139. löggjafarþing — 10. fundur
 14. október 2010.
um fundarstjórn.

frestur til að skila erindum til fjárlaganefndar.

[11:11]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega furðulegt stundum að sitja í hv. fjárlaganefnd. Mig langar til að vekja athygli á einu, það var gefinn út frestur til 15. september fyrir þá aðila eða félagasamtök sem vildu skila inn erindum. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti í fjöldamörg ár að sá frestur hefur ekki verið heilagur, hann hefur verið framlengdur og jafnvel þótt erindi hafi borist of seint hafa þau undantekningarlaust, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, komist að. Það er heldur ekki furða vegna þess að afleiðingar þess að fá ekki erindi inn í fjárlaganefnd eru gríðarlega miklar fyrir einstaklinga, félagasamtök og t.d. hjálparstofnanir. Nú er það hins vegar þannig að gefið hefur verið út af formanni og varaformanni fjárlaganefndar, eftir því sem ég best veit, að fresturinn standi, 15. september. Þetta er algjörlega ný framkvæmd (Forseti hringir.) og ég ætla að leyfa mér að mótmæla henni hér og athuga hvort við getum ekki sammælst um það í fjárlaganefnd að láta mannlega þáttinn verða ofan á, að halda okkur við sömu framkvæmd og lengja þann frest (Forseti hringir.) sem hingað til hefur verið boðaður. Ég vek líka athygli á því, frú forseti, að þessi nýja framkvæmd hefur ekki verið (Forseti hringir.) samþykkt af meiri hluta fjárlaganefndar.



[11:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns finnst mér mikilvægt að hér komi fram að fjárlaganefnd auglýsti vel og vandlega umsóknarfrest fyrir ný erindi til 15. september. Þau erindi sem komu eftir þann tíma voru send til baka með skýringum. Það er vissulega bagalegt og getur komið sér illa ef umsóknarfrestur fer fram hjá fólki en það er hins vegar nauðsynlegt að jafnræði ríki meðal umsækjenda. Sumir hringja og átta sig á því að umsóknarfresturinn er liðinn og senda ekki inn umsóknir, aðrir freista þess að senda inn umsóknirnar samt. Ef ekki á að virða umsóknarfrest þarf að finna aðra leið sem tryggir jafnræði meðal umsækjenda. Þetta er ógerningur nema þá að auglýsa nýjan frest og þá má spyrja: Hvernig eigum við að fara með þær umsóknir sem koma eftir þann frest?

Virðulegur forseti. Vinnulag fjárlaganefndar er fullkomlega eðlilegt og það er líka sanngjarnt.



[11:13]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er í sjálfu sér ekki að setja út á þann frest sem hefur verið gefinn. Ég er hins vegar að benda á þá staðreynd að framkvæmdin hefur verið með öðru móti í fjöldamörg ár, reyndar eins lengi og elstu menn muna. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að mjög margir sem sækja um til fjárlaganefndar ár eftir ár reikna með því að sama framkvæmd verði viðhöfð og hefur viðgengist. Það er alveg rétt að fresturinn var útskýrður og hann var settur 15. september. Til að gæta jafnræðis væri mjög einfalt að auglýsa nýjan frest, við gætum haft hann 1. nóvember eða 15. nóvember, auglýsa hann rækilega, hleypa inn öllum þeim erindum sem hafa nú verið endursend og gefa það út um leið að það sé verið að (Forseti hringir.) breyta framkvæmdum. Svo finnst mér lágmark, virðulegi forseti, að þessi nýja tilhögun sé rædd í fjárlaganefnd og (Forseti hringir.) það sé um hana kosið þar.



[11:15]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.



[11:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi. Þannig er að umsóknarfresturinn 15. september var samþykktur í fjárlaganefnd. (HöskÞ: Þetta er ný framkvæmd.) Það hefur ekki komið fram tillaga um að virða ekki samþykkta fresti í fjárlaganefnd. [Hlátur í þingsal.]