138. löggjafarþing — 147. fundur
 24. júní 2010.
tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, 3. umræða.
frv. fél.- og trn., 672. mál (ráðstöfun eignar til veðhafa). — Þskj. 1365, nál. 1418, brtt. 1424 og 1426.

[11:57]
Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

Með frumvarpinu er lagt til úrræði fyrir einstaklinga sem greiða fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum til heimilisnota. Um er að ræða söluúrræði til að gera einstaklingum sem keypt höfðu fasteign til heimilisnota en ekki selt fyrri eign þegar efnahagshrunið varð, kleift að losa sig við aðra eignina með því að ráðstafa henni til veðhafa á ætluðu markaðsvirði fasteignarinnar. Telst slík ráðstöfun fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara til þeirra veðhafa sem eigninni er ráðstafað til samkvæmt frumvarpinu.

Við samningu frumvarpsins var lagt upp með að fela réttarfarsnefnd að skoða sérstaklega hvernig frumvarpið samrýmdist eignarréttarákvæðum stjórnarskrár, hvernig það mundi virka í tengslum við önnur úrræði og samræmanleika þess við ákvæði réttarfarslaga. Formaður réttarfarsnefndar, Markús Sigurbjörnsson, kom á fund nefndarinnar og kom í þessu máli sem öðrum með afar gagnlegar ábendingar.

Nefndin fjallaði sérstaklega um atriði er lúta að tilfærslu veðréttinda milli eigna þegar önnur eignin er yfirveðsett en hin ekki. Samkvæmt frumvarpinu getur skuldari valið hvort hann skilar eign til veðhafa og þá, í samráði við umsjónarmann, hvorri eigninni hann skilar. Gert er að skilyrði að heildarveðsetning eignanna sé að lágmarki 75% af samanlögðu verðmati og er því ljóst að svo getur farið að sú fasteign sem skuldari vill losa sig við sé ekki veðsett að fullu. Einnig getur eignin sem skuldari ákveður að skila verið síðri veðkostur, t.d. vegna staðsetningar eða ástands en sú sem hann ákveður að halda. Í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef samanlögð fjárhæð veðkrafna á þeirri eign sem ráðstafa skal til veðhafa er lægri en 100% af verðmati hennar skuli umsjónarmaður leita samninga við kröfuhafa beggja fasteigna og skuldara um sanngjarna lausn á því hvernig farið skuli með eignarhlut skuldarans í þeirri fasteign sem ráðstafa skal til veðhafa með það að markmiði að skuldari geti nýtt sér verðmæti eignarhlutarins við eignaráðstöfunina. Þó er við það miðað í öðrum ákvæðum frumvarpsins að veðréttindi séu að jafnaði flutt milli fasteigna þannig að velji skuldari að skila fasteign sem er undirveðsett skuli færa veðkröfur af þeirri eign sem hann heldur eftir þar til veðrými á þeirri eign sem hann skilar er fullnýtt. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvað gera skuli náist ekki samningur milli aðila um sanngjarna lausn. Nefndin fjallaði sérstaklega um þetta fyrirkomulag í tengslum við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og telur að með ákvæðinu sé gengið nærri stjórnarskrárvörðum eignarréttindum veðhafa. Nefndin telur því nauðsynlegt að leggja til breytingar á frumvarpinu til þess að skýrt sé kveðið á um hvernig fara eigi með veðréttindi, m.a. til að veðréttur kröfuhafa og þar með eignarréttur þeirra sé tryggður.

Nefndin leggur því til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Í fyrsta lagi leggur nefndin til að ákvæði 4. gr. breytist á þann hátt að veðhafar geti valið að færa veðkröfur sínar yfir á þá eign sem skilað er til að fylla upp í veðrými þeirrar eignar. Með því er ekki lögð sú skylda og kvöð á þá að færa til veðböndin en telji þeir rétti sínum betur borgið á þeirri eign sem skilað er hafa þeir þennan valkost. Sé eignin sem skilað er yfirveðsett gefur umsjónarmaður veðhöfum kost á að færa veðbönd sín af þeirri eign og yfir á þá sem skuldari heldur eftir.

Í öðru lagi leggur nefndin til að sé veðrými þeirrar eignar sem skilað er ekki fullnýtt og kjósi veðhafar ekki að flytja veðbönd sín yfir á þá eign skuli umsjónarmaður finna mismun uppreiknaðra eftirstöðva veðskulda á þeirri fasteign og 100% af verðmati hennar og gefa út tryggingarbréf til skuldara að fjárhæð þess mismunar. Tryggingarbréfið stendur aftast í veðröð, er með uppfærslurétti og ber sömu vexti og verðtryggingu og almenn fasteignalán Íbúðalánasjóðs. Í tryggingarbréfinu skal kveðið á um að sá veðhafi sem fær fasteigninni ráðstafað til sín skuli við sölu hennar ávallt leitast við að ráðstafa henni á markaðsverði og leita hæstu tilboða. Við söluna skal veðhafinn ráðstafa til skuldara þeim hluta af söluverði sem er umfram það sem þarf til að greiða rétthærri veðskuldir og endurgreiða veðhafanum veðskuldir sem hann kann að hafa leyst til sín, allt þar til uppreiknaðar eftirstöðvar tryggingarbréfsins hafa þannig verið greiddar. Myndist við sölu hagnaður umfram áhvílandi veðskuldir, þar með talið tryggingarbréf skuldara, fær skuldari ekki hlutdeild í þeim hagnaði enda er hann ekki eigandi fasteignarinnar. Eftir sölu fasteignarinnar og ráðstöfun söluverðs skal tryggingarbréfið máð af henni þótt söluverðið hafi ekki hrokkið til að greiða eignarhluta skuldara að nokkru leyti eða öllu.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 6. gr. til einföldunar á því ferli sem fer fram þegar veðhöfum er gefinn kostur á að leysa til sín fasteignina sem skilað er.

Í fjórða lagi leggur nefndin til breytingar á því tímabili sem kveðið er á um að síðari eign skuli hafa verið keypt á. Í frumvarpinu er kveðið á um að eignin skuli hafa verið keypt á tímabilinu 1. janúar 2007 til 1. nóvember 2010 og var við það miðað að skuldari hefði þá haft nokkurt svigrúm til að losa sig við eign sína áður en ástand versnaði til muna á fasteignamarkaði. Nefndin kynnti sér þróun á fasteignamarkaði utan höfuðborgarsvæðisins og telur ljóst að þar hafi ástandið versnað mun fyrr. Leggur nefndin því til að hið fyrra tímamark verði 1. janúar 2006 til að úrræðið nýtist sem skyldi. Þá verði jafnframt kveðið á um að við sérstakar aðstæður sé heimilt að víkja frá því tímamarki. Áréttar nefndin að þessa undanþáguheimild skuli skýra mjög þröngt en hún gæti komið til álita vegna staðbundinna aðstæðna á fasteignamarkaði og t.d. þegar eign hefur verið til sölu um langan tíma en ekki selst.

Í fimmta lagi leggur nefndin til þá breytingu að sé umsókn skuldara um eignaráðstöfun samþykkt skuli umboðsmaður skuldara endurgreiða kostnað vegna verðmats fasteignasala á eignunum.

Þá leggur nefndin til breytingar sem miða að einföldun ákvæða og lagfæringar á texta sem og orðalagi til samræmis við athugasemdir frá formanni réttarfarsnefndar.

Að lokum telur nefndin rétt að benda á og ítreka að skammur tími vannst til yfirferðar á tillögum að breytingum á frumvarpinu. Samkvæmt mati félags- og tryggingamálaráðuneytis eru um 1.000–1.500 heimili í vanda vegna þess að greiða þarf fasteignaveðkröfur af tveimur eignum en ekki hefur tekist að selja aðra eignina. Áréttar nefndin því mikilvægi þess að lögin verði samþykkt sem fyrst og úrræðið nýtist strax við gildistöku laganna þegar umboðsmaður skuldara hefur starfsemi sína. Nefndin mun eftir sem áður halda áfram skoðun á einstökum atriðum og spurningum og fylgjast náið með framkvæmd laganna þegar að gildistöku þeirra kemur. Hyggst nefndin leggja til breytingar, jafnvel strax í haust, telji hún þess þörf til að tryggja skilvirkni úrræðisins.

