139. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2010.
rannsókn á Íbúðalánasjóði, fyrri umræða.
þáltill. SII o.fl., 22. mál. — Þskj. 22.

[18:06]
Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar sem er lögð fram af sjö þingmönnum úr þremur flokkum. Þetta er ein af þeim breytingartillögum sem fengu ekki brautargengi hjá þingmannanefndinni og var samkomulag um að þær yrðu lagðar fram sem sjálfstæð mál og óháð þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar á grundvelli skýrslu sinnar.

Tillagan gengur út á að á vegum Alþingis fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi í málinu hér á undan um að mikilvægt væri að hafa skýr markmið með þeim rannsóknum sem við færum út í og það væri jafnframt mjög mikilvægt að þingið gæti klárað mál pólitískt, gæti lokið málum og sett endapunkt við þau. Ég ætla að vera algjörlega sammála þingmanninum og tel að við eigum að vara okkur á að gera rannsóknir í pólitískum tilgangi.

Ástæðan fyrir því að við leggjum tillöguna fram er sú að Íbúðalánasjóður er húsnæðislánasjóður á vegum ríkisins og hefur sem slíkur mikilvægt hagstjórnarhlutverk. Hinn mikilvægi þáttur húsnæðismála er að þau eru grundvallarvelferðarmál fyrir fjölskyldurnar í landinu en jafnframt eru þetta einu fjárfestingar heimilanna og húsnæðislánamarkaðurinn hefur þar af leiðandi áhrif á hagstjórnina í landinu.

Árið 2003 var tilkynnt um breyttar útlánareglur Íbúðalánasjóðs og leitað álits hjá þar til bærum aðilum. Tillögur voru gerðar um að auka lánshlutfall lána og einnig um að hækka hámarkslán. Á móti átti að stytta lánstíma í 30 ár og gera það að skyldu að lán Íbúðalánasjóðs væru á 1. veðrétti. Þessir tveir síðari punktar áttu að draga úr þensluáhrifum aðgerðarinnar.

Það er skemmst frá því að segja að ekki var farið út í seinni punktana tvo heldur aðeins gerðar breytingar varðandi þensluvekjandi þættina. Í kjölfarið fóru viðskiptabankarnir þrír og sparisjóðirnir inn á íbúðalánamarkaðinn með ákaflega miklu kappi en mun minni forsjá og hafa einhverjir þeirra viðurkennt það. Kaupþing reið á vaðið og hinir bankarnir hafa viðurkennt að þeir hafi fylgt í blindni af samkeppnisástæðum án þess að vera í raun í stakk búnir til þess. Það er sannarlega ekki á ábyrgð Íbúðalánasjóðs þegar einkafyrirtæki haga sér óskynsamlega.

Það er tvennt sem ég held að skipti mjög miklu máli að þingið fái skýra mynd af. Hvernig gerist það að ákvarðanir eru teknar sem vitað er að hafi þensluhvetjandi áhrif og aðilar sem hefur verið óskað álits hjá hafa staðfest það? Þetta gerist á miklum uppgangstíma í hagkerfinu en þó er látið hjá líða að fara í aðgerðir sem draga úr þenslunni. Þarna má læra af mistökunum. Í öðru lagi það sem gerðist í kjölfarið og enginn sá svo sem fyrir þegar þessar fyrirætlanir voru á teikniborðinu. Þegar bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn með svona miklu offorsi fór fólk að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði. Upp safnaðist fé sem sjóðurinn þurfti náttúrlega að ávaxta því að hann gat ekki vegna breyttrar fjármögnunar greitt upp skuldir sínar á móti. En í staðinn fyrir að setja féð inn í Seðlabanka, þar sem vissulega hefði getað orðið neikvæður vaxtamunur því veitt áfram út í bankakerfið til að fjármagna þá óábyrgu útlánastarfsemi sem þar átti sér stað og það án, að því er ég best veit, nokkurra sérstakra skilyrða um útlánareglur.

Ástæðan fyrir því að við sem flytjum tillöguna teljum þetta skipta miklu máli er sú að langflestar fjölskyldur á Íslandi búa í eigin húsnæði. Aðgengi að öruggu húsnæði skiptir miklu máli og þar hefur Íbúðalánasjóður spilað mikilvægt hlutverk, sérstaklega fyrir landsbyggðina en ætti líka að gera það fyrir þá sem eru í þeim aðstæðum, vegna lágra launa, að eiga erfitt með að útvega sér húsnæði eða eru að kaupa fyrstu íbúð. Svo við tölum nú ekki um ef hér væri húsnæðiskerfi sem gerði fólki kleift að búa í öruggu húsnæði án þess að þurfa að fjárfesta í því. En það er önnur saga.

Ég held að það skipti miklu máli að við rannsökum þetta mál til að fá fullan skilning á því hvers konar hlutverk við viljum að ríkið leiki á húsnæðislánamarkaði og komum því hlutverki ríkisins svo fyrir að það vinni ekki gegn hagstjórninni. Eins er fyrirséð að ríkissjóður mun þurfa að leggja sjóðnum til umtalsvert fé á komandi missirum. Þá hlýtur að vera krafa okkar þingmanna sem berum ábyrgð á fjárlögum að við vitum hvernig þessi vandi kom til og getum tryggt að hann gerist ekki aftur.

Í þessu sambandi vil ég segja að mér fannst það ákaflega mikilvægur punktur í skýrslu þingmannanefndarinnar varðandi vangaveltur þeirra um hvort ekki væri eðlilegt að Seðlabankinn fengi völd og heimildir til þess, í miklu þensluástandi, að lækka leyfilegt veðhlutfall á húsnæðislánum, sama hvar þau eru veitt á markaðnum, hvort það er af hálfu hins opinbera eða einkafyrirtækja á fjármálamarkaði. Hann gæti kannski beitt sér líka með öðru móti á húsnæðislánamarkaði þannig að dregið væri úr líkunum á því að við lendum aftur í viðlíka eignabólu í húsnæði og á árunum 2004–2008. Það er annað verkefni en þessari rannsókn er ætlað. Ég vil þó koma inn á þetta því ég tel ákaflega mikilvægt að ríkið sé meðvitað um mikilvægi hagstjórnarþáttar húsnæðislána en að sjálfsögðu ekki síður um mikilvægi þess að tryggja að fjölskyldur í landinu hafi aðgengi að öruggu húsnæði, óháð því hvort við eigum húsnæðið sem við búum í, leigjum það eða höfum á kaupleigu eða í búsetufélögum og slíku.

Mér skilst að eðlilegt sé talið að tillögurnar um rannsóknir fari í allsherjarnefnd og sem einn af flutningsmönnum þessarar tillögu tel ég það vera gott fyrirkomulag.



[18:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við tillögu til þingsályktunar um rannsókn á Íbúðalánasjóði. Ég vil segja það strax svo að enginn misskilningur verði að ég held að æskilegt væri að slík rannsókn færi fram til að eyða öllum misskilningi, ranghugmyndum og útúrsnúningum á því sem sagt hefur verið um Íbúðalánasjóð og þensluna sem hér varð á íbúðalánamarkaði.

Í því sambandi var alveg rétt hjá hv. þingmanni, fyrsta flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að menn hefðu breytt lánshlutföllum úr 70% í 90% sem þeir ætluðu reyndar að gera á heilu kjörtímabili en vegna innkomu bankanna á sínum tíma neyddist Íbúðalánasjóður til að taka þátt í þeirri samkeppni eins og bankarnir gerðu. Ég held að stærðargráðan á lánum á þessum tíma, fari ég rétt með, hafi verið þannig að Íbúðalánasjóður hafi lánað um 50 milljarða meðan bankarnir lánuðu um 500 milljarða. Það hélst hér á suðvesturhorninu þar sem þenslan var mest og svo geta menn bara spurt sig hvor hafi valdið meiri þenslu, Íbúðalánasjóður eða bankarnir. Það breytir því hins vegar ekki, eins og fjallað var um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að menn töldu þá ákvörðun að hækka lánshlutfall hafa verið mistök í hagstjórn og það er sjálfsagt að skoða það, sérstaklega í ljósi þess að síðan settu menn engar skorður við útlánum annarra aðila, lífeyrissjóða eða fjármálafyrirtækja, banka eða annarra, sem hefði kannski þurft að gera. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. flutningsmanni um vald Seðlabankans, til að mynda gæti hann sett reglur um veðhlutföll og stjórnað þar með og vonandi komið í veg fyrir bóluhagkerfi. Ég held því að á margan hátt væri æskilegt að þetta yrði skoðað í eitt skipti fyrir öll af hlutlausum aðilum og þeim pólitíska áróðri eytt sem hefur verið gegn Íbúðalánasjóði og áhrifum hans á þensluna á þessum tíma.

Ég vil líka nefna að kannski hefði verið æskilegt, vegna þess að við erum að velta fyrir okkur hvaða framtíðarfyrirkomulag við eigum að hafa á íbúðalánamarkaði, að hér hefði legið undir skoðun hvernig lífeyrissjóðirnir og bankarnir komu að markaðnum og önnur fjármálafyrirtæki á þeim tíma svo að við gætum myndað heildarskoðun á því í kjölfarið. Í því sambandi nefndi ég reyndar í umræðu um fyrri rannsóknarmálin að þingmannanefndin sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, forseti þingsins og forsætisnefnd hefðu lagt til að sett yrði á laggirnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem slíkum málum yrði vísað til eða hún skoðaði að eigin frumkvæði. Þá mundu menn gæta þess að taka inn alla þá þætti sem ólíkir þingmannahópar vildu að yrðu skoðaðir og gættu þess við rannsókn að nýta fjármuni vel og þær rannsóknarskýrslur. Þegar við setjum á laggirnar opinberar rannsóknarnefndir, eins og er hugmynd að gera, frumvarpið verði lagt fram til breytingar á þingsköpum, setjum við bæði einstaklinga og stofnanir í óþægilegt ljós algjörlega án nokkurrar réttarstöðu, svo það sé nú sagt skýrt, vegna þess að við höfum verið að fjalla hér um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það yrði óþægilegt að sitja undir slíkri rannsókn að ósekju. Þess vegna eigum við að fara sparlega með slíkar rannsóknir, gera þær þegar við teljum að samfélagið njóti góðs af þeim og við getum dregið einhvern skynsamlegan lærdóm af.

Eitt atriði sem fellur undir þær rangfærslur sem ég tel æskilegt að yrðu skoðaðar — sem kom fram hjá flutningsmanni, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur — er þegar bankarnir réðust inn á markaðinn og borguðu upp útlán Seðlabankans. Íbúðalánasjóður sat þá uppi með mikið af fé sem hann kom ekki út í samkeppni við bankana sem gengu mjög langt í að lækka vexti og voru tilbúnir að lána háar fjárhæðir og var ekkert þak þar á, engar 18 milljónir eða 22, heldur gátu þær þess vegna verið 100 eða jafnvel fleiri og sitja nú margir í súpunni fyrir að hafa tekið slík lán hjá bönkunum. Þá hafði Íbúðalánasjóður í það minnsta tvo valkosti: Annar var sá að setja fjármunina í Seðlabankann á lágum nokkuð öruggum vöxtum með kannski minni hættu á tapi en hinn var að kaupa skuldabréf á markaði. Gallinn við að setja peninga inn í Seðlabankann var að peningarnir fóru beint út úr Seðlabankanum inn í bankana aftur og fjármögnuðu þar með áfram vitleysuna. En Íbúðalánasjóður gerði hið gagnstæða, hann keypti skuldabréf af áðurútgefnum útlánum. Dálítill munur er á hvort hann tók þátt í að hella olíu á eldinn eða hvort hann reyndi að taka við eldtungunum. Ég tel æskilegt að þetta verði skoðað. Reyndar má nefna að ef Íbúðalánasjóður hefði lagt alla fjármuni inn í Seðlabankann hefðu vaxtatekjur Íbúðalánasjóðs verið 10 milljörðum lægri upphæð en hann þó fékk.

Ég tek undir með flutningsmönnum að æskilegt væri að staðreyndir lægju fyrir þar sem Íbúðalánasjóður er ákaflega mikilvægur og nauðsynlegur á íbúðalánamarkaði okkar og hefur eðlilega talsverð áhrif vegna stærðar sinnar.



[18:21]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn eina rannsóknina aftur í tímann. Eins og ég gat um áður þurfum við að velta því fyrir okkur hvað þetta kostar. Ég er flutningsmaður að þessari tillögu af því að ég held að ýmislegt í slíkri rannsókn gæti varpað ljósi á það sem gerðist síðar í hruninu.

Eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur fóru bankarnir inn á svið Íbúðalánasjóðs. Ég vil segja að Íbúðalánasjóður hafi á vissan hátt ögrað þeim til þess af því að áður var 70% þak á lánsupphæð og bankarnir lánuðu þá viðbótina með sínum vöxtum sem voru töluvert hærri og fullnægðu þannig þeirri þörf sem markaðurinn hafði. Bankarnir lánuðu oft með 6–7% vöxtum þegar Íbúðalánasjóður var með töluvert lægri vexti. Það sem gerðist á sama tíma var að bankarnir fengu gífurlega gott mat hjá matsfyrirtækjum úti í heimi, sem mér er enn þá algjörlega óskiljanlegt, þannig að þeir gátu farið að keppa við Íbúðalánasjóð sem var með svipað mat í gegnum ríkissjóð. Bankarnir voru eiginlega með svipuð lánskjör úti í heimi og ríkissjóður sjálfur. Það er ástæðan fyrir því að þeir fóru í hörkusamkeppni við Íbúðalánasjóð og buðu jafnvel lægri vexti, Kaupþing bauð fasta 4,15% vexti allan lánstímann og margir Íslendingar njóta þess í dag. Þetta eru lægstu vextir sem hafa boðist, reyndar verðtryggðir.

Margir notuðu tækifærið, maður sem borgaði 100 þús. kr. á mánuði, miðað við 5–6% vexti sem voru á gömlum lánum, sá sér leik á borði að borga gamla lánið upp og taka lán með 4,15% vöxtum til jafnlangs tíma og jafnvel með sömu greiðslubyrði og gat hann fengið töluvert mikla fjármuni í milligjöf. Ég náði ekki að reikna það en það gat hæglega náðst heilt bílverð út úr því, kannski ekki fyrir stóran bíl, en hann gat borgað nákvæmlega það sama eftir sem áður og breytt láninu yfir í lægri vexti og fengið þannig bílverð í mismun.

Þetta er ein ástæðan fyrir þeirri þenslu sem varð hér og ég tel vera meginástæðuna; það var þessi innrás bankanna inn á markaðinn sem buðu allt upp í 100% lán sem menn vöruðu sig ekki á að hugsanlega væru þeir að reisa sér hurðarás um öxl.

Þetta hafði meiri áhrif. Eins og kom líka fram sat Íbúðalánasjóður uppi með gífurlega fjármuni vegna uppgreiðslna sem hann fann ekki ávöxtum fyrir. Ég held að hann hafi ekki haft möguleika á að setja þá inn í Seðlabankann á verðtryggðum kjörum þannig að hann varð að koma þessum peningum einhvern veginn út. Hann gerði samkomulag við einhverja sparisjóði, alla vega SPRON og einhverja banka, ég veit ekki nákvæmlega hverja, þar sem hann keypti fasteignatryggð skuldabréf með sambærilegum kjörum á lágum vöxtum. Ekki voru gerðar kröfur um hámarkslán eða í hvað peningarnir fóru, hvort þeir fóru í bíla, ferðalög eða fasteignir, en lánin þurftu að vera með veði í fasteignum. Þannig fóru ríkistryggðir peningar úr Íbúðalánasjóði, sem eru hugsaðir sem félagsleg lán til íbúðakaupa upp að ákveðinni stærð o.s.frv., í eitthvað allt annað. Það gerðist af því að hann keypti upp skuldabréf og færði þau rök fyrir því að það hefði verið neyðarbrauð vegna þess að hann sat uppi með alla þessa peninga. Engu að síður fóru peningar með ríkisábyrgð sem ætlaðir voru til félagslegra þarfa í kaup á bílum, sumarbústöðum og öðru því sem Íbúðalánasjóði er ekki ætlað að fjármagna.

Ég held því að aðalvandinn hafi verið mat á bönkunum. Þess vegna finnst mér svo undarlegt, sem ég benti á í umræðu um annað mál rétt áðan, og skoða þurfi hvernig stóð á því að matsfyrirtækin úti í heimi gáfu bönkunum svona óskaplega gott mat. Ég tel mig hafa svar við því. Það er veila í hlutabréfaforminu sem menn notuðu hér, og sú veila er um allan heim, og menn notfærðu sér það til að búa til mjög hátt eigið fé í fyrirtækjunum sem ekki var til. Við að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum jókst eigið fé bankanna, merkilegt nokk, því að skuldabréf sem gefið var út til kaupa á hlutabréfum var talið til eignar en hlutaféð sem kom inn í bankann var ekki talið til skuldar, þannig að eigið fé bankanna batnaði við það að þeir lánuðu starfsmönnum óhemjufé. Með því og ýmsum tilfæringum gátu þeir fengið mjög hátt eigið fé, mikinn hagnað líka, kynntu þeir, og það varð til þess að þeir fengu svona gott lánshæfismat úti í heimi, sambærilegt og íslenska ríkið. Það þýddi að þeir gátu farið í samkeppni við Íbúðalánasjóð sem er kannski ástæðan fyrir þenslunni og kannski líka hruninu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.