139. löggjafarþing — 9. fundur
 13. október 2010.
umræður utan dagskrár.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:36]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í júlí stóð m.a., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að úthafsrækjuveiðar verði gefnar frjálsar á fiskveiðiárinu 2010/2011, þar sem ekki hefur á neinu fiskveiðiári frá fiskveiðiárinu 2000/2001 verið aflað upp í útgefið aflamark.“

Er það svo, virðulegi forseti? Aflinn á síðasta fiskveiðiári var rúm 7 þús. tonn, eða um 80–85% af aflaheimildunum, þ.e. umfram heildaraflamark, en ekki alveg það sem til var í geymslu frá fyrri árum. Ef maður skoðar þessi ár sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vitnar þarna í er veiðin af aflaheimildum sem svarar 77,2% árin 2000/2001, fer að vísu niður í 6,2% árin 2005/2006, sem var mjög sérstakt ár, en upp í 80–85% á síðasta ári. Þess vegna er sú ákvörðun sem tekin hefur verið að mínu mati vægast sagt undarleg, að gefa veiðar frjálsar á þessu fiskveiðiári út frá þessum forsendum.

Nú á sem sagt að hefja, miðað við þetta, nokkurs konar ólympískar rækjuveiðar, kappveiðar líkt og gert er í strandveiðunum þar sem fyrstir koma fyrstir fá, hrúga inn aflanum, rækjunni, sem hefur það í för með sér að afurðaverð mun lækka vegna mikils framboðs, að maður tali nú ekki um að starfsöryggi þeirra sem vinna við rækju minnkar eða jafnvel hverfur.

Þetta er málið í hnotskurn og þess vegna hef ég óskað eftir þessari umræðu utan dagskrár til að gera þetta að umræðuefni og fá hér fram sjónarmið hvað þetta varðar, enda hefur það komið fram að viðbrögð margra eru mjög gagnrýnin á þetta, alveg sama hvort við erum að tala um útgerðarfyrirtæki, bæjarfélög, vinnslufyrirtæki eða annað. Að sjálfsögðu finnast svo aðrir sem fagna þessu. Útgerðarfyrirtæki og veiðifyrirtæki eru líka sölufyrirtæki, þau selja rækjuna úr landi og eru þess vegna markaðsfyrirtæki. Þetta er mikilvæg starfsemi, rækjuvinnslan, á nokkrum stöðum á landinu.

Þrátt fyrir ýmsar skoðanir okkar á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni held ég að aflamarkaðskerfið sé eitt hið jákvæðasta og besta við það, þar sem úthlutað er afla fyrir kvótaárið og útgerðin fer þá í að skipuleggja veiðar allt árið, með tilliti til markaðsmála og til vinnuskipulags. Markaðurinn verður að geta treyst á jafnt framboð allt árið og það gefur okkur Íslendingum líka meira í aðra hönd. Það er vel þekkt, alveg sama hvort það er sala á rækju eða einhverju öðru, að mikið framboð á vöru verður til þess að lækka verð. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, þessi ákvörðun misráðin. Fyrir utan það að eins og kemur fram í gögnum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þarf lagabreytingu fyrir þessari ákvörðun og hún er ekki enn komin inn til þings. Hún hefur ekki verið tekin.

Þess vegna finnst mér mjög á gráu svæði að gera þetta nú. Það er líka mjög undarlegt að gera þetta núna þegar meira er farið að veiðast, í stað þess að hafa reynt það árin 2005/2006 ef menn hefðu viljað prófa þetta atriði. Þess vegna tek ég þetta hér til umræðu, annars vegar út frá lagalegu hliðinni, að það eigi eftir að koma með lagafrumvarp inn, hins vegar út frá markaðsforsendum og vinnuskipulagi þar sem ég tel að við séum að fara inn á vitlausa braut hvað þetta varðar vegna þess hvernig þessar ólympísku veiðar verða. Það mun leiða af sér svona frjálsar veiðar, að menn munu fara í kappveiðar. Þess vegna er það sem ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þriggja spurninga: Hvað á að veiða mikið? Hvert verður aflamarkið? Hvað má veiða?

Hvað verður gert þegar búið er að veiða þau tonn sem hæstv. ráðherra gefur út? Við skulum segja bara 7 þús. tonn eins og hefur verið. Á þá að lyfta upp flaggi og segja: Nú er búið að veiða allt sem má veiða á þessu fiskveiðiári, nú verðum við að stöðva veiðarnar yfir í næstu viku?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir skýrum svörum frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi þessar þrjár spurningar sem ég hef sett fram auk þess sem ég bíð eftir því að heyra viðbrögð við þeim atriðum sem ég hef gert að umtalsefni.



[14:42]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Möller hóf hér umræðu um málefni úthafsrækjuveiða og þá ákvörðun að ekki var gefið út heildaraflamark fyrir úthafsrækju í sumar eins og gert var fyrir aðrar tegundir sem hafa verið bundnar í aflamarki. Til að útskýra grunn þessarar ákvörðunar verður að skoða þetta mál í sögulegu samhengi.

Aflaheimildir í úthafsrækju hafa ekki verið nýttar að fullu síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Á árinu 2000/2001 var nýtingin á útgefnu aflamarki 77% en fór síðan niður í 6% á fiskveiðiárinu 2005/2006, mjakast síðan á nokkrum árum upp í 39% fiskveiðiárið 2008/2009 en á fiskveiðiárinu 2009/2010 er nýtingin skyndilega komin upp í 81% sé tekið mið af flutningi milli ára en um 100% sé miðað við útgefnar aflaheimildir innan ársins. Útgerðaraðilar hafa komið fram með skýringar á því hvers vegna staðan er þannig að aflaheimildir hafi ekki verið nýttar betur á þessu árabili. Skýringarnar fela það í sér að ekki hafi svarað kostnaði að stunda veiðar á úthafsrækju á þessu tímabili og skal í sjálfu sér ekki lagt mat á það hér.

Úthafsrækjukvótinn hefur undanfarin ár verið 7 þús. tonn auk þess sem leyfilegt hefur verið að flytja á milli ára hluta þess aflamarks sem ekki hefur verið veiddur. Jafnframt var á þessu tímabili heimilt að nýta ónotaðar aflaheimildir til að auka tilfærslumöguleika í öðrum tegundum ásamt því ákvæði laganna að veiðigjald hafi verið sett á tímabundnar undanþágur fyrir aflaheimildir í úthafsrækju. Bæði þessi ákvæði hafa nú verið felld úr gildi.

Sé litið á þær útgerðir sem á síðasta ári skiluðu mestum afla á land kemur í ljós að það eru sjaldnast þær sem hafa fengið aflaheimildunum úthlutað. Tvö skip hafa borið mest af rækju að landi á þessu ári en útgerðir þeirra réðu yfir sáralitlum hluta af rækjukvótanum í upphafi fiskveiðiársins. Annað þeirra landaði alls rúmum þúsund tonnum af úthafsrækju á síðasta fiskveiðiári. Báturinn fékk aðeins úthlutað um 100 tonnum svo útgerðin hefur fengið um 900 tonn af rækjukvóta leigðan frá öðrum. Til eru fyrirtæki í rækju sem leigt hafa til sín um 900 tonn af rækjukvóta á árinu en hafa aðeins fengið úthlutaðan rúman þriðjung ofan á það. Fyrirtækin stunda þó þrátt fyrir allt nær engar rækjuveiðar.

Það má nefna að annar aflahæsti rækjuveiðitogari landsins landar til vinnslu í Kampa á Ísafirði. Útgerðin Birnir ehf. á meiri hlutann í rækjuvinnslunni Kampa á móti Byggðastofnun og nokkrum fleiri. Birnir ehf. gerir út tvo rækjutogara. Annar fékk engan rækjukvóta á þessu ári og hinn aðeins um 25 tonn. En togararnir hafa landað 1.306 tonnum af rækju á síðasta fiskveiðiári. Viðbótarkvótinn hefur að mestu verið fenginn frá fyrirtæki í næsta nágrenni gegn framsali eða leigu.

Mörg fleiri rækjuskip leigja til sín næstum allan þann afla sem þau veiða. Það má t.d. nefna skip sem er í eigu Samherja og á því skipi eru 887 tonn af úthafsrækju. Á síðasta fiskveiðiári veiddi þetta skip enga rækju. Ýmis fleiri slík dæmi má nefna eins og Vísi, Ísfélagið, Öskju, Gunnvöru, Skinney–Þinganes. Lauslega áætlað hafa þessi fyrirtæki yfir að ráða tæpum 40% af aflaheimildum sem þau veiða ekki. Spyrja má sig hvort þau taki ekki leigugjald fyrir aflaheimildirnar. Jú, auðvitað og þeim mun meira sem veiðarnar ganga betur. Ég spyr mig: Er þetta þá ekki óþarfaskattur á viðkvæma veiði eins og rækjuveiðarnar eru?

Þá má nefna að Brim ræður einnig yfir um 800 tonnum af úthafsrækjukvóta. Fyrirtækið veiðir sjálft sinn kvóta og hefur sameinað hann á eitt skip öfugt við það sem sumar aðrar stórútgerðir hafa gert.

Ég get nefnt það hér að Byggðastofnun er með átta fyrirtæki tengd rækjuútgerð og vinnslu í viðskiptum. Þar af eru fjögur fyrirtæki þar sem einu tryggingarnar á bak við lánin eru veð í úthafsrækjukvóta. Það er alveg hárrétt. Samkvæmt Fiskistofu hafa þrjú þessara fyrirtækja ekkert aflamark í rækju þar sem engin fiskiskip eru í eigu fyrirtækjanna og hefur rækjukvóti þeirra verið vistaður á skipum annarra lögaðila sem velta má fyrir sér hvort teljist ásættanlegt.

Frú forseti. Ég hafna því alfarið að sú ákvörðun að gefa ekki út heildaraflamark í úthafsrækju sé ólögleg. Fyrir henni eru veigamikil rök eins og hér hefur verið rakið. Ég tel að þessi aðgerð eigi fyrst og fremst að vera hvatning til þess að rækjan sé veidd og unnin en ekki notuð til að veðsetja hana og veiða ekki eins og hefur verið undanfarin ár. Það var vissulega fagnaðarefni að rækjuveiði skyldi vera aukin á þessu ári enda hafði verið ljóst í nokkurn tíma að hún (Forseti hringir.) mundi verða tekin úr kvóta eins og raunin varð síðan á. Það eru alvörurækjuveiðimenn sem eiga veiða rækjuna, frú forseti.



[14:47]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Röksemdir hæstv. ráðherra standast náttúrlega enga skoðun þar sem hann fylgir eftir þeirri fádæma ákvörðun sinni að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það liggur fyrir að 2. september kom fram lögfræðiálit frá Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Lex lögmönnum, þar sem mjög sterk rök eru færð fyrir því að ráðherra sé að brjóta lög. Það var fullyrt af hálfu fulltrúa ráðuneytisins á fundi sjávarútvegsnefndar að þann 7. september mundi liggja fyrir skoðun ráðuneytisins á því áliti. Það kom fram á fundi aftur í sömu nefnd þann 20. september að ráðuneytið hefði ekki óskað eftir skriflegu lögfræðiáliti til að rökstyðja sinn málstað. Ég veit ekki til þess að það sé komið fram enn þá. Eftir stendur því að mjög sterk rök hníga að því að ráðherra sé að brjóta lög með ákvörðunum sínum.

Staða rækjustofnsins er mjög veik. Menn hafa ýjað að því í þessari umræðu að full ástæða væri til að veiða það sem geymt væri frá síðustu árum og þess vegna væri hægt að veiða miklu meira á þessu fiskveiðiári en þessi 7 þús. tonn. Nýleg yfirlýsing Hafrannsóknastofnunar frá síðustu viku gefur okkur til kynna að svo er ekki, ráðgjöf þeirra stendur, 7 þús. tonn.

Það þarf ekki nema tvo togara til að fara í þær ólympísku veiðar sem ráðherrann boðar nú til að taka um helminginn af þessum afla í svona tíu sjóferðum, 3.500 tonn. Þá sjá menn hvert stefnir. Þetta hefur mjög mikil áhrif á markaðsaðstæður. Þetta er þannig að við höfum verið þekkt fyrir sjálfbæra nýtingu á okkar sjávarauðlind. Núna eru keppinautar okkar á rækjumörkuðum erlendis farnir að veifa umhverfismerkjum sem þeir hafa á sínum veiðum og benda kaupendum á að Íslendingar stundi hér ósjálfbærar veiðar. Og það er alveg magnað að sá flokkur sem kennir sig við sjálfbærni í nýtingu auðlindanna skuli standa fyrir þessu. Markaðsaðstæður eru erfiðar og þetta mun eyðileggja fyrir okkur það mikla markaðsstarf sem hefur verið unnið á síðustu árum. Þetta smitar síðan yfir á aðra stofna, virðulegi forseti. Þetta smitar yfir á aðrar veiðar (Forseti hringir.) og setur ljótan blett á fiskveiðar okkar Íslendinga.



[14:49]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir frumkvæði að þessari fyrirspurn til ráðherra. Í stað þess að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út úr og fá svör sem oftast skila litlu þar sem hæstv. ráðherra hefur verið þekktur fyrir hvers kyns útúrsnúninga og sniðugheit ætla ég að leggja fram nokkrar viðbótarspurningar og svara þeim sjálfur.

Er stefna ráðherra í samræmi við sjálfbærar veiðar? Nei, hún er það ekki. Frjálsar veiðar, óheftar veiðar leiða til rányrkju.

Er stefna ráðherra í samræmi við stefnu Hafrannsóknastofnunar? Nei, hún er það ekki. Hafró lagði til ákveðinn kvóta í samræmi við þá stefnu að nýta stofna með þeim hætti að þeir vaxi og dafni og skili eðlilegum afrakstri í veiðum.

Er úthafsrækjan stofn sem er verulega vannýttur, stofn sem má veiða niður — og það má þá taka þá umræðu um skötusel og makríl sem hér hefur farið fram? Nei, svo er ekki. Langan tíma hefur tekið að byggja upp veiðanlegan stofn, veiðanlegan stofn í þeim skilningi líka að veiðar og vinnsla séu arðbær.

Er líklegt að frjálsar veiðar muni skila meiri arðsemi? Nei, við þekkjum söguna. Sóknarkerfi eru alltaf dýrari, það er erfiðara að koma vörunni á markað og við fáum jafnframt lægra verð auk þess sem samkeppnisaðilarnir fá tæki í hendurnar til að keppa við okkur veifandi þessum vottorðum sínum um sjálfbærar veiðar sem við höfum ekki.

Er líklegt að aðferðafræði ráðherrans skili meiri stöðugleika í störfum í byggðarlögunum? Nei, það er öruggt að þessi aðferðafræði skilar óstöðugleika og óvissu.

Er stefna ráðherrans lögleg? Nei, hún er það ekki. Fyrir liggja lögfræðiálit sem segja það.

Að lokum er ein spurning til hæstv. ráðherra. Hún er ein og hún er skýr: Hvenær ætlar ráðherra og ráðuneyti að draga þessa stefnu til baka og gefa út aflamark samkvæmt lögunum?



[14:52]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég lýsi mig algerlega ósammála síðasta ræðumanni og flestum sem hér hafa talað. Úthafsrækjustofninn er vannýttur nytjastofn og hefur verið það um margra ára skeið. Sjávarútvegsráðherra ber því ekki skylda til að takmarka veiðar á úthafsrækju. Eiginlega væri mun réttara að segja að ráðherrann væri skyldugur til að gefa veiðarnar frjálsar þegar nytjastofnar eru vannýttir eins og kemur fram í 3. og 8. gr. gildandi fiskveiðistjórnarlaga.

Í 3. gr. segir að ráðherra skuli ákveða þann heildarafla sem veiða má úr nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Í 8. gr. segir að veiðar á þeim tegundum sem ekki sæta aflatakmörkun séu frjálsar öllum þeim skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Það er þess vegna löngu tímabært að gefa þessar veiðar frjálsar og hefði í raun mátt gerast fyrr og væri full ástæða til að gera það í fleiri tegundum, t.d. gagnvart ufsanum í krókaaflamarkskerfinu en á síðasta ári var einungis veiddur helmingur þess magns sem gefið var út til krókabáta í ufsa.

Kostirnir við frjálsar veiðar á vannýttum tegundum eru ótvíræðir. Atvinna eykst, fleiri komast til veiða, gjaldeyristekjur aukast, það verður eðlilegri verðmyndun á hráefni með frjálsari samkeppni og þjóðarbúið græðir. Enginn tapar, fyrirkomulag veiðanna færist nær markmiðum fiskveiðistjórnarlaganna.

Á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd með þyngstu fjárlög allra tíma í þinginu ættum við að fagna hverri glufu sem myndast til eðlilegrar tekjumyndunar og atvinnusköpunar í landinu fremur en að karpa um misvísandi lögskýringar. Það er enginn bættari, frú forseti, með því að bátar liggi bundnir við bryggju eða fullveðja fólk sitji með hendur í skauti atvinnu- og aðgerðalaust meðan verðmætin liggja í sjónum fram undan landsteinum ónotuð.



[14:54]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingar – græns framboðs er talsvert mikið fjallað um fiskveiðimál. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni.“

Síðar segir í samstarfsyfirlýsingunni um markmið ríkisstjórnarinnar að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skuli hafa það fyrst og fremst að markmiði að stuðla að vernd fiskstofna, hagkvæmri nýtingu, treysta atvinnu o.s.frv. Að lokum segir í samstarfsyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.“

Virðulegi forseti. Það er fátt við frjálsar eða réttara sagt takmarkalausar veiðar sem tekur undir og styður þessi markmið ríkisstjórnarinnar. Ég vil gera greinarmun á frjálsum veiðum annars vegar og veiðum án takmarkana hins vegar eins og er reyndin varðandi það sem kallað er frjálsar rækjuveiðar. Frjálsar rækjuveiðar sem svo eru kallaðar eru því andstæðar sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar og þær eru andstæðar hagsmunum flestra í þessari grein, svo sem samtökum fiskvinnslustöðva, að ég held allra samtaka sjómanna fyrir utan samtök útgerðarmanna sem hafa lagst gegn þessu. Veiðar af þessu tagi verða aldrei til frambúðar, það vitum við. Takmarkalausar veiðar eru ekki af hinu góða að mínu viti. Það á að stýra veiðum, þær eiga að hafa ákveðið lokatakmark, upphaf og endi, ef (Forseti hringir.) við ætlum að ná fram þeim markmiðum sem við setjum okkur í samstarfsyfirlýsingunni.



[14:56]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að taka þetta málefni til umræðu utan dagskrár.

Stærsta spurningin er einmitt ein af þeim þremur spurningum sem hv. þm. Kristján Möller spurði hæstv. ráðherra um. Hvað mun hæstv. ráðherra gera þegar 7 þús. tonna kvótanum sem Hafrannsóknastofnun leggur til verður náð? Að sjálfsögðu svaraði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af gömlum vana ekki þeirri spurningu. Það er grundvallaratriðið í þessu máli. Hvað mun gerast eftir að 7 þús. tonna aflamarkinu er náð? Það er frægt viðtal eins fréttamanns við hæstv. ráðherra þar sem verið var að reyna að draga þetta upp úr honum. Hann hefur ekki svarað því enn. Það stendur upp á hann og þess vegna vil ég ítreka þessa spurningu hv. þm. Kristjáns Möllers til hæstv. ráðherra: Hvað mun hann gera þegar búið verður að veiða 7 þús. tonn?

Hitt er svo annað mál að það er alveg með ólíkindum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ganga fram með þessum hætti. Nú er atvinnugreinin rækjuiðnaður á Íslandi búin að eiga í mjög miklum erfiðleikum, það varð mikil aukning í eldi, það varð hækkun á eldsneytisverði og lækkun á heimsmarkaðsverði sem gerði það að verkum að mörg þessara fyrirtækja lentu í mjög miklum erfiðleikum og því miður fóru mörg þeirra á hausinn.

Núna er smáljós í myrkrinu, nú hefur rækjueldið gefið eftir og menn sjá fram á að þeir geti hugsanlega komið undir sig fótunum aftur. Hver eru þá viðbrögð hæstv. ráðherra? Auðvitað verður að eyðileggja þetta. Það verður að skemma fyrir þessum fyrirtækjum, að þau eigi að sjálfsögðu ekki neina von í framtíðinni, og setja þetta fram með þessum hætti.

Við skulum líka átta okkur á því að einfryst rækja er mjög mikils virði markaðslega séð því að það eru ekki margir sem geta boðið upp á einfrysta rækju til sölu á erlendum mörkuðum. Nei, það skal líka eyðilagt. Þeir aðilar sem vinna í rækjuvinnslunni verða að gera samninga marga mánuði og jafnvel ár fram í tímann um að skaffa ákveðið hráefni sem nú er búið að setja í uppnám og þeir geta ekki staðið við ef fram heldur sem horfir. (Forseti hringir.) Niðurstaðan er einfaldlega sú, virðulegi forseti, að þetta mun verða þjóðhagslega óhagkvæmt fyrir alla.



[14:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að stofna til þessarar umræðu.

Hjá flestum þingmönnum sem hafa talað hefur komið fram mikil gagnrýni á þá ákvörðun ráðherra að fara þessa leið. Það sem maður saknar varðandi þessa ákvörðun er í raun rökstuðningur fyrir því að fara þessa leið. Hæstv. ráðherra hefur reyndar sýnt að hann er óhræddur við að fara óhefðbundnar leiðir varðandi sjávarútvegskerfið, mörgum okkar til mikillar armæðu og flestum þeirra sem starfa í þessari grein, en hann hlýtur að þurfa að koma með rökstuðning fyrir því að fara þessa leið.

Líkur benda til þess að þetta sé ekki gert með hagkvæmni greinarinnar í huga, ekki gert til að hámarka arðinn út úr greininni. Hvað er þá á bak við það að fara þessa leið? Eftir því hljótum við að kalla. Við hljótum að þurfa að stýra því varðandi þessa tegund í auðlindinni okkar, rækjuna, hvernig við nýtum hana og veiðum eins og með allar aðrar tegundir í hafinu. Það gengur ekki að fara í ólympískar veiðar, eins og hv. þm. Kristján L. Möller nefndi áðan, með þessa tegund frekar en aðrar. Við höfum sýnt fram á það í gegnum tíðina að við stundum sjálfbærar veiðar. Við erum að reyna að hafa hér hagkvæma útgerð, hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi, þannig að þjóðin og að sjálfsögðu þeir sem eru í þessari grein hafi eitthvað upp úr því að starfa í henni. Það er ekki hægt að ætlast til neins annars. Hæstv. ráðherra verður líka að segja okkur það hreint út ef hér er verið að boða einhverja grundvallarbreytingu á því hvernig núverandi ríkisstjórn ætlar að nálgast fiskveiðistjórnarkerfið. Ég trúi ekki að svo sé, en það er mjög mikilvægt að rökstuðningurinn fyrir þessum veiðum, óheftu veiðum að mér sýnist, komi skýrt fram svo við velkjumst ekki í vafa um hver stefna ráðherra er í raun og veru.



[15:01]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið en ég þarf samt sem áður að ítreka aðalspurningar mínar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í lok þessarar tveggja mínútna ræðu minnar.

Hæstv. ráðherra talar um að heimilt sé að gera þetta samkvæmt lögum. Það finnst mér passa illa við það sem stendur í fréttatilkynningu ráðuneytisins þegar kvótar voru gefnir upp þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Um allverulega kerfisbreytingu yrði að ræða sem krefðist breytinga á löggjöf.“

Virðulegi forseti. Fyrst ráðuneyti segir það hlýtur þetta að vera ólöglegt og þá á að koma með frumvarp, sem ég gagnrýni, sem á að vera afturvirkt. Það gengur ekki upp að mínu mati og þess vegna vil ég biðja hæstv. sjávarútvegsráðherra að upplýsa okkur um hvort það sé ekki rétt sem stendur í fréttatilkynningunni.

Hitt atriðið sem mér þótti athyglisvert hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, sem mikið vit hefur á sjávarútvegsmálum, þegar hann talar um mun á takmarkalausum veiðum og frjálsum veiðum. Það er stórt atriði í þessu sambandi. Hér hefur verið talað um frjálsar úthafsrækjuveiðar. Eru þær takmarkalausar? Ef þær eiga að vera takmarkalausar er ég á móti þeim vegna þess að þá vinnum við gegn sjálfbærni. Þá getum við ekki selt rækjuna út og þá þjónar það ekki markaðshagsmunum okkar.

Því ítreka ég það sem fram kom í spurningum mínum áðan og bið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka nú vel eftir þeim og svara þeim á eftir: Hvað á að veiða mikið af rækju? Eru það 7 þús. tonn, sem Hafró gefur út, eða má fara umfram það? Ég er á móti því. Hvað verður gert þegar búið er að veiða þann rækjutonnafjölda sem ráðherra og Hafró hyggjast gefa út?

Segjum nú sem svo að búið verði að veiða það magn (Forseti hringir.) í febrúar eða mars á næsta ári ef veiðar ganga vel og mörg skip fara til veiða. Hvað verður gert þá (Forseti hringir.) og við hvað á þá að vinna í rækjuverksmiðjum landsins frá þeim tíma fram á næsta fiskveiðiár?



[15:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn skauta flestir fram hjá raunveruleikanum. Er t.d. eðlilegt að hafa 2.600 tonna rækjuveiðiheimild hjá útgerðum sem veiða ekki neitt? Er það eðlileg skipan mála að við þessar aðstæður og yfirleitt að rækjuaflaheimildirnar séu bara nýttar til veðsetningar en ekki til veiða? Það er ekki eðlilegt.

Þessi ráðstöfun er til eins árs. (Gripið fram í: Hvað á að veiða mikið?) Ég held að enginn geti nýtt það skipulag sem verið hefur á þessum rækjuveiðum. Það er makalaust ef menn geta varið það að rækjuveiðiheimildir séu bara hafðar til þess að veðsetja þær en ekki til að veiða þær. (JónG: Þetta er rangt.)

Nú er hægt að veiða þessa rækju, mikil lifandis ósköp, vinna hana (Gripið fram í.) og nýta þær heimildir sem hér eru. Ég bendi á og ítreka að þessi ákvörðun, þessi úthlutun er til ráðstöfunar til eins árs og við sjáum þá hvernig það þróast. Ef við horfum til rækjuveiðanna á undanförnum árum eru ekki (Gripið fram í.) líkur til að farið verði langt fram úr því sem ráðgert hefur verið. Við munum fylgjast með þeim málum. En ég bendi á að heimildir til veiðistýringar eru takmarkaðar, ef þær eru bundnar í aflamarki ber að deila þeim á skip.

Það verður fylgst grannt með þessum málum, hvernig þau þróast. En ég ítreka að hluti af þeirri siðrænu umgengni um náttúruauðlindina, um fiskinn, er að þeir sem hafa aflaheimildirnar nýti þær til veiða.