138. löggjafarþing — 152. fundur
 7. september 2010.
Stjórnarráð Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 658. mál (sameining ráðuneyta). — Þskj. 1258, nál. 1446, 1467 og 1468.

[13:32]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í þessari umræðu spannst nokkur umræða við afgreiðslu þessa máls, við 1. umr., hjá hv. allsherjarnefnd og við 2. umr., um þá beiðni mína að þetta mál færi til umsagnar einstakra fagnefnda í Alþingi. Ástæðan fyrir því að ég bað um það á sínum tíma var ósköp einföld. Þegar gerðar voru breytingar á Stjórnarráðinu þurfum við að vanda okkur mjög mikið. Þetta er mál af þeim toga að það snertir ekki bara málefnasvið allsherjarnefndar, jafnmikilvægt sem það nú er, og ég er ekki með því að kasta neinni rýrð á það ágæta fólk sem í nefndinni starfar. En þegar við fjöllum um mál sem má segja að skarist við Stjórnarráðið og skipan nefndanna er eðlilegt að kallað sé eftir viðhorfum víðar að en bara úr þeirri einstöku þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar hverju sinni.

Þegar við lesum frumvarpið eins og það var lagt fram upphaflega sjáum við að gert er ráð fyrir að það taki til málefnasviða sem koma inn á verksvið hér um bil allra þingnefnda á Alþingi, að mér sýnist. Eins og við vitum var og er mikill ágreiningur um þetta mál og sá ágreiningur gengur raunar þvert á flokkslínur. Í ljósi þess var það fullkomlega eðlileg ósk af minni hálfu að þetta mál færi til umsagnar í fleiri nefndum en eingöngu í allsherjarnefnd.

Það er misskilningur eða rangt sem haldið hefur verið fram að þessu máli hafi ekki verið fylgt eftir í allsherjarnefndinni af einstökum þingmönnum, þar á meðal flokkssystkinum mínum. Ég hef þær upplýsingar að það hafi verið gert. En jafnvel þó að það hefði ekki verið gert tel ég að eðlilegt hefði verið að beiðni mín hefði borist til allsherjarnefndar og verið tekin þar til umfjöllunar vegna þess að þegar slík beiðni kemur fram við afgreiðslu máls í þinginu, þ.e. hvort vísa eigi málinu víðar en bara í þá tilteknu nefnd sem málið fer til með formlegum hætti í þinginu, er hún a.m.k. tekin til efnislegrar umfjöllunar. Mig rekur satt að segja ekki minni til þess að menn hafi brugðist illa við slíkum beiðnum enda var í þessu tilviki nægur tími. Fram undan voru einhverjir mánuðir þangað til málið átti að koma aftur fyrir Alþingi og nægur tími til að vísa því til umsagnar í þingnefndum. Þær höfðu líka sérstaklega rúman tíma að þessu sinni til að fara yfir málið. Þingnefndir komu saman um miðjan ágúst. Þetta er eitt af stóru málunum sem verið er að fjalla um og ég tel ólíklegt annað en að nefndarformenn hefðu hliðrað til störfum nefnda sinna þannig að þær hefðu getað tekið fyrir þessi mál fyrir með einhverjum hætti.

Ég segi ekki að það hefði leitt til annarrar niðurstöðu en nú er fengin. En það hefðu hins vegar verið skynsamleg vinnubrögð í anda þess sem stjórnarmeirihlutinn hefur stært sig af, að hann vilji viðhafa vönduð vinnubrögð og gagnsæi, hann vilji að þingið komi sem mest að málum. Þess vegna varð ég nokkuð hissa þegar ég sá í áliti meiri hluta allsherjarnefndar að það hafði ekki verið gert og raunar varð ég var við það í þeirri þingnefnd sem ég starfaði að málið hafði ekki komið þangað. Ég brást hins vegar við af mikilli kurteisi þegar málið kom á dagskrá í gær og óskaði eftir því að nýju við formann nefndarinnar að málið færi næst til umsagnar annarra nefnda og hv. formaður nefndarinnar Róbert Marshall brást vel og drengilega við því. Ég lít þannig á að nú þegar málið fer aftur til allsherjarnefndar að lokinni þessari umræðu verði því líka vísað til umsagnar annarra nefnda í samræmi við orð formanns nefndarinnar.

Hér hefur dálítið verið rætt um fortíðina þegar verið er að fjalla um þetta frumvarp og hv. þingmenn stjórnarliðsins, bæði formaður allsherjarnefndar og eins hæstv. utanríkisráðherra sem blandaði sér í þessa umræðu í morgun í framhaldi af nokkrum frammíköllum sínum sem vakið hafa nokkra athygli á þessum morgni, héldu því mjög á lofti að vinnubrögðin við undirbúning málsins og meðferð þess væru til mikillar fyrirmyndar að öllu leyti. Sérstaklega var það borið saman við vinnubrögð sem viðhöfð höfðu verið þegar verið var að breyta lögum um Stjórnarráðið og taka ákvarðanir um sameiningu og breytingar á ráðuneytaskipan við myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007.

Það sem mér fannst athyglisvert við þá umræðu var að í sjálfu sér voru menn ekki mikið að kvarta eða að andmæla því að vinnubrögðin gætu verið betri að þessu sinni. En menn sögðu þetta: Ja, ykkur ferst, sjálfstæðismönnum, að segja nokkuð. Þið hafið ekki verið hótinu betri. Þið hafið, ef eitthvað er, verið verri. Það finnst mér ekki vera boðleg umræða eða röksemdafærsla í þessum efnum því að sé ástæða til að gagnrýna vinnubrögðin á árinu 2007 við undirbúning þáverandi breytinga á lögum um Stjórnarráðið, hefði þá ekki verið tilefni til að vanda sig enn þá meira núna í stað þess að segja: Við getum komist upp með hvað sem er því að þið voruð ekki skárri fyrir tveimur eða þremur árum þegar þið vorum að véla um þessa hluti? Hin fleygu orð Grettis Ásmundarsonar, svo skal böl bæta að bíða annað meira, eiga auðvitað ekki við þegar verið er að ræða þessa hluti. Ég get tekið undir það. Það hefði örugglega verið betra við undirbúning þess máls á þeim tíma að hafa meira formlegt samráð fyrr í ferlinu við þær breytingar. Ég hygg að það hefði t.d. verið til bóta fyrir mig sem tók við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og stýrði tveimur ráðuneytum, ef slíkt samráð hefði verið formlegra á fyrri stigum. Það breytti hins vegar ekki því að við framkvæmd málsins átti ég gríðarlega mikið og gott samstarf við alla hlutaðeigandi aðila, undirstofnanir beggja ráðuneyta, ráðuneytin sjálf og hagsmunaaðila enn fremur. Það hefur fært mér heim sanninn um að það er ekkert áhlaupsverk að sameina tvö ráðuneyti, sérstaklega ekki ráðuneyti sem hafa ólíkan bakgrunn að mörgu leyti. Þess vegna held ég að það hljóti að vera mikið kvíðaefni við núverandi aðstæður á þessum haustdögum og fram að áramótum að sameina ráðuneyti. Á sama tíma er verið að véla um mjög erfið fjárlög sem snerta mjög málaflokka þeirra tveggja hæstv. ráðherra, tilvonandi velferðarráðherra og tilvonandi innanríkisráðherra, sem þurfa jöfnum höndum að takast á við það mikla verkefni að laga útgjöld ráðuneyta sinna af minni tekjum og síðan hinu, að koma saman þessum ráðuneytum svo vel sé. Þess vegna hefði verið enn þá brýnna við undirbúning málsins, áður en það var lagt fram á Alþingi, að vinna það vel frá upphafi, fara yfir mörg þau álitaefni sem við sáum til að mynda á árinu 2007 að mundu óhjákvæmilega koma upp og reyna að undirbúa hlutina þannig að það hvíldi ekki allt á ráðherrunum þá fáu mánuði sem notaðir verða til undirbúning málsins.

Ég tek eftir því að í þessari umræðu hafa stjórnarliðar kallað eftir viðhorfum okkar sjálfstæðismanna til þessara mála. Hver er ykkar tillaga? hafa þeir sagt. Eruð þið alltaf á móti því að sameina ráðuneyti? Eruð þið á móti því að ná fram sparnaði, ná niður kostnaði í stjórnsýslunni, í æðstu stjórnsýslu í stofnunum landsins? Eiga þær að vera undanþegnar þegar verið er að taka á málum? Auðvitað ekki. Auðvitað erum við tilbúin að skoða skynsamlegar breytingar á Stjórnarráðinu. Það er ekkert eilíft í þeim efnum. Það er okkur ekki sérstakt keppikefli að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi Stjórnarráðsins. En við segjum hins vegar: Það á heldur ekki að ganga þannig til verka í þessum efnum að hent sé fram einhverjum hugmyndum eins og verið er að gera núna, frekar óskyldum hugmyndum á margan hátt, og segja: Við erum búin að sameina tvö ráðuneyti, ergó, þá er sparnaður. Nú erum við búin að ná því fram sem við ætlum að ná fram við að endurskipuleggja stjórnsýsluna í landinu. Þetta eru ekki viti borin vinnubrögð. Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru líkleg til að skila okkur þeim árangri sem við ætlum og þurfum á að halda.

Þegar við skoðum hins vegar þær tölur sem liggja til grundvallar þessum meinta sparnaði eru þær í fyrsta lagi ekki mjög vel undirbyggðar. Talað er um 120 millj. kr. sparnað þegar allt er komið fram, þegar búið er að kasta aftur fyrir sig alls konar kostnaði við ráðuneytaskiptin. Það er hins vegar gert á sama tíma og sagt er að ekki eigi að segja upp fólki, að engum eigi að segja upp. Menn eigi að vísu að missa einhverjar stöður en verði ráðnir til annarra verkefna í ráðuneytinu án þess að greint sé frá því hvort það eigi að hafa áhrif á launakjör viðkomandi manna. Hvernig ætla menn að ná fram þessum 120 millj. kr. sparnaði? Ekkert af því kemur fram í raun og veru. Það er allt í skötulíki. Þegar við hugsum um 120 millj. kr. sparnað, sem er fugl í skógi en ekki í hendi, sjáum við auðvitað að það getur ekki hafa verið meginástæðan fyrir því að farið er í þessar breytingar. Þessar 120 millj. geta ekki verið það sem málið snýst um, enda er það ekki svo.

Þegar við horfum til endurskipulags Stjórnarráðsins þurfum við ekki síst að horfa til kostnaðarþáttanna í þessum efnum. En hljótum við ekki fyrst og fremst að velta fyrir okkur með hvaða hætti við endurskipuleggjum Stjórnarráð okkar þannig að það virki eins vel og nokkur kostur er? Það þýðir þá ekki að láta sér detta í hug að ef einhver tvö ráðuneyti eru til sé hægt að skella þeim saman og segja: Ergó, nú erum við komin með sparnað, nú erum við búin að ná þessu öllu saman fram. Það er það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að vekja athygli á. Við teljum að ekki sé nægilega vel að þessu máli staðið, að ekki sé nægilega vandað til þess, það sé ekki nægilega vel ígrundað og að ekki sé búið að sýna okkur fram á að ráðuneytin verði betur virk eftir þessar breytingar eða að af þessu hljótist sá kostnaðarlegi sparnaður sem að er stefnt, sem ég tel þó að sé minnsta atriðið í þessu öllu saman.

Í athyglisverðum pistli á heimasíðu sinni skrifaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, um þær breytingar sem verið er að gera á Stjórnarráðinu. Ég held að ástæða sé fyrir menn að hlusta á það sem hann segir vegna þess að Björn Bjarnason hefur ekki einasta verið alþingismaður í um 18 ár og ráðherra um árabil heldur hefur hann líka verið starfsmaður í ráðuneyti, m.a. í forsætisráðuneytinu, og þekkir því mjög vel til þessara innviða. Hann segir um þá röksemdafærslu sem þetta frumvarp byggir á, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég gef ekki mikið fyrir þessar röksemdir fyrir því að innan Stjórnarráðsins sé ólíkum verkefnum stjórnsýslunnar kastað í einn stóran pott í þeirri trú að hrærigrauturinn verði betri en einstakir réttir í honum. Orðið „ráðherrastjórnsýsla“ er hannað til að gera lítið úr hinni pólitísku ábyrgð á vettvangi Stjórnarráðsins.“

Síðan segir hann:

„Það stenst einfaldlega ekki að á vettvangi stjórnsýslu sé hagkvæmara að reka stórar einingar sem sinna ósamstæðum verkefnum í stað lítilla eininga þar sem auðvelt er að halda utan um alla þætti og einstök verkefni. Eitt af stjórnsýslulegum og pólitískum álitaefnum eftir hrun er hver hafi verið hin stjórnmálalega ábyrgð. Hún þurfi að vera skýr og afdráttarlaus. Hver heldur að auðveldara verði axla að hana þegar málaflokkar á verksviði hvers og eins verða ólíkir að eðli? Eða útgjöldin sem lúta einni pólitískri yfirstjórn [verða] svo há að enginn nær upp í þau? Í því felst einföldun sem jaðrar við blekkingu, að halda því fram að fækkun ráðherra leiði til sparnaðar í ríkisrekstri. Að öllu athuguðu held ég að nær sé að álykta að árvökul augu ráðherra og eftirlit hins pólitíska valds með skýra ábyrgð leiði fremur til aðhalds en eyðslu.“

Ég tek mjög undir þessi orð Björns Bjarnasonar og ég held að hann hafi komið hér að kjarna málsins. Þetta snýst nefnilega ekki um þessar meintu 120 millj. Þetta snýst um hvort við séum að búa úr garði ráðuneyti sem eru líkleg til að ná þessum árangri, til að geta haldið utan um verkefni sín, til að geta haldið utan um kostnaðinn í einstökum stofnunum og þar fram eftir götunum. Og það er alveg ljóst mál að sú breyting ein og sér sem hér er verið að boða mun draga úr hinu pólitíska valdi — sumum finnst það gott — og auka vald embættismanna á kostnað pólitíska valdsins sem þó sækir umboð sitt til þjóðarinnar í landinu. Á þetta hafa fjöldamargir bent og er ástæða til að halda þessu til haga.

Við höfum í gegnum tíðina gert ýmsar breytingar á Stjórnarráðinu. Hæstv. utanríkisráðherra, af sinni alkunnu hæversku … (ÁÞS: Þar talar maður með reynslu.) Þar talar maður með reynslu og er að reyna að miðla þeirri reynslu núna. Hv. þingmaður hefði þurft að hlusta þegar ég fór yfir það í örstuttu máli áðan. Hæstv. utanríkisráðherra kaus hins vegar af sinni miklu hæversku að sleppa því að nefna, þegar hann talaði um þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu eftir kosningarnar 2007, að önnur breyting var gerð, ekki bara sú að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þá var líka gerð sú breyting að skipta upp viðskiptaráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu. Það er athyglisvert í þessu sambandi að rifja það upp að þegar umræðan um áformaða sameiningu sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytis stóð sem hæst voru það einatt rök hæstv. fjármálaráðherra, sem vildi friða órólegu deildina í flokki sínum, að segja: Þið skuluð ekki hafa áhyggjur af sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið því að iðnaðarráðuneytið er svo agnarlítið, smátt, aumt og veikt að það mun ekki hafa nein áhrif á stöðu sjávarútvegsins og landbúnaðarins í hinu sameinaða ráðuneyti. Með öðrum orðum gerði hæstv. fjármálaráðherra lítið úr störfum hins gamla iðnaðarráðherra, hæstv. utanríkisráðherra sem talaði áðan, og taldi greinilegt að iðnaðarráðuneytið væri svo lítið og aumt ráðuneyti að það tæki því varla að nefna að það hefði einhver áhrif þegar það væri komið inn í sameinað ráðuneyti atvinnumála sem fyrirhugað er.