Undir þetta nefndarálit skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ögmundur Jónasson og Pétur H. Blöndal, með fyrirvara.

Við leggjum til, hæstv. forseti, að þetta frumvarp sé samþykkt.



[12:07]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Þetta er vandi sem kom í ljós eftir hrun. Áður hafði verið tiltölulega auðvelt eða fram til svona 2007 var tiltölulega auðvelt að selja fasteignir og þá tóku menn þá áhættu sem áður fyrr var talin ótæk að menn keyptu eign án þess að hafa selt þá gömlu. Gamla reglan var sú að menn keyptu aldrei fyrr en þeir voru búnir að selja gömlu eignina. En þetta breyttist og menn tóku þessa áhættu og sitja uppi með tvær eignir sem falla í verði og eru með skuldabréf sem hækka í verði og lenda þar af leiðandi í óleysanlegri stöðu.

Frumvarpið gengur út á það að haldið sé eins konar uppboð á þeirri eign sem maður ákveður í samráði við umsjónarmann að skila. Um það uppboð er fjallað í 6. gr. og er það afskaplega mikilvægt og snjallt, ég lít á það sem kjarnastykki frumvarpsins. Á frumvarpinu voru gerðar þó nokkuð miklar breytingar sem beinast að þessu kjarnastykki.

Vandinn sem kemur upp er tvíþættur, annars vegar ef eignin sem er skilað er yfirveðsett, þ.e. ef kröfur sem á henni hvíla eru hærri en matsverðið. Þá er kröfuhöfum gefinn kostur á að flytja veðið yfir á hina eignina sem maðurinn á og þeir munu yfirleitt velja þá leið vegna þess að þá helst krafan áfram, maðurinn skuldar hana, jafnvel þó að sú eign sé yfirveðsett og ef maðurinn fer í greiðsluaðlögun eiga þeir kröfuhafar möguleika á því að fá eitthvað upp í kröfur sínar. Þeir munu því yfirleitt alltaf velja að flytja veðið. Ef þeir gera það ekki, er það bara fínt, þá lækkar skuld skuldarans sem því nemur vegna þess að hann losnar við allar þær kröfur sem fylgja eigninni sem skilað er.

Ef eignin er undirveðsett, þ.e. ef kröfurnar ná ekki matsvirði samanlagt, er illt í efni og var reynt í nefndinni að leysa þann vanda hvað gerist með þá eign sem skuldarinn á í eigninni sem er skilað. Farin var sú leið að gefið er út skuldabréf með ákveðnum kvöðum á þá veðhafa sem eru á undan. Þetta er lausn sem ég hef dálitlar efasemdir um og sé ekki alveg að gangi upp, ég vildi að sú krafa færi á fremri veðrétt með einhverjum afskriftum, jafnvel 60%, en menn töldu að það væri of meiðandi fyrir eignarréttinn að flytja kröfuna fram fyrir síðasta veðrétt þannig að hún yrði næstsíðust. Núna er hún síðust og það á að gæta hennar þegar eignin er seld. En þá er að sjálfsögðu lítill hvati hjá eiganda eignarinnar sem er veðhafinn á síðasta veðrétti á undan þessu tryggingarbréfi, hann hefur í sjálfu sér lítinn hvata til þess að hækka verðið þannig að skuldarinn fái eitthvað upp í sitt, en honum ber að sjálfsögðu að gera það. Ef söluverðið er gróflega of lágt er hægt að gera athugasemdir við það.

Það eru gerðar gífurlegar breytingar á þessu frumvarpi og ég held að þær séu flestar til bóta og segi manni að þessi átta daga bið hefur vonandi skilað sér í betri framkvæmd og skilvirkari og einfaldari lagasetningu.

Ég flyt breytingartillögu við þetta frumvarp, frú forseti, en þar er sama hugsunin í frumvarpinu eins og áður, að skuldari þurfi að hafa eitthvað fyrir þessu. Í umsókninni á hann að skila alls konar eyðublöðum o.s.frv. og hlaupa á milli skrifstofa. Reyndar er sagt að umboðsmaður eigi að hjálpa honum við þetta en allar þessa upplýsingar hefur umboðsmaður rafrænt. Í rauninni þyrfti maðurinn bara að skila nafni sínu og kennitölu og segja hvaða eignir hann vill að falli undir þetta. Svo bæti ég inn að geta skuli um þær eignir sem ekki eru á almennum skrám, þ.e. hjá fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum eða Íbúðalánasjóði, en það getur verið erfitt að finna kröfuhafann þar. Að öðru leyti liggur þetta allt saman fyrir hjá venjulegu fólki og mér finnst alveg ástæðulaust að láta fólk hlaupa út um allan bæ og valda vinnutapi og vinnutjóni hjá opinberum starfsmönnum og sjálfu sér, ekki veitir nú af að afla tekna til að borga skuldirnar. Ég legg því til að menn samþykki þessa breytingartillögu sem er mjög mikil einföldun á þessu ferli þegar menn sækja um og minnkar vinnu við þetta allt saman. Ég hugsa að þeir skuldarar sem í þessum vanda eru verði þakklátir fyrir ef þeir þurfa bara að skila kennitölu og nafni og segja hvaða eignum eigi að skila. Menn sögðu að skuldarinn yrði að leggja eitthvað á sig til að hann kynni að meta þetta og ég stakk upp á því að hann yrði þá látinn labba upp á Esjuna.



[12:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Forsaga þessa máls er eins og hinna tveggja sem við höfum rætt í dag, að fyrst koma inn í þingið nokkur mál frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem félags- og tryggingamálanefnd tekur síðan og gerir viðamiklar breytingar á og flytur sjálf hér þrjú frumvörp og þetta er eitt af þeim. Megininntak þessa frumvarps er að koma til móts við þær fjölmörgu fjölskyldur og einstaklinga sem sitja uppi með tvær eignir, hafa ákveðið að fjárfesta í stærra eða nýrra húsnæði fyrir fjölskyldu sína, þurft að flytja eða eitthvað slíkt, en hafa ekki náð að selja fyrri eignina. Hér er verið að reyna að smíða úrræði utan um þetta álitaefni og verkefni, en talið er að um 1.000 til 1.500 aðilar gætu nýtt sér þetta úrræði.

Af öllum þeim pakka sem við erum að fara með í gegn hér í dag tel ég að þetta frumvarp hafi þá skírskotun að geta fækkað þeim aðilum sem þurfa hugsanlega að nýta önnur greiðsluvandaúrræði sem við höfum fjallað um fyrr í dag og því fagna ég þessu frumvarpi. Hins vegar hefur það þurft að taka miklum breytingum og hefur verið unnið talsvert í því. Ég tel að þær miklu breytingar sem hafa orðið á þessu máli í störfum nefndarinnar séu mjög til bóta og það hafi verið algjörlega nauðsynlegt að fá þennan aukadag sem við erum að nota í dag. Með því gátum við fengið fram athugasemdir frá réttarfarsnefnd vegna þess að hér erum við að sjálfsögðu að fást við grundvallarréttindi í samfélagi okkar, veðréttindi. Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að kröfuhafar séu kannski ekki í fjölmiðlum og í umræðunni vinsælustu aðilarnir sem rætt er um eru þetta engu að síður einstaklingar sem hafa samið sín á milli í sumum tilfellum, samið við lánastofnanir um ákveðin atriði og báðir aðilar vilja að sjálfsögðu uppfylla þann samning. Við þurfum bara að tala um hlutina eins og þeir eru. Síðan verður forsendubrestur í samfélaginu sem veldur því að erfiðara er að koma eignum í verð, erfiðara að losa sig við fasteignir og það veldur því að menn sitja uppi með eignir.

Þetta er viðfangsefnið. Ég tel að við höfum náð að einhverju leyti utan um það og vonast til að þetta virki allt saman vegna þess að það hlýtur að vera tilgangurinn að hægt sé að nota úrræðin sem við erum að smíða.

Nefndin fjallaði náttúrlega talsvert og mest í rauninni um þau atriði sem lúta að tilfærslu veðréttinda vegna þess að það geta komið upp tilvik þar sem einstaklingur situr uppi með tvær eignir og önnur er yfirveðsett en hin ekki. Lántakinn ákveður svo að biðja um að annarri verði skilað og þá er spurning hvort að færa eigi til veðin. Þetta er að sjálfsögðu stór spurning og varðar grundvallarréttindi sem fjallað er um í stjórnarskránni, eignarréttinn. Þetta eru ekki einfaldar spurningar, en ég tel að í vinnu nefndarinnar hafi frumvarpið tekið mjög miklum breytingum, efnislega sé það orðið gott. Ég tel að þetta úrræði geti nýst og vonast til að þetta verði til bóta fyrir þennan stóra hóp, sem kom mér talsvert á óvart hversu stór er.

Við ræddum líka talsvert um tímasetninguna á þessu, hvort og með hvaða hætti ætti að takmarka tímann sem þær eignir sem frumvarpið fjallar um næðu til. Eftir að hafa fengið ábendingar og farið aðeins yfir stöðuna hjá sveitarfélögum á landsbyggðinni ákváðum við að færa tímamarkið aftur til 1. janúar 2006. Ég tel að það sé ágætt, þá geta fleiri nýtt sér þessi úrræði. Þetta er þá fyrra tímamarkið, eignirnar þurfa að hafa verið keyptar á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2010. Og það er talið af hálfu nefndarinnar að þetta sé svigrúm sem eigi að nýtast flestum sem hafa lent í þessum erfiðu aðstæðum. Engu að síður lögðum við líka til undanþáguheimild um að hægt sé að víkja frá þessu tímamarki við mjög sérstakar aðstæður en tókum skýrt fram, og gerum það í nefndarálitinu að mig minnir, að sú undanþáguheimild verði skýrð þröngt vegna þess að það verður náttúrlega að hafa einhverja stjórn á því hvað gert er þarna. Ég tel að þessi breyting sé mikilvæg, sérstaklega fyrir landsbyggðina þar sem menn vita að fasteignamarkaður hefur þróast með öðrum hætti en í þéttbýlinu og á höfuðborgarsvæðinu og var í rauninni ekki í uppsveiflu á árinu 2007 alls staðar úti á landi þótt mikið hafi verið í gangi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég fagna því, frú forseti, að við náðum lendingu í málinu. Ég verð að játa að á tímabili var ég hálfefins um það vegna þess að mér fannst standa svo mikið út af, en með vísan til þess góða samráðs og góða samstarfs sem nefndin einsetti sér að vinna í náðum við þessu. Ég vil svo óska okkur öllum og sérstaklega sjálfri mér til hamingju með það, efasemdarmanneskjunni um þetta mál, að geta staðið hér og stutt það.



[12:19]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Með þessu máli, sem er um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, erum við að reyna að losa enn einn af hlekkjum heimilanna, reyna að leysa úr þeim mikla vanda sem hefur steðjað að íslenskum heimilum og íslenskri þjóð eftir bankahrunið og þeirri miklu skuldsetningu sem við eigum við að etja. Þetta er þriðja málið í fjögurra mála pakka sem er til umræðu í dag en öll eiga þau sameiginlegt að reyna að verja búsetu fólks, tryggja að fólk geti búið áfram í húsum sínum og tapi þeim ekki. Við ölum öll þá von í brjósti að þessi pakki muni leysa mjög mörg af vandamálum þeirra sem verst eru settir. Síðan eru auðvitað fleiri mál í farvatninu sem koma væntanlega inn á þingið í september og á líka eftir að taka á því hvernig það hefur áhrif á heildarstöðuna að gengistrygging lána hefur verið dæmd ólögleg.

