umræðuna sem hér hefur farið fram og hlustað á það hver sjónarmið innan ríkisstjórnarflokkanna sjálfra eru hljóti að sjá að þegar til stykkisins kemur hafa forustumenn og þeir sem eru leiðandi í flokki Vinstri grænna engan áhuga á því að fylgja eigin orðum. Í því felst hvorki heiðarleg stefnumörkun gagnvart eigin flokksmönnum né stefnufesta gagnvart því sem þeir hafa áður sagt.

Ég ætla að láta þetta nægja og vísa ekki í fleiri hv. þingmenn Vinstri grænna en bendi á að í flokksráðssamþykktinni er jafnframt vísað til ræðu sem formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, flutti 11. desember 2007 sem er í algerri andstöðu við þau sjónarmið sem hann hafði uppi hér fyrr í umræðunni.

Því miður hefur ríkisstjórnin kosið að fara fram með málið í ágreiningi. Hún hefur kosið það þrátt fyrir öll hin fögru fyrirheit um mikilvægi þess að haft sé samráð við aðila úti í samfélaginu og aðila innan þings um niðurstöðu í mikilvægum málum. Þrátt fyrir það hefur hún kosið að hafa ekki slíkt samráð. Það sést best af greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu að samráðið á að fara fram eftir á. Það er út af fyrir sig ný útgáfa af þeim samræðustjórnmálum sem Samfylkingin hefur predikað á Alþingi svo árum skiptir og nú virðast sumir hv. þingmenn innan vébanda Vinstri grænna taka undir þau sjónarmið. En af hverju í ósköpunum reyndi ríkisstjórnin ekki að ná sátt um málið fyrir fram í stað þess að ala endalaust á óeiningu og deilum? Ég fæ ekki séð að það sé nein ástæða til að efna til þeirra átaka sem um málið mun verða í framtíðinni. Ég held að með því að leggja málið fram í þeim búningi sem það er sé búið að færa átakastjórnmálin, sem þeir sem standa að frumvarpinu hafa gagnrýnt hvað hæst, á hærra stig en við höfum nokkurn tíma séð, að minnsta kosti ekki oft. Það finnst mér miður vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að það megi gera breytingar á Stjórnarráðinu og mikilvægt sé að draga saman í rekstri ríkisins. En við þurfum að koma okkur saman um leiðirnar sem skynsamlegt er að fara í því.

Efnislega vil ég nefna tvennt um frumvarpið. Ég geri miklar athugasemdir við fyrirkomulagið sem mælt er fyrir um varðandi skipan nýs atvinnuvegaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ég fæ ekki betur séð en að með því fyrirkomulagi sé verið að brjóta sjávarútvegsráðuneytið í tvennt og það á tímum þegar mikilvægi sjávarútvegsins hefur aldrei verið meira, bæði fyrir þjóðarbúið og líka vegna þeirra hagsmuna sem sjávarútvegsmálin hafa í för með sér fyrir íslenskt þjóðarbú, ég tala nú ekki um þegar hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við þær aðstæður skiptir öllu máli að innan Stjórnarráðsins sé sterkt ráðuneyti sjávarútvegsmála sem tekur til varna gegn kröfum Evrópusambandsins um að taka yfir öll sjávarútvegsmál og stjórn fiskveiða.

Í annan stað vil ég nefna hið nýja innanríkisráðuneyti sem frumvarpið mælir fyrir um. Þar á að grauta saman samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og málum tengdum dómstólum og réttarkerfinu. Þetta er einhver furðulegasta blanda sem ég hef séð. Ég átti samræður við hæstv. dómsmálaráðherra í gær um þá sprengingu sem er yfirvofandi í dómskerfinu, sprengingu í málafjölda sem dómstólarnir munu ekki ráða við. Það liggur fyrir að dómsmálum vegna krafna á hendur bönkunum sem skilanefndir eru að eiga við mun ekki fjölga um þúsundir heldur um tugi þúsunda. Það er ljóst að réttarkerfi okkar mun ekki ráða við þann aukna málafjölda. Það stefnir í neyðarástand og þá leggur hæstv. ríkisstjórn til að dómsmálum og málefnum réttarkerfisins sé skipað með sveitarstjórnar- og fjarskiptamálum þegar menn þurfa að standa vörð um réttarkerfið.

Virðulegi forseti. Það má margt fleira um frumvarpið segja. En ég legg áherslu á að vilji menn ná fram breytingum á Stjórnarráði Íslands á að gera það í sátt og af meira hyggjuviti en þetta frumvarp mælir fyrir um.



[15:28]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um breytingar á Stjórnarráði Íslands.

Ég vil byrja á því að taka undir allt það er kom fram í bókun hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í dag í umræðunni þar sem hann fór yfir þær athugasemdir sem nokkrir þingmenn Vinstri grænna höfðu þegar kom að afgreiðslu þessa máls. Þessar athugasemdir sneru einkum að vinnulagi, samráði við undirbúning, gríðarlegri andstöðu grasrótar Vinstri grænna, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og fleiri aðila er þessu tengjast, Evrópusambandsumsókn og fleiri þáttum.

Ég ætla að byrja á því er tengist Evrópusambandsumsókninni og áhyggjum manna er lúta að henni. Það er alveg ljóst að mörg þessi samtök sem hafa ályktað um þessi mál hafa lýst yfir miklum áhyggjum af því ferli sem nú er farið í gang og snýr fremur að aðlögun að regluverki Evópusambandsins en einhvers konar aðildarviðræðum. Ég deili þessum sjónarmiðum, ég hef miklar áhyggjur, ekki bara af ístöðuleysi ríkisstjórnarinnar heldur líka Alþingis alls í þessu máli. Ég held að þarna séum við að fara inn á braut sem verður gríðarlega erfitt og þarf gríðarleg átök til þess að ná okkur út af. Það verður erfitt að koma að réttum sjónarmiðum og halda vel á hagsmunum þessara tveggja grunnatvinnugreina í þessu ferli.

Margir hafa talað um að með því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í núverandi mynd muni stjórnsýsluleg staða þessara atvinnugreina veikjast. Ég hef sagt það í þingflokki mínum og hvarvetna að óháð því hvað fólki finnst um stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis sé það ekki skynsamleg tímasetning nú þegar við erum í miðjum þessum Evrópusambandsviðræðum. Við skulum byrja á því að slá þær út af borðinu og svo skulum við ráðast í þessar breytingar því að það er ljóst að mikil andstaða er við Evrópusambandsumsókn í þessum atvinnugreinum og mönnum finnst það nóg sem fram undan er varðandi hana.

Margir telja að þeir sem hafa haft þessar efasemdir séu alfarið á móti niðurskurði eða hagræðingu, jafnvel alfarið á móti allri sameiningu eða breytingum á Íslandi. Það er af og frá. Það má hagræða með ýmsum hætti. Það sem mestu skiptir þegar ráðist er í breytingar á stjórnarráði er að það sé gert á faglegan hátt og að allur undirbúningur að slíku sé sem bestur.

Hv. þm. Atli Gíslason var hér áðan með handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Þar er fjallað um hvernig standa á að slíkum lagasetningum. Í fyrsta lagi er spurning hvort ný lagasetning er nauðsynleg. Þá er hafist handa við að semja frumvarp. Þegar frumvarpið er samið er mikilvægt að hafa samráð, í fyrsta lagi pólitískt samráð, síðan faglegt samráð milli ráðuneyta, samráð við hagsmunaaðila og almenning, mat á áhrifum, afleiðingar fyrir hagsmunaaðila og fleiri. Þetta eru þættir sem eiga að liggja fyrir og á að taka tillit til við vinnslu slíkra frumvarpa.

Við inntum ítrekað eftir því við afgreiðslu í þingflokki Vinstri grænna hvort slík vinna hefði farið fram, til að mynda er varðar sjávarútveg og landbúnað, heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfið. Við lögðum til að sú vinna sem þegar hefði farið fram í forsætisráðuneytinu yrði kynnt fyrir þingheimi og að fram færi vinna utan þings í sumar.

Hér hafa komið upp mörg sjónarmið. Ég nefni til að mynda sjónarmið hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem hún viðraði hér, sem hafa verið innan Framsóknarflokksins. Fleiri hafa komið inn á sjónarmið er þessu tengjast, hvort ákveðin verkefni eigi heima í þessu ráðuneyti eða öðru. Vinstri grænir hafa ávallt talað fyrir því, áður en þeir komust í ríkisstjórn, að slíkt skyldi unnið í samráði allra flokka. Á meðan Stjórnarráðið er eins og bundið er í lögum skyldu breytingar á því vera í samráði við alla flokka.

Við inntum eftir því hvort slíkt samráð hefði farið fram. Nei, þetta frumvarp birtist fullbúið í þingflokki Vinstri grænna og ekki var nokkur vilji til þess af hálfu forsætisráðherra að fara með málið í þann farveg að hægt væri að ná meiri sátt um málið, það væri unnið í þeim farvegi sem lagt er upp með hér. Það var algjörlega af og frá að það væri mögulegt. Því er málið komið í þennan farveg og ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, að það sé ekki heppilegt að vinna þetta með þessum hætti.

Ég kalla hins vegar eftir því núna, hér hafa margir tekið til máls. Ég nefni til að mynda eldhúsdagsumræður sem voru hér fyrir tveim dögum og var talað um breytt vinnubrögð hér á Alþingi, um aukið samráð og aukið þingræði, aukinn aðskilnað milli framkvæmdarvalds og Alþingis. Ég kalla eftir því að við áframhaldandi vinnslu á þessu stjórnarráðsfrumvarpi verði tryggt að samráðið eigi sér stað, þetta verði ekki sýndarmennska ein. Mín tilfinning er sú eftir að hafa fylgst með aðdraganda þessa máls, hvernig því hefur verið þrýst áfram og engin leið að taka út breytingar er varða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, að samráðið verði bara sýndarmennska. Það er náttúrlega ekki jákvætt fyrir þá sem talað hafa hér um að þeir vilji breytingar og hugsanlega matvælaráðuneyti og annað því um líkt.

Ef ég hef rangt fyrir mér hvað þetta snertir skora ég á þingheim og ríkisstjórnina að tryggja að það samráð sem verið er að boða verði ekki einungis í orði, það verði líka á borði. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við erum að fara inn í þetta viðræðuferli eða aðlögunarferli við Evrópusambandið, sérstaklega fyrir þessar grunnatvinnugreinar, sjávarútveginn og landbúnaðinn, að hugað sé að stöðu þessara atvinnugreina og haft samráð við þær. Það sama á að sjálfsögðu við um aðrar ráðuneytisbreytingar er koma fram í þessu frumvarpi.

Ég vil enn og aftur skora á þingheim og ríkisstjórn að tryggja það að þetta samráð verði ekki eingöngu í orði, það verði líka á borði.



[15:35]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um að leggja niður hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason. Fyrir því eru færð ýmis rök en fyrst og fremst þau að aðgerðin sé nauðsynleg vegna efnahagsástandsins, það þurfi að spara. Þegar menn hins vegar lesa greinargerðina með þessu frumvarpi verður öllum ljóst að þar er eingöngu um fyrirslátt að ræða því að sparnaðurinn er enginn. Jú, það eru líklega flestir sammála um að það þurfi að spara, fækka ráðuneytum, endurskipuleggja og fækka stofnunum. En þegar menn skoða þetta frumvarp blasir við að það snýst ekkert um sparnað, heldur eitthvað allt annað. Enda hver er sparnaðurinn? Jú, það er talað um að það þurfi að spara svo mikið fyrir árið 2011 að við þurfum að skera niður og m.a. ráðast í þessar aðgerðir.

Þegar lesið er lengra sér maður að það fellur enginn sparnaður til á árinu 2011, þvert á móti má reikna með verulegri kostnaðaraukningu vegna þess að sameining er alltaf dýr, a.m.k. til að byrja með. Oft og tíðum hefur sameining, hvort heldur fyrirtækja eða stofnana, reynst dýrari til langs tíma litið líka — en alltaf til að byrja með. Þetta snýst ekki um sparnað á árinu 2011. Það stendur til að mynda ekki til að segja fólki upp. Hvar á þá sparnaðurinn að liggja? Jú, það er gert ráð fyrir því að með tíð og tíma muni einhverjir hætta störfum eða hugsanlega falla frá eða ákveða að skipta um starf innan ráðuneytanna. Þá verður hugsanlega ekki ráðið í stöðurnar aftur. Þetta er allt mjög óljóst. Menn gera ráð fyrir því að peningar sparist einhvern tímann í framtíðinni ef ekki verður ráðið í stöður þeirra sem hætta.

Það koma fram fleiri þversagnir í frumvarpinu. Á sama tíma er talað um mikilvægi þess að efla þessi ráðuneyti og ráða fleiri sérfræðinga á tilteknum sviðum til þess að fást við þau miklu verkefni sem í hönd fara. Ég man ekki betur en að hér hafi verið heilmikil umræða um mikilvægi þess að efla ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar vegna viðræðna við Evrópusambandið. Það var beinlínis kveðið á um að fjölga þyrfti starfsfólki til þess að geta sinnt öllum þeim verkefnum sem felast í viðræðuferlinu. Það var beinlínis kveðið á um það þegar farið var af stað í viðræður.

Reynt er að rökstyðja þetta með ýmsum kenningum. Þá þurfi ekki eins mikla útvistun verkefna og þá sjá menn aftur hversu augljós þversögnin er. Ef það á að spara og draga saman, hvers vegna mun þá ekki þurfa eins mikla útvistun verkefna? Og hvers vegna þarf þá ekki að reiða sig eins mikið á undirstofnanir við ráðuneyti og nú er? Þetta nær ekki nokkurri átt. Jafnframt er talað um að mynda stærri heild. Í greinargerðinni segir m.a. að ráðuneytin skorti nauðsynlega formfestu sem sé til staðar í stærri skipulagsheildum.

Nú hefur töluvert verið talað um að íslenskir bankamenn hafi státað sig af því að hér gengju hlutirnir svo hratt fyrir sig. Hér væri ekki þessi mikla formfesta sem væri annars staðar. Eflaust hefur það að hluta til leitt til þess hvernig fór. Það fór reyndar eins fyrir mörgum stórum bönkum sem voru með engu minna skrifræði. Þetta þýðir hins vegar ekki að skrifræði sé lausnin. Meira skrifræði á öllum sviðum er ekki lausnin á vandræðum okkar. Hér er sem sagt verið að tala um að búa til stærra bákn þar sem skrifræðið verður meira. Fleiri eyðublöð verða væntanlega fyllt út og sett í fleiri möppur. Allt minnir þetta dálítið á austurrísk-ungverska keisaradæmið á sínum tíma þar en menn festust í því að reyna að stýra öllu með formfestu, skrifræði, eyðublöðum og stærri stofnunum. Þeim var stöðugt þjappað saman, undir þeim urðu svo til nýjar minni stofnanir sem er hent inn í þær stærri og alltaf stækkaði báknið.

Þetta minnir líka á stofnun úr sögu Sovétríkjanna. Fyrst eftir byltinguna þurftu menn að samræma allar atvinnugreinar sem verið var að þjóðnýta. Búin var til stofnun sem hét Vesenkha sem var sovét um endurskipulagningu atvinnuveganna í Sovétríkjunum. Þar var öllu hent inn og reynt að skipuleggja allt sem eina heild. Lýsingin er mjög svipuð og markmið þessa nýja atvinnuvegaráðuneytis. Það gekk hins vegar ekki upp því að nokkrum árum seinna sáu menn meira að segja í Sovétríkjunum að hugsanlega væri betra að þeir sérhæfðu sig í tilteknum atvinnugreinum og þessu var skipt upp í fleiri ráðuneyti.

Í frumvarpinu sjáum við enn eina þversögnina þessu tengt. Á sama tíma og því er haldið fram að þetta snúist um að samþætta — alls konar frasar eru endurteknir í sífellu, ég held að samþætta sé algengasta orðið — alla mögulega hluti er líka verið að tala um að það eigi að slíta þá í sundur. Eitt það mikilvægasta er sjávarútvegurinn. Það á að slíta hann í tvennt og deila á milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Umhverfisráðuneytið á svo að segja til um það hversu mikið megi veiða og sjávarútvegsráðuneytið útfærir það síðan. Þetta á að gera til þess að samræma verndun og nýtingu, nokkuð sem Íslendingar hafa reyndar gert um áratugaskeið. Jú, kvótakerfið er umdeilt af ýmsum ástæðum en ekki vegna verndunarsjónarmiðanna. Þau eru mjög sterk og hafa gefið mjög góða raun, þannig að þetta er ekkert nýtt. Í marga áratugi hefur Ísland verið í fararbroddi í því að samþætta verndun og nýtingu, til að mynda á auðlindum sjávar. Þetta á að slíta í tvennt og skipta á milli ráðuneyta. Síðan á að bæta fyrir það með því að stofna nýtt ráð. Ráð á rússnesku er einmitt sovét. Það má segja að það eigi að stofna nýtt sovét um sjávarútveginn. Þar eiga að koma saman hinir og þessir aðilar frá ólíkum ráðuneytum til þess að samþætta það sem áður hefur verið samþætt á einum stað en á nú að slíta í sundur. Allt þetta þýðir tilfærslur fram og til baka. Fólk færist til í störfum, í húsnæði og þar fram eftir götunum. Vissulega þarf að ráðast í mikla endurskipulagningu þegar menn takast á við slíkt. En menn verða að spyrja sig: Erum við í aðstöðu til þess núna að setja starfsemi allra þessara ráðuneyta í algjört uppnám, ekki síst ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs sem líklega eiga fyrir höndum stærsta og flóknasta verkefni sem þau hafa tekist á við, viðræður við Evrópusambandið? Var ekki samstaða um að styrkja ráðuneytin til þess að standa í þeim viðræðum? Það má öllum vera ljóst að það styrkir ekki starfsemina ef fólki er fækkað og allir eiga að skipta um hlutverk og vita því ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Aðeins aftur að umræðunni um sparnað. Ég gleymdi að nefna þar að í hugmyndunum um að starfsmönnum kunni að fækka kjósi einhverjir þeirra með tíð og tíma að hætta, kannski 20 manns í ráðuneytunum öllum samanlagt á einhverjum árum, er gert ráð fyrir sparnaði eftir þann tíma upp á 160 milljónir á ári. En nei, þá er gert ráð fyrir því að greiða þurfi biðlaun og að þau verði 200 milljónir. Svoleiðis að sparnaðurinn í þessu öllu er vandfundinn. Breytir þó ekki því að það þarf að ráðast í verulega og róttæka endurskipulagningu eins og ýmsir þingmenn, ekki síst Framsóknarflokksins, hafa farið yfir og ýmsar leiðir eru færar í því. En með þetta upplegg sýnist mér að menn nái því versta úr stöðunni. Það er sem sagt fátt jákvætt við þessa nálgun og í raun stórfurðulegt að málið skuli koma til umræðu hér á þessum tímapunkti, löngu eftir að menn voru búnir að leggja fram þingmál sem átti að taka fyrir í þinginu. Það er ekki við öðru að búast en að menn velti því fyrir sér hvað býr raunverulega að baki.

Ég held að það blasi við flestum sem hafa fylgst með umræðunni að þetta snýst um pólitík, um völd og að treysta völd sumra á kostnað annarra. Það hefur verið áhugavert að hlýða á ýmsa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér í dag. Ég mundi gjarnan vilja gefa dálítið af tíma mínum til þess að þeir gætu talað meira. Tímanum er skipt á milli flokkanna en ef svo ber undir má færa hann á milli þeirra. Ég ætla að hætta að tala í bili og ef einhverjir af þingmönnum Vinstri grænna vilja tjá sig meira um málið vil ég gjarnan að þeir noti minn tíma í það. Ég mun hlusta af athygli. Annars skrái ég mig aftur á mælendaskrá.



[15:45]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á Stjórnarráðinu, þ.e. þar sem á að fækka ráðuneytum úr 12 í 9. Mig langar í upphafi máls míns að vekja athygli á því að þegar talað er um hvernig vinna eigi málin og það eigi að hafa samráð um hlutina hefði ég talið mjög eðlilegt, í ljósi allra ummæla hæstv. forsætisráðherra og margra annarra hæstv. ráðherra um breytt vinnubrögð, opna lýðræðislega umræðu og sjálfbæra, ef ég man þessar setningar rétt, þá hefði verið skynsamlegra og held ég óumdeilt að fela hv. allsherjarnefnd að semja frumvarpið frá grunni. Það hefði verið hinn eðlilegi samráðsvettvangur um þverpólitíska samstöðu að vinna málið þannig. Það er mín sýn.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að vitna til skýrslu sem var unnin af hálfu fjármálaráðuneytisins. Þar segir að þegar opinberar stofnanir hafa verið sameinaðar hafi einungis í 15% tilfella tekist að ná þeim markmiðum sem lagt var af stað með. Hvað segir þetta okkur, virðulegi forseti? Það segir okkur einfaldlega að undirbúningsvinna hefur ekki verið nægilega vönduð. Það er það sem stendur upp úr. Þetta mál, sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir áðan, kemur að mínu viti algerlega óundirbúið inn í þingið. Hæstv. forsætisráðherra hendir málinu inn og segir: Nú er ég búin að búa til frumvarpið og nú skal ég hafa smásamráð við ykkur. Þannig er málið vaxið.

Það eru mörg önnur mál svona vaxin og strax kemur upp í huga minn mál sem við afgreiddum á dögunum og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram, sem var frumvarp um fjármálafyrirtækin. Í meðförum viðskiptanefndar voru gerðar gríðarlegar breytingar á því stóra máli, svo ég nefni nú ekki þau frumvörp sem hæstv. félagsmálaráðherra mælti fyrir um skuldastöðu heimilanna. Þau mál er sum hver verið að skrifa og búa til alveg frá grunni í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Hv. félags- og tryggingamálanefnd mun flytja ný frumvörp. Þetta er sú vandaða stjórnsýsla sem talað er um í dag. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason upplýsti áðan að þegar frumvarpið kom til umfjöllunar í þingflokki Vinstri grænna og hv. þingmenn vildu ræða efnislega um málið þá voru skilaboðin mjög skýr úr forsætisráðuneytinu. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar eða hlusta á raddir um hvernig megi hugsanlega laga málið til. Þetta eru mjög skýr skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra. Þetta er málið sem hún er búin að ákveða að leggja fram og þingflokkur Vinstri grænna hefur ekkert um það að segja. Þetta er hin nýja og opna stjórnsýsla, hin breyttu vinnubrögð á Alþingi sem búið er að boða. Auðvitað stendur þar ekki steinn yfir steini eins og margoft hefur komið fram í hverju málinu á fætur öðru.

Mér er það til mikillar furðu að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa lært af því þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði af sér ráðherradómi vegna þeirra vinnubragða sem voru ástunduð hjá hæstv. ríkisstjórn. Nei, það skal ekki hlustað þrátt fyrir það. Þó svo að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi sagt af sér ráðherradómi til að mótmæla vinnubrögðunum sem ástunduð voru í ríkisstjórninni sem hann sat í. Nei, hæstv. forsætisráðherra lærir ekki neitt. En samt segir hæstv. forsætisráðherra: Nú eru nýir tímar, opin lýðræðisleg umræða, efnisleg umræða um málin. Síðan þegar þingflokkur Vinstri grænna vill fjalla um frumvarpið þá eru skilaboðin mjög skýr: Nei, ykkur varðar ekkert um þetta mál. Þetta er málið mitt. Þannig eru þau opnu lýðræðislegu vinnubrögð sem verið er að boða. Þetta er bara orðagjálfur og ekki neitt annað. Því miður, virðulegi forseti, það á ekki að breyta neinu.

Ég vil líka taka upp það sem hv. þm. Atli Gíslason gerði að umtalsefni og eins hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Þeir benda á að samkvæmt bókinni sem þeir vitnuðu í, sem fjallar um undirbúning lagafrumvarpa, þá stangast frumvarpið á við verklag við samningu lagafrumvarpa. Þeir leggja fram bókun hjá þingflokki Vinstri grænna um að frumvarpið stangist á við handbók Stjórnarráðsins um hvernig skuli vinna að undirbúningi lagafrumvarpa. Hv. þm. Atli Gíslason er löglærður maður og hefur ekki setið á Alþingi í stuttan tíma og veit að mínu viti nákvæmlega um hvað hann fjallar í þessari bókun. En samt dugar það ekki til. Áfram skal keyra málið. Þetta er alveg hreint með eindæmum. Og síðan þegar kom efnisleg umræða og efnisleg gagnrýni frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, þá afgreiddi hæstv. fjármálaráðherra hann mjög snyrtilega og sagði: Þetta er bara tuð. Ég sé fyrir mér hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur afgreitt hv. þingmenn sína í umræðunni sem átti að eiga sér stað í þingflokknum. Þetta er bara tuð í hv. þingmönnum hans eigin flokks. Þetta eru þau vinnubrögð sem eru ástunduð á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti, og maður sér á hverjum einasta degi hvernig þetta er gert.

Skyldu hv. þingmenn sem ég vitnaði í áðan, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hugsanlega hafa efnisleg rök til að skoða málið betur? Jú, þeir hv. þingmenn hafa gert grein fyrir því í ræðum sínum. Þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafa áhyggjur af stöðu landbúnaðarins og sjávarútvegsins í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða kannski er réttara að segja aðlögunarferli stjórnvalda að Evrópusambandinu. Það býr að baki þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fjalla um þessi mál. Það er ekkert annað sem býr að baki. Svo geta menn snúið út úr því og sagt að þeir séu hugsanlega að verja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svo hann missi ekki stólinn sinn. Það er útúrsnúningur, alger útúrsnúningur. Það er fyrst og fremst sú grunnhugsun sem kemur fram hjá þessum hv. þingmönnum. En þá er því snúið þannig að auðvitað verði Samfylkingin að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því hann hefur þvælst fyrir og verið með efnislega, réttmæta gagnrýni á aðildarferlið eða aðlögunarferlið sem hafið er. Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti, en svona er þetta unnið. Þingreyndir menn segja að þetta sé sannarlega alltaf að versna og slæmt var það fyrir. Alveg hreint með ólíkindum. Svo koma hæstv. ráðherrar fram og segja: Við búum við nýja tíma, en þeir eru ekki til batnaðar. Þeir eru til vansa og menn ættu að læra af því sem búið er að fjalla um, læra af mistökum sem hafa átt sér stað og standa við fyrirheitin um ný og breytt vinnubrögð í stað orðagjálfurs.



[15:55]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það þáði enginn afganginn af tímanum mínum svo ég ætla að nýta hann sjálfur enda um margt að ræða í þessu máli. Eitt af því sem mér þykir sérkennilegt í rökstuðningi hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpinu, eitt af mörgu, er sú nálgun á stjórnun sem faggrein sem þar birtist. Þarna virðist vera horfið frá nánast öllu því sem hefur verið upp á teningnum í þeim fræðum, jafnvel síðustu áratugina. Það er ekki lengur talið æskilegt að hafa litlar einingar og sérhæfðar, nei, það á að búa til stór bákn eins og IBM varð frægt fyrir og var næstum því farið á hausinn fyrir mörgum áratugum síðan. Það varð til þess að menn áttuðu sig á því að það væri kannski skynsamlegra að hafa menn hreyfanlegri í minni einingum.

Annað sem er sérkennilegt í þessu er að nú er útvistun allt í einu algerlega óásættanleg. Það er ekki í lagi að kaupa vinnu utan að úr ráðuneytunum sem maður hefði talið að væri æskilegt til að fá sjónarmið sem víðast að. Það er ekki einu sinni talið æskilegt að ráðuneyti reiði sig á undirstofnanir sínar. Nei, það eiga allir að vera embættismenn starfandi í hinu eina stóra bákni. Á sama tíma, þetta er ein af hinum mörgu þversögnum sem ég nefndi áðan, er talað um að þetta stóra bákn gefi meiri tækifæri til sérhæfingar. Maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig á því stendur að í nýja atvinnuvegaráðuneytinu verði til að mynda hægt að ráða sérstakan sérfræðing í sauðfjárrækt sem hefði ekki verið viðeigandi að hafa í landbúnaðarráðuneytinu. Einhvern veginn er gert ráð fyrir því að sérhæfingin verði meiri í bákninu stóra. Eins verði menn betur í stakk búnir til að færa fólk á milli eftir því hvar mest er að gera hverju sinni. Nú þegar Þjóðverjar krefjast þess t.d. að Íslendingar hætti hvalveiðum væri væntanlega, samkvæmt þessari kenningu, hægt að færa hinn nýja sérfræðing í gagnaflutningum um sæstreng yfir í hvalveiðimálin rétt um stund meðan mikið er að gera þar. Senda hann til Þýskalands til að útskýra fyrir Þjóðverjum hvers vegna Íslendingar vilja veiða hval. Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í röksemdafærslunum fyrir þessum breytingum. (Gripið fram í.)

Nú ítreka ég aftur, það breytir því ekki að það er mikilvægt að ráðast í endurskipulagningu, það er mikilvægt að skera niður og spara. En þetta er ekki leiðin til þess. Trúir því nokkur maður sem kynnir sér málið og les rökin fyrir því að þetta muni leiða til sparnaðar, miðað við að því er haldið fram að hugsanlega hætti einhverjir störfum einhvern tíma og þá verði kannski ekki ráðnir jafnmargir í staðinn og þá sparist peningar? Nei, blasir ekki við að þessi sameining, eins og svo margar illa ígrundaðar sameiningar, muni frekar leiða til kostnaðaraukningar?

Í lokin vildi ég nefna að í raun er verið að leggja niður ráðuneyti. Sumir hafa haldið því fram að þetta sé bara spurning um að breyta um nafn og kannski er það það sem stendur í frumvarpinu. En af greinargerðinni blasir við að forsætisráðherrann ætlar að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið því það er sérstaklega tekið fram að í tilviki umhverfisráðuneytisins, eingöngu umhverfisráðuneytisins, sé ekki verið að leggja niður ráðuneyti. Þar er eingöngu verið að stækka ráðuneytið sem fyrir er.

En ég ætlaði að nefna eitt jákvætt í þessu. Í þessu máli höfum við séð fólk úr ólíkum flokkum benda á sömu vandamálin. Menn hafa verið óhræddir við það, stjórnarliðar hafa m.a. gagnrýnt frumvarpið svo þetta sýnir okkur hvernig þingið getur, ef menn þora, ráðið því sem það vill ráða. Það er enda hlutverk þingsins, löggjafans, að segja framkvæmdarvaldinu til. Nú skulum við vona að sá jákvæði punktur verði mjög stór jákvæður punktur í málinu og sýni okkur hvernig þingið getur, þegar menn standa saman, tekið völdin af framkvæmdarvaldinu, náð völdunum aftur þangað sem þau eiga að vera og þingmenn allra flokka sammælist vonandi um að hverfa af þessari vanhugsuðu braut og vinna frekar saman að samræmingu og endurskipulagningu í Stjórnarráðinu sem virkar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.