Og talandi um það, í breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar kemur fram sú niðurstaða að falla frá þeim breytingum sem boðaðar voru í frumvarpinu eins og það var lagt fram og sneri annars vegar að umhverfisráðuneytinu og styrkingu þess á kostnað hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, og sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við iðnaðarráðuneytið. Það er sem sagt boðað að frá því skuli horfið. Ætlunin er hins vegar greinilega að halda sig við það þó að menn hafi ekki treyst sér til að ljúka þessu máli núna. Allir vita það sem vilja vita af hverju málinu er ekki lokið núna. Því er ekki lokið núna vegna þess að um það er pólitískur ágreiningur í ríkisstjórnarflokkunum og hann er ekki eitthvert laumuspil. Við 1. umr. þessa máls tók til máls hv. þm. Atli Gíslason og mælti fyrir hönd hóps þingmanna Vinstri grænna og flutti sérstaka bókun þar sem áformum um sameiningu svokallaðra atvinnuvegaráðuneyta, iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, var mótmælt. Það er ljóst mál að málið er óafgreitt í baklandi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin kemst ekki lönd né strönd með þetta mál. Þess vegna var brugðið á það ráð, sem var út af fyrir sig skynsamlegt hjá ríkisstjórninni í þessari stöðu, að klippa burtu vandamálið og fresta því eins og alltaf er gert þegar vandamálin koma upp í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Hins vegar er boðað í nefndaráliti meiri hlutans að þeirri vinnu verði haldið áfram og er það skoðun meiri hlutans að skipa verði nýjan ráðherra sem fara muni annars vegar með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og hins vegar iðnaðarráðuneytið þangað til þessum ráðuneytum verður rennt saman. Maður er nú farinn að skilja orð hæstv. forsætisráðherra um að nokkrir ráðherrar séu á skilorði. Nú er búið að benda á hverjir þeir eru sem eru á skilorði þessa stundina, það eru auðvitað ráðherrarnir sem hér um ræðir. Það er með öðrum orðum búið að ákveða þessa niðurstöðu þó að í hinu orðinu sé sagt að leitað verði samráðs og að talað verði saman en samráðið á greinilega eingöngu að miða að því að útfæra fyrir fram gefna niðurstöðu. Það er að mínu mati ekki líklegt til að skila miklum eða góðum árangri. Ef ríkisstjórninni er einhver alvara um að hafa samráð með þeim sem láta sig málið varða hefði auðvitað verið eðlilegast að slá málinu á frest og segja sem svo: Nú ætlum við að hugsa þessi mál upp á nýtt en ekki slá þessu föstu, sem í raun og veru er verið að gera með þessum hugmyndum.

Virðulegi forseti. Það gengur mjög á tíma minn og ég hef ekki tíma til að fara yfir nema lítinn hluta af því sem ég ætlaði mér að tala um í þessu máli, en ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan: Þetta er ekki spurning um hvort hv. þingmenn vilji gera breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Þetta er spurningin um hvort þær breytingar sem verið er að kynna að þessu sinni séu líklegar til að ná þeim markmiðum sem ég talaði um áðan. Ég færði fyrir því rök að ekki sé mjög líklegt að þær breytingar sem hér er verið að gera séu til þess fallnar að ná markmiðum um aukna skilvirkni, pólitíska ábyrgð o.s.frv. Þvert á móti finnst mér margt benda til þess að það muni draga úr því eins og þegar hefur verið bent á og ég rakti aðeins áðan. Þegar maður horfir til þess að annað þeirra ráðuneyta sem talað er um, hið svokallaða velferðarráðuneyti, sem mun fá það heiti eftir áramótin verði þetta að lögum, á að ráða yfir um helmingi af ríkisútgjöldunum. Á sínum tíma var tekin um það pólitísk ákvörðun, og ég man ekki betur en að það hafi verið mikið áhugamál Samfylkingarinnar í samstarfi með okkur sjálfstæðismönnum á sínum tíma, að gera skil á milli kaupenda- og seljendahluta þjónustunnar í heilbrigðismálum. Nú er hins vegar verið að renna þeim tveimur ráðuneytum saman sem áttu að halda utan um þessi mál og það hljóta að verða dálítið sérkennilegar aðstæður sem koma upp nema gerðar verði grundvallarbreytingar á þeim þáttum líka. Ég segi þess vegna að þetta mál snýst ekki bara um sameiningu þessara ráðuneyta, þetta mál hlýtur líka að kalla á talsverða uppstokkun og breytingar á stofnanakerfinu sem heyra undir þessi einstöku ráðuneyti. Þess vegna hefði líka verið eðlilegt að þeir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn sem láta sig þetta mál varða (Forseti hringir.) gerðu okkur grein fyrir því hvaða hugmyndir eru þarna að baki, (Forseti hringir.) hvernig menn sjá þennan stofnanastrúktúr fyrir sér þegar upp er staðið.



[13:52]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað eiginlega eingöngu út af þeirri beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að vísa frumvarpinu til fagnefnda sem hann mun hafa flutt hér strax við 1. umr. í vor ef ég skil það rétt.

Það var fundur í allsherjarnefnd í hádeginu og það var mál allra þeirra sem þar voru saman komnir — ég vil taka það fram að hv. þm. Ólöf Nordal var ekki viðstödd og hv. þm. Birgir Ármannsson hafði ekki verið á fundinum þegar þessi beiðni mun hafa verið borin fram en hún hafði einhvern veginn farið fram hjá okkur öllum. Við biðjumst öll afsökunar á því en formaður nefndarinnar lýsti því yfir að hann mundi fara þess á leit að málinu yrði vísað til fagnefnda. Ég bið þingmanninn bara að athuga að þetta er nú komið í þann farveg sem hann óskaði eftir, vissulega einhverjum mánuðum seinna en hann óskaði en því miður tókst svona til.



[13:53]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar upplýsingar. Þær koma mér í sjálfu sér ekki á óvart. Hv. formaður nefndarinnar, Róbert Marshall, tók ákaflega vel í það þegar ég bar það upp á þingfundi í gær að málinu yrði vísað til fagnefnda í samræmi við ósk mína þar að lútandi. Ég hef ekki ætlað að með því að gera það ekki milli 1. og 2. umr. hafi meiningin verið að troða á hugmyndum mínum í þá veru. Þetta fórst fyrir og ég fór bara fram á það af kurteisi að þá yrði reynt að gera það milli 2. og 3. umr. og þakka kærlega fyrir þær góðu viðtökur sem þetta mál hefur fengið og sem hv. þingmaður hefur flutt mér fréttir af.



[13:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst umræðan sem stóð hér allan eftirmiðdaginn í gær og hefur staðið í dag svolítið skrýtin. Umræðan er um tillögu um sameiningu ráðuneyta. Breytingar sem allsherjarnefnd leggur til við frumvarpið, sem upphaflega var flutt hér í vor, eru að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði frá 1. janúar nk. sameinuð í innanríkisráðuneyti og að heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti verði sameinuð í velferðarráðuneyti frá sama tíma.

Það er rangt sem sagt var hér í gær að þetta hafi þegar verið gert. Hins vegar hefur sami maðurinn verið settur til að gegna embætti ráðherra í þeim ráðuneytum sem á að sameina, þ.e. hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson er nú annars vegar ráðherra samgöngumála og hins vegar ráðherra dóms- og mannréttindamála. Á sama hátt er hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson nú ráðherra heilbrigðismála og einnig ráðherra félagsmála. Þetta er ekkert nýtt, þetta hefur oft verið gert í sögunni. Það er hlutverk þessara tveggja manna á næstu þrem mánuðum að undirbúa sameiningu þessara ráðuneyta. Ég held að það sé skynsamleg ráðstöfun og ég vil hnykkja á þessu vegna þess að hér var sagt fyrr í dag að búið væri að breyta nöfnunum á ráðuneytunum. Það er ekki búið að því, það gerist ekki fyrr en 1. janúar.

Ég held að starfsmönnum þeirra ráðuneyta sem um er að ræða hljóti að þykja umræðan á Alþingi svolítið einkennileg ef þeir heyra að búið sé að sameina þessa vinnustaði. Það er alls ekki búið að því. Þessir menn tveir sem ég nefndi áðan, hæstv. ráðherrar, hafa nú verið settir yfir það mikla verk að sameina tvö og tvö ráðuneyti. Umræðan í gær snerist líka meira um ráðherra og minna um ráðuneyti. Það lýsir kannski best því sem stundum virðist ríkja í þessu húsi, að ráðherrar og ráðherradómur virðist upphaf og endir alls.

Við erum held ég öll sammála um nauðsyn þess að breyta í Stjórnarráðinu og gera rekstur þess hagkvæmari, skilvirkari og ódýrari en hann er í dag. Sú breyting sem hér er lögð til hefur það að markmiði. Það má sannarlega hugsa sér að hafa einhverja aðra skipan. Það má t.d. hugsa sér að það sé litið á Stjórnarráðið allt sem eina heild, að það sé ekki niðurnjörvað í lögum hvað hvert ráðuneyti gerir eða að einn ráðherra sé sérstaklega yfir einhverjum ráðuneytum eins og er í því kerfi sem við búum við. Þetta mun ríkja í löndum í kringum okkur, það er mynduð ríkisstjórn, ráðherrar eru settir yfir mismunandi málaflokka og þá heyra ekkert endilega saman þeir málaflokkar sem heyrðu saman í ríkisstjórninni sem var á undan. Þetta er ein leið.

Hér er lögð til önnur leið og hún getur verið góð. Hún miðar a.m.k. að því að brjóta niður þá veggi sem virðast ríkja á milli hinna ýmsu ráðuneyta. Allir sem skoða ráðuneytin tala um turna, eða síló, í stjórnsýslunni, að fólk starfi í einhverjum turnum, sjái ekki út fyrir þá og geti ekki ímyndað sér hvernig hægt sé að vinna saman verkefni sem ekki eru í sama turninum. Það er út fyrir sig ekkert einsdæmi í Stjórnarráðinu eða stjórnsýslu að þeir sem halda um stjórnartauma vilji halda sem fastast í þá og halda öllum verkefnum hjá sér. Þetta þekkist í fyrirtækjum og stofnunum, þetta þekkist alls staðar.

Það sem mér finnst svolítið sérkennilegt er að ráðherrar virðast smitast af þessu um leið og þeir setjast í ráðherraembætti. Jafnvel þó að menn viti að þeir eigi ekki eftir að vera þar um aldur og eilífð smitast þeir strax af því að þurfa að halda utan um öll verkefni sem voru fyrir í þeim ráðuneytum sem þeir fara fyrir, jafnvel þó að öll skynsemi segi að kannski væri eðlilegra að flytja þau eitthvað annað.

Einhver hafði uppi þau orð að þegar flytja á verkefni milli deilda, milli ráðuneyta eða stofnana sé verkefnið sem á að flytja alltaf það veigamesta og mannfrekasta og það sem skipti mestu máli í umræddri deild, ráðuneyti, stofnun eða hvað það er. Síðan þegar á að flytja verkefnið og menn segja: Jæja, nú er búið að flytja þetta verkefni í burt, hvað getum við sagt upp mörgum? kemur í ljós að enginn hefur sinnt þessu verkefni — það er ekki hægt að flytja neinn, það má enginn fara burt vegna þess að þeir sem stjórna, hvort sem um er að ræða deild, stofnun, ráðuneyti eða annað, telja völd sín annars vegar í verkefnafjölda sínum, jafnvel þó að þeir ráði ekkert við verkefnin vegna þess að þeir hafa ekki mannskap til þess, og svo í hausum. Þannig virðast menn tútna út á því að halda að þeir séu þeim mun mikilvægari sem verkefni þeirra eru fleiri, jafnvel þó að þeir ráði ekki við þau, og starfsmenn sömuleiðis — sem þeir hafa jafnvel ekkert við að gera.

Nú er ég ekki að segja að þetta sé þannig í Stjórnarráðinu. Ég er bara að segja að þetta er svona alls staðar. Ég held að við séum öll sammála um að það þurfi einhvern veginn að leysa þetta. Það þarf einhvern veginn að gera rekstur Stjórnarráðsins hagkvæmari og skilvirkari.

Sjálf er ég mikil áhugamanneskja um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég hugsa þetta í báðar áttir, mér finnst að löggjafinn eigi að vera sjálfstæðari í störfum sínum en hann er í dag. Mér finnst að ráðherrar eigi ekki að sitja sem fullgildir þingmenn á Alþingi. Ég er hins vegar líka á því að framkvæmdarvaldsins sé það sem framkvæmdarvaldsins er og að þingmenn eigi ekki að vasast í daglegu amstri framkvæmdarvaldsins. Við eigum vissulega að hafa eftirlit með því en við eigum ekki að vasast í því.

Það mál sem við erum að fjalla um hér í dag og menn hafa eytt, held ég, bráðum átta eða tíu klukkutímum í að ræða hefði mátt afgreiða með forsetaúrskurði. Það þarf ekki að leggja það fyrir þingið. Ég er ekki frá því að það hefði verið betri leið en þessi leið var farin og þá finnst mér sannast að segja nokkuð kúnstugt að menn eyði hér öllum þessum tíma í umræður um þetta efni án þess að leggja nokkuð nýtt til. Þeir segja bara: Þetta er ómögulegt, við viljum hafa þetta öðruvísi.

Sannast að segja held ég að við í þinginu höfum ekkert mikið til þessara mála að leggja. Við erum ekki sérfræðingar í því hvernig best er að byggja upp embættismannakerfið í Stjórnarráðinu. Við höfum auðvitað skoðanir á því hvaða málaflokkar heyra saman og við höfum skoðanir á þeirri stefnu sem á að reka í Stjórnarráðinu vegna þess að Stjórnarráðið á að starfa eftir þeim ramma sem við ákveðum hér. Við eigum hins vegar ekkert að vera með puttana í daglegum rekstri Stjórnarráðsins frá degi til dags. Umræðan hér sýnir líka að menn þvælast strax inn í ráðherradóminn sem er samt sem áður einungis smáatriði í öllu þessu máli. Það sem skiptir máli er að raða verkefnunum þannig saman að innan Stjórnarráðsins nái fólk að vinna saman að líkum verkefnum og að ekki hlaðist upp múrar á milli manna þannig að þeir viti ekki hvað er að gerast í skyldum málefnum. Það þarf að vera hægt að sameina stofnanir sem heyra í dag undir ólík ráðuneyti en með því að stækka ráðuneytin og sameina líka þætti undir eitt ráðuneyti verður auðveldara að vinna að slíkri sameiningu.

Ég vil aðeins koma inn á það að í gær var talað um að þetta frumvarp væri ekki unnið í sátt við stjórnarandstöðuna. Menn nefndu vinnubrögðin við setningu laga um stjórnlagaþing sem dæmi þar sem allsherjarnefnd hefði unnið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þá er frá því að segja að í allsherjarnefnd var stungið upp á sáttaleið, nefnilega þeirri að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar, að hún undirbyggi það áfram og ákvæði síðan með forsetaúrskurði hvernig ráðuneytunum skyldi hagað. Um þetta náðist hins vegar ekki samstaða í allsherjarnefnd. Þegar ekki næst samstaða um sáttaleið er ekkert annað að gera fyrir meiri hlutann en að ákveða vegna þess að annars gerist aldrei neitt. Það er það sem ég held að þingmenn hér þurfi svolítið að læra, sérstaklega þeir sem eru vanir því að vera í stjórn og ráða, að stundum verður að láta undan. Stundum er ekki hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu og þá ræður meiri hlutinn. Ég held að menn sem hafa verið hér lengi og þá tilheyrt stjórnarmeirihluta þekki það mjög vel að stundum verður meiri hlutinn að taka ákvörðun sem er þá ekki í sátt við minni hlutann, það er alveg ljóst. En ég mótmæli því að það sé mark um einhverja sérstaka valdníðslu, óvönduð vinnubrögð eða hvað sem þetta heitir allt saman.



[14:07]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nú kann að vera að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafi að einhverju leyti verið að beina orðum sínum til mín í lok ræðu sinnar. Ég tel alla vega tilefni til að bregðast við orðum hennar með nokkrum hætti.

Við breytingar á Stjórnarráðinu er æskilegt að ná sem víðtækastri samstöðu þannig að ekki sé verið að breyta ört heldur að sæmileg samfella sé í æðstu stjórn ríkisins. Það þjónar ákveðnum tilgangi. Það þjónar þeim tilgangi að stjórnsýslan nái að vera nokkuð stabíl, burt séð frá pólitískum sviptingum á hverjum tíma, burt séð frá ráðherrum sem koma og fara. Það á auðvitað að skila sér í faglegum vinnubrögðum innan stjórnsýslunnar sem stundum hafa sætt harðri gagnrýni að undanförnu. Auðvitað verður að vera til staðar ákveðinn sveigjanleiki en einhvern meðalveg verður að fara í þessu. En það er æskilegt að það sé pólitísk sátt þannig að við hver einustu stjórnarskipti sé ekki verið að stokka upp embættismannakerfið og stjórnkerfið. Farnar eru mismunandi leiðir í löndunum í kringum okkur en það er skoðun mín að það sé betra að í þessum efnum höldum við okkur við þá hefð sem kenna má í meginatriðum við Evrópu þar sem stjórnsýslan er tiltölulega sjálfstæð og á að vera fagleg og óháð pólitískum sviptivindum frekar en hafa stjórnsýslu eins og kannski þekkist í Bandaríkjunum þar sem öllum æðstu embættismönnum er skipt út við hver einustu stjórnarskipti, hvort sem er á landsvísu eða fylkjavísu. Þetta er skoðun sem við getum deilt um en snertir þetta mál kannski ekki nema að hluta til.

Það er æskilegt að ná pólitískri samstöðu. Við vekjum athygli á því að hennar hefur ekki verið leitað í þessu máli. Ef það er mat meiri hlutans að ekki sé ástæða til að gera það, eða það sé einfaldlega of langt á milli til að hægt sé að ná þeirri niðurstöðu, þá verður svo að vera. Engu að síður hefði verið æskilegt að leita eftir pólitískri samstöðu. Í öllum undirbúningi málsins var ekki um það að ræða að leitað væri eftir pólitískri samstöðu. Hins vegar var varpað fram hugmynd í hálfkæringi á síðustu stigum málsins í allsherjarnefnd sem auðvitað var ekki þess eðlis, þegar málið var komið inn í þingið og búið að vera í talsverðri umfjöllun, að ástæða væri til að ræða það frekar.

Það er rétt sem hefur komið fram að þær breytingar sem boðaðar eru með frumvarpinu eru þess eðlis að þær væri hægt að gera með forsetaúrskurði. Ef frumvarp hæstv. forsætisráðherra hefði litið út þá eins og það lítur út verði tillögur meiri hluta allsherjarnefndar samþykktar hefði verið hægt að afgreiða málið með þeim hætti. Frumvarpið eins og það var lagt fram var hins vegar þess eðlis að ekki var hægt að afgreiða það með forsetaúrskurði. Þar var um að ræða atriði sem þurfti að afgreiðast með lagabreytingu. En ef meiri hluti allsherjarnefndar nær fram því markmiði sínu að klippa burt helminginn af frumvarpinu þá hefur málið tekið ákveðinni eðlisbreytingu. Við skulum aðeins hafa þetta í huga. Til að málið passi inn í forsetaúrskurðarmódelið verða þær breytingar að eiga sér stað sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til og þá er málið auðvitað orðið töluvert öðruvísi en lagt var upp með. En það er ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er það, og það er kjarninn í þeirri gagnrýni sem ég hef haldið fram og fulltrúar sjálfstæðismanna í þessari umræðu, að það skortir allan faglegan og vandaðan undirbúning að þessu máli. Við höfum marglýst því yfir að við teljum að full ástæða sé til að endurskoða skipan ráðuneyta og fyrirkomulag Stjórnarráðsins að öðru leyti. Við höfum alltaf tekið undir það. Við höfum aldrei hafnað því. Við höfum hins vegar lýst yfir að það væri forsenda að hægt væri að ná einhverjum árangri með slíkum breytingum, það væri forsenda fyrir því að slíkar breytingar væru vitrænar að búið væri að vinna undirbúningsvinnuna, að búið væri að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er til að hægt sé að taka réttar ákvarðanir í þessu sambandi. Það hefur ekki verið gert í þessu máli. Það er, eins og ítrekað hefur komið fram, tekin pólitísk ákvörðun um það við myndun þessarar ríkisstjórnar að sameina einhvern tíma á kjörtímabilinu tiltekin ráðuneyti. Það er ákveðin pólitísk stefnumörkun.

Þegar frumvarp er lagt fram á þingi er hins vegar hægt að gera þá kröfu að búið sé að útfæra þá stefnumörkun með einhverjum hætti, búið sé að vinna undirbúningsvinnuna, hina faglegu undirbúningsvinnu, að búið sé að framkvæma það mat sem þarf til að taka afstöðu til einstakra tillagna í þessu sambandi. Það er lágmarkskrafa. Og það er ekki lágmarkskrafa sem einungis er haldið fram af okkur sjálfstæðismönnum í þessari umræðu í einhverri illgirni, langt í frá. Það er sú krafa sem ríkisstjórnin segist gera til sjálfrar sín varðandi undirbúning og framsetningu lagafrumvarpa. Nú síðast 20. ágúst gaf ríkisstjórnin út fréttatilkynningu — ég segi ekki með lúðrablæstri en þó nokkurri viðhöfn og tilkynningu um að hún væri búin að samþykkja endurskoðaðar reglur um framsetningu stjórnarfrumvarpa. Það vill svo til að ég hef lesið þær reglur og ekkert af því sem þar stendur hefur verið haft í heiðri við undirbúning þessa frumvarps, ekki neitt. Það módel eða sá rammi sem þar er mótaður, það vinnulag sem þar er lagt upp með, hefur ekki verið viðhaft við gerð þessa frumvarps. Þeir mælikvarðar sem núverandi ríkisstjórn segist vilja leggja á lagafrumvörp falla engan veginn að þessu frumvarpi.

Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd höfum bent á að í gildi hefur verið ágæt handbók frá 2007 sem pólitísk samstaða hefur verið um, a.m.k. í orði kveðnu, þar sem eru ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig standa eigi að undirbúningi svona mála. Það er eins og enginn sem kom að gerð frumvarpsins sem við erum að ræða hafi svo mikið sem lesið formálann að þeirri bók. Það bendir ekkert til þess. Þegar við bendum á þetta koma fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna og kveinka sér undan gagnrýninni, telja þetta ómálefnalegt, telja þetta málþóf en það eina sem við erum að gera er að benda á að sú ríkisstjórn sem hér situr hefur uppi fögur orð um hin og þessi efni, um ný vinnubrögð, um vönduð vinnubrögð, faglega stjórnsýslu, víðtækt samráð. Það vantar ekki fögru orðin en þegar til kastanna kemur stendur ekkert eftir.

Það eru bara innantóm fyrirheit og það er hlutverk stjórnarandstöðu á þingi að benda á þetta. Það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni, stöku sinnum a.m.k., að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum. Þessi ríkisstjórn hefur nefnilega skapað sér ákveðna sérstöðu. Það er eitt sem þessi ríkisstjórn er dálítið góð í, kannski bara eitt en hún er dálítið góð í því. Það er að skreyta sig með fögrum yfirlýsingum, skreyta sig með fögrum orðum, nota fín og falleg hugtök. En þegar til kastanna kemur er ekkert að marka það og þetta mál sýnir það svo glögglega.

Sagt hefur verið við okkur í stjórnarandstöðunni: Hverjar eru ykkar tillögur? Af hverju komið þið ekki með ykkar útfærslu á því hvernig þið viljið sjá Stjórnarráðið líta út? Við getum komið með almenn sjónarmið eins og gert er í þessu frumvarpi. Við getum slengt því fram að sameina eigi hitt og þetta ráðuneytið, færa eigi verkefni hér og þar á milli. En til þess að eitthvert vit sé í slíkum tillögum verður auðvitað að fara fram ákveðið mat, ákveðin undirbúningsvinna. Við bendum á það í nefndaráliti okkar, sjálfstæðismenn, að þegar menn vinna tillögur af þessu tagi þurfa menn að meta núverandi ástand. Menn þurfa að meta þörfina á breytingum og menn þurfa að meta hvaða breytingar eru líklegastar til að skila árangri. Menn þurfa að meta hvaða áhrif breytingarnar hafa, bæði innan Stjórnarráðsins og út í samfélagið. Við höfum líka leyft okkur að benda á, og fengið bágt fyrir, að það kunni að vera æskilegt að eiga samráð við einhverja aðila utan þrengsta kjarna ríkisstjórnarflokkanna þegar verið er að komast að niðurstöðu í svona málum. Við höfum bent á það. Við höfum bent á að svoleiðis geti orðið til að bæta mál. Ekkert af þessu er fyrir hendi í þessu máli.

Þegar við höldum þessari gagnrýni fram þá koma menn eins og hæstv. forsætisráðherra í gær og segja: Það er mín skoðun, af því að þetta mál er búið að vera svo lengi í umræðunni, að þetta hljóti að vera vel undirbúið og undirbúningurinn vandaður. Vandinn er bara sá að ekkert í frumvarpinu sjálfu, ekkert í greinargerð með frumvarpinu, bendir til þess að svo hafi verið. Ekki er vísað í nein gögn, ekki er vísað í neitt mat, ekki er vísað í neina faglega úttekt í greinargerð með frumvarpinu. Eina plaggið sem vísað er í er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Stefnuyfirlýsingin er ágæt fyrir þá sem styðja ríkisstjórnarflokkana en hefur harla lítið gildi sem faglegur grunnur undir gerð lagafrumvarpa. Hún hefur harla lítið gildi sem slík og hún hefur raunar harla lítið gildi fyrir okkur sem ekki styðjum ríkisstjórnina. En það er önnur saga.

Það er komið með þetta mál hér inn fullkomlega vanbúið og ekki með neinni sanngirni er hægt að gera þá kröfu að við í stjórnarandstöðunni, t.d. einstakir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd, vinnum þá vinnu sem ríkisstjórnin vanrækti að vinna í undirbúningi málsins. Ekki er með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til þess. Við bendum hins vegar á að að okkar mati standist frumvarpið engar kröfur sem gera má til lagafrumvarpa. Þess vegna leggjum við til að málið verði einfaldlega tekið til baka og unnið almennilega og komið með það inn. Og við stöndum við þá skoðun okkar.

Varðandi þá galla sem eru á undirbúningi málsins, og hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin í heild ber ábyrgð á, er alveg ljóst að úr þeim verður ekki bætt á nokkrum fundum í hv. allsherjarnefnd þó að þar sé um að ræða ágæta og vel skipaða nefnd. Það er alveg ljóst. Það þarf að vinna slíka grunnvinnu í þessu máli að það verður eingöngu gert með því að vísa því til föðurhúsanna. Við óskum eindregið eftir því að ríkisstjórnin komi aftur inn í þingið með almennilega undirbyggt og útbúið frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu sem hefur það að markmiði að draga úr kostnaði, sem hefur það að markmiði að bæta stjórnsýsluna, sem hefur það að markmiði að tryggja að betur sé farið með almannafé í þessum efnum og um leið að stjórnsýslan skili meiri árangri. Við óskum eindregið eftir því að ríkisstjórnin geri það. Við getum hins vegar ekki stutt þetta mál eins og það lítur út vegna þess að hér er einungis um að ræða hálfunnið eða óunnið mál sem þyrfti miklu betri skoðun og miklu vandaðri undirbúning áður en það hlýtur endanlega afgreiðslu.



[14:22]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað eftir röksemdum þeirra sem flytja málið og mér finnst þær vægast sagt þunnur þrettándi. Ég ætla að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem situr í allsherjarnefnd sem fjallaði um málið, hvort það sé feimni hv. þingmanna stjórnarliðsins við að tala hér sem geri það að verkum að röksemdirnar fyrir því hafa ekki komið fram.

Ég hef lesið gögnin með frumvarpinu og þetta er meira og minna fagurgali. Þetta kemur m.a. fram hjá einkanefnd hæstv. forsætisráðherra en hún réði sérstaklega sína aðila til að fara yfir málið í tengslum við bankahrunið. Hún tók þar fram fyrir hendurnar á þingmannanefndinni og setti sitt fólk í að koma með tillögur.

Mikið var talað um að stofnanir væru of litlar, ráðuneytin of lítil. Þá er kannski fyrst að spyrja: Úr því að svo er, af hverju eru þá ekki litlu ráðuneytin sameinuð? Af hverju eru stóru ráðuneytin sameinuð? Hafa komið einhver rök fyrir því? Ef vandinn er sá að ráðuneytin séu of lítil hvers vegna eru þá litlu ráðuneytin ekki sameinuð? Hvers vegna eru tvö stærstu ráðuneytin sameinuð? Eitthvað hlýtur að hafa komið fram í nefndinni um þetta sem gengur þá þvert á það sem kemur fram í greinargerð og í texta í tengslum við frumvarpið.

Hér er enginn stjórnarliði til að tala þannig að ég get ekki spurt annan en hv. þm. Birgi Ármannsson út í málið.



[14:24]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að svara hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hönd annars fólks. Ég get þó sagt það að ekki kom fram í allsherjarnefnd fyllri rökstuðningur við breytingarnar sem þarna eru lagðar til en fram koma í greinargerð með frumvarpinu.

Hins vegar get ég sagt og það hefur svo sem heyrst í umræðunni í þingsal að það er trú þeirra sem að málinu standa og bera ábyrgð á því að með þessu náist fram sparnaður. Hvernig hann næst er aftur meira á reiki.



[14:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra þetta. Frumvarpið er ekkert smámál, þetta er hvorki meira né minna en nýtt Stjórnarráð Íslands. — Hér eru nokkrir stjórnarliðar á vappi þannig að ég hvet þá til að leiðrétta okkur ef við förum með rangfærslur. Það er ekki gott, virðulegi forseti, og hér hafa stjórnarliðar tækifæri til að leiðrétta okkur stjórnarandstæðinga ef við förum rangt með.

Getur það virkilega verið? Ég trúi ekki hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er útilokað að menn hafi ekki fjallað um þetta. Hér er t.d. talað um samþættingu stofnana á félags- og heilbrigðissviði. Það er útilokað annað en að menn hafi kynnt í nefndinni um hvaða stofnanir er að ræða. Víðar er talað um að sameina eigi stofnanir og ná fram sparnaði. Ég trúi því ekki, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur talað fyrir faglegum vinnubrögðum, að vanda betur til verka, en nú grípur hæstv. forsætisráðherra fram fyrir hendurnar á þinginu og kallar til einkaaðila sína til að koma með útfærslu á viðbrögðum við bankahruninu.

Getur verið að hv. þm. Birgir Ármannsson sé að halda því fram að menn hafi ekki sett fram ítarlega útfærslu á því hvernig ná á þessari hagræðingu og sparnaði? Hv. þingmaður hlýtur að hafa heyrt hvaða stofnanir menn ætla að sameina, annað getur ekki verið. Ég vona að hv. þingmaður svari mér því ég er ekki tilbúinn til að trúa því að málið sé svona vanreifað. Það er útilokað.



[14:27]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú gæti ég brugðist svo við og sagt að hv. þm. Guðlaugur Þ. Þórðarson væni mig um ósannsögli. [Hlátur í þingsal.] Ég kýs að gera það ekki og leiði þær aðdróttanir hjá mér. Um þetta tiltekna atriði, sameiningu stofnana, verð ég að segja að svo virðist sem það eigi eftir að taka allar ákvarðanir í þeim efnum og ekki sé búið að móta neinar hugmyndir um það. Að minnsta kosti hafa ekki komið fram neinar hugmyndir um það umfram það sem vikið er að almennum orðum í greinargerð með frumvarpinu og ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér.



[14:28]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að það er einstaklega óheppilegt að 1. flutningsmaður málsins, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, skuli ekki vera viðstödd umræðu um eigið frumvarp. Ekki síst vegna þess að við sem leggjum okkur fram við að fara yfir málið og ræða það efnislega höfum lagt fram fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra um það og ég hygg að menn muni gera það eftir því sem líður á umræðuna. Þá er auðvitað algjörlega óþolandi að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna og svara þeim spurningum sem að henni er beint, vegna þess að málið er mikilvægt. Það varðar yfirstjórn ríkisins, Stjórnarráð Íslands, og það er eðlilegt að fjölmargar spurningar vakni vegna þess.

Nú veit ég, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra er ekki á landinu. Yfirstjórn þingsins hefði verið í lófa lagið að fresta umræðunni og halda henni síðan áfram þegar hæstv. forsætisráðherra gæti verið viðstödd. Hæstv. forsætisráðherra má þó eiga að hún sendi inn varamann sinn eða hlaupadreng í formi hæstv. utanríkisráðherra sem var við umræðuna og tók einkum þátt í henni með frammíköllum en efnislegt framlag hans til umræðunnar var býsna lítið.

Hvers vegna kvarta ég yfir því að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna? Jú, vegna þess að þetta frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands er líklega mesta, a.m.k. eitt mesta vandræðamál ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Hæstv. forsætisráðherra lagði málið nefnilega fram án þess að fyrir því væri stuðningur í ríkisstjórnarflokkunum, hvað þá í ríkisstjórninni sjálfri. Frumvarpið var ekki lagt fram í sparnaðarskyni af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Það var ekki einlægur sparnaðarvilji Jóhönnu Sigurðardóttur hæstv. forsætisráðherra sem gerði það að verkum að hún lagði frumvarpið fram. Það var ekki heldur einlægur vilji hennar til að sameina ráðuneyti í hagræðingarskyni sem gerði það að verkum að hún sá sig knúna til að leggja það fram. Nei, eins og ég fór yfir í ræðu minni um málið í gær fól frumvarpið í sér pólitískt uppsagnarbréf til handa Jóni Bjarnasyni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilgangurinn með framlagningu frumvarpsins í upphafi var að hæstv. forsætisráðherra, með aðstoð hæstv. fjármálaráðherra, ætlaði sér að losa sig við fulltrúa órólegu deildarinnar í Vinstri grænum úr ríkisstjórninni með því að sameina ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála við ráðuneyti iðnaðarmála.

Síðan gerist það að fulltrúar órólegu deildarinnar í Vinstri grænum — sem eru reyndar uppnefni vegna þess að þeir eru sá hópur í þingflokki Vinstri grænna sem er annt um loforð sín og stefnu flokksins og vilja framfylgja henni en ekki stefnu Samfylkingarinnar — brugðust illa við og sættu sig ekki við vinnubrögðin. Þá var þessu stóra pólitíska ágreiningsmáli innan ríkisstjórnarinnar slegið á frest. Málið var auðvitað ekki leyst en því var slegið á frest. Þess vegna sitjum við uppi með frumvarpið sem við ræðum nú, þ.e. það sem eftir er af upphaflegu frumvarpi.

Það væri kannski að æra óstöðugan að fara yfir hversu illa undirbúið og illa unnið málið er. Það er búið að fara yfir það nákvæmlega í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar og í umræðunum en fyrst og fremst í yfirlýsingu sem hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og sjálfur Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem ber þetta mál fram, fóru yfir og lögðu fram á þingflokksfundi Vinstri grænna og síðar í þingsalnum. Þar fóru þeir yfir það að frumvarpið væri svo illa unnið, svo ófaglegt og það skorti svo mikið á samráðið að ekkert í málinu uppfyllti kröfurnar og skilyrðin sem sett eru um undirbúning og frágang lagafrumvarpa í handbók sem sjálft forsætisráðuneytið gaf út.

Það virðist vera þannig að hvorki formaður hv. allsherjarnefndar, sem sér ekki einu sinni sóma sinn í því að vera viðstaddur umræðuna því miður, né ríkisstjórnin og þá kannski allra síst Árni Páll Árnason, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, af ástæðum sem ég ætla ekki að fara nánar yfir vegna þess að ég á lítinn ræðutíma eftir, að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafi aldrei lesið þessa bók. Að minnsta kosti verður ekki annað séð, þegar maður les frumvarpið og fer yfir hvernig það hefur verið unnið, að hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni sé ekki kunnugt um hvernig standa eigi að undirbúningi og frágangi lagafrumvarpa.

Þessir menn gagnrýndu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekkert að skamma stjórnarandstöðuna fyrir að gera athugasemdir við vinnubrögðin og taka þar undir með stjórnarþingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í.) — Ég tek eftir því að hv. þm. Róbert Marshall er genginn í hús og ég fagna því.

Nú spyrja þeir hinir sömu og gerðir voru afturreka með upphaflegt frumvarp: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera varðandi Stjórnarráð Íslands? Vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki beita ráðdeild og sparnaði í ríkisrekstrinum? Jú, auðvitað viljum við það. Við viljum spara og við erum reiðubúin að skoða hvort ekki megi minnka stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari og ódýrari. Ég efast reyndar um að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn í Samfylkingunni sem vilja ganga í Evrópusambandið telji að draga eigi mikið saman í stjórnsýslunni vegna þess að gangi Ísland í Evrópusambandið er viðbúið að íslensk stjórnsýsla þenjist út með tilheyrandi kostnaði. Við erum reiðubúin til umræðu um þetta en við viljum ekki gera það á þeim forsendum sem hér er lagt upp með í umræðum um kolómögulegt frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram í óþökk eigin ráðherra og ríkisstjórnarflokkanna beggja, a.m.k. að hluta.

Við skulum ræða þetta. Ég er reiðubúinn að leggja fram ýmsar hugmyndir um sparnað og ráðdeild í ríkisrekstrinum. Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til að ganga örugglega lengra en hæstv. utanríkisráðherra er reiðubúinn að gera. Ég er tilbúinn til að leggja fram jafnvel byltingarkenndar hugmyndir. Ég get alveg séð fyrir mér að Íslendingar komist af með færri ráðuneyti en í dag. Þau gætu t.d. verið forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og velferðarráðuneyti — sex ráðuneyti. Það má halda því fram að það sé hægt. Því fylgja kostir en líka gallar. En við gerum ekki slíkar breytingar nema að vel athuguðu máli og á grundvelli mikils undirbúnings.

Ég kvaddi mér hljóðs til að taka undir kröfur hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem hefur óskað eftir því að málið gangi til fagnefnda þingsins milli 2. og 3. umr. Sú krafa var kurteisislega fram sett af hálfu hv. þingmanns og forusta allsherjarnefndar hefur tekið vel í hugmynd hans. En ég vil ganga lengra, ég vil ganga mun lengra í samráði við aðila utan þingsins. Ég óska eftir því að málið verði sent til umsagnar til heilbrigðisstéttanna og starfsstétta sem heyra undir (Forseti hringir.) ráðuneytin sem fyrirhugað er að sameina samkvæmt frumvarpinu.



[14:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að stjórnarliðar taka ekki taka þátt í umræðunni. Ég hef ekki séð hv. formann allsherjarnefndar á svæðinu. Ég sé að vísu tvo glæsilega stjórnarliða í salnum og vonast til þess að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við þá. Um stöðuna á stjórnarheimilinu segir ekkert nýtt í frumvarpstextanum. Með leyfi forseta segir á bls. 5:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Það átti að nýta sumarið til samráðs. Það var ekki gert, virðulegi forseti. Þetta var ekki einu sinni sent til umsagnar hagsmunaaðila. Þá vitna ég í þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Norræna velferðarstjórnin sendi málið hvorki til skjólstæðinga félags- og tryggingamálaráðuneytisins né heilbrigðisstéttanna til umsagnar.

Ég vil að einhver úr meiri hlutanum útskýri af hverju það er. Ég fer fram á útskýringar á því af hverju frumvarpið var sent til umsagnar bænda, útvegsmanna og endurskoðenda, en ekki heilbrigðisstétta. Þar er fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Hvers vegna er það?

Menn segja ástæðuna fyrir frestun atvinnuvegaráðuneytis, sem er kannski rökréttast, vera harðari andstöðu umsagnarhópanna. Þeir sem eiga að nýta þjónustu risaráðuneytisins, sem er með 52% af ríkisútgjöldunum, fá ekki að koma fram með sín sjónarmið. Af hverju er það, virðulegi forseti? (Gripið fram í: Það er læknir í hliðarsalnum Spurðu hann.)

Virðulegi forseti. Mér er bent á að hér sé hv. þingmaður sem er jafnframt læknir. Kannski hann útskýri fyrir okkur af hverju það er. Hann er örugglega ekkert verr til þess fallinn en einhver annar stjórnarliði.

Er staðan hjá þessari svokölluðu norrænu velferðarstjórn orðin þannig að fólki er alveg sama? Er enginn af stjórnarliðunum sem fylgist með umræðunni sem finnst þetta athugavert? Er ástandið orðið svona? Þetta er eitt þessara mála sem við þurfum að klára til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Það þarf að ýta þessu frá. Er ástandið orðið þannig? Finnst þeim þetta eðlilegt? (Gripið fram í.) Engir sem þurfa á þjónustu velferðarráðuneytisins svokallaða að halda fengu þetta sent til umsagnar. Hins vegar fengu hagsmunaaðilar í útvegi, bændur og endurskoðendur að tjá sig. (Gripið fram í: Forréttindastéttirnar.) Já, virðulegur forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar: Forréttindastéttirnar. Það er rétt. Það er augljóst hjá norrænu velferðarstjórninni að ekki sitja allir við sama borð.

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa meira því að ég er að reyna að fá einhverjar röksemdir í málið. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 4:

„Dæmin sanna að þær stofnanir sem sameinaðar hafa verið á undanförnum árum eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem glímt er við í ríkisrekstri í dag og stærri og öflugri einingar eiga auðveldara með að endurskipuleggja sig og takast á við breytingar. Þá er það einn af lærdómum af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þörf er á að efla ráðuneytin og ein leið að því marki er að stækka þau með sameiningu.“

Virðulegi forseti. Hér er talið mikilvægt að sameina ríkisstofnanir. Þessi ríkisstjórn stoppaði til dæmis sameiningu ríkisstofnana á heilbrigðissviði. Ég held að allir séu sammála um að það væri skynsamleg aðgerð. Það var fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að stöðva sameiningar. Síðan koma menn og þylja sömu þuluna af því að hún hljómar ágætlega. Þegar þeir hafa tækifæri til þess stöðva þeir það.

Hver trúir því, virðulegi forseti, að frumvarpinu sé ætlað að ná einhverjum árangri? Þetta er bara partur af pólitískum hrossakaupum. Frumvarpið á að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Þeir sem verða fyrir barðinu á slíkum hrossakaupum eru þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og þjónustu félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þvert á það sem segir í öllum þessum röksemdafærslum. Hér segir á hverri síðu: Lítil ráðuneyti eru of lítil. Við þurfum að sameina þau. Þetta segja stjórnarliðar ef þeir á annað borð fást til að ræða þetta. Ætla menn þá að sameina litlu ráðuneytin? Kannski iðnaðarráðuneytið eða slíkt ráðuneyti sem er með 1% af ríkisútgjöldum? Nei, virðulegi forseti, menn ætla ekki að sameina þessi litlu. Menn ætla að taka stóru ráðuneytin, heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið, og sameina þau. Fyrir þremur árum var heilbrigðisráðuneytið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Því var skipt og tryggingamálin færð yfir í félagsmálaráðuneytið af því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þótti of stórt. Það fór víst ekki vel saman að hafa heilbrigðis- og tryggingamálin saman. Hverjir skyldu hafa verið í ríkisstjórn þegar þetta var gert? Jú, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Hverjir lögðu mesta áherslu á það? Jú, það var Samfylkingin. (Gripið fram í: Og hvaða ráðherra?) Hvaða ráðherra skyldi það hafa verið? Gott ef það var ekki hæstv. forsætisráðherra. Nú hentar þetta hins vegar vel í þessum pólitísku hrossakaupum. Við skulum bara kalla þetta réttu nafni. Það liggur engin vinna til grundvallar frumvarpinu. Þessu var hent inn í þingið í vor og sagt: Verið róleg, sumarið verður nýtt til samráðs. Það var ekki gert. Svo langt var gengið að þeir aðilar sem þurfa mest á heilbrigðis- og félagsþjónustunni að halda fengu ekkert að segja. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef séð ýmislegt í þinginu og ýmislegt hefur verið gagnrýnt, en ég man aldrei eftir slíkum vinnubrögðum.

Hér er talið upp að sameina eigi stofnanir og annað slíkt en engar áætlanir eru um hvað á að sameina. Það er hægt að sameina á óskynsamlegan hátt. Það væri ekki gott að sameina t.d. Landspítalann og Landhelgisgæsluna. Það ynnist ekkert með því, þótt við skelltum lögreglunni með. Dæmi er um að farið verði í sameiningar stofnana sem væri óskynsamlegt. Ef við ætlum að gera þetta vel þá þarf að bæta stjórnsýsluna, virðulegi forseti. Við þurfum að skilgreina betur eftirlitshlutverk ráðuneyta gagnvart undirstofnunum. Það er gríðarstórt verkefni. Útgangspunkturinn er ekki sá hvernig hægt er að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar á milli mánaða. Hér hlaupa menn svo hratt að röksemdir þeirra standast enga skoðun í þessari stuttu greinargerð.

Ég hef áður nefnt samþættingu velferðarúrræða eins og heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Heimaþjónustan lýtur lögum sveitarfélaga þannig að slík samþætting eða sameining hefur ekkert með sameiningu ráðuneyta að gera. Ég hef skoða ýmislegt fleira sem ég vildi gjarnan fara yfir. Ég ætla nú ekki að biðja stjórnarliða afsökunar á því að ræða þetta mikilvæga mál hér, en það er augljóst að þeir hafa ekki áhuga á því.



[14:49]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Minni hlutinn fer mikinn í umræðum um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og brigslar meiri hlutanum um að reyna að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar eða standa í pólitískum hrossakaupum. Ef menn vilja standa við þau orð sín þykir mér þeir hafa lítið lært af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og af starfshópi forsætisráðherra þar sem stjórnvöld eru beinlínis hvött til að sameina ráðuneytin til að gera þau styrkari í að sinna hlutverki sínu. Við þessu er brugðist með frumvarpinu.

Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson talaði líka um að við værum nauðbeygð til að taka við nýjum ráðherrum inn í ríkisstjórnina. Hann var væntanlega að vísa í orð mín í fréttatíma sjónvarps í síðustu viku þar sem fréttamaður sneri spurningu upp í staðhæfingu og lagði mér orð í munn. Ég sagði það ekki, þvert á móti sagði ég að ég teldi mikilvægt að styrkja ríkisstjórnina með þessum hætti til að geta haldið áfram. En það er annað mál.

Sameining stofnana sem mun leiða af sameiningu ráðuneyta er mikilvægur liður í því að styrkja stjórnsýsluna í landinu. Við erum þegar farin að undirbúa sameiningu stofnana. Það vita t.d. þeir sem sitja í félags- og tryggingamálanefnd. Við höfum þar verið að ræða stofnanir á vegum núverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis. Ákveðið var að bíða með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins þangað til eftir sameiningu ráðuneyta til að geta horft víðar yfir sviðið við sameiningu stofnana.

Ég er sannfærð um að nýtt atvinnuvegaráðuneyti er mikilvægt lóð á vogarskálina við að byggja upp nýtt og öflugt atvinnulíf á Íslandi. Það er orðið mjög brýnt að horfa á myndina í stærra samhengi en nú er gert.



[14:51]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð ekki var við svar í þessu andsvari, kannski hef ég ekki tekið eftir. Hv. þingmaður segir að við eigum að skoða skýrslu rannsóknarnefndarinnar betur. Hv. þingmaður fer líka yfir að mjög mikilvægt sé að setja atvinnuvegaráðuneyti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að ekki er gert ráð fyrir því að við samþykkjum atvinnuvegaráðuneyti nú. Það er ekki í frumvarpinu. Það getur vel verið að það sé mjög skynsamlegt. Ég held að margt bendi til þess.

Ég vil vekja athygli á röksemdunum um að ráðuneytin séu lítil og þar af leiðandi ekki nógu sterk. Menn fara ekki eftir því ef þeir trúa að það sé vandinn. Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér stærð og umfang ráðuneytanna. Er verið að sameina iðnaðarráðuneytið sem er með 1% af ríkisútgjöldum? Nei. Er verið að sameina efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem er minna en 1%? Nei. Forsætisráðuneytið? Nei. Það er verið að sameina stærstu ráðuneytin. Er einhver hugsun í því? Hafa menn eitthvað lagt til grundvallar því að það sé skynsamlegt? Ætla menn að fara eitthvað yfir það hvernig ráðherra þurfi að haga sér og sínum störfum í því ráðuneyti? Það verður allt annað að vera með 52% af ríkisútgjöldunum sem er risaráðuneyti. Menn líta til útlanda og segja: Heyrðu, þetta er ekkert stórt miðað við útlönd. Þar eru menn með allt aðrar forsendur. Menn eru með aðstoðarráðherra og alls konar hluti þegar þeir eru með stór ráðuneyti. Hér ætla menn að halda dvergráðuneytunum, virðulegi forseti. Dvergráðuneytunum er haldið, en stóru ráðuneytin eru sameinuð.

Var ekki sagt í rannsóknarnefndarskýrslunni að styrkja ætti Alþingi og Alþingi ætti að vanda sig betur? Erum við að vanda okkur núna? Heldur einhver því fram? Segir hv. þingmaður að þetta sé boðleg vinna, að láta ekki einu sinni heilbrigðisstéttirnar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda segja álit sitt (Forseti hringir.) á málinu? Finnst hv. þingmanni það boðlegt? Ég vil bara fá að vita það. Og ég vil fá að vita af hverju þessir hópar (Forseti hringir.) fá ekki að segja sitt álit á þessu máli.



[14:53]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni að í þessari umferð er ekki verið að búa til atvinnuvegaráðuneyti. En eins og hann veit mætavel er það í farvatninu og mun gerast í byrjun næsta árs ef allt fer að óskum.

Ég held líka að skynsamlega sé að málum staðið við sameiningu þeirra ráðuneyta sem hér eru til umfjöllunar og stofnun nýrra ráðuneyta, velferðarráðuneytis og … (Gripið fram í: Innanríkis…) innanríkisráðuneytis, þakka þér fyrir. Sú sameining er hafin, þ.e. undirbúningur að henni er hafinn. Eins og þingmaðurinn veit mætavel er nýskipuðum ráðherrum ætlað að leiða þann undirbúning sem síðan tekur formlega gildi 1. janúar. Ég geri því ráð fyrir að nýskipaðir hæstv. ráðherrar muni þá fara af stað með samráðsferlið sem hv. þingmaður kallar eftir. (Gripið fram í.) Atvinnuvegaráðuneytið verður væntanlega skipað með sama hætti, þ.e. ráðherra verður settur yfir þau ráðuneyti sem ber að sameina, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytið, frá og með áramótum þannig að undirbúningur geti hafist. Þá verða litlu ráðuneytin sameinuð eins og hv. þingmaður kallaði eftir. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að byrjað sé á stóru ráðuneytunum — þau litlu verða sameinuð eftir áramótin. Þá verður til öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þegar sú mynd er fullbúin held ég að við komumst nær fagmennsku í íslenskri stjórnsýslu en nú er viðhöfð. (Gripið fram í.)



[14:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað hv. þingmann um að svara einni spurningu. Ég fer fram á að hv. þingmaður svari henni: Finnst hv. þingmanni boðlegt að senda ekki þetta frumvarp til fólksins sem nýtur þjónustunnar og á samskipti við heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið? Ég fer fram á að hv. þingmaður svari þessu.

Hér kom hv. þingmaður og sagði að hann teldi að þetta væri alveg prýðilega unnið. Ég vil að einhver stjórnarliði komi hér upp og útskýri hvað sé faglegt við að láta ekki heilbrigðisstéttirnar, ekki þá sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda og þá sem þurfa á þjónustu félags- og tryggingamálaráðuneytisins að halda gefa álit sitt. Hvað er boðlegt við að senda þessum hópum ekki málið til umsagnar?

Ég er búinn að kalla eftir þessu frá því í gær og er ekki einn þingmanna um það. Ef einhver hefur komið með röksemdina fyrir því af hverju þetta fólk fær ekki að segja álit sitt á þessu frumvarpi, ef einhver hefur gert það, vil ég biðja viðkomandi um að endurtaka það því að það hefur farið fram hjá öllum.

Tímasetningarnar sem stjórnarliðar settu sjálfir, virðulegi forseti, voru þær að sumarið yrði nýtt til samráðs svo að ég upplýsi hv. stjórnarliða um það. Það voru þeirra eigin áætlanir.

Ég vek athygli á því að stjórnarliðar tala fyrst og fremst um hvað sé mikilvægt að setja atvinnuvegaráðuneyti. En út af pólitískum hrossakaupum milli ríkisstjórnarflokkanna er því sleppt. (Forseti hringir.)



[14:57]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í andsvör við hv. þingmann Guðlaug Þór Þórðarson vegna þeirra orða sem hafa fallið í þessari umræðu sem lúta að fjarveru minni. Ég hef fylgst sérstaklega vel með umræðum í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar, enda reyni ég að missa aldrei af ræðum hv. þingmanns. Maður þarf ekki að vera lengi þingmaður hér til að átta sig á því að þar fer þingmaður sem hefur yfirburðaþekkingu á öllum málefnum Alþingis — öllum málaflokkum sem fjallað er um. Það eru fáir sem vita betur, fáir sem eru jafnhneykslaðir og sárreiðir yfir fákunnáttu okkar hinna þingmannanna sem fjöllum og vélum um málefni þingsins. Þess vegna reyni ég að hlýða með athygli á málflutning hv. þingmanns.

Það sem ég ekki skil í ræðu hans er sú ítrekun að engar heilbrigðisstéttir hafi fengið málið til umsagnar vegna þess að í inngangi að nefndaráliti er sérstaklega talið upp að málið hafi farið í umsögn til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, til Lyfjastofnunar, Lýðheilsustöðvar, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarráðs, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi. Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við með þeim málflutningi að telja upp í hvert skipti sem hann kemur í ræðustól að eingöngu bændur, sjómenn og endurskoðendur hafi fengið málið til umfjöllunar? Sá málflutningur er verulega villandi miðað við staðreyndir málsins.

Það væri líka óskandi að hv. þingmaður reyndi e.t.v. að stilla skap sitt í umræðum hér í þinginu. Það væri áferðarfagurt.



[15:00]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því sem hv. þingmaður sagði hér og ég hvet ykkur til að lesa þennan lista í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar. Svo skuluð þið sem lesið þetta segja okkur frá því hvort heilbrigðisstéttirnar séu þarna. Heilbrigðisstéttir eru ef ég man rétt, rúmlega 30. Heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstofnanir eru ekki það sama, virðulegi forseti. (VBj: 33.) Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir þekkir þetta mætavel, þær eru 33. (Gripið fram í: Er annað fólk sem vinnur ...) Virðulegi forseti. Ég vil ekki vera að kenna hv. þingmanni og formanni allsherjarnefndar neitt, af því að ég veit að hann hefur yfirburðaþekkingu á mjög mörgu, en ég legg til að hann setjist niður með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og ég veit að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir getur sett hv. þm. Róbert Marshall inn í það hvað eru heilbrigðisstéttir. Ég gerði nú ekki meira, ég setti mig bara aðeins inn í hvað eru heilbrigðisstéttir ... (Gripið fram í.) Ja, augljóslega veit ég þetta betur en hv. þingmaður, en ég hringdi í Læknafélagið og Félag hjúkrunarfræðinga vegna þess að ég skildi ekki af hverju engar umsagnir voru frá þeim. Þar var ég upplýstur um að þau hefðu ekki fengið neitt um málið. Svo hringdi ég í Öryrkjabandalagið, þar höfðu menn ekki fengið þetta til umsagnar. Það er allt annað en þessar stofnanir. (Gripið fram í.) Það er allt annað en þessar heilbrigðisstofnanir. Þegar við erum að ræða heilbrigðismál eða félagsmál finnst okkur skynsamlegt að fá sjónarmið þessara aðila, vegna þess að þetta eru þeir sem þekkja hvað best til. Ég veit að hv. þm. Ólafur Gunnarsson getur sett hv. þm. Róbert Marshall inn í þetta líka. Þetta er kannski allt einn stór misskilningur og væri bara gott að þeir (Gripið fram í.) sem vel þekkja til innan stjórnarliðsins færu yfir þetta með þeim sem kannski hafa ekki sett sig jafn vel inn í þetta.



[15:02]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins nefna það, af því að nú stefnir í að þessari umræðu sé að ljúka, að kjarninn í gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þetta frumvarp lýtur ekki að því að það sé verið að sameina ráðuneyti eða þeirri meginhugmynd að sameina beri ráðuneyti, eins og ráða mátti af orðum hv. þm. Önnu Margrétar Guðjónsdóttur áðan. Við erum ekki ósammála þeirri meginstefnu. Það var það sem hv. þingmaður vitnaði í þegar hún var að vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu starfshóps forsætisráðherra frá því í vor. Við erum ekki ósammála því. Við erum ekki að gagnrýna það. Það sem við gagnrýnum er að ráðist skuli í þetta verkefni, þennan frumvarpsflutning núna án þess að vinna þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til þess að slík sameining eða slíkar breytingar séu líklegar til að skila árangri. Við höfum farið yfir það í þessari umræðu og tilgreint hvað séu eðlileg viðmið í því sambandi. Við höfum vísað í það að ríkisstjórnin sjálf hefur sett sér ákveðin viðmið í því sambandi. Það hefur verið samstaða um ákveðnar leiðbeiningarreglur sem forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og skrifstofa Alþingis gáfu út árið 2007 þar sem er að finna útfærðar hugmyndir eða útfærðar tillögur um það hvernig á að standa að málum af þessu tagi. Þær hugmyndir sem þar koma fram eða tillögur, leiðbeiningar, hafa ekki verið pólitískt umdeildar og eru ekki pólitískt bitbein. Menn hafa verið sammála um að þetta væru góð vinnubrögð. Það sem við höfum bent á er að frumvarpið stenst engar af þessum kröfum. Það er einfaldlega þessi gagnrýni sem við höfum haldið á lofti sem hefur gert það að verkum að við höfum vakið athygli á vanköntum þessa máls. Það er einfaldlega þetta sem gerir það að verkum að við teljum langeðlilegast að ríkisstjórnin taki þetta mál aftur til sín.

Meiri hlutinn á þingi virðist hins vegar hafa náð saman um að lenda þessu máli og lætur sér í léttu rúmi liggja þó að hinum fögru fyrirheitum um vönduð vinnubrögð, faglega stjórnsýslu, lýðræðislegt samráð og hvað þetta allt heitir sé ekki fylgt í praxís. Meiri hlutinn á Alþingi lætur sér það í réttu rúmi liggja, það er ákvörðun þess meiri hluta og hann gerir það upp við sig og axlar á því pólitíska ábyrgð. En meiri hlutinn getur ekki kveinkað sér undan því að við vekjum athygli á þessu. Meiri hlutinn getur ekki kveinkað sér undan því þó að hér eigi sér stað nokkur umræða á þessum forsendum, vegna þess að hluti af verkefnum okkar á þingi felst einmitt í því að leggja mat á lagafrumvörp, ræða þau, ekki bara út frá pólitískri meginstefnu heldur líka út frá gæðum. Við eigum að leggja gott til málanna að því leyti. Við eigum að benda á vankanta. Við eigum að hafna óvönduðum frumvörpum, eða það hefði ég haldið. Menn geta verið sammála um markmið þó að menn telji að vinnan sem liggur að baki útfærslunni sé ýmist engin eða ekki nægilega góð. Það er tvennt ólíkt og við megum ekki rugla því saman.

Í þessari umræðu hefur málflutningur stjórnarliða að svo miklu leyti sem hann hefur komið fram í þinginu engu bætt við og engu svarað þeim gagnrýnisatriðum sem við höfum komið fram með á þessu sviði. Engu hefur verið svarað í þeim efnum.

Ég nefndi áðan að kallað hefði verið eftir því að við legðum fram okkar útfærðu hugmyndir í þessum efnum. Við getum slengt fram alls konar hugmyndum eins og ég nefndi áðan. Við getum slengt fram alls konar fullyrðingum um að það hljóti að nást sparnaður með því að gera hitt og þetta. Við höfum hins vegar ekki forsendur til þess að rökstyðja slíkar tillögur. Það sem við köllum eftir er að ríkisstjórnin, ráðuneytin sem ættu að hafa yfir að ráða bolmagni, sérfræðingum og krafti, peningum til að láta vinna slíka vinnu fyrir sig, það sem við erum að kalla eftir er að ríkisstjórnin geri þetta, vinni heimavinnuna áður en málið kemur inn í þingið. Sú gagnrýni af okkar hálfu stendur. Meiri hlutinn kýs að hafa hana að engu. Það verður svo að vera. Það er hins vegar fremur ómaklegt (Forseti hringir.) að stjórnarandstaðan þurfi að sæta því að vera með einhverjum hætti gerð ábyrg fyrir málsmeðferðinni í þessum efnum þegar legið hefur ljóst fyrir frá upphafi að við höfum talið að senda ætti málið (Forseti hringir.) aftur heim til flutningsmanna og forgöngumanna frumvarpsins og láta vinna það áður en það kæmi hingað inn.



[15:08]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður fór yfir og dró saman mjög vel nokkur þeirra atriða sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í ræðu minni, einmitt hvaða málflutning við sjálfstæðismenn höfum haft uppi í þessari umræðu og þær athugasemdir sem við höfum gert við þetta frumvarp. Ég ætla ekki að endurtaka það, þingmaðurinn fór vel yfir það, en þetta lýtur m.a. að skorti á samráði og vinnubrögðum sem við gerum alvarlegar athugasemdir við. Ég sakna þess að sjá ekki hv. formann allsherjarnefndar hér — hann er væntanlega niðri í þingflokksherbergi hjá Samfylkingunni að horfa á þessa ræðu þannig að ég treysti því að það fari ekkert fram hjá honum — vegna þess að ég vil gera athugasemd við ræðu hans áðan í andsvari við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þar sem hann sýndi, að mér fannst, yfirgengilega mikinn hroka í garð þingmannsins og allt að því hæddist að honum. Umræddur þingmaður getur alveg svarað fyrir sig sjálfur, ég ætla ekki að fara að taka það að mér.

En ég vil gera athugasemdir við þetta vegna þess að í framhaldi af því sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan þá er það hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að benda á það sem okkur þykir athugavert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það er hlutverk okkar hér. Við tökum það hlutverk mjög alvarlega. Og þegar við gerum það þá koma, eins og hæstv. utanríkisráðherra hagaði sér í andsvari, m.a. við þá sem hér stendur, ekkert nema útúrsnúningar og það helsta sem hæstv. ráðherra kom með sér til málsvarnar vegna gagnrýni á skort á samráði var: „Þetta var miklu betra heldur en þið gerðuð það, manstu ekki hvernig þetta var? Þetta var miklu verra hjá ykkur.“ Hann var eins og lítill götustrákur, hæstv. ráðherrann.

Það er algjörlega með ólíkindum að þegar ríkisstjórnin er komin út í horn og henni er bent á að svona eru hlutirnir ekki gerðir, kemur alltaf: „Já, en þið gerðuð þetta miklu verr.“ Fyrirgefið, var ekki ætlunin hjá þessu fólki að bjóða sig fram til þess að viðhafa önnur vinnubrögð, snerist þetta ekki allt um að það átti að gera hlutina betur en áður var? Ég hélt að það hefði verið það sem stóð hér upp úr hverjum einasta stjórnarþingmanni. Í frumvarpinu segir að sumarið hafi átt að nýta til samráðs. Við höfum farið vel yfir það hér að svo var ekki gert.

Það er annað sem ég vildi líka gera athugasemdir við vegna þess að bæði hæstv. ráðherra og hv. formaður allsherjarnefndar hafa gert mikið úr því að nú séu sjálfstæðismenn komnir í málþóf, stóra málþófið um Stjórnarráðið. Ég mótmælti því harðlega í ræðu fyrr í dag og ætla að gera það aftur. Í millitíðinni aflaði ég mér upplýsinga um hversu lengi þetta málþóf hefði staðið. Það er þannig að í umræðu um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, 1. og 2. umr. sem af er, hefur samtals farið heill vinnudagur opinbers starfsmanns og rúmlega það, átta klukkustundir og fimm mínútur í 1. og 2. umr. Þetta er nú allt málþófið. Hvernig geta menn reynt að halda því fram að verið sé að tefja mál, þæfa mál, þegar ríkisstjórnin kemur með illa undirbúið, algjörlega ófullburða mál inn í þingið þar sem það er tekið út úr nefnd í ósætti og er ekki klárað? Það hlýtur að vera lýðræðisleg krafa okkar í stjórnarandstöðunni að okkur sé alla vega sýndur sá sómi að ekki sé farið að kalla málefnalega gagnrýni málþóf, 2. umr. hefur staðið í fjórar klukkustundir og 45 mínútur. Þetta er nú allt málþófið.

Þess vegna vildi ég koma hér og biðja menn um að líta aðeins á þessar staðreyndir. Ég vil þakka fyrir eitt, og ég vona að það sé kannski fyrirboði um það sem koma skal, ég vil þakka fyrir það að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór í andsvar áðan og tilkynnti að á fundi allsherjarnefndar í hádeginu hafi sú beiðni verið tekin fyrir sem gerð hefur verið hér að umtalsefni, að málið verði tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og það sent til umsagnar annarra nefnda þingsins. Ég þakka fyrir það. Mér finnst það skref í rétta átt.

Ég vil biðja menn um að verða ekki svona viðskotaillir þegar kemur að því að svara fyrir vinnubrögð sem við erum að gagnrýna og koma frekar með svörin. Koma með svörin við því af hverju ekki var beðið um umsögn frá Læknafélaginu, af hverju ekki voru kallaðir til gestir. Hæstv. utanríkisráðherra var með svarið við því. Hann sagði að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki haft rænu á því. Mjög smart, mjög smekklegt af hæstv. utanríkisráðherra að taka svona til orða. Hvar var formaður nefndarinnar? Hver eru vinnubrögðin venjulega í svona máli? Í öllum þeim nefndum þingsins sem ég hef unnið hefur það bara verið viðtekið, án þess að menn hafi þurft að taka um það sérstaka umræðu og halda um það langar ræður, að kallaðir eru til gestir. Að ég tali nú ekki um mál þar sem í frumvarpinu stendur að sumarið verði nýtt til samráðs. Það hefði ég haldið og að á nefndadögum hefði tíminn verið notaður til þess að kalla eftir sjónarmiðum þeirra. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að fjöldamargar umsagnir, og ég las m.a. upp úr umsögn frá Landssambandi lögreglumanna, enda á þeim orðum að viðkomandi einstaklingur, stofnun eða félag sem skilar inn umsögn óski eftir því að koma á framfæri frekari athugasemdum og áskilji sér rétt til þess. Síðan er málið bara tekið út í ósætti, ófullbúið, og engum gefst tækifæri á að koma með frekari athugasemdir, vegna þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu væntanlega ekki rænu á að kalla eftir því.

Það sjá allir að svona vinnur maður ekki. Það er eflaust vegna þess að stjórnarliðar vita upp á sig sökina, sjá að þetta eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar. Þess vegna bregðast þeir svona við. Það er þess vegna sem þeir eru svona viðskotaillir. Það er þess vegna sem þeir nota tækifærið og koma í andsvar og hæðast að fólki. Ég get ekki séð neina aðra ástæðu fyrir þessu framferði.

Ég tek undir það sem fram kemur í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna að málið er vanbúið. Þetta mál er ekki tilbúið. Það er illa unnið og við gerum þá kröfu að það verði betur unnið og menn læri af reynslunni og vandi betur til verka. Það er okkur öllum í hag. Ég lýsi sjálfstæðismenn, hvort sem það er í allsherjarnefnd eða í þingsalnum, reiðubúna til að leggja því máli lið, vegna þess að eins og við höfum ítrekað í þessari umræðu, öll sem höfum tekið þátt í henni af hálfu Sjálfstæðisflokksins: Við erum ekki á móti breytingum á Stjórnarráðinu. Margt má betur fara þar og það er margt sem við getum öll lagst á um að gera úrbætur á. En gerum það þá þannig, byrjum ekki á öfugum enda eins og í þessu máli og svo mörgum öðrum. Það sem raunverulegt samráð þýðir er að menn hafi samráð áður en hlutirnir eru komnir út í ógöngur. Það hefur ekki verið gert.



[15:17]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kennslustundina í því hvernig beri að haga sér í þingsölum, hvað má segja og hvað má ekki segja, hvenær og klukkan hvað. Ég vil taka það fram að ég flutti einungis skilaboð hérna áðan um þessi mál. Það var frásögn mín af fundi í allsherjarnefnd í hádeginu um að þessum málum yrði vísað til allsherjarnefndar. Ég átti ekki frumkvæði að því.

Ég mótmæli hins vegar því sem hér kemur fram, að þetta mál hafi verið afgreitt í ósætti út úr nefndinni. Það var ekki afgreitt í ósætti út úr nefndinni, það var tekin lýðræðisleg ákvörðun. Það er alveg rétt að það var ekki samkomulag í nefndinni. Það er ekki alltaf samkomulag í þinginu. Það þýðir ekki að það sé ósætti, (Gripið fram í.) það eru mismunandi skoðanir og þegar að því kemur ræður afl atkvæða. Hv. þingmaður veit það vel. Það að hún sé ekki í meiri hluta, eða hennar fylgismenn, þýðir ekki að það sé eitthvert eilífðarósætti.

Ég lýsi því hér eins og ég lýsti áðan að ég held að sú sameining ráðuneyta sem hér er lögð fyrir leiði til góðs. Hv. þingmaður tók sjálfur fyrr í dag dæmi af Varnarmálastofnun sem liggur klárlega miklu betur við að koma í gagnið eftir að innanríkisráðuneytið verður komið á stofn.

Ég vil segja við hv. þingmann, fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, að ég held að þeir sem þurfa að leita til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis verði ekki verr settir að fara á einn stað en tvo. Það hefur einmitt mjög þvælst fyrir þeim sem þurfa að sækja slíka þjónustu (Forseti hringir.) að þurfa að leita á tvo staði.



[15:19]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skildi ekki alveg þetta með skilaboðin úr nefndinni. Misskildi ég að allsherjarnefnd hefði ákveðið að senda málið til frekari umsagna? Ég vona að ég hafi ekki verið að því vegna þess að það var það sem ég var að fjalla um í minni ræðu. (VBj: Það var ekki misskilningur.) Það er ekki misskilningur, gott.

Ég ætlaði mér ekki að vera með einhverja kennslustund hérna en mér ofbauð og hefur ofboðið í þessari umræðu hvernig þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram hefur verið tekið af hálfu stjórnarliða. Henni hefur verið svarað með því sem mér finnst vera skætingur. Það er rétt sem þingmaðurinn segir, það er hægt að lýsa hlutunum á tvo vegu, glasið er hálffullt eða hálftómt, annaðhvort er málið tekið út úr nefnd í ósætti eða afl atkvæða ræður og meiri hlutinn ræður. Menn geta alveg sett þetta fram með mismunandi hætti.

Það sem við gerum mestu athugasemdina við er að þetta mál er ekki búið. Vinnunni er ekki lokið. Þess vegna vona ég sannarlega að nefndin taki sér tíma núna og klári þetta. Það er einfaldlega rangt að halda því fram að við höfum verið hér í einhverri tafapólitík. Eins og ég sagði áðan hafði þessi umræða staðið yfir í fjórar klukkustundir og 45 mínútur áður en ég flutti mína ræðu. Um tafapólitík er því ekki að ræða.

Varnarmálastofnun var hér nefnd á nafn. Ég get ekki tekið undir það með þingmanninum að núna sé hún í betri málum vegna þess að það er búið að breyta heiti samgöngu- og dómsmálaráðuneytisins í innanríkisráðuneyti. Ég hef alltaf gagnrýnt þá framkvæmd með því að mér hefði þótt eðlilegast að byrja á því að stofna ráðuneytið og ákveða síðan hvaða verkefni ættu heima hvar en það var ekki gert og það að búið sé að breyta heitinu á þessu ráðuneyti breytir ekki þeirri skoðun minni.



[15:21]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja hér en vil bara lýsa því að ef Sjálfstæðisflokkurinn réði, ef hlustað væri á Sjálfstæðisflokkinn þar sem hann er í stjórnarandstöðu og í þeim málum sem hann leggur hér eitthvað til, gerðist ekki neitt vegna þess að það er alltaf vitlaus tími. Þau eru svo sem sammála öllum góðum efnum. Jú, það á að sameina, það á bara ekki að gera það núna. Það á ekki að gera það í þessari röð. Ég tel það ekki heppilegt núna. Þetta er svarið sem kemur alltaf frá sjálfstæðismönnum. Síðan tala þau um ósætti og allir eru vondir við þau.

Ég verð bara að segja, hæstv. forseti, að ef það eru ekki tafir að endurtaka hér aftur og aftur sömu ræðurnar, það kemur ekkert nýtt fram í neinni ræðu sem hér er flutt, veit ég ekki hvað tafir eru. Mér dettur ekki í hug að kalla þetta málþóf, kannski er fólk bara vant að vinna svona eftir að hafa verið mjög lengi á Alþingi og þá sýnist mér betra að skipta oftar. Þessi vinnubrögð hjálpa engum.



[15:23]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt í einu fékk ég svona —hvað heitir það? — déjà vu. Mér fannst ég stödd í Icesave-umræðu. Það hefur ekkert nýtt komið fram í allri umræðunni, heyrðum við allt seinasta sumar. Við vitum hvernig það mál hefur þróast síðan, endalaust verið að koma fram — (VBj: Þjóðinni til mikillar gæfu.) þjóðinni til mikillar gæfu, já, eins og var tekist á um hér í þessum (Gripið fram í.) stól fyrr í dag. (Gripið fram í.) Menn eru ekki sammála um það. Ég er algjörlega sannfærð um það og veit að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem tók hér til máls fyrr í dag er mér sammála um það.

Ég ætla að gera athugasemd við eitt, þingmaðurinn veit ekki hvað hún á að kalla þetta annað en tafir þegar menn koma — og ég nefni aftur tímalengdina, fjórar klukkustundir og 45 mínútur, og ég tek fram að það eru ekki allt saman sjálfstæðismenn, nokkrir stjórnarliðar hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þingmaðurinn kvartar undan því að hér sé verið að flytja sömu ræðurnar aftur og aftur. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að þetta er það sem kallast lýðræði, það eru skoðanaskipti. Ef við vildum (Gripið fram í.) að allt rynni hér í gegn án þess að um það yrði talað, án þess að ég fengi að segja það sem mér fyndist, jafnvel þótt einhverjum öðrum hefði orðið á að segja það áður — erum við ekki komin út á dálítið hála braut?

Ég er ekki að kvarta yfir því að allir séu vondir við Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að ríkisstjórnin sem kennir núna stjórnarandstöðunni um allt sem miður fer vegna þess að hún sjálf kemur ekki neinum málum í gegn ætti að líta í eigin barm. Ef það væri meiri hluti á þingi fyrir öllum þeim hlutum sem hún vill gera, ef það væri bara afl atkvæðanna sem réði, mundi stjórnarandstaðan þá hafa eitthvert afl til að þvælast fyrir? Nei, hún mundi ekki gera það. Hæstv. utanríkisráðherra kvartaði yfir þingflokki Sjálfstæðisflokksins undir minni stjórn. Ætli honum svíði ekki bara dálítið undan því að það sé verið að takast hérna aðeins á um mál, að hann sé farinn að (Forseti hringir.) þurfa að svara fyrir þau? Ég held að það sé pirringurinn.



[15:25]Útbýting:

[15:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er fínt að hlutirnir verði óhefðbundnir og ég tel t.d. (Gripið fram í: Það verður þá að vera …) sérstaklega nýtt að virðulegur forseti geri engar athugasemdir við það að menn fari í andsvör við aðra þingmenn en þá sem hafa verið í ræðustól. Ég met það sem svo að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafi verið að hita upp fyrir að fara í andsvar við þann sem hér stendur, en stór hluti af andsvari hennar við ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur gekk út á að gagnrýna það sem ég sagði.

Bara til að svara því að það sé svo miklu betra að fara á einn stað í staðinn fyrir tvo þegar núverandi ríkisstjórn sameinar heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneytið er bara kjörið að setja mennta- og menningarmálaráðuneytið þar undir líka. Við þekkjum að fólk fer oft á báða staðina og ef við höldum áfram að fara yfir þetta er kannski best að stofna bara eitt allsherjarráðuneyti þannig að aðilar þurfi ekki að sækja á marga staði.

Ef við hefðum áhuga á því að gera þetta almennilega mundum við nefnilega gera úttekt á þessum hlutum, úttekt á því hvar hlutirnir skarast og hvernig best væri að eiga við það. Oftar en ekki hefur þetta að gera með persónuleg samskipti, bæði embættismanna, innan ráðuneyta, milli ráðuneyta, milli stofnana, innan stofnana, og sömuleiðis persónuleg samskipti ráðherra. Það breytist ekki þótt menn hræri í stjórnkerfinu. Við þekkjum öll ótrúleg dæmi þess að verið er að tefja fyrir málum og þau hafa hreinlega verið sköðuð út af smákóngaveldi eins og oft hefur verið kallað.

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir að taka upp hanskann fyrir mig, en það er rétt hjá henni að ég er algjörlega rólegur yfir því að hv. þm. Róbert Marshall sýni mér hroka í ræðustólnum. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt, sérstaklega þegar hann afhjúpar í kjölfarið eigin vanþekkingu í þeirri sömu ræðu. Ég ætla ekkert að fara að karpa hér við hv. þm. Róbert Marshall. Eina sem ég bið hv. þm. Róbert Marshall um er að senda þetta mál til heilbrigðisstéttanna, til þeirra aðila sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda. Það sama á við um félags- og tryggingamálaráðuneytið. Bara kurteislega fer ég fram á það. Þetta er ekki það sama og heilbrigðisstofnanirnar.

Mönnum geta orðið á mistök, það er bara ekkert að því. Úr því að enginn kemur hingað og ver þessa ákvörðun hljóta að hafa orðið hér pínleg mistök. Þetta fólk er með öflug samtök, flestar þessara 33 heilbrigðisstétta, og sömuleiðis það fólk sem þarf á þjónustunni að halda svo ég taki nú þann geirann, og kemur örugglega með sjónarmið og álit sem geta nýst okkur í þessari vinnu.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði að ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í stjórn væri ekkert gert af því að menn segðu að ekki væri hægt að gera þetta í tiltekinni röð o.s.frv. Við höfum bara lesið upp úr ykkar eigin frumvarpi um að sumarið yrði nýtt til samráðs. Árásirnar hafa nú ekki verið harðari en það að við höfum lesið orðrétt upp úr ykkar eigin frumvarpi. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að lesa upp úr frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að taka það nærri mér þegar hv. þingmaður finnur því allt til foráttu og kallar það ómálefnalegt — ég man ekki hvaða orð hv. þingmaður notaði, en á hv. þingmanni mátti skilja að það væri mjög óeðlilegt að menn ynnu með þessum hætti.

Umræðan um þetta mál hefur verið skammarlega lítil. Undirbúningurinn er fullkomlega ónógur og þetta er ekki til sóma. Þetta er ekki í anda þess sem við tölum oft um hér inni, ég tala nú ekki um á hátíðarstundum. Það er nauðsynlegt að breyta stjórnsýslunni. Ég er þeirrar skoðunar.

Það er svo auðvelt að gera mistök í þessu. Ég vona að eitthvað af þessu bjargist fyrir horn en það er rangt að byrja á þeim enda að raða ráðherrum og breyta síðan stjórnkerfinu eftir því. Við skulum byrja neðan frá. Hvernig eigum við að hafa þjónustuna? Við verðum að gera faglegar úttektir á því (Forseti hringir.) ef við ætlum að ná þeim árangri sem ég ætla okkur öllum að vilja ná.



[15:31]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni vingjarnleg orð í minn garð sem féllu í umræðum áðan þegar ég sat hér í hliðarsal. Ég trúi því að hv. þingmaður vilji að vel verði staðið að sameiningu þessara ráðuneyta og að þau sjónarmið sem þurfa að koma fram komist á framfæri. Ég vil því í fyrsta lagi spyrja hann í hverju áhyggjur hans af velferð heilbrigðisstéttanna, sem hann tiltók hér áðan, felast. Í öðru lagi hvort hann telji ekki að hægt verði að taka á þeim þáttum sem kynnu að koma fram í þeirri vinnu sem fara mun fram, nú þegar gengið hefur verið frá því að einn ráðherra, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, mun fylgjast með og stjórna því verki hvernig ráðuneytin verða sameinuð. Ég tel einboðið að í þeirri vinnu muni bæði þessi ráðuneyti fara mjög vel yfir þá þætti sem að málinu snúa. Ég held að áhyggjur þingmannsins séu þess vegna óþarfar.



[15:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir málefnalegt og gott innlegg. Ég vek athygli á því að ég hef haldið hér nokkrar ræður og þetta er í fyrsta skipti sem stjórnarliði kemur upp og spyr mig um rökstuðning fyrir einhverjum af þeim fullyrðingum sem ég set fram. Það þykir mér til fyrirmyndar og þannig eigum við að takast á hér eða ræða málin. Hv. þm. Ólafur Gunnarsson þekkir, út af öðrum störfum sínum, að það eru ekki orðin tóm að það borgar sig að hafa samráð, að það borgar sig að heyra sjónarmið aðila. Mér hefur alltaf fundist afskaplega mikilvægt að heyra sjónarmið þeirra aðila sem eiga samskipti við ráðuneyti.

Hv. þingmaður spyr mig af hverju ég hafi áhyggjur þarna. Ég efast ekki um að margt sem þarna kemur fram kæmi manni á óvart þó að maður þykist eitthvað hafa komið að þessum málaflokki. En ég tók nú í fyrstu ræðu minni sérstakt útlegg á því sem sá sem þekkir best til, mundi ég ætla, af Íslendingum fyrr og síðar, Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, benti á. Hún er, mér vitanlega, eini einstaklingurinn sem bæði hefur verið ráðherra og ráðuneytisstjóri og hún benti á hið augljósa að með stærri ráðuneytum muni völd ýmiss konar sérfræðinga, embættismanna og ráðuneytisstjóra aukast og erfitt yrði fyrir ráðherra að hafa yfirsýn yfir svo stóra málaflokka.

Þegar ég í ráðherratíð minni átti samstarf við erlenda ráðherra átti ég oft og tíðum samskipti við nokkra ráðherra. Einhverjir þeirra voru bara með forvarnir og annað slíkt á sinni könnu. Við erum með tiltölulega ungt stjórnkerfi, unga stjórnsýslu. Ég tel, svo að ég vitni aftur í það, afskaplega mikilvægt fyrir okkur að nálgast málin úr öfugri átt, þ.e. hvernig teljum við að stjórnkerfið geti best nýst þeirri þjónustu sem er til staðar í stað þess að byrja á toppnum, að ákveða ráðherrastólana og vinda þetta síðan einhvern veginn niður á við. Það held ég að sé röng leið.



[15:35]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þau svör sem þó komu. Þau voru kannski ekki efnismikil enda liggur það fyrir að hv. þingmaður er ekki endilega með hugmyndir um það fyrir fram hvað geti komið af athugasemdum eða áhyggjum. Ég held raunar að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur hvað varðar heilbrigðisstéttirnar. Ég tel að megininntak þeirrar stjórnsýslu sem snýr að heilbrigðisþjónustunni muni ekki í neinum grundvallaratriðum breytast. Ég hef heyrt það úti í samfélaginu, ég hef heyrt það á vettvangi, að heilbrigðisstéttirnar hafa ekki, alla vega eftir því sem ég hef heyrt utan að mér, af þessu stórar áhyggjur. Í rauninni held ég að menn taki þessu verkefni fagnandi.

Þegar menn eru að tala um það, eins og hv. þingmaður, að verið sé að búa til þvílíkt bákn og stórt kerfi er það rétt hjá honum að íslenska heilbrigðiskerfið eða velferðarkerfið er ekki sambærilegt við það sem gerist úti í heimi. Það er alveg hárrétt. En við skulum líka muna að á Íslandi eru miklu færri stofnanir, þ.e. miklu færri stórar stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustu. Við erum með eitt almannatryggingakerfi. Þannig að yfirsýnin yfir þetta mál, yfirsýnin yfir þessa málaflokka, er að mörgu leyti miklu einfaldari í íslensku kerfi en víða gerist erlendis. Ég held því enn aftur að þessar áhyggjur séu ekki nauðsynlegar. Ég virði þessar áhyggjur en ég held að þær séu ekki nauðsynlegar. Ég held hins vegar að tekið verði á þessum þáttum þegar sameiningarferli ráðuneytanna fer af stað. Ég held að það sé fagnaðarefni að geta komið því máli áleiðis og komið því í höfn.



[15:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þingmanni hafi fundist að ég færi ekki nógu vel yfir þetta á tveimur mínútum, ég bað því um orðið á eftir. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta. Ég tek því fagnandi að hv. þingmaður komi með málefnalegar athugasemdir við mínar ræður. Við eigum það sameiginlegt, ég og hv. þingmaður, að vitum ekki hvað kemur út úr slíku umsagnarferli. Það er það eina sem við erum alveg sammála um. Við vitum ekkert hvaða sjónarmið koma þar fram. Það litla sem ég hef heyrt í aðilum, og er ég ekki búinn að fara yfir það allt saman, er að menn hafa ekki mikið rætt saman. Nóg annað hefur verið á könnu þessara stétta og ekki hefur gefist tækifæri til þess að skoða þennan þáttinn.

Ef við ræðum þessi mál út frá þessum forsendum, heilbrigðismálin og félags- og tryggingamálin, tel ég mjög æskilegt að við mundum styrkja stefnumótunarferlið í þessum ráðuneytum og í þessum málaflokkum. Ég spyr hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson: Telur hann að það verði auðveldara og einfaldara að vinna þá þætti með sameinuðu ráðuneyti? Hv. þingmaður þekkir heilbrigðisgeirann mjög vel. Það er mjög ólíkt því sem gerist í félagsgeiranum. Við þekkjum það líka að við erum með heilbrigðisráðuneyti sem er mikið rekstrarráðuneyti. Telur hv. þingmaður að vinnan sem hér liggur til grundvallar sé í átt að því marki að styrkja eftirlitshlutverk ráðuneytisins gagnvart stofnunum? Ef svo er, hvernig? Ég sé ekkert um það hér. Ég sé ekkert um það í þessum gögnum eða í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Þetta eru nú bara tvær grundvallarspurningar. Ég held að ekki væri verra að ræða þær.



[15:40]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu en af því að mikið hefur verið rætt um bókun sem ég ásamt öðrum þingmanni og ráðherra Vinstri grænna setti fram, bæði í þingflokki VG við afgreiðslu þessa máls og líka hér í þinginu við 1. umr., langar mig að fara aðeins yfir þá bókun og á hvaða forsendum hún var gerð.

Þessi bókun var gerð í þingflokki VG þegar frumvarpið kom þangað inn. Það var mat margra þar að frumvarpið væri ekki fullbúið eins og það kæmi fram, menn hefðu ekki séð það — eða það kom réttara sagt fullbúið inn í þingflokkinn og menn, eins og til að mynda hv. þm. Atli Gíslason bentu á að vinnulagið við gerð frumvarpsins væri ekki eins og VG hefur lagt upp með hvað varðar svona mál. Í þessari bókun er fyrsti liðurinn, með leyfi frú forseta:

„Samning frumvarpsins og framlagning er í andstöðu við reglur samkvæmt reglu samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007.“

Þar vitnaði hv. þm. Atli Gíslason líka í ræður sínar og fleiri við stjórnarráðsbreytingar haustið 2007, eftirásamráð, þarfagreiningu og fleira sem skorti upp á við afgreiðslu frumvarpsins.

Nú hefur verið mikill skæruliðahernaður hér í þingsal í þessu máli. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að breyta ekki um vinnubrögð. Þingmenn núverandi meiri hluta gagnrýna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að þeir hafi stundað sömu vinnubrögð við afgreiðslu stjórnarbreytinga 2007.

Nú er það svo að rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði m.a. um starfshætti Alþingis, löggjafarþingið og framkvæmdarvaldið, og hve mikilvægt væri að skilja meira á milli starfsemi löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins hvað varðar vinnubrögðin og það hvernig svona mál verða til. Mín skoðun er sú að meðan það er bundið í lög eigi það að vera á þverpólitískum grunni sem breytingar á stjórnarráðinu eru framkvæmdar. Ríkisstjórnir koma og fara og ráðuneytum er ekki breytt og þau stokkuð upp á hverju ári því að slíkt krefst mikils undirbúnings og slíkt er í töluverðan tíma að ná að byrja að virka eðlilega. Það er enginn mótfallinn því að ná fram hagræðingu í stjórnsýslunni, síður en svo, þó að menn bendi á að hugsanlega þurfi önnur vinnubrögð í þessum efnum.

Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason, sem lagði fram þessa bókun, er þessa dagana ásamt fleiri þingmönnum mjög upptekinn í þingmannanefnd sem á að skila af sér í næstu viku. Ég veit að skoðun hans og okkar sem fluttum þessa bókun hvað varðar vinnulag í málum af þessu tagi hefur ekki veikst og frekar styrkst. Ég hef samt áhyggjur af því, miðað við umræðurnar hér á þinginu, að ekki sé raunverulegur vilji til slíks.

Ég fagna því þó að formaður allsherjarnefndar hafi í umræðunum í dag talað fyrir því og sagt að þessu verði vísað til undirnefnda því að þess var óskað hér við umræðuna. Við lögðum það til, hv. þm. Atli Gíslason, sá sem hér stendur og sjávarútvegsráðherra, og reyndar töluðu fleiri í þá átt, að eðlilegast væri að skipa vinnuhóp til að fara yfir Stjórnarráðið og skila frumvarpsdrögum og láta það verða til hér á þinginu eða til hliðar við þingið, koma með fullbúið frumvarp hér inn á haustþingið. Það var það sem við lögðum til og það kom fram við 1. umr. málsins.

Ég fagna því að málið fari aftur til nefndarinnar og hvet nefndarmenn alla til að leita þar umsagna, vísa málinu til annarra fastanefnda. Það er alveg rétt að menn hafa bent hér á kosti þess að búa til eitt stórt velferðarráðuneyti. Ég hef ekki dregið það í efa. Ég hef hins vegar ekki mjög djúpa og mikla þekkingu á því máli. Ég hafði sterkari skoðanir á þessu er varðar atvinnuvegaráðuneytið. Það komu upp hugmyndir varðandi matvælaráðuneyti, hugsanlega væri það skynsamlegra eða annað því um líkt. Ég hafði sterkari skoðanir á því og er með betri tengingu inni í þær atvinnugreinar og inn í þá starfsemi sem það ráðuneyti hefur.

Það breytti því hins vegar ekki að varðandi velferðarráðuneytið er mjög mikilvægt að haft sé fullt samráð við alla sem þar eru að baki. Þetta er gríðarlega stórt ráðuneyti. Það er með yfir helming af öllum fjárútlátum. Ég frábið mér það að menn séu sakaðir um það hér að þó þeir hafi lagt fram bókun sem þessa, eða hafi slegið einhvern varnagla við því hvernig svona sé gert, sé dregin upp sú mynd að menn séu alfarið á móti hagræðingu innan stjórnsýslunnar. Ég frábið mér slíkan málflutning og ég vil sjá þetta mál þróast áfram og unnið áfram í fullri sátt og að leitað verði umsagna og leitað verði til allra viðeigandi hagsmunaaðila varðandi framhaldið.



[15:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Svo maður játi bara á sig syndir var ég í þeim stjórnarmeirihluta sem samþykkti stjórnkerfisbreytingarnar 2007. Það er mín skoðun að við hefðum þá átt að vanda betur til verka. Ég get alveg farið yfir það ef menn hafa áhuga á því.

Hv. þingmaður fór mjög heiðarlega yfir málið, hann þekkir ákveðna málaflokka betur en aðrir og þannig er það bara. Mér sýnist að þeir sem þekktu vel til í atvinnuvegaráðuneytunum hafi komið sjónarmiðum sínum áleiðis en umræðan um velferðarmálin hafi verið miklu minni. Hv. þingmaður sagði eins og var, sem var mjög eðlilegt og heiðarlegt, að hann væri bara ekki búinn að skoða nógu vel það sem sneri að velferðarmálunum. Maður þekkir ekki alla málaflokka út í hörgul. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer rangt með en ég skildi hann þannig að hann styddi það að við fengjum álit frá hagsmunaaðilum í velferðarmálum um þetta ráðuneyti og sendum frumvarpið til umsagnar.

Hv. þingmaður vísar í þingmannanefndina og ég held að við séum öll sammála um að Alþingi hefði mátt vera sterkara, og má vera sterkara. Mér finnst það algjörlega á skjön þegar framkvæmdarvaldið setur síðan sína eigin rannsóknarnefnd í miðja vinnu þingmannanefndarinnar eins og gert hefur verið. Ég vildi fá að heyra hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni hvaða röksemdir væru fyrir því að ganga svona fram hjá þinginu í þessu máli. Við erum með þingmannanefnd sem er búin vinna mjög lengi (Forseti hringir.) og á að skila á næstu dögum.



[15:49]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt, ég hef ekki nægilega þekkingu þegar kemur að heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneytinu og treysti bara Alþingi, öðrum þingmönnum og undirnefndum til að fara betur yfir þau mál. Varðandi atvinnuvegaráðuneytið hef ég góða þekkingu á því og skil þær áhyggjur sem menn hafa í grasrót landbúnaðar og sjávarútvegs, ekki vegna atvinnuvegaráðuneytisins heldur þessarar ESB-umsóknar sem er reyndar að þróast upp í aðlögunarferli. Ráðuneytið mun þurfa að verja miklum tíma í umsóknina, bæta við sig mikilli vinnu og styrkja stjórnsýsluna. Menn hafa áhyggjur af því máli.

