138. löggjafarþing — 151. fundur
 6. september 2010.
Stjórnarráð Íslands, 2. umræða.
stjfrv., 658. mál (sameining ráðuneyta). — Þskj. 1258, nál. 1446, 1467 og 1468.

[12:06]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands frá meiri hluta allsherjarnefndar. Í samræmi við starfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr 12 í 9 og færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Markmiðið með stækkun ráðuneyta er jafnframt að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flókin stjórnsýsluviðfangsefni og tryggja form þeirra. Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í fjárlögum fyrir árið 2010 var gripið til aðgerða sem leiddu til 43 milljarða kr. lækkunar útgjalda frá því sem annars hefði orðið og við afgreiðslu á fjárlögunum var áætlað að samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum þyrfti að bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 50 milljarða kr. á næsta ári. Fyrirsjáanlegt var að verulegur hluti afkomubatans á næsta ári yrði að koma til með lækkun ríkisútgjalda. Það er óþarft að fjölyrða um mikilvægi þess að útgjaldamarkmiðum fyrir árið 2010 og árin þar á eftir verði vel fylgt eftir en til þess að árangur náist þarf samstillt átak allra ráðuneyta og stofnana. Ljóst er að þær breytingar sem eru áformaðar á næstu missirum felast m.a. í því að fækka ráðuneytum og ríkisstofnunum með sameiningu og breytingu á skipulagi og er þetta frumvarp m.a. liður í þeim áformum.

Sameining ráðuneyta og stofnana auðveldar samþættingu ýmissar þjónustu og kemur í veg fyrir óskýra verkaskiptingu eða tvíverknað eins og dæmi hafa verið um, m.a. innan velferðarþjónustunnar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef það verður að lögum verður stofnaður stýrihópur með þátttöku ráðherra og verkefnisstjórn með þátttöku ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna. Mikilvægur þáttur vinnunnar verður að ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta, sérstaklega heildarsamtök, svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félög forstöðumanna og sveitarfélögin. Þá verður þingflokkum boðið að tilnefna tengiliði til að fylgjast með vinnunni og koma sínum sjónarmiðum að.

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu að ætlunin er að þessir aðilar muni einnig fylgja því eftir að fram fari allsherjarendurskoðun á þeim verkefnum sem viðkomandi ráðuneyti sinna og þeim stofnunum sem undir þau heyra. Þá verður farið heildstætt yfir verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands þannig að verkefni fleiri ráðuneyta en þeirra sem sameinast geta breyst.

Meiri hlutinn telur þörf á lengra samráðsferli áður en atvinnuvegaráðuneyti verður að veruleika og leggur því til breytingar á 1. gr. frumvarpsins þannig að ekki verði kveðið á um nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að þessu sinni. Heiti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins munu því haldast óbreytt. Fyrir liggur að forsendur breytinga á hlutverki umhverfisráðuneytisins þannig að til verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti tengjast stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis og verkaskiptingu milli þessara tveggja nýju ráðuneyta. Meiri hlutinn leggur því einnig til að sú breyting verði ekki gerð að þessu sinni, þ.e. að heiti umhverfisráðuneytisins verði óbreytt en unnið verði að stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis samhliða því samráðsferli sem fram undan er vegna atvinnuvegaráðuneytis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis þótt ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu.

Það er skoðun meiri hlutans að í aðdraganda sameiningar ráðuneyta, í þessu tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, geti verið heppilegt verklag að sami ráðherra gegni þeim ráðuneytum sem til stendur að sameina mánuðina áður en sameiningin á sér stað og stjórni því verki t.d. frá áramótum. Hið sama á við um þær sameiningar ráðuneyta sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykktar núna, eins og raunar var gert við uppstokkun í ríkisstjórn í síðustu viku.

Meiri hlutinn leggur í tengslum við framangreindar breytingar til að gildistaka frumvarpsins verði um næstu áramót.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk undirritaðs hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Mörður Árnason, Ögmundur Jónasson og Valgerður Bjarnadóttir.



[12:11]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun í framsögu fyrir nefndaráliti á eftir koma inn á efnisatriði málsins en það eru tvö atriði sem snerta þau sjónarmið og breytingartillögur sem koma fram hjá meiri hlutanum sem ég ætlaði að spyrja hv. formann allsherjarnefndar nánar um.

Annars vegar er tiltölulega lítið atriði sem ég vil biðja hann um að skýra fyrir mér. Samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans eiga lögin, þar með öll ákvæði þeirra, að taka gildi 1. janúar 2011 og þá á breytingin sem varðar þau ráðuneyti sem eftir standa — ef búið er að taka atvinnuvega- og umhverfisráðuneytin út úr þessum breytingapakka, þá standa eftir, eins og hv. formaður nefndi, annars vegar innanríkisráðuneyti sem samanstendur af dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti og hins vegar velferðarráðuneyti sem samanstendur af félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.

Skil ég ummæli í einni af lokamálsgreinum nefndarálits meiri hlutans rétt, að það verði heppilegast að sami einstaklingur stýri því sem lýtur að auðlindamálunum eða sem sagt atvinnuvegamálunum, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptamálum, að sami maður verði iðnaðarráðherra, viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá og með næstu áramótum þrátt fyrir að engin lagabreyting hafi átt sér stað því til stuðnings?



[12:13]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja það til í nefndaráliti meiri hlutans að það gæti verið heppilegt vinnulag í framhaldi málsins að sami ráðherra gegni embættum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra en ekki viðskiptaráðherra á sama hátt og nú er gert við þær sameiningar sem hér er verið að leggja til að verði samþykktar. Við höfum öll orðið vitni að því að á síðustu dögum hafa orðið þær breytingar á ríkisstjórninni að sami einstaklingur gegnir embætti samgönguráðherra og dómsmálaráðherra en þau ráðuneyti á einmitt að sameina um áramótin. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni.



[12:14]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni fyrir svörin. Þetta hefur aðeins skýrt þetta fyrir mér og ég tek það fram að ég mismælti mig þegar ég sagði að viðskiptaráðuneytið væri þarna undir þannig að um er að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti annars vegar og iðnaðarráðuneyti hins vegar. Það er mögulegt að sami maður hafi mismunandi ráðuneyti á sinni könnu án þess að sú breyting eigi sér stað sem sést best af því að ríkisstjórnin hefur þegar hrókerað mönnum innan ríkisstjórnarinnar án þess að þessi breyting sem hér er boðuð hafi náð fram að ganga. Málið er reyndar aðeins búið að fara í eina umræðu af þremur í þinginu. En þá er spurningin: Af hverju er meiri hluti allsherjarnefndar ekki þeirrar skoðunar að með sama hætti sé hægt að færa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið annars vegar og iðnaðarráðuneytið hins vegar undir sama einstakling núna til að stýra þeirri þróun sem boðuð er í frumvarpinu og nefndarálitinu? Eru einhverjar faglegar ástæður sem búa þar að baki eða er um að ræða hluta af þeim pólitíska vandræðagangi sem ríkisstjórnin er í út af þessum málum?



[12:16]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu spurningu vegna þess að ekki mundi maður vilja að sá misskilningur yrði útbreiddur að um væri að ræða vandræðagang innan ríkisstjórnarinnar. [Hlátur í þingsal.] Svo er ekki, enda kom ég inn á það í framsöguræðu með nefndaráliti að þær athugasemdir og neikvæðu umsagnir sem bárust nefndinni, eins og hv. þingmanni er fullkunnugt, lutu flestar að stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Það er þar sem við teljum meiri þörf á samráði og það er það sem stefnt er að, að reyna að ná betri lendingu í meiri sátt við hagsmunaaðila í þeim efnum.



[12:17]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum hér á vordögum um breytingar á Stjórnarráðinu lögðu tveir hv. þingmenn og einn hæstv. ráðherra fram bókun sem var gerð á þingflokksfundi Vinstri grænna. Hv. þm. Atli Gíslason las bókunina upp í þingsal við þá umræðu. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna hér í einn hluta hennar, þ.e. að samning frumvarpsins og framlagning sé í andstöðu við reglur samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007.

Mig langar að staldra aðeins við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að við höfum aldeilis orðið áskynja um það hér á síðustu mánuðum og árum hvað vönduð vinnubrögð hefðu átt betur við á hinu háa Alþingi. Því langar mig að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, sem er formaður allsherjarnefndar: Var þetta rætt í meðförum nefndarinnar á málinu í sumar, þ.e. sú fullyrðing að þetta frumvarp væri lagt fram með þeim hætti að það stæðist ekki þær grundvallarreglur sem á að fara eftir á Alþingi þegar lagafrumvörp eru lögð fram?

Ég vek athygli á því að hv. þm. Atli Gíslason er löglærður maður og hefur spáð í þessa hluti. Það kom fram í máli hans þegar hann lagði fram þessa bókun. Einn hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands kemur líka með þessa fullyrðingu og bókun hér inn. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, formann allsherjarnefndar: Var rætt sérstaklega í nefndinni hvort það lagafrumvarp sem við erum að ræða hér nú og þær breytingar stæðust þau grundvallaratriði sem á að fylgja þegar lögð eru fram lagafrumvörp og afgreidd á Alþingi?



[12:19]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki kynnt mér sérstaklega þá bókun sem hv. þingmaður vakti máls á í fyrirspurn sinni. Af því svari leiðir að það var ekki rætt neitt sérstaklega innan nefndarinnar. Tilgangur umsagnaferlisins og umræðna í nefndum er að tryggja að gerðar séu lagabreytingar í samræmi við m.a. stjórnarskrá og þær viðteknu hefðir og reglur sem við höfum sett okkur. Ég geri ráð fyrir því að ef það er rétt sem þarna kemur fram hefði það komið fram í meðferð nefndarinnar.

Ég vek líka athygli á því að í umræðunni um fundarstjórn forseta hér rétt áðan var óskað eftir því að málið kæmi inn til umfjöllunar í fagnefndum. Ég mun beita mér fyrir því, að því marki sem það mun ekki tefja fyrir framgangi málsins, að það náist til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd. Við erum búin að fjalla um málið í allsherjarnefnd þannig að það þarfnast kannski ekki frekari umfjöllunar þar (VigH: Tekið út í óþökk.) en ég tel fullkomlega eðlilegt að það verði fjallað um það í samgöngunefnd líka ef óskað er sérstaklega eftir því að málið fari til umfjöllunar í svokölluðum fagnefndum. Tekið út í ósátt, hrópar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. (Gripið fram í.) Því miður er ekki hægt að taka öll mál út í sátt. Það hefur legið fyrir að það er ekki sátt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta mál, og það er ekki heldur sátt innan stjórnarandstöðunnar um þetta mál.



[12:21]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir hreinskilin svör en verð jafnframt að lýsa vonbrigðum mínum með að hv. allsherjarnefnd hafi ekki skoðað þá fullyrðingu og bókun sem var lögð fram í þingsal af tveimur hv. stjórnarþingmönnum og einum hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands um að framlagning málsins, undirbúningur og vinna þessa frumvarps stangist á við þær reglur og þau lög sem gilda á Alþingi um hvernig á að leggja svona mál fram. Þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að hv. allsherjarnefnd hafi ekki farið yfir þessa hluti. Ég tel mjög mikilvægt að það verði gert og að menn skoði ofan í kjölinn þessa fullyrðingu sem var lögð fram sem bókun í þingsal um að málið væri vanreifað og illa undirbúið og m.a.s. að það uppfyllti ekki þau skilyrði sem lagafrumvörp ættu að uppfylla þegar frumvörp eru lögð fram á Alþingi.

Ég fagna hins vegar því sem hv. þingmaður sagði líka í umræðum um fundarstjórn forseta hér áðan, þeirri viðleitni hv. þingmanns að vísa málinu til fagnefndanna og vinna þetta mál eins vel og hægt er úr því sem komið er. Ég fagna því og það er bara hið besta mál. Ég teldi eðlilegt að þetta kæmi til allra fagnefnda, hvort heldur er samgöngunefndar, félags- og tryggingamálanefndar eða annarra. Ég tel það mikilvægt.

Það kemur líka annað fram í þessari bókun sem kannski staðfestir allt það sem hv. þingmaður lét liggja að áðan að væri ekki vandræðagangur ríkisstjórnarinnar. Það blasir við öllum þeim sem vilja sjá og hafa augu og eyru opin að auðvitað er það ekkert annað en vandræðagangur ríkisstjórnarinnar hvernig fallið er frá málinu. Það kemur líka fram í áðurnefndri bókun frá þessum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra að þetta muni veikja pólitíska stöðu Vinstri grænna. Ef það verður niðurstaðan þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson, hæstv. ráðherra núna, (Forseti hringir.) er settur og fær þessa rjómaskál fær hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason að vera við hliðina á honum (Forseti hringir.) fram að áramótum. Það blasir við öllum sem vilja sjá.



[12:23]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verulegur skoðanamunur á því á milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvað teljist almennt til vandræðagangs í pólitík. Skoðanaágreiningur eða skoðanamunur á milli flokka eða jafnvel innan flokka telst ekki í mínum bókum sérstakur vandræðagangur. Í mínum huga er það það sem stjórnmál ganga út á, að þar komi saman fólk með ólíkar skoðanir og reyni að ná einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu sem byggir á þessum ólíku skoðunum. (Gripið fram í.) Ef það tekst ekki ræður meiri hlutinn en það er enginn vandræðagangur í mínum huga að það séu mismunandi skoðanir innan Vinstri grænna eða innan Samfylkingar eða á milli þessara tveggja flokka. (Gripið fram í: Hvaða …?)

Það þótti hins vegar gríðarlegur vandræðagangur í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það mátti ekki koma til tals að fólk innan þessara flokka eða fólk á milli þessara flokka hefði skiptar skoðanir eða ólíkar skoðanir á hlutum. (Gripið fram í.) Gott og vel, ég virði alveg þá upplifun manna af stjórnmálunum. Ég virði það alveg ef fólk lítur svo á stjórnmálaflokka að þar eigi allir að tala einum rómi og helst hinum sama og formaðurinn. (Gripið fram í.) En ég lít einfaldlega ekki þannig á stjórnmálin. Hér á þingi er líka verulega stór hópur fólks, m.a.s. meiri hluti, sem upplifir hlutina þannig. Við það verður minni hluti þings einfaldlega að sætta sig, a.m.k. næstu þrjú ár. (Gripið fram í.)



[12:25]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þetta er það umfangsmikið mál að mér finnst óeðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sé ekki við þessa umræðu. Þess vegna fer ég fram á það við forseta að hæstv. forsætisráðherra verði kallaður til til að hlusta á það sem þingmenn hafa hér að segja, sérstaklega í ljósi þess að þetta er lagt fram í mikilli ósátt.



[12:26]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseta er kunnugt um að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu og mun gera ráðstafanir.



[12:26]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi segja að ég er ánægður að heyra að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu og getur þá hugsanlega brugðist við einstökum atriðum sem koma fram í ræðu minni og nefndaráliti og jafnvel öðrum ræðum sem fluttar verða hér í dag, enda er alveg ljóst að þetta mál er á ábyrgð forsætisráðherra öðrum fremur. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í heild og stjórnarmeirihlutans á þingi en það er forsætisráðherra sem hefur frumkvæði og forgöngu í þessu máli þannig að margt af því sem gagnrýnivert er í því snýr fyrst og fremst að forsætisráðherra og kannski ekki sanngjarnt að knýja aðra til svara í þeim efnum.

Ég vil nefna að þegar mál þetta kom til 1. umr. hér í vor, eða sumar, var það liður í samkomulagi um þinglok að umræða um það var afar takmörkuð. Ég hygg að margt hafi þar verið ósagt sem kann að leiða til þess að umræðan sem við erum að fara út í núna verði með öðrum hætti en ella hefði verið. Menn þurfa kannski að ræða málin meira frá grunni núna en væri ef 1. umr. hefði verið eðlileg í sumar.

Í nefndaráliti þess minni hluta allsherjarnefndar sem ég mæli fyrir, minni hluta sjálfstæðismanna, er í fyrsta lagi skýrt tekið fram að við teljum þetta frumvarp fullkomlega vanbúið til afgreiðslu á Alþingi. Það er sagt í nefndarálitinu að við getum tekið undir að það sé ástæða til endurskoðunar í sambandi við skipan ráðuneyta og að það sé æskilegt markmið að hagræða og efla skilvirkni og styrkleika stjórnsýslunnar með minni tilkostnaði. Við tökum undir þau markmið. Við bendum hins vegar á að frumvarpið er hvorki nægilega undirbúið né rökstutt af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar til að þingið geti í rauninni tekið það fyrir eða afgreitt það og þess vegna teljum við að heppilegast væri að ríkisstjórnin tæki málið einfaldlega aftur til umfjöllunar á sínum vettvangi og legði fram á Alþingi nýtt frumvarp að undangenginni nauðsynlegri undirbúningsvinnu; faglegu mati og eðlilegu samráði.

Það er auðvitað rétt að geta þess, eins og við gerum í nefndarálitinu, að málið virðist vera að taka verulegum breytingum sem fela það í sér að stór hluti þess er einfaldlega felldur niður eða slegið á frest. Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að því sem lýtur að atvinnuvegaráðuneyti og verkaskiptingu milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis verði frestað þannig að það verði tekið út fyrir sviga. Það má vera að gagnrýni á skort á undirbúningi og samráði hafi haft áhrif á þá afstöðu meiri hluta allsherjarnefndar. Hins vegar er, eins og við bendum á í nefndarálitinu, öllum ljóst sem fylgst hafa með málinu að meginástæða þessarar frestunar er ekki faglegt mat heldur pólitískur vandræðagangur af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Pólitískur vandræðagangur, segi ég, því að þrátt fyrir að ég virði það sem hv. þm. Róbert Marshall sagði áðan um skiptar skoðanir, sem geta átt fullan rétt á sér, höfum við séð það í tíð þessarar ríkisstjórnar að það er um að ræða miklu meiri vandamál en felast bara í skiptum skoðunum. Það eru stöðugar hótanir um stjórnarslit, bæði opinberlega og óopinberlega. Það hefur ekkert vantað upp á það að stjórnarflokkarnir og einstakir aðilar innan þeirra sendu hver öðrum kaldar kveðjur, m.a. með hótunum um að skella á eftir sér og slíta þessu samstarfi. Það er vandræðagangur.

Þegar breytingin var gerð á ráðherraskipaninni í síðustu viku var það skýrt með því að það væri til að styrkja ríkisstjórnina. Í hverju fólst þessi styrking? Fólst hún í því að henda utanþingsráðherrunum út, var það það sem var gert til að styrkja ríkisstjórnina? Nei, auðvitað ekki. Ég held að öllum sé ljóst að það gerir ekkert annað en að veikja ríkisstjórnina. Styrking ríkisstjórnarinnar fólst í því að með breytingu á ráðherraskipaninni í síðustu viku náðu Samfylkingin og valdaarmurinn í Vinstri grænum einhverju samkomulagi við óróadeildina í Vinstri grænum. Það var einfaldlega það sem gerðist, það var bara einhver málamiðlun sem endaði með þessu eftir ótrúlegan pólitískan vandræðagang. Nóg um það.

Hér var aðeins vikið að formi frumvarpsins, m.a. í orðaskiptum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og Róberts Marshalls. Þá er rétt að nefna það, eins og við gerum í nefndarálitinu, að í frumvarpinu er einungis fjallað um breytingar á heitum ráðuneyta í stjórnarráðslögunum en ekki fylgja breytingar á ákvæðum annarra laga sem eins og við höfum bent á innan nefndarinnar og utan að þurfa óhjákvæmilega að eiga sér stað samhliða slíkri breytingu. Það er alveg augljóst að það þarf að breyta fjöldamörgum öðrum lögum til að sameining ráðuneytanna geti virkað eins og hún á að virka.

Við síðustu breytingar á stjórnarráðslögunum, annars vegar í árslok 2007 og hins vegar sumarið 2009, var eins og við bendum á í nefndarálitinu búið að vinna þessa lágmarksvinnu þegar við framlagningu frumvarpanna. Við bendum á að þessi fljótaskrift við samningu frumvarpsins er í rauninni illskiljanleg í ljósi þess að þarna er um að ræða verkefni sem ríkisstjórnin hefur, a.m.k. í orði kveðnu, stefnt að frá myndun. Þegar breyting varð á lögum um Stjórnarráðið síðast, í ágúst 2009, var boðað að áfram yrði unnið að þessu máli. En á því ári sem liðið er síðan er ekki búið að fara yfir lagasafnið til að vinna þessa undirbúningsvinnu. Þetta er kannski tæknilegt atriði en samt sem áður atriði sem rétt er að vekja athygli á.

Þó er alvarlegra, eins og við bendum á í nefndarálitinu, að við undirbúning frumvarpsins virðist ekki hafa átt sér stað neitt mat á stöðu mála í dag varðandi Stjórnarráðið og ráðuneytaskipan. Ekki liggur fyrir neitt mat á reynslunni af nýlegum breytingum á Stjórnarráðinu. Ég bendi á að breytingar voru gerðar sumarið 2009 og þar á undan í árslok 2007. Það liggur ekki fyrir, hvorki í greinargerð með frumvarpinu né kom fyrir allsherjarnefnd neitt mat á því hvernig þessar breytingar hafa reynst. Ekki liggur fyrir neitt faglegt mat á þörfinni fyrir breytingar, það liggja fyrir skoðanir en ekki neitt faglegt mat á þörfinni fyrir breytingar, og þaðan af síður liggur fyrir mat á því hvaða breytingar eru nauðsynlegar. Svo liggur heldur ekki fyrir neitt mat á líklegum árangri boðaðra breytinga á Stjórnarráðið sjálft eða áhrifum þeirra út í samfélagið.

Í athugasemdum við frumvarpið er raunar farið um þessi atriði fjöldamörgum orðum, fjöldamörgum mjög almennum orðum. Þar er ýmsum sjónarmiðum lýst en það liggur ekki fyrir neitt faglegt mat, ekki nein úttekt, ekki nein gögn sem þær skoðanir sem koma fram í greinargerðinni styðjast við. Þetta eru skoðanir en þær styðjast ekki við neina faglega undirbúningsvinnu, því miður.

Í rauninni má segja að greinargerðin með frumvarpinu bæti afar litlu við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá vori 2009, það er bara verið að segja sama hlutinn í aðeins lengra máli án þess að nokkur gögn séu lögð til grundvallar. Það er reyndar athyglisvert að í greinargerð með frumvarpinu er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar eiginlega eina skjalið sem eitthvað er vísað í til rökstuðnings fyrir þessari breytingu. Engin úttekt, engin samantekt. Það er raunar vitnað í nefnd sem starfaði undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar í fyrravor þar sem lýst var því sjónarmiði að stefna bæri að sameiningu ráðuneyta en þar var líka fjallað um þessa hluti mjög almennt.

Ég er ekki sérfræðingur á því sviði hvernig á að endurskipuleggja stofnanir en ég veit að fjöldamargir hafa mikla reynslu af að fara í gegnum stofnanir, meta þörf á breytingum og hvaða breytingar eru líklegar til að skila árangri. Það er ákveðin aðferðafræði til í þessu sambandi. Það hefur ekki verið notast við neina slíka aðferðafræði í undirbúningi þessa frumvarps eða það er a.m.k. ekki sjáanlegt, það er ekkert sem bendir til þess.

Til þess að gæta sanngirni nefnum við í nefndarálitinu að með greinargerð með frumvarpinu fylgir mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eins og lögbundið er. Þar eru ákveðnar vangaveltur um hugsanlegan sparnað eða fjárhagsleg áhrif þeirra breytinga sem samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér. Þar er helst hægt að festa hönd á þeirri tölu að þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda muni þær spara um 120 millj. kr. í launakostnaði, þ.e. þegar biðlaunatími og tími tilfærslna embættismanna innan Stjórnarráðsins verður liðinn, kannski eftir ár. 120 millj. kr. eru auðvitað talsverðir peningar, raunar frekar litlir í samhengi ríkisfjármálanna en samt talsverðir peningar. Það er alveg vert að skoða hvort það er hægt að ná fram svoleiðis sparnaði víðar. Það má reyndar velta fyrir sér hvort mætti ná þeim sparnaði án þess að fara út í lagabreytingar af þessu tagi en það er önnur saga.

Það er rétt að geta þess að annar sparnaður sem fjárlagaskrifstofan er með vangaveltur um í áliti sínu byggir á mjög óljósum rökstuðningi og eftir atvikum ákvörðunum, t.d. í sambandi við húsnæðismál og annað þess háttar, sem á eftir að taka. Það er fullkomin framtíðarmúsík sem ekki er hægt að festa neina hönd á. Það er allt saman í óvissu. Það kann þó að vera skynsemi í hugsuninni, ég fellst á það enda vil ég gæta sanngirni.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á því núna að með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til varðandi þetta frumvarp dregur verulega úr þeim sparnaði sem ætla má að náist með samþykkt þess, bara þannig að það liggi fyrir. Það er ekki lykilatriði í þessu sambandi en ætla má að þetta frumvarp sem slíkt muni spara, ef við tökum mark á tölum fjármálaráðuneytisins, á að giska helmingi minna en gert er ráð fyrir í mati fjármálaráðuneytisins, helmingi minna í tilkostnaði. Það er einhver þumalputtareikningur, kannski getur hv. formaður allsherjarnefndar bætt úr ef ég fer með rangt mál í þeim efnum. Ef t.d. hv. formaður allsherjarnefndar hefur einhverjar upplýsingar um það hvaða sparnaður gæti náðst fram miðað við þær breytingar sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til á frumvarpinu væri forvitnilegt að heyra þær hér á eftir. Ég útiloka ekki að slíkar upplýsingar liggi einhvers staðar fyrir en hafi þær komið fram í allsherjarnefnd hafa þær farið fram hjá mér.

Þessi fjárhagslegi þáttur er sem sagt háður nokkurri óvissu. Það sem hægt er að festa hönd á er fækkun aðstoðarmanna ráðherra og fækkun ráðherrabílstjóra, fækkun ráðherra um tvo eða þrjá, eftir atvikum. Allt eru þetta peningar, ég virði það, en þetta eru ekkert óskaplega miklir peningar. Reynslan er sú að þrátt fyrir að markmið séu sett fram um að sameining skili fjárhagslegum ávinningi er ekki alltaf ljóst að hún geri það. Ég nefni bara, af því að hæstv. forsætisráðherra er í salnum, að hæstv. forsætisráðherra hefur manna mest talað fyrir því að allir yrðu að skera niður til að ná tökum á ríkisfjármálunum en einmitt hennar ráðuneyti vex, bæði að mannfjölda og fjárþörf, á sama tíma og önnur ráðuneyti senda skilaboð út og suður um að það eigi að skera niður. Það er ekki byrjað á toppinum í þeim efnum.

Reynslan t.d. af breytingunni síðasta sumar var sú að deildir voru færðar úr forsætisráðuneytinu í önnur ráðuneyti — en samt fækkar ekki starfsmönnum í forsætisráðuneytinu. Menn geta farið af stað með alls konar fín og falleg markmið en það er lítið hald í þeim ef ekki fylgir nein alvara.

Við vekjum athygli á því í nefndarálitinu að við undirbúning þessara frumvarpa virðist ekkert samráð hafa átt sér stað nema kannski milli nokkurra ráðherra og æðstu embættismanna ráðuneyta. Ekki virðist hafa átt sér stað samráð við almenna starfsmenn Stjórnarráðsins, hagsmunasamtök eða aðra aðila sem hafa hagsmuna að gæta af þessum breytingum. Það hefur heldur ekki verið um neitt pólitískt samráð að ræða, bara þannig að því sé haldið til haga. Við áttum kannski ekkert endilega von á því enda er þetta umdeilt pólitískt mál en það hefur ekki verið reynt að hafa pólitískt samráð um málið. Það er reyndar boðað, eins og ítrekað er í nefndaráliti meiri hlutans, að í framhaldi af samþykkt frumvarpsins verði efnt til samráðs um útfærslu breytinganna. Reynslan af fyrirheitum um samráð vekur hins vegar ekki miklar vonir um að við það verði staðið.

Ég vísa í þeim efnum í að þegar Alþingi afgreiddi breytingarnar á Stjórnarráðinu sumarið 2009 var því marglýst yfir að í framhaldinu yrði efnt til víðtæks samráðs, m.a. við hagsmunaaðila og ég veit ekki hverja og hverja, en mér vitanlega hefur ekki orðið af því samráði enn þá. Þegar þetta frumvarp var lagt fram í vor var boðað að eftir framlagningu þess — það stóð skýrt í greinargerðinni — yrði efnt til víðtæks samráðs. Engin merki eru um að það hafi verið gert með öðrum hætti en þeim sem venja er þegar allsherjarnefnd eða aðrar nefndir þingsins hafa mál til umsagnar. Viðurkenning á þessum skorti á vönduðum vinnubrögðum felst í þeim orðum meiri hluta allsherjarnefndar að nauðsynlegt sé að efna til meira samráðs hvað varðar þau ráðuneyti sem meiri hlutinn hefur ákveðið að taka út fyrir sviga. Það á auðvitað við um hin líka þó að umræðan hafi vissulega verið miklu háværari og gagnrýnin harðari hvað varðar breytingarnar á atvinnuvegaráðuneytunum en í hinum tilvikunum.

Þessi ríkisstjórn hefur jafnan uppi fögur orð um mikið samráð, það er alltaf talað um nauðsyn samráðs, en svo þegar kallað er eftir því er sagt: Nei, heyrðu, við verðum að klára þetta frumvarp, svo förum við í samráðið. Við verðum að koma þessu máli áfram, svo förum við í samráðið. Allir bíða en aldrei kemur samráðið. Þrátt fyrir fögur orð í frumvarpinu sjálfu og nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um æskilegt samráð í framhaldi af því að þetta frumvarp verði að lögum hræðir því miður reynslan í þeim efnum og gefur ekki miklar vonir um mikið samráð.

Þá er rétt að vekja athygli á því að auðvitað eru gallar, eins og ég nefndi áðan, á undirbúningsvinnu við frumvarpið. Það má segja að í orðaskiptum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og Róberts Marshalls hafi aðeins verið vikið að því. Við bendum í nefndarálitinu á að árið 2007 hafi verið gefin út sérstök handbók sem fól í sér ákveðnar leiðbeiningar og viðmið í sambandi við undirbúning, samningu og frágang lagafrumvarpa og að ekkert bendi til þess að sú handbók hafi verið höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps. Það bendir ekkert til þess. Ég veit ekki hvernig menn unnu hlutina í forsætisráðuneytinu en miðað við það sem ég les í greinargerð og það sem ég heyri í umræðum og á fundum allsherjarnefndar er ekkert sem bendir til þess að þær viðmiðanir sem voru fyrir hendi eftir að handbókin var gefin út 2007 og góð sátt var um — það var ekki pólitískt plagg, það var ekki ágreiningsplagg, allir voru sammála um að það væri æskilegt að vinna málin með þeim hætti — hafi verið hafðar til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps.

Þá er auðvitað rétt að benda á, eins og við gerum í nefndarálitinu, að núverandi ríkisstjórn hefur marglýst yfir vilja sínum til að stuðla að bættum vinnubrögðum, m.a. á þessu sviði. Nú síðast 20. ágúst gaf ríkisstjórnin út endurskoðaðar reglur, eins og það heitir, um þessi efni. Þær eru í rauninni í flestu samhljóða efni handbókarinnar frá 2007, kannski bara aðeins styttri, en það er alveg ljóst með sama hætti að þær reglur sem þar eru settar fram og eiga sér miklu lengri sögu en reglurnar frá 20. ágúst hafa ekkert verið hafðar til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps. Ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra eru afar fín og flink í því að koma með alls konar yfirlýsingar og fögur fyrirheit um vönduð og fagleg vinnubrögð og allt þess háttar. Allt hljómar þetta voða vel en þegar til kastanna kemur virðast öll þessi orð, öll þessi fögru fyrirheit og allar þessar yfirlýsingar engu máli skipta. Yfirlýsingar um vönduð vinnubrögð, yfirlýsingar um samráð eru að engu hafðar. Það er rétt svo að ríkisstjórnin hefur sig í það að hafa samráð við flokksmenn í stjórnarflokkunum og kannski fer öll orkan í það. Kannski er engin orka eftir til að hafa samráð við neinn utan stjórnarmeirihlutans af því að öll orkan fer inn á við, ég veit það ekki.

Varðandi efnisatriði þeirra breytinga sem eftir standa, verði frumvarpið að lögum með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til, vil ég fyrir hönd 1. minni hluta vekja athygli á nokkrum atriðum. Það er rétt að ákveðnir málaflokkar sem heyra undir dómsmálaráðuneyti annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hins vegar geta alveg farið saman. Ég viðurkenni það, ég held að þar geti verið um að ræða ákveðin samlegðaráhrif, sérstaklega hvað varðar öryggismál borgaranna í víðtækum skilningi. Ég hef raunar ekki frekar en frumvarpshöfundar nein sérstök gögn í höndunum til að styðja þá skoðun mína en ég trúi því að þarna geti verið einhver samlegðaráhrif á ferðinni.

Ég er í meiri vafa um ýmis önnur mál, t.d. verkefni samgönguráðuneytisins sem snúa að verklegum framkvæmdum og raunar sveitarstjórnarmálum líka sem eru nýkomin til samgönguráðuneytisins. Eins og við bendum á í nefndarálitinu er hugsanlegt að skipa öllum þessum málaflokkum saman undir sama ráðuneyti en í mínum huga er ávinningurinn óljós og hefur ekki verið skoðaður nægilega vel. Hið sama á við um sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Ég get alveg fallist á að þar séu ákveðnir stórir málaflokkar sem geta átt góða samleið, t.d. ýmiss konar þjónusta við hópa sem þurfa bæði á heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð að halda, en hins vegar heyra líka málaflokkar undir þessi ráðuneyti sem mér finnst ekki alveg passa inn í heildarmyndina. Ég nefni sem dæmi vinnumarkaðsmálin sem heyra undir félagsmálaráðuneytið í dag. Ég velti hér upp hvort vinnumarkaðsmál — það er spurning um að efla atvinnu í landinu og um leið að hafa þjónustu fyrir hendi við þá sem missa vinnuna — heyri ekki frekar undir atvinnumálaráðuneyti en ráðuneyti sem að meginstefnu til er með heilbrigðismál og félagslega aðstoð. Það má velta þessu upp. Þetta er allt saman nokkuð sem á eftir að skoða.

Það er svo margt í þessu máli sem á eftir að skoða. Það er göslast fram með þessa breytingu sem part af einhverjum bútasaumi án þess að nokkur heildarmynd liggi fyrir. Það er ekki búið að teikna upp heildarmyndina af því hvernig núverandi ríkisstjórn eða stjórnarmeirihlutinn á Alþingi vill sjá Stjórnarráðið. Það er farið í smábreytingar í bútum og enginn sér neina heildarmynd.

Við gerðum svona breytingar síðasta sumar, í ágúst 2009, þá var farið í að breyta einhverjum ráðuneytum og færa til. Forgangsverkefni þeirra lagabreytinga var reyndar að koma efnahagsmálunum út úr forsætisráðuneytinu til sérstaks efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Eins og við svo sem sögðum í þinginu kallar það auðvitað á að ráðinn sé inn efnahagsráðgjafi til forsætisráðherra þannig að tveir starfsmenn í efnahagsmálum fóru út og svo kemur einn inn og kannski kemur annar bráðum líka þannig að það er óvíst hvernig ríkisstjórnin sér þessi mál fyrir sér.

Af því að málið er einhvern veginn ekki hugsað í heild — það er partur af einhverjum bútasaumi, það vantar faglega vinnu og faglegan undirbúning til að rökstyðja þær breytingar sem þarna eru gerðar — leggjumst við í 1. minni hluta gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég ítreka, bara þannig að það liggi skýrt fyrir, að af hálfu okkar sjálfstæðismanna er fullur vilji til að endurskoða stjórnarskrána, endurskoða skipan ráðuneyta, endurskoða verkefni, hvar þau eiga heima og hvort þau eiga heima undir einhverjum tilteknum ráðuneytum eða annars staðar. Við erum reiðubúin í þessa vinnu og þessa umræðu.

Við teljum það hins vegar ekki góð vinnubrögð, og ekki rétt að standa að málum með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir, að koma með svona búta af einhverri mynd inn í þingið án þess að heildarendurskoðun hafi átt sér stað, án þess að heildarmat hafi átt sér stað, án þess að nauðsynlegur faglegur undirbúningur og eðlilegt samráð hafi átt sér stað. Við höfnum því að taka þátt í vinnubrögðum af því tagi.



[12:53]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni 1. minni hluta fyrir framsögu hans þó að ég sé að sjálfsögðu ekki sammála öllu því sem kom fram í máli hans. Ég held að það sé mikilvægt þegar menn gagnrýna undirbúning frumvarpsins — sem er alvanalegt hér í þinginu þegar um stærri breytingar er að ræða, alveg sama hvernig frumvörpin eru unnin er alltaf gagnrýnt að þau séu illa undirbúin — að hafa nokkur atriði í huga. Það hefur verið á döfinni í mörg ár og áratugi að sameina og fækka ráðuneytum. Flestir eru þeirrar skoðunar að ráðuneytin séu allt of mörg og þau þurfi að styrkja og efla. Ég minni þar á rannsóknarnefnd þingsins sem lagði mikla áherslu á þann lið í úrbótum í stjórnkerfinu að fækka, stækka og styrkja ráðuneytin. Sama gerði finnskur sérfræðingur sem skilaði skýrslu um efnahagsráðuneytið. Hann lagði til að efnahagsþættirnir yrðu settir í eitt ráðuneyti og það hefur verið gert. Ég held að það séu full rök fyrir sameiningunni sem við erum að ræða. Það getur ekki annað verið en að flestir viðurkenni að mikil hagræðing og sparnaður séu fólgin í því að sameina t.d. félags- og heilbrigðisráðuneytið. Í gegnum tíðina höfum við orðið vör við mikla árekstra í samskiptum þessara tveggja ráðuneyta, t.d. í málefnum aldraðra.

Það er alveg ljóst að ef við fækkum stofnunum, sem ég tel að sé mikilvægt að gera, er þetta mikilvægur undirbúningur í því að fækka ráðuneytum. Vissulega er undirbúningurinn mikill. Fyrst þarf að skipa ráðherra til verka í sameiningunni þannig að ekki séu tveir ráðherrar að undirbúa sameiningu tveggja ráðuneyta í eitt heldur einn sem ég tel mun faglegri vinnubrögð. Síðan eru ráðuneytisstjórar skipaðir til verka áður en að sameiningunni kemur, (Forseti hringir.) í þessum ráðuneytum á það að vera um áramót. Ég tel því ekki maklega alla þessa gagnrýni sem hv. þingmaður hefur sett hér fram.



[12:55]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að alls konar breytingar á Stjórnarráðinu og skipan ráðuneyta hafa verið í umræðu í þjóðfélaginu um langt skeið. Það er líka rétt að flestir stjórnmálaflokkar hafa líklega einhvern tíma lýst þeirri skoðun sinni að það bæri að fækka ráðuneytum, sameina þau og breyta.

Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd leggjum áherslu á í nefndaráliti okkar að við útfærslu þessara breytinga hefur ekki verið unnið nægilega vel og á því ber forsætisráðherra ábyrgð. Forsætisráðherra og enginn annar ber ábyrgð á því að undirbúa málið sem hún leggur fram í nafni ríkisstjórnarinnar þannig að búið sé að vinna heimavinnuna. Við höfum ákveðnar viðmiðanir í þessu sambandi. Við höfum handbókina frá 2007 sem mér vitanlega hefur ekki verið numin úr gildi og hefur verið ágæt pólitísk samstaða um að væri leiðbeining um góð vinnubrögð.

Síðast í ágúst setti ríkisstjórnin sjálf fram það sem kallað er endurskoðaðar reglur um frágang lagafrumvarpa. Gefin var út fréttatilkynning 20. ágúst þar sem sagt var að ríkisstjórnin hefði samþykkt það sérstaklega. Ef handbókin er lesin og borin saman við lagafrumvarpið og reglurnar frá 20. ágúst eru einnig bornar saman við lagafrumvarpið er alveg ljóst að það stenst engar þær kröfur sem gerðar eru í þessum leiðbeiningarreglum. Það er fínt og flott að setja fram sjónarmið um góðar reglur og vönduð vinnubrögð. Vandinn er bara sá að því er í raun og veru ekki framfylgt.



[12:57]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að halda því til haga í umræðunni að víða í löndunum í kringum okkur er ekki farið með ráðuneytisbreytingar og fækkanir á þeim inn í löggjafarsamkunduna. Þar eru til staðar heimildir til að sameina og flytja verkefni milli ráðuneyta án þess að farið sé með þau á löggjafarsamkunduna. Ég veit ekki betur en að til sé heimild með forsetaúrskurði til að fara í slíkar sameiningar. Við töldum rétt og eðlilegt í sumar, af því verið er að tala um skort á samráði og lítinn undirbúning, að setja málið í þennan farveg, þ.e. að fara með það inn í þingið, þannig að ég tel að ekki sé annað hægt en að segja að þetta sé til fyrirmyndar.

Varðandi það að lítið er gert úr sparnaði við þessar breytingar þá fór hv. þingmaður ítarlega yfir mat þar sem því er haldið fram að sparnaður vegna fækkunar ráðuneyta geti orðið um 360 milljónir þegar allt er komið til framkvæmda. Ég sé enga ástæðu til þess að draga það í efa. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að fjárþörf væri í forsætisráðuneytinu. Ég er ekki viss um að hann fari þar með rétt mál og verður auðvitað að skoða málið í því samhengi að það fækkaði í ráðuneytinu þegar þeir sem fóru með efnahagsmálin fluttust yfir í efnahagsráðuneytið. Að sama skapi breyttust hlutföll forsætisráðuneytisins í það að vera samræmingarráðuneyti með ýmsum hætti. Þar var komið á fót löggjafarskrifstofu sem hefur oft verið kallað eftir (Gripið fram í.) og það kallar á mannskap. Ég tel að það væri líka fróðlegt fyrir hv. þingmann, ef hann er að tala um útgjöld í forsætisráðuneytinu, að skoða rekstrarliði ráðuneytisins. Þar hefur orðið ótrúlega mikill sparnaður. Menn verða auðvitað að skoða málið í heild sinni.

Ég tel ekki hægt að gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Við höfum frestað atvinnuvegaráðuneytinu. Þar voru fleiri athugasemdir og við ætlum að gefa okkur betri tíma í það, (Forseti hringir.) m.a. að skoða það með hagsmunaaðilum. Ég tel að úr þessum ræðustól sé of mikil áhersla lögð á að gagnrýna þessi vinnubrögð. (Forseti hringir.) Ég held að þau séu þvert á móti á margan hátt til fyrirmyndar.



[13:00]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í fyrsta lagi alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að frá 2007 hefur verið í lögum heimild til að sameina ráðuneyti án þess að lagabreytingu þyrfti til með einföldum forsetaúrskurði. Það er líka rétt að breytingar í þessum efnum lúta í sumum nágrannalöndum okkar miklu minni formreglum þannig að sveigjanleikinn er meiri. Ég hef ekki tíma hér til að fara í almennar vangaveltur um það að hvaða marki stjórnsýslan á að vera formföst og að hvaða leyti hún á að vera sveigjanleg. Stór gagnrýni á stjórnsýsluna undanfarin missiri hefur einmitt verið sú að hún hafi ekki fylgt formreglum nægilega vel þannig að það eru tvær hliðar á því máli.

Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að æskilegt er að fá þetta mál inn í þingið. Ég hygg að það sé í rauninni miklu betra en að afgreiða það á borði ríkisstjórnarinnar þó að það sé heimilt að einhverju leyti. Frumvarpið eins og það leit út í upphafi passaði reyndar ekki inn í þá mynd vegna þess að þar var ekki einungis um að ræða sameiningu ráðuneyta heldur líka tilfærslu einstakra málaflokka milli ráðuneyta og verkefna og stofnana og þess háttar þannig að þar hefði a.m.k. þurft lagabreytingu til. En þegar búið er að klippa helminginn af frumvarpinu, eins og meiri hluti allsherjarnefndar leggur til, passar það auðvitað miklu betur inn í þá mynd. En það er betra að fá umræðu um þetta í þinginu, ég er almennt þeirrar skoðunar.

Varðandi fjárþörf forsætisráðuneytisins er það staðreynd að útgjöld forsætisráðuneytisins jukust árið 2009 frá árinu 2008 og fjárlagaheimild forsætisráðuneytisins fyrir 2010 er hærri að raungildi en árið á undan. Þetta eru tölurnar sem liggja fyrir í opinberum gögnum (Forseti hringir.) og hafa t.d. komið fram í svörum við fyrirspurnum hér í þinginu.



[13:02]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina orðum mínum til hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er ljóst á nefndaráliti þess minni hluta allsherjarnefndar sem hann mælir fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er hættur að vera frjálshyggjuflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn er nú bara gamaldags íhaldsflokkur. (Gripið fram í.) Miklu betra, segir hv. þingmaður hér til hliðar. En það er greinilegt að sú gamla hugmyndafræði sem löngum þótti nýstárleg og naut framdráttar innan Sjálfstæðisflokksins hefur liðið undir lok, þ.e. báknið burt, að minnka ríkisvaldið eða draga úr umsvifum ríkisins og (Gripið fram í.) reyna að hafa það sem minnst. Það er greinilegt að sú hugmyndafræði hefur liðið undir lok.

Mig langar til þess að gera athugasemdir við framsetningu hv. þingmanns þegar hann víkur að kostnaði vegna þess að í umsögn fjármálaráðuneytisins segir að með þessum aðgerðum verði sparnaðurinn í launakostnaði og starfsmannakostnaði 360 milljónir á ári auk þess sem nást muni hagræðing þegar kemur að húsnæði. (Gripið fram í.) Hér segir hinn framsækni Sjálfstæðisflokkur í áliti sínu að ástæða sé til endurskoðunar á stjórnarráðslögunum um fjölda ráðuneyta og verkaskiptingu þeirra en það eru ekki neinar hugmyndir, engar tillögur, engin vinna sem farið hefur fram á vegum Sjálfstæðisflokksins í sumar í þessum efnum, ekkert sem talsmenn minni hlutans í nefndinni leggja beinlínis til. Hví er það?



[13:04]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða orðum í almenn ummæli hv. þm. Róberts Marshalls um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi horfið frá frjálshyggjustefnu eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf öðrum þræði verið íhaldsflokkur og öðrum þræði verið frjálslyndur flokkur eða frjálshyggjuflokkur. Þessir þræðir eru báðir í hinum margslungna vef Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi vilja okkar til að draga úr kostnaði hins opinbera ítreka ég það sem segir í nefndarálitinu að við teljum að full ástæða sé til að skoða hvernig á að gera þetta. Við teljum ástæðu til að fara í þetta verkefni, við höfnum því ekki. Við viljum bara að það sé gert almennilega, ekki farið fram með svona bútasaum eins og ríkisstjórnin gerir.

Ég vek athygli á því, af því að hann ætlar að snúa málinu upp á stjórnarandstöðuna, að stjórnarandstaðan hafi ekki tillögur, að það er nú nokkur aðstöðumunur milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu þegar kemur að því að útfæra tillögur um Stjórnarráðið. Ef við því erum að velta fyrir okkur einstökum útfærslum er alveg ljóst að Stjórnarráðið hefur miklu betri tök á því, og ráðherrar í ríkisstjórn, að láta vinna slíka grunnvinnu en einstakir nefndarmenn í allsherjarnefnd. Ef við erum raunsæ er það bara þannig. En kannski er nauðsynlegt að það sé gert á vettvangi allsherjarnefndar þegar ríkisstjórnin vinnur ekki heimavinnuna sína í þessum efnum. Það hefur ekki verið gert enn þá, við höfum ekki farið í neina svona grundvallarskoðun í allsherjarnefnd. Afstaða okkar hefur reyndar verið sú að málið væri einfaldlega þannig vanbúið að ekki ætti að afgreiða það. Það er afstaða sem við höfum látið koma skýrt fram frá upphafi. Þrátt fyrir að málið skáni við það að helmingurinn sé skorinn í burtu, það skánar í bili, (Forseti hringir.) heyrast enn gagnrýnisraddir hvað varðar þær breytingar sem eftir standa.



[13:07]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að bæta við spurningu og fá að heyra álit hv. þingmanns á þeirri fullyrðingu sem hér er meðal annars verið að byggja á vinnu nefndar undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálaprófessors, um að ráðuneytin hafi í efnahagshruninu sjálfu reynst of smá og veikburða. Það er reynsla þess sem hér stendur að svo hafi verið. Það var svo á þeim tíma að ráðherrar voru á harðahlaupum inn á blaðamannafundi þegar þeir réðu til sín upplýsingafulltrúa. Ég man t.d. eftir því að það komst í fréttirnar og í hámæli að forsætisráðherra neyddist til að ráða til sín til ráðgjafar á þessum tímum, mjög erfiðum vikum sem gengu yfir í íslensku þjóðlífi, norskan hernaðarsérfræðing til að geta ráðið fram úr verkefnum dagsins. Þannig var nú fyrir okkur komið enda held ég að forsætisráðuneytið hafi þá haft yfir um 15 starfsmönnum að ráða. Er ekki öllum ljóst, þarf nokkurn eldflaugasérfræðing í að sjá það út, að slík ráðuneyti eru of veikburða til að geta tekist á við jafngríðarleg verkefni og blöstu við ríkisstjórn Íslands á þessum tíma?



[13:08]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt er það hvernig menn bregðast tímabundið við stórfelldri krísu sem á sér ekki fordæmi og annað hvernig menn haga málum til framtíðar, hvernig menn skipa málum undir venjulegum kringumstæðum. Ég held að við getum aldrei haft Stjórnarráð af þeirri stærðargráðu að það geti alltaf mætt öllum óvæntum áföllum sem upp kunna að koma, það er ekki raunsætt. Það kann að vera að ráða þurfi norskan hernaðarsérfræðing eða eldflaugasérfræðing eða ég veit ekki hvað ef einhverjar slíkar krísur koma upp, við sjáum það ekki endilega fyrir.

Hvað varðar almenn sjónarmið, sem koma fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, get ég tekið undir það að almennt eigi að stækka einingarnar og efla þær. Ég hef reyndar áhyggjur af því að eitt ráðuneyti verði jafngríðarstórt í hlutfalli við önnur sem leiðir af sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis með helming ríkisútgjalda, svona þar um bil — eitt ráðuneyti með helming ríkisútgjalda. Ég velti fyrir mér hvort jafnvægið milli þess ráðuneytis og annarra ráðuneyta verði ekki eitthvað skrýtið, eitt risaráðuneyti á útgjaldahliðinni meðan önnur eru miklu smærri og þar af leiðandi meira veikburða.

Ég velti því líka fyrir mér hvort eitt svona risaráðuneyti geri það ekki að verkum að það dragi úr pólitískri yfirsýn þess sem þar fer með ábyrgð og völd, hvort það geti ekki leitt til þess að embættismenn á einstökum sviðum verði meira sjálfráða og hið pólitíska vald hafi minna um ákvarðanir að segja en áður. Það eru slíkar hliðar á þessum málum líka sem við höfum kannski ekki rætt nægilega vel hér.

Almennt styðjum við breytingar í þessum efnum og leggjum eindregið til að farið (Forseti hringir.) verði út í þær að undangenginni nauðsynlegri, eðlilegri og faglegri undirbúningsvinnu.



[13:10]Útbýting: