139. löggjafarþing — 12. fundur
 14. október 2010.
sala sjávarafla o.fl., 1. umræða.
frv. BaldJ o.fl., 50. mál (bætt samkeppnisstaða innlendra fiskvinnslustöðva). — Þskj. 51.

[15:02]
Flm. (Baldvin Jónsson) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu sjávarafla o.fl.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að bæta umgengni um nytjastofna sjávar, efla innlenda fiskvinnslu og stuðla að því að nytjastofnar sjávar verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina.“

Í greinargerð segir:

„Markmiðið með frumvarpi þessu er að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindum sjávar og efla atvinnustarfsemi innan lands. Þá er markmið þess jafnframt að auka aðkomu og yfirsýn íslenskra stjórnvalda með viðskiptum með sjávarafurðir, hvort sem þær eru veiddar innan efnahagslögsögunnar eða tilheyri íslenskum deilistofnum.

Gert er ráð fyrir því að meðal áhrifa lagafrumvarpsins verði aukin samkeppni um veiddan afla og bætt aðgengi íslenskra fiskvinnslufyrirtækja að fiski til vinnslu, sem muni hafa jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og atvinnusköpun á landinu.“ — En talið er að það muni skapa um 500 ný störf. — „Þannig mun nálægð innlendra fiskvinnslustöðva við fiskimiðin nýtast þeim þar sem allur afli verði boðinn upp á innlendum uppboðsmörkuðum.“ — Og virði hans þar með hámarkað hér heima. Hámörkun aflaverðmætis á Íslandi mun einnig hafa þau áhrif að laun sjómanna hámarkast að sama skapi.

„Með frumvarpinu er ráðgert að veita innlendum fiskvinnslum raunverulegan aðgang að því hráefni sem annars hefur verið flutt úr landi óhindrað. Núverandi uppboðskerfi á óunnum sjávarafla sem fluttur er á erlenda fiskmarkaði hefur ekki virkað í raun. Lágmarksverð sem útgerðir hafa skráð á uppboðsvef hefur oftar en ekki verið mun hærra en markaðsverð á fiski á innlendum mörkuðum og mun hærra en það verð sem opinberar tölur um raunverulegt söluverð á erlendum mörkuðum gefa til kynna. Innlendar fiskvinnslur hafa því í raun ekki haft aðgang að þessu hráefni þrátt fyrir fögur fyrirheit þar um. Telja frumvarpshöfundar að með því að bjóða allan fisk, að undanskildum uppsjávarfiski, humar og rækju, til sölu á innlendum fiskmarkaði sé verið að jafna samkeppnisstöðu innlendra fiskvinnslustöðva gagnvart erlendum fiskkaupendum en um leið sé verðmæti óunninna afurða hámarkað í heilbrigðri samkeppni um hráefni.

Með frumvarpinu er þó á engan hátt verið að leggja hömlur við því að erlendar fiskvinnslustöðvar kaupi eftir sem áður íslenskan fisk til vinnslu. Þau kaup þurfa þá að eiga sér stað á viðurkenndum innlendum fiskmarkaði þar sem erlendir og innlendir aðilar keppa um hráefnið á jafnræðisgrundvelli. Þá er með frumvarpinu ekki komið í veg fyrir að ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, ríkisborgarar aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða ríkisborgarar Færeyja geti sýslað með íslenskan sjávarafla. Er beinlínis ráð fyrir því gert í a-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2009, um uppboðsmarkaði sjávarafla, að ríkisborgarar framangreindra ríkja, sem einnig uppfylla önnur skilyrði laganna, geti fengið leyfi til reksturs uppboðsmarkaða með sjávarafla á Íslandi.

Um svokölluð frystiskip gilda í ýmsum tilvikum önnur lögmál, þar sem mörg þeirra skipa eru búin fullkomnum vinnslubúnaði sem nýttur er til fullvinnslu afla um borð. Þjónar það vart framangreindum markmiðum frumvarpsins að skylda slík skip til þess að selja afla sinn á viðurkenndum uppboðsmarkaði. Af þeim sökum er gerð sú undantekning að heimilt sé að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar. Er sett fram skilgreining á því hvað teljist til fullunnins frysts afla samkvæmt frumvarpinu. Í framkvæmd hefur ekki legið fyrir nein óyggjandi skilgreining á hugtökunum frystiskip og frystitogari. Kann slíkt að vera afleiðing þess að íslensk fiskveiðilöggjöf er margvísleg og hún sett fram í þeim tilgangi að ná fram margvíslegum markmiðum. Er skilgreining á fullunnum frystum afla byggð á skilgreiningu hugtaksins vinnsluskip sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, og hugtaksins fullvinnslu sbr. 1. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum, að breyttu breytanda.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins, nr. 43/1985, verði breytt á þann veg að þau taki einungis til þeirra fisktegunda sem undanþegin verði þeirri skyldu að vera seld á fiskmarkaði eða verðleggjast eftir markaðsvirði, þ.e. uppsjávarfisks, humars og rækju. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 84/1991, um breytingu á lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins, sem fólu í sér innleiðingu meginreglunnar um frelsi til ákvörðunar á verði fersks sjávarafla, kemur eftirfarandi m.a. fram:

Lagt er til „að dregið verði úr hlutverki Verðlagsráðs sjávarútvegsins í áföngum og frjálsræði við ákvarðanir á verði fersks sjávarafla verði aukið að sama skapi. Með samþykkt núgildandi laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins á árinu 1985 var Verðlagsráði heimilað að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa ef sérstaklega stóð á enda væri um það einróma samkomulag í ráðinu. Þessari heimild hefur verið beitt með ágætum árangri varðandi tilteknar tegundir, t.d. loðnu, en samstöðu hefur skort í ráðinu til að beita heimildinni í ríkum mæli varðandi aðrar tegundir, þar á meðal ýmsar mikilvægustu tegundir sjávarfangs svo sem botnfisk. Þrátt fyrir það hafa áhrif verðákvarðana ráðsins sífellt haft minni og minni þýðingu því að í framkvæmd hefur verð verið ákveðið í æ ríkara mæli með samkeppnisboðum á uppboðsmarkaði eða frjálsum samningum. […] Upp geta þó komið þær aðstæður á einstökum sviðum að skynsamlegt þyki að ákveða lágmarksverð. Er því lagt til að ráðið verði áfram til og geti tekið ákvarðanir um lágmarksverð sé fyrir því meiri hluti í ráðinu.“

Frá gildistöku laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur löggjöf er varðar veiðar og vinnslu á sjávarfangi breyst nokkuð auk þess sem löggjöf um fyrirtækjarekstur í landinu hefur tekið verulegum breytingum. Má þar helst nefna að löggjafinn hefur sett samkeppnislög sem hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Hefur löggjafinn með setningu framangreindra laga fallist á þann meginþátt kenningarinnar um samkeppni að á heildina litið leiði samkeppni í viðskiptum á markaði til hagfelldari niðurstöðu fyrir almenning en viðskipti í skugga afskipta ríkisvaldsins. Þá ber að geta þess að miklar breytingar hafa átt sér stað á háttum og eðli nær allra viðskipta í ljósi aukinnar samvinnu milli þjóða, m.a. um opnum markaða. Af þeim sökum hafa áherslur breyst og verðákvarðandi samstarfsvettvangur jafnvel verið talinn markaðinum skaðlegur.

Með tilliti til framangreindra sjónarmiða um eflingu samkeppni verður að líta til þess að þegar um er að ræða bein viðskipti með afla og aðilar hafa á höndum bæði útgerð og fiskvinnslu eða eru tengdir á annan hátt skapast hætta á óeðlilegri undirverðlagningu. Af þeim sökum telja frumvarpsflytjendur eðlilegt að slíkum viðskiptum fylgi sú kvöð að uppgjör milli veiða og vinnslu verði á markaðsverði þess dags sem viðskiptin fara fram eða þá á síðasta þekkta markaðsvirði hafi slík viðskipti ekki átt sér stað þann daginn.“

Tilgangur með frumvarpi þessu er m.a. að auka gegnsæi og frjálsa samkeppni, auka opinberar upplýsingar gagnvart sjómönnum.



[15:11]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að skoða þetta frumvarp mjög gaumgæfilega og þær tillögur sem koma þar fram. Það hefur um nokkuð langan tíma verið krafa sjómanna og uppi um það háværar raddir víða í þjóðfélaginu og sérstaklega úti um land að við ættum að reyna að komast út úr þessum erfiðleikum okkar með því að veiða meira, sjórinn sé fullur af fiski víða kringum landið, allir firðir og flóar séu fullir af fiski og við gætum leyft okkur að ganga á fiskstofnana tímabundið til að komast yfir þessa erfiðleika.

Ég tek nú ekki undir það. Ég held að við verðum þrátt fyrir að nú sé hart í ári að fara að ráðum fiskifræðinga okkar og ganga ekki á stofnana. Ekki frekar en við göngum á útsæðið í landbúnaði, það kemur niður á okkur síðar. Hitt er annað mál að ég held að það sé rétt að líta til sjávarútvegsins sem stórrar iðngreinar og möguleika okkar á að fá miklu meira út úr þeirri grein en við gerum nú. Ég lít svo á að við sem þjóð höfum verið allt of mikið í hráefnisútflutningi í sjávarútvegi. Við höfum ekki haft trú á því að við gætum unnið meira úr fiskafurðum okkar og verið með vöruþróun o.s.frv. Í þeim efnum má líka segja að gengismálin hafi nokkuð oft verið okkur andsnúin, sérstaklega á þessum þenslutíma. Þá var nú ekki burðugt fyrir fyrirtæki að reyna að finna upp nýjar greinar til að fara í frekari útflutning og þróa vörur til manneldis meira en gert hefur verið. En núna eru mjög hagstæð skilyrði til að fara í frekari útflutning og huga að þróun. Þess vegna tel ég að eigi að horfa á þetta upp á nýtt og skoða með hvaða hætti við getum stuðlað að því að hér verði unnið meira úr hráefninu en gert hefur verið.

Það er eðlilegt að þeir sem stunda fiskveiðar horfi fyrst og fremst til þess hvar þeir fá hæsta verðið. Ef það er svo að það borgi sig fyrir útgerðina að flytja út óunninn fisk og þannig fái útgerðin hæsta verð fyrir fiskinn þá hugsar hver um sig, en ef við horfum á það í heild er ekki verið að horfa til þjóðarhags. Þess vegna er líka umhugsunarefni fyrir okkur þegar við fáum fréttir eins og um daginn í upphafi „makrílstríðsins“ við Breta um að upp hefðu komið hugmyndir í Skotlandi um að rétt væri að sýna okkur í tvo heimana og loka hreinlega breskum höfnum fyrir íslenska flotanum. Þetta hefði ekki verið hefndargjöf fyrir okkur, það hefði komið enn verr niður á Bretum sjálfum þar sem ljóst var að íslenskur fiskur, sem sé hráefnið, heldur uppi atvinnu í Aberdeen. Bíddu, ef það eru 6, 7, 8 þúsund Bretar eða fleiri, þetta hljóp á þúsundum, sem hafa atvinnu af því að fullvinna fiskinn okkar, hráefnið, eigum við þá ekki að horfa til þess hvort ekki sé hægt að vinna það meira heima og skapa atvinnu?

Eins og þetta er nú eiga minni fiskvinnslur, sem ekki eru með útgerð, erfitt í samkeppninni um hráefnið, um verðið. Eins er líka ankannalegt þegar við förum út í fiskbúð, sama hvar hún er á landinu, ég tala nú ekki um á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er orðið lúxus að kaupa sér ferskan fisk. Af hverju er verðið á nýjum fiski svona hátt, meira að segja á heilum fiski, ekki flökuðum heldur heilum? Jú, það er vegna þess að innlendi markaðurinn er í raun og veru að keppa við verðið sem er á uppboðsmörkuðunum erlendis. Ég hef heyrt þær skoðanir viðraðar að hægt væri að hugsa sér strandveiðarnar sem við gáfum frjálsar núna í sumar þannig, hvort sem það væru þær eða hluti aflans af skipunum, að aflinn yrði settur á innlendan markað og bara eyrnamerktur íslenskum neytendum. Þannig mundum við líka hugsa til þess að stuðla að því með núverandi kerfi að neytendur, þeir sem fara út í fiskbúð, fengju ekki vöruna á eins uppsprengdu verði og þeir fá í dag þegar viðmiðunin gæti verið önnur en hún er.

Ég vildi eingöngu koma þessum skoðunum að með sérstakri hvatningu til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um að skoða þetta og reyna að meta hvort ekki sé kominn tími til að horfa frekar en gert hefur verið á þetta sem heildstæða atvinnugrein sem er rekin og nýtir stofna með sjálfbærum hætti og tryggir til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina, eins og kemur fram í 1. gr. frumvarpsins sem yrði þá 1. gr. laganna. Ég tel að það sé mikilvægt. Núna þurfum við að hugsa um atvinnusköpun. Ég tel að eins og sjávarútvegur hefur verið stóriðja okkar geti hann verið það áfram en með öðrum hætti en verið hefur.



[15:18]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um að fiskur veiddur á Íslandsmiðum fari á innlenda fiskmarkaði. Þetta er mikilvægt mál og mikilvægt innlegg í umræðuna sem hefur verið í þingsölum í dag um atvinnuuppbyggingu þar sem hefðin undanfarin ár hefur beinst í þá veru að ríkisvaldið kosti milljörðum eða tugmilljörðum til að virkja vatnsföll og jarðhita til að búa til störf, tiltölulega fá störf miðað við fjárfestar krónur.

Á hverju ári eru flutt út í kringum 30 til 40 þús. tonn af óunnum fiski í gámum eða flugvélum og unninn eða settur á markaði erlendis. Þeir sem gerst þekkja til í greininni telja að með því að landa öllum afla á innlenda fiskmarkaði muni sjálfkrafa verða til a.m.k. 500 ný störf beintengd þessum breytingum og afleidd störf í kjölfarið muni verða um 200. Þarna erum við að tala um 700–800 störf sem þessi breyting muni leiða til og ekki veitir af. Þessi störf verða til með litlum tilkostnaði og verða til á skömmum tíma, þ.e. þann tíma sem tekur að ráða í þau.

Þetta er mikilvæg breyting. Hún er mikilvæg að því marki að það er verið að færa mikilvægustu auðlind þjóðarinnar inn í markaðsumhverfi. Hvað svo sem segja má um markaðsbúskap í öllum geirum mannlegs samfélags er markaðsumhverfið einmitt mikilvægt í þessum geira. Það þarf að koma til skila með gagnsæjum hætti því verði sem er í gangi á hverjum tíma. Verðið fyrir aflann þarf að skila sér til sjómanna. Innlendar fiskvinnslur þurfa að eiga aðgang að auðlindinni, að aflanum og hráefni sínu í eðlilegu umhverfi þar sem þær geta boðið það sem þær telja sér fært að bjóða og selt vöruna í framhaldi af því.

Við búum við þá stöðu í dag vegna falls krónunnar að íslenskt vinnuafl er sennilega ódýrasta vinnuafl í allri Evrópu þannig að samkeppnisstaða fiskvinnslu á Íslandi er mjög góð. Með því að hafa þetta markaðsumhverfi fyrir veiddan fisk mun takast með eðlilegum hætti að halda sveiflunum sem þarf í atvinnugreininni þegar fram líða stundir. Sveiflurnar þurfa ekki að byggjast á einhverjum fákeppnismarkaðssjónarmiðum heldur geta fiskvinnslurnar fyrst og fremst tekið mið af því að þær starfa á eðlilegum markaði.

Ég fagna því að hv. þingmaður og félagi minn, Baldvin Jónsson, leggi fram frumvarpið í sínu tveggja vikna starfi á þingi. Þetta er mikilvægt mál og gaman að sjá félaga minn frá því hér utan af Austurvelli fyrir um tveimur árum vera loksins kominn fram með frumvarp til laga á Íslandi. (BaldJ: Ég stoppa stutt.) Hann stoppar stutt, já. Þetta sýnir manni að það getur hver sem er verið þátttakandi í stjórnmálum á Íslandi. Bakgrunnur manna getur verið mismunandi en allir eiga fullt erindi hingað inn og það finnst mér gleðiefni.

Hv. þm. Þuríður Backman talaði einmitt um það sem skiptir miklu máli í þessu, að þetta mun leiða til þess að arðurinn af auðlindinni aukist og verði í meira mæli eftir innan lands en verið hefur. Það getur hver sem er komið til Íslands eða sett upp skrifstofur og boðið í fisk á íslenskum mörkuðum. Ef breskir eða franskir fisksalar vilja bjóða í íslenskan fisk er þeim frjálst að gera það hér á Íslandi og flytja síðan fiskinn út sjálfir. Gegnsæið er algert. Ef þeir geta selt óunninn íslenskan fisk á hærra verði en íslenskar fiskvinnslur geta boðið í hann, þá er það eðlileg og hagkvæmasta niðurstaðan hverju sinni.

Það er fagnaðarefni að þetta mál skuli vera komið fram og fari síðan væntanlega til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Hreyfingin er ekki með fulltrúa í þeirri nefnd en við munum óska eftir því við þingið að við fáum að vera með áheyrnarfulltrúa meðan málið fer í gegn. Skipta okkur af því eins og okkur er mögulegt og reyna að vinna því framgang allt til enda.



[15:23]Útbýting:

[15:24]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman og flutningsmönnum að markmiðið með frumvarpinu er sannarlega gott, þ.e. að tryggja þjóðinni, okkar sem eigum fiskinn í sjónum, að hún fái þann arð af auðlindinni sem eðlilegt er.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni að það er í sjálfu sér ekki gott fyrir háþróaða tæknivædda þjóð eins og Íslendinga að upplifa sjálfa sig sem hráefnisútflytjendur, sem er í hefðbundnum skilningi — ef ég hef skilið mína menntaskólaviðskipta- og hagfræði rétt — hlutverk þjóða sem eru komnar skemur á veg í þróun, sérstaklega hvað varðar samfélagsgerð og annað. Það er því út af fyrir sig ágætt.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þetta sé eina eða besta leiðin. Ég fagna því ef málið fer til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og verði rætt þar. Ég velti fyrir mér vandkvæðunum sem kynnu að koma upp í samningsgerð við erlenda aðila við kaup á fiski, lítið eða mikið unnum. Þetta kynni að skapa vandkvæði hjá útgerðarmönnum eða handhöfum aflaheimilda í samningagerðinni vegna þess að sá sem ætlaði að útvega fiskinn gæti kannski ekki tryggt afhendingu hans. Þar með gæti skapast óþarfamilliliður. Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn hafi hugleitt hvort það væri hætta á að upp kæmu málamyndagjörningar hjá aðilum sem keyptu fisk á markaði til þess að tryggja að þeir gætu staðið við tiltekna samninga. Ég hef áhyggjur af því hvernig þetta atriði kæmi út.

Ég velti fyrir mér í því sambandi hvort það væri skynsamlegt að skilyrða einhvern tiltekinn hluta aflaheimilda sem er úthlutað á hverju ári við þetta. Þá erum við aftur komin að umræðunni um byggðakvóta sem var raunar eitt af málum sem þingflokkur Vinstri grænna og fleiri flokkar, gott ef það var ekki þingflokkur Kvennalistans, töluðu fyrir að tryggt væri að tiltekinn hluti sjávarafla kæmi að landi í byggðum landsins og yrði unninn þar.

Það er hárrétt hjá flutningsmönnum að þjóðhagslegur arður af veiddum fiski er miklu meiri á kíló ef aflinn er veiddur, honum landað og unninn hérna. Ég tek heils hugar undir það að með því mundum við skapa fjölmörg störf. Að mínu mati er úrvinnslan ekki alveg fullkláruð eins og hún kemur fram í frumvarpinu. Það er allt í lagi, vegna þess að ég held að þetta sé gott mál og að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eigi að taka við því af heilum hug. Vinna með það og koma því þannig frá að þingið fái að taka afstöðu til þess. Ég fagna því flutningi þess.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn.