138. löggjafarþing — 149. fundur
 2. september 2010.
störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[13:43]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Fyrirkomulag umræðunnar um skýrslu forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar verður eftirfarandi:

Forsætisráðherra hefur 15 mínútur til framsögu en aðrir flokkar hafa 10 mínútur fyrir talsmenn í 1. umferð. Allir flokkar hafa fimm mínútur í 2. og 3. umferð. Forsætisráðherra hefur fimm mínútur í lok umræðunnar. Þingmaður utan flokka hefur fimm mínútur við lok 1. umferðar.

Röð flokkanna verður: Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkur og Hreyfingin.



[13:44]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þegar Alþingi snýr aftur til starfa eftir sumarleyfi hefur endurskipulögð ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tekið við stjórnartaumunum í Stjórnarráðinu. Þessari nýju ríkisstjórn er ætlað að halda áfram því árangursríka starfi sem fyrri ríkisstjórnir sömu flokka hafa skilað á liðnum 19 mánuðum og hún mun byggja á þeim góða grunni.

Á grundvelli þeirra skýru markmiða og fyrirheita sem kynnt hafa verið í ítarlegri samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá júní 2009 og fyrirliggjandi efnahagsáætlunar sem stöðugt er fylgt eftir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fleiri vinaþjóðir hefur á undraskömmum tíma náðst gríðarlegur árangur á flestum sviðum samfélagsins, árangur sem jafnvel bjartsýnustu menn sáu ekki fyrir, árangur sem hefur vakið athygli í öðrum löndum, árangur sem erlendir hagfræðingar hafa séð sérstaka ástæðu til að fjalla um.

Hér hafa því orðið stakkaskipti. Nú hefur reynslan sýnt okkur að það er mikilvægt að hlýða á virta erlenda sérfræðinga og það er mikilvægt að nýta sér alþjóðlega þekkingu á sviði efnahagsmála og stuðning annarra þjóða. Einangrun veikir okkur en með alþjóðlegum samskiptum treystum við sjálfstæði okkar og efnahagslegan grundvöll, og mikilvægar samningaviðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eru hafnar.

Já, okkur hefur tekist að snúa efnahagslífi landsins til nýrrar sóknar, innleiða víðtækar aðgerðir til að verja fjárhag heimila og fyrirtækja og tryggja jákvæð samskipti við alþjóðasamfélagið eftir eitthvert alvarlegasta efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur gengið í gegnum. Helstu hagvísar benda til þess að algjör viðsnúningur hafi orðið í íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur hefur mælst undanfarna sex mánuði, meira en hálfu ári fyrr en reiknað hafði verið með. Atvinnuleysi er komið í 7,5% og er mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Störfum er aftur farið að fjölga. Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 4,5% á einu og hálfu ári og ekki verið minni í þrjú ár. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% á rúmu ári og ekki verið lægri í sex ár. Gengið styrkist jafnt og þétt og hefur ekki verið styrkara í eitt og hálft ár. Forsvarsmenn SA, ASÍ, Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri hafa lýst því yfir að kreppunni sé lokið og bjartsýni í samfélaginu eykst. Á sama tíma hefur farið fram víðtækt uppgjör í íslensku samfélagi gagnvart þeirri stefnu og vinnubrögðum sem viðgengust í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu fyrir hrun og birtast nú í víðtækri uppstokkun á innviðum samfélagsins. Ég nefni nokkur dæmi um mál sem við höfum komið fram, flest með fulltingi Alþingis.

Við höfum ráðist í löngu tímabærar breytingar á stjórnkerfinu, við höfum afnumið lífeyrisréttindi forréttindastéttanna, við höfum innleitt siðareglur fyrir Stjórnarráðið, þar á meðal ráðherra og aðstoðarmenn. Við höfum endurskoðað lög um fjármál stjórnmálaflokka, við höfum innleitt réttlátara skattkerfi. Sanngirnisbætur fyrir börn sem voru þolendur á vistheimilum hafa verið samþykktar. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hefur verið sett í forgang, m.a. með samþykkt mansalsáætlunar og banni við kaupum á vændi. Tugir aðgerða hafa verið innleiddir til að vernda skuldug heimili og þúsundum fjölskyldna hefur verið forðað frá gjaldþroti og eignamissi. Fjölmargar aðgerðir í þágu atvinnulausra námsmanna hafa verið innleiddar með mælanlegum árangri og velferðarvakt hefur verið sett á fót. Fram undan er eitt viðamesta samfélagsverkefni samtímans, að þjóðin semji sér nýja stjórnarskrá frá grunni og móti nýjan ramma um allt íslenska stjórnkerfið. Þetta er lýðræðisverkefni sem kallað hefur verið eftir í áratugi og með samþykkt stjórnlagaþings verður það loks að veruleika.

Þegar ég tók við sem forsætisráðherra 1. febrúar á síðasta ári blöstu við ríkisstjórninni viðameiri verkefni en nokkur önnur ríkisstjórn hefur áður fengið til úrlausnar. Hlutverk okkar var ekki öfundsvert. Verkin sýna að við höfum svo sannarlega ekki setið auðum höndum og ég vil nota þetta tækifæri og þakka samráðherrum mínum þennan tíma fyrir frábært starf, sem og þingmönnum stjórnarflokkanna, og samvinnu sem við höfum átt í mörgum málum við stjórnarandstöðuna.

Það hefur verið ánægjulegt að sitja með þessum öfluga hópi og koma góðum verkum í framkvæmd. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka utanþingsráðherrum sem við kveðjum nú fyrir þeirra miklu og góðu störf við erfiðar aðstæður sem þjóðin hefur tekið eftir og metur mikils. Það gerum við líka, stjórnmálamennirnir á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

Frú forseti. Sá mikli árangur sem náðst hefur er til marks um mikilvæga áfangasigra í glímunni við þá erfiðleika og þau áföll sem íslenskt efnahagslíf og samfélag hefur orðið fyrir. Viðamikil verkefni eru nú einnig fram undan sem miklu máli skipta varðandi framtíð þjóðar okkar, verkefni sem krefjast samheldni, staðfestu og skilvirkrar stjórnsýslu. Mikilvægur liður í því er að fram fari róttæk uppstokkun í stjórnkerfi hér á landi með fækkun ráðuneyta og einföldun stofnanakerfisins. Þessi uppstokkun kallar m.a. á breytingar á ríkisstjórn og því hefur ráðherrum nú verið fækkað um tvo og stefnt er að enn frekari fækkun um áramótin. Ný ríkisstjórn mun taka til óspilltra málanna þar sem frá var horfið og 20 mikilvæg mál hafa verið kynnt sem sérstök áherslumál ríkisstjórnarinnar á komandi mánuðum.

En þótt viðsnúningurinn sé þegar mikill og bjartsýni að aukast megum við ekki vera andvaralaus. Við verðum að sýna þolinmæði og þrautseigju. Við ætlum að byggja hér traustan grunn til frambúðar.

Fram undan eru erfið niðurskurðarfjárlög þar sem markmiðið er að ná fram 43 milljarða kr. bata á milli ára. 3/4 hlutum verður mætt með niðurskurði og 1/4 hluta með auknum skatttekjum. Í raun er ekki gert ráð fyrir nema 8 milljörðum kr. í nýjum tekjum í komandi fjárlagafrumvarpi og þær auknu tekjur fara að mestu í að fylla skarð tekna sem falla niður frá þessu ári. Gangi þetta eftir hefur ríkisstjórnin á starfstíma sínum bætt stöðu ríkissjóðs sem nemur 9,7% af landsframleiðslu. 78% af þeim bata hafa orðið til gjaldamegin og 22% teknamegin.

Fram undan eru einnig mikilvægir áfangar í uppstokkun stjórnkerfisins, þeirri umfangsmestu í lýðveldissögunni. Ráðist verður í fækkun ráðuneyta úr tólf í níu, mun hraðar en samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna gerði ráð fyrir. Sameiningu og fækkun stofnana um 20–30% verður einnig flýtt og umfangsmikil skref verða stigin á þessu ári og því næsta. Enn frekari skref verða stigin til að bæta stjórnsýsluna, m.a. á grundvelli niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og starfshópa forsætisráðherra. Stofnun nýrrar þjóðhagsstofnunar er ein af þeim hugmyndum sem unnið er með. Þá verður flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna að veruleika um næstu áramót og undirbúningur að tilfærslu málefna aldraðra fer á fulla ferð.

Nýrrar ríkisstjórnar bíður einnig það risavaxna verkefni að leiða til lykta átökin um auðlindir Íslands, fiskinn, orkuna og vatnið, átök sem hafa klofið þjóðina í fylkingar í áratugi en stjórnarflokkarnir hafa unnið markvisst að lausn á á undanförnum mánuðum. Það er grundvallarmál að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar og að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar. Fram undan er vonandi sátt um sjávarútvegsmálin. Ný vatnalög verða vonandi afgreidd fyrir áramót, nýr lagarammi um eignarhald á orkufyrirtækjum er í mótun sem og um gjaldtöku vegna nýtingar . Á stjórnlagaþingi gefst síðan tækifæri til að vinna enn frekar að þessum réttindum þannig að þau verði í eigu þjóðarinnar til frambúðar.

Á komandi vetri verður skuldavandi heimila og fyrirtækja í brennidepli eins og undanfarin missiri. Eyða þarf óvissu og leiða til lykta þau álitamál sem risið hafa vegna ólöglegra gengislána. Fullan kraft þarf að setja í úrvinnslu skuldamála á grundvelli samþykktra úrræða og nýstofnað embætti umboðsmanns skuldara mun láta til sín taka. Áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að embættið fái til ráðstöfunar hátt í hálfan milljarð króna á sínu fyrsta starfsári — allt til að bæta stöðu skuldara í baráttu þeirra við vandann sem hrunið olli.

Auk þessa er fjöldi stórra mála í farvatninu sem munu setja mark sitt á haustið og veturinn. Kjarasamningar eru lausir og knýjandi þörf er á að skapa þar áframhaldandi frið. Endurskoðanir efnahagsáætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru á dagskrá. Gjaldeyrishöftin þarf að afnema í áföngum. Lausn Icesave-málsins og niðurstaða í stað þeirrar óvissu sem ríkt hefur um gjaldeyrislán bankanna eru mikilvægar forsendur á þeirri vegferð.

Frú forseti. Ég lít á þann vetur sem nú er að hefjast sem síðasta stóra hjallann í því mikla verkefni sem þjóðin fól Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í síðustu kosningum þótt verkefnin verði áfram óþrjótandi. Veturinn er mikilvægur hluti í þeim leiðangri að reisa Ísland úr efnahagslegum og siðferðilegum rústum sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skildu eftir. (Gripið fram í.)

En það er full ástæða til bjartsýni. Með þolinmæði og þrautseigju höfum við hægt og bítandi náð að vinna okkur út úr afleitri stöðu. (Gripið fram í.) Við Íslendingar höfum á rúmu ári náð með samtakamætti ótrúlegum árangri sem við getum verið stolt af. Við höfum öll fært fórnir og búið við þrengri efnahag en áður. Við höfum öll þurft að takast á við vonbrigði. Þorri Íslendinga hefur þurft að búa við verulega skert lífskjör og mikla erfiðleika en við höfum náð miklum árangri sem alþjóðasamfélagið tekur eftir og virðir. Við erum á réttri leið og okkur ber beinlínis skylda til að halda ótrauð þeirri stefnu sem hefur skilað okkur svo vel fram á við.

Um leið og ég þakka þjóðinni fyrir þá þolinmæði og þrautseigju sem hún hefur sýnt í hremmingum undangenginna missira heiti ég á þingheim, ráðherra, starfsmenn Stjórnarráðsins og þjóðina alla að ganga nú einbeitt til þeirra mikilvægu verkefna sem fram undan eru.

Sá vetur sem fram undan er verður svo sannarlega ekki auðveldur en lánist okkur að vinna vel úr þeim verkefnum sem þar bíða okkar verður uppskeran ríkuleg. Við munum uppskera bættan efnahag heimilanna, faglegri og skilvirkari stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá, réttlátari meðferð á auðlindum þjóðarinnar, jafnari skiptingu lífsgæða, aukin mannréttindi og, síðast en ekki síst, betra samfélag sem gerir okkur að sterkari og öflugri þjóð en nokkru sinni.



[13:56]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við erum hér til að ræða störf og stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki er vanþörf á nú þegar við komum saman að nýju því að hvert sem litið er blasir við stefnuleysi og ákvörðunarfælni. Breytingar á ríkisstjórninni eru ekkert nema sjónarspil sem ekkert gildi hefur. Þjóðin er ekki að kalla eftir nýjum andlitum, hún er að kalla eftir nýrri stefnu og, síðast en ekki síst, þjóðin er að kalla eftir aðgerðum.

Það vekur þó athygli að sá ráðherra sem vinsælastur var skuli víkja en þeir sem valdið hafa forsætisráðherra mestum vandræðum sitja áfram eða koma inn í ríkisstjórnina. (Utanrrh.: Ertu að tala um mig?) Hin raunverulega ástæða þessa sjónarspils er að á stjórnarheimilinu er hver höndin upp á móti annarri. Nú á að gera úrslitatilraun til að þétta raðirnar um það sem ekkert er. Það er bersýnilegt að þessi ríkisstjórn snýst um ekkert nema völdin. (Gripið fram í: Góðan daginn.)

Aðilar vinnumarkaðarins hafa fyrir löngu fengið nóg og þingmenn stjórnarflokkanna mótmæla stefnu stjórnarinnar síendurtekið. Í nýrri hagvaxtarspá Seðlabankans er gert ráð fyrir minni hagvexti en áður sökum þess að hér er fylgt aðgerðaleysisstefnu. En hæstv. fjármálaráðherra lætur sér ekki segjast og segir að landið sé að rísa. (Gripið fram í: Rétt.) Sem jarðfræðingur ætti hann að vita að það kann að boða mikil ótíðindi. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)

Ef við veltum því fyrir okkur í alvöru hvað hefur gerst frá því í hruninu er það svo að þrátt fyrir aðgerðaleysið er það rétt sem hæstv. forsætisráðherra tók hér fram að svörtustu spár um samdrátt og atvinnuleysi hafa ekki gengið eftir, og sem betur fer. Þau örfáu jákvæðu teikn sem við höfum eru annars vegar vegna hagstæðra ytri skilyrða og hins vegar vegna þróunar sem hlaut að gerast og byggir á efnahagsáætlun fyrri ríkisstjórnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Staðan er sem sagt betri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, hún er ívið betri en við áttum von á — og það er þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. (Utanrrh.: Heldur en þú spáðir.)

Verðbólgan er til dæmis á niðurleið. Hver er ástæða þess? Jú, gjaldmiðillinn féll, þá kemur verðbólguskot, síðan kólnun. Innlend eftirspurn skreppur saman, gengið nær stöðugleika, það kemst jafnvægi á gengi krónunnar eftir að hún hrynur og í kjölfarið hjaðnar verðbólgan. Þetta er fyrirséð, þetta er beinlínis skrifað inn í þá áætlun sem samin var haustið 2008.

Varðandi hagvöxtinn og samdráttinn, jú, það er rétt, samdráttur í hagkerfinu hefur verið minni en spáð var. Þar hafa útflutningsgreinarnar og ferðaþjónustan fyrst og fremst notið góðs af lágu gengi. Lágt gengi krónunnar og sveigjanleiki hennar hjálpar okkur, um það verður ekki deilt, og sem betur fer hefur eftirspurn hjá viðskiptaþjóðum okkar verið ágæt og afurðaverð hátt, bæði fyrir ál og fiskafurðir. Þá hefur samkeppnishæfni ýmissa fyrirtækja, t.d. í hugverkaiðnaðinum, aukist þótt innanlandsmarkaðurinn sé enn í algjörri ládeyðu. Ytri skilyrði hafa sem sagt verið okkur hagfelld á ýmsan hátt og það dugar ríkisstjórninni skammt að skreyta sig með slíku. Aðgerðir hennar hafa nefnilega haft þveröfug áhrif. (Gripið fram í.) Besta dæmið er stórfelldar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Slíkar aðgerðir hleypa ekki lífi í hagkerfið. Við munum ekki einu sinni deila um það þegar það ber á góma hér í haust. Skattahækkanir örva ekki vöxt hagkerfisins. Þess vegna er algjört glapræði af ríkisstjórninni að ætla að setja þær á dagskrá enn á ný þegar við komum saman í október. Það er algjörlega fráleitt.

Til að loka fjárlagagatinu þarf hagvöxt og hann verður ekki til með fjölgun opinberra starfa, hann verður ekki til með því að setja á laggirnar nýjar stofnanir sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar þreytast ekki á að tyggja ofan í okkur að þeir hafi komið á fót, eins og t.d. umboðsmann skuldara. Nei, hagvöxtur verður til með því að sjá fyrirtækjunum í landinu fyrir almennt traustum og öflugum rekstrarskilyrðum. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa heilbrigð skilyrði til atvinnuuppbyggingar. Mjög mikilvægur liður í því er — og það á sérstaklega við um núverandi aðstæður — að lækka vexti enn frekar og setja í algjöran forgang að afnema gjaldeyrishöftin. Yfirlýsingar eins og þær sem bárust í dag um að á næstunni skuli miðað að því að taka fyrstu skrefin í afnámi haftanna duga engan veginn. Það þarf að setja þetta mál á dagskrá miklu skýrar og ákveðið.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert fleira sem hefur valdið skaða? Jú, hún setti fyrningu aflaheimilda á dagskrá sem algjört forgangsmál. Sem betur fer hefur það verið tekið af dagskrá og endanlega skjalfest af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í dag. Hugmyndinni um fyrningu hefur verið pakkað niður og það er mjög vel.

Það er auðvitað nauðsynlegt, við vitum það öll, að auka aðhaldið í ríkisrekstrinum til að loka fjárlagagatinu. Þar þarf að forgangsraða og Sjálfstæðisflokkurinn mun á komandi þingi leggja höfuðáherslu á það að menntakerfinu verði hlíft við frekari niðurskurði en orðið er. Ósanngjarn, óeðlilegur frekari niðurskurður í menntakerfinu mun skapa meira atvinnuleysi sem leggst á ríkissjóð.

Það mætti tína til fleiri skaðlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ekki hjálpaði afnám verðtryggingar persónuafsláttarins fjölskyldunum í landinu eða hækkun tryggingagjalds fyrirtækjunum. Það gjald er ekkert annað en skattur á störf. Og ekki hjálpaði hirðuleysi ríkisstjórnarinnar um þá óvissu sem ríkti vegna gengistryggðra lána. Ekki skorti lögfræðiálitin þó að hæstv. forsætisráðherra hafi svo sem ekki verið á póstlistanum þegar þau gengu á milli manna.

Það ástand sem ríkisstjórnin hefur skapað með hirðuleysi og yfirsjón vegna gengistryggðu lánanna er stóralvarlegt. Það hefur skapað óvissu fyrir heimilin og mikla óvissu fyrir fyrirtækin. Óvissan um afdrif málsins fyrir ríkissjóð er líka mjög alvarleg. Þetta eru allt heimatilbúin vandamál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Við getum haldið áfram. Ekki hjálpuðu fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að leggja á íslenskan almenning Icesave-klyfjarnar okkur í þessa aðeins betri stöðu en við áttum von á. Í því máli er ríkisstjórnin ber að mistökum sem ber að rannsaka. (Gripið fram í: Ekki hjálpar það … ríkisstjórnarinnar.)

Getuleysi ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming. Skoðum orkuöflun og -nýtingu. Henni hefur tekist með algjöru klúðri að fæla erlenda aðila frá því að koma hingað og fjárfesta. Þetta er til mikils skaða. Ég segi einfaldlega: Ef ríkisstjórnin er andvíg áformum um uppbyggingu í orkufrekum iðnaði á Suðurnesjunum á hún bara að segja það hreint út eins og á t.d. við í tilviki Norðlingaölduveitu þar sem hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hafa sagt það hreint út að þeir eru á móti þeirri virkjun, sem er í raun og veru ekki virkjun heldur veita. Þar er ríkisstjórnin á móti hagkvæmasta og skynsamlegasta orkunýtingarkostinum sem er í boði. Þá veit fólk það bara, þetta er afturhaldsstjórn, það er það sem við höfum, enda eru allir nema einn í ríkisstjórninni úr gamla Alþýðubandalaginu.

Einu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru þær að setja sífellt á laggirnar nýjar stofnanir eða nefndir sem á endanum snúast ekki um annað en hæfi eða óhæfi einstakra nefndarmanna. Þetta á alveg sérstaklega við um það sem ég var að nefna, orkumálin.

Hvað á að bjóða lengi upp á þetta, hæstv. forsætisráðherra? (Gripið fram í.) Hvenær skilar nefndin sem sett var á laggirnar til að skoða hæfi nefndarmanna í nefnd sem átti að skoða störf nefndar um erlenda fjárfestingu? Eru þetta ekki örugglega allar nefndirnar sem skipaðar voru og komið á fót til að skoða það mál? Ég held að hún sé ekki búin að skila, þessi fyrstnefnda.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði í vikunni að það væri ekki mál stjórnvalda hvað gerðist í stóriðju á Suðurnesjunum, en hún vildi halda fund til að spyrja alla hlutaðeigendur hvað ætti að gera í málinu. Nú vil ég spyrja: Er til of mikils mælst af iðnaðarráðherra, samflokksmanni þess manns sem fór á Suðurnesin og tók þar skóflustunguna að nýju álveri, að hún taki einfaldlega afstöðu til málsins, lýsi stuðningi við verkefnið, lofi að ryðja öllum hindrunum úr vegi — nú, eða lýsi sig andsnúna því? (Iðnrh.: Ég var …) Það gengur auðvitað ekki fyrir Samfylkinguna í orkumálum trekk í trekk að taka einhverja hlutleysisafstöðu svipað og við þekkjum úr Hafnarfirði þegar stækka átti álverið þar. Þá tók Samfylkingin þann valkostinn sem minnst áhætta var í og sagði: Við höfum ekki skoðun lengur, við höfum stigið frá málinu, nú er það í ykkar höndum. (Gripið fram í.)

Við þurfum ríkisstjórn sem hefur einhverja stefnu, við þurfum ráðherra sem vilja eitthvað en er ekki sama um það hvernig málunum vindur fram. (Fjmrh.: Hvað leggið þið til?)

Frú forseti. Stöðugleikasáttmálinn er sprunginn (Gripið fram í.) og komandi kjarasamningar stefna í einn allsherjarhnút. Þegar horfa þarf fram á við einblínir ríkisstjórnin aftur til fortíðar. Við núverandi aðstæður þarf að hlúa að atvinnulífinu og gefa von, tækifærin eru til staðar. Ríkisstjórnin verður að gera sér grein fyrir því að virðisaukinn verður til í hinu almenna hagkerfi. Þar verða tekjurnar til sem velferðin er byggð á. (Forseti hringir.) Á örfáum vikum er hægt að gjörbreyta horfum í atvinnumálum, ekki bara á Suðurnesjunum þar sem allan stuðning vantar frá ríkisstjórninni, heldur um allt land.

Ég óska nýjum ráðherrum velfarnaðar í þeirra nýju störfum. Ábyrgð þeirra er mikil. Hafið í huga, ágætu samstarfsmenn, virðulegu ráðherrar, að fólkið í landinu var ekki að bíða eftir nýjum andlitum, það er að bíða eftir nýrri stefnu. Það er að bíða eftir aðgerðum. (Forseti hringir.) Aðgerða er þörf.



[14:07]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ágæti þingheimur. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins hlý orð og góðar óskir í garð ríkisstjórnarinnar á þessum tímamótum. Það var einhvern tíma kveðið um hyldjúpan næturhimin sem væri helltur fullur af myrkri. Ég segi kannski ekki að það eigi við hér þegar maður er búinn að sitja undir messu formanns Sjálfstæðisflokksins en einhvern veginn gat ég ekki varist þeirri hugsun að hann kæmi ekki mjög vel undan sumri. Úr því að talað er um landris er vissulega rétt að það getur vitað á vonda hluti ef það er fyrirboði eldgosa en í almennu samhengi — það ættu sjálfstæðismenn að hafa í huga — er landris betra en landsig.

Það var auðvitað mikið landsig á Íslandi þegar hinn þungi jökull lagðist yfir landið á ísöld sem leiddi til þess að þegar ísana leysti vegna seigju jarðskorpunnar var láglendið um 100 metrum lægra miðað við sjávarmál en áður var. Það hafði þær afleiðingar að allt Suðurlandsundirlendið var á kafi í sjó og fjöllin voru eyjar. Má ég þá frekar biðja um landris en svoleiðis landsig.

Þær breytingar á ríkisstjórn sem voru gerðar í dag fela fyrst og fremst í sér skýr og sterk skilaboð um að þessi ríkisstjórn er ekkert á förum. Hún er að endurskipuleggja sig og taka mið af þeim verkefnum sem fram undan eru, þar á meðal og ekki síst að ráðast í djarfar og metnaðarfullar breytingar á Stjórnarráðinu. Nú er verið að sameina ráðuneyti og fækka ráðherrum sem er liður í því að hagræða niður eftir öllu kerfinu, færa saman stofnanir og verkefni, styrkja einingar og taka á þeim veikleikum í stjórnsýslunni sem m.a. rannsóknarskýrslan dregur mjög skýrt fram.

Sú var tíðin að menn fóru þannig að ráði sínu að þeir skiptu upp jafnvel litlum ráðuneytum þegar vantaði stóla undir menn, en það gerir þessi ríkisstjórn ekki heldur tekst þvert á móti af djörfung á við breytingar sem eru sjálfsagðar við okkar erfiðu aðstæður. (Gripið fram í: Hvaða fjarstæða …?)

Ég vil við þessi tímamót, frú forseti, færa alveg sérstakar þakkir því góða fólki sem tók að sér erfið verkefni, um það beðið með stuttum fyrirvara í byrjun febrúar 2009, þeim fráfarandi efnahags- og viðskiptaráðherra og fráfarandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, Gylfa Magnússyni og Rögnu Árnadóttur. Með því lögðu þau af mörkum þjónustu við land og þjóð, þau hlýddu kallinu. Þau hafa unnið vel og faglega og ég treysti því að hver einasti alþingismaður sé mér sammála um það og taki undir að þetta fólk á þakkir skildar fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Gangi þeim vel á nýjum vegum.

Ég vil líka færa öðrum fráfarandi ráðherrum sem nú hverfa úr ríkisstjórn og halda sætum sínum hér þakkir fyrir þeirra störf, þar á meðal og ekki síst auðvitað Álfheiði Ingadóttur sem með afar stuttum fyrirvara tók að sér erfið verkefni heilbrigðisráðuneytisins og hefur leyst þau af hendi með heiðri og sóma.

Þá vil ég að lokum óska velfarnaðar nýjum ráðherrum sem nú taka við gríðarlega viðamiklum verkefnum, þeim Ögmundi Jónassyni og Guðbjarti Hannessyni, hæstv. ráðherrum sem taka að sér að leiða saman í heila höfn sameiningu innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Þar undir eru gríðarlega stórir málaflokkar og miklir fjárhagslegir hagsmunir. Þar er veitt viðkvæm þjónusta við erfiðar aðstæður, ekki síst í velferðarráðuneytinu, og ég vil segja að mér líður vel með það í höndunum á Guðbjarti Hannessyni, hæstv. ráðherra, þaulreyndum manni úr fjárlaganefnd og úr sveitarstjórnarmálum. Ögmund Jónasson þekkjum við af atorku hans og dugnaði og bjóðum hann líka velkominn í hópinn á nýjan leik. (Gripið fram í.)

Það eru að skapast góðar forsendur til að snúa vörn í sókn. Við erum að snúa vörn í sókn, Íslendingar, við erum á tímamótum, það er orðinn viðsnúningur í hagkerfinu og það hlýtur að gleðja stjórnarandstöðuna. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarandstaðan fagni því með okkur að margt hefur gengið betur en við óttuðumst að gera mundi. Að minnsta kosti hljóta þeir að gleðjast alveg sérstaklega í hjarta sínu sem fyrir ári eða einu og hálfu ári voru svartsýnastir. (Gripið fram í.) Einhverjir sögðu að stórfelldur landflótti væri að bresta á. (Gripið fram í.) Það voru menn sem sögðu að atvinnuleysi yrði kannski 20% á Íslandi. (Gripið fram í: Hver talaði um …?) Í aðdraganda kosningabaráttunnar vorið 2009 gerðu það ákveðnir menn. Menn töldu, og ekki bara svartsýnir stjórnarandstæðingar heldur spáaðilar, að landsframleiðsla á Íslandi mundi kannski dragast saman í heild um 12–15%.

Nú stefnir í að sá samdráttur verði í mesta lagi 8%, jafnvel ekki nema 7–7,5%. Það skyldu menn hafa í huga, og ekki síst formaður Sjálfstæðisflokksins, að fleira skiptir máli en bara hagvaxtarprósentur í spám inn í framtíðina. Það sem mun reynast okkur hvað dýrmætast er að viðsnúningurinn, hagvöxturinn kom meira en hálfu ári fyrr en við höfðum gert okkur vonir um og það verður 70–100 milljörðum kr. stærra hagkerfi sem tekur að vaxa. Botninn fór ekki eins langt niður þannig að vöxturinn verður í stærra hagkerfi og það fylgir okkur ár frá ári inn í framtíðina. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar allar spár og framreikningar eiga sér stað. Landsframleiðsla stefnir í að dragast mun minna saman en spár gerðu ráð fyrir, atvinnuleysi hefur reynst minna og er á niðurleið, vextir hafa lækkað umtalsvert, verðbólga sömuleiðis, og kaupmáttur launa hefur aukist á nýjan leik, mest hjá láglaunafólki. Þar er að þakka bæði skynsamlegum kjarasamningum sem skiluðu þeim litlu hækkunum sem menn töldu sig ráða við, fyrst og fremst á lægstu laun, og skattkerfisbreytingum sem hlífa lágtekjufólki við skattahækkunum. (Gripið fram í: En ellilífeyrisþegum?)

Þegar núna er greint hvernig álagning ársins 2009 kom út kemur í ljós að skattbyrðin, þ.e. skattur á móti tekjum, var minni við álagningu 2010 á tekjur fyrra árs en við álagningu 2009 hjá einstaklingi með tekjur undir 6 millj. kr. Það tókst sem sagt að gera nákvæmlega þær breytingar á skattkerfinu sem við ætluðum okkur og tekjujöfnunargildi aðgerðanna hefur aukist. Hið sama má þar af leiðandi gefa sér að verði niðurstaðan á árinu 2010 enda um nánast algjörlega sambærilegar áherslur að ræða.

Margt fleira af þessu tagi má tína til og það skiptir okkur máli. Hitt er alveg augljóst, frú forseti, að fram undan er áfram glíma við mikla erfiðleika. Við erum búin að ná árangri, við höfum séð og fengið staðfestan viðsnúning í hagkerfinu en Ísland á auðvitað langt í land með að endurheimta sinn efnahagslega styrk, ná hér aftur upp lífskjörum og ná niður atvinnuleysi og öðrum þeim hlutum sem við hljótum öll að sameinast um að við ætlum okkur að gera. En það skiptir miklu máli að vita að landið er að rísa, að það er orðinn viðsnúningur og að við erum að snúa vörn í sókn.

Við Íslendingar þurfum áfram á einu að halda umfram kannski flest annað og það þarf þessi salur hér líka að hafa í huga, við þurfum áfram anda samstarfs og samvinnu á Íslandi milli stjórnmálaflokka, stjórnar og stjórnarandstöðu og við heildarsamtök í atvinnulífinu og annars staðar.

Já, menn tala niður stöðugleikasáttmálann, það er mjög í tísku (Gripið fram í: Hann er ekki til.) að hrópa hann niður. (Gripið fram í: Hann er ekki til.) En vilja menn ekki aðeins velta fyrir sér mikilvægi þess sem þó tókst vorið 2009 — þó að ýmislegt hafi síðan gengið á í því samstarfi — að stilla saman kraftana og ná skynsamlegri lausn í launamálum fyrir svo til allan vinnumarkaðinn sem var viðráðanleg fyrir samfélagið? Við þurfum aftur á því sama að halda. (Gripið fram í.) Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að auðvitað er erfiður vetur í nánd, það vitum við. Hér þurfa að fara í gegn sennilega einhver erfiðustu fjárlög nokkru sinni, einfaldlega vegna þess að það verður enn aukið á kröfur um aðhald og sparnað ofan í það sem búið er í tvígang eða þrígang að leggja á rekstur hins opinbera. En það er óendanlega mikið í húfi að okkur takist það og þar með verður það versta afstaðið. Þar með ætti að vera lokið þörfum fyrir frekari beinan samdrátt í ríkisútgjöldum. Hagræðing á grundvelli skipulagsbreytinga og sameininga og batnandi gengi í efnahagslífinu eiga að geta skilað okkur því sem þá vantar upp á til að ná endum saman í ríkisfjármálunum á árinu 2013, það er takmarkið.

Eitt er á hreinu og það er að tækifæri og möguleikar Íslands eru óendanleg. Við Íslendingar höfum öll þau úrræði og alla þá möguleika sem við þurfum á að halda til að ná okkur í gegnum þetta. Í ljósi þó þess árangurs sem náðst hefur er engin ástæða til að kvíða því að það muni ekki takast. Það mun sannarlega takast. Þessi ríkisstjórn mun fara með landið í gegnum þessa kreppu og upp úr henni og þá er til nokkurs barist.



[14:17]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum í dag störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Í raun segir það allt sem segja þarf um störf þessarar ríkisstjórnar að hún skuli ekki hafa treyst sér til að láta sjá sig aftur í þinginu óbreytta. Í óðagoti var reynt að setja saman nýja ríkisstjórn eða nýja uppröðun í stjórnina til að sumir ráðherrar þyrftu ekki að mæta hér og svara fyrir það sem þeir hafa gert undanfarnar vikur og mánuði og til að sumir ráðherrar kæmust í skjól í nýjum ráðuneytum. Engu að síður er ástæða til að óska þeim sem hafa tekið sæti í ríkisstjórninni nú til hamingju með það og óska þeim velfarnaðar í starfi. Guðbjartur Hannesson fær ákaflega stórt hlutverk og gott að hann skuli vera kominn með reynslu af fjárlagagerð því að hjá ráðuneyti hans verður megnið af útgjöldum ríkisins. Vonandi að þar takist vel til. Eins er, má segja, fagnaðarefni að Ögmundur Jónasson skuli aftur vera kominn í ríkisstjórnina og maður vonar að það aðhald sem hefur komið úr þeirri átt breytist í engu þótt hann sé sestur á nýjan stað í salnum.

Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvers vegna hæstv. dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir var látin víkja úr stjórn. Hafði hún ekki staðið sig sem skyldi? Og hvar er Kristján Möller? Kristján Möller er líklega eini ráðherrann sem hefur verið í einhverjum samskiptum út á við, t.d. við atvinnurekendur sem sakna hans nú sárt og sjá ástæðu til að mótmæla því sérstaklega að honum sé vikið úr ríkisstjórn. En svona er það, eitt tengist öðru í pólitíkinni og vandræðagangur viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra o.fl. hefur nú orðið til þess að Kristján Möller fær ekki að opna Héðinsfjarðargöngin. [Hlátur í þingsal.] Þannig tengist eitt öðru en að öllu gríni slepptu er það (Gripið fram í: Þau verða að opna …) [Hlátur í þingsal.] verulegt áhyggjuefni að sú ríkisstjórn sem hefur verið að störfum í sumar og við höfum fylgst með vandræðagangi hjá dag eftir dag skuli hafa farið þannig með vald sitt að hún treysti sér ekki til að mæta til þings og verja gerðir sínar.

Það er engu að síður ástæða til að ræða það sem hefur verið að gerast í samfélaginu á vakt þessarar ríkisstjórnar undanfarna mánuði og raunar frá því að hún tók við völdum. Þó að maður hafi verið farinn að vona að nú, næstum því tveimur árum eftir efnahagshrunið, gætu núverandi valdhafar litið til framtíðar og talað út frá framtíðarsýn sinni eða um stöðu sína út frá því sem þeir hafa gert, þá virðist hæstv. forsætisráðherra enn þá vera algerlega föst í fortíðinni. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að dvelja þar áfram er ekki hægt annað en að taka þá umræðu almennilega því að hæstv. forsætisráðherra leyfir sér eina ferðina enn að koma og tala með þeim hætti að hún virðist ekki muna eftir því að hafa setið í ríkisstjórn 2007 til 2009, í ríkisstjórninni sem sat þegar hrunið varð, í ríkisstjórninni sem sat þegar mistök voru gerð á hverjum einasta degi, eins og kemur reyndar ágætlega fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kom, held ég að mér sé óhætt að segja, hæstv. forsætisráðherra og þingmönnum Samfylkingarinnar illilega á óvart vegna þess að þau voru farin að trúa eigin áróðri. Þau voru farin að trúa því að þau hefðu hvergi komið að málum en allt í einu birtust þarna níu bindi þar sem það var skjalfest að líklega hefði Samfylkingin átt meiri þátt í því hvernig fór hér en nokkur annar flokkur, ef menn ætla að skilgreina það þannig. Enda var Samfylkingin sá flokkur sem hvað mest klappaði fyrir útrásinni, sá flokkur sem lét setja inn í stjórnarsáttmála þegar hann fór í stjórn með Sjálfstæðisflokki 2007 að það mætti ekkert gera til að hefta útrásina. Samfylkingin óttaðist að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, frjálshyggjuflokkurinn, mundi reyna að draga eitthvað úr útrásinni umfram það sem Samfylkingin taldi við hæfi. Og hver man eftir því að Samfylkingin sagði aftur og aftur og aftur, ár eftir ár eftir ár að útrásin og öll sú dásemd sem henni fylgdi væri ekki þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að þakka. Nei, þetta var allt EES-samningurinn og hafði ekkert með valdhafana að gera. En nú allt í einu kannast menn ekki við það og kannast alls ekki við árin sín í ríkisstjórn, þar sem hæstv. núverandi forsætisráðherra lét meira að segja setja sig í sérstakt efnahagsráð ríkisstjórnarinnar til að geta haft puttana í málunum með þeim árangri sem við sáum svo fyrir tveimur árum síðan.

Væri ekki ráð, í stað þess að reyna að endurskrifa söguna, að snúa sér að framtíðinni? Væri ekki ráð fyrir þessa ríkisstjórn að fara að veita einhverja framtíðarsýn sem menn gætu haft trú á og fjárfest í? Þó að hér sé talað mikið um uppgang í efnahagsmálum þá minnir sú umræða fyrst og fremst á þá tækni sem var notuð í Sovétríkjunum á sínum tíma, tölfræðileiki sem réttlættu hlutina þrátt fyrir að hverjum manni mætti vera ljóst, bara með því að ganga um göturnar eða hitta fólk í kaffi, að ástandið væri allt annað heldur en hinar uppstokkuðu tölur áttu að gefa til kynna. Þannig leyfir t.d. hæstv. forsætisráðherra sér að halda því fram að megnið af bættri stöðu ríkissjóðs, eins og hún kallaði það, væri til komið með samdrætti, með niðurskurði, með sparnaði, réttara sagt, og einungis tuttugu og eitthvað prósent með útgjöldum, með gjaldtöku. Hvernig kemur þetta heim og saman við það sem fulltrúar atvinnulífsins, vinnuveitenda og launþega, segja? Hvers vegna dó stöðugleikasáttmálinn svokallaði drottni sínum? Það var m.a. vegna þess að ríkisstjórnin stóð engan veginn við það að ráðast í þær sparnaðaraðgerðir sem til höfðu staðið en byggði hins vegar fyrst og fremst á skattahækkunum og ætlar að halda áfram á þeirri braut. Þegar kemur að skattahækkunum ætlar hæstv. fjármálaráðherra þó að standa við það loforð sem hann gaf þegar hann sagði: „You ain't seen nothing yet“. Enn á að ráðast í skattahækkanir í haust, á sama tíma og ríki allt í kringum okkur sem eiga í efnahagslegum erfiðleikum eru að fara í þveröfuga átt og auka umsvif hagkerfisins, auka fjárfestingu, skapa þær aðstæður að verðmætasköpunin verði meiri og þá verði meira til að skattleggja. Hér er farið í þveröfuga átt, það er samdráttur á öllum vígstöðvum.

Hvers vegna hafa menn komist upp með þetta til þessa? Jú, meðal annars vegna þess að ríkisstjórninni hefur verið forðað frá því að gera mistök sem hefðu verið svo stórkostleg að jafnvel frammistaða Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 bliknar í samanburði. Þessi ríkisstjórn ætlaði nefnilega að velta hundruðum milljarða af skuldum einkafyrirtækis yfir á íslenska skattgreiðendur. Hvernig væri staðan í dag ef það hefði tekist? Nú talar ríkisstjórnin um að erfiðar aðgerðir séu fram undan, erfiður vetur. Það stendur til að ráðast í verulegan niðurskurð og verulegar skattahækkanir. Niðurskurðurinn á að skila 30 milljarða kr. sparnaði og skattahækkanirnar 10 eða 11 milljörðum, samtals um 40 milljörðum. Þetta er einmitt sama upphæð og hefði farið í að borga bara vexti af Icesave á þessu ári ef ríkisstjórnin hefði fengið sínu framgengt og allar skattahækkanir og allur niðurskurður ríkisstjórnarinnar til þessa gerir ekki meira en að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum ef til þeirra hefði komið. Raunar er þetta ekki alveg sanngjarn samanburður því sparnaðurinn er má segja a.m.k. tvöfalt meiri. Þær vaxtagreiðslur sem stóð til að greiða út úr landinu í erlendri mynt hefðu ekki skapað þau margföldunaráhrif sem fjármunirnir gera þegar þeir haldast í hagkerfinu svo að sparnaðurinn vegna Icesave tvöfaldar líklega allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

En það sem er kannski enn þá verra er að menn skuli ekki nýta tækifærin því að tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Hér er í heimsókn utanríkisráðherra Indlands og við í utanríkismálanefnd áttum fund með honum í morgun og hann, eins og svo margir erlendir gestir, getur ekki annað en undrast það hversu mörg tækifæri eru til staðar þrátt fyrir allt. Svo undrast menn auðvitað líka að tækifærin skuli ekki vera nýtt. Hverjar eru t.d. aðstæður hér í atvinnumálum? Hversu mörg tækifæri eru til staðar? Því geta t.d. fulltrúar ríkisstjórnarinnar í iðnaðarnefnd svarað, þar hafa tugir fjárfestingarkosta verið kynntir en allir stoppaðir, hver og einn einasti, vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og tilhneigingar Vinstri grænna til að koma í veg fyrir alla möguleika til að skapa störf. Svo segja menn: Þetta er ekkert vandamál því að landflóttinn er ekki eins mikill og við héldum og störfum er farið að fjölga. Nei, þeim er ekki farið að fjölga. Menn gleyma til að mynda að taka með í reikninginn að á hverjum einasta degi flytur ein fjölskylda til Noregs. Til annarra landa flytja svo fleiri, en bara til Noregs flytur nú ein fjölskylda daglega svo að störfum er að fækka. Það er verið að flytja þau úr landinu. En öll tækifæri eru hins vegar til staðar til að snúa þessari þróun við og eitt var ánægjulegt að heyra í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, hann talaði um mikilvægi samstarfs og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Vonandi gerist það nú sem ekki hefur gerst til þessa að ríkisstjórnin meini það sem hún segir og við fáum að kynnast því að leitað verði til stjórnarandstöðunnar um samstarf og samvinnu við uppbyggingu Íslands.



[14:28]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill biðja hv. þingmann um að virða hefðbundið ræðuform og ávörp á Alþingi. (SDG: Ræðuform?)



[14:28]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Frá því að þinghlé var gert í júní sl. hafa margir atburðir gerst sem gáfu ríkisstjórninni tækifæri til að stíga fram úr því skuggahorni sem hún hefur haldið sig í þegar almannahagsmunir eru annars vegar. Því miður hefur ríkisstjórnin þó kosið að standa áfram vörð um hagsmuni fjármagnseigenda í stað hagsmuna almennings í flestum málum. Til að reyna að fegra þetta afleita framferði er nú gripið til flókins ráðherrakapals til að halda friðinn á stjórnarheimilinu fyrst og fremst. Nýtilkynntar breytingar á ríkisstjórninni munu þó ekki breyta neinu og eru í raun ekkert annað en stjórnskipunarleg útfærsla á kennitöluflakki, aðferð sem alþekkt er í viðskiptalífinu. Skipt er um kennitölur á ráðherraembættum og skuldirnar skildar eftir á gömlu kennitölunni sem almenningur þarf svo að greiða, samanber afglöp fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra vegna myntkörfulánanna, og nýrri kennitölu er svo flaggað sem einhvers konar nýju upphafi.

Með þessu er ég þó ekki að lasta hina nýju ráðherra sem ég óska til hamingju með upphefðina. Þeir eru í einhverjum skilningi orðsins réttir menn á réttum stað. Þeir munu þó því miður fljótt gleyma því að þeir eru bara áfram peð í valdatafli stjórnmálaflokka hverra eðli og tilgangur er að viðhalda sjálfum sér umfram allt annað. Í því samhengi er ráðherratitill því lítið annað en hégómi einn.

Í janúar 2009 mættu þúsundir Íslendinga fyrir utan Alþingishúsið í hádegishléi sínu til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn hverrar sumir ráðherrar og stjórnarþingmenn eru hér enn. Krafan var m.a. víðtækar lýðræðisumbætur vegna þess að fólkið var búið að fá nóg af þingmönnum sem misfóru með það framselda vald sem þeim var treyst fyrir. Fólkið hafði sigur að lokum þegar ríkisstjórnin hrökklaðist frá eftir sex sólarhringa, stofnuð var minnihlutastjórn og boðað til þingkosninga. Í þeim kosningum voru loforð um lýðræðisumbætur mjög algeng og hátt á blaði hjá öllum stjórnmálaflokkum og var framboð Borgarahreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar, með það markmið sem kjarnann í sinni stefnuskrá. Því miður hefur lítið orðið um efndir síðan ný ríkisstjórn tók við. Þótt lög hafi verið samþykkt um stjórnlagaþing og með því fyrirheit um nýja, betri og lýðræðislegri stjórnarskrá hefur tregða Alþingis og þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni ekki leitt til samþykkis frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslur sem fyrst Borgarahreyfingin og síðar Hreyfingin hafa lagt fram tvisvar. Frumvörp hæstv. forsætisráðherra sjálfs um persónukjör hafa heldur ekki náð fram að ganga vegna andstöðu innan eigin þingflokka. Þar er á ferð sama sagan og endranær, þ.e. að þingmenn hugsa fyrst fremst um sjálfa sig og sín sæti, svo flokkinn og svo kannski almenning.

Frumvarp Hreyfingarinnar um fjölgun í sveitarstjórnum náði heldur ekki fram að ganga en í meðferð þess í þinginu kom hins vegar skýrt fram að skoðun fjölda þingmanna á lýðræði er hreint út sagt alveg stórfurðuleg. Stórkostlegust eru þó ummæli hæstv. fjármálaráðherra í sex greina bálki sem hann birti nýlega um að lög um þjóðaratkvæðagreiðslu hefðu tekið gildi og að kalli búsáhaldabyltingarinnar um lýðræðisumbætur hefði verið svarað. Þetta er einfaldlega ekki satt og má hæstv. ráðherra hafa skömm fyrir að vera ekki búinn að biðjast afsökunar og leiðrétta mál sitt.

Virðulegur forseti. Vissulega er vonarglæta fólgin í lögum um stjórnlagaþing og því ferli sem drög að nýrri stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum. Það er mikil von bundin við stjórnlaganefndina, við þjóðfundinn og við stjórnlagaþingið sjálft þó að vissulega hafi blossað upp gagnrýnisraddir á þá þætti sem Hreyfingin benti á strax í upphafi að mættu fara betur. Sérstaklega er varhugaverð sú staða sem getur komið upp ef niðurstaða stjórnlagaþingsins er ekki borin undir álit þjóðarinnar áður en Alþingi fær niðurstöðuna til meðferðar. Ég hef nefnilega heyrt á sumum þingmönnum að þeir geta varla beðið eftir því að fá að krukka í niðurstöður stjórnlagaþingsins og við vitum hvað það þýðir. Því er það einboðið og algjörlega nauðsynlegt að útkoma stjórnlagaþingsins fari í dóm þjóðarinnar fyrst, fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu grein fyrir grein eða samhangandi greinar svo Alþingi sé ljós vilji þjóðarinnar áður en þingmenn og þau hagsmunaöfl sem stjórna sumum þeirra ná að læsa í hana tönnunum. Að öðrum kosti mun það samráð og sú samræða sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar ekki vera nema hjóm eitt.

Virðulegur forseti. Á því þingi sem nú sér fyrir endann á eftir um tvær vikur hafa verið lögð fram mörg mál. Því miður hafa fjölmörg merkileg mál ekki fengið þann framgang sem þau eiga skilið en þess í stað hafa ýmis afleit mál ríkisstjórnarinnar náð fram, mál sem ganga fyrst og fremst út á það að hæstv. forsætisráðherra geti hakað við hundrað mála listann sinn. Hér hefur ríkisstjórnin sóað tíma þingsins og þingið beygt sig í duftið.

Hér má nefna lög um dómstóla og skipan dómara sem eru blekking ein, lög um umhverfis- og auðlindaskatt frá síðustu fjárlagagerð sem fjármálaráðherra barðist fyrir en eru ekkert annað en neysluskattur á almenning. Þar er Ísland sennilega fyrsta landið í heiminum til að skilgreina auðlindaskatta með þessum fráleita hætti. Svo eru lög um siðareglur Stjórnarráðsins. Það frumvarp var samið fyrir embættismenn, um embættismenn og af embættismönnum, þeim sömu siðvitru og grandvöru mönnum og stuðluðu að hruninu með aðgerðum sínum. Hér má og nefna frumvarp um Stjórnarráð Íslands sem allsherjarnefnd afgreiddi nýlega en það frumvarp gerir hvorki ráð fyrir neinni hagræðingu, endurskipulagningu á vinnu né sparnaði og varð á endanum ekki nema hálft frumvarp vegna andstöðu Vinstri grænna við atvinnuvegaráðuneytið. (Gripið fram í: … ráðherra.) Alvarlegast er þó frumvarp fjórflokksins um fjármál stjórnmálaflokka sem er nýafgreitt úr allsherjarnefnd. Í því frumvarpi er enn þá gert ráð fyrir nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem og fjárframlögum frá fyrirtækjum.

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem virðulegur forseti lofaði svo mjög segir orðrétt um samspil peninga og stjórnmála, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Þrátt fyrir þessa ákveðnu niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og þrátt fyrir áköf andmæli fulltrúa Hreyfingarinnar í allsherjarnefnd fékk þetta mikilvæga mál ekki efnislega umfjöllun í nefndinni og því var hafnað að fá gesti á fund nefndarinnar. Því var líka hafnað að bíða niðurstöðu þingmannanefndarinnar um málið. Fjórflokkurinn, gæslufélag sinna eigin pólitísku hagsmuna, hefur einfaldlega hafnað því að skýrsla rannsóknarnefndarinnar hafi eitthvert vægi þegar kemur að peningum til þeirra eigin flokka. Peningaþörf flokkanna og þar með þingmanna flokkanna skiptir meira máli en gagnsæi og lýðræði. Menn gera hvað sem er til að geta verið áfram í pólitík og ef flokkurinn skuldar, eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, vel á annað hundrað milljónir króna skiptir það eitt máli.

Ef þetta frumvarp verður afgreitt óbreytt sem lög verður áfram til staðar sama umhverfi og sama samspil peninga, viðskiptalífs, leyndar og stjórnmála og var fyrir hrunið og sem var sú eitraða blanda spillingar sem átti svo stóran þátt í því. Þá má Alþingi hafa skömm fyrir. Í kjölfarið munu svo þeir þingmenn sem hrökkluðust út af þingi vegna vafasamra fjármálatengsla, þau Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skríða aftur inn á þing eins og ekkert hafi í skorist og bræðralag fjórflokksins mun taka á móti þeim. Aðrir lagsbræður þeirra, þeir algerlega forhertu sem engu skeyta, munu einnig sitja hér glaðhlakkalegir áfram. Það má þó hv. fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, eiga að hún hafði bæði siðvit til að hverfa af þingi og kjark til að loka á eftir sér. Hafi hún þökk fyrir það.

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna er enn aðalvandamálið í íslensku samfélagi og þar hefur ríkisstjórnin því miður brugðist illa eina ferðina enn. Gengistrygging lána hefur að hluta til verið dæmd ólögleg og sandi kastað inn í gangverk þeirrar fjármálamaskínu fjármagnseigenda sem ríkisstjórninni er svo umhugað um. Það má þó ríkisstjórnin eiga að hún var ekki lengi að vakna og ganga erinda fjármálafyrirtækjanna hjartkæru og hafa ráðherrar hennar m.a.s. linnulítið reynt að hafa áhrif á Hæstarétt Íslands og dómsúrskurði hans með málflutningi sínum.

Komið hefur í ljós að innan stjórnsýslunnar voru til a.m.k. þrjú lögfræðiálit síðan á vormánuðum 2009 sem öll voru á sama veg, að gengistrygging lána væri ólögleg. Samt ákváðu stjórnsýslan og ráðherra efnahagsmála að gera ekkert í málinu og þegja það frekar í hel með mismunandi málflutningi, hálfsannleik og undanslætti. Í því efni var þessi þingsalur ekki einu sinni vettvangur sannleikans.

Þrátt fyrir að þúsundir manna og kvenna væru með gengistryggð lán og vitað væri að fjármálafyrirtæki gengju fram af mikilli hörku með aðfarar- og gjaldþrotabeiðnum gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi fólks væri að missa heimili sín og landflótti væri vegna fjárhagsvandræða gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þá hafa fundir efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með hlutaðeigandi ráðherrum og stofnunum einfaldlega staðfest að það hvarflar ekki að þeim, hvorki ráðherrunum né stofnununum, hverjir hagsmunir almennings gætu verið í þessum málum, hvað þá heldur að það þurfi að gæta þeirra.

Frú forseti. Þetta aðgerðaleysi hvers afleiðingar hafa m.a. leitt til hörmunga sem aldrei verða afturkallaðar (Forseti hringir.) er algerlega ófyrirgefanlegt. Svona ráðslag og svona stjórnsýslu verður einfaldlega að uppræta (Forseti hringir.) og það er á ábyrgð Alþingis að gera það.



[14:38]
Þráinn Bertelsson (U):

Frú forseti. Tiltrú almennings á samfélagið er í lágmarki. Stór hluti þjóðarinnar vantreystir stjórnmálamönnum og valdastofnunum. Vantraust og öryggisleysi ríkir ekki einungis á sviði efnahags- og atvinnumála, í andlegum efnum er sjálf þjóðkirkjan, sem um aldir hefur verið ein af grundvallarstofnunum íslensks samfélags, stórlega löskuð og flestir gera sér ljóst að m.a.s. efnishyggjan og mammonsdýrkunin hafa einnig brugðist okkur.

Hér ríkir ótti og öryggisleysi og það er kjörinn jarðvegur fyrir umsáturshugarfar, hræðslu við önnur lönd, einangrunarstefnu og tollamúra. Þessi útlendingahystería er fráleit því að sú aðalógn sem hefur steðjað að íslensku samfélagi hefur komið að innan. Það voru Íslendingar sem settu sitt eigið land á hausinn, ekki erlendir flugumenn.

Uppbyggingu hér eftir hrun miðar hægt. Verkefnið er stórt og mörg ljón í veginum, ekki síst sorglega útbreidd afneitun á augljósum orsökum hinna efnahagslegu þrenginga sem óprúttnir aðilar kölluðu yfir þjóðina í nafni siðlausrar hugmyndafræði. Bankar og slitastjórnir mynda hér ríki í ríkinu án umboðs frá þjóðinni. Það er hörmulegt að horfa upp á skilningsleysi stjórnvalda á þeim algjöra forsendubresti sem varð á lánamarkaði og dómstólar hafa staðfest, bæði í sambandi við gengistryggð lán og verðtryggð lán. Almennur forsendubrestur kallar augljóslega á almennar aðgerðir. Það er skrýtið að sú stjórn sem kennir sig við jafnaðarmennsku skuli þverskallast við að skilja að sértækar lausnir til að lengja í hengingaról skuldara eru beint framhald af þeim ójöfnuði sem fjármálastofnanir hafa beitt fólk í þessu landi með skelfilegum afleiðingum. Ég skora hér með á hæstv. ríkisstjórn að færa höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána einstaklinga aftur til verðlags janúarmánaðar 2008, þó með þeim hætti að hámarksniðurfelling verði um 15 millj. kr.

Sem betur fer hafa verið stigin skref í jafnréttismálum í þjóðfélaginu. Reynt hefur verið að jafna hlut fólks þannig að það þurfi ekki að gjalda fyrir kynferði sitt, trúarskoðanir, litarhátt eða kynhneigð. Aðalverkefnið situr samt á hakanum, það að auka hinn raunverulega jöfnuð í þjóðfélaginu. Í samfélagi okkar eru hinir ríku jafnari en aðrir. Af hverju skyldi fíknin í að græða peninga vera meira metin en gáfur, menntun, góðmennska eða hæfileiki til að kenna, hjúkra eða gleðja? Hamingja í þjóðfélagi byggist ekki eingöngu á vergri þjóðarframleiðslu, heldur á því að gæðum landsins sé réttlátlega skipt.

Eitt af hverjum 10 börnum á Íslandi tilheyrir fjölskyldu sem lifir undir fátæktarmörkum. Hver vill hafa þetta svona? Er ekki nóg komið af ójöfnuði í þessu landi?



[14:43]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki er annað hægt en fylgjast af aðdáun með þeim endurnýjunarþrótti sem blasir við í íslensku atvinnulífi. Þó að gjaldeyriskreppa hafi kallað á niðurskurð ríkisútgjalda og aukna tekjuöflun er atvinnuleysið minna en búist var við þó að enn sé það óásættanlegt. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða. Engu að síður eru mjög mörg stór verkefni fram undan vegna þess að við þurfum að skapa störf á breiðum grunni, og þá þurfum við að grípa til bæði sértækra og almennra aðgerða.

Gripið hefur verið til örvunaraðgerða á borð við opinberar stórframkvæmdir, hvatningu til viðhalds- og endurbótaverkefna með skattaívilnunum og sérstaks markaðsátaks með ferðaþjónustunni, því stærsta hingað til. Leiðarljósið er að verja vaxtarsprotana og skapa jarðveg fyrir hagvöxt, hvort sem tekist er á við bráðavanda eða stefnumótun til framtíðar.

Við sjáum mikla grósku í þekkingar- og hugverkaiðnaðinum í gegnum atvinnuauglýsingar. Þar erum við að horfa bæði til tölvuleikjaframleiðenda og einnig til orku- og umhverfistækni. Þá þróun viljum við styðja við, m.a. með nýsamþykktum skattalegum hvötum til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og til rannsókna og þróunar innan þeirra.

Virðulegi forseti. Fjárfestingarsamningar um uppbyggingu álvers í Helguvík og gagnavers á Ásbrú sýna í verki vilja okkar til að laða hingað erlenda fjárfestingu. Ekki væri úr vegi að ég sendi hv. þm. Bjarna Benediktssyni afrit af þeim fjárfestingarsamningum þar sem undirritun þeirrar sem hér stendur er svört á hvítu og sýnir þann vilja sem við höfum sýnt gagnvart þessum stórframkvæmdum.

Í Þingeyjarsýslu er unnið markvisst með heimamönnum og Landsvirkjun að því að koma orkunni á svæðinu í vinnu í þágu atvinnuuppbyggingar. Settur hefur verið almennur lagarammi um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Við getum því sýnt aukið frumkvæði í því að laða hingað erlenda aðila og kynna kosti Íslands mun betur en áður. Þá er fagnaðarefni að framkvæmdir vegna Búðarhálsvirkjunar fara senn af stað, og er það fyrsta stórframkvæmdin hér á landi eftir hrun. Því ber að fagna. Fram undan eru þó mörg brýn úrlausnarefni á sviði orkumála. Þröng staða orkufyrirtækjanna og breyttar forsendur í kjölfar fjármálakreppunnar tefja nú framgang stórverkefna á borð við álver í Helguvík. Þetta kom skýrt fram á fundi sem ég boðaði nýlega með hagsmunaaðilum sem að því verkefni standa.

Það þarf því að skoða með opnum huga leiðir til fjármögnunar í orkuvinnslu. Við höfum tryggt eignarhaldið á sjálfum orkuauðlindunum. Nú er til skoðunar hvernig styrkja megi lagarammann enn frekar svo að tryggt sé að orkan verði nýtt með sjálfbærum hætti í þágu almennings og atvinnulífs. Á vegum iðnaðarráðuneytisins starfar nú einnig stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Og þá er unnið að áætlun um orkuskipti í samgöngum sem sameinar gjaldeyrissparnað, umhverfissjónarmið, nýsköpun og fjölgun starfa. Þetta eru aðeins nokkur þeirra verkefna sem unnin eru í þágu atvinnulífsins. Uppbygging nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er tækifæri til að gera sjálft stoðkerfi atvinnulífsins einfaldara og markvissara.

Við munum í haust leggja lokahönd á nýjan framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar sem stutt getur myndarlega við uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum í þágu náttúruverndar, öryggis og hagsmuna ferðaþjónustunnar, auk þess sem þetta verður gríðarleg innspýting í það atvinnuleysi sem blasað hefur við hönnuðum og arkitektum og sömuleiðis innan byggingariðnaðarins. Markaðssetning á heilsulandinu Íslandi er jafnframt fram undan þar sem við ætlum að sækja á ferðamenn í leit að vellíðan utan háannatíma. Ég vil líka nefna sérstaklega rammaáætlun um endingu og nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem grundvöll sáttar í orkumálum. Við erum líka að vinna að því að leggja fram ný vatnalög í haust til þess að tryggja sátt á því sviði.

Virðulegi forseti. Það er okkar að skapa starfsumhverfi og styðja nýsköpun og þróun. Framtíðarsýn og stefnufesta er hluti þess umhverfis. Atvinnulífið og umheimurinn þarf að vita hvert við stefnum í gjaldeyrismálum og í tengslum okkar við mikilvægustu markaði. Því er umsókn um aðild að ESB jafnmikilvæg og raun ber vitni. Aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evru mun fletja niður þá viðskiptahindrun sem krónan er og hefur verið í áratugi. Það er mín einlæga skoðun að það sé mikilvægasta aðgerðin sem við getum ráðist í í þágu íslensks atvinnulífs og ekki síður heimila sem þar með munu losna við verðtryggðu krónuna.

Virðulegi forseti. Það er aðeins með verðmætasköpun sem við getum staðið undir (Forseti hringir.) þeim bættu lífskjörum, menntun og velferð sem þessi ríkisstjórn stendur (Forseti hringir.) fyrir.



[14:49]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það er heldur kaldranalegt haust sem bíður okkar Íslendinga með ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, í stafni. Í 19 mánuði segist þessi ríkisstjórn hafa erfiðað, en fátt situr eftir. Það vantaði ekki yfirlýsingarnar þegar hún settist að völdum. Listi var gerður og heit voru strengd. Þá átti að klára 48 mál á 100 dögum. Nú er ríkisstjórnin 481 dags gömul og listinn er enn ókláraður. Skjaldborgin um heimilin varð að umsátri og loforð um aðgerðir í atvinnumálum, þrátt fyrir orð hæstv. iðnaðarráðherra áðan, eru að engu orðin. Þessi svokallaða velferðarstjórn er rúin trausti. Stuðningur við hana er lítið meiri en stuðningur var við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tveimur mánuðum eftir hrun og þá var talað um umboðslausa ríkisstjórn. Þá lá á að boða til kosninga. En það hefur margt breyst frá þeim tíma. Þá mátti hæstv. fjármálaráðherra ekki heyra minnst á AGS eða ESB eða greiðslur af Icesave. Allt það og fleira til hafa hann og flokkur hans kokgleypt fyrir sæti við ríkisstjórnarborðið. Hæstv. dóms-, mannréttinda- og samgönguráðherra snýr nú aftur í ríkisstjórn 11 mánuðum eftir að honum var ekki til setunnar boðið vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í Icesave. Hvað hefur breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma? Sá frostavetur sem spáð var hefur ekki ræst. Að öðru leyti heldur ríkisstjórnin sig fast við þá stefnu sem hún lagði í upphafi af stað með. Það er ekki henni að þakka að stefnubreyting varð í samningaviðræðum um Icesave.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur enga iðrun sýnt yfir því að hafa viljað steypa öllu á bólakaf í skuldafen með vonlausum og ónýtum samningum. Það er ekki það sem liðið er sem skiptir máli, við skulum einbeita okkur að því sem fram undan er. Hvað þurfum við að gera til að komast upp úr þeim öldudal sem við erum föst í? Hversu lengi ætlum við að húka á botninum? Þessi ríkisstjórn vill ekki spyrja slíkra spurninga. Þvert á móti þverskallast hún við að horfast í augu við staðreyndir. Hún er því miður farin að hanga á völdunum eins og hundur á roði. Um það eru breytingar á ríkisstjórn í morgun skýrt dæmi. Þessi ríkisstjórn mun ekki leysa nein mál. Hún kann bara að binda hnúta og þvælast fyrir.

Við Íslendingar þurfum að spyrja okkur núna hvernig við viljum hafa hlutina; í ágreiningi, skapa óróa, ala á tortryggni – eða viljum við leysa málin, sameinast um það sem skiptir máli og komast áfram inn í framtíðina. Við vitum vel að menntuð þjóð er auðug þjóð. Við vitum líka að það er á þeim grunni sem við sköpum hagsæld og vöxt til framtíðar. Við skulum gæta að því. Til þess að geta gert það verðum við að takast á við það sem máli skiptir. Álögur á fólk og fyrirtæki hafa hækkað. Fjölskyldur geta ekki borgað meira. Það eru ekki fleiri krónur í buddunni. Kjarasamningar eru að losna. Ófriður er fram undan á vinnumarkaði. Litlar líkur eru til þess að aðilar vinnumarkaðarins láti bjóða sér aftur svikin loforð eins og gert var sumarið 2009 með stöðugleikasáttmálanum. Hér munu skapast verulegir erfiðleikar í haust nema menn snúi sér að því sem máli skiptir, að fara af alefli í það að auka súrefni í atvinnulífinu með stórauknum framkvæmdum og slætti í hagkerfinu, og um leið hlúa að sprotum til framtíðar.

Til þess að auka tekjur ríkissjóðs þarf að skapa frjósaman jarðveg svo að fyrirtæki geti fjölgað störfum. Ekki um 500 störf, ekki 1.000 störf, ekki 2.000 störf, heldur um mörg þúsund störf. Þau störf geta aðeins orðið til á almennum vinnumarkaði. Til að standa undir menntun og velferð er nauðsynlegt að hafa virkt og öflugt atvinnulíf.

Hæstv. forseti. Atvinnuleysistölur eru ískyggilegar en enn ískyggilegri eru tölurnar um hve störfum hefur fækkað á undanförnum missirum. Við höfum tapað 20.000 störfum. Þau verðum við að skapa á ný. Í þessari erfiðu stöðu hafa stjórnvöld samt tækifæri. Það er nefnilega jafnan svo að við erfiðustu aðstæður má sjá tækifæri til að rétta úr kútnum. Tækifærið felst í því að ríkisstjórnin beiti sér af alefli í atvinnumálum og það strax, að hún horfist í augu við að við þurfum að bretta upp ermarnar og spýta í lófana. Við eigum að fara að vinna. Við eigum orku, við eigum fisk, við eigum hugvit. Þannig vinnum við okkur saman út úr vandanum.



[14:54]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Þeir sem eru kosnir á Alþingi Íslendinga eru kosnir þangað til að láta gott af sér leiða. Það á við um okkur í stjórnarliðinu og það á við um þá sem eru í stjórnarandstöðu. Við þær aðstæður er það í rauninni flóknara að vera í stjórnarandstöðu, fyrir hana er léttast að sverta allt sem frá stjórninni kemur. En getur þetta verið öðruvísi? Getum við breytt þessu? Horfum t.d. á stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í Reykjavíkurborg. Þar hafa borgarfulltrúar minni hlutans ákveðið að taka þátt í stjórn borgarinnar af ábyrgð en veita samt aðhald svo sem skylt er. Ég hygg að við öll sem hér erum getum lært af þeim vinnubrögðum sem þar eru tíðkuð, enda er það kannski betur í takt við tímann en gamla stjórnarandstaðan sem leggur sig í líma við að sverta allt sem frá stjórninni kemur. Hvert einasta mál. Andi gömlu stjórnarandstöðunnar er reyndar smátt og smátt að hverfa úr sölum Alþingis sem betur fer og eiga margir stjórnarandstæðingar þakkir skildar fyrir að láta ekki stjórnast af hefðbundinni sýn niðurrifs og svartagallsrauss.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikill þrýstingur hefur verið á ríkisstjórnina að ýta til hliðar umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum til að ná innspýtingu svokallaðri í hagkerfið sem oft er nefnd í sömu andrá og stórframkvæmdir. Sagan hefur kennt okkur að það er aldrei mikilvægara en einmitt á samdráttartímum að huga vel að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum og standa vörð um auðlindir okkar.

Umhverfismál skipa mikilvægan sess í framtíðaruppbyggingu Íslands og raunar alls mannkyns. Loftslagið, hlýnun jarðar, vatnið og misskipting auðs eru stóru verkefni 21. aldarinnar. Sjálfbær þróun í víðu samhengi verður að umlykja alla þá starfsemi sem mótar samfélagið. Leiðarljós sem snýst um jafnrétti kynslóðanna og jafnrétti þjóðanna, virðingu fyrir þeirri náttúru og þeim auðlindum sem við höfum að láni frá komandi kynslóðum og svo réttlætið þegar við ákveðum með hvaða hætti við nýtum þau gæði sem okkur er treyst fyrir. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar teknar eru ákvarðanir, stórar sem smáar.

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur orðið fyrir harkalegri árásum en dæmi eru um í langan tíma. Því hefur verið haldið fram að klofningur sé innan raða flokksins. Það sést nú við endurskipulagningu ríkisstjórnarinnar að flokkurinn hefur ákveðið að standa þétt saman. Við skynjum það öll, rétt eins og verkafólk í vinnudeilu, að samstaðan er lykill raunverulegra breytinga. Í Evrópusambandsmálinu hefur verið reynt að stía okkur í sundur. Við erum mörg þeirrar skoðunar að umsóknarferlinu eigi að ljúka og það sé best fyrir land og þjóð að þjóðin fái samning til að taka afstöðu til. Því er haldið fram, og ekki síst af þeim sem þykjast vera bandamenn okkar í baráttunni gegn Evrópusambandinu, að við séum þar með að svíkja grundvallarhugsjónir flokksins. Staðreyndin er sú að það er enginn bilbugur á andstöðunni við Evrópusambandið í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hjá okkur er enginn Evrópusambandsandstæðingur betri eða verri en annar.

Við höfum staðið saman. Við höfum staðið með Samfylkingunni í að leysa mál og í því að lyfta Íslandi upp úr kreppunni sem hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins bjó til, sem 18 ára hægri stjórn bjó til, sem 18 ára hægri stjórn ber ábyrgð á. Í sviptingum hversdagsins er brýnt að horfa fram á við og gera sér grein fyrir því hvert er stefnt. Hagvöxturinn er að byrja að skila sér aftur. Þá skiptir öllu mál að hafa ríkisstjórn í landinu sem tryggir að hagvextinum verði skilað til þeirra sem skapa hann – til almennings í landinu. Tími hákarlanna er liðinn.

Átján mánuðir eru síðan minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við í kjölfar hrunsins. Hún styrkti sig í kosningum og hefur nú endurskipað liðssveit sína og ætlar að halda áfram. Hún ætlar að horfa til framtíðar með bjarta framtíðarsýn sem byggist á jöfnuði, náttúruvernd, kvenfrelsi og alheimssýn, en ekki þröngsýni. Á 18 mánuðum erum við byrjuð að snúa vörn í sókn fyrir Ísland en 18 mánuðir eru skammur tími miðað við þau 18 ár sem hægri stjórn réði hér ríkjum. Það er ekki komið að Sjálfstæðisflokknum við stjórn landsins. (Gripið fram í: Nei.)

Ég vil nota þetta tækifæri að lokum til að segja við félaga mína um allt land: Látum ekki íhaldið ljúga okkur í sundur. Hleypum ekki tortryggni og vantrausti inn á okkur. Tölum saman af heiðarleika og stillum saman strengina til nýrra verkefna. Látum hugsjónir okkar sameina okkur til nýrra tíma í sterkri ríkisstjórn. Höldum áfram að láta gott af okkur leiða í þágu almannahagsmuna en ekki einkahagsmuna og í þágu umhverfis- og náttúruverndar. — Góðar stundir.



[14:59]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stöðu og stefnu norrænu velferðarríkisstjórnarinnar að afloknum hrókeringum innan hennar. Ég vil nota tækifærið og óska nýjum ráðherrum til hamingju og velfarnaðar í störfum sínum, þeirra bíður ærið verkefni. (Gripið fram í.)

Eftir ráðherrabreytingarnar hefur ráðherrum sem sátu í hrunstjórninni 2008 fækkað um einn. Tveir sitja hér enn sem fastast, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Fram kemur í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að lykilverkefni ríkisstjórnarinnar sé að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Enn bregst ríkisstjórnin. Traust Íslands á alþjóðavettvangi verður ekki reist fyrr en allir ráðherrar hrunstjórnarinnar hverfa af vettvangi og út úr alþingissal. Þetta vita þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson sem fara með samskipti Íslands erlendis. Þau vita það mætavel en hafa kosið að stinga hausnum í sandinn, eins og oft áður.

Á ríkisstjórnarfundi fyrir stundu hættu fjórir ráðherrar í ríkisstjórninni og er það vel. Stefna Framsóknarflokksins er skýr, við viljum fækka ráðuneytum. Við vildum taka höndum saman með ríkisstjórninni og gera það í sátt eins og samið var um í vor. Eins og segir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, á bls. 5, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna, allt var svikið, við könnumst við það. Breytingarnar voru teknar í gegn á hnefanum og með hótunum. Við þekkjum vinnubrögðin. Þessi ríkisstjórn vill slagsmál um hvert einasta mál.

Samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna má finna á netinu og telur hún 17 blaðsíður. Í henni kemur m.a. fram að í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins leit ríkisstjórnin svo á að meginverkefni hennar yrði að draga úr atvinnuleysi, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustan grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar. Þetta meginverkefni hefur algjörlega misheppnast. Þrátt fyrir fagurgala ráðherra um að atvinnuleysið sé ekki jafnmikið og spár stóðu til er mikið atvinnuleysi hér á landi. Eins og formaður Framsóknarflokksins benti á áðan er ekki inni í atvinnuleysistölum Íslendinga sá mikli fjöldi einstaklinga sem hefur flutt af landi brott eða stundar jafnvel atvinnu erlendis frá Íslandi. Ríkisstjórnin hefur því tamið sér hálfsannleika í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum.

Ríkisstjórninni hefur hins vegar tekist vel upp í að ráða flokksgæðinga og annað gott fólk inn í Stjórnarráðið og aðrar opinberar stöður án auglýsinga að megninu til. Ráðningar í þau opinberu störf sem hafa verið auglýst hafa oftar en ekki verið afar umdeildar. Einn ráðherrann þurfti að draga ráðningu til baka nú á dögunum, svo mikil læti urðu út af því máli.

Atvinnuuppbyggingu getum við alfarið gleymt á meðan ríkisstjórnin situr við völd. Hún hefur valið sér þá eldgömlu og fúnu leið að skatta sig út úr vandanum í stað þess að minnka ríkisbáknið. Heildarútgjöld ráðuneytanna voru tæpir 6 milljarðar árið 2009. Það þarf marga einstaklinga á almenna vinnumarkaðinn til að standa straum af þeim kostnaði.

Nú gríp ég hér aðeins niður, með leyfi forseta, í stikkorð úr ræðum forsvarsmanna stjórnarflokkanna áðan:

„Árangursrík vinna undanfarna 18 mánuði“, „stakkaskipti“, „kreppunni lokið“, „grundvallarmál að verja auðlindir Íslands“, „verja fjárhag heimilanna“. — Frú forseti. Í hvaða veröld lifir ríkisstjórnin?

Brotin loforð alls staðar, segir í góðum dægurlagatexta eftir Bubba Morthens. Þetta eru skilaboð norrænu velferðarstjórnarinnar til almennings á Íslandi. Í stað þess að slá skjaldborg um heimili landsins ákvað ríkisstjórnin að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að slá skjaldborg um lánardrottna og kröfuhafa. Almenningi blæðir.

Þrátt fyrir þá glansmynd sem hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra draga upp ganga þúsundir manna um atvinnulausir, eru að missa heimili sín, eiga vart fyrir mat, fallnir víxlar, engin vinna, veröldin er grimm og ljót. (Forseti hringir.) Við þurfum kjark til að takast á við vandamálin. (Forseti hringir.) Þann kjark hefur Framsóknarflokkurinn.



[15:04]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa þingmenn og ráðherra samkvæmt þingvenju.



[15:04]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það var einkennileg tilfinning að snúa aftur til starfa á Alþingi í dag og vita ekki hverjir mundu sitja í ráðherrastólunum. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim ráðherrum sem nú hverfa á braut fyrir störf sín og bjóða nýja velkomna. Sérstaklega vil ég þakka Rögnu Árnadóttur fyrir meiri fagmennsku í starfi en við eigum að venjast. Við vorum ekki alltaf sammála en það skipti ekki máli því að ég treysti henni og það er það sem skiptir mestu máli.

Við formönnum stjórnarflokkanna blasti ákveðinn vandi, það er alveg ljóst. Við höfum heyrt því fleygt að vandinn felist einkum í því að hluti þingmanna annars stjórnarflokksins hlýði ekki kröfum forustunnar. Ég held að það sé ekki rétt greining á vandamálinu. Ég held að vandinn felist í því að oddvitar stjórnarflokkanna hlusta ekki. Þeir hlusta hvorki á þingmenn sína, grasrótina í flokkum sínum né hjartsláttinn í þjóðfélaginu. Lausnin á þeim vanda er hvorki kattasmölun né leikur með ráðherrastólana.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir okkur svo glöggt hve hættulegt það er þegar völdin safnast á herðar tveggja stjórnmálamanna, oddvita flokkanna. Þeir einangrast og missa tengslin við veruleikann.

Frú forseti. Við erum í miðju hruni. Það hriktir í öllum helstu valdastofnunum samfélagsins. Fyrst hrundi fjármálakerfið, Alþingi er rúið trausti, stjórnmálaflokkarnir eru að molna og meira að segja þjóðkirkjan er komin að fótum fram. Við erum enn stödd í auga stormsins. Umbreytingarferli sem þetta er erfitt og það er á ábyrgð okkar allra að móta ásættanlegt samfélag. Það verk er ekki einungis á borði ríkisstjórnarinnar eða Alþingis, það er á ábyrgð allra landsmanna.

Stjórnmálin eiga ekki að vera einkamál stjórnmálamanna, þau koma okkur öllum við. Ég minni á að því fylgja ekki einungis réttindi að vera borgari, heldur líka skyldur. Það er á ábyrgð okkar allra að standa vörð um velferðarkerfið, menntun barna okkar, náttúru landsins og allt það góða sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða. Það er líka á ábyrgð borgaranna að bera burt fúnar spýtur, hvar sem þær leynast.

Frú forseti. Forsætisráðherra varð tíðrætt um meintan árangur í efnahagslífinu í ræðu sinni. Þó blasir við að skuldamál íslenskra heimila og fyrirtækja eru enn óleyst og óvissan ein fram undan þrátt fyrir margvíslegar lengingar í hengingarólum. Vandamálin hverfa nefnilega ekki þótt þau séu látin bíða. Þau eiga það hins vegar til að vaxa. Ég vek athygli á því að nú í haust rennur út frestur á uppboðum á heimilum fjölmargra landsmanna. Ríkisstjórnin hefur lofað hinum raunverulega landstjóra, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að ekki komi til frekari frestunar. Mörg heimili eru að fara í þrot vegna lánasamninga sem nú hafa verið dæmdir ólöglegir. Væri ekki rétt að reyna að vinda ofan af þeirri vitleysu áður en lengra er haldið? Ætlum við að líða það að fólk verði áfram gert gjaldþrota vegna ólöglegra lána?

Frú forseti. Mig dreymir um að búa í samfélagi þar sem réttlæti ríkir. Hér verður þó ekkert réttlæti fyrr en skuldir heimilanna verða leiðréttar og almannahagsmunir verða teknir fram fyrir sérhagsmuni, ekki bara stundum, heldur alltaf.



[15:08]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands stendur nú á tímamótum. Breytingar hafa verið gerðar á verkaskiptingu stjórnarinnar og ráðherraskipan. Þeim breytingum er ætlað að styrkja stjórnina og efla hana í viðureign við þau verkefni sem fram undan eru, til samræmis við endurbætur sem fyrirhugaðar eru á stjórnkerfi landsins.

Margt hefur áunnist á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við stjórnartaumum. Þegar við lítum yfir farinn veg í gegnum móðu og mistur óagaðrar stjórnmálaumræðu undanfarinna missira, fram hjá moldviðrum dægurþrefs og hagsmunabaráttu, má segja að við blasi ótrúleg sýn. Við sjáum landið rísa við sjónbaug. Við sjáum hvarvetna jákvæð teikn á lofti um breytingar til batnaðar: Lækkun verðbólgu, minnkandi atvinnuleysi, hagvöxt, aukinn kaupmátt og það sem kannski er mest um vert, kannanir á líðan fólks sýna að bjartsýni almennings og almenn ánægja eru að aukast. Og þá er mikið fengið eftir allt sem á undan er gengið, því að hvað getur verið dýrmætari uppskera fyrir stjórnvöld en vaxandi bjartsýni og aukin ánægja fólks sem lifir í þessu landi?

Ríkisstjórn Íslands stendur nú á tímamótum. Enn bíða brýn verkefni því að svo sannarlega erum við ekki komin á beinu brautina enn þó að mikilvægir áfangar séu að baki.

Verkefnin fram undan lúta öll að grundvelli jafnaðarstefnu t.d. velferðarmálum og í byggðamálum. Þau varða jöfnun lífsgæða, ekki aðeins milli fólks heldur einnig landshluta, t.d. með bættum samgöngum, sameiningu sveitarfélaga, skilyrðum atvinnulífsins til sjávar og sveita og ekki síst í orku- og auðlindamálum. Í auðlindum Íslands er fólginn lykillinn að framtíðarvelferð okkar og því skiptir miklu hvernig haldið verður á þeim mikilvæga málaflokki. Það er aldrei mikilvægara en á erfiðum tímum að þjóðin haldi fast um auðlindir sínar og hugi vel að nýtingu þeirra, sjálfbærni og ekki síður því hvernig arðsemi þeirra kemur þjóðarbúinu best.

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur heitið því í stjórnarsáttmála að mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar og verndarsjónarmiða og að orkustefna stjórnvalda muni styðja við fjölbreytt atvinnulíf. Jafnframt er það siðferðileg skylda okkar við komandi kynslóðir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna og að samfélagsleg hagkvæmni sé höfð að leiðarljósi við ráðstöfun þeirra og nýtingu. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægur liður í þeirri stefnumótun og brýnt að hún fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu sem allra fyrst.

Frú forseti. Í dag geisa hatrömm átök í íslensku samfélagi um auðlindir þjóðarinnar. Þau átök lúta ekki hvað síst að nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og í þeim átökum takast á harðir hagsmunir annars vegar og þjóðhagsleg sjónarmið hins vegar. Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur einsett sér og heitið þjóðinni er að leiðrétta það hróplega óréttlæti sem núverandi kvótakerfi hefur leitt yfir byggðir landsins. Sú leiðrétting þarf að verða með sanngjörnum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, breytingum sem miða að því að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni renni til síns rétta eiganda, þ.e. í þjóðarbúið, að fiskveiðar og útgerð verði til þess að efla og viðhalda atvinnu í byggðum landsins, að jafnræðis- og mannréttinda sé gætt við úthlutun aflaheimilda þannig að nýliðun geti átt sér stað í greininni og menn njóti atvinnufrelsis í reynd.

Átök undanfarinna ára um fiskveiðistjórnarkerfið hafa leitt okkur fyrir sjónir svo ekki verður um villst að það má ekki dragast lengur að treysta í sessi og stjórnarskrárbinda varanlegt eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins. Íslenskur sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í landi okkar og eðlilegt að hann gegni sínu hlutverki við endurreisn efnahagslífsins og þeim mun mikilvægara er að sátt náist í samfélaginu um eignarhald og nýtingu á (Forseti hringir.) auðlindum sjávar. Það er ekki nóg að sú sátt sé við útgerðarmenn, hún þarf að vera við þjóðina alla.

Að lokum, frú forseti, vona ég að dirfska (Forseti hringir.) og styrkur verði inntakið í störfum þjóðar og þings á þeim vetri sem fram undan er.



[15:14]
Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þegar hin svokallaða norræna velferðarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum í febrúar á síðasta ári höfðu tæplega 300 Íslendingar verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur. Núna, 19 mánuðum síðar, hefur þeim fjölgað fimmtánfalt. Það eru 15 sinnum fleiri sem hafa verið án atvinnu í eitt ár eða lengur frá því að ríkisstjórnin tók við völdum.

4.500 Íslendingar sem hafa ekki haft vinnu í eitt ár hafa lítinn skilning á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Þær þúsundir Íslendinga sem hafa flúið land í leit að betra lífi skilja ekki og sáu aldrei skjaldborgina sem hæstv. forsætisráðherra lofaði. Upp undir 14.000 vinnufúsar hendur, sem eru án atvinnu, hafa ekki séð atvinnustefnuna og horfa í forundran á stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist eingöngu í því að komið er í veg fyrir að auðlindir séu nýttar og ný tækifæri sköpuð.

Þeir sem nú glíma við atvinnuleysi, mesta bölvald allra þjóða, og tugþúsundir Íslendinga sem berjast við að halda íbúðunum sínum, sjá aðeins eina birtingarmynd á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar: Að tryggja réttum einstaklingum góð embætti á vegum hins opinbera. Jafnvel það virðist ganga illa hjá hæstv. ráðherrum. Það eina sem gengur vel hjá sundurlausri ríkisstjórn er að koma í veg fyrir að landið rísi.

Íslendingar eru ekki að biðja um mikið. Þeir biðja aðeins um að sanngirni og jafnræði ríki þegar kemur að skuldum heimila og fyrirtækja. Þeir vilja að stjórnvöld þvælist ekki fyrir þegar kemur að uppbyggingu fyrirtækja. Íslendingar vilja frelsi til að nýta þau tækifæri sem gefast. Þeir ætlast til þess að ríkisstjórnin greiði götu einstaklinga og fyrirtækja en leggi ekki stöðugt stein í götu þeirra.

Á sama tíma og fréttir berast af því að skuldir stórfyrirtækja eru færðar niður sitja þúsundir landsmanna í fátæktargildru og skuldafeni. Skjaldborgin hefur reynst skjaldborg utan um stórskuldug stórfyrirtæki og eignarhaldsfélög, allt á kostnað almennings og lífvænlegra fyrirtækja sem hafa verið rekin af skynsemi og fyrirhyggju á undanförnum árum.

Er furða að aðilar vinnumarkaðarins hafi gefist upp á velferðarstjórninni? Samtök atvinnulífsins eru þegar búin að fá nóg. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að engu sé líkara en að ráðherrar beiti sér stöðugt gegn öllum fjárfestingaráformum og þvælist fyrir til að koma í veg fyrir verkefni til uppbyggingar. Hann segir að það sé lítill vilji til samstarfs við slíka ríkisstjórn.

Ágúst Einarsson, fyrrverandi þingmaður og einn nánasti samverkamaður hæstv. forsætisráðherra í mörg, mörg ár og hennar helsti ráðgjafi, gefur ríkisstjórninni ekki háa einkunn. Í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar sagði hann ríkisstjórnina dauða. (Gripið fram í.) — Ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra er óvenjuórólegur við þessar umræður enda hefur hann greinilega fengið það verkefni, ásamt Árna Páli Árnasyni, hæstv. viðskiptaráðherra, að hafa sérstök bönd á Jóni Bjarnasyni sem á kannski að róa ríkisstjórnina.

Ágúst Einarsson segir:

„Stjórnin er því miður sundurlaus og ráðherrar rífast opinberlega. (Gripið fram í.) Skilyrði lýðræðisins er að myndi menn meirihlutastjórnir verða menn að hafa meiri hluta og það hefur þessi stjórn ekki í mjög mörgum málum (Gripið fram í.) og þar á meðal í málum sem samið var um í stjórnarsáttmála.“ Og hann telur að ríkisstjórnin eigi að víkja, hún sé dauð. Þetta er ekki dómur sem sjálfstæðismenn fella yfir ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra. Nei, þetta er gamall samherji og helsti ráðgjafi um margra ára skeið.

Frú forseti. Auðvitað er ekki hægt að tala um atvinnu- og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Við skulum bara ræða um hlutina eins og þeir eru. Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er helstefna. Hún er helstefna gegn fyrirtækjum, gegn millistéttinni, gegn heimilum í landinu. Hún er helstefna gegn skuldugum fyrirtækjum og heimilum. Hún er fyrst og fremst helstefna gegn allri skynsemi. (Forseti hringir.)

Við öll í þessum sal sem hlustuðum á forsætisráðherra eigum þó eitt sameiginlegt og það sameinar stjórn og stjórnarandstöðu: Við vitum (Forseti hringir.) ekki hver stefna ríkisstjórnarinnar er.



[15:19]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er: Hvað er fram undan? Hvað skal segja um stöðuna í efnahags- og stjórnmálum eins og hún blasir nú við? Mér þykir verra að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli horfinn úr salnum vegna þess að ég ætla að víkja að ranglæti og misskiptingu í þjóðlífinu, arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir ræðu hans hér áðan sem var nokkuð uppblásin held ég að áleitnar spurningar hljóti að leita á hann og samflokksmenn hans og aðra þá sem komu beint eða óbeint að stjórnartaumunum á liðnum árum. Þeir hljóta að spyrja sig: (Gripið fram í.) Hvernig gátum við látið þetta gerast? Verkefnið núna er að snúa af braut mismununar og óréttlætis. Að því hefur verið unnið síðustu missirin.

Ýmsum þykir hægt miða en enginn deilir um viljann til að breyta, vinda ofan af ranglátri lagasmíð og hugsunarhætti sem setur einkaeignarréttinn ofar mannréttindum og bindur hann við eign fremur en afleiðingar þess að skulda og leggur meira upp úr sparisjóðsinnstæðunni en lyfjaútgjöldum. Lagabreytingar sem þingið vann að síðastliðið vor og nú á haustdögum um réttarbætur fyrir skuldugt fólk eru skref í átt til réttlætis, skref, ekki ferðalok. Pendúllinn sem sveiflaðist til ýtrustu peningafrjálshyggju er byrjaður að leita jafnvægis á ný. Frekari réttarbætur verða lögfestar á komandi dögum. Allt eru þetta skref fram á við. Við reynum að hafa þau eins stór og frekast er kostur. Þótt löggjöfin skipti máli og aðgerðir ríkisstjórnar séu brýnar í smæstu atriðum er endurreisnin algerlega háð því að allur almenningur, þjóðin, finni réttlætisþráðinn í stefnumótun stjórnvalda; að fólki finnist og það finni að við, þing og ríkisstjórn, séum að gera okkar besta á réttlátan og heiðarlegan hátt. Hægt og bítandi er þjóðinni að takast að snúa skútunni upp í vindinn. Það er að gerast með sameiginlegu átaki almennings og stjórnvalda. Ég fullyrði að sá árangur sem er að nást innan opinbera geirans í sparnaði og aðhaldi er fyrst og fremst til orðinn vegna viljans sem er með þjóðinni að ná sameiginlega tökum á erfiðleikum sem aðrir skópu en hinn almenni maður.

Ég fann glöggt fyrir þessum vilja, ég vil kalla það velvilja, á fundum sem ég átti með starfsfólki í heilbrigðisstofnunum þegar ég gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Þá mátti sjá hve tilbúið fólk var að leggja mikið á sig til að ná settu marki. Það er síðan okkar sem höldum um stjórnvölinn að sýna varkárni, misnota ekki það traust sem okkur er sýnt og ganga ekki of langt í niðurskurði og aðhaldi. Kerfið má gjarnan svigna og sjálft leita leiða til hagræðingar, slíkt getur meira að segja orðið til að styrkja alla innviði og gert velferðarkerfið öflugra þegar þrengingarnar eru að baki. Svo hart má ekki ganga fram að það brotni. Vonandi tekst okkur að rísa undir þeirri ábyrgð sem á okkur hvílir í þessu efni þannig við verðum traustsins verð. Traustið — gerum ekki lítið úr því.

Á liðnum mánuðum hafa annað veifið komið upp ágreiningsefni innan stjórnarliðsins. Stundum hafa þung orð verið látin falla. Nú er allt slíkt búið, sagði fréttamaður á fréttastofu sjónvarpsins í svokölluðum fréttum sínum í gærkvöld. Hann sagði að óróamenn innan stjórnarliðsins hefðu verið múlbundnir. Margur heldur mig sig, varð mér á að hugsa við órökstuddar fullyrðingar fréttamannsins. Ekki er þetta traustvekjandi spegill inn í sálarlíf á fréttastofu. Eru þar kannski múlar og höft enn þá eftir hrunið og allar hrunskýrslurnar? Þjóðin á líka rétt á alvörufréttafólki ekki síður en öflugri stjórnsýslu og stjórnmálamönnum, fólki sem hvorki lætur múlbinda sig né reynir að múlbinda annað fólk. Það þarf að vera hluti af bjartari framtíð. Það samstarf sem ríkisstjórnin, og stjórnarmeirihlutinn, vill efla með sér byggir ekki á múlbindingu eða fyrirskipunum heldur trausti og virðingu fyrir ólíkum skoðunum, ásetningi um að vinna vel saman að því verkefni sem okkur er treyst fyrir. Þetta gerum við með því að finna í mismunandi áherslum okkar sameiginlegan farveg sem leiðir til niðurstöðu og málamiðlana ef svo ber undir.



[15:25]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að tala um bréf sem vinur minn fékk frá bankanum sínum á dögunum. Hann hafði tekið gengistryggt erlent lán og hafði auðvitað sínar ástæður fyrir því og óx höfuðstóll þess láns eins og við þekkjum gríðarlega í kjölfar ófaranna í íslensku efnahagslífi. Ekkert var gert í því. Margir báðu um aðgerðir til að koma til móts við vandræði þess hóps sem hafði tekið gengistryggð erlend lán. Lítið var gert. Svo kom dómur Hæstaréttar og þessum vini mínum óx von í brjósti, hélt að ástandið yrði skaplegra eftir það. Þá komu tilmæli frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu um hvernig skyldi bregðast við dómi Hæstaréttar. Margir telja að væntanlegur dómur Hæstaréttar um vaxtakjör verði í anda þeirra tilmæla. Efni bréfsins var útreikningur á láninu. Í stuttu máli var það eins og blaut tuska. Vissulega lækkaði höfuðstóllinn en afborganirnar hækkuðu enn frekar og viðkomandi skuldar bankanum. Sem sagt: Hvað afborganir varðar fer þessi aðili úr öskunni í eldinn. Hann átti að borga 190 þús. kr. þegar hann tók lánið upphaflega. Gerði vissulega ráð fyrir miklum sveiflum. Núna eftir dóm Hæstaréttar og tilmælin er þetta komið upp í að ég held 390 þús. kr. Ég veit ekki alveg hvernig sá hinn sami túlkar það þegar honum er sagt núna að kreppan sé búin. Ég held að hann telji svo ekki vera. Ef þetta er niðurstaðan er það enn ein birtingarmynd þess að við í íslensku samfélagi höfum frá því hrunið skall á ekki horfst í augu við að kreppan sem við erum að glíma við er skuldakreppa. Vandinn sem við glímum við er skuldavandi, fyrst og fremst. Þetta hefur mér ekki fundist hæstv. ríkisstjórn taka alvarlega. Ótal aðilar hafa reynt að hugsa út fyrir rammann, komið með tillögur að einhvers konar lausnum til að losa íslensk heimili út úr nákvæmlega þessum vanda, annaðhvort afborgun sem er út úr korti eða ofvöxnum höfuðstól sem leiðir til skuldafangelsis. Reynt hefur verið að opna augu hæstv. ríkisstjórnar sem kallar sig velferðarstjórn fyrir því að nákvæmlega þetta sé vandamálið á Íslandi og að við þurfum að glíma við það. Hún hefur ekki opnað augun.

Við í stjórnarandstöðunni höfum tekið þátt í því að búa til einhvers konar spítala fyrir skuldugt fólk, embætti umboðsmanns skuldara og svoleiðis, til að hjálpa fólki sem er í verulegum vanda. Það er ekki til þess fallið að takast á við höfuðvanda íslensks samfélags sem er skuldavandi. Það þarf engan kjarneðlisfræðing til að sjá af hverju svo er. Við höfðum á löngu tímabili búið til lánamarkað á Íslandi sem var einstaklega slæmur í hruni sem þessu. Lánamarkaðurinn, verðtryggður, leiddi til þess að byrðarnar sem urðu til í hruninu enduðu á herðum almennings. Þær eru þar enn þá.

Kreppan var ekki hrun atvinnuvega, til dæmis. Vissulega dróst ofþaninn byggingariðnaður verulega saman. Það var viðbúið. En fiskstofnar hrundu ekki. Framleiðslugreinarnar hrundu ekki. Það var viðbúið að krónan mundi styrkja útflutningsgreinarnar og ferðamannaþjónustuna. Þetta sáum við fyrir. Þess vegna kemur það ekkert sérstaklega á óvart að það sé framleiðsluaukning í íslensku samfélagi, sérstaklega eftir dýfuna í kjölfar hrunsins. Það kemur ekkert á óvart heldur að verðbólgan hafi farið niður og gengið sé eitthvað að styrkjast. Við höfum reyndar gjaldeyrishöft.

Það sem vantar í íslenskt samfélag er að skuldavandinn sé tekinn alvarlega. Það vantar viðurkenningu á því að vandi íslensks þjóðfélags sé skuldakreppa, ofvaxinn höfuðstóll og skuldafangelsi íslenskra heimila. Það er ekki fyrr en ríkisstjórnin áttar sig á þessu, talar um þennan vanda og tekst á við hann af alvöru, að búsáhöldin fara hugsanlega að þagna á Austurvelli.



[15:30]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég held áfram máli mínu og tæpi að hluta til á því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi, en það er að stjórnsýsla ríkisins þurfi algerrar uppstokkunar við. Það blasir við. Algert aðgerðaleysi var í stjórnsýslunni vegna gengistryggðu lánanna þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi fólks væri að missa heimili sín og landflótti vegna fjárhagsvandræða væri staðreynd. Þrátt fyrir að óvissan um gengistryggðu lánin mundi draga verulega á langinn lausn á skuldavanda fólks gerði efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að framhald á óbreyttu ástandi gengistryggðra lána gæti leitt til nánast óleysanlegrar flækju og kostað ríkissjóð stórfé gerði efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þetta má ekki halda svona áfram. Það bíður nýrra ráðherra, nýs ráðherra efnahags- og viðskiptamála, að lagfæra þetta.

Virðulegur forseti. Það mál sem enn stendur eftir sem eitt brýnasta úrlausnarefnið í efnahagsmálum er verðtryggingin. Verðtryggingin sem gefur fjármagnseigendum bæði belti og axlabönd hefur farið verr með íslensk heimili en nokkuð annað. Nú í annað skiptið á rúmum 20 árum eru þúsundir fjölskyldna komnar í alvarleg fjárhagsvandræði vegna þess að efnahagsstjórnin fór úr böndunum, flokkspólitískur seðlabanki og flokkspólitísk stjórnsýsla spilaði með og samfélagið allt er í sárum. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að verð á tómatsósu hækkar er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að veðurstofa Bandaríkjanna spáir mörgum fellibyljum í haust er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna skógarelda í Rússlandi er fáránlegt líka.

Tenging skulda við neysluverðsvísitölu með þeim hætti sem gert er hér á landi er einsdæmi í heiminum. Vísitala neysluverðs mælir hækkun á matvöru og neysluvarningi og annan kostnað af því að vera einfaldlega til og ætti því, ef einhver rökleg hugsun væri að baki, að hafa áhrif til hækkunar launa ef eitthvað er. En hér, eins og í svo mörgu öðru, hefur Alþingi tekist að snúa hlutunum algjörlega á haus og vegna sérhagsmunagæslu þingmanna er ómögulegt að bregða af leið og breyta þessu. Verðtryggingin er enn einn dapurlegur vitnisburður um hvernig sérhagsmunir, og hér á ég við peningalega hagsmuni, hafa náð undirtökum í efnahagsaðgerð sem upphaflega var hugsuð til hagsbóta fyrir almenning en var snúin upp í andhverfu sína af bröskurum með ítök í stjórnmálaflokkum. Kvótakerfið og framsal aflaheimilda er annað dæmi um slíkt. Lengi væri hægt að telja upp, en þessu fyrirkomulagi sér því miður ekki fyrir endann á.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin sem nú situr mun ekki hafa þann kjark og þá yfirsýn sem þarf til endurreisnar Íslands undir þeirri forustu sem hún býr við. Þeir þingflokkar og alþingismenn sem styðja ríkisstjórnina eru hins vegar eina von almennings um að á Íslandi verði í framtíðinni búsældarlegt, réttlátt og sanngjarnt samfélag — lýðræði þar sem frelsi, jafnrétti og bræðralag verði í heiðri haft. Til að slíkt gerist þarf hins vegar blöndu af skynsemi og róttækni. Þau orð — róttæk skynsemi — eru einmitt kjörorð Hreyfingarinnar. Því miður býr forusta núverandi ríkisstjórnar ekki svo vel.

Ég hlýt því að ljúka orðum mínum á því að hvetja þingmenn og ráðherra til að glepjast ekki af hégómanum sem fylgir völdum og sljóvgar heldur standa fast á því að stokka enn frekar upp í ríkisstjórninni, taka inn fleiri flokka, þó ekki Sjálfstæðisflokkinn því að samkvæmt málflutningi þeirra hér í dag er ekki ástæða til að hleypa þeim að landsstjórninni strax, og gefa æðsta forustufólkinu, parinu sem verið hefur á þingi í samfellt 60 ár, frí frá störfum. Það og það eitt er mikilvægast af öllu. Að öðrum kosti munu nauðsynlegar breytingar á Íslandi, breytingar sem nauðsynlegt er að eigi sér stað í bráð, ekki eiga sér stað. — Góðar stundir.



[15:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað af mikilli athygli á þær ræður sem hér hafa verið fluttar af stjórnarandstöðunni. Mér finnst, virðulegi forseti, full ástæða til að hafa áhyggjur af hvernig stjórnarandstaðan mætir til þings að loknu sumarleyfi. Hún virðist vera full af þunglyndi, bölmóði og svartsýni, (Gripið fram í.) sér ekkert ljós, ekkert nema myrkur fram undan. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Orðanotkunin sem hér hefur verið viðhöfð úr ræðustól er líka til að hafa áhyggjur af.

Hér er talað um að stefna ríkisstjórnarinnar sé helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum. Hvernig er hægt að nota svona orð? Hvaða orð mundu hv. þingmenn nota ef allt væri nú í kaldakoli í þjóðfélaginu? Það eru notuð orð eins og að ríkisstjórnin hafi ekkert fram að færa og það sé hirðuleysi og yfirsjón í kringum hana. Allt þetta sem stjórnarandstaðan segir um hirðuleysi, yfirsjón, helstefnu gegn heimilum og fyrirtækjum má heimfæra á stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á sínum tíma. Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum, virðulegi forseti, að verðbólgan hefur á síðastliðnu eina og hálfa ári sem þessi ríkisstjórn hefur starfað ekki verið lægri í þrjú ár? Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum að stýrivextir hafi verið lækkaðir úr 18% í 7%? Er það helstefna gegn fyrirtækjum? Ég bara spyr. Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum að atvinnuleysi er miklu, miklu lægra en spáð var? Ekki 20% eins og sumir í stjórnarandstöðunni spáðu, ekki 10% heldur komið niður í 7,5%. Er það helstefna gegn heimilunum að kaupmátturinn hefur minnkað? Nei, sannarlega ekki, virðulegi forseti. Við skulum reyna að skiptast hér á skoðunum af einhverju raunsæi þannig að fólkið úti í samfélaginu taki mark á okkur. (Gripið fram í: Einmitt.) Það er ekki hægt að taka mark á svona málflutningi þegar hagvísar í samfélaginu sýna allt annað en stjórnarandstaðan bendir á. Við eigum að geta skipst á skoðunum af raunsæi og í takt við sannleikann í samfélaginu.

Það er ekki allt algott í samfélaginu núna þó að við sjáum að mikið sé á uppleið og margt hafi breyst á jákvæðan veg. Landið er að rísa eins og fjármálaráðherra segir. Á ýmsu þarf að taka í atvinnumálum og stöðu heimilanna. En það er ekki svona svartsýni og bölmóður fram undan eins og stjórnarandstaðan bendir á. Ég vil meina að heimilin og fyrirtækin í landinu þurfi á allt öðru að halda héðan úr þessu virðulega húsi en þennan bölmóð.

Hér er sett fram og talað um sem staðreynd að ríkisstjórnin sé að skatta sig út úr vandanum, stórfelldar skattahækkanir o.s.frv. Hvað segir það okkur, virðulegi forseti, þegar niðurstaðan er sú að gjaldamegin hefur verið tekið á miklu meira með mun afgerandi hætti en nokkurn tímann að því er skattana varðar? Við þurfum að tala um að 78% hafi náðst gjaldamegin og 22% tekjumegin. Skattbreytingar sem við erum að fara í að, 8 milljarðar á næsta ári, gera lítið meira en að vega upp það sem skatttekjur hafa minnkað eða skattstofnar. Við skulum tala út frá sannleikanum, virðulegi forseti.

Það er ekki hægt að tala um minni samdrátt eins og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði. Samdrátturinn er allt annar en spáð var og hefur skilað okkur miklu meira af því að hann hefur verið mun minni en Seðlabankinn spáði. Það skiptir tugum milljarða sem við sjáum í betri afkomu ríkissjóðs. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegi forseti? Ég er tilbúin að skiptast hér á skoðunum við stjórnarandstöðuna, en mér finnst fráleitt að við séum að ræða alvarleg málefni þjóðarinnar út frá framsetningu stjórnarandstöðunnar. Ég ætla að láta það verða mín síðustu orð, virðulegi forseti, að við getum í vetur átt betri og sanngjarnari og eðlilegri samskipti um stöðu mála í samfélaginu en út frá svona, (Forseti hringir.) mér liggur við að segja blaðri, virðulegi forseti, sem hér hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni.