138. löggjafarþing — 152. fundur
 7. september 2010.
skipulagslög, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 425. mál (heildarlög). — Þskj. 742, nál. 1464, brtt. 1465.

[16:09]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er dálítið sérkennileg tilfinning að koma í ræðu um frumvarp til skipulagslaga í ljósi þess hvernig mál hafa gengið fram á Alþingi frá því að þetta mál kom á dagskrá. Umræðan um það var brotin upp eftir framsögu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, formanns nefndarinnar, í gær sem var góð ræða og greinargóð yfirferð um vinnu umhverfisnefndar um þetta mál.

Sú umræða var brotin upp með því að tekið var fyrir frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu. Þar hefur gengið á ýmsu í orðræðu þingmanna. Í mínum huga er hægt að draga umfjöllunina saman, ekki efnislega heldur áferðina á henni, þannig að í þessum málum tveimur, því sem er til umræðu nú og því sem lauk áðan, að vinnan við gerð frumvarpanna í nefndum þingsins smitar örugglega inn í salinn. Þeir sem þurftu að verja tillögurnar í umræðunni um Stjórnarráðið báru gagnrýnendum á brýn að þeir héldu því fram að tíminn væri ekki sá rétti til breytinga, allir væru vondir við sjálfstæðismenn þegar við gagnrýndum þetta og ef sjálfstæðismenn réðu mundi aldrei neitt gerast. Ég held að þetta beri vott um veikleika í rökstuðningi stjórnarliða sem tóku að sér að verja tillögurnar sem lagðar voru fram. Þess sér stað í vinnu umhverfisnefndar við frumvarp til skipulagslaga að þar ríkir mikil samstaða og eining um þær áherslur sem nefndin vill koma á framfæri. Í stað þess að hafa áhyggjur af öðrum stjórnmálaflokkum eða öflum þá einsettu umhverfisnefndarmenn sér að hafa áhyggjur af viðfangsefninu sem þeim var ætlað að sinna og búa það sem best úr garði til að það gagnaðist þeim sem þyrftu að vinna á grundvelli löggjafarinnar sem sett yrði. Í mínum huga hefur það tekist mjög vel.

Það má t.d. sjá mjög vel í nefndarálitinu sem umhverfisnefndin stendur öll að og breytingartillögunum sem fylgir að vilji nefndarinnar — og ég vil ljúka lofsorði á formann nefndarinnar fyrir verkstjórn hans — hefur staðið til að draga úr því flókna og langa tímaferli sem þessum málum hefur verið búið, herða betur að stjórnsýslu bæði sveitarfélaga og ríkis og jafnframt gera ákveðnar breytingar í þeim anda sem sveitarfélögin hafa lagt til. Í mínum huga hefur þeim sjónarmiðum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einkum haldið á lofti, ásamt einstökum sveitarfélögum þar sem mest mæðir á, verið mætt mjög vel. Það tel ég mjög gott og er góð ávísun á framhaldið. Þetta eru þeir aðilar í stjórnkerfinu sem vinna mest á grunni þessara laga og þeir hafa gefið nefndinni umsögn sína. Það brennur mest á því fólki sem til nefndarinnar hefur komið sem gestir að framfylgja ákvæðum laganna sem Alþingi mun setja, verði frumvarpið að lögum að lokinni umræðu, sem ég ætla að verði.

Grunninn undir þessari miklu samstöðu um málið má örugglega rekja til þess að Alþingi hefur gefið sér tíma til að fara ítarlega í gegnum lagabálkinn allan. Segja má að unnið hafi verið að breytingunum, með miklum hléum, allt frá árinu 2002. Þó svo núverandi umhverfisnefnd hafi kannski ekki unnið mjög lengi er til mikil vinna, mikil þekking og gögn sem lúta að ýmsum áherslum í þessum efnum. Að sjálfsögðu er það nýtt til að gera þær breytingar sem við teljum að þurfi að gera.

Ég vil nefna sérstaklega í þessu sambandi nokkur atriði sem koma í mínum huga rækilega til móts við þau sjónarmið sem hafa verið uppi á undanförnum árum um helstu breytingar í lögum um skipulags- og byggingarmál. Þetta lýtur að styttra og einfaldara ferli, málsmeðferð eins og ég nefndi áðan. Það lýtur að gjaldtöku sveitarfélaga, sérstaklega vegna kostnaðar sem þau kunna að lenda í vegna skipulagsvinnu, og tillögu nefndarinnar um að styrkja fullnaðarafgreiðsluheimilda sveitarfélaga. Ég vil líka nefna málskotsrétt sem af hálfu sveitarfélaganna hefur verið óskað eftir, sérstaklega því sem lýtur að vinnu úrskurðarnefndar. Loks vil ég nefna verkefnisstjórn um gerð landsskipulags eða vinnu við landsskipulagsstefnu. Þetta eru allt atriði í mínum huga sem eru gríðarlega mikilvæg og ég ítreka að mér finnst hafa tekist vel til.

Þótt grunnurinn hafi verið ágætlega lagður og unnið lengi að þessu er samt ekki svo að ekki séu gerðar miklar breytingar á frumvarpinu. Það eru vissulega gerðar mjög margar breytingar í mörgum liðum. Breytingartillögurnar eru alls að held ég 29 töluliðir í ótal stafliðum einnig. Þær eru allar til bóta. Til tals hefur komið í nefndinni við lokaafgreiðslu að við gæfum okkur örstuttan tíma milli 2. og 3. umr. til að fara yfir ákveðin atriði sem standa kannski út af.

Ég vil nefna sérstaklega nokkuð sem lýtur að svæðisskipulagi og var töluvert rætt í nefndinni á síðustu metrunum. Aðstæður eru í rauninni þær að ágreiningur á milli einstakra sveitarfélaga getur stöðvað framgang svæðisskipulags. Það leiðir af þeirri einföldu staðreynd að sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags starfar í umboði íbúa sveitarfélagsins. Það er mjög flókið að búa til reglur sem skera úr ágreiningi með hlutlægum hætti á milli tveggja sveitarfélaga um gerð svæðisskipulags. Í raun má segja að það sé tæpast nema ein leið til að jafna slíkan ágreining. Það er einfaldlega að sameina viðkomandi sveitarfélög í eitt sveitarfélag eða eitt stjórnsýslustig. Það er í rauninni eina færa leiðin í stöðunni í dag miðað við óbreytt lög fremur en að búa til einhverja eina allsherjarreglu sem leysir okkur úr þeirri klemmu sem ágreiningur á milli tveggja sveitarstjórnasvæðisskipulaga skapar.

Ég vil nefna enn fremur nokkur atriði í breytingartillögum nefndarinnar og þá ætla ég að stoppa örlítið við landsskipulagið. Það er ekkert launungarmál að eins og frumvarpið var búið fyrr á tíð var þetta kannski stærsti þáttur frumvarps til skipulagslaga sem stöðvaði einkum sveitarfélögin í að vinna að framgangi þess. Nú liggur það fyrir í allnokkuð breyttum búningi en þó þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur verið málsvari sveitarfélaganna í þessum efnum, ásamt einstaka sveitarfélögum, er sammála þeim ákvæðum frumvarpsins sem lúta að landsskipulagi. Í vinnu umhverfisnefndar um landsskipulagið var gerð sú breytingartillaga að setja á laggirnar tímabundna verkefnisstjórn. Samkvæmt henni skipar ráðherra slíka verkefnisstjórn í samræmi við ákvæði reglugerðar sem hann setur um landsskipulagið. Ég fagna þessari tillögu sérstaklega og tel að hún geti hjálpað til við að jafna ágreining og skapa meiri sátt um verkefnið. Þegar við förum að sjá framan í það verkefni sem landsskipulagsstefnu fyrir allt landið er og ég tel mjög tímabært að vinna, þá verður ekki hjá því komist að gera málamiðlanir, fella saman ákvæði áætlana sem til eru á ýmsum sviðum ríkisins og það verður örugglega núningur mjög víða við hvort tveggja aðalskipulag og svæðisskipulag þar sem það á við.

Við sjáum þess raunar strax stað í dag hvernig svona ágreiningur getur komið upp. Ég hef undir höndum útskrift úr fundargerð skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað er um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar og aðalskipulagi í Mýrdalshreppi. Það er mjög forvitnilegt að lesa þá bókun. Niðurstaða nefndarinnar er að Vegagerðin hafi í raun úrslitavald varðandi gildistöku aðalskipulags. Í mínum huga er þetta mjög heillandi umræðuefni og viðfangsefni að kljást við, hvernig við förum með sjálfsforræði sveitarfélaga í skipulagsmálum og hvernig við getum samræmt það vilja löggjafans til að móta heildstæða stefnu fyrir allt landið í samgöngumálum og þegar við ræðum Vegagerðina. Eins og frumvarpið liggur fyrir gerum við ráð fyrir því að landsskipulagið sé unnið þannig að sveitarfélögin lagi skipulag sitt að slíkri stefnu þó svo það hafi fullar heimildir, og það er undirstrikað hér, til að rökstyðja niðurstöðu sína og andmæli ef um það er að ræða.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem ég vildi nefna varðandi breytingartillögurnar. Ég vek athygli á að í 5. gr. gerir umhverfisnefnd orðalagsbreytingu á hæfniskröfum þess einstaklings sem ráðinn yrði forstöðumaður Skipulagsstofnunar. Þar er gerð krafa um að viðkomandi hafi ákveðna tiltekna menntun. Verkefni forstjóra Skipulagsstofnunar er að bera ábyrgð á stjórn, rekstri og starfaskipulagi. Tilhneigingin er alltaf sú að setja líka inn menntunarkröfur. Ég er í grunninn fremur andvígur því vegna þess að ég tel að ráðherra sem í þessu tilviki sem skipar viðkomandi forstöðumann eigi einfaldlega að fara með það vald og ráða einstaklinginn á grunni þeirrar þekkingarkrafna sem ráðherra vill setja um starfið. Í mínum huga verður forstjóri Skipulagsstofnunar ekki endilega hæfari með skipulagsmenntun fremur en sérþekkingu eða sérmenntun á sviði rekstrar eða stjórnunar o.s.frv. Þetta er stór og mikil stofnun.

Ég geri ekki ágreining um þetta en vil nefna þetta sérstaklega vegna þess að þegar nefndin fór yfir frumvarp til laga um mannvirki þá fékk hún til fundar við sig ýmsar stéttir sem hver um sig gerði kröfur um það að réttindi þeirra yrðu styrkt í frumvarpinu. Ég tel að þetta sé angi af venju sem orðin er að setja menntunar- og hæfniskröfur inn í lagatexta. Að mínu mati á að reyna að koma í veg fyrir þetta og koma því fyrir með öðrum hætti. Ég tel að í umræðu um mannvirkjalögin ættum við í umhverfisnefnd að einbeita okkur að því að reyna að koma þeim málum í annan farveg en þarna er gert ráð fyrir.

Ég vil einnig nefna 20. gr. sem lýtur að gjaldtöku sveitarfélaga vegna vinnu við gerð skipulagsáætlunar. Nefndin leggur til að bæta við nýrri málsgrein sem yrði í rauninni 2. mgr. þar sem sveitarfélögin fá heimild til gjaldtöku. Ég vil strax taka fram að ég er mjög hlynntur því að þessi breyting verði gerð. Ég hef fengið ábendingar um að réttara væri að miða við það í greininni að gjaldið megi leggja á að skipulagsvinnunni lokinni í stað þess að gjaldið verði lagt á samhliða framkvæmda- eða byggingarleyfisgjaldi. Ég held að nefndin ætti að skoða hvort ekki væri rétt að gera orðalagsbreytingu hvað þetta varðar, t.d. þannig að innheimta gjaldsins sé heimil þegar sveitarstjórn hefur samþykkt viðkomandi skipulagsáætlun eða breytingu á gildandi skipulagi. Ástæðan fyrir þessum hugrenningum er einfaldlega sú að þó að skipulagsvinnan fari fram að beiðni framkvæmdaraðila er ekki öruggt að byggingar- eða framkvæmdaleyfi sé gefið út í beinu framhaldi. Framkvæmdaraðili gæti t.d. ákveðið að hverfa frá framkvæmdaáformum eða fresta þeim um einhver ár. Hagsmunir sveitarfélagsins eru hins vegar þeir að þetta tvennt sé aðskilið og gjaldið gjaldfallið þegar breytingin á aðalskipulagi hefur verið staðfest.

Síðan eru aðrar smávægilegar athugasemdir sem ég hef við 25. gr., það er fyrst og fremst um orðalag 4. og 5. mgr. þar sem er ákveðin tvítekning. Ég sakna þess líka varðandi 25. gr., sem við ræddum raunar í nefndinni, og líka í 32. gr., að ekki skuli vera tilgreindur frestur ráðherra til að afgreiða aðal- og svæðisskipulagstillögur. Ég held að við þurfum að ræða það í nefndinni sömuleiðis. Það eru ærin tilefni til að setja framkvæmdarvaldinu frest í þessum efnum því að við höfum dæmin um að stjórnsýslan hafi tekið sér óheyrilega langan tíma til að afgreiða tiltölulega einföld og saklaus mál þó svo vissulega hafi í sumum tilfellum verið full ástæða fyrir þeim drætti. Ég held að það sé góð stjórnsýsla að tilgreina fresti sem stjórnsýslan hefur til að afgreiða þau mál sem henni er ætlað að taka afstöðu til.

Ég vil í lokin undirstrika af hálfu okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd að við stöndum að nefndarálitinu og tillögunum sem hér eru lagðar fram. Við teljum að þær séu allar til mikilla bóta og teljum raunar að vinnan við frumvarpið hafi verið mjög góð. Eins og kemur fram í lok nefndarálitsins þá stendur eftir, sem hluti af þessum mikla frumvarpspakka, að vinna í mannvirkjalögum og lögum um brunavarnir. Það er vinna sem bíður okkar á næsta þingi. Hluti af verkinu sem hér er að ljúka er að ganga frá því. Vissulega eru mjög skiptar skoðanir um innihald þeirra laga. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lýst því yfir að við séum reiðubúnir til að vinna að framgangi þeirra án þess að við bindum okkur við niðurstöðu. Ákveðin atriði þurfa töluvert mikla yfirlegu og skoðun áður en við getum fallist á þau. En ég vænti þess, í ljósi þeirrar vinnu sem við höfum átt í umhverfisnefnd, að um málin muni nást góð sátt á endanum og eining ríkja því að í mínum huga hefur verklag nefndarinnar skilað okkur ágætu verki í frumvarpi að skipulagslögum.



[16:29]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um það verklag sem við var haft í umhverfisnefnd við vinnu þessa frumvarps. Það var til fyrirmyndar, góð samstaða náðist í nefndinni milli allra nefndarmanna, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á, þvert á alla flokka og þvert á alla pólitík. Ég held að óhætt sé að taka undir það hrós sem þingmaðurinn veitti formanni nefndarinnar.

Mikil vinna liggur þarna að baki. Mér telst svo til að einhvers staðar á milli 80 og 90 umsagnaraðilar og gestir hafi heimsótt umhverfisnefnd í vinnuferlinu og mörg sjónarmið komið fram. Vissulega eru sum sjónarmiðin dálítið sértæk og snúa kannski að sérmálum einstakra stétta eða á köflum einstakra sveitarfélaga eða aðila en það er líka allt í lagi. Það er allt í lagi að umhverfisnefnd hlusti á öll sjónarmið og það er vel og ég tel að svo sem hægt er í samvinnuverkefni eins og þessu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða og hlustað býsna vel.

Það er rétt að taka fram, eins og raunar hefur komið fram áður, að frumvarp um mannvirkjalög og brunavarnir er hluti af þessum sama pakka og þó að þetta frumvarp verði samþykkt er sennilega lagatæknilega séð ekki hægt að láta það taka gildi fyrr en hin frumvörpin hafa verið afgreidd. Ég beini því til hæstv. umhverfisráðherra að strax í upphafi næsta þings verði þau mál endurflutt þannig að nefndin geti strax hafið vinnu við að klára frágang þeirra til samþykktar á Alþingi þannig að öll þessi lagafrumvörp geti tekið gildi helst um næstu áramót.

Ég vil tæpa á nokkrum atriðum í frumvarpinu og breytingartillögunum. Mig langar fyrst að nefna þá umræðu sem fram fór í nefndinni um svæðisskipulag. Þar hefur ýmislegt verið rætt og kannski sérstaklega sá vandi sem er á svæðisskipulaginu að alla vega eins og er eru engin sérstök tæki til að höggva á þá hnúta sem kunna að myndast í svæðisskipulagsgerðinni. Þetta stafar náttúrlega af því að sveitarfélögin hafa algerlega óskorað forræði á sínu skipulagi. Það er ekki hægt að taka þann rétt af þeim og það var m.a. rætt í nefndinni að beina því til ráðuneytisins að vinna tillögur um það með hvaða hætti megi vinna svæðisskipulag og vinna úr þeim ágreiningi sem kann að myndast á milli sveitarfélaga. Ég sé að hæstv. umhverfisráðherra er genginn í salinn og ég beini því hér með til hæstv. ráðherra að þessi vinna fari í gang og verði unnin í ráðuneytinu.

Nefndin ræddi einnig mikið um gjaldtöku. Það fór fram ítarleg umræða um gjaldtöku og með hvaða hætti væri hægt að vinna úr henni. Ég tel að þær breytingartillögur sem komið hafa fram, m.a. við 20. gr., svari að mestu leyti þeim áhyggjum og athugasemdum sem komu fram um það með hvaða hætti væri, eins og menn mundu segja, „hægt að kaupa sér“ skipulag. Ég tel að bæði í nefndarálitinu og í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir sé tekið á þeim vanda sem þar getur skapast og ég held að það sé vel.

Nefndin ræddi einnig allítarlega um hugtakið hverfisskipulag og einnig um rammaskipulagsgerð. Það komu fram sjónarmið frá sveitarfélögunum um að hugtakið hverfaskipulag væri mikilvægt tæki fyrir þau. Ég tel að það sé algerlega til skoðunar og sé eitthvað sem megi vinna með áfram. Ég tel hins vegar að sú lending sem hér er, þ.e. að taka það ekki beint inn í lögin á þessu stigi málsins, sé ágæt en mikilvægt er að þessi umræða sé komin af stað og mikilvægt að þingið, ráðuneytið og sveitarfélögin í sameiningu vinni tillögur um þessa þætti, sem væri þá hægt að flytja á þinginu. Við gerum ráð fyrir að hægt verði að taka þær inn í næstu endurskoðun þessara laga, sem vel að merkja þarf ekki að vera svo ofboðslega langt undan, þ.e. ef menn eru í þeim gír.

Við ræddum líka um skipulagsmörk sveitarfélaga. Eins og staðan er núna gera lög ráð fyrir að skipulagsmörk sveitarfélaga miðist við netlög eða 150 metra eða 115 — ég man það ekki, 115 metra líklega — út frá netlögum. Við ræddum það allítarlega með hvaða hætti hægt væri að bregðast við því ef uppi væru hugmyndir eða áform um framkvæmdir og/eða mannvirki utan þess svæðis. Tökum sem dæmi vindmyllubúgarð eða eitthvað þess háttar, kræklingaeldi o.s.frv. Sú leið sem nefndin fer í breytingartillögu við 13. gr. frumvarpsins, er að sótt sé um, eins og fram kemur, með leyfi forseta:

„Því er lögð til sú breyting á 13. gr. frumvarpsins að sé framkvæmdaleyfi gefið út á svæði sem er innan 1 sjómílu frá netlögum skal leyfisveitandi leita umsagnar viðeigandi sveitarfélaga áður en leyfið er veitt.“

Ég tel að mjög mikilvægt sé að þessi klásúla komi inn í lögin því að þó að við séum kannski ekki tilbúin akkúrat á þessu stigi að víkka skipulagsmörk sveitarfélaganna út fyrir þessa 115 metra, út fyrir netlög, þá er mjög mikilvægt að Alþingi taki mið af því að á þessari öld munum við líklega fara í æ ríkari mæli að vera með bæði framkvæmdir og jafnvel mannvirki fyrir utan þessi svæði og því mikilvægt að löggjafinn horfi til þess að sveitarfélögin eigi þá að hafa eitthvað um það að segja.

Landsskipulag var einnig rætt mjög ítarlega, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á. Breytingartillaga við 10. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til þá breytingu á ákvæðinu að telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana geri hún rökstudda grein fyrir því. Rökstuðningurinn fylgi svo með skipulagstillögu þegar hún er send Skipulagsstofnun í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins.“

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að komið er aftur inn á það, sem ég ræddi um fyrr í ræðu minni, að skipulagsvaldið verður ekki tekið frá sveitarfélögunum. Ég þekki það frá hinum endanum, þ.e. frá sveitarfélagavængnum, að þegar frumvarp um skipulagslög kom fyrst fram á þinginu, líklega 2007 eða 2008, var einmitt rætt innan sveitarfélaganna hvort þar ætti með einhverju móti að rýra þennan rétt sveitarfélaganna. Ég held að þeim áhyggjum sveitarfélaganna sé svarað með þessu ákvæði.

Ég vil að lokum taka undir ábendingar hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um fresti sem talað er um eða öllu heldur skort á því að tala um fresti, ef við getum talað sem svo, í breytingartillögum við 25. og 32. gr. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að frestir séu tilgreindir og það sé ekki bara í lausu lofti hvenær ganga megi frá tilteknum atriðum í stjórnsýslunni, þ.e. að menn hafi ekki ótímabundinn rétt til að bregðast við.

Ég vil að lokum þakka nefndarformanni sérstaklega og nefndarmönnum fyrir gott samstarf og góða vinnu í þessu máli. Það mætti vera í fleiri málum á Alþingi að þetta góð samstaða næðist í nefndum um jafnmikilvæg mál og málaflokka eins og hér eru og ég vona að við getum haldið þessu áfram í nefndinni á milli 2. og 3. umr. ef til kemur.



[16:41]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í 2. umr. um frumvarp til nýrra skipulagslaga því eins og hv. þingmenn, bæði Kristján Þór Júlíusson og Ólafur Þór Gunnarsson, hafa nefnt er þetta orðið gamalt mál í þinginu og orðið mjög brýnt að við endurskoðum skipulagslög. Við vitum, bæði af þeim umsögnum sem nefndin fékk og öllum þeim fjölda gesta sem kom til okkar á fundi nefndarinnar, að það er orðið mjög brýnt fyrir sveitarfélögin að ný skipulagslög taki gildi.

Eins og aðrir hafa talað um var starfið í nefndinni sérlega gott og samstarfið einstaklega gott. Án þess að á nokkurn mann hátt sé hallað vil ég sérstaklega þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, ég held að það muni mjög mikið um að hafa í starfi eins og þessu mann eins og hann sem hefur svo langa reynslu af því að vinna að skipulagsmálum. Aðrir nefndarmenn hafa að sjálfsögðu líka lagt mikið af mörkum og ég held reyndar að nefndin sé sérlega vel skipuð til að takast á við nákvæmlega þetta verkefni eins og hún er skipuð í dag. Í henni eru margir með reynslu af sveitarstjórnarmálum og svo þekkja nokkrir aðrir vel til skipulagsmála út frá teóríunni og öðru því um líku.

Af því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vísaði í upphafi ræðu sinnar til umræðu um Stjórnarráðið vil ég koma inn á það núna bara örstutt að það er umhugsunarefni af hverju sveitarstjórnarmálin lentu á sínum tíma í samgönguráðuneytinu frekar en umhverfisráðuneytinu. Ég held reyndar að sveitarfélagamálunum sé vel fyrir komið í væntanlegu innanríkisráðuneyti, ég held að þau eigi vel heima þar, en ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei sjálf séð rökin fyrir því að samgöngumál og sveitarfélög séu spyrt saman eins og verið hefur undanfarin ár. Ég veit ekki hvort það endurspeglar einhverjar hugmyndir fólks um að verkefni kjörinna fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins séu fyrst og fremst samgöngumál, ég veit það ekki. Mér hefur alltaf þótt sveitarstjórnarmálin eiga betur heima með skipulagsmálum og þar af leiðandi heldur í umhverfisráðuneytinu en annars staðar. Þetta var aðeins utan dagskrár.

Eins og fram kemur í nefndaráliti allrar nefndarinnar eru gerðar nokkrar breytingartillögur. Um þær ríkir sátt að flestu leyti, eða öllu leyti má ég segja, en í framhaldi af því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson talaði um áðan, menntun skipulagsstjóra, vil ég segja að ég er afar ánægð með að við höfum náð sátt um að gerð sé krafa um háskólamenntun. Ég hefði reyndar viljað ganga lengra og segja að skipulagsstjóri ætti að hafa háskólamenntun á sviði skipulagsmála, annaðhvort þá arkitekt eða jafnvel miklu heldur skipulagsfræðingur. Ég tel að skipulagsmálin séu svo flókin að skipulagsstjóri ríkisins eða forstöðumaður Skipulagsstofnunar verði að hafa fagþekkingu á þessu sviði til að geta rækt starf sitt þannig að vel sé.

Aðrir þingmenn hafa rætt um skipulagsmörk sveitarfélaga og ég tek undir að það þarf að huga vel að þeim. Þau skipulagsmörk sem nú eru í gildi samkvæmt lögum eru byggð á, held ég að ég megi segja, aldagamalli hefð og hefur allt of lítið verið horft til þess að endurskoða skipulagsmörk sveitarfélaga. Mér segir svo hugur að í framtíðinni verði kallað í ríkari mæli eftir ýmiss konar atvinnuuppbyggingu utan landsteina, úti á sjó, og frumvarp um kræklingarækt sem var í meðförum þingsins í fyrrahaust er eitt af mörgum dæmum um það. Bent hefur verið á að þegar væntanleg vatnatilskipun Evrópusambandsins verður innleidd hér á landi kunni að koma upp ýmiss konar flækjustig við innleiðingu hennar og framkvæmd þegar þar fara að togast á skipulagsvald sveitarfélaga og skipulagsvald stjórnvalda. Ýmis rök hníga að því að færa skipulagsvald sveitarfélaga út fyrir þessa 115 metra, þ.e. út fyrir netlögin eins og þau eru nú. Í nefndaráliti kemur reyndar fram, sem er vel, samkvæmt upplýsingum, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin fékk þær upplýsingar frá umhverfisráðuneyti að verið væri að fara í norrænt samstarf við að skoða reglur á þessu sviði. Þá væri búið að stofna nefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem fulltrúi umhverfisráðuneytis ætti sæti í. Verkefni nefndarinnar væri m.a. að fara yfir þörf á löggjöf varðandi skipulagsmál á hafi og stefndi nefndin á að ljúka starfi sínu í lok þessa árs.“

Það er mjög gott og ég legg áherslu á að við höldum því til haga að skipulagsmörk sveitarfélaga verði færð lengra á haf út.

Stór breyting í þessu frumvarpi er landsskipulagið. Aðrir þingmenn hafa lýst ánægju sinni með það og ég tek undir það sjónarmið. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að hér verði tekið upp landsskipulag. Það verður auðvitað að hafa í huga að þetta fyrirhugaða landsskipulag, ef af verður, mun ekki lúta sömu reglum og önnur skipulagsstig, hvorki svæðisskipulag, aðalskipulag né deiliskipulag, heldur hefur í meðförum þingsins og væntanlega umræðunni allar götur frá 2002 verið einlægur vilji sveitarfélaga og ýmissa annarra að þetta verði meiri stefnumörkun en eiginlegt skipulagsstig enda heitir þetta samkvæmt 10. gr. frumvarpsins landsskipulagsstefna. Það er mjög skynsamlegt vegna þess að ég held að flestir þingmenn hér inni vilji virða sjálfsákvörðunarrétt og skipulagsrétt sveitarfélaga. Við tökum undir það í nefndaráliti og fögnum því.

Ef við hugsum til þess að hér á landi eru 77 sveitarfélög sem hvert um sig hefur sitt skipulagsvald með réttu er enn frekar mikilvægt að hér sé mörkuð stefna um landnotkun, enda er hugmyndin um landsskipulag fyrst og fremst hugmynd um landnotkun þar sem horft er vítt yfir sviðið. Í sjálfu sér er mjög sérkennilegt að við skulum ekki vera komin með landsskipulag nú þegar með öllum þessum litlu sveitarfélögum. Ef við horfum yfir okkar stóra land og okkar fámennu þjóð er óskynsamlegt að vera ekki með heildarsýn yfir landnotkun. Undanfarin ár erum við að sjálfsögðu búin að reka okkur á ýmiss konar hagsmunaárekstra í landnotkun, og þeim árekstrum á örugglega eftir að fjölga.

Við ræddum í gær um landnýtingaráform í ferðaþjónustu á hálendinu og hún er að sjálfsögðu mikilvægt innlegg í umræðuna um landsskipulagsstefnu. Síðan segir í greinargerð með frumvarpinu að megintilgangur landsskipulagsstefnu sé að setja fram stefnu um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum og í 10. gr. frumvarpsins um landsskipulag segir einnig, með leyfi frú forseta:

„Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og er hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar …“

Ef við hugsum út í allar þessar áætlanir hins opinbera sem ég taldi hér upp og skipulagsáætlanir 77 sveitarfélaga sér hver maður í hendi sér að það verða hagsmunaárekstrar og það verður ákveðið kaos. Þess vegna ítreka ég nauðsyn þess að umhverfisráðherra leggi í upphafi kjörtímabils, eða eigi síðar en tveimur árum eftir að ráðherra kemur til valda, fram drög að landsskipulagsstefnu. 77 skipulagsáætlanir sveitarfélaga eða aðalskipulög fyrir utan allar aðrar áætlanir opinberra aðila þarf að samræma með einhverju móti og það þarf að setja leiðarljós um það hvert skuli haldið.

Þegar fyrsta stefna um landsskipulag verður unnin af nefnd sem sérstaklega verður skipuð þar um ef frumvarpið nær fram að ganga mun sú nefnd vitaskuld taka mið af fyrirliggjandi áætlunum bæði sveitarfélaga og stjórnvalda. Á einhverjum tímapunkti, og það er reynsla annarra þjóða, mun verklagið að sjálfsögðu snúast við að vissu marki, þ.e. sveitarfélögunum er gert eins og segir í frumvarpinu að taka mið af landsskipulaginu þannig að á einhverjum tímapunkti mun þetta snúast við frá því að landsskipulagið horfi fyrst og fremst til þess sem fyrir er. Menn munu við aðra áætlunargerð taka mið af landsskipulaginu.

Það er rétt að undirstrika að í þingsályktunartillögu um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt sem var lögð fram í fyrrahaust segir, með leyfi forseta:

„Með sóknaráætlun skal ríkisstjórnin samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu.“

Margir gætu haldið að þarna væri verið að nefna til sögunnar á tveimur stöðum sama hlutinn þannig að ég vil af þessu tilefni undirstrika að það er reginmunur á þeirri hugsun sem felst í landsskipulagsstefnu og sóknaráætlun. Landsskipulagsstefna er eins og ég sagði áðan stefna stjórnvalda um landnotkun; hvar frístundabyggðin getur verið, hvar þéttbýliskjarnarnir skulu styrktir, hvar stóru stofnbrautirnar skulu liggja o.s.frv. en sóknaráætlun felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins, þ.e. ef okkur lánast að leggja fram sóknaráætlun eins og lagt var upp með samkvæmt þessari þingsályktunartillögu og sem ég hef fulla trú á að verði, hef reyndar haft af því spurnir að það gæti orðið síðar í næsta mánuði, verða þar lögð fram fyrstu drög að sóknaráætlun sem er þá eins konar fjárfestingaráætlun sem byggir að verulegu leyti á væntanlegri landsskipulagsstefnu.

Þarna fetum við í fótspor annarra þjóða sem hafa svipaðan hátt á, þ.e. víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við hafa menn innleitt landsskipulagið og er ánægjulegt að við ætlum að stíga það skref núna.



[16:55]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum sem hér talaði fyrir ræðuna en ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg samhengið sem hún taldi vera annars vegar á milli sóknaráætlunarinnar, sem stendur í þingsályktunartillögu þeirri sem bent var til, og hins vegar landsskipulags sem fram kemur með ákveðnum fresti og fjallar um tiltekna hluti eins og ég hef skilið landsskipulagið. Það verður landsskipulag eins og hún rakti, held ég, um ákveðna þætti í landnýtingu og landnotkun. Ég hef ekki haft fréttir af þessu og mér þætti vænt um að hv. þingmaður skýrði betur hvað átt er við með þessu. Ég hef litið á sóknaráætlunina sem hér hefur aðeins verið talað um sem pólitíska stefnumótun en landsskipulag sem vissulega pólitískar ákvarðanir en ákvarðanir af öðru tagi, í meira samráði og til lengri tíma en mér hefur sýnst að eigi við um það sem kallað er sóknaráætlun í þessari þingsályktunartillögu.



[16:57]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Með framsögu minni var ég að vísa til þess að í nágrannalöndum okkar, þar sem við höfum leitað fanga og leitast við að læra af, hafa menn lagt landsskipulag sem grunn að landnýtingu, eins og bent er réttilega á, til langs tíma, til 12 ára í senn. Nú er það ekki ákveðið til hve langs tíma sóknaráætlunin verður mörkuð en sóknaráætlun felur eins og segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi frú forseta, „í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði“.

Ég lít svo á, og það er skilningur held ég að megi segja allra þeirra sem hafa unnið eftir sóknaráætlun, að til þess að geta lagt áherslu á og mótað stefnu á hvaða svæðum landsins skuli lögð áhersla á t.d. þennan og hinn atvinnuveginn hljóti að þurfa að byggja á landnotkunaráætlun, þ.e. hvar á landinu menn telji t.d. helst að eigi að vera frístundabyggð. Þegar það liggur fyrir í landsskipulagi geta menn sagt að þarna verði sérstök áhersla í fjárfestingum í innviðum, svo sem samgöngum, upplýsingatækni eða öðru því um líku, sérstök áhersla á það sem heitir þá frístundabyggð samkvæmt landsskipulagi. Þetta er uppbyggingaráætlun byggð á landnotkun.



[16:58]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er mjög spennandi. Eitt af því sem vekur mesta eftirtekt í þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er auðvitað landsskipulagið. Ekki er allt fengið með því að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum því að síðan á eftir að vinna úr því og hvernig tekst til um það verður áhugavert og skiptir miklu máli.

Ég hef skilið þetta þannig með landsskipulagið, t.d. hvað varðar frístundabyggð af því að hv. þingmaður talaði um hana, að þar verði ekki ákveðið hvar frístundabyggð eigi að vera, einmitt ekki, það verði ekki sett niður á kort, hvorki í smáum mælikvarða né stórum, hvar heppilegt sé að hafa frístundabyggð heldur verði í landsskipulaginu kveðið á um það hver eigi að vera skilyrði þess að sveitarfélag geti sett frístundabyggð niður í skipulagið sitt, hverjar séu forsendurnar fyrir því að það verði gert. Ég held að þeir sem að frístundabyggðamálum hafa hugað séu sammála um að það sé gríðarleg þörf á þessu því að frístundabyggð hefur einmitt aukist hér og tútnað út með ýmsum hætti sem er ekki endilega heppilegt fyrir þau sveitarfélög sem koma að málum eða þá sem eiga að vera í frístundabyggðinni.

Ég verð að viðurkenna að mín hugmynd um landsskipulag passar ekki alveg við það að landsskipulag virki eitthvað með í sóknaráætlun einstakra ríkisstjórna. Hins vegar hjálpar landsskipulag í einstökum þáttum þegar þau eru orðin nokkur og sveitarfélögin eru farin að vinna í samræmi við þetta landsskipulag sem þau hafa átt þátt í að móta. Þá hjálpar það öllum hlutum, þar á meðal atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu.



[17:00]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að okkur hv. þm. Mörð Árnason greini ekkert stórkostlega á um hvað landsskipulag er. Með orðum mínum var ég að vísa til greinargerðar með frumvarpinu.

Þar segir um 10. gr., frú forseti:

„Þá er lagt til að í landsskipulagsstefnu verði gerð grein fyrir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Skort hefur á að fyrir liggi á hverjum tíma yfirsýn yfir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu, svo sem yfirlit um dreifingu og stærð frístundabyggðasvæða og húsbygginga til mismunandi nota, um skógrækt o.fl. Lagt er til að í landsskipulagsstefnu sé tekið saman slíkt almennt yfirlit til upplýsingar fyrir almenning og stjórnvöld og til leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir við skipulagsgerð.“

Í mínum huga er þetta þar af leiðandi grunnur undir gerð sóknaráætlunar fyrir landið í heild og einstök sóknarsvæði landsins en landinu hefur nú verið skipt upp í átta mismunandi sóknarsvæði. Hugmyndin með sóknaráætlun er sú að þar verði fjármunum hins opinbera beint inn á sóknarfæri einstakra svæða. Þegar þetta fer saman, landnýtingaráætlun og sóknaráætlun, fjárfestingarstefna og uppbyggingaráætlun, erum við komin með býsna góð tæki til að vinna að frekari framförum í okkar góða landi.



[17:02]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ný skipulagslög. Það er ekki nýtt að hér á þinginu komi þau til tals, ég held að ég fari rétt með það að þetta sé — þetta gæti verið alla vega fjórða þingið, ef ekki það fimmta, sem þau renna hér inn, þessi upphaflegu, sambærilegu frumvarpsdrög sem síðan eru smátt og smátt að taka á sig mynd og verða hugsanlega að lögum í framtíðinni eða á næstu dögum.

Það er kannski rétt að nefna það í upphafi að vegna þess hversu lengi þessi mál hafa verið til umfjöllunar, skipulagslögin og mannvirkjalögin og hugmyndir að þessari sundurgreiningu, að hugmyndafræðin á bak við lögin er kannski orðin átta eða tíu ára gömul og það hefur auðvitað komið til tals í umræðunni að kannski hefði verið skynsamlegast að henda þeim til hliðar og byrja upp á nýtt og búa til alveg nýjan grunn. En ég held að það hafi samt verið niðurstaða allra, ekki síst þeirra sem þurfa að vinna eftir lögunum, að það sé betra að fá þessi lög inn sem fyrst eftir að það er búið að fara vel og gaumgæfilega yfir þau, en hugsanlega hefja í staðinn endurskoðun á heildarpakkanum frá grunni, eins óskemmtilega og það hljómar í eyrum ráðherra og ráðuneytis að hefja þessa vinnu aftur. Þá er ég að velta fyrir mér þeim hugmyndum sem menn hafa komið með um að það sé nauðsynlegt að allur þessi pakki um skipulagsmál og umhverfismat áætlana og mat á umhverfisáætlunum og eins þá mannvirkjalögin séu í einum heildarpakka. Það hafa komið fram nokkrar ábendingar til okkar í nefndinni um það.

Ég vil áður en lengra er haldið hrósa bæði núverandi og fyrrverandi formönnum umhverfisnefndar og nefndarmönnum öllum fyrir gott starf í þessari nefnd. Ég sat í henni fyrir hönd framsóknarmanna í vor og svo aftur núna síðsumars ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Við skiptum á milli okkar þessum verkum og ég vil lýsa því yfir hér að það var farið vel yfir sviðið af öllum nefndarmönnum og undir styrkri stjórn formannanna þannig að ég held að menn séu nokkuð samstiga um — enda hefur það komið fram í umræðunni í dag, það sem ég náði að heyra og hlusta á — að hér sé komið fram það plagg sem við getum látið halda áfram, sem er náttúrlega nýmæli miðað við það sem áður var þegar þessi skipulagslög enduðu alltaf í uppnámi. Aðallega var það nú reyndar vegna landsskipulagsins eða landsskipulagsáætlana, hvernig þær voru, en nú er frumvarpið komið hér inn í öðrum búningi, búningi sem sveitarfélög landsins og við margir hv. þingmenn getum sætt okkur við.

Í nefndarálitinu er auðvitað farið yfir helstu nýmælin í þessu frumvarpi og þau felast í auknu samráði og kynningu auk þess sem það var meiningin að auka skilvirkni og sveigjanleika. Allt eru þetta falleg orð en klárlega er það þó þannig að þó nokkrir hlutir sem við komum inn í frumvarpið og nefndin var sammála um eru til þess gerðir að bæði auka skilvirkni og sveigjanleika.

Einnig eru nokkur nýmæli, þar á meðal skilgreiningar á einstaka hugtökum eins og um landslag og sjálfbæra þróun, svo eitthvað sé nefnt. Helsta álitamálið — og ég ætla ekki að lengja málið, menn hafa farið skýrt yfir þetta í dag — er klárlega þáttur um landsskipulag sem hér er kominn inn. Hann er auðvitað mjög mikilvægur, ég hef verið á þeirri skoðun lengi að það sé nauðsynlegt að hafa landsskipulagsstefnu með einhverjum hætti, að menn viti hvert þeir stefna og sveitarfélög hafi þá eitthvað til að styðjast við. En það er líka jafnmikilvægt að segja það hér að þessi landsskipulagsstefna á ekki að grípa inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þess vegna þurfum við að fara varlega af stað í þessu máli og feta þennan stíg varlega. Umræðan hér áðan um samþættingu sóknaráætlana og stýringu á einstökum hugmyndum eða framkvæmdum er einmitt þess eðlis að á sínum tíma fældi hún frá stuðninginn við landsskipulag. Við þurfum því að fara varlega inn í þetta og það er afar mikilvægt að í 10. gr. 4. mgr. er sveitarfélögum, sem er auðvitað skylt að fara yfir endurskoðun aðalskipulags í upphafi kjörtímabils, skylt að athuga hvort það samræmist þá landsskipulagsstefnunni, en þá geta sveitarfélögin rökstutt sig frá því að fylgja henni í einu og öllu og það er afar mikilvægur punktur.

Annar mikilvægur punktur kom inn á nefndarstiginu frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um sérstaka verkefnisstjórn. Ég held að það hafi verið ákaflega skynsamleg tillaga að slík stjórn færi með yfirstjórnina á þessu landsskipulagi. Það er sem sagt tortryggni í garð ríkisins á öllum sviðum, ekki síst hjá sveitarfélögunum, og það er mikilvægt að menn geti stigið þarna varlega til jarðar og Skipulagsstofnun, sem eðlilega mun vinna hluta af vinnunni, sé ekki sett við það borð að þurfa bæði að vinna landsskipulagið frá A til Ö, leggja það til og síðan verja það gagnvart sveitarfélögunum og dæma um það hvort aðalskipulag sveitarfélaga sé sambærilegt.

Síðan eru ákvæði um gjaldtöku sem eru mörg hver áhugaverð. Til að mynda ákvæði um skipulagsgjald. Það hefur gjarnan og lengi verið gagnrýnt mjög harðlega, ekki síst af þeim sem byggja, að þegar þeir eru búnir að öllu fái þeir reikning fyrir einhverju gjaldi frá sýslumanni sem heitir skipulagsgjald, sem er umtalsverð upphæð að þeirra mati, og þeir bölva þá sveitarfélögunum og skipulagsnefndum sveitarfélaga fyrir vikið en þetta hefur ekkert með það að gera, þetta rennur til ríkisins. Mikilvægt er að þetta gjald komi fyrr til greiðslu þannig að réttur aðili greiði það og að menn átti sig líka á því fyrir hvað er verið að greiða. Skipulagssjóður blandast hér inn í líka, það skiptir máli og ég ætla að nefna það hér, og það kemur nú fram í nefndarálitinu að sveitarfélögin fá endurgreiðslur úr þessum Skipulagssjóði með mismunandi hætti. Sennilega fá flest eða öll stóru sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu 50% beint úr Skipulagssjóði, og líklega Akureyri og Akranes líka, en önnur sveitarfélög hafa ekki fengið að komast í þann pott þrátt fyrir að hafa sótt um það. Þau hafa sem sagt þurft að fara aðra leið, að semja um endurgreiðslu. Þetta er eitthvað sem er vert að skoða, hver tekur ákvörðun um þetta og á hvaða grundvelli slík ákvörðun er tekin. Það er ekki auðvelt að setja það í lagatexta með hvaða hætti nákvæmlega slíkt jafnræði sveitarfélaga þarf að vera en það þarf að vera.

Síðast en ekki síst, og ég ræddi það líklega við 1. umr. hér í vor, þá setti nefndin inn nýja breytingartillögu um að setja fram gjaldtökuheimild vegna skipulagsvinnu og það er ákaflega mikilvægt. Það má nefna að þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að Skipulagssjóður standi undir öllum þessum greiðslum og að menn geti sótt í hann, ganga til að mynda ekki. Það má nefna að sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur gat ekki sótt í þann sjóð vegna þeirra framkvæmda og skipulagsvinnu sem þurfti að fara í vegna virkjanaframkvæmda, hann hafði ekki rétt til þess vegna þess að um endurskoðun og breytingu á aðalskipulagi var að ræða. Ég held að þetta sé nauðsynleg gjaldtaka og menn geta auðveldlega rökstutt að það sé nauðsynlegt fyrir sveitarfélög stór sem smá að geta innheimt eðlilegt gjald vegna útgjalda sem þau verða fyrir vegna áhuga einhverra framkvæmdaraðila til þess að fara í uppbyggingu.

Síðan er mjög mikilvægt atriði í þessum lögum en það er að Skipulagsstofnun getur staðfest aðalskipulag og svæðisskipulag og hefur að hámarki fjórar vikur til þess. Það hefur loðað við allt of lengi og í mörg ár að fyrst fara málin til Skipulagsstofnunar í ákveðinn tíma og síðan til ráðuneytis og ráðherra. Það hefur valdið því að í mörgum tilvikum hefur tíminn sem í þetta fer orðið allt of langur og hann hefur líka verið ógegnsær, menn vita ekki hversu langan tíma þetta mun taka og ferlið hefur tekið allt upp í eitt og hálft ár. Það er auðvitað ómögulegt fyrir sveitarfélög að geta ekki vitað meira um slíkt.

Síðan er eðlilega inni að hægt sé að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra vegna staðfestingar á aðalskipulagi og svæðisskipulagi og það er miklu eðlilegri leið. Eins að málið fari til ráðherra ef Skipulagsstofnun synjar skipulagi staðfestingar og það er einn þáttur sem ég held að við ættum að skoða milli 2. og 3. umr. Ég hef það ekki alveg á takteinum hvort sá tími sem ráðherra hefur þá til að fjalla um málið sé tryggður og ég held að það sé þáttur sem við þurfum að fara yfir, hversu langan tíma ráðherra hefur til að fara yfir mál vegna kæru um staðfestingu eða synjun Skipulagsstofnunar á aðalskipulagi eða svæðisskipulagi.

Aðrir þættir sem við þurfum aðeins að skoða milli 2. og 3. umr. eru til að mynda 4. mgr. 34. gr. Ef ágreiningur er milli tveggja aðliggjandi sveitarfélaga um aðalskipulag er inni nýmæli þess efnis að ráðherra geti úrskurðað um það. Ég held að það gangi of langt á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og ég held að við þurfum aðeins að fara yfir það hvort þetta sé ekki óþarfi. Við ræddum heilmikið í nefndinni um ágreining um svæðisskipulag sem ekki er hægt að leysa og við gátum ekki leyst þann vanda. Það er ekki auðvelt því að annars vegar er auðvitað löngunin til þess að geta fundið einhvern farveg til úrlausnar mála og svo hins vegar sú staðreynd að sveitarfélög og íbúar þeirra hafa sjálfsákvörðunarrétt og við getum auðvitað ekki tekið þann lýðræðislega rétt af þeim.

Í lokin langar mig að nefna nokkra hluti sem má segja að séu ekki endilega hluti af efni þessa frumvarps en kannski nauðsyn að skoða þá annars vegar í nefndinni og hins vegar að beina því til ráðuneytisins að skoða þá. Það er til að mynda einhvers konar samþætting Jarðaskrár sem liggur í landbúnaðarráðuneyti, Fasteignaskrárinnar og þinglýsingu sýslumannsembætta sem hefur verið unnið að síðustu tvö ár. Þessar þrjár skrár hafa á köflum verið mjög misvísandi og valdið því að erfitt er að fylgjast með því hvaða stöðu eignir hafa og hvort þær séu jafnvel til. Þetta er auðvitað ómögulegt og þyrfti að samþætta þessar skrár hjá hinu opinbera. Þetta er eitthvað sem við ættum kannski að nefna líka í nefndinni milli 2. og 3. umr.

Varðandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála voru uppi hugmyndir um að lengja þann tíma sem hún hefur að lögum, en í sjálfu sér má halda því fram að sú lenging sé hálftilgangslaus eða tilgangslítil þegar staðreyndin er sú að fyrirkomulag mála þar er þannig að það tekur jafnvel tvö, þrjú ár að fá úrskurð, en ekki þrjá mánuði og þá er náttúrlega tilgangslítið að lengja þann tíma í sex mánuði. Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu að það sé nauðsynlegt að beina því til framkvæmdarvaldsins að gera það sem gera þarf til þess að taka þennan kúf af, því það er afar mikilvægt að úrskurðarnefndin geti fellt úrskurði sína strax og innan þessara þriggja mánaða. Ef niðurstaða þessara mála frestast í kannski eitt, tvö og jafnvel þrjú ár þá geta framkvæmdir verið komnar langt á veg, jafnvel allri uppbyggingu verið lokið og síðan fellur málið á einhverjum formgalla. Þá er það eina sem hægt er að gera að rífa tugmilljóna hús til þess eins að breyta skipulagi og byggja húsið aftur. Þetta hefur auðvitað engan tilgang í lögunum. Þess vegna þarf úrskurðarnefndin að geta stöðvað framkvæmdir strax. Á sama hátt getum við sagt að það getur verið erfitt að stöðva framkvæmdir í þrjú ár á meðan mál liggur inni í úrskurðarnefndinni þannig að þarna er mjög mikilvægt að framkvæmdarvaldið girði sig í brók, eins og einhver gæti sagt, og komi þessum málum í réttan farveg. Þá gætum við kannski tekið umræðu um það hvort þrír mánuðir séu nóg eða hvort sex mánuðir séu betri, en þangað til held ég að tilgangslítið sé að ræða þetta.

Að lokum langar mig að nefna að ég held að þetta frumvarp sé á margan hátt sveigjanlegt og henti þar af leiðandi mismunandi sveitarfélögum í landinu. Ég hef verið rætt það, bæði á þingi og eins í fyrra starfi mínu sem forsvarsmaður dreifbýlissveitarfélags og skipulagsmála þess svæðis, að skipulagslögin hafi ekki tekið nægilegt tillit til dreifbýlisins. Margir þættir hafa gert það að verkum og til að mynda er gjaldtaka fyrir skipulagsvinnu eitt af þeim lykilatriðum sem styrkja stöðu dreifbýlisins vegna þess að það er mjög algengt, ég segi ekki alveg algilt, að unnið sé á landi einkaaðila eða þriðja aðila og að sá aðili komi með hugmyndina á meðan í þéttbýlinu er miklu algengara að þéttbýlið eða sveitarfélagið eigi allt land. Þess vegna hefur þessi mismunun þéttbýlis og dreifbýlis verið talsvert áberandi.

Mig langar til að nefna einn eða tvo þætti í viðbót, til að mynda að við breytingar á aðalskipulagi, sem geta verið óverulegar eins og í 36. gr., gæti verið óþarfi að gera sömu málsmeðferðarkröfur og ef verið væri að gera nýtt og heilt aðalskipulag fyrir sveitarfélag. Þarna gæti þurft að treysta sveitarfélögunum og Skipulagsstofnun og apparötum þeirra meira fyrir ákvörðunum, Skipulagsstofnun fylgist auðvitað með og hægt væri setja þetta í þröngt ferli. Við erum alveg sammála um það í nefndinni að í öllum stærri málum sé nauðsynlegt að auka kynningu þannig að íbúar eigi auðveldara með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Enn frekar má segja að í sambandi við deiliskipulag í dreifbýli getur maður kannski ekki séð tilganginn í því að fara í þrefaldar kynningar á einhverju einföldu deiliskipulagi til að byggja eitt útihús á afskekktri jörð þar sem enginn annar kemur að. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við séum ekki komin of langt í miðlægu skipulagsvaldi og það væri kannski eðlilegra að sveitarfélagið gæti tekið ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Í þessu sambandi hef ég notið góðra punkta frá sveitarfélögunum, þ.e. þeim sem vinna fyrir hönd sveitarfélaganna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og eins skipulagsfulltrúum í dreifbýlissveitarfélögum og ég vil nefna Pétur Inga Haraldsson hjá byggðasamlagi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, sem hefur verið í talsvert mikilli vinnu við það að átta sig á því hvernig best er fyrir komið skipulagsþættinum í dreifbýli á móti skipulagsþættinum í þéttbýli.

Ég vil ljúka þessu máli með því að segja að ég held að hér sér að verða til ágætis plagg sem er líklegt til að fara í gegnum þingið og sérstaklega þegar við höfum kíkt á þetta í nefndinni milli 2. og 3. umr. Ef við höldum sama góða anda þar inni og verið hefur tel ég mjög líklegt að við náum samstöðu um þær litlu breytingar sem ég hef lagt hér til.



[17:22]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar, vegna ummæla síðasta hv. þingmanns um Skipulagssjóð, að segja það í fyrsta lagi að hvorki í frumvarpinu né í breytingartillögum nefndarinnar er minnst á Skipulagssjóðinn, hann er sem sé óbreyttur. Ég hygg að greinin um hann verði óbreytt ef þetta verður að lögum. Það er nú svo þegar ráðist er í mikil verk að þá er ekki hægt að sinna öllu í einu. Ég vil beina því hér í þessu andsvari til umhverfisráðherra að skoða sérstaklega málefni Skipulagssjóðs, bæði hvernig hann er skipulagður, sjóðurinn, og síðan fjármál hans sem eru með þeim eindæmum að í honum er mikið fé sem hann ræður þó ekki yfir sjálfur eða þeir sem eiga um hann að véla, sem er sérkennilegt. Það er auðvitað rétt að peningar séu á þeim stöðum þar sem þeir eiga heima.

Skipulagssjóðurinn skiptist í tvennt aðallega og fyrir því eru sögulegar ástæður sem kannski er kominn tími til að skoða að nýju. Ég ætla ekki að fara út í það á þeim stutta tíma sem ég hef hér til svara. Málefni hans eru með þeim hætti að það er auðvelt að misstíga sig þegar horft er á hann. Það er t.d. misskilningur hjá síðasta hv. þingmanni, sem ég bara virði við hann, að það sé ójafnræði í Skipulagssjóðnum milli höfuðborgar og landsbyggðar þannig að landsbyggðin fari illa út úr því. Því er einmitt öfugt farið, gjaldtaka sem til er stofnað á sjóðsins vegum fer einkum fram á höfuðborgarsvæðinu en féð rennur einkum til skipulagsmála á landsbyggðinni.



[17:24]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að fá tækifæri til að koma hér upp og ræða aðeins frekar um Skipulagssjóðinn. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum ekki að leggja til breytingar á Skipulagssjóðnum í þessu frumvarpi. Hins vegar kom það oft til tals að annars vegar gæti Skipulagssjóðurinn tekið yfir ákveðin verkefni, sem ég kom inn á að hann gerði ekki samkvæmt lögum, og hins vegar, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, er einmitt misskipting í því hvernig sveitarfélög landsins fá greitt úr sjóðnum vegna þeirra framkvæmda sem þar fara fram. Satt best að segja er það þannig að þetta er ákveðin prósenta af kostnaði framkvæmdarinnar sem rennur í Skipulagssjóðinn og í þeim sveitarfélögum þar sem framkvæmdir eru miklar hafa þær tekjur sem sveitarfélögin hafa fengið, eða við skulum segja Skipulagssjóðurinn hefur fengið af framkvæmdum viðkomandi sveitarfélags, verið með þeim hætti að þegar uppbygging er fer þetta langt yfir 50%. Það er því rétt hjá hv. þingmanni að inn í sjóðinn hefur runnið fé frá þeim sveitarfélögum þar sem uppbygging er mikil.

En nú er það svo að það eru fleiri sveitarfélög en á Stór-Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri þar sem uppbygging hefur verið mikil. Í mörgum þeim sveitarfélögum hefur einmitt runnið fé frá framkvæmdum í viðkomandi sveitarfélagi inn í sjóðinn og þrátt fyrir að hafa sótt um að geta staðið við hlið annarra sveitarfélaga og fengið 50% endurgreitt hafa þau ekki fengið slíkt fram og hafa orðið að semja um greiðslur sem eru umtalsvert lægri en 50% af þeim tekjum sem koma af framkvæmdum í því sveitarfélagi. Þetta er tæknileg útfærsla en við getum verið sammála um að gæta þurfi á einhvern hátt meira jafnræðis á milli sveitarfélaga (Forseti hringir.) hvort sem þau eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða þar fyrir utan.



[17:26]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá fer það ekkert á milli mála að ég og hv. þingmaður erum sammála um það að í aðalatriðum renni fé frá þeim sveitarfélögum þar sem framkvæmdir eru miklar í sjóðinn og það fé sé m.a. notað til að styrkja þau sveitarfélög þar sem framkvæmdir eru tiltölulega litlar. Í heildina virkar þessi sjóður því eins og enn einn jöfnunarsjóðurinn þar sem fé fer af höfuðborgarsvæðinu og út á land, og þó að ég kjósi kannski að viðhafa engin ummæli um það að sinni er vani landsbyggðarþingmanna að vera ákaflega ánægðir með slíka skipan.

Það kann svo að vera rétt hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að til eru þau dæmi, það verða þau tilvik, að landsbyggðarsveitarfélög kunna að fara halloka í þessu skrýtna skipulagi og þá einkum ef þau ráðast skyndilega í miklar framkvæmdir en hafa kosið að standa annars staðar í þessari flokkun Skipulagssjóðs. Þá er um það að segja að það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu efni. Það þýðir sem sagt ekki að vera þeim megin sem það hentar betur hverju sinni, menn verða að velja sér þarna stað, og það hefur held ég komið fyrir í þessari sögu að sveitarfélög hafa farið úr einni deildinni í aðra.

Ég vek enn athygli á því og beini því enn til hæstv. umhverfisráðherra að endurskoða þessa skipan, þetta er ein grein í lögunum og þarf ekki að kollvarpa þeim þó að hún sé skoðuð á ný, og einnig að fara í hin praktísku mál sjóðsins, peningamál hans og vald þeirra sem stjórna því fjárstreymi. Meðal annars var vakin athygli á því í nefndarstarfinu að úr sjóðnum færi lítið sem ekkert fé til skipulagsrannsókna sem þó væri mikil þörf á.



[17:28]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins upp til að leggja til við hv. þm. Mörð Árnason og ég skal jafnvel bjóða honum að fara með honum og kynna honum uppbyggingu sveitarfélaga á landsvísu. Þetta snýst ekki um höfuðborgarsvæðið versus landsbyggð, þetta snýst ekki heldur um einstök tilvik eða skyndilega uppbyggingu. Ég skal kynna fyrir honum talsvert mörg sveitarfélög á landinu sem hafa verið í mjög langan tíma í skynsamri hægfara uppbyggingu sem er þó þannig að hún skilar meiri tekjum inn í Skipulagssjóð en þau fá út úr honum.

Það mætti hins vegar taka umræðu um það hér, frú forseti, að sum sveitarfélög, og alveg óháð því á hvaða landshorni þau eru, hafa kannski farið fullgeyst og þar sé talsvert mikið af bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði sem er ónotað og spurning hvaða tekjur séu af því og hvort það hafi verið skynsamlegt.



[17:30]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja um of umræðu um frumvarp til skipulagslaga. Þeirri yfirferð hafa verið gerð góð skil, m.a. í gær af formanni nefndarinnar sem fór mjög vel yfir frumvarpið og þær breytingartillögur sem umhverfisnefnd hefur gert við frumvarpið.

Eins og komið hefur fram hefur þetta frumvarp og frumvarp til mannvirkjagerðar og frumvarp um brunavarnir verið rætt hér á nokkrum þingum án þess að hljóta afgreiðslu. Nú var svo komið eftir langan undirbúning við frumvörpin að fara annaðhvort vel yfir málin og einhenda sér í að afgreiða þau á þessu þingi eða leggja upp í nýja vegferð. Það var a.m.k. mat nefndarmanna í hv. umhverfisnefnd. Verkið tókst þar sem í ljós kom að nefndarmenn voru allir sammála um að í raun og veru væri ekki svo djúpstæður ágreiningur um einstök mál eða atriði sem nefndin gæti ekki leyst á þeim tíma sem hún hafði til umráða.

Ég vil þakka formanni nefndarinnar og öllum nefndarmönnum fyrir að hafa lagt sig fram við þessa vinnu eftir að hafa farið vel yfir umsagnir, kallað til umsagnaraðila og gert þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Að sjálfsögðu eru þessir málaflokkar í stöðugri þróun og verða áfram. Með því að skipta málaflokkunum upp og hafa sérstök lög um skipulagsmál, önnur um mannvirki og þau þriðju um brunavarnir eru málaflokkarnir skýrari og einfaldara verður að breyta lögum í hverjum málaflokki héðan í frá. Auk þess leggur nefndin til, verði frumvarpið að lögum, að heildarendurskoðun fari fram á lögunum innan tveggja ára. Ég held að það sé mikilvægt því að þetta er það stór málaflokkur og mikilvægur að ég dreg í efa að ekki komi í ljós innan þessara tveggja ára að færa þurfi eitthvað til betri vegar og greiða úr þeim málum sem nefndin felur hæstv. umhverfisráðherra að vinna frekar með.

Hér hefur landsskipulagið verið nefnt nokkrum sinnum. Það er komið inn í frumvarpið og verður að lögum ef það verður afgreitt, en ég trúi ekki öðru en að svo verði núna á þessu þingi. Það þarf að finna landsskipulaginu góðan sess og þróa það áfram.

Svæðisskipulög eru þau form sem við höfum haft í lögum og unnið eftir um hríð. Allir eru sammála um að það fyrirkomulag sem nú er sé ekki nægilega skilvirkt, að sviðið sé ekki nægilega ábyrgt að því leyti að illa hefur gengið að ná fram afgreiðslu á svæðisskipulögum og hafi það gengið eftir hefur eftirfylgnin ekki verið nægilega markviss og svæðisskipulögin hafi í raun verið lögð til hliðar. Vinna verður áfram með svæðisskipulögin. Nefndin var sammála um að ekki ætti að skerða ákvörðunarrétt sveitarfélaganna því að þeirra væri skipulagsvaldið. Ég nefni þetta sem dæmi um mál og svið sem þarf að þróa áfram og tel augljóst að fara þurfi vel yfir málaflokkinn á næstu tveimur árum.

Það sem er nýtt í frumvarpinu er að tekin eru upp hverfaskipulög í eldri íbúðabyggðum í þéttbýli þar sem deiliskipulög hafa ekki verið unnin. Til fyrirmyndar er hægt að hafa fyrirkomulag sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og víðar, þ.e. að skipuleggja gróin hverfi með öðrum hætti en óbyggð svæði.

Hæstv. forseti. Ég nefni eingöngu fjögur atriði sem ég vil sérstaklega fagna og draga fram. Það eru breytingartillögur við 2. gr. frumvarpsins og eru skilgreiningarnar. Ég tel að skilgreiningarnar fjórar í frumvarpinu muni valda straumhvörfum í skipulagsmálum, þ.e. að í frumvarpið skuli aðgengi fyrir alla sérstaklega vera skilgreint. Aðgengi fyrir alla er skilgreint þannig í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þegar sjónarmið algildrar hönnunar eru höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.“

Hvað er algild hönnun? Þetta er nýyrði sem við tökum upp og er þýðing á hugtakinu „Design for All“ sem hefur verið í enskri tungu um nokkurn tíma, þ.e. að hanna byggingar, mannvirki, hluti, nytjahluti eða annað og að hafa í huga við alla hönnun að hluturinn, mannvirkin, aðgengið, umferðarmannvirkin séu aðgengileg og nýtanleg öllum. Oft og tíðum er ekki aukinn kostnaður af því. Þetta er önnur hugsun sem sett er í frumvarpið. Algild hönnun er sem sagt íslenskan á þessu hugtaki. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf.“

Í frumvarpinu er líka skilgreining á landslagi og sjálfbærri þróun sem tekin er upp úr meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992. Með leyfi forseta:

„Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar.“

Sjálfbær þróun er slagorð í munni margra sem hefur mjög ólíka merkingu eftir því í hvaða tilgangi það er sett fram. Það kom fram í máli umsagnaraðila að innan ákveðinna geira væri talað um mildari útfærslu, stofnanaútfærslu, og síðan hina ýtrustu útfærslu sem væri þá út frá strangari umhverfissjónarmiðum. Skilgreiningin er sett fram þannig að ekki á að vera hægt að túlka hana á annan hátt en hér stendur.

Hæstv. forseti. Hér væri hægt að fara í marga liði. Ég fagna þeim breytingartillögum sem hafa verið unnar í nefndinni. Nefndin mun fara yfir nokkur atriði á milli 2. og 3. umr. Ég treysti því að hin frumvörpin komi fram strax á nýju þingi og að umhverfisnefnd verði jafnkappsöm við að ljúka þeim frumvörpum og þessu. Það tekst með jafngóðu samstarfi enda eru margir kunnáttumenn í nefndinni sem hafa komið að skipulagsmálum og þekkja þau því af eigin reynslu, bæði sveitarstjórnarmenn og aðrir.

Að svo mæltu óska ég þess að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi.



[17:40]
Frsm. umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær gagnlegu umræður sem hafa verið í dag. Hér hefur verið drepið á þeim helstu álitamálum og hugðarefnum sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar á lokaspretti vinnunnar í aðdraganda nefndarálitsins.

Það sem við höfum rætt má segja að sé tvíþætt. Það eru náttúrlega ýmis tíðindi í þessu frumvarpi, það eru stefnumótandi þættir eins og landsskipulagið og stefnumótandi þættir sem lúta að valdmörkum milli stjórnsýslustiga og ákvörðunarvaldi og úrskurðarvaldi. Allt þetta hefur nefndin yfirvegað vel og þær umræður sem skapast hafa í nefndinni um þessi atriði hafa verið mjög fræðandi og menntandi líka held ég fyrir alla nefndarmenn. Maður er snöggtum betur að sér um skipulagsmál, sveitarstjórnarstigið og valdmörk milli sveitarstjórna og ríkisins eftir þennan sprett.

Við nefndarmenn höfum líka bryddað upp á nýjum atriðum í umræðunni. Þannig er t.d., reyndar að frumkvæði Reykjavíkurborgar en með góðum undirtektum frá nefndinni, komin inn tillaga um hverfisskipulag sem hliðskipað skipulagsstig við hlið deiliskipulags. Við höfum rætt og tekið upp að fjalla um í nefndaráliti útfærslu á skipulagsmörkum sveitarfélaga utan netlaga sem er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin og verður æ brýnna með auknu fiskeldi og auknum framkvæmdum undan ströndum landsins sem eru af margvíslegum toga.

Þessi álitamál og ýmislegt fleira ásamt fínpússun á ýmsu munum við síðan taka betri törn á milli 2. og 3. umr. Það kemur náttúrlega til af því að tíminn hefur verið knappur en vilji nefndarinnar ríkur til að vinna þessu frumvarpi gagn. Þess vegna munum við taka það milli 2. og 3. umr. og fínpússa ýmislegt sem út af stendur, sem eru kannski ekki mjög efnislegir hlutir en má kannski kalla frágangsmál.

Það eru tvö praktísk atriði sem ég vil þó nefna, frú forseti, áður en ég segi skilið við þessa umræðu og það lýtur að breytingartillögunum sem kynntar hafa verið við frumvarpið. Það eru tvær villur í plagginu, þingskjalinu, sem hafa þegar verið lagaðar á vefútgáfu skjalsins.

Í 19. lið breytingartillagnanna, staflið a, er talað um hverfaskipulag. Þetta orð er ekki rétt lýsandi, þarna á að standa hverfisskipulag samkvæmt eðlilegum málskilningi okkar íslenskufræðinganna í nefndinni og við treystum því að við séum dómbær á það.

Síðan er villa í staflið h í 2. lið breytingartillagnanna þar sem talað er um skilgreininguna á sjálfbærri þróun og vísað í 1. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Þarna er svolítill misskilningur a ferðinni, þarna er ekki verið að vísa beint í Ríó-yfirlýsinguna og því fellur sá viðauki setningarinnar út. Það er hugsanlegt að við göngum frá framhaldsnefndaráliti á milli 2. og 3. umr. þannig að þetta skýrist.

Svo vil ég bara að lokum þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Við nefndarmenn höfum þakkað og strokið hvert öðru hér í þessari umræðu og það er vel. Það hefur verið ríkur samstarfsvilji í nefndinni sem vert er að þakka og ég treysti því og vona að þannig verði efnistökin áfram, bæði varðandi fráganginn á frumvarpinu sem og þeim frumvörpum sem eru óneitanlega liður í þessum skipulagspakka og eru óútkljáð enn, þ.e. mannvirkja- og brunavarnalöggjöfin.