138. löggjafarþing — 144. fundur
 16. júní 2010.
vatnalög, frh. 1. umræðu.
frv. iðnn., 675. mál (frestun gildistöku laganna). — Þskj. 1372.

[16:21]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frestun gildistöku vatnalaga nr. 20/2006. Fyrirkomulag vatnsréttinda hefur að mestu verið með sama hætti frá landnámi, eins og fram kemur í Grágás, Jónsbók og vatnalögunum frá 1923. Hefðin hefur verið sú að almannahagsmunir hafa verið tryggðir en myndast hefur séreignarréttur hjá landeigendum. Þannig segja lögin frá 1923, sem nú eru í gildi, að landeigendur hafi afnot og nýtingarrétt af vatni á landi sínu, þrátt fyrir að vatn sé almannagæði. Dómaframkvæmd síðastliðinna 90 ára hefur verið sú að meðhöndla vatn sem sérgæði. Þetta hefur m.a. komið fram í því að landeigendum hafa verið dæmdar eignarnámsbætur þegar vatn er tekið eignarnámi á landi þeirra. Bestu dæmin um eignarnámsbætur eru þær bætur sem Landsvirkjun hefur þurft að greiða landeigendum, til að mynda vegna virkjunar Blöndu, vegna Kárahnjúka og vegna Þjórsár. Jafnframt hafa einkaaðilar sem vilja nýta vatn á jörðum landeigenda í stórum stíl, til að mynda vegna útflutnings, þurft að greiða fyrir afnotin.

Vatnalögin ollu miklum deilum á Alþingi þegar þau voru sett vorið 2006. Deilurnar má ekki síst rekja til breytts orðalags á ákvæði um eignarráð yfir vatni, í stað þess að tala um afnota- og nýtingarrétt á vatni kváðu lögin á um eignarrétt landeiganda og það var gert til að skýra þá dómaframkvæmd sem tíðkast hafði og ég rakti hér áðan. Um þetta eru helstu eignarréttarsérfræðingar okkar Íslendinga sammála. Réttur almennings breyttist í engu við orðalagsbreytinguna en ákvæðið varð tvímælalaust skýrara. Um þetta snerust deilurnar. Sagt var að verið væri að einkavæða vatnið með breytingunni sem er að sjálfsögðu alrangt. Lögin kveða skýrt á um að heimilisnotkun njóti forgangs, þar á eftir notkun til búrekstrar og þar á eftir notkun sveitarfélaga.

Við 2. umr. um frumvarpið náðu þingflokkar samkomulagi um meðferð þess og gerði þáverandi iðnaðarráðherra grein fyrir því samkomulagi 15. mars 2006. Fól samkomulagið í sér að iðnaðarráðherra mundi, eftir að frumvarpið hefði verið samþykkt, skipa nefnd sem taka skyldi til skoðunar samræmi laganna við önnur ákvæði íslensks réttar sem varða vatn og vatnsréttindi. Samkomulagið fól jafnframt í sér að gildistöku vatnalaga yrði frestað til 1. nóvember 2007 en þá mundu eldri vatnalög frá 1923 jafnframt falla úr gildi. Nefndin var ekki skipuð og var gildistöku enn frestað til 1. nóvember 2008. Nefndin var loks skipuð þverpólitískt 15. janúar 2008 og skilaði hún af sér 215 blaðsíðna skýrslu þann 9. september 2008. Ein af fjórum tillögum nefndarinnar var að fresta skyldi gildistöku vatnalaganna frá 2006 og að ný nefnd yrði skipuð sem hefði það hlutverk að vinna að endurskoðun laganna. Eða eins og segir í skýrslu vatnalaganefndar, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi leggur vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaga nr. 20/2006 verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.“

Í kjölfarið var gildistöku vatnalaganna frestað til 1. júlí 2010. Þann 1. júlí 2009 var vatnalaganefnd 2 skipuð, ef hana má kalla svo, en nú bar svo við að ekki var leitað eftir fulltingi stjórnarandstöðunnar. Þann 1. desember 2009 skilaði nefndin drögum að frumvarpi um ný vatnalög til iðnaðarráðherra. Það er skemmst frá því að segja að iðnaðarnefnd voru ekki kynnt drög að frumvarpinu heldur var nefndinni í staðinn sent frumvarp um afnám vatnalaganna frá 2006, sem ætlunin var að gera að lögum nú fyrir þinglok. Þetta var skýlaust brot á samkomulaginu sem birtist í skýrslu vatnalaganefndar 1 sem kvað á um að nýtt frumvarp mundi leysa vatnalögin frá 2006 af hólmi. Ljóst er að rjúfa átti þá sátt sem náðst hafði og stefna Alþingi til ófriðar með þessu háttalagi.

Í stað þessarar málsmeðferðar hefur stjórnarandstaðan að Hreyfingunni undanskilinni lagt til að vatnalögum frá 2006 verði frestað og að tíminn verði notaður til að ná pólitískri sátt um þetta mikilvæga mál og að í framhaldinu verði lögfest frumvarp sem leysi lögin frá 2006 af hólmi.

Nú er þetta frumvarp komið fram þar sem vatnalögum er frestað til 1. október 2012.

Það er ánægjulegt að nú á lokametrum þessa þings hafi stjórnarflokkarnir fallist á að málsmeðferð sú sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á sé líklegust til sátta í þessu mikilvæga máli. Nú tekur við frumvarpssmíð þar sem sjónarmið verða vonandi sætt, þannig að málið sé úr sögunni.

Þetta var það sem ég vildi segja um þetta mál. Þar sem ég á örlítinn tíma eftir ætla ég aðeins að minnast á stórfrétt sem var að berast hér inn á borð.

Nú hafa bílalánin með erlendu gengistengingunum verið dæmd ólögleg og ljóst er að gríðarleg vinna liggur fyrir við það að koma því máli í horf, vegna þess að þetta mun snerta gríðarlega marga. Þetta mun snerta bankana og náttúrlega bíleigendur, þá sem tóku lánin o.s.frv., en ljóst er að Alþingi þarf að bregðast fljótt og vel við og því er kannski óviðeigandi að við séum nú á síðasta degi þingsins. Spurning er hvort ekki þurfi að framlengja þingið.



[16:29]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um það stóra álitamál hvernig við förum með vatnið á okkar kæra Íslandi, hvort það verði að meginhluta í höndum landeigenda eða fólksins sem býr í þessu landi, almennings. Stór orð hafa verið látin falla í umræðunni, bæði úr þessari pontu og víðar í samfélaginu, og jafnt hefur verið rætt um einkavæðingu á vatni og þjóðnýtingu á vatni. Hvort tveggja er fullöfgafullt í umræðunni enda er verið að reyna að fara einhvers konar bil beggja í þeirri stóru þrætu sem hefur reyndar spannað áratugi og gott betur. Upphaf vatnalaganna sem hafa verið í gildi frá 1923 má rekja til mikilla deilna um þetta mál um það leyti sem Íslendingar voru að öðlast sjálfsstjórnarrétt enda voru vatnsréttindi þá mjög til umræðu í samfélagi okkar og mjög leitað til þess að virkja ár og vötn á Íslandi. Nægir þar að nefna sögu stórskáldsins Einars Benediktssonar sem fór mikinn á því sviði. Upp úr því var reynt að setja vatnalög til frambúðar og það tókst með erfiðismunum eftir margra ára þrotlausa vinnu með lögunum frá 1923 sem í reynd eru enn í gildi. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál. Pólitísk sýn mín hefur ávallt verið sú að ekki megi kasta hagsmunum almennings fyrir róða í þessu máli. Vötn og ár eru hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar, hluti af því sem fólk vill hafa greiðan og skilmerkilegan aðgang að.

Vitaskuld þarf líka að tryggja nýtingarrétt landeigenda. Nú er svo komið að um 75% af landsvæðunum sem hér eru til umræðu tilheyra ríkinu en 25% landeigendum. Vitaskuld þarf að tryggja rétt þeirra og taka af öll tvímæli en að mínu viti var gengið of langt á rétt almennings í lögum nr. 20/2006 og sáttin slegin út af borðinu og þarf að vinna bráðan bug á því máli.

Í ágætri samantekt vatnalaganefndar sem kom út í september 2008 er einmitt komið inn á þessi atriði, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi telur nefndin nauðsynlegt að orðalag réttindaákvæðis 4. gr. laganna verði endurskoðað þannig að tryggt verði að fullnægjandi tillit verði tekið til hagsmuna almennings. Í þessu sambandi minnir nefndin á þann löggjafarvilja að baki samþykkt vatnalaga nr. 20/2006 að ekki yrði um að ræða breytingu á inntaki réttinda landeigenda frá núgildandi rétti. Skilgreining réttindanna verður þannig að taka mið af því að þetta markmið náist og þarf því að endurspegla samspil réttinda landeigenda og almennings þannig að ljóst sé að réttindi beggja séu takmörkuð vegna hagsmuna hins eins og skýrt má ráða (Forseti hringir.) af jákvæðri skilgreiningu vatnalaga nr. 15/1923 á umráða- og hagnýtingarrétti landeigenda.“

Þetta er í raun lykilatriði þessa máls og ber að hafa í huga að ekki verði gengið á hag almennings við nýja lagasetningu (Forseti hringir.) og verður að horfa mjög til þess í þeirri vinnu sem fram undan er.



[16:33]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Rétt í þessu voru að berast fréttir af því, alla vega á mbl.is, að gengistrygging lána hefði verið dæmd óheimil í Hæstarétti. Mér finnst ófært að hv. Alþingi fari heim við svo búið og skora ég á hæstv. forseta að halda þingi áfram á föstudaginn þannig að við getum rætt afleiðingar þessa og gert ráðstafanir til að bregðast við því.



[16:34]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að þingið er ekki á heimleið þannig að menn geta verið rólegir. Forseti hefur fyrir framan sig tvær fréttir á mbl.is sem eru misvísandi en auðvitað þarf að skoða þetta mál. Forseti tekur undir með hv. þingmanni um að þetta verði athugað hér.



[16:34]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og kunnugt er voru samþykkt á Alþingi ný vatnalög að ég hygg í mars árið 2006. Málið var ákaflega umdeilt en frumvarpið var lagt fram af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Undir lok málsmeðferðarinnar á þinginu varð samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að skipuð yrði nefnd til að fara yfir helstu ágreiningsefnin sem upp höfðu komið í tengslum við meðferð málsins á þinginu. Sú nefnd var skipuð þann 15. janúar 2008 undir forustu þáverandi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Ég átti sæti í þeirri nefnd ásamt m.a. hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur og fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Sú nefnd skilaði af sér skýrslu sem ég er með hér í höndunum, skýrslu vatnalaganefndar sem er upp á einar 215 blaðsíður. Skýrslan er samantekt á ýmsum þeim atriðum sem tekin voru til umfjöllunar á þinginu í því mikla málþófi sem stjórnarandstaðan á þeim tíma stóð fyrir til þess að berjast gegn því að lögin tækju gildi. Það varð úr að gildistöku laganna var frestað og þau hafa ekki enn tekið gildi.

Ýmislegt hefur verið sagt um þessi lög og að mörgu leyti tel ég að yfirlýsingar ýmissa hv. þingmanna séu ekki alveg í samræmi við raunveruleikann eins og hann er. Ýmsar rangfærslur hafa verið hafðar uppi í málinu og að mínu mati hefur verið kynt undir mikla óánægju í tengslum við lögin án þess að full ástæða væri til.

Ég gekk til þessa nefndarstarfs fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins fullur sáttarhugar til að reyna að ná þverpólitískri niðurstöðu í þessu mikla deilumáli. Nefndin lagði til fjórar tillögur sem fram koma í þeirri skýrslu sem ég hef hér í höndunum. Í fyrsta lagi að réttindaskilgreining 4. gr. vatnalaga yrði endurskoðuð. Í öðru lagi að markmiðsákvæði laganna yrði endurskoðað. Í þriðja lagi að stjórnsýsla vatnamála yrði endurskoðuð og í fjórða lagi að gildistöku vatnalaganna yrði frestað meðan nefnd ynni að því að semja tillögur að nýju frumvarpi eða breytingum á þeim lögum sem samþykkt voru árið 2006.

Eins og áður segir gengum við sjálfstæðismenn fullir sáttarhugar að þessum breytingum. Því hefur verið haldið fram hér í umræðunni, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að með hinu nýja frumvarpi hafi þáverandi ríkisstjórn ætlað að einkavæða vatnið, en ég vil benda hv. þingmanni á það að á bls. 165 í skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi minnir nefndin á þann löggjafarvilja að baki samþykkt vatnalaga nr. 20/2006 að ekki yrði um að ræða breytingu á inntaki réttinda landeigenda frá núgildandi rétti. Eins og áður segir virðist um þetta almenn samstaða.“

Það var sem sagt almenn samstaða um það í nefndinni að við sem að þessum lögum stóðum ætluðum ekki að breyta inntaki eignarheimilda landeigenda yfir vatnsréttindum á þeim jörðum sem um getur. Ætli það séu ekki um það bil 30% af öllu landi á Íslandi, 70% eru í eigu ríkisins.

Það er þannig að samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru og hafa verið frá árinu 1923 hafa ákvæði þeirra laga tryggt vatnsréttarhöfum réttindi yfir þeim vatnsréttindum sem á fasteign þeirra finnast. Það sést best á því að þegar slík vatnsréttindi hafa verið skert með einhverjum hætti hafa eigendur þeirra fengið bætur sem leiða af lögum um eignarnámsbætur og 72. gr. stjórnarskrárinnar sem ver eignarrétt manna. Um þetta þarf ekki að rífast vegna þess að fyrir þessu liggja fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar og um þennan skilning hafa allir helstu sérfræðingar á sviði eignarréttar fjallað á þessari öld og þeirri síðustu. Má þar nefna prófessorana Ólaf Lárusson og Ólaf Jóhannesson, dr. Gauk Jörundsson, Þorgeir Örlygsson, Eyvind G. Gunnarsson og Sigurð Líndal.

Það er því rangt sem haldið hefur verið fram í tengslum við þetta mál að menn hafi með samþykkt vatnalaganna frá 2006 ætlað að breyta einhverju varðandi það réttarástand sem gilt hefur um yfirráð landeigenda yfir vatni frá því sem verið hefur frá árinu 1923.

Í kjölfarið lagði nefndin sem ég átti sæti í til að gildistöku vatnalaga frá 2006 yrði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð yrði á vegum iðnaðarráðherra og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra ynni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar. Því voru það mikil vonbrigði þegar frumvarp til afnáms vatnalaga var lagt fram á þingi áður en hið nýja frumvarp leit dagsins ljós. Með því að haga málum þannig og vinnubrögðum má segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafi rofið þá ágætu þverpólitísku sátt sem við sem sátum í vatnalaganefndinni, og reyndum að ná þverpólitískri niðurstöðu um framtíðarskipan vatnamála, höfðum náð. Nú er lagt til að lögunum verði enn og aftur frestað þar til nýtt frumvarp til vatnalaga liggur fyrir. Ég tel, eins og ég sagði við (Forseti hringir.) 1. umr. málsins, að það sé rétta málsmeðferðin í þessu máli og ég hlýt að fagna henni.



[16:41]Útbýting:

[16:41]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma upp og segja nokkur orð í sambandi við vatnalögin en ég ætla þó að geyma efnislega umræðu um þau þangað til við tökum þá umræðu í þinginu. Ég vil jafnframt byrja á því að taka undir og gleðjast yfir því að við skyldum ná samkomulagi um að fresta gildistöku vatnalaganna frá 2006 og reyna að ná sátt um þetta mikilsverða mál, en eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum urðu talsvert mikil átök á þinginu 2005/2006 um vatnalögin. En ef skoðaðar eru umsagnir, sem sjálfsagt er að gera og ég er með þær hjá mér, frá Umhverfisstofnun, Bændasamtökunum, Lögmannafélaginu, Landssambandi veiðifélaga og fleiri aðilum, sér maður kannski að umræðan í fjölmiðlum og seinna meir hefur orðið eins og stormur í vatnsglasi og lögin frá 1923 eru enn í gildi og þeir dómapraxísar sem þar hafa gilt eru enn í gildi. Engu að síður var skipuð vatnalaganefnd á sínum tíma og hún komst að því m.a. að rétt væri að gera nokkrar endurbætur á vatnalögunum þar sem ekki þótti tryggt að fullnægjandi tillit yrði tekið til hagsmuna almennings tækju lögin gildi óbreytt. Og ég vil lýsa því yfir að við framsóknarmenn munum styðja slíka endurskoðun til að tryggja það að þeir hagsmunir almennings séu tryggðir. Jafnframt því að menn töldu að ekki væri fullnægjandi tillit tekið til hagsmuna almennings var mat vatnalaganefndar það að vænlegt til að skapa sátt í samfélaginu, sem alls ekki var á þessum tíma, væri að réttarreglur um vatn og vatnsréttindi yrðu leiddar í lög með heildstæðum hætti þar sem litið væri til ólíkra hagsmuna sem við auðlindina væru bundnir. Áleit nefndin nauðsynlegt að vatnalög, sem eins konar grundvallarlög um vatn og vatnsréttindi tækju með fullnægjandi og samræmdum hætti mið bæði af hagsmunum landeiganda og almennings, þannig að af lögunum yrði ráðið að hvaða leyti réttindi annars aðilans lytu takmörkunum vegna hagsmuna hins. Það er gríðarlega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu. Þær tillögur vatnalaganefndar lutu einkum að fimm þáttum. Ég tel mjög mikilvægt að við þingmenn komum okkur saman um að vinna á sambærilegan hátt og vatnalaganefndin gerði, að reyna að ná þverpólitískri sátt um það og ljúka þessu máli svo að lögin frá 1923 megi skýra enn frekar því að auðvitað hefur ýmislegt gerst frá þeim tíma, þó svo að dómapraxísinn hafi gert það að verkum að ekki hefur komið til neinna stórvandræða í raun og veru.

Ég vil þó nefna það í þessu samhengi, af því að við höfum gjarnan talað um að við séum að reyna að líta til Norðurlandanna um norrænt hagkerfi, á hið blandaða hagkerfi og hvernig það lítur best út, að ég hef aðeins farið í gegnum norsku vatnsréttarlögin sem og þau dönsku. Í Danmörku eru um 2.700 vatnsveitur og þar af eru 2.550 í einkaeigu en aðrar eru í eigu sveitarfélaga. Sérstök lög sem sett voru á árunum 2008 og 2009 í Danmörku um vatnsréttindi og fjármál vatnsveitna þar sem m.a. er sett þak á gjaldheimtu þeirra sem á að fara með vatnsréttindin taka tillit til 130 einkavatnsveitna sem dreifa yfir 200 þús. rúmmetrum af vatni. Hér á landi eru, ef ég man rétt, 60 ef ekki nær 70% af vatninu í eigu opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaga eða ríkis eða samfélagsveitna. Við þurfum að hafa það í huga þegar við förum í þessa umræðu að það er langur vegur frá þeim öfgum sem heyrast á báða bóga, ekki síst að við séum hér að fara að einkavæða vatn, og við þurfum að taka tillit til hagsmuna allra aðila. Ég fagna því að málið er komið í þennan farveg og við framsóknarmenn munum glaðir taka þátt í því að tryggja réttindi allra í þessu máli.



Frumvarpið gengur til 2. umr.