139. löggjafarþing — 9. fundur
 13. október 2010.
heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni, fyrri umræða.
þáltill. SF o.fl., 8. mál. — Þskj. 8.

[16:33]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni en þetta mál var líka flutt á 138. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta löggjafarþingi, og er nú endurflutt. Fulltrúar úr öllum þingflokkum flytja þetta mál. Það er sú er hér stendur og hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þuríður Backman. Þannig að segja má að þverpólitísk samstaða sé um þetta mál.

Í tillögugreininni er komið inn á efnisinnihald þessarar þingsályktunartillögu. Ég ætla að fá að lesa hana upp, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að koma á reglulegum árlegum heimsóknum í forvarnaskyni sem bjóðist öllum sem eru 75 ára og eldri til að hægt verði að veita þeim þjónustu strax og þurfa þykir svo að þeir geti búið sem lengst heima.“

Málið gengur sem sagt út á það að komið verði á reglubundnum árlegum heimsóknum til eldri borgara 75 ára og eldri til að reyna að koma því þannig fyrir að þeir geti búið sem lengst heima og þurfi síður á stofnanavist að halda en það er að sjálfsögðu markmið allra að eldri borgarar geti búið sem lengst heima við góð skilyrði og er það stefna bæði ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar.

Á seinni árum hefur þjónusta við eldri borgara aukist verulega. Það þarf að auka hana enn frekar. Megináherslan hefur verið lögð á að bæta lífsgæðin til að gefa eldri borgurum færi á að búa sem lengst heima. Nokkrir aðilar koma að þessu í samfélagi okkar, t.d. félagsþjónusta sveitarfélaga sem aðstoðar við þrif og matarinnkaup. Svo er það heimaþjónusta frá heilsugæslustöðvum eða heimahjúkrun sem er á hendi ríkisins. Þessir tveir aðilar eru kannski höfuðleikendur í því máli að tryggja að eldri borgarar geti búið sem lengst heima, fyrir utan að sjálfsögðu eldri borgarana sjálfa.

Ég vil líka nefna að á árinu 2010 er meginþema velferðarnefndar Norðurlandaráðs lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Í nefndinni eiga sæti þingmenn frá öllum Norðurlöndunum, en fyrir Íslands hönd sitja í henni sú er hér stendur og hv. þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, en við erum ásamt fleirum flutningsmenn þessa máls.

Þessi nefnd hefur unnið mjög gott starf í ár að tillögugerð um hvernig hægt væri að bæta lífsgæði eldri borgara og hefur m.a. heimsótt ýmsar stofnanir á Norðurlöndum sem eru að gera framsýna hluti. Ég vil nefna að í sumar var farið bæði til Þrándheims og Bergen til að skoða hvað Norðmenn væru að gera í málefnum eldri borgara, hvað er nýjasta nýtt hjá þeim. Við höfum einnig heimsótt Danmörku þar sem við skoðuðum hjúkrunarheimili sem var rekið á mjög framsýnan hátt og fengum líka upplýsingar um þjónustuna almennt. Þar fengum við einmitt kynningu á þeirri aðferð sem Danir beita að bjóða upp á heimsóknir til eldri borgara 75 ára og eldri tvisvar á ári til að fyrirbyggja að þeir þurfi á stofnanavist að halda of snemma. Sveitarfélögin sjá um þessar heimsóknir. Menn mega afþakka þær, en ég held að flestir þiggi þær, en þá fara aðilar á vegum sveitarfélagsins heim til aldraðra og fara yfir málin með þeim í heimahúsum, skoða aðstæður og meta hvort þurfi að grípa inn í á fljótvirkan hátt, áður en vandamál dúkka upp. Það er gert bæði með því að bjóða upp á æfingar, endurhæfingu, æfingaprógrömm, aðstoð við að fara í verslanir og finna út hvað þurfi að bæta til að hinn aldraði geti verið sem lengst heima og þurfi ekki að fara of snemma inn á stofnun. Þetta hefur tekist mjög vel í Danmörku og er innihaldið í þeirri tillögu sem hér er flutt.

Danir telja að mikið fjármagn hafi sparast við þetta af því að þau úrræði sem boðið er upp á ef eldri borgarar geta ekki lengur verið heima eru dýr, þannig að þetta er líka fjárhagsmál fyrir utan það að það bætir mjög lífsgæði eldri borgara að geta verið heima því langflestir vilja vera heima eins lengi og hægt er.

Ég vil nefna hér hvernig heimaþjónusta okkar og heimahjúkrun er. Það er mjög merkilegt að bera saman tölur frá Íslandi og frá öðrum Norðurlöndum. Í greinargerðinni kemur fram að samkvæmt samanburðartölum OECD þar sem skoðað er hve hátt hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri eru vistaðir í hjúkrunarrýmum utan sjúkrahúsa árið 2007, kemur í ljós að á Íslandi vistast 6% eldri borgara, þ.e. 65 ára og eldri, í hjúkrunarrýmum. Í Noregi vistast 5,5% eldri borgara í hjúkrunarrýmum, 4,6% í Finnlandi og 4,5% í Danmörku. Í Svíþjóð er hlutfallið hærra, eða 6,8% 2006, en það kom reyndar ekki fram í skýrslunni hvert hlutfallið var 2007. Af þessu sést að Ísland er í næstefsta sæti varðandi hlutfall eldri borgara sem vistast í hjúkrunarrýmum. Svíþjóð er aðeins fyrir ofan, en hin löndin eru talsvert fyrir neðan. Ég vek athygli á því að Danmörk er neðst með 4,5% eldri borgara í hjúkrunarrýmum. Það er væntanlega vegna þess að þeir þjónusta þá meira heima. Það tekst betur til hjá þeim. Það er ekki þannig að þjónustan sé almennt slök í Danmörku, hún er almennt mjög góð og hún er veitt á réttu stigi, þ.e. sem mest heima og þá minna inni á hjúkrunarrýmum eða á stofnunum.

Samkvæmt skýrslu OECD frá 2008 um heilbrigðismál á Íslandi þá erum við Íslendingar með hlutfallslega mörg hjúkrunarrými eða langtímarými fyrir 65 ára og eldri, en jafnframt kemur fram að framboð rýma á ákveðnum landsvæðum er ekki í samræmi við þörf. Þannig er líklega offramboð á rýmum á ákveðnum svæðum en skortur á öðrum. Við sem höfum skoðað þessi mál í gegnum árin vitum að á Íslandi eru dæmi um rými sem eru tóm, en samt er borgað fyrir þau. Það var einmitt verið að taka þá umræðu í heilbrigðisþjónustunni, að jafna þetta út, að borga ekki fyrir tóm rými þar sem peningarnir hafa verið notaðir í eitthvað annað, heldur að borga fyrir rétta hluti og að borga líka rétt verð. Sums staðar hefur ekki verið borgað sama verð fyrir hjúkrunarrýmin. Það er reynt að meta hjúkrunarþyngd, en það þarf sem sagt að endurskoða þetta allt og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er að því þessa dagana.

Í OECD-skýrslunni segir að þessi staðreynd komi á óvart í ljósi þess hve íslenska þjóðin er ung, en það megi hugsanlega rekja hátt hlutfall hjúkrunarrýma á Íslandi til þess að framboð á heimaþjónustu sé ekki nægjanlegt og það vanti líka millilausnir svo sem íbúðir fyrir aldraða í nálægð hjúkrunarheimila. Þannig að OECD hefur séð að við erum með of marga inni á hjúkrunarheimilum og að skýringin sé líklega sú að það er of lítil þjónusta heima.

Sú er hér stendur spurði hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra Árna Pál Árnason út í tölulegar staðreyndir í þessu samhengi. Þá kom í ljós að meðallegutími á Íslandi á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými er 3,3 ár, það er meðalveltan, ef maður má nota svo kalt orð í þessu samhengi. Meðallegutími er 3,3 ár í hverju hjúkrunarrými á Íslandi. Þetta er tala sem við ættum að hafa í huga og hún er tiltölulega há miðað við meðaltölur á Norðurlöndunum. Á Norðurlöndunum er meðallegutími í hjúkrunarrými 2 ár. Þetta er talsvert mikill munur, virðulegi forseti. Það er talsverður munur á 2 árum og 3,3 árum. Þetta er eiginlega ótrúlega mikill munur. Af hverju eru aldraðir svona lengi í hjúkrunarrýmunum, svona miklu lengur en á öðrum Norðurlöndum? Svarið hlýtur að vera að þeir séu lagðir inn of snemma. Það er of lítil þjónusta heima, þeir fara of snemma í rýmin og liggja þar af leiðandi of lengi þar.

Á þessu þarf að taka með því að stórauka heimaþjónustu og draga þá á sama tíma úr hjúkrunarrýmafjöldanum. En við höfum eiginlega verið að fara í, ég segi kannski ekki þveröfuga átt, en við höfum ekki aukið heimaþjónustuna nógu mikið heldur lagt of mikla áherslu á dýrustu úrræðin, þ.e. hjúkrunarrýmin. Og enn á að byggja fleiri hjúkrunarrými. Það á að vera raunaukning á Íslandi. Reyndar erum við líka mjög mikið að fara úr fjölbýli í einbýli, sem er gott, það er mjög æskilegt, en við erum líka að fara í raunaukningu. Það svona vekur upp ýmsar spurningar þegar maður sér fjölda rýma og þann langa meðallegutíma sem er hér. Þetta er kerfisgalli sem við þurfum að taka á.

Ég vil líka koma því á framfæri við þessa umræðu af því að það er ekki langur tími sem maður hefur við fyrri umræðu þingsályktunartillögu að það er mjög brýnt að taka á málefnum varðandi þjónustu aldraðra sem fyrst, það er vegna þeirra líffræðilegu staðreynda sem við sjáum fram undan að hlutfall aldraðra er að aukast mjög mikið. Það er gleðilegt, það þýðir lengri líftíma. Ef maður skoðar dánartíðnina hefur hún lækkað í þróunarríkjum um 2% á ári síðan 1950. Þetta þýðir að elsti aldurshópurinn stækkar hlutfallslega mest. Frá 1950 hefur hópur þeirra sem eru eldri en 80 ára fjórfaldast. Konur lifa lengur en karlar. Ef þessi þróun heldur áfram eins og hún hefur gert línulega frá 1950 — það er eiginlega ótrúlegt, það er eins og fólk geti alltaf lifað lengur og lengur — næstu 10 árin eða svo, þá er hægt að búast við því að upp undir helmingur þeirra stúlkna sem fæðast í dag verði 100 ára. Maður trúir þessu varla. Ef þetta heldur svona áfram líkt og allt lítur út fyrir eru helmingslíkur á því að stúlkubörn sem fæðast í dag verði 100 ára. Þetta er ótrúlega há tala.

Auðvitað hafa orðið mjög miklar framfarir, bætt lífskjör, betri lífsstíll, betri heilbrigðisþjónusta, minna drukkið af alkóhóli, minna reykt, betri skurðaðgerðir, betri lyf, bætt meðhöndlun á sykursýki, betri meðhöndlun á hjartasjúkdómum og krabbameinssjúkdómum o.s.frv., þannig að margar breytur valda því að hópur eldri borgara stækkar og rannsóknir sýna að þeir lifa líka góðu lífi, betra lífi. Það er ekki þannig að þessi ár séu erfið og leiðinleg og að allir séu veikir eða eitthvað slíkt. Það hefur líka verið sýnt fram á með allri tækninni og öllum framförunum að þau ár sem hinir eldri fá til viðbótar þeim sem menn lifðu hér áður fyrr eru frekar góð þannig að allir geta hlakkað til efri áranna miðað við þessa almennu þróun.

Svo er líka annað sem ég held að við þurfum að taka til okkar og það er að sum ríki hafa náð því að vera með hátt hlutfall eldri borgara í góðri almennri virkni, ADL heitir þetta, athafnir daglegs lífs. Það er svolítið merkilegt. Af hverju ná sum ríki að halda eldri borgurum í mikilli virkni en ekki önnur? Svíþjóð skarar þar fram úr. Maður veltir því fyrir sér hvað gera Svíar betur en aðrir þannig að gamla fólkið í Svíþjóð er miklu virkara og verður seinna lasið og dettur seinna út úr almennri virkni en aðrir Norðurlandabúar.

Þetta eru allt mjög áhugaverðar spurningar, virðulegur forseti.

Tími minn er á þrotum. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál verði skoðað heildstætt í heilbrigðisnefnd af því að ég held að eftir miklu sé að slægjast, að grípa eins fljótt og hægt er inn í þjónustu fyrir eldri borgara til að halda þeim, af því að þeir vilja það líka, eins lengi heima og hægt er með góðri þjónustu, en ekki að setja þá of snemma á hjúkrunarheimili. Það er engum í hag, hvorki almennum skattborgurum, af því að þetta er dýr þjónusta, né eldri borgurum. Menn eiga að vera sem lengst heima í virkni en sem styst inni á stofnunum.



[16:48]
heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir að koma fram með þessa þingsályktunartillögu og þeim sem flytja hana. Það er afar notalegt á þessum tíma að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir og horfa til framtíðar og leita lausna á því hvernig við getum búið betur að eldri borgurum.

Með tillögunni er vakin athygli á að það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig við mótum heildstæða þjónustu í héraði og hvernig við búum að fólki. Það er einmitt eitt af því sem breytist núna við skipan ráðuneyta. Við losnum við togstreituna sem hefur verið á milli félags- og tryggingamála og heilbrigðismála í þessum málaflokki. Þá getum við líka, ef við tökum skrefið lengra og færum þjónustuna almennt í málefnum aldraða yfir til sveitarfélaganna, svipað og með málefni fatlaðra, þá ættum við að geta skipulagt þjónustuna betur og hún yrði í tengslum við heilsugæsluna. Það væri góð heilsugæsla, góð hjúkrun, heimahjúkrun, heimaþjónusta og heildarþjónusta fyrir eldri borgara.

Einnig má hugsa sér að taka á málinu með svipuðum hætti og verið er að gera í málefnum fatlaðra og koma upp notendastýrðri þjónustu að einhverju leyti fyrir eldri borgara þar sem viðkomandi getur sjálfur stýrt því hvaða þjónustu hann fær á hverjum tíma inn á heimili sitt. Ég stend því ekki upp í andsvari til að kasta fram mörgum fyrirspurnum eða gera athugasemdir heldur fyrst og fremst til að þakka fyrir að málið sé flutt. Ég hlakka til að taka þátt í því að vinna að frekari úrvinnslu þess svo auka megi lífsgæði eldri borgara og búa þeim betra ævikvöld.



[16:51]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra. Það eru sóknarfæri varðandi heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Við höfum búið við það kerfi að þetta er á hendi tveggja aðila í dag; heimahjúkrunin er hjá heilsugæslunni sem er hjá ríkinu en félagsleg heimaþjónusta eins og matarinnkaup, þrif og léttari þjónusta er hjá sveitarfélaginu. Þessir tveir aðilar hafa svona meira og minna ýtt þessu frá sér yfir á hinn og kannski hafa aðallega sveitarfélögin ýtt því frá sér yfir á ríkið, þunginn hefur verið meiri í þá áttina, held ég. Þetta er auðvitað gríðarlegur galli. Best væri ef þetta væri á hendi sama aðilans og þá væri annaðhvort allt hjá ríkinu eða allt hjá sveitarfélaginu. Ég ætla ekki að útiloka að þetta fari allt til ríkisins en tilhneigingin hefur verið að færa frekar verkefni til sveitarfélaga en frá þeim og þá færi heimahjúkrunin með einhverjum hætti frá ríki til sveitarfélags.

Ég vil líka benda á það sem kom fram í svari hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar til mín þegar spurt var hvað heimsóknir í heimahjúkrun kosta miðað við rými á hjúkrunarheimili. Svarið var: Eitt rými á hjúkrunarheimili kostar það sama og 25–26 heimsóknir í heimahjúkrun til sama einstaklings (Gripið fram í: Á viku.) — á viku. Þetta þýðir að hægt er að fara þrisvar til fjórum sinnum á dag með heimahjúkrun sem er dýrara úrræði heldur en heimaþjónusta félagsþjónustunnar. Ef þetta væri blanda af heimahjúkrun og félagslegri þjónustu sveitarfélags, sem er ódýrari, væri hægt að fara oftar en þrisvar, fjórum sinnum á dag. (Forseti hringir.) Það er því borðleggjandi að auka þarf þessa þjónustu.



[16:53]
Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að fagna þessu máli sérstaklega. Það lætur ekki mikið yfir sér en er risastórt í þeim skilningi að það bætir lífsgæði mjög margra sem eiga það svo sannarlega skilið. Það spillir auðvitað ekki fyrir að af þessu hlýst gríðarlegur samfélagslegur sparnaður. Félagsleg einangrun er einn ömurlegasti fylgifiskur nútímasamfélags og henni fylgir oft þunglyndi. Talað er um að allt að 10% aldraðra geti þjáðst af þunglyndi og það er auðvelt að slá á það með litlum meðulum.

Oft er gengið út frá því að þeir sem eiga rétt á ákveðinni þjónustu beri sig eftir henni. Aldraðir eru í mörgum tilfellum ekki færir um það og því brýnt að hið opinbera nálgist þá með þeim hætti sem hér er lagt til. Auðvitað mætti hugsa sér svipaða þjónustu fyrir miklu fleiri hópa samfélagsins.

Mér finnst stundum að við gleymum framtíðinni. Við erum auðvitað upptekin af nútíðinni og nokkrir af fortíðinni en hafi maður ekki skýra sýn á framtíðina getur verið erfitt að taka ákvörðun af viti og tilviljun ein getur auðveldlega ráðið því hvort ákvörðunin leiðir til góðs eða ills.

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er lögð til grundvallar breyting á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu í landinu. Hún er byggð á forvörnum og heimaþjónustu, sálgæslu og sterkri heilsugæslu með öflugum sjúkrahúsum sem hryggjarstykki. Þetta er eflaust góð leið og getur stuðlað að skilvirkni og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu til lengri tíma litið og getur jafnvel treyst búsetuskilyrði mjög víða um land. Tillögurnar birtast hins vegar með öllum sínum niðurskurði fyrirvaralaust. Það er því eðlilegt að um þær ríki ekki full sátt í upphafi. Það hefði verið betra að fara ögn hægar.

Þessi litla þingsályktunartillaga sem nú er á dagskrá gæti auðveldlega verið eitt lítið skref í þá átt sem stefna ber að í heilbrigðisþjónustu. Þetta er lítið og yfirlætislaust mál sem er líklegt til að veita fjölda manns gleði, fresta ótímabærum innlögnum á sjúkrastofnanir og spara mikið skattfé.

Fyrir nýgræðing sem fylgst hefur með Alþingi utan frá og hefur stundum samsamað sig, fullmikið kannski, með mótmælum fyrir utan húsið, er sérstaklega ánægjulegt að sjá þetta dæmi um hæfileika manna til að vinna saman. Hávaðalaust er málið flutt af þingmönnum úr öllum flokkum og verður eflaust samþykkt einróma, hvort heldur sem þeir koma frá höfuðborginni eða landsbyggðinni.

Tillagan er lítil birtingarmynd þess sem fólkið í landinu kallar eftir með mjög kröftugum hætti; samvinnu allra þingmanna úr öllum flokkum til að byggja upp manneskjulegt samfélag.



[16:56]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka hv. flutningsmanni Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu og það frumkvæði sem þingmaðurinn sýnir í málaflokknum með því að halda þessu máli til streitu og flytja það aftur á þessu þingi. Það er alveg ljóst, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, að í mörgu gerum við ekki eins vel eins og við gætum og ekki á eins hagkvæman hátt og við gætum og sannarlega ekki alltaf eins vel fyrir notendurna og við getum, jafnvel með minni fjármunum. Það er afar mikilvægt að reyna að nota öll úrræði sem við getum til þess.

Það er þó ýmislegt sem maður hugsar um í sambandi við þetta, hvort hér sé um fullmótaða hugmynd að ræða eða hvort þetta er fyrst og fremst hugmynd sem þarf að skoða betur, ég er eiginlega á því. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ýta þjónustu til fólks sem þarf kannski ekki á henni að halda. Ég hugsa þá sérstaklega til þess að kannski eru leiðir til að finna með markvissari hætti þá einstaklinga sem þurfa á svona heimsóknum að halda. Ég held að gott væri að skoða þetta sem reynsluverkefni, ef til vill fyrsta árið sem það væri keyrt, og meta síðan út frá því hvar hóparnir eru sem virkilega þurfa á því að halda. Það má ekki gleyma því að svona mál hafa auðvitað verið skoðuð í heilsugæslunni. Heilsugæslulæknar segja mér að hópurinn yfir sjötugt skili sér þokkalega vel inn á heilsugæslustöðvarnar, eins og staðan er núna, en samt ekki alveg allur. Hluti hópsins kemur ekki til heilsugæslunnar, en hún er væntanlega sá staður þar sem fólk mundi oftast leita til eftir úrræðum sem snúa að heilsu þeirra og velferð, sérstaklega þessi aldurshópur. Vandamál sem upp koma hjá þessum aldurshópi, svo sem við það að geta bjargað sér, sjá um aðföng og þess háttar, tengjast því mjög oft að heilsan er farin að gefa sig. Til þessa þarf að horfa.

Ég legg því mikið upp úr því að við skoðum hagkvæmniþættina í frumkeyrslu á þessu því ég held að hugmyndin sé góð, ég er eiginlega sannfærður um að hugmyndin sé góð. Til lengdar þarf þó kannski ekki að heimsækja alla tvisvar á ári en við sjáum til.

Hv. flutningsmaður kom inn á að Íslendingar séu lengur á hjúkrunarheimilum heldur en aðrar þjóðir. Það er hárrétt. Því fylgir gríðarlegur kostnaður. Í þessu sambandi má nefna að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við eitt hjúkrunarrými á ári sé í kringum 7 millj., ef ég man rétt. Þeir sem eru fljótir að reikna geta auðveldlega séð að sú upphæð mundi væntanlega duga fyrir einum og hálfum til tveimur starfsmönnum í heimaþjónustu, eftir því hver menntun þeirra eða fagleg reynsla væri. Einn starfsmaður í heimaþjónustu getur hæglega sinnt tíu einstaklingum úti í bæ en hlutfallið á hjúkrunarheimili er u.þ.b. einn starfsmaður á móti hverjum heimilismanni.

Ég velti því líka fyrir mér hvort aldurstakmarkið 75 ár sé of lágt. Mér finnst það a.m.k. vera lágt ef hugmyndin er sú að heimsækja alla. Ef gera á það væri sennilega hæfilegt að miða við jafnvel 80 ár. Ef til vill væri gott að byrja á lægri aldurshópnum í fyrsta hring til að fá tilfinningu fyrir landslaginu.

Þegar við berum okkur saman við þau lönd og samfélög sem hafa farið þessa leið þá held ég að við verðum að muna að þau eru upp til hópa stærri en við og þess vegna er hættan á félagslegri einangrun kannski meiri þar en hér. Það er hins vegar hárrétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þetta er engu að síður vandamál og við sjáum það mjög víða í samfélaginu. Geti svona verklag hjálpað til við að rjúfa þá félagslegu einangrun sem þó er á Íslandi væri það vel. Það er enginn vafi á því.

Ég tek heils hugar undir með hv. flutningsmanni að gera á þetta í samvinnu við sveitarfélögin. Það er að mínu mati og hefur verið til margra ára afar brýnt að við flytjum þjónustu við þennan aldurshóp á eina hendi eða a.m.k. stjórnina á þjónustunni á eina hendi, svipað eins og er nú er verið að gera tilraun með í Reykjavík. Sveitarfélögin geta komið inn í öldrunarþjónustuna í miklu meira mæli en þau gera núna en það þarf náttúrlega að vera í góðu samkomulagi við ríkið. Sums staðar úti á landi er áherslan á þjónustuna sem er á hendi ríkisins svo mikil að nánast hefur verið tekið fyrir suma þjónustuþætti sem sveitarfélögin ættu annars að sjá um. Það er því mjög mikilvægt að þetta sé unnið í góðri samvinnu.

Eitt vil ég nefna í sambandi við það af hverju Íslendingar eru lengur á hjúkrunarheimilum en aðrir og hvers vegna einstaklingar sem búa á hjúkrunarheimilum úti á landi dvelja þar lengur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur dreifbýlið á Íslandi inn í. Ástæðan liggur að stórum hluta í því að menn hafa hreinlega metið það svo að frekar en að veita heimaþjónustu, til að mynda upp til sveita þar sem fjarlægðirnar eru allt að 50 kílómetrar hvora leið, sé hreinlega hagkvæmara að viðkomandi flytji á stofnun. Ríkið hefur svo sem hjálpað til með það. Við þurfum að komast út úr þessum hugsunarhætti. Ef um svona flutning væri að ræða væri það flutningur í þjónustuíbúð þar sem viðkomandi héldi sjálfstæði sínu og frumkvæði til að sjá um sig sjálfur. Það er nefnilega hárrétt sem hv. flutningsmaður kom inn á, það er ekkert skelfilegt við það að verða fullorðinn eða eldast en það er hins vegar ekki góð tilhugsun að verða fullorðinn og eldast og ráðin séu tekin af viðkomandi og hann vistaður á stofnun, jafnvel í áratugi eins og við höfum dæmi um. Það er ekki hvorki góð né skynsamleg hugsun.

Enn og aftur vil ég þakka hv. flutningsmanni kærlega fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu sem og meðflutningsmönnum hennar og vona að hún fái afgreiðslu í þingnefnd og komi til atkvæða síðar í vetur.



[17:05]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka mjög fyrir þær jákvæðu umræður sem hafa orðið um þetta mál. Hér talaði hv. þm. Logi Már Einarsson, ég held að það hafi verið jómfrúrræðan hans, og mæltist vel. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Loga Más Einarssonar, það er þverpólitísk samstaða á bak við þetta mál og það er flutt hér í allri hógværð, það er alveg rétt, en skiptir mjög miklu máli þótt það sé ekki stórt í texta séð.

Hv. þingmaður minntist á félagslega einangrun. Það er einmitt mjög mikilvægt að brjóta hana þar sem hún er fyrir hendi. Þetta er mál sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur verið að skoða, þ.e. hvað önnur lönd eru að gera í því. Það er mjög merkilegt sem sérstaklega Noregur er að gera í þessu sambandi. Ég ætlaði að deila því hér með þingheimi og öðrum sem eru að hlusta að Norðmenn hafa víða búið til kerfi þar sem frjáls félagasamtök koma að til þess að auka lífsgleði eldri borgara. Sums staðar hafa verið ráðnir einstaklingar sem vinna í tengslum við bæði dvalarheimili og hjúkrunarheimili og aðra hópa eldri borgara. Þetta er mjög ódýrt úrræði af því að það byggir líka á frjálsum félagasamtökum, en það er einhver samt sem er á kaupi frá sveitarfélaginu sem heldur utan um þetta. Af því að ég veit að hv. þm. Logi Már Einarsson er menntaður arkitekt frá Noregi ætla ég að segja starfsheitin á norsku, það eru tvö nöfn sem ég hef heyrt yfir þann sem er ráðinn, þ.e. „livsgledekoordinator“ sem er þá lífsgleðifulltrúi, eitthvað slíkt, og „trivselsagent“, einhver sem hjálpar upp á að menn þrífi sig og líði vel. Þá eru ráðnir einstaklingar sem vinna með frjálsum félagasamtökum að því að auka lífsgæði eldri borgara. Þetta getur verið háskólasamfélagið, háskólafélög og önnur slík grasrótarsamtök sem vilja hjálpa eldri borgurum til að njóta lífsins þótt þeir séu margir orðnir gamlir og lasburða. Sumir þessara eldri borgara eru líka „dement“, komnir með alzheimer eða geðræna sjúkdóma sem herja á þá og einangrast oft mjög mikið vegna þess að það getur verið flókið að umgangast þá sem eru með þessa sjúkdóma á talsvert háu stigi.

Þá er reynt að koma því þannig fyrir að kynslóðirnar mætist. Það er boðið upp á ferðir eldri borgara í leikskóla og leikskólarnir koma í heimsóknir inn á dvalarheimilin og hjúkrunarheimilin. Stúdentafélög sjá um veislur á heimilum eldri borgara, á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum. Allir fara í fín föt og það er bara svakafjör. Það er líka farið í alls konar útivist og þetta er alveg skipulagt þannig að það er mikið fjör og mikil lífsgleði í kringum þetta. Þetta er gert til að rjúfa félagslega einangrun. Ég held að þetta sé nokkuð sem við gætum líka gert á Íslandi í stærri stíl en við gerum í dag.

Ég vil líka aðeins koma inn á það sem hv. þm. Ólafur Gunnarsson sagði áðan. Það er rétt með farið að hvert hjúkrunarrými er hlutfallslega dýrt í þjónustunni. Samkvæmt upplýsingum í ár kostar hvert hjúkrunarrými 7,8 millj. kr. í rekstri. Ég minntist hér á að fyrir sama pening væri hægt að fara þrisvar til fjórum sinnum heim til eldri borgarans og þjónusta hann þar í staðinn fyrir að hafa sömu manneskjuna í hjúkrunarrými og ég vil líka nefna að það kom fram í því svari sem ég fékk á sínum tíma að fáir staðir eru með félagslega heimaþjónustu eða heimahjúkrun á kvöldin, næturnar og um helgar. Þetta er nokkuð sem ég held að þurfi að bæta. Það væri kannski hægt að gera það í tengslum við þessar kerfisbreytingar sem nú er verið að gera á heilbrigðisþjónustunni úti á landi og hv. þm. Logi Már Einarsson minntist á áðan, að fara út úr þjónustunni eins og hún er í dag og auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu. Þá væri væntanlega viðbót við þjónustuna á kvöldin, næturnar og um helgar þannig að fólk gæti verið lengur heima og þyrfti ekki að fara inn á stofnun of snemma.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að það ætti ekki að ýta þjónustu að fólki sem þyrfti kannski ekki á henni að halda. Það er alveg rétt. Í því máli sem hér er flutt er verið að tala um að þetta séu árlegar heimsóknir, ekki tvisvar á ári. Í Danmörku er boðið upp á þetta tvisvar á ári en hér er verið að tala um einu sinni á ári. Það getur vel verið að það sé sniðugt að fara í tilraunaverkefni, prófa þetta í eitt ár eða tvö eða þrjú og jafnvel að fara til 80 ára og eldri til að hafa verkefnið sem tilraunaverkefni og byrja á þessum elsta hóp.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson þekkir vel til þessara mála, hann er öldrunarlæknir, og það kom fram hjá honum að frekar stórt hlutfall eldri borgaranna okkar kemur á heilsugæslustöðvarnar þannig að þá er hægt að halda utan um það hvaða þjónustu eldri borgarar þurfa. Í Danmörku er hins vegar farið inn á heimilin og það er svolítið atriði. Að mínu mati er ekki nóg að eldri borgarar komi á heilsugæslustöðina og beri sig þar upp með vandamálin, heldur að það sé farið inn á heimilin hjá þeim sem vilja það. Menn mega neita og þá er heimsóknin bara afþökkuð en það er mikilvægt að fagaðilar fari inn á heimilin til að sjá þá sem eru á þessum aldri og heimilisaðstæður þeirra, hvernig húsnæðið lítur út, hvort um miklar tröppur sé að ræða o.s.frv., aðstæðurnar sem fólkið býr við til að geta boðið upp á endurhæfingu, líkamsþjálfun eða annað svo hægt sé að halda fólki virku heima lengur. Fyrir mig er það atriði að það sé farið heim til fólks.

Það er búið að prófa þetta að einhverju leyti hér og þar á Íslandi. Ef ég man rétt var þetta prófað í Garðabæ. Það var farið heim til fólks og reynt að fyrirbyggja heimaslys hjá eldri borgurum með litlum tilfæringum. Þetta eru oft mjög einföld úrræði sem geta komið í veg fyrir beinbrot. Ég held m.a.s. að félagsmálanefndin sjálf, sveitarstjórnarmennirnir voru í henni og fleiri, hafi skipt með sér götunum og farið heim til fólks í þessu skyni. Fyrir mig er það atriði að fólk sé heimsótt þannig að aðstæður heima séu teknar út í leiðinni.

Ég vil að lokum þakka fyrir góðar undirtektir og vona að þetta mál fái jákvæða umfjöllun í heilbrigðisnefnd.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til heilbrn.