138. löggjafarþing — 147. fundur
 24. júní 2010.
framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum, 2. umræða.
stjfrv., 662. mál (viðurlög, heimavinnsla og aðilaskipti að greiðslumarki í mjólkurframleiðslu). — Þskj. 1284, nál. 1417.

[14:59]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til breytinga á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Nefndarálitið er frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Frumvarpið var lagt fram af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir umfjöllun í ríkisstjórn og með samþykki hennar lagt hér fram.

Nefndin hefur fjallað um málið. Sambærilegt frumvarp var rætt í nefndinni á 136. löggjafarþingi. Þá mættu á fundi nefndarinnar Ólafur Friðriksson, Sigurgeir Þorgeirsson og Jóhann Guðmundsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Páll Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Ólafur Magnússon og Hróbjartur Jónatansson frá Mjólku, Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Elín Björg Jónsdóttir frá BSRB, Þórólfur Sveinsson frá Samtökum kúabænda og Pálmi Vilhjálmsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Ítarlegra umsagna var leitað og málið tæmt að mínu mati.

Samkvæmt 1. gr. búvörulaga er tilgangur þeirra meðal annars að stuðla að jöfnuði á milli mjólkurframleiðenda hvað varðar afurðaverð og markað. Þannig er afurðastöðvum skylt að haga greiðslu fyrir innlagðar búvörur til samræmis við ákvæði laganna eða samninga sem gerðir eru á grundvelli þeirra. Það er sem sagt í gildi jöfnuður, jafnræði sem fylgt er og fylgja ber í anda og í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Taki mjólkursamlag við mjólk af framleiðanda umfram greiðslumark hans og hún verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Þó getur framkvæmdanefnd búvörusamninga heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur.

Í VII. kafla búvörulaga eru svo ákvæði er varða stjórn búvöruframleiðslunnar og eru þau sett fram í anda framangreinds tilgangs laganna. Ákvörðun um heildargreiðslumark mjólkur er byggð á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun Bændasamtaka Íslands fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Verði sala mjólkurafurða undir heildargreiðslumarki ársins þannig að birgðir aukist kemur mismunur til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs. Á sama hátt hækkar heildargreiðslumark ef sala eykst. Ég vil ítreka það að framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal samkvæmt 52. gr. laganna fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Það er algjörlega skýrt í núgildandi lögum. Af öllu framangreindu liggur fyrir að sala mjólkurafurða á íslenskum markaði umfram greiðslumark er bönnuð og umframframleiðsla verður aðeins seld erlendis.

Markmið þessa frumvarps er að fylgja eftir skýrum ákvæðum laganna um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og varðveita núverandi framleiðslustýringarkerfi á meðan annað og betra kerfi hefur ekki litið dagsins ljós. Þetta markmið er útfært á þann hátt að í frumvarpinu er kveðið á um heimild ráðherra til að sekta rekstraraðila afurðastöðva fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark en markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði í trássi við ákvæði gildandi laga. Þó er gert ráð fyrir að komið sé verulega til móts við framleiðendur sem sjálfir geta unnið mjólk á eigin býli með undanþágu til markaðsfærslu samkvæmt frumvarpinu innan lands fyrir allt að 10 þúsund lítra. Það er mín skoðun að þetta ákvæði feli m.a. í sér verulegan stuðning, m.a. við verkefnið „Beint frá býli“, en það hefur þegar skilað miklum árangri í að efla fjölbreytta heimavinnslu mjólkurafurða. Þessi undanþága er einnig til þess fallin að auka samkeppni í mjólkuriðnaði.

Á fundum nefndarinnar á 136. löggjafarþingi kom meðal annars fram að með því frumvarpi er þá lá fyrir væru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu þeirra sem framleiddu mjólk bæði innan og utan greiðslumarks. Þannig þyrfti að liggja ljóst fyrir hvort greiðslumarkskerfi búvörulaga væri virkt eða ekki. Brýnt væri að ekki yrði hróflað við núgildandi greiðslumarkskerfi sem hefur reynst einkar vel, reyndar afar vel. Á móti var það sjónarmið nefnt að greiðslumarkskerfi búvörulaga hamlaði samkeppni í mjólkuriðnaði. Það frumvarp er fyrir lægi mundi loka enn frekar fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla að mjólkuriðnaði og þannig tryggja að frekara leyti einokunarstöðu stærstu afurðastöðvarinnar.

Skilningur nefndarinnar er að með fyrirliggjandi frumvarpi sé verið að tryggja heildarhagsmuni mjólkuriðnaðar og framleiðenda enda hafa aðrar, og ég ítreka það, afurðastöðvar aðgang að hrámjólk til vinnslu á eðlilegum kjörum. Sú á raunin að vera, hún er það meðal annars með opinberri verðlagningu og eftirliti á hrámjólkinni þannig að ekki er hægt að misnota þetta kerfi. Ljóst sé að sala mjólkurvara á innanlandsmarkaði hafi farið minnkandi frá haustinu 2008. Leiði gildandi greiðslumarkskerfi búvörulaga til þess að markaðshlutdeild þeirra framleiðenda sem framleitt hafa innan greiðslumarks minnkar á meðan þeir framleiðendur sem kunna að framleiða mjólk utan greiðslumarks verða ekki fyrir sambærilegri skerðingu er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að varðveita grundvöll greiðslumarkskerfisins, tryggja jafnræði ásamt því að gefa framleiðendum eðlilegan og sjálfsagðan möguleika á heimavinnslu afurða og tryggja að á grundvelli búvörulaga verði mögulegt að ná þeim markmiðum er þau stefna að með heildarhagsmuni í huga en ekki sérhagsmuni þeirra sem vilja ganga gegn gildandi lögum, án tillits til samfélagslegra hagsmuna.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að frumvarpið hefði verið samþykkt frá ríkisstjórn. Við meðferð málsins hefur síðar komið í ljós að ýmsir þingmenn annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, hafa lagst gegn málinu og leitast við að hefta framgang þess. Það finnst mér mjög miður vegna þess að ég lít svo á að hér á Alþingi sé meiri hluti fyrir málinu. Það er stuðningur við málið innan sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar bæði frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og hv. þingmönnum Framsóknarflokksins.

Ég verð líka að minna á það að á þeim sama fundi og við í nefndinni tókum út þetta frumvarp komu fyrir nefndina tveir fulltrúar svínaræktenda á Íslandi. Þar er ekkert eftirlitskerfi, ekkert framleiðslustýringarkerfi eða neitt í gangi, fyrirkomulagið er í nokkuð mikilli rúst, það verður að segjast eins og er. Í því tilviki stefnir í að einn aðili nái milli 55 og 65% markaðshlutdeild á Íslandi og það er af því að ekki er stýring á kerfinu.

Fram hafa komið efasemdir innan nefndarinnar um að frumvarpið gangi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Af því tilefni vil ég vísa til fyrirliggjandi álits sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis frá 28. júlí 2009. Það er afdráttarlaus niðurstaða í því áliti, sem styðst m.a. við hæstaréttardóm frá árinu 2003 bls. 4476, að svo sé ekki, það er afdráttarlaus niðurstaða í máli sem fjallaði ekki beinlínis um þetta en var hliðstætt mál.

Ég verð líka að taka það fram að gefnu þessi tilefni að slík framleiðslustýringarkerfi eins og hér eru í gildi eru í gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þau hafa verið í gildi í Noregi frá árinu 1999, ég veit ekki betur en að þau séu í líka í gildi á Nýja-Sjálandi og í öðrum löndum sem hafa farið í meiri frjálsræðisátt í þessum efnum sem öðrum. Við erum því ekki að skapa neina nýja reglu heldur erum við að varðveita og festa í sessi reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði, það er ekkert flóknara.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að í stað orðanna „10.000 lítrum“ í 2. málsl. 2. efnismgr. 2. gr. komi: 15.000 lítrum.

Undir nefndarálitið rita eftirtaldir hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Ögmundur Jónasson, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Ólína Þorvarðardóttir, með fyrirvara, og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Róbert Marshall gátu ekki fallist á nefndarálitið.



[15:08]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér upp í andsvari vegna orða hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti sínu. Hann gat þess að þingmenn annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, hefðu lagst gegn og reynt að hefta framgang þessa máls. Það hef ég ekki reynt að gera. Hv. þingmanni er fullkunnugt um ástæður þess að ég ákvað að vera ekki á þessu nefndaráliti, en ég áskil mér rétt til að vera á framhaldsnefndaráliti þegar málið verður kallað inn á milli 2. og 3. umr.

Það er einfaldlega svo að mér þykja það ekki viðunandi vinnubrögð að tekið sé út nefndarálit þar sem fyrir liggur að tvö misvísandi lagaálit varðandi stjórnarskrána liggja fyrir og það er tilkynnt af formanni nefndarinnar að þau liggi fyrir í pósthólfi nefndarmanna á þeim fundi sem taka á út nefndarálitið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að unnið sé með þeim hætti. Þess vegna gat ég þess á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að ég mundi áskilja mér rétt til að skoða þau lagaálit sem liggja fyrir um þetta mál og jafnframt mundi ég óska þess að það kæmi nýtt lögfræðiálit sem væri ekki unnið í landbúnaðarráðuneytinu, óháð álit sem útskýrði það einfaldlega hvort þessi breyting stangast á við stjórnarskrána. Það held ég að sé frumskylda mín sem þingmanns að fá úr því skorið og vera með það vað fullkomlega fyrir neðan mig áður en áfram er haldið.

Það er ekki hægt að líta svo á að með því sé verið að hefta framgang mála og ég mótmæli þeim orðum hv. þingmanns.



[15:10]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál kom fram í febrúar, ef ég man rétt, á þessu ári og það lá inni í þingflokki Samfylkingarinnar þar til það kom fram fyrir hálfum mánuði eða eitthvað slíkt. Ég verð að segja varðandi lögfræðiálitið að fram kom ósk um að það yrði lagt fram. Ég gekk strax í það mál og lagði það fram um leið og ég hafði fengið það í hendur og tilkynnti að ég mundi dreifa því í hólf þingmanna.

Ég vil líka að gefnu tilefni taka það fram, vegna efasemda sem ég rakti hér í framsöguræðu minni, að ég boðaði það að ég mundi kalla eftir umsögn um málið og það yrði rætt ítarlega. Meðal annars komu fram óskir um sérstakt lögfræðiálit o.fl. sem ég mun sem formaður nefndarinnar virða.

Ég hef síðan skoðað það betur og í ljós kemur að nefndinni er heimilt að fjalla um málið, kalla eftir umsögnum þó svo að málið sé ekki afgreitt héðan frá þinginu með atkvæðagreiðslu eftir 2 umr. fyrst 1. umr. er búin. Ég mun því nýta þinghléið til að leita eftir þessum umsögnum og ég hef beðið ritara nefndarinnar um að kalla nefndarmenn á fund að loknum þessum þingfundi til að fara yfir umsagnalista sem liggur fyrir og gera athugasemdir við hann og bæta við umsagnaraðilum ef þörf krefur.



[15:12]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að það sé gert með þessum hætti. Ég benti einmitt á það á þessum fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að unnt væri að fresta þessari umræðu og kalla málið til nefndar og fá umsagnir um það og skoða það betur. Það er allt og sumt sem ég fór fram á í þessu máli. Það hefur fengið mjög undarlega meðferð, að hluta til vegna þess að það festist inni í þingflokki Samfylkingarinnar, undir það skal tekið hér. Hins vegar er það svo að maður vill bara hafa fast land undir fótum þegar maður samþykkir eða samþykkir ekki mál. Það taldi ég mig ekki hafa á fundi nefndarinnar og ég fagna því að það gefst tóm til þess.



[15:13]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reynt að haga störfum mínum sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þannig að tekið sé fullt tillit til óska nefndarmanna í hvívetna, ég held að nefndarmenn hafi reynt það í vetur jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu.

Ég taldi að orðið hefði samkomulag, þegar verið var að ræða afgreiðslu þingmála, um að þetta mál færi í gegnum 2. umr. með atkvæðagreiðslu og færi svo í 3. umr., þ.e. til nefndarinnar, sem óskað er eftir — ég gleymdi að minnast á það í fyrri framsöguræðu minni að það er ósk um að það fari til nefndarinnar á milli umræðna. Þetta var misskilningur minn. Mér skilst að framsóknarmenn hafi gert samkomulag um það að málið færi til umræðu, umræða yrði kláruð en atkvæðagreiðslu frestað. Ég misskildi þetta.



[15:14]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera stuttlega grein fyrir þeim fyrirvara sem ég setti við nefndarálitið. Ég er á því með fyrirvara. Það er nefnilega rétt sem fram kom í máli hv. þm. Róberts Marshalls að málið bar mjög brátt að í nefndinni. Ég kann ekki að skýra það fyllilega hvers vegna það festist inni í þingflokki Samfylkingarinnar en svo mikið er víst að málið hefur fengið afar takmarkaða umfjöllun í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það var tekið út á síðasta fundi án þess að nefndarmenn hefðu í rauninni formlegar umsagnir frá nokkrum aðila varðandi frumvarpið og án þess að nefndarmenn hefðu séð tvö lögfræðiálit sem munu liggja fyrir varðandi það hvort frumvarpið standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Það er rétt að það komi fram samhengisins vegna og vegna orða sem hér hafa fallið að þau lögfræðiálit leit ég ekki augum fyrr en í gærmorgun að þau voru komin í hólfið mitt. Ég var ekki búin að sjá þau, þau voru ekki komin í hólfið þegar nefndarálitið var tekið út úr nefndinni. Mér fannst það þar af leiðandi óðs manns æði að samþykkja fyrirvaralaust það nefndarálit sem hér liggur fyrir vegna þess að mér finnst það sjálfsagt, í ljósi þeirrar kröfu sem maður gerir sjálfrátt og ósjálfrátt til Alþingis um vönduð vinnubrögð, að lagafrumvörp séu ekki afgreidd í gegnum nefndir og fyrir þinginu án þess að fyrir liggi formlegar umsagnir þeirra sem málið varðar og án þess að lögfræðiálit og ágreiningur um það hvort löggjöf standist stjórnarskrá séu til lykta leidd.

Þess vegna hef ég óskað eftir því við formann nefndarinnar, og hann hefur brugðist vel við því, að þessi lögfræðiálit yrðu lögð fram og þau fengju umfjöllun í nefndinni milli 2. og 3. umr. Vegna þess sætti ég mig við það að málið komi hér til 2. umr. í trausti þess að það fái ítarlegri umfjöllun inni í nefndinni þegar þessari umræðu er lokið.

Ég hef líka óskað eftir formlegum umsögnum frá Neytendasamtökunum, frá umboðsmanni neytenda og Samkeppniseftirlitinu, ekki bara að þær liggi fyrir formlega heldur að þær fái umfjöllun í nefndinni áður en málið verður til lykta leitt.

Þessu vildi ég koma á framfæri. Ég hef kynnt mér þessi lögfræðiálit en ég óska eftir því að þau verði rædd nánar. Þau ganga hvort í sína áttina, bæði álitin urðu til í landbúnaðarráðuneytinu. Í öðru álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að draga megi í efa að málið standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár, það er þó kannski ekki mjög afgerandi niðurstaða. Hitt álitið gengur út á það að svo sé ekki.

Til upprifjunar má geta þess að 75. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að frumvarpið standist ekki stjórnarskrá, ég mundi satt að segja ekki vera á þessu nefndaráliti ef ég teldi í raun og veru að svo væri. Mér finnst hins vegar óásættanlegt annað en að þær efasemdir sem settar hafa verið fram fái viðhlítandi umfjöllun í nefndinni.



[15:18]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu sem við ræðum núna er verið að eyða ákveðinni óvissu sem verið hefur í kringum greiðslumarkskerfið í mjólkuriðnaði. Þess vegna er auðvitað fagnaðarefni að málið sé komið þetta langt á leið þótt maður átti sig á því, eftir að hafa hlustað á orðaskipti stjórnarflokkanna, að ekki er sopið kálið þótt það sé komið langleiðina í ausuna. Ýmislegt getur greinilega hent á langri leið, eins og við þekkjum sem höfum átt ýmis framfaramál í landbúnaði undir Samfylkingunni. Málið er auðvitað þannig vaxið, eins og kemur glögglega fram í nefndaráliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í það vegna þess að þar finnst mér vera tekið á þeim álitamálum sem eru uppi í þessum efnum.

„Á fundum nefndarinnar á 136. löggjafarþingi kom meðal annars fram að með því frumvarpi er þá lá fyrir væru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu þeirra sem framleiddu mjólk bæði innan og utan greiðslumarks. Þannig þyrfti að liggja ljóst fyrir hvort greiðslumarkskerfi búvörulaga væri virkt eða ekki. Brýnt væri að ekki yrði hróflað við núgildandi greiðslumarkskerfi sem hefur reynst vel. Á móti var það sjónarmið nefnt að greiðslumarkskerfi búvörulaga hamlaði samkeppni í mjólkuriðnaði. Það frumvarp er fyrir lægi mundi loka enn frekar fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla að mjólkuriðnaði og þannig tryggja að frekara leyti einokunarstöðu stærstu afurðastöðvarinnar. Skilningur nefndarinnar er að með fyrirliggjandi frumvarpi sé verið að tryggja heildarhagsmuni mjólkuriðnaðar og framleiðenda enda hafi aðrar afurðastöðvar aðgang að hrámjólk til vinnslu á eðlilegum kjörum.“

Þetta eru í raun og veru álitamálin sem við höfum verið að takast á um og hafa helst verið í umræðunni þegar þetta frumvarp eða hugmyndin að því hefur verið rædd á fyrri stigum. Þar sem hér er verið að velta fyrir sér hvort þetta muni loka að einhverju leyti fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla í mjólkuriðnaði, þá vil ég vekja athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að teknir séu frá 10.000 lítrar. Breytingartillaga okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er að talan fari upp í 15.000 lítra til að opna möguleikana fyrir þá sem eru nýir í þessum geira og eru t.d. að hasla sér völl á grundvelli „Beint frá býli“ verkefnisins, svo sem við ísgerð, framleiðslu á alls konar ostum o.s.frv., sem skiptir gífurlega miklu máli.

Við sjálfstæðismenn höfum lýst stuðningi við það að þetta mál nái fram að ganga. Við skiljum vel efni þess og tökum undir efnisatriðin sem liggja því til grundvallar. Sannarlega hafa verið skiptar skoðanir um málið og við vitum auðvitað að komið hafa fram gagnstæð álit um hvort það standist stjórnarskrána á einhvern hátt. Við þekkjum þau álitaefni sem þar eru uppi og auðvitað er það hlutverk okkar þingmanna sem höfum undirritað eið að stjórnarskránni að taka afstöðu til þeirra. Það getur enginn gert það fyrir okkur áður en frumvarpið er samþykkt. Það er þá ekki fyrr en eftir að lögin hafa verið samþykkt að menn geta látið á það reyna fyrir dómstólum. Fram að því er það einfaldlega okkar hlutverk sem þingmanna að meta þetta eins og við höfum vit, vilja og getu til að gera. Það liggur m.a. væntanlega til grundvallar þegar við tökum afstöðu til þessara mála. Ég virði að sjálfsögðu þau sjónarmið sem eru gagnstæð mínum í þessum efnum en ég vildi bara leggja áherslu á þetta og undirstrika það. Það er á okkar ábyrgð við þessar aðstæður að taka afstöðu til málsins.

Þó að það snúi ekki að efni málsins, þá hefur málið verið í dálítið sérkennilegri stöðu, eins og hér hefur komið fram. Það hefur legið í eins konar saltpækli hjá Samfylkingunni upp á síðkastið eða um nokkurra vikna eða mánaða skeið, sennilega síðan í sláturtíðinni, og ekki komist upp úr þeirri tunnu fyrr en nú þegar málið er komið fram með þessum hætti. Það var lögð á það allmikil áhersla af hálfu hæstv. ráðherra og þingmanna úr stjórnarandstöðunni, eftir því sem ég hef skilið, að fá þetta stjórnarfrumvarp afgreitt en það mætti talsverðri andspyrnu stjórnarliða. Og þótt ýmislegt skondið hafi á fjöru manns rekið á langri þingtíð þá man ég eiginlega ekki eftir svona stöðu, þar sem stjórnarandstaðan leggst sérstaklega á árarnar til að fá stjórnarfrumvörpin samþykkt gegn vilja stjórnarliðanna sem hafa haft aðra skoðun á málinu. Þetta er hins vegar aukaatriði og skiptir ekki máli fyrir efni málsins.

Það er aðeins eitt sem ég vildi nefna að lokum sem snertir þetta. Fyrir Alþingi liggur og er raunar nú til meðhöndlunar í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, frumvarp um breytingu á framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem snýr að afnámi svokallaðrar verðmiðlunar- og verðtilfærslugjalda. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það við þessa umræðu. Það gerði ég að sjálfsögðu þegar málið var til umfjöllunar. Ég er 1. flutningsmaður málsins og nokkrir aðrir þingmenn eru meðflutningsmenn að því máli. Það hefur fengið umsagnir víða að, bæði frá hlið neytenda og framleiðenda. Allar eru þær umsagnir jákvæðar. Samkeppniseftirlitið telur að vísu að æskilegt væri að ganga lengra en leggst ekki gegn efni frumvarpsins, eftir því sem ég les út úr umsögn stofnunarinnar. Ég mundi því vilja nota tækifærið og hvetja til þess, að þegar málið verður tekið til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis í haust, sem ég geri ráð fyrir að verði í september, þá verði jafnframt hugað að því að taka hitt málið með í einni kippu til að fá ákveðna samfellu í þær breytingar sem nauðsynlegar eru í starfsumhverfi mjólkurframleiðslu og landbúnaðarins að þessu leyti.



[15:25]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við þeim orðum hv. þingmanns um að málið hafi legið í einhvers konar saltpækli í þingflokki Samfylkingarinnar. Hið fyrra lagaálit sem liggur fyrir í málinu, um það hvort það stangist á við stjórnarskrána, er frá árinu 2005 og mig rekur minni til þess að hv. þingmaður hafi þá verið í landbúnaðarráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu áður en hann fór í þá stöðu sem hann er núna. Það má því spyrja hversu djúp sú saltpækilstunna er sem hv. þingmaður lagði málið í, í ráðuneytinu.



[15:25]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál var aldrei lagt ofan í neina saltpækilstunnu hjá mér. Hins vegar var hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, ráðherra á þeim tíma og hefur væntanlega fengið álitið í hendurnar. Hitt er að málið kom til umfjöllunar á síðari mánuðum á mínum ferli, hygg ég. Á þeim tíma þegar ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra glímdi ég við annað frumvarp og mátti játa mig sigraðan í glímunni við Samfylkinguna. Það var frumvarp um verðmiðlun og verðtilfærslu. Það naut stuðnings verkalýðshreyfingarinnar og bænda og afurðastöðvanna en það var auðvitað hið almáttuga samkeppniseftirlit á þeim tíma sem hafði eitthvað við frumvarpið að athuga. Ég sé núna að þær athugasemdir eru ekki jafnstífar nú til dags, sem er vissulega vel. Í mínu ráðuneyti hygg ég að hafi ekki verið miklar saltpækilstunnur sem málin voru lögð í. Það var yfirleitt eftir að málin komu úr mínu ráðuneyti og jafnvel ríkisstjórninni að þau lentu stundum í saltpækilstunnu Samfylkingarinnar.



[15:27]Útbýting:

[15:27]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki skal ég skorast undan því að hafa kannski seinkað eitthvað málum þegar efasemdir hafa vaknað um þau í umfjöllun í þingflokki Samfylkingarinnar á þessu ári eins og mörgum hinum fyrri. Það getur auðvitað verið fullt tilefni til þess þegar menn komast á snoðir um það að fyrir liggja lögfræðiálit í þeim ráðuneytum sem málin flytja sem ekki hafa hreint mál og eru á þann veg að þau stríða gegn stjórnarskrá. Það er einu sinni þannig að við sem hér störfum höfum undirritað drengskapareið að stjórnarskránni og okkur ber þess vegna að gæta sérlega vel að þeim áhyggjum sem lýst er um hana og ef menn kjósa að kalla það saltpækilstunnu að gæta að drengskapareið sínum þá þeir um það.

Efasemdirnar um málið sem hér liggur fyrir lúta auðvitað fyrst og fremst að því að hér er verið að tryggja varanlega og endanlega einokun einokunarfyrirtækisins á þessum markaði, MS, í greininni og loka kvótakerfinu í eitt skipti fyrir öll. Ég hef áhyggjur af því að verið sé að ganga með óeðlilegum hætti erinda sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna, og það muni til lengri tíma koma í veg fyrir frjálsa samkeppni á þessu sviði, auka mjög kostnað í greininni og verða sömuleiðis mjög kynslóðaíþyngjandi, eins og ég mun koma að á eftir.

Sú óvissa sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi hæstv. ráðherra, nefndi áðan er þessi svokallaða óvissa um það að þeir sem hafa niðurgreiðslu á mjólk eigi neytendurna í landinu. Það er auðvitað það sem deilan snýst fyrst og fremst um, hvort hægt sé að binda það þeim skilyrðum að menn njóti niðurgreiðslna frá ríkinu að þeir fái að framleiða mjólk og selja. Í núverandi stöðu er frjálsbornum Íslendingum heimilt að framleiða mjólk og selja hana utan hins ríkisstyrkta kerfis. Ég held að algert lágmarksaðhald sem niðurgreitt ríkisstyrkt kerfi getur haft, sé að niðurgreidd mjólk geti á hverjum tíma staðist frjálsa samkeppni við óniðurgreidda. Ef niðurgreitt opinbert kerfi getur ekki staðist samkeppni við óniðurgreidda framleiðslu þá hlýtur úrkynjun þess að vera alger. Þá þjónar það ekki lengur þeim yfirlýsta tilgangi um almannahagsmuni þegar það var sett á upphaflega.

Ástæðan fyrir því að ég hef efasemdir um þetta fyrirkomulag, eins og kvótafyrirkomulag í framleiðslugreinum yfir höfuð, er að reynslan sýnir okkur að þó að þeir sem starfa í viðkomandi greinum tali mjög fyrir slíkum kvótakerfum í þágu greinarinnar þá sé það ekki þannig þegar menn skoða reynsluna og söguna. Það hefur gerst æ ofan í æ að slík kvótakerfi verða til þess að ein kynslóð manna sem starfar í tiltekinni atvinnugrein fær með löggjöf, sem þjónar sérstaklega sérhagsmunum hennar, að skuldsetja atvinnugreinina óhæfilega í eigin þágu. Þær aðrar kynslóðir sem eftir það starfa í atvinnugreininni þurfa að standa undir þeim skuldum. Þetta er m.a. það sem hefur gerst í sjávarútveginum og við súpum nú seyðið af.

Ég tel að menn þurfi að spyrja sig alvarlegra spurninga um hvort ekki sé algert lágmark að gera þá kröfu í jafnniðurgreiddu kerfi og þetta að mörgu leyti ágæta kerfi er, að það þurfi á hverjum tíma að haga starfsemi sinni þannig að ef frjálsbornir Íslendingar ákveða að setja upp óniðurgreidda framleiðslu utan ríkiskerfisins þá geti hið gríðarlega ríkisstyrkta framleiðslukerfi staðist samkeppni við slíka framleiðslu. Ég geri engan ágreining um það að þetta ákveðna mjólkurkerfi skilar mörgum góðum kostum, bæði í framleiðsluvörum og á margan hátt í verði.

Það er ein af grundvallarástæðum þess að ég hef haft sterkar efasemdir um þetta mál og ég stend ekki að nefndarálitinu. Ég hygg að ýmsir þeir þingmenn sem það gera, geri það með hálfum hug. Það vita það auðvitað allir sem starfað hafa á þessu löggjafarþingi að afgreiðsla málsins inn í 2. umr. er fyrir neðan allar hellur og er einvörðungu gerð til að uppfylla kröfu Framsóknarflokksins um að málið verði tekið til 2. umr. Það vita það allir þingmenn sem gæta að góðum vinnubrögðum að það að fara í 2. umr. um mál og taka efnislega afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu, án þess að hafa kallað eftir skriflegum umsögnum helstu hagsmunaaðila og með lögfræðiáliti um stjórnarskrárvafann í pósthólfum þingmanna, án þess að hafa farið í gegnum þau í nefndinni og kallað til þá sem þau álit sömdu, er auðvitað algerlega óviðunandi afgreiðsla á máli inn í 2. umr. En ég hef líka skilning á því að sumir nefndarmanna töldu sig þurfa að fylgja eftir samkomulaginu sem gert var með þessum hætti. Þessa skoðun verður þá að taka í því hléi sem verður á störfum sjálfs þingsins og fara í gegnum málið fyrir 3. umr. sem er auðvitað síðri málsmeðferð en við eigum að gera kröfu til í þinginu. Þar sem við erum að ljúka störfum í dag ætla ég að bíða með umfangsmikla og efnislega umfjöllun um málið fram í 3. umr. og nefndarstarfið, ef af 3. umr. verður í september. Þá gefst ábyggilega gott tækifæri til að taka það til ítarlegrar og efnislegrar umfjöllunar eftir að hafa fengið öll þau sjónarmið sem nauðsynlegt er að við köllum eftir til að vega og meta þau stóru álitamál um þá atvinnugrein sem hér um ræðir.



[15:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég býst við að við hv. þm. Helgi Hjörvar þyrftum lengri tíma en þessar 20 mínútur sem ég hef hér í dag til að fjalla um ræðu hans og þann skilning sem hann hefur á niðurgreiðslu á mjólkurafurðum og á landbúnaðarkerfinu og þann skilning sem hann leggur í réttindi og skyldur og jafnræði. En ég mun þó að einhverju leyti koma inn á það í ræðu minni.

Það hefur komið í ljós að hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggjast með einum eða öðrum hætti gegn málinu eða framgangi þess eða setja mörg spurningarmerki við framgang þess eða efni þess í heild sinni. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir minntist til að mynda á að þetta hefði borið brátt að í nefndinni. Það er alveg rétt, þetta mál er búið að vera lengi í þinginu, ég held þrjú ár. Auðvitað ekki hjá okkur sem vorum kosin á vordögum í fyrra en á fyrri þingum, sambærilegt mál, sams konar mál, sama málið, og ár eftir ár stoppar það á nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar en ekki öðrum. Það má spyrja hvort það sé hin lýðræðislega leið að örfáir þingmenn eins flokks geti stöðvað mál ár eftir ár, verandi í stjórnarmeirihluta.

Ég vil minna á að það voru fjölmörg önnur mál sem runnu hér ansi hratt í gegn og sum hver fengu afar litla umfjöllun í nefndum og bar ansi brátt að. Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem höfum þó ekki haft tækifæri til að vita að þau væru komin þetta langt eða væru á leiðinni hér inn — það voru tekin hér inn stjórnarfrumvörp með afbrigðum og við þurftum að setja okkur inn í þau með mjög stuttum fyrirvara, mál sem voru algjörlega ný og höfðu ekki þessa sömu sögu og þetta mál. Ég vil því ítreka það og styðja formann nefndarinnar í því að hann var að gera það sem formenn margra annarra nefnda gerðu á sama tíma, að uppfylla það samkomulag sem gert var á formannafundum stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ég get þó ekki alveg sleppt hv. þm. Helga Hjörvar án þess að minnast á það sem hann endaði ræðu sína á. Þetta mál er í lýðræðislegu ferli, í eðlilegu ferli innan þingsins. Það getur verið að það hafi borið brátt að en það er komið hér inn. Mér finnst merkilegt að Samfylkingin skuli hafa lagst gegn því að málið gengi til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Það má spyrja sig af hverju. En hv. þm. Helgi Hjörvar endaði á því að segja: „Ef“ málið kæmi til þriðju umræðu. Ég velti því þá fyrir mér hvort hér sé dulbúin hótun um að örfáir þingmenn Samfylkingarinnar, þó að málið sé þeim ekki að skapi, ætli enn og aftur að koma í veg fyrir að stór meiri hluti þingsins geti látið þetta mál ganga eðlilega fram.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hér í upphafi er þetta, held ég, þriðja þingið í röð sem þetta mál kemur inn. Í nefndarálitinu, sem hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atli Gíslason, hefur farið ágætlega yfir, kemur fram að þetta byggist á því að ákvörðun um heildargreiðslumark sé byggð á neyslu innlendra mjólkurafurða. Það þekkja þeir sem starfa í þessari grein þó að aðrir þekki það kannski síður. Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal samkvæmt 52. gr. búvörulaga fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Að öllu framangreindu liggur fyrir að sala mjólkurafurða á íslenskum markaði umfram greiðslumark er bönnuð og umframframleiðsla verður aðeins seld erlendis.

Í þeim álitum sem nokkrir þingmenn hafa vísað til, úr ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs á mismunandi tímum, kemur skýrt fram að það er í lagi og það er heimilt og lagalega rétt að framleiða mjólk umfram kvóta en það stendur bara í lögunum að sá hluti skuli fluttur erlendis, hann skuli ekki fara á innlendan markað, vegna þess að í samkomulagi sem ríkisvaldið hefur gert við kúabændur eiga þeir að takmarka framleiðslu sína að innlendri neyslu en ekki vera með eitthvað umfram það.

Markmið frumvarpsins er þar með að fylgja eftir skýrum ákvæðum laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og varðveita núverandi framleiðslustýringarkerfi á meðan annað og betra kerfi hefur ekki litið dagsins ljós. Það er áhugavert að ræða þennan punkt því að við erum að tala um sambærileg framleiðslustýringarkerfi á þessum margfrægu Norðurlöndum, sem ég hef oft sagt frá hér í pontu. Ríkisstjórnin segist vera að vinna að norrænu velferðarkerfi og við erum með sambærilegar aðstæður. Þetta er sambærileg löggjöf, þetta eru sambærilegt framleiðslustýringarkerfi og það er ekkert athugavert við það. Enda er staðreyndin sú að á Norðurlöndum er eitt mjólkurafurðastöðvarfyrirtæki, Arla Foods, allsráðandi á markaði og í Norður-Evrópu er það svipað, eitt risastórt fyrirtæki. Meira að segja á Nýja-Sjálandi, þar sem markaðsöflin fengu að vaða yfir og lögðu landbúnaðinn nánast í rúst, land sem byggir á allt annars konar framleiðsluaðferðum en við hér á norðurhveli jarðar, meira að segja þar varð niðurstaðan eitt mjólkurafurðastöðvarfyrirtæki vegna þess að það er skynsamlegasta og besta leiðin til þess að safna mjólk og koma henni til neytenda. Þannig er það nú. Hér erum við því ekkert að tala um eitthvert íslenskt fyrirbæri þar sem verið er að moka undir íslenska bændur og gegn neytendum, síður en svo.

Ef við tökum t.d. verð og verðþróun á innlendum mjólkurafurðum í samanburði við erlendar vörur sjáum við að innlend búvara hefur haldið niðri neysluverði í landinu á síðustu 10–15 árum. Kerfið sem við settum upp hefur því virkað. Ég verð því að segja eins og er að ég væri til í langa umræðu um þetta við hv. þingmenn Samfylkingarinnar en við höfum því miður ekki tíma til þess í dag. Ég ætla að reyna að komast aðeins í gegnum nokkra aðra hluti sem eru í frumvarpinu.

Til að mynda er opnað á þann nýja möguleika að nýta 10 þús. lítra — nefndin leggur til að það fari í 15 þús. lítra — af umframmjólk, umfram greiðslumark, heima á búinu til að framleiða vörur og selja þar. Þetta er stuðningur sem er metinn upp á einar 3 millj. kr. í nýsköpun, þetta hlutfall er sennilega ein 5% af heildargreiðslumarki eða heildarframleiðslurétti í landinu og við það að hækka þetta í 15 þús. lítra erum við að tala um að nýsköpunarstuðningurinn verði þá vel yfir 4 millj. kr., um 7,5%, og það er nú bara allnokkuð.

Í umsögn eða á minnisblaði stjórnar Landssambands kúabænda vegna þessara breytinga frá 15. janúar á þessu ári — þetta er ekki nýtt, það er ekki eins og þetta hafi dottið hérna inn allt í einu — fagnar Landssambandið því að þetta sé komið hér inn til þess að taka af tvímælin um forgang greiðslumarks mjólkur á innanlandsmarkaði eins og lögin segja og að óvissu verði eytt varðandi réttindi og skyldur þeirra sem eru í greininni. Landssambandið telur jafnframt mikilvægt að koma í löggjöf ákvæðum varðandi þessa heimavinnslu mjólkur því að slík heimavinnsla geti aukið á fjölbreytni á markaði, sé jákvæður valkostur fyrir neytendur og geti skapað sóknarfæri fyrir framleiðendur.

Það kemur jafnframt fram í minnisblaðinu, og ég vil gjarnan gera það að mínum orðum líka, að að mati Landssambandsins sé forsenda þessarar ívilnunar sú að umrædd mjólk sé framleidd, unnin og afurðirnar seldar beint frá býli til neytenda af sama rekstraraðila. Síðan má hugsa sér það — við aukum þetta hér upp í 15 þús. lítra — að ef það dugir ekki þeim aðilum sem eru á þessum markaði að prófa vörur til að koma þeim þá inn á almennan markað má kannski velta því fyrir sér hvort það sé nokkur rekstrargrundvöllur fyrir því sem þeir eru að gera. Ef þetta dugir hins vegar, sem ég held að það muni gera í mörgum tilvikum, að þetta muni stækka markaðinn og búa til nýja og áhugaverða sérvöru, skapa samkeppni á markaði og stækka hann, er ekkert óeðlilegt að þessi fyrirtæki fari af því stigi að vera „Beint frá býli“ fyrirtæki, framleiðendafyrirtæki, yfir í það að vera afurðastöð. Það geti þá tekið greiðslumarksmjólk inn í framleiðslu sína, hvort sem það er frá því sjálfu eða öðrum, og fari þannig inn á markaðinn í samkeppni við aðra þá sem framleiða fyrir stærri verslunarmarkað. Ég held að það væri hin rétta leið og væri áhugavert.

Landssamband kúabænda hefur aðeins áhyggjur af því að þetta megi ekki verða meira en 10 þúsund. Við í nefndinni vorum sammála um að þessir 15 þús. lítrar gætu gengið en það er rétt að taka fram að umtalsverð ívilnun er fólgin í því og það er verið að opna þann möguleika á að nýta umframframleiðslu allra þeir sem vilja ganga lengra og fara út í meiri rekstur geta þá nýtt greiðslumarksmjólk samhliða þessari umframframleiðslu.

Varðandi hitt ákvæðið, sem snýr að refsiákvæðinu um móttöku á umframframleiðslu utan greiðslumarks, þá er þetta auðvitað nauðsynlegt til að vernda þá sem hafa tekið að sér að uppfylla þarfir markaðarins. Það fylgja því bæði réttindi og skyldur. Í ljósi þess samdráttar og fækkunar sem orðið hefur á landinu hefur greiðslumark, og þar af leiðandi kvóti til kúabænda, minnkað umtalsvert á liðnum árum og þeir hafa orðið að draga verulega úr framleiðslu sinni. Það er heldur ekki sanngjarnt, og þá með samanburði við sjávarútveginn, að þeir sem hafa selt sig út úr greininni, selt kvótann sinn, eigi síðan að hafa óheftan aðgang til að koma inn á markaðinn á ójafnræðisgrunni, setja upp ný fyrirtæki til framleiðslu í keppni við hina sem þeir voru að selja kvótann til. Þetta er það sama og við höfum séð í sjávarútvegi aftur og aftur og þetta er ekki það sem jafnræði á að snúast um.

Ég er í grundvallaratriðum undrandi á jafnaðarmönnunum í Samfylkingunni, að þeir skuli ekki horfa á þennan jafnræðishluta. Ég hef velt því fyrir mér hverra hagsmuna þeir gæta þegar þeir stoppa þetta brýna mál núna á þriðja eða fjórða ár hér í þinginu. (Gripið fram í.) Aðilar sem eru utan þessa greiðslumarkskerfis hafa þennan möguleika, að framleiða þessa 10–15 þús. lítra. Það er auðvitað ekki mikið. En það væri mjög óeðlilegt — og við þekkjum dæmi þess — að aðilar sem hafa jafnvel sankað að sér jörðum, eða í það minnsta keypt nokkra róbóta, og farið inn í þessa grein með peninga úr öðrum rekstri, hvaðan sem þeir nú koma, ættu að fara að keppa við venjuleg fjölskyldubú í landinu.

Við getum líka hugsað okkur að ganga alla leið, og við í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fengum inn á fund hjá okkur svínabændur, og fara með landbúnaðinn allan yfir í frjálshyggjusamkeppnina, sem mér heyrist hv. þingmenn jafnaðarstefnunnar, Samfylkingarinnar, vera að tala fyrir. Þá munum við horfa til þess sama og gerðist í svínaræktinni. Fyrir 10–12 árum voru um 140 framleiðendur á svínakjöti í landinu en þeir eru 15 í dag og öll stærstu búin eru rétt í kringum markaðinn. Þannig yrði það líka í mjólkuriðnaðinum ef það kerfi yrði aflagt sem við þekkjum í dag. Þá yrðu hér örfáir stórir framleiðendur með risafabrikkur og við megum ekki gleyma því að við erum að tala um dýr en ekki vélar. Það er ekki hægt að slökkva á framleiðslunni einn daginn af því að fyrirtækið verður gjaldþrota eða missir markað heldur þarf að hugsa um dýr og það tekur til að mynda langan tíma að koma upp kúastofni, svo að það sé nefnt hér.

Við þurfum því virkilega að taka þessa grundvallarumræðu hér ef það mun sýna sig á haustdögum að örfáir þingmenn Samfylkingarinnar ætla enn og aftur að bregða fæti fyrir þetta brýna mál. Þetta á ekki við um samkeppnishamlandi aðstöðu eins og hér hefur komið fram. Menn rugluðu því nokkuð saman við fyrirtækið Mjólku hér fyrir nokkrum árum en aðstæður eru allt aðrar á markaðnum í dag. Það er búið að tryggja að fyrirtæki geta keypt hrámjólk, greiðslumarksmjólk, á viðunandi opinberu verði, eftir verðlagningu, þar sem allir sitja við sama borð.

Ég vil líka ítreka að við erum ekki ein í þessum heimi og þetta er ekki kerfi sem fundið var upp á Íslandi. Þetta er kerfi sem hefur gengið víðast hvar í heiminum. Niðurstaðan hefur einfaldlega alls staðar orðið sú að eitt stórt mjólkurafurðastöðvakerfi nær að tryggja með bestum hætti bæði hag neytenda og framleiðenda á hverjum stað.

Hér hefur verið minnst á misvísandi minnisblöð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og því langar mig að vitna aðeins í það. Það er alveg klárt að nokkur efi er settur fram í minnisblaðinu frá 2005 um ýmsa þætti en það er þó gert kristalklárt að heimilt er að framleiða mjólk án þess að hafa greiðslumark, en samkvæmt laganna hljóðan orkar það mjög tvímælis að lögin gefi færi á þeirri lagatúlkun að slíka framleiðslu megi markaðssetja á innanlandsmarkaði. Það er því niðurstaða minnispunkta frá núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta hefur líklega verið í júlí í fyrra, í bréfi sem sent var til Samfylkingarinnar, þannig að það hefur sannarlega verið lengur en frá því í febrúar í þingflokki Samfylkingarinnar. Þá enda viðkomandi lögfræðingar ráðuneytisins á því að segja, með leyfi forseta:

„Það er álit ráðuneytisins að það frumvarp sem er til skoðunar hjá þingflokki yðar gangi eigi í bága við stjórnarskrárvarin réttindi. Ráðuneytið telur einnig að afar mikilvægt sé að frumvarp þetta verði að lögum en ekki verði látið reka á reiðanum í þessu efni þar til brýtur á skeri.“

Nú vil ég hvetja Samfylkinguna og ríkisstjórnina í þessu merkilega stjórnarfrumvarpi, sem við í stjórnarandstöðunni styðjum eindregið, að láta ekki reka á reiðanum og taka ákvarðanir áður en lengra er haldið.



[15:51]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ítarlega hefur verið farið yfir röksemdir okkar í minni hlutanum fyrir stuðningi okkar við þetta frumvarp. Grundvöllurinn er sá að á meðan við búum við þetta kerfi í landbúnaðarframleiðslu okkar sem nokkuð víðtæk sátt hefur verið um er ekki ástæða til að breyta einstökum þáttum þess í stórkostlegum atriðum og mikilvægt er, ekki síst við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag, að við tryggjum hér umhverfið og stuðlum að auknum stöðugleika á þessum vettvangi sem öðrum.

Ég skrifa undir þetta frumvarp með fyrirvara og fyrirvari minn lýtur kannski fyrst og fremst að því frímarki sem sett er í frumvarpinu sem er um 10 þús. lítrar sem bú má framleiða til að nota til framleiðslu á sínu búi. Samkvæmt tillögum nefndarinnar er breytingartillaga á frumvarpinu þar sem þetta er fært upp í 15 þús. lítra.

Helsti vaxtarbroddurinn í íslenskum landbúnaði liggur kannski í þeirri starfsemi sem hefur farið mjög vaxandi og er kennd við samtökin Beint frá býli. Ég hef verið ákafur stuðningsmaður þess að reyna að greiða leið þessa einkaframtaks í sveitum landsins eins og mögulegt er og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sýndi þessu máli það virkilega í huga og verki þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 2010, en þá var lögð til umtalsverð hækkun á framlagi til samtakanna með þeim skilaboðum að þau ættu að reyna að efla ákveðna þætti í starfsemi sinni og að hugur fylgdi máli frá Alþingi í þeim efnum að standa við bakið á þessum vaxtarsprotum.

Við höfum séð mörg bú ná mjög áhugaverðum árangri í fjölbreyttri framleiðslu landbúnaðarafurða þar sem fólk skapar og eykur verðmæti framleiðslu búanna mjög mikið. Ég hef mikla trú á því að þetta verði með mun sterkari hætti í framtíðinni og set þess vegna fyrirvara við þetta mál vegna þess að ég hefði jafnvel viljað sjá þetta mark fara enn hærra. Þegar svona vaxtarsprotar fara af stað kvikna þeir kannski af litlu og verða vonandi að einhverju stóru. Þá fara hlutirnir og framleiðslan að krefjast meiri fjárfestinga og kostnaðar til þess að koma þessu á þann skrið að þetta fari að skipta verulegu máli fyrir afkomu búanna. Þarna hefði ég viljað að við teygðum okkur jafnvel enn lengra einmitt til þess að geta stutt við bakið á þeim sem komnir eru á ákveðinn skrið í þessum málum og stefna enn hærra, svo þeir gætu réttlætt þær fjárfestingar sem þeir þurfa til þess að taka næsta skref.

Að öðru leyti er ég sáttur við frumvarpið eins og það er og lýsi yfir stuðningi við það.