139. löggjafarþing — 15. fundur
 19. október 2010.
umræður utan dagskrár.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:10]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. sveitarstjórnarráðherra tækifærið til skoðanaskipta um þau mál sem eru nú á dagskrá. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað sé fram undan hjá íslenskum sveitarfélögum í dag. Hvaða veruleiki bíður þeirra?

Ef við skoðum fjárhagsstöðu þeirra eins og hún birtist okkur í fjárhagsáætlun þeirra fyrir þetta ár má gera ráð fyrir því að áætlun þeirra miði við að framlegð sveitarfélaganna verði um 10,6 milljarðar upp í vexti, afborganir og framkvæmdir sem má áætla að liggi nálægt rúmum 30 milljörðum kr.

Launaliðir í rekstri sveitarfélaganna nema um 52% tekna og annar kostnaður eru rúm 42%. Það byggir á áætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2010. Ég fullyrði að í mörgum tilfellum, sérstaklega hjá stærri sveitarfélögum, voru þær tiltölulega bjartsýnar.

Staða þeirra í dag er þannig að 12 sveitarfélög hafa fengið bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Af 76 sveitarfélögum eru 22 með skuldsetningu í A-hluta sem er yfir 150% af skatttekjum. 38 sveitarfélög af 76 voru með taprekstur í reikningum sínum í A-hluta árið 2009. Það er engin furða þótt hæstv. ráðherra sé spurður um hvaða veruleiki og viðfangsefni hann telji að bíði íslenskra sveitarfélaga á árinu 2011. Eins og allt stefnir í gera sveitarfélögin ráð fyrir 8 milljarða tekjufalli hér um bil í rekstri sínum á næsta ári. Þær upplýsingar komu fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í síðustu viku.

Þá er ekkert annað fram undan en áframhaldandi hallarekstur, að menn fari að skuldsetja sveitarfélögin til þess að halda úti rekstrinum eða að skera mjög grimmt niður.

Í því ástandi sem nú er gerir maður kröfu til þess að opinber stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, hafi með sér mikið og öflugt samráð með hvaða hætti eigi að takast á við þann veruleika þannig að sé hægt að hafa einhverja stjórn á því hvernig þær óhjákvæmilegu breytingar sem eiga eftir að verða á grunnþjónustu sveitarfélaga muni eiga sér stað. Það gengur ekki, eins og virðist vera lagt upp með er samráðið um þessi mál sé lítið sem ekkert.

Vissulega hefur farið fram á undanförnum missirum mótun ákveðinna verklagsreglna um fjármál sveitarfélaga. Sumum hættir til að segja að það sé gert til þess að koma böndum á slæma, óábyrga stjórn sveitarfélaga í landinu. Það er algjör misskilningur. Vinnan við setningu fjármálareglnanna hófst ekki fyrr en Samband íslenskra sveitarfélaga beitti sér fyrir því að sú vinna hæfist og þá með aðstoð fulltrúa frá hinum illræmda Alþjóðagjaldeyrissjóði.

Öguð og formföst fjármálastjórn ríkis og sveitarfélaga er auðvitað markmiðið í þessum efnum.

Til þess að sveitarfélögin ráði við verkefni sín er frumforsendan sú að ríkið gangi á undan með gott fordæmi og sýni það verklag af sér að hægt sé að treysta á það sem þar er gert.

Ég vil nefna undir lok ræðu minnar tillögur sem sveitarfélögin hafa lagt fram við litlar sem engar undirtektir. Allt frá því í nóvember árið 2009 hafa sveitarfélögin varpað upp mögulegum breytingum á tímabundnum frávikum frá lögum og reglum til að létta af þeim þeirri pressu sem þau standa undir í þessum efnum. Það er ekki gert til þess að fækka eða draga úr þjónustu heldur til þess að gera sveitarfélögunum kleift að hagræða með öðrum hætti en lög segja fyrir um í dag. Það snertir 28. gr. grunnskólalaga og 26. gr. sömu laga sem ég geri ráð fyrir að ráðherra sveitarstjórnarmála sé fullkunnugt um. Á sama tíma og sveitarfélögin fá ekkert svar frestar ríkisvaldið gildistöku framhaldsskólalaga og lætur þar með annað ganga yfir sjálft sig en sveitarfélögin. Það er ekki spurning um að sveitarfélögin þurfi að skera niður en þau reikna hins vegar ekki með því að íbúarnir þurfi að nálgast heimaþjónustu eða grunnskóla með því að stíga upp í flugvél eða þyrlu.

Ég spyr hæstv. sveitarstjórnarmálaráðherra hvort hann ætli sér að fljóta sofandi að feigðarósi eða taka stöðu með þeim (Forseti hringir.) ágætu sveitarstjórnarmönnum sem standa í því verkefni sem nánast virðist óviðráðanlegt um þessar mundir.



[16:16]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hvað er fram undan? spyr hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég þakka honum sérstaklega fyrir að hefja þessa umræðu. Það sama blasir náttúrlega við hjá okkur öllum, íslenska samfélaginu, að við stöndum frammi fyrir efnahagserfiðleikum. Það á við um ríkissjóð og það á við um sveitarsjóðina, allflesta, þótt ekki sé rétt að setja öll sveitarfélögin undir sama hatt hvað þetta snertir. Öll eiga þau í erfiðleikum en mismiklum þó. Ekki er alveg sanngjarnt að tala um samráðsleysi vegna þess að það sem vakti mest athygli mína við að koma inn á þennan vettvang sem ráðherra sveitarstjórnarmála er hve kröftugt samstarf ríkir um flesta málaflokka. Við erum t.d. að taka á málum sem lúta að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaganna, síðan eru öll fjárhagsleg samskipti sveitarfélaga og ríkis einnig í endurskoðun þar sem m.a. er vikið að þeim þáttum sem hv. þingmaður bendir réttilega á, að skuldbindingar ríkisins í lögum og samningum sem það gerir hefur vissulega áhrif á fjárhagsútlát sveitarfélaganna. Þetta þarf að komast í betri farveg. Um það eru menn sammála.

En hvað vakir fyrir ríkinu í þessum samskiptum? Jú, það er að halda eins vel utan um sveitarfélögin frá okkar hlið og við eigum kost á. Ég vil nefna þar t.d. flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Það er búið svo um hnútana við þennan flutning að ekki minni upphæð, svipuð eða ívið meiri upphæð en fer í þennan málaflokk nú hjá ríkinu fylgir með yfir til sveitarfélaganna, auk þess sem gert er ráð fyrir tímabundinni einskiptisupphæð til að kosta þennan flutning. Það má færa rök fyrir því að það hefði verið ódýrara fyrir ríkið að halda málaflokknum hjá ríkinu en að færa hann yfir. Það er hins vegar mat allra aðila sem koma að þessum málum eða allflestra að þeim sé betur borgið hjá sveitarfélögum en hjá ríkinu, að þjónustan við fatlaða verði betri fyrir bragðið og þess vegna er ráðist í þessar breytingar.

Ýmsir þættir hafa verið til umræðu á vettvangi sveitarfélaganna. Ég nefni þar sérstaklega tryggingagjaldið sem var hækkað í tengslum við síðustu kjarasamninga, var fyrir ekki svo ýkja löngu 5,34%, fór upp í 7% og síðan 8,6%. Sveitarfélögin hafa óskað eftir því að ríkið haldi sig við það þak sem sett var í 7 prósentustigum en munurinn á milli 7% og 8,65% er um 1.400 millj. kr. Af hálfu fjármálaráðuneytisins var hins vegar alltaf bent á það að þetta væri tímabundin aðgerð. Sama gildir í reyndinni um aðra upphæð sem sveitarfélögin hafa óskað eftir umræðu um, þ.e. sérstakt gjald í jöfnunarsjóð. Það hefur verið við lýði allar götur frá 1999 og endurskoðað á hverju ári. Núna, við fjárhagserfiðleika ríkissjóðs, eru áhöld um hvernig haldið verði á málum en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir á sameiginlegum fundi með sveitarfélögunum að þessu máli hafi ekki enn verið lokað.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna og hefur verið til umræðu hjá sveitarfélögunum er húsaleigubætur. Þar er vandinn mikill, einfaldlega vegna þess að fólk er að fara úr séreignarhúsnæði yfir á leigumarkað. Það kallar á aukin útgjöld þar.

Talað hefur verið um að ríkið sé að draga úr þessu framlagi en staðreyndin er sú að ríkið mun standa við sinn hlut, 60% greiðsla í almennar húsaleigubætur. Út af standa þá sérstakar húsaleigubætur, það er nokkuð sem við eigum í vandræðum með. Ég vek hér athygli á þeim þáttum sem sveitarfélögin og fulltrúar þeirra hafa efnt til umræðu um á sameiginlegum vettvangi okkar að undanförnu, en öll þessi mál eru að sjálfsögðu í skoðun.

Ég mun víkja síðar að þeim þáttum sem hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um áðan og lúta að skólunum.



[16:21]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að vekja athygli á þessu því að það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi sveitarfélaganna í allri umsýslu á Íslandi og mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög eigi mjög náið og gott samstarf. Í fyrri ræðu minni hér ætla ég að einbeita mér að því.

Það er mjög mikilvægt að samskipti milli ríkis og sveitarfélaga séu með formlegum hætti, séu í einhvers konar farvegi þar sem ekki þarf að efast um hvernig á málum verði tekið þegar þessir stóru leikendur í okkar þjóðlífi og okkar samfélagi þurfa að tala saman. Svo virðist sem undanfarin ár og reyndar enn í dag sé þetta frekar tilviljanakennt að menn komi saman og tali saman þegar á þarf að halda, þegar eitthvað kemur upp á.

Við þekkjum öll eða flest hér umræðuna um tekjustofna og tekjustofnanefnd. Ég held að slíkt sé búið að vera í gangi frá því hreinlega ég man eftir sveitarstjórnarmálum, að menn séu að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er eflaust mjög gott að slík vinna sé stanslaust í gangi. Hins vegar verður ferillinn að vera formlegur. Þar er ég að vísa m.a. til þess að þegar ríkið tekur upp á því og við hér á Alþingi, herra forseti, að setja lög og framkvæmdarvaldið að setja reglugerðir sem eru íþyngjandi fyrir sveitarfélögin á vitanlega ekki að vera hægt að gera slíkt nema að viðhöfðu mjög viðamiklu og nánu samráði, þannig að það komi ekki sveitarstjórnarmönnum og íbúum sveitarfélaganna á óvart þegar slíkt er gert.

Því ber vissulega að fagna að nú hafi náðst samkomulag um hvaða fjármunir eigi að fylgja málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna en ekki er síður mikilvægt að sveitarfélögin fái í raun tryggingu eða einhvers konar skjól fyrir lögum og reglum sem ríkið getur sett í kjölfarið, það er mjög mikilvægt. Að minnsta kosti þurfa að koma fyrirheit um (Forseti hringir.) hvernig staðið verði að breytingum á þeim lögum sem þarna eiga við og reglugerðum.



[16:24]
Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög þarft að taka þessi mál um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna til umræðu hér í aðdraganda fjárlagagerðar. Það er ekki þannig sem við blasir í dag hjá okkur að það sé eingöngu hjá ríkinu sem fjárhagurinn er þröngur og erfið mál að takast á við, heldur er sá veruleiki nákvæmlega sá sami hjá sveitarfélögunum.

Ég verð að segja það, háttvirtu þingmenn, að það hefur í raun og veru vakið undrun mína og aðdáun og þeirra sem fylgst hafa með hversu vel sveitarfélögunum almennt í kringum landið hefur tekist að halda uppi allri grunnþjónustu og sinni starfsemi við þær þröngu aðstæður sem menn hafa þurft að búa við eftir efnahagshrunið haustið 2008. En það eru líka skýr skilaboðin sem hafa komið, m.a. frá fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku, að það sé komið að þanþolum. Það er búið að skera inn að beini og sveitarfélögin horfa fram á það núna að fjárhagsáætlanagerð fyrir komandi ár verður sú erfiðasta sem menn hafa horfst í augu við svo lengi sem menn muna.

Hér var vikið að fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þau hafa verið með ýmsum hætti í gegnum tíðina. Menn hafa náð saman núna um að setja niður ákveðið regluverk í samráði, fjármálareglur, og eru að landa þeirri vinnu. Í þeim atriðum skiptir ekki síst máli, eins og hér hefur verið bent á, að það samstarf virki í báðar áttir. Ekki er eingöngu hægt að horfa á skyldur og ábyrgð sveitarfélaganna heldur verður þá auðvitað líka svo að vera hvað snýr að ríkinu í þeim efnum.

Tekjustofnanefnd er að ljúka störfum sínum á næstu dögum og ljóst er að þar verður ekki stórt svigrúm til mikilla áfanga í fjárhagsstöðu fyrir sveitarfélögin. Það eru þrjú lykilmál sem skipta máli og verður að horfa til í uppgjöri núna fyrir næstu fjárhagsáætlun. Það er að tryggja húsaleigubótakerfið þar sem er einn okkar viðkvæmasti hópur. Það verður að tryggja áfram aukaframlag í jöfnunarsjóðinn og horfa sérstaklega til þeirra sveitarfélaga sem eru í þrengingum. Og varðandi tryggingagjaldið sem hæstv. ráðherra minntist á áðan, það (Forseti hringir.) er í raun og veru aukaskattur á sveitarfélögin ef fella á niður þá niðurgreiðslu sem hefur komið á það aukaálag til sveitarfélaganna.



[16:26]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að Alþingi Íslendinga hefði betur tekið sér til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð hjá sveitarstjórnarmönnum um land allt. Strax í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 tóku sveitarstjórnarmenn sig saman, hvort heldur sem var minni hluti eða meiri hluti, og réðust í það verkefni sem fram undan var eftir efnahagshrunið. Menn fóru í mjög harðar aðgerðir til að bregðast við áhrifum hrunsins og strax á árunum 2008 og 2009 skáru sveitarfélögin verulega niður.

Hvað gerist svo, virðulegi forseti? Á árinu 2009, með bandorminum 1. júní, hrifsar ríkið til sín alla hagræðingu sveitarfélaganna með einu pennastriki. Í lok árs 2009 er síðan enn hækkað tryggingagjaldið. Þá aftur á móti greiddi ríkið til baka þær 1.200 millj. sem áætlað var að sú hækkun gerði en reyndin er hins vegar 1.400 millj.

Síðan er búið að samþykkja lög, þau voru afgreidd hér í desember sl., sem þýddu aukaútgjöld upp á rúmar 400 milljónir fyrir sveitarfélögin. Samt sem áður er samningur um það að kostnaðarreikna frumvörp áður en þau eru lögð fram og samþykkt á Alþingi. Þetta var samt gert. Í einu vetfangi er ríkið búið að hrifsa til sín marga milljarða frá sveitarfélögunum með skattheimtu eins og hv. þingmaður og síðasti ræðumaður benti hér á.

Ég tel fullvíst að hæstv. samgönguráðherra geri sér grein fyrir því í ljósi stöðu fjölskyldnanna í landinu að það er ekki mikið svigrúm fyrir sveitarfélögin til að hækka álögurnar, það blasir eiginlega við öllum. Þá er bara eitt til ráða. Nú verða ríkisvaldið og sveitarfélögin að taka höndum saman og horfast í augu við vandann. Við eigum að taka til að mynda sveitarfélögin og ríkisvaldið í Danmörku okkur til fyrirmyndar þar sem stjórnvöld eru einmitt að vinna að því með sveitarfélögunum að létta af þeim byrðum til að þau geti sinnt þeirri grunnþjónustu sem þeim ber skylda til að veita.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Það hefur komið fram hjá sveitarstjórnarmönnum sem hafa fundað með fjárlaganefnd undanfarna daga að verði ekki leiðrétting á seinni hækkun á tryggingagjaldinu og jöfnunarsjóðsframlaginu munu mörg sveitarfélög ekki geta framkvæmt neitt á næsta ári og sum þeirra ekki geta sinnt lögboðnum skyldum. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að gera (Forseti hringir.) eitthvað í málunum en ekki bara tala um það.



[16:29]
Jórunn Einarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Menn fara hér mikinn. En ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að hefja umræðu um þetta mál. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessari umræðu á lofti í þinginu og ég hvet hv. þingmenn til þess að gera það reglulega í framtíðinni.

Ég óttast að umræðan geti hæglega snúist upp í andhverfu sína þar sem við förum að takast á um hlutverk og lögbundnar skyldur sveitarfélaga og ríkis og ég tel það ekki vænlega leið til árangurs. Við erum ein þjóð, við erum öll á sama báti og aðgerðir verða að miðast við það.

Eins og fram minnst var á í umræðunni hér á undan kom það fram á fundi nýkjörinnar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku að auknar byrðar á sveitarfélögin verða mörgum sveitarfélögum um megn, og á því leikur enginn vafi. En þrátt fyrir mikinn bölmóð og umræður um fjárlagafrumvarpið og þau neikvæðu áhrif sem það mun jafnvel hafa í för með sér, ef það verður samþykkt óbreytt, langar mig svona í lokin að minna á að það er mikill undirliggjandi kraftur og baráttuandi víðs vegar um landið. Það er vilji til aukins samstarfs á milli landshluta og einnig á milli einstakra sveitarfélaga, það er vöxtur á ýmsum sviðum og sérstaklega í ferðaþjónustunni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að efla samráð ríkis og sveitarfélaga enn frekar. Ég hvet því til þess að boðað verði sem allra fyrst til samráðsfundar þess sem gert er ráð fyrir í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og undirritaður var 2. apríl 2008, en slíkur fundur var síðast haldinn í september 2009.



[16:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða. Það er ánægjulegt og mikilvægt að það skuli hafa komið fram hversu vel sveitarfélögin hafa staðið sig frá því að efnahagsáföllin dundu yfir. Það er mikilvægt að ríkisvaldið geri sér grein fyrir því að þau tóku strax á sínum málum og gera það enn. Eins og fram kom hefðum við betur tekið öðruvísi á málum í þessum sal.

Við megum heldur ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa sjaldan gegnt jafnmikilvægu hlutverki til þess að láta samfélagið ganga og það gerir í dag. Þá á ég bæði við atvinnulega og félagslega. Við þekkjum mörg hver lagaskylduna sem hvílir á sveitarfélögunum varðandi félagsþjónustu þeirra auk annarra þjónustu. Þessi verkefni fara ekki frá sveitarfélögunum þegar kreppir að, þau aukast frekar en hitt. Því er mikilvægt að sveitarfélögunum sé veitt það svigrúm sem þau telja sig þurfa til þess að geta áfram veitt þessa mikilvægu þjónustu.

Þá kem ég að því sem ég vildi benda hæstv. ráðherra á. Við hljótum að þurfa að taka til skoðunar á Alþingi hvort við þurfum að veita sveitarfélögunum í gegnum lagasetningu eða með öðrum hætti, hugsanlega er nóg að gera það í gegnum reglugerðir í ráðuneytum, svigrúm til þess að breyta þjónustunni. Ég nefni sem dæmi hið sívinsæla grunnskólamál. Það þarf að breyta því með einhverjum hætti til þess að þau geti brugðist við. Við verðum að svara því hvort við erum til í að fara þessa leið. Það getur verið að það borgi sig fyrir samfélagið að stytta grunnskólann um einhverja daga til þess að sveitarfélögin spari kostnað. Við vitum líka að það hefur áhrif á þá sem þar starfa. Á endanum getur það orðið niðurstaða sem allir geta sætt sig við til þess að sveitarfélögin geti haldið þjónustunni sem fólkið gerir kröfu um.



[16:33]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sveitarfélög landsins hafa skyldur samkvæmt lögum og bera ábyrgð á stórum hluta opinberrar þjónustu. Til þess hafa þau alla burði svo ekki sé talað um ef þau kæmu sér saman um frekari sameiningar svo til verði stjórnsýslulega og efnahagslega sterkar einingar eða sjálfsagðar landfræðilegar sameiningar eins og hér á höfuðborgarsvæðinu.

Sveitarfélögin í landinu hafa fengið sinn skerf af efnahagslegum hamförum eins og heimilin og ríkið. Geta þeirra til að reka nærþjónustuna sem er á þeirra verksviði hefur minnkað fjárhagslega þó að ég viti að þau gera allt sem í þeirra valdi er til að varðveita gæði þjónustunnar. Það er eðlileg þróun að sveitarfélögin taki að sér fleiri verkefni sem teljast til nærþjónustu eins og nú er að gerast með málefni fatlaðra. Vonandi styttist í að málefni aldraðra flytjist einnig yfir til sveitarfélaganna.

Það er algjört grundvallaratriði að með verkefnum fylgi viðeigandi tekjustofnar til að standa undir þjónustunni. Því miður hefur það oft gerst að verkefni, stór og smá, hafa verið flutt yfir til sveitarfélaganna án nákvæmrar kostnaðargreiningar og án þess að tekjur séu tryggðar eða markaðar til verkefnisins.

Ríkið hefur eftirlitsskyldu með fjármálum sveitarfélaganna sem er hið besta mál. Það verður að segjast að við skýrslulestur frá Ríkisendurskoðun um ýmsar stofnanir og málasvið finnst manni stundum að það væri gott fyrir ríkið að líta sér nær og fylgjast náið með stofnunum sínum og hinu stjórnsýslustiginu. Það þarf að ríkja traust og jafnræði milli ríkis og og sveitarfélaga til að þau geti unnið saman að hag þegna sinna.

Mér finnst mikilvægt að sveitarfélögin fái eðlilega tekjustofna til að geta staðið undir skyldum sínum án hálfgerðra ölmusuframlaga frá stóra bróður. Ekki er hægt að sjá fyrir hversu há þau verða næsta árið. Sveitarfélögin gera alvörufjárhagsáætlanir til þriggja ára sem unnar eru út frá stefnumótun þeirra og starfsáætlunum. Kannski gæti ríkið farið í læri til sveitarfélaganna í þeim vinnubrögðum.



[16:35]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Til Danmerkur má sækja ýmislegt, m.a. fyrirmyndir að verklagi og samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þar er löng hefð fyrir því að þessi tvö stjórnsýslustig vinni þétt og náið saman, m.a. að niðurskurðartillögum og þar eru tímabundið felld niður ýmis skylduverkefni sveitarfélaga.

Undir lok umræðunnar, sem ég þakka fyrir að hafi átt sér stað — menn heyra að það er ýmislegt sem alþingismenn með reynslu af sveitarstjórnarstiginu hafa til málanna að leggja — vil ég leyfa mér að vitna til orða formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í ræðu sem hann flutti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Í trausti þess að menn taki undir þessi orð vænti ég að hæstv. ráðherra svari spurningunni sem ég varpaði fram í ræðu minni við opnun umræðunnar. Spurningin kemur fram í orðum formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með leyfi forseta:

„Við eigum að vinna saman, ríki og sveitarfélög, til að geta tekist á við ástandið. Það er ekki ásættanlegt að ríkið hirði alla skattana, færi tekjustofna frá sveitarfélögum til sín, lækki rekstrarkostnað hjá sér með laga- og reglugerðarbreytingum eða með því að fresta ýmsum ákvæðum laga og reglugerða er snúa að rekstri á vegum ríkisins og vilji svo ekki vinna með sveitarfélögunum að lækkun rekstrarkostnaðar. Við gerum þá kröfu að brugðist verði við endurteknum beiðnum sambandsins um að taka upp alvörusamstarf á þessum grundvelli.“

Sérstaklega vil ég, með leyfi forseta, vitna til erindanna sem sambandið hefur sent til menntamálaráðuneytisins um tímabundnar heimildir til þess að hliðra til lögum og reglugerðum sem gilda um grunnskólann.



[16:37]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, ég tek þessi orð alvarlega og líka það sem ég hef áður sagt að menn verði að vera sanngjarnir í málflutningi.

Við upphaf umræðunnar hóf ég ræðu mína á því að vísa í fyrirhugaðan flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þar er búið svo um hnútana að málaflokknum eru búin betri fjárhagsleg skilyrði hjá sveitarfélögunum með framlagi ríkisins en ef málaflokkurinn hefði verið áfram hjá ríkinu. Það er ósanngjarnt að orða það svo að ríkið hirði skatta og setji einvörðungu álögur, kvaðir og byrðar á sveitarfélögin. Þannig er það ekki. Við lítum á samfélagið, hvort sem það er ríkið eða sveitarfélögin, sem eina heild eins og hv. þm. Jórunn Einarsdóttir vék að í sínum málflutningi. Ég mun verða við því, sem m.a. hún hefur óskað eftir, sveitarfélögin og hv. málshefjandi, að boðað verði til formlegs samráðsfundar með sveitarfélögunum hið fyrsta þar sem tekin verða upp málin sem hér var vikið að. Þar er talað um málefni grunnskólans og skólakerfisins og breytingar á lögum og reglugerðum eða samningum þar að lútandi. Þetta er flókið mál eins og við þekkjum öll. Þau snerta kjarasamninga eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur vikið að. En það er sjálfsagt að ræða alla þessa þætti.

Hvað varðar sveitarfélögin og aðkomu þeirra að þessum málum og viðbrögðum þeirra við kreppunni var það svo að í síðustu viku var kynnt á vettvangi Evrópuráðsins hvernig sveitarfélögin og ríkið í sameiningu hefðu brugðist við, m.a. með smíði (Forseti hringir.) sérstaks regluverks, sem lítur senn dagsins ljós, hvernig eigi að haga fjárhag sveitarfélaganna. Það vakti athygli og hlaut lofsyrði. (Forseti hringir.) Ég endurtek, hæstv. forseti, og ágætt að forsetinn sem nú stendur hlýði á það, (Forseti hringir.) að á undanförnum missirum hefur samstarf sveitarfélaganna og ríkisins verið fært í góðan farveg.