139. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2010.
skuldavandi heimilanna.

[14:05]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Vefritið Pressan greinir frá því að til hafi staðið í nóvember árið 2008 af hálfu nýja Kaupþings, sem nú heitir Arion banki, að ráðast í almennar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila sem menn töldu þá þegar vera mjög aðkallandi. Hins vegar hafi borist skilaboð frá stjórnvöldum á þeim tíma til stjórnar bankans um að það væri pólitískt óæskilegt að ráðist yrði í slíkar aðgerðir. Þekkir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til þessa máls eða sér hann ástæðu til að grafast fyrir um það og hver er afstaða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til almennra aðgerða í skuldamálum núna? Tekur hann undir það með þingflokki framsóknarmanna að það sé löngu orðið tímabært að menn fari að huga að skuldamálum heimilanna á almennum nótum eða með almennum aðgerðum, enda hafi sýnt sig nú þegar, eins og reyndar var bent á fyrir tveimur árum, að þær sértæku aðgerðir sem lagt var upp með hafi ekki gengið upp. Meðal annars hefur hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir lýst því yfir í viðtali að hluti af þeim lögum sem hæstv. ráðherra setti til að taka á þessum vanda hafi ekki dugað til. Getur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekið undir það að við sjáum nú þegar að almennar aðgerðir í skuldamálum heimila og raunar fyrirtækja líka séu óhjákvæmilegar?



[14:06]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég las þessa frétt á vefritinu Pressunni í dag og get ekki skilið hana þannig að starfsmenn Kaupþings á þeim tíma hafi verið að stinga upp á almennum aðgerðum til skuldaleiðréttinga öðrum en þeim að færa skuldabyrði niður í 80–110% af verðmæti eigna og að þeir sem hefðu orðið fyrir miklu tekjufalli gætu greitt eins og þeir gætu komist af með með því að greiða í samræmi við getu í tvö ár. Við lögfestum í mars 2008 þá meginreglu að skuldir bæri að skrifa niður í 80–110% af verðmæti eigna með því að lögfesta greiðsluaðlögunarlögin þá og við lögfestum líka lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána sem fólu í sér að fólk gæti greitt í allt að fimm ár í samræmi við getu ef það hefði orðið fyrir tekjufalli.

Haustið 2009 styrktum við lagagrundvöllinn enn frekar að þessu leyti og mæltum fyrir um við fjármálakerfið að laga ætti greiðslubyrði fólks að greiðslugetu og veðrými eigna þannig að það hafa verið alveg skýr skilaboð frá löggjafanum að þessu leyti. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu seint hefur gengið í bankakerfinu að vinna í samræmi við þessi skýru fyrirmæli. Við munum auðvitað reyna að leita leiða til að ryðja þeim hindrunum úr vegi og erum í samræðum við bankana um það akkúrat núna. Ég get því ekki lesið að í þessu felist einhver yfirlýsing um almennar niðurfellingar skulda á þessum tíma.

Að því er varðar almenna niðurfellingu skulda hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að ef menn geta sýnt fram á leiðir til að láta það gerast án stórfelldra eignatilfærslna í landinu, án þess að við séum að flytja byrði frá einum hópi þjóðfélagsþegna á annan og án þess að ríkissjóður þurfi að bera af því miklar byrðar, þá er ég alveg til viðræðu um það ef um það getur orðið samfélagsleg sátt.



[14:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli vera reiðubúinn til að ræða þessi mál ef hægt er að sýna fram á að þetta sé efnahagslega framkvæmanlegt, en það var einmitt gert fyrir hátt í tveimur árum síðan þegar þetta var allt útlistað með hætti sem síðan hefur sannað gildi sitt. Það hefur komið á daginn eitt atriðið af öðru sem bent var á, til að mynda hversu miklar afskriftir voru færðar þegar lán voru flutt milli gömlu bankanna og þeirra nýju. Þessar afskriftir hafa ekki verið látnar ganga áfram til þeirra sem skulda heldur notaðar til að ná fram alveg ótrúlega miklum hagnaði hinna nýju banka eftir hrunið svo leiðirnar eru til staðar. Vandamálið hefur hins vegar verið það að ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin til að skoða þær. Ráðherrar tóku sér t.d. ekki langan tíma til að skoða tillögur um almenna skuldaleiðréttingu þegar þær komu frá Framsóknarflokki í febrúar í fyrra en voru tilbúnir strax daginn eftir til að fordæma þær tillögur. Er hæstv. ráðherra sem sé tilbúinn til að skoða málið upp á nýtt?



[14:10]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er efnahagslega afskaplega brýnt að bankakerfið skili því svigrúmi sem það hefur til fyrirtækja í landinu og til heimila í landinu með því að lækka skuldir sem er óraunsætt að innheimta. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er vissulega hætta á því að bankakerfið geri það ekki heldur sitji einfaldlega og skili þessum ávinningi ekki til efnahagslífsins. Við eigum allt undir því í efnahagslegri endurreisn að fyrirtækin fái fast land undir fætur og heimilin líka. Það er grundvallaratriði að bankakerfið skili öllu því svigrúmi sem bankakerfið hefur til fyrirtækja og heimila. Það verður að gerast hratt og að því vinnum við nú.

Ég legg á það áherslu að ef menn finna eitthvert annað svigrúm, frekara svigrúm til að mæta heimilum í landinu með öðrum og ríkari hætti með almennum niðurfellingum (Forseti hringir.) er það auðvitað umhugsunarefni en það verður þá að sýna fram á að það svigrúm sé fyrir hendi. Ég held að fyrsta skrefið sé það að bankarnir skili til fyrirtækja og almennings því svigrúmi sem þeir hafa.