139. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2010.
stjórnarskipunarlög, 1. umræða.
frv. SF o.fl., 7. mál (þingseta ráðherra). — Þskj. 7.

[17:21]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Sú er hér stendur er 1. flutningsmaður en aðrir flutningsmenn eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Þetta frumvarp er ekki mikið í sniðum hvað textann varðar, þetta eru einungis tvær greinar. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Síðari málsl. 51. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:

Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Þetta er 1. gr. og 2. gr. er einungis um að lögin öðlist þegar gildi.

Í greinargerðinni kemur fram forsaga þessa máls en hún er æðilöng að mínu mati. Það var fyrir 12 árum sem sú er hér stendur flutti þetta mál í fyrsta sinn á 123. þingi og var þá ein flutningsmaður. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og æ fleiri hafa snúist á sveif með mér í þessu máli. Nú eru flutningsmenn fleiri og öll umræðan í samfélaginu er á þeim nótum að stíga eigi þetta skref, þ.e. að aðskilja algerlega löggjafarvald og framkvæmdarvald með því að ráðherrar geti ekki verið þingmenn á sama tíma, með báða hattana á, framkvæmdarvaldshattinn og löggjafarvaldshattinn.

Búið er að flytja málið í sex skipti, þetta er í sjöunda sinn sem sú er hér stendur flytur málið fram. Ég vil líka nefna að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti frumvarp á 130. löggjafarþingi sem var svipaðs eðlis en þetta mál flutti sú er hér stendur, 1. flutningsmaður, á 123. löggjafarþingi, síðan á 131., 132., 135., 136. og 138. þingi og núna loks á 139. löggjafarþingi, þannig að þetta er orðin mikil saga.

Núna eru miklar umræður um stjórnlagaþing og það fer að bresta á að við fáum afurð stjórnlagaþings þegar það hefur unnið vinnu sína. Stjórnlagaþing á einmitt að skoða stjórnarskrána og koma með tillögur um hvernig hana má bæta. Þá verða þessi mál örugglega tekin fyrir, þ.e. aðskilnaður meginþátta valds, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Íslenskt réttarríki byggir á hugmyndum franskra umbótasinna á 17. og 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þessa þrjá þætti, dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald og það endurspeglast í stjórnarskrá okkar í 2. gr. Hugsunin að baki þeirri skiptingu er að hver valdhafi um sig takmarki vald hins en hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig á þó að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskráin byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir því að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn og það er galli. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er því í raun ekki eins mikill og 2. gr. stjórnarskrárinnar áskilur.

Ég vil líka draga það fram að oft er talað um að meginhluti vinnunnar á Alþingi fari fram í nefndum. Það er rétt en sú hefð hefur skapast að ráðherrar eigi ekki sæti í nefndum þingsins enda mundu þeir aldrei komast yfir það verk sökum anna þannig að fyrirkomulagið sem við höfum núna leiðir til þess, svo framarlega sem allir ráðherrarnir eru líka þingmenn, að um sjötti hluti þings er ekki virkur nema að litlu leyti í þingstarfinu.

Ég vil líka benda á að við umræður um hvort ráðherrar eigi líka að vera þingmenn hefur oft verið sagt hvort það ætti ekki að hafa fyrirkomulagið þannig að sitjandi ráðherrar geti sagt sig frá þingmennsku og varamaður tekið við eins og lögin eru í dag. En það er mjög ólíklegt að sitjandi ráðherrar geri það vegna þess að ef þeir missa ráðherrastólinn eiga þeir ekki afturkvæmt þegar þeir hafa afsalað sér þingmennsku. Það færi líklega engin skynsamur sitjandi ráðherra sem einnig er þingmaður að afsala sér þeim möguleika að koma til baka ef hann missir ráðherradóm af einhverjum sökum. Sú er hér stendur hefur einmitt verið í þeim sporum að fara úr þeirri stöðu að vera sitjandi ráðherra í það að þurfa að víkja vegna stólaskipta við annan flokk. Ef sú er hér stendur hefði líka sagt af sér þingmennsku hefði hún ekki átt afturkvæmt á þing fyrr en eftir kosningar eftir að hafa þá náð að endurheimta þingsætið, sem menn vita ekki alltaf hvort gengur upp. Núverandi ráðherrar eru í erfiðri stöðu að þessu leyti. Samkvæmt núgildandi lögum er ekki hægt að krefja þá um að afsala sér þingmennsku ef þeir eru jafnframt þingmenn. Því þyrfti að breyta þannig að ráðherrar sem eru jafnframt þingmenn eigi afturkvæmt ef þeir missa ráðherrasæti eða þurfa að víkja úr ráðherrasætum.

Breytingin sem hér er lögð til endurspeglar löggjöfina eins og hún er í Noregi og Svíþjóð en þar hefur þetta fyrirkomulag reynst vel. Þingmenn frá þessum ríkjum eru hissa því að við höfum núverandi kerfi, að þingmenn geti verið ráðherrar á sama tíma, og skilja lítið í því. Þeir eru svo vanir öðru kerfi og algerum aðskilnaði. Við höfum stundum notað orðið ráðherraræði. Ráðherraræði er ansi sterkt þegar ráðherrarnir eru flestir ef ekki allir jafnframt sitjandi þingmenn. Ég vil nefna sem dæmi að þegar Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum voru í ríkisstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum, hvor á sínum tíma, voru þeir í þessari stöðu. Svo ég tali bara fyrir hönd Framsóknarflokksins vorum við í þeirri stöðu að af 12 ráðherrum átti Framsóknarflokkurinn sex ráðherra og þingflokkurinn samanstóð af 12 þingmönnum hjá Framsókn þannig að helmingur þingmannanna voru líka ráðherrar á sama tíma. Þegar ríkisstjórnarfundir voru yfirstaðnir og ráðherrar fengu kynningar á frumvörpum annarra ráðherra og höfðu ekki sett niður fótinn og stoppað þau, ef svo á að orði komast, heldur hleypt þeim í gegn án athugasemda, var mjög mikil tilhneiging hjá sitjandi þeim til að reyna að ná málunum einnig í gegnum þingflokka sína af því að þeir höfðu komið að málunum á fyrri stigum í ríkisstjórn þó að þeir bæru ekki beinlínis ábyrgð á þeim. Eins og menn þekkja erum við ekki með fjölskipað vald innan ríkisstjórnarinnar. Það má því segja að ráðherrarnir hafi haft mikla tilhneigingu til að reyna að koma frumvörpunum fram innan þingflokkanna og að það hafi verið nokkuð erfitt fyrir hina þingmennina að stöðva málin eða ná fram verulegum breytingum. Ráðherraræði er því að þessu leytinu sterkt í því fyrirkomulagi sem við höfum núna.

Ég vil taka það fram að frumvarpið er í anda stefnu Framsóknarflokksins. Á flokksþingi flokksins í mars 2007 og á flokksþinginu í janúar 2009 voru samþykktar ályktanir sem gerðu ráð fyrir því að þingmenn væru ekki ráðherrar á sama tíma og sumir aðrir flokkar hafa líka ályktað á þessum nótum, þó ekki allir. Einnig náðist þverpólitísk sátt um málið meðal ungra stjórnmálamanna. Þeir samþykktu ályktun um þrískiptingu ríkisvaldsins á þingi unga fólksins árið 2007 þar sem m.a. kom fram að til að styrkja stöðu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu væri rétt að styrkja nefndasvið Alþingis. Þing unga fólksins taldi að enginn skyldi gegna þingmennsku og embætti ráðherra á sama tíma. Unga fólkið hefur verið sammála um það þverpólitískt, á milli flokka.

Ég vil líka nefna að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur flutt frumvarp um breytingar á þingsköpum og sú er hér stendur er meðflutningsmaður ásamt fleirum. Þar var farin önnur leið, það var gert ráð fyrir breytingum á þingsköpum þannig að ráðherrarnir gætu kallað inn varamenn án þess að tapa sæti sínu síðar. Það er því önnur aðferðafræði. Ég tel það vera mjög gott mál og vonandi verður það samþykkt en ég tel að það þurfi líka að breyta stjórnarskránni að þessu leyti. Það þarf að ganga alla leið og hafa aðskilnaðinn alveg skýran í stjórnarskránni þannig að ég vona að málið fái góðar viðtökur hér. Ég vona líka að stjórnlagaþingið muni skila tillögum á þessum nótum til okkar hingað í þingið á seinni stigum.

Síðan er vert að geta þess að svokölluð Atlanefnd, þ.e. þingmannanefndin sem vann tillögur um hvernig taka ætti á rannsóknarskýrslunni við bankahrunið, skilaði hingað þingsályktunartillögu um hvernig bæta mætti stjórnsýsluna. Þar var mjög undirstrikað að efla þyrfti sjálfstæði löggjafarvaldsins. Þeir flutningsmenn sem flytja það mál sem mælt er fyrir í dag fluttu breytingartillögu við þingsályktunartillögu Atlanefndarinnar svokölluðu og var það eiginlega tillaga sem spratt upp úr andsvari þeirrar er hér stendur. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom upp í andsvari og stakk þeirri hugmynd að þingmönnum að hægt væri að flytja breytingartillögu við þingsályktunartillögu Atlanefndarinnar. Við gerðum það, þingmennirnir sem flytjum þetta frumvarp, en kusum síðan að draga breytingartillöguna til baka vegna þess að samkomulag náðist milli allra flokka um að draga allar breytingartillögur við skýrslu Atlanefndarinnar til baka. Í staðinn var ákveðið að flytja þau mál sem fólust í breytingartillögunum í upphafi yfirstandandi þings og líka að lögð yrði áhersla á að koma þeim hugmyndum sem þar voru á ferðinni hratt og örugglega í nefndir þingsins til þess annaðhvort að samþykkja þær eða fella þær á þessu þingi. Sú tillaga var dregin til baka. Ef hún hefði ekki verið dregin til baka hefði sjálfsagt verið búið að samþykkja hana í dag af því að ég á von á því að þingheimur styðji þá hugmyndafræði nú og andrúmsloftið hér hefur breyst verulega mikið hin síðari missiri gagnvart þessu máli. Þá hefðum við líklega samþykkt tillöguna og þá hefði þingið verið búið að álykta um að það vildi algeran aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þannig að ráðherrar væru ekki líka þingmenn. En síðan hefði þurft að vinna úr því áfram bæði innan þings og á stjórnlagaþingi af því að það þarf að breyta stjórnarskránni að þessu leyti.

Þegar maður kemur að því að ræða um breytingar á stjórnarskrá þarf ansi mikið tilhlaup. Það þarf í fyrsta lagi að samþykkja breytinguna á þingi og síðan þarf að rjúfa þing, fara í almennar þingkosningar og svo þarf nýja þingið að samþykkja aftur sömu breytingu. Þannig er hægt að gera breytingar á stjórnarskrá í dag. Það er mikið og þungt ferli og á að vera það. Þó að það sé að vissu leyti þyngra en æskilegt er þarf stjórnarskráin líka að vera varin að því leyti að ekki sé hægt að gera miklar breytingar á henni of auðveldlega. En við höfum haft fjögur tækifæri til að samþykkja það frumvarp sem við mælum fyrir. Það var flutt fyrst 6. október 1998, fyrir 12 árum. Síðan voru kosningar 1999 þannig að þingið hefði getað samþykkt þessa breytingu í aðdraganda þeirra kosninga 1999 og síðan samþykkt breytinguna aftur á nýju þingi eftir kosningarnar 1999. Það var ekki gert.

Það var líka hægt að taka breytinguna og afgreiða hana í þinginu í tengslum við kosningarnar 2003. Það var ekki gert. Síðan aftur 2007, það var ekki gert og svo núna 2009, það var ekki gert, þannig að þingið hefur haft fjögur góð færi á að afgreiða þetta mál. Ég vil ekki trúa því að við nýtum ekki næsta tækifæri. Hvenær sem næstu kosningar verða vona ég að við verðum búin að breyta stjórnarskránni í þinginu, þ.e. samþykkja tillögur þess efnis, síðan verði haldnar almennar þingkosningar og tillögurnar svo staðfestar aftur á næsta þingi þar á eftir. Þótt ég segi þetta, virðulegi forseti, er ég ekki að kalla eftir þingkosningum vegna þess að það er mikill óróleiki í samfélaginu núna og ég sé ekki að neinn sé bættari með því að fara í almennar þingkosningar núna. Það var kosið 2007, það urðu að sjálfsögðu mikil átök í samfélaginu vegna bankahrunsins, það var mjög eðlilegt. Þess vegna fórum við í kosningar 2009, tveimur árum of snemma, vegna bankahrunsins og þess óróleika sem var í samfélaginu. Það var kosið í fyrra og hér situr þing með alveg glænýtt umboð og það er okkar að vinna úr þessari stöðu. Það verðum við að gera og ég sé ekki að samfélagið verði bættara þó að gengið yrði til kosninga núna. Það segi ég beint frá hjartanu, ég held Ísland þurfi ekki meiri óstöðugleika nú. Ég held að það yrði meiri óstöðugleiki ef farið yrði í kosningar núna. Það var farið í sveitarstjórnarkosningar í vor þannig að sveitarstjórnarmenn um land allt eru líka með glænýtt umboð og vonandi tekst okkur að snúa bökum saman á þinginu og taka á skuldavanda heimilanna og atvinnumálunum þannig að fólk sjái von og finni að verið sé að vinna í málunum. Ég tel að þingið sem situr núna eigi að geta tekið á því ásamt miklu fleiri stofnunum í samfélaginu. Lausnin á stöðu Íslands í dag er ekki einungis í höndunum á Alþingi. Það er mjög mikill misskilningur ef einhver heldur að þingið eitt geti tekið á því. Það eru miklu fleiri sem þurfa að koma að því.

Varðandi það mál vil ég líka draga fram að verði það samþykkt þarf samhliða að huga að stöðu stjórnarandstöðunnar. Ef fjölmargir varaþingmenn frá stjórnarflokkunum koma á þing vegna þess að þingmenn þeirra setjast í ráðherrastóla og taka að sér verkefni í framkvæmdarvaldinu verður mun stærri floti að störfum frá stjórnarflokkunum hlutfallslega miðað við það sem nú er. Því væri eðlilegt að stjórnarandstaðan væri styrkt með einhverjum hætti samhliða þessari breytingu, annars verður valdajafnvægið skakkt miðað við það sem nú er. En þessi mál hafa menn leyst í öðrum ríkjum og ég tel að við getum líka leyst þau.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég tel að það sé mjög brýnt að við förum í þessa breytingu. Hún er veruleg og ég held að það yrði til mikilla bóta að alger aðskilnaður verði milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég tel að þingið og sjálfstæði þess muni eflast við þessa breytingu og finna að andrúmsloftið hefur gerbreyst gagnvart þessu máli. Það voru ekki mjög margir á þeirri skoðun í upphafi og ýmsir töluðu mjög hart gegn henni, en ég hef ekki heyrt neinn tala gegn þessari hugmynd hin síðari missiri. Ég held að við séum að verða tilbúin að afgreiða svona mál og ég held líka að samfélagið kalli eftir þessari breytingu.



[17:39]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi að það er mér ánægja að vera meðflutningsmaður að því máli sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flytur nú í sjöunda sinn. Ég ætla ekki að endurtaka ræðuna sem ég flutti um sama mál á síðasta þingi en ég vil þó minnast þess að það þurfti mann á hjóli og Mannréttindadómstólinn í Strassborg til að hér yrði fullkominn aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds og enn er aðskilnaður framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins óskýr þrátt fyrir að hér eigi að vera í gildi þrískipting ríkisvaldsins. Þingmenn gegna ráðherraembætti og þess vegna hljóta þessir valdþættir, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið að þvælast stundum hvor fyrir öðrum.

Það er hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar og hlutverk ríkisstjórnarinnar að framkvæma það sem henni er falið innan þess lagaramma sem Alþingi hefur sett. Hér er því oft alveg öfugt farið, ríkisstjórnin ákveður dagskrána og við þingmenn erum á harðahlaupum á eftir þeim.

Sú skoðun mín um nauðsyn þess að skerpa skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds hefur styrkst á því rúma ári sem ég hef setið í þingflokki þar sem fimmtungur þingmannanna eru ráðherrar. Vald ráðherranna er mikið í þingflokknum og ég get rétt ímyndað mér áhrif framkvæmdarvaldsins þar sem hlutfall ráðherranna er hærra í þingflokki. Það er ekki vegna þess að ráðherrarnir séu bullur sem vaða yfir okkur hin óbreyttu, eins og við þingmenn sem ekki gegnum háum embættum erum kölluð. Það er ekki nema eðlilegt að ráðherrar leggi mikla áherslu á að ná fram sem mestu í þeim málaflokki sem þeir eru ábyrgir fyrir en það er kannski einmitt þess vegna sem er nauðsynlegt að fjarlægðin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins verði meiri en hún er. Löggjafarvaldið á ekki að sitja undir stöðugum þrýstingi frá ráðherrum sem liggur mikið á að bæta við afrekaskrá sína.

Því er gjarnan haldið fram að völd stjórnarflokka — og nú kem ég inn á það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir minntist á — muni aukast ef ráðherrar láta af þingstörfum vegna þess að stjórnarliðið svokallaða verði fjölmennara. Ég deili ekki þeirri skoðun, virðulegi forseti. Ég tel að völd á Alþingi ráðist af fjölda atkvæða og atkvæðavægið á þinginu mun ekki breytast þótt þessi breyting verði gerð.

Það verður heldur ekki svo að stjórnarliðið svokallaða muni hafa mun meiri mannafla í umræðum því að ef ráðherrar hætta þingmennsku munu þeir auðvitað einungis taka þátt í þeim umræðum á Alþingi sem snertir þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Ég tel þetta sem sagt hið besta og brýnasta mál og hvet okkur til að samþykkja þetta frumvarp því að það er, eins og komið hefur fram, nauðsynlegt að setja þetta inn í stjórnarskrána. Þó að hægt sé með einhverjum hætti að koma því á að það sé val ráðherra tel ég það vera grundvallaratriði að ákvæðið komi inn í stjórnarskrána. Ég hvet okkur til að samþykkja frumvarpið og senda það áfram til stjórnlagaþingsins með ósk frá Alþingi Íslendinga um að þetta ákvæði fari inn í tillögur þess að nýrri stjórnarskrá.



[17:44]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, þetta mál hefur verið rætt mörgum sinnum og ég hef flutt ræðu mína nokkrum sinnum. Það er að sjálfsögðu heimspeki frekar en lögfræði hvernig menn byggja upp valdakerfi þjóðar. Það voru franskir heimspekingar sem komu með þá hugsun að skipta valdinu í þrennt til að vernda borgarana fyrir of sterku valdi. Það höfum við haft að leiðarljósi síðan. Það sem við erum að gera hér er að stíga þetta skref enn lengra.

Það er reyndar eitt atriði enn sem er í stjórnarskránni sem brýtur þessa reglu, það er forseti lýðveldisins sem er bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald því að hann þarf að skrifa undir lög og hann hefur heilmikið með ríkisstjórnina að gera þannig að formlega séð skipar hann ríkisstjórnina. Ég hef lagt til að það embætti verði lagt af en við ætlum ekki að ræða það í dag.

Það sem mér finnst vanta inn í frumvarpið, sem ég styð að sjálfsögðu sem flutningsmaður, er að það ætti að fækka þingmönnum niður í 51 í leiðinni. Þá mundi ekkert breytast á þingi, 51 þingmaður yrði starfandi í nefndum eins og nú er þegar ráðherrar eru 12. Það eina sem mundi breytast er að ráðherrarnir þyrftu ekki að mæta í atkvæðagreiðslur. Þeir þyrftu bara að mæta til að svara spurningum þingmanna og ég vona að sú breyting verði með tímanum að þeir þurfi heldur ekki að mæta til að mæla fyrir frumvörpum, að það fyrirbæri hverfi líka.

Staðan í dag er mjög undarleg. Það þarf 32 þingmenn til að samþykkja mál á Alþingi. Ráðherrarnir hafa stundum verið 12, þ.e. þeir eru 37% af þeim sem þurfa að samþykkja frumvörp. Þeir fjalla oft um sín eigin frumvörp þannig að vald þeirra verður mjög sterkt í þingflokkunum, eins og nefnt hefur verið, og líka á Alþingi þar sem þeir ráða nærri 40% af atkvæðum þeirra sem þurfa að samþykkja frumvarp. Vald þeirra er því mjög sterkt.

Af því að við erum að stofna til stjórnlagaþings vil ég koma því að að það vantar illilega ákvæði um dómsvaldið í stjórnarskrána. Til er ákvæði um dómsvaldið en það er veikt, t.d. er ekki minnst á Hæstarétt, hvað þá á stjórnlagadómstól, sem ég tel mjög brýnt að verði komið á.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál frekar. Þessi rök hafa öll komið fram áður. Ég vona að sú verði breyting núna að þetta frumvarp verði tekið til alvarlegrar og raunverulegrar skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um það, en hún er sérnefnd. Í ljósi rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar sem ég tel vera afskaplega góðar, þ.e. skýrslurnar, ekki ákærurnar, bara til að hafa það alveg á tæru, þarf að styrkja Alþingi. Það er niðurstaðan í báðum þessum skýrslum, að nauðsyn sé að styrkja Alþingi og þess vegna eiga menn að taka svona mál virkilega til skoðunar og ef þeir vilja ekki samþykkja það þurfa þeir að færa rök fyrir því en ekki að svæfa málið í nefnd.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sérn.