Varðandi þá nefnd sem forsætisráðuneytið skipaði og vitnað hefur verið í hér er það ekkert launungarmál, og ég hef sagt það í mínum þingflokki, að mér finnst mjög óeðlilegt að þingmannanefndin hafi ekki fengið að klára sína vinnu og að verið sé að skipa nefndir til hliðar með þessum hætti. Þingmannanefndin sem skipuð var og átti að fara yfir þessa skýrslu átti m.a. að skila inn í þingið tillögum að breyttum starfsháttum og breytingum á lögum. Það er einmitt það sem við erum að fara að ræða að ég hygg alla næstu viku, þ.e. niðurstöður þessarar þingmannanefndar. Hver veit nema það verði þá eitthvað varðandi Stjórnarráðið eða varðandi þetta vinnulag sem ég er að nefna hér?



[15:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ákvað í þessari umræðu að halda mig bara við frumvarpið en ekki ræða t.d. Evrópumálin þó að maður gæti sagt margt um þau og hvaða tíma við tökum núna í að fara í þau mál á þessum tíma. Ég ætla að sleppa því.

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að þetta er algjörlega þvert á það sem við höfum lagt upp með. Við á Alþingi erum hér með þingmannanefnd, við erum sammála um að það þurfi að styrkja stöðu þingsins og þá setur hæstv. forsætisráðherra upp einkanefnd með sínu fólki og ryðst fram með einhverjar tillögur löngu áður en þingmannanefndin lýkur störfum. Þess á milli tala menn um mikilvægi þess að styrkja þingið og að þingið megi ekki láta framkvæmdarvaldið vaða yfir sig. Þetta frumvarp er algjört skólabókardæmi um það, það getur ekki verið skýrara, að framkvæmdarvaldið veður yfir þingið. Það er niðurlægjandi fyrir hv. þingmenn sem taka þátt í þessu að láta ganga svona yfir sig.

Ég held að mistök okkar þegar við höfum breytt stjórnkerfinu hafi verið að byrja á öfugum enda. Til hvers erum við með ráðuneyti, hvað eiga ráðuneyti að gera? Það er grundvallarspurningin. Síðan getum við tekið einstaka þætti og valið þeim stað þannig að kerfið verði sem skilvirkast. Ef við skoðum hvernig þetta verður í framkvæmd og ef við lesum greinargerðina verður ekki séð að menn geti náð fram þessum markmiðum nema með því að stórfjölga starfsmönnum í ráðuneytunum. Ég get farið betur yfir það á eftir.



[15:53]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki ganga alveg eins langt og hv. þingmaður sem sagði að það væri ekki heiðarlegt af mönnum að styðja málið eins og það kemur fram hér. (GÞÞ: Ég …) Það sem ég hef áhyggjur af, líka eftir þessa umræðu hér og kom inn á áðan, eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins því að árið 2007 réðust þeir í stjórnarráðsbreytingar með sama hætti og hér er gert, án samráðs, án þess að þarfagreining færi fram og án þess að þetta væri unnið neðan frá eða leitað þverpólitískra lausna.

Ég vonast til þess að vinnubrögðin almennt breytist hér, þetta verði ekki þannig að öðrum megin við borðið séu þeir klárir í að gera þetta með þessum hætti, gagnrýnin komi frá stjórnarandstöðu og það skipti eiginlega engu máli hvaða flokkar skipi hana. Mín skoðun er sú að við breytingar á Stjórnarráðinu eigi að leita þverpólitískra lausna. Það var ekki gert þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd, það hefur heldur ekki verið gert núna og ég held að við eigum að vinna þetta mál áfram, það eigi að fara til þessara undirnefnda og fagnefnda, fá álit, taka það síðan til 3. umr. og sjá hvað kemur út úr því.

Ég ítreka líka miklar áhyggjur mínar af þingflokki Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.



[15:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að fá að heyra aðeins meira um áhyggjur þingmannsins af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, það kom eins og rúsína í pylsuendanum frekar óvænt í lokin á ræðunni. Þetta eru einhver ósjálfráð viðbrögð, held ég. Ég ætlaði samt ekki að gera það að umtalsefni.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn í þessa umræðu. Ef mig misminnir ekki er hann fyrsti fulltrúi Vinstri grænna til að taka þátt í þessari umræðu, a.m.k. núna við 2. umr. Nokkrir tóku þátt við 1. umr.

Það er gott að þessi sjónarmið koma fram og ég hef saknað þess að heyra þau. Það hefur verið mikið rætt um þessa bókun, það hefur verið mikið rætt um hvað mönnum hafi gengið til og það er ágætt að heyra það frá fyrstu hendi. Mér finnst málflutningur þingmannsins skynsamlegur og í góðu samræmi við það sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins — sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af — höfum haldið fram í þessu máli, þ.e. að vinnubrögðin megi bæta. Ég tek undir með þingmanninum, gerði það áðan í ræðu minni og vona að þetta verði tekið inn. Ég tek undir hvatningu þingmannsins til nefndarinnar um að vinna vel á milli 2. og 3. umr., fá álit og gesti og senda málið til rækilegrar umsagnar.

Mér finnst þetta miklu hollari skoðanaskipti og líka það sem þingmaðurinn sagði, að hann frábæði sér það að jafnvel þótt hann hefði skrifað undir þessa bókun væri hann sjálfkrafa stimplaður sem andstæðingur hagræðingar í Stjórnarráðinu. Við sjálfstæðismenn höfum einnig haldið fram því sama.

Þingmaðurinn minntist aðeins á Evrópumálin. Þá langar mig í lokin að koma með eina spurningu: Telur þingmaðurinn að þetta frumvarp, eins og það er núna eftir 2. umr., (Forseti hringir.) sé partur af aðlögunarferli því sem hann nefndi hér?



[15:57]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get byrjað á því að ítreka miklar áhyggjur mínar af þingflokki Sjálfstæðisflokksins og heilindum þingmannanna í því að vilja almennt breyta vinnubrögðum í þinginu en ekki einungis um stundarsakir vegna þess að flokkurinn er í stjórnarandstöðu. Ég held að bara einni spurningu hafi verið beint til mín vegna ræðu minnar og hún sneri að því hvort ég teldi þetta hluta af aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Ég tel svo ekki vera með beinum hætti, ég tel þetta frumvarp ekki hluta af aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Áhyggjur manna í sjávarútvegi og landbúnaði af þessu frumvarpi eru eðlilegar og einnig innan flokksráðs Vinstri grænna sem ályktaði um málið í janúar og taldi eðlilegt að taka þetta atvinnuvegaráðuneyti út vegna ESB-umsóknarinnar.

Menn hafa áhyggjur af því að þar sem ljóst er að þessir tveir málaflokkar, landbúnaður og sjávarútvegur, þurfa að taka mestum breytingum og taka mestan skell á sig ef við göngum í Evrópusambandið — sem ég hef ekki trú á að við gerum — veikist stjórnsýslan í þessum málaflokkum og vægi þeirra sjálfra sömuleiðis. Ég tel þetta ekki aðlögunarverkefni með beinum hætti. Bein aðlögunarverkefni eins og í landbúnaði eru t.d. þau að setja á fót greiðslustofnun í landbúnaði, byrja að undirbúa breytingar á styrkjakerfinu með það að markmiði að taka upp byggðastyrkjakerfi Evrópusambandsins. Þetta eru bein aðlögunarverkefni og þetta eru verkefni sem ég veit að menn höfðu í hyggju að yrðu hluti af þessum IPA-verkefnum en voru guðsblessunarlega slegin út af borðinu af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



[15:59]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir þingmaðurinn segja fréttir. Hann upplýsti í þessu stutta andsvari að ætlunin hefði verið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið færi í ýmis verkefni í aðlögunarferli að Evrópusambandinu en að þau hefðu verið dregin til baka. Ég minnist þess ekki að þetta hafi komið neins staðar skýrt fram. Ég þakka þingmanninum fyrir upplýsingarnar og ef ég fer rangt með leiðréttir hann mig.

Varðandi aðlögunarferlið og áhyggjur þingmannsins af atvinnuvegaráðuneytinu bið ég hann að halda sér áfram á tánum vegna þess að það er alveg skýrt og greinilegt á bls. 2 í meirihlutaáliti allsherjarnefndar að bæði iðnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra munu fá uppsagnarbréf. Það er talað um að um áramótin verði hægt að láta einn og sama ráðherrann gegna þessum störfum. Það finnst mér talsverð aðlögun þannig að ég held að þingmaðurinn þurfi að halda áfram að vera á tánum í þessu máli.

Varðandi áhyggjur hans af heilindum sjálfstæðismanna um að breyta vinnubrögðum vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að draga úr áhyggjum þingmannsins og ég get algjörlega fullyrt sem ég stend hér að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er mjög heill í því að vilja breyta vinnubrögðum á þinginu. Við höfum séð ýmislegt fara miður á undanförnum mánuðum og árum. Við höfum gert mistök í okkar stjórnartíð og við höfum farið vel yfir þau og lært af þeim. Það sem ég hef áhyggjur af er að ríkisstjórnin virðist ekki gera það, heldur er hún frábrugðin Emil í Kattholti sem gerði alltaf skammarstrikin sín bara einu sinni en ríkisstjórnin virðist vera einbeitt í því að gera sömu skammarstrikin (Forseti hringir.) aftur og aftur.



[16:01]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er einmitt þetta sem ég hef áhyggjur af varðandi hv. sjálfstæðismenn þegar fullyrt er að stjórnarandstaðan hafi lært af mistökunum en ríkisstjórnarflokkarnir ekki. Ég hef áhyggjur af Alþingi í heild sinni hvað þetta snertir og þetta virðist vera týpískt sett upp þess efnis að stjórnarandstaðan tali svona en ekki stjórnarmeirihlutinn. Ég hef áhyggjur af alþingismönnum öllum og Alþingi í heild sinni hvað þetta snertir. Ég held að við eigum öll að reyna að taka okkur á í þessum efnum.

Aðeins að þessum IPA-verkefnum. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem haldinn var nýlega til að fara yfir þessi IPA-verkefni nefndi ráðuneytisstjórinn, aðspurður, hvort embættismennirnir innan ráðuneytisins hefðu í samráði við utanríkisráðuneytið skoðað einhver möguleg IPA-verkefni til sögunnar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði hins vegar slegið þau af áður en sótt var um. Það er algjörlega rangt að sótt hafi verið um einhver aðlögunarverkefni.

Varðandi meirihlutaálitið og það sem fram kemur í því um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið treysti ég því bara núna að — Róbert Marshall upplýsti í umræðunum í gær að hann hefði ekki kynnt sér bókun tveggja þingmanna og eins ráðherra um þessi mál sérstaklega — við umfjöllun nefndarinnar muni hv. formaður hennar og nefndin öll kynna sér bókun þessara þriggja þingmanna og leita til samtaka og félaga í sjávarútvegi og landbúnaði áður en nefndarálit kemur hér inn til 3. umr.



[16:03]Útbýting:

[16:03]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af áhyggjum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar af þingflokki sjálfstæðismanna en bara til að lina þjáningar hans og áhyggjur held ég að þær séu með öllu ástæðulausar. Hins vegar sagði hv. þingmaður að hann vonaðist til þess að afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins væri ekki bara um stundarsakir meðan þeir væru í stjórnarandstöðu — var þá væntanlega að vísa í að Sjálfstæðisflokkurinn væri í leið í ríkisstjórn sem ég hef ekki trú á að gerist alveg á næstunni því að ég held að límið í þessari ríkisstjórn — sem ég ætla ekki að ræða hér — hangi eitthvað áfram þó að það sé ekki gott.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, og ég hélt að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefði tekið eftir því, að ég teldi það hafa verið mistök hvernig unnið var að stjórnarráðsbreytingunum 2007. Ég held því ekki fram að hver einasti þingmaður, 63 þingmenn, þurfi að vera nákvæmlega sammála um öll mál, en ég held að við hefðum náð betri árangri þá ef við hefðum lagt meiri tíma í undirbúninginn. Það hefði getað komið í veg fyrir núning, og orka hefði betur farið í annað en varð vegna þess að menn flýttu sér.

Svo ég hætti að tala um heilbrigðismálin, sem eru mér mjög hugleikin, og tali bara um atvinnumálin er ekkert útilokað, virðulegi forseti, að ef menn hefðu sest yfir málin 2007 — kannski var það samt þegar of seint — hefðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að t.d. viðskiptamálin væru nokkur hornreka í stjórnkerfinu. Það var of lítið eftirlitskerfi með viðskiptaráðuneytinu. Það er ekkert útilokað að ef við hefðum sest yfir það hefðum við komist að þeirri niðurstöðu.

Kannski hefði það ekki gerst. Ég man eftir að núverandi hæstv. fjármálaráðherra, þá og nú formaður Vinstri grænna, flutti ræðu þegar ríkisstjórnin var stofnuð og gerði sérstaklega grín að þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, sagði að hann væri hálfdrættingur því að hann væri með svo lítið og ómerkilegt ráðuneyti. Vinstri grænir töldu að þetta viðskiptaráðuneyti væri svo lítið og ómerkilegt að það væri hálfgert grín að vera ráðherra yfir því, það ætti frekar heima með einhverju öðru. Það var sjónarmiðið sem var því miður áberandi, menn áttuðu sig ekki á því að við sváfum á verðinum.

Ég heyri hins vegar að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill fá álit fleiri aðila og það er skynsamlegt. Það er hverjum manni ljóst sem hefur lesið þessi gögn og fylgst með umræðunum að þetta frumvarp er vanbúið, stjórnarliðar hafa gengið á bak sinna eigin orða. Hv. formaður allsherjarnefndar, Róbert Marshall, upplýsti í ræðu áðan að hann þekkti ekki til þess hvað væru heilbrigðisstéttir. Við höfum hins vegar tækifæri til að leiðrétta þetta ef við viljum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara yfir öll ráðuneytin, bæði stór og smá, og skoða sérstaklega hvað má gera, ekki bara í tengslum við þetta bankahrun heldur í tengslum við ríkisreksturinn almennt. Mér finnst að við ættum að vera búin að læra á undanförnum árum, t.d. af því hvernig fjárlög hafa verið framkvæmd, hvernig rekstri ríkisstofnana hefur verið háttað, að við þurfum að fara sérstaklega í það í tengslum við stjórnkerfisbreytingar. Ég vek athygli á því að í ráðuneytunum hefur alla jafna hver aðili ákveðna sérhæfingu varðandi ákveðna málaflokka. Við sameininguna eina mun ekkert breytast, starfsmenn fara með sín verkefni úr ráðuneyti A í ráðuneyti B. (Gripið fram í.) Ef ekkert annað gerist er það eina breytingin. Það eitt og sér er ekki nóg til að ná fram hagræðingu eða betri vinnubrögðum.

Við verðum að fara í grunninn á málinu. Því miður leggjum við ekki upp með það í þessu frumvarpi. Við erum ekki einu sinni að reyna að ræða það hér í þessum sal. Þau litlu orðaskipti sem við hv. þm. Ólafur Gunnarsson áttum um heilbrigðismálin eru bara dropi í hafið í þessu stóra verkefni því að þar má mjög margt betur fara. Ég (Forseti hringir.) hefði gaman af að heyra hv. þm. (Forseti hringir.) Ólaf Gunnarsson viðra skoðanir sínar hvað það varðar því að ég veit (Forseti hringir.) að hann hefur góðar skoðanir. (Forseti hringir.) Ég þekki störf hans á þeim vettvangi og þau eru um margt mjög góð.



[16:09]
Forseti (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir):

Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutíma.