139. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2010.
fjárlög 2011, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1.

[14:44]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram venju samkvæmt og samkvæmt stjórnarskrá við upphaf hvers þings, frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur gefið nafnið hin raunverulegu hrunfjárlög. Ég held að um þetta fjárlagafrumvarp megi hafa mörg orð. Það verður í sjálfu sér eðli málsins samkvæmt ekki hægt að komast yfir öll þau atriði sem maður vildi gjarnan ræða. Ég vil byrja á því að taka það fram í upphafi þessarar umræðu, ef hún getur haldið áfram fyrir fundahöldum annars staðar í salnum, að þegar forsendur þessa frumvarps eru skoðaðar, sá grunnur sem frumvarpið byggir á, hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að lítið sem ekkert sé að marka fjárlagafrumvarpið. Þar skiptir auðvitað máli að sú hagvaxtarspá sem er ein af meginforsendum þessa frumvarps gengur að mínu mati ekki upp.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að í hagvaxtarforsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að farið verði í Helguvíkurverkefnið? Mér finnst býsna merkilegt að hæstv. forsætisráðherra leggi fram frumvarp til fjárlaga á slíkum forsendum þegar hann veit að innan hans eigin flokks og innan ríkisstjórnarinnar eru aðilar sem gera allt til þess að stöðva það verkefni og önnur atvinnuuppbyggingarverkefni í stóriðju og á öðrum sviðum þar sem orkuöflun og orkunýting er nauðsynleg.

Hæstv. ráðherra verður að svara því hvernig á því stendur að sú hagvaxtarspá sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í svo miklu ósamræmi við aðrar spár sem komið hafa frá öðrum greiningaraðilum. Ég nefni t.d. Arion banka, þar er gert ráð fyrir miklu minni hagvexti en hæstv. fjármálaráðherra miðar við í tengslum við þetta frumvarp. Þetta eitt nægir til að komast að þeirri niðurstöðu að ekkert er að marka það sem í þessu frumvarpi segir. Jú, auðvitað er eitthvað að marka það, en meginlínurnar sem þar eru lagðar standast ekki. Ég held því fram að það sé viðbúið að reikningsdæmið sem liggur fyrir gangi aldrei upp.

Það eru auðvitað mörg atriði sem maður vildi ræða í tengslum við fjárlagafrumvarpið og efnahagsmálin almennt. Það sem skortir í alla stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum er viljaleysi hennar hvað varðar framkvæmdir og framleiðslu í landinu. Það er alveg ljóst að hagkerfinu verður ekki komið af stað og í gang fyrr en við nýtum þau tækifæri sem landið okkar býður upp á til atvinnuuppbyggingar. Það er það sem fólkið í landinu talar um og óskar eftir. Fólk þarf að hafa vinnu til að geta greitt af lánunum sínum og geta veitt sjálfu sér og fjölskyldum sínum lífskjör sem við viljum að fólk búi við í landinu.

Í stað þess að ýta undir framleiðslu og framleiðni í landinu með því að fara í þær aðgerðir sem við sjálfstæðismenn höfum margoft barist fyrir og ítrekað lagt fram hér á þinginu, eins og Helguvíkurverkefnið, álver á Bakka, virkjun í Neðri-Þjórsá, Búðarhálsvirkjun, verkefni suður á Keflavíkurflugvelli o.s.frv., eru öll þessi verkefni til atvinnuuppbyggingar fyrir þá 15–20 þúsund einstaklinga sem eru atvinnulausir eða verða atvinnulausir ef ekkert verður að gert á næstu árum þá er farin hin leiðin. Farin er sú leið að stöðva verklegar framkvæmdir, draga úr þeim eða bregða fæti fyrir þá sem vilja gera eitthvað í landinu og farið í að hegna þeim sem fyrir eru með skattlagningu, með því að skattleggja atvinnulífið og heimilin í landinu.

Góður maður sagði eitt sinn í umræðu um skattamál að það væri skynsamlegra og betra að taka lítið af miklu en mikið af engu. Það er akkúrat það sem núverandi ríkisstjórn ætlar að gera. Hún ætlar að leggja háa skatta á það sem fyrir er þar til ekkert er eftir, þar til ekkert verður til skiptanna til að standa undir þeirri þjónustu sem ríkið þarf að standa undir. Þessi ríkisstjórn er að kæfa og drepa allt atvinnulíf í landinu. Á því verður að verða breyting.

Ég veit að hæstv. ráðherra þarf að skera niður í ríkisbúskapnum og ég styð það. Ég held að fólk sé almennt reiðubúið í niðurskurð. Ég held að venjulegt fólk sé reiðubúið til að taka á sig alls kyns högg hvað varðar þjónustu ríkisins ef það fær að halda heimilum sínum og er öruggt þrátt fyrir að hafa ekki jafnmikið umleikis og áður. Slíkt öryggi getur ríkisstjórnin ekki boðið upp á. Við höfum orðið vitni að því í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem því er lýst yfir að ekki verði farið í frekari frystingar á lánum fólks sem er í skuldavandræðum og enn síður verði ráðist í almennar aðgerðir gagnvart skuldugum heimilum. Það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir það fólk í landinu sem á um sárt að binda.

Eins og farið hefur verið yfir, virðulegi forseti, teljum við sjálfstæðismenn að þrátt fyrir að eðlilegt sé að skera niður sé forgangsröðin í niðurskurðinum röng. Mikið hefur verið talað um heilbrigðismálin. Við heyrum víðs vegar íbúa af öllu landinu mótmæla þeim niðurskurðaráformum sem uppi eru og fram koma í fjárlagafrumvarpinu og eru blóðug.

Það eru fleiri málaflokkar sem þurfa að þola niðurskurð. Þegar Finnar gengu í gegnum sína kreppu ákváðu þeir að forgangsraða í þágu menntunar. Fyrir því höfum við sjálfstæðismenn talað. Þó að menn grípi til niðurskurðar verða þeir að forgangsraða þannig að þrátt fyrir niðurskurðinn byggi menn upp til framtíðar. Þess vegna hefði ég viljað sjá hæstv. ráðherra fara nánar yfir þær tillögur sem snúa að niðurskurði í menntamálum og reyna að hlífa því kerfi.

Það er líka athyglisvert hvernig komið er fram við ungt fólk í fjárlagafrumvarpinu. Þá á ég ekki bara við skerðingu á barnabótum sem eins og kunnugt er kemur langverst niður á því fólki sem lægstar hefur tekjurnar. Það verður fyrir mestu skerðingunni. Mig langar nefnilega að nefna fæðingarorlofið. Fæðingarorlofið eins og við þekktum það áður er í rauninni að engu orðið. Það er búið að skerða það verulega, það er búið að skera það svo við nögl að maður veltir því fyrir sér hvort ekki hefði verið heiðarlegra af hæstv. fjármálaráðherra að leggja bara til að Fæðingarorlofssjóður yrði lagður niður. Í rauninni er staðan á Fæðingarorlofssjóði orðin þannig að fólk hefur ekki lengur efni á því að taka fæðingarorlof, eins sárt og það er. Það þekki ég t.d., nýbakaður faðir, að það er ekki eftirsóknarvert fyrir fjölskyldur peningalega séð að fara þá leið, svo að ég tali nú ekki um stöðu einstæðra mæðra sem þurfa að treysta á greiðslur úr sjóðnum. Ég held að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort þeir séu á réttri leið að því leyti og öðru sem ég hef nefnt og mun eflaust ræða nánar í (Forseti hringir.) frekari ræðum um þetta fjárlagafrumvarp.



[14:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvað þessar 10 mínútur líða hratt. Við ræðum frumvarp til fjárlaga. Það er nú margt um það að segja, en tíminn er afar stuttur í fyrstu umferð þannig að ég hef hug á því að einbeita mér að málefnum sem snerta heilbrigðisstofnanir og þann niðurskurð sem boðaður er og hefur mikið verið til umfjöllunar hér. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég var búin að láta vita að ég vildi sérstaklega að hlýddi á, ég treysti því að hann yrði …

(Forseti (RR): Forseti getur upplýst hv. þingmann um að hæstv. heilbrigðisráðherra er í húsi …)

Hann er hér, flott. Kærar þakkir fyrir það, virðulegi forseti.

Ég hef verið svo hugsi eftir að þetta frumvarp kom fram og þær gríðarlegu niðurskurðartillögur hvað varðar heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni. Það er skýrt og klárt að í fjárlagafrumvarpinu birtist pólitísk stefnumótun. Sú pólitíska stefnumótun felst greinilega í að færa vissa tegund af heilbrigðisþjónustu, sjúkrahúsþjónustuna, frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og Akureyrar og reyndar á að færa stóran hluta af henni af einhverjum ástæðum til Akraness. Þetta er skýr og klár pólitísk stefnumörkun. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa svo sem ekkert borið á móti því.

Þegar svona dramatísk stefnumótun er sett fram, svona mikil breyting frá því sem fyrir er, skyldi maður ætla að hún sé vandlega undirbúin, að að baki þeirri stefnumörkun sem birtist í frumvarpi til fjárlaga liggi undirbúningsvinna sem rökstyðji og útskýri hvernig framkvæma eigi þá pólitísku stefnumörkun. Maður mundi t.d. halda að að baki lægju kostnaðargreiningar. Hversu mikið sparast af þessu? Hversu mikið sparast af að færa sjúkrahúsþjónustu frá Vestmannaeyjum, Selfossi, Suðurnesjum, Þingeyjarsýslunum, Vestfjörðum, Höfn í Hornafirði og svo mætti lengi telja, til Akureyrar, Reykjavíkur og Akraness? Hversu mikið af fjármunum færist á milli frá þessum stofnunum og til hinna stofnananna? Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir breytingu á pólitískri stefnu hættir fólk því miður ekki að verða lasið og ekki ætla ég hæstv. heilbrigðisráðherra eða fjármálaráðherra það að hafa fundið lækningu við ýmsum kvillum og séu því að draga fjárveitingar til lækninga þeirra til baka. Ég hefði líka haldið að þarna lægi að baki greining á þeim áhrifum sem boðaður niðurskurður hefði á þau samfélög sem um ræðir vegna þess að svona stórfelldar breytingar hafa í för með sér miklar félagslegar breytingar á þessum stöðum. Það er uggur í mörgum samfélögum.

Mér var hálfbrugðið. Í fyrsta lagi þegar maður hefur talað við forsvarsmenn þessara stofnana, marga hverja, hlustað á þá í fjölmiðlum og les svo Morgunblaðið í morgun þar sem kemur skýrt fram að það hafi ekki verið neitt samráð. Í ljóst hefur komið að ekki hefur verið haft neitt samráð við þær stofnanir sem skera á niður og ekki heldur við þær sem eiga að taka við. Ég leyfi mér að vitna í Morgunblaðið í morgun. Þar segir Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, með leyfi forseta:

„… ekki hafi verið rætt um hvernig bregðast eigi við auknum verkefnum og að ekki hafi verið haft samráð við sjúkrahúsið varðandi gerð frumvarpsins.“ — Hann segir enn fremur: — „Tíminn sem gefinn er til að bregðast við þessum breytingum er allt of skammur …“

Ég ætla að bæta við frá Halldóri Jónssyni:

„Ég sé ekki fyrir mér hvernig þetta á að geta orðið að veruleika á næsta ári.“

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, með leyfi forseta:

„… segist telja líklegt að verkefni spítalans aukist.“

Það hlýtur að vera, ekki verður fólkið bara úti að aka einhvers staðar lasið. Það hlýtur að þurfa að leita sér lækninga einhvers staðar annars staðar. Hann segir, með leyfi forseta:

„En það hefur ekki verið rætt sérstaklega við okkur.“

Björn segir enn fremur — nú erum við öll þess minnug að Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, er búinn að fara í gríðarlega hagræðingu á Landspítalanum og ég held að enginn velkist í vafra um að hann og hans starfsfólk eru búin að ná ákaflega miklum árangri og velta hverjum einasta steini og hverri krónu — að það komi svo sem ekki á óvart hvað varðar niðurskurð á Landspítalanum en það gegni öðru máli um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, kvartar undan samráðsleysi. Mér finnst það sem hún segir mjög alvarlegt og vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvort það sé satt, hvort þetta geti verið rétt. Hún segir, með leyfi forseta:

„Birna segist ekki vita til þess að kostnaðargreining liggi að baki frumvarpinu og telur að pólitísk sjónarmið hafi haft mikið að segja um hvernig skorið er niður í einstökum landshlutum. „Ríkisstjórnin sest niður með reglustiku eins og stríðsherrar og strikar út.“

Birna segir að við gerð frumvarpsins hefði átt að skoða hvort einkareknar læknastofur gætu framkvæmt læknisverk á ódýrari hátt en hið opinbera. Henni þykir miður að ekki hafi verið skoðaðir fleiri möguleikar. „Hvers vegna má hækka orkureikninga upp úr öllu valdi en svo má ekki einu sinni ræða það að breyta greiðsluhlutdeild sjúklinga þannig að hægt sé að halda þjónustustiginu?““

Ég vil gera þessa spurningu að minni til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur verið leitað leiða til að ná auknum fjármunum inn í heilbrigðiskerfið, t.d. með þessum hætti? Ég tek enn fremur undir það sem Birna segir í greininni, að ekki er verið að tala um að auka álögur á þá sem mest þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda heldur á fólk eins og t.d. sjálfa mig sem blessunarlega þarf sjaldan að leita til læknis og er aflögufær þegar ég þarf að gera það einu sinni, tvisvar á ári að borga fyrir. Er verið að skoða einhverjar svoleiðis leiðir til að tryggja grunnþjónustuna út um landið með einhverjum öðrum leiðum en gert er?

Síðan segir Birna í lokin að Læknafélagið hafi ítrekað leitað skýringa hjá ráðherra heilbrigðismála en ekki fengið.

Annað sem ég mundi líka vilja spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um: Við vitum að á undanförnum árum hafa sjúkrahús víða um land, t.d. á Suðurnesjum þar sem ég þekki vel til, leitað eftir öðrum leiðum til að draga starfsemi að. Þá nefni ég sérstaklega skurðstofurnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fullbúnar skurðstofur, þar sem leitað var eftir því að fá einkaaðila þar inn, ekki til að skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi heldur til að forða því að það gerðist sem er einmitt núna að gerast — það er engin starfsemi þarna. Nú á að skera enn þá meira niður þannig að þar verður engin þjónusta. Hugsunin var alltaf sú að fá inn skurðstofuteymi sem nýtti hluta þess tíma sem væri hvort sem er vannýttur. Með því væri verið að draga starfsemi að og tryggja starfsfólk, viðveru og tekjur þannig að hægt væri að skaffa grunnþjónustuna. Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra hug á að endurskoða þá ákvörðun sem forveri hans, Ögmundur Jónasson, tók og leyfa sjúkrahúsinu að leita leiða til að afla sér tekna?

Ég sagði áðan að uggur væri í mörgum samfélögum. Það er ekki ofsagt. Ég hef heyrt það frá mörgum stöðum. Það eru hljóðlát mótmæli í Reykjanesbæ á morgun, annað kvöld, til að mótmæla niðurskurði þar. Ég veit af borgarafundi á Húsavík á morgun. Ég veit af borgarafundi á Ísafirði sem er boðaður einhvern tímann seinna í vikunni. Borgarafundur er á Selfossi á laugardaginn. Ég er handviss um að Vestmannaeyingar, Hornfirðingar og fleiri munu gera slíkt hið sama vegna þess, eins og haft er eftir bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum í dag í Morgunblaðinu, að verið er að leggja heilbrigðisþjónustuna í Eyjum niður. Það er ekki hægt að gera þetta, sérstaklega ekki þegar í ljós kemur að það er gert án þess að búið sé að reikna neitt út. Það er ekki búið að undirbúa (Forseti hringir.) samfélögin. Ekki hefur verið haft samráð við fólkið sem verður fyrir þessu, á hvorum endanum sem er. (Forseti hringir.) Við það geri ég alvarlegar athugasemdir, frú forseti.



[15:05]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er uggur í fólki. Víða er verið að halda borgarafundi og menn hafa áhyggjur af því hvernig sé farið með heilbrigðisþjónustuna. Ég hef þó aldrei heyrt þá útgáfu að leggja eigi niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum, eins og hér var orðað. Sem betur fer stendur ekki til að leggja niður þjónustu á stöðum eins og þar né annars staðar í landinu.

Aftur á móti er verið að forgangsraða og reyna að stokka upp á nýtt. Talað er um að hér ráði einhver pólitísk stefnumótun. Ég veit ekki við hvað er átt með því. Hún er pólitísk að því leyti að það er heilbrigðispólitísk stefnumótun fólgin í því að verja heilsugæsluna, reyna að verja grunnþjónustuna og reyna að koma hlutum þannig fyrir að fólk fái góða og örugga heilbrigðisþjónustu en aftur á móti er skurðstofuþjónusta færð á betur búin sjúkrahús.

Ég hef auðvitað ekki tíma í stuttu andsvari til að fara ítarlega yfir málin. Ég fékk nokkrar spurningar um kostnaðargreiningu og hvort aðrar leiðir hefðu komið til greina. Nú hef ég náttúrlega ekki verið nema stuttan tíma í ráðuneyti og get ekki svarað fyrir það sem á undan er gengið en þessi tillaga var unnin og skýrð út fyrir forstöðumönnum út frá ákveðnum reiknireglum. Reiknaður var ákveðinn legutími og ákveðið hlutfall þjónustu í tengslum við lyfjadeildir og hjúkrunarsvið. Þar á bak við lá ákveðið einingaverð og síðan var þetta sett í samhengi við íbúafjölda á hinum ýmsu svæðum. Ákveðið var að verja stóru spítalana, taka Ísafjörð með utan við og það er rétt að Akranes var þar inni, þ.e. nýsameinuð heilsustofnunin á Vesturlandi. Síðan var það Neskaupstaður og að hluta til átti að reyna að verja Vestmannaeyjar líka.

Ég hef komið því að að allir þessir aðilar hafa verið beðnir um að fara yfir það hvernig þetta getur litið út á hverjum stað. Ég hef gefið fyrirheit um að farið verði yfir þetta aftur og skoðað að nýju (Forseti hringir.) þegar þær hugmyndir koma fram. Við töluðum bara um 2–3 vikur miðað við að þingið væri hér á milli 1. og 2. umr. fram í nóvember. Þá mundum við koma með þær tillögur inn í fjárlaganefnd á milli umræðna.



[15:07]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa a.m.k. einhver fyrirheit um að þetta verði endurskoðað. En ég verð að mótmæla því sem hann segir hér, í nokkrum atriðum. Hann segir að ákvörðun hafi verið tekin um að verja stóru spítalana. Ég fór yfir það í ræðu minni og það kemur fram í greininni í Morgunblaðinu sem ég vitnaði til áðan, að bæði forstjóri Landspítalans og forstjóri FSA á Akureyri telja sig ekki í stakk búna til að taka við meiru að óbreyttu. Þar sé búið að skera inn að beini og ekki hægt að taka við meiru án þess að einhverjar breytingar komi til. Alvarlegast er að ekki hefur verið haft samráð við þessar stofnanir um hvernig bregðast eigi við. Ekki hefur verið haft samráð við þær stofnanir þar sem skera á niður og þar er fólk sem hefur starfað þar árum saman. Ég talaði við forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sem ég hef gert oft og ítrekað, og ég hef fylgst með því hvernig sú stofnun hefur reynt að sníða sér alltaf æ minni stakk eftir vexti en þrátt fyrir það kemur fyrirskipun núna um 24% ofan á allt hitt, án þess að búið sé að ræða það við einn eða neinn. Og hæstv. ráðherra sagði að það ætti að verja Vestmannaeyjar — af hverju skilur þá bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum þetta svona, með leyfi forseta?

„Verði þetta niðurstaðan er einfaldlega verið að leggja niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum í þeirri mynd sem við höfum þekkt“ hingað til. Og það er málið, þó svo að verið sé að tala um að taka heilsugæsluna fram fyrir. Ég verð líka að mótmæla því sem sagt var um að færa skurðþjónustu til betur búinna spítala. Skurðstofurnar í Reykjanesbæ eru með þeim best búnu á landinu. Því vil ég ítreka spurningu mína til ráðherrans sem ég setti fram í ræðu minni: (Forseti hringir.) Á að gera þeim kleift að nýta þá góðu aðstöðu sem þar er? Og vill (Forseti hringir.) ráðherrann útskýra fyrir mér hvernig þetta eigi að ganga?



[15:10]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka traustið að gefa mér tvær mínútur til að útskýra hvernig við eigum að ná þessari hagræðingu á öllu landinu. Ég held að það sé ofætlun og ég muni því miður ekki geta svarað því þannig. Ég skal reyna að svara því sem hefur nú komið fram. Ég þakka fyrir að útskýrt var að ekki ætti að leggja niður heilbrigðisþjónustu, aðeins í þeirri mynd sem hún hefur verið. Það segir sig sjálft að þegar við skerum niður 4,8 milljarða kr. í heilbrigðisþjónustu af 97, verður þjónustan ekki óbreytt yfir landið allt. Þannig er það, svo það sé nú sagt.

Varðandi samráðið kallaði ég til allar heilbrigðisstofnanir. Talað hafði verið við heilbrigðisstofnanir á Akureyri og eins Landspítalann um að þessar stofnanir mundu fá á sig minni skerðingu ásamt heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Þeim var því kunnugt um það og vissu þar með hvað var í vændum annars staðar. En ég ætla ekki að fara frekar út í það sem rætt var á þeim fundum enda var ég ekki á þeim.

Ég kallaði til fulltrúa frá öllum þessum heilbrigðisstofnunum eins fljótt og ég var búinn að setja mig inn í málin og gerði þeim grein fyrir hvaða reglum væri unnið eftir. Ég áskildi mér þar með rétt, og hef gert það formlega og það hefur komið fram hér áður, til að fara yfir þetta og endurskoða eftir þeim upplýsingum sem ég fæ eftir þá yfirferð.

Varðandi skurðstofurnar á Suðurnesjum get ég upplýst að ég hefði verið alveg til í að skoða þann möguleika að nýju. Þar er verið að undirbúa byggingu á nýju sjúkrahúsi og ég held að það væri nú vit ef menn á Suðurnesjum færu a.m.k. yfir það og skoðuðu þau framkvæmdaáform sem uppi eru á Keflavíkurflugvelli þar sem er verið að breyta sjúkrahúsi í dótturfélag í Kadeco. Sú vinna er hafin og okkur sem voru í fjárlaganefnd var kunnugt um það. Það er ekki okkar að stoppa það en aftur á móti getur Alþingi gert það. Ég tel eðlilegra að nýta skurðstofurnar á spítalanum á Suðurnesjum og hef tjáð mig um það.

Varðandi önnur atriði sem komu fram í ræðunni og eru mjög athyglisverð og þarf að ræða er hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga er. Hún er afar mismunandi og tilviljunarkennd. Þar er fyrst og fremst verið að vinna með lyfjakostnaðinn í augnablikinu og búa til eitthvert kerfi í kringum það til að verja fólk gegn því að vera með himinháan lyfjakostnað (Forseti hringir.) og jafna honum á þá sem nota miklu minna af lyfjum. Vonandi komum við því í gang strax í upphafi næsta árs.



[15:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, hann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til að skoða að skurðstofurnar í Reykjanesbæ mætti hugsanlega leigja til einkaaðila svo þær gætu aflað sjúkrahúsinu tekna. Verið er að byggja annað sjúkrahús vegna þess að tekið var fyrir það í tíð forvera hæstv. ráðherra að skurðstofurnar í Keflavík væru notaðar. Ég vona að því verði forðað að þetta verkefni verði sett í enn meira uppnám, ég vona að ekki sé verið að boða að rugga þeim bát. Ég segi þetta vegna þess að hægt væri að koma inn fleiri verkefnum. Við skulum taka hitt út fyrir sviga og rugga ekki fleiri bátum varðandi atvinnuverkefni á Suðurnesjum, nóg er nú samt.

Já, það á að leggja niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum í þeirri mynd sem hún er, það er alveg rétt. Sú mynd er m.a. að fæðingar munu leggjast af vegna þess að skurðstofunni verður lokað. Það sama verður upp á teningnum á Selfossi, í Reykjanesbæ og á fleiri stöðum. Þá spyr ég, með tilliti til þess sem hæstv. ráðherra sagði — nú er ég reyndar frekar ósanngjörn vegna þess að hæstv. ráðherra á ekki annað andsvar en hann getur hvenær sem er komið inn í ræðu og það væri gott að fá þetta fram: Hvernig á fæðingardeildin á Landspítalanum að geta tekið við öllum þessum fæðandi konum þegar skýrt hefur komið fram að ekki er meira fé til umráða? Og það er ekki hægt að bæta við að óbreyttu segja forstjórar bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það er alveg rétt að þeir vissu þetta og það kom fram í máli mínu að forstjóri Landspítalans vissi hvað að honum mundi snúa en hann sagði það sérstaklega (Forseti hringir.) að hann vissi ekki hvernig niðurskurðurinn á landsbyggðinni yrði. Og það kom honum verulega á óvart.



[15:15]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það vekur athygli mína við þá umræðu sem hér hefur verið í gær og í dag um fjárlögin hversu lítið við vitum um það hvaða áhrif þetta kann að hafa á þá þjónustu sem veitt er á vegum ríkisins vítt um land. Þar vil ég helst ræða tvo meginþætti. Annars vegar vil ég fylgja eftir umræðu um heilbrigðisþjónustuna og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru ef fjárlögin verða samþykkt. Hins vegar vil ég ræða opinber fjármál, þ.e. samspil ríkisfjármála og fjármála sveitarfélaga.

Varðandi þá umræðu sem orðið hefur um heilbrigðismálin er óhjákvæmilegt að tengja þær tillögur sem hér liggja fyrir því ráðslagi sem verið hefur á ríkisstjórn Íslands varðandi skipan Stjórnarráðsins. Í mínum huga eru miklar spurningar uppi um það hversu heppilegur hringlandahátturinn hefur verið í ráðherraskiptum hjá ríkisstjórninni. Þetta er ekki sagt með neinum hnjóðsyrðum í garð núverandi hæstv. ráðherra, alls ekki, þó svo að hann hafi látið þau orð falla fyrst eftir að viðbrögðin við frumvarpinu komu fram að hann hefði ekki haft tækifæri til að kynna sér þær tölur sem í því væru.

Það er hins vegar umhugsunarefni hvers vegna ekki er hægt að leggja fram frumvarp í þessum efnum, þetta svokallaða hrunfrumvarp, án þess að strax við framlagninguna sé komið hik á mannskapinn. Hér er á ferðinni alvörumál. Við ræðum gríðarlegan niðurskurð í grunnþjónustu um allt land. Enginn ætti að stunda það verklag að leggja fram slíkar tillögur nema að vel athuguðu máli og að höfðu miklu samráði við alla hlutaðeigandi. Þetta er ekki til sóma.

Eins og komið hefur fram í umræðum stendur til að halda borgarafundi vítt um land. Ég veit til þess að á Húsavík verður haldinn fundur á morgun. Það er greinilega mjög sár kvika þar í bæ því að ég fékk upplýsingar um það áðan að þeir yrðu að skipta um húsnæði og fara í stærsta húsnæðið á staðnum. Fundurinn verður haldinn í íþróttahúsinu á Húsavík á morgun klukkan fjögur. Ég skora á hæstv. ráðherra heilbrigðismála og hæstv. fjármálaráðherra að mæta til þessara funda sem þeim er boðið á, þó ekki væri til annars en að hlýða á þær raddir sem þar eru uppi. Mér finnst það eðlilegt. Mér finnst það sjálfsagt í ljósi þeirra alvörumála sem um er að ræða.

Ég gerði stöðuna á Húsavík að umtalsefni í gær. Það er önnur stofnun í því kjördæmi sem ég var kjörinn á þing fyrir, sem er Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem fer ekki síður illa út úr því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þar á bæ gerðu menn ráð fyrir því, eins og raunar innan fleiri ríkisstofnana á þessu sviði, að vinna að hagræðingu upp á 5–6%, höfðu áður unnið á síðasta ári að niðurskurði upp á 11% og þar á undan upp á 4–5%. Þá fá þeir þetta í hausinn. Til marks um það hversu illa grundað þetta dæmi allt er vil ég nefna tvö atriði.

Í fyrsta lagi er heilsugæslusviði á Heilbrigðisstofnun Austurlands gert að spara 43 milljónir. Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Jú, að það sé ein heilsugæslustöð á svæðinu. Það eru óvart reknar þrjár heilsugæslustöðvar þar. Ef þessi hagræðing ætti að nást verður að byggja við þessa einu sem ætti að taka við þessu öllu saman og selja þá hinar ef menn vilja fá eitthvað fyrir féð. Í annan stað er sjúkrasviðið skorið niður um tæpar 430 milljónir þrátt fyrir að búið sé, og það liggi fyrir í útreikningum, að sýna fram á þjóðhagslega hagkvæmni þess að reka sjúkrahúsið með álíka hætti og gert er fyrir austan.

Hin athugasemdin sem ég geri efnislega við þetta mál er sú að þrátt fyrir allan þennan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Austurlands, allt upp í 52% niðurskurð, er samt sem áður gert ráð fyrir því að þessi sama stofnun nái að innheimta sömu sértekjur og áður var. Það er gjörsamlega fráleitt að þetta náist og þá er grunnurinn undir öllu því sem lagt er fram í þessu fjárlagafrumvarpi farinn. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið um það að á þeirri stofnun sem hér um ræðir ræða menn það einnig hversu sláandi samráðsleysið við stofnanirnar er og hefur verið.

Hitt atriðið sem ég vil gera að umtalsefni eru hin opinberu fjármál, samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Ég átti orðastað við hæstv. dómsmála-, mannréttinda-, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skammstafað dmss., hér áðan fyrir þingfund. Okkur samdist um að taka upp utandagskrárumræðu um þetta mál svo fljótt sem auðið er þannig að ég virði fjarveru hans á þessum fundi.

Þegar maður lítur yfir rekstraryfirlit frumvarpsins sér maður að það eru fyrst og fremst fjórir málaflokkar sem taka á sig höfuðþungann í þessum tillögum; það eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og síðan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þetta eru þeir þættir sem hafa mjög mikið að segja um afkomu sveitarfélaga og þau viðfangsefni og verkefni sem þeim er ætlað að sinna að lögum.

Þegar maður horfir á tilfærsluhlutann í fjárlagafrumvarpinu, hina hagrænu skiptingu gjaldanna, er burðurinn í niðurskurðinum í rekstrar- og neyslutilfærslunum í Atvinnuleysistryggingasjóði, í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og í bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það er óhjákvæmilegt að staldra örlítið við þessi dæmi í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað á síðustu mánuðum um fjárhagslega afkomu sveitarfélaga. Það eru allir sammála um það að fjárhagsleg staða þeirra margra er gríðarlega veik og með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, meðal annars um jöfnunarsjóðinn, mun þeim ekki verða gert auðveldara um vik að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að glíma. Ég man í svipinn ekki hversu mörg sveitarfélög eru komin undir eftirlit eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en þau eru ærið mörg. Ég geri ráð fyrir að viðfangsefni þeirrar nefndar muni verða risavaxið að vöxtum þegar áhrifin af óbreyttu fjárlagafrumvarpi munu koma fram á næsta ári.

Ég hef upplýsingar um að að óbreyttu megi ætla að framlög sveitarfélaganna til að standa undir afskriftum, fjármagnskostnaði og framkvæmdum verði um 6% af tekjum en lækki í 2% á næsta ári, og þá sjá allir hvert stefnir. Það liggur hér fyrir að niðurskurðurinn í jöfnunarsjóðinn, 1,5 milljarðar, bitnar að sjálfsögðu á þeim sveitarfélögum sem erfiðast áttu um vik fjárhagslega. Aukaframlagið, sem hér er gerð tillaga um að skera niður, mun bitna á þeim sveitarfélögum sérstaklega.

Ég hef því miklar efasemdir um það hvernig þetta er unnið og spyr hvort fyrir liggi einhver greining á því hvernig viðbrögðin við þessu eiga að vera. Ég hef miklar efasemdir um að rétt sé staðið að verki með undirbúning að svona grundvallarbreytingum á þjónustuþáttum sem snúa að grunnþörfum íbúa sveitarfélaga.



[15:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri stuttu ræðu sem ég held hér ætla ég ekki að fara í alla þætti fjárlagafrumvarpsins. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þeim forsendum sem liggja til grundvallar frumvarpinu og þeirri áráttu ríkisstjórnarinnar að gera hvað hún getur til að koma í veg fyrir atvinnusköpun. Það mun gera okkur þetta verkefni enn erfiðara en raun ber vitni. Ég hef rætt það úr þessum stól, Reykjanesið er kannski skýrt dæmi þar um. Þrátt fyrir að orð hæstv. fjármálaráðherra hafi verið mildilegri í umræðu hér um daginn en oft áður í tengslum við það svæði, sem gefur okkur von um að menn séu að sjá að sér, er ekkert fast í hendi hvað það varðar.

Ég ætla hins vegar, og það kemur kannski ekki neinum á óvart, að ræða sérstaklega heilbrigðismálin í frumvarpinu. Af því að hæstv. fjármálaráðherra er hér held ég að það væri ágætt að lesa úr viðtali við hann þegar hann var í stjórnarandstöðu og menn fóru af stað með þetta erfiða verkefni sem öllum var ljóst í október 2008 að yrði að leysa. Það var öllum ljóst, hverjum einasta stjórnmálamanni, hverjum einasta landsmanni, að spara þyrfti í ríkisfjármálum. Ég var þá heilbrigðisráðherra og fór í það verkefni og kallaði saman allt það besta fólk sem hægt var að ná í með skömmum fyrirvara. Það fólk vann mikið verk sem hafði það að markmiði að halda úti þjónustu með minni fjármunum. Þá sagði, virðulegi forseti, núverandi hæstv. fjármálaráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið:

„Ég held að það sé alveg augljóst mál að ef heilbrigðisráðuneytið kæmi í okkar hendur yrði eitt af því fyrsta sem ráðherra þar yrði líklegur til að gera að endurskoða það …“ — þ.e. þær tillögur sem þáverandi ríkisstjórn var með — „einfaldlega vegna þess að þær breytingar voru unnar svo ákaflega flausturslega, ætlaðar allt of skammur tími til að hrinda þeim í framkvæmd án samráðs við fagfólk. Þannig að þó ekki væri nema til þess að gefa eðlilegar kringumstæður í því máli væri nú, held ég, skynsamlegt að byrja á því að fresta gildistöku þeirra og skoða breyttar áherslur á því sviði sem eru fullt eins vænlegar. Því að flestir sem ég hef hitt hafa nú reiknað með því að skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra mundu kosta peninga á þessu ári en ekki spara þá.“

Virðulegi forseti. Þetta var tónninn sem var gefinn og þegar hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, var sestur í ráðherrastólinn og einnig félagi hans í hinni fylkingunni í Vinstri grænum, þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, fóru menn um landið og lofuðu því að ekki yrði nokkur skapaður hlutur gerður og menn þyrftu nú ekki að hafa áhyggjur af þessum niðurskurði eða að það þyrfti að taka á þessum málum. Menn ákváðu með öðrum orðum að fresta vandanum. Nú sitjum við uppi með efndirnar hjá Vinstri grænum þegar kemur að heilbrigðismálum.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að gera neitt annað en að reyna að hjálpa ríkisstjórninni og þeim sem vinna það erfiða verkefni til að ná sem bestri niðurstöðu. Það er það sem ég ætla að gera. Ég held hins vegar að það sé hollt og gott fyrir aðila að rifja þetta aðeins upp því að þetta er skólabókardæmi um populisma sem á sér enga innstæðu. Því miður blésu menn af alla þá undirbúningsvinnu sem búið var að vinna. Menn frestuðu nokkurn veginn öllum aðgerðum ef sameining á Vesturlandi er undan skilin. Að vísu tóku menn engar ákvarðanir til baka sem teknar höfðu verið í minni tíð. Þó að menn hafi mótmælt því á sínum tíma held ég að þeir finni hve gott er að hafa t.d. faglega stjórn á Landspítalanum. Því var ekki vel tekið í þessum sal þegar farið var út í þær aðgerðir að koma faglegri stjórn almennt á heilbrigðisstofnanir í landinu.

Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra leiðrétti mig ef ég hef misskilið hann en mér fannst heyrast nýr tónn hjá hæstv. heilbrigðisráðherra þegar kom að því að nýta þá aðstöðu, þá glænýju aðstöðu, sem er ónotuð eins og t.d. á Reykjanesi og var búið að gefa heimild til að leigja út til að skapa gjaldeyristekjur, en fyrirmaður núverandi heilbrigðisráðherra, eftirmaður minn, stöðvaði. Hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir það að þess í stað er verið að byggja nýjan spítala við hliðina á glænýja spítalanum sem er ónotaður á Reykjanesi. Við sitjum þá uppi með tvo glænýja spítala á Reykjanesi hlið við hlið, annar ónotaður, hinn væntanlega í nýtingu. Nú getur hver og einn dæmt um það hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun fjármuna.

Virðulegi forseti. Þegar ég fór frá þessu verki voru verkefnisstjórnir um allt land að vinna með fólki sem best þekkti til sem var starfandi í viðkomandi stofnun. Ég ætla aðeins að fara hér yfir það hvað þetta var.

Þetta var vinnuhópur um skurðstofur. Þetta var vinnuhópur um flutning meltinga- og lyflækningadeildar St. Jósefsspítala, vinnuhópur um öldrunarlækningar í Hafnarfirði, vinnuhópur um fæðingarþjónustu á Suðurlandi og Suðurnesjum og stuðningshópur ráðuneytisins. Á Norðurlandi var vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um skipulag sérhæfðra þjónustu- og hjúkrunardeilda, vinnuhópur um sjúkraflutninga, vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu, vinnuhópur um stoðdeildaþjónustu. Á Suðurlandi var vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um sérhæfða starfsemi sjúkradeilda, vinnuhópur um sjúkraflutninga, röntgen-, rannsókna- og stoðdeilda. Á Vesturlandi var vinnuhópur um sjúkraflutninga, vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu, vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um sérhæfða þjónustu sjúkra- og hjúkrunardeilda. Hópavinna á Vestfjörðum var ekki farin á stað vegna þess að veðurfar var þannig að ekki var hægt að koma saman fundum, en það var í undirbúningi.

Ég er með örlítið af niðurstöðum hér í skýrslum sem allar voru unnar af fólki sem var að vinna á viðkomandi stað, af fólki sem var að vinna á viðkomandi stofnunum.

Virðulegi forseti. Við tölum um mikilvægi þess að vinna saman. Menn nefna það iðulega varðandi virðingu Alþingis að við eigum að láta dægurþras og ríg þagna og vinna saman að einhverju sem við erum öll sammála um. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann viti, því að ekki ber hann ábyrgð á því, nýtekinn við — því miður fór ríkisstjórnin í það, virðulegi forseti, einhverra hluta vegna að sameina tvö erfiðustu velferðarráðuneytin í eitt við þær aðstæður sem uppi eru. Guð einn veit af hverju það var gert. En ég vil spyrja — því að nú var það ekki ég sem var að semja þetta, þetta er ekki flokksályktun Sjálfstæðisflokksins, þetta er fagfólkið á viðkomandi stöðum sem var að vinna að því, fyrir tveimur árum tæplega, að ná hagræðingu á þessum svæðum, halda uppi þjónustunni á þessum svæðum, því það vissu allir að það yrðu minni fjármunir — af hverju þessu var öllu hætt? Af hverju fólkið var bara sent heim og sagt að hætta að vinna að þessu?

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra — vegna þess að hann hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að taka á hinu mikla böli sem við lögðum mikla vinnu í að vinna gegn, þ.e. offitu og hreyfingarleysi, sérstaklega hjá ungmennum — hvað hafi orðið um heilsustefnuna sem búið var að vinna að í tæplega tvö ár og tugir ef ekki hundruð manna komu að, allt sérfræðingar. Af hverju var hún bara sett einhvers staðar neðst niður í skúffu?

Ég get nefnt fleira, virðulegi forseti, en í þessu fjárlagafrumvarpi horfum við fram á að ekkert samráð hefur verið haft við stjórnendur þessara stofnana sem eiga að fara með þetta. Þetta kemur gersamlega á óvart því að þeir eru búnir að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra og helstu forustumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fara yfir það að þeir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Og nú fá þeir þetta fjárlagafrumvarp. Ég er búinn að lesa það og skoða og þykist þekkja málaflokkinn ágætlega og ég átta mig ekki á því hvernig á að framkvæma þetta, hvernig menn ætla að fara í þessa hluti.

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra mundi upplýsa okkur um það í andsvari af hverju menn hættu þessari vinnu allri saman sem er augljóslega nauðsynlegt að vinna? (Forseti hringir.)



[15:35]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki svarað nákvæmlega af hverju þeirri vinnu sem hv. þingmaður vitnar í hafi verið hætt. Það var löngu fyrir minn tíma. Aftur á móti staðfestist það með ágætri ræðu hv. þingmanns að öllum mátti vera ljóst að hér yrði að fara í breytingar og hagræðingu. Það hafði einmitt verið unnið að því að skipta landinu upp í heilbrigðissvæði. Þar hafa menn verið í samstarfi innan svæðanna og þeim aðilum hefur öllum mátt vera ljóst að um yrði að ræða verulega hagræðingu. Þó ætla ég ekki að draga dul á það að margir áttu þó von á því að hún yrði hóflegri á ákveðnum svæðum og þess vegna höfum við auðvitað áskilið okkur rétt til þess að fara yfir það og skoða það betur.

Full ástæða er til að þessi vinna haldi áfram og það verði einmitt mótuð áfram sú stefna að reyna að skilgreina betur og ljúka þeirri vinnu hvaða þjónusta eigi að vera á hverju svæði, hversu langt eigi að vera í hana, innan hvers tíma eigi að vera hægt að veita þá þjónustu og hvaða þjónustu verði að veita miðlægt. Þetta er auðvitað það sem er verið að fást við og er í raun byggt á grunni sem kemur frá eldri heilbrigðisráðherrum. Ég þakka þau orð fyrrverandi heilbrigðisráðherra að hann bjóði fram aðstoð sína við þá vinnu sem fram undan er.

Hv. þingmaður nefnir skýrslu sem gerð var af honum um offitu og hreyfingu. Hún er ekki lengur ofan í skúffu, heldur hef ég dregið hana fram. Það er stutt síðan ég var á mjög ánægjulegum viðburði í Flensborg þar sem verið var að vinna með heilsueflandi framhaldsskóla og ég skrifaði undir áframhaldandi samning um verkefni sem hófst einmitt árið 2007. Þar var líka verið að skrifa undir HOFF-verkefnið, heilbrigði og forvarnir í framhaldsskólum, sem er afar mikilvægt verk og akkúrat í þeim anda og frá viðkomandi hv. þingmanni, (Forseti hringir.) þannig að engin hætta er á því að þessar skúffur séu lokaðar. Menn eiga auðvitað að hvetja okkur til dáða í því að vinna í forvörnunum áfram, eins og mikilvægt er á öllu landinu.



[15:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er ánægður með að heyra viðbrögð hans varðandi heilsustefnuna. Það plagg er með mælanleg markmið og afskaplega mikilvægt að koma þeirri stefnu í framkvæmd og ég mun styðja hæstv. ráðherra í því með ráðum og dáð. En við höfum tækifæri til að ræða það betur seinna.

Hæstv. ráðherra kom hér heiðarlega fram og sagði, og það kemur ekkert á óvart, að hann viti ekki af hverju þessu var hætt. Ég geri ekki athugasemd við það að þegar nýr aðili kemur í ráðuneytið hafi hann aðrar áherslur og vilji gera hlutina öðruvísi, en það sem ég geri athugasemd við er þegar menn gera ekki neitt, þegar menn fresta og skrökva, því það er það sem gerðist. Menn frestuðu og sögðu við fólkið að það þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Ég veit það, vegna þess að ég hef talað við fjölmarga aðila, bæði á heilbrigðisstofnunum, í bæjarfélögunum og annars staðar. Þetta var sagt fyrir kosningar. Og allan þennan tíma þegar var vitað að það þyrfti að fara út í þetta, var tíminn ekki nýttur til að undirbúa okkur undir hið óhjákvæmilega.

Það eru mjög sérstakar aðstæður á ýmsum stöðum. Þess vegna þurfum við að vanda vel til verka. Ég var í gær á mjög góðum fundi í Vestmannaeyjum. Það bæjarfélag hefur t.d. þá sérstöðu að það er á eyju. Það gilda ekki sömu lögmál þegar við erum að skoða heilbrigðisþjónustuna þar og annars staðar. Af hverju? Vegna þess að það er erfiðara að komast frá Eyjum en öðrum stöðum á landinu. Þar vorum við í ákveðinni vinnu, ég og núverandi bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, og búnir að leggja drög að því að skoða það sérstaklega þegar við fórum frá þessu máli. Þannig þarf að vinna þetta á öllum stöðum.

Hættan núna er að við erum hér með plagg, einhverja stefnu, sem á sér í raun engan talsmann og við höfum ekki notað það (Forseti hringir.) allan þennan tíma, í tæp tvö ár, til að undirbúa þá aðila sem eiga að framkvæma stefnuna. Það er gríðarlega alvarlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Við verðum að gera hvað við getum (Forseti hringir.) til að bjarga hlutum fyrir horn.



[15:40]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið sem ber nafn með rentu, hrunfjárlögin, en þar koma fram með alvarlegustum hætti afleiðingar af kreppunni og er kannski við hæfi að við ræðum þetta nú á tveggja ára afmæli neyðarlaganna, þar sem við teljum kreppuna hafa hafist á þeim degi, þótt kannski hafi hún hafist dálítið fyrr.

Mig langar kannski, virðulegi forseti, áður en ég fer í frumvarpið sjálft að fjalla dálítið um inngang svokallaðrar skýrslu um efnahagsstefnu eða þjóðhagsáætlun 2011 sem var lögð fram af efnahags- og viðskiptaráðherra 4. október samhliða því sem er grunnplagg í fjárlagagerðinni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Við breytingar á skipan Stjórnarráðsins 1. október 2009 var hagspárgerð fyrir forsendur fjárlagafrumvarpsins flutt frá fjármálaráðuneytinu til sérstakrar skrifstofu á vegum Hagstofunnar. Afleiðing þessa fyrirkomulags er m.a. sú að ekki liggur fyrir ný þjóðhagsspá að hausti heldur miðast fjárlagafrumvarpið við hagspá sem unnin var í júní.“

Forsendur eru þess vegna allar í raun og veru að miklu leyti brostnar eða alla vega að talsverðu leyti og tillögur kannski þar af leiðandi. Ég veit að hér hefur aðeins farið fram umræða um það og heyrði ég í hæstv. fjármálaráðherra með hvaða hætti þetta ætti að vera til framtíðar og vildi minna á það hér að við sem sátum í þingmannanefndinni lögðum til að nýrri þjóðhagsstofnun eða sambærilegri stofnun yrði falið þetta verkefni. Æskilegt væri að við skoðuðum það til framtíðar þótt kannski sé nú sérkennilegt að ræða um nýjar ríkisstofnanir á tímum þessa mikla niðurskurðar. En það hefur nú svo sem ýmislegt verið sett á laggirnar og verið meiningin að setja á laggirnar hér af ríkisstjórninni. Má þá nefna Bankasýsluna, Fjölmiðlastofu, svo fátt eitt sé nefnt.

Í innganginum að þessari efnahagsskýrslu er m.a. sagt að unnið sé að því að endurbyggja stöndugt fjármálakerfi með fjármögnun fjármálastofnana sem geta sinnt þörfum íslenskra heimila og fyrirtækja. Í því sambandi er kannski rétt að minnast á það hvort bankakerfið og fjármálakerfið séu ekki enn of stór, við hefðum frekar átt að miða stærð þeirra við innlán og þörf á innlendum markaði en þau útlán sem fyrir voru og við þurfum kannski að eiga eitthvað við það verkefni.

Í öðru lagi er sagt að verið sé að tryggja fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og hins opinbera til framtíðar með ýmsum hætti, betri skuldastýringu o.s.frv.

Í þriðja lagi hefur peningastefnan verið nýtt til að tryggja stöðugleika krónunnar. Er þá rétt að minnast þess að verulegur árangur hefur náðst í styrkingu krónunnar. Ég veit ekki hvort við getum þakkað ríkisstjórninni það, en gjaldeyrishöftin spila þar auðvitað stóra rullu. Staða krónunnar í samkeppni, eins veik og hún nú er, styrkir auðvitað útflutningsgreinarnar. Við munum kannski á næstu mánuðum, árum, jafnvel áratugum, búa við það að krónan verði mun veikari en hún var þegar hún var sem sterkust, enda var hún orðin allt of sterk og við munum væntanlega geta byggt upp atvinnulíf okkar á þeim útflutningsgreinum sem við þurfum að nýta. Það þyrfti kannski að setja meiri kraft í það.

Í fjórða lagi er fjallað um það að tryggja aðlögun skulda fyrirtækja og heimila. Þar er fjallað um að flöt niðurfelling skulda sé ekki skynsamleg. Síðar í því plaggi kemur líka fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að aðlögun skulda heimila sé mikilvæg er ljóst að flöt niðurfærsla skulda er ekki skynsamleg leið til þess að bæta fjárhagsstöðu almennings. Annars vegar vegna þess að langstærstur hluti skulda almennings er í eigu ríkissjóðs í gegnum Íbúðalánasjóð en lækkun á eignum Íbúðalánasjóðs þyrfti að fjármagna með eiginfjárframlagi ríkissjóðs.“

Hér er stöðugt haldið áfram því tali ríkisstjórnarinnar að neita í raun og veru að taka þátt í einhverjum almennum aðgerðum til þess að koma skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til aðstoðar. Ef við líkjum því við að verið sé að reka fólk fram af bjargbrún, þá er kerfi ríkisstjórnarinnar það að reyna að tryggja að einhver grípi þá sem falla og treysta því að þeir verði ekki of margir í einu. En því miður hefur það gerst að allt of margir falla og kerfið grípur þá ekki alla. Við, sem höfum aðhyllst það að menn færu í einhverjar almennar aðgerðir, höfum hins vegar reynt að snúa því þannig að hópnum verði snúið frá bjargbrúninni til að færri detti þar fram af.

Við þessa umræðu hefur ríkisstjórnin því miður þverskallast við að ræða við okkur um það sem ég held nú reyndar að sé að verða þverpólitískt í öllum flokkum. Ég held að þeir stjórnarþingmenn sem hafa viljað fara þá leið að fara í einhverjar almennar aðgerðir þurfi að hunsa ráðherra sína og við verðum að setjast hér niður og reyna að finna þær leiðir sem eru færar.

Auðvitað eru margar almennar aðgerðir færar sem við gætum tekið hér upp og rætt um. Við gætum t.d. sett þak á verðbólguna. Við gætum velt fyrir okkur að setjast yfir allar þær leiðir sem menn hafa nefnt, t.d. hvort hægt sé að kaupa upp þær skuldir sem verða ógreiðanlegar og setja í sérstakan sjóð – það er vissulega félagsleg aðgerð – og taka þær þannig út úr kerfinu, þá erum við að tala um lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð.

Alla vega þyrftum við að tryggja að þær afskriftir sem bankarnir fengu sannanlega á sínum tíma gangi til lántakendanna en safnist ekki upp sem verulegur hagnaður hjá bönkunum. Við getum auðvitað nefnt það og minnst þess hér að við sex mánaða uppgjör stóru bankanna þriggja skiluðu þeir um 27 milljörðum í hagnað, sem liggur fyrst og fremst í því að þær afskriftir sem þeir fengu við það að flytja lánin úr gömlu bönkunum í nýja eru taldar þeim til tekna og hagnaðar vegna þess að þeir færa ekki hagnaðinn til raunverulegra eigenda afskriftanna. Þetta var gert með almennum hætti, ekki var hvert lán tekið fyrir sig heldur stabbinn í heilu lagi, svo það sé nú minnst á það hér.

Það hefur líka talsvert verið rætt um og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur orðið fyrir talsverðri gagnrýni vegna þess að ekki á að skera mikið niður í hans eigin heimabæ og kjördæmi, en víðast hvar annars staðar á landsbyggðinni er skorið mjög gróflega og gengið nokkur gróflega til verks. Hæstv. ráðherra hefur réttilega sagt frá því að hann hafi nýlega verið kominn inn í ráðuneytið þegar þetta lá allt fyrir, en hins vegar hefur farið minna fyrir því að hæstv. ráðherra var jú formaður fjárlaganefndar og formaður og varaformaður fjárlaganefndar ásamt fulltrúum ríkisstofnana voru í svokallaðri ríkisfjármálanefnd og undirbjuggu þessi fjárlög. Þar hefur hæstv. ráðherra væntanlega komið nokkuð að máli og gæti því trúlega svarað fyrir sumt af því sem hér kemur fram þótt hann hafi ekki verið ráðherra heilbrigðismála á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er auðvitað, eins og við höfum margoft rætt, bæði við framsóknarmenn allir, ég hér í stól, og margir aðrir þingmenn, að auka tekjurnar. Það er því sláandi og sérkennilegt að velta því fyrir sér að menn átta sig ekki á því að öll mál eru atvinnumál, ég átti orðastað við hæstv. umhverfisráðherra fyrr í dag og þegar menn leggja steina í götu framkvæmda og uppbyggingar, t.d. með því að tefja afgreiðslu skipulagsmála, þá eru menn að koma í veg fyrir uppbyggingu atvinnumála og auknar tekjur.

Virðulegi forseti. Ég býst við að ég eigi að hafa lengri tíma þar sem þetta er fyrsta ræða mín í þessari umferð, en ég held að 10 mínútur séu liðnar.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Það eru einungis 10 mínútur til ráðstöfunar á hvern þingmann.)

Til ráðstöfunar? Þá hef ég misskilið það. Ég mun geyma frekari umræðu til seinni tíma, en ætlaði hér auðvitað að fjalla um þann geigvænlega niðurskurð sem er áætlaður í heilbrigðisgeiranum, ekki síst á landsbyggðinni, og þá aðför sem ég tel að þar sé verið að gera að þekkingu (Forseti hringir.) og nærþjónustu á landsbyggðinni, en ég mun geyma umræðu um það til seinni tíma.



[15:51]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 1. umr. fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011. Ég tel að margt sem hefur komið fram í umræðunni hafi verið afar gagnlegt. Ég ætla ekki að fara í gegnum frumvarpið í smáatriðum en get ekki annað en lýst áhyggjum af þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er í heilbrigðiskerfinu og þá sérstaklega heilbrigðisstofnunum víða um land. Með þessu má ekki skilja orð mín svo að ég átti mig ekki á mikilvægi þess að ná jöfnuði í ríkisrekstrinum og átti mig ekki á því að við þurfum að sýna aðhald eins víða og á eins mörgum sviðum og kostur er. Þarna eru gríðarlega mörg störf í húfi úti á landi, mörg kvennastörf. Ég held að við eigum að leita allra mögulegra leiða til að milda þær aðgerðir ef þess er nokkur kostur. Ég treysti því að fjárlaganefnd muni gera það í vinnu sinni á milli umræðna og líta, eins og stundum er sagt, í allar matarholur til að finna leiðir til að bæta úr.

Þrátt fyrir þetta tel ég að það hafi verið og sé tímabært að gera strúktúrbreytingar í heilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Tækni í heilbrigðisþjónustu hefur fleygt fram á undanförnum áratugum og framfarir orðið miklar eins og mönnum er vel kunnugt og það gerir að verkum að suma tegund þjónustu sem áður var hægt að veita á mörgum stöðum er ekki lengur hægt að veita hvar sem er, hreinlega vegna tæknilegra atriða, faglegra krafna og annars. Við verðum að horfast í augu við það. Við eigum þó jafnframt, og það er kannski tilgangurinn með því að ég kveð mér hljóðs við 1. umr., að finna leiðir til að nýta bæði þau mannvirki og þann mannafla sem er í heilbrigðisþjónustunni út um allt land til annarra og kannski kostnaðarminni verka sem tryggja áfram þessa grunnþætti. Í fyrsta lagi að þeir starfsmenn sem búa og vilja búa úti á landi og eiga þar jafnvel eignir o.s.frv., hafi áfram tök á því, en geti þá jafnframt unnið að verkefnum sem er hægt að vinna bæði faglega og fjárhagslega á þeim stöðum sem um ræðir.

Ég mun í 2. umr. fylgjast grannt með því hvernig fjárveitingunum til heilbrigðiskerfisins reiðir af. Ég ítreka að auðvitað er mikilvægt að sýna aðhald og reyna að milda niðurskurðinn eins og kostur er en við verðum að reyna hvað við getum til að láta stofnanirnar njóta þess mannafla og þess vits sem er á stöðunum til að sinna góðum verkum. Ég treysti fjárlaganefnd til að vinna það verk á milli umræðna.



[15:55]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu segja örfá orð og fyrst og fremst þakka fyrir umræðuna sem hefur verið málefnaleg og hófstillt þó vissulega mætti segja að boðskapur frumvarpsins gæfi mönnum tilefni til að láta dálítið gamminn geysa. Ég leyfi mér að líta svo á að það sé einfaldlega vegna þess að meðal allra þingmanna sé mikill skilningur á því við hvað er að glíma og mikilvægi þess að tekist sé á við þessi verkefni, erfið sem þau eru — að ná böndum á hallarekstri ríkisins og gera ríkisfjármálin aftur sjálfbær.

Ég hef brugðist við í andsvörum eftir því sem ég hef séð ástæðu til að svara beint jafnóðum og vísa til þess. Að öðru leyti vil ég tæpa á fáeinum atriðum sem hafa meira en önnur svifið yfir vötnum umræðunnar. Í fyrsta lagi það sem margir hafa gert að umtalsefni; hinn þjóðhagslegi grunnur sem frumvarpið byggir á, horfurnar í þeim efnum og hvort það sé byggt á of bjartsýnum spám, t.d. frá vorinu. Ég hef áður útskýrt hvers vegna fjárlagafrumvarpið verður að byggja á einni tiltekinni þjóðhagsspá. Ekki er hægt að tína út úr henni einstakar breytur, jafnvel þó vísbendingar hafi síðar komið fram um að eitt og annað sé að stefna í aðrar áttir. Ekki er hægt að notast við spár úr einni átt um minna atvinnuleysi, spár úr annarri átt um meiri styrkingu gengisins og spár úr þriðju áttinni um meiri samdrátt landsframleiðslu eða eitthvað í þeim dúr. Byggja verður á einni heildstæðri spá. Niðurstaðan varð sú, eins og verklagið er í þeim efnum núna, að það yrði að vera þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní, að því einu frátöldu að ákveðnar upplýsingar úr ríkisbókhaldinu sjálfu eru auðvitað hafðar til hliðsjónar og hafa viss áhrif á mat á einstökum tekjustofnum o.s.frv.

Ég hlýt að endurtaka það sem ég hef áður sagt að í það heila tekið er ekki tilefni til að gera ráð fyrir miklum frávikum, jafnvel þótt horft sé til þess hvað aðrir aðilar hafa spáð upp á síðkastið. Seðlabankinn spáir nokkru lægri hagvexti á næsta ári, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svipuðum. Vísbendingar sem við höfum til að styðjast við ganga í báðar áttir.

Í öðru lagi hafa menn nokkuð rætt um mikilvægi þess að koma hagkerfinu í gang og á snúning og að hér verði fjárfesting og uppbygging. Sýnist nú kannski sitt hverjum um hvað reynt hefur verið að gera í þeim efnum. Ég bendi mönnum fyrst og fremst á 6. kafla fyrra heftisins þar sem farið er nokkuð yfir þau mál og m.a raktar ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til á síðustu tveimur árum sem lúta að því að reyna að styðja við atvinnulífið í gegnum erfiðleikana. Sumar þeirra hafa verið tímabundnar ívilnanir til að auðvelda mönnum að gera upp, dreifa gjalddögum og annað í þeim dúr, aðrar varanlegri.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur ríkið lagt þó nokkuð af mörkum þegar saman er talið. Þar má nefna auknar fjárveitingar til viðhalds opinberra mannvirkja sem bætt var sérstaklega í 500 milljónum á þessu ári sem leiddi til þess að unnið verður í ár fyrir um 3,2 milljarða í slíkum viðhalds- og endurbótaverkefnum. Það er með því mesta sem gert hefur verið þrátt fyrir þetta erfiða árferði.

Ríkið lagði fram helminginn af 700 millj. kr. markaðsátaki í ferðaþjónustunni til að bregðast við þeim blikum sem þar drógust upp á himinn í kjölfar náttúruhamfaranna í vor. Umtalsverðir fjármunir hafa verið lagðir í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn. Búið er að setja ívilnanir fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði og sumarhúsum og reyndar að hluta til á fasteignum sveitarfélaga var hækkuð úr 60% í 100%. Nú var bætt við með lögum sérstökum skattaívilnunum fyrir einstaklinga sem ráðast í slíkar fjárfestingar (Forseti hringir.) og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Ég vísa mönnum, frú forseti, og er alveg að ljúka máli mínu, á 6. kafla.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið við umræðuna og brugðist við spurningum sem bornar hafa verið upp og vissulega hafa heilbrigðismálin verið mikið rædd. Mér sýnist vera víðtæk samstaða meðal þingmanna um að þann þátt þurfi að skoða mjög vandlega í vinnu fjárlaganefndar. Ég er að sjálfsögðu sammála því.

Að öðru leyti vil ég fyrst og fremst þakka fyrir málefnalega umræðu og þann vilja sem talsmenn flokka, forustumenn í fjárlaganefnd og aðrir hafa sýnt og lýst sig reiðubúna til að vinna að þessum vandasömu verkefnum saman inni í fjárlaganefnd.