138. löggjafarþing — 154. fundur
 9. september 2010.
starfsumhverfi gagnavera.

[10:39]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær kom fram í yfirlýsingu frá samtökum fyrirtækja í gagnaversiðnaði og staðfesti þar með það sem rætt var á þingi á mánudaginn, að seinagangur um nauðsynlegar breytingar á reglugerðum um virðisaukaskatt og óskýr svör ráðamanna vegna uppbyggingar gagnavera hefur dregið mjög úr trúverðugleika Íslands og hugsanlega fælt erlenda viðskiptavini frá landinu. Þetta er ekki nýtt vandamál og þegar fjárfestingarsamningur um smíði gagnavers Verne Holdings í Reykjanesbæ var lagður fyrir þingið fyrir u.þ.b. ári lá strax fyrir að þetta væri eitt af þeim atriðum sem þyrfti að leysa til að þetta mál kæmist í höfn. Það hefur komið fram að íslensk gagnaver standa út frá samkeppni ekki jafnfætis evrópskum gagnaverum. Nýleg úttekt KPMG sem gerð var að ég held fyrir atbeina fjármálaráðherra staðfestir þetta.

Í morgun upplýsti formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Skúli Helgason, að hæstv. fjármálaráðherra hefði gefið yfirlýsingar í fyrra um að lægi það skýrt og klárt fyrir eftir þessa úttekt að hér þyrfti að gera bragarbót á lagasetningu yrði það gert til að greiða fyrir þessu.

Við höfum tekist hér á um atvinnustefnu, við höfum tekist á um mismunandi áherslur í því en ég hélt, sérstaklega eftir að ég las grein í Fréttablaðinu 31. ágúst um landris hæstv. fjármálaráðherra, að fjármálaráðherra væri því sammála að gagnaver væru atvinnukostur sem væri dýrmætur fyrir landið vegna þess að hann notaði hóflegt magn af orku og skapaði mikilvæg störf, svo ég noti orðbragð hans sjálfs. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hér hvar þetta mál standi í fjármálaráðuneytinu, hvort vilji sé til að leysa það og þá hvenær. Það er grafalvarlegt mál ef enn eitt atvinnutækifærið (Forseti hringir.) á að glutrast út úr höndum okkar fyrir klaufaskap þessarar ríkisstjórnar.



[10:41]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mjög mikil vinna hefur verið lögð í það í fjármálaráðuneytinu og af hálfu embættis ríkisskattstjóra að koma til móts við óskir gagnaveraaðilanna og eftir atvikum væntanlegra viðskiptavina þeirra sem vandamálið snýr meira að. (Gripið fram í: 10 mánuði.) Það má segja að það hafi verið sett í algeran forgang. Þannig var t.d. fjárfestingarsamningur íslenska ríkisins við Verne Holdings settur í forgang strax og Alþingi hafði afgreitt það mál, skjöl kláruð sem að því lutu að senda málið til Eftirlitsstofnunar ESA og þar er það nú til skoðunar. Samningurinn öðlast að sjálfsögðu ekki gildi fyrr en ESA hefur gefið grænt ljós á samþykki hans.

Það sem hefur komið í ljós er að gagnaveraaðilarnir eða fyrst og fremst væntanlegir viðskiptavinir þeirra gera þar til viðbótar kröfur um veruleg frávik og ívilnanir frá almennum skattareglum, sérstaklega það að þurfa ekki að skrá neina starfsemi hér á landi. Það leiðir til þess að upp koma vandamál sem sjálfkrafa leysast ef menn eru með skráða starfsemi hér og njóta þá þeirra réttinda sem tengjast skráningunni, svo sem varðandi innskatt og útskatt í virðisaukaskatti. Ef fallist er á að heimila ekki skráningu starfseminnar hér og veitt undanþága frá þeirri reglu með einhverjum sértækum hætti þarf eftir sem áður að leysa það sem snýr að virðisaukaskatti í sambandi við innflutning búnaðar og skattlagningu þjónustunnar út á við. Það er tiltölulega einfalt og verður væntanlega gert með breytingum á reglum að núllskatta þjónustuna út á við en eftir stendur þá vandamálið með búnaðinn.

Fjármálaráðuneytið telur að þessi atvinnurekstur geti orðið mjög gagnleg viðbót við atvinnuuppbyggingu í landinu, hefur þar af leiðandi skoðað og er að skoða það af miklum velvilja að koma til móts við þessar sérstöku óskir. Þær kalla á frávik frá almennum skattareglum í samskiptum ríkja og það er ekki einkamál okkar hversu langt er gengið frá þeim frávikum. Það þarf að standast samkeppnisreglur í Evrópu, það þarf að standast jafnræðisreglur (Forseti hringir.) gagnvart öðrum aðilum innan lands og þar fram eftir götunum. Og það væri til lítils farið af stað með slíkt ef við værum rekin til baka með allt saman vegna þess að það stæðist ekki.

Málið er óendanlega miklu flóknara en látið hefur verið (Forseti hringir.) í veðri vaka í umræðunni og það er ósanngjarnt og ómaklegt að halda því fram að íslensk skattyfirvöld, (Forseti hringir.) fjármálaráðuneyti og ríkisskattstjóri hafi ekki af miklum velvilja lagt (Forseti hringir.) mikla vinnu í að reyna að leysa þetta mál. (Gripið fram í.)



[10:44]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk.



[10:44]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Eftir þetta eygi ég örlitla von um að þetta verði leyst en þó verð ég að segja að þessi áhersla hæstv. ráðherra á óendanlegt flækjustig þessa máls olli mér miklum vonbrigðum. Ég held að ef menn gæfu sér tíma og settu málið í forgang eins og hæstv. fjármálaráðherra hélt fram að hann væri að gera það ekki svo flókið. Þetta er svona í öðrum löndum. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að við þyrftum að taka tillit til annarra landa en það er nákvæmlega það sem fyrirtæki í þessum iðnaði fara fram á. Í yfirlýsingu samtakanna sem ég vísaði til áðan segir að til samanburðar sé mjög skýrt kveðið á um það í breskri löggjöf að engin sú kvöð sé á viðskiptavinum gagnavera að þeir stofni til fastrar starfsstöðvar í landinu, eins og verið er að fara fram á hér, og að þjónusta gagnavera sé undanþegin virðisaukaskatti þegar hún er seld fyrir utan landsteinana.

Nú vil ég gefa hæstv. fjármálaráðherra það góða ráð að kynna sér bresku löggjöfina, ganga í málið og klára þetta fyrir vikulok.



[10:45]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú er það vissulega svo að eðli þessarar starfsemi er sérstakt og má segja að það virði ekki landamæri í hefðbundnum skilningi. Þess vegna er skiljanlegt að upp komi það álitamál í hve ríkum mæli á að gera kröfu til þess að starfsemi sé skráð þar sem hún fer fram og að hún sé andlag skattlagningar í því landi. Það er hin almenna regla. Síðan gilda gjarnan tvísköttunarsamningar milli ríkja um það hvernig sköttunum er skipt ef starfsemi fer fram á tveimur stöðum.

Menn skulu hafa það í huga að það skiptir máli fyrir ekki bara íslenska ríkið heldur íslensk sveitarfélög að hin almenna regla sé sú að starfsemi sé andlag skattlagningar þar sem hún fer fram en komi ekki öll til skattlagningar í öðrum löndum. Við erum að skapa fordæmi hér og vonandi fyrir vaxandi iðnað og við þurfum að gæta að því hversu langt við getum gengið. Við teljum að það sé tiltölulega einfalt að leysa þann þátt sem snýr að sölu þjónustunnar úr landi með því að meðhöndla hana sem útflutning og núllskatta hana hér. Varðandi búnaðinn er málið stærra og flóknara. Ef viðkomandi aðilar, sem eiga búnaðinn hér, (Forseti hringir.) eru ekki tilbúnir til að skrá sig með starfsemi þarf greinilega að veita undanþágur (Forseti hringir.) sem eru óhefðbundnar, ganga gegn almennum skattareglum og er ekki (Forseti hringir.) víst að Ísland komist upp með.