138. löggjafarþing — 146. fundur
 16. júní 2010.
vatnalög, frh. 3. umræðu.
frv. iðnn., 675. mál (frestun gildistöku laganna). — Þskj. 1372.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:54]

[17:47]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frestun vatnalaganna. Það er vel að þessi leið hafi verið farin. Þetta er leið sátta sem við veljum. Nú hefst vinna þingsins við það frumvarp sem þegar hefur verið lagt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra, að lagfæra það og laga að sjónarmiðum beggja þannig að sátt megi ríkja um þetta mikla mál til frambúðar. Ég segi já við þessari frestun.



[17:48]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég segi náttúrlega já, en ég verð að viðurkenna að ég er hundfúl út í hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að hafa ekki lagt fram frumvarp að framtíðarlögum þannig að við þyrftum ekki að búa við þessa óvissu. Ég hefði viljað afnema þessi lög frá 2006, ekki fresta þeim.



[17:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mörg hundruð tölvupóstar sem okkur hafa borist um að standa vörð um almannaeign á vatni eiga að verða okkur hvatning til þess að endurskoða löggjöf sem snýr að auðlindum Íslendinga til sjávarins og til landsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við þurfum að endurheimta eignarhald á orkufyrirtækjum á Suðurnesjum og er ég að vísa þar til sænsk-kanadíska skúffufyrirtækisins Magma Energy, sem sennilega hefur komið hingað til lands með ólögmætum hætti. Þetta er nokkuð sem ráðherrar í ríkisstjórn hafa lýst yfir vilja til að endurskoða og við þurfum að endurskoða alla löggjöf sem snýr að eignarhaldi á orkunni og þeim fyrirtækjum sem vinna hana fyrir okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[17:49]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að verið sé að greiða atkvæði um að fresta gildistöku vatnalaganna frá árinu 2006 enn frekar. Með því er verið að standa við það þverpólitíska samkomulag sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka í vatnalaganefnd gerðu með sér. Það stóð ekki til í upphafi af hálfu ríkisstjórnarinnar að standa við þetta samkomulag og ýmis orð hafa verið látin falla um áhrif hinna nýju laga. En eins og ég las nú upp úr skýrslu vatnalaganefndar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu aðild að að semja þá liggur fyrir að með nýju vatnalögunum frá 2006 stóð ekki til að gera neinar efnisbreytingar á réttindum vatnsréttarhafa frá (Forseti hringir.) gildandi lögum frá 1923. Þannig að ýmsar fullyrðingar sem m.a. hv. þingmaður hefur haft í frammi um að með því hafi átt að einkavæða vatnið (Forseti hringir.) og ég veit ekki hvað og hvað standast ekki eins og flokkssystir (Forseti hringir.) hans staðfesti í þessari skýrslu. (Gripið fram í.)



Frv.  samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AMG,  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BÁ,  BirgJ,  BJJ,  BjarnB,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  JRG,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓBK,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SER,  SII,  SIJ,  SKK,  SF,  SSv,  TÞH,  UBK,  VBj,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
14 þm. (HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  SkH,  SJS,  VigH,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:51]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég styð það að fresturinn verði lengdur til að lögin taki ekki gildi frá 2006, aftur á móti er ég ósátt við að þau hafi ekki hreinlega verið látin falla úr gildi af því að þetta vekur óvissu hjá þjóðinni. Það hefur rignt yfir okkur fleiri hundruð tölvupóstum þar sem ríkir mikil óvissa meðal almennings. Satt best að segja hefur maður fundið að fólk treysti því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki upp á því ef hann kæmist til valda að fara að einkavæða vatnið okkar þannig að mér finnst mjög mikilvægt að við — (Gripið fram í: Hvaða, hvaða …) Þetta er það sem hefur komið fram, hv. þingmenn, í tölvupóstum. (Gripið fram í: Popúlismi.) Þetta er enginn popúlismi, þetta er það sem — (Gripið fram í.) Gæti ég fengið hljóð hér? (Gripið fram í: Fyrirsláttur.)

(Forseti (ÁRJ): Gefið hv. þingmanni hljóð hér í ræðustól Alþingis.)

Þetta er það sem hefur komið fram hjá almenningi sem hefur verið í sambandi við mig í fleiri hundruð tölvupóstum. Ég vil taka það fram að mér finnst óþarfi að ala á óvissu hér á slíkum tímum sem við búum við núna. (Forseti hringir.) Því hefði mér fundist eðlilegt að þetta hefði verið fellt úr gildi.



[17:53]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég mun segja já við þessu og við framsóknarmenn erum ánægðir með að þessi leið skuli vera farin, leið sátta. Það er nauðsynlegt að fara yfir þetta, m.a. til að tryggja almannarétt, en það er líka nauðsynlegt að fara yfir þetta til að átta sig á því um hvað þetta mál hefur snúist. Ég held að umræðan hafi farið út í öfgar.

Við höfum talsvert rætt um það hér í þingsal að við séum á norrænni leið. Ég hef kynnt mér vatnsréttindi og vatnalög bæði í Noregi og í Danmörku. Í því sambandi vil ég nefna að í Danmörku eru 2.700 vatnsveitur, þar af eru 2.550 í einkaeigu, þar af eru 130 þeirra sem dreifa meira en 200.000 rúmmetrum af vatni á ári. Á Íslandi eru vatnsréttindi í höndum opinberra aðila, ríkis, sveitarfélaga og í samfélagslegri eigu, á milli 60 og 70%, nær 70, þannig að við skulum ræða þetta skynsamlega og taka á hagsmunum allra til hlítar í þessari sáttaleið.