139. löggjafarþing — 7. fundur
 7. október 2010.
viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[14:30]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Samkomulag er um fyrirkomulag umræðunnar og verður það sem hér segir:

Í fyrri umferð hefur ráðherra 12 mínútur til framsögu og aðrir þingflokkar sjö mínútur hver. Í síðari umferð hefur hver þingflokkur fjórar mínútur til umráða. Forsætisráðherra hefur þrjár mínútur í lok umræðunnar.



[14:31]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mótmælin fyrir utan Alþingishúsið á mánudagskvöldið komu illa við okkur öll. Þau snertu mig djúpt og ég held þau hafi snert alla þjóðina. Sem betur fer voru mótmælin að mestu leyti friðsamleg og ég er þakklát fyrir að ekki urðu alvarleg slys á mönnum. Ég skil vel þá reiði og óánægju sem kraumar undir. Ég skil vel að fólk vilji sýna í verki hvernig því líður.

Mótmælin beinast gegn stjórnmálamönnum, Alþingi, ríkisstjórn, stjórnmálaflokkum og valdi almennt.

Mótmælin beinast gegn spillingu, misrétti og mismunun í skuldameðferð innan bankakerfisins.

Mótmælin beinast gegn niðurskurði á fjárlögum, skuldum heimila og fyrirtækja og atvinnuleysi.

Mótmælin beinast gegn meðferð tillagna um ákærur fyrir landsdómi.

Mótmælin beinast gegn fátækt og erfiðum lífskjörum sem m.a. birtast okkur í að allt of margir þurfa að leita á náðir hjálparstofnana og sveitarfélaga um nauðþurftir.

Mótmælin beinast gegn því að okkur stjórnmálamönnum hefur ekki auðnast að vinna saman sem skyldi og við höfum ekki tekið skipulega eða nógu hratt á þeim vanda sem við stöndum andspænis.

Meginatriðið í mínum huga er ekki að hverjum þessara þátta mótmælin beindust, heldur að því að margir eru ósáttir við stöðu mála. Það á sér eðlilegar skýringar. Það er eðlilegt að fólk mótmæli skertum kjörum og aðstæðum þegar afleiðingar hrunsins skella á með fullum þunga. Það er eðlilegt að fólk lengi eftir betri tíð.

Við verðum hins vegar að muna að við Íslendingar siglum í gegnum eina dýpstu efnahagskreppu sem vestrænar þjóðir hafa gengið í gegnum á undanförnum áratugum. Bankakerfið hrundi. Gjaldmiðillinn hrundi og vegið var að fjárhagslegum grundvelli ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og flestra heimila. Það er sannarlega sárt að horfa upp á afleiðingar hrunsins á hinn almenna borgara. Margar fjölskyldur búa við óásættanlegar aðstæður vegna atvinnumissis og skuldavanda.

Í upphafi 10. áratugarins gengu Finnar í gegnum mjög djúpa efnahagslægð. Fram að kreppunni sem nú ríður yfir var hún dýpsta efnahagslægðin sem nokkurt iðnvætt ríki hafði gengið í gegnum. Fasteignaverð hrundi, fyrirtæki og einstaklingar voru þjakaðir af skuldabyrðinni og atvinnuleysi rauk upp í næstum 20%. Allt útlit var fyrir að finnska velferðarkerfið yrði gjaldþrota. Það tók Finna mörg ár að rétta úr kútnum. Þegar upp var staðið blasti við sterkara og samkeppnishæfara ríki en fyrir kreppu. Það gefur okkur von og af reynslu þeirra drögum við lærdóm sem getur orðið okkur veganesti.

Flest bendir til þess að okkur muni auðnast betur en Finnum að vinna okkur út úr málum þrátt fyrir að kreppan hér hafi verið alvarlegri og dýpri en í Finnlandi. Þegar fyrri ríkisstjórn mín tók við í febrúar árið 2009 hvarflaði hvorki að mér né öðrum ráðherrum að við ættum létt verk fyrir höndum. Við vissum að viðfangsefnið yrði gríðarlega umfangsmikið og erfitt. Ég vissi að í hönd færu sársaukafullir tímar. Margt hefur sem betur fer tekist vel og jafnvel betur en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Í stefnuræðu minni síðastliðið mánudagskvöld benti ég á mörg atriði sem gefa vísbendingu um að við Íslendingar séum að rétta úr kútnum á undraskömmum tíma. Efnahagsbatinn sem mun koma öllum til góða er nú í augsýn. Það virðist ætla að taka þjóðina skemmri tíma að vinna sig út úr vandanum en spáð var. Okkur virðist ætla að takast að sporna við því mikla atvinnuleysi sem spáð var. Samdrátturinn varð minni en áætlað varð og hjól atvinnulífsins virðast vera farin í gang á ný eins og spár gerðu ráð fyrir. Þessi skref eru einmitt hluti af því að skapaður er grundvöllur fyrir velferðarkerfið sem við viljum búa við. Þetta tvennt verður aldrei slitið úr samhengi enda þótt skrefin á þessari leið séu sár fyrir allt of marga.

Ég fullyrði að ekkert mál hefur verið jafnfyrirferðarmikið hjá ríkisstjórninni og Alþingi og skuldaaðlögun fyrirtækja og einstaklinga undanfarið eitt og hálft ár. Gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða sem hjálpað hafa þúsundum fjölskyldna og fyrirtækja og grunnur hefur verið lagður að lausnum fyrir flesta. Við töldum að á sínum tíma hefðum við náð utan um vandann og komið til móts við þá sem væru í vanda staddir. Um þessar aðgerðir hefur verið góð og breið samstaða hér í þinginu. Vonir okkar flestra hafa staðið til þess að þær mundu nýtast einstaklingum og fjölskyldum þeirra og fyrirtækjum. Því er ekki að leyna að árangurinn hefur ekki orðið sá sem við væntum. Ég viðurkenni það fúslega. Ýmislegt hefur tafið þessa vegferð. Ég nefni tafir við endurreisn bankanna, dóm um gengisbundin lán, dóm um ábyrgðarmenn þeirra sem fara í skuldaaðlögun og seinagang í afgreiðslu mála í bönkum, m.a. vegna seinagangs hjá hinu opinbera.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin einhendir sér í að leysa bráðavandann sem steðjar að þeim sem eru við það að missa eignir sínar. Við köllum eftir sátt um lausn vandans og samráð hér í þinginu við hagsmunaaðila og banka og lánastofnanir.

Í gær áttu fimm ráðherrar ríkisstjórnarinnar góðan fund með Hagsmunasamtökum heimilanna og á næstu dögum munum við funda með bönkum, lífeyrissjóðum, aðilum vinnumarkaðarins og þeim þingnefndum sem koma að málinu. Fulltrúar Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar hafa einnig komið að þessu borði sem fullgildir og mikilvægir þátttakendur. Ég fagna því sérstaklega.

Það er mikilvægt að greina bráðavandann og umfang hans. Það hefur því miður reynst erfitt að fá haldgóðar tölur um hvað fram undan er varðandi nauðungarsölur á íbúðum. Misvísandi tölur hafa verið í umræðunni. Okkur sýnist að stærðargráðan gæti verið um 230–240 íbúðir, þar sem eigandi á lögheimili, sem að óbreyttu fara í lokasölu í október. Ég endurtek, að óbreyttu. Oft eru uppboðsbeiðnir afturkallaðar á síðustu stundu.

Í vinnslu eru leiðir til að forða uppboðum sem fyrir dyrum standa á lögheimilum einstaklinga sem vinna að lausn sinna mála. Ætlunin er að þessir aðilar fái flýtimeðferð hjá umboðsmanni skuldara og embættið fái afdráttarlausar heimildir til að stöðva nauðungarsölur í slíkum tilvikum.

Nú er unnið að því að hafa samband við þá 230–240 aðila sem standa í þessum sporum og reynt að leita lausna í samráði við þá. Á Íslandi á enginn að þurfa að vera heimilislaus vegna skuldavanda. Það þurfa stjórnvöld, fjármálastofnanir og sveitarfélög að tryggja í sameiningu. Það er von á frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um viðbrögð við nýföllnum gengislánadómi á næstu dögum þar sem leitast verður við að draga úr óvissu og greiða fyrir úrlausnum á skuldamálum einstaklinga.

Jafnframt vinnur efnahags- og viðskiptaráðherra nú að endurnýjuðu samkomulagi við banka og aðra hagsmunaaðila um sértæka skuldaaðlögun. Gert er ráð fyrir að bönkunum verði gefinn stuttur tími til að vinna úr skuldamálum smærri og meðalstórra fyrirtækja á næstu mánuðum og bankarnir skili þannig til viðskiptavina sinna því svigrúmi sem þeir hafa til að mæta þörfum skuldsettra fyrirtækja.

Með sama hætti þarf að mæta þeim ábendingum sem komið hafa fram um ágalla á skuldaaðlögun einstaklinga og tryggja að með henni verði unnt að veita þúsundum einstaklinga fullnægjandi úrlausnir í bönkum á næstu mánuðum. Við vonumst til að ljúka samkomulagi við alla hlutaðeigandi um þessa þætti í næstu viku.

Ég tel að auk endurbóta á þeim sértæku úrræðum sem nú bjóðast skuldurum sé nauðsynlegt að stjórnvöld skoði vandlega og með opnum huga allar framkomnar hugmyndir og tillögur um almennar aðgerðir til hagsbóta fyrir skuldara, m.a. hugmyndir sem komið hafa fram hér á Alþingi og víðar í samfélaginu eins og t.d. hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ég minni hins vegar á að vega þarf og meta þau ólíku úrræði heildstætt til að átta sig á því hvaða áhrif þau hafa á þjóðarbúið og viðreisn efnahagslífsins. Ekki má ganga lengra en skynsamlegt getur talist að teknu tilliti til allra þátta málsins.

Ég bendi í þessu sambandi á að leiðin sem Hagsmunasamtökin hafa lagt til mundi kosta 200 milljarða kr. samkvæmt þeirra útreikningum. Þar af mundu um 75 milljarðar falla á lífeyrissjóðina. Það er ljóst að hér þurfa allir aðilar að leggjast á eitt ef árangur á að nást, Alþingi, stjórnvöld, lánastofnanir og Hagsmunasamtök heimilanna.

Grundvöllur þess að aðgerðirnar nái tilætluðum árangri er að víðtæk sátt náist um þær og að lánastofnanir gefi eftir hluta af kröfuréttindum sínum þannig að tryggt verði að bótaábyrgð falli ekki á ríkissjóð vegna þeirra aðgerða sem gripið verður til. En við þurfum líka að horfa lengra fram á veginn og endurskoða húsnæðisstefnuna og við þurfum að styrkja og virkja aðra valkosti en séreignarstefnuna.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur á hverjum tíma unnið af heilum hug að endurreisninni og úrlausn skuldavandans án þess að missa sjónar á heildarmyndinni. Líta verður á hagsmuni þjóðarinnar allrar við lausn þessara mála. Það blasir við að við verðum að ganga saman þessa sársaukafullu vegferð. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sátt náist í samfélaginu. Það er skylda okkar alþingismanna.



[14:41]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að málið skuli hafa komist á dagskrá eftir að hv. þm. Ólöf Nordal kallaði eftir því í vikunni. Ég vil líka þakka forsætisráðherra fyrir skýrsluna sem hér var flutt. Ég sakna þess reyndar að hún hafi ekki komið meira inn á skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja sem er nýlega komin út. Þar er að finna ágætar upplýsingar um það að hve miklu marki aðgerðirnar sem nú hefur verið gripið til hafa komið heimilunum í landinu til hjálpar. Það er þannig með þessa ágætu ríkisstjórn að þegar hún hefur kynnt til sögunnar lausnir sínar á vandanum fylgir að hún telji sig hafa náð utan um vandann. Þannig var það t.d. 18. mars þegar ráðherrar boðuðu til blaðamannafundar. Þá kom afar skýrt fram að viðkomandi ráðherrar, eins og lesa má um í Morgunblaðinu, telji sig hafa náð utan um skuldavandann. Þessu andmæltum við. Við andmæltum því og sögðum: Það er ekki nóg að gert. Það var hins vegar haft ágætissamráð við stjórnarandstöðuna. Í tilefni af allri umræðunni um samráðið og skortinn á vilja okkar til að hafa samráð er það þannig að við höfum í hverju einasta máli sem lýtur að því að koma heimilunum til aðstoðar átt gott samráð við þingmenn úr öðrum flokkum, í hverju einasta máli. Ég vísa til þess sem gerðist í félagsmálanefnd í fyrra þar sem endurskrifa þurfti öll frumvörpin sem komu úr ráðuneytinu. Það þurfti hreinlega að leggja þau til hliðar eða rífa og setja í ruslatunnuna og skrifa upp á nýtt. Þar áttu þingmenn okkar í viðkomandi nefndum sína hlutdeild.

Umræðan hélt áfram eftir blaðamannafundinn í mars. Við ræddum skuldavanda heimilanna í júní. Hvað sagði þá hæstv. forsætisráðherra? Skuldavandinn er ekki jafnmikill og sagt er. Það var sagt 4. júní. Skuldavandinn er ekki jafn mikill og sagt er. Þegar við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað, allt frá því að ríkisstjórnin tók við, bent á að aðgerðir hennar dygðu ekki til að ná utan um vandann hefur hún skellt skollaeyrum við þeim málflutningi — allan tímann.

Vandi heimilanna í dag er ekki sá að við í Sjálfstæðisflokknum mætum ekki með þremur ráðherrum upp í Stjórnarráð. Vandinn er stefnan og grundvöllurinn sem þessi ríkisstjórn hefur unnið að til þess að leysa vandamálið. Það er hún sem hefur verið í ákveðinni veruleikafirringu. Það er ríkisstjórnin sem hefur ekki náð utan um vandann og komið með lausnirnar sem allir eru að kalla eftir.

Vandi heimilanna er ekki bundinn við skuldirnar sem hvíla á heimilunum og húsnæði fjölskyldna. Hann er líka bundinn við það að hér er ríkisstjórn sem hefur ómögulega efnahagsstefnu sem er ekki líkleg til að skapa hagvöxt þannig að til verði ný störf svo fólk geti staðið í skilum og greitt sína skatta þannig að ríkið geti staðið undir velferðarkerfinu sem byggt hefur verið upp. Reyndar er það þannig að í nýju frumvarpi til fjárlaga sjáum við að þó að okkur takist að auka tekjur ríkissjóðs eins og áætlað er að verði á næstu árum, mun ekkert svigrúm verða til að auka útgjöld til velferðarmála næstu fjögur ár. Það er það sem segir í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég minntist hér á skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir. Hún liggur nú fyrir. Þar kemur fram að einungis hafa 128 einstaklingar fengið sértæka skuldaaðlögun. Það liggur jafnframt fyrir, ég sat fyrirlestur hjá umboðsmanni skuldara um síðustu helgi, að einungis hafa um 500 aðilar komist í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Þá er ég ekki að tala um endanlega afgreiðslu, heldur mál sem eru í vinnslu.

Það stendur upp á hæstv. forsætisráðherra að svara því nú: Hvernig líst þér á árangur þessara umfangsmiklu aðgerða sem eru sagðar hafa dugað og ná utan um vandann? Hvers konar hörmungardómur eru þessar tölur yfir úrræðum ríkisstjórnarinnar fram til þessa? Þetta er algjör falleinkunn. En vandinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn mætti ekki á fund í Stjórnarráðið í morgun. Það er stóra vandamál heimilanna, ekki satt?

Þetta sjónarspil sem boðið er upp á er algjörlega makalaust.

Það sem þarf að gerast er í fyrsta lagi að menn fari loksins að taka skuldavanda heimilanna alvarlega. Vilji menn efna til samráðs þarf það að taka til fleiri þátta en skulda heimilanna. Þá þarf að hafa samráð hvernig unnið verður að atvinnuuppbyggingu í landinu, hvernig við komum af stað nýrri trúverðugri efnahagsstefnu fyrir landið. Það gerir okkur kleift að loka fjárlagagatinu og skapa ný störf þannig að fólk komist aftur út á vinnumarkaðinn, geti unnið fyrir sér og sínum og endurheimt lífskjörin sem hafa glatast í hruninu. Það skortir algjörlega.

Við þurfum að fá inn nýjar fjárfestingar. Við þurfum að lækka vexti. Við þurfum að losna við gjaldeyrishöftin. Við þurfum nýja skattstefnu sem byggir ekki á því að seilst sé sífellt dýpra í vasa heimilanna og frekari byrðar lagðar á fyrirtækin. Við þurfum að koma framkvæmdum af stað. Hvar eru efndirnar á loforðunum um framkvæmdir í samstarfi við lífeyrissjóðina? Hvar eru þær efndir? Hvar eru efndir stóru loforðanna um að menn mundu nýta kraftinn sem væri í lífeyrissjóðakerfinu til þess að hrinda mannaflsfrekum framkvæmdum í gang? Eru það bara þingmenn Vinstri grænna sem standa í vegi fyrir því? (ÁI: Líttu á Landspítalann.) Eða er það ríkisstjórnin í heild sinni? (Gripið fram í.) Þau eru uppi í hillum í metravís verkefnin sem eru tilbúin til framkvæmda. Það eru svona mál sem þarf að koma hér á dagskrá.

Varðandi bankana og fjármálafyrirtækin þá hefur ríkisstjórnin brugðist algjörlega í að veita þeim aðhald við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og aðgerðunum sem þau hafa haft úr að spila til að koma til móts við vanda heimilanna.

Ég fagna því reyndar sem hæstv. forsætisráðherra segir að þeim verði ekki gefinn mikið meiri tími. Það er kominn tími til að setja fjármálafyrirtækjunum einhver mörk. Segja hingað og ekki lengra. Innan þess tímaramma sem við setjum verður að vera lokið við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjanna í landinu og aðgerðir sem beinast að heimilunum. (Forseti hringir.) Það er algjört grundvallarskilyrði að fjármálafyrirtækjunum verði sett slík skýr mörk.



[14:48]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara formanni Sjálfstæðisflokksins að sinni, ég gerði það nefnilega í ræðustól árið 2007. (VigH: Láttu vaða aftur.) Umræðan núna fjallar um skuldavandann í þjóðfélaginu en umræðu um skuldavanda er hægt að nálgast með ýmsu móti. Menn hafa aðallega gert það á tvennan hátt, annars vegar með því að spyrja: Hvað er hægt að gera fyrir hinn skulduga, hvort sem það er einstaklingur, fjölskylda eða fyrirtæki? Þeirrar spurningar hafa stjórnvöld spurt, leitað svara við og komið með nokkrar úrlausnir á.

Ég nefni fyrst greiðslujöfnun sem hefur leitt til lækkunar á greiðslubyrði, fyrst og fremst með því að lengja í lánum og tengja afborgunarskilmála vísitölu launa og atvinnustigs. Í öðru lagi er um að ræða sértæka skuldaaðlögun í bönkunum en eins og hér hefur verið vakið máls á hefur hún náð til allt of fárra einstaklinga, aðeins 128 af 437 sem sótt hafa um slíkt innan bankanna. Þá vil ég nefna úrræði sem skiptir verulegu máli, en það er greiðsluaðlögun á vegum ríkisins, sem felur í sér að skuldir eru aðlagaðar að greiðslugetu einstaklinga og fjölskyldna og það sem umfram er er fellt niður. Þetta er raunverulegt úrræði sem skiptir raunverulegu máli. En til þess að það næði fram að ganga og gæti orðið að veruleika fyrir þá sem í hlut eiga setti Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar á fót sérstakt embætti umboðsmanns skuldara. Það er nú að fóta sig og við erum að efla það eins og við mögulega getum en ýmis ljón eru í veginum.

Til dæmis hefur verið bent á að ríki og sveitarfélög hafa ekki komið sem skyldi inn í þessa aðlögunarpakka með sínar kröfur vegna skatta og annarra gjalda og það er nokkuð sem við erum nú að taka á á markvissan hátt þannig að ríki og sveitarfélög og hið opinbera komi einnig að þessari greiðsluaðlögun.

Síðan eru það lánsveðin. Þar þekkjum við öll hvernig háttar til á Íslandi. Einstaklingur, unga fjölskyldan, veðsetur eign sína og fær síðan veð að láni eða ábyrgð á einhvern hátt hjá foreldrum eða systkinum, fjölskyldunni. Þegar skuldir einstaklingsins eru síðan færðar niður standa þessi veð út af. Á þessu þarf að taka og við þurfum að leita samninga.

Þá vil ég nefna enn eitt sem að vísu er ekki úrræði í sjálfu sér heldur fyrst og fremst frestun á vanda og það er heimild sem fólk hefur haft til þess að fá lokanauðungarsölu frestað um þrjá mánuði. Þessi frestur var framlengdur í febrúarmánuði og á að renna út nú í októberlok en við höfum afráðið að framlengja þessa heimild til mánaðamótanna mars/apríl á næsta ári. (Gripið fram í.)

Síðan er það annað sem skiptir líka höfuðmáli og kom fram í tölu hæstv. forsætisráðherra hér áðan að ef fólk, einstaklingar eða fjölskyldur, skýtur máli sínu til eða leitar til umboðsmanns skuldara og hann tekur málið til umfjöllunar, þá gerist það sjálfkrafa ef hann óskar eftir því að eignin verður sett í frost og ekki boðin upp. Þetta er líka grundvallaratriði og veitir hinum skulduga rými til að taka á sínum málum.

Þetta eru allt saman úrræði sem verða að virka og hafa þegar hjálpað fjölmörgu fólki. (Gripið fram í: Allt of fáum.) Allt of fáum, það er alveg rétt, og við þurfum að greiða götu þessa fólks. Þeir sem koma að þessu samráði, þessari sameiginlegu vinnu okkar, eru ásamt okkur að finna leiðir til að greiða götu þessa fólks.

Síðan er það hin leiðin til að nálgast þennan vanda, sem skýrir að mínu mati reiðina sem er í þjóðfélaginu, og það er að nálgast málið á allt annan hátt en ég hef hér lýst, þ.e.: Hvað er hægt að gera fyrir hinn skulduga? Og það er þegar hinn skuldugi segir: Það á ekkert að gera fyrir mig, það þarf ekkert að gera fyrir mig. Það eina sem þarf að gera er að skila mér til baka því sem hefur verið oftekið af mér. Menn hafa horft þar til bankakerfisins sem fór á hausinn að hluta til vegna sviksemi innan fjármálakerfisins sem síðan leiddi til óðaverðbólgu sem svo þyngdi vaxtabyrðarnar. Við þekkjum öll verðbólguskotið.

Það er þetta sem Hagsmunasamtök heimilanna hamra á. Þau segja: Það á að færa höfuðstólinn niður og reikna með hámarksþaki á vísitölu frá 1. janúar 2008. Skilið okkur til baka því sem var oftekið af okkur.

Ég er sammála þessari grundvallarhugsun og við höfum ákveðið innan Stjórnarráðsins að vera opin fyrir þessari lausn líka, við erum opin fyrir henni. Hvernig er hægt að taka á þessu? Það væri hægt að gera það með lagaboði en þar er hængur á, einfaldlega vegna þess að það má reikna með því að höfðað yrði skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess að þetta yrði að mati einhverra brot á einkaeignarrétti. Síðan hefur verið bent á gagnrök í því máli líka.

En það er til önnur lausn. Það er lausn samráðs, þjóðarsáttar. Það er þetta sem Hagsmunasamtök heimilanna eru að kalla eftir og sem betur fer hafa flestir flokkar hér á Alþingi tekið vel undir það að við efnum til átaks, efnum til samráðs með öllum fjármálastofnunum í landinu, með lífeyrissjóðunum, með hinu opinbera, ríkinu, sveitarfélögum, verkalýðssamtökum og Hagsmunasamtökum heimilanna um þjóðarsátt um að færa skuldastabbann niður. (Forseti hringir.) Nú ríður á og ég bið þjóðina að fylgjast með því hverjir koma til með að verða hér innan dyra sem vilja vera með og taka í þá hönd sem hér hefur verið rétt fram. (Gripið fram í.) Það verður greinilega ekki Sjálfstæðisflokkurinn. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)



[14:56]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú eru tvö ár liðin frá efnahagshruninu, tvö ár, og á þeim tíma hefur alveg ótrúlega lítið gerst, sérstaklega þegar horft er til þess að það lá ljóst fyrir strax eftir hrunið að það mætti engan tíma missa. Þörfin fyrir aðgerðir væri slík bæði hvað varðaði heimilin og fyrirtækin. Þannig var það t.d. í febrúar árið 2009, febrúar í fyrra, að menn töldu að það lægi svo mikið á að það mætti ekki bíða í einn eða tvo daga með myndun ríkisstjórnar, það þyrfti að komast strax af stað, strax þann sama dag, í síðasta lagi á morgun, til að ráðast í nauðsynlegar bráðaaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki.

Þá var komið á minnihlutastjórn sem hafði það einfalda verkefni að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd og hefði haft allt þingið á bak við sig í því. Því miður var sá tími ekki notaður þá og það sem er verra er að nú eru liðin hátt í tvö ár frá því að þetta var og ósköp lítið hefur bæst við. Í mars á þessu ári kynntu nokkrir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar tillögur að úrbótum varðandi skuldastöðu heimila. Þá var jafnframt tilkynnt að þar með væri allt fram komið, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði þennan dag, 7. apríl: Við leggjum áherslu á að nú þegar umgjörðin hefur verið … Nei, fyrirgefið, hér er ég að vitna í yfirlýsingu sem fylgdi síðan í kjölfarið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég ætla að koma aðeins inn á hana á eftir.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því þá yfir, eins og síðan var ítrekað í sendingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að allt væri fram komið sem gert væri ráð fyrir að gera fyrir heimilin og nú þyrftu menn bara að nýta sér þau úrræði sem til staðar væru. Þetta stafar líklega af því að allt frá því að þeir flokkar sem nú fara með völd komust í ríkisstjórn hafa þeir verið í algjörri afneitun um umfang vandans. Ég taldi á sínum tíma að allir gerðu sér grein fyrir því hversu víðtækur vandinn væri, en síðan höfum við hvað eftir annað séð hversu mikil afneitunin er og birtist hún m.a. í yfirlýsingu ráðherranna í mars.

Við höfum líka séð marga ráðherra halda ræður um það að ástandið sé miklu betra en menn hafi haldið og sé nú allt að lagast og að vandi heimilanna afmarkist við tiltölulega lítinn hluta íslenskra heimila, sem er einfaldlega rangt. Við sjáum það á tölum frá Seðlabankanum — sem reyndar voru dálítið sérkennilegar vegna þess að sleppt var að taka hina ýmsu útgjaldaliði heimilanna með í reikninginn — að þegar þeim útgjaldaliðum sem Seðlabankinn sleppti er bætt við er líklega um helmingur íslenskra heimila í þeirri stöðu að skulda meira en þau eiga. Þetta er náttúrlega stórkostlegt vandamál, þetta er umfangsmikið vandamál sem snertir tugþúsundir heimila en þetta er líka vandamál fyrir samfélagið allt því að þegar svona stór hluti samfélags er í vandræðum er samfélagið allt í vanda og þá duga ekki sértækar aðgerðir eins og þær sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir frá byrjun.

Það liggur núna fyrir í tölum sem hæstv. forsætisráðherra hefur birt sjálf að 128 manns hafa farið í gegnum sértæka skuldaaðlögun, 128 af þeim tugþúsundum sem á lausn þurfa að halda. Þetta var alveg hægt að sjá fyrir, á þetta bentum við strax þegar lagt var upp með þessar aðgerðir og töluðum fyrir mikilvægi almennra aðgerða, almennrar leiðréttingar skulda. Ríkisstjórnin kom með ýmis rök gegn því án þess, að því er mér fannst, að vilja kynna sér málið, kynna sér rökin sem þar lágu að baki og möguleikana sem þar voru, því að möguleikarnir voru til staðar, ekki hvað síst vegna þess að þá var ekki enn búið að flytja lánasöfnin á milli gömlu bankanna og þeirra nýju.

Eitt af því sem haldið var fram var að þetta væri ekki sanngjarnt vegna þess að þeir sem skulduðu meira fengju hærri krónutölu afskrifaða, þrátt fyrir að með leiðinni væri í raun fullkominnar sanngirni gætt vegna þess að verið var að færa alla aftur á þann stað sem þeir höfðu verið á fyrir hrunið. En það þótti ekki sanngjarnt að mati ríkisstjórnarinnar að þeir sem skulduðu meira fengju meiri niðurfellingu.

Hver hefur raunin orðið? Það hafa nánast bara þeir sem skulda mest, sérstaklega fyrirtæki, stórskuldug fyrirtæki, fengið afskriftir á meðan að fyrir þá sem skulduðu minna og hefðu kannski með leiðréttingu haft tækifæri til þess að vinna sig út úr vandanum hefur ósköp lítið verið gert. Þetta kraftleysi sem við sjáum í því að verja hag heimila og íslenskra fyrirtækja helst í hendur við alveg ótrúlega mikla fylgispekt við erlendar alþjóðastofnanir.

Þá komum við að yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrst 7. apríl, eftir yfirlýsingu ráðherranna um að ekki væri frekari aðgerða að vænta, þá segja ráðherrarnir, með leyfi forseta:

„Við leggjum áherslu á að nú þegar umgjörðin hefur verið mótuð og komið hefur verið upp aðgerðum fyrir heimilin verði engin frekari framlenging á frestun nauðungaruppboða og mun frystingu ljúka í lok október 2010.“

Þetta var ítrekað í yfirlýsingu nú í september en afneitunin er slík að jafnvel það sem ríkisstjórnin sendir frá sér á prenti þrætir hún svo fyrir daginn eftir. Svo kemur þessi málflutningur sem hefur verið mjög áberandi hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar og álitsgjöfum sem eru hallir undir ríkisstjórnarflokkana að vandinn sé ekki ríkisstjórnarinnar heldur sé vandinn stjórnmálanna, pólitíkin þurfi að vinna meira saman.

Þetta er í fyrsta skipti svo ég viti til sem ríkisstjórn telur að vandinn liggi ekki hjá sér, ábyrgðin liggi ekki hjá sér, valdið ekki hjá sér heldur sé það hjá öllum stjórnmálunum. Það er ríkisstjórn í landinu með meiri hluta í þinginu, hún hefur vald til þess að framkvæma það sem hún vill og stjórnarandstaðan hefur, öfugt við það sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og þessir álitsgjafar halda fram, greitt götu allra góðra mála sem frá þessari ríkisstjórn hafa komið, langflest mál hafa farið hér í gegn mótatkvæðalaust. Menn leggja til breytingartillögur og oft má laga málin aðeins með þeim hætti en að öðru leyti fara þau í gegn án nokkurra mótmæla.

Vandinn er sá að réttu lausnirnar eru ekki að koma og það er ekki verið að fylgja réttri stefnu og hvað varðar stjórnarandstöðuna þá er ekkert tillit tekið til tillagna frá henni (Forseti hringir.) heldur sett á svið eitthvert sjónarspil til að láta líta út fyrir að samráð sé í gangi. Menn verða að sýna viljann í verki, menn verða að sýna að þeir séu raunverulega tilbúnir til að breyta um stefnu því ekki er vanþörf á.



[15:03]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu, hún er löngu tímabær. Hér er gríðarlegt vandamál, sennilega mesta vandamál sem nokkurn tíma hefur steðjað að íslensku samfélagi. Vandamálið er hrunið en vandamálið er ekki síður sú langa saga ekki-lausna sem ríkisstjórnin hefur reynt að bjóða upp á eftir hrun.

Ég vil leyfa mér að rifja upp fyrsta mál þessara viðvarandi ekki-lausna sem var frumvarp félagsmálaráðherra frá sumrinu 2009. Það átti að gera gagn en var svo tyrfið og torskilið að sennilega hefur enginn getað nýtt sér það. Eina almennilega skilgreiningin þar á skuldum sem átti að fella niður voru skuldir vegna afleiðusamninga. Þar kom inn vísitala launa og atvinnustigs — það átti að skipta út vísitölu verðtryggingar fyrir einhverja nýja vísitölu sem var byggð á alveg jafnfáránlegum eða jafnvel enn þá fáránlegri grunni en sú sem menn bjuggu við.

Svona lausnir eru og voru til þess fallnar að gera málið enn flóknara og voru að mínu viti einfaldlega settar fram í blekkingaskyni. Þá var vitað og það er vitað núna hvað þarf að gera. Vitað var að vegna ástandsins þyrfti að fara út í almennar aðgerðir. Þúsundir heimila ættu eftir að lenda í miklum vandræðum og það væri of dýrt og of tímafrekt að ætla sér að afgreiða hvert einasta einstaka mál eftir einhverjum leikreglum sem var ekki enn búið að setja og menn vissu kannski ekki hvernig áttu að vera.

Málið fór því mjög skakkt af stað. Ég gleymi því ekki að til mín kom stjórnarþingmaður og sagði: Geturðu komið þessum tillögum á framfæri við félagsmálanefnd? Ég legg ekki í að gagnrýna þetta sjálfur. Ég sendi tillögurnar til félagsmálanefndar en þær voru ekki teknar til umræðu. Ég gerði athugasemd við það í 2. umr. og óskaði eftir að þær yrðu teknar til umræðu milli 2. og 3. umr. í nefndinni. Þingforseti gerði hálftímahlé á fundi. Þá stóð upp sitjandi formaður félags- og tryggingamálanefndar og sagði: Það tekur okkur nú ekki nema fimm mínútur að afgreiða þetta mál. Menn afgreiddu það síðan hér á fundi undir stiganum eins og hænur á priki.

Þannig er saga þessara mála og það er kominn tími til að henni ljúki og farið verði í að gera þetta af einhverju viti. Ég fagna ræðu hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar áðan um það sem hann er að gera. Mín tilfinning frá fundinum sem ég sat í morgun uppi í Stjórnarráði er hins vegar sú að hann rói því miður enn í aðra átt en hinir ráðherrarnir sem voru á fundinum. Vonandi fara þeir að breyta áralagi sínu annaðhvort síðar í dag eða á morgun eða um helgina.

Það er vitað hvað þarf að gera. Það þarf að fara út í almennar aðgerðir og lækkun á verðtryggðum lánum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að 4% þak verði á verðtryggingu frá því í janúar 2008. Stöðva þarf nauðungaruppboð og vinda ofan af þeim uppboðum sem hafa farið fram vegna ólöglegra lána. Taka þarf inn ákvæði í anda lyklafrumvarps Lilju Mósesdóttur fyrir fólk sem hefur einfaldlega gefist algjörlega upp á þessari flækju og kýs frekar að leigja sér íbúð einhvers staðar á Raufarhöfn og búa þar en að taka þátt í því að vera kreist til æviloka með greiðslur. Það þarf að koma á fyrningu á kröfum. Það þýðir ekki endalaust að hlaupa eins og jarmandi sauður á eftir tillögum réttarfarsnefndar sem hefur þannig viðhorf til manneskjunnar að skelfilegt er að hlusta á. Fyrningu á upptöku krafna verður að koma í gagnið, það gengur ekki að hægt sé að elta fólk fram á grafarbakkann með því að taka endalaust upp kröfur á það. Það er einfaldlega verið að binda fólk í skuldafangelsi ævilangt og útskúfa því úr samfélaginu.

Í framhaldinu þarf síðan að beita sér fyrir því að verðtryggingin verði afnumin. Þetta er í annað skipti á 25 árum þar sem verðtrygging húsnæðislána gerir þúsundir fjölskyldna í landinu gjaldþrota. (SII: Skipta um gjaldmiðil.) Getum við ekki reynt að læra af því (Gripið fram í.) og tekið upp aðrar lausnir í staðinn? Að skipta um gjaldmiðil, segir einn hv. þingmaður. Vissulega er það ein leið og ef það er góð leið fagna ég henni.

Þeim aðgerðum sem þarf að grípa til hefur verið velt upp á fundum með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Þær ganga gegn áhuga fjármálastofnana og þær ganga gegn samningi ríkisstjórnarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á það hef ég bent, bæði hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, og spurt hvort þau séu tilbúin til að taka þann slag sem þarf gegn þeim aðilum. Ég hef enn ekki fengið jákvætt svar við þeirri spurningu og á meðan svo er ekki verð ég einfaldlega að telja að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar rói í aðra átt en hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra gerði hér áðan.

Stjórnvöld þurfa að hafa kjark til að taka þennan slag. Þau hafa að vísu viðurkennt að þetta hafi ekki gengið upp og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að viðurkenna það hér áðan. Það þarf kjark til að taka þennan slag og það þarf að koma afgerandi yfirlýsing frá stjórnvöldum nú á allra næstu dögum um að það verði gert. Fólk hefur áhyggjur af mótmælum og ég er sammála því að þau séu mikið áhyggjuefni. Þau munu hins vegar hætta ef það verður annað tveggja eða hvort tveggja gripið til afgerandi aðgerða til að hjálpa heimilunum í landinu og lagfæra efnahagsstefnuna og skuldastöðuna og hins vegar ef boðað verður til kosninga. Það er það sem ég heyri hér úti, að stjórnvöld hafi brugðist og að skipta þurfi um fólk á Alþingi.

Við sem gengum út úr þinghúsinu á mánudagskvöldið og fórum út á Austurvöll, í stað þess að láta flytja okkur í lögreglufylgd eitthvert út í Tjarnargötu, heyrðum einfaldlega þetta: Það þarf að skipta út fólki á þingi. Það eru til aðferðir til þess og þær heita kosningar. Ég legg til að við höldum áfram þessari vinnu og ég mun svo sannarlega mæta á mánudagsmorgunn á fund ráðherra í Stjórnarráði til að athuga hvernig þeim hefur miðað um helgina. En á þeim fundi vil ég líka fá svör ef við í Hreyfingunni eigum að taka áfram þátt í þessu starfi. Við erum full vilja til að gera það en beðið hefur verið of lengi með að gefa svör og nú er einfaldlega komið að endimörkum. (Forseti hringir.)

Í lokin vil ég samt þakka fyrir umræðuna.



[15:11]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna hefur verið eitt af meginviðfangsefnum stjórnvalda frá hruni. Fyrst var gripið til bráðaaðgerða eins og frystingar lána, stöðvunar á nauðungarsölum, greiðslujöfnunar verðtryggðra og gengisbundinna lána og hækkunar vaxtabóta. Síðan hafa stjórnvöld breytt ýmsum lögum til að tryggja betur rétt skuldara og sett hafa verið lög um frjálsa samninga bankanna til skuldaaðlögunar fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við hrun voru ekki til lög um greiðsluaðlögun þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi í gegnum árin margoft flutt frumvörp í þá veru.

Vorið 2009 tóku slík lög loks gildi og nú í vor voru þau endursamin til að þjóna betur markmiðum sínum sem eru að tryggja verst stöddu heimilunum leið út úr skuldafangelsi. Félags- og tryggingamálanefnd hefur verið mjög samhent og unnið sem einn maður. Ég vil þakka stjórnarandstöðunni fyrir málefnalegt samstarf og alla þá vinnu sem þau hafa lagt af mörkum. Nú hefjum við enn eina hrinuna og erum búin að kalla eftir upplýsingum frá bönkunum til að fá frekari upplýsingar um stöðu viðskiptavina þeirra og hvernig stjórnvöld geti létt undir með bönkunum í störfum þeirra við skuldaaðlögun. Við munum fylgjast náið með störfum þeirra á reglulegum fundum. Lánastofnanir þurfa að setja mun meiri kraft í þá vinnu og það er okkar að halda þeim við efnið og skaffa þeim þau tæki sem nauðsynleg eru.

Nú erum við að komast inn í þriðja fasann. Við erum komin með flest tæki og tól, við vitum hvaða bresti þarf að berja í og nú þurfa stjórnmálamenn og bankamenn að hafa hugrekki til að klára verkefnið. Það munu ekki allir halda húsnæði sínu þó að samfélagið og heimilin hafi hag af því að sem flestir geti búið áfram í sínu húsnæði.

Í grein Gunnlaugs Jónassonar í Morgunblaðinu í dag eru tillögur um kaupleigukerfi sem ég tel að rími ágætlega við hugmyndir sem voru lagðar hér fram í vor og við eigum að taka mið af og byrja að vinna að. Húsnæðisöryggi verðum við að tryggja.

Frá upphafi hefur verið stefnt að því að laga greiðslugetu heimila að skuldastöðu. Þetta hefur krafist breyttra viðhorfa og vinnulags hjá bönkunum og stjórnvöldum. Við höfum tekist á við endurreisn bankakerfisins, flöskuhálsa vegna gengisbundinna lána, smíða hefur þurft ný lög og láta reyna á virkni þeirra og breyta lögum. Við eigum enn ýmislegt ógert en við erum mjög langt á veg komin.

Við erum öll á sama báti og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma öllum heimilum í landinu heilum og höldnum út úr þessum hremmingum. Við þurfum að tryggja að tiltækir fjármunir nýtist þeim sem eiga í mestum vanda. Sérstaklega þurfum við að líta til þeirra sem keyptu fyrstu eign í húsnæðisbólunni, tekjulægri hópa og vanda vegna sjálfsskuldarábyrgðar fólks í fyrirtækjarekstri. Þessar lausnir eru ekki kerfislausnir heldur skynsamleg leið fyrir samfélag sem hefur takmarkaða fjármuni að spila úr.

Við erum nú á mjög erfiðum tímamótum en ég hafna öllum úrtöluröddum og hvet allan þingheim að leggjast á árarnar og blása þjóðinni von í brjóst. Það gerum við með samstöðu og áræðni í störfum okkar.



[15:15]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru tvö ár liðin frá bankahruninu. Öllum var ljóst þegar það varð hver verkefnin voru. Allir flokkar og sérstaklega þeir sem stýra í þessari ríkisstjórn töluðu um mikilvægi þess að slá skjaldborg um heimilin. Það er því miður orðið að einhvers konar gríni núna, fólk talar um þetta í hálfkæringi. Við hlustuðum hér á umræður þar sem var engu líkara en hæstv. ráðherrar væru í stjórnarandstöðu. Þetta voru aðilar, virðulegi forseti, sem fóru af stað í þessa vegferð vegna þess að skýra verkstjórn vantaði við stjórn landsins.

Við horfum núna á það tveimur árum seinna að sú verkstjórn hefur skilað okkur því að við vitum ekki enn hvort það sem hæstv. ráðherrar hafa sagt, að nóg sé að gert, vandinn sé leystur, sé stefna ríkisstjórnarinnar eða ekki. Það er þessi skýra verkstjórn. Hér segja menn að sérstök skuldaaðlögun, sem var stóra málið og átti að leysa vanda þúsunda aðila, hafi nýst 128 aðilum. Mér finnst það að vísu merkilegt því að ég spurði um þetta í vor og fékk þá þær upplýsingar að 1. mars hefðu þeir verið 277.

Ég man vel eftir þegar menn fengu í miklum flýti frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra — þetta var dagaspursmál, það átti að klára það á nokkrum dögum vegna þess að þetta var stóra málið sem átti að leysa allan vandann. Við horfum nú upp á að fólk er orðið örvæntingarfullt og mótmælir kröftuglega fyrir utan þetta hús.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um Finnland. Virðulegi forseti. Hvað gerðu Finnar loksins þegar þeir komust á beinu brautina? Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Þeir tóku á atvinnumálum, þeir lækkuðu vexti, þeir tryggðu gott og formlegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Og vitið þið hvað, þeir tryggðu gott þverpólitískt samstarf. Ég spyr ykkur hér inni: Erum við að því? Var ræða hæstv. dómsmálaráðherra liður í því, lokaorðin kannski? Voru þau grunnurinn að góðu samstarfi?

Virðulegi forseti. Fólkið vill athafnir í stað orða af góðri ástæðu. Við sjálfstæðismenn höfum í þrjár vikur beðið um fund í hv. viðskiptanefnd um gengisdóminn. Hvernig eigum við að geta tekið á þeim þætti málsins ef við skoðum hann ekki?

Við fáum fregnir af því að búið sé að lofa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að nauðungarsölur verði ekki stöðvaðar. Hefur hæstv. forsætisráðherra breytt um stefnu í því? Ég vona svo sannarlega að svo sé.

Aðalatriðið er að nú erum við komin að þeim tímapunkti að það getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar ef við þingmenn vinnum ekki saman að því að leysa þennan vanda af alvöru. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, ef ríkisstjórnin ætlar að sitja áfram þá verður hún að kynna stefnu sína í þessum málum. Á öðrum forsendum er ekki hægt að ræða þau. Það er ekki hægt að koma hér upp hvað eftir annað og tala fjálglega um að við verðum að vinna saman. Ríkisstjórnin verður að sýna á spilin. (Forseti hringir.) Ef hún getur það ekki þá á hún að fara. (Dómsmrh.: Þetta voru frábærar hugmyndir.)



[15:19]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum í dag er án efa það brýnasta sem uppi er í þjóðfélaginu um þessar mundir og ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða það hér í þingsal.

Allt frá þjóðveldisöld hefur það verið rauður þráður í hugsun þjóðarinnar að við berum sameiginlega ábyrgð hvert á öðru. Sú hugsun sést í því að á þjóðveldisöld var lögfest skattheimta, þ.e. tíund, til að tryggja framfærslu allra. Nú á tímum þarf þessi hugsun að ná yfir það að öryggi fjölskyldna sé ekki ógnað, allir hafi þak yfir höfuðið, viti hver næturstaður þeirra er. Hún þarf að ná til þess að allir hafi framfærslu og sömu réttindi.

Nú liggur fyrir að þessu öryggi, eins og ég áður sagði, er ógnað vegna forsendubrestsins sem varð við bankahrunið. Á einn eða annan hátt hafa allir Íslendingar fundið fyrir því en við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að sumar fjölskyldur standa miklu verr eftir hrun en aðrar. Vilji menn kalla það almennar aðgerðir að tryggja öllum fjölskyldum öruggt húsaskjól og viðunandi skuldastöðu er ég fylgjandi almennum aðgerðum.

Menn mega ekki festast í því að benda hver á annan eins og komið hefur fram í umræðunni. Hv. þm. Bjarni Benediktsson kom inn á það áðan hvernig allir þingmenn tóku þátt í því í vor að vinna að lausnum. Nú er hins vegar ljóst að þær lausnir duga ekki og þá mega þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, ekki rísa upp á afturlappirnar og benda hver á annan og segja að þetta sé hinum að kenna. Það gerir ekki nokkurt einasta gagn. Við tókum öll þátt í að leysa þetta mál á sínum tíma, núna erum við væntanlega öll tilbúin til að bæta í vegna þess að við sjáum öll að það þarf að gera meira. Þá eigum við ekki að taka upp þann leik að benda hvert á annað. Það hefur engan tilgang.

Það er athyglisvert, virðulegi forseti, hversu fáir hafa farið í hina svokölluðu sértækri skuldaaðlögun eins og kemur fram í skýrslunni frá eftirlitsnefnd með sérstakri skuldaaðlögun. Hluti ástæðunnar kann að liggja í því að úrræðin hafi verið töluð niður, bæði hér innan húss og úti í samfélaginu. Ef svo er þarf að ráða bót á því. Hluti vandans liggur líka í því að stjórnvöld, þar með talin sveitarfélögin, hafa ekki komið inn í pakkann. Það kemur skýrt fram í skýrslunni. Mér finnst einboðið að bæði ríki og sveitarfélög verði á sama hátt og bankar og fjármálafyrirtæki að taka þátt. Þá er einnig víst að aðrir utanaðkomandi aðilar, svo sem byggingarvörufyrirtæki og fleiri, þurfi líka að koma að samkomulaginu.

Það þarf einnig að tryggja að þeim einstaklingum sem ákveða að sækja eftir sértækri skuldaaðlögun eða leita lausna hjá umboðsmanni skuldara verði sjálfkrafa veitt skjól fyrir uppboðum meðan verið er að vinna úr málum þeirra. Ég er sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að í bili þurfum við að grípa strax til úrræða í þessum efnum en það má ekki bara gilda fram til mars á næsta ári. Úrræðið þarf að vera fyrir hendi þegar fólk þarf á því að halda.

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að ef þingið er tilbúið til að vinna saman heils hugar að því að leysa úr vandanum getum við það. (Forseti hringir.) Það á að vera það eina sem við höfum áhuga (Forseti hringir.) á að gera í þessum málum.



[15:23]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Mótmælin á Austurvelli hafa sýnt hversu mikil örvænting og reiði og hræðsla við framtíðina ríkir hjá almenningi. Ég skil mjög vel þessa reiði, ég er sjálf mjög reið. Ég hef horft á ættingja mína flytja til útlanda, ég hef horft á vini mína og ættingja missa vinnuna og þeir hafa ekki enn fengið aðra vinnu. Ég hef horft upp á, bæði hjá sjálfri mér og mínum nánustu, hvernig skuldir okkar hafa margfaldast og það er mjög auðvelt að tapa sér í þessari reiði, að vera svona ósáttur við hvernig staðan er á Íslandi.

Ég skil þessa reiði en ég skil líka að mörgu leyti þá erfiðu stöðu og þann mikla vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir vegna þess að vandinn er gífurlegur. Ég mundi gjarnan vilja segja að ég skilji hann ekki og að ráðherrarnir í ríkisstjórn séu bara einfaldlega vont fólk og vilji almenningi illt. En staðreyndin er einfaldlega sú að við stöndum uppi með gjaldþrota bankakerfi, við stöndum uppi með gjaldþrota fyrirtæki, gjaldþrota einstaklinga og nánast gjaldþrota ríkissjóð. Það er sannfæring mín að hæstv. forsætisráðherra leikur sér ekki að því að leggja til 30–40 milljarða kr. niðurskurð á velferðarkerfinu sem hún hefur eytt ævi sinni í að verja.

Enginn stjórnmálamaður vill sjá nokkra fjölskyldu missa heimili sitt á uppboði og enginn stjórnmálamaður vill sjá íslenskt atvinnulíf í þeim lamasessi sem það er í í dag. Þetta er hins vegar sá veruleiki sem við stöndum öll frammi fyrir. Sú krafa sem mér hefur fundist bergmála úti á Austurvelli, bergmála í þeim tölvupóstum sem við höfum öll fengið, er að fólki er nokk sama hvort við séum samfylkingarmanneskjur, framsóknarmenn, sjálfstæðismenn, í Hreyfingunni eða vinstri græn, það vill að við vinnum saman og reynum að leysa úr þessum gífurlega vanda, að við hugsum um þau en ekki okkur.

Það er hins vegar ekkert skrýtið þó að fólk sé áttavillt vegna þess að við sjálf ruglum með þau úrræði sem við höfum samþykkt hér. Ég er ekki viss um að hver og einn þingmaður geti útskýrt muninn á sértækri skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun eða útskýrt vísitöluna sem notuð er til að reikna út greiðslujöfnunina. Hér mætti einnig nefna muninn á flatri leiðréttingu og almennri leiðréttingu og hver sé hugsunin þar á bak við.

Það breytir því ekki að ég er algjörlega sannfærð um að við getum leyst þetta. Einfaldar lausnir eru ekki til því að vandinn er svo stór en lausnir eru til. Það er hægt að fara í almenna skuldaleiðréttingu, það er ekki einfalt, það kostar, en við getum gert það. Það er hægt að fara í réttlátan niðurskurð í velferðarkerfinu, það er ekki einfalt, það verður sársaukafullt en það er framkvæmanlegt. Við getum líka endurreist atvinnulífið, það er svo sannarlega ekki einfalt en við getum gert það og það er framkvæmanlegt ef við tökum höndum saman. Við getum reynt að skipta byrðunum á eins sanngjarnan máta og mögulegt er.

Það var í fyrsta skipti svo ég muni að atkvæðin voru 63:0 þegar við greiddum atkvæði með ályktun þingmannanefndarinnar. Þar vorum við hvött til að sýna heiðarleika, hugrekki og festu í öllum okkar störfum. Það eru skilaboðin sem ég vil koma á framfæri fyrir hönd okkar framsóknarmanna, (Forseti hringir.) að við viljum einmitt sýna hugrekki, heiðarleika og festu og taka höndum saman, vinna saman að því að leysa þessi vandamál. Við viljum samvinnu um almennar aðgerðir í þágu heimilanna og endurreisn atvinnulífsins.



[15:28]
Baldvin Jónsson (Hr):

Frú forseti. Á Alþingi liggur fyrir fjöldi brýnna mála sem þingið þarf svo sannarlega að takast á við, fjöldi mála sem koma verður í farveg og framkvæma og hvetja með því íslenskt hagkerfi af stað á ný. Þó er ekkert mál brýnna en að bregðast samstundis við skuldavanda heimilanna. Í september einum voru 400 heimili sett á uppboð. Um 260 uppboð eru fyrirhuguð til viðbótar í október. Þarna erum við að tala um 660 fjölskyldur sem eru væntanlega núna að leita sér að samastað til að eyða næstu jólum á. Þetta eru heimili fólks sem að stærstum hluta fór ekki illa með fé sitt og var ekki að offjárfesta eða eyða langt umfram fjárráð. Þetta eru heimili fólks sem tók flestallt yfirvegaða ákvörðun um fasteignakaup fyrir fjölskyldu sína, byggða á tekjum fram að þeim tíma og ráðleggingum fagfólks innan bankanna.

Nú er áætlað að 73.000 heimili verði eignalaus árið 2011. Það eru ríflega 60% heimila landsins. Ríkisstjórnin lætur nú í fjölmiðlum sem hún vilji enn á ný skoða tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég fagna því. Tillögur þeirra eru algjörlega í anda þess sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa talað fyrir frá upphafi, fyllilega í anda samþykkta landsfunda bæði Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa talað fyrir tafarlausri stöðvun uppboða á fasteignum sem hvíla á veð vegna ólöglegra lána. Við höfum talað fyrir bakfærslu vísitölu til upphafs árs 2008 til leiðréttingar á höfuðstóli verðtryggðra lána. Ég styð heils hugar fram komnar tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um flatar afskriftir, 4% verðbólguþak og að gengistryggð lán verði jafngild verðtryggðum lánum frá 1. janúar 2008.

Á undanförnum mánuðum, á sama tíma og fjöldi fjölskyldna hefur verið borinn út af heimilum sínum af ráðamönnum þjóðarinnar, hefur þingið velkst með þetta mál fram og til baka í einhvers konar tilgerð þar sem fólk er látið halda að vilji sé til verka á sama tíma og augljóst má vera að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mun ekki leyfa það. Búið er að sækja sérfræðiálit úr fjölda brunna, álit sem flest hver virðast styðja flatan niðurskurð komi þau frá óhlutdrægum ráðgjöfum. Allur þessi fjöldi álita hefur engu breytt fyrir ríkisstjórnina. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir áfram þvert nei.

Fyrir hvern er þessi blekkingaleikur settur á svið? Sé raunverulegur vilji hjá ríkisstjórninni til að gera eitthvað í málefnum þeirra hundruða heimila sem sjá fram á að eyða komandi jólum á götunni verður ríkisstjórnin að sanna það með aðgerðum samstundis. Ekki bráðum, ekki eftir tugi funda með háðum álitsgjöfum, nei, núna strax. Niðurstöður skoðanakannana liggja fyrir þar sem 75% landsmanna lýsa sig viljug til að fara í flatan niðurskurð. Niðurstöður skoðanakannana liggja fyrir þar sem 80% landsmanna vilja afnám verðtryggingar. Efist ríkisstjórnin um að meiri hluti landsmanna sé fyrir því að ganga til almennra aðgerða, efist ríkisstjórnin um að þær aðgerðir muni skila þjóðinni strax auknum tekjum og hagvexti við að skapa þessum fjölskyldum svigrúm til að kaupa sér nauðsynjar og sinna lágmarksþörfum sínum, efist ríkisstjórnin um fylgi landsmanna við að bjarga heimilunum, vil ég benda þeim á það að til er einföld, lýðræðisleg lausn á valkvíða hennar. Ég mæli með því að ríkisstjórnin setji málið samstundis til þjóðaratkvæðis.



[15:32]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram og vil leyfa mér að túlka hana á þann veg að hér hafi komið fram vilji hjá langflestum sem talað hafa um að ná sátt um þann brýna vanda sem blasir við. Ég vil taka undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að krafa fólksins er að við vinnum saman að lausn málsins, ekki bara hér í þessu húsi heldur í bönkunum og hjá lífeyrissjóðum, sýslumönnum, umboðsmanni skuldara o.s.frv. Það er viðfangsefnið fram undan að ná sátt í þessu máli.

Ég sagði það í ræðu minni og það kom fram hjá ýmsum hv. þingmönnum hér að árangurinn var ekki sem skyldi í vor þegar við fórum fram með margvíslegar aðgerðir fyrir skuldug heimili og ég viðurkenni það fúslega. Af því að hér hefur verið talað um að einungis 128 hafi nýtt sér sértæk úrræði hjá bönkunum, þá hafa þúsundir einstaklinga nýtt sér þúsund önnur úrræði en þau sértæku hjá bönkunum. Ég vil líka að það komi fram að alltaf var látið fylgja, þegar við settum fram þessi fjölþættu úrræði, að vel yrði fylgst með hvort þau mundu duga og þá yrði brugðist við aftur ef svo reyndist ekki. Það er það sem við erum að gera. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að þau fjölmörgu úrræði sem til eru hafa ekki verið nýtt eins og skyldi, kannski af því að raddir hafa verið uppi um að það sé ekkert til staðar fyrir skuldug heimili o.s.frv. En um 60–80 þús. manns hafa nýtt sér þau mörgu úrræði sem við höfum sett fram.

Við verðum líka að viðurkenna það að svo er komið að fólk sem er þó með kannski 300 eða 400 þús. kr. í mánaðartekjur stendur ekki undir greiðslubyrði af venjulegu húsnæði. Þó að margt megi til taka má m.a. líta til þess að við lokuðum félagslega húsnæðiskerfinu og við byggjum á séreignarstefnu sem er þannig að láglaunafólk og fólk með meðaltekjur margt hvert getur ekki staðið undir sínu húsnæði. Við verðum líka að horfa til þess þegar við erum að fara yfir stöðuna núna að unga fólkið sem keypti íbúðir fyrir þrem, fjórum árum sér fram á, ef ekkert verður að gert, greiðslubyrði upp á 40–50% af lánum sínum næstu 30 árin og það er óboðlegt. Á þessum vanda þurfum við að taka.

Ég fór yfir það sem er á döfinni núna og ég vona að okkur auðnist gæfa til að vinna saman að þessum vanda. Mikilvægast þessa dagana er að taka á uppboðsmálunum sem ég hef miklar áhyggjur af og að hringt verði skipulega í hvern einasta af þeim 200–250 aðilum sem bíða þess núna að fara á nauðungaruppboð og farið verði í gegnum lausnir fyrir þetta fólk þannig að það þurfi ekki að missa heimili sín. Síðan bíða stóru verkefnin, eins og við höfum farið yfir hér, á næstu dögum og vikum.