138. löggjafarþing — 152. fundur
 7. september 2010.
Stjórnarráð Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 658. mál (sameining ráðuneyta). — Þskj. 1258, nál. 1446, 1467 og 1468.

[12:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem lagt var fram á Alþingi í sumar eða í vor. Ég vil segja það strax í upphafi máls míns að ég er ekki á móti því að lögum um Stjórnarráðið sé breytt og ég er alls ekki á móti því að fyllstu hagræðingar sé gætt í rekstri Stjórnarráðsins. Ég tel að það séu margir möguleikar til að ná fram betri rekstrarlegri hagræðingu og ekki síst betri og bættum vinnubrögðum með því að færa til verkefni og sameina krafta okkar fáliðaða embættismannakerfis. Þetta vildi ég segja vegna þess að það hefur verið málflutningur margra þeirra stjórnarliða sem hafa komið hér upp og gagnrýnt okkur sjálfstæðismenn fyrir að gagnrýna akkúrat þessar tillögur að breytingum að við værum horfin frá okkar góðu gömlu stefnu um að minnka báknið og værum nú komin í einhvern allt annan veruleika. Ég vil segja það skýrt og greinilega að það er alls ekki þannig, en nákvæmlega hvernig þær breytingar eiga sér stað er akkúrat það sem við erum að tala um. Stefna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli sem og öðrum málum er að það eigi að gera hlutina rétt. Það eigi að vinna málin vel, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að við erum að ræða hér um Stjórnarráðið. Þegar við ræðum um einn af hornsteinunum í samfélagi okkar er lykilatriði að það sé gert rétt.

Þessari blessuðu ríkisstjórn sem við sitjum uppi með um stundarsakir er lífsins ómögulegt að gera hlutina rétt; að vinna hlutina rétt. Það ber allt að sama brunni. Nákvæmlega eins og í öðrum málum sem við höfum verið að ræða hér á vorþinginu er verið að henda hlutum fram sem eru ófullbúnir, ófullgerðir, handahófskenndir. Það er verið að setja tímafresti á mál sem gera ekkert annað en að virka eins og snara um hálsinn á þeim sem eiga að reyna að framkvæma þetta. Ég nefni Varnarmálastofnun sem dæmi, við ræddum það mál hér. Hún var lögð niður með pompi og prakt með lögum sem eiga að taka gildi um næstu áramót. Hver voru rökin fyrir því? Jú, stofnun innanríkisráðuneytisins sem við erum að ræða núna.

Ég gagnrýndi í þeirri umræðu að við værum að leggja niður stofnun og færa verkefni hennar út um allar koppagrundir og síðan ætti að stofna innanríkisráðuneyti. Ég stend við þá gagnrýni og held að það sem þar á sér stað núna og er efni í aðra umræðu sýni að þetta er ekki skynsamleg leið. Auðvitað á maður fyrst að finna út hvernig maður ætlar að hafa hlutina, síðan á að ákvarða hvar verkefnin eiga að vera og þá þegar stefnan hefur verið mörkuð, þegar samráðið hefur verið virkjað og hlustað hefur verið á sjónarmið ólíkra radda, það er þá sem breytingarnar eru tilbúnar, en þessi ríkisstjórn byrjar allt á öfugum enda og maður veltir fyrir sér hvað vakir fyrir henni.

Þetta frumvarp hefur tekið breytingum frá því það kom fram. Í meðförum nefndarinnar er í raun búið að hætta við allt sem var of óþægilegt fyrir ríkisstjórnina. Það sem þau gátu svona sæst á í þessari atrennu verður að veruleika, en því sem snýr að atvinnuvegaráðuneytinu og umhverfis- og auðlindamálunum er frestað. Ég er reyndar mjög ánægð með það að þau skyldu nú alla vega hafa séð að sér í þeim efnum, vegna þess að það var alveg skýrt og klárt að það mál var enn verr unnið heldur en þetta.

Það sem ég gagnrýni í þessu og ég var að nefna er að þetta er stefnulaust og handahófskennt. Ég gagnrýni vinnubrögðin varðandi þetta mál og ég gagnrýni þau harðlega. Nú á ég ekki sæti í hv. allsherjarnefnd en ég hef talað við fulltrúa í nefndinni og lesið gögn málsins. Ef maður les nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar um þetta stóra og mikla mál sem skiptir mjög miklu að sé rétt unnið vekur fyrsta setningin í nefndarálitinu óneitanlega athygli. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnar Þór Másson frá forsætisráðuneyti.“

Punktur. Við umfjöllun allsherjarnefndar kom einn gestur á fund hennar. Við alla umfjöllun málsins var kallaður til einn gestur. Það var sérfræðingur úr forsætisráðuneytinu. Skal ég þó alls ekkert gera lítið úr mínum gamla, góða vinnufélaga úr fjármálaráðuneytinu, Arnari Þór Mássyni. Einn gestur kallaður til. En hvað segir í frumvarpinu sem var lagt fram hér á vordögum? Það segir hér á bls. 5, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að frumvarpið nái fram að ganga í haust. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hæfilegur tími líði frá samþykkt laga til gildistöku sameiningar svo að ljúka megi nauðsynlegum undirbúningi. Fyrir liggur að skoðanir eru helst skiptar um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hafa ýmis samtök er málið varðar ályktað gegn þessum áformum. Eftir framlagningu frumvarps verður því sérstök áhersla lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, og framvindan metin í ljósi árangurs af því samráði.“

Reyndar er það svo, eins og ég ræddi áðan, að fallið hefur verið frá atvinnuvegahugmyndunum að sinni þó að ég komi nú kannski síðar að uppsagnarbréfi tveggja ráðherra sem eru í meirihlutaáliti allsherjarnefndar.

Að sumarið hafi verið nýtt til samráðs, það tel ég vera mikla fjarstæðu.

Einn gestur. Umsagnir um málið bárust hins vegar frá fjöldamörgum aðilum. Ég hef farið í gegnum umsagnirnar og fjölmargir af þeim aðilum óska eftir því að fá að koma fyrir nefndina og fara yfir sjónarmið sín. En það var sem sé einn gestur.

Það hefur verið rætt hér að það sé hálfankannalegt að ræða þetta mál nú, vegna þess að þetta er í raun mál síðustu viku. Það var gengið frá þessu máli í síðustu viku. Nýir ráðherrar komu inn í ríkisstjórnina í ráðuneyti með nýjum heitum, þannig að málið er klárt af hálfu ríkisstjórnarinnar og allt það samráð sem boðað var að sumarið ætti að vera nýtt til á þá bara að vera um það hvernig þessi útfærsla er. Mér finnst það ekki vera samráð þegar eitthvað er ákveðið og svo er samráð um hvernig eigi að útfæra það. Jú, jú, ríkisstjórnin hefur framkvæmdarvald, en ef boðað er að samráð eigi að vera viðhaft, þarf að gera það í réttri röð. Hér kemur hv. formaður allsherjarnefndar og ég geri þessa athugasemd því aftur ef hann skyldi ekki hafa heyrt hana, að mér finnst forkastanlegt að hér hafi einn gestur verið kallaður til þegar segir í frumvarpinu að það eigi að nota sumarið til samráðs. Ég veit ekki alveg hvernig það samráð hefur verið, það hefur væntanlega verið á milli stjórnarflokkanna.

Það eru margar leiðir til að sameina stofnanir, sameina ráðuneyti. Í okkar kerfi hefur nú sem betur fer verið unnið dálítið að því að gefa út leiðbeiningar og fyrirmæli, t.d. af hálfu fjármálaráðuneytisins sem gaf fyrir nokkrum árum út viðamikla skýrslu um kosti sameiningar og ókosti, m.a. í rekstrarlegu tilliti. Það reyndar kom fram að hagræðingarkostirnir eru yfirleitt mjög ofmetnir og að sú hagræðing og sparnaður sem á að ná fram með sameiningum vill oft láta standa á sér. Það vekur athygli mína að þegar ég stend hér og ræði þessi mál er ansi fáliðað á ráðherrabekkjunum. Ég sakna þess að hæstv. fjármálaráðherra sem sat hér áðan hafi ekki getað setið aðeins lengur, vegna þess að nú ætla ég einmitt að ræða um þann mikla sparnað og hagræðingu sem af þessu máli á að hljótast.

Ég ræddi um skýrslu fjármálaráðuneytisins, þar sem hagræðingin var dregin í efa. Ríkisendurskoðun sendi sem fylgiskjal með umsögn sinni spurningalista sem stofnunin útbjó í upphafi árs, 19. mars, í tengslum við eftirlit með sameiningu nokkurra ríkisstofnana og beint var að forsvarsmönnum þessara ráðuneyta. Þetta eru spurningar sem Ríkisendurskoðun mælist til að sé svarað áður en stofnanir eru sameinaðar, þannig að ég geri ráð fyrir að hið sama eigi við þegar ráðuneyti sem ýmsar undirstofnanir fylgja eru sameinuð. Reyndar er þetta spurningalisti sem er mér ekki allsendis ókunnur, vegna þess að við í utanríkismálanefnd fórum mjög fram á það við utanríkisráðuneytið í Varnarmálastofnunarmálinu að fá svör við þessum spurningalista varðandi þá sameiningu, en því var aldrei svarað og við fengum aldrei að vita hvort þessi gátlisti hefði yfirleitt verið lagður til grundvallar. En þarna eru nokkuð góðar spurningar, ef ég má sletta aðeins, svona „basic“ spurningar, sem maður skyldi halda að spurt væri að áður en farið er út í svo risavaxið verkefni. Þar er t.d. spurt: Hefur farið fram fjárhagslegt mat á sameiningu stofnana? Ég spyr: Hefur farið fram fjárhagslegt mat á sameiningu ráðuneytanna? Jú, það fylgir kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu sem er svona í besta falli ágætis ágiskun. Það þarf að setja hugsanlega, mögulega, kannski seinna, einhvern tímann, fyrir framan þessa útreikninga, vegna þess að þeir eru ekkert í hendi.

Þá langar mig til þess að fara aðeins í umsögn Landssambands lögreglumanna sem mér þótti mjög fróðleg, (RM: Voru umsagnir?) vegna þess að — það voru umsagnir, já. Ég vek sérstaklega athygli á því að ég ætla að fara seinna yfir það sem Landssamband lögreglumanna segir um samráðið, en nú ætla ég að tala um það sem það segir um sparnaðinn (Gripið fram í.) vegna þess að það hefur greinilega ekki verið tekið tillit til þeirrar umsagnar í þessu máli.

Landssamband lögreglumanna segir hér á bls. 2, með leyfi forseta:

„Varðandi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um sparnaðarleg áhrif þess að frumvarp þetta verði samþykkt þykir LL rétt að vekja athygli á athugasemdum sínum um umsögn fjárlagaskrifstofunnar vegna breytinga á lögreglulögum.“

Neðar segir svo:

„Í ljósi þeirrar staðreyndar, sem að ofan greinir, um að engar rannsóknir liggi fyrir um áhrif þeirra breytinga, fjárhagslegar eða aðrar, sem gerðar hafa verið á löggæslu á Íslandi á umliðnum árum, finnst LL það hæpið að hægt sé að setja fram þær fullyrðingar um sparnað, sem er að finna í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Það eru jú engin gögn sem liggja fyrir sem sýna fram á að hægt yrði að ná þessum markmiðum heldur miklu frekar hitt svo sem sjá má í skýrslu útgefinni af fjármálaráðuneytinu,“ — þeirri sem ég nefndi hér áðan — „í desember 2008 Sameining ríkisstofnana og tengdar breytingar.“

Síðan kemur tilvitnun í þá skýrslu, með leyfi forseta:

„Töluvert er til af erlendu efni um sameiningu fyrirtækja en lítið virðist vera til um aðferðafræði og reynslu af sameiningu opinberra stofnana. Erlendar rannsóknir sem greint er frá í viðauka 1 benda til þess að sameiningar og aðrar meiri háttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir eða í undir 15% tilvika.“

Þannig að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að þegar allt er komið til framkvæmda og biðlaunaréttur hefur verið nýttur og allt það, allur sá kostnaður sem til fellur sem er væntanlega umtalsverður, að þá, einhvern tímann eftir a.m.k. 12 mánuði, gæti orðið 360 millj. kr. lækkun á kostnaði. Landssamband lögreglumanna, með tilvísun í skýrslu fjármálaráðuneytisins, sem ég geri að minni skoðun, heldur því til haga að þarna gæti verið um hillingar að ræða og kannski sé raunhæfara að tala um 15%. En sambandið bendir jafnframt á að það eru ekki til neinar rannsóknir sem sýna fram á þetta.

Þá spyr ég: Hefur farið fram fjárhagslegt mat á sameiningu stofnana eitthvað umfram það sem fram kemur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins?

Síðan eru fleiri spurningar sem Ríkisendurskoðun leggur hér fram. Þar sem ég sé að hv. þingmaður Róbert Marshall ætlar að fara í andsvar við mig, þá nota ég tækifærið og spyr hvort það liggi fyrir svör við þessum gátlista og hvort þá væri hægt að fara yfir þau í nefndinni.

Síðan varðandi samráðið, vegna þess að formaðurinn var hér mjög hróðugur yfir því að það væru jú umsagnir um þetta mál. Ég vil fá að lesa lokamálsgrein umsagnar Landssambands lögreglumanna, með leyfi forseta. Til að leggja áherslu á orð sín ákveður Landssamband lögreglumanna að rita orðin ekkert samráð með hástöfum. Þar segir:

„Rétt er að halda því til haga hér að EKKERT SAMRÁÐ hefur verið haft við LL vegna þeirra sameininga sem hér eru lagðar til og lúta sérstaklega að málefnum lögreglu þ.e. stofnunar innanríkisráðuneytis, með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Í ljósi þess sem að ofan greinir og með vísan til þess að EKKERT SAMRÁÐ var haft við LL við gerð skýrslu starfshóps um öryggismál og endurskipulagningu Stjórnarráðsins, sem út kom í mars 2010 og lögð var til grundvallar lögum um breytingu á varnarmálalögum og niðurlagningu Varnarmálastofnunar getur LL því ekki annað en átalið þessi vinnubrögð harðlega.“

Að lokum segir svo:

„LL áskilur sér að lokum allan rétt til að koma að frekari ábendingum og athugasemdum á síðari stigum málsins.“

Þarna hefði ég haldið að formaður nefndarinnar ætti í ljósi þess að þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin, burt séð frá því hvað fólki finnst um endanlegar breytingar á Stjórnarráðinu — það var það sem ég sagði í upphafi máls míns og ég ítreka það hér, að ég er ekki að tala gegn því að einhverjar breytingar verði gerðar á Stjórnarráðinu. Ég er að segja: Við þurfum að vinna þetta rétt og vanda vinnubrögðin. En það hefur ekki verið gert hér.

Landssamband lögreglumanna er með þessum lokaorðum að fara fram á að vera kallað fyrir nefndina til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Mér hefðu þótt þau vinnubrögð vera til sóma hefði verið rætt við þá fjölmörgu umsagnaraðila sem fóru fram á það að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og áskildu sér rétt til að vera kallaðir fyrir nefndina. Ég skil ekki af hverju nefndarálit meiri hluta nefndarinnar byrjar á þeim orðum að nefndin hafi fjallað um málið og fengið einn gest. Ég skil það ekki.

Hv. þingmaður Einar K. Guðfinnsson óskaði eftir því formlega og ég ítreka þá beiðni þingmannsins að málið verði kallað aftur til allsherjarnefndar og sent viðkomandi fagnefndum til umsagnar og meðferðar, sérstaklega þeim nefndum sem þessar breytingar snúa nú að, sem eru samgöngunefnd, félagsmálanefnd og heilbrigðisnefnd, og þær þurfa að fara yfir þessi mál. Ég treysti því að hv. formaður nefndarinnar taki þessari beiðni vel og sjái til þess að vinnubrögðin verði betri og að samráðið sem boðað er í frumvarpinu að hefði átt að eiga sér stað í sumar verði a.m.k. núna á milli 2. og 3. umr., vegna þess að það er algjörlega klárt að fjölmörg atriði koma fram í þessum umsögnum sem ekki hafa verið tekið til greina, og þá í minnsta lagi þyrfti nefndin að koma fram með einhvern rökstuðning fyrir því af hverju hún tekur ekki mark á þessum rökum.

Líka ítreka ég spurningu mína til formanns nefndarinnar varðandi gátlistann frá Ríkisendurskoðun hvort það liggi ekki örugglega fyrir skriflegt svar við spurningum Ríkisendurskoðunar sem fjallað verði um í nefndinni á milli umræðna.



[12:30]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara fá að geta þess hér í stuttu andsvari, vegna þeirrar gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að í störfum mínum sem formaður allsherjarnefndar hef ég alltaf reynt að bregðast við því ef nefndarmenn hafa óskað eftir því að fleiri gestir kæmu á fund nefndarinnar. Í þessu máli var engri slíkri ósk frá nefndarmönnum neitað. Hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd hefði verið í lófa lagið að bera fram slíkar óskir. Hv. þingmaður verður einfaldlega að óska eftir upplýsingum frá flokksmönnum sínum um það hvers vegna þeir óskuðu ekki eftir því að fleiri gestir kæmu á fund nefndarinnar. Það hlýtur að vera eitthvað sem hv. þingmaður getur afgreitt á þingflokksfundi hjá Sjálfstæðisflokknum.

Það komu jafnframt engar óskir fram um það í störfum nefndarinnar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að málið færi fyrir fagnefndir. Það kom hins vegar fram hér, undir liðnum fundarstjórn forseta í gær í þinginu, og brást ég vel við því og hef þegar sett það mál í farveg.

Nú er málinu þannig háttað hér í þinginu, með umræðum og þátttöku þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, að sá grunur læðist að manni að framganga Sjálfstæðisflokksins í þessu máli snúist ekki um efnisatriði, enda flytja þeir engar tillögur, engar hugmyndir og hafa enga skoðun aðra en þá að e.t.v. sé ástæða til endurskoðunar á Stjórnarráðinu. Þá læðist að manni sá grunur að það vaki ekkert annað fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en að tefja málið. Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli? Hvað vilja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera í þessu máli?



[12:32]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. „Alltaf reynt að bregðast við óskum gesta,“ sagði formaðurinn. Það er ekki rétt. Það er greinilegt af lestri umsagna um málið að gestir eru að óska eftir því að fá að koma skoðunum sínum á framfæri. (Utanrrh.: Hann sagði ekki gesta nefndarinnar, hann sagði …) (RM: Nefndarmanna.) Ég skal bara fá að halda mína ræðu og hæstv. utanríkisráðherra fær að gera slíkt hið sama hér á eftir. (RM: Hafðu rétt eftir.) Málið var tekið út vanbúið og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu athugasemdir við það í allsherjarnefnd. Málið var tekið út vanbúið og var ekki tækt til að halda áfram og taka það inn í 2. umr. Það er það sem hefur komið fram í málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins í nefndinni og það kemur líka fram í nefndaráliti 1. minni hluta. Þar segir m.a.:

„Frumvarpið er hins vegar hvorki nægilega undirbúið né rökstutt af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar og telur minni hlutinn því að heppilegast væri að ríkisstjórnin tæki málið aftur til umfjöllunar og legði síðan fram á Alþingi nýtt frumvarp …“

Hv. þingmaður spurði: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera? Ég fór yfir það í ræðu minni hvernig standa á að breytingum, slíkum grundvallarbreytingum sem þessum, hvaða vinnubrögð eigi að viðhafa. Þá er það þannig að það er ekki rétt verklag að taka fyrst ákvörðunina, gera breytingarnar fyrst og fara svo í samráðið. Þetta snýr allt á haus.

Ég notaði dæmið um Varnarmálastofnun til hliðsjónar vegna þess að þar var þetta sama gert. Fyrst er verið að leggja stofnunina niður og síðan er ráðuneytið stofnað. Þetta finnst mér ótæk vinnubrögð. Það er þetta sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd lögðu áherslu á. Hvort þeir hafi komið með formlega ósk í nefndinni um gesti þekki ég ekki, veit ekki, en það getur vel verið (Forseti hringir.) að þeir hafi átt eftir að gera það, vegna þess að málið er ekki tækt, málið er ekki búið. Það kemur skýrt fram í (Forseti hringir.) umsögn þeirra.



