139. löggjafarþing — 14. fundur
 18. október 2010.
skipulagsmál í Suðurkjördæmi.

[15:25]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa tekið upp nýtt áhugamál eftir að hún settist í ráðuneyti umhverfismála, það virðist ganga út á að safna sem flestum aðalskipulögum, sérstaklega frá okkur í Suðurkjördæmi. Það vill vera þannig, eins og við þekkjum frá frímerkjasöfnurum, að menn vilja hafa sem mest úrval og við í Suðurkjördæmi sitjum nú uppi með að óvissa ríkir varðandi afgreiðslu skipulags Ölfuss. Við erum að bíða eftir upplýsingum frá dómstólum um hvernig ætlunin er að meðhöndla aðalskipulag Flóahrepps. Við bíðum líka spennt eftir upplýsingum varðandi Skeiða- og Gnúpverjahrepp og síðan tengist skipulag Ölfuss þeim framkvæmdum sem þegar eru fyrirhugaðar í Helguvík.

Ég kem sérstaklega hingað upp vegna þess að ég hef fengið upplýsingar, og það kom fram í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði nýlega í Fréttablaðið, um að ætlunin væri að hafna breyttri veglínu í Mýrdalshreppnum á Suðurlandsveginum, að vísa veglínumálinu í hérað en samþykkja aðalskipulagið öðru leyti. Menn í héraði bíða mjög spenntir eftir því að fá formlegt bréf frá ráðherranum þannig að þeir geti tekið skipulagið upp aftur og sent það aftur til ráðuneytisins þar sem ráðherrann getur bætt við nýrri útgáfu af skipulaginu í safnið hjá sér.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra um frá ráðherranum er hvort viðkomandi bréf sé farið í póst, og ef ekki, hver sé ástæðan fyrir því.



[15:27]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni og því er fljótsvarað, já, svarið er farið í póst. Ég óskaði eftir því um leið og ég undirritaði bréfið, sem mig minnir að hafi verið á fimmtudaginn í síðustu viku, það gæti þó hafa verið á föstudaginn, að oddvitinn yrði látinn vita símleiðis um að bréfið væri á leiðinni, þannig að ég vænti þess og vonast til þess að þetta gangi allt saman hratt og örugglega. Ég hef verið í sambandi við heimamenn út af þessu og ég vænti þess að þingmaðurinn þekki forsögu málsins sem var pínulítið snúin að því er varðaði nákvæmlega þessa veglínu. Ég stóð frammi fyrir því annaðhvort að skipulagið færi allt saman til baka eða þá að það yrði staðfest ef ég fengi nýjan uppdrátt sem veglínan væri ekki á, vegna vanhæfisspurningarinnar sem komið hafði upp áður. Sú varð niðurstaðan að aðrar framkvæmdir gætu farið af stað í sveitarfélaginu og ég vonast til þess að þetta gangi hratt og vel.



[15:28]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það er mjög mikilvægt að skipulagsmál séu unnin hratt og vel. Það eru því miður ekki orð sem ég hef getað notað hingað til um það hvernig umhverfisráðuneytið og undirstofnanir í ráðuneytinu hafa starfað að skipulagsmálum.

Það hefur komið fram frá áhugasömum fjárfestum og Fjárfestingarstofu að fjárfestar sem haft hafa áhuga á að koma hingað til lands og leggja peninga í uppbyggingu hér hafa hikað vegna þess hvað miklar tafir hafa verið og óskipulag í skipulagsmálum og vinnu á vegum stjórnsýslunnar. Ég hefði því líka áhuga á að fá að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvort ráðherrann hafi skoðað eða gert einhvers konar úttekt, því að við erum nú svo áhugasöm um ýmsar rannsóknir, á því hvort tími á afgreiðslu mála hjá ráðuneytinu hafi lengst í hennar tíð í samanburði við aðra ráðherra, og ef svo er, hvernig væri þá hægt að koma vinnuferlinu í þann gír að við getum farið að sjá (Forseti hringir.) einhverja atvinnusköpun hér á landi.



[15:29]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ja, mikil eru nú völd þeirrar sem hér stendur ef hún ber ábyrgð á því hvort einhver atvinnusköpun fer af stað í landinu, en það er nú í anda málflutnings sem aðrir þingmenn hafa viðhaft hér í salnum en ég bjóst ekki við honum frá þeim þingmanni sem bar upp fyrirspurnina. Hún hefur að jafnaði verið málefnalegri en svo.

Ég hef lagt mjög mikið upp úr því að skoða málshraða í umhverfisráðuneytinu og ég hef lagt mikla vinnu í að úr verði bætt þar sem þess er þörf en jafnframt að ferillinn verði gagnsær, hann verði réttur og að stjórnsýslan í umhverfisráðuneytinu verði til fyrirmyndar. Það er markmið mitt sem ég mun fylgja kirfilega eftir.