138. löggjafarþing — 144. fundur
 16. júní 2010.
erfðabreyttar lífverur, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 516. mál (EES-reglur, upplýsingagjöf til almennings). — Þskj. 1389.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:18]

[17:13]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessu máli er verið að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um erfðabreyttar lífverur. Ýmislegt í þessu er þannig að ekki er ástæða til að amast við því. Hins vegar er málið í þeim búningi sem það birtist okkur hér í þinginu ekki ásættanlegt og minni hluti umhverfisnefndar lagðist gegn því að málið væri afgreitt úr nefnd á þeirri forsendu að það krefðist mun betri athugunar áður en það væri klárað. Því munum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja nei við þessa atkvæðagreiðslu.



[17:14]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér erum við að innleiða í lög níu ára gamla tilskipun Evrópusambandsins. Innan mánaðar er von á skýrslu sambandsins um úttekt á áhrifum þessarar tilskipunar. Ég tel að það verði gagnlegt að skoða hana og þar af leiðandi hugsanlega endurskoða þessi lög innan skamms tíma. Við eigum sannarlega að sýna varkárni og gegnsæi í öllum þessum málum, en við verðum líka að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi, ekki síst í hátækniiðnaði eins og líftæknin er.



Frv.  samþ. með 28:15 atkv. og sögðu

  já:  AMG,  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁRJ,  BirgJ,  BVG,  GuðbH,  GLG,  JRG,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁJ,  ÁsbÓ,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  GÞÞ,  JónG,  ÓBK,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SKK,  TÞH,  UBK.
7 þm. (BJJ,  EyH,  GStein,  GBS,  SDG,  SIJ,  SF) greiddu ekki atkv.
13 þm. (HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  SER,  SkH,  SJS,  VigH,  ÞSa,  ÞrB) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við að auka almannarétt sem er mjög gott mál. Með því að taka þessa varúðarreglu upp tryggjum við að náttúran fái að njóti vafans. Ég held að við ættum að bíða, því innan mánaðar er væntanleg skýrsla Evrópusambandsins um mat á reynslu aðildarlandanna af þessari tilskipun. Við hefðum átt að taka þetta upp fyrir tveim eða þrem árum. Það skiptir engu máli hvort við bíðum nokkra mánuði lengur. Það er ljóst að tilskipunin veitir okkur svigrúm til þess að meta hvað eru séríslenskar aðstæður. Ég vona að ástæðan fyrir þeim flýti sem hér er í gangi sé ekki yfirvofandi kæra frá umhverfisráðuneytinu þess efnis að menn ætli sér að nýta þessi lög til þess að koma í veg fyrir þá nýsköpun og atvinnusköpun sem felst í kornrækt bænda víða um land. Ég vona að þetta sé ekki ástæðan fyrir því að þetta er keyrt í gegn. Ég vona að svo sé ekki. Ég sit hjá.



[17:16]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langaði bara að fagna því að komin er löggjöf um þetta mikilvæga málefni. Það er eiginlega skömm að því að við séum níu árum á eftir að setja löggjöf um erfðabreyttar lífverur. Ég skora á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka í gegnum ráðuneyti sitt löggjöf er varðar merkingar á erfðabreyttum matvælum hið fyrsta. Það hefur legið inni í ráðuneytinu allt of lengi.



[17:17]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Tilskipunin sem hefði átt að vera innleidd fyrir nokkrum árum er nú er loksins innleidd í íslenska löggjöf. Hún eflir rétt almennings til upplýsinga um erfðabreytta ræktun. Hún eflir rétt almennings til þess að hafa skoðun á hlutunum og koma þeim á framfæri. Það er allt í anda varúðarsjónarmiða umhverfisréttarins. Það er í anda góðrar umgengni um umhverfið og sjálfbærrar þróunar. Það er svo annað mál hvort þingheimur eða hv. umhverfisnefnd vill ræða hvort banna eigi eða takmarka með einhverjum hætti erfðabreytta ræktun hér á landi, hvernig eigi að gera það og hvernig þingheimur vilji standa að því. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra og hv. þingmenn í umhverfisnefnd til þess að ræða það og kynna sér málið frá öllum hliðum. Það er víða verið að ræða þessi mál (Forseti hringir.) í Evrópu, en það er hins vegar allt annað mál en það sem nú er verið að afgreiða hér.