139. löggjafarþing — 15. fundur
 19. október 2010.
þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður, 1. umræða.
frv. MÁ og VBj, 24. mál (afnám sérstakra álagsgreiðslna). — Þskj. 24.

[16:47]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flytur ásamt mér. Það telst vera um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, sem síðan hefur verið breytt.

Frumvarpið er mjög einfalt, tvær greinar, önnur er gildisgrein og hin er um það að tiltekinn hluti í 3. gr. laganna, sem um er rætt, falli brott. Það er sá hluti þar sem kveðið er á um sérstakar álagsgreiðslur til formanna þingnefnda og formanna þingflokka.

Að þessu frumvarpi samþykktu verða störf alþingismanna lögð að jöfnu hvað þingfararkaup varðar hvar sem þau eru unnin og hvernig sem þau eru unnin í samræmi við meginreglur lýðræðisskipunar. Þá á ég við það að þegar kjósendur hafa valið fulltrúa sína á þing sé jafnræði með þeim fulltrúum, hvað sem þeir heita, hvernig sem þeir eru á litinn, í hvaða röð sem þeir hafa verið kjörnir og án tillits til annarra þátta af því tagi. Undantekningar verða ræddar hér í lok ræðunnar.

Rök að baki þessum greiðslum eru vandfundin nema svona á tali við menn. Ég held að ekki sé neinn ritaður rökstuðning fyrir þessu, ég hef að minnsta kosti ekki fundið hann, en það sem menn nefna er auðvitað það að þetta sé svona eins og í samfélaginu, það sé þóknun fyrir sérstakar skyldur í þingstörfum, menn þurfi að gefa þessu góðan tíma og þetta sé ábyrgð og þeir þurfi að fylgjast með o.s.frv. Allt er það í sjálfu sér rétt. Formennska í þingnefnd eða þingflokki er ábyrgðarmikið starf og annasamt. Menn gera auðvitað margt annað á meðan en þeir þurfa að gæta að, þeir fá aldrei frí úr þessu starfi sínu. Það má nú segja um starf þingmannsins yfir höfuð að það er út af fyrir sig ekki frí jafnvel þó að menn telji sig vera í fríi, menn verða að fylgjast með og eru aldrei alveg lausir.

Um þessi störf, formennsku í þingnefnd og þingflokki, verður ekki annað séð en jafnframt þessum skyldum og þessari ábyrgð felist í slíku starfi þau áhrif og þau völd sem flestir alþingismenn, og væntanlega allir, sækjast eftir fyrir sjálfa sig, en þó einkum fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Það er að minnsta kosti ekki líklegt að ásókn minnki mjög í þessi störf þó að þessar álagsgreiðslur yrðu afnumdar. Það væri að minnsta kosti tilraun sem vert væri að gera og athuga hvað út úr henni kæmi. Það mætti þá setja álagið á aftur ef skortur verður á framboðum í þessi störf og væri þetta þing þá alveg einstakt, bæði í sögunni og í heiminum, um þau efni. Þetta er grunnástæðan fyrir því að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flytjum þetta frumvarp, jafnræði þingmanna — prinsipp sem við viljum að sé í heiðri haft.

Önnur ástæða er algjörlega augljós. Hún er sú að við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi eigum við að spara. Við eigum að skera niður alla fitu eins og sagt er og ef þetta er ekki fita á líkama Alþingis veit ég ekki alveg hvað fita er. Okkur telst til að upphæðin, ég hef nú ekki farið í að kanna það nákvæmlega, enda er hún ekki alveg jöfn á hverjum tíma fyrir sig, gæti árlega verið, þessara álagsgreiðslna til um 16 þingmanna, um það bil 15 millj. kr. á ári. Það þykir nú ekki mikið hjá mönnum sem ætla að rústa fjárlagafrumvörpum eða byggja upp samfélag. Þetta eru þó kannski laun tveggja starfsmanna þingsins eða annarra og menn kunna að hafa um það val hér á þinginu, hvort þeir vilja frekar leggja niður þetta álag eða segja upp tveimur starfsmönnum þessarar góðu stofnunar.

Það er rétt að geta þess, ég hef kvartað yfir því að ekki væru til nein rök á prenti eða í riti um þetta álag, að frumvarpið sem varð að þeim lögum þar sem þessu var komið á frá 1995 — þetta er sem sé 15 ára — varð að lögum á rétt rúmum þremur tímum. Það var lagt fram klukkan 22 mínútur yfir 5 hinn 15. júní — takið eftir því 15. júní, þegar sumarþingi er að ljúka, fyrsta þingi eftir kosningar — og þrjár umræður voru teknar um það frá þessum tíma, 22 mínútur yfir 5 til rúmlega hálfníu, til klukkan 20.38. Þar tala nú ekki margir og þeir tala aðallega um annað en álagið þeir sem þarna tala, það var auðvitað fleira í þessu frumvarpi. Það fylgdi sem sé engin rökstuðningur þessari tillögu, hvorki í nefndarálitinu né í framsöguræðu nefndarformannsins, sem þá var ágætur maður og ábyrgðarmikill í samfélaginu, Vilhjálmur Egilsson. Aðrir þingmenn gerðu það ekki heldur. Af því það er gaman að sögu má minnast á að þessi lög komu líka við sögu hins fræga lífeyrisfrumvarps árið 2004. Með í þeim pakka var það að hækka átti þetta álag úr 15% í 20%, en þessu lífeyrisfrumvarpi var svona dauflega tekið, skulum við orða það kurteislega, og í nefnd var þetta eitt af því sem var gert, það var sumsé lækkað aftur úr 20 í 15%.

Ég sagði áðan að ég ætlaði í lokin að fjalla um aðrar undantekningar á jafnræði í þingfararkaupi hér á þinginu og er rétt að gera það. Ég hef verið spurður um það líka. Það er spurningin um varaforsetana. Þeir hafa líka álag, sem er 15%. Ég hygg að það hljóti að koma til greina, þegar forsætisnefnd fer yfir það hvað Alþingi þarf að leggja fram til fjárhagslegrar ögunar í samfélaginu, að hún skoði þetta líka, en í prinsipphugsun okkar greinum við þarna á milli varaforsetanna annars vegar og formanna þingnefnda og þingflokka hins vegar, vegna þess að þótt varaforsetastarfinu fylgi bæði traust og virðing er það ekki með sama hætti valda- eða áhrifastaða og formaður þingflokks og nefnda, hér er um að ræða fasta viðveru á tímum sem ekki henta endilega þingmennsku þeirra sem í þessu standa og því teljum við að öðru máli gegni um það og leggjum ekki til að það álag verði afnumið.

Önnur undantekning — þær eru auðvitað til. Það er forseti og ráðherrar, ég tel að það varði okkur ekki hér. Það eru formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu, líka leifar frá lífeyrisfrumvarpinu 2004. Þó að ákvæði um það sé í sömu greininni teljum við að nokkuð öðru máli gegni um það, hvað sem menn vilja um það segja, því það fjallar í raun ekki um laun þingmanna eða störf þeirra heldur um stuðning hins opinbera við stjórnmálaflokka sem er ekki okkar málefni hér.

Ég lýk hér ræðu minni, forseti, og geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu gangi málið til allsherjarnefndar.



[16:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hv. þingmenn leggja fram er eitthvert mesta lýðskrum og popúlismi sem ég hef séð frá því að ég fór að fylgjast með störfum Alþingis. Það er með ólíkindum að hv. þingmenn skuli nota sér það ástand sem er í samfélaginu til að slá sig til riddara með hætti sem þessum. Ekki nóg með að þeir séu að setja sjálfa sig mjög langt niður, að mínu viti, heldur eru þeir einnig að gera mjög lítið úr því starfi sem fer fram á Alþingi. Þeir eru einnig að gera lítið úr störfum þeirra þingmanna sem gegna formennsku í nefndum á Alþingi. Það er með ólíkindum að þingmenn sjálfir skuli ekki hafa skilning á því út á hvað það starf gengur hér í þinginu. Það er mjög sérstakt. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður mundi þá vilja upplýsa okkur um hver hann telur að laun þingmanna og kjör eigi að vera. Hver eiga þau að vera að hans mati? Hvað er réttlátt kaup og kjör fyrir starf þingmanns?

Hann lýsti því ágætlega hér áðan sjálfur að þetta væri 24 tíma vinna sjö daga vikunnar. Fyrir þá sem eru nefndarformenn, eða taka að sér önnur trúnaðarstörf, er þetta enn meiri vinna. Hvað vill hv. þingmaður greiða fyrir slíkt? Ég held hann þurfi að svara þessu. Það getur vel verið, eins og hefur kannski komið fram einhvers staðar, að staða hans sé slík að hann líti á starf þingmanna sem eins konar þegnskylduvinnu. Það getur vel verið að það sé þannig. Það á hann bara að segja það hreint út.

Þetta er dæmi um lýðskrum og popúlisma af verstu sort.



[16:57]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá, 18 barna faðir í Álfheimum, og hef þó aldrei séð svona stóran gaur í svo lítilli grýtu og vissi ekki að ég ætti eftir að upplifa það hér á þingævi minni að vera kallaður popúlisti af hálfu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Um laun alþingismanna er það að segja að ég er prýðilega sáttur við þau laun sem við höfum nú þegar, tel að þau séu nokkuð hæfileg. Ég held að alþingismenn eigi að vera það vel launaðir að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhag sínum. Auðvitað fer það eftir því hvað menn lifa hátt, en ég held þeir eigi líka ekki að vera svo vel launaðir að þeir færist mjög frá meðallaunum eða miðlínulaunum umbjóðenda sinna og geti skilið það fólk sem hér er fyrir utan og er t.d. í vandræðum núna.

Þetta frumvarp fjallar ekki um laun þingmanna, það fjallar um að þeir hafi jöfn laun, það er jafnræði þingmanna sem hér er verið að tala um og ekki laun þeirra sjálfra.



[16:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að það er ekki algjört jafnræði meðal þingmanna. Til dæmis eru formenn nefnda oft og tíðum að vinna töluvert meira starf en aðrir þingmenn stöðu sinnar og ábyrgðar vegna.

Það er ekki heil brú í þessu frumvarpi, herra forseti. Þetta er lýðskrum og popúlismi.



[16:59]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það þykir siðaðra manna háttur að færa rök fyrir skoðunum sínum og ályktunum á annarra manna viðhorfum og þeim tíðindum sem gerast í kringum þá. Ég harma það að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skuli ekki hafa tamið sér þau vinnubrögð.

Það er hins vegar um starf þingmannsins að segja að það er jafnmikið og hann vill sjálfur. Þingmaður getur í sjálfu sér komist upp með það, eða stundað það, að gera nánast ekki neitt. Ef hann er kjörinn og þykist sjálfur hafa umboð kjósenda sinna til að gera ekki neitt þá gerir hann ekki neitt. (GBS: Talar hver fyrir sig.) Það er ósköp einfalt.

Það sem almennilegur þingmaður reynir að gera er það að hann vinnur í hag sínu málefni, sínum kjósendum. (BJJ: Það gera allir.) Við skulum vona að þeir geri það einmitt allir og menn taka sér þá þann tíma til þess sem þeir vilja. Þegar menn eru kosnir í trúnaðarstöður af því tagi sem við erum að tala um fylgja því aukin áhrif og aukin völd. Þau geta verið takmörkuð við ákveðið svið, en það velur maðurinn sjálfur eða félagar hans velja hann til þess. En það eru aukin völd og aukin áhrif sem hann nær þá fyrir hönd kjósenda sinna og síns málefnis. Það sem aðrir gera er auðvitað að þeir vinna þá væntanlega meira á öðrum stöðum. Maður sem hefur ekki verið í miklum skylduönnum hér á þinginu hefur meiri tíma til að tala við kjósendur sína eða undirbúa mál fyrir sjálfan sig eða fyrir þann þingflokk, sem hann tilheyrir eða fyrir þá sem hann mælir fyrir hér á þinginu. Það er því ekki um það að ræða að hægt sé að segja að sumir vinni mikið og aðrir lítið vegna þess að þeir sinni ekki skyldustörfum. Það getur alveg verið öfugt og ég get nefnt dæmi um það ef þingmaðurinn fer fram á það en ég vildi frekar vilja gera það utan þingsalar.



[17:01]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að starf alþingismannsins sé einstakt. Það er öðruvísi en öll önnur störf. Alþingismaðurinn er að hluta til einyrki en samt starfar hann í hóp. Umbjóðendurnir eru kjósendur. Við bjóðum okkur fram fyrir stjórnmálaflokka. Við höfum stefnumál að verja en við höfum misjafnar áherslur. Það getum við ákveðið hvert fyrir sig.

Allir eru jafnir þegar þeir koma til þings hvort sem þingmenn hafa verið hér í 20 ár eða eru nýkjörnir, þeir eru jafnir þegar þeir koma til þings. Ég veit það svo sem alveg að þeir sem hafa verið hér lengi finnst hinir bölvaðir … afsakið, virðulegi forseti, miklir græningjar. Og reynsla sem ekki er fengin í þessu húsi þykir mjög lítilsverð. (BJJ: Þetta er mikil alhæfing.) Þetta er mikil alhæfing en þetta er samt sem áður satt. Ég veit að það á ekki við um alla þingmenn. Ég veit að það er misjafnt, en það er nú svona sem það blasir við sextugri kellingu sem sest á þing. Sú reynsla sem ekki er aflað í þessum sölum eða í sveitarstjórnum þykir mjög fábrotin almennt og yfirleitt. Ég veit að hv. þm. Birki Jóni er öðruvísi farið, enda er hann til fyrirmyndar fólki í þessu húsi og á að vera öllum til fyrirmyndar. [Hlátur í þingsal.]

Það er einmitt þess vegna, vegna jafnræðis, vegna þeirra skyldna sem við berum öll, hvort heldur við sitjum sem formenn nefnda eða formenn þingflokka sem mín skoðun er sú að kaupið eigi að vera jafnt.

Þeir sem eru formenn þingflokka hafa mun meiri áhrif en þeir óbreyttu, eins og svo skemmtilega er sagt um þingmenn sem ekki eru ráðherrar eða formenn þingflokka, þeir eru óbreyttir. Hinir hafa mun meiri áhrif. Þeir hafa mun meiri möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri og til að, afsakið forseti, „víla og díla“.

Síðan er það mjög ábyrgðarmikið starf að vera formaður nefnda. En það er einmitt það sem við gerum á Alþingi, við sækjumst eftir ábyrgð, annars værum við ekki hér nema vegna þess að við sækjumst eftir ábyrgð. En að borga eigi sérstaklega meira fyrir þá sem hafa meiri ábyrgð og geta haldið utan um málin og stýrt þeim samræmist ekki því sem mér finnst eiga að vera hér á þingi.

Hv. þm. Mörður Árnason talaði um forseta og þá sem sitja á forsetastóli, það er sérstakt virðingarembætti. Það er mikið amstur að koma fyrir þingstörfum, enda kannski ekki mjög þægilegum hópi fólks að stýra, þannig að við höfum látið það liggja milli hluta, í bili alla vega, að gera tillögu um að það fólk sé á sama kaupi og við hin.

Ráðherrar hafa auðvitað hærra kaup en við viljum þá líka út af þingi. [Hlátur í þingsal.] Þeir eiga ekki að sitja hér nema þegar þeir færa fram mál sín og þeir eiga að gegna störfum sínum í Stjórnarráðinu okkur og þjóðinni til heilla. Þeir eiga að gera það sem við segjum þeim að gera vegna þess að það erum við sem ráðum.

Ég vil frábiðja mér að þetta sé kallað lýðskrum. (GBS: Þetta er ekkert annað.) Ég endurtek: Ég vil frábiðja mér að þetta sé kallað lýðskrum. Ég hef í þessum efnum aðra skoðun en hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Það er ekki lýðskrum. Það er bara önnur skoðun. (GBS: Popúlismi.) Það er önnur skoðun.

Þá ætla ég að koma að stjórnarandstöðunni.

Stjórnarandstaðan gegnir gífurlega mikilvægu hlutverki á Alþingi. Eins og málum er háttað í dag á enginn úr stjórnarandstöðunni kost á því að fá þessi 15% í viðbót eða hvað það er, nema þeir sem sitja á forsetastóli. (GBS: Af hverju þá …? …) (Gripið fram í: Þingflokksformenn.) — Og þingflokksformenn, já, fyrirgefið, ég biðst afsökunar á því, forseti, ég átti náttúrulega við þá sem gegna formennsku í nefndum. Þeir eiga það ekki núna, en kannski einhvern tímann seinna, það má vel vera. Mér skilst að lagt hafi verið fram frumvarp til kynningar á því að því yrði breytt. Það má huga að því.

Ég er stolt af því að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Ég hugsaði oft um þetta í fyrravetur og er ánægð með að hér kom maður sem dreif í að leggja frumvarpið fram.



[17:08]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Sú umræða sem hér er um Alþingi og störf alþingismanna finnst mér ekki gefa raunsanna mynd af þeim störfum sem hér fara fram. Þegar menn tala um virðingu þingsins, hvers vegna hún er svo lítil sem raun ber vitni, er það kannski vegna þess hvernig við tölum um þetta starf á þinginu.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað um að hér séu menn að „víla og díla“ í bakherbergjum, að nefndarformenn hafi miklu meira um hlutina að segja og þar fram eftir götunum, að starfið hér einkennist af einhverju baktjaldamakki. Ég er í stjórnarandstöðu og er þar af leiðandi ekki formaður í neinni nefnd. Ég er ekki í forsætisnefnd en ég skil ekki hvernig hv. þingmenn geta sagt að það að vera forseti eða varaforseti þingsins sé eitthvað miklu virðulegra og mikilvægara en að stýra stórum nefndum eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, fjárlaganefnd eða efnahags- og skattanefnd, og gera þannig upp á milli þeirra starfa sem við vinnum hér.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem lögðu þetta mál fram hafa ekki komið með sannfærandi rök fyrir því hvers vegna slá eigi aukagreiðslu sumra embætta í þinginu af en annarra ekki, vegna þess að það að vera varaforseti þingsins er svo svakalega virðingarvert. Ég velti því fyrir mér þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir í hinu orðinu að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi og hv. þm. Mörður Árnason nefnir það svo að menn eigi að spara og að þetta frumvarp sé gert til þess, að þá auki menn útgjöld ríkissjóðs með því að taka ráðherra af þingi. Við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessari umræðu.

Ég fer fram á að við tölum um þetta starf, sem á að vera eitt það virðingarverðasta í íslensku samfélagi, þannig að fólk geti borið virðingu fyrir Alþingi Íslendinga.



[17:10]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Birki Jóni. Ég tel það, enda hóf ég mál mitt á því að segja að þetta væri einstakt starf.

Ég baðst nú afsökunar á því, virðulegi forseti, að ég notaði orð eins og „víla og díla“ í ræðustól, það þýðir ekki að verið sé að tala um baktjaldamakk eða svoleiðis. Þetta er orðfæri sem notað er um þá sem eru í forustu og hafa meiri völd. Þeir hafa meiri áhrif. Það er staðreynd.

Af því að ég notaði eins konar götustelpumál í því sambandi í ræðustól Alþingis get ég ekki annað, virðulegi forseti, en beðist afsökunar á því. Ég vona að hv. þm. Birkir Jón skilji hvað ég á við.

Ég vil líka segja að ég ber mikla virðingu fyrir þessu starfi, mjög mikla. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi nefndarformanna. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi þingmanna í stjórnarandstöðunni. Ég er bara þeirrar skoðunar að við eigum öll að fá fyrir það sama kaup.



[17:12]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn á að nota fullt nafn þegar þeir tala um aðra hv. þingmenn.



[17:12]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í rökstuðningi hv. þingmanna að vegna þess hversu gríðarlega mikil virðingarstaða það væri að sitja á þingforsetastóli og þar með væru þeir aðilar sem þar sætu mun virðulegri en aðrir alþingismenn, ættu þeir að vera á hærri launum en aðrir. Það væri líka gríðarleg viðvera fyrir varaforseta þingsins að sitja þingfundi. Ég fullyrði að það er mun meira vinnuálag á nefndarformönnum Alþingis. Þeir þurfa að vera í sambandi við ráðuneytin og alls konar hagsmunasamtök í samfélaginu. Þeir þurfa líka að semja við stjórnarandstöðuna um mörg mál. Það er gríðarlegt vinnuálag. Ég var formaður í þingmannanefndum í ein þrjú ár og tel mig vita nokkuð um hversu gríðarlega mikið vinnuálag fylgir því.

Í öðru lagi vil ég nefna það, af því hv. þingmenn tala um ráðherra sem hér sitja, hvort við ættum þá ekki að halda áfram: Eiga þeir þá ekki að vera á nákvæmlega sömu launum? Ég er ekki stuðningsmaður þess en ráðherrar eru með fullt af starfsmönnum. Þeir eru með bílstjóra, aðstoðarmenn, ritara og með miklu meiri þjónustu en almennir þingmenn.

Ég spyr enn og aftur: Fyrst hv. þingmenn leggja þetta fram — ég tek það fram að ég er ekki sammála þessu frumvarpi — hvers vegna í ósköpunum ætla þeir þá að gera upp á milli þingmanna hér, þ.e. þeirra sem sitja á stóli forseta og annarra þingmanna? Og ef það á að vera einhver mesta valdastaða þingsins að vera einn af varaforsetum þingsins þá er það einfaldlega ekki svo.

Ég kem hér upp í fullri vinsemd og ég vona að þetta mál fái málefnalega umfjöllun í nefnd, en ég tek það fram að ég er ekki stuðningsmaður þess sem hér er lagt til því að ég veit hversu gríðarlegt vinnuálag er á fólki sem er í forustu fyrir nefndir þingsins. Við þurfum líka að gæta orða okkar hér, hvernig við tölum um það starf sem við gegnum, því að annars mun virðing Alþingis (Forseti hringir.) ekki aukast á næstunni.



[17:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem vonandi verður, að málið fái málefnalega afgreiðslu í þingnefnd. Ég get alveg hugsað mér að þingnefndin fjalli um hvort færa eigi varaforseta þingsins til sama vegar og lagt er til varðandi formenn nefnda og formenn þingflokka í þessu. Það hlýtur að vera málefnaleg umræða sem er einmitt það sem mér finnst eiga að fara fram í þessu máli sem og öllum öðrum í þinginu, að við tökum mál til málefnalegrar umræðu í nefndum.

Svo erum við ýmist sammála eða ósammála og á endanum ræður vægi atkvæða þar um. Væntanlega berum við jafnmikla virðingu hvert fyrir öðru á undan og eftir þó að við séum ekki á sama máli og látum kannski vera að kalla hvert annað nöfnum af því við erum ekki á sömu skoðun.



[17:15]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér er á ferðinni, finnst mér, afar athyglisvert frumvarp. Ég sé bæði rök með og á móti því. Ég vil ekki kallað það lýðskrum og ég vil ekki kalla það popúlisma þótt við séum ekki öll sammála. Það eru vissulega sjónarmið á báða bóga.

Ég er í grunninn sammála þeirri hugmynd að jafnræði eigi að ríkja meðal þingmanna og að þingmenn eigi allir að vera á sömu launum. Ég vil líka vekja athygli á því að þetta er kannski aðeins flóknara. Þeir sem eru kosnir í landsbyggðarkjördæmunum fá aukagreiðslur þannig að í raun eru laun þeirra hærri en hinna sem eiga kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu. (BJJ: Kostnaður líka.) En á móti kemur kostnaður sem þarf að taka tillit til. Og þau störf sem um ræðir, akkúrat í þessu frumvarpi, þ.e. annars vegar þingflokksformennska og formennska í nefndum, fela e.t.v. í sér aukið álag. Ég held að formennska í þingnefndum vegi þyngra, alla vega þeim þingnefndum þar sem flókin mál eru tekin fyrir. Ég held að formennska í þingnefndum, alla vega þeim nefndum sem ég á sæti í, sé mismikið starf, allt frá því að vera frekar auðvelt starf eða fela ekki í sér miklu meira álag út í að fela í sér alveg gríðarlegt álag þar sem mikið er um að vera. Að öðrum nefndum ólöstuðum er t.d. mjög mikið álag í viðskiptanefnd, bæði á formanni og öðrum þingmönnum sem þar eiga sæti.

Það er eitt sem ég sakna að tekið sé á í þessu frumvarpi. Það er að þeir þingmenn sem eru formenn stjórnmálaflokka, en ekki ráðherrar, skuli fá 50% álag á þingfararkaupið. Ég er mjög ósammála því. Þegar ég var formaður í stjórnmálaafli sem heitir Hreyfingin, frá því í september í fyrra til loka september nú í ár, afþakkaði ég þetta álag. Mér fannst ekki rétt að þiggja það. Það að vera formaður í stjórnmálaflokki er gríðarlega mikið starf og mikilvægt. Það er hins vegar ekki unnið fyrir Alþingi Íslendinga. Það er unnið fyrir frjáls félagasamtök úti í bæ sem heita stjórnmálaflokkar. Ef einhver á að greiða formönnum stjórnmálaflokka fyrir að vera formenn ættu það að vera stjórnmálaflokkarnir sjálfir. Þeir fá sko nóga peninga á fjárlögum ríkisins til þess.

Í Hreyfingunni, eða þinghóp Borgarahreyfingarinnar þar á undan, var tekin ákvörðun um að af þakka ekki álag á þingfararkaup þingflokksformanns. Við höfðum reyndar mjög litla hugmynd um hvernig starfið færi fram en við töldum að um væri að ræða meiri ábyrgð sem krefðist meiri viðveru en væri lagt á hina í hópnum. Þess skal getið að í okkar þinghóp lítum við ekki á starf þingflokksformanns sem eitthvert sérstakt valdaembætti; við erum með flatan strúktúr, það eru allir jafnjafnir, ef svo má að orði komast. Við lítum frekar á það starf sem einhvers konar þjónustustarf og það krefst aukinnar viðveru á álagstímum. Við tökum heldur ekki mikinn þátt í að „víla og díla“ þannig að starfinu fylgja ekki mikil völd.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram, að það að vera þingmaður sé mjög sérstakt starf. Manni hefur fundist fólk leggja mismikið á sig. Ef telja ætti klukkutímana og skrá í eitthvert verkbókhald held ég að sumir þingmenn mundu fá mun meira kaup en aðrir. En fyrst svo er ekki hallast ég að því að þingmenn eigi allir að fá sama kaup.



[17:21]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í grunninn sammála Merði Árnasyni um að laun eigi ekki að vera meginástæða þess að menn sækist eftir þingmennsku. Launin eiga að vera hæfilega há og peningar eiga ekki að laða menn á þing. Það eiga að vera hugsjónir og vilji til að vinna fyrir samfélagið.

Þetta frumvarp hefur eflaust sína galla ásamt kostunum, en það er alla vega skemmtilegt. Þetta er ágætisvettvangur til að ræða almennt um kjör og laun manna í landinu.

Það fylgja því örugglega áhrif að vera formaður þingflokks. Ég verð að segja fyrir mig að ég vil að menn sækist eftir því vegna þeirra áhrifa en ekki vegna þess að þeir fái örlitla launauppbót.

Það sem rak mig sérstaklega hingað upp var þetta sífellda jarm um virðingu Alþingis. Virðing — við verðum að standa undir virðingunni — virðingin og virðingin. Ég horfi oft á alþingisrásina í sjónvarpinu og þar er þetta sífellda tal um virðingu okkar, þetta háa Alþingi. Ég vil að alþingismenn fari að tala um hið lága Alþingi og þá ekki í þeirri merkingu að hér fari fram einhver lágkúra heldur sé þingið á sama plani og þjóðfélagið almennt.

Mér finnst þetta dálítið skemmtilegt frumvarp. Hvort sem það verður samþykkt eða ekki er umræðan mjög þörf.



[17:22]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Í máli hv. þingmanns og þingflokksformanns, Gunnars Braga Sveinssonar, var tekið undir það sjónarmið sem annar flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Mörður Árnason, sagði, að þingmannsstarf væri fullt starf og meira en það, að það tæki 24 tíma á sólarhring sjö daga í viku. Ég skil ekki hvaðan þingflokksformenn eða nefndarformenn fá meiri tíma en 24 tíma á sólarhring sjö daga í viku, þá tíma eða 15% meiri tíma eiga þeir að fá borgað fyrir. Ég næ því ekki alveg ef talað er um þetta í beinhörðum peningum.

Ég lít á þessa tillögu sem hér er flutt sem mjög merkilegt og jákvætt skref inn í nútímann til móts við þann jöfnuð sem samfélag okkar þarfnast og krefst. Mér finnst launastrúktúrinn á Alþingi vera gamaldags og mér finnst hann mótast af einhverjum furðulegum ójafnaðarsjónarmiðum sem hann nær meira að segja ekki að endurspegla.

Hv. þingmaður Margrét Tryggvadóttir benti svo réttilega á það áðan að sá mismunur á umfangi starfs sem formaður þingnefndar gegnir endurspeglast ekki í þessum 15%. Það eru ákveðnar þingnefndir sem funda sjaldan og krefjast tiltölulega lítillar vinnu. Sé miðað við aðrar nefndir, eins og t.d. fjárlaganefnd sem fundar mjög oft og lengi, hafa formenn nefndanna sama álag. Sama gildir um þá sem veljast til þingflokksformennsku, sumir eru formenn í þriggja manna þingflokki, sem maður skyldi ætla að væri tiltölulega einfalt að hemja, og aðrir eru formenn (MÁ: Betra en fjögurra.) í þingflokkum … já, já, þriggja manna flokkur er auðveldari en fjögurra manna, [Hlátur í þingsal.] það er engum blöðum um það að fletta. Ef ég hækka töluna frá fjórum og er kominn upp í 16 eða 20 þingmenn er starfið náttúrlega orðið ærið. Má af því ráða að þessi 15% slumpur á vinnuálag er algjörlega óraunhæfur, endurspeglar engan raunveruleika.

Ef við förum í eftirspurn eftir störfum þarf venjulega að borga meira fyrir störf sem eru óvinsæl og þykja óþrifaleg og erfið o.s.frv. Ef enginn vill vinna þau þarf augljóslega að borga meira fyrir þau. Það er ekki svo um þessi störf. Ég hygg að án nokkurs álags væri mjög auðvelt að manna þessi störf á þinginu vegna þess að fólk hefur einfaldlega áhuga á því að taka þau að sér.

Ég ætla ekki að fara út í hvernig þessi störf eru mönnuð, þ.e. hvort þau eru eingöngu mönnuð eftir því að akkúrat þessi manneskja henti sem formaður í þessari nefnd sem er vonandi aðalviðmiðið. Annað viðmið er að í pólitík og þingmennsku tíðkast ákveðin goggunarröð. Formenn stjórnmálaflokka hafa meiri tilhneigingu til að halda fram því fólki til embætta sem fylgir þeim af mikilli tryggð og trúmennsku. Þannig er lífið einfaldlega. Ég hef ekkert út á það að setja. Lífið er bara svona, en þá borgarðu aukalega fyrir það.

Af hverju skyldum við á þessu litla þingi hafa slíkt kerfi að tíu eða tólf úr hópnum fái 50% álag fyrir að vera ráðherrar með einkabílstjóra og litla viðveruskyldu í þinginu og gífurleg áhrif sem við öll sækjumst eftir? Ég efast um að nokkur þingmaður hér mundi slá hendinni á móti ráðherraembætti. Þá eru komnir tíu, eftir eru 53. Síðan koma formenn nefnda, þeir eru níu. Ég held að allir hér mundu glaðir taka að sér formennsku í nefndum án þess að aukagjald kæmi fyrir. Þá eru komnir 29 af þessum 63. Það eru formenn þingflokka. Þeir eru fimm. Sama gildir um það. Ég hygg að flestir, ábyggilega ekki allir, en flestir mundu gjarnan vilja njóta þess trausts að vera formenn í sínum þingflokki.

Mér er það algerlega óskiljanlegt af hverju menn eru á móti því að auka jöfnuð á þinginu, nema náttúrlega þeir sem hafa þá lífsskoðun að jöfnuður sé tóm vitleysa og til bölvunar og það verði að ríkja miskunnarlaus samkeppni milli fólks og út úr þeirri samkeppni spretti einhver skapandi eldur sem sé samfélaginu nauðsynlegur. Það er skoðun sem sumir hafa. Ég virði þá skoðun fullkomlega, en ég hef hana ekki. Ég held að jöfnuður sé mikilvægasta framfaraskref sem við í íslensku þjóðfélagi getum stigið.

Ég ætla að benda á að nýlega kom út bók skrifuð af tveimur faraldursfræðingum. Þessi bók hefur komið miklu róti á hugarheim manna, einkum og sér í lagi stjórnmálamanna. Bókin heitir á ensku The spirit Level og hefur ekki verið þýdd enn þá. Í stuttu máli sagt gerðu þessir faraldursfræðingar úttekt á 23 þjóðfélögum að 50 ríkustu þjóðfélögum heims. Niðurstaðan var sú að þegar þjóðfélag er komið á það stig að geta talist ríkt þjóðfélag fer velferð þegnanna, sem sagt heilsufar, menntun og aðrir slíkir grundvallarþættir, ekki eftir því að auknum fjármunum sé varið til einstakra málaflokka heldur fer hún eftir því að ákveðinn tekjujöfnuður ríki í þjóðfélaginu. Því meiri tekjujöfnuður, því betra. Merkileg tíðindi. Mjög merkileg tíðindi og sanna loksins það sem jafnaðarmenn, ef einhverjir slíkir eru hér, hafa haldið fram áratugum saman án þess að geta sannað það, að jöfnuður sé góður fyrir heildina.

Þetta frumvarp lýtur að jöfnuði. Ég tel að okkur, það eru fleiri en mig sem dreymir um aukinn jöfnuð í íslensku samfélagi, finnist vel við hæfi að sá jöfnuður komi að ofan, þ.e. ef Alþingi er enn þá toppurinn á íslensku stjórnkerfi þá færi vel á því að jöfnