138. löggjafarþing — 168. fundur
 28. september 2010.
málshöfðun gegn ráðherrum, frh. síðari umræðu.
þáltill. AtlG o.fl., 706. mál. — Þskj. 1502, nál. 1519 og 1520, brtt. 1521.

og 

málshöfðun gegn ráðherrum, frh. síðari umræðu.
þáltill. MSch og OH, 707. mál. — Þskj. 1503, nál. 1519 og 1520, brtt. 1522.

[10:32]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Á bls. 5 í skýrslu þingmannanefndarinnar sem við höfum verið að ræða undanfarna daga og hefur verið til umfjöllunar í þinginu stendur, með leyfi forseta:

„Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar.“

Þetta er afar góð tilvitnun og vel að orði komist og nokkuð sem ég hygg að hver einasti þingmaður þyrfti og ætti að hafa að leiðarljósi í störfum sínum, ekki síst við þá ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir að taka jafnvel síðar í dag. Eins og allir vita er um afar óvenjulega ákvörðun Alþingis Íslendinga að ræða þar sem lög um landsdóm færa þingmönnum ákæruvald yfir fyrrverandi eða núverandi kollegum sínum.

Í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins stendur: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“, eins og allir vita. Stjórnskipan okkar byggist á þingræðisreglunni. Ríkisstjórnir sitja með stuðningi meiri hluta þingmanna langoftast ellegar eru minnihlutastjórnir sem eru varðar falli eins og t.d. var 1. febrúar til 25. apríl 2009. Með öðrum orðum, þeir þingmenn sem styðja tiltekna stjórn bera ábyrgð á pólitísku lífi hennar, ef þannig má að orði komast, og þeim ber rétt eins og stjórnarandstöðunni á hverjum tíma að veita þeirri sömu stjórn aðhald.

Þingræðið hefur lítið verið rætt í umfjöllun þings og þjóðar um niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöðu þingmannanefndar Alþingis. Þingræðisreglan hefur í raun ekki fengið þá umfjöllun sem hún verðskuldar í þessum sal og í umræðunni um þá stjórnskipan sem við búum við. En meira hefur verið rætt um ráðherraábyrgð eðli málsins samkvæmt og í grannlöndum vorum, t.d. í Bretlandi, á Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu, er pólitísk ábyrgð öxluð með afsögn ráðherra. Þar eru þættir í stjórnmálamenningu þannig og hefðin sú að það þykir sjálfsagt mál, en eins og við vitum hafa ekki margir íslenskir ráðherrar sagt af sér. Síðast gerði það Björgvin G. Sigurðsson í janúar 2009.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þar sem pólitískar afsagnir eru sjálfsagður hluti stjórnmálanna, jafnsjálfsagður og raun ber vitni víða í Evrópu, er það líka svo að afsögn er ekki endastöð fyrir stjórnmálamenn heldur hlé á pólitísku ferðalagi sem síðar er hægt að halda áfram einmitt vegna þess að viðkomandi axlaði pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum eða gjörðum undirmanna sinna. Það er ekki að sjá að íslensk stjórnmálamenning hafi náð nægilegum þroska hvað þetta varðar. Og þeir sem hafa sagt af sér eru, að ég tel, enn undir í umræðunni úti í samfélaginu og hafa ekki hlotið uppreisn æru eins og þeir ættu í raun að gera ef hér væri þroskuð og góð stjórnmálamenning við lýði.

Annað sem varla þarf að taka fram í þessari umræðu er hið augljósa, að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald. Það vita margir en ég held því miður að færri skilji hvernig það virkar í raun. Ég hef lengi verið eindregið þeirrar skoðunar að breyta eigi stjórnskipan Íslands þannig að ríkisstjórnin verði fjölskipað stjórnvald rétt eins og sveitarstjórnir í landinu og að vinnubrögð í Stjórnarráðinu breytist í samræmi við það. Það eitt yrði grundvallarbreyting á stjórnkerfi Íslands og Stjórnarráði sem hefði mikil og góð áhrif á vinnubrögð, verklag og stjórnkerfi. En þótt ég sé þessarar skoðunar og hafi verið það um nokkra hríð, ekki síst í ljósi reynslu minnar í ráðherrastóli, tel ég mig ekki geta leyft mér að gagnrýna störf núverandi eða fráfarandi ríkisstjórna í því ljósi að þar hefðu menn átt að starfa eins og um fjölskipað stjórnvald væri að ræða. Það þarf þó að gagnrýna þau verk á þeim forsendum sem þau voru unnin og innan þeirrar stjórnskipunar sem þau voru unnin.

Í bréfi mínu til þingmannanefndarinnar sem ritað var í upphafi sumars lét ég eftirfarandi orð falla, með leyfi forseta, og byggjast þau á reynslu minni af 20 mánaða setu í ríkisstjórn Geirs Haardes en ég verð að segja eins og er að ég held að við búum við nákvæmlega sama skipulag í dag og við höfum gert síðustu ár og áratugi. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á stundum hefur mér fundist að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu eins og tólf trillukarlar sem hittast í kaffi tvisvar í viku, bera saman aflabrögð og horfur, standa saman gegn utanaðkomandi áreiti eða ógnunum en eru jafnframt í samkeppni innbyrðis um aflann. Það fyrirkomulag kann að henta ef gæftir eru góðar og lítil misklíð í hópnum. Reynsla haustsins 2008 hlýtur að kenna okkur að slíkt fyrirkomulag stenst ekki gjörningaveður og getur leitt af sér úrræðaleysi og jafnvel kerfislömum með hörmulegum afleiðingum fyrir land og lýð.“

Það er býsna harður dómur yfir því stjórnkerfi sem við búum við og höfum enn ekki kosið að breyta. En það er ekki þar með sagt að þó að hér sé lýst úrræðaleysi og jafnvel kerfislömum, sem ég tel vera komna til vegna þess kerfis sem við höfum komið okkur upp og vegna þeirra múra sem við höfum reist á milli ráðuneyta og stofnana, að ráðherrarnir í ríkisstjórninni sem sat haustið 2008 og frá árinu 2007 til 1. febrúar 2009 hafi gerst sekir um refsivert athæfi. Við getum haft margs konar skoðanir á því hvað hefði mátt betur fara og margt sést vel í baksýnisspeglinum eins og dæmin sanna en að menn hafi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi eða gáleysi sem eins og fram hefur komið í umræðunni er auðvitað matskennt — það er margt matskennt í þessari umræðu — finnst mér fráleitt. Það byggi ég ekki bara á því að hafa setið við þetta sama ríkisstjórnarborð og farið þar með umhverfismálin heldur líka af því að það er beinlínis ekki búandi við það að ráðherrar í ríkisstjórn, þó að þeir geri mistök — og ég tala ekki um þegar heilt bankakerfi hrynur eins og gerðist reyndar ekki alveg með sama hætti en bankar hrundu víða í kringum okkur — eiga það yfir höfði sér að vera sóttir til saka og dæmdir í fangelsi í allt að tvö ár. Ég get ekki staðið að slíkri ákvörðun. Ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna reynslu minnar í þessari ríkisstjórn. Ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna framtíðar stjórnmálanna hér á landi og ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna þess rökstuðnings sem fram kemur í þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Við getum breytt þessu kerfi, frú forseti. Það er leikur einn að breyta kerfum. Það er leikur einn fyrir hv. þingmenn að ná samstöðu um að breyta stjórnkerfi Íslands ef þeir bara vilja það en það hafa auðvitað margir haft hagsmuni af því. Ég fer ekki í launkofa með það. Það hafa margir haft hagsmuni af því að breyta ekki kerfinu, þeir vilja hafa það eins og það er og halda þar uppi kerfi blindgatna í Stjórnarráði sem veldur því að þegar gjörningveður skellur á virðast menn næstum því ófærir um að rata réttu leiðina. En á því eiga menn að bera pólitíska ábyrgð, ekki refsiábyrgð, frú forseti.

Í tillögum að ákærum er því haldið fram m.a. að ráðherrar í öðru ráðuneyti Geirs Haardes hafi farið inn á valdsvið hver annars. Ég fæ ekki séð að það sé rökstutt, ég fæ ekki séð hvernig það gerðist og reynsla mín styður ekki þá fullyrðingu. Í ráðherrahópi eins í og öðrum hópum tala menn að sjálfsögðu saman og ráða ráðum sínum um stærri og smærri málefni og í öllum ríkisstjórnum, held ég, fram á þennan dag hafa verið miklir núningar á milli þeirra sem fara með ráðuneyti félagsmála og ráðuneyti heilbrigðismála vegna þess að þar bæði skarast málefnin og þar er um mikla fjármuni að tefla í stefnumótun og í starfi. Þannig var það í ráðuneyti Geirs Haardes og þannig hygg ég að það hafi verið þangað til ráðuneytin voru sameinuð í eitt velferðarráðuneyti. Það sama má segja um ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs annars vegar og ráðuneyti umhverfismála hins vegar. Menn ráða ráðum sínum en þeir fara ekki inn á valdsvið hver annars, þannig hefur það aldrei verið, þótt þeir tali saman, beri saman bækur sínar og reyni að finna lausnir utan ríkisstjórnarfunda. Það þarf þá að færa betri rök fyrir því ef hér á á grundvelli þeirrar fullyrðingar að ráðherrar hafi farið inn á valdsvið hver annars að kæra mann í sakamáli. Þá þarf betri rök en þau sem eru í þessum tillögum.

Að mínu áliti eru allir ráðherrar í ríkisstjórnum myndugir þótt færa megi rök fyrir því að þeir hafi ekki allir jafnmikil völd, en hverjum og einum ber skylda til þess að hafa alla þræði málaflokks síns í hendi sér. Það er hvorki létt verk né auðvelt en kröfurnar sem gerðar eru til ráðherra eru þessar og þeir þurfa að standa undir þeim. Í því efni ber ráðherrum skylda til þess að viða að sér upplýsingum um þá málaflokka sem undir þá heyra og það sem er í gangi í þeim málaflokkum, hvort sem það er innan stofnana ráðuneytisins eða bara úti í samfélaginu.

Hafi ráðherra ekki vitund um málefni sem undir hann heyra hlýtur það að vera á hans ábyrgð. Við hljótum að gera ráð fyrir því samkvæmt íslenskri stjórnskipan að hver ráðherra í ríkisstjórn Íslands beri í raun ábyrgð á sínu ráðuneyti, að þar sé samræmi á milli raunábyrgðar og embættisábyrgðar, eins og ég hygg að það hafi verið orðað einhvers staðar.

Ég velti því fyrir mér eftir að hafa lesið skýrslu þingmannanefndarinnar og tillögurnar og legið nokkuð yfir þeim, hvers vegna áherslan sé eins mikil og raun ber vitni á að höfða sakamál. Landsdómsferlið sem við ákváðum öll að fara í í lok síðasta árs — ég geri ekki athugasemdir við það — er til þess að taka þessar ákvarðanir, en landsdómsferlið er líka matskennt og pólitískt ferli. Sérfræðingur nokkur sagði á fundi hjá Samfylkingunni: Þetta eru ákvarðanir sem stjórnmálamenn eiga að taka, þannig er ferlið sett upp.

Hvers vegna er þá ekki farið með miklu ítarlegri hætti yfir pólitíska ábyrgð stjórnmálamanna, hvað hún þýðir og hvernig við getum reynt að fikra okkur áfram veginn í þessu samfélagi í átt til stjórnmálamenningar sem kæmist þá kannski til meiri þroska en sú sem við búum við núna? Ég hef ekki svarið við því en þetta er niðurstaða nefndarinnar og ég virði hana, en eins og ég hef þegar sagt styð ég ekki þær tillögur sem hún leggur fram.

Varðandi næsta atriði fæ ég hreinlega ekki skilið hvers vegna þingmannanefndin lét ekki fara fram sérstaka rannsókn á sínum vegum á ábyrgð ráðherranna sem skýrsla rannsóknarnefndar tekur til og hinna líka. Hún hafði til þess heimildir. Hafi hún ekki talið sig hafa til þess heimildir var henni í lófa lagið að koma hingað í þennan sal og fá til þess lagaheimildir, nógur var tíminn. Það eru að mínu áliti ein stærstu mistök í starfi nefndarinnar að hafa ekki látið þá rannsókn fara fram og það kemur fram í rökstuðningi við þær tillögur sem hér eru lagðar fram í tveimur þingsályktunartillögum.

Þótt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé afar ítarleg frásögn af orsökum og afleiðingum falls bankanna, mjög góð greining á bankakerfinu og fjármálakerfinu — og valdakerfinu ef út í það er farið, hún varpar ljósi yfir vettvang atburða og kannar tilurð þeirra og afleiðingar og það var vel gert í skýrslunni — hljóta þingmenn að gera sér grein fyrir því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki hin endanlega og rétta frásögn af öllum samtölum og/eða fundum sem áttu sér stað í aðdraganda falls bankanna eða í kjölfar þeirra. Þannig er það ekki, það er auðvelt að benda á dæmi um það. Rannsóknarnefndin kallaði ekki alla ráðherra úr öðru ráðuneyti Geirs Haardes til yfirheyrslu, hún gerði það ekki, hún hefði getað gert það. Rannsóknarnefndin lagði frásagnir, að því er ég best fæ séð, eins manns til grundvallar til að túlka atburði, fundi sem engin opinber gögn eru til um, hvorki fundargerðir né gögn sem lögð voru fram á fundunum. Það má öllum vera augljóst sem lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Því verð ég að segja að það eru mestu vonbrigði mín með annars ágætt starf þingmannanefndar Alþingis að hafa ekki séð í gegnum þetta, að hafa ekki farið í það nauðsynlega verk að fá atburðalýsinguna frá fleiri aðilum og á hreint og að leggja hana þannig á borðið, leggja hana þannig til grundvallar þeim tillögum sem hér eru fluttar.

Ég spurði hv. formann þingmannanefndarinnar í ræðu minni um skýrsluna í gær hvort ekki hefði komið til tals að gera samanburð á viðbrögðum stjórnvalda í öðrum löndum við því sem gerðist haustið 2008. Svar hans var að það hefði ekki verið gert og ég tel það miður. Ef reynslan frá 2008 kennir okkur eitthvað er það að Ísland er ekki einangrað land og það er ekki í tómarúmi í alþjóðasamfélaginu. Það sem gerist, hvort sem það er á fjármálamörkuðum eða öðrum mörkuðum eða í stjórnmálum annarra landa, hefur bein áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum í þessum sal eða ákvarðanir ríkisstjórnar Íslands. Í öðrum löndum tóku stjórnvöld yfir banka eða björguðu þeim með beinum framlögum úr ríkissjóði landa sinna, í Bandaríkjunum og víðar, og í ýmsum löndum fóru ráðherrar líka fram, m.a. á Írlandi haustið 2008 — og það gleymist stundum í þessari umræðu að það er ekki síst vegna pólitískra yfirlýsinga ráðamanna á hverjum tíma t.d. sem menn ganga mjög hart fram í því að segja að innstæðutryggingar séu með ríkisábyrgð. En hafa ráðherrar úr ríkisstjórnum þessara landa verið sóttir til saka í löndum sínum? Ég held ekki, ég hef náttúrlega ekki fullvissað mig um það en ég held ekki.

Það kemur skýrt fram í skýrslunni að þó svo að margt hafi farið úrskeiðis í aðdraganda hruns íslensku bankanna haustið 2008 og margt hafi farið úrskeiðis það haust tóku menn ákvarðanir við aðstæður sem þeir höfðu almennt séð ekki séð fyrir og auðvitað voru sumar ákvarðanir réttar og aðrar rangar. Kannski var það eina ranga í stöðunni að taka enga ákvörðun, eða eins og einhver sagði: Það er betra að taka ranga ákvörðun en enga. Það gekk margt á þetta haust. Það gekk ekki lítið á í ríkisstjórn Geirs Haardes við að ná samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég þekki engan sem gat á þeim tíma eða jafnvel eftir þann tíma sagt með fullvissu: Þetta hefðum við átt að gera, þetta var röng ákvörðun, þetta var rétt ákvörðun, þetta hefðum við átt að gera, þá hefði þetta ekki verið neitt mál, málinu reddað. Ég hef engan hitt sem treystir sér til að fullyrða það.

Það eru einfaldlega þannig aðstæður að það er ekki hægt að krefjast þess af fólki að það taki hina einu réttu ákvörðun á hverjum tíma, og þessar aðstæður eru þannig. Sem betur fer koma þær ekki oft upp, kannski einu sinni á öld eða svo í sögu þjóðar. En við verðum að skilja að það fólk sem var við stjórnvölinn reyndi þó að taka á aðstæðum, oft seint og illa, örugglega oft með röngum ákvörðunum, en það reyndi að bregðast við ástandi sem enginn hafði lent í — enginn.

Þegar málin eru þannig vaxin hef ég einfaldlega enga sannfæringu fyrir því að hægt sé að höfða sakamál á hendur þessum mönnum vegna ásetnings eða stórkostlegs hirðuleysis og vona ég nú að ég vitni rétt í orðalag laganna. En það er auðvitað matskenndur munur, matskenndi munurinn á gáleysi og stórfelldu gáleysi og mat þingmannanefndarinnar, ekki allrar en meiri hluta hennar, er annað en mitt. Ég virði það mat, ég er algjörlega ósammála því, algjörlega, en hér við lok þessarar umræðu og síðar í dag — væntanlega — munum við komast að því hvaða mat þingmenn almennt munu leggja á þessa stöðu og hver niðurstaðan verður.

Verður niðurstaðan farsæl? Verður hún farsæl fyrir íslenska þjóð? Verður hún farsæl fyrir þá sem eiga í hlut? Verður hún farsæl fyrir stjórnmálaflokkana? Þar liggur efinn.



[10:57]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eina sem ég skil betur hafandi hlýtt á þessa ræðu eins af ráðherrum úr öðru ráðuneyti Geirs Haardes er af hverju sú stjórn hefur í munni þjóðarinnar hlotið nafnið hrunstjórnin. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir misskilji í öllum greinum það mál sem hér er um að ræða. Hér er ekki um það að ræða að axla pólitíska ábyrgð. Hér er um það að ræða að kalla saman landsdóm til að rétta í máli ráðherra sem þingmannanefnd leggur til að séu látnir svara til saka fyrir vanrækslu og gáleysi í störfum. (Forseti hringir.) Ég skil ekki hvað þingmaðurinn á við með pólitíska ábyrgð og ég fer fram á að það sé skýrt.



[10:58]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg skýrt. Þetta snýst um pólitískt mat, ráðherraábyrgð, túlkun laga um ráðherraábyrgð, þetta snýst m.a. um pólitískt mat, ekki bara saknæmi. Það sem ég var að segja var að þingmannanefndin hefði eftir mínum skilningi einblínt á saknæmið en ekki aðra þætti. Það er einfaldlega þannig þegar mat er lagt á það hvort sækja eigi einhvern til saka, og það hef ég frá reyndum saksóknurum, að þá túlka menn lögin, þau lög sem starfað er eftir og þau lög sem liggja fyrir. (Gripið fram í.) Lögfræði er túlkuð, lögin eru túlkuð og ég met það svo að menn hafi í vinnu sinni einblínt á saknæmið en ekki (Forseti hringir.) tekið á hinum pólitíska ábyrgðarhluta sem þar á líka að vera til umfjöllunar.



[10:59]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Pólitísk ábyrgð er svo vítt hugtak að það hefur engin skilgreining komið fram á því í þessum umræðum og allra síst í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Að sjálfsögðu snýst þetta mál ekki fyrst og fremst um pólitíska ábyrgð. Þetta mál snýst einfaldlega um ábyrgð. Pólitísk ábyrgð er allt annars eðlis. Hana taka menn með ferli sínum og hvernig þeir halda honum áfram og ég sé á öllu að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur ekki hugsað sér að taka neina pólitíska ábyrgð á störfum sínum í hrunstjórninni. Það stendur ekki til að draga hana fyrir dómstól vegna pólitískra starfa sinna (Forseti hringir.) heldur snýst þetta mál um mistök í starfi og vanrækslu. Það snýst ekki um pólitík.



[11:01]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega algerlega fráleitur málflutningur. Við erum að tala um stjórnmálamenn, við erum að tala um lög um ráðherraábyrgð, við erum að tala um landsdóm sem eru sérlög (Gripið fram í.) til að draga ráðherra til pólitískrar ábyrgðar. Ef þetta sama fólk sæti hér inni væri væntanlega verið að flytja vantrauststillögu á það. Það er pólitísk tillaga og menn geta ekki vikið sér undan því að taka pólitíska ábyrgð á þeirri atkvæðagreiðslu og afstöðu sinni hér inni og hangið í lagabókstafnum eins og hefðin hefur verið á Íslandi í aldanna rás. Hvert fór þá búsáhaldabyltingin ef lagatæknin er búin að taka yfir hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni. (ÞrB: Hvernig tekur þú ábyrgð?)



[11:02]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður um hljóð í salnum. Forseti minnir á ræðutímann, eina mínútu.



[11:02]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á umræður í þinginu og hvernig þær eru að hitna á þessum degi. Ég get tekið undir margt sem kom fram hjá hv. þingmanni en vildi spyrja hana út í eitt vegna þess að hv. þingmaður byrjaði að tala um vinnubrögð sem mikið er talað um og allir eru sammála um að þar eigum við að bæta okkur. Það mál sem kannski er hægt að finna eitthvað samanburðarhæft við þetta mál er danska Tamílamálið. Þar var rannsóknarréttur skipaður 1990. Hann skilaði skýrslu þremur árum seinna upp á 2.218 síður og eftirrit af yfirheyrslum upp á 2.782 síður. 12. febrúar það ár hóf þingið að fjalla um málið og 2. júní kom tillaga. (Forseti hringir.) Þar var um mjög skýrt brot að ræða hjá viðkomandi ráðherra ólíkt því sem við ræðum núna og því vildi ég spyrja hv. þingmann og formann þingflokks Samfylkingarinnar hvernig henni finnst vinnubrögðin hjá okkur vera í samanburði við þetta.



[11:03]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þessi samanburður sem ég lagði til grundvallar þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að mestu vonbrigði mín með störf þingmannanefndarinnar væru þau að ekki hefði farið fram framhaldsrannsókn eða sérstök rannsókn vegna þeirra ráðherra sem í hlut eiga. Ég hygg að dæmið sem hefur verið nefnt oft hér í umræðunni og er að einhverju leyti sambærilegt en þó ekki alveg, um rannsóknarnefndina sem danska þingið setti á fót til að vinna í Tamílamálinu og tók sinn tíma eins og þingmaðurinn bendir á og komst að sinni niðurstöðu, sýni okkur að það hefði vel verið hægt að gera þetta með einhverjum slíkum hætti. Kannski ekki nákvæmlega sama hætti, alls ekki, en það voru vel efni til þess að kafa dýpra ofan í málið og gera það betur en raun ber vitni.



[11:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé mikið umhugsunarefni fyrir þingið og menn tala mikið um virðingu þingsins. Hvað sem mönnum finnst um þetta mál og sama hvaða niðurstöðu menn komast að í því þá erum við að afgreiða á tíu dögum mál sem tók dönsku þjóðina nokkur ár að gera og þingið tók fimm eða sex mánuði í að ræða. Og upplýsingarnar sem ég fékk um Tamílamálið voru í leynigögnum, virðulegi forseti. Þær voru í leynigögnum sem ekki mátti setja fram fyrir almenning en þingmannanefndin hafði.

Virðulegi forseti. Mér finnst það mjög merkilegt eitt og sér. Þarna er góð samantekt þar sem þetta er borið saman og þegar maður les í gegnum þessi gögn sér maður hvað þarna er hrikalega ólíku saman að jafna. Ég vildi spyrja hv. þingmann: Hver telur hv. þingmaður að sé ábyrgð þeirra þingmanna sem munu samþykkja þessar tillögur þingmannanefndarinnar?



[11:05]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ábyrgð okkar allra er mikil hvort sem við styðjum tillögurnar eða ekki, ábyrgð okkar allra er mikil. Í því ferli erum við stödd komin að þessari endastöð sem er kannski ekki endastöð þegar upp verður staðið. Okkur ber að taka afstöðu til tillagnanna á grunni þess sem þingmannanefndin leggur fyrir okkur, á skýrslu þingmannanefndar og tillagna hennar og greinargerðarinnar, á grunni þeirra laga sem nefnd eru til en líka auðvitað á grunni sannfæringar okkar, frú forseti. Sannfæring okkar hlýtur að byggjast á reynslu okkar, hvaða stefnu við aðhyllumst og hvernig við metum það. Það er eitt af stóru matsatriðunum í þessu máli og á endanum er það hjá hverjum og einum þingmanni í þessum sal hvernig hann greiðir atkvæði. Það er mikill ábyrgðarhluti.



[11:07]
Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ágætri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar í gær taldi hann það vera mjög óeðlilegt að sjö fyrrverandi ráðherrar í svonefndri hrunstjórn, ef ég man töluna rétt, tækju afstöðu í atkvæðagreiðslu um þetta mál og hefðu jafnvel úrslitaáhrif á það hver niðurstaðan yrði. Ég vil spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um afstöðu hennar til ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að þessu leyti.

Í öðru lagi vil ég leiðrétta hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Það er ekki ákært fyrir rof á ráðherraábyrgðarkeðjunni vegna þess að lagaheimildir og lögin voru óskýr. En að mínu mati voru það með þeim alvarlegri mistökum sem gerð voru þegar ráðherraábyrgðarkeðjan var slitin með þessum hætti. Það vó að grundvelli lýðræðisskipulags okkar og það vó að eftirlitshlutverki Alþingis og sú gjörð var mikil ósvinna og kemur eflaust til skoðunar og endurskoðunar á ráðherraábyrgðarlögum.



[11:08]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar lagt var upp í þessa vegferð hlýtur öllum í þessum sal að hafa verið ljóst hver lögin væru, hvernig lögin um landsdóm eru og hvaða starf biði okkar. Það er alveg ljóst að þingmenn verða ekki vanhæfir við þessa atkvæðagreiðslu ... (Gripið fram í.) Ég verð ekki vanhæf við þessa atkvæðagreiðslu … (Gripið fram í.) — Frú forseti. Get ég fengið frið?

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni tóm til að svara.)

Ekki frekar en að pólitískir andstæðingar svokallaðrar hrunstjórnar verða vanhæfir við að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Það á einfaldlega ekki við og ég er satt að segja svolítið hissa á að formaður nefndarinnar sé að spyrja að þessu.



[11:09]
Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Já, auðvitað vaknar þessi spurning upp, frú forseti: Geta þingmenn litið hlutdrægnislaust á málið? og það svarar hver fyrir sig. Ég spyr sjálfan mig að þessu á grundvelli ákvæða í stjórnsýslulögum og umfjöllunar Páls Sveinssonar um slík tilvik.

Ég vil leiðrétta hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um að það var sem sagt ekki ákært fyrir ráðherraábyrgð á keðjuna, en ég spyr hv. þingmann af því að hún orðaði það nú að það hefði átt að breyta lagagrundvellinum. Þegar nefndinni var lagður lagagrundvöllur með breytingu á lögum nr. 142/2008 var þetta sett upp með þeim hætti sem við störfuðum eftir. Það er talin vond regla í lögfræði að setja afturvirk lög miðað við einhverjar aðstæður sem eru komnar upp. Það hvatti hæstv. forsætisráðherra til og ég skildi hv. þingmann þannig.

Ég ætla síðan að upplýsa líka að öllum ráðherrum í ríkisstjórnum frá 1. janúar 2007 til 2009 var gefinn kostur á andmælum.



[11:10]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmannanefndin setti sér verklagsreglur. Líklega var það í mars, ég verð leiðrétt ef það er rangt hjá mér. Lögin lágu fyrir í desember sl. Þingmannanefndin, að því er ég fæ skilið af umræðum hér, eyddi drjúgum tíma í að ræða verklag sitt og verkefnið fram undan á meðan beðið var skýrslunnar frá rannsóknarnefndinni og það hefur ekkert með afturvirkar ákvarðanir að gera að sækja heimild til þingsins, hafi þingmannanefndin ekki talið sig hafa hana, til að vinna vinnu sem átti eftir að vinnast í nefndinni. Það er engin afturvirkni í því, hæstv. forseti, ekki nokkur. Það snýst um verklag, það snýst um formfestu, það snýst um það að þingmannanefndin hafi gert sér fulla grein fyrir því hvert starfið gæti leitt hana.



[11:11]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kom mér nokkuð á óvart sú mikla apólógía sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti fyrir ríkisstjórnina 2007–2009 þó að hún hafi setið þar. Ég kýs að spyrja hana um þetta. Hún sagði að í hrunstjórninni hefðu verið teknar ákvarðanir við þær aðstæður sem menn höfðu ekki séð fyrir, en um það stendur einmitt málið. Áttu menn að sjá þær fyrir, máttu þeir sjá þær fyrir, gátu þeir séð þær fyrir? Hvert er hlutverk ráðherra og stjórnsýslu við þær aðstæður sem uppi voru árið 2007–2008, við þær aðstæður að Samfylkingin sjálf, sem bauð fram bæði hv. þingmann og mig þetta árið, fór fram með mikilli gagnrýni á þá efnahagsstefnu sem hafði verið fylgt og á þá hagstjórn? Var það ekki þannig, forseti, að bæði hafði borist ábending frá Bretlandi um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, samráðshópur var að störfum sérstaklega um þessi mál, Icesave-reikningarnir voru í báðum löndum án þess að vera stöðvaðir og sífelldar (Forseti hringir.) ábendingar komu frá bönkum og ríkisstjórnum annarra landa um að málin væru í voða?



[11:13]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var einfaldlega ekki þannig að ekki væri verið að gera neitt. Það kemur líka skýrt fram bæði í rannsóknarskýrslunni og í andmælum þeirra ráðherra sem sátu í ríkisstjórninni og í frásögnum af því hvað gerðist, sérstaklega árið 2008. Það var einfaldlega ekki þannig að ekki væri að gerast neitt. Í stjórn efnahagsmála í þessari ríkisstjórn fór eins og allir vita einn ráðherra Samfylkingarinnar með stjórn viðskipta- og bankamála. Sjálfstæðisflokkurinn var með fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og svo gegndi formaður Samfylkingarinnar stöðu utanríkisráðherra.

Líklega, eftir á að hyggja, hefði Samfylkingin, flokkur okkar tveggja, átt að sækja mjög fast að taka fjármálaráðuneytið í þessari ríkisstjórn svo hægt væri að gera allt það sem menn sjá nú í baksýnisspeglinum að við hefðum mátt gera árið 2008. En það var alls ekki þannig að það væri ekki verið að gera neitt.



[11:14]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að þó að menn setji fram sitt efni með ýmsum stíllegum hætti hafi enginn haldið því fram í alvöru að ekki hafi verið gert neitt. Það var ekki þannig. En það var eins og hv. þingmaður lýsti, menn voru að taka alls konar ákvarðanir í stöðu sem þeir höfðu ekki séð fyrir, sem þeir höfðu ekki haft vit á eða höfðu ekki haft dug til eða höfðu ekki haft hæfileika til að sjá fyrir. Og það áttu þeir að gera. Það er niðurstaðan af málinu. Ábendingar sem nú liggja fyrir, þær vísbendingar sem nú liggja fyrir, m.a. í þeim fjórum atriðum sem ég tiltók áðan, eru þannig að það átti að vera búið að kanna þetta allt. Það átti að virkja samráðshópinn. Það átti að setja af stað rannsókn á bankakerfinu. Það átti að skoða hvaða afl Ísland hafði án þess að fara í „road-show“-in með yfirlýsingagleðina og kokteilpartíin, hvaða afl Ísland hafði í þeirri alþjóðakrísu sem þarna gekk yfir og hvernig væri búið um bankakerfið okkar (Forseti hringir.) gagnvart þeirri vá. Það var það.



[11:15]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú veit ég ekki hvort við hv. þm. Mörður Árnason höfum verið að lesa alveg sömu gögnin en í rannsóknarskýrslunni stendur, þeirri sem mjög hefur verið rómuð í umræðunni hér undanfarin missiri, að eftir árið 2006 hefði í raun mátt einu gilda hvað gert hefði verið, bankarnir hefðu fallið. Það er einnig skoðun núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins að bankarnir hefðu hrunið þó að ekki hefði komið til lausafjárkreppa á alþjóðavísu vegna þess að meinið bjó innra með bönkunum. En gott og vel. Ég get alveg tekið undir það í máli hv. þingmanns að samráðshópur Fjármálaeftirlits, Seðlabanka, fjármálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis sem í sátu m.a. ráðuneytisstjórar þessara ráðuneyta hefði átt að duga betur en hann gerði. Hann dugði ekki. Það er algerlega skýrt eftir lestur skýrslunnar. (Forseti hringir.) Hann dugði ekki.



[11:16]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórnmálin hafa brugðist í því að leiða til lykta farsællega málið sem hér liggur fyrir og það má einu gilda á hvorn veginn atkvæðagreiðslan fer síðar í dag. Þingið er þverklofið og stjórnmálastéttinni hefur mistekist að ná sameiginlegum skilningi um það hvernig axla megi ábyrgð og ná sáttum eftir þá erfiðu hluti sem hafa gengið á. Þar er ábyrgð okkar mikil og skortur á pólitískri forustu. Þar mun trúlega á annan veginn ráða nokkru refsivilji og á hinn bóginn afneitun.

Ég held að það geri að verkum að viðfangsefni okkar lýkur ekki í dag með atkvæðagreiðslunni því að í raun og veru er það eftir sem áður óleyst á hvorn veginn sem fer. Það er dapurlegt að málið hafi orðið að ágreiningsmáli í þingmannanefndinni og að þar hafi flokkalínur litað niðurstöður manna. Ég tek þó skýrt fram að ég ætla ekki neinum nefndarmönnum annarleg sjónarmið í því heldur hygg ég að þeir hafi hver og einn tekið afstöðu út frá sinni bestu sannfæringu. Okkur hefur á hinum pólitíska vettvangi ekki tekist að leiða þessa vegferð þangað að samstaða næðist. Þó erum við á þeim tímum í sögu lands og þjóðar að aldrei fyrr er samstöðu þörf og skilnings hvers gagnvart öðru.

Ég tel þó að þingmannanefndin hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf og að við höfum falið þeim þingmönnum, sem ekki voru aðilar að hrunstjórninni sem áðan var nefnd og ekki gerendur á vettvangi eins og mörg okkar verk sem allir vissu að væri erfitt og gæti jafnvel orðið ógeðfellt, sé full ástæða til þess að þakka þeim fyrir hvernig þeir störfuðu að því og af trúmennsku allir sem einn.

Ég vil í meginatriðum segja um starfshætti þingmannanefndarinnar að það er svo um allar nefndir og störf þeirra að þær má gagnrýna en í öllum aðalatriðum hafi verið starfað eins og hægt sé að ætlast til. Auðvitað eru hlutir sem einhverjum fyndist að hefðu mátt vera öðruvísi. Mér til að mynda kom á óvart að fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra skyldi ekki vera gefið með skýrari hætti færi á því að bregðast við þeim ávirðingum sem menn höfðu í huga.

Hér hefur verið mikil umræða um lögin, formið og mannréttindin. Auðvitað hefur umræðan verið fullkomlega eðlileg, þessi lög hafa aldrei verið notuð. Þetta er óvenjuleg aðferð við að setja fram ákærur og það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af mannréttindum fólks og hvort formsins hafi verið réttilega gætt. Ég held að umræðan öll hafi að mestu leyti sýnt fram á að réttarfar í líkingu við þetta þekkist víðs vegar í kringum okkur. Á öðru þjóðþingi á Norðurlöndunum er ekkert ósvipað ferli í gangi. Því hefur sem betur fer verið beitt í mjög fáum tilfellum annars staðar. Þetta er leið sem stjórnarskráin mælir fyrir um. Við höfum svarið eið að stjórnarskránni og höfum ekki gert neina undanþágu í eið okkar að fylgja fram þessu ákvæði. Við höfum nýlega, árið 2008, bætt réttarfar laganna og höfum fengið marga sérfræðinga og hv. allsherjarnefnd til að fara með okkur yfir mannréttindaþáttinn og formið á milli umræðna. Ég hygg að eftir því sem hægt er sé formhlið málsins þannig að fullur sómi sé að.

Það er skylda okkar að taka afstöðu til efnis málsins. Það er þungbær skylda okkar allra auðvitað en kannski ekki síst okkar sem sátum hér árið 2007 og deilum ábyrgð með fólkinu sem hér er fjallað um. Fyrir mig til að mynda, þjóðkjörinn alþingismann, sem tók þátt í stjórnarmeirihlutanum og veitti þessum einstaklingum umboð mitt og þeir störfuðu í umboði mínu, er það fjarri því að vera létt verk að meta störf þeirra. Við þekkjum umræðuna um hæfi og vanhæfi o.s.frv.

Sagt hefur verið að ekki megi grípa til þessara gömlu lagaákvæða vegna þess að þá muni enda með því að við gerum upp pólitíska ábyrgð í réttarhöldum hvert gegn öðru eftir því hver nær meiri hluta á kjörtímabilinu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að fara ekki offari, m.a. vegna þess að ef menn skoða málin sem farið var í áður en Tamílamálið kom upp, ég hygg að ég muni það rétt, hafi um 15 ráðherrum verið stefnt en aðeins tveir dæmdir. Önnur þing hafi verið nokkuð ákæruglöð í ljósi reynslunnar og því er ákaflega mikilvægt að fara varlega og túlka vafa þeim í vil sem hér eru undir.

Það er hægt að segja að viðburðirnir sem urðu árið 2008 í okkar litla landi séu í hópi stærstu gjaldþrota í sögunni. Ekki aðeins í sögu Íslands heldur sögu veraldarinnar. Jafnvel þó að þær gríðarlegu hamfarir leiddu til þess að kalla þyrfti saman landsdóm og menn þyrftu að svara fyrir eitthvað þá tel ég ekki að menn muni fara í mál hverjir við aðra á hverju kjörtímabili. Ég er sammála því sem komið hefur fram, m.a. hjá ýmsum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að það er nauðsynlegt að skýrt sé um hvað málið snýst. Það þarf að vera skýrt að þeir sem í hlut eiga hafi haft upplýsingar til þess að gera það sem þeir létu ógert. Að þeir hafi haft vald til þess að framkvæma og að þeir hafi haft tækifæri til þess að gera eitthvað sem minnkað hefði umtalsvert tjón okkar í hruninu.

Það er vitað, og liggur fyrir, að við verðum að vera meðvituð um það í þessari umræðu að höfuðábyrgð á hruninu bera allt aðrar manneskjur en hér eru undir. Það er líka vitað að í árslok 2006 varð hruninu varla afstýrt. Þetta ráðuneyti sem hér er undir tók við 2007. Það er engu að síður þannig að auðvitað hefði verið hægt að grípa til ráðstafana sem hefðu takmarkað tjón okkar frá því sem þó varð. Í því efni hafa verið höfð uppi margvísleg varnaðarorð. Það er full ástæða til þess, af því að það er auðvelt að vera vitur eftir á, að þetta hefði átt að gera og hitt hefði átt að gera. Það er líka auðvelt að hafa pólitískar skoðanir á því að einhver önnur pólitík hefði átt að ráða ferðinni. Ég tel ekki að slík efni eigi að vera undir í þessari umræðu. Ég held að umræðan þurfi að takmarkast við það hvort eitthvað sé í athöfnum eða athafnaleysi sem varðar við stjórnarskrána og/eða lögin. Fara formlega eftir þeim reglum sem við ætlumst til að allir fari eftir. Ekki verður hjá því komist að láta á það reyna hvort svo hafi verið og að það hafi leitt þingmanninn sem þarf að gera það upp við sig til þeirrar niðurstöðu að líklegt sé að sakfellt verði.

Þegar ég fer yfir atburðina alla er erfiðast að fallast á ákveðna atvikalýsingu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, skorti á úrræðum og tímaskort og allt það sem gekk á, á ég erfitt með að fallast á að hægt sé að una við. Mér finnst a.m.k. áleitin sú spurning hvort ekki hafi þurft að krefjast meiri ábyrgðar en sýnd var. Það snertir sérstaklega aprílmánuð árið 2008. Tillögur og tilboð sem forusta Seðlabankans og forsætisráðherra fengu frá öflugum alþjóðlegum aðilum, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og frá Englandsbanka, um að koma okkur til aðstoðar og með hvaða hætti rétt væri að bregðast við. Ég spyr mig hvort ekki sé ætlast til þess þegar skip er í nauðum að skipstjóri þess þiggi þá hjálp sem boðin er? Ég spyr mig líka hvort það verði ekki að ætlast til þess að þessum upplýsingum sé deilt með öðrum stjórnendum á skipinu?

Ég hef verið ósáttur við umræðuna um upplýsingar, bæði í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og eins hjá þingmannanefndinni. Ég er ósammála áherslunni sem lögð var á 7. febrúar. Ég tel að hættan sem skapaðist af alþjóðlegu lánsfjárkreppunni hafi ekki mátt vera almenningi ljós. Ég er þeirrar skoðunar að allir sem fylgdust með efnahagsmálum og viðskiptum hafi mátt gera sér grein fyrir því frá því lánsfjárkreppan skall á í júlí, ágúst 2007 að ef hún varði óhóflega lengi mundi það ógna íslensku bönkunum og íslensku samfélagi. Spurningin var hversu langur sá tími væri og hvort kreppunni slotaði áður en af því yrði. Fréttirnar sem Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, færði 7. febrúar sneru fyrst og fremst að því að tímapunkturinn kynni að hafa færst framar. Ég held að bæði rannsóknarnefndin og þingmannanefndin geri allt of mikið úr því.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við það. Ég tel að það sé ekki heilbrigð mynd þegar við reynum að gera upp við þennan tíma. Þetta er ekki vegna þess að það hafi verið einhver fjórmenningaklíka sem hafði allar upplýsingar um það hættulega sem ætti að fara að gerast og allir aðrir hafi mátt vera grandalausir um það. Svoleiðis var það ekki. Það var alvarleg alþjóðleg lánsfjárkreppa. Við vorum með gríðarstórt bankakerfi og fjölmargir aðilar í samfélaginu, þar á meðal ég og margir sem í þessum sal sitja, menn í atvinnulífi, háskólum, fjölmiðlum o.s.frv., máttu vita að bankar sem ekki fá lánað í lánsfjárkreppu lenda í greiðsluþroti. Þegar fer að skorta á um lausaféð styttist yfirleitt sá tími sem menn hafa til stefnu frá því sem þeir upphaflega hugðu. Það súrnar í fjármögnuninni og rekstrinum og fleiri og fleiri kippa að sér hendinni.

Mig undrar hins vegar að upplýsingarnar sem voru í tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í apríl og upplýsingarnar í bréfum Melville James í sama mánuði hafi af formanni bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddssyni, og hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, hvorki verið látnar ganga áfram til samstarfsflokksins né teknar fyrir á formlegum ríkisstjórnarfundum. Ég spyr mig hvort það hafi verið í lagi og eigi að vera í lagi í framtíðinni eða hvort við verðum ekki að segja að ef við erum í nauðum stödd og öflugir alþjóðlegir aðilar bæði koma með tillögur og bjóða okkur hjálp við að taka á vandanum áður en Icesave er komið upp í Hollandi, áður en gjaldþrot Seðlabankans er orðið og áður en ýmislegt ófagurt var gert inni í viðskiptabönkunum, hvort ekki verði ætlast til þess af verkstjóra ríkisstjórnarinnar og formanni bankastjórnar Seðlabankans að fara ekki með slíkar upplýsingar sem sitt einkamálefni heldur taka þær upp við samstarfsráðherra sína og í ríkisstjórn og taka afstöðu til þess hvort þiggja eigi hjálpina eða jafnvel gera kröfu til þess að maður þiggi hjálp þegar hann er í nauðum staddur og hún er boðin? Við Íslendingar erum sæfaraþjóð og á hafinu gerum við kröfu um hjálp. Þess vegna höfum við sett lög um það hvað þann vettvang varðar, vil ég segja, hvort við þurfum ekki einnig að gera sömu kröfur hér.

Ég hef hins vegar verið miklu gagnrýnni á þá umfjöllun sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra fær í þessum tillögum og finnst þær ekki sannfærandi gagnvart henni og embættisfærslum hennar. Ein af ástæðunum fyrir því er að ég tel það yfir höfuð mjög varhugavert fyrir pólitíska nefnd þingmanna að ákveða að taka stjórnmálamann sem ekki var talin hafa vanrækt neitt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, hinni faglegu skýrslu sem þingmannanefndin vann með. Ég skil röksemdir þingmannanefndarinnar og virði þá afstöðu sem menn hafa í því en mér finnst þær ekki byggja á traustum grunni.

Mikið hefur verið talað um af hverju fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra hafi haldið hlutum leyndum fyrir öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni. Ég minni einnig á að á þessum tímapunkti, í apríl 2008, þegar mér virðist hafi verið raunverulegt tækifæri til þess að þiggja hjálp og grípa til aðgerða sem nokkuð ótvírætt hefðu dregið úr tjóninu sem við urðum fyrir, hafi hún ekki haft upplýsingar þar um.

Ég verð síðan að segja um sakargiftir fagráðherranna sem í hlut eiga, bæði Árna M. Mathiesens og Björgvins G. Sigurðssonar, að þar skortir mig enn atvikalýsingar. Umræðan er ekki búin og auðvitað hlustum við vel eftir því hvað aðrir segja. Að þar séu ekki atvikalýsingar eins og ég nefndi áður og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa m.a. kallað eftir um einhverja tiltekna aðgerð, einhverja tiltekna athöfn sem annar hvor þessara ráðherra hafði upplýsingar um, vald til og tækifæri til að taka. Það er kallað eftir betri greiningu og ég hygg að það sé ekki nægilegt.

Sömuleiðis er kallað eftir því að þessir tveir ráðherrar hefðu átt að ganga eftir því að minnka íslenska bankakerfið. Ég verð um fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra að segja í því sambandi að mér þykir vera býsna langt gengið í að túlka skyldu fjármálaráðherra gagnvart bankakerfinu í landinu þar sem hann var hvorki ráðherra efnahagsmála né bankamála. Mér er ekki alveg ljóst með hvaða hætti eða með hvaða tiltekinni athöfn fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að hlutast til um.

Um fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra er það svo að stöðvaður var samruni. Mál voru tekin upp á ríkisstjórnarfundi, þó seint væri, hinn 14. ágúst. Það verður líka að hafa í huga að fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra fór ekki með stjórn þeirra sjálfstæðu eftirlitsstofnana sem voru fyrst og fremst í færum til þess, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Stjórnarstefnan var þveröndverð þessu sakarefni.

Í þriðja lagi, og það er kannski það sem er áþreifanlegast í þessum efnum sem varðar þá Árna M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Þeir höfðu ekki gripið til aðgerða til þess að flytja innstæður í dótturfyrirtæki á Englandi. Þar verð ég að segja að það er auðveldara um að tala en í að komast. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að Bretar hafi á þessum tíma verið tilbúnir til þess að taka við ábyrgð á innstæðunum öðruvísi en að full greiðsla kæmi. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að tjónið sem við á endanum munum sitja upp með verði endilega meira en við hefðum þurft að greiða við þær aðstæður. Það er ósannað eða a.m.k. alls ekki nægilega vel rökstutt að hér hafi verið betri leið í boði. Það er fyrst og fremst út frá þessu, út frá því hvaða upplýsingar ráðherrarnir sem í hlut áttu höfðu, hvaða vald þeir höfðu og hvaða tækifæri þeir höfðu til þess að grípa til aðgerða. Ég er sammála því að við hljótum að þurfa að horfa á tilteknar athafnir en ekki pólitískt mat eða pólitíska óskhyggju að hér verði menn að fara varlega fram. Ég árétta um leið að auðvitað er það svo um allt þetta fólk að það kappkostaði sem best það gat að vinna landi og þjóð gagn. Ýmislegt af því sem það gerði á þessum erfiðu tímum gerði það vel og það á sér auðvitað margs konar málsbætur, jafnvel þó að einhver þeirra eða einhverjir þyrftu að svara fyrir landsdómi, og er fullfært um að færa þær fram enda ekki kvartað undan því.

Ég árétta að ég tel að málinu ljúki ekki í dag. Ég held satt að segja að við höfum brugðist í því pólitíska hlutverki sem við eigum að vera í að ná sameiginlegum skilningi um það hvernig menn eigi að klára uppgjörið við svona hrun. Við munum ekki ná miklum árangri í því að byggja upp samfélag okkar og traust nema við náum sameiginlegum skilningi og að við berum ábyrgð á þeirri ómögulegu stöðu sem hér er uppi í dag.



[11:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir málefnalega og góða ræðu. Það kemur ekki á óvart að hann hafi farið vel yfir málið og skoðað það vel. Mér fannst hann koma inn á marga áhugaverða þætti.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að það er ekki góður bragur á því hvernig við höfum unnið þetta og hver niðurstaðan verður. Því miður er þetta mál væntanlega ekki búið og okkur hefur ekki tekist vel að takast á um það og læra á því til að byggja upp eftir hrunið, því miður. Ef maður talar um virðingu Alþingis þá er það dómurinn sem nú þegar er fallinn.

Hann ræddi hins vegar ýmsa hluti sem við höfum mjög lítið rætt eins og t.d. ábyrgð þingmanna. Nú er það þannig að við skiptum þinginu eftir nefndum. Við sem sitjum í nefndunum getum kallað fram upplýsingar og það vissu auðvitað allir að það voru óveðursský á lofti. Lítið hefur verið rætt hvað hv. þingmenn hefðu getað gert betur. Sumir þingmenn hafa látið að því liggja að þeir hafi vitað þetta allt saman. Ég kem örugglega að því síðar í umræðunni almennt. Þeirra ábyrgð er þá langmest því ekki er hægt að sjá að þeir hafi gert neitt til að afstýra hruni. Þvert á móti voru þeir jafnvel í stöðu til að koma í veg fyrir skaða en gerðu það ekki. Þetta hef ég rætt í þinginu.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann af því að hann talaði um apríl 2008, það hefur lítið verið rætt: Hvernig líður hv. þingmanni með það að við séum að klára þetta núna eftir nokkra klukkutíma og þessum málum er velt hér upp, jafnstórum og þau eru?

Ég held að flestir sem kæmu að máli eins og þessu, og stæðu utan við íslensku umræðuna, kæmust að þeirri niðurstöðu að byrja á bankamálaráðuneytinu og ráðherranum sem sér um það, ber þar ábyrgð og getur kallað fram allar upplýsingar. Menn eru svona á því að ýta þeim hæstv. ráðherra frá og hann vísar svo í rökstuðningi sínum til þess (Forseti hringir.) að FME og FÍ hafi verið sjálfstæðar stofnanir og ekki heyrt undir hann beint eða að hann hafi ekki getað haft bein áhrif á þær. (Forseti hringir.) En sérstakur saksóknari vísaði einmitt málefnum forstöðumanna þeirra stofnana frá.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)



[11:42]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið sem örlaði á í ræðu hv. þingmanns og kom raunar kannski betur fram í andsvari hans fyrr í umræðunni, að sá tími sem hefur verið tiltækur í þinginu til að fara yfir málið hefði auðvitað mátt vera meiri og lengri. Sérstaklega vegna þess að þingmannanefndin vann þetta aðeins í sínum hópi og það er óvenjulegt um starf í nefnd að við aðrir þingmenn höfðum engin færi á að fylgjast með vinnunni sem fór fram þar. Við höfum á tiltölulega stuttum tíma þurft að taka afstöðu til niðurstöðu hennar.

Um leið er það svo að hér fyrir utan gluggana, meðan við ræðum þessi mál, brenna eldar víða í samfélaginu. Það eru nauðungaruppboð og atvinnuleysi og fyrirtæki í þrotum og kallað eftir því að við tökum ekki of mikinn tíma í þessar umræður og tökum önnur málefni á dagskrá.

Hvað varðar röðina á því hvernig ég skoðaði hug minn í þessum efnum fór ég einfaldlega þar fyrst yfir formenn stjórnarflokkanna, hvorn á eftir öðrum, og síðan hina almennu fagráðherra, einn úr hvorum flokki. Ég leitaðist við, eftir fremsta megni, að móta mér afstöðu til málefnisins eins og ég trúi að þingheimur allur geri og reyni að leggja að jöfnu það sem vert er að leggja að jöfnu.



[11:44]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði hér um niðurstöðu sína og ég held að ég sé ekki einn hér í salnum sem er ekki búinn að átta sig á því hver hún er.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni varðandi tímann. Þegar við berum þetta saman við það mál sem við getum kannski helst borið þetta saman við, Tamílamálið, þá var danska þingið með sex þúsund síðna vitnaleiðslur og skýrslu um það einstaka mál og tók fimm mánuði í að ræða það. Við klárum þetta á tíu dögum. Og ef einhver vogar sér, virðulegi forseti, rétt svona að ræða það hvort skynsamlegt sé að gera þetta á þessum hraða er stutt í að kallað sé að viðkomandi sé með málþóf og sé að tefja. Það er umhugsunarefni.

Ég held að það sem við höfum lært af hruninu sé að gagnrýnin hugsun sé eitthvað sem við misstum af. Þeir sem höfðu efasemdir á sínum tíma voru iðulega hrópaðir niður. Höfum við lært eitthvað af því? Nei, virðulegi forseti, við höfum ekkert lært af því.

Mér fannst ræða hv. þingmanns vera góður grunnur að umræðu sem væri gott að taka en við munum ekki taka hana. Ég segi ekki að ég sé sammála öllu en ég held að það sé skynsamlegt að ræða þetta. Sérstaklega finnst mér það vera umhugsunarefni ef við komumst að þeirri niðurstöðu að ef ráðherra ber ábyrgð á einhverjum ákveðnum málaflokki og hefur tök á að kalla eftir öllum upplýsingum, að hann sé einhverra hluta vegna ekki ábyrgur — ef menn ætla á annað borð að sækja ábyrgð almennt. Það er þá auðvitað stórmerkilegt og hefur lítið verið rætt. Sömuleiðis varðandi ábyrgð þingmanna.

Ég spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson (Forseti hringir.) út í ábyrgð Vinstri grænna og m.a. afskipti þeirra eða forustumanna þeirra af lífeyrissjóðum, (Forseti hringir.) af hverju þeir komu ekki í veg fyrir tapið þar úr því að þeir vissu þetta. (Forseti hringir.) Svörin voru skrýtin, virðulegi forseti.



[11:46]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur þingmenn til að virða þau tímamörk sem hér eru sett á ræðutíma.



[11:46]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er fyrst til að svara varðandi tímamörkin að ég held að það sé ekkert meginmál hvort það hafi tekið hálft ár eða eitt ár eða þó að það taki tvö ár að ráða fram úr þessu erfiða viðfangsefni. Ég held að það sem hefði verið mest um vert og öllu máli skipt væri að menn hefðu komist að niðurstöðu sem einhver sæmileg samstaða gæti verið um vegna þess að með því að ljúka málinu núna er málinu ekkert lokið, eins og hv. þingmaður segir, þegar við skiptumst í tvær ólíkar fylkingar um hvort fara eigi í austur eða vestur. Um það sem snýr að fagráðherra og skyldu hans um upplýsingar er ég að mörgu leyti sammála hv. þingmanni, auðvitað er hægt að ætlast til þess að ráðherra átti sig á öllum meginatriðum sem í hans umhverfi eru og að hann kalli eftir upplýsingum. En það verður þó að telja alveg sérstakt að tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi málasvið eins ráðherra, um nauðsyn á aðgerðum á því sviði strax, og ábendingar Englandsbanka um að nauðsynlegt sé að grípa þegar í stað til róttækra aðgerða á því málasviði og tilboð um aðstoð við það, skuli ekki hafa ratað til fagráðherra — ég held að það sé óhætt að segja að það hljóti að vera eitt af því sem í þessu ferli er sem vekur mann til umhugsunar.



[11:48]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um að Alþingi og þingflokkar næðu ekki saman í þessu máli og hefðu brugðist og hvernig svo sem atkvæðagreiðslan færi væri málið ekki búið. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer sé það, með tilliti til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, fyllilega eðlilegur og í raun nauðsynlegur lýðræðislegur farvegur að almenningur fái að segja álit sitt á þessu máli, þessum stjórnmálum og þessu stjórnarfari í kosningum sem fyrst.

Þær upplýsingar sem liggja frammi í öllum þessum skýrslum lágu ekki fyrir fyrir kosningarnar vorið 2009. Nú er búið að formgera hrunið og þá sem mesta ábyrgð bera á því. Ég spyr því hv. þm. Helga Hjörvar hvort hann sé sömu skoðunar og ég að það sé eðlilegt framhald þessa máls og eðlilegur lýðræðislegur farvegur fyrir Alþingi og þjóðina að hér verði haldnar þingkosningar sem fyrst að lokinni atkvæðagreiðslu í dag.



[11:50]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki sagt að ég sé sannfærður um að alþingiskosningar séu til þess fallnar að leysa þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég veit ekki hvort það væri rétt af okkur í þessum sal að víkjast undan því að taka á honum, sem er okkar sameiginlega skylda hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, með því að kalla til kosningar.

Það má þó taka undir það með hv. þingmanni að eftir jafnmiklar hamfarir og hér urðu er það viðbúið að hér geti kosningar orðið tíðari en við höfum átt að venjast og að ríkisstjórnir sitji ekki nauðsynlega út tímabil sín vegna þess að við og almenningur höfum þörf fyrir að gera þessa hluti upp í meiri mæli en verið hefur. Ég kalla þó ekki eftir því að það verði núna.



[11:51]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að alþingiskosningar mundu kannski ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag en þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að hér á þingi eru 23 þingmenn sem áttu aðild að hrunstjórninni. Nú er bersýnilega komið í ljós hver aðkoma þeirra að því hruni var, hverjir þeirra voru mjög vel tengdir t.d. inn í fjármálafyrirtæki og þáðu stórfellda fjármuni frá þeim, hverjir tóku ákvarðanir og hverjir tóku ekki ákvarðanir í aðdraganda hrunsins og hverjar þær ákvarðanir voru þannig að þingkosningar mundu ekki leysa það vandamál. En þingkosningar mundu kannski gera það að verkum að hér veldist inn á Alþingi fólk sem væri trúverðugra en er á þingi í dag. Það skiptir að mínu mati miklu máli. Það er ekki sérlega trúverðugt með hvaða hætti Alþingi afgreiðir hrunið og ef kosningin fer þannig í dag að því verði hafnað að mál þessara fjögurra ráðherra fari viðeigandi og eðlilega leið leyfi ég mér að spyrja: Á hvaða forsendum verður hægt að setja nýtt Alþingi næstkomandi föstudag 1. október? Til hvers er þá verið að því og hvað finnst mönnum, honum og öðrum hv. þingmönnum, um að haldið verði áfram eins og ekkert hafi í skorist?



[11:53]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess áður en hv. þm. Helgi Hjörvar svarar andsvari að hér fara ekki fram kosningar í dag heldur atkvæðagreiðsla.



[11:53]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vekur máls á nokkru sem við þurfum að gæta að og það er trúverðugleiki þingsins og ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hann aukum við ekki í dag. Auðvitað verða þeir sem sátu á þingi árið 2007 að sækja sér endurnýjað umboð eins og þeir hafa einu sinni gert og gera eftir atvikum kannski á ný.

Ég vek þó athygli á því að þó að hér hafi valist margt nýtt, gott og grandvart fólk til þings í síðustu alþingiskosningum hefur það ekki orðið til að auka trúverðugleika þingsins þannig að það eitt og sér hygg ég ekki að sé lausnin. Ég held að verkefnið sé miklu víðtækara og snúi fyrst og síðast að því að við sem hér erum breytum í stórum og veigamiklum atriðum starfsháttum okkar.



[11:54]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að ekki verður gert matarhlé heldur heldur þingfundur áfram þar til þessari umræðu lýkur og verða þingflokksfundir að henni lokinni.



[11:54]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Íslenskt efnahags- og atvinnulíf og íslenskar fjölskyldur hafa orðið fyrir mesta tjóni — efnahagslegum hamförum, má segja — sem um getur. Það er verið að takast á við afleiðingarnar á mörgum vígstöðvum. Gripið hefur verið til margvíslegra úrræða fyrir heimilin og ekki sér fyrir endann á því. Það er uppbygging banka- og fjármálakerfisins, það er endurheimt trausts á Íslandi og Íslendingum erlendis, rannsóknir á orsökum og aðdraganda hruns og ábyrgð. Bankar, eftirlitsstofnanir, stjórnmál, stjórnsýsla — enginn má skerast úr leik.

Á stjórnmálastéttinni hvílir mikil ábyrgð og senn reynir á hvort hún rís undir henni en þar veldur hver á heldur. Alþingi ákvað að ráðast í ítarlega rannsókn á orsökum og aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins með óháðri rannsóknarnefnd. Það var gert með sérstökum lögum og var frumvarp flutt af hæstv. þáverandi forseta Alþingis og formönnum stjórnmálaflokkanna sem þá sátu á Alþingi. Sett var á fót sérstök rannsóknarnefnd. Talið var nauðsynlegt að ríkið mundi líta í eigin barm. Í greinargerð með því frumvarpi, frá árinu 2008, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eðlilegt er að ríkisvaldið horfi enn fremur í eigin barm og athugi hvort því hafi brugðist bogalistin. Þar sem rannsókn á þætti ríkisvaldsins í þessari atburðarás getur öðrum þræði beinst að aðgerðum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra er eðlilegt að hún fari fram á vegum Alþingis.“

Sett var á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd. Við breyttum síðan lögunum og ákváðum að skipa sérstaka þingmannanefnd til að fjalla um niðurstöður hennar. Í athugasemdum með þeim lögum segir m.a., með leyfi forseta:

„Viðfangsefni þingmannanefndarinnar og þingsins í heild munu ráðast af umfjöllun rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Sú umfjöllun markast af verkefnum rannsóknarnefndarinnar eins og þau voru skilgreind í 1. gr. laganna.“

Síðan segir:

„Eftir atvikum kemur það enn fremur í hlut hennar [þ.e. þingmannanefndarinnar] að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það er hlutverk þingsins.“

Það dylst engum hvað í þessu felst. Hvað þýðir það að fjalla um ábyrgð að því marki sem það er hlutverk þingsins? Það er skilgreint í lögum um ráðherraábyrgð og lögum um landsdóm. Þannig var það alveg ljóst hvert uppleggið var með skipun þessara nefnda og með því að setja þetta mál í þennan farveg. Niðurstöður þessara nefnda liggja fyrir og hafa verið til umfjöllunar á Alþingi og í samfélaginu um nokkurt skeið alveg frá því að rannsóknarnefndin skilaði niðurstöðum sínum fyrr á árinu.

Talsvert hefur verið talað um það nú síðustu dagana að þingmannanefndin hafi ekki staðið sig alveg nægilega vel, hún hafi ekki skilað nógu góðu verki, hún hafi ekki gert réttu hlutina. Það er þvert á það sem var sagt strax í upphafi þegar skýrsla þingmannanefndarinnar kom. Þá luku allir lofsorði á vinnu hennar. Einhverjum sólarhringum síðar, þegar það var farið að síast inn í menn að þar væru tillögur um málshöfðun gegn ráðherrum, fór að heyrast annað hljóð héðan og þaðan, meðal annars frá hæstv. forsætisráðherra, meðal annars í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan, að þingmannanefndin hafi ekki unnið verk sitt nægilega vel. Það má hins vegar ekki gleyma því að 9 af 9, allir fulltrúar í þingmannanefndinni, samþykktu þær úrbætur og þær tillögur sem nefndin leggur til og varð sammála um. Hún var einhuga í öllum sínum tillögum þar til kemur að ákærumálum. Aðeins tveir fulltrúar sjálfstæðismanna vilja ekki að höfðað sé mál á hendur fyrrverandi ráðherrum en 7 af 9 nefndarmönnum eru sammála um að rétt sé að láta ráðherra svara til saka fyrir dómi. Það er skýr og eindregin niðurstaða. Hvort ráðherrarnir eru síðan þrír eða fjórir, eins og kemur fram í tveimur mismunandi tillögum, er ekki stóra málið í mínum huga.

Mikið hefur verið rætt um pólitíska misbeitingu. Hv. þm. formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, talaði um það í ræðu sinni í gær og vitnaði þar í grein sem hann ritaði í dagblöðin í síðustu viku undir heitinu Landsdómur. Þar vísaði Bjarni Benediktsson til umræðna á Alþingi árið 1963 þegar ný lög um landsdóm og endurskoðuð lög um ráðherraábyrgð voru samþykkt en frumvörpin voru flutt af þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktssyni. Einkum rekur Bjarni umræður um hversu mikið af matskenndum atriðum væru lögð til grundvallar hugsanlegri refsiábyrgð samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum og hættuna á pólitískri misbeitingu. Verða þessi orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar ekki skilin á annan veg en þann að hann telji slíka pólitíska misbeitingu ráða för í þeim ráðherraábyrgðarmálum sem nú liggja fyrir Alþingi og skilyrði laganna um refsiábyrgð séu ekki uppfyllt. Síðan segir hann í grein sinni: „Það er mat þess sem hér skrifar að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt.“ Þar með segir formaður Sjálfstæðisflokksins að persónulegt mat hljóti að ráða afstöðu til hugsanlegrar refsiábyrgðar en gefur jafnframt í skyn að það hljóti að vera hans mat sem eigi að ráða en ekki annarra ef það er á annan veg og er þetta nokkuð sérkennileg afstaða. Hann rekur síðan mál sem hann telur að sé sambærilegt og vísar þar til fundar sem hann átti í Stjórnarráðinu sem formenn stjórnmálaflokka voru boðaðir til. Hann talar um nauðsyn þess að höfða mál á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Gylfa Magnússyni og Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá sök, að því er virðist, að „alvarleiki [hafi dropið] af andlitum embættismanna og ráðherra“. Þetta er hv. þm. Bjarni Benediktsson að leggja að jöfnu.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst þessi málflutningur algerlega óboðlegur og ekki sæmandi formanni í stjórnmálaflokki. Við höfum tekið ákvörðun um það á Alþingi að setja á laggirnar sérstaka rannsókn, ítarlega rannsókn á orsökum og aðdraganda hrunsins, og ábyrgð í því efni. Hættan á pólitískri misbeitingu á ekki að vera fyrir hendi ef málsmeðferð er vönduð og byggð á gaumgæfilegri og óhlutdrægri rannsókn eins og til er að dreifa í því tilefni sem við fjöllum um hér og nú. Slík vinna er að mínu mati forsenda þess að við getum yfirleitt staðið í þeim sporum sem við alþingismenn stöndum nú, að taka afstöðu til málshöfðunar gegn ráðherrum vegna meintra brota á lögunum. Landsdómur dæmir slík mál. Alþingi dæmir ekki slík mál. Erum við hér til að dæma?

Sigurður Tómas Magnússon, lagaprófessor og fyrrverandi dómari, var í viðtali í útvarpinu í síðustu viku. Þar segir hann m.a. að ríkari ástæður séu til að kæra ráðherra og opinbera embættismenn en aðra sé grunur um refsivert athæfi og þegar mál hafa almennt mikla þýðingu. Hann segir líka að það sé ekki síður vald að ákæra ekki en að ákæra. Ákvörðun um málshöfðun er ekki dómur. Það er ekki hlutverk okkar að dæma. Það er hlutverk óháðs óvilhalls dómstóls og það gildir að sjálfsögðu sú regla íslensks réttarfars að enginn er sekur nema sekt hans sé sönnuð. Réttarstaða þeirra sem hér eiga hlut að máli er tryggð. Yfir það er ítarlega farið í áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem fylgir nefndaráliti meiri hluta þingmannanefndarinnar og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hér því að yfir það hefur verið farið í ágætu máli.

Ákvörðun Alþingis um að höfða ekki mál er hins vegar dómur. Í slíkri ákvörðun felst dómur Alþingis um sýknu. Í því felst mikið vald, pólitískt vald, pólitískt dómsvald. Þar er hætta á pólitískri misbeitingu.

Í umræðum í gær var nokkuð rætt um skipið sem hafði strandað, um ábyrgð skipstjórans, og færð rök fyrir því að ábyrgðin væri fyrst og fremst hans. Og ég get tekið undir það að mörgu leyti. Það þýðir ekki að aðrir áhafnarmeðlimir, stýrimenn eða bátsmenn, kunni ekki að bera einhverja ábyrgð að lögum en hún getur verið minni. Þeir geta átt sér ýmsar málsbætur. Það getur átt við í því tilfelli sem við ræðum hér. Það geta verið atriði sem koma fram og geta verið til refsilækkunar ef um refsivert brot er að ræða. Ábyrgðin getur verið mismikil og menn geta jafnvel gengið svo langt að segja að ábyrgðin sé ekki skipstjórans, ekki stýrimannsins, ekki bátsmannsins heldur skipasmiðsins í Bremerhaven eða Larvik eða Hádegismóum eða hvað það nú kann að vera. (Gripið fram í.)

Það er hins vegar óumdeilt að við völd sat ríkisstjórn Geirs Haardes og ábyrgð hennar er mikil. Ég ítreka það að ábyrgð einstakra ráðherra kann að vera mismikil í þessu efni. En ábyrgðin er engu að síður til staðar. Formið á ekki að þurfa að vera ágreiningsefni að mínu viti en við ættum að ræða efnislega af hverju við erum í þessum sporum og þessum umræðum. Hvers vegna er verið að ræða hvort mögulega eigi að ákæra ákveðna ráðherra? Það er vegna þess að hér varð eitt mesta efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir án þess að náttúra eða stríð hafi verið orsakavaldur. Til þess að skilja þetta samhengi allt höfum við sett á laggirnar rannsóknarnefndir um embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknir. Til rannsóknar hafa meðal annars verið aðilar sem voru leiðandi á svokölluðum útrásarárum og sem sannarlega bera mesta ábyrgð á þessu öllu. Við skulum ekki gleyma því. Við skulum ekkert draga undan í því.

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna bera þeir sömuleiðis ábyrgð á því sem aflaga fór og þeim þungu byrðum sem íslenskur almenningur þarf nú að axla í formi yfirskuldsetningar heimila, atvinnuleysis, gjaldþrota, heimilismissis og fjölda gjaldþrota í atvinnulífinu. Á enginn að þurfa að bera ábyrgð né axla ábyrgð nema þeir sem svo sannarlega bera hana ekki að sönnu?

Við þurfum, frú forseti, að svara um ábyrgð stjórnmálastéttarinnar. (Gripið fram í: Það er rétt já.) Það er spurt: Hvað átti að gera og hvernig? Ítrekað hefur verið farið upp í andsvör og spurt: Hvað áttu menn að gera? Nákvæmlega. Hvað áttu menn að gera? Verður það ekki að vera ljóst ef menn ætla að taka ákvörðun um að höfða mál á hendur ráðherrum. Eða er nægilegt að slík yfirvofandi hætta hafi verið fyrir hendi að heill ríkisins hafi verið í húfi og þess vegna hafi verið ljóst að ráðamenn þjóðarinnar áttu að grípa til ráðstafana til þess að minnsta kosti að draga úr því tjóni sem kannski varð ekki forðað, eins og rannsóknarnefndin segir vissulega, eftir árið 2006. En menn áttu að grípa til ráðstafana. Og það voru slík teikn á lofti og skilaboð vítt og breitt um kerfið og þeir sem voru á þeim póstum sem hér um ræðir máttu, áttu og gátu vitað það. Þeir áttu þá auðvitað líka að svara því til hvaða ráðstafana átti að grípa eða ekki grípa. Það er verið að snúa hlutunum á haus með því að spyrja alla hina og segja: Af hverju getið þið ekki sagt hvað átti að gera?

Það er að sjálfsögðu hægt að vísa og vitna um ýmsa hluti í þessu efni, t.d. það að á árinu 2005 — og þá erum við að tala um aðra ríkisstjórn en þá sem hér er undir, því að hún bar líka ábyrgð þó að sök hennar sé að lögum fyrnd. Það hefði átt að grípa til aðgerða til að tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði, viðhalda stöðugleika, halda aftur af skuldasöfnun heimilanna. En það var ekki gert. Það hefði mátt fela Fjármálaeftirlitinu að gera áhættumat í bankakerfinu, t.d. hvað varðar áhrif af allri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteigna. Hættumerkin blöstu við. Það hefði mátt beina því til Seðlabankans að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, draga úr þenslu á peningamarkaði, endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Það átti að grípa til aðgerða sem tryggðu aðhald í ríkisfjármálum og mundu slá á þensluna, t.d. með því að slá á frest eða falla frá skattalækkunum sem þá voru ákveðnar. Það hefði mátt efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja, aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir til að forða íslenskum almenningi frá því tjóni sem á annað borð var hægt að forða honum frá á þessum tíma og tryggja þannig þátttöku allra. Á þeim tíma þegar það blasti við að ekki gat stefnt í annað en fullkomnar ógöngur í efnahagsmálum. Í stað þess að ferðast um heiminn í þeim tilgangi einum að reyna að koma erlendum þjóðum í trú um að íslenskt efnahagslíf stæði ekki aðeins traustum fótum heldur værum við framar öðrum þjóðum í þeim efnum áttu ráðherrar ríkisstjórnarinnar að viðurkenna vandann sem allir aðrir sáu en þeir sjálfir.

Það er hægt að benda á ýmsa slíka þætti sem hefði mátt grípa til, hefði mátt gera fyrr og eins þegar aðvörunarljósin voru öll farin að blikka hvert á fætur öðru á árinu 2008. Það var kannski ekki hægt að forða hruninu en það hefði sannarlega mátt lágmarka tjónið.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að mikil ábyrgð hvíldi nú á stjórnmálastéttinni og spurning hvort hún rís undir þeirri ábyrgð. Ætlar stjórnmálastéttin að taka þátt í því með þjóðinni að gera upp þá skelfilegu atburði sem hér urðu eða ætlar hún að ákveða að um hana sjálfa gildi önnur lögmál en aðra í samfélaginu, að um hana sjálfa gildi annað réttlæti? Þetta eru samviskuspurningar sem við hvert og eitt stöndum frammi fyrir.

Ég ítreka einnig það sem ég hef þegar sagt í ræðu minni að í ákvörðun um að höfða mál á hendur ráðherrum felst ekki dómur Alþingis heldur ákvörðun um að málið sé skoðað og rannsakað af þar til bærum dómstóli, af æðsta dómstóli landsins, og hið sanna verði leitt í ljós því að þannig er að orði komist í lögunum um landsdóm, hið sanna leitt í ljós. Í ákvörðun um að höfða ekki mál felst hins vegar dómsvald, ákvörðun um sýknu í þessum sal, pólitískt dómsvald. Ég vara mjög við slíkri ákvörðun.

Ég á mér hins vegar þá von að afgreiðsla Alþingis í dag verði þinginu til sóma eins og allt vinnuferlið til þessa hefur verið. Ég vil enn á ný ítreka þakkir til þingmannanefndarinnar og þeirra sem unnið hafa með henni, ráðgjöfum og starfsfólki og þingmönnunum öllum sem þar hafa setið, fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Enda þótt þau hafi ekki öll verið sammála að lokum þá eiga þau öll óskiptar þakkir skildar. Ég á mér þá von að Alþingi reisi sig í þessum málum í sátt við þjóðina en ég er ekki sannfærður um að málinu ljúki hér og nú.



[12:16]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við ræðu hv. þingmanns þar sem hann vitnar í blaðagrein eftir hv. þm. Bjarna Benediktsson og leggur það mat á þá grein að hann ætlist til þess að aðrir hafi sams konar mat og hann. Það sem hv. þingmaður var að gera með þessum greinarskrifum sínum var að benda á hvað ákæruatriðin væru matskennd. Ég bið hv. þingmann, sem heldur því fram að hlutirnir eigi að vera með einhverjum fyrir fram ákveðnum hætti sem hann telur skynsamlegast, að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég ætla bara að biðja hv. þingmann um það. Og að halda því fram að svona málflutningur sé ekki boðlegur er honum til mikils hnjóðs.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á þá erfiðleika sem hafa verið á undanförnum mánuðum við að reisa þjóðfélagið við eftir þetta hörmulega bankahrun: Hver er skoðun hv. þingmanns á því þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leyndi lögfræðiáliti sem varð til þess að bankarnir voru stofnaðir á það veikum grunni að lánasafnið (Forseti hringir.) var meira og minna ónýtt (Forseti hringir.) og varð ef til vill þess valdandi að ríkisvaldið getur ekki látið afskriftir ganga til fólksins í landinu? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmenn á tímann, hann er naumur, ein mínúta.)



[12:18]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni þegar hann túlkar grein þingmannsins Bjarna Benediktssonar vegna þess að hann segir þar, sem ég vitnaði reyndar sérstaklega til. Með leyfi forseta, les ég það aftur:

„Það er mat þess sem hér skrifar að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt.“

Þar með er hv. þingmaður að gefa í skyn að það sé persónulegt mat hans sem hljóti að ráða afstöðu til hugsanlegrar refsiábyrgðar. Hann er að nota þetta mat. Hann segir að vísu: Já, það geta verið matskenndar ástæður og það er ekki gott. En það liggur í eðli ráðherraábyrgðarlaganna að um matskenndar ástæður er að ræða. Ég er ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að hans mat eigi að ráða för í þessu af því að mér finnst hann ekki sýna þeim sem komast að annarri niðurstöðu þá virðingu að þeir geti haft rétt fyrir sér í þessu máli. (Gripið fram í.)



[12:19]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög sérstök staða. Ég er í andsvörum við hv. þingmann um grein sem annar hv. þingmaður hefur skrifað. Þetta sýnir hversu fáránlegt þetta mál er.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir (Gripið fram í.) því í andsvari um daginn þegar hann flutti ræðu sína og lagði á það áherslu að þetta væri hans mat. Hann var ekki að ætlast til að aðrir hefðu sömu skoðanir og hann á því. Þetta er hans mat og hann byggir niðurstöðu sína á því. Þess vegna ítreka ég við hv. þingmann að hann eigi líka að bera virðingu fyrir skoðunum annarra hv. þingmanna.

Ég vil ítreka fyrri spurningu mína til hv. þingmanns, þegar það liggur fyrir að ekki var hægt að láta hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra koma til þings vegna þeirrar vantrauststillögu sem lá fyrir og af því að við erum að tala um þær hörmulegu afleiðingar sem hrun bankanna hafði í för með sér, að miðað við þær upplýsingar sem núverandi ríkisstjórn hafði þegar hún stofnaði bankakerfið — það liggur í augum uppi, ég sé það a.m.k. þannig, að nú er ekki hægt að láta afskriftirnar ganga til fólksins og fyrirtækjanna í landinu vegna þess að ekki var rétt staðið að málum. (Forseti hringir.) Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Ég bið hann að vera ekki með frekari útúrsnúninga og svara þessu mjög skilmerkilega. (Forseti hringir.)



[12:20]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða grafalvarlegt mál sem er tillaga til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum og ég hef haldið mig við að ræða efnisatriði hennar. Þingmaðurinn reynir að drepa málinu á dreif með því að draga önnur álitamál og ágreiningsmál inn í umræðuna. Það getur alveg verið að sérstök umræða um þau mál eigi rétt á sér en þá skulum við ræða þau sérstaklega.

Það sem er hér um að ræða og það sem var m.a. um að ræða í grein hv. þm. Bjarna Benediktssonar var nákvæmlega þetta, að drepa hinu raunverulega máli sem hér er til umræðu á dreif með því að benda á eitthvað annað. Það lögmál virðist ætla að verða gegnumgangandi hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. (Gripið fram í.)



[12:21]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður hefur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson einbeitt sér að því að vera í útúrsnúningum eins og við heyrðum í þessu andsvari. Hann talaði um að sá sem hér stendur hafi verið að gagnrýna þingmannanefndina. Ég sagði skýrt að ég set stórt spurningarmerki við vinnubrögð Alþingis í þessu máli og ber það sérstaklega saman við Tamílamálið. Ég hvet hv. þingmann til að skoða það og ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sé í lagi og að það sé sómi þingsins að ganga frá þessu á tíu dögum þegar aðrir taka mörg ár í þetta, (Gripið fram í.) marga mánuði — ég hvet hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að kynna sér málið áður en hún fer að kalla fram í.

Af því að hér er verið að tala um pólitíska misbeitingu, þá hafa hv. þingmenn Vinstri grænna sagt að ef minnsti grunur er um sekt eigi að sækja. Þeir hafa sagt að þetta sé uppgjör við pólitíska hugmyndafræði, þetta séu pólitísk réttarhöld og forsætisráðherra sagði í upphafi þessa máls að þetta væri til þess gert að friða almenning. Virðulegi forseti. Við erum að taka ákvörðun um það að ef við samþykkjum þessa tillögu þá telur Alþingi (Forseti hringir.) að ráðherrarnir fyrrverandi séu sekir og hv. þingmaður getur ekki snúið sig út úr því.



[12:22]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara fyrir það sem ég hef sagt. Þau ummæli sem hv. þingmaður rakti í upphafi andsvars síns eru ekki frá mér komin. Ég er algerlega ósammála þingmanninum um það að ef Alþingi tekur ákvörðun um að höfða mál á hendur ráðherrum sé Alþingi þar með að dæma þá seka. (Gripið fram í.) Þannig gengur þetta ekki fyrir sig. Það eru sérstök ákvæði um það í lögum um landsdóm og ráðherraábyrgð hvernig málsmeðferðin er. Hún er að sönnu að vissu leyti frábrugðin því sem almennt gildir í réttarfari hér á landi en hún er eins og hún er í þeim lögum. Þess vegna er það mín skoðun og ég ætla að fá að hafa hana að ef Alþingi ákveður að höfða mál á hendur ráðherrum þá felist ekki í því dómur. Það er landsdómur sem dæmir slík mál. Það er hann sem á að fara í gegnum öll gögn málsins. Þar fara fram yfirheyrslur, gagnályktanir, (Forseti hringir.) málflutningur o.s.frv. en ekki (Forseti hringir.) í þingsal.



[12:23]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að hlusta á og skoða það sem hv. þingmaður sagði. Hann talar um að við eigum að skella út ákæru bara til að kanna hvað gerist, bara til að kanna þetta. (ÁI: Lestu lögin.) Þá geta menn rannsakað þetta. Ég bið hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að hemja sig í þingsalnum. (ÁI: Lestu lögin.) En hv. þingmaður á mjög erfitt með það.

Menn gefa út ákæru af ástæðu, virðulegi forseti, og það verður hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að skilja. Menn gera það ekki vegna þess að einhver stemning sé fyrir því þann daginn. Það er hlutverk okkar að meta hvort það séu meiri líkur en minni á sakfellingu. Ég skil núna, virðulegi forseti, af hverju vinnubrögðin hjá hv. þm Árna Þór Sigurðssyni eru eins og raun ber vitni vegna þess að hann telur að þetta sé ekkert mál, það eigi bara að kanna þetta og þess vegna skellir hann ákæru á menn. Það er spurning hvort þetta sé byrjunin á því að hann ætli (Forseti hringir.) að kanna almennt hvort menn séu sekir og taki þar af leiðandi undir (Forseti hringir.) með hv. þm. Birni Vali Gíslasyni sem telur að það eigi að ákæra ef minnsti grunur er um sekt.



[12:24]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.



[12:25]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er fullkomlega að missa sig í þessari umræðu og segir að ég vilji bara ákæra og kanna hvað gerist. Hann hlustaði þá ekki á ræðu mína áðan sem hann hefði betur gert. (GÞÞ: Ég hlustaði á orð þín …) Hann hefði betur gert það.

Ég sagði í ræðu minni að hættan á pólitískri misbeitingu — og var þar m.a. að vitna í það sem hv. þm Bjarni Benediktsson sagði um það mál í grein sinni — væri ekki fyrir hendi ef málsmeðferð væri vönduð og byggð á gaumgæfilegri og óhlutdrægri rannsókn eins og hér hefur farið fram. Ég er ekki að halda því fram að menn eigi að kasta fram ákærum og sjá hvað gerist. En hér hefur farið fram ítarleg rannsókn og það er óumdeilt að hér varð efnahagshrun, nema hv. þingmaður, hrunráðherrann með landsfundarsamþykkt á bakinu um að hann ætti að segja af sér, hafi ekki orðið var við það eða sé í fullkominni afneitun enn. (Gripið fram í.)



[12:26]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns minnti mig á mæta konu í Vestmannaeyjum á síðustu öld, Siggu mey. Hún sagði níræð: Ef ég hefði sagt já við hann Jón minn þegar ég var tvítug þá hefðu málin gengið öðruvísi fyrir sig. Hv. þingmaður er alltaf í nei-inu, alltaf í því neikvæða og elur á því og virðist rækta það upp. Hann varð margsinnis tvísaga í ræðu sinni og gerði engan greinarmun á ábyrgð og refsiábyrgð og ruglaði saman ákæru og sektarákæru. Þetta eru hlutir sem verður að skilgreina.

Ég vil spyrja hv þingmann, af því að hann þekkir vel til vegna nærveru hugsjónalegs eðlis, hvort þetta minni ekki svolítið á dóma Sovétríkjanna, dóma einræðisríkjanna, herforingjaklíkanna og afrískra ættbálka. Er það ekki línan sem hv. þingmaður er að boða með ræðu sinni, að hann trúi (Forseti hringir.) á pólitíska yfirdrottnun?



[12:27]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei. Ég hef sagt að málsmeðferðin í þessu máli hafi verið vönduð, við höfum látið framkvæma ítarlega rannsókn. Ákveðnar niðurstöður komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þingmannanefnd var sett á laggirnar og hefur hún unnið sleitulaust mánuðum saman og komist að tiltekinni niðurstöðu og leggur hana hér fyrir Alþingi.

Það er ekki pólitísk misbeiting eða dómur að segja: Já, við ætlum að taka tillögur þessara ítarlegu rannsókna og láta fara fram eðlilega og sanngjarna málsmeðferð í þessu máli. Það er það ekki. Það er hins vegar pólitískur dómur að taka þessa vönduðu og yfirveguðu vinnu og segja: Nei, við ætlum að sýkna, af því að þetta er allt fólk sem við þekkjum og höfum unnið með og við viljum ekki að það axli ábyrgð á því efnahagshruni, þeim aðgerðum og því aðgerðaleysi sem það að mínu viti ber ábyrgð á. (Forseti hringir.)



[12:28]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur ekkert vald til að sýkna. Hann er ekki dómari og hann á ekki að vera dómari, síst í málum sessunauta sinna. Hann er vanhæfur til þess og því miður hefur þetta mál í þingmannanefndinni farið út í tóma vitleysu. Það hefur farið út í málfundaæfingar sem henta kannski í grunnskóla en ekki á Alþingi Íslendinga vegna þess að það hefur ekki verið farið í vandaða málsmeðferð, það hefur ekki verið farið í ítarlegar rannsóknir, það hefur ekki verið rætt við viðkomandi aðila. Þeir hafa fengið að senda bréf, það er ekki ítarleg rannsókn, það er fúsk, það eru fáfengileg vinnubrögð og mundu ekki duga í hnýtingu á netum. Það væru rifin net og götótt. Það er þetta sem menn þurfa að hafa í huga þegar gengið er til þessa en við skulum ekki slíta friðinn. (Forseti hringir.) Það er ekki sátt við þjóðina.



[12:30]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna myndlíkingar hv. þingmanns um rifin net þá vil ég upplýsa hann um að ég er prýðilegur í að taka í kríu og get bara gert það vel.

Hitt ætla ég svo að segja að þegar þingmaðurinn segir að ég hafi ekkert vald til að dæma, þá er það nákvæmlega það sem ég var að segja í ræðu minni. Þetta er ekki dómsalur og við eigum ekki að dæma. Alþingi á ekki að dæma, til þess eru dómstólar. Það er fjallað um það í löggjöf okkar með hvaða hætti farið er með mál af þessum toga. (ÁJ: Var með líkingunni …) Ég svaraði henni áðan og ég tel hins vegar að ef við tökum ákvörðun hér um að taka vinnu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar og ýta henni út af borðinu og segja: Við ætlum að setja kíkinn fyrir blinda augað og við ætlum ekki að láta þessi mál fá eðlilega og réttláta málsmeðferð, þá sé það sýknudómur sem hv. þm. Árni Johnsen virðist vera reiðubúinn (Forseti hringir.) til að taka sér vald til.



[12:31]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar var merkileg fyrir þær sakir að í henni staðfesti hv. þingmaður og rammaði inn þá skoðun sína að hann vill efna til pólitískra réttarhalda yfir ráðherrunum fjórum og koma yfir þá pólitískri ábyrgð í formi sakamáls. Hann vill ákæra fólk fyrir glæpsamlegt athæfi til að fá uppgjör við pólitíska hugmyndafræði sem er honum ekki þóknanleg.

Hann talar um pólitísk dómsorð sem felast í því að vilja ekki gefa út ákæru og ég mótmæli þeim málflutningi. Hann ruglar algerlega saman pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð enda gerði hv. þingmaður enga einustu tilraun til þess í ræðu sinni að færa rök fyrir því að ráðherrarnir fjórir hefðu bakað sér refsiábyrgð með gerðum sínum. (Forseti hringir.) Það er algerlega fráleitt að hv. þingmaður sem flytur svona ræður skuli telja sig vera í þeirri stöðu (Forseti hringir.) að kalla málflutning annarra hv. þingmanna óboðlegan (Forseti hringir.) vegna þess að þessi ræða var óboðleg af þeim ástæðum sem ég hef rakið.



[12:32]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill minna hv. þingmann á að virða ræðutíma.



[12:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er það rangt sem hv. þingmaður heldur fram og sú einkunnagjöf röng sem hann gefur ræðu minni en hverjum þykir sinn fugl fagur, eins og sagt er. Ég var ekki að tala um pólitísk réttarhöld og ég hef aldrei gert það. Ég hef verið að ræða um efni þeirra þingsályktunartillagna sem hér liggja fyrir þar sem færð eru rök fyrir því að tilteknir ráðherrar hafi gerst brotlegir við tilgreind lög. Það er refsiábyrgð í málinu. Er það ekki alveg skýrt? Ég tel að hún eigi við. Ég vil ekki pólitísk réttarhöld. Ég vil hins vegar að dómstólar kveði úr um þetta álitamál sem við höfum eytt miklu púðri í og mörgum mánuðum í að fara í saumana á, m.a. með rannsóknarnefndinni (Forseti hringir.) og þingmannanefndinni.



[12:33]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að enginn sem hlustaði á þessa ræðu hafi velkst í vafa um það á hvaða grundvelli hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vill ákæra ráðherrana fjóra. Það er ekki á lagalegum grundvelli. Þetta snýst allt um það sem Lilja Mósesdóttir, flokkssystir hv. þingmanns, upplýsti á frumstigi þessa máls að það yrði að fara fram pólitískt uppgjör við ákveðna hugmyndafræði. Flokksbróðir hv. þingmanns, hv. þm. Björn Valur Gíslason, var reiðubúinn til að víkja til hliðar meginreglum réttarríkisins um hvernig ætti að haga málum varðandi þá sem eru sakborningar í málum og varðandi það með hvaða hætti við tökum ákvörðun um að ákæra. Það þarf ekki mörg vitni til að komast að þessari niðurstöðu þegar menn lesa og hlýða á hv. þingmann og fara síðan yfir þau vinnubrögð sem hann viðhefur í þessum málum. Það er talað um að málsmeðferðin sé eðlileg (Forseti hringir.) og að sérfræðingar segi hitt og þetta. Ég skora á hv. þingmann að beita sér fyrir því að afnema trúnað af gögnum (Forseti hringir.) sem fyrir liggja í þinginu þar sem þessir sérfræðingar sem talað er um tala akkúrat um að sú málsmeðferð sem hv. þingmaður talar fyrir að sé eðlileg (Forseti hringir.) og vönduð standist hvorki ákvæði laga (Forseti hringir.) né mannréttindareglna.



[12:35]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég bið enn og aftur hv. þingmann um að virða ræðutíma.



[12:35]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er undarleg framsetning hjá hv. þingmanni. Ég bendi honum á að lesa álit um tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum frá meiri hluta allsherjarnefndar sem ég á aðild að og skrifa undir þar sem farið er rækilega yfir þau álitamál sem þingmaðurinn er að tala um, m.a. mannréttindamálin, (Gripið fram í.) málsmeðferðina og annað slíkt þannig að sjónarmið okkar í því efni koma mjög skýrt fram og ég tel að því sé vel fyrir komið.

Hvað hitt varðar kann auðvitað vel að vera að það henti Sjálfstæðisflokknum einkar vel í þessu máli, eins og hefur komið fram í hverju andsvarinu á fætur öðru, að snúa umræðunni upp í það að hér séu á ferðinni pólitísk réttarhöld sem verði að forðast. Kannski er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að koma út í samfélagið að hér séu á ferðinni pólitísk réttarhöld. Það er ekki svo. (Forseti hringir.) Við erum að fjalla um ábyrgð ráðherra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. (Forseti hringir.)



[12:36]Útbýting:

[12:36]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum búin að ræða þetta mál nokkuð lengi. Ég tók til máls í 1. umr. og fór þar í gegnum nokkra punkta og mér finnst þessi umræða yfirleitt hafa verið málefnaleg og góð. Til að fyrirbyggja allan misskilning, vegna þess að menn vilja gjarnan misskilja, verð ég að taka fram að skýrslan sem þingmannanefndin skilaði er afbragðsvel unnin. Ég gat þess að þingsályktunartillagan, sem fylgir skýrslunni, væri dálítið loðmulluleg og ég fer ekkert ofan af því, hún er ekki nógu skörp. En skýrslan er mjög góð og hún er mjög beitt þannig að ég tek alveg undir hana.

Ég er ekki eins hrifinn af þessum tveimur þingsályktunartillögum sem við ræðum hérna, um að ákæra fjóra ráðherra. Ég held að þann 11. september 2010 hafi gerst mjög slæmur atburður á Íslandi. Menn vöktu upp draug sem ekki verður kveðinn niður. Þessi uppvakningur vofir yfir okkur til framtíðar og ég held að við verðum sem allra fyrst að breyta lögum um ráðherraábyrgð og um landsdóm þannig að þessi mál séu flutt úr þeim farvegi sem þau eru í í dag, pólitískum farvegi, yfir í að vera venjulegt sakamál fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þetta er sakamál. Það er verið að segja það að þetta fólk hafi brotið lög.

Menn hafa sagt að þetta sé erfið ákvörðun. Ég kveinka mér ekki neitt. Ég tek mína afstöðu og horfi á niðurstöðuna. Ég tek ekki afstöðu fyrir aðra þingmenn. En ég tel að frá og með þessum degi, 11. september 2010, verði ekki aftur snúið. Við öll stjórnarskipti eftir hverjar kosningar, þegar kominn er nýr meiri hluti sem hefur tögl og hagldir á Alþingi, þá verður kært nema við breytum þessum lögum. Þetta er ekki hótun heldur er þetta svona. Það er alltaf eitthvað sem menn finna athugavert við fráfarandi stjórn og ég nefndi þrjú eða fjögur dæmi í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það.

Svo er hitt, það er búið að ákæra ákveðið fólk. Í ákærunni sjálfri felst gífurlegur áfellisdómur. Það er mjög þungbært að fá yfir sig ákæru og það er alveg sama hvort hún verður samþykkt eða henni hafnað á eftir, eftirmiðdaginn eða í kvöld, eftir situr ákæra. Þetta er skelfilegt og ég hygg að nefndin hafi bara ekki hugsað þetta alveg til enda, það getur ekki verið. Ef þetta verður samþykkt fer í gang ákveðið ferli og fólkið verður mjög líklega sýknað, að mínu mati, og hver er þá ábyrgð þeirra sem stóðu að þessu? Munu þeir þá hætta eða hvað gerist? Hætta í pólitík fyrir fullt og allt eða hvað? Ef ekki verður ákært svífur ákæran yfir vötnunum og hún er bara þarna. Það er líka mjög slæmt.

Í morgun þegar ég vaknaði hlustaði ég á mjög hressilegt viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur skólastjóra og höfund Hjallastefnunnar. Það var virkilega endurnærandi, frú forseti, og sérstaklega í byrjun svona erfiðs dags. Hún talaði um reiðina. Hún talaði um óánægjuna og heiftina og ég vil bæta við ljótu orðfæri sem tröllríður umræðunni. Þetta er ekki stór hópur, trúi ég, sem er svona reiður en hann hefur mjög hátt og hann mengar allt þjóðfélagið, hann mengar allt þjóðfélagið í reiðitali sínu.

Nú er það þannig, frú forseti, að reiði er mjög neikvæður eiginleiki og alltaf verst fyrir þann sem er reiður. Reiðin er alltaf verst fyrir þann sem er reiður. Þetta uppgötvaði ég á unglingsárunum, þá var ég stundum reiður og ég hætti því. Ég reyni alltaf að vera ekki reiður nema mjög stutt og þegar hrunið hitti mig eins og aðra þá varð ég reiður í korter. Svo sagði ég: Ókei, þetta eru bara einhver efnisleg gæði sem fóru og hvað með það? En nú er sem sagt búið að vekja upp þennan draug og ég held að þingmenn þurfi allir að taka sig saman í andlitinu eftir þessa atburði og breyta lögunum um ráðherraábyrgð og breyta lögunum um landsdóm.

Það sem Margrét Pála Ólafsdóttir sagði, og ég vil taka undir, er að við þurfum að horfa til framtíðar. Og ég vil að við mörkum okkur þá stefnu að í staðinn fyrir reiði, heift, óvild og ljótt orðfæri förum við í uppbyggingu og stefnum til framtíðar með hugsjónir að leiðarljósi. Við segjum: Hvernig viljum við hafa Ísland barnanna okkar eftir 30 ár? Það er það sem við eigum að gera. Ég hafði vonast til þess að þetta skelfilega hrun bæri þó alla vega þann ávöxt að menn breyttu því sem nauðsynlegt er til að hafa stefnu til framtíðar. En ég er dálítið uggandi eftir það sem gerðist 11. september 2010. En maður á að sjálfsögðu ekki að gefa upp vonina.

Í fermingarveislum og í öðrum fjölskylduveislum er sumt fólk alltaf voðalega viturt eftir á, og það er gersamlega óþolandi. Það segir kannski við vin sinn: Heyrðu, af hverju í ósköpunum varstu að kaupa þennan jeppa með gengistryggðu láni? Datt þér ekkert annað í hug? Áttaðirðu þig ekki á því hvað þetta var hættulegt eða eitthvað svoleiðis? Þetta fólk er svo viturt eftir á að það er óþolandi. Þegar umræddur maðurinn keypti jeppann þá sagði hins vegar þetta sama fólk hvað það hefði verið sniðugt hjá honum að kaupa þennan jeppa á þessum lágu vöxtum, hvað þetta væri snjallt og hvað þetta væri fallegur bíll — sama fólkið, það varð bara viturt eftir á.

Ef menn vita hvað gerist í framtíðinni geta menn afstýrt hörmungum. Sá sem hefði vitað að flóðbylgjan mikla í Asíu, sem varð 200 þúsund manns að fjörtjóni — sá sem hefði vitað það degi áður hefði getað bjargað 200 þúsund manns. Þetta er bara staðreynd en það vissi það enginn, það vissi það enginn í heiminum að þetta mundi gerast. Og ég fullyrði að enginn í heiminum vissi að hrunið kæmi. Þess vegna er svo erfitt að dæma eitthvað sem gerðist fyrir hrun þegar menn vissu ekki af hruninu, dæma t.d. ráðherra fyrir að hafa ekki tekið afstöðu til hrunsins miðað við það að nú veit ég að það varð hrun og ráðherra veit það líka og allir vita það. Það er ekki hægt að dæma menn fyrir það sem þeir gerðu fyrir hrun vitandi núna að hrunið varð. Þetta er stóri vandinn og þetta er ein stærsta ástæðan fyrir afstöðu minni í þessu máli.

Ég hef líka sagt að ég sé ekkert viss um að ég hefði gert betur. Ég er ekkert viss um það. Ég er búinn að spyrja nokkra að því hvað þeir hefðu gert. Hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Atli Gíslason sögðu: Það hefði verið hægt að skipa tilsjónarmann með bönkunum, þeir sögðu það báðir. Almáttugur, frú forseti. Þeir átta sig ekkert á hvað bankastarfsemi gengur út á. Hún gengur út á traust. Það er það eina sem bankarnir standa og falla með — þeir falla ef það vantar traust. Það sem gerist ef skipaður er tilsjónarmaður þá er það merki til markaðarins og allra sparifjáreiganda um að sá banki sem í hlut á standi tæpt. Hvað gerir sparifjáreigandinn í slíkri stöðu? Hann hleypur niður í banka og tekur út peningana sína og bankinn er fallinn. Svona hugmyndir, ég veit ekki hvað á að kalla þetta, ég veit það ekki.

Það varð hrun og mjög margir segja: Það varð hrun hjá heilli þjóð og það ber enginn ábyrgð. Það ber bara enginn ábyrgð. Við verðum að finna einhvern til að bera ábyrgð, við verðum að finna einhvern sökudólg. Mér finnst þetta vera mjög ríkt í mjög mörgum, finna einhvern sökudólg, henda einhverjum í fangelsi og þá er búið að friðþægja fyrir það að einhver hafi borið ábyrgð á hruninu, sem kom reyndar utan frá. Það var fall Lehman-brothers sem setti þetta allt í gang en það var morkið innan frá löngu áður. Menn leita að ábyrgð. Ég tel reyndar að þetta fólk hafi fengið þá meðferð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það hálfa væri nóg. Ég hefði ekki viljað sjá þau ummæli um mig sem þar standa, um getuleysi ríkisstjórnarinnar o.s.frv.

Síðan kemur þingmannanefndin og bætir um betur, setur fram mjög harðar ádeilur á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarstarfið og allt stjórnkerfið. Þannig að það er heldur betur búið að refsa. Ég mundi ekki vilja sjá slík eftirmæli um mig, það er alveg á tæru. Og svo vill til að þessir ráðherrar eru allir hættir og meira að segja hættir í pólitík. Þeir vildu ekki bjóða sig fram, sennilega vegna þess að þeir vissu að kjósendum mundi ekki líka það vel þannig að þeir eru búnir að axla sína ábyrgð. Ég veit ekki hvernig menn taka ábyrgð öðruvísi, pólitíska ábyrgð. Og það er búið að refsa þeim með þessum ummælum í þessum tveim skýrslum.

Mikið hefur verið rætt um mannréttindi og réttlát réttarhöld og að réttarhöld sem standast mannréttindi séu hlutlaus og að færðar séu sönnur á sekt með rannsókn og sakborningar hafi verjendur. Ég vil vitna í einn af þessum fræðimönnum sem ég má víst ekki nefna — mig langar svo mikið til að nefna hann, frú forseti. Það stendur í leyniskjölum. Það er fræðimaður sem er prófessor við háskóla og hann er kona. Hún segir fremst í bréfi sínu — og ég les bréfið reyndar ekki, þetta er mín eigin skrift, ég er ekki með skjalið, ég fæ ekki að sýna skjalið, ég fæ ekki að hafa skjalið hérna. Þetta er leyndarmál. Þetta er svo mikil leyndarhyggja, frú forseti, að ég skil þetta ekki. Það er ekkert merkilegt í þessu skjali, það er ekkert ríkisleyndarmál eða neitt slíkt. En ég verð víst að beygja mig undir þessa leynd. Og ég ætla lesa þetta, ég skrifaði það niður beint eftir bréfi hennar nú rétt áðan:

„Það er mjög erfitt að taka afstöðu til þess hvort ákæra skuli fyrr en lokinni athugun á frumgögnum. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki frumgögn.“

Þetta var ekki gert, því miður. Þessi sérfræðingur lagði engu að síður til, þessi kona, að það yrði ákært. En fremst í bréfinu stendur þetta: „… að lokinni athugun á frumgögnum“. Nefndin kannaði ekki frumgögn. Hún braut mannréttindi að því leyti að hún rannsakaði ekki neitt og ákærir samt. Hún átti að sjálfsögðu að kanna frumgögn fyrir rannsóknarskýrslu Alþingis og hún átti að sjálfsögðu að kalla til nægilega mörg vitni eins og gert var í Danmörku í Tamílamálinu til að fá staðfestingu á þeim ummælum sem voru í rannsóknarskýrslunni, þau ummæli hafa ekkert gildi í dómsmáli vegna þess að viðkomandi höfðu ekki stöðu sakaðs manns. Ég skil ekki í mönnum sem þykjast dýrka mannréttindi og þykjast berjast fyrir þeim að brjóta þau svona greinilega.

Svo vitnaði þessi ágæta kona, af einhverjum ástæðum, í 145. gr. laga nr. 88/2008, um sakamál — ég held að þau heiti það, ég man ekki hvað þau heita. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls“ — ég er núna ákærandi ásamt hv. nefnd — „í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið …“ Frú forseti, þetta segir aðalvitni nefndarinnar sem lagði til að ákært yrði. Hann segir í framhaldinu: „… athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki.“ — Þetta var ekki gert. Það var engin rannsókn, frú forseti, og ákæran var birt 11. september 2010. Mér finnst það alveg með ólíkindum, og fólkið veit ekki enn þá að það sé með stöðu sakaðs manns. En menn fer reyndar að gruna ýmislegt þegar það kemur fram í fjölmiðlum að það eigi að fara að kæra það með þingsályktun frá Alþingi. En það hefur aldrei verið yfirheyrt með stöðu sakaðs manns.

Þessi regla er öll brotin Sakarefnin eru svo óljós að ekki er nokkur einasta leið að henda reiður á þeim. Hvað þýðir að þú hafir átt að skipa nefnd? Hvenær átti hún að skila áliti? Þú áttir að skipa nefnd í maí, skulum við segja, til að rannsaka hvað var að gerast. Átti hún að skila áliti í nóvember, eða hvað? Það hefði reyndar orðið eftir hrun. Svo er sagt að ekki hafi verið haldnir fundir. Enginn spyr: Af hverju voru ekki haldnir fundir? Af hverju var þetta mál ekki tekið upp í ríkisstjórn? Þá gæti komið fram, sem ég held að sé, að það sé vegna lausmælgi. Nú veit ég það ekki og það veit enginn af því að það var ekki spurt. Það var ekki spurt í hv. nefnd: Af hverju voru ekki haldnir ríkisstjórnarfundir um þetta málefni? Það var ekki spurt. Þetta er náttúrlega ekki hægt, frú forseti, þetta er ekki hægt.

Það er hluti af því að vera með réttlát réttarhöld að þau séu hlutlaus. Þessi eru ekki hlutlaus. Hér eru vinir og óvinir að fjalla um ákærur á hendur sessunautum sínum. Það eru fyrst níu þingmenn sem eiga að kæra, eða sjö þeirra, ráðherra sem eru í flokkum sem eru þeim andsnúnir, nema tveir sem eru í Samfylkingunni. Síðan koma 63 þingmenn. Sumir hafa verið mjög reiðir í stjórnarandstöðu í 18 ár, mjög reiðir, vinstri grænir eru mjög reiðir. Ég hef séð þá blána af reiði í ræðustól út í þá menn sem þeir eru að fara að ákæra. Ég nefndi tvo þeirra, hæstv. ráðherra, í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það, menn geta flett því þar upp. Svo gerist það í þessu merkilega hlutlausa réttarhaldi að Alþingi kýs saksóknara. Það er aftur sami hópur manna, vinir eða óvinir hinna ákærðu, sumir reyndar hlutlausir, sem þar ræður ferð. Sá saksóknari rannsakar málið — hann er náttúrlega valinn eftir því sem meiri hlutinn telur vera skynsamlegt — og það fer fyrir landsdóm þar sem Alþingi kýs átta af 15. Aftur er kominn sami hópur að dæma þessa félaga sína. Þetta er ekki hlutlaust réttarhald, frú forseti. Við verðum að breyta þessu til framtíðar. Ég vil ekki sjá svona réttarhöld í framtíðinni jafnvel þó að það mundi gagnast mér að fara að kæra þá ráðherra sem nú eru að véla um hlutina. Það er ýmislegt sem ég hef við það að athuga.

Ég vil benda á að ákæra er alltaf mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður, sérstaklega í þessu tilfelli. Þetta fólk fær væntanlega hvergi vinnu. Hver vill ráða fyrrverandi ráðherra sem sætir ákæru fyrir landsdómi? Það hefur sennilega enga vinnu í 2–3 ár, þann tíma sem þessi málaferli taka. Þau munu gera það, ég spái því. Þetta fólk fær væntanlega einhvern tíma réttarstöðu grunaðs manns þó að þegar sé búið að ákæra það — þetta er alveg ótrúlegt. Það er sem sagt fyrst ákært og síðan rannsakað. Þannig var það ekki í Danmörku, í Tamílamálinu sem mikið hefur verið vitnað til. Þetta er sem sagt pólitískt mál.

Þegar ég var kosinn á þing var ég kosinn á grundvelli pólitíkur. Ég var í framboði fyrir ákveðinn flokk og það var pólitík. Ég stunda lagasetningu sem er pólitík, ég stunda fjárveitingar sem eru pólitík og ég stunda eftirlit með ráðherrum sem er pólitík. En ákæra er ekki pólitík. Ég lít á mig núna sem einstakling sem stendur hérna og get ekki annað. Ég kveinka mér ekki en þetta hefur ekkert með pólitík að gera. Ég er að taka ákvörðun um það hvort ég eigi að ákæra fólk og krefjast þess að það verði dæmt sem glæpamenn og sett í fangelsi. Það er það sem ég er að taka ákvörðun um núna, ég sjálfur. Og þessir ákærðu eru samstarfsmenn mínir nema tveir. Einn var sessunautur minn í ákveðinn tíma og það fór vel á með okkur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fjarlægari, hún var einu sinni með mér í nefnd. Ég get varla sagt að ég þekki hana neitt sérstaklega vel en hún er andstæðingur minn, það eru tveir af þessum ráðherrum andstæðingar mínir í pólitík. Það skiptir mig engu máli. Tveir þeirra eru samherjar mínir og ég er að reyna að vona að það skipti mig heldur ekki máli.

Ég hef í gegnum tíðina ekki verið neitt sérstaklega flokkshollur, og stjórnarandstaðan hefur oft bent á það, og ég er það ekki núna. Ég hlusta ekki á þingflokk Sjálfstæðisflokksins, frú forseti, í þessu máli. Ég stend algerlega einn í þessu máli. Ég hlusta ekki á þingflokkinn. Ég hlusta ekki á þingmenn yfirleitt. Ég hlusta ekki á sjálfstæðismenn eða ályktanir þeirra. Ég hlusta ekki á skoðanakannanir. Ég stend hér einn og fer eftir sannfæringu minni. Og mér finnst að þessi málatilbúnaður sé allur á þann veg að hann sé allt of mikið litaður af pólitík. Þetta eru ekki hlutlaus réttarhöld, það er ekki búið að færa sönnur á sekt, það er bara ekki búið að því. Ég tel mig á þeim tíma ekki hafa getað gert betur. Það var hellingur sem menn gerðu. Menn voru að vinna mjög margt og mikið og margt mistókst en sumt tókst alveg svakalega vel.

Ég vil benda á eitt sem var kraftaverk, það voru neyðarlögin. Neyðarlögin héldu efnahagslífinu gangandi í gegnum hrunið. Ég hef talað við útlendinga, menn frá Taívan, og spurt þá: Hvað mundi gerast ef 80% af bankakerfinu ykkar hryndi? Þeir horfðu á mig og svo sögðu þeir: Heyrðu, það yrði sennilega hungursneyð þegar fólk getur ekki keypt mat í margar vikur og mánuði. Hér á landi tókst að halda þessu gangandi í gegnum allt hrunið og það var kraftaverk. Það var kraftaverk, frú forseti, og við skulum ekki gleyma því.

Nú stend ég hér og á að setja fram kærur á fólk eins og það sé glæpamenn, svo að það fari í fangelsi fyrir mjög óljósar sakir og í ákæru og réttarhöldum sem eru engan veginn hlutlaus. Þar sem ég trúi á mannréttindi get ég ekki staðið að þessum ákærum á hendur ráðherrum, engum þeirra.



[12:58]
Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fullyrðir að ekki hafi verið kallað eftir frumgögnum. Ég vísa til þess að nefndin skrifaði forsætisráðuneytinu bréf fyrir hönd ráðuneytanna — sem hún verkstýrir sem slík, hæstv. forsætisráðherra — og enn fremur Seðlabankanum til að kalla eftir gögnum. Þau gögn liggja fyrir, meðal annars endurrit af fundum samráðshóps um efnahagsmál. Ég verð síðan að ítreka að lögin um landsdóm eru sérlög um sakamálaréttarfar, sérlög sem eru talin standast fyllilega. Þau mæla fyrir um aðra málsmeðferð en lög um meðferð sakamála sem eru nýsett á þingi. Þessi sérlög um málsmeðferð fyrir landsdóm eru talin standast fyllilega. Þetta vildi ég taka fram vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þingmanns.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Telur hann að unnt sé að víkja frá stjórnarskrárákvæðum, og þá á ég við 17. gr., um ríkisstjórnarfund um mikilvæg stjórnarmálefni, vegna meintrar lausmælgi? Hvernig má það vera að við getum ýtt stjórnarskránni í burtu á þeim grundvelli?



[12:59]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu getum við ekki ýtt stjórnarskránni í burtu en það geta verið önnur atriði sem eru svo veigamikil, t.d. yfirvofandi hrun, að menn taki ekki þá áhættu. Við erum alltaf að vega og meta meiri hagsmuni og minni og það eru líka hagsmunir að setja heilt ríki á hausinn og brýtur örugglega stjórnarskrá. Ef menn óttast að eitthvað leki sem ekki má leka, ekki undir neinum kringumstæðum, þá er það, að mínu mati, gífurlega stórt mál og getur hugsanlega leitt til þess að menn fari fram hjá þessu ákvæði. Það er stundum gert og hefur iðulega verið gert eins og ýmsir dómar hafa sýnt, dómar mannréttindadómstólsins um öryrkjadóminn o.s.frv.

En varðandi vitnaleiðslurnar og það að kanna það, eins og þessi ráðgjafi sem ég má ekki nefna lagði til — þetta er eins og í Harry Potter, það má ekki tala um það. En þessi ráðgjafi sem ekki má nefna sagði að það ætti að kæra að lokinni athugun á frumgögnum. Þetta var ekki gert þó að það hafi verið gert í pínulitlum mæli. Viðtöl sem þar áttu sér stað voru ekki staðfest. Það var ekki kallað á menn með stöðu sakaðs manns og þeir beðnir um að staðfesta þessi viðtöl sem höfð eru eftir þeim í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það var ekki gert. Þeir vita ekki einu sinni enn að þeir séu með stöðu sakaðs manns, þeim hefur aldrei verið tilkynnt það. Ég tel því að frumgögn hafi ekki verið könnuð. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er ekki frumgagn. Þar er heilmikið af gögnum, heilmiklar upplýsingar, sem nefndin notar í ákærunni. Þingmannanefndin átti svo að sjálfsögðu að tala við fólkið sem hún ætlar að fara að ákæra og tilkynna því: Við ætlum að fara að ákæra ykkur. Við höfum grun um að þið hafið gert eitthvað refsivert. Við höfum grun um að þið hafið framið glæp og við ætlum að ákæra ykkur og við ætlum að spyrja ykkur út í þetta og hitt.



[13:01]
Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Afleiðingar þess að þessi mál voru ekki tekin upp á ríkisstjórnarfundum í trúnaði — þegar um viðkvæm mál er að ræða er eðlilegt og er gerð tillaga um það í okkar skýrslu að það verði haldin trúnaðarmálabók — urðu mjög miklar. Það var vegið að undirstöðu lýðræðisskipulags okkar og það var vegið að einu brýnasta hlutverki Alþingis sem er eftirlitshlutverkið og það var eins og ég hef áður sagt rofin ráðherraábyrgðarkeðja.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur lengi haldið því fram að ef skipaður hefði verið tilsjónarmaður með bönkunum í febrúar eða mars 2008 hefði orðið hrun. Það varð hrun, hv. þingmaður, það varð hrun og það varð síðar. Það varð níu mánuðum síðar en fyrsta spáin kom fram, nákvæmlega í samræmi við spána. Þessi dráttur á því að taka á málunum varð til þess að ríkið, heimilin í landinu, fólkið í landinu, fyrirtæki í landinu urðu fyrir geigvænlega mun meira tjóni sem skipti hundruðum milljarða. Ég get alveg fullyrt að við stæðum betur að vígi í dag ef hrunið hefði orðið níu mánuðum fyrr þegar teikn voru á lofti.

Síðan enn og aftur, hv. þingmaður, varðandi réttláta málsmeðferð þá mælir 70. gr. stjórnarskrárinnar fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og grundvallaratriðið í öllu réttarfari, bæði opinberu og einkamálaréttarfari, er sönnunarfærsla fyrir dómi þar sem viðkomandi hafa tryggða réttarstöðu að öllu leyti. Og þingmannanefndin, verð ég að segja að gefnu tilefni, var þingmannanefnd með réttarstöðu þingmannanefndar samkvæmt þingsköpum, sem sérstaklega er vísað til um nefndina, en ekki með lögregluvald.



[13:03]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessu síðasta hefði mátt kippa í liðinn með því að biðja um heimildir til þess hjá Alþingi og menn hefðu fengið það strax.

Varðandi það að menn hefðu átt að setja bankana á hausinn sex mánuðum fyrr. Svona ef-spurningar er eiginlega ekki hægt að ræða. Ef menn hefðu sett bankana á hausinn sex mánuðum fyrr værum við nú að kæra mennina fyrir að hafa sett þá á hausinn, fyrir að hafa sett tilsjónarmann við hliðina á þeim. Það væri þá einhver ákveðinn verknaður sem hægt væri að kæra þá fyrir. (AtlG: Þetta er útúrsnúningur.) Nei, þetta er ekki útúrsnúningur. Við værum núna að kæra þá fyrir að hafa sett íslenskt efnahagslíf á hausinn. Ég er ekki viss um að staðan hefði batnað mikið. Og þó að núverandi ríkisstjórn hafi klúðrað Icesave-málinu eins og hún mögulega gat og ætlaði bara að samþykkja það mál strax óbreytt, þ.e. samninginn, þá eigum við ekki að borga Icesave. Það er bara meinloka hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hrunið hefði ekkert orðið mikið betra eða verra sex mánuðum fyrr. Ég hef enga trú á því, það eina sem skiptir þar máli er Icesave. En menn hefðu orðið sekir um að hafa sett bankana á hausinn, það væri þá alla vega einn atburður sem væri nákvæmlega til staðar. Svona eftiráskýringar að koma og segja að ef menn hefðu gert þetta og ef menn hefðu gert hitt, að vera svona vitur eftir á í fermingarveislum, er gersamlega óþolandi.



[13:05]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 20. mars 2003 tóku þeir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, einhliða ákvörðun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar um að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Sú ákvörðun var gerð án nokkur samráðs við Alþingi, í blóra við lög um þingsköp Alþingis sem kveða á um samráð við utanríkismálanefnd í svo örlagaríkum málum, og þessi ákvörðun gerði Ísland, vopnlausa þjóð í friðsælu landi, að sérstökum stuðningsaðila í hildarleik sem kostaði að lágmarki 100.000 óbreytta borgara lífið. Að lágmarki. Sumar heimildir herma að tala fallinna hafi verið margfalt hærri. Þessi árás var síðar lýst ólögmæt að alþjóðalögum og í andstöðu við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessir ráðherrar voru ekki dregnir fyrir landsdóm fyrir þessa afdrifaríku ákvörðun þótt full ástæða hefði verið til.

Þessir sömu ráðherrar, auk Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, báru meginábyrgð á einkavæðingu bankanna sem lauk um svipað leyti og við vitum nú að var ein af rótum bankahrunsins. Þessi ráðherrar voru ekki og verða ekki dregnir fyrir landsdóm fyrir aðgerðir sínar á þessum árum. En í dag greiðum við þingmenn atkvæði um það hvort fjórir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn síðustu 16 mánuðina fyrir bankahrun skuli fyrstir manna í sögu lýðveldisins dregnir fyrir landsdóm og ákærðir fyrir refsiverða háttsemi. Sá atburður var sannarlega fordæmalaus í sögu Íslands og pólitísk ábyrgð þessara aðila skýr. Við þurfum hins vegar að spyrja okkur: Er það í samræmi við kröfur okkar um réttlæti að draga þessa einstaklinga til refsiábyrgðar meðan þeir aðilar sem raunverulega báru mesta stjórnsýslulega ábyrgð á aðgerðum og athafnaleysi í aðdraganda bankahrunsins fram til 2007 sleppa í skjóli lagatæknilegra atriða?

Þetta er samviskuspurning sem ég vona að hver svari eftir bestu sannfæringu síðar í dag.

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni ræðum við hér á Alþingi hvort ákæra skuli tiltekna fyrrverandi ráðherra fyrir embættisbrot á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Tilefnið er fordæmalaust hrun fjármálakerfis landsins á haustmánuðum 2008. Aðdraganda og orsökum hrunsins hafa verið gerð afar góð skil í vandaðri skýrslu rannsóknarnefndar þingsins. Á grundvelli þeirrar skýrslu, andmælabréfa ráðherra og gagna sem þingmannanefnd Alþingis aflaði eru byggðar tillögur nefndarmanna í þingmannanefnd um að höfða skuli mál á hendur þremur til fjórum ráðherrum sem sátu í ríkisstjórn á þessum árum, 2007–2009.

Lagt er til að mál verði höfðað á grundvelli laga um ráðherraábyrgð sem byggja á 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum og Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Þetta er lykilhugtak í þessu máli, embættisrekstur. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra, þ.e. fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi viðkomandi ráðherra sem slíkra. Í 4. gr. laganna um ráðherraábyrgð sem fjallar um vanrækslu, og á því vel við um þau ákæruatriði sem hér eru til umfjöllunar, er frekar hnykkt á þessum skilningi þar sem skýrt er kveðið á um að ábyrgð vegna vanrækslu hvíli á þeim ráðherra sem málefnið heyri undir, þ.e. viðkomandi fagráðherra.

Virðulegi forseti. Þær tillögur um ákærur sem hér hafa verið lagðar fram byggja einkum á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og það liggur fyrir að ekki fór fram af hálfu þingmannanefndarinnar sjálfstæð rannsókn á þeim málsatvikum sem sakarefnin byggja á. Þess vegna er mikilvægt að fara skipulega yfir helstu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar til að átta sig á því á hve traustum grunni ákæruatriðin eru byggð.

Bankarnir féllu af því að þeir höfðu vaxið íslenska hagkerfinu yfir höfuð og stjórnvöld höfðu ekki burði til að verja þá falli. Bankakerfið var allt of stórt, gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans allt of lítill og trúverðugleiki íslensku bankanna á erlendum fjármálamörkuðum fór ört þverrandi. Efnahagur og útlán bankanna uxu meira en innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki þessum mikla vexti. Aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum var helsta forsenda mikils vaxtar bankanna, einkum á árunum 2004–2006 þegar vöxtur þeirra var hvað mestur. Í meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra.“

Í upphafi árs 2006 var krónan mun sterkari en staðist gat til lengdar. Viðskiptahallinn var kominn yfir 16% af vergri landsframleiðslu. Skuldir þjóðarbúsins í erlendum gjaldmiðlum umfram eignir nálguðust að stærð verga landsframleiðslu og efnahagsreikningur þjóðarbúsins var því veikur. Í meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir í 1. bindi á bls. 35, með leyfi forseta:

„Á þessum tíma voru því þegar til staðar allar forsendur fyrir fjármálakreppu. […] Ástandið róaðist þó um mitt ár 2006. Þá hélt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hins vegar áfram að aukast og nú hraðar en fyrr. Þróunin var öll á þann veg að auka til muna líkurnar á alvarlegri fjármálakreppu.“

Efnahagsstefna íslenskra stjórnvalda á undanförnum áratug miðaði að því að skapa hámarkshagvöxt, ekki síst með fjárfestingum í stóriðju. Stjórnvöld brugðust ekki við hagsveiflum, ofþenslu eða vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu með mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum eða aðhaldssamri peningastefnu. Þvert á móti kynti ríkisstjórnin undir ójafnvæginu með því að beita sér fyrir skattalækkunum, mestu stóriðjuframkvæmdum Íslandssögunnar og breytingum á húsnæðismarkaði sem keyrðu upp húsnæðisverð, allt á sama tíma og hagkerfið var þegar á yfirsnúningi vegna þenslu. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum sem gerð voru í aðdraganda falls bankanna. Þessar ákvarðanir ásamt fleirum ýktu ójafnvægið í hagkerfinu og áttu þátt í að knýja fram harkalega lendingu íslensks efnahagslífs.

Þetta gerði ríkisstjórn þess tíma þvert á ráðleggingar innlendra og erlendra sérfræðinga og jafnvel gegn betri vitund eins og Geir H. Haarde viðurkennir í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Stefna eða öllu heldur aðgerðir Seðlabankans voru þversagnakenndar og aðgerðir of takmarkaðar til að skila árangri í baráttu við aukna skuldsetningu og undirliggjandi verðbólgu. Aðgerðirnar voru þversagnakenndar því að á sama tíma og Seðlabankinn reyndi að sporna við innlendri eftirspurn með vaxtahækkunum jókst verulega lausafjárfyrirgreiðsla bankans við bankana sem gróf auðvitað með beinum hætti undan því að vaxtahækkanir bankans hefðu tilætluð áhrif. Frá hausti 2005 til hruns 2008 hækkaði staða lána gegn veði hjá Seðlabankanum úr 30 milljörðum í rúmlega 500 milljarða.

Ég vakti athygli á því í ræðu minni við fyrri umræðu þessa máls að í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, nánar tiltekið í lok mars 2006, hafi legið fyrir upplýsingar meðal forustumanna þeirra flokka og stjórnenda Seðlabanka Íslands sem bentu til þess að fjármálakerfið hvíldi á svo veikburða stoðum að það gæti fallið hvenær sem er. Þessar upplýsingar urðu hins vegar ekki tilefni neinna markvissra viðbúnaðaráætlana eða aðgerða og þegar dráttur varð á því að fjármálakerfið yrði fyrir áfalli virðist málið hafa sofnað í stjórnkerfinu. Það var auðvitað stórkostlega ámælisvert eftir á að hyggja því að það er á þessum tíma sem rannsóknarnefndin ályktar að enn hefði verið tóm til að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisins. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar árið 2002 þurfa hins vegar ekki að óttast landsdóm því að lögin um ráðherraábyrgð fela í sér að embættisbrot ráðherra fyrnast á þremur árum. Hér er um að ræða séríslenska silkihanskameðferð á ráðherrum, í Danmörku er miðað við sama fyrningarfrest og í almennum hegningarlögum og að lágmarki fimm ár og í Noregi er fyrningarfresturinn 15 ár. Með öðrum orðum, ef við byggjum við sömu lög um ráðherraábyrgð og í Noregi væri hægt að draga þá ráðherra til ábyrgðar sem öll rök hníga til að hafi borið mesta ábyrgð á þeim hagstjórnarmistökum og vanrækslu sem ásamt glæpsamlegu athæfi bankastjórnenda leiddi til bankahrunsins en vegna misráðinna breytinga á lögum um ráðherraábyrgð árið 1963 verðum við að láta okkur nægja að fjalla um ábyrgð ráðherra sem komu til skjalanna eftir að fjármálakerfið var í reynd dauðadæmt að mati rannsóknarnefndar þingsins.

Virðulegi forseti. Það er mín ályktun af skýrslu rannsóknarnefndarinnar að meginábyrgðin á mistökum stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins liggi hjá þeim ráðherrum sem báru ábyrgð á einkavæðingu bankanna, ítrekuðum hagstjórnarmistökum á ofþenslutímum í kringum miðjan síðasta áratug og afskiptaleysisstefnu gagnvart stjórnlausum vexti bankakerfisins sem náði hámarki árið 2006. Hitt er jafnframt ljóst að ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haardes árin 2007 og 2008 báru mikla pólitíska ábyrgð, þeir höfðu a.m.k. á árinu 2008 aðgang að upplýsingum sem hefðu átt að leiða til þess að unnið væri að og hrint í framkvæmd markvissri viðbúnaðaráætlun þar sem leitað yrði allra leiða til að lágmarka tjónið fyrir almenning af yfirvofandi fjármálaáfalli. Það var ekki gert og ríkisstjórnin brást þar í varðstöðu sinni fyrir almenning. Það er mín skoðun að frammistaða ríkisstjórnarinnar árið 2008 hafi verið með þeim hætti að eðlilegt hefði verið að ráðherrar hennar, sérstaklega á þeim málasviðum sem helst tengdust hruninu, hefðu axlað pólitíska ábyrgð í kjölfar hrunsins og vikið úr embættum. Ríkisstjórnin fór að vísu frá í janúar 2009, en það gerðist vonum seinna og ekki fyrr en hún var í reynd trausti rúin meðal þjóðarinnar. Allir þeir ráðherrar sem hér er lagt til að verði ákærðir fyrir landsdómi hafa vikið úr embætti og flestir hætt afskiptum af stjórnmálum. Frá sjónarhóli pólitískrar ábyrgðar eru það eðlilegar málalyktir í ljósi þeirra hamfara sem urðu á vakt viðkomandi ráðherra.

Ráðherraábyrgð er tvenns konar, annars vegar pólitísk ábyrgð sem leiðir af þingræðisreglunni og felur í sér að meiri hluti þings geti knúið fram afsögn ráðherra og hins vegar lagaleg ábyrgð sem byggir á 14. gr. stjórnarskrárinnar og er útfærð í lögunum um ráðherraábyrgð.

Að mínu mati er pólitísk ábyrgð þeirra ráðherra sem um ræðir ótvíræð eins og ég hef vikið að en verkefni okkar hér í dag er að taka afstöðu til þess hvort lög hafi verið brotin, lög um ráðherraábyrgð frá 1963 og til vara almenn hegningarlög um stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi opinberra starfsmanna í starfi.

Virðulegi forseti. Víkjum þá að ákæruatriðunum sem hér eru til umfjöllunar. Það fyrsta sem vekur athygli þegar ákæruatriðin eru skoðuð er að þau eru í öllum meginatriðum hin sömu fyrir alla fjóra ráðherrana. Það er nær enginn greinarmunur gerður á því hvaða embætti ráðherrarnir gegndu í ríkisstjórninni. Þarna virðast flutningsmenn líta fram hjá eðli og uppbyggingu Stjórnarráðs Íslands sem til allrar óhamingju er ekki fjölskipað stjórnvald þar sem ráðherrar deila ábyrgð á stjórnarathöfnum heldur er hver ráðherra í reynd sjálfstætt stjórnvald og ábyrgur fyrir stjórnarathöfnum á sínu málefnasviði. Frumkvæðisskylda fagráðherra er því skýr samkvæmt lögum og reglum um Stjórnarráðið og lögunum um ráðherraábyrgð. Af þessu leiðir að það fær illa staðist að fjórir mismunandi ráðherrar séu ákærðir fyrir embættisbrot sem eðli máls samkvæmt er fyrst og fremst á verksviði eins þeirra. En það er þó það sem við okkur blasir í ákærutillögunum.

Virðulegi forseti. Ég tel í ljósi þess sem ég hef hér áður nefnt um ábyrgð fagráðherra á sínu málasviði að sakargiftir á hendur utanríkisráðherra fái ekki staðist. Vísað er til brota á starfsskyldum hennar sem utanríkisráðherra og reyndar oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn án þess að vísað sé í nokkurt embættisbrot hennar sem utanríkisráðherra og jafnframt án þess að fyrir liggi nein skilgreining í lögum á starfsskyldum oddvita ríkisstjórnarflokka. Ljóst er að utanríkisráðherra bjó yfir tilteknum upplýsingum um stöðu fjármálakerfisins í krafti setu á fundum fyrri hluta árs 2008, einkum með yfirstjórn Seðlabankans. Það var hins vegar ekki svo að hún sæti ein að þessum upplýsingum og þau málefni sem þar voru rædd voru ekki á hennar málefnasviði. Þáverandi utanríkisráðherra hafði því ekki vald samkvæmt lögum til að grípa til aðgerða í krafti þeirra upplýsinga sem þar komu fram. Ljóst er að ekkert þeirra ákæruatriða sem beint er gegn þáverandi utanríkisráðherra er á málasviði þess ráðherra og því fráleitt að mínu viti að sækja viðkomandi ráðherra til saka fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð á grundvelli þeirra.

Á sama hátt tel ég að sakargiftir á hendur fjármálaráðherra séu á heildina litið reistar á veikum grunni. Það má að sönnu halda því fram að þáverandi fjármálaráðherra hefði átt að láta fara fram heildstæða greiningu og mat á því fjárhagslega tjóni sem fjármálaáfall hefði fyrir ríkið. Slíkt mat hefði hins vegar ekki afstýrt hruninu eða lágmarkað tjón af völdum þess í sjálfu sér. Aðrar sakargiftir á hendur fjármálaráðherra, svo sem flutningur Icesave í dótturfélag og aðgerðir til að minnka efnahagsreikning bankanna, falla hins vegar utan verksviðs fjármálaráðherra. Ég dreg ekki fjöður yfir það að ég tel að þáverandi fjármálaráðherra hafi verið mislagðar hendur við stjórn ríkisfjármála á þessum tíma og í samskiptum við erlenda starfsbræður sína á haustdögum 2008 en ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir minn hatt að ég tel ekki að sakarefnin á hendur honum muni duga til sakfellingar.

Hvað varðar þáverandi viðskiptaráðherra er ljóst að hann bar stjórnsýslulega ábyrgð á eftirliti með framkvæmd laga um viðskiptabankana og það stóð honum því næst innan ríkisstjórnarinnar sem ráðherra bankamála að vinna að flutningi Icesave-reikninganna í dótturfélag og að minnka efnahagsreikning bankanna. Þáverandi viðskiptaráðherra hefur hins vegar þær málsbætur að unnið var að báðum þessum verkefnum á árinu 2008 þótt ekki tækist að ljúka þeim í tæka tíð með viðunandi árangri. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að það var hlutverk Seðlabanka Íslands að huga að fjármálalegum stöðugleika og Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með starfsemi viðskiptabankanna. Báðar þessar stofnanir nutu sjálfstæðis að lögum gagnvart íhlutunum ráðherra. Þá er nauðsynlegt að árétta að þáverandi viðskiptaráðherra beitti sér sérstaklega fyrir því að kaup Kaupþings á NIBC-bankanum hollenska gengju til baka en það hefði efalítið sett þann banka á hliðina fyrr en raun varð á. Þá er rétt að hafa í huga að ráðuneytið hafði ekki sömu tæki og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið til að knýja bankana til aðgerða. Þessu til staðfestingar má nefna að í yfirlýsingu sem þrír ráðherrar undirrituðu við norrænu seðlabankana 15. maí 2008 er kveðið á um að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið muni beita bankana þrýstingi til að minnka efnahagsreikninga sína. Margoft hefur komið fram að viðskiptaráðherra var ítrekað haldið utan við mikilvæga fundi ráðherra og forsvarsmanna Seðlabanka Íslands þar sem málefni fjármálakerfisins voru til umfjöllunar. Ég játa það að ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum á því stóð að viðskiptaráðherra var ekki boðaður á þessa fundi sem þó tengdust málefnum bankanna sannarlega og um þetta atriði er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis skýr eins og segir í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra bar sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar að upplýsa viðskiptaráðherra um framangreinda fundi þannig að hann gæti rækt starfsskyldur sínar.“

Ég vil taka það fram að auðvitað upphefur það ekki frumkvæðisskyldu viðskiptaráðherra að hafa ekki setið tiltekna fundi og hann fékk sannanlega ýmsar upplýsingar í sínar hendur sem fram komu á umræddum fundum, en það er líka ljóst að tilteknum mikilvægum upplýsingum var ekki miðlað til viðskiptaráðherra. Þáverandi viðskiptaráðherra var t.d. ekki kunnugt um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008 sem send var Seðlabanka Íslands og hafði að geyma tillögur til bankans um hvernig Seðlabankinn gæti knúið á um að viðskiptabankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn. Viðskiptaráðherra var heldur ekki upplýstur um erindi Mervyns Kings, seðlabankastjóra Bretlands, sem hann sendi Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2008 þar sem fram kom það álit að eina raunhæfa lausnin á vanda íslenska fjármálakerfisins væri að minnka efnahagsreikning bankanna. Seðlabankastjóri Bretlands bauð þar fram alla sína aðstoð við að tryggja stuðning síns banka og annarra seðlabanka á alþjóðafjármálamarkaðnum við að setja saman áætlun í þessa veru. Þessu erindi var ekki sinnt í Seðlabankanum og upplýsingar um þetta boð bárust aldrei í viðskiptaráðuneytið og þar var kannski síðasta tækifærið til að lágmarka tjónið svo um munaði. Var tíminn nægur til að bregðast við? Um það getum við ekki fullyrt nú en það voru a.m.k. mikil mistök að þiggja ekki aðstoð seðlabankastjóra Bretlands á þessum örlagaríku tímum og óafsakanlegt að seðlabankastjóri skyldi ekki bera þetta boð inn á borð þeirra ráðherra sem um málið áttu að fjalla.

Virðulegi forseti. Að lokum eru það ákæruatriðin á hendur forsætisráðherra. Þar er m.a. kveðið á um að þáverandi forsætisráðherra hafi sýnt af sér alvarlegu vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslensku fjármálakerfi og ríkissjóði með því að hafa ekki gripið til stjórnvaldsaðgerða til að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Óumdeilt er að mínu viti að það er á verksviði forsætisráðherra sem leiðtoga ríkisstjórnarinnar að tryggja að í svo afdrifaríku máli sé nauðsynlegur viðbúnaður af hálfu stjórnvalda til að reyna að lágmarka tjón af völdum fyrirsjáanlegrar hættu. Forsætisráðherra bjó yfir öllum upplýsingum sem nauðsynlegar voru til að grípa til aðgerða, ráðuneytisstjóri hans stýrði samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað sem stofnaður var árið 2006. Það var réttur vettvangur til að láta vinna faglega og samræmda viðbúnaðaráætlun stjórnvalda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Þar voru fulltrúar forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta auk Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Þessi samráðshópur hafði hins vegar mjög óskilgreint hlutverk og eftirfylgni með störfum hans var klárlega ófullnægjandi, sérstaklega af hálfu forsætisráðherra og reyndar einnig annarra þeirra ráðherra sem áttu fulltrúa í hópnum.

Ég tel sömuleiðis að þáverandi forsætisráðherra geti ekki með sannfærandi hætti vísað ábyrgð á öðrum ákæruatriðum á hendur öðrum ráðherrum. Hann bar ábyrgð á málefnum Seðlabanka Íslands sem hafði það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika í landinu og í ljósi mikilvægis þess fyrir þjóðarbúið að reyna að koma Icesave-reikningum Landsbankans yfir í dótturfélög hefði forsætisráðherra átt að setja það mál í sérstakan forgang innan ríkisstjórnarinnar.

Það er sömuleiðis ótvírætt að það var á verksviði forsætisráðherra samkvæmt stjórnarskránni að halda ríkisstjórnarfundi um þá váboða sem steðjuðu að íslensku fjármálakerfi árin 2007 og 2008.

Málsbætur forsætisráðherra eru hins vegar þær að unnið var að öllum þessum verkefnum á árinu 2008, bankakerfið minnkaði á því ári þótt það dygði hvergi nærri til, unnið var að flutningi Icesave í dótturfélag en það tókst ekki í tíma, árangurinn lét á sér standa og þetta var of lítið og of seint. Það er áberandi að hvergi í ákæruskjölunum er bent á tilteknar aðgerðir sem stjórnvöld hefðu getað gripið til sem hefðu afstýrt þeirri hættu sem steðjaði að fjármálakerfinu umfram þær aðgerðir sem þegar voru í gangi í stjórnkerfinu. Það er veigamikið atriði því að lagt er til að forsætisráðherra, eins og hinir ráðherrarnir þrír reyndar, verði ákærður á grundvelli b-liðar 10. gr. í ráðherraábyrgðarlögunum þar sem segir að hann skuli sekur fundinn ef hann stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu og lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það er afstýrt gat slíkri hættu. Þetta ákvæði er hins vegar óneitanlega nokkuð matskennt eins og reyndar er viðurkennt í greinargerð með frumvarpinu um ráðherraábyrgð árið 1963.

Það er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að eftir 2006 hafi verið orðið of seint að afstýra fjármálahruni. En Geir H. Haarde, sem tók við embætti forsætisráðherra á vormánuðum 2006, hafði verið fjármálaráðherra allar götur frá árinu 1995 og hann átti því að hafa allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að setja í gang og stýra markvissum viðbúnaði af hálfu stjórnvalda í þá veru að draga úr hættu á alvarlegu fjármálaáfalli. Það er mér hrein ráðgáta hvers vegna það var ekki gert. Var það af hugmyndafræðilegum ástæðum, var það markviss stefna Sjálfstæðisflokksins að láta fjármálakerfið afskiptalaust eða var þarna einfaldlega um hirðuleysi að ræða? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað með sannfærandi hætti en afleiðingarnar tala sínu máli.

Virðulegi forseti. Það brást allt stjórnkerfi landsins í aðdraganda bankahrunsins. Stjórnvöld sinntu ekki viðvörunarbjöllum sem tóku að hringja þegar á árinu 2006, alvarleg hagstjórnarmistök um miðjan síðasta áratug kyntu undir ofþenslu og ójafnvægi sem skapaði jarðveg fyrir harkalega lendingu hagkerfisins með tilheyrandi skaða fyrir almenning í landinu. Sjónarhorn stjórnvalda var líka rangt, allt kapp var lagt á að verja bankana þegar skylda ráðamanna var sú að verja almenning fyrir því tjóni sem fyrirsjáanlegt fjármálaáfall gæti valdið.

Þeir ráðherrar sem mesta ábyrgð báru á efnahagsmálum, bankamálum og ríkisfjármálum í tíð umræddrar ríkisstjórnar hafa allir goldið fyrir mistök sín með embættismissi. Það bíður okkar í dag að taka ákvörðun um það hvort þeir skuli einnig sæta ákæru til refsingar fyrir að hafa ekki afstýrt hættu sem eins og fram hefur komið er niðurstaða rannsóknarnefndar að hafi verið orðið of seint að afstýra þegar umræddir ráðherrar tóku við embætti.

Höfum þó í huga að aðstaða þeirra var ekki sú sama, sumir höfðu meiri völd en aðrir, meiri aðgang að upplýsingum, ríkari skyldur að lögum til að taka frumkvæði og grípa til aðgerða. Í einstökum tilvikum hníga sterk rök að því að ákæra eigi tiltekna ráðherra en allir eiga þeir sér málsbætur. Sakarefnin eru matskennd, þau vísa öll til athafnaleysis þar sem ekki er sýnt fram á að tilteknar athafnir hefðu afstýrt hættu eða lágmarkað tjón.

Þegar upp er staðið þurfum við að spyrja okkur: Teljum við meiri líkur en minni á að umræddir ráðherrar, einn eða fleiri, verði sakfelldir á grundvelli þessara ákæruatriða?

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir er afar vandasöm og hún getur sannarlega orðið afdrifarík. Ég hef gagnrýnt hér í ræðustól Alþingis lögin um landsdóm og tel þá leið að láta stjórnmálamenn taka ákvörðun um hvort höfða skuli mál á hendur ráðherrum vera gamaldags, úrelta aðferð til að ná fram réttlæti í okkar samfélagi. Það er mín niðurstaða að það séu betri kostir í boði, að við eigum að láta óháða sérfræðinga um rannsóknir í slíkum málum og sækja þau fyrir venjulegum dómstólum.

Ég tel að fleiri muni verða sama sinnis að lokinni atkvæðagreiðslu hér í dag og ég skora á þingheim að taka til endurskoðunar strax í vetur lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð. En það er framtíðin. Veruleiki okkar hér í dag er sá að við búum við þessi lög og við verðum að nota þau hér í dag. Ég vona að niðurstaðan verði okkur til gæfu, ég vona að dagurinn í dag færi okkur fram á veginn en ekki síður að við berum gæfu til að taka höndum saman í framhaldinu um að skapa heilbrigðari stjórnmálamenningu í þessu landi.



[13:29]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir vel flutta, vel samda og vel hugsaða ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar. Ég saknaði eins í henni og það var niðurstaða ræðunnar sem mér fannst eðlilegt að kæmi fram við seinni umræðu málsins eða a.m.k. einhver áfangi að niðurstöðu sem kom ekki fram. Ég er ekki að gera kröfu um að það sé svo.

Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn tveggja spurninga. Fyrri spurningin er í raun og veru sú sem hann nánast spurði sjálfur í upphafi ræðu sinnar. Hann sagði að þetta væri samviskuspurning fyrir hvern og einn þingmann sem hér stæði í dag að stilla sér upp frammi fyrir þessum fjórum vegna þess að í þá fyrndu næðist ekki. Segjum svo að þingmaðurinn telji að sakarefnin séu bæði nægileg og líkleg gagnvart þeim sem um ræðir eða a.m.k. einum þeirra, finnst honum að við þá stöðu að aðrir sleppi sem meiri ábyrgð báru, eða það teljum við, að samviskuspurning hans geti leitt til þess að hann eigi sem alþingismaður og fulltrúi þjóðarinnar að falla frá því að styðja málshöfðun á hendur einum eða fleirum og kveða þar með upp sýknudóm yfir þeim í þessum drætti?



[13:31]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu hans sem er margslungin. Svarið við henni er ekki einfalt en ég tel þó að í ræðu minni, þar sem ég fór yfir ákæruatriðin á hendur einstökum ráðherrum, hafi svar mitt falist og sú niðurstaða mín að ég tel að á endanum þurfum við þingmenn í þessum sal að taka afstöðu til þeirra ákæruatriða sem fram eru borin og það sé verkefni okkar númer eitt.

Það sem ég nefndi varðandi samviskuspurninguna og réttlætisspurninguna, og ég játa að mér er misboðið að við stöndum í þeim sporum út af fyrningarákvæði ráðherraábyrgðarlaganna að geta í raun og veru ekki haft alla þá undir sem ég tel að hafi borið mesta ábyrgð á bankahruninu, tel ég engu að síður skyldu okkar að taka afstöðu til ákæruatriðanna eins og þau koma fyrir og láta þau ráða niðurstöðu okkar.



[13:32]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta svar og vil um það segja að það er nákvæmlega sami skilningur og ég hef á þessari stöðu. Ljúft væri hitt að geta með einhvers konar samviskuúrskurði sagt: Ja, þessir eru meiri kónar og þessir eru verri glæponar — fyrirgefið orðbragðið, þetta er til dæmis en ekki upp kveðinn dómur um þetta fólk, ekkert af því, — og þess vegna eiga þeir að sleppa sem við höfum þó náð í. Það er ekki þannig í venjulegu réttarfari og getur ekki heldur verið þannig hjá okkur.

Þá kemur eiginlega hin spurningin og hún er þessi: Lýsing hv. þingmanns á störfum forsætisráðherra einkum — og ég tel að það sé kannski hann sem við eigum fyrst og fremst að ræða því að þeir aðrir sem eru undir koma í raun og veru allir á eftir skipstjóranum, ábyrgð þeirra hlýtur að ráðast sem fall af ábyrgð skipstjórans að nokkru leyti — var satt að segja áhrifamikil lýsing og ég vil spyrja þingmanninn hvort hann geti skilið ákvæði laganna um alvarlega vanrækt og stórkostlegt gáleysi á einhvern annan hátt en þann sem hann lýsti í störfum fyrrverandi forsætisráðherra. Hvað er alvarleg vanrækt og stórkostlegt gáleysi ef ekki þetta?



[13:34]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem ég tel að við þurfum að taka til skoðunar þegar við reynum að komast að niðurstöðu í þessu erfiða máli. Í fyrsta lagi er það mat á þessum ákæruatriðum og hversu vel okkur finnst þau standast skoðun. Ég gerði tilraun í ræðu minni til að fara í gegnum það áðan og mér finnst það vera afar mismunandi eftir því hvaða ráðherra á í hlut.

Í annan stað tel ég mikilvægt til að sanngirni sé gætt og það sé mikilvægt leiðarljós í því vandasama hlutverki sem við erum í að skoða hvort viðkomandi einstaklingar eigi sér málsbætur, hvort þeir t.d. hafi gripið til einhverra aðgerða sem ætla mætti að hefðu skipt máli varðandi það að lágmarka tjónið fyrir þjóðina.

Í þriðja lagi: Hver var aðgangur þeirra annars vegar að upplýsingum og hvaða tæki höfðu þeir til að grípa til aðgerða? Ég held að í sjálfu sér geti ég svarað því að þau ákæruatriði sem hv. þm. Mörður Árnason spyr um gefa í sjálfu sér tilefni til að fallast á þá niðurstöðu flutningsmanna að um alvarlega vanrækslu hafi verið að ræða. En það er ekki endanlegt svar við spurningunni. Við þurfum líka að taka til skoðunar bæði niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar um að meginábyrgðin liggi fyrr í tíma, að örlög fjármálakerfisins hafi í reynd verið ráðin þegar þessi ríkisstjórn tekur við, og því til viðbótar að meta hversu þungt við vegum þær málsbætur sem viðkomandi aðilar hafa hver í sínu lagi.



[13:36]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Skúla Helgasyni fyrir ágætlega málefnalega ræðu þar sem kom skýrt fram það sem ég hef sagt að hver og einn þingmaður verði að vega og meta við sína samvisku og sannfæringu og telja þannig hvað vegi þyngra, hægra megin eða vinstra megin, og hvað sé léttara á vogarskálunum.

Mig langar að bregðast við tveimur eða þremur atriðum í ræðu þingmannsins. Hann talaði um að á árunum fyrir 2006, sérstaklega árunum 2002, 2003 og 2004 hefði verið veruleg þensla og talaði um nokkur hagstjórnarmistök sem voru gerð og talin eru upp í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þær opinberu framkvæmdir sem ríki og borg stóðu fyrir, m.a. við tónlistarhúsið Hörpu og viðbyggingu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hafi ekki verið verulega þensluhvetjandi á suðvesturhorninu þar sem þenslan var langmest. Hún var miklu minni annars staðar.

Þá kom þingmaðurinn nokkrum sinnum inn á og vísaði stundum svolítið óljóst til skýrslu rannsóknarnefndarinnar um hver bæri meginábyrgð og hverjar væru meginniðurstöður um hvað hefði gerst á árinu 2006 og hvenær ekki hefði verið aftur snúið. Hann vísað rétt til rannsóknarskýrslunnar fyrst í ræðu sinni en í tvígang seinna í ræðunni fór hann óljóst með, eins og því miður margir þingmenn hafa gert í salnum. Þeir hafa haldið því fram að frá miðju ári 2006 hefði alls ekki verið aftur snúið, hér yrði fullkomið fjármálahrun með öllum þeim afleiðingum sem því fylgdu. Það er rangt. Í rannsóknarskýrslunni stendur m.a. að á miðju ári 2007, þegar stærð bankanna var orðin sjöföld landsframleiðsla, þá hefði í síðasta lagi verið hægt að snúa við og gera eitthvað af viti, þ.e. í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mér finnst það skjóta skökku við.

Ég verð að bæta (Forseti hringir.) þriðja atriðinu við á eftir en mig langar að heyra viðbrögð þingmannsins við þessu tvennu.



[13:38]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessar fyrirspurnir. Ég tel í sjálfu sér að það sé ekkert svar við gagnrýni minni á hagstjórnarmistök áranna 2002–2006 að benda á að aðrar ríkisstjórnir hafi sömuleiðis hvatt til þenslu. Ég geri engan greinarmun á því. Það er ábyrgðarhluti að ýta undir þensluhvetjandi aðgerðir þegar hagkerfið er í yfirsnúningi, alveg sama hverjir eiga í hlut og alveg sama á hvaða tímum það er.

Svo get ég verið sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að menn fari rétt með ívitnanir í heimildir. Ég las beint upp úr skýrslunni varðandi þessi skil sem rannsóknarnefndin telur að hafi orðið á árinu 2006. Þar er því haldið fram í meginniðurstöðum skýrslunnar að þá hafi í reynd verið síðasta tækifærið til að afstýra hruni en það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt var hægt að gera eftir það til að lágmarka eða draga úr því tjóni sem almennings beið, ef svo má segja, af þeim fjármálaáföllum sem voru yfirvofandi. Auðvitað vissi enginn beinlínis að allt fjármálakerfið mundi hrynja á haustmánuðum 2008 en það átti að vera morgunljóst að hér voru það alvarlegir hlutir á ferðinni að það kallaði á miklu kröftugri viðbrögð en við sáum á þeim tíma.



[13:40]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með þær aðgerðir sem menn hefðu átt að grípa til frá miðju ári 2007 og jafnvel á árinu 2008, og þá hvort engar aðgerðir hefðu verið færar og hvort enginn hefði bent á neinar leiðir. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram, reyndar afar lítið tilvitnað, hin svokallaða RÖn-leið, þ.e. leið Ragnars Önundarsonar. Hann skrifaði reyndar fjölmargar greinar í blöð þannig að hverjum og einum landsmanni sem les íslensku hefði getað orðið ljóst að það voru einhverjir sem bentu á aðrar leiðir. Þetta var til að mynda á miðju ári 2008, reyndar fyrst í apríl og síðan aftur seinna um sumarið, þar sem hann benti á ákveðnar leiðir til að takmarka tjón. Enginn virðist hafa tekið það sérstaklega til sín.

Á árinu 2007, svo vitnað sé til rannsóknarskýrslunnar þar sem sagt er að grípa hefði þurft til ýmissa aðgerða til að takmarka stærð hagkerfisins og bankakerfisins, er mynduð samstarfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem ætlar sér að stuðla að því að bankarnir geti haldið áfram að vaxa. Þá spyr maður sig hreinlega, í ljósi þess sem við höfum fjallað um síðustu daga, hvort ekki hefði skort verulega á mat og greiningu áður en menn tóku slíkar ákvarðanir í fyrsta lagi og hvort ekki hefði verið rétt að hafa puttana á púlsinum ef einhver hefði hlustað eftir einhverjum þeim hættumerkjum sem margir bentu á og hefði þá stöðugt endurmat verið á því hvort ekki þyrfti að skipta um stefnu. Eitt er að taka ranga stefnu en annað er að viðhalda henni þangað til allt er hrunið. Þá komum við kannski að því sem við hv. þingmaður erum ósammála um, þ.e. matið á aðgerðum ríkisstjórnar og ráðherra á þessum tíma, þar sem ég tel að hefði átt að grípa til einhverra aðgerða en mér finnst hv. þingmaður telja að það hefði verið ómögulegt og enginn mannlegur máttur hefði getað gert neitt.



[13:42]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir fyrirspurnir hans, þær eru mikilvægar. Hann spyr í fyrsta lagi hvort ég sé þeirrar skoðunar að ekki hafi verið hægt að grípa til neinna aðgerða og svarið við þeirri spurningu er nei. Ég rakti það reyndar í ræðu minni í umræðu um málsbætur einstakra ráðherra að gripið hefði verið til ákveðinna aðgerða á þessum tíma, aðgerða til að stækka gjaldeyrisvaraforðann. Þeir sem sátu á þinginu á þessum tíma muna eftir að Alþingi veitti heimild til Seðlabanka Íslands um að gera það. Sú heimild var ekki nýtt sem skyldi og það var afdrifaríkt. Farið var í aðgerðir til að minnka efnahagsreikning bankanna. Þeir minnkuðu eilítið á árinu 2008 en fjarri því nægilega mikið. Það var farið í að gera breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð að ráði erlendra sérfræðinga og þær tillögur lágu fyrir haustið 2008 o.s.frv. Þetta var engan veginn nægilegt en þetta voru þær aðgerðir sem gripið var til og ég gagnrýndi það í ræðu minni að mér fyndist þingmannanefndin ekki benda á neinar aðrar aðgerðir sem hefðu dugað til að afstýra hættunni eða eigum við að segja lágmarka tjón þessa fjármálaáfalls fyrir ríkið.

Hv. þingmaður nefndi sömuleiðis stefnu sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 sem eftir á að hyggja hljómar eins og lélegur brandari. Ég er honum sammála um að þessi stefna hefði þurft að koma til endurskoðunar þegar menn fengu skýrar upplýsingar í byrjun árs 2008 um að bankarnir væru hreinlega á brauðfótum en ég fullvissa þingmanninn um að a.m.k. í mínum flokki lágu ekki fyrir neinar heimildir, (Forseti hringir.) neitt mat eða greining á því að fjármálakerfið væri eins illa statt og raun bar vitni þegar ríkisstjórnin var mynduð.



[13:45]
Forseti (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir):

Forseti vill minna þingmenn á að ávarpa forseta í upphafi máls síns.



[13:45]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Þetta er í þriðja skipti sem ég flyt hér ræðu um þetta eða líkt mál. Ég flutti ræðu þegar skýrslan var til umræðu, ég flutti ræðu í fyrri umferð og nú flyt ég þriðju ræðuna. Umræðan hefur í mínum eyrum þróast svolítið á þann veg, sem ég tel miður, að hv. þingmenn eru búnir að tala sig upp í einhvers konar dómarasæti í þessum málum og telja sig vera að fara í atkvæðagreiðsluna í dag til að dæma ákveðna ráðherra, sekt eða sakleysi þeirra. Þetta er náttúrlega rangt, þingmenn eru ekki í dómarasæti í dag, þingmenn eru að ákveða hvort ábyrgð stjórnmálamanna á hruninu verði vísað eðlilega leið til dómstóla sem ákveða sekt eða sakleysi viðkomandi ráðherra. Það verða menn að hafa í huga þegar þeir hugsa þetta mál.

Fram undan er atkvæðagreiðsla um hvort nokkrir íslenskir stjórnmálamenn séu ábyrgir gerða sinna eða aðgerðaleysis í aðdraganda hrunsins í október 2008. Þingmannanefndin undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar hefur skilað af sér tillögum um að útkljáð skuli um ábyrgð fjögurra ráðherra fyrir landsdómi. Það verður ekki útkljáð um ábyrgð þessara ráðherra hér í þingsal, það verður útkljáð um ábyrgð þessara fjögurra ráðherra fyrir landsdómi. Það er hinn eðlilegi farvegur.

Tillögur þingmannanefndarinnar eru mjög ítarlegar og vel rökstuddar. Eftir mikla umræðu og gagnrýni, bæði í þingsal og utan þinghússins, hefur enn ekki komið fram sannfærandi gagnrýni sem gerir þingmönnum kleift að hafna tillögunum á efnislegum grunni.

Þingmenn sem andsnúnir eru þessum tillögum hafa byggt málflutning sinn á persónulegum skoðunum eða á því að málið snúist um eitthvað allt annað en það raunverulega gerir, svo sem um of gömul lög eða of fáa ráðherra sem eru undir. Þeir hafa byggt málflutning sinn á persónulegum tengslum við viðkomandi ráðherra eða á hinu gamalkunna flokksræði sem gegnsýrt hefur lýðræðið á Íslandi frá upphafi lýðveldisins og m.a. leitt til víðtæks samtryggingarkerfis stjórnmálaflokka um ákveðin mál, samtryggingarkerfis sem við munum að öllum líkindum sjá framhald á hér í dag.

Þetta sama flokksræði leiddi til þess að hér á landi varð til pólitísk yfirstétt sem gerði sjálfa sig óábyrga í gerðum sínum og sem birtist m.a. í slímusetum þingmanna vegna mála sem í öllum öðrum nágrannalöndum hefðu leitt til afsagnar þeirra. Þessi sama pólitíska yfirstétt setti sér að auki svo eigin lög um fyrningarfrest ráðherraábyrgðar sem gerir ráðherra stikkfrí frá ábyrgð á gjörðum sínum eftir aðeins þrjú ár. Hvaðan þessi hugmynd um þriggja ára fyrningarfrest kemur veit ég ekki en ekkert sýnir betur en það ákvæði að hér hefur verið við völd pólitísk yfirstétt sem hingað til hefur fundist sjálfsagt að vera stikkfrí þegar kemur að eigin ábyrgð. Það er því ekkert annað en hlálegt að hlusta á fyrrverandi ráðherra hrunstjórnarinnar og marga þá þingmenn sem studdu hana tala út og suður um þetta mál.

Virðulegur forseti. Ef gera á hrunið upp með sómasamlegum hætti ættu að mínu mati miklu fleiri ráðherrar, og fjölmargir þingmenn einnig, að svara til saka, auk þeirra fjögurra ráðherra sem tilgreindir eru í tillögum meiri hluta þingmannanefndarinnar. Löggjöf okkar býður hins vegar ekki upp á það og útskýringar þingmannanefndarinnar á því eru góðar og gildar. Ef hins vegar siðferði og ábyrgð væri eðlilegur hluti af því að vera ráðherra og þingmaður á Íslandi ættu þrír fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú eru þingmenn og þeir fimm fyrrverandi og/eða núverandi ráðherrar Samfylkingar sem nú eru þingmenn skilyrðislaust að víkja úr embætti og af þingi. En Ísland er ekki eins og önnur lönd — en við stöndum öðrum þjóðum ekki framar hvað þetta varðar.

Allir þingmenn stjórnarflokkanna sem studdu þá ríkisstjórn ættu að sjálfsögðu einnig að íhuga stöðu sína, ekki síst þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem voru á þingflokksfundunum tveimur í febrúar 2008 þar sem yfirvofandi bankahrun var kynnt. Þeir þingmenn, í stað þess að upplýsa kjósendur sína um yfirvofandi hættu, héldu því leyndu fyrir þeim og horfðu á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei mundu standast og mundu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örskotsstundu. Þarna liggur ábyrgð þingmanna og ráðherra, þeir lyftu ekki litla fingri til að vernda almenning í landinu fyrir hruninu. Það er ófyrirgefanlegt.

Með það eins og annað er staðan hins vegar sú að allir sem komu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis á sínum tíma, alls 147, sögðust enga ábyrgð bera og allir sem skiluðu inn svörum til þingmannanefndarinnar sögðust enga ábyrgð bera. Það er dapurleg staðreynd um algert ábyrgðarleysi í íslenskum stjórnmálum og í íslenskri stjórnsýslu.

Virðulegur forseti. Ef tillögur þingmannanefndarinnar verða ekki samþykktar hér í dag verður þetta algera ábyrgðarleysi stjórnmálamanna endanlega staðfest af Alþingi. Ég spyr: Munu hv. þingmenn virkilega standa fyrir því að algert ábyrgðarleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi ráðherra fái ekki viðeigandi lögskipaða meðferð og fari ekki fyrir viðeigandi dómstól? Það kemur í ljós í dag en ég vona svo sannarlega ekki.

Hvað Samfylkinguna varðar komu tíu nýir þingmenn inn á þing fyrir þann flokk í síðustu kosningum. Tvö þeirra, fulltrúarnir í þingmannanefndinni, hafa sýnt mikinn kjark í þessu máli en hin vil ég spyrja eftirfarandi: Komu þau inn á þing til að sópa hruninu undir teppið? Ef svo er: Hvað ætla þau að gera næst? Þeir hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja koma í veg fyrir þessa vel rökstuddu og eðlilegu málsmeðferð verða að hugsa mál sitt og hvort þeir eigi yfir höfuð að vera í þingsalnum í dag. Persónuleg tengsl þeirra við fyrrum ráðherra, samstarfsmenn til margra ára eða jafnvel áratuga, eða misskilningur á því um hvað málið snýst má ekki verða til þess að þeir reyni að stöðva þetta mál. Við þá, þessa hv. þingmenn Samfylkingarinnar, vil ég segja: Hér er um fyllilega eðlileg vanhæfisskilyrði að ræða og ykkur ber að vera heima í dag. Þótt vanhæfisskilyrðin séu ekki lagaleg verða menn að hafa í huga að þótt það þurfi lög til að byggja samfélög mannanna og tryggja ákveðna funksjón þeirra eru þessi sömu samfélög aldrei byggð á lögum eingöngu. Alls konar önnur ekki síður mikilvæg viðmið, t.d. siðferðileg, eru einnig notuð sem mælikvarðar og útskýringar á athöfnum mannanna. Það eru þau viðmið sem eiga einnig við hér í dag hvað varðar aðkomu þingmanna hrunstjórnarinnar að þessu máli. Þeir eru ekki hæfir til að hafna því.

Um Sjálfstæðisflokkinn þarf ekki að hafa mörg orð. Sú botnlausa leiðtogadýrkun sem alla tíð hefur verið aðal sjálfstæðismanna gerir þeim ókleift að taka faglega og siðferðilega afstöðu í þessu máli. Af 16 núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru 13 ýmist ráðherrar hrunstjórnarinnar eða þingmenn sem studdu hana, og það með ráðum og dáð. Afstaða þeirra allra til þessa máls er einfaldlega dæmi um forherðingu þeirra sem gripnir eru með góssið á leiðinni út úr búðinni þar sem þrætt er fyrir og lagst í afneitun fram í rauðan dauðann. Verði þeim að góðu, þetta þekkja þeir best. Alþingis vegna, kjósenda sinna vegna og ábyrgðar sinnar vegna (Gripið fram í: … bulli.) ættu sjálfstæðismenn að sjálfsögðu að sitja hjá eða sitja heima í dag.

Svo þurfa náttúrlega Vinstri grænir að svara því líka hvort og þá á hvaða forsendum þeir halda áfram þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ætla hv. þingmenn VG virkilega að sitja í ríkisstjórn hverrar hluti þingmannaliðs og jafnvel forsætisráðherrann sjálfur hafna því að gera upp hrunið? Vonandi hafa þeir það siðferðilega þrek sem þarf til að krefjast kosninga við slíkar aðstæður.

Og talandi um kosningar, frú forseti, það má færa góð og gild rök fyrir því að hvernig svo sem málin fara með ráðherraábyrgðina í dag eigi almenningur skýlausan rétt á nýjum kosningum. Þetta segi ég vegna þess að með tilliti til niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar hefur komið í ljós hvað var hér í gangi. Almenningur á núna þegar þessar upplýsingar liggja fyrir skýlausan rétt til að segja álit sitt á ríkjandi stjórnvöldum, á fyrrverandi ráðherrum og þeim þingmönnum sem studdu þá ríkisstjórn og á því stjórnarfari sem verið hefur við lýði undanfarin ár. Kosningar til Alþingis sem fyrst væru því hið eðlilega lýðræðislega framhald í íslenskum stjórnmálum þegar þessum degi lýkur. Þær upplýsingar sem nú liggja frammi og fyrir þjóðinni lágu ekki fyrir fyrir síðustu kosningar og því á að gera almenningi kleift að segja álit sitt nú þegar staðan er önnur.

Virðulegur forseti. Þingmenn koma saman í dag og eins og endranær eru þeir hér í umboði kjósenda sinna, umboði sem þeim ber að fara vel með og sem þeim var veitt fyrir aðeins um 17 mánuðum. Í því umboði og engra annarra munu þeir greiða atkvæði.

Alla þá hv. þingmenn sem einhverra hluta vegna telja sig þurfa að greiða atkvæði gegn því að stjórnmálamenn þurfi að axla ábyrgð og mæta með hugsanleg brot sín fyrir dómstól vil ég því spyrja: Komu þeir, hv. þingmenn, inn á þing vorið 2009 til að sópa hruninu undir teppi? Til þess að koma í veg fyrir að hrunið yrði gert upp, til að koma í veg fyrir uppgjör mesta efnahags-, stjórnmála- og siðferðishruns Íslandssögunnar? Það er einmitt það sem verið er að gera með því að stöðva þessar tillögur. Það er verið að afgreiða pólitíska ábyrgð á hruninu, af hálfu Alþingis Íslendinga, með því að sópa því undir teppi ef það verður gert. Ef hv. þingmenn stöðva þetta mál spyr ég: Hvað ætla þeir að gera að því loknu? Hvað svo? Hvað næst, hv. þingmenn? Á að reyna að setja Alþingi að nýju föstudaginn 1. október eins og ekkert hafi í skorist? Dettur einhverjum virkilega í hug að það sé hægt? Það er bara geggjuð tilhugsun að ætla að halda áfram á sömu braut. Hvað ætla menn að segja? Ha, já hrunið, jú, það, við erum búin að afgreiða það. Bara sísona. Guð hjálpi mér, nei.

Frú forseti. Ég hef engan sérstakan áhuga á að fyrrverandi ráðherrar eða þingmenn, væri það hægt, verði dæmdir til refsingar eða sektar. Hér varð hins vegar efnahagslegt, pólitískt og siðferðilegt hrun og frammi fyrri þeirri staðreynd stöndum við. Á því bera margir ábyrgð, mismunandi mikla ábyrgð og sumir meiri en aðrir. Hver sú ábyrgð nákvæmlega er og hverjir bera hana er hins vegar annarra en okkar að finna út og dæma. Einstaka þingmenn mega ekki ætla sér of mikið í þessu máli. Það er hins vegar okkar þingmanna að sjá til þess að eðlilegur farvegur fyrir slík mál sé til staðar og að sú löggjöf sem til er verði notuð. Sú vinna sem þingmannanefnd Alþingis hefur unnið er fordæmalaus, hún er vönduð og niðurstaða nefndarinnar er rétt og eðlileg. Þingmannanefndin og formaður hennar, hv. þm. Atli Gíslason, eiga miklar þakkir skildar fyrir starf sitt. Hér þurfa menn að vanda sig, vanda sig vel og taka efnislega afstöðu til málsins eða segja sig frá því ella — halda sig heima. Hér er nefnilega meira í húfi en nokkru sinni fyrr. Hér er framtíð Alþingis sjálfs í húfi og stjórnmála á Íslandi.

Frú forseti. Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að standa undir nafni sem æðsta stofnun lýðveldisins. Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að efla traust þjóðarinnar á sér að nýju. Þetta er stóra tækifærið sem kemur ekki aftur. En, frú forseti, þetta er jafnframt, ef illa fer, líklega einnig síðasta tækifærið.



[13:59]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er. Það sem gert var í gær kann að orka tvímælis í dag. Þannig er lífið, það gengur upp og niður, það eru skin og skúrir, og þannig er pólitíkin og mannlífið í þessu landi. Við getum endalaust togast á um ákveðna hluti, um lagasmíðar, skyldur og réttindi, en við skulum ekki gleyma því sem allt á að byggjast á, mannlega þættinum. Stjórnmál eru til vegna mannlega þáttarins, skiptra skoðana og misjafnrar reynslu og það er mergurinn málsins. Pólitík er hvunndagsbarátta sem dregur dám af aðstæðum hverju sinni. Það sem hæstv. ráðherra kann að þykja rétt í dag kann að breytast á morgun. Mig langar aðeins til að víkja að þessum þætti vegna þess að mér finnst hann skipta miklu máli þegar kemur að því að taka ákvörðun í viðkvæmum málum.

Það er illt þegar refsigleði ræður ríkjum, þegar alið er á tortryggni, þegar Gróa á Leiti verður höfuðpersónan, þegar efnt er til ófriðar í stað friðar. Íslenskt samfélag hefur löngum byggst á því að maður er manns gaman og þess vegna er það þeim mun meiri skylda að huga að öllum þáttum í mannlífinu þegar kemur að því að velja á milli refsigleðinnar og fyrirgefningarinnar. Það kann að skarast en það er úr vöndu að ráða.

Það er skelfilegt þegar þingmenn halda að þeir séu orðnir lögfræðingar þó að þeir blandi sér í nokkur atriði er varða lagasetningu, það er mikill munur þar á. Maðurinn á götunni stjórnar ekki hjartaaðgerð, það þarf að læra til þess og búa yfir reynslu til þess, og þingmenn geta ekki sett sig í dómarasæti í þessum efnum, síst af öllu yfir samferðamönnum sínum í stjórnmálum. Okkur getur greint á í umræðum, við getum skipst á skoðunum, við getum hnakkrifist og deilt og það er eðlilegt, hvort sem er í hæverskum viðskiptamannastíl eða lúkarstíl, en það er hluti af því að skiptast á skoðunum.

Það er líka skelfilegt að upplifa það eftir að hafa verið viðloðandi Alþingi í á þriðja áratug að þegar nýliðar koma inn á þing, sem eru alls góðs verðir og hið mætasta fólk, þá stilla þeir sér upp eins og þeir þekki allar leikreglur og verklagsreglur í stjórnmálunum og ekki síst í ríkisstjórn landsins. Það er ekki ofsagt að það taki nokkur ár að læra á þetta kerfi, hvort sem það varðar þingnefndir, ríkisstjórn eða aðra þætti. Þess vegna er hryggilegt þegar nýliðar — ég er ekki að gera lítið úr þeim en þeir búa engu að síður ekki yfir mikilli reynslu, þeir búa ekki yfir þekkingu á því hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni og stór hluti af stjórnkerfi okkar byggist á þeirri hefð. Við gagnrýnum það oft að stjórnkerfið sé laust í reipunum, það sé ekki samræmi í því en það er hefðin, það er hluti af íslensku samfélagi hvort sem við teljum það vera veikleika eða styrkleika. Við komumst ekkert hjá því. Þess vegna er þeim mun erfiðara að stilla sér upp þannig að menn sitji við sama borð.

Ákæra er mjög alvarleg af því að hún er krafa um refsingu. Hún er ekki krafa um sýknu, hún er krafa um refsingu.

Í ljóði Davíðs Stefánssonar Úr útsæ rísa Íslands fjöll segir, með leyfi forseta:

Úr útsæ rísa Íslands fjöll

með eld í hjarta, þakin mjöll

og brim við björg og sand.

Þó mái tíminn margra spor,

þá man og elskar kynslóð vor

sitt fagra föðurland, sitt föðurland.

Við tölum íslenskt tungumál

Við tignum guð og landsins sál

og fornan ættaróð.

Þeir gjalda best sinn gamla arf,

sem glaðir vinna þrotlaust starf

til vaxtar vorri þjóð, til vaxtar þjóð.

Á meðan sól að morgni rís

og máni silfrar jökulís

og drengskapur er dyggð

skal fólkið rækta föðurtún

og fáninn blakta efst við hún

um alla Íslands byggð, Íslands byggð.

Virðulegi forseti. Eigum við þingmenn og þeir þegnar landsins sem telja að eindregin umsókn Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu sé sakarverð — við erum mörg sem teljum að slík umsókn ógni sjálfstæði Íslands, ógni öryggi Íslands og valdi því, ef til kemur, að við yrðum að láta af stýringu á auðlindum okkar bæði til lands og sjávar — að kæra Samfylkinguna? Á það að vera opin leið? Auðvitað ekki. Þetta er pólitík og við getum deilt um hana án þess að þurfa að ganga til dómstóla. Við getum skipst á skoðunum, við getum barist fyrir sjónarmiðum okkar hver sem þau eru, lagt þau fyrir fólkið í landinu, lagt þau í dóm fólksins en við eigum aldrei að gerast dómarar yfir sessunautum okkar, aldrei. Það er óeðlilegt, það er óart, það er skelfileg óart og það eru skelfileg mistök hjá hæstv. Alþingi að setja þá nefnd sem við köllum þingmannanefnd í það hlutverk sem hún var sett í. Það verður bara að viðurkennast, það voru skelfileg mistök, því að þetta ágæta fólk var sett í aðstöðu sem ekki er hægt að leysa með neinum friði eða neinni sátt. Þá er betra heima setið en af stað farið, betra að taka ekki áhættu á því að slíta friðinn, rjúfa friðinn, sem við höfum státað af í þúsund ár vegna einnar ákvörðunar um kristni í landinu hvað svo sem hún nær langt.

Þegar komið er að því að það á að dæma menn fyrir að taka þátt í félagslífi, stjórnmálalífi, fyrir það að sinna pólitískum verkum með öllum þeim agnúum sem þeim fylgja þá erum við komin í vond mál. Það er sagt að þeir stjórnendur landsins sem um er rætt hafi ekki séð fyrir ákveðna hluti, sjá menn virkilega ekki fyrir í dag að ef gengið verður til sakamála gagnvart stjórnmálamönnum á Íslandi er fjandinn laus og það verður ný Sturlungaöld í landinu með kærum, kærum, kærum, kærum og kærum. Þurfum við á því að halda í dag, góðir alþingismenn? Nei, hv. alþingismenn, við þurfum ekki á því að halda. Við þurfum á því að halda að víkja okkur frá vandanum og vinna verkin sem bíða fyrir næsta dag. Við erum föst í hjólfari í dag, þingið tekur viku eftir viku í það að fjalla um mál sem skipta í raun engu máli þegar kemur að því að ná árangri fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið, þjóðfélagið í heild. Ef eitthvað hefur farið úrskeiðis er sjálfsagt að fara ofan í saumana á því en það getur tekið langan tíma.

Hafskip var á sínum tíma sett á hausinn á röngum forsendum. Hafskip var ekki gjaldþrota en það tók eitt og hálft ár að komast að því hvernig fjárhagsleg staða Hafskips var í raun og veru. Þá var búið að slátra fyrirtækinu og þá var búið að slátra sumum stjórnendum þess sem urðu veikir til dauðadags, urðu úr leik vegna þess að þeir urðu veikir, helsjúkir menn. Til þess eigum við að horfa og læra af því þegar við göngum til ákveðinna verka í dag, þegar við göngum út úr brimgarði vandamálanna.

Ég trúi því að flestir þingmenn séu þingmenn af hugsjón, ekki hagsmunapoti heldur hugsjón. Það er mjög hæpið að þingmenn fari í þá stöðu sem við erum í nema af hugsjón. Það eru tvö ár liðin frá hruni, við þurfum miklu lengri tíma til að meta hluti sem vissulega liggja í loftinu en liggja ekki á hreinu. Þegar maður lendir í brotsjó, lendir inni í brimgarði þar sem er nánast ekkert hægt að gera, og það hef ég sjálfur upplifað, þá getur maður hvorki tekið ákvarðanir né skipulagt hluti. Maður bregst ósjálfrátt við og svo ræður lukkan hvað kemur út úr því.

Enginn þeirra sem hér er fjallað um til ákæru hefur sýnt nokkurn hlut sem er hægt að taka sem fugl í skógi í hönd og segja: Þarna voru mistök. Það eru engin klár dæmi nema við viljum byggja á pólitísku réttlæti.

Í næsta húsi við Alþingishúsið, Dómkirkjunni, flutti séra Hjálmar Jónsson ræðu á sunnudag, með leyfi, virðulegi forseti:

„Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.““

Við þekkjum reyndar ágætt dæmi úr Njálssögu þegar Þráinn höfðingi í Holti kom í brúðkaup Gunnars á Hlíðarenda, settist yst til sæta og sagði: Nú mega allir vel við una. Farið að taka sæti.

Þannig eiga alþingismenn að hugsa. Þeir eiga að hefja sig yfir hvunndagshégómann og gefa færi á því að allir megi vel við una hvar sem þeir sitja, háir eða lágir, fátækir eða ríkir.

Það segir einnig í ræðu dómkirkjuprests, með leyfi forseta:

„Með sérhverju góðu verki sem Kristur vann, urðu fræðimennirnir og farísearnir vissari um að hann væri stórhættulegur maður, sem virti engin takmörk og bryti lögin. Allt þyrfti að gera til að stöðva hann. Ein meginástæðan fyrir því að Kristur var tekinn af lífi var sú að hann læknaði fólk á hvíldardögum, með öðrum orðum vann á hvíldardeginum og gerðist með því brotlegur við lögin.“

Þannig voru lögin sem farið var eftir og það mátti ekki sinna neinum verkum á hvíldardögum. En það mátti bjarga gripum úr brunni, úr ám frá dauða en það mátti ekki bjarga fólki. Þetta braut Jesús og hlaut illt hjá dómurunum, hjá lögmönnunum sem hönkuðu hann á þessum lagabrotum.

Á hvaða leið erum við, hv. þingmenn, í að hanka samstarfsmenn okkar á lagabrotum? Á hvaða leið erum við? Á hvaða refsistigi viljum við vera? Viljum við upphefja Sturlungaöld á Íslandi eða viljum við vinna til árangurs fyrir þjóð okkar þannig að fólk geti staðið upp með reisn og virðingu?

Virðulegi forseti. Ræða dómkirkjuprests, séra Hjálmars Jónssonar, á sunnudaginn var mögnuð. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Kristur var sífellt gagnrýndur, hversu mjög sem hann lagði sig fram. Hann neitaði aldrei nokkrum um hjálp. Hann afþakkaði heldur aldrei boð gestrisins fólks. Allt til loka vænti hann þess að fólkið sæi þetta sjálft. Eins og varð til að mynda í húsi Sakkeusar. Þegar nærvera Krists varð til þess að tollheimtumaðurinn og fólk hans breytti um innstillingu og lífsstíl. Hann þáði líka boð andstæðinga eins og faríseans í texta dagsins. Ekkert breytist ef við lokum á samskipti, það getur þurft viljastyrk til að láta sem ekkert sé, halda áfram þrátt fyrir svikráð og undirhyggju. En góðverkið í dag var notað gegn honum síðar. Kristur linaði þjáningu manns á röngum tíma, það vatt upp á sig, það varð á endanum dauðasök. Fólkið varð múgur, hamslaus og sefjaður múgur sem hrópaði í sífellu „Krossfestu hann.““

Á hvaða stigi erum við þegar við, svo dæmi sé nefnt, krefjumst þess að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé krossfest? Á hvaða stigi erum við? Við erum á skammarlegu stigi sem er vanvirðing við Alþingi, vanvirðing við sjálfstæði þessa lands og vanvirðing við þjóðina. Svona hlutir eiga ekki að geta gerst, virðulegi forseti. Það er alveg sama hvað dómararnir í okkar röðum telja sig mikilmektuga, klára, snjalla og sanngjarna þá gengur þessi vinnuaðferð ekki.

Dómkirkjuprestur sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Sumpart svipar þessu til Íslands í dag. Áþekkir atburðir hafa alltaf verið að gerast í heiminum — einnig í okkar litla landi. Eftir siðbótina varð rétttrúnaðartímabilið. Þá þurfti að hreinsa kirkjuna, hreinsa af fornum bábiljum. Við hin lútersku og aðrar kirkjudeildir siðbótarinnar urðum kaþólskari en páfinn. Reglugerðir og ákvæði, sem var vandlega framfylgt urðu markmið margra.

Stundum hefur sú skoðun verið uppi að hægt sé að stjórna siðferði fólks með lögum. Að lög og reglur geti náð yfir allt og þannig sé hægt að skapa fullkomið samfélag. Á dögum Kristjáns IV., í þeim jarðvegi sem þá var, varð Stóridómur til. Leit hófst að afbrotum, jafnvel minnstu afbrotum varð nánast takmarkalaus. Vandlæting og rannsókn allra gagnvart öllum. Þá galt margur saklaus maðurinn, karlinn og konan, fyrir litlar sakir með lífi sínu. Galdraofsóknirnar, múgsefjunin, sem grasseraði bæði hér í Evrópu og í Ameríku, voru svo engu betri en rannsóknarrétturinn illræmdi og ofsóknir aðrar. Þessi hætta“ — hv. þingmenn — „er alltaf fyrir hendi. Enda þótt svo ætti alls ekki að vera á okkar tímum. Við teljum okkur fremri fáfróðum almenningi fyrr á öldum. Samt sem áður er nú alið á hatri, tortryggni og óvild. Miðað við upplýsinguna, þekkinguna, gáfurnar, skynsemina, ætti varla að þurfa að óttast fordóma og sefjun. Upplýst íslenskt samfélag á ekki að þurfa að falla í slíka gryfju. Því miður eru samt mörg teikn um að það sé einmitt raunin. Kristur vitnaði í undantekningu í reglugerðum skriftlærðra forðum. Ef dýr féll í gryfju eða brunn mátti bjarga því. Hvers vegna má þá ekki bjarga mönnum?“

Dómkirkjuprestur sagði á sunnudaginn, með leyfi forseta:

„Nú er meðferðin slík á nokkrum fyrrverandi ráðamönnum á Íslandi að dýraverndunarsamtök væru komin á fulla ferð ef skepnur ættu í hlut.“

Nú er meðferðin slík á nokkrum fyrrverandi ráðamönnum á Íslandi að dýraverndunarsamtök væru komin á fulla ferð ef skepnur ættu í hlut. Hver er munurinn hér, stigsmunurinn á milli Dómkirkjunnar og Alþingis? Þættir sem hafa flotið saman í þúsund ár og reynt að finna skynsamlegan farveg. Þetta er skelfilegur vitnisburður og örugglega réttur og það er það sorglega.

Gildran sem var lögð fyrir hv. þm. Atla Gíslason, einn færasta lögmann landsins, sú gildra að ætla honum það hlutverk að stýra nefnd til farsældar í þessu máli var dauðagildra. Hún var dauðagildra fyrir virðingu, metnað, traust og reisn fólks á Íslandi, því að við getum ekki lifað í þessu landi nema við ástundum kærleika, fyrirgefningu, samstöðu og samúð, að maður geti verið manns gaman, þó að við að sjálfsögðu gleymum ekki að við höfum dómstóla til þess að fjalla um mál sem þar eiga heima. Og við eigum nógan mannskap í því í landinu og þurfum ekki setja þingmenn í þá gildru að taka sér það hlutverk. Það er dauðagildra.

Dómkirkjuprestur, séra Hjálmar Jónsson, sagði í seinni hluta ræðu sinnar:

„Ég sá uppfærsluna á leikverkinu Enron í Borgarleikhúsinu í vikunni. Vel er því þar lýst hvað fór úrskeiðis í því stóra gjaldþroti. Boðskapurinn kemst prýðilega til skila. Það sem bilaði voru vissulega mennirnir sjálfir. Stjórnendur orkurisans Enrons fundu leiðir fram hjá lögum og leikreglum samfélagsins, þeir voru lögbrjótar og svindlarar og þeir vissu það auðvitað sjálfir. En þeir héldu því áfram, gegn betri vitund, meðan hægt var. Það gerðu þeir með fulltingi lögmanna og löggiltra endurskoðenda. Þeir voru einnig dyggilega studdir af yfirborðskenndu fjölmiðlafólki, lítilþægum stjórnmálamönnum og hugsunarlitlum lýð. … Múgsefjun var það, Hrunadans, þar sem hálfærður almenningur dansaði með og hóf viðskiptajöfrana til skýjanna, mærði þá á allan hátt og vonaðist um leið til að græða eitthvað sjálfur. Nú eru liðin átta ár frá því gjaldþroti. Aðeins eru tvö ár frá gjaldþroti íslensku bankanna. Sá tími kemur vonandi fljótlega, að við getum skoðað hrunið í sögulegu ljósi og byggt á hinum réttu upplýsingum um staðreyndir mála.“

Í dag eigum við að taka ákvörðun um það hvort við rjúfum friðinn, hvort við ölum á tortryggninni, öfundinni, óvildinni og allsherjarillindum landsmanna á milli. Á það er ekki bætandi í dag. Við þurfum að standa saman um það að snúa vörn í sókn og snúa okkur að þeim brýnu verkefnum sem bíða, hætta þessum málfundaræfingum hér á hv. Alþingi, taka af skarið og sinna þeim verkum sem varða heimilin í landinu, atvinnulífið í landinu, menninguna, stöðu landsins inn á við og út á við, sjálfstæði Íslands, framtíð Íslands, því við eigum að véla um það fyrst og fremst að það sé leikgleði og framfarasókn í því sem við erum að gera en ekki að ala á illu.



[14:24]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í þessari miklu umræðu, annars vegar um skýrslu þingmannanefndarinnar og hins vegar um það sem nú er til umræðu, tillögu um ákærur á hendur nokkrum fyrrverandi ráðherrum, hefur því miður allt of mikið verið rætt um allt annað en átti í raun að ræða, allt annað en það sem þingmannanefndin sendi frá sér. Það á bæði við um skýrsluna og ákærurnar.

Hvað skýrsluna varðar hafa menn heimtað alls konar upplýsingar og rannsóknir, nefndarmenn hafa síðan þurft að koma hér upp í ræðustól og benda á að þær upplýsingar sem mönnum þótti vanta væru í skýrslunni og vísa þeim á það á hvaða blaðsíðum væri hægt að finna þær. Það sama á í raun við um umræðuna um ákærurnar. Hún hefur farið út um víðan völl og í mjög mörgum tilvikum snúist fyrst og fremst um annað en rök nefndarmanna og þá menn sem rætt er um að ákæra hugsanlega.

Þetta hefur reyndar sérstaklega átt við í tilviki þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og þá kannski sérstaklega Samfylkingar, en þeir hafa lagt ofuráherslu á að ræða um önnur tímabil en þau sem hér eru undir. Því skyldi sú vera raunin? Jú, það er vegna þess að öll þessi umræða hefur því miður farið að snúast um það að dreifa athyglinni í stað þess að ræða vandann, í stað þess að ræða hvernig eigi að taka á vandanum og læra af honum.

Þegar þingmannanefndin skilaði skýrslu sinni, plaggi upp á yfir 300 síður þar sem farið var yfir eitt og annað sem úrskeiðis hefði farið á Íslandi og birtar tillögur um hvernig mætti bæta þar úr, snerist umræðan um það að ekki hefði verið ákveðið að ráðast í nýja rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það stóð upp úr. Þrátt fyrir alla þessa skýrslu snerust fréttirnar fyrst og fremst um það að það ætti ekki að fara í enn eina rannsókn á einkavæðingu bankanna vegna þess að fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefðu ekki verið hlynntir því. Það var reyndar lítið fjallað um athugasemdir framsóknarmanna, sjálfstæðismanna og formanns nefndarinnar um einkavæðingu bankanna, spuninn var látinn ráða för og umræðan var að verið væri að reyna að fela eitthvað og reyna að þagga eitthvað niður, sem auðvitað var fjarri sanni.

Þess vegna bar ég fram breytingartillögu þess efnis að einkavæðing bankanna, bæði sú fyrri og hin síðari, yrði rannsökuð enn á ný í þeirri von að ef það yrði gert mundu menn á endanum sætta sig við að það mál hefði verið gert upp og að þeir ætluðu að læra af því. En það átti einmitt að vera tilgangurinn með vinnu þingmannanefndarinnar, bæði varðandi skýrsluna og það að taka afstöðu til þess hvort ráðherrar yrðu ákærðir, að menn mundu læra af því og það mundi hafa þau áhrif að gera störf þingsins og raunar samfélagið allt betra í framhaldinu.

Það hefur hins vegar ekki staðið upp úr í umræðunni. Umræðan varð fljótt afar pólitísk svo ekki sé meira sagt. Menn fóru, eins og ég nefndi áðan, að reyna að dreifa athyglinni, láta umræðuna snúast um eitthvað sem gerðist á öðrum tímabilum og umfram allt hjá öðrum flokkum, hjá þingmönnum eða ráðherrum annarra flokka, þ.e. það var ekki víða fyrir hendi raunverulegur vilji til að gera upp fortíð eigin stjórnmálaflokka, allt gekk út á að koma ábyrgðinni og umræðunni yfir á aðra.

Þess vegna, frú forseti, verð ég að verja nokkrum tíma í ræðu þessari í það að ræða tímabilið í aðdraganda áranna 2007–2009, vegna þess að um það hefur umræðan því miður snúist þó að hún hafi átt að snúast um niðurstöðu nefndarinnar og það sem þar kom fram um hrunstjórnina sem svo var kölluð í ræðu hér áðan.

Hvernig var þetta tímabil, frú forseti? Hvernig hagaði það fólk sér sem nú talar hvað mest um aðdraganda ársins 2007 en vill ekki tala um það ár eða næstu ár þar á eftir? Var það fólk á móti útrásinni, hafði það uppi einhver varnaðarorð? Nei, það var fyrst og fremst óánægt með að komast ekki að stjórn landsins til að geta tekið þátt í að ýta enn frekar undir útrásina. Þess vegna eru svo furðuleg þau rök sem hæst hafa farið í allri umræðunni, sérstaklega hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, að ekkert hafi verið hægt að gera eftir árið 2006 og þess vegna engu máli skipt hvernig menn brugðust við.

Eftir að í ljós kom hvert stefndi skipti engu máli hvort menn brugðust við eða ekki. Eftir á að hyggja hefði líklega ekki verið hægt að koma í veg fyrir að bankarnir færu í þrot. Þess vegna hafi mátt láta hlutina fara eins og þeir fóru án þess að gera nokkuð með það.

Hver var afstaðan í aðdraganda þessa? Afstaða þeirra sem ekki voru í ríkisstjórn, t.d. til einkavæðingarinnar? Minnast menn þess ekki þegar við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar forsætisráðherra hafði á orði að loksins væri hægt að ráðast í einkavæðingu í heilbrigðismálum, menntamálum og orkumálum vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefði alltaf þvælst þar fyrir? Nú væri Samfylkingin komin til sögunnar og hægt væri að halda einkavæðingarferlinu áfram fyrir alvöru.

Hver var afstaðan til útrásarinnar í aðdraganda þess tímabils sem við ættum að vera að ræða? Það var enginn flokkur, held ég að óhætt sé að segja, sem dásamaði útrásina jafnmikið og Samfylkingin. Það var enginn sem varði útrásarvíkingana af jafnmikilli hörku og enginn sem var jafnnátengdur útrásarvíkingum og hagsmunabandalögum eins og Samfylkingin. Nú lætur hún alla umræðu um veru sína í ríkisstjórn snúast um þetta tímabil, tímabilið þar sem Samfylking var í stjórnarandstöðu og sá það einna helst sem hlutverk sitt að verja útrásina.

Hvað með vöxt bankanna? Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fór yfir það hvernig ályktað var aftur og aftur um mikilvægi þess að bankarnir fengju að vaxa og menn fögnuðu því raunar úr öllum flokkum í álitum frá viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd. Þetta er hægt að lesa undirritað m.a. af hæstv. núverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.

Var vöxtur bankanna nokkurn tíma þyrnir í augum Samfylkingarinnar? Eða útrásin? Nei, það held ég ekki. Það eina sem var þyrnir í augum Samfylkingarinnar varðandi útrásina var að henni fannst þáverandi stjórnvöldum í sumum tilvikum þökkuð útrásin eða vöxtur bankanna. Þess vegna þreyttust menn ekki á því ár eftir ár að tala um að ríkisstjórnin þáverandi hefði ekkert með útrásina, hagvöxtinn og bankana að gera, það væri allt EES-samningurinn. Ef ekki væri fyrir EES-samninginn hefði útrásin aldrei orðið, það hefur ekkert með þessa ríkisstjórn að gera.

Rannveig Guðmundsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði t.d. á árinu 2005, með leyfi forseta:

„Neistinn sem einkenndi fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar er löngu slokknaður. Þá fóru jafnaðarmenn fyrir breytingum á efnahags- og viðskiptalífi og EES-samningnum sem skilaði okkur útrásinni.“

Einar Már Sigurðarson, annar þingmaður Samfylkingarinnar sagði, svo dæmi sé tekið, sama ár, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar undirstrikar að margt jákvætt er að finna í þróun efnahagslífsins á undanförnum árum. Það hefur einkennst af sköpunarkrafti og frumkvæði sem birtist glöggt í útrás fyrirtækja erlendis. Þennan þrótt má rekja til aukins frelsis og minni hafta sem lagður var grunnur að með EES-samningnum fyrir áratug. Með frumkvæði sínu að honum áttu jafnaðarmenn stærstan þátt í því frelsi sem lagt hefur grunninn að gríðarlega sterkri samkeppnisstöðu Íslands í dag. Sala bankanna var að sönnu mjög umdeild á sínum tíma, hitt er óefað að hún leysti mikinn kraft úr læðingi í atvinnu- og efnahagslífinu. Þetta er hin jákvæða hlið efnahagsmálanna í dag.“

Dæmin eru fjölmörg og þau einskorðast ekki við þingmenn sem hættir eru á þingi. Við getum skoðað hæstv. núverandi viðskiptaráðherra Árna Pál Árnason.

Svo seint sem í nóvember árið 2007, eftir að fjármálakrísan hófst segir hann, með leyfi forseta:

„Viðskiptalíf okkar er blessunarlega hnattvætt í síauknum mæli. Íslensk utanríkisþjónusta þarf að vera í stakk búin til að þjóna því hér eftir sem hingað til. Ef ekki hefði verið fyrir EES-samninginn hefði ekki verið um að ræða neina útrás í þeim skilningi sem við höfum upplifað á undanförnum árum.“

Hann heldur svo áfram að útlista það hvernig utanríkisþjónustan þurfi fyrst og fremst að beita sér fyrir útrásina.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson segir í mars sama ár, með leyfi forseta:

„Við höfum verið að ræða um að lífskjarabata margra Íslendinga frá því að þjóðarsáttarsamningurinn var gerður í lok þarsíðasta áratugar og EES-samningurinn í framhaldi af því. Þessir tveir atburðir í íslenskri stjórnmálasögu skópu grunninn að því að hér hefur verið velmegun á mörgum sviðum og þensla en ríkisstjórn síðustu ára, sem á engan þátt í þessu, sérstaklega ekki framsóknarmenn.“

Þar höfum við það frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, gekk svo langt í júní 2006 — er það ekki árið sem ekkert var hægt að gera — í júní það ár segir hún að hugmyndafræðilegur grunnur ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði verið lagður af jafnaðarmönnum með EES-samningnum. Hugmyndafræðilegi grunnurinn væri því uppurinn og stjórnin vissi ekkert hvað hún ætti að gera án þessara leiðbeininga frá jafnaðarmönnum.

Það má telja fjölmörg önnur dæmi, Katrínu Júlíusdóttur árið 2006, Össur Skarphéðinsson í janúar 2008 þegar hann talar um að EES sé hin raunverulega forsenda útrásarinnar. Þetta vilja menn ekki ræða um. Þeir vilja afmarka sig við fulltrúa annarra flokka. Það er það sem er svo dapurlegt við þessa umræðu að menn hafa, margir, því miður fest sig í flokkapólitíkinni.

Það var ekki látið staðar numið í vörn þess sama fólks, sem nú gagnrýnir aðra fyrir útrásina, að verja útrásina og stækkun bankakerfisins. Svo hart gekk Samfylkingin fram í að verja útrásina og bankana úr stjórnarandstöðu að þegar hún loks komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum lét hún setja sérstaka klausu í stjórnarsáttmálann til að verja útrásina af ótta við að m.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn, hinn mikli frjálshyggjuflokkur, mundi hefta vöxt bankanna eða hrekja útrásarfyrirtæki úr landi.

Hvað segir í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar? Með leyfi forseta:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanaförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“

Hvað með skattana sem er svo mikið talað um? Að áður en Samfylking kom til valda hafi menn verið hálfóðir í skattalækkunum? Það bauð enginn jafn vel og Samfylkingin í skattalækkunum og jafnvel á hápunkti þenslunnar, eftir að Samfylking komst til valda, vildu menn lækka skatta meira og auka útgjöld.

Íbúðalánasjóður er einnig nefndur. Meira að segja hæstv. núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir vildi ganga lengra, miklu lengra en framsóknarmenn í útgjaldaaukningu sjóðsins og hækkun lána.

Svo nefna einhverjir Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdirnar fyrir austan. Hversu margir samfylkingarmenn lögðust gegn þeim á sínum tíma þó að þeir leyfi sér núna að gagnrýna þetta sem stórkostleg hagstjórnarmistök Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks? Tveir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn en öll forusta Samfylkingarinnar, þar á meðal núverandi hæstv. forsætisráðherra, studdi framkvæmdina.

Svo var það þenslan, þenslan sem mikið hefur verið rætt um að hafi öll orðið fyrir tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þegar Samfylkingin komst til valda sló hún öll met Íslandssögunnar í útgjaldaaukningu í ráðuneytum sínum. Á hápunkti þenslunnar árið 2007 voru útgjaldametin slegin. Svo kemur þetta sama fólk hér og ætlar að kenna öðrum um.

Hvers vegna er ég að fara yfir þetta allt og eyða í það tíma? Vegna þess að frá því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum hefur umræða um stjórnmál ekkert snúist um pólitísk áhersluatriði eða leiðir og lausnir. Hún hefur öll verið látin snúast um spuna um fortíðina. Ef menn ætla að festa sig í fortíðinni nú tveimur árum eftir hrunið — í dag eru tvö ár liðin frá því stjórnendur Glitnis fóru í Seðlabankann og lýstu því yfir að þeir gætu ekki endurfjármagnað bankann — ef menn ætla að réttlæta stjórnarhætti núverandi ríkisstjórnar eingöngu út frá fortíðinni þá verður að ræða hana og gera hana upp eins og hún var í stað þess að leyfa mönnum endalaust að skrifa söguna eftir á og falsa.

Við verðum að komast út úr þessu. Við verðum að segja þetta gott af umræðunni um fortíðina þar sem mistök voru gerð og menn hafa gengið mislangt í að gera þau upp. Það er óhætt að segja að í mínum flokki hafi menn ráðist í róttækustu endurnýjun í sögu íslenskra stjórnmála í framhaldi af efnahagshruninu. Hver hefur sú endurnýjun verið t.d. í Samfylkingunni? Hver er nú hæstv. forsætisráðherra Samfylkingarinnar? Er það ekki ráðherra sem sat í efnahagsráði sömu ríkisstjórnar og hér er til umfjöllunar, sat við hlið ráðherranna sem rætt er um að draga fyrir landsdóm? Hvernig er uppgjörið þar? Væri ekki best fyrir þetta fólk og okkur öll að snúa okkur að framtíðinni? Ef við viljum festa okkur í fortíðinni er örugglega hægt að setja út á býsna margt hjá býsna mörgum.

Komum þá að árinu 2007 og 2008. Á þeim tíma var heilmikil umræða um að grípa þyrfti til aðgerða. Ég er með fjölmargar útprentaðar ræður þingmanna Framsóknarflokksins um nauðsyn þess að grípa til neyðaraðgerða í efnahagsmálum, menn nefna jafnvel hugmyndir um þjóðstjórn, að menn komi sér saman um neyðarúrræði og þar fram eftir götunum. Ég ætlaði að lesa upp úr þessum ræðum allt frá maí 2007 en mér sýnist ég ekki hafa tíma til þess. Það er hins vegar vel þess virði eða hefði verið vel þess virði að rifja þetta upp nú þegar menn láta eins og ekkert hafi verið hægt að gera og ekki farið fram nein umræða um viðbrögð við ástandinu. Hér er að finna fjölmargar tillögur að viðbrögðum. Það sama má segja um þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lögðu ítrekað fram slíkar tillögur.

Þá að ákærum í tengslum við árin 2007 og 2008. Í ljósi þess að umræðan hefur fyrst og fremst snúist um pólitík og samanburð við önnur tímabil, þ.e. talsmenn núverandi ríkisstjórnar, verðum við þá ekki að setja það í samhengi við samtímann, ríkisstjórnina sem situr við völd? Ég velti því fyrir mér hvernig núverandi ríkisstjórn hefði brugðist við þegar neyðarlögin voru sett. Við þurfum líka að halda því til haga sem vel var gert. Menn sjá það best núna að þetta var nauðsynleg ráðstöfun. Það hefði kannski komið betri útfærsla ef menn hefðu haft tíma til þess að finna hana en það þurfti töluverðan kjark til þess að ráðast í þessa miklu ráðstöfun. Það er óhætt að segja að ef ekki hefði verið gripið til svo róttækra aðgerða hefði Ísland ekki átt sér viðreisnar von næstu árin.

Hvernig hefði ríkisstjórnin sem nú situr brugðist við? Hefði hún haft kjark til að ganga gegn kröfuhöfum bankanna, voldugum evrópskum og bandarískum bönkum og ríkisstjórnum annarra ríkja með því að setja neyðarlögin? Stjórn sem talaði um skjaldborg um heimilin en hefur ekki enn þorað að taka málstað heimilanna gegn erlendum lánardrottnum. Stjórn sem mátti ekki heyra minnst á forsendubrest þegar staða heimilanna var rædd. Um leið og stjórnin sá að kröfuhafar bankanna gætu orðið fyrir tapi vegna viðskiptahátta þeirra sjálfra var farið að ræða um forsendubrest og jafnvel lagasetningu til að grípa inn í. Hefði slík ríkisstjórn þorað að setja neyðarlög? Ekkert sem hún hefur gert frá því að hún tók við völdum bendir til þess. Þessi ríkisstjórn hefur fyrst og fremst einbeitt sér að því að gera erlendum bönkum, ríkisstjórnum og stofnunum til hæfis. Samanburðurinn, ef menn vilja fara í samanburð við önnur tímabil, er nokkuð sláandi.

Það er ekki aðeins að þessi stjórn hafi sýnt aðgerðaleysi í því sem þó var mikilvægasta ráðstöfun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, reyndar með stuðningi Framsóknarflokks. Það er líka það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, til að mynda hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna þar sem ríkið tók yfir erlend lán sem menn máttu vita að væru gölluð, væru ekki mikils virði, sem síðan voru dæmd ólögmæt. Svo ekki sé minnst á Icesave-samningana og hvernig að þeim málum var staðið.

Þá kemur upp spurningin um jafnræðið og pólitísk áhrif af því. Því hefur þegar verið hótað að fari þessi stjórn frá völdum verði menn dregnir fyrir landsdóm fyrir afbrot til að mynda við gerð Icesave-samninganna. Þá er komin upp óþægileg staða, menn telja sig þurfa að halda í völdin til þess að komast hjá ákærum. Það er ákaflega óheppileg þróun í stjórnmálum ef raunin er sú að aðeins sá sem fer með völdin getur ákært hinn. Þá búa menn við stöðugan ótta um ákærur. Eins og segir í kvæði Einars Benediktssonar um Gretti Ásmundarson að „sekur er sá einn sem tapar“.

Það breytir því þó ekki að í gildi eru lög. Þegar farið var af stað með þingmannanefndina lá það fyrir hvers eðlis þau lög væru. Þess vegna þótti mér ræða hæstv. forsætisráðherra nokkuð sérkennileg þar sem hún gagnrýndi af mikilli hörku, í a.m.k. tólf liðum, þingmannanefndina og ýmislegt sem hún hafði gert eða látið ógert. Það lá alveg fyrir frá byrjun hvernig vinnulagið yrði.

Þingmannanefndin hefur fært rök fyrir afstöðu sinni varðandi ákærur. Reyndar skiptist hún í þrjá hópa. Rök þingmanna Framsóknarflokks sem í nefndinni sátu, þingmanna Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Rök þingmanna Samfylkingar í nefndinni, að ákæra þrjá fyrrverandi ráðherra, hafa því miður lítið verið rædd eins og ég kom inn á í upphafi. Menn hafa talað um allt annað. Þeir hafa talað um pólitík og helst pólitík á öðrum tímabilum en eru til umræðu. Menn hafa ekki náð rökræðu um hvort skýringarnar halda eða ekki, hvort hin lagalega túlkun er rétt eða ekki. Það hafa reyndar verið á þessu undantekningar. Ég tek það fram að hér hafa verið fluttar ræður þar sem menn ræða lögfræðileg atriði og stöðu þingsins.

Nú þegar kemur að atkvæðagreiðslu um málið vona ég, hvernig sem umræðan hefur verið, að menn taki afstöðu til tillagna nefndarinnar út frá rökum hennar og út frá því hvernig hún skýrir mál sitt annars vegar og hins vegar því sem menn telja að verði afleiðing niðurstöðunnar. Hvort menn telja ákærur til þess fallnar að skila betri stjórnmálum og betra samfélagi eða ekki. Einungis þannig geta menn verið sáttir við niðurstöðuna hvort menn verði ákærðir eða ekki. Ef menn taka afstöðu út frá því hvort þeir trúa að lagalegu rökin séu til staðar, þau haldi en menn verði dæmdir og hverjar menn telji að afleiðingarnar verði, hvort þær verði til góðs eða ills.



[14:48]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að koma að lokum afar erfiðrar umræðu, sem er einnig nýstárleg fyrir Alþingi. Þetta er viðfangsefni sem Alþingi hefur ekki áður haft með höndum, a.m.k. ekki í þau bráðum átta ár sem ég hef setið hér. Þetta er mikilvægt verkefni og það er mikilvægt að við höfum rætt það í nokkuð góðu tómi. Við höfum gefið okkur rúman tíma og það skiptir máli að sem flestir hafi komið sínum sjónarmiðum að, vegna þess að ólík eru þau svo sannarlega.

Í mínum huga er það lykilatriði að hvorki þjóðin né Alþingi mega víkja sér undan því að gera upp hrun fjármálakerfisins, rætur þess, aðdraganda og orsakir þannig að við getum fyrirbyggt að svona lagað endurtaki sig. Þingið hefur lagst í gríðarlega vinnu til þess að svo megi verða með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem var gríðarlega efnismikil og fjallar um afleiðingar þess að þjappa saman völdum og hagsmunum í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu. Það er að mínu mati kjarninn í þeirri skýrslu og lærdómurinn sem við þurfum að draga af henni.

Í framhaldinu hefur þingmannanefndin unnið gríðarlega góðar og mikilvægar tillögur. Við sjáum það líka í skýrslu hennar sem er ítarleg og góð. Ég styð þær tillögur og fagna því að menn hafi náð samstöðu þvert á alla flokka um meginatriðin í því sem Alþingi þarf að fást við til þess að gera upp þetta hrun á næstu missirum. Það munum við fjalla um hér í dag og ég heyri ekki betur en að þingmenn séu almennt sammála um þær tillögur. Ég hefði að vísu verið til í að ganga lengra í ýmsum úttektum, en við þetta verður að standa. Það verður þá að koma fram síðar í annarri tillögugerð.

Virðulegi forseti. Hið eiginlega uppgjör við hrunið er um leið uppgjör við hugmyndafræði og stefnu sem innleidd var og fylgt eftir árum saman og hvers fulltrúar fengu ítrekað endurkjör hingað inn á Alþingi. Spurningin sem ég þarf að svara í dag snýst ekki um það hvort sjálft hrunið verður gert upp eða ekki, heldur hvort ég samkvæmt minni bestu vitund, samvisku og sannfæringu, telji að fram séu komnar upplýsingar sem réttlæti þátttöku mína í því að ákæra þrjá til fjóra einstaklinga fyrir alvarlega saknæmt brot.

Ein af meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem mönnum hefur verið tíðrætt um hér, er að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 ef afstýra hefði átt hruni bankakerfisins. Undir þetta hafa menn tekið, bæði í þingsölum og almennt í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða kærur á grundvelli embættisfærslna árið 2008, enda falla vinnubrögð við einkavæðingu bankanna, stjórnlaus vöxtur þeirra og hagstjórnarmistök fyrri ára utan fyrningarramma laga um ráðherraábyrgð. Því verður með þeirri ákvörðun sem tekin verður í dag af meiri hluta þingsins ekki gert upp við sjálft hrunið eða ástæður þess, hvort sem við samþykkjum eða fellum tillögur um ákærur á hendur þeim sem stóðu vaktina á árinu 2008. Það verður gert með öðrum hætti, það er nokkuð ljóst.

Virðulegi forseti. Tillögur um ákærurnar snúa að því sem að miklu leyti til var ekki gert. Ég hef því spurt mig ítrekað hvað viðkomandi einstaklingar hefðu átt að gera eða gera öðruvísi sem hefði dugað til að lágmarka tjónið án þess að verða þess um leið valdandi að þeir hrintu hruninu sjálfu af stað fyrr en ella. Ítrekað hefur komið fram að flestar mögulegar aðgerðir gátu orkað tvímælis eftir að lánsfjárkreppan var skollin á og allt eins líklegt að við sætum hér og ræddum ákærur fyrir athafnir sem hefðu átt þátt í að koma hruninu af stað.

Þetta, virðulegi forseti, er meginástæða þess að ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það eigi að kæra þá einstaklinga sem hér um ræðir, sem gegndu ráðherraembættum þegar allt var komið í kaldakol og fáir góðir valkostir blöstu við. Í þessu sambandi er mikilvægt að þess sér hvergi stað að lykilstofnanir við varðveislu fjármálastöðugleika hafi undirbúið eða lagt efnislegar tillögur um aðgerðir fyrir ríkisstjórn eða einstaka ráðherra sem við gætum þó vísað í og metið hvort eða hvernig ráðherrarnir brugðust við þeim og fylgdu málunum eftir. Vísanir í óljósar viðvaranir frá Seðlabanka Íslands duga mér ekki sem grundvöllur ákæru, allra síst þegar haft er í huga að Seðlabankinn hefur samkvæmt lögum, eigin samþykktum og samstarfssamningi við Fjármálaeftirlitið skýra frumkvæðis- og verknaðarskyldu til að sinna því lykilhlutverki sínu að varðveita fjármálastöðugleika. Hér er ég ekki aðeins að vísa til eigin tækja bankans sem sjálfstæðs stjórnvalds eða gagnkvæmrar upplýsingaskyldu hans og Fjármálaeftirlitsins, heldur ekki síður ábyrgð hans á tillögugerð til stjórnvalda.

Í sérstakri samþykkt bankastjórnar Seðlabankans frá árinu 2006 er ekki aðeins tekið fram að bankinn eigi að sinna umgjörð og eftirliti, eins og sagt er þar, með leyfi forseta:

„Með því að beita sér fyrir breytingum á reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja og viðskipti á markaði eftir því sem hann telur tilefni til.“

Heldur líka, með leyfi forseta:

„Með því að koma ábendingum bankans um úrbætur og breytingar skýrt á framfæri og fylgja þeim eftir.“

Þáttur Seðlabankans er í raun og veru sérstakur kapítuli í uppgjörinu við hrunið, en ég læt nægja að benda á að hafi stjórn Seðlabankans með sína lagalegu ábyrgð á varðveislu fjármálastöðugleika og rétt til allra upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu ekki séð tilefni til að fylgja eigin vinnureglum um skýrar tillögur til stjórnvalda um úrbætur og fylgja þeim eftir, þá hef ég ekki sannfæringu fyrir því að ákæra eigi þessa umræddu einstaklinga fyrir alvarleg brot á þeim grundvelli.

Virðulegi forseti. Það hefur mikið verið rætt um það að ekkert hafi verið gert. Fjallað hefur verið um það að ríkisstjórnin eða aðilar í henni hafi ekkert gert í aðdraganda hrunsins. Í ágætri ræðu hv. þingmanns Guðmundar Steingrímssonar í gær var farið yfir aðgerðaleysi þingsins. Ég er því ekki sammála vegna þess að gripið var til fjölmargra aðgerða í aðdraganda hrunsins sem bendir skýrt til þess að menn hafi ekki verið með höfuðið í sandinum. Ég get nefnt nokkur atriði í því sambandi.

Til dæmis er alveg skýrt að ein af fyrstu tillögum þáverandi viðskiptaráðherra á haustþingi árið 2007 var að stórefla tekjustofna Fjármálaeftirlitsins um heil 52%. Þessi tillaga var síðan samþykkt hér á Alþingi í desember 2007. Hvers vegna samþykkja menn að hækka tekjustofna Fjármálaeftirlitsins um meira en 50% nema þeir viti að verkefnin fram undan séu ærin? Það er þannig. Þarna voru menn svo sannarlega ekki sofandi, virðulegi forseti, og þingið ekki heldur. Þingið tók þátt í þessum gerningi þó að hann hafi ekki sést á listum sem teknir hafa verð út af þingmönnum síðustu daga.

Í öðru lagi var reynt að draga úr áhættu bankakerfisins með því að veita alþjóðlegum fyrirtækjum hér á landi heimild til að færa reikninga í erlendri mynt og að viðskipti með hlutafé þeirra yrði í erlendri mynt.

Í þriðja lagi beittu stjórnvöld sér markvisst gegn kaupum Kaupþings á hollenska bankanum NIBC, sem hefði stækkað íslenska bankakerfið enn frekar og það umtalsvert. Þarna gengu stjórnvöld meira að segja yfir valdsvið sín, má segja, með því að fara gegn þessu, vegna þess að ekki voru heimildir í lögum til þess. Engu að síður töldu menn á þessum tíma hættuna það mikla ef enn frekari stækkun yrði á bankakerfinu að þeir töldu það þess virði að fara yfir strikið.

Virðulegi forseti. Þarna voru menn heldur ekki sofandi. Þess vegna er ekki sanngjarnt hvernig þessi umræða hefur verið hér. Mér finnst þingmenn sjálfir og ráðherrar frá þessum tíma ekki heldur hafa gert nægjanlega grein fyrir þeim verkum sem ráðist var í.

Í fjórða lagi vil ég líka nefna að Alþingi kom að því hér á vordögum ársins 2008 að samþykkja og veita heimild til verulegrar stækkunar gjaldeyrisvaraforðans. Það gerðist í maí á árinu 2008. Stækkunin hljóðaði upp á heimild til þess að stækka gjaldeyrisvaraforðann um 500 milljarða kr. Eru það merki um að stjórnvöld telji hér allt í lukkunnar velstandi? Alls ekki. Þannig að hér voru skýr merki í aðgerðum þingsins og aðgerðum ríkisstjórnarinnar um að verið væri að grípa til úrræða vegna þess að þrumuský voru á lofti. Það veita engin stjórnvöld slíka heimild til stækkunar á gjaldeyrisvaraforða nema eitthvað sé að.

Virðulegi forseti. Þess vegna er það heldur ekki rétt eins og sagt var í ræðu áðan, að hér hafi menn haldið allan veturinn 2008 einhverjum hlutum leyndum fyrir þjóðinni eða kjósendum sínum. Þingið var að fjalla um þessi mál. Af hverju var þingið að fjalla um 500 milljarða kr. stækkun á gjaldeyrisvaraforðanum? Það var ekki af því bara, það var af því að það var vá fyrir dyrum.

Virðulegi forseti. Það er líka svo að grunnurinn að neyðarlögunum var unninn sumarið 2008 sem viðbragðsáætlun til að lágmarka mögulegt tjón.

Hér hef ég rifjað upp nokkur atriði sem ég sjálf mundi eftir þegar ég var að setja saman þessa punkta. Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið nóg. Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið akkúrat réttu ákvarðanirnar eða akkúrat réttu aðgerðirnar, eftir á litið, en virðulegi forseti, það hefur heldur ekki farið fram skaðamat á því. Þess vegna stendur hér þingmaður sem er ekki sannfærður um að það eigi að ákæra þessa einstaklinga út af hruninu sem varð síðan um haustið.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína að við verðum að gera þetta hrun upp í heild sinni og rætur þess liggja dýpra. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að ákærur á hendur þessum einstaklingum sem fóru með ráðherraembætti eftir að of seint var orðið að afstýra sjálfu hruninu verði til að ýta undir að slíkt heildaruppgjör fari fram. Ég óttast að þar verði bara sett slaufa, svo við verðum að klára þetta.

Virðulegi forseti. Ég get líka sagt að sjálf hafði ég óbeit á þeirri stefnu sem rekin var hér í undanfara bankahrunsins í mörg, mörg ár, þar sem var takmarkalaus dýrkun á markaðnum og algjört afskiptaleysi gagnvart honum. Ég hafði óbeit á þeirri stefnu. Virðulegi forseti. Uppgjör við þá stefnu þarf að fara fram með öðrum hætti en að ákæra þrjá eða fjóra einstaklinga sem sátu þá á ráðherrastól.

Virðulegi forseti. Ég endurtek að ég tel meiri líkur en minni á að við stæðum í þeim sporum sem við stöndum í núna sama hvað þessir einstaklingar hefðu gert á þeim tíma sem þeir voru í ráðherrastól. Mín niðurstaða er þess vegna sú að ég mun styðja og fagna tillögum þingmannanefndarinnar, sameiginlegu tillögunum og þingsályktunum um endurbætur og úttekt á stjórnkerfinu og ég vona að við eigum eftir að gera meira af þeim, en ég mun ekki styðja ákæruliðina á hendur þeim einstaklingum sem stóðu í brúnni þegar hrunið varð. Við höfum ekki öll komist að sömu niðurstöðu, en það hefur verið okkur öllum erfitt. Ég veit að við virðum niðurstöður hver annars og munum í framhaldinu, sama hver niðurstaðan verður í atkvæðagreiðslunni hér á eftir, reyna að standa saman og taka höndum saman í þeim verkefnum sem fram undan eru raunverulega fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er okkar meginverkefni hér í þinginu, en ekki svona umræða.