138. löggjafarþing — 161. fundur
 15. september 2010.
skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, frh. einnar umræðu.
skýrsla þingmn. um skýrslu RNA, 705. mál. — Þskj. 1501.

[10:31]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum áfram skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í dag. Það er mér, eins og öðrum þingmönnum, umhugsunarefni að það skyldi þurfa að koma til allrar þessarar vinnu. Ég verð að segja, eftir þá miklu gagnrýni sem bæði þingmenn sjálfir og það sem komið hefur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu þingmannanefndarinnar á störf og sjálfstæði Alþingis, að ég tel að Alþingi hafi gert rétt. Með því að standa að skipun rannsóknarnefndarinnar og láta alla þá vinnu ganga fyrir sig og gefa þeirri nefnd það umboð sem hún fékk og frið til að að kortleggja fyrir þing og þjóð á mjög skömmum tíma hvað hafi orðið til þess að við lentum í því mikla efnahagshruni, tel ég að Alþingi hafi sýnt frumkvæði og mikið hugrekki.

Ég tel að ekki hefðu allar þjóðir getað brugðist við með sama hætti og við gerðum. Við höfum, þrátt fyrir þá völtu sjálfsmynd sem við sem þjóð fengum og þá mynd sem aðrar þjóðir hafa fengið af okkur sem þjóð eftir þetta mikla hrun, sýnt þar sjálfstæði og hugrekki sem margar þjóðir líta til.

En hvað átti svo að gera við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar? Það var okkar hlutverk á Alþingi og gat ekki verið neinna annarra að vinna úr þeim niðurstöðum. Nú hefur þingmannanefndin skilað af sér og ég vil eins og aðrir þakka henni sérstaklega fyrir vel unnin störf og fyrir að hafa getað skilað þessu verki á undraskömmum tíma.

Verk rannsóknarnefndarinnar var mikið og hún skilaði af sér í níu bindum. Þau bindi voru viðamikil og ítarleg og er ekki fyrir alla að fara í gegnum þá lesningu. En smám saman hefur innihald þeirra verið að síast til okkar, kannski vegna umfangs skýrslnanna og hugsanlega vegna þess að sérstök þingmannanefnd vann með þær skýrslur. Ef til vill þess vegna hefur ekki verið mikil umræða um niðurstöður rannsóknarnefndarinnar þann tíma sem liðinn er frá því að hún skilaði af sér. En þingmannanefndin gerði það sem ég hélt varla að væri mögulegt, hún dró hvert bindi saman í stutta greinargerð og innihald skýrslnanna saman í stuttan og kjarnyrtan texta þannig að það er mjög einfalt og gott að setja sig inn í efni hvers hluta skýrslunnar. Síðan dregur þingmannanefndin fram tillögur rannsóknarnefndarinnar um hvernig rannsóknarnefndin telji að bregðast eigi við. Svo lýsir þingmannanefndin því hvað hún leggur til að gert verði. Það er sett fram á kjarnyrtu og góðu máli, aðgengilegu fyrir okkur sem þing. Við vitum að það eru mjög mörg verkefni sem bíða við að bæta úr löggjöf okkar, að treysta þá umgjörð sem er utan um fjármálastarfsemi sem verður til að bæta starf í stjórnsýslunni og gera það gagnsærra, skilvirkara og formfastara en það er í dag. Jafnframt eru margar ábendingar fyrir Alþingi sjálft.

Ég vil líka segja Alþingi það til hróss að það hefur ekki bara beðið eftir niðurstöðu þingmannanefndarinnar heldur var farin í gang viðamikil vinna áður en rannsóknarnefndin skilaði af sér, um að fara yfir skyldur og eftirlitshlutverk Alþingis. Sú vinna var komin vel af stað þegar rannsóknarnefndin var skipuð. Hún skilaði svo af sér skýrslu og tillögum um bætta starfsemi Alþingis áður en þingmannanefndin skilaði sinni skýrslu.

Alþingi hefur líka verið að vinna að tillögum um bætta stjórn í þinginu og stöðu þingsins. Í sumar var dreift á Alþingi þingsályktunartillögu um breytingu á þingsköpum Alþingis, sem ég tel að við munum fá nýja tillögu til að vinna með sem lögð verður fram í byrjun haustþingsins, í byrjun október. Alþingi vatt sér strax í þá vinnu að bæta stjórnsýslu í landinu og styrkja stöðu Alþingis.

Ég vil taka undir það sem sagt var í nokkrum ræðum í gær, að Alþingi á hverjum tíma er hvorki sterkara né veikara en þeir sem sitja á þingi á hverjum tíma. Það fer eftir okkur sjálfum hversu sterkt Alþingi er, hversu mikið við virðum stöðu Alþingis, hvernig við lítum á okkur sem löggjafarþing gagnvart stjórnsýslunni, hvort við berum virðingu fyrir okkur sjálfum og fyrir Alþingi. Það getur enginn gert það nema við sjálf þannig að við skulum vara okkur á því að tala Alþingi niður. Þá tölum við okkur sjálf niður, við tölum stofnunina niður. Við eigum að vera vönd að virðingu okkar þegar kemur að störfum Alþingis og vera þá menn til að styrkja Alþingi og bæta þar með álit almennings á Alþingi því að það hefur hrapað og það er engum að kenna nema okkur sjálfum.

Í þessari skýrslu er farið yfir marga þætti og ég vil nefna að eitt af mörgu sem varð að líta til þegar þingmannanefndin var skipuð var að vanda þyrfti til skipunar hennar. Hún var skipuð þingmönnum og varð að vanda til við val þeirra. Eins urðu menn að reyna að komast upp úr pólitískum hjólförum og losa sig við pólitískar klyfjar þannig að nefndin gæti tekið starf sitt alvarlega og vegið og metið þá þætti sem rannsóknarnefndin skilaði af sér út frá faglegum forsendum. Það var gert með því að fara ekki eftir styrkleika þingflokkanna á þingi heldur að velja í nefndina tvo fulltrúa úr hverjum flokki fyrir utan Hreyfinguna sem fékk einn fulltrúa, það voru sem sé níu fulltrúar í nefndinni. Það var gert til að draga úr pólitískri sýn á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Það held ég að hafi tekist með ágætum því að hvað skýrslu þingmannanefndarinnar varðar skrifa allir nefndarmenn upp á hana að undanteknum nokkrum bókunum sem gerð hefur verið grein fyrir og ég ætla ekki að fara sérstaklega í. Um vinnuna og tillögurnar sem hér hafa verið lagðar fram hefur ríkt samstaða.

Ég tel líka að það hafi verið mjög gott fyrir okkur, sérstaklega inn í framtíðina, að fá greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis út frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Mörgum þótti skrýtið að farið skyldi vera út í þá vinnu en ég tel að við lestur kynjagreiningarinnar og frá kynjafræðilegu sjónarhorni fáum við aðvörun inn í framtíðina um að taka það alvarlega sem við ætlum okkur, að gæta kynjajafnréttis á öllum sviðum. Við tölum um jafnréttismál, við tölum um jafnrétti í svo víðu samhengi en kynjajafnréttið má ekki gleymast. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að konur og karlar hafa ólíka sýn á lífið og tilveruna, inn í pólitíkina. Það sýnir sig í skoðanakönnunum og það kemur líka fram í eðli kynjanna. Það sýnir sig að konur eru upp til hópa varkárari og velja aðrar leiðir en karlar. Konur eru ekki eins áhættusæknar og karlar. Strax á vikunum eftir hrunið blasti það við okkur að þeir sem voru leikendur og stjórnendur og báru höfuðábyrgðina í því mikla efnahagshruni sem hér varð voru strákarnir. Það var hópur karla á besta aldri. Það sýnir okkur að það er varasamt á þessu sviði sem og mörgum öðrum að gæta þess ekki að hafa kynjasjónarmiðin í heiðri. Því tel ég að þessi skýrsla muni verða okkur aðvörun og við þurfum að muna í framtíðinni að gæta að kynjasjónarmiðum.

Það sem ég vildi aðeins koma inn á, hæstv. forseti, er að mér hefur fundist í þessari umræðu að pólitíkinni sem slíkri hafi veri ýtt til hliðar. Hvers vegna erum við í mismunandi pólitískum flokkum? Af hverju aðhyllumst við eina stefnu frekar en aðra? Hvers vegna veljum við félagshyggju eða aðhyllumst hugmyndafræði frjálshyggju, markaðshyggju eða einstaklingshyggju? Við höfum ólíka sýn. Flokkarnir endurspegla þessa pólitíska sýn kannski ekki eins mikið og víða annars staðar þar sem eru jafnvel tveir flokkar, þ.e. hægri og vinstri. Þetta flýtur svolítið út hjá okkur en við höfum ólíka pólitíska sýn og það hlýtur að koma fram í ríkisstjórn á hverjum tíma eftir því hvaða flokkar eru við völd, hvaða ákvarðanir eru teknar. Mér hefur aðeins þótt skorta á að við tækjum þá umræðu núna að horfa til framtíðar til að læra líka af mistökunum sem urðu í pólitíkinni sjálfri, í stefnunni. Það er rétt að láta þess getið að höfuðábyrgð á falli bankanna báru auðvitað stjórnendur bankanna, glæfraverk þeirra, áhættufíkn og krosseignatengsl og allt það sem við þekkjum í dag varð til þess að hrun varð og er búið að fletta ofan af því sem hefur verið nefnt ýmsum nöfnum öðrum en skipulögð glæpastarfsemi. Það er það eina sem vantar að nefna.

Það voru líka einstaklingar í pólitíkinni sem bera ákveðna ábyrgð. En ef við tökum pólitíkina og segjum: Hvað var það sem leiddi til þess að bankarnir voru seldir? Það var pólitísk ákvörðun, það var sú stefna flokka að það ætti að selja bankana. Hvernig það fór vitum við en það kom ekki bara af himnum ofan að nú væri gott að selja bankana og að við skyldum gera það. Það var fyrir fram ákveðin pólitísk stefna að bankarnir skyldu seldir.

Hvers vegna var Þjóðhagsstofnun lögð niður? Það var líka pólitísk ákvörðun. Það var vegna þess að Þjóðhagsstofnun var með aðrar spár og aðra greiningu en kom þáverandi valdhöfum vel svo hún var bara lögð niður. Það er pólitísk ákvörðun að vera ekki með þjóðhagsstofnun sem þvælist fyrir. Hvers vegna var Fjármálaeftirlitið og annað eftirlit veikt? Vegna þess að það átti að vera veikt. Það var pólitísk ákvörðun að hafa veikt. Eftirlitið átti ekki að þvælast fyrir og það er margbókað. Það var meðvituð ákvörðun og pólitísk trú að markaðurinn gæti eins og var sagt „regúlerað“ sig sjálfur, að markaðurinn sæi um sig sjálfur. Það þyrfti ekki að vera með puttana ofan í honum. Þess vegna var Fjármálaeftirlitið ekki styrkt, vegna þess að það var trú þeirra sem þá réðu að markaðsöflin skyldu ráða. Það er pólitík.

Það var líka pólitík að hafa ofurtrú á bankastarfseminni og að eftirlitið væri í lagi, að þetta væri allt í lagi hjá okkur þrátt fyrir að mörg aðvörunarljós hefðu blikkað og varað við því að bankakerfið væri orðið of stórt, það hefði þanist allt of mikið út, það væru ýmis hættumerki á ferð, við mundum ekki ráða við það ef bankarnir féllu o.s.frv. En þrátt fyrir það — það má nefna það pólitík, það má líka bara kalla það hroka eða blindni — beittu ráðamenn á þeim tíma sér ekki fyrir því að höfuðstöðvar einhverra hinna stóru banka yrðu fluttar úr landi. Þeir skyldu vera íslenskir bankar. Þeir beittu sér heldur ekki fyrir því að eftir að öll ljós fóru að loga að gengið yrði eftir því að Icesave-reikningarnar færu úr útibúi yfir í dótturfélag í Bretlandi. Þeir beittu sér heldur ekki fyrir því að koma í veg fyrir að Icesave-reikningar yrðu opnaðir í Hollandi. Ofurtrú eða blindni, það er ekki bara mat á stöðunni, það er líka spurning um pólitík.

Annað sem ég vil nefna, sem var líka pólitík á þessum tíma og hafði mikil áhrif á að bankarnir gátu vaxið svona mikið, var að taka þá ákvörðun að hleypa Kárahnjúkavirkjun í gegn á svo skömmum tíma, að vanda ekki til undirbúnings, gefa málinu ekki það þróunarferli sem það hefði þurft fyrst þessi ákvörðun var tekin. Vegna þess flýtis sem var á allri þeirri framkvæmd fór allt úr böndunum. Það þurfti aðgang að lánsfé og fólk fékk aðgang að því, þenslan var mikil, byggingarnar spruttu upp. Ég vil líka segja að pólitík og pólitísk sýn á markaðshyggjuna urðu okkur líka að falli. Trú á markaðinn og nýfrjálshyggjan sem hér reið yfir varð okkur líka að falli.

Hæstv. forseti. Tími minn er liðinn. Ég vil enn og aftur þakka þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf og fyrir að vinna þau verk sem henni voru falin. Í þeim verkum fólst líka að meta þá skyldu að fara yfir störf ráðherra á þessum tíma og það hefur hún gert.



[10:51]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari skýrslu og þakka fyrir hana eins og öll gögn sem komið hafa fram og eiga eftir að koma fram og hafa það markmið að greina þá atburði sem hafa orðið hér á landi að undanförnu og valdið miklum búsifjum. Þessa skýrslugerð er nauðsynlegt að hafa innan seilingar þegar skynsamleg umræða á að hefjast um hvernig við getum best lært af þeim mistökum sem við óumdeilanlega höfum gert fjöldamörg, hvernig við getum fækkað þeim og hvernig við getum dregið lærdóm af mistökunum þannig að okkur farnist betur um einhverja ótiltekna framtíð, helst sem allra lengsta.

Það sem við köllum hrun og höfum meira að segja dagsett er meðal þeirra hamfara sem hafa lengst gert boð á undan sér. Fyrir hartnær tveimur áratugum þóttust glöggir menn merkja að vindáttir væru að breytast og að hegðunarmynstur væri að breytast í samræmi við það úr hvaða átt vindurinn blési oftast og tíðast. Allt óx það síðan smám saman upp í nokkurs konar hópefli heillar þjóðar sem gjörbreytti um lífshætti, gjörbreytti um afstöðu til lífsins, gerbreytti um skoðanir á því hvað eftirsóknarverðast væri í lífinu og um skoðanir á því hvaða gildi væru ofar öðrum gildum. Þessi breyting gekk undarlega fljótt yfir íslenskt þjóðfélag. Nú er ég ekki að segja að allir hafi verið sömu skoðunar og allir trúað jafnblint á þessi gildi. En það voru gildin sem söfnuðust saman og mynduðu þungamiðjuna, mynduðu þá stefnu sem siglt var eftir frá því um lok síðustu aldar og eins lengi og gaf fram á upphaf 21. aldar.

Allri þessari ferð, víkingaútrás eða hvað við eigum að kalla hana, er lokið og öll hefur hún haft í för með sér hinar hörmulegustu afleiðingar fyrir land og þjóð. Sú skýrsla sem við fjöllum um er væntanlega lögð fram sem námsgagn handa þeim sem hér starfa, fyrst og fremst til að þeir megi upphugsa aðferðir til að láta ekki það sama ganga aftur yfir sig og afkomendur sína.

Ég hef heyrt úr ræðustóli fólk úr öllum flokkum minnast á einstaka efnisþætti þessarar skýrslu. Ég hef heyrt fólk segja: Það var fjármálastjórnin sem brást, það var pólitíkin sem brást, það voru stjórnmálamennirnir sem brugðust, það var faglegt eftirlit þar til gerðra stofnana sem brást. Endurskoðendur voru meira að segja ekki starfi sínu vaxnir. Þar fyrir handan er að finna í skýrslunni sérstakan kafla — og þá er ég að tala um skýrslu rannsóknarnefndar þingsins — um siðferði og miklar vangaveltur þegar rannsókn hófst um hversu lítið siðferði hefði verið hægt að finna hjá því allsnægtarfólki sem stóð að hruninu. Að ytri gæðum, fjármunum, fasteignum og jafnvel menntun stóð það vel en var sárfátækt að siðferði. Í sambandi við siðferði voru dregin upp efni sem geta valdið hörgulsjúkdómum og beinkröm. Dregin voru upp efni eins og æskudýrkun, dýrkun á reynsluleysi og fyrirlitning á reynslu og fyrirlitning á því hvernig hlutir höfðu þróast.

Nú stöndum við á þessum degi hafandi fengið vandaðar skýrslur, fyrst frá rannsóknarnefnd Alþingis og síðan aðra vandaða skýrslu frá þingmannanefnd til að rannsaka skýrslu rannsóknarnefndar, og fyrir það ber að þakka. Nú er að hefjast rannsókn á þeirri miklu vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi. Nefndirnar hafa lokið eða eru við það að ljúka störfum sínum en skýrslurnar munu nýtast ótal öðrum rannsakendum á öðrum tímum við önnur tækifæri sem vilja átta sig á því af hverju eitthvað gerðist og hvernig það gat farið svona. Þetta eru því verðmæt gögn sem við höfum hér með höndum. Ég geri ekki ráð fyrir því að á örfáum dögum komum við öll til með að öðlast sameiginlegan og skýran skilning á innihaldi og boðskap þessara skýrslna. Eðli málsins samkvæmt mótast sameiginlegur skilningur með tímanum og það er í raun og veru aðeins þjóðin sjálf sem öðlast þann skilning að lokum.

Skýrslunni fylgja fylgiskjöl sem eru mörg hver býsna athyglisverð. Ég get ekki látið hjá líða að vitna lítillega í fylgiskjal III en í því eru erindi sem borist hafa þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá janúar 2010 til september 2010 og fletti ég upp á bls. 228. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa nokkur orð úr skýrslunni:

„Hér verður leitast við að skoða hvernig þessar hugmyndir hafa kynbundin formerki í anda umræðunnar hér að framan. Eftirfarandi klippimynd (e. collage) eru orð og hugtök valin úr erindi forsetans hjá Sagnfræðingafélaginu í janúar 2006 og er henni ætlað að gefa innsýn í andblæ þessarar orðræðu:“ — Og hefst nú lesturinn: Útrásarandi, sækja frægð og frama um langan veg, þjóðarvitund, siðmenning, í fremstu röð, nýsköpun, frumkvæði, hæfni og hugvit, snerpa og knáleikur hins smáa, íslenskir athafnamenn bera sigurorð af öðrum, vinnusemi, árangur, áhætta, þora þegar aðrir hika, laus við skrifræðisbákn, íslenskur athafnastíll, skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum, stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð líkt og skipstjóri í brúnni, fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, persóna hans eða hennar verður ráðandi afl, ábyrgð og forusta, landnámið, tími víkinganna, athafnamenn, arftakar hefðar með rætur í upphafi Íslandsbyggðar, tengsl við forna tíma, skáldgáfa, sköpunargleði.

Þetta er úr ræðu forseta Íslands og gefur aðeins til kynna þau gildi og það málfar sem tíðkaðist meðal þeirra útrásarvíkinga sem hæstv. forseti umgekkst á þeim tíma. Ég er flughræddur og var lítið innan um útrásarvíkinga fyrir utan að ég skrifaði um þá tvær bækur á jörðu niðri. Mér ógnaði það mest í sambandi við málfar útrásarfólks Íslands að það gerði tvær kröfur. Það vildi taka upp enska tungu á þessu litla landi okkar og sem allra fyrst. Það snerist um að of tímafrekt væri að græða á íslensku, þ.e. ef maður talaði íslensku tæki lengri tíma að græða peninga. Þessu til áréttunar lagði allt þetta lið niður megnið af sinni íslenskukunnáttu og ég fullyrði að enginn í þessum hópi var þess umkominn að blóta á íslensku. Útrásin hefur þurrkað burt þá göfugu íþrótt að kunna að blóta krassandi á íslensku en eins og einhverjir vita blótar maður nú til dags á útrásaríslensku með því að segja ýmist „fokk“ eða „sjitt“ eða hvort tveggja. Þetta er sú siðfræðilega og menningarlega arfleifð sem útrásarvíkingarnir skilja eftir handa okkur hinum. Þeir skilja eftir gjaldþrota lánastofnanir. Þeir skilja eftir óstarfhæf fyrirtæki. Þeir skilja eftir skuldabendu sem teygir sig til annarra landa. Þessir menn sem vildu taka upp ensku í stað móðurmáls síns eru nú með dýra lögfræðinga til að útskýra fyrir dómstólum í Bandaríkjunum að þeir séu eftir allt alls ekki enskumælandi og vilji bara tala íslensku fyrir dómstólum þarna úti.

Þetta ástand hér á landi hefur verið kallað hrun. Sem betur fer er það aðeins hrun af mannavöldum. Þetta eru ekki alvarlegar náttúruhamfarir. Hér standa eftir byggingar, hér stendur fólk óslasað. Eftir hrun höfum við heitt og kalt vatn, við höfum rafmagn og þak yfir höfuðið. Vinnutæki okkar eru óskemmd, samgöngukerfi okkar er óskemmt. Það er enn þá hægt að búa á landinu þótt miklu hafi verið stolið.

Einhverjir hljóta að bera ábyrgð á því hvernig komið er. Bent er á ýmislegt í þessari skýrslu sem má betur fara. Skylda okkar er að grannskoða þær tillögur svo að við þurfum ekki aftur næstu mannsaldrana að ganga í gegnum svona hópefli, hópgeðveiki. Heilu þjóðfélagi var snúið á hvolf. Það þarf að huga að fjármálastjórn í landinu. Stjórnmálamenn mega svo sannarlega hugsa sinn gang, bæði þeir sem á þingi sitja og svo ef skipt verður út, ef ráðherrar hætta að sitja á þingi þá þarf framkvæmdarvaldið ekki síður að taka til í sínum ranni. Eftirlitsstofnanir verða að rísa undir því nafni og endurskoðendum á ekki að fela ævistarf við ákveðnar stofnanir. Setja á lög um að endurskoðendur geti að hámarki uppáskrifað reikninga ákveðins fyrirtækis um ákveðinn tíma.

Við höfum lært að æskudýrkun, dýrkun á reynsluleysi og fyrirlitning á því hvernig hlutir hafa verið gerðir fram til þessa hafa ekki leitt neitt gott yfir okkur. Við skulum samt ekki bregðast við þessu með því að setja upp eitthvert öldungasamfélag sem öllu ræður heldur aðeins að tryggja að ungt fólk komist til áhrifa (Forseti hringir.) þegar það hefur sýnt með verkum sínum að það hefur náð nauðsynlegum þroska og þar með mun allt okkar samfélag þroskast.



[11:11]Útbýting:

[11:12]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn byrja á því að þakka þingmannanefndinni fyrir vel unnið en vandasamt verkefni sem fólst í því að vinna úr niðurstöðum rannsóknarnefndar þingsins. Ég vil ekki síður nota tækifærið og þakka rannsóknarnefnd Alþingis, undir forustu Páls Hreinssonar, fyrir tímamótarannsókn hennar sem markar þáttaskil í íslensku samfélagi. Niðurstöður hennar eru falleinkunn fyrir marga þætti í okkar ágæta samfélagi á því tímabili sem rannsóknin tekur til. En nú eru aðrir tímar runnir upp og ég vona að það sé full einlægni og einurð meðal okkar alþingismanna að hrinda veigamiklum úrbótum í framkvæmd.

Skýrsla þingmannanefndarinnar er mjög áhugaverð, ekki síst fyrir nýjan þingmann eins og þann sem hér talar. Hún varpar skýru ljósi á hlutverk Alþingis og veikleika þess sem m.a. átti ríkan þátt í hruni samfélags okkar. Í skýrslunni er minnt á skyldur þingsins um eftirlit og aðhald og rétt þingmanna til upplýsinga, ekki síst þeirra sem eru í minni hluta hverju sinni. Við eigum að stunda ábyrga og málefnalega umræðu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Þetta er gott veganesti fyrir nýjan þingmann og tilfinning mín er sú eftir mjög stutta þingsetu að þetta séu vinnubrögð sem nýir þingmenn vilja almennt viðhafa.

Í nefndum er oftast nær unnið af einurð og á mínum stutta ferli hef ég m.a. átt sæti í tveimur nefndum sem hafa leitt mikilvæg mál til lykta í fullri sátt og trúnaði meiri og minni hluta. Annars vegar er það félags- og tryggingamálanefnd sem afgreiddi lög um skuldavanda heimilanna og hins vegar umhverfisnefnd sem afgreiddi skipulagslög, tvö lagafrumvörp sem voru mjög erfið en full sátt og eining ríkti meðal meiri og minni hluta um að leysa málið með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég fagna tillögu þingmannanefndarinnar um að alþingismenn setji sér siðareglur. Ferlið sjálft, og það þekki ég úr mínum fyrri störfum, þ.e. þegar hópur mótar sér siðareglur, er ekki síður mikilvægt en reglurnar sjálfar. En alþingismenn koma og fara og því skiptir miklu máli að skráðar siðareglur séu til staðar. En fyrst og fremst er það auðvitað siðferði hvers og eins sem skiptir máli. Ef það er ekki í lagi skipta skráðar reglur engu máli.

Þá fer ég í þann kafla sem heitir Kynjagreining og er að finna í viðauka skýrslunnar. Þar er að finna áhugaverða greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar út frá kynjafræðilegu sjónarmiði. Eins og ég segi er þetta áhugaverð greining og staðfesting á því sem áður var vitað, þ.e. að það voru siðlausir karlmenn sem léku aðalhlutverkin í hruninu og aðdraganda þess. Þetta á sem betur fer ekki við um alla karlmenn en í þessu tilfelli voru það siðlausir karlmenn sem léku aðalhlutverkin í hruninu.

Það er samdóma álit rannsóknar- og þingmannanefndarinnar að það eru stjórnendur og aðaleigendur fjármálafyrirtækjanna sem bera mesta ábyrgð á hruninu. Öll vitum við að það voru gírugir karlar sem þar réðu för, karlar sem töldu sig hafna yfir lög og reglur samfélagsins bæði skráðar og óskráðar. Konur voru jaðarsettar eins og það er kallað í skýrslunni, þ.e. þær fengu að vera á jaðrinum og þá oftast sem eins konar skrautfjaðrir, sem eins og allir vita duga skammt í langflugi.

Það er með ólíkindum að svo fámenn þjóð eins og við Íslendingar erum skuli ekki bera gæfu til að nýta alla þá visku sem þegnar þessa lands, bæði konur og karlar, búa yfir. Því miður er ég ansi hrædd um að við höfum lítið lært af hruninu í þessum efnum, ég vil ekki segja ekkert en við höfum lítið lært af hruninu í þessum efnum því að margt bendir til þess að konur séu enn jafnjaðarsettar í fjármálakerfinu, a.m.k. ef marka má skipurit sem er að finna á heimasíðum þriggja helstu banka landsins. Það sést meðal annars á heimasíðu Landsbankans að af 14 æðstu stjórnendum bankans eru 3 konur, aðeins 3 konur af 14 í æðstu stjórnendastöðum Landsbankans. Sömu sögu er að segja af Íslandsbanka en af 14 æðstu stjórnendum þess banka eru aðeins 5 konur. Staðan í Arion banka virðist ögn skárri en í hinum tveimur en þar eru 8 konur í hópi 15 æðstu stjórnenda bankans samkvæmt heimasíðum bankanna þriggja.

Sem sé, aðeins þriðjungur æðstu stjórnenda í stærstu bönkum landsins eru konur þrátt fyrir niðurstöðu nefndanna tveggja, þrátt fyrir orðræðu í samfélaginu að nú sé tímabært að konur og raddir kvenna, sjónarmið og reynsla, skipti máli í uppbyggingu samfélagsins. Samt sem áður er staða þessi nú þegar við höfum tækifæri til að byggja upp nýtt fjármálakerfi. Ég spyr þess vegna: Höfum við ekkert lært?