[12:35]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Engar tillögur koma frá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Þeir bjóða bara upp á orðhengilshátt og málalengingar. Þetta mál er þannig vaxið að forsætisráðherra, stjórnvöld í landinu, lítur svo á að hann geti rekið ríkisstjórn Íslands eða stýrt landinu með færri ráðuneytum en áður var gert. Er það þá ekki bara hið besta mál? Ber þá ekki einfaldlega að fagna því? Eða var það svo í tíð Sjálfstæðisflokksins, þegar hann stýrði hér landinu og áður en landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti voru sameinuð, að fagaðilar væru sérstaklega spurðir að því hvort það væri í lagi? Var fengið sérstakt álit á því hvort það væri í lagi að fara í þá vegferð? Ég geri ráð fyrir því að átt hafi sér stað einhvers konar samráð í sameiningarferlinu. En voru hagsmunaaðilar spurðir sérstaklega að því áður þegar ríkisstjórn Geirs H. Haardes forsætisráðherra leit svo á að hægt væri að sameina þessi tvö ráðuneyti? Ekki minnist ég þess, en ég verð þá leiðréttur ef svo er. Ég held að svo hafi ekki verið. Ég held að ákvörðunin hafi verið tekin á hinum pólitíska vettvangi, síðan hafi hún verið framkvæmd og á framkvæmdatímanum hafi samráðsferli átt sér stað. Það er hin eðlilega röð atvika, hin eðlilega atburðarás í þessu máli.

Það er algjörlega óskýrt hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera athugasemdir við í þessu ferli, að það hefði átt að spyrja Landssamband lögreglumanna að því hvort það væri í lagi að sameina dómsmála- og samgönguráðuneytið og fá álit sérstaklega á því, á þeirri pólitísku spurningu sem þegar var búið að svara á hinum stjórnmálalega vettvangi. Hvers lags málflutningur og vinnubrögð eru þetta sem verið er að bjóða hér upp á í þinginu? (Gripið fram í: Af hverju … umsagnarferli?)



[12:37]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Hv. þingmaður spyr hvort forsætisráðherra megi ekki ráða þessu alveg sjálf, hvort hún megi ekki bara reka sína ríkisstjórn með þeim hætti sem hún vill. Hún ber að sjálfsögðu ábyrgð á því. En þá á þessi forsætisráðherra, sá hinn sami og ber ábyrgð á frumvarpinu sem hún lagði fram, ekki að vera með þessa klausu í því: „… gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“ Forsætisráðherrann er að boða að það þurfi þetta samráð sem (Gripið fram í: Hvaða rökstuðningur …?) hv. þingmanni (Gripið fram í: Hvaða rökstuðningur …?) finnst vera algjör óþarfi. Að spyrja aðila eins og Landssamband lögreglumanna, eiga þeir að hafa skoðun á því hvernig hlutirnir eiga að vera? Nei, þarna kemur þetta bara í ljós. (Gripið fram í.) Það kom skýrt og greinilega fram í máli þingmannsins að það var búið að „díla“ um þetta. Loksins náðist „díllinn“. Samráðið í sumar var á milli stjórnarflokkanna, milli órólegu deildarinnar og restarinnar af ríkisstjórninni. Samráðið tókst loksins þar og samkomulag náðist um að gera ákveðnar breytingar og þar við situr. Það er bara nákvæmlega þannig sem þetta er. Það er ágætt að hv. formaður allsherjarnefndar kom hér og viðurkenndi þetta. Þá vitum við það bara og þannig er það. Ég geri hins vegar athugasemdir við það.

Varðandi það að ekki hafi verið óskað eftir því að málið færi inn til fagnefnda þá er það líka rangt. Við 1. umr. málsins óskaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson héðan úr þessum stól eftir því að það yrði gert. Einar K. Guðfinnsson á ekki sæti í allsherjarnefnd þannig að hann kom fram með þessa beiðni úr þessum stól og ég hefði haldið að það væri nóg fyrir hv. þingmann sem talar um umræðustjórnmál og samráð í öðru hverju orði (RM: Var ekki …?) nema akkúrat núna. (Gripið fram í.) Þetta mál var ekki sent til umsagnar í fagnefndum þingsins. (RM: Var ekki …?)



[12:39]
Forseti (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir):

Forseti vill minna þingmanninn á að ávarpa forseta í upphafi máls síns.



[12:39]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að velta því fyrir mér hvað gangi á í þingflokki sjálfstæðismanna. Það hefur komið hér fram að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson virðist eiga erfitt með að koma á framfæri vilja sínum gagnvart öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Er búið að skera þá gagnvegi sem þarna lágu áður á millum? Það er einfaldlega ekki nóg að hv. þingmaður komi við 1. umr. fram með einhverjar handahófskenndar, laust orðaðar beiðnir um að málið sé sent til fagnefnda. Ef þingmenn og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafa ekki rænu á því að koma þeim boðum á framfæri, eða ef hv. þingmaður hefur ekki óskað sérstaklega eftir því við félaga sína, er ljóst að ekki fylgir mikil alvara slíkri beiðni.

Það sem er að koma fram er að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki nokkurn einasta áhuga á neinu sem tengist þessu máli nema að nota það til þess að tefja þingstörfin aðeins. Hv. þingmenn og sérstaklega sá sem hér talaði áðan og stýrir nú liðinu er bersýnilega önnum kafinn við að nota þetta mál til þess enn einu sinni af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í einhvers konar málþóf og eiginlega skiptir litlu máli um hvað. Það er eina ályktunin sem ég get dregið af ræðu hv. þingmanns. Það kemur fram af hálfu formanns nefndarinnar og því er ekki mótmælt af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að beiðnin kom aldrei fram í nefndinni. (Gripið fram í: Ó, jú.) Núna er hins vegar kvartað undan því að ekki hafi verið kallað á tiltekna aðila. Það er alveg ljóst hvað vakir fyrir hv. þingmanni. Sömuleiðis liggur það líka fyrir að aðilar, sem kvartað er yfir að ekki hafi getað komið skoðunum sínum á framfæri, gerðu það bréflega.

Mig langar síðan að minna hv. þingmann á hverju hún tók þátt í hér sjálf vorið 2007. Þá greiddi hún hér atkvæði og studdi samruna tveggja ráðuneyta. Hvernig var nú undirbúningurinn að því? Jú, það var eitt samtal á Þingvöllum. Það var undirbúningurinn. Þar var ákvörðunin tekin. Miklu minni undirbúningur en þetta mál hefur fengið, sem hefur þó staðið í undirbúningsferlinu a.m.k. frá því á jólum.



[12:41]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra tala af þvílíkri vanvirðingu um hv. þingmenn, að nota það orðalag að þingmenn hafi ekki rænu til að gera eitt og annað. Að þingmenn hafi ekki rænu — þetta er mjög fallegt orðalag af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni. Ég vona þá að allir hafi rænu til að hlusta á það að það var nú reyndar þannig — og hvorki ég né hæstv. ráðherra eigum sæti í allsherjarnefnd — að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, Ólöf Nordal, ítrekaði þessa beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í nefndinni. Það er þá kannski formaður nefndarinnar sem hefur ekki verið þannig stemmdur að hann hafi tekið mark á þeirri beiðni.

Ég get fullvissað hæstv. utanríkisráðherra um að ástandið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er stórgott, afbragðsgott. Það er nú eitthvað annað en kemur fram hjá honum sjálfum þegar hann, í frammíkalli í umræðum um störf þingsins, játaði það og viðurkenndi í allra eyru að ríkisstjórnin, sem við því miður búum við, sé ekki neitt annað en minnihlutastjórn. Þannig að ég get alveg ímyndað mér að ástandið þar sé nú ekkert sérstaklega gott.

Nú erum við að tefja þingstörf, er alltaf sagt. Má ég minna á hversu litla umfjöllun þetta mál hefur fengið í þingsal. Ég veit ekki betur en að við 1. umr. hafi verið samið um að það færi hratt í gegn. Ég man hreinlega ekki hvort einn eða tveir töluðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins við 1. umr. málsins. Við erum hérna í 2. umr., ég held að ég sé fjórði þingmaður flokksins — gæti verið fimmti, ég get flett því upp á milli andsvara — sem tekur til máls í þessari umræðu. Ég hef 20 mínútur til þess að ræða um þetta mál og ég neita því með öllu að hálfsdagsumræða á Alþingi Íslendinga um breytingar á Stjórnarráðinu sé kölluð málþóf. (Forseti hringir.)



[12:44]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt eftir haft hjá hv. þingmanni að ég hafi kallað hér fram í fyrr í dag eitthvað sem fæli í sér viðurkenningu á því að ríkisstjórnin eins og hún er skipuð nú sé minnihlutastjórn. Svo er alls ekki. Þvert á móti færði ég rök fyrir því að þetta væri styrk meirihlutastjórn. Það mátti hins vegar ráða af máli mínu að vera kynni að í undanfara þessarar breytingar hefði ástand ríkisstjórnarinnar verið þannig að ýmsir skyni bornir menn hefðu notað það hugtak yfir hana. Ég er ekki í þeirra hópi.

Um þetta mál er það eitt að segja að auðvitað svíður hv. þingmanni að bent sé á hvernig vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins, undir forustu hennar sem þingflokksformanns, eru orðin. Það er allt annar bragur á Sjálfstæðisflokknum nú en áður. Eftir að hv. þingmaður tók við forustu í þingflokknum er allra ráða og bragða leitað til þess að tefja mál. Það fer lítið fyrir málefnalegri umræðu. Að þessu sinni er málið þannig vaxið að ef það væri vilji hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fá þetta mál í þann umsagnarferil sem hv. þingmaður gerði svo mikið úr áðan hefðu þeir komið því á framfæri áður en málið kom hingað til 2. umr. Það að kjósa að bíða með það þangað til núna og krefjast þess núna er auðvitað fyrst og fremst til þess að seinka málinu, reyna að koma í veg fyrir að hægt sé að samþykkja það hér á sumarþinginu. Þannig vinnur Sjálfstæðisflokkurinn í dag. Hann vinnur ekki lengur málefnalega.

Má ég þá aðeins spyrja hv. þingmann um eitt? Hér í gær töluðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og það var hægt að kreista upp úr þeim að þeir styddu stofnun innanríkisráðuneytis. Það kemur mér ekki á óvart, vegna þess að hægt er að leita áratugi aftur í tímann og sjá þess stað að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þá stefnu mjög lengi. Hv. þingmaður lýsti því þá yfir í júní, í umræðum um annað mál, að hún styddi stofnun innanríkisráðuneytis. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur hún enn einu sinni hringsnúist og skipt um (Forseti hringir.) skoðun? Styður hún stofnun innanríkisráðuneytis?



[12:46]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði nú verið ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra hefði komið hér í þingsalinn strax í upphafi ræðu minnar en ekki bara rétt í lokin til þess að snapa sér fæting, (Utanrrh.: Nei, ég …) — afsakið orðbragðið og sletturnar. Ég fór sérstaklega yfir það í ræðu minni hér í upphafi, einmitt til þess að þurfa ekki að fara að munnhöggvast við t.d. hæstv. utanríkisráðherra, að ég væri hlynnt breytingum á Stjórnarráði Íslands. Ég hef lýst því yfir í umræðum um Varnarmálastofnun og er algjörlega þeirrar skoðunar að innanríkisráðuneyti sem slíkt er mér ekki á móti skapi. Það sem ég er að gagnrýna, hæstv. forseti, eru vinnubrögðin.

Mér þykir afskaplega leitt ef hæstv. ráðherra svíður undan vinnubrögðum mínum sem þingflokksformanns – mér þykir það mjög leiðinlegt. Ég get alveg bent honum á að það er margt í hans vinnubrögðum sem mér líkar ekki. En það er nú þannig að hann hefur ekki áhrif á hvernig ég stjórna þingflokki Sjálfstæðisflokksins frekar en að ég hafi áhrif á það hvernig hann kýs að reka sitt utanríkisráðuneyti. Get ég þó sagt að ég hef mjög margt við það að athuga.

Málið var tekið vanbúið út úr allsherjarnefnd í ágreiningi. Það er kannski þess vegna sem allar óskir sem fullbúið mál fengi komu ekki fram. Við skulum þá bara ítreka allar þær óskir í nefndinni milli 2. og 3. umr. Og ég neita því aftur og ég neita því enn að hér sé um einhverja tafapólitík að ræða. Við erum í stjórnarandstöðu. Það er okkar að gagnrýna. Það er okkar að koma með uppbyggilega gagnrýni og gaman væri að einhvern tímann yrði hlustað á hana. En sá dagur hefur ekki enn þá komið. Þess vegna er gott að fá ábendingar um það frá (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn (Gripið fram í.) að tekið verði tillit til þess og að allir gestir sem við (Forseti hringir.) óskum eftir í meðförum nefndarinnar verði kallaðir til.