Það hefur verið fjallað um það hér í dag, og ég ætla aðeins að fara yfir það, að í raun er dapurlegt að líta til baka og átta sig á því hversu réttarstaða lántakenda eða skuldara hefur verið bágborin samanborið við réttarstöðu lánveitenda. Það er dapurlegt að sjá þegar við vinnum að þessum málum í félags- og tryggingamálanefnd að þar er vitnað í að frjálsri greiðsluaðlögun einstaklinga var komið á í kringum eða upp úr árinu 1990 á Norðurlöndunum eftir mikla erfiðleika sem þá voru þar. Það er dapurlegt að við skyldum ekki taka þá löggjöf upp strax og innleiða hana hér á Íslandi vegna þess að þá hefðum við væntanlega staðið mun betur í þeim erfiðleikum sem hér steðja að.

Það er vandmeðfarið þegar gripið er inn í og oft er reynt að grípa inn í hluti sem eru þegar liðnir, samninga sem hafa verið gerðir og þar þarf að gæta jafnræðis. Það þarf líka að gæta þess að ekki sé gengið á þann rétt sem menn hafa og þar hefur auðvitað alltaf verið yfirvofandi sá eignarréttur sem bundinn er í stjórnarskrá. Öll vinnan hefur orðið að miðast við að reyna að finna þá fínu línu að við búum ekki þannig um málin að þau verði endalaus ágreiningsefni fyrir dómstólum næstu áratugina. Það er oft erfitt að sætta sig við þessa fínu línu, að menn þurfi að gæta hagsmuna beggja hópanna, en ég held að með þeirri umfjöllun sem hér hefur átt sér stað í félags- og tryggingamálanefnd hafi menn reynt að feta línuna og gert það býsna vel með aðstoð færustu manna á þessu sviði og dyggri aðstoð réttarfarsnefndar.

Það hefur komið fram að þetta mál mun snerta á milli 1.000 og 1.500 eignir, eða einstaklinga og fjölskyldur sem eiga tvö heimili. Fólk treysti á að geta losað sig við eign eins og það gat árin á undan en sat síðan uppi með það eftir hrunið að geta ekki losað sig við eignina, bæði vegna staðsetningar en ekki síður vegna þess að fasteignamarkaðurinn fraus. Við erum sem sagt að reyna að losa þessa aðila úr fjötrum og leyfa þeim að skila annarri eigninni án þess að í raun sé verið að fella annað niður. Þeir fá að afhenda 100% veðsetta eign þeim sem eiga skuldirnar og komast þá í eðlilegt umhverfi með þá eign sem eftir er, sem væntanlega er heimili þeirra.

Það hefur verið reynt að gera lagaumgjörðina sem skilvirkasta og þægilegasta og tryggja að hún nái utan um þann hóp sem lenti í þessum erfiðleikum í kringum hrunið. Auðvitað hefur ekki verið hægt að færa tímamörkin endalaust aftur í tímann, en við færðum þetta fram. Við miðuðum við 1. janúar 2007 en eftir að hafa skoðað upplýsingar um sölur, m.a. úr fasteignaskrá, um að markaðurinn fraus fyrr úti á landi var þetta fært til 1. janúar 2006. Eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér vakti athygli á var þar að auki sett inn ákvæði um að í sérstökum undantekningartilfellum væri hægt að skoða sölur sem átt hefðu sér stað fyrir þann tíma. Þarna er ekki bara um að ræða að menn hafi átt tvö heimili heldur getur líka verið að fólk hafi veðsett húsin sín á meðan það var að byggja nýbyggingar og þær séu nú fokheldar eða lítt kláraðar en standi fyrir miklum skuldum. Með þessu úrræði er þá möguleiki að losa þær eignir.

Ég vona að framkvæmdin á þessu gangi eftir og gangi vel fyrir sig. Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem telur að það sé beinlínis verið að leggja á þá sem þurfa að leita úrræða mikla vinnu. Það kom ítrekað fram í störfum nefndarinnar að þó að í frumvarpinu og nefndarálitinu sé fjallað um hvaða gögn þurfi að liggja fyrir mun umboðsmaður eða umsjónarmaður fara með málið. Hann mun geta aðstoðað og kallað eftir öllum þessum gögnum þannig að fólk verður ekki sent í vinnutíma út um allan bæ til að leita að gögnum. Það mun verða kallað eftir því sem liggur fyrir rafrænt og hægt er að kalla eftir innan stjórnsýslunnar með þeim hætti þannig að það er engin ástæða til þess að breyta þessu í frumvarpinu vegna hugsanlegs ótta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn telji upp þau atriði sem eiga að liggja fyrir þannig að það sé klárt og ekki verði ágreiningur um það.

Ég vil þakka samstarfið í félags- og tryggingamálanefnd. Það er dæmigert fyrir það sem er að gerast í þinginu miklu víðar en menn halda, stjórn og stjórnarandstaða hafa tekið höndum saman um að leysa mál og unnið mjög vandaða, heiðarlega og málefnalega vinnu. Þannig á það auðvitað að vera og þetta er dæmi um mál sem var unnið þannig. Allan tímann var verið að leita að lausnum, draga fram viðfangsefni sem þurfti að leysa og síðan var leyst úr þeim í sátt og samlyndi og með góðum árangri sem ég treysti á að eigi eftir að gagnast mjög mörgum sem eru yfirskuldsettir og eiga á hættu að tapa húsnæði sínu.



[12:25]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég átti ekki annað erindi hingað upp en að þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd kærlega fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég held að þó að lítill tími hafi verið til þess að sníða af því vankanta sé gríðarlega mikilvægt að gera það að lögum núna vegna þess að það nær til stórs hóps fólks, 1.000–1.500 fjölskyldna þar sem staðan er aðkallandi og brýn, þar sem fólk situr með tvær eignir, báðar skuldsettar, og getur við hvoruga losnað. Við vitum hvílíka angist og hve mikla erfiðleika slíkt getur lagt á fjölskyldur og hver vika sem hægt er að stytta þá stöðu um er mikilvæg. Því er ákaflega brýnt að það takist að leiða málið til lykta áður en gert verður hlé á þingstörfum.

Ég veit að það var vandasamt hvernig fara skyldi með mál í þeim tilfellum þegar verið er að skila af sér eign þar sem veðrými er ekki að fullu nýtt. Þar voru uppi hugmyndir um að þá væri hægt að færa af hinni eigninni. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að þar geta auðvitað átt aðild veðhafar, einstaklingar, ekki bankar eða fjármálafyrirtæki, heldur jafnvel iðnaðarmenn sem eiga bara fjárnám fyrir vinnulaunum sínum sem þá og þeirra fjölskyldur getur munað stórlega um. Þess vegna er hæpið að fara fram með mikilli hörku gagnvart stöðu þeirra kröfuhafa. Ég vonast til þess að sú leið sem farin er með útgáfu tryggingarbréfs leysi það mál fyrir flesta sem þannig er ástatt fyrir. Auðvitað verður langalgengast að fólk losi frá sér þær eignir sem eru yfirskuldsettar, þar sem þetta vandamál er ekki fyrir hendi. Þess vegna er brýnt að afgreiða málið eins og það liggur fyrir nú þannig að á annað þúsund aðilar sem eiga við þennan skelfilega vanda að stríða fái lausn á honum. Allir geta svo auðveldlega sett sig inn í hversu erfitt það er að sitja uppi með tvær skuldsettar eignir. Það er full ástæða til að þakka nefndinni fyrir vel unnið starf í þessu efni.