139. löggjafarþing — 14. fundur
 18. október 2010.
umræður utan dagskrár.

háskólamál.

[15:37]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu var kynnt könnun sem snerti samkeppnisstöðu Íslands og við húrruðum niður þann lista en það var sérstaklega tekið fram að Ísland væri sterkt á ákveðnum sviðum. Á sviði heilbrigðismála, þó verið sé að vega að þeim geira núna, og ekki síst á sviði menntunar, rannsókna og vísinda, og það er gott, ágætt að þær stoðir séu enn sterkar.

Það hefur auðvitað margt gerst á umliðnum árum. Við stóðum frammi fyrir því fyrir 15 árum, það er ekki lengra síðan, að við vorum miklir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna hvað varðar aðsókn í háskóla. Við tókum pólitíska ákvörðun um að fjölga nemendum í háskóla, fjölga námsleiðum, námstækifærum og auka gæðakröfur. Þetta leiddi meðal annars af sér fjölgun háskóla. Eftir ákveðið tímabil var afráðið að fara í, eftir að við höfðum náð því takmarki að fjölga nemendum, að sameina háskóla. Ég man að við tókumst á um það í þessum sal, þáverandi stjórnarandstaða og við sem vorum þá í ríkisstjórn, að sameina Háskólann í Reykjavík og Tækniháskólann og síðan var sem betur fer meiri samhljómur fyrir því að fara í sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands og ég tel að sú sameining hafi verið heillaskref.

Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra meðal annars tilkynnt nýtt samstarfsnet opinberu háskólanna. Sérstaklega er stofnað til þess með það í huga að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með hugsanlega sameiningu þeirra í framtíðinni. Ég vil sérstaklega draga það fram hér að ég tel þetta vera hárrétt skref hjá hæstv. menntamálaráðherra og vil hrósa henni fyrir að halda áfram að gera allt sem í hennar valdi stendur til að ýta undir samvinnu og aukið samstarf hjá hinum opinberu háskólum. Ég hefði einnig viljað sjá þetta gert meðal einkareknu háskólanna.

Ég gæti auðvitað farið í að deila um það af hverju þetta samstarfsnet þurfi að kosta 300 millj. kr., ég mun gera það undir fjárlagaumræðunni. En ég vil halda áfram með þetta samstarfsnet sem ég tel af hinu góða og í tengslum við það hafa hugmyndir verið ræddar um að hér verði starfræktur einn ríkisháskóli, þ.e. að sameina Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólann, Hólaskóla og Háskólann á Akureyri. Ég tel þetta ekki raunsætt eins og er en tel þó rétt að skoða sérstaklega að háskólarnir sunnan heiða, þ.e. Landbúnaðarháskólinn og Háskóli Íslands, verði sameinaðir og þá hugsanlega Hólaskóli og Háskólinn á Akureyri.

Ég tel líka ljóst að innan einkareknu háskólanna, þ.e. Bifrastar og Háskólans í Reykjavík, verðum við að auka enn frekar samstarfið og ég tel í rauninni óhjákvæmilegt að þessir skólar tveir sameinist í þágu hagræðingar og í þágu gæða. Ég tel að þetta séu þau skref sem væri gott fyrir okkur að sjá stigin á sviði háskólamála og rannsókna á næstu árum þannig að við getum haldið áfram að vera með þessar sterku stoðir á sviði mennta.

Niðurskurðurinn hefur bitnað á háskólanum eins og víðar þó að rétt sé að draga fram að það er jákvætt að sjá ákveðna tilraun til forgangsröðunar hjá ríkisstjórninni til að hlífa menntuninni. En þó verð ég líka að lýsa furðu minni á því að ætlunin er að efla hug- og félagsvísindi með því að skerða heilbrigðis- og raunvísindi. Ég tel þetta ekki réttu aðferðina til að efla háskólanámið. Ég tel því rétt í ljósi þess að gæðaráð hefur verið stofnað innan menntamálaráðuneytisins að það skoði sérstaklega hvaða áhrif þessi pólitíska ákvörðun, um að skerða reiknilíkanið sem snertir heilbrigðis- og raunvísindagreinar, hefur á gæðin innan háskólanna og ekki síður það stóra vandamál sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir, að það eru 900 nemendur á þessu ári, 2010, sem Háskóli Íslands þarf að taka án þess að fá greitt með. Ef fram heldur sem horfir verða þetta 1.400 nemendur á næsta ári án þess að Háskóli Íslands fái greiðslur fyrir.

Ég tel óhjákvæmilegt að við á Alþingi förum að ræða það hvort við eigum annars vegar að þjappa eins mörgum einstaklingum í háskólana og hægt er og það verður þá bara gert á kostnað gæðanna, þá verðum við einfaldlega að segja að það fylgi með eða þá að við förum í að takmarka aðgang að háskólanum gegn því að við höldum áfram fyllstu gæðakröfum. Þetta eru þau viðfangsefni sem við á Alþingi þurfum meðal annars að leysa og standa frammi fyrir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvernig sér hæstv. ráðherra þróun á sviði háskólamála? Hvaða sameiningar sér hún eiga sér stað innan tíðar, fyrr en síðar?

Í öðru lagi: Er von á breytingum á þessu reiknilíkani sem boðaðar hafa verið, var sátt við háskólann þegar breytingarnar voru gerðar á reiknilíkaninu sem snertir skerðinguna á heilbrigðis- og félagsvísindum?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hana að því hvort hún telji rétt að fólk geti endurgjaldslaust tekið tvær eða aflað sér tveggja eða jafnvel þriggja meistaragráðna á háskólasviði.



[15:43]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu sem ég held að sé mjög þarft að við eigum hér í þessum sal. Eins og hv. þingmaður fór réttilega yfir hefur sú stefna verið sett að opinberir háskólar vinna saman í samstarfsneti opinberra háskóla. Sú stefna byggir m.a. á skýrslu sem kallast, svo ég fái að nota hið enska heiti, Education Research and Innovation Policy, a New Direction for Iceland, sem var sett saman af starfshópi sem forveri minn í starfi og hv. málshefjandi skipaði, sem voru sem sagt fulltrúar frá OECD og finnskir sérfræðingar í háskólamálum þar sem er hvatt til þessarar auknu samþjöppunar, annars vegar opinberra háskóla og hins vegar einkarekinna háskóla.

Við höfum unnið að þessu markmiði, að hvetja til samstarfs og verkaskiptingar, og tilgangurinn með því er að standa vörð um gæði eins mikið og unnt er á niðurskurðartímum, þ.e. að horfa til þess að við reynum að standa vörð um fjölbreytni í háskólanámi — þá vísa ég til fræðasviðanna — en horfa frekar til þeirrar samlegðar sem getur náðst með því að samkenna sömu greinar. Það skiptir máli að standa vörð um fjölbreytni þannig að við kennum hér og rannsökum á sem flestum fræðasviðum, og það eru grunnforsendurnar fyrir þessari stefnumótun. Búið er að setja hana í gang með verkefnisstjórn sem er skipuð fulltrúum þessara skóla, þeir sitja saman í henni og vinna samkvæmt tilteknum markmiðum, meðal annars að allir þessir skólar starfi samkvæmt sömu lögum, sem þeir gera ekki um þessar mundir þar sem landbúnaðarháskólarnir starfa undir sérstökum lögum. Sameiginleg stjórnsýsla verði að hluta, samræmt gæðamat og gæðakerfi, eitt upplýsingakerfi, horft til stofnþjónustunnar, horft til sameiginlegrar miðstöðvar fyrir framhaldsnám og það verði eitt vinnumatskerfi og samstarf við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni verði skilgreint.

Við erum búin að setja fram tímaáætlun um þetta. Samhliða þessu hafa síðan einkareknu háskólarnir, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst, átt í óformlegum viðræðum upp á síðkastið um hvaða samlegð þeir telji sig geta náð á sínum fræðasviðum, og við höfum að sjálfsögðu reynt að styðja við það. Af því að hv. þingmaður nefnir þessar 300 millj. kr. er það rétt að við höfum sótt um það og það á eftir að koma til umræðu í fjárlagaumræðunni að fá 300 millj. kr. á árunum 2011 og 2012 til að geta stutt við samstarfsverkefni háskólanna.

