139. löggjafarþing — 9. fundur
 13. október 2010.
um fundarstjórn.

svör ráðherra í utandagskrárumræðu.

[15:05]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að beina því til virðulegs forseta að hann beiti sér fyrir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Búið er að taka utandagskrárumræðu um þetta mikilvæga mál, hv. þingmenn hafa fært mikinn og sterkan rökstuðning fyrir máli sínu. Ráðherra hefur fengið einfaldar spurningar sem óskað er svara við. Hann fer algjörlega fram hjá málinu í allri þessari umræðu, í hálftímaumræðu fer hann algjörlega fram hjá málinu.

Það er algjörlega óþolandi að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn skuli komast upp með svona vinnubrögð. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sennilega metið í slíkri framkomu gagnvart þinginu og það er algjörlega óviðeigandi að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér þetta. Við getum ekki búið við það, hv. þingmenn eða Alþingi Íslendinga, að ráðherrar komi upp og tali algjörlega út í móa, svari ekki nokkru og taki ekki nokkurt tillit til þeirra spurninga sem þingmenn leggja fyrir þá. Slík vinnubrögð mega ekki líðast, virðulegi forseti. Ég skora á virðulegan forseta að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherra breyti vinnubrögðum sínum í þessum málum.



[15:07]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum búin að setja í gang rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndina sem fjallaði um skýrslu hennar. Nefndin skilaði skýrslu og grunntónninn í henni var að styrkja þarf Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hér gerist það aftur og aftur að hæstv. ráðherrar svara ekki einföldum spurningum eins og t.d. þessari: Styður hæstv. ráðherra fjárlagafrumvarpið? (ÁÞS: Það segir sig sjálft.) Það segir sig ekkert sjálft. (Gripið fram í.) Mér finnst að frú forseti eigi að grípa inn í og segja ráðherranum að svara, að hann eigi að svara.

Hér kom einn hv. þingmaður í umræðuna og svaraði fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra af því að hann átti vona á því að svör frá hæstv. ráðherra væru út í móa.



[15:08]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á, það er náttúrlega algjörlega óþolandi og ólíðandi að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli hvað eftir annað ekki svara einföldum spurningum sem beint er til hans.

Hv. þm. Kristján Möller, sem var málshefjandi utandagskrárumræðunnar, bað um eitt svar. Ég ítrekaði spurningu hv. þingmanns af því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði henni ekki í fyrri ræðu sinni. Hv. þm. Kristján Möller spurði aftur í seinni ræðu sinni en samt sem áður gat hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki svarað þeirri spurningu.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á, það er algjörlega úr takti við það sem við ræddum varðandi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu eitthvert aðhald, að einföldum spurningum skuli ekki vera svarað. Það staðfestist líka í þessari umræðu, af því að hv. þm. Kristján Möller upplýsti að sér þætti þetta vera misráðið, að hæstv. sjávarútvegs- (Forseti hringir.) og landbúnaðarráðherra hefur væntanlega ekki kynnt málið í ríkisstjórn (Forseti hringir.) og hvað þá heldur í þingflokkunum. Hvers konar vinnubrögð eru það? Ég hvet hæstv. forseta (Forseti hringir.) til þess að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherra sýni okkur alla vega þann sóma að svara einföldum spurningum því að annars er þessi liður algjörlega tilgangslaus.



[15:09]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti vill að gefnu tilefni og orðum þingmanna ítreka að eftirlitshlutverkið er Alþingis en ráðherrar verða að bera ábyrgð á eigin svörum.