138. löggjafarþing — 153. fundur
 8. september 2010.
iðnaðarmálagjald, 2. umræða.
stjfrv., 661. mál (ráðstöfun gjaldsins 2010 og afnám þess). — Þskj. 1281, nál. 1444.

[11:26]
Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið til sín lögspekinga, málsaðila og fulltrúa stjórnvalda til að ræða það mál sem er kveikjan að þessu frumvarpi, þ.e. nýfallinn dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald. Umræddur dómur féll þann 27. apríl sl. og var meginniðurstaða hans sú að framkvæmd laganna um iðnaðarmálagjald væri í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um funda- og félagafrelsi.

Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um rétt manna til funda- og félagafrelsis. Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að takmarkanir á þessum réttindum geti talist lögmætar. Félagafrelsið er einnig verndað í 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87/1948, en íslenska ríkið hefur fullgilt alla þessa sáttmála.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er sömuleiðis ákvæði um félagafrelsi, í 74. gr., þar sem kveðið er á um að engan megi skylda til aðildar að félagi, með þeim takmörkunum þó að með lögum megi kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Iðnaðarnefnd kynnti sér ítarlega dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og þá sérstaklega hvort leiða mætti af niðurstöðu dómsins að gjaldtakan sem slík væri óheimil eða hvort það væri eingöngu ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins sem stangaðist á við mannréttindasáttmálann og félagafrelsisákvæði hans. Nefndin ræddi hvort réttlæta mætti takmörkun á félagafrelsi með vísan til 2. mgr. 11. gr. sáttmálans sem kveður á um að slík takmörkun þurfi að hafa lagaheimild, stefna að réttmætu markmiði og teljast nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Óumdeilt er að skyldan til greiðslu iðnaðarmálagjalds átti sér skýran lagagrunn, samanber 1.–3. gr. laganna. Dómstóllinn féllst einnig á það sjónarmið að takmörkunin stefndi að réttmætu markmiði, þ.e. að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Þar með væri stefnt að því að vernda réttindi og frelsi annarra samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sáttmálans.

Hvað varðar þriðja skilyrðið, um nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi, tók dómstóllinn undir ábendingu íslenskra stjórnvalda þess efnis að Alþingi hefði talið að þeim tilgangi yrði best náð með því að fela það hlutverk Samtökum iðnaðarins undir opinberu eftirliti. Meiri hluti nefndarinnar telur í ljósi þessa að álagning iðnaðarmálagjalds á iðnað í landinu byggi á málefnalegum sjónarmiðum og stefni að réttmætu markmiði. Fleiri atriði má nefna sem styðja þá niðurstöðu. Dómstóllinn fellst því hvorki á þá kröfu stefnenda að gjaldtakan feli í sér mismunun né taldi hann ástæðu til að taka til meðferðar þá kröfu að um ólögmæta skattlagningu væri að ræða. Það er því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ekki verði ráðið af dómi Mannréttindadómstólsins að gjaldtakan sem slík sé ólögmæt. Þar af leiðir sú niðurstaða meiri hlutans að lög um endurgreiðslu oftekinna gjalda eigi ekki við í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Þó ekki megi ráða af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að álagning iðnaðarmálagjalds sé ólögmæt gerir dómstóllinn alvarlegar athugasemdir við framkvæmd laganna um iðnaðarmálagjald, nánar tiltekið hvernig gjaldinu hefur verið varið en það hefur runnið að langstærstum hluta eða 99,5% til Samtaka iðnaðarins. Dómstóllinn gagnrýnir í fyrsta lagi skilgreiningu laganna á því hvernig iðnaðarmálagjaldinu skuli varið, þ.e. að ekki sé nægilega skýrt tilgreint til hvaða verkefna það skuli renna. Í öðru lagi átelur dómstóllinn að gjaldið sé ekki nægilega skýrt aðgreint frá fjárreiðum Samtaka iðnaðarins. Í þriðja lagi er það niðurstaða dómstólsins að opinbert eftirlit með ráðstöfun gjaldsins hafi ekki verið nægilega skýrt eða skilvirkt og engar skorður settar við því hvernig samtökin nýti það. Það er á grundvelli þessara þriggja atriða sem dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn 11. gr. mannréttindasáttmálans um félagafrelsi.

Meiri hlutinn tekur undir með dómstólnum um að þegar um er að ræða lagaákvæði sem á einhvern hátt takmarkar mannréttindi þurfi þær lagaheimildir að vera skýrar og ótvíræðar. Sé ekki svo ber að túlka þau einstaklingi í hag því að lögin eru sett til verndar einstaklingunum en ekki stjórnvöldum. Meiri hlutinn tekur því undir það sjónarmið dómstólsins að lögin um iðnaðarmálagjald hafi ekki verið nægilega skýr hvað varðar ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins og grundvöllur þeirrar ráðstöfunar því ótraustur. Það er niðurstaða meiri hlutans að þó að gjaldtakan sem slík sé ekki óheimil út frá niðurstöðum dómstólsins sé þörf á breytingum varðandi ráðstöfun gjaldsins og eftirlit með því.

Virðulegi forseti. Víkjum þá að frumvarpinu sjálfu og þeim breytingum sem meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til. Í fyrsta lagi ber þess að geta að fyrir liggur skýr vilji af hálfu Samtaka iðnaðarins þess efnis að gjaldtökunni skuli hætt þó samtökin mælist reyndar til þess í umsögn sinni um frumvarpið að tekjur af gjaldinu á yfirstandandi ári renni áfram til samtakanna til að mæta þeim skuldbindingum sem þau höfðu gert við nokkrar menntastofnanir um fjárstuðning til tiltekinna verkefna þeirra. Meiri hluti nefndarinnar telur hins vegar að ekki séu fullnægjandi viðbrögð við niðurstöðum dómstólsins að láta tekjur af iðnaðarmálagjaldi á þessu ári renna áfram til Samtaka iðnaðarins og laga eingöngu framkvæmdina eftir þeim ábendingum sem fram koma í niðurstöðum dómsins.

Meiri hluti nefndarinnar telur afar skýrt í niðurstöðu dómsins að sú ráðstöfun laganna að láta gjaldið renna að langstærstum hluta til tiltekinna hagsmunasamtaka samræmist ekki félagafrelsisákvæði mannréttindasáttmálans, jafnvel þó að fallist sé á sjónarmið stjórnvalda um lögmæti gjaldtökunnar. Hún beinist að lögmætu markmiði og uppfylli skilyrði um nauðsyn.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að fram komi að nefndin skoðaði sérstaklega hvort rökrétt viðbragð við niðurstöðu dómsins væri að hætta bæri gjaldtökunni tafarlaust og endurgreiða afturvirkt það gjald sem einstaklingur hefur þegar greitt á yfirstandandi ári. Nefndin leitaði til ýmissa lögspekinga í þessu efni og var það niðurstaða þeirra allra að með dómnum væri alls ekki kveðið upp úr með að gjaldtakan sem slík væri óheimil heldur eingöngu ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins. Það varð því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ekki væri lagagrundvöllur fyrir þeirri leið að grípa inn í þá innheimtu iðnaðarmálagjalds sem nú stendur yfir. Rétt er að árétta að innheimta gjaldsins er hafin og reyndar lokið hvað varðar einstaklinga, álagningu er lokið á ríflega 3.000 einstaklinga á yfirstandandi ári en álagning lögaðila stendur fyrir dyrum í október.

Það vegur einnig þungt í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar hvað varðar þetta atriði að afturvirk niðurfelling gjaldsins á yfirstandandi ári mundi skapa réttaróvissu um lögmæti gjaldtöku fyrri ára. Hins vegar liggur það fyrir, eins og fram kom áðan í máli mínu, að Samtök iðnaðarins hafa sjálf lagt til við stjórnvöld að gjaldtökunni lyki frá og með næstu áramótum. Þar með er ljóst að forsendur hafa skapast fyrir grundvallarendurskoðun á gjaldtökunni. Meiri hluta nefndarinnar telur það rökrétt framhald þeirrar stöðu að fella lögin úr gildi frá og með næstu áramótum þegar álagningu yfirstandandi árs er lokið.

Mikilvægt er að hafa í huga, og ég árétta að með því gengur löggjafarvaldið lengra en dómurinn sjálfur kveður á um því að hann kveður eingöngu á um ólögmæti ráðstöfunargjaldsins en ekki gjaldtökunnar sjálfrar, að meiri hlutinn telur rétt að kveða skýrar á um en gert er í frumvarpinu að lögin um iðnaðarmálagjald falli niður frá og með 1. janúar 2011 þar sem ljóst sé að gjaldið verði ekki lagt á frá og með þeim tíma, nema hvað varðar endurákvörðun vegna eldri gjaldára. Lögin skulu þó halda gildi sínu vegna álagningar yfirstandandi árs á einstaklinga og lögaðila vegna rekstrarársins 2009 og endurákvörðunar vegna eldri gjaldára.

Meiri hlutinn telur rétt og fullnægjandi viðbrögð við dómi Mannréttindadómstólsins að afnema lögin frá og með næstu áramótum og breyta í grundvallaratriðum ráðstöfun gjaldsins á yfirstandandi ári með þeim hætti að þau renni ekki til Samtaka iðnaðarins heldur í ríkissjóð. Meiri hlutinn áréttar enn fremur að tekjur af iðnaðarmálagjaldi sem lagt var á vegna fyrri rekstrarára, þ.e. 2008 og fyrri ára, skuli einnig renna í ríkissjóð og ráðstafa með sama hætti.

Meiri hluti iðnaðarnefndar telur rétt að kveða skýrt á um ráðstöfun iðnaðarmálagjaldsins á yfirstandandi ári og leggur fram tillögur þess efnis til frekari meðferðar og afgreiðslu í fjárlaganefnd. Á þessari stundu er ekki ljóst hve miklar tekjur munu skapast af álagningu iðnaðarmálagjalds á þessu ári en áætlað hefur verið að þær geti numið um 300 millj. kr. Lagt er til að 161,5 millj. kr. verði varið til mennta- og nýsköpunarverkefna tiltekinna menntastofnana sem Samtök iðnaðarins höfðu þegar skuldbundið sig til að styrkja með fjárframlögum. Þar er um að ræða verkefni á vegum Tækniskólans, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Iðnmenntar, Viðskiptasmiðju Klaks og Hátækni- og sprotavettvangs. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að þær tekjur sem eftir standa renni annars vegar í Tækniþróunarsjóð til eflingar nýsköpun í landinu og hins vegar í Starfsmenntasjóð til að fjármagna verkefni á sviði starfsþjálfunar í atvinnulífinu. Rétt er að árétta að það er að sjálfsögðu hlutverk fjárlaganefndar Alþingis að taka ákvörðun um ráðstöfun tekna af iðnaðarmálagjaldi en tillögur iðnaðarnefndar eru hér lagðar fram til frekari skoðunar í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjaldið vekur upp spurningar um aðra gjaldtöku í þágu hagsmunasamtaka sem byggð er á lögum. Þegar árið 2002 komst umboðsmaður Alþingis að því í áliti að verulegur vafi léki á því hvort tilhögun laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins frá 1986, sem tryggði Landssambandi smábátaeigenda fjármagn, uppfyllti kröfur 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra starfshóp til að fjalla um aðra hliðstæða gjaldtöku. Sá starfshópur skilaði af sér niðurstöðum í árslok 2006. Talið var að endurskoða þyrfti gjaldtöku almennt í þágu stéttarfélaga sjómanna og LÍÚ, samkvæmt lögum nr. 24/1986, en ekki einungis varðandi Landssamband smábátaeigenda. Einnig þyrfti að endurskoða lög um búnaðargjald sem tryggja Bændasamtökum Íslands, búnaðarsamböndum og búgreinasamböndum fjármagn. Vafi léki á hvort sú gjaldtaka stæðist gagnvart stjórnarskránni.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gerir það að verkum að mjög brýnt er að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fari vel yfir grundvöll þeirrar gjaldtöku sem undir ráðuneytið heyrir. Sú vinna er hafin í ráðuneytinu samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi iðnaðarnefndar. Komu að meginstefnu tvær leiðir til greina, samkvæmt fyrrgreindu áliti starfshópsins: Að afnema þessi gjöld eða kveða í lögum á um þau verkefni í þágu almannahagsmuna sem viðkomandi félög sinna og að auki hvernig haga skuli opinberu eftirliti með hvernig fjármunum þessum sé varið.

Virðulegi forseti. Málið snýst um að afnema lög um gjaldtöku á grundvelli dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að framkvæmd laga hafi ekki verið ásættanleg. Mannréttindi voru brotin á þeim forsendum að iðnaðarmálagjaldi væri ráðstafað til ákveðinna hagsmunasamtaka. Var niðurstaða dómsins sú að verið væri að brjóta á rétti borganna til að standa utan félaga því að einstaklingar væru látnir taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir hefðu ekki áhuga á að styðja eða styrkja fjárhagslega. Það er sjaldgæft, of sjaldgæft vil ég segja, að gjaldtaka á vegum ríkisins sé tekin til endurmats og afnumin. Því fagna ég tækifærinu sem við höfum til að stíga skref í þeim efnum. Upphæðin sem um ræðir er kannski ekki veruleg, að meðaltali rúmar 4.000 kr. á hvern einstakling og 76.500 kr. á hvern lögaðila, en engu að síður eigum við að fagna því tækifæri sem við höfum til að marka nýja braut. Ég tel Alþingi bregðist hratt og vel við niðurstöðu dómsins með því að leggja til, u.þ.b. 4 mánuðum eftir að dómur féll, að lög um iðnaðarmálagjald verði afnumin frá og með næstu áramótum og ljúka þar með þessari gjaldtöku sem á sér 35 ára sögu.

Við eigum að nota tækifærið eftir hrun fjármálakerfisins til að taka allar fjárreiður ríkisins til endurmats, allar ákvarðanir og alla stofnanauppbyggingu. Því er þetta mál til bóta og það gefur okkur tilefni til að endurskoða önnur sambærileg gjöld sem tengst hafa hagsmunasamtökum í samfélaginu.



[11:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég saknaði þess að hann færi inn á þann vinkil, ef svo má segja, sem fjallar um að menn séu þvingaðir til að fjármagna skoðanir og áróður sem gangi gegn þeirra eigin sannfæringu sem er kannski meginatriðið í þessu máli. Menn voru neyddir til að greiða í samtök sem voru með málefni á stefnuskrá sinni sem gekk gegn sannfæringu viðkomandi. Þar gæti t.d. verið um að ræða aðild að Evrópusambandinu sem var mjög mikið rætt. Fyrsta spurningin er hvort hv. þingmaður telji þetta ekki vera nokkuð veigamikinn þátt í dómi Mannréttindadómstólsins.

Svo vil ég einnig spyrja hv. þingmann um alvarlegt mál eins og mannréttindabrot, sem er stjórnarskrárbrot. Það er verið að brjóta gegn stjórnarskrá Íslands. Að menn skyldu ekki ganga hreint til verks eftir dóminn og afnema viðkomandi lög, jafnvel aftur í tímann þannig að endurgreiðslur færu til þeirra sem voru neyddir til að borga inn í félög sem þeir vildu ekki vera aðilar að og auk þess látnir fjármagna skoðanir sem þeir voru á móti. Mér finnst eðlilegt að gjaldið sé afnumið aftur í tímann eins langt og fyrningarreglur leyfa. Ég reikna reyndar ekki með því að mikið verði um útgreiðslur en mér finnst að þeir aðilar sem voru neyddir til að greiða fyrir áróður gegn sjálfum sér fái sitt gjald endurgreitt eins langt og fyrningarreglur leyfa. Ég vil spyrja hvort það hafi ekki verið rætt í nefndinni.

Svo vekur það líka áhuga minn að allir mannréttindafrömuðir þingsins eru farnir af velli þegar við ræðum þetta mikla mannréttindamál.



[11:41]
Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina en verð reyndar að árétta að atriðið sem hann nefndi sem fyrri spurningu sína, um þá niðurstöðu dómsins að verið væri að brjóta á rétti borgaranna til að standa utan félaga og þar með einstaklinga sem vildu ekki taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir væru ekki sammála, er einmitt meginniðurstaðan í niðurlagi máls míns í ræðunni áðan. Ég tel að þetta sé nákvæmlega meginniðurstaða dómsins, að ekki eigi að þvinga einstaklinga til að taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir eru ósammála í grundvallaratriðum, þar á meðal um það atriði sem þingmaðurinn nefnir.

Ég er í prinsippinu á því að menn eigi að finna það upp hjá sjálfum sér að vera fylgjandi aðild að Evrópusambandinu því að það sé grundvallaratriði varðandi framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og ekki eigi að þvinga nokkurn mann til þess.

Það er einnig rétt að árétta að með breytingartillögu okkar í iðnaðarnefnd, meiri hluta nefndarinnar, er einmitt lagt til að þessi lög verði afnumin frá og með næstu áramótum. Við tökum reyndar stærra skref með þeirri ákvörðun en gert var í frumvarpinu sjálfu því að í því var ekki kveðið á um að lögin skyldu afnumin. Þingmaðurinn spyr um fyrri ár. Það er í samhengi við þá umræðu sem við tökum ákvörðunina um að gjaldtakan sem slík sé ekki óheimil. Það er ekkert um það í dómnum sjálfum en ráðstöfunin til Samtaka iðnaðarins er klárlega óheimil samkvæmt dómnum.



[11:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þetta var einmitt það sem ég vildi fá fram til að skerpa á því að þetta væri í rauninni skoðanakúgun, þ.e. að menn væru látnir fjármagna skoðanir sem þeir væru á móti, og er ég ánægður með það. En mér finnst bæði frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar vera eins og menn geri þetta með hangandi hendi, þá langi ekkert til þess. Eins litlu er breytt og hægt er. Það er gengið eins langt í lögfræðinni og hægt er. Þegar kemur í ljós að lög frá Alþingi brjóta mannréttindi þá eiga menn að ganga vasklega til verks og afnema þau lög. Ég sé ekki annað fært. Það var gert þegar öryrkjadómurinn féll og kvótadómurinn. Þá var önnur ríkisstjórn sem gekk strax í að afnema viðkomandi ákvæði og breyta þeim þannig að mannréttindi væru ekki lengur brotin. Það er ekki gert núna. Núna er þetta mildað, gjaldið engu að síður lagt á fyrir árið 2009 og látið fara til sömu samtaka. Menn taka ekki á honum stóra sínum. Mannréttindabrot virðast ekki alltaf vera mannréttindabrot. Stundum eru mannréttindabrot slæm og stundum ekki.

Ég hefði viljað sjá nefndina taka vasklega til verks, alla vega í nefndaráliti, og geta einnig um önnur gjöld, eins og búnaðarmálagjaldið. Ég nefndi það í 1. umr. að ef hugsanlega fyndist einhver bóndi sem væri hlynntur því að ganga í Evrópusambandið væri hann kannski ekki ánægður með að þurfa núna að fjármagna áróður gegn Evrópusambandinu.

Ég minni á að BSRB hefur haft heilmiklar pólitískar meiningar og eru þó allir opinberir starfsmenn skyldaðir til að borga félagsgjald með lögum frá Alþingi. Það eru ekki samningar heldur eru það lög frá Alþingi sem skylda þá alla til að borga. Ég sakna þess að ekki sé minnst á þau mannréttindabrot.



[11:45]
Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég harma það að hv. þingmaður Pétur H. Blöndal hefur ekki tekið eftir nokkru því sem fram kom í ræðu minni. Hún var að vísu nokkuð löng en það er engin afsökun fyrir því að skella skollaeyrum við boðskap ræðunnar. Hann segir að við göngum til verksins með hangandi hendi en það er víðs fjarri. Ég gekk með opnum hug til verksins og leitaði til margra lögspekinga og lét skoða hvort það væru eðlileg viðbrögð við dómnum að afnema gjaldtökuna tafarlaust. Það var enginn þeirrar skoðunar að dómurinn fjallaði um það að gjaldtakan væri óheimil. Hins vegar voru allir sammála um að ráðstöfunin til Samtaka iðnaðarins væri óheimil. Ég árétta að það fer ekki ein einasta króna af iðnaðarmálagjaldi yfirstandandi árs til Samtaka iðnaðarins. Það er alrangt sem kom fram í máli þingmannsins hér áðan að tekjurnar renni til samtakanna. Í nefndaráliti iðnaðarnefndar er sérstaklega hnykkt á því að tekjur fyrri ára munu ekki renna til Samtaka iðnaðarins, heldur fara í ríkissjóð eins og tekjur þessa árs. Ég tel okkur bregðast vasklega við þessum dómi aðeins örfáum mánuðum eftir að hann fellur. Við leggjum til, svo það sé áréttað öðru sinni, að lögin verði afnumin frá og með áramótum. Að mínu mati er niðurstaða löggjafans afar skýr og hnykkt er á lykilatriðum málsins frá því sem var í frumvarpinu sem var lagt fram í vor.



[11:47]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum afnám laga um iðnaðarmálagjald. Við sjálfstæðismenn stöndum að nefndarálitinu sem hv. formaður iðnaðarnefndar fór yfir áðan, með fyrirvara þó. Mig langar að gera grein fyrir honum.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. formanns að breytingarnar sem dómurinn kallaði á voru ekki jafnmiklar og við gerðum. Dómurinn fjallaði eingöngu um ráðstöfun gjaldsins sem rynni til Samtaka iðnaðarins sem síðan mundu nota það m.a. í áróður sem félli skylduðum greiðendum ekki í geð. Við sjálfstæðismenn vildum ganga lengra og um það fjallar fyrirvari okkar. Við vildum að hætt yrði að innheimta gjaldið á þessu ári. Við sáum ekki ástæðu til þess að innheimta það sem rynni síðan í ríkissjóð þaðan sem því yrði úthlutað. Samtök iðnaðarins voru búin að lofa styrkjum til menntastofnana og ýmissa verkefna. Það hefði ekkert orðið af þessum styrkjum ef gjaldið hefði verið fellt niður. Þess vegna vildum við tiltaka hvert gjaldið ætti að fara. Okkur finnst samt sem áður að það hefði átt að fella niður gjaldið frá síðustu áramótum, hætta að innheimta það og þeir sem höfðu þegar greitt fengju endurgreitt.

Afnám þessara laga er hið besta mál og ég held að þetta hljóti að vera framtíðin. Nú þurfum við að taka út leifar fortíðar og skoða vel búnaðarmálagjaldið, gjöld í sjávarútvegi og hugsanlega einhver fleiri gjöld sem við fjölluðum um í nefndinni.



[11:51]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá meiri hluta hv. iðnaðarnefndar um breytingar á lögum um iðnaðarmálagjald. Ég hélt ítarlega ræðu við 1. umr. þar sem ég fór í gegnum flest atriði sem máli skipta. Í gegnum tíðina hafa margir þingmenn á Alþingi sýnt mannréttindum sérstakan áhuga sem er vel. Auðvitað eiga allir þingmenn að standa vörð um mannréttindi, það er eins með þau áhugamál og önnur að þau breytast. Nú bregður svo við þegar Mannréttindadómstóll Evrópu, sá æðsti sem fjallar um mannréttindi, æðri en Hæstiréttur og æðri en héraðsdómstólar, kveður upp úrskurð um það að lög frá Alþingi brjóti mannréttindi eru þeir hv. þingmenn sem hafa haft sig mikið frammi í mannréttindamálum, ég minnist öryrkjadómsins og kvótadómsins, allir horfnir en sumir sitja samt enn þá á þingi. Þeir sitja ekki í salnum núna og ég sakna þess, frú forseti.

Mér barst bréf frá Meistarafélagi húsasmiða sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

„Reykjavík, 26. ágúst 2010. Ágæti þingmaður. Þann 27. apríl síðastliðinn komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslensk lög um iðnaðarmálagjald stæðust ekki ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Dómurinn er alveg kristaltær. Álagning iðnaðarmálagjalds brýtur gegn ákvæðum sáttmálans um félagafrelsi, tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi. Íslenska ríkinu ber sem sagt að afnema lög um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993. Samkvæmt stjórnarfrumvarpi til laga um iðnaðarmálagjald er ráðstöfun gjaldsins 2010 og afnám þess“ — frú forseti, það er málið sem við ræðum nú, 661. mál — „er ljóst að íslenska ríkisstjórnin ætlar að hunsa ofangreindan dóm. Í stað þess að bregðast rétt við honum og hefja umræður um það hvernig bæta skuli skaða okkar félagsmanna og endurgreiða ólöglegan skatt, samanber lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, ætlar ríkisstjórnin augljóslega ekki að hætta mannréttindabrotum. Meistarafélag húsasmiða mótmælir eindregið þessari ætlun íslensku ríkisstjórnarinnar hæstvirtar og krefst þess að íslenska ríkið hlíti dómi Mannréttindadómstóls Evrópu undanbragðalaust.“ Undir þetta ritar fyrir hönd Meistarafélags húsasmiða Baldur Þór Baldvinsson formaður.

Þarna er tekið undir sjónarmiðið sem ég nefndi í 1. umr. Ég hef ítrekað flutt frumvarp um að lögin yrðu afnumin vegna þess að ég áttaði mig á því að þetta væri mannréttindabrot. Hið háa Alþingi hefur ekki tekið af skarið fyrr en nú þegar fram kemur frumvarp frá ríkisstjórninni um að lögunum skuli verða breytt, ekki afnumin. Lögin eru ekki afnumin eins og hér hefur verið haldið fram. Lögunum er breytt og þau standa áfram um aldur og ævi, þótt ekkert gjald verði innheimt.

Ég hefði talið eðlilegra að lögin yrðu afnumin. Og — (Gripið fram í: Það er það sem við ætlum að gera.) nei, það stendur — (Gripið fram í: Lestu nefndarálitið.) ég ætla að lesa nefndarálitið, já. Það er kannski vegna anna sem ég hef ekki komist í það. Jú, það er rétt. Það á að afnema gjaldið. Það er gott skref í rétta átt. Síðan ættu menn að skoða önnur gjöld af svipuðum meiði. Búnaðarmálagjaldið kemur fyrst upp í hugann og ýmis gjöld í sjávarútvegi þar sem ríkisvaldið innheimtir ekki skattinn heldur bankakerfið, sem er ótrúlegt. Það er ótrúlegt að einhverjir aðilar úti í bæ, einhverjir einstaklingar eða fyrirtæki séu sett í að innheimta skatta.

Svo er fiskiræktargjaldið. Virkjanir þurfa að borga skatt til fiskiræktar á stöðum eins og við Hálslón þar sem ekki er einn einasti fiskur og hefur aldrei verið. Það eru fleiri gjöld sem gjarnan mætti leggjast yfir eins og STEF-gjöldin. Ég skora á hv. formann nefndarinnar að taka þessi mál upp í nefndinni og sinna þeirri lagasetningu sem Alþingi á að gera og flytja frumvörp um að þessi gjöld verði afnumin. Mér sýnist að dómur Mannréttindadómstólsins gangi þvert á þessa lagasetningu. Við erum með mörg önnur gjöld sem eru enn þá verri. Ég nefni orlofsheimilagjaldið og sjúkrasjóðsgjaldið. Ég nefni nýja fræðslugjaldið. Þar er öllum gert að greiða það. Það er ekki búið að ákveða hvað gjaldið á að vera hátt. Það er samningur um það við einhverja aðila úti í bæ. Það er ekki búið að ákveða hvert gjaldið á að fara. Það á að fara í fræðslusjóð sem þýðir væntanlega fræðslu-eitthvað. Það á að fara í sjúkrasjóð sem þýðir væntanlega sjúkra-eitthvað. Það eru engin lög til um þessi fyrirbæri.

Ég skora á hv. nefnd að afnema þessi gjöld sem búið er að setja á atvinnulíf og einstaklinga, greinilega í andstöðu við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Sjúkrasjóðsgjaldið á að renna til sjúkrasjóða stéttarfélaganna. Það er ekki orð um það hvernig stjórnun þeirra verður háttað, ekki orð um bókhald, ekki orð um það hvernig á að nota peningana. Væntanlega í sjúkra-eitthvað. Gjaldið er reyndar ákveðið í lögum, það verður 1%, en ekki er ákveðið hver innheimtir það eða hver leggur það á. Það er á hendi almennra félaga. Það sem gerist, frú forseti, er að sjúkrasjóðurinn hringir, það er meira að segja lífeyrissjóðurinn sem innheimtir gjaldið. Hann hefur samband við fyrirtæki og segir því að það eigi að borga þetta gjald, ella verður sendur lögfræðingur. Alveg óháð því hvort fyrirtækið er í samtökunum sem standa að lífeyrissjóðnum eða ekki. Þetta eiga öll fyrirtæki að greiða. Ég sé ekki hvernig hægt er að standa að svona lagasetningu þar sem gjaldið er lagt á ákveðinn skattþegn með lögum. Það er ekkert um það hvernig eigi að ráðstafa gjaldinu. Upphæðin er ekki einu sinni nefnd í lögunum um fræðslugjaldið.

Ég held, frú forseti, að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi með þessum dómi opnað box fullt af málum sem þarf að skoða miklu, miklu nánar og fara í gegnum þau og athuga hvort þau fái staðist.

Ég skora á alla hv. þingmenn að taka á honum stóra sínum og sjá hvort við séum ekki komin út í fen sem hefur þróast í marga áratugi. Það hafa allir flokkar nema Hreyfingin komið að því að leggja á slík gjöld. Það þurfa allir að taka á því og hætta þessu, því að það er mjög skaðlegt fyrir þjóðfélagið þegar framkvæmdarvaldið er tekið úr höndum framkvæmdarvaldsins sem Alþingi styður og því komið til einstaklinga úti í bæ sem ekki eru kosnir.

Ég hef margoft flutt frumvörp um 2. mgr. 7. gr. laga um starfskjör opinberra starfsmanna. Það er nákvæmlega sama. Þar er skylda að greiða í stéttarfélag viðkomandi starfsmanns, hvort sem hann vill vera í því eða ekki. Gjaldið er ekki ákveðið. Það er ekki sett hámark á það, heldur er það ákveðið á félagsfundi í viðkomandi stéttarfélagi, þess vegna 100% gjald. Það er launaskrifstofan sem innheimtir það um næstu mánaðamót. Sjóðfélaginn hefur ekkert með það að segja hvernig gjaldinu er ráðstafað nema að ganga í viðkomandi félag. Hann er neyddur til þess að ganga í félagið ef hann vill njóta þeirra réttinda sem gjaldið er notað í, eins og t.d. sumarbústaði. Ef hann ætlar að hafa áhrif á upphæð gjaldsins verður hann að ganga í félagið. Það er margt sem dómurinn vekur upp. Hann hefur opnað box Pandóru, svo maður noti nú gríska goðafræði, sem er fullt af hlutum sem við viljum ekki sjá. Að sjálfsögðu ættum við að fara í gegnum allt saman og reyna að laga það.

Ég gleðst yfir því sem fram kemur í breytingartillögunum að lögin verði felld úr gildi. Ég var að sjá það núna. Það eru miklar annir í þinginu, því miður. Maður kemst ekki yfir að lesa allt. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki séð þetta fyrr en núna. Gjaldið er fellt niður og það er vel. Ég skora á hv. formann nefndarinnar og nefndina alla að fara í lagahreinsun í kjölfar Mannréttindadómstólsins, því að þetta eru raunveruleg mannréttindabrot sem hér eiga sér stað.



[12:01]
Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans, sérstaklega þann boðskap sem hann flutti þingheimi varðandi gjaldafrumskóginn, sem ég vil kalla svo, sem viðgengst á vegum hins opinbera. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir, að fullt tilefni sé til að nýta þennan dóm til að endurskoða alla þá gjaldtöku sem tengist hagsmunasamtökum í samfélaginu. Ég lét þess reyndar getið í framsöguræðu minni. Sú vinna er hafin á vegum framkvæmdarvaldsins. Forsætisráðuneytið hefur tekið þessi gjöld til skoðunar og er í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið með nokkur þessara gjalda sérstaklega til skoðunar. Ég veit ekki hvort það er viðeigandi að iðnaðarnefnd sem slík leggi fram þingmál um afnám gjalda sem eru á forræði annarra þingnefnda, en ég mun ekkert telja það eftir mér að leita eftir samstarfi við kollega í öðrum þingnefndum um heildarendurskoðun á þessum gjaldafrumskógi. Vissulega liggur fyrir í kjölfar þessa dóms að margar spurningar vakna um réttmæti annars konar gjaldtöku, eins og hv. þingmaður fór vel yfir í máli sínu. Það á við um bæði búnaðarmálagjaldið, það á við um svokallað aflagjald og ýmis önnur gjöld sem menn settu á á sínum tíma, eflaust með það fyrir augum að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. En það hefur verið ósiður í okkar stjórnkerfi að gjöld sem lögð eru á til að standa undir tímabundnum útlátum hafa tilhneigingu til að ílengjast í kerfinu. Ég tek heils hugar undir að við eigum að taka þetta til endurskoðunar núna.

Síðan fagna ég því að þingmaðurinn hafi gefið sér tíma þó seint væri í ræðustól til að lesa nefndarálitið og tek að sjálfsögðu undir orð (Forseti hringir.) hans.



[12:03]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni framsögumanni fyrir ágætt innlegg þar sem hann tekur undir áhyggjur mínar. Reyndar er ein lenska sem ég vildi biðja hv. þingmann að endurskoða sem skýrslan góða og mikla kom inn á. Hún er sú að segja að vinna sé hafin á vegum framkvæmdarvaldsins. Það er Alþingi sem setur lög. Ég hef margoft sagt að það er Alþingi sem á að vinna lög. Ég legg nú til að nefndasviðið verði styrkt á Alþingi og fái það verkefni að grafa upp öll þessi gjöld sem um ræðir. Það var ekki rétt að ég hefði farið vel yfir allt sviðið því að ég rétt aðeins tæpti á því eftir minni. Mörg önnur gjöld koma upp í hugann, eins og félagsheimilagjald og orlofsheimilagjald hjá atvinnulífinu o.s.frv. Mann brestur minni og tíma til að telja þau öll upp.

Þessi gjöld voru ekki sett á tímabundið. Alþingi var meðvitað notað til að innheimta félagsgjöld fyrir vissa aðila, eins og Samtök iðnaðarins eða Félag íslenskra iðnrekenda eins og það hét þá. Þannig var bara hugsað. Það er miklu auðveldara að láta Alþingi innheimta þau gjöld sem fyrirtækin eru svo ófús að borga og tala jafnvel um að lækka þau eða eitthvað slíkt. Þetta var gert til þæginda fyrir viðkomandi félög og ætlað til þess að gera þeim lífið léttara. Þetta hafði í för með sér nákvæmlega það sem við sjáum hjá BSRB og Samtökum iðnaðarins, að viðkomandi félög breyttust í stofnanir. Starfsfólkið fær svipuð réttindi og tíðkast hjá opinberum starfsmönnum og lífeyrisréttindi. Annað dæmi eru Bændasamtökin en starfsmenn þeirra eru með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, sem er alveg ótrúlegt.



[12:06]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fer fram nokkuð merkileg umræða og lýtur ekki einasta að mannréttindum Íslendinga, heldur einnig þeirri áráttu löggjafans að leggja á margvíslegar álögur og gjöld sem vara svo gjarnan í lengri tíma en þeim var ætlað og almenningur stendur uppi með léttari pyngju fyrir vikið. Auðvitað er það svo, frú forseti, að Alþingi á að beita miklu aðhaldi á hverjum tíma í þeim málaflokki sem snýr að álagningu alls konar gjalda með lögum og síðar jafnvel reglugerðum fyrir alls konar hópa sem þiggja gjöldin. Það er einmitt krafa nú um stundir að Alþingi beiti enn frekara aðhaldi á þessum sviðum. Það er ekki sjálfgefið að setja auknar álögur á almenning og fólk á vinnumarkaði til langframa. Það kann að vera réttlætanlegt um tíma, en þessar álögur eiga að vera í eilífri endurskoðun.

Til umræðu, frú forseti, er iðnaðarmálagjald sem á sér langa sögu eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum. Vísað hefur verið til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg frá 27. apríl fyrr á þessu ári. Iðnaðarnefnd Alþingis tók fljótt og vel á málinu og mjög málefnalega. Auðvitað stöldruðu nefndarmenn fyrst við að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald væri það sem er í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. framkvæmd gjaldsins brýtur sem sagt að mati dómsins í bága við lög. En dómurinn tekur ekki á meintu ólögmæti gjaldtökunnar sem slíkrar og að mati nokkurra þeirra sem komu fyrir iðnaðarnefnd má telja sem svo að dómurinn sé fyrir vikið nokkuð mildur í garð ríkisins. Má svo sem taka undir að framkvæmd iðnaðarmálagjaldsins brjóti í bága við lög vegna þess að það er ekki sjálfgefið að sjálfstæð hagsmunagæslufélög úti í bæ, ef svo má segja, taki að sér og hafi um það sjálfdæmi að úthluta því gjaldi sem með nauðum er tekið af landsmönnum, eins og gert hefur verið í þessu dæmi. Mannréttindadómstóllinn bendir á að úthlutun þessa gjalds til margvíslegra verkefna hafi að einhverju leyti verið með losarabrag, reglur ekki skýrar á því sviði og í sjálfu sér gagnrýnivert að svo hafi ekki verið.

Iðnaðarnefnd tekur á þessum dómi með skýrum hætti. Leggur til að iðnaðarmálagjaldið verði lagt af frá og með næstu áramótum. Engu að síður var búið að velja gjöldunum ágætan farveg til uppbyggingar í menntamálum. Lagt er til að það sem eftir stendur af þessu gjaldi renni fram til áramóta til, eins og fram kemur í nefndaráliti, með leyfi forseta, „verkefna á vegum menntastofnana sem Samtök iðnaðarins höfðu þegar skuldbundið sig til að fjármagna en þær tekjur sem eftir standa renni í Tækniþróunarsjóð til eflingar nýsköpun í landinu og starfsmenntasjóði“.

Ég efast um að þingmenn hér í salnum deili mjög hart á þessa úthlutun. Um mjög þarft og gott verk er að ræða. Það sem eftir stendur er að úthlutun er tekin úr höndum hagsmunagæsluaðila og þar af leiðandi er tekið mjög skýrt á dómsorði Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Að mínu viti stóð iðnaðarnefnd mjög eðlilega að málinu. Framkvæmd iðnaðarmálagjaldsins brýtur í bága við lög, en ekki sjálf gjaldtakan. Hún stenst lög svo sem fram kemur í orðum Hæstaréttar hér á Íslandi og svo síðar í dómsorði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ég legg ríka áherslu á, frú forseti, að þessu áliti fengnu og umsögn iðnaðarnefndar að horfa beri til fleiri gjalda á þessu sviði. Ég drap á því í upphafi ræðu minnar að ekki væri sjálfgefið að leggja gjöld á til frambúðar sem rynnu svo til hinna ýmsu samtaka. Þau mega vel heita nauðungargjöld. Því ber að líta til margvíslegra annarra gjalda sem eru á floti í íslensku hagkerfi, svo sem búnaðarmálagjalds, aflagjalds og fleiri gjalda í gömlu atvinnugreinunum, sem hljóta að vera gagnrýniverð og lúta sömu lögmálum og iðnaðarmálagjaldið. Ég hvet því nefndir Alþingis til að skoða mjög vandlega hvort ýmis gjöld sem nú eru tekin af landsmönnum standist lög og kröfur okkar um mannréttindi. Ég tel að mikill einhugur sé meðal þingmanna og áhugi á að það verði gert.



[12:12]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er á þessu nefndaráliti og ætla örstutt að fara yfir rökin fyrir því. Ég hafi í sjálfu sér ákveðnar efasemdir þegar frumvarpið kom fyrst fram um hvert markmiðið væri með því í raun og hvað menn ætluðust til með því að leggja til að gjaldið rynni í ríkissjóð. Ég hef hins vegar í gegnum þetta ferli, sem við erum búin að fara í eftir ítarlega yfirlegu í nefndinni, eftir að hafa hlustað á marga og lesið mikið af gögnum, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skynsamlegasta leiðin í þessu máli eins og það liggur fyrir.

Það eru vitanlega engin rök í því að innheimta áfram gjald sem enginn vill í rauninni innheimta. Hins vegar megum við ekki gleyma því að hluti þessa gjalds sem innheimtur hefur verið — vonandi stærsti hlutinn, það liggur ekki alveg ljóst fyrir, það er kannski vandinn — hefur farið í mjög góð verkefni sem tengjast iðnaði, menntun og ýmsu slíku. Ég hef áhyggjur af því. Þessi verkefni fara vitanlega ekki neitt heldur mun þrýstingur á ríkið aukast, þ.e. að setja fjármuni í verkefnin í framtíðinni, en það er auðvitað ákvörðun sem verður að taka á hverjum tíma varðandi slík mál.

Það er eðlilegt að umræðan um Mannréttindadómstólinn taki hér drjúgan tíma því að auðvitað er gríðarlega mikilvægt atriði að ekki sé verið að brjóta slík réttindi. Að mínu viti hjálpar til við að taka þessa ákvörðun að dómstóllinn komst, eins og hér hefur ítrekað komið fram, að þeirri niðurstöðu að það er í raun framkvæmd gjaldsins, þ.e. framkvæmdin af því hvernig því er ráðstafað, sem hann gerir athugasemdir við. Bent hefur verið á af löglærðum sérfræðingum sem komu fyrir nefndina að hægt væri að bregðast við því með lagabreytingu. Nefndin ákvað hins vegar að leggja ekki til breytingar á lögum til að halda áfram að innheimta gjaldið heldur fella það niður og láta andvirði þess renna að mestu í ríkissjóð.

Ég vil taka fram að ég er ekki viss um að akkúrat þessi dómur eða þetta álit eigi við um önnur gjöld sem eru innheimt hér á landi. Hins vegar er mikilvægt að fara yfir, eins og kemur fram að sé verið að gera, grundvöll þeirra gjalda sem verið er að innheimta og hvernig þeim er ráðstafað til að koma í veg fyrir að við brjótum mannréttindi og hafa framkvæmdina innan þeirra laga og reglna sem eru í gildi ef menn ætla sér að innheimta gjöldin áfram.

Ég held að niðurstaðan sem nefndin leggur til sé í sjálfu sér nokkuð góð fyrir alla eða flesta aðila. Að sjálfsögðu verða ekki allir ánægðir, það er bara eins og gengur í pólitík með ákvarðanir sem menn þurfa að taka. Ég vil þó benda á að svipuð gjöld sem þetta eru innheimt í öðrum löndum og tengjast ákveðnum hagsmunahópum eða apparötum sem til eru í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. Það réttlætir hins vegar ekki að farið sé á svig við mannréttindi. Því er mikilvægt að bregðast við. Eins og ég nefndi áðan hefðum við hugsanlega getað, frú forseti, brugðist við athugasemd dómsins og haldið áfram að innheimta gjaldið með einhverjum hætti. Það varð ekki niðurstaðan þannig að nú verður gjaldið innheimt að síðustu, svo fellur það niður.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég held að nefndin hafi komist að ágætri niðurstöðu í þessu máli.



[12:17]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Iðnaðarmálagjald var lögleitt með lögum nr. 134/1993 og varð strax umdeilt. Markmiðið var og er gott, að efla íslenskan iðnað. Gjaldið hefur að mestu runnið til Samtaka iðnaðarins sem hefur ráðstafað því til ýmissa verkefna. En eins og ég sagði hér áðan hefur það verið umdeilt frá upphafi og lögmæti þess vefengt fyrir dómstólum vegna félagafrelsisákvæðis en ekki verið úrskurðað ólögmætt fyrr en nú í vor þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að gjaldið samræmdist ekki 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um funda- og félagafrelsi.

Fyrst og fremst var það umgjörðin í kringum gjaldið og ráðstöfun þess sem ekki þótti samræmast ákvæðum mannréttindasáttmálans. Markmið gjaldsins var ekki gagnrýnt en það var fyrst og fremst þrennt sem dómurinn taldi ámælisvert. Í fyrsta lagi að ekki væri nógu skýrt tekið fram í lögunum hvernig gjaldinu skuli varið, í öðru lagi að það sem innheimtist væri ekki nógu vel aðskilið frá öðrum tekjustofnum Samtaka iðnaðarins og í þriðja lagi að það vanti opinbert eftirlit með ráðstöfun gjaldsins og ekki séu nógu miklar skorður settar við því hvernig samtökin nýta það.

Ég verð að viðurkenna að þegar þetta frumvarp kom fram sló ósjálfrátt þeirri hugsun niður sem þeirri fyrstu að dómur væri fallinn og því væri best að hætta gjaldtökunni strax. En þegar íhyglin tók völdin í kollinum og málið var skoðað betur voru nokkur atriði íhuguð. Álagningin núna er fyrir síðasta ár og því ekki óeðlilegt að ljúka því álagningarári þar sem dómur féll ekki fyrr en nú á vordögum og búið er að binda gjaldið í tiltekin verkefni sem aðilar hafa gert ráð fyrir í áætlunum. Allt eru það fín verkefni á sviði fræðslu í málaflokki iðnaðarins sem frábært er að geta stutt og ekki veitir af. Gjaldið er látið renna í ríkissjóð þar sem því verður haldið afmörkuðu í skilgreind verkefni málaflokksins undir vökulu auga eftirlitsstofnana.

Þau þrjú gagnrýnisatriði sem ég nefndi hér fyrr hafa því ekki lengur gagnrýnisbroddinn í sér og hin góðu verkefni fá alla vega stuðning þetta árið og ákveðinn aðlögunartíma. Eftir þennan dóm er samt allsendis óeðlilegt að gjaldtöku verði haldið áfram eftir skýr skil nú um áramótin enda hafa Samtök iðnaðarins lítinn áhuga á að taka áfram við gjaldinu við breyttar forsendur. Ég styð því þetta mál heils hugar eins og það liggur fyrir, vel hugsað og ígrundað af iðnaðarnefnd, og fagna því að lög um iðnaðarmálagjald verði afnumin um áramótin, svo það komi skýrt fram, og tel að skoða þurfi fleiri slík gjöld þó að það sé kannski ekki verkefni iðnaðarnefndar.