139. löggjafarþing — 10. fundur
 14. október 2010.
nauðungarsala, 1. umræða.
stjfrv., 58. mál (frestur). — Þskj. 59.

[11:49]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Í frumvarpi þessu er lagt til að tímabil það sem einstaklingar hafa til að óska eftir fresti á því að nauðungarsala á íbúðarhúsnæði þeirra fari fram verði framlengt til 31. mars 2011. Ég mun í örfáum orðum gera grein fyrir sögu málsins og lagatæknilegum atriðum.

Í byrjun árs 2009 var lögum um nauðungarsölu breytt og ákveðið að sýslumaður skyldi að ósk gerðarþola fresta öllum nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Tilgangurinn með frestinum var að auka svigrúm einstaklinga í greiðsluerfiðleikum til að leita úrræða til að endurskipuleggja fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að eignir þeirra verði seldar nauðungarsölu.

Með lögum nr. 108/2009 var fallið frá því að fresta öllum stigum á nauðungarsölu en þess í stað kveðið á um að sýslumanni bæri að verða við ósk gerðarþola um að fresta töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða lokasölunni sjálfri fram yfir 28. febrúar 2010. Þannig var gert ráð fyrir að nauðungarsölubeiðnir yrðu teknar fyrir og fyrri sala færi fram en frestað yrði að taka ákvörðun um lokasölu íbúðarhúsnæðis. Þannig færi lokasala ekki fram fyrr en eftir 28. febrúar 2010 ef gerðarþoli óskaði eftir fresti. Nauðungarsölur fóru aftur af stað með þeim takmörkunum að gerðarþoli gat enn óskað eftir fresti á lokasölu og eins og áður við það miðað að tíminn yrði nýttur til endurskipulagningar á fjármálum en ný úrræði til lausnar á skuldavanda heimilanna höfðu verið lögð til á vegum stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.

Í þriðja sinn var fresturinn framlengdur með lögum nr. 11/2010 á þann hátt að gerðarþoli gat óskað eftir fresti í þrjá mánuði á því að tekin yrði ákvörðun um síðari sölu eða að síðari sala færi fram hefði sá dagur verið ákveðinn. Þótti framlenging frestsins vera nauðsynleg svo að skuldurum gæfist ráðrúm til að nýta sér hin nýju úrræði til lausnar á skuldavanda heimilanna. Mun þessi frestur renna sitt skeið hinn 31. þessa mánaðar.

Hinn 1. ágúst tóku gildi ný lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og umboðsmaður skuldara tók þá jafnframt til starfa. Mikið álag hefur verið á umboðsmanni skuldara og eftirspurn eftir þjónustu hans. Ljóst er að nokkra mánuði getur tekið fyrir umboðsmann skuldara að vinna úr þeim umsóknum sem honum berast. Í frumvarpi þessu er lagt til að framlengt verði tímabilið sem einstaklingar geta óskað eftir þriggja mánaða fresti á nauðungarsölu um fimm mánuði eða fram til 21. mars 2011. Má gera ráð fyrir að framlenging þessa úrræðis muni að einhverju leyti létta álagi á umboðsmanni skuldara auk þess sem fresturinn nýtist einnig þeim sem þurfa skjól fyrir nauðungarsölu á meðan þeir leita samninga við kröfuhafa sína t.d. á grundvelli þeirra úrræða sem fjármálafyrirtækin bjóða upp á.

Rétt er að taka fram að eins og áður er fresturinn ekki sjálfkrafa heldur verður gerðarþoli að óska eftir honum við sýslumann. Frestinn má veita til allt að þriggja mánaða og hann er veittur einu sinni á því stigi nauðungarsölu þegar ákveða á hvenær lokasala fari fram eða á lokasölunni sjálfri hafi sá dagur verið ákveðinn. Sömu skilyrði eru fyrir því að unnt sé að fresta nauðungarsölu og áður hafa verið, þ.e. að um sé að ræða fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Ég legg áherslu á að tilgangurinn með þessum fresti er að veita skuldara skjól fyrir nauðungarsöluaðgerðum á meðan hann leitar lausna á skuldavanda sínum, hvort sem hann gerir það með aðstoð umboðsmanns skuldara eða leitar sjálfur beint til kröfuhafa sinna. Vil ég hvetja skuldara til að nýta þennan frest og hafa samband við umboðsmann skuldara og fá þar skoðun á fjármálum sínum eða leita beint til kröfuhafa sinna og fá upplýsingar um þau úrræði sem þar eru í boði og mat á því hvort þau henti til lausnar á vanda viðkomandi.

Hæstv. forseti. Ég hef reifað efni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[11:54]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég tel sannarlega brýnt að fá málið hingað inn enda standa yfir mörg nauðungaruppboð og mikilvægt að fólk geti leitað í úrræði. Það hefur líka vakið athygli okkar hversu takmarkaðar og lítið samræmdar upplýsingar eru um nauðungaruppboð sem standa fyrir dyrum, um gerðarbeiðendur, tilurð og meðferð uppboða. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist grípa til ráðstafana eða hafi gripið til ráðstafana til að bæta upplýsingarnar sem sýslumannsembættin afla. Geta þau geta miðlað til okkar upplýsingum um uppboð sem fram undan eru, um fólk sem lendir í þeim og þá sem ganga eftir þeim?



[11:55]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir andsvarið og góðar undirtektir. Ég er sammála því sem fram kom í máli hans að það er mikilvægt að bæta upplýsingastreymi til þeirra sem eiga í hlut. Það höfum við reynt að gera í átakinu sem efnt hefur verið til af hálfu ríkisstjórnarinnar, að taka á skuldamálum.

Ég hef haft samband við alla sýslumenn landsins og óskað eftir upplýsingum frá þeim. Það var gert af hálfu ráðuneytisins og við höfum efnt til sameiginlegra funda með fulltrúum sýslumanna annars vegar og umboðsmanns skuldara hins vegar. Að því hafa fulltrúar félagsmálaráðuneytisins einnig komið. Við vinnum að betri upplýsingagjöf og betri þjónustu við þá sem lenda í þessum vanda. Reynum að opna faðminn (Forseti hringir.) betur gagnvart fólki. Upplýsingagjöfin er að verða miklu tryggari að mínum dómi.



[11:56]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar og það að hann sé að ganga eftir þeim. Upplýsingar eru lykilatriði til að ná árangri í þessum málum. Ég er ekki í neinum vafa um að ráðherrann er þar með opinn faðminn.

Það blasir við að allt of margt fólk þarf að ganga þá píslargöngu sem nauðungarsala á íbúðarhúsnæði manns eða fjölskyldu er. Við hljótum að þurfa að huga að því hvort við getum á einhvern hátt létt fólki þennan erfiða leiðangur eins og við höfum tekið afstöðu gagnvart fyrirtækjunum um að endurskipuleggja skuldir þeirra en láta menn ekki ganga píslargöngu leiðina á enda. Það er eðlilegt að spurt sé um frumvörp eins og hið svonefnda lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur, sem gerir ráð fyrir að þeir sem eftir hrunið eru með eignir sem þeir ráða ekki við, geti einfaldlega skilað veðlánahöfum eignum sínum. Hugmyndir eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað fyrir eru svipaðs eðlis. Það mætti kalla lyklakippumálið. Þeir sem eru komnir í þá stöðu að skuldir þeirra eftir hrun eru langt umfram eignir, geti skilað þeim og verið þá lausir undan öllum veðkröfum. Sér hæstv. ráðherra einhverjar slíkar leiðir til að við fáum skilið við þennan svarta kafla í sögu okkar sem allra fyrst þannig að sem fæstir þurfi að fara þessa erfiðu vegferð sem uppboð á heimilum fólks er? Afleiðingarnar geta verið alvarlegar fyrir fjölskylduna, samheldni hennar, andlegt heilsufar og líkamlegt og jafnvel starfsgetu fólks til framtíðar. Ég er sannfærður um að við, lítil þjóð, höfum ekki efni á að láta þúsundir manna ganga þann veg til enda.



[11:58]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efnisatriðin sem komu fram í máli hv. þingmanns. Það er mikilvægt að hraða skoðun á þeim frumvörpum sem hann vék að, lyklafrumvarpinu svo kallaða eða lyklakippufrumvarpinu, sem fékk ágæta umræðu sl. vor en var ekki lokið. Við erum enn með þetta til skoðunar.

Þess er að vænta núna á næstu dögum að inn í þingið komi frumvarp um fyrningu krafna eftir gjaldþrot þar sem tímaþak yrði sett á slíkar kröfur. Þetta tel ég mikilvægt fyrir fólk svo það geti staðið á fætur eftir gjaldþrot. Það er sitthvað í skoðun og í burðarliðnum.

Eitt langar mig til að segja í tilefni þessarar umræðu. Viðfangsefnin sem við glímum við eru mjög erfið. Ég nefni sérstaklega álagið sem er á embætti umboðsmanns skuldara. Það er mikið álag á embættinu sem ég tel standa sig afar vel í þessu máli. Ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir til að efla embættið og til að ryðja úr vegi þröskuldum sem hafa staðið í vegi fyrir því að úrræðin sem gripið hafa verið til virki. Þetta er hluti af átakinu sem ég vona að komi til með að skila skuldurum betri stöðu.



[12:00]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er hingað komin sem fulltrúi í allsherjarnefnd til að fagna þessu frumvarpi sérstaklega og þakka hæstv. ráðherra fyrir skjót viðbrögð sem tryggja nú framlengingu á fresti til nauðungarsölu, allt til loka mars á næsta ári. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að við hljótum að horfast í augu við það að þeir frestir sem hingað til hafa verið veittir hafa því miður ekki nýst sem skyldi. Það hefur verið fullyrt, og var mikil umræða um það hér þegar haustið nálgaðist, að stjórnvöld og þar með ríkisstjórnin hefðu undirgengist einhvers konar bann frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við að veita frekari fresti af þessu tagi. Það frumvarp sem hér liggur fyrir, sem er stjórnarfrumvarp, er auðvitað staðfesting á að svo var ekki. Það er eðlilegt og rétt og skylt að það komi fram.

Ég vil einnig taka undir hvatningu hæstv. ráðherra um að menn nýti sér þessi úrræði og ég vil sérstaklega nefna Suðurnesin í því sambandi. Við ræddum hér áðan um atvinnuástand á Suðurnesjum og í þeirri umræðu kom fram að nauðungarsölur eru þar gríðarlega margar. Það er mikilvægt að af því verði sem allra fyrst að umboðsmaður skuldara opni útibú þar suður frá. Þetta frumvarp getur einmitt verið liður í því að styrkja Suðurnesin og koma til móts við þann vanda sem þar er við að glíma.

Fulltrúar allra stjórnmálaflokkar hafa hvatt til þess að þetta mál verði lagt fram og þessir frestir lengdir þannig að ég vænti þess að það muni fara hratt og örugglega í gegnum hv. allsherjarnefnd og Alþingi þar í framhaldinu.

Að lokum, frú forseti, legg ég til að með tilliti til lýðheilsusjónarmiða verði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins flutt frá fjármálaráðuneyti til heilbrigðisráðuneytis.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.