138. löggjafarþing — 151. fundur
 6. september 2010.
viðbrögð ríkisstjórnarinnar við væntanlegum dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán.

[10:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða við efnahags- og viðskiptaráðherra og óska hæstv. ráðherra um leið til hamingju með að hafa skipt um stól. Þessar breytingar á ríkisstjórn líkjast því reyndar helst að ríkisstjórnin hafi gert kyrrstöðusamning við sjálfa sig líkt og bankarnir gera við valda viðskiptavini í dag, þ.e. til að viðhalda sjálfri sér sama hvað það kostar og sama hvernig þarf að greiða af.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneyti hans og ríkisstjórnin hafi undirbúið einhver viðbrögð við væntanlegum dómi Hæstaréttar út af gengistryggðum lánum. Við þekkjum öll hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru á sínum tíma þegar dómur héraðsdóms féll og því hljótum við að spyrja hvort ríkisstjórnin, og þá sérstaklega ráðherra, sé búin að fara yfir það í sínum ranni hvernig eigi að bregðast við dómi Hæstaréttar. Verður nú breytt um stíl og kúrsinn tekinn með fólkinu í landinu, með skuldurunum, eða mun ríkisstjórnin aftur bregðast við með hagsmuni bankanna eða fjármagnseigenda í huga og kynna okkur einhver viðbrögð eða breytingar þegar þetta liggur fyrir?

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingheim að hafa alveg á hreinu hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við því að þessi dómur muni væntanlega marka ákveðin tímamót. Ég trúi því varla, frú forseti, að ráðherra komi hér upp og segi að ekki hafi verið hugað að þessu. Því er mikilvægt að fá að vita nú þegar hver stefnan verður varðandi þetta mál.



[10:40]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri mikilvægt að ágreiningur um gildi samninga væri leystur fyrir dómstólum. Það er grundvallarregla í réttarríki og á það hef ég alltaf lagt mikla áherslu. Við bíðum auðvitað niðurstöðu Hæstaréttar í gengislánamálum. Á vettvangi ráðuneytisins hefur verið unnin ákveðin greiningarvinna á því hvað ólík niðurstaða gæti haft í för með sér. Við munum kappkosta að hafa tilbúin viðbrögð. Það er alveg ljóst að það kann að verða ástæða til lagasetningar í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar, sérstaklega til að greiða úr óvissu, til að tryggja t.d. öllum sama rétt og koma í veg fyrir að fólk fái mismunandi úrlausn eftir því hvernig formi samninga er háttað. Farið verður yfir öll þessi sjónarmið og við munum útbúa viðbrögð miðað við ólíkar forsendur. Ég held að það skipti miklu máli að eiga um það gott samstarf við þingheim.

Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að nálgast þetta mál með hagsmuni almennings í huga. Almannahagsmunir eru auðvitað að fólk fái notið þeirra réttinda sem það á rétt á samkvæmt samningum sem það hefur gert en það eru auðvitað líka almannahagsmunir að það sé fjárhagslegur stöðugleiki í landinu og að fjármálastöðugleika sé ekki teflt í tvísýnu. Ég held að það sé hægt að finna lausnir í þessum málum sem skila árangri með þeim hætti að bæði markmiðin náist.



[10:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er hálfáttavilltur yfir því hvort hæstv. ráðherra svaraði þessari spurningu í einhverju, en mig langar að inna hann aftur eftir sama og þá í rauninni útfæra aðeins spurninguna. Ef ég skil það rétt að ráðuneytið hafi þegar undirbúið viðbrögð við dómnum, þá væntanlega að þessi dómur geti fallið á hvorn veginn sem er, telur ráðherra þá ekki við hæfi að kynna þau viðbrögð fyrir viðkomandi nefndum Alþingis áður en þau verða kláruð af framkvæmdarvaldinu þannig að þingmenn séu upplýstir um hvað á að gera í þessu máli?

Svo er vitanlega ágætt að spyrja hæstv. ráðherra líka af þessu tilefni hvort þetta séu almennar aðgerðir sem verður gripið til í framhaldi af dómnum og hvað honum finnist um slíkar aðgerðir til að hjálpa skuldurum. Það er ágætt að það komi fram um leið en mér sýnist að ríkisstjórnin sé að undirbúa viðbrögð við þessum dómi og það hlýtur því að vera mjög mikilvægt og spennandi að sjá hver þau viðbrögð eru (Forseti hringir.) og með hverjum ríkisstjórnin ætlar að standa.



[10:43]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli er mikilvægt að leggja á það áherslu að markmiðið er að greina stöðuna og eiga tilbúnar ólíkar leiðir eftir því hvernig dómurinn fer til að gera hvort tveggja í senn, greiða fyrir úrlausn þessara erfiðu mála þannig að skuldamál einstaklinga og fyrirtækja verði sem hraðast leidd til lykta til að greiða fyrir efnahagslegri endurreisn ásamt því að forða áföllum fyrir fjármálakerfið. Mjög gott dæmi er ágreiningur um það hvernig haga ætti endurkröfum ef t.d. bíll hefur gengið kaupum og sölum þremur eða fjórum sinnum. Hvernig á að haga endurgreiðslunni, hvernig á að vinda ofan af erfiðum skuldamálum? Það er mikilvægt að löggjafinn sé tilbúinn með leiðir til að greiða fyrir því uppgjöri sem eðlilega þarf að eiga sér stað því að við eigum öll mikið undir því að ósjálfbær skuldastaða einstaklinga og fyrirtækja verði löguð að því sem (Forseti hringir.) raunveruleikinn kallar á.