Það skiptir miklu máli, af því að ég lít svo á að þetta sé verkefni sem fyrst og fremst muni skila langtímahagræðingu og langtímaárangri, en hins vegar getur það tekið á og kostað sitt að fara í slík verkefni á niðurskurðartímum. Ég lít svo á að það sé erfitt fyrir skólana að taka fé út úr rekstri sínum á sama tíma og þeir standa frammi fyrir erfiðum niðurskurði til að standa í þessum verkefnum líka og ég lít þannig á þetta sem ákveðinn hvata til þess að stuðla að þessu samstarfi.

Hvað varðar endurskoðunina á reiknilíkaninu, sem hv. þingmaður nefnir, hefur það verið í endurskoðun í allmörg ár og snýr að því að um langt skeið hafa lægstu reikniflokkarnir verið taldir allvanmetnir í þessu reiknilíkani. Aðrir reikniflokkar, eins og t.d. reikniflokkur fyrir hjúkrunarfræði, hafa líka verið taldir vanmetnir. Tilgangur breytinganna, sem hafa verið unnar í samstarfi við forstöðumenn háskólanna, er að bæta úr þessu. Hins vegar er rétt að taka fram að reiknilíkanið snýr fyrst og fremst að því hvernig fjármunum er úthlutað til skólanna. Þeir hafa síðan fullt sjálfdæmi um það og hafa nýtt sér það að úthluta fjármunum innan sinna veggja. Að sumu leyti má telja það eðlilegt að því leytinu til að þá setja þeir ákveðna forgangsröðun sem er eðlilegt í akademískri stofnun en þetta er fyrst og fremst vinnutæki við að úthluta fjármunum til skólanna. Ég tek það fram að þetta hefur ekki áhrif á heildarframlög til skólanna og af því að hér eru sérstaklega nefndar verk- og tæknigreinar er í raun gert ráð fyrir verulegri fjölgun í þeim flokki þannig að þetta ætti ekki að birtast í þeim prósentulega niðurskurði sem settur hefur verið fram.

Ég reyndi að útskýra þetta aðeins í grein um helgina en þessi endurskoðun hefur staðið yfir í samstarfi við forstöðumenn háskólanna.

Þetta er sem sagt þróunin sem hefur verið. Við eigum von á því að fá hugmyndir frá verkefnisstjórninni, um samstarf opinberu háskólanna, nú á haustmánuðum sem ætti að vísa inn í það hvernig vinnulagið verður fram undan, hvaða hagræðingu fólk sér í spilunum og hvernig fólk metur að þetta samstarfsnet muni virka sem best þannig að fyrri tímaáætlun sé haldið til haga.

Hv. þingmaður spyr hvort fólk eigi að geta tekið tvær til þrjár meistaragráður endurgjaldslaust í innlendum háskólum. Þær eru náttúrlega ekki endurgjaldslausar með öllu því að flestir taka lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir utan gjöld (Forseti hringir.) sem eru mismunandi milli skóla, og þar setur lánasjóðurinn ákveðnar takmarkanir með fimm ára reglunni og tíu ára reglunni, þannig að það er ekki endalaus aðgangur. (Forseti hringir.) En hins vegar vitum við að með áframhaldandi niðurskurði sjá skólarnir fram á erfiða tíma með það að geta tekið á móti öllum sem í þá sækja.



[15:48]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hennar. Þetta er ekki fyrsta umræðan sem við höfum tekið hér um framtíð háskólanna og verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

Í ljósi þess niðurskurðar sem þarf að fara í horfum við fram á breytingar og að mínu mati þurfum að fara í mun meiri og ákveðnari breytingar en ráðherra hefur boðað hingað til. Í erlendu sérfræðinefndinni, sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði, og þeirri skýrslu sem hún skilaði af sér komu fram mjög góðar og merkar ábendingar. Ég vil nefna tvær. Annars vegar þar sem talað var um að við þyrftum að leggja áherslu á þrjú meginsvið til framtíðar, þ.e. heilbrigðisgeirann og líta þá á hann mjög víðtækt, auðlindanýtinguna og þekkingu okkar á sviði nýtingar jarðvarma og jarðfræði, og síðan voru nefndar sérstaklega listgreinar. Því varð það mér mikið áfall að sjá að núna er verið að skera meira niður til raunvísinda en t.d. til viðskiptafræði en margir hafa einmitt bent á að það sé raunar offramboð á viðskiptafræðimenntun á Íslandi ef við horfum til framtíðar. Ég tel að við þurfum að taka þessar ábendingar mjög alvarlega.

Hins vegar vil ég líka taka undir að ákveðnu leyti ábendingar sem komu fram um sameiningar háskóla í þessari skýrslu. Ég tel að við þurfum að skoða það að fara í alla vega tvo til þrjá háskóla á Íslandi. Þá vil ég horfa til þess að það verði sérstakur opinber háskóli úti á landi, einn á höfuðborgarsvæðinu og síðan gætum við svo horft til sameiningar á einkareknu háskólunum. Samstarfsnetið eða samstarfið milli þessara skóla er ágætt svo langt sem það nær en ég tel að það komi að því að við þurfum að taka næstu skref. Ég er tilbúin til að koma að þeirri vinnu.



[15:51]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á málefnum háskólanna. Ég tel að það sé tímabært, við höfum gefið menntamálunum of lítinn gaum í umræðunni um endurreisn samfélagsins því að leiðin út úr kreppunni liggur ekki síst í gegnum menntunina.

Undanfarinn áratugur hefur einkennst af vaxandi samkeppni milli opinberu háskólanna og einkaskólanna hér á landi, sérstaklega Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Á niðurskurðartímum þurfum við hins vegar að skapa skilyrði fyrir nánari samvinnu skólanna og sú vinna er sem betur fer hafin. Það má t.d. spyrja sig: Hvers vegna skyldu nemendur í lögfræði eða viðskiptafræði ekki geta sótt námskeið bæði sjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, allt eftir áhugasviði og sérhæfingu hvers og eins? Ljóst er að gjaldtakan, skólagjöldin í Háskólanum í Reykjavík, eru þar ákveðinn þrándur í götu nánara samstarfs á þeim nótum. Kannski þurfum við að hefja umræðu um hvort rétt og eðlilegt sé að samræma gjaldtökuna í þessum tveimur skólum, t.d. þannig að í grunnnáminu séu engin skólagjöld en í meistara- og doktorsnámi verði tekin upp hófleg skólagjöld, sérstaklega í greinum þar sem sýnt þykir að framhaldsmenntun sé ávísun á hálaunastörf í framtíðinni. Kjarni málsins er þessi: Við þurfum að skipuleggja háskólana út frá þörfum nemendanna í landinu en ekki út frá hagsmunum þeirra stofnana sem hýsa starfið sem þar fer fram.

Virðulegi forseti. Við þurfum að hugsa háskólana í landinu sem samstarfsaðila en ekki keppinauta og því er stefnumörkun hæstv. menntamálaráðherra um samstarfsnet háskólanna afar mikilvæg. Við þurfum líka að þora að forgangsraða í ríkari mæli, tengja betur saman háskólastarf og nýsköpun, ekki síst á sviðum sem eiga mesta möguleika til vaxtar í samfélagi okkar. Tökum sem dæmi hugverkageirann á Íslandi, geiri sem skilar 21% af útflutningstekjum þjóðarinnar og skapar 8 til 9 þús. störf hér heima, en í þann geira vantar þúsund nýja starfsmenn á hverju ári til að uppfylla spurn eftir nýju vinnuafli. Þetta fólk liggur ekki á lausu á Íslandi. Við þurfum því að tryggja nægt framboð sérstaklega á verk- og tæknigreinanámi (Forseti hringir.) til að svara þessari eftirspurn stærsta vaxtargeira íslensks atvinnulífs eftir vinnuafli.



[15:53]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um háskóla. Það er þarft mál að ræða því að háskólasamfélagið ekki síður en aðrir geirar samfélagsins tók fullan þátt í þeirri firringu sem hér átti sér stað í aðdraganda hrunsins, alla vega sumar deildir þess. Í mínu tilviki, ég var nærri sjö ár við bandaríska háskóla og eftir að ég kom heim og horfi yfir þá akademísku flóru sem hér er get ég ekki annað er haldið áfram að hneykslast á því umhverfi sem íslenskt háskólaumhverfi er. Það eru sjö háskólar á Íslandi að mig minnir í 320 þús. manna samfélagi. Auðvitað er borðleggjandi að það þarf að sameina þessa háskóla og það þarf að koma meira skipulagi á háskólastarf.

Það sem ég hef horft upp á á þeim árum síðan ég kom heim er að hér hefur verið alveg botnlaus útþensla í meistaranámi á háskólastigi á fjölmörgum sviðum. Mig langar bara að lýsa því yfir að ég geld varhuga við þeirri þróun. Ég tel að hún sé óæskileg. Meistaranám, akademískt meistaranám skiptir miklu meira máli en svo að það sé endilega til á Íslandi. Heimskt er heimaalið barn, segir einhvers staðar. Eitt af því sem ég lærði og er eitt mitt besta veganesti eftir að hafa verið í námi erlendis er það að maður fær einfaldlega aðra sýn á heiminn og sitt heimaland við það að búa erlendis. Það er ómetanlegt að geta verið í námi, akademísku námi í erlendum háskólum. Það á ekki að vera stefna að þenja út og bjóða upp á fjölbreytt meistaranám á Íslandi, það ætti miklu frekar að vera stefna að skera niður meistaranám á Íslandi og reyna að senda sem flesta til náms erlendis. Þannig fáum við mjög fjölbreytta og mjög góða menntun aftur inn í landið, að vísu þurfa að vera til staðar störf fyrir þetta fólk. Þetta er stefnubreyting sem ég held að þurfi að taka alvarlega til athugunar með að breyta.



[15:55]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér málefni háskólanna. Ég þakka framsögumanni sem og ráðherra fyrir það innlegg sem þær komu með. Þessi málefni eru okkur afar mikilvæg og einkar mikilvæg nú þegar við horfum til endurreisnar og uppbyggingar íslensks samfélags.

Við hagræðingarkröfu í fjárlagafrumvarpinu eru bein framlög til háskóla lækkuð um 8% hjá opinberum háskólum, 9% hjá einkareknum háskólum og 5% hjá Listaháskólanum. Þessi niðurskurður háskólanna endurspeglast síðan í reiknilíkani þeirra og leiðir til þess að ódýrasti reiknilíkanaflokkurinn hækkar, þ.e. nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði og lögfræði og annað sambærilegt nám, en aðrir reikniflokkar lækka um 7–12% og þar verða raunvísindin, verk- og tæknigreinar afar illa úti. Ég tel að þessu þurfi að breyta vegna þess að við munum byggja á þeim greinum til framtíðar í endurreisn og uppbyggingu samfélagsins, við byggjum á tæknigreinunum, verkmenntuninni, heilbrigðisvísindunum og því sem við erum þegar góð í.

Hæstv. ráðherra hefur boðað endurskoðun á reiknilíkaninu, sem er gott og ég fagna því, en hún hefur jafnframt sagt að endurskoðun á reiknilíkaninu kunni að hafa áhrif á einstaka flokka en ekki heildarframlög til kennslu í hverjum skóla því að þar ráði háskólarnir för.

Við vitum að tæknigeirinn þarf miklu fleira fólk en við höfum hér. Þar sitja erlendir starfsmenn í stað okkar Íslendinga. Við þurfum að breyta þessu. Hugmyndin um verðmætasköpun á grunni þekkingar er afar dýrmæt þegar horft er til framtíðar og endurreisnar samfélagsins og atvinnulífsins í landinu. Þess vegna er fullt tilefni til að efla eftir megni nám í þeim greinum sem skila okkur mestu í uppbyggingu og endurreisn samfélagsins.

Frú forseti. Nú þarf djörfung og dug. Ég skora því á rektora háskólanna að hafa það í huga þegar þeir úthluta heildarframlögum til skólanna hvar þeir úthluta (Forseti hringir.) og hvert þeir úthluta.



[15:58]
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram.

Háskólar á Íslandi hafa lengi verið öflugir og þar er unnið mikið og gott starf. Á síðustu áratugum hefur námsframboð aukist verulega, einkareknum háskólum hefur verið hleypt á stokkana og samkeppni milli skólanna hefur aukist. Allt þetta hefur breytt umhverfi háskólasamfélagsins verulega. Það að nemendur geti sótt sér grunnnám í landinu skiptir miklu máli fyrir eyríki eins og Ísland en einnig er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að nemendur fari úr landi til að ná sér í framhaldsmenntun, víkki þar sjóndeildarhringinn og komi til baka með nýja reynslu í farteskinu okkur til framdráttar.

Það sem Alþingi verður fyrst og fremst að huga að á tímum sem þessum, frú forseti, er að tryggja að grunnnám sé fjölbreytt og gott og að við höfum tækifæri til að skila sterkum námsmönnum út í framhaldsnám. Það má ekki gerast að við missum út sértækt nám og glötum þar með þekkingu sem við höfum byggt upp í gegnum árin í gegnum rannsóknir og vinnu. Ég tel hins vegar mikilvægt að athugað verði hversu margar deildir með sama námsefni er nauðsynlegt að hafa hér. Er t.d. nauðsynlegt að hafa fjórar viðskiptafræðideildir eða þrjár lögfræðideildir á Íslandi?

Samkeppni er vissulega af hinu góða en þegar árferðið er eins og núna verðum við að horfa á heildarsamhengið. Ég tel mikilvægt að hafa tvær deildir í stærstu og vinsælustu deildum háskólasamfélagsins en í öðru má spara. Það er alltaf sárt að þurfa að skera niður en því miður eru þær aðstæður uppi núna og það er á ábyrgð okkar á Alþingi að takast á við þá staðreynd. Við verðum því að taka allar breytur með í reikninginn, ráðfæra okkur við háskólastofnanir landsins og vinna með þeim að heildarlausn sem er ásættanleg miðað við aðstæður fyrir alla, líkt og hæstv. menntamálaráðherra leggur sig fram um að gera.



[16:00]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og jafnframt þakka fyrir þá viðleitni sem sýnd er í fjárlagafrumvarpinu til stefnumörkunar á háskólasviðinu. Þá á ég einkum við hugmyndir um samstarfsnet háskóla. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að auka samstarf milli háskólanna og reyna að ná einhverjum samlegðaráhrifum, svo að ég noti tískuorð úr viðskiptalífinu. Ég held líka að það þurfi að ganga miklu lengra og tek undir þau sjónarmið sem hafa almennt komið fram í máli annarra ræðumanna hér um að fara þurfi í miklu róttækari stefnumörkun. Ég held að þetta sé svolítið djúpstætt vandamál á háskólasviði á Íslandi. Ég held að stefnumörkun á háskólasviðinu á Íslandi hafi eiginlega alltaf verið tilviljanakennd. Það sést kannski best á því að uppbygging Háskóla Íslands er reist á happdrætti. Ef ekki væri fyrir happdrættið veit ég ekki hvar Háskóli Íslands væri, satt að segja. Á undanförnum árum höfum við líka séð birtingarmynd þessa. Ég veit ekki hvenær var ákveðið að hafa svona marga háskóla á Íslandi, svona mörg háskólasetur, ég man ekki alveg hvenær sú ákvörðun var tekin en það er raunveruleikinn sem við búum við.

Núna finnst mér áríðandi að við tökum okkur taki, sem þjóð, vegna þess að sóknarfærin í menntamálunum eru gríðarleg. Hér hefur t.d. verið minnst á raungreinar, það vantar raungreinamenntað fólk til að standa að atvinnuuppbyggingu. Ef við mundum setja meiri pening í Tækniþróunarsjóð og efla raungreinamenntun hefðum við líklega eitthvert besta atvinnuuppbyggingartækifæri sem okkur byðist. Núna ríður vissulega á að fara í þetta erfiða niðurskurðarverkefni og marka stefnu á háskólasviði af þeirri róttækni sem þarf til að koma í veg fyrir að uppbygging háskólastofnana á Íslandi verði áfram tilviljanakennd eins og eitthvert happdrætti. Það held ég að sé stóra verkefnið.



[16:02]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf að standa vörð um menntun á öllum skólastigum, sérstaklega í núverandi efnahagsástandi. Við skulum ekki missa sjónar á því að samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar byggir á góðri menntun. Vitað er að eftirspurn í háskóla og framhaldsskóla eykst með auknu atvinnuleysi og nauðsynlegt er því að auðvelda fólki að fara aftur í nám til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði enn stærra félagslegt vandamál. Þegar hefur verið gripið til aðgerða í þá veru með því að breyta reglum um tekjuviðmið þeirra sem fara aftur í nám eftir hlé og með því að hækka grunnframfærslu námslána með tilheyrandi millifærslum frá atvinnuleysistryggingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Virðulegi forseti. Við þurfum að spyrja okkur hvernig háskólasamfélag við viljum og þurfum á að halda. Fjárveitingar hafa verið skornar niður og ef við klípum alltaf hlutfallslega jafnmikið af öllu mun kerfið veikjast en ef við setjum niður hvaða fræðasvið við þurfum að efla og hvaða möguleikar eru til samvinnu og verkaskiptingar og fylgjum þeim fast eftir styrkjum við kerfið.

Sameining háskóla og aukin samvinna milli þeirra á sér stað um þessar mundir í nágrannalöndum okkar. Hugmyndin er að styrkja háskólakerfið þar og það er einnig markmið okkar. Flækjunum við að ná því markmiði þarf að greiða úr, svo sem þeim sem tengjast mismunandi rekstrarformum. Styrkja þarf samstarf vísindamanna og fyrirtækja og hvetja til þess að góðar vísindarannsóknir skili sér til samfélagsins. Í því samstarfi þarf að gæta að siðareglum eins og annars staðar þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Samfélagslega ábyrgð allra háskóla þarf að efla og leggja áherslu á það hlutverk með lagasetningu um einkarekna háskóla eins og gert hefur verið um þá opinberu.

Ég tel að stór þáttur í endurreisn íslensks samfélags liggi í áherslu okkar á menntun og vísindi og hvernig okkur tekst að samhæfa þá krafta sem þar búa.



[16:04]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég vil gjarnan koma með nokkur innlegg til viðbótar við þessa umræðu. Eitt sem mikið hefur verið tæpt á eru skilin milli ríkisháskóla og einkarekinna háskóla og sú hugmyndafræði að menntun sé einhvers konar fjárfesting. Menntun hefur gildi í sjálfu sér, hver svo sem hún er. Enginn fjárfestir á fjármálamarkaði mundi nokkurn tíma fjárfesta í menntun vegna þess einfaldlega að arðurinn af henni er of óviss. Menntun ber því að virða sem slíka. Hvað varðar hugsanleg framtíðarlaun fyrir menntun þá eru þau algjörlega óljós.

Ég tel líka að gera þurfi skýrari skil milli svokallaðs akademísks náms og fagnáms. Ég tel ekki að endilega eigi að taka upp skólagjöld í síðarnefndu námi en þetta er að mörgu leyti tvennt ólíkt. Fagnám er að mun meira leyti einhvers konar starfsþjálfun fyrir framtíðarstörf. Þarna finnst mér að þurfi að skilja betur á milli því að á Íslandi er tiltölulega óljóst hver skilin eru.

Hér tæpti einn þingmaður á því að fyrst og fremst þyrfti að vera til staðar fjölbreytt grunnnám í háskólum. Það tel ég vera alveg rétt. Fjölbreytt grunnnám á háskólastigi á Íslandi er nauðsynlegt. Af því sem ég hef séð þegar íslenskir stúdentar úr Háskóla Íslands hafa farið til framhaldsnáms erlendis hefur þeim vegnað vel og þeir hafa verið eftirsóttir stúdentar og náð mjög góðum árangri. Þarna held ég að áherslurnar þurfi að liggja miklu frekar en í meistaranámi og öðru slíku þar sem „resúrsarnir“ eru ekki nægilega góðir.

Að endingu langar mig að tæpa á því sem er kannski grundvallaratriði en það er að á Íslandi er í sjálfu sér ekki til almennilegt akademískt bókasafn fyrir háskóla. Ef ég mætti ráða yrðu byggðar fimm eða sex sambærilegar hæðir ofan á Þjóðarbókhlöðuna (Forseti hringir.) og þær einfaldlega fylltar af bókum.



[16:06]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, mér finnst hún vera vísbending um að þingheimur vilji vinna saman að öllu þessu máli.

Til að leiðrétta ákveðinn misskilning: Já, það er rétt og við tökum öll undir að grunnháskólanám hefur verið eflt hér á landi, það er mun fjölbreyttara nú en áður. Meistaranámið hefur líka þurft að efla því að ekki komast allir Íslendingar utan í framhaldsnám. Það er rétt að draga fram að Íslendingar eru nú með langhæsta hlutfallið af nemum í útlöndum. Við erum til að mynda með 10% af okkar háskólanemum á erlendri grundu miðað við Dani t.d. sem eru með innan við 2%. Við höldum því áfram að senda fólkið okkar út af því að það ætlum við að gera.

Ég vil sérstaklega gefa menntamálaráðherra prik fyrir svör hennar og viðleitni til að efla allt háskólakerfið og líka ákveðnar áherslur sem hafa komið fram í gegnum fjárlagafrumvarpið í þá veru að efla háskólamálin í heild. Ég vil hins vegar hvetja hana til að halda þessum tón, þ.e. skilaboðunum sem koma héðan frá þinginu. Við öll, alveg örugglega í stjórninni en líka í stjórnarandstöðu, erum tilbúin í róttækar breytingar. Við erum tilbúin til að stíga nokkur skref í þá átt að tala um erfið og viðkvæm mál, t.d. gjöld á háskólastigi og hvernig við ætlum að efla gæðakröfurnar. Hvernig gerum við það? Eigum við að fara í takmarkanir á háskólastigi eða eigum við að fara aðrar leiðir?

Ég held að við, þingheimur, höfum tækifæri núna til að sýna að við getum alla vega í einhverju máli tekið höndum saman nokkuð ágreiningslaust til að efla íslenskt menntakerfi. Við vitum að ef við gerum það þá eflum við íslenskt samfélag.



[16:08]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka líka fyrir umræðuna. Hún hefði betur mátt vera tvöföld því að við hefðum getað sagt miklu meira um þessi mál. Ég vil nefna örfá atriði.

Við, hv. þingmenn, ræðum jafnvel róttækari stefnumörkun. Það má vel vera, ég held þó oft að góðir hlutir gerist hægt. Við verðum líka að átta okkur á því að við búum við ákveðið háskólasamfélag sem skiptir máli að taka tillit til. Allir þessir sjö háskólar, sem stundum er rætt um eins og þeir séu spegilmynd hver af öðrum, búa hver og einn að ákveðnu merkilegu starfi sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökum stefnumótandi ákvarðanir. Ég lít svo á að vissulega eigi þessi þróun eftir að halda áfram, henni er ekki lokið, en við þurfum að vanda okkur í hverju skrefi.

Það eru ýmis mál sem við gætum rætt betur. Hv. þm. Skúli Helgason ræddi um samræmda gjaldtöku. Ég get nefnt sem dæmi að í Svíþjóð hefur reglan verið sú að þeir skólar sem njóta opinbers stuðnings, einkareknir eða ríkisreknir, taka ekki skólagjöld, svo dæmi sé tekið. Það er skilyrði þar í landi. Þetta er kannski eitthvað sem þyrfti að ræða eins og bent hefur verið á og ég lýsi mig fúsa til samræðna við hv. menntamálanefnd um þá stefnumótun eða hvert fólk vill stefna.

Ég átta mig líka á því og tek undir þær áhyggjur sem hafa verið viðraðar af Háskóla Íslands sem við, þ.e. stjórnvöld, höfum auðvitað líka. Ég held líka að samfélagið allt leggi ríkar kröfur á að tekið verði við nemendum, ekki síst núna þegar atvinnuástand er slæmt. Staðreyndin er sú að háskólinn fær ekki greitt fyrir alla þessa nemendur, það eru u.þ.b. 1.100 nemendur sem ekki er greitt fyrir, og það er auðvitað áhyggjuefni. Höfum við forsendur til að bæta það að einhverju leyti eða mun háskólinn þurfa að taka upp einhver skilyrði eða takmarkanir, meiri en þær sem nú þegar eru? Þetta er spurning sem erfitt er að takast á við við núverandi efnahagsástand. Háskólarnir hafa tekið á sig mikinn niðurskurð og gera enn í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er von mín að hann muni ekki þurfa að verða meiri og helst hefði maður viljað sjá ákveðna hluti ósnerta þó að þeir fái lágan niðurskurð, (Forseti hringir.) eins og rannsóknarsjóðirnir. En ég vonast til að þessi stefnumörkun hjálpi skólunum að viðhalda starfi sínu þrátt fyrir þennan niðurskurð.