Svo má geta þess í framhjáhlaupi í þessu sambandi að það getur kannski talist frekar óheppilegt að það skuli vera karlar sem leiddu störf þessara tveggja mikilvægu nefnda án þess að ég sé nokkuð að kasta rýrð á þeirra störf. Eins og áður hefur komið fram met ég þau mikils. En nöfn þeirra munu þannig bætast á þann langa lista karlmanna sem teljast hafa markað íslenskt samfélag í sagnfræði framtíðarinnar.

Fyrir börn framtíðarinnar sem lesa sögu Íslands og sagnfræði verða þessi nöfn enn þá greypt og bætast við þennan langa lista og það er umhugsunarefni nú þegar við höfum tækifæri til að breyta. En ég vil ítreka og ég vil geta þess sérstaklega að Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, og þingmannanefndin öll á heiður skilið fyrir að láta greina skýrslu rannsóknarnefndar út frá kynjafræðilegu sjónarmiði og ég held að þarna sé komin greining sem muni marka tímamót í allra umræðu um kynjafræði og kynjagreiningu.

Virðulegi forseti. Þá er komið að stjórnsýslunni. Að mati þingmannanefndarinnar er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu. Kemur þar ýmislegt til, svo sem slælegt verklag, skortur á formfestu, óljóst ábyrgðarsvið og fleira. Þetta á bæði við um ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, hvort heldur sem þær lúta sjálfstæðri stjórn eða heyra beint undir ráðherra. Íslensk stjórnsýsla er því miður ekki skipuð okkar besta fagfólki á hverju sviði. Hún líður fyrir pólitískar ráðningar í gegnum tíðina. Stjórnmálaflokkar hafa allt of oft notað stjórnsýsluna sem hreiður fyrir flokksgæðinga til að tryggja völd sín sem víðast. Þetta er ólíkt því sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar þar sem góð og fagleg stjórnsýsla er álitin einn af hornsteinum lýðræðisríkja. Það er t.d. sláandi að lesa hvernig ákvörðun um yfirtöku Glitnis var tekin án þess að stuðst væri við fagleg gögn eða þekkingu. Þetta var stjórnvaldsákvörðun byggð á pólitískum geðþótta. Um stjórnvaldsákvarðanir gilda ákvæði stjórnsýslulaga þar sem settur er rammi m.a. um hvernig skuli standa að slíkum ákvörðunum. Rannsóknarregla stjórnsýslulaganna kveður á um að mál séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin þannig að á stjórnvöld er sett ákveðin skylda til að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin eins og segir í 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessi regla var þverbrotin og þarna réðu enn og aftur karlar sem töldu sig hafna yfir lög og reglur þessa lands. Ég verð að segja að það sló mig í umræðunni í gær, þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í ræðustóli og taldi sem svo að það væri eðlilegt að ekki hefði verið hægt að halda minnispunkta frá þessum fundum þessa helgi. Það er óþægilegt að heyra að menn á Alþingi og víðar séu enn þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að halda fundargerðir og skrifa minnispunkta þegar teknar eru jafnmikilvægar ákvarðanir og þessi.

Innan Stjórnarráðsins er sú menning ríkjandi að til að hljóta frama sé mikilvægt að sýna íslenska varfærni en ekki hafa mikið frumkvæði og ekki standa uppi í hárinu á yfirboðurum sínum, sama hversu alvarleg mál eru til umræðu. Þetta er meðal annars hægt að lesa úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Stjórnarráðið er í eðli sínu íhaldssamt og varfærið en þegar varfærnin er farin að standa í vegi fyrir framfaramálum og góðri stjórnsýslu er nauðsynlegt að huga að stofnanamenningunni en ekki bara forminu. Við verðum að efla frumkvæði og kraft starfsmanna Stjórnarráðsins og umbuna þeim sem þora að benda á að keisarinn sé nakinn. Því hefur verið öfugt farið. Formbreytingar skila engu nema þeim fylgi breyttur hugsunarháttur. Það hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að koma á fjölskipuðu stjórnvaldi líkt og í Svíþjóð og þá hugmynd styð ég. Mér finnst hún allrar skoðunar verð og ég held að hún yrði okkur til framdráttar. Slíkt fyrirkomulag þýðir meðal annars að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar standa að ákvörðunum og embættisfærslum hver annars. Er ekki líklegt að ráðherrar hefðu heykst á pólitískum ráðningum ef svo siðlaust athæfi hefði þurft samþykki allrar ríkisstjórnarinnar svo að dæmi sé tekið.

Þá örlítið um eftirlitsaðilana. Veikir eftirlitsaðilar og röng innleiðing tilskipana Evrópusambandsins er meðal þess sem orsakaði hrunið á Íslandi. Það kemur fram í báðum nefndum. Þingmannanefndin leggur til ýmsar úrbætur á þessum sviðum sem ég tek undir og veit að farið er að undirbúa. Það er einkum tvennt sem ég vil þó vekja athygli á í þessu sambandi. Það er annars vegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem nýlega var samþykkt með fyrirvara á þinginu að innleiða í íslenskan rétt. Ég tel að tilskipunin muni hafa mjög jákvæð áhrif hér á landi en vek athygli á því að sérstaklega þarf að vanda til hlutverks heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sem fær með tilskipuninni aukið og yfirgripsmikið hlutverk sem getur hugsanlega haft í för með sér talsverðan aukakostnað sé ekki rétt á málum haldið. Þetta veit ég vegna þess að ég lagði mjög mikinn tíma í að ræða þessa tilskipun og hlutverk sveitarfélaga í starfi mínu í Brussel fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og það er að mjög mörgu að hyggja þegar kemur að innleiðingu þjónustutilskipunarinnar þó að markmið hennar og megininntak sé mjög jákvætt fyrir íslenskt samfélag. En þjónustutilskipunin er gott dæmi um tilskipun sem Íslendingar geta sjálfir haft mikil áhrif á, hvernig hún er innleidd hér á landi. Fákunnátta og hræðsla við að laga tilskipun að íslenskum aðstæðum eins og raunin varð með tilskipun um fjármálastofnanir má ekki endurtaka sig. Það er eitt af grundvallarprinsippum þjónustutilskipunarinnar að stjórnvöldum, bæði ríki og sveitarfélögum, er heimilt að skilgreina hvaða þjónusta skuli vera í almannaþágu. Það er reginmisskilningur að Evrópusambandið ákveði það. Það er ákvörðun hvers aðildarríkis að ákveða, skilgreina með lögum, hvaða þjónusta telst svo rík af almannahagsmunum að hún verði eingöngu veitt af opinberum aðilum. Þetta er hins vegar pólitíkin sem við ræðum þegar við innleiðum tilskipanir eins og þessa. Við megum aldrei trúa því að við þurfum að þýða þjónustutilskipanir orðrétt, við þýðum reglugerðir Evrópusambandsins en þjónustutilskipanir eru nálægt því sem heitir rammalöggjöf á íslensku og við höfum mikið svigrúm til að laga þær að íslenskum aðstæðum.

Þetta leiðir mig aftur að eftirlitshlutverki stjórnvalda sem brást í aðdraganda hrunsins og það er að á fund samgöngunefndar í gær kom eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem var að gera nefndinni grein fyrir fjármálalegri stöðu sveitarfélaga í framhaldi af umræðum í fjölmiðlum. Á fundinum kom fram að sveitarfélög líta gjarnan á það sem áfellisdóm að setja sig í samband við nefndina eins og þeim ber lögum samkvæmt ef í óefni stefnir. Á sama hátt líta sveitarfélögin á það sem áfellisdóm ef þeim berst bréf frá nefndinni og menn hlaupa yfirleitt í vörn við slík tíðindi. Af því leiðir að oft er farið með hlutverk og aðgerðir eða athafnir eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga eins og mannsmorð. Við þurfum ekki að líta lengra aftur en til sveitarfélagsins Álftaness þar sem íbúar sitja í súpunni vegna ógætilegrar og óhóflegrar fjárfestingar sveitarstjórnarmanna langt umfram getu með þeim afleiðingum að skerða þarf þjónustu við íbúana svo mjög að það fer að verða spurning hvort það geti talist almennt norrænt velferðarsamfélag, sú þjónusta sem þar er boðið upp á. Við megum ekki vera hrædd við eftirlitsaðilana. Við eigum að styðja við þá og þeir eiga að hafa fullt frelsi til að vara við yfirvofandi hættum og við eigum að læra af því að það þýðir ekki að fara út í orðræðu um að hér sé allt í stakasta lagi og engin ástæða til að hafa áhyggjur.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er vikið að fjölmiðlum og hlutverki þeirra. Því miður hefur þróun fjölmiðlanna hér á landi verið með nokkuð öðrum hætti en í nágrannaríkjum okkar að því leyti að samkeppnin hefur ekki orðið til að bæta þá heldur hefur vinnubrögðum þvert á móti hrakað og hér á ég fyrst og fremst við fréttaflutning og samfélagsumræðu. Í nágrannaríkjum okkar þykir sjálfsagt í öllum fjölmiðlum sem taka sig alvarlega að halda í heiðri þá reglu að leita allra sjónarmiða í hverju máli. Sums staðar eru ákvæði í lögum í þá veru og öllum ríkisfjölmiðlum í Evrópu er gert að starfa í þessum anda, líka Ríkisútvarpinu og það er ítrekað í 2. gr. reglna um fréttastofu RÚV. En fer Ríkisútvarpið eftir þessum reglum eða hefur það líka fallið í þá gryfju að opna fyrir krana og leita ekki annarra sjónarmiða? Við vitum hvert svarið er og við vitum væntanlega líka að ekki er hægt að kenna samdrætti eða slæmum efnahagsfjölmiðli um ritstjórn og fréttastjórn sem gengur út á það að fréttir eru söluvara en ekki samfélagsleg þjónusta.

Í frumvarpi til fjölmiðlalaga er reynt að koma þeirri hugsun á framfæri að fjölmiðlar séu ekki eins og hver önnur viðskiptastarfsemi heldur lúti þeir einnig öðrum lögmálum sem helgast af samfélagslegri stöðu þeirra. Viðbrögðin við frumvarpinu hafa hins vegar sýnt að kannski erum við svo langt frá öðrum þjóðum í Norður-Evrópu að sú hugsun að samfélagsleg ábyrgð gangi framar gróðavon er mönnum framandi.

Frú forseti. Ýmsum af þeim úrbótatillögum sem settar eru fram í skýrslu þingmannanefndar hefur nú þegar verið ýtt úr vör eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, í ræðustól í gær. Mörg þeirra hafa verið baráttumál Samfylkingarinnar til margra ára og því fögnum við þeim áfanga sem hefur náðst með starfi nefndarinnar, og ég treysti því að við munum fylgja þeim ríkulega eftir.

Eitt af mikilvægustu baráttumálunum er þó ekki í höfn og það er það baráttumál Samfylkingarinnar að Ísland verði formlegur og fullgildur aðili að sambandi Evrópuþjóða. Margt af því besta í löggjöf okkar er sprottið úr ranni Evrópusambandsins og það er sannfæring mín eftir lestur skýrslnanna tveggja að okkur muni betur farnast við uppbyggingu samfélagsins í samfélagi við aðrar þjóðir en ein og sér. Af því að ég er farin að tala um Evrópusambandið og okkar alþingismanna bíður það verkefni að fjalla um ráðherraábyrgð leiði ég hugann að því hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé núna í miðjum klíðum við að brjóta lög um ráðherraábyrgð. Ég skal ekki dæma um það en ég leiði hugann að því.

Í svari við fyrirspurn minni í síðustu viku, um það hvort hann og ráðuneyti hans tæki þátt í að undirbúa Ísland undir hugsanlega þátttöku í Evrópusambandinu, staðfestir hann að ráðuneytið sem hann fer fyrir hafi ákveðið að taka ekki þátt í þeim undirbúningi. Ég velti því fyrir mér að ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur og ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur staðfastlega ákveðið að taka ekki þátt í undirbúningi þá blasir það við að íslenskir bændur og útgerðarmenn og allir þeir sem vinna við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál standa langt að baki öðrum stéttum í þessu samfélagi, ég tala ekki um að baki kollega sinna í Evrópu. Því spyr ég, frú forseti: Er tilefni til að hafa áhyggjur af því að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gangi á svig við 2. og 4. gr. laga um ráðherraábyrgð eða er ráðherrum í sjálfsvald sett að ákveða samkvæmt eigin geðþótta að málefni henti þeim ekki og því geti þeir haldið málaflokkum sínum utan við eðlilega þróun?



[11:32]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hv. þingmaður kom m.a. inn á í ræðu sinni að íslensk stjórnsýsla liði fyrir pólitískar ráðningar, hún væri ekki skipuð okkar hæfasta fólki. Mig langar að spyrja hv. þingmann, í ljósi þeirra atburða sem hafa gerst á undanförnum árum og fram hefur komið í þingsölum að sennilega hafi aldrei verið jafnmikið um pólitískar ráðningar í ráðuneytin eins og akkúrat núna undanfarna mánuði, hvort hún geti verið sammála mér um að lítið eða ekkert hafi breyst, a.m.k. ekki til batnaðar.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri eðlilegra, eins og oft hefur verið viðrað í umræðunni, að hafa alveg skýrar reglur, sem ég teldi mjög skynsamlegt, þegar verið væri að skipta út ráðherrum. Þeir hefðu þá ákveðinn fjölda aðila, aðstoðarmanna og einhverja, með sér í ráðuneyti en þeir færu þá líka jafnframt út þegar ráðherrarnir hættu og það yrði sett í löggjöfina.

Síðan kom hv. þingmaður réttilega inn á þjónustutilskipanir Evrópusambandsins. Ég er algerlega sammála henni um að fjalla um hana sem eins konar rammalöggjöf og að við höfum mikið svigrúm til að aðlaga þær að íslenskum aðstæðum. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur töluverða reynslu eftir að hafa verið úti í Brussel og því vil ég spyrja hana hvort ekki þurfi að breyta því formi sem hefur verið hér á undanförnum árum og áratugum, að mál frá ESB séu afgreidd í gegnum þingið af því að þau koma þaðan, að vanda þurfi vinnubrögðin þegar við tökum upp þessar tilskipanir til að nýta okkur, eins og hv. þingmaður vék að í ræðu sinni, það svigrúm sem við höfum til að aðlaga þær íslensku samfélagi.



[11:34]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningar hans. Pólitísku ráðningarnar og hvernig þær hafa undið upp á sig undanfarna mánuði verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki sem skyldi og get því ekki svarað því. En við vitum þó við lestur skýrslunnar og mér er dálítið umhugað um að horfa á síðustu helgina, Glitnishelgina, að það var fyrst og fremst pólitískt þjappað vald og vinir sem réðu atburðarásinni. Það var mjög örlagaríkt.

Ég er hjartanlega sammála því og ég er mjög hrifin af þeirri hugmynd að sett verði upp ein miðlæg stofnun fyrir alla stjórnsýsluna sem sjái um ráðningar og tryggi að þær verði faglegar. Og ég held að það sé mikilvægt núna við endurskipulagningu á stjórnsýslunni eða stjórnkerfinu að við notum tækifærið og gefum starfsmönnum kost á að hreyfa sig milli ráðuneyta því að þeir geta verið á vitlausum stað. En svo er líka annað mál hvernig gengur að losa okkur við embættismenn sem hugsanlega sinna ekki starfi sínu. Það er líka einn angi sem við þurfum að skoða betur.

Ég er líka sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ráðherrar eigi að geta tekið fleiri með sér inn í ráðuneyti en einn pólitískan aðstoðarmann. Ég tala ekki um þegar ráðuneytin verða stækkuð eins og nú verður að veruleika þá er mjög mikilvægt að þeir geti haft nokkra pólitíska starfsmenn í kringum sig. Þeir þurfa kannski að hafa með sér heilt „kabinet“ eins og það heitir á útlensku. Mér finnst það skynsamlegt og ég er hlynnt því.

En um innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins, sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á í gær, þá er það mál í ágætisfarvegi, skilst mér, á vettvangi utanríkismálanefndar, ég þekki það ekki. En ég ítreka að við höfum verið helst til of feimin og hrædd beinlínis vegna vanþekkingar að laga tilskipanir að íslenskum aðstæðum — við höfum svigrúm til þess — en ekki reglugerðir, þær getum við ekki lagað.



[11:36]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hún kom líka inn á það sem stendur mér þó nokkuð nærri, þ.e. þegar hún ræddi um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Hún nefndi þau líka í sambandi við tilskipanir.

Ég flutti ræðu í gær og kom inn á að ég teldi mjög mikilvægt að t.d. samgöngunefnd yrði falið að starfa náið með sveitarfélögunum. Á þeim fundi sem hv. þingmaður vitnaði í í ræðu sinni komu fram upplýsingar um að dönsk stjórnvöld væru núna að vinna með sveitarfélögunum í Danmörku til að létta af þeim kvöðum og minnka starfsemi þeirra við þessar aðstæður, þ.e. að taka yfir einhver verkefni sveitarfélaganna sem eru lögbundin af hálfu ríkisvaldsins. Þetta samstarf er mjög mikilvægt til að minnka kostnað sveitarfélaganna og tryggja að þau geti nýtt sér það til að sinna mikilvægum grunnþjónustuverkefnum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir hugmyndir mínar um að núna sé vilji hjá stjórnvöldum til að hjálpa sveitarfélögunum á þennan hátt í gegnum erfiðleikana sem fram undan eru.

Ég vil líka minna á það sem kom fram á fundinum í gær og viðkemur næsta ári. Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna í landinu mun versna a.m.k. um rúma 6 milljarða. Það er bæði í formi ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið um að færa tekjur frá sveitarfélögum til ríkisins annars vegar og hins vegar í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa ekki komið neitt nálægt og eru vegna efnahagsástandsins eins og lækkun fasteignaskatta o.fl. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki væri skynsamlegra að stjórnvöld horfðust í augu við vandann, en í skýrslunni kemur fram að við horfumst aldrei í augu við vandann fyrr en eftir á — til að tryggja að sveitarfélögin geti sinnt mikilvægri grunnþjónustu eins og þeim ber að gera.



[11:38]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurninguna. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að horfa til þess núna, bæði þegar við breytum stjórnsýslu ríkisins, sameinum stofnanir og stokkum upp, að við veltum fyrir okkur hvort verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga sem nú er við lýði og er fyrirhuguð sé sú rétta, en hún verður aldrei endanlega meitluð í stein.

Ég hef sagt það á fundum nefnda, einkum félags- og tryggingamálanefndar, að ég telji að umræðu um stofnun t.d. Vinnumarkaðsstofnunar m.a. með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins eigi að fylgja eftir. Ég tel skynsamlegt að sameina hluta af Vinnueftirliti ríkisins og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Mér finnst það mun skynsamlegra eða tel að í því felist hagræði. Ég held líka að vert sé að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að flytja heilbrigðiseftirlitið aftur til ríkisins vegna þess að ég tel þau verkefni sem það innir af hendi ekki vera hluta af nærþjónustu íbúanna. Þau eru sannarlega hluti af nærþjónustu fyrirtækja í sveitarfélaginu en mér finnst eðlilegra að ríkið, eða ég er a.m.k. tilbúin að skoða það, taki yfir heilbrigðiseftirlitið. En með innleiðingu þjónustutilskipunar Evrópusambandsins fá þau mjög viðamikið hlutverk. Nú hef ég ekki fylgst nákvæmlega með innleiðingu hennar hér á landi en grunnhugsunin er sú að Heilbrigðiseftirlit Austurlands gæti lent í því að þurfa að sinna heilbrigðiseftirliti í Ungverjalandi ef fyrirtæki á Austurlandi tæki upp á því að opna útibú þar. Þetta verkefni ætti auðvitað að leysa rafrænt eins og kostur er en það er m.a. grunnhugmyndin í þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Mér finnst of mikið á sveitarfélögin lagt eða heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.



[11:40]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Það er margt í henni sem væri hægt að minnast á en það er þó eitt sem stakk mig sérstaklega. Það voru ummæli hv. þingmanns um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þá hugleiðingu að sá ráðherra væri hugsanlega að brjóta gegn lögum um ráðherraábyrgð með athöfnum eða athafnaleysi sínu varðandi ESB.

Alþingi fer með ákæruvald í þeim málum sem varða ráðherraábyrgð. Það er því mjög alvarlegt mál og við eigum að fara varlega með það vald. Við eigum að fara afar varlega í að ásaka menn úr þessum stól um að brjóta þessi lög. Þess vegna langar mig, af því að hv. þingmaður vísaði til 2.–4. gr. laganna um ráðherraábyrgð sem hún hefur greinilega kynnt sér, að spyrja: Hvaða orð eru það nákvæmlega í þeim lögum sem hv. þingmaður á við að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé hugsanlega að gerast brotlegur við og undir hvaða ákvæði laganna nákvæmlega yrðu athafnir eða athafnaleysi ráðherrans færð? Telur hv. þingmaður að afstaða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varði embættismissi, sektum eða að dæma eigi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fangelsi fyrir að vera ekki sammála Samfylkingunni um að okkur beri að ganga inn í ESB?



[11:42]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir spurningu hennar. Ég ítreka að ég er ekki að ásaka ráðherra um að brjóta lög um ráðherraábyrgð. Hins vegar vekur það spurningu hjá mér og mörgum öðrum hvort ekki sé alvarlegur hlutur ef hann ákveður í rauninni að ganga gegn samþykkt Alþingis og ákveður að ráðuneyti hans og málaflokkar hans taki ekki þátt í þeirri vinnu sem stjórnvöld hafa ákveðið að gangast undir næstu árin, algerlega óháð því hver niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu verður.

Mér finnst áhyggjuefni ef þeim stéttum sem falla undir ráðuneyti hæstv. ráðherra er ekki gefinn kostur á því að undirbúa sig undir fulla þátttöku ef af verður. Mér finnst alvarlegt þegar hann með ásetningi segir að við ætlum ekki að taka þátt í þessu. Ég mun aldrei taka þátt í því að ákæra hæstv. ráðherra Jón Bjarnason fyrir þessa ákvörðun en mér finnst hún alvarleg. Mér finnst alveg þess virði núna þegar vitund þingmanna og þjóðarinnar um ábyrgð ráðherra hefur verið vakin að skoða það. Það er hlutverk þingsins — ekki satt? — samkvæmt skýrslu þingmannanefndarinnar að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Ég tel mig veita framkvæmdarvaldinu mjög mikið aðhald með því að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er eina ráðuneytið sem tekur engan þátt í undirbúningi aðildarviðræðnanna (Gripið fram í: Þetta er rangt.) og enginn vilji er til að ráðuneytið taki virkan þátt í verkefnum og kalli eftir aðstoð og ráðgjöf. Það eru þær upplýsingar sem ég hef og ég hef áhyggjur af því. (Gripið fram í: Það er rangt.)



[11:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að samkvæmt stjórnarskrá erum við hv. þingmenn í þinginu bundnir af okkar eigin sannfæringu. Það er ekkert sem stendur í stjórnarskránni að okkur beri að framfylgja stefnu Samfylkingarinnar í einu og öllu. Það mun ég a.m.k. aldrei gera. Ég vil þrátt fyrir orð hv. þingmanns í andsvari sínu, sem dró aðeins úr því sem kom fram í ræðunni, brýna þingmanninn til að tala varlega þegar við ræðum um lögin um ráðherraábyrgð. Það eru þungar ásakanir að ýja að því að menn séu að brjóta þau lög með athöfnum eða athafnaleysi.

Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ekki er í salnum til að verja sig akkúrat núna, hefur frá upphafi gert öllum landsmönnum sem og þinginu og ríkisstjórn grein fyrir þeirri afstöðu sinni að hann telji það ekki íslensku þjóðinni í hag að ganga í Evrópusambandið. Það hefur legið ljóst fyrir frá upphafi.

Mig langar að minna á að við þurfum að gæta að hófstilltum málflutningi þegar við ræðum þau erfiðu mál sem snúa að ráðherraábyrgðinni. Ég tel því rétt að menn kveði ekki hálfkveðnar vísur og ýi að því að ráðherrar séu að brjóta þau lög nema þeir hafi eitthvað meira í höndunum en hv. þingmaður hefur fært fram í máli sínu.



[11:46]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur að um ráðherraábyrgð ber að tala af mikilli varfærni. Þetta er alvarlegt mál og það er þyngra en tárum taki verkefnið sem okkar bíður, að greiða atkvæði um fyrrverandi ráðherra okkar. Ég vil ekki líkja þessu saman, að sjálfsögðu ekki.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að hæstv. ráðherra þarf ekki og á ekki að fylgja stefnu Samfylkingarinnar. Til þess mun ekki koma að hann geri það og ég virði það. Það breytir ekki því að ráðherra ber að fara að lögum og vilja Alþingis. Honum ber að fylgja eftir samþykkt Alþingis og honum ber að sinna því verkefni sem honum er falið í framhaldi af því.

Burt séð frá því hvort ráðherra er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu eða ekki ber honum að undirbúa stjórnsýslu sína, þá stjórnsýslu sem hann ber ábyrgð á — á meðan við höfum ekki fjölskipað stjórnvald ber hann ábyrgð á þessum málaflokki — að fylgja samþykkt Alþingis. Hann má ekki brjóta gegn lögum frekar en aðrir þegnar og hann má ekki fara gegn samþykkt Alþingis frekar en aðrir þingmenn. Það er það sem ég vil vekja athygli á enn og aftur.

Það kann að vera að það hafi verið fullbratt hjá mér að vísa til ráðherraábyrgðar en ég ítreka að það er í ljósi aukinnar vitundar sem leiðir hugann að því að ráðherrar þessa lands, framkvæmdarvaldið, geta ekki hagað sér eftir eigin geðþótta ef þingið tekur ákvörðun, þó að hún sé á skjön (Forseti hringir.) við hans eigin sannfæringu.



[11:48]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Forseti. Það er orðið til siðs hér þegar þingmenn stíga í ræðustól að þakka fyrir vinnu þingmannanefndarinnar og ég ætla ekki að bregða út af þeirri venju. Ég ætla að þakka félögum mínum hér í þinginu fyrir að hafa lagt á sig þessa miklu vinnu til að vinna upp úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég held að það skipti miklu máli að við höfum svona tillögur í höndunum svo við getum reynt að koma í veg fyrir að annað eins og gerst hefur hér gerist aftur.

Ég ætla líka að segja að með örfáum undantekningum tel ég að umræðan í þinginu hafi verið ákaflega holl og góð og sýnt að við sem hér erum inni getum tekist á í málefnalegum umræðum. Það höfum við svo sem oft sýnt áður en mér finnst það hafa einkennt þessar umræður, með örfáum undantekningum, að fólk hér er tilbúið til þess að tala um grundvöllinn fyrir okkar starfi sem löggjafa og ábyrgð okkar gagnvart almenningi í þessu landi.

Ég ætla að tala stuttlega á eftir um tillögur til breytingar sem ég mun leggja fram ásamt nokkrum þingmönnum, en á bls. 5 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum.“

Þetta er ákaflega fögur setning og hún boðar fögur fyrirheit. Við höfum undanfarna daga verið full af fögrum fyrirheitum því að öll viljum við gera eins vel og okkur er unnt innan þess ramma sem hér hefur verið mótaður í gegnum tíðina, sem við erum að reyna að breyta og vitum að er ekki auðvelt. En að við verðum að breyta þessum ramma að einhverju leyti þó að við verðum líka að passa okkur, það er ekki eins og allt sé ónýtt og vont, við verðum að reyna að vera óhrædd við róttækar breytingar en jafnframt að kunna að meta það sem er gott.

Það var mér mjög hugleikið þegar ég las þessa setningu og eins þegar ég hef hlustað á umræðurnar undanfarna daga að þegar við verðum búin að ljúka umræðu um þessa skýrslu og vonandi að samþykkja þá þingsályktun sem nefndin leggur fram á grundvelli hennar tekur við verkefni þar sem alþingismenn þurfa svo sannarlega að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Eftir afgreiðslu skýrslunnar mun mjög fljótlega reyna á hvers við erum megnug. Erum við fær um að takast á við stjórnarskrárbundna skyldu okkar sem felur í sér að við ákveðin tækifæri þurfum við að taka að okkur ákæruvald? Hvernig ætlar þingið að meðhöndla það? Það eru einstaklingar sem þar eiga í hlut þar sem er mjög mikið í húfi og ég held að við séum öll mjög meðvituð um það.

Að því slepptu langar mig að segja að þar mun reyna á hvort Alþingi mun verða þess megnugt að sinna skyldum sínum óháð því hver niðurstaðan verður því að þá niðurstöðu verðum við hvert og eitt að gera upp við okkur, að vega og meta og taka síðan ákvörðun um hvað við teljum rétt að gera. Það mun hver þingmaður gera með sjálfum sér og að mjög vel ígrunduðu máli enda er þetta væntanlega ein af alvarlegri ákvörðunum sem við munum þurfa að taka sem þingmenn, þó að það sé nóg af alvarlegum ákvörðunum þessa dagana.

Þá langar mig að fara í þingsályktunartillöguna sjálfa sem nefndin leggur fram. Ég get ekki annað sagt um þá ályktun en að ég er mjög ánægð með hana og mun treysta mér til þess að styðja hana heils hugar. Ég held að þarna hafi nefndin náð að taka út helstu atriðin sem skiptir máli að halda áfram með. Þriðji liður tillögunnar varðar eftirlit þar sem talað er um að koma eigi á sérstakri nefnd á vegum Alþingis til þess að hafa eftirlit með úrbótum á löggjöfinni sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni.

Það er fjöldinn allur af tillögum í þessari skýrslu sem þarf að skoða og það kann að vera að ég hafi misst af því í umræðunum en mér finnst eins og ekki hafi verið rætt með hvaða hætti við ætlum að velja slíka nefnd. Hvort sem það verður forsætisnefnd sem tekur þetta að sér eða hvort við búum til sérstaka nefnd í kringum þetta, þætti mér eðlilegt og legg það til að forsætisnefnd fjalli um með hvaða hætti þetta eftirlit á að fara fram.

Í samandregnum niðurstöðum kemur fram að þingmannanefndin telur mjög mikilvægt að hafa samráðsvettvang fjármálaráðuneytis, Alþingis, stofnana ríkisins, sveitarfélaga og Seðlabanka um efnahagsmál og að hlutverk slíks vettvangs verði lögfest. Ég er sammála þeirri tillögu, að hluta til að minnsta kosti, þó að ég hafi ekki gert upp við mig hvort ég sé sammála því að öllu leyti.

Varðandi lögfestingu á slíkum samráðsvettvangi hlýtur að skipta miklu máli hvað á að fara fram á honum því að t.d. stofnun eins og Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun. En ég held að svona vettvangur sé mjög mikilvægur því að við höfum litið fram hjá t.d. sveitarfélögunum sem mikilvægum þætti í hagstjórninni. Við höfum búið við það árum saman að peningastefnan og stefnan í ríkisfjármálum hafa farið hvor í sína áttina og það er fyrirkomulag sem við getum ekki látið viðgangast. Eitt af brýnustu verkefnunum er að koma í veg fyrir að hagstjórnin sé ekki samstiga.

Þá langar mig líka að benda á að í skýrslunni er vísað til „stofnana ríkisins“. Mér finnst það of vítt af því að ég átta mig ekki á hvaða stofnanir ríkisins eru þar undir. Í mínum huga hefði átt að standa Íbúðalánasjóður. Íbúðalánasjóður veitir húsnæðislán sem hafa mjög mikil áhrif t.d. á eftirspurnarþætti í hagkerfinu. Og eins og sýndi sig var það húsnæðislánamarkaðurinn sem hafði mjög mikil áhrif á þá eignabólu sem myndaðist og hafði mikil auðsáhrif á heimilin í landinu sem olli því að hér varð miklu meiri einkaneysla en efni stóðu til. Ég lít því svo á að ein af þessum stofnunum ríkisins hljóti að vera Íbúðalánasjóður og það leiðir mig inn í þá breytingartillögu sem ég vil leggja hér fram og hef fengið nokkra þingmenn með mér á. Hún hefur ekki komið til dreifingar og verður væntanlega lögð fram með afbrigðum, en ég ætla samt að fjalla lítillega um þær hugmyndir sem ég er með af því að ég tel að fram eigi að fara sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs var breytt árið 2004 og í kjölfar þessarar rannsóknar þarf að fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég er ekki sátt við það, það er rætt um það í skýrslunni að þær breytingar hafi verið „hluti af“ alvarlegustu hagstjórnarmistökunum sem gerð voru á tímabilinu, það er tekið fram. Síðan er málið einhvern veginn látið falla niður með því að starfsmenn Íbúðalánasjóðs eða aðilar mjög tengdir sjóðnum sendu inn upplýsingar. Nefndin tekur ekkert afstöðu til þeirra en mér finnst það ekki ljúka málinu. Í þeirri miklu endurskoðun sem við erum nú hljótum við að fá utanaðkomandi óháða aðila til þess að fara í slíka rannsókn.

Þessi rannsókn er ekki bara til þess að gera rannsókn því að við vitum nú, sem lá ekki nákvæmlega fyrir þegar rannsóknarskýrslan var gerð þó að allir vissu að það stefndi í það, að á næstunni mun ríkissjóður þurfa að leggja til umtalsverða fjármuni. Nú er talan áætluð kannski um 20 milljarðar. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en það eru umtalsverðar fjárhæðir fyrir almenning og ríkissjóð. Við verðum að vita hvaða ástæður liggja að baki því að við sitjum í súpunni enda er þetta hluti af því sem ég ræddi um — húsnæðislánamarkaðurinn í landi þar sem megnið af íbúðarhúsnæði er í séreign. Fjárfestingar heimilanna eru hér hlutfallslega meiri í húsnæði en víða í kringum okkur. Við verðum að taka það alvarlega og við verðum að hafa skikk á þessum hlutum.

Síðan er svo margt í þessari skýrslu sem aðrir hafa rætt og mig langar að ræða. Ég ætla ekki að gera það hér og nú enda finnst mér þingmannanefndin hafa komið málinu í þann farveg að við munum á næstu missirum hafa fjöldann af tækifærum þegar við förum að vinna í þeim tillögum sem hér liggja fyrir sem niðurstaða þingmannanefndarinnar, við munum á næstu missirum margoft koma aftur að þessu og fjalla betur um þetta. Það held ég að sé svo mikilvægt af því að ég er sammála öllum þeim sem segja að við verðum að horfa til framtíðar, við getum ekki fest í naflaskoðun fortíðarinnar. Þær tillögur sem eru uppbyggilegar eru tillögur um það hvernig við ætlum að skipa málum íslenskrar stjórnsýslu og íslenska ríkisins með betri hætti til framtíðar.

Ég ætla bara að endurtaka þakkir mínar til nefndarinnar og fagna því að hún hafi með tillögum sínum gefið okkur tækifæri til þess að ræða áframhaldandi uppbyggingarstarf á Íslandi.



[12:01]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og hlý orð í garð okkar nefndarmanna í þingmannanefndinni. Mér fannst þær hugmyndir mjög athyglisverðar sem hv. þingmaður setti fram varðandi rannsókn á Íbúðalánasjóði. Nú liggur það fyrir að sú sem hér stendur er ekkert sérstaklega fylgjandi því að við séum í rannsóknum um fortíðina endalaust en hins vegar verðum við að sjálfsögðu að ná að klára að fara yfir sviðið. Þess vegna finnst mér þessi tillaga mjög athyglisverð. Væntanlega á hv. þingmaður þá við að í slíkri rannsókn verði líka farið yfir fjárfestingarstefnu Íbúðalánasjóðs á því tímabili og í rauninni innviðina alla.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn hyggist koma með breytingartillögu við þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar, vegna þess að mér skilst að búið sé að boða nokkrar breytingartillögur. Það væri ástæða til að fagna því ef tillaga sem þessi kæmi fram og reynt yrði að móta umgjörð á slíkri rannsókn frekar.



[12:02]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir taki vel undir tillögu mína. Ég mun leggja fram breytingartillögu þessa efnis og síðan er það þingsins að taka afstöðu til hennar. Ég geri það út frá því að ég tel það ríka almannahagsmuni að við vitum af hverju það er sem við lendum í auknum álögum á ríkissjóð sem útlánatap Íbúðalánasjóðs svo sannarlega er.

Ég tel líka að fyrir almenning á Íslandi sem fjárfestir mikið, það er almennt að fólk á Íslandi fjárfesti í íbúðarhúsnæði — það skiptir því sköpum að við komum húsnæðislánamarkaðnum í það horf að ekki sé færð yfir á heimilin í landinu gríðarleg áhætta við það að koma sér þaki yfir höfuðið. Við þurfum að horfast í augu við það að húsnæðismál eru tvenns konar, þ.e. annars vegar grundvöllurinn undir velferð heimilanna í landinu en hins vegar eru þau fjárfestingar heimilanna og hafa þar af leiðandi mikil áhrif í hagstjórnarlegu tilliti. Við verðum að horfast í augu við báða þessa þætti húsnæðislánamarkaðarins og vera með stefnu þar sem eitt ógnar ekki öðru.



[12:04]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður hyggist leggja fram breytingartillögu og ég vonast til þess að fá að kíkja aðeins yfir hana og sjá með hvaða hætti hún mótast, ég tel að það verði mjög áhugavert að taka þá umræðu og sjá hvernig þingið bregst við.

Mig langar líka að hrósa hv. þingmanni fyrir að líta til framtíðar vegna þess að við höfum verið mjög upptekin af fortíðinni, kannski eðlilega, vegna þess að við ætlum að læra af mistökum okkar og það er mjög brýnt að við gerum það. Því verðum við að horfast í augu við okkur sjálf og fortíðina og ná að átta okkur á því hvað það er sem við þurfum að gera til að þetta gerist ekki allt saman aftur einhvern tíma seinna og að komandi kynslóðir geti vonandi lært eitthvað af þessari reynslu okkar.

En það er ekki okkar mikilvægasta hlutverk að horfa aftur á bak. Við í þinginu þurfum að fara að horfa fram á við. Ég lít svo á að nú þegar þingmannanefndin hefur skilað þessari skýrslu, þegar þingið hefur tekið hana til afgreiðslu, eigum við að setja alla okkar krafta í það að horfa fram á við, móta framtíðarsýn til að sannfæra Íslendinga alla um að við í þinginu erum meðvituð um það að þrátt fyrir að ýmislegt hafi farið úrskeiðis í fortíðinni er meginhlutverk okkar að byggja upp samfélagið þannig til framtíðar að menn sjái von í því að hér sé hægt að byggja búsældarlegt samfélag og að menn hafi framtíð hér á landinu og að menn geti áfram byggt á sinni eigin getu, byggt á sínu eigin framtaki til að gera líf sitt bjartara.



[12:06]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru uppgjörstímar. Það eru uppgjörstímar hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum og hjá samfélaginu. Það er almennt verið að gera upp fortíðina, kannski mest hina efnahagslegu fortíð. Við hér á hinu háa Alþingi erum í uppgjörsgírnum. Það reynum við að gera á faglegan og hlutlægan hátt með því að láta rannsaka fyrir okkur tiltekna hluti.

Hin frábæra skýrsla sem rannsóknarnefnd þingsins vann fyrir okkur er dæmi um slíka faglega úttekt og nú hefur þingmannanefnd unnið ákveðnar tillögur til úrbóta á rammanum sem íslenskt samfélag starfar innan út frá þeirri skýrslu. Mig langar til að þakka nefndarfólkinu í þeirri nefnd fyrir hið mikla starf þess og ekki síður fyrir þá samstöðu sem það náði um efni skýrslunnar. Sú samstaða er afar mikils virði á uppgjörstímum og ég styð tillögur nefndarinnar heils hugar.

Vinna okkar beinist nú að samfélaginu, að fjármálafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum. Síðan erum við þingmenn sem einstaklingar, eins og aðrir einstaklingar í íslensku samfélagi, að gera fortíðina upp í okkar kolli og hjarta. Ég er t.d. ekki í vafa um að eftirlitslítið frelsi í viðskiptalífinu í anda nýfrjálshyggjunnar hefur beðið skipbrot. Nota ég þá hugtakið nýfrjálshyggja í merkingunni einstaklingshyggja með áherslu á mikilvægi frelsis- og eignarréttinda, trú á að frjáls viðskipti stuðli að bestum lífskjörum og vantrú á að ríkisafskipti hafi góð áhrif á samfélagið.

Því miður kunnu menn ekki með frelsið að fara. Frelsið sem er svo dýrmætt ef maður kann með það að fara, ef maður kann að takmarka frelsi sitt við skerðingu á frelsi og hagsmunum annarra. Hin einfalda lagahyggja — allt má sem ekki er beinlínis bannað — og skortur á þeirri hugmyndafræði að þar sem lögum sleppir taki siðferði og dómgreind við, breytti því miður hinu vandmeðfarna frelsi í helsi.

Ég hef í því uppgjöri sem ég hef átt með sjálfri mér sannfærst enn frekar um að hugmyndafræði sem leggur áherslu á samfélag og samfélagslega ábyrgð og tryggir afkomuöryggi fjöldans og réttláta tekjuskiptingu innan eðlilegs lagaramma og með hæfilegu opinberu eftirliti sé líklegra til að skapa gott samfélag með heilbrigðum atvinnuháttum og þjónustu við þegna sína en sú hugmyndafræði sem við gerum nú upp með áðurnefndum skýrslum.

Það kemur fram í skýrslu þingmannanefndarinnar að skerpa þarf talsvert á kennslu í siðfræði og siðfræðilegum álitamálum í skólakerfi okkar á öllum stigum. Undir það tek ég heils hugar og vona að sú ábending rati inn í námskrár. Umræða um dómgreind og gagnrýna hugsun og hvernig maður tekur rökstuddar ákvarðanir á grundvelli skynsemi og siðferðis þarf líka að vera stöðugt í gangi í skólakerfinu og reyndar í samfélaginu öllu. Siðferði okkar er í raun þær grundvallarreglur sem við byggjum ákvarðanir okkar um rétt og rangt á, svo og hvernig við umgöngumst annað fólk. Fátt skiptir meira máli. Við verðum því að leggja áherslu á þann þátt í skólakerfinu og í raun allri umræðu um viðmið og ramma.

Ég fletti upp í Páli Skúlasyni í gærkvöldi eins og svo oft áður þegar mér finnst ég þurfa að setja hluti í siðferðilegt samhengi.

Hann segir m.a. í grein sem hann kallar „Vitið og aflið eða heimspeki og stjórnmál“, með leyfi forseta:

„Siðir eða ósiðir í stjórnmálum ráðast fyrst og fremst af því hvort lagt er meira upp úr vitinu eða aflinu, hvort það er valdið eða skynsemin sem á að hafa forgang.“

Grein sína „Siðferði í íslenskum stjórnmálum“ frá 1986 endar Páll á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Þjóðin þarfnast núna fyrst og fremst stjórnmálamanna sem skeyta ekki fyrst og fremst um það hvernig þeir virka sem leikbrúður almenningsálits — manna og kvenna sem vilja einfaldlega sinna stjórnmálum, ekki sem valdabaráttu eingöngu heldur sem viðleitni til að móta stefnu og taka ákvarðanir í þeim málum sem varða landsins gagn og nauðsynjar. Á vettvangi stjórnmála er fullt af fólki sem hefur alla kosti sem manneskjur til að hrista upp í stirðnuðu siðakerfi og ráðast gegn þeim röngu viðhorfum til stjórnmála sem gegnsýra íslenskt þjóðlíf.“

Í útvarpserindi sínu á jóladag 2008 segir hann í lokaorðum sínum, með leyfi forseta:

„Nú skulum við hugsa og ræða saman á nýju ári eins og við séum að hefja landnám að nýju á Íslandi og ætlum okkur að skapa hér andlegan samastað fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Og þetta skulum við gera með því að leggja okkur fram um að ræða þau gildi sem við viljum hafa í hávegum, með því að gæta jafnvægis á milli allra sviða þjóðlífsins og með því að vanda til þess hvernig við deilum lífsgæðum á milli okkar, hvernig við deilum með okkur sameiginlegum gæðum lífsins og hvernig við deilum um lífsgildi.

Megi hófstilling, hugrekki og viska fylgja hinu nýja landnámi okkar.“

Mér finnst sá samhljómur sem er með niðurstöðum þingmannanefndarinnar og orðum Páls Skúlasonar gefa mér góðar vonir um að nú verði breyting á umræðuhefðinni hér í þinginu í þeim anda að vitið verði meira áberandi en aflið. Íslensk þjóð á það skilið eftir þær hremmingar sem yfir hana hafa gengið í kjölfar hrunsins, hin virðulega stofnun Alþingi á það skilið og sjálfsvirðing okkar sem hér störfum á það skilið.

Þingmannanefndin nefnir það sem við vissum auðvitað öll í hjarta okkar: Störf þingmanna eiga að mótast af hugrekki, heiðarleika og festu. Það tel ég góða brýningu og í góðu samræmi við það sem ég hef þegar sagt og vitnað til. Við höfum sjálfsagt mismunandi skoðanir á því hvernig hugrekki og festa birtist en skilgreining mín felst í því sem ég hef þegar sagt.

Það eru tvö pör hugtaka sem mér finnst vera gegnumgangandi í þeirri skýrslu sem við ræðum hér. Það eru vinkonurnar stefnufesta og formfesta og síðan almannahagsmunir og andheiti þess, sérhagsmunir. Svo virðist sem stefnufestan og formfestan hafi lítið fengið að vera með í stjórnmálapartíi síðustu ára. Hentistefna og formleysi virðist því miður hafa einkennt íslenska stjórnmálamenningu í áratugi. Fyrri reynsla mín á vettvangi skólamála og bæjarmála í fremur fámennu sveitarfélagi segir mér að stefnufestan og formfestan hafi verið mun meiri þar en hjá þeim sem hafa stjórnað ríkinu Íslandi og kaldhæðnislegast er að tilmælin um þessa formfestu bárust frá hinum formlitlu stjórnvöldum sem stjórnuðu lýðveldinu Íslandi. Mikið sem það er alltaf erfitt að líta í þennan eigin barm.

En nú hafa komið fram beinar tillögur um úrbætur á stjórnsýslunni og á starfsháttum Alþingis og er það verulega ánægjulegt. Mér finnst að tillögurnar ættum við að lista upp á vefsvæði sem til þess þykir heppilegt fyrir almenning á Íslandi og merkja síðan reglulega við á þeim gátlista hvar úrbæturnar eru staddar í ferlinu svo almenningur geti veitt okkur það aðhald sem þarf.

Það sama á við um úrbætur í rammanum utan um fjármálafyrirtæki og eftirlitsstofnanir.

Í rannsóknarskýrslunni er talað um mikilvægi fjármálastofnana fyrir hvert samfélag og sagt að hagsæld einstakra ríkja sé háð því hvernig staðið sé að þeim stofnunum. Það sem þurfi að vera í lagi til að þetta fjöregg samfélaga gegni eiginlegu hlutverki sínu er t.d. skýrt eignarhald, eftirlit með bönkum, samkeppni þeirra á milli, eftirlit sem þeir veita lántökum sínum, kerfislegt mikilvægi og traust samfélagsins. Einmitt þetta mikilvægi bankanna fyrir samfélagið átti að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum eftirlitsaðila og stjórnvalda þegar varnaðarorð féllu um að bankakerfið væri að vaxa gjaldmiðli og þjóðarbúi yfir höfuð. En eyrnatappar sérhagsmuna og aðgerðaleysis kæfðu hljóma frá viðvörunarbjöllunum.

Það er því afar gott að vita að listaðar hafa verið upp tillögur til úrbóta í lagaramma þessara mikilvægu stofnana og legg ég til að þær verði listaðar upp á vefsvæði eins og ég sagði áðan.

Ég hef hér alls ekki reifað öll atriði skýrslunnar heldur valið þau atriði út sem mér finnast áhugaverðust á þessum tímapunkti. Sem nýjum þingmanni eru mér vinnubrögð löggjafans og stjórnvalda afar hugleikin. Yfir þeim er felldur áfellisdómur bæði í rannsóknarskýrslunni og þingmannaskýrslunni. Það kemur mér ekki á óvart því mér finnst skortur á stefnufestu og formfestu hafa æpt á mig. Hvar er stefnumörkunin í hverjum málaflokki? Ég tel stefnumótun ekki geta farið fram í tómarúmi, að henni þurfa allir aðilar að koma með hugmyndir sínar og hún þarf sinn tíma. Við búum ekki til stefnu sem virkar öðruvísi en að hleypa öllum aðilum að borðinu og leyfa henni að þróast í meðförum yfir tíma. Þessa þáttar hef ég saknað verulega í nýja starfinu mínu, man raunar ekki eftir að hafa ekki stöðugt verið að vinna að stefnumótun í einhverjum málaflokki í mínum fyrri störfum.

En batnandi kerfi er best að lifa og ég treysti því að við förum nú að vinna stefnufast og ákveðið, hugrökk og heiðarleg að því að finna út hvert við ætlum að stefna í hinum ýmsu málaflokkum íslensks samfélags, bjartsýn á framtíð þess.



[12:16]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka þingmannanefndinni fyrir það mikilvæga og krefjandi starf sem hún hefur unnið og fyrir þær góðu tillögur sem fram koma í skýrslunni. Ég vil sérstaklega leyfa mér að nefna þingsályktunartillöguna um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem fram kemur á bls. 15 en þar er að finna sameiginlegar tillögur allra nefndarmanna sem þverpólitísk sátt hefur náðst um, m.a. að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og að mikilvægt sé að hún verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.

Við verðum að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og vinna sameiginlega að þeim tillögum sem fram koma í skýrslu þingmannanefndarinnar um leiðir til að bæta starfshætti stjórnsýslunnar, styrkja stöðu Alþingis og auka gagnsæi í vinnubrögðum. Listinn er langur og eins og einhver komst að orði er engu líkara en við þurfum að byrja á byrjunarreit, koma okkur aftur á Þingvöll og treysta vor heit. Verkefnið er krefjandi en tækifærin eru líka mikil.

Meðal þess sem lagt er til og fram hefur komið í ræðum á Alþingi er að mikilvægt sé að taka starfshætti Alþingis til endurskoðunar og að mikilvægt sé að styrkja sjálfstæði og grundvallarhlutverk Alþingis. Oft hefur verið rætt um að löggjafinn sé undir þrýstingi framkvæmdarvaldsins og jafnvel hefur verið tekið svo til orða í almennri umræðu að þingið sé stimpilpúði framkvæmdarvaldsins. Ég er sannfærð um að þessi gagnrýni átti miklu frekar við á þeim tímum þegar jafnvel afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar án nokkurs umboðs þingsins líkt og stuðningur við innrásina í Írak á sínum tíma og jafnvel þá keðju ákvarðana sem leiddi til virkjunar við Kárahnjúka.

Við búum við þingræðislegt fyrirkomulag þar sem Alþingi á síðasta orðið að því er varðar löggjöf, og framkvæmdarvaldið eða ríkisstjórnin situr í umboði þess. Eigi að síður er brýnt að vera þess meðvitaður að Alþingi hefur falið framkvæmdarvaldinu tiltekin verkefni og það umboð er bæði formlegt og pólitískt og snýst fyrst og fremst um þann lýðræðislega skilning að farið sé með umboð frá almenningi og kjósendum í gegnum löggjafarvaldið og þaðan til framkvæmdarvaldsins.

Ég vil því í þessu samhengi leyfa mér að nefna stuttlega áhrif hagsmunaaðila á bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þegar stórar ákvarðanir eru teknar. Þar er oft um að ræða hagsmunaaðila eða hagsmunaöfl sem beita ýmsum aðferðum til að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og áherslur á jafnvel lagasetningu. Ég vil í þessu sambandi vísa til bls. 179 í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um samskipti stjórnmála og efnahagslífs en þar segir, með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn vekur athygli á því að með alþjóðavæðingu viðskiptalífsins fari stjórnvöld í auknum mæli að líta á hlutverk sitt sem þjónustu við mikilvægar atvinnugreinar frekar en að veita þeim aðhald. Á sama tíma sækist viðskiptalífið æ meira eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu. Tvenn hagsmunasamtök, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, reyndu eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu um fjármálastarfsemi. Lögðu þau áherslu á að lagaumgjörð viðskiptalífsins væri ekki íþyngjandi, stjórnsýsla væri einföld og að skattar lækkuðu. Bent er á að fín lína gæti verið milli þess að búa atvinnugreinum hagstæð skilyrði og þess að þjónusta viðskiptageirann.“

Kröfur um að lagaumgjörð viðskiptalífsins sé ekki íþyngjandi, að stjórnsýslan sé einföld og krafan um skattalækkun hljómar nokkuð kunnuglega þótt ekki komi hún frá fjármálamarkaðnum í þetta sinn. Það eru önnur hagsmunaöfl sem þrýsta á stjórnvöld nú um stundir, saka þau um að vera að þvælast fyrir þegar leikreglur stjórnsýslunnar eru viðhafðar um töku ákvarðana, saka stjórnvöld um seinagang þegar aflað er gagna sem eru nauðsynleg til grundvallar ákvarðanatöku, ásaka stjórnvöld um að bregða fæti fyrir framkvæmdir ef ráðherra leyfir sér að spyrja spurninga eða afla frekari upplýsinga í ljósi eftirlitsheimilda sinna.

Já, þó svo að karlakór fjármálamarkaðarins hafi að hluta stigið út af sviðinu þá stendur hinn hluti þess kórs eftir. Ég segi karlakór því að lítið fer fyrir kvenröddum í þeim kór sem reynir að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og lagasetningu löggjafans. Hér er alls ekki um að ræða gagnrýni sem lýtur að óeðlilegum eða eftir atvikum of miklum þrýstingi hagsmunaaðila heldur ekki síður hugleiðingu um það að hve miklu leyti slíkur þrýstingur getur bjagað það lýðræðislega umboð sem hér hefur verið nefnt. Aðilar sem ekki hafa hlotið kosningu í almennum kosningum fara þannig hugsanlega með of mikil áhrif of þröngra hagsmuna.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega staldra við og vekja athygli á þeim þætti í skýrslu þingmannanefndarinnar sem hefst á bls. 209 og lýtur að greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Sá kafli skýrslunnar ítrekar fyrst og fremst að við búum við jafnréttislöggjöf sem okkur ber að halda í heiðri sem og sá áskilnaður, sem þar kemur fram, að samþætta kynjasjónarmið allri ákvarðanatöku. Jafnréttislöggjöfin var í fullu gildi og hún var í fullu gildi á árunum fyrir hrun.

Í kynjagreiningu þeirra Þorgerðar Einarsdóttur og Gyðu Margrétar Pétursdóttur kemur fram að hagstjórn síðustu ára, sem að mati rannsóknarnefndar Alþingis átti þátt í að ýkja hið efnahagslega ójafnvægi sem leiddi til hrunsins, hafði beina og óbeina kynjavídd. Stóriðjuverkefni, skattalækkanir og húsnæðismál höfðu kynbundnar afleiðingar sem almennt komu körlum betur en konum. Fjármálakerfið á árunum fyrir hrun, sem stjórnvöld litu á sem nýja atvinnugrein, var karllægt og launamunur kynjanna var hrópandi. Kynjaskipting starfa í fjármálageiranum var mikil og í launakönnun Samtaka starfsfólks í fjármálageiranum í maí 2008 kom fram að meiri hluti karla eða 76% voru sérfræðingar, millistjórnendur og stjórnendur og af þeim voru rúmlega 10% stjórnendur. Á sama tíma voru einungis 3% kvenna stjórnendur en rúmlega 39% voru þjónustufulltrúar, ráðgjafar eða gjaldkerar. Almennur launamunur var mikill í bönkunum og voru þess dæmi að laun forstjóra voru tæplega 159-föld laun meðalstarfsmanns í banka. Í sömu launakönnun kom fram að konur voru með lengri starfsaldur en karlar en engu að síður voru karlar með 14,4% hærri heildarlaun á klukkustund en konur.

Konur voru hverfandi fáar í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Eiginleikar sem voru taldir eftirsóknarverðir í fjármálageiranum voru karllægir, sóst var eftir ungum og reynslulitlum körlum auk þess sem áhættusækni var eftirsóknarverð. Eiginleikum eins og ábyrgð, reynslu og þekkingu var ýtt til hliðar fyrir reynslulausa stráka sem enn þá voru, með orðum Andra Snæs Magnússonar, og með leyfi forseta: „með fósturfituna í hárinu með 2 millj. í laun á mánuði.“

Grein eftir Andra birtist í Fréttablaðinu á laugardag undir fyrirsögninni „Í landi hinna klikkuðu karlmanna“.

Í skýrslunni er vísað til þeirrar orðræðu sem forseti Íslands viðhafði í störfum sínum í þágu viðskiptalífsins. Orðræða forsetans var karlmiðuð. Vísað var til sjómanna og bænda, athafnamanna, frumkvöðulsvilja o.s.frv. Allt eiginleikar sem hafa verið tengdir sérstaklega við karlmennsku. Eftirfarandi eru orð og hugtök sem voru valin úr erindi forsetans hjá Sagnfræðingafélaginu í janúar 2006 og er þeim í skýrslunni ætlað að gefa innsýn í andblæ þessarar orðræðu forseta Íslands, með leyfi forseta þingsins:

„Útrásarandi, sækja frægð og frama um langan veg, þjóðarvitund, siðmenning, í fremstu röð, nýsköpun, frumkvæði, hæfni og hugvit, snerpa og knáleikur hins smáa, íslenskir athafnamenn bera sigurorð af öðrum, vinnusemi, árangur, áhætta, þora þegar aðrir hika, laus við skrifræðisbákn, íslenskur athafnastíll, skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum, stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð líkt og skipstjóri í brúnni, fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, ábyrgð og forusta, landnámið, tími víkinganna, verðskuldaður heiður, leggja á hafið, nema lönd, virðing og sómi, athafnamenn, arftakar hefðar með rætur í upphafi Íslandsbyggðar, tengsl við forna tíma, skáldagáfa, sköpunargleði.“

Orðræða forseta Íslands er hlaðin karllægu tungutaki og táknmyndum. Hlutverk hans í að móta ímynd útrásarinnar er ekki umdeild. Þannig var sjálfsskilningur bankamanna einnig. Í áformum þeirra um fjárfestingar var talað um að leggja heiminn að fótum sér. Umhverfið átti að vera sem frjálsast, það mátti ekki hefta hugmyndaflugið. Viðskiptaráð hvatti til þess að Ísland yrði frjálsasta þjóð heims árið 2015 og varaði í því samhengi við hinni lamandi hönd ríkisvaldsins. Íslenska leiðin samkvæmt viðhorfi útlendinga var bara að fara af stað, láta hlutina ráðast án þess að hafa neina strategíu, undirbúningurinn þessi venjulegi íslenski undirbúningur, þetta reddast, förum í eina átt og ef það gengur ekki reynum við eitthvað annað.

Frú forseti. Voru kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi við einhver af þeim ákvörðunum sem leiddu til hrunsins? Er líklegt að sömu ákvarðanir hefðu verið teknar ef afstaða til þeirra hefði verið tekin með kynjasjónarmið í huga? Tökum sem dæmi þá atvinnustefnu sem stjórnvöld lögðu áherslu á á árunum fyrir hrun. Mikil áhersla var lögð á stóriðju og virkjanir og ber þar hæst framkvæmdirnar við Kárahnjúka sem voru einhverjar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Stóriðjustefna 2004–2007 fól í sér þreföldun álframleiðslu með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum. Stóriðjustefnan þýddi störf fyrir karla. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Stóriðja sem atvinnustefna hefur kynjavídd í margvíslegum skilningi. Störfin eru dæmigerð karlastörf og karlar eru í yfirgnæfandi meiri hluta. Eitt megineinkenni byggðaröskunar er að fleiri konur yfirgefa landsbyggðina en karlar, m.a. vegna skorts á atvinnutækifærum við hæfi. Meginrökin fyrir framkvæmdinni voru að afla atvinnutækifæra og sporna gegn byggðaröskun. Hæpið væri að halda því fram að stóriðja á Austurlandi hafi þjónað hagsmunum kvenna. Atvinnuleysi var meira meðal kvenna en karla á Austfjörðum fyrir framkvæmdina og brottflutningur þeirra af svæðinu meiri en karla. Með stóriðjuverkefnum á Austurlandi voru sköpuð dæmigerð karlastörf þar sem meira var í húfi að skapa kvennastörf af ofangreindum ástæðum.“

Kannanir sýna að konur á Austurlandi komu minna að framkvæmdum en karlar. Hin nýju störf voru að nokkrum hluta unnin af erlendum karlmönnum, áberandi aukning á hlutfalli karla 2006, 2007 og 2008 er staðreynd en þá voru 18% karla á aldrinum 20–50 ára með erlent ríkisfang. Þessi mikla aukning stafar að miklu leyti af stórframkvæmdum og gríðarlegum umsvifum í byggingariðnaði á þessum árum en umfang þessara framkvæmda var slíkt að þær varð að manna að stórum hluta með innfluttu vinnuafli.

Konur höfðu minni trú á framkvæmdunum en karlar og töldu ekki að framkvæmdirnar mundu bæta efnahagslega stöðu sína í sama mæli og þeir. Miklu færri konur sáu fyrir sér að framkvæmdin skapaði þeim atvinnutækifæri, bæði vegna fjarlægðar til vinnu og langrar fjarveru frá heimili og börnum. Launamunur kynja á Austurlandi var yfir landsmeðaltali árið 2005 og stóriðjuframkvæmdirnar minnkuðu síst þann mun.

En höfum við eitthvað lært? Er ekki krafan um álvæðingu og stóriðjustefnu enn hávær? Er sú stefna eitthvað frábrugðin þeim áhættuleik sem fjármálageirinn lék í aðdraganda hrunsins og því brjálæði sem þar ríkti? Eru ekki uppi sömu kröfur hagsmunaaðila um að öllum hindrunum skuli rutt úr vegi, að leikreglur stjórnsýslunnar þvælist fyrir? Ríkir ekki vanvirðing gagnvart regluverkinu sem stjórnvöldum ber að fara eftir? Er lítið gert úr þekkingu fræðimanna á sviði náttúruvísinda þegar þeir vara við því að farið sé of geyst? Hver voru viðbrögð íslenskra stjórnvalda á sínum tíma þegar erlendir aðilar bentu á að bankarnir væru orðnir hættulega stórir? Var ekki þá talað um ímyndarvanda, jafnvel öfund? Hvernig hefur orðræðan verið þegar náttúruvísindamenn og þeir sem gæta eiga hagsmuna náttúru og umhverfis hafa bent á að fara þurfi varlega í virkjun jarðvarmans? Hún hefur gengið svo langt að störfum og þekkingu vísindamanna og annarra náttúruverndarsinna er líkt við öfgakenndar stjórnmálastefnur.

Frú forseti. Ég vék áðan að grein Andra Snæs Magnússonar í Fréttablaðinu síðasta laugardag en þar segir hann m.a. um jarðvarmann, með leyfi forseta:

„Þar hafði þróunin verið jöfn og stöðug frá hitaveituvæðingunni á kreppuárunum. Nú er engu líkara en menn hafi borað niður á kókaínæð og fyllt rækilega á sér nasirnar.“

Það á að margfalda fjölda og stærð jarðvarmavirkjana og svo virðist sem mörgum þyki eðlilegt að opinber fyrirtæki taki milljarðalán til að kanna hvort næg orka sé til fyrir annað álver. Brjálæðið heldur áfram. Orku- og auðlindamál eru ekki til umfjöllunar í þessari skýrslu. Þau eru mjög kynjuð, þau mál, þau eru gríðarlega kynjuð. Þeir hagsmunaaðilar sem hafa sig í mest frammi í orku- og auðlindamálum eru karlar. Þar fer lítið fyrir kynjasjónarmiðum þegar verið er að úthluta og ráðstafa þeim gæðum sem þar liggja undir. Umræðan er því miður allt of smituð af stórkarlapólitík. Slík sýn er ekki pólitík framtíðarinnar eða pólitík sem hugsar um hagsmuni komandi kynslóða.

Frú forseti. Kynjagreining á skýrslu rannsóknarnefndarinnar er ekki aukagagn sem fylgir þessari skýrslu til að uppfylla kröfur sem til kemur vegna þess að við erum svo heppin að formaður nefndarinnar er femínisti heldur vegna þess að hún er nauðsynleg og vegna þess að hún er í samræmi við íslensk lög. Við verðum að gera kynjasjónarmiðum hærra undir höfði við þá allsherjarendurskoðun sem lagt er til að fari fram, m.a. á stjórnsýslunni og því lagaumhverfi sem hana umlykur. Við verðum að tryggja breytt vinnulag, virðingu fyrir regluverkinu í þágu almannahagsmuna. Þar á meðal erum við að taka mið af mismunandi stöðu kynjanna við allar ákvarðanir. Hluti af endurreisninni er að taka mið af hagsmunum og sýn alls almennings í landinu en ekki einungis hluta hans.

Í lokin vil ég geta þess, frú forseti, að mér finnst vanta í skýrsluna ítarlegri umfjöllun eða ábendingar um stjórnsýsluna að því er varðar sveitarfélögin. Þar þarf sannarlega líka að huga að gagnsæi, hagsmunatengslum, siðareglum o.s.frv. En ég geri ráð fyrir að sú umræða eigi eftir að eiga sér stað og muni væntanlega líka eiga sér stað á vettvangi sveitarfélaganna og Sambands sveitarfélaga.

Frú forseti. Ég hef kosið í ræðu minni að fara fyrst og fremst yfir þessi kynjasjónarmið og það með hvaða hætti þau geta hjálpað okkur og að sú sýn geti hjálpað okkur við endurreisn Íslands. Við erum öll sprottin upp úr því kynjakerfi sem gerir körlum og karllægum sjónarmiðum hærra undir höfði en kvenlægum en til að gera betur þurfa bæði sjónarmiðin að koma að borðinu. Það gildir auðvitað um núverandi stjórnvöld eins og önnur stjórnvöld að þau spretta líka upp úr þessu kynjakerfi. Þess vegna þurfum við að hafa varann á og mér er nær að halda að við þurfum að gæta þess að kynjagreina allar athafnir okkar enda ber okkur að gera það samkvæmt jafnréttislögum.

En alveg í lokin vil ég taka það sérstaklega fram að rannsóknarnefndarskýrslan og úrvinnsla þingmannanefndarinnar er til sóma fyrir Ísland og fyrir þingið. Þarna fer stærsta tækifæri okkar og við eigum að freista þess eða gera eins og við getum til að axla þá ábyrgð sem nútíminn leggur okkur á herðar að skapa samfélag sem er okkur öllum til sóma.



[12:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi aldrei verið almennur þingmaður en mig langar til að spyrja hana þessa atriðis engu að síður: Finnst henni eðlilegt að öll meginfrumvörp sem samþykkt eru sem lög frá Alþingi séu samin í ráðuneytum og jafnvel í þeim stofnunum sem framfylgja lögunum, þar sem alltaf er smáhætta á því að sá sem semur frumvarpið sé í raun að smíða vopn í hendur framkvæmdarvaldsins til þess að ráða við borgarana?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því sem nefnt er í skýrslunni „oddvitaræði“. Nú er það þannig að sótt var um aðild að Evrópusambandinu og hæstv. ráðherra flutti þá alveg makalausa ræðu sem ég ráðlegg öllum landslýð að lesa reglulega, af því að hún vill ekki ganga í Evrópusambandið en sagði samt já. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á þessu? Var þetta oddvitaræði? Er hæstv. ráðherra sammála því sem gerðist í kjölfarið? Sama dag lagði hæstv. utanríkisráðherra, sem er með hæstv. umhverfisráðherra í ríkisstjórn, fram umsókn þar sem ekki var beðið um viðræður, þar sem hvorki var minnst á þingsályktun Alþingis né fyrirvari settur um hana, þar sem hvorki var minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu né fyrirvari settur um hana, þar sem ekki var minnst á það að sú stjórnarskrá sem við höfum svarið eið að bannar slíka umsókn. Að mati flestra bannar stjórnarskráin það að við sækjum um aðild að ríkjabandalagi sem stefnir á það að verða ríki. (Gripið fram í: Bannar ekki að sækja um.) Bannar ekki að sækja um, segir háttvirtur, það er nú góður útúrsnúningur. (Forseti hringir.)



[12:35]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt hjá þingmanninum að sú sem hér stendur hefur aldrei verið almennur þingmaður. Hins vegar er ég afar mikill lýðræðissinni og ég er einmitt þeirrar skoðunar að það fari ekki sérstaklega vel á því að öll frumvörp séu bara samin í ráðuneytum. Löggjafarvaldið er hjá þinginu og aðstæður fyrir þingið til að sinna því hlutverki sem því ber samkvæmt lögum ættu náttúrlega að vera mun sterkari.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þá heyri ég það á mæli hans að hann les atkvæðaskýringu mína reglulega sjálfur því að ég held að þetta sé í annað eða þriðja sinn sem ég kem hér upp til þess að fjalla um hana einmitt í samtölum við þennan ágæta þingmann. Það fer vel á því og ég svara því þá rétt eins og ég svaraði því á sínum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar, alveg burt séð frá öllu oddvitaræði, að það sé komið að því að þjóðin fái aðildarsamning til að taka afstöðu til. Ég er þeirrar skoðunar á mjög einlægan máta að það sé slæmt að halda upplýsingum frá þjóðinni og klára umræðuna með slagorðum.

Ég er hins vegar mjög hugsi yfir því að það kunni að hafa skort á gagnsæi þessa ferlis sem hefur átt sér stað eftir að umsóknin var samþykkt hér á Alþingi. Gagnsæi ferlisins þarf að vera algjört og það var útgangspunktur okkar þegar tillagan var samþykkt að það væri grundvöllur þess að ferlið ætti að halda áfram því að annars getur hvorki þingheimur né almenningur í landinu tekið upplýsta ákvörðun.



[12:37]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að spyrja um aðlögunarferlið sem er komið í gang, þar sem Ísland er að aðlagast því að vera í Evrópusambandinu, hvort hæstv. ráðherra sé sammála því.

Síðan vil ég minna á það að Vinstri grænir unnu stóran kosningasigur vegna þess að þeir voru á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þeir voru á móti því að ganga í Evrópusambandið, þeir voru á móti því að skrifa undir Icesave. Þann 5. júní 2009 skrifaði hæstv. fjármálaráðherra, sem er í flokki hæstv. umhverfisráðherra, undir Icesave. Hvernig gengur þetta saman að menn brjóta öll sín kosningaloforð og skrifa undir svona stóra ákvörðun? Var hæstv. ráðherra þá sammála því að skrifa undir Icesave með þeim kjörum sem þá voru, sem voru geigvænleg fyrir þjóðina, og er hún sammála þessu öllu saman? (Forseti hringir.)



[12:38]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur.

Hér fullyrðir hv. þingmaður bæði í sínu fyrra og seinna andsvari að ýmislegt sé hafið yfir vafa sem er það ekki, eins og til að mynda að samkvæmt íslenskum lögum sé bannað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég furða mig á því að sú umræða hafi þá ekki farið hærra ef sannfæring þingmannsins er að svo sé.

Annað sem er umdeilt og umdeilanlegt er hvort um sé að ræða viðræðuferli eða aðlögunarferli. Það er heldur ekki hafið yfir vafa í pólitískum umræðum. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um viðræðuferli að ræða en ekki aðlögunarferli.

Af hverju vann Vinstri hreyfingin – grænt framboð kosningarnar? Var það vegna þess að hún var á móti þessum tilteknu þáttum sem þingmaðurinn telur hér upp? Ég tel að svo hafi ekki verið heldur fyrst og fremst vegna þess að það var kominn tími til þess að ábyrgt stjórnmálaafl settist við völd hér í landinu og tæki til hendinni eftir þrotabú Sjálfstæðisflokksins.



[12:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hæstv. umhverfisráðherra þá hef ég rekist á það marga kjósendur í Suðurkjördæmi, mínu kjördæmi, sem greiddu VG atkvæði sitt vegna skýrrar andstöðu flokksins við aðild Íslands að ESB, að ég held að hv. þingmenn þess ágæta flokks ættu aðeins að íhuga það. Sú skýra stefna sem hv. þingmenn þess flokks hafa nú vikið frá færði þeim aukið vægi hér í þinginu. Ég tel að menn þurfi aðeins að sýna því virðingu þótt það sé væntanlega of seint í rassinn gripið.

Ég kem hér í andsvar til þess að ræða aðeins um stóriðju og þær fjölmörgu fullyrðingar sem fram komu í máli hæstv. ráðherra varðandi afstöðu kvenna til stóriðju, sem var einhvern veginn á þá leið að konur ynnu ekki í álverum og konur væru almennt á móti stóriðju. Ég skildi alla vega hæstv. ráðherra þannig. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra leiðrétti mig af því að ég hlýt að hafa heyrt vitlaust.

Ég er kona og ég hef ekkert á móti stóriðju. Ég vil að við förum í atvinnuuppbyggingu og ég vil að við setjum okkur það markmið að horfa til þess að hér gengur fullt af fólki, konum og körlum, atvinnulaust um göturnar og þetta fólk vill fara að fá svör frá stjórnvöldum, frá þessu ábyrga stjórnmálaafli, VG, um það með hvaða hætti menn ætli að takast á við þann stóra vanda. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra væri að furða sig á því að orkufyrirtækin væru að fara í rannsóknir á því hvort hægt væri að virkja jarðvarmann meira. Ég er bara ekkert hissa á því að menn ætli sér að reyna að nýta kosti landsins til þess að byggja frekar upp og koma á fót frekari tækifærum fyrir fólk til þess að fá vinnu. (Forseti hringir.) Ég er bara hálforðlaus, hæstv. forseti, og þarf að fá nánari útskýringar.



[12:42]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og mér þykir leitt ef ég veld henni hugarangri og geri hana orðlausa.

Varðandi fullyrðingar mínar sem hún telur hér upp að því er varðar afstöðu kynjanna til stóriðju er hér verið að vísa í skýrsluna sem fylgir skýrslu þingmannanefndarinnar, kynjagreiningu á aðdraganda hrunsins, og þar er byggt á heimildum og rannsóknargögnum.

Afstaða kvenna er auðvitað fjölbreytt og ég geri mér grein fyrir því að afstaða kvenna í Sjálfstæðisflokknum er að jafnaði nokkuð samhljóma afstöðu stóriðjusinna í landinu. Það finnst mér umhugsunarefni út af fyrir sig, en að jafnaði er það svo að nokkur kynjamunur er á afstöðunni þar sem karlar eru frekar á þeirri skoðun en konur. Maður getur velt fyrir sér hver ástæðan er. Hún er örugglega að hluta til sú sem var rakin í ræðu minni.

Varðandi orkugeirann og rannsóknir, þá er það vissulega svo að töluverðar rannsóknir þurfa að liggja til grundvallar áður en farið er af stað. Það er akkúrat það sem hefði betur verið gert að því er varðar þá fordæmalausu ákvörðun þegar farið var af stað í uppbyggingu í Helguvík áður en fyrir lá — ekki einu sinni með rannsóknum — hvort grundvöllur væri fyrir þeirri orkuöflun sem þar var lagt upp með. Þetta hefur aldrei gerst áður á Íslandi að menn byrji á stóriðjuuppbyggingu án þess að orka liggi fyrir.

Spurning mín snerist miklu frekar um þetta: Er réttlætanlegt að skuldsetja orkugeirann botnlaust í þágu þessara verkefna? Hér vil ég því að lokum í svari mínu lýsa yfir áhyggjum af einfaldri sýn sjálfstæðismanna og -kvenna á atvinnuuppbyggingu.



[12:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sýn mín á atvinnumál sé frekar einföld. Ég tel að við Íslendingar höfum lifað á landinu frá því að við komum hingað níu hundruð og eitthvað og ég tel að það sé það sem við komum til með að gera áfram. Við eigum að nýta kosti landsins. Að sjálfsögðu berum við virðingu fyrir náttúrunni og ef hæstv. ráðherra hefur kynnt sér stefnu Sjálfstæðisflokksins þá er hæstv. ráðherra upplýst um það.

Síðan finnst mér mjög ankannalegt að hæstv. ráðherra, sem væntanlega telur sig vera femínista, tali hér á þann hátt að konur í Sjálfstæðisflokknum láti karlana í Sjálfstæðisflokknum ráða því hvaða skoðanir þær hafa. Ég frábið mér slíkan málflutning og hann er akkúrat ástæða þess að femínisminn hefur ekki á sér gott orð vegna þess að þetta er ekki málefnalegur málflutningur. Ég frábið mér þetta algjörlega, ég er bundin af minni eigin sannfæringu hér sem þingmaður og ég tek ákvarðanir mínar á grundvelli þeirra gagna sem ég kynni mér og á grundvelli minnar eigin sannfæringar.

Síðan langar mig að spyrja: (Forseti hringir.) Eru kvennasjónarmið meira ríkjandi í stjórnarfari núverandi ríkisstjórnar en fyrri ríkisstjórna?



[12:45]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að nýta á kosti landsins en það verður að gera með sjálfbærum hætti. Við verðum að huga að fjölbreyttum kostum en ekki einföldum svörum við stórum og flóknum spurningum.

Ég sagði ekki að konur í Sjálfstæðisflokknum létu karlana ráða skoðunum sínum, mér dettur ekki í hug að halda því fram. Ég mun aldrei halda því fram. Ég ber mikla virðingu fyrir konum í Sjálfstæðisflokknum og tel að þær séu þar vegna pólitískrar sannfæringar. Hins vegar vekur það athygli mína og ég nefndi það áðan að skoðanir þeirra fara gjarnan með stóriðjustefnunni og eru í takti við hana.

Þingmaðurinn spurði í lokin hvort meiri kynjasjónarmið ríktu í þessari ríkisstjórn en áður hefur verið. Já, ég tel svo vera en ég tel ekki nóg að gert. Í fyrsta lagi eru fleiri konur í ríkisstjórninni en verið hefur og ég held að það skipti mjög miklu að jafnrétti kynjanna sé á öllum sviðum samfélagsins. Ekki síður höfum við innleitt lagasetningu sem styrkir stöðu og rétt kvenna og jafnan hlut kynjanna að mörgu leyti.



[12:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína sem ég er í öllum grundvallaratriðum ekki sammála en það kemur svo sem ekki á óvart. Ég er dálítið á sömu nótum og fyrri ræðumaður í síðasta andsvari en vil þó þakka hæstv. ráðherra fyrir að hún beri virðingu fyrir okkur sjálfstæðiskonum, það er gott að heyra það.

Ég hef lesið þessa kynjagreiningu og ég verð að viðurkenna í fyrsta lagi að ég skil hana ekki. Þarna eru einfaldlega notuð orð sem ég skil ekki og þótt andsvarið sé stutt ætla ég að lesa úr henni, með leyfi forseta:

„Skýrslan sýnir að áhrifarík leið til að tákngera valdatengsl er að kyngera þau og dæmi eru um að karlar séu jaðarsettir og jafnvel kvengerðir í formlegu hlutverki sínu. Þannig einskorðast kynjavíddin ekki við líffræðilegt kyn heldur getur kyngervi einnig leikið stórt hlutverk.“

Ég skil þetta ekki, ég ætlast ekki til að hæstv. ráðherra skýri þetta út fyrir mér. Ég vil hins vegar halda því fram að það séu fyrst og síðast pólitískar skoðanir sem valda því að við erum ósammála um t.d. uppbyggingu í atvinnumálum. Hæstv. ráðherra segir að brjálæðið sé byrjað aftur, við ætlum að ryðjast af stað og bera enga virðingu fyrir umhverfinu. Ég mótmæli því harðlega. Rannsóknir á jarðvarma á Suðurnesjum og á Reykjanesi eru gerðar að uppfylltum öllum umhverfisskilyrðum. Til eru lög og reglur í landinu sem setja rammann utan um þetta. Stundum hefur hæstv. umhverfisráðherra að vísu farið út fyrir þann ramma með því t.d. að taka sér lengri fresti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um að bæta þyrfti vinnubrögð og ég vona sannarlega að hún taki fyrst þá hvatningu til sín vegna þess að oft hefur ráðuneyti hennar verið bert að alls kyns reglubrotum, ekki síst hvað varðar tímafresti.



[12:49]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ef ég byrja á því sem hún sagði í lokin, ég átta mig á því að það var kannski vegna þess að tíminn var að renna út, þá verða menn að vara sig á því að taka of djúpt í árinni og segja að ráðuneytið sé ítrekað bert að alls kyns reglubrotum. Þingmaðurinn er fyrst og fremst, vona ég, að vísa til þess að tímafrestir (Gripið fram í.) — að gengið hefur verið fram yfir tímafresti. Ég hef unnið verulega að því að bæta það í ráðuneyti mínu og ég vil geta þess sérstaklega, af því að ég fjallaði ekki um það í ræðu minni, að unnið hefur verið að því í umhverfisráðuneytinu að skoða sérstaklega hvernig við í ráðuneytinu eigum að taka niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til okkar. Niðurstöðurnar eiga auðvitað ekki bara við um þau ráðuneyti þar sem unnið er með fjármálalífið og því um líkt heldur gildir þetta um alla stjórnsýsluna í Stjórnarráði Íslands.

Ég hef mikla samúð með því að skilja ekki orðfærið sem notað er í skýrslunni því þarna er á ferðinni nýlunda að mörgu leyti. Skýrslan er rýnd út frá kynjasjónarmiðum og það er fræðigrein sem hefur ekki náð að festa djúpar rætur á Íslandi. Sem betur fer hefur henni vaxið ásmegin og ég held að það sé afar mikilvægt, ekki síst fyrir dætur okkar og syni, að kynjagreining verði notuð miklu víðar og oftar í íslensku samfélagi þó að það sé jafnvel með orðum og hugtökum sem eru okkur framandi fyrst um sinn.



[12:51]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mikill jafnréttissinni og ég á tvo syni sem ég el upp í þeim anda og ég þarf enga kynjagreiningu til að leiðbeina mér um við viljum byggja upp þjóðfélag þar sem jafnrétti ríkir. Mér finnst of langt gengið í þessari fræðigrein en stundum halda sumir fræðimenn ákveðnum hlutum fram og ekki þurfa allir að vera sammála.

Ég vék ekki að því í fyrra andsvari mínu, varðandi það að hæstv. ráðherra þótti sýn sjálfstæðismanna í atvinnuuppbyggingu vera takmörkuð. Við hugsuðum ekki um þann fjölbreytileika sem hún boðaði. Ég vil líka mótmæla þessu og bendi á Suðurnesin — við þurfum aldrei að líta lengra en til Suðurnesjanna. Þar eru atvinnutækifæri eftir atvinnutækifæri, ég get nefnt sjúkrahús, einkasjúkrahús, flugvélaverkefni, gagnaver. Alls staðar rekast þessi tækifæri á hindranir (Forseti hringir.) af völdum ríkisstjórnarinnar sem kennir sig við jafnrétti, bræðralag, frelsi (Forseti hringir.) og ég veit ekki hvað. Það er ekki nóg að tala um fjölbreytileika. (Forseti hringir.) Frelsið brást kannski að einhverju leyti og ábyrgðin en (Forseti hringir.) lausnin er ekki að allt sé bannað og allt sé stoppað. Það er afturhald.



[12:52]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutíma.



[12:53]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur velti ég fyrir mér orðfæri hv. þingmanns um að allt sé bannað og allt sé stoppað. Ég held að við komumst ekkert áfram með því að skylmast með svona orðalagi.

Varðandi athugasemd þingmannsins um að of langt sé gengið í fræðigreininni þá velti ég fyrir mér hvað þeim ágæta þingmanni þyki mátulegt að sé gengið í kynjafræðum. Ég vil síðan ítreka það að atvinnuleysi er gríðarlega alvarlegt mál og það er alvarlegt mein. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við megum hins vegar ekki byggja vonir heilu byggðarlaganna á draumsýnum og á hugmyndum sem koma aldrei til með að verða að veruleika. Það er að mínu mati ekki vel gert gagnvart þeim samfélögum að byrja að slá upp fyrir verksmiðju áður en fyrir liggur hvaðan orkan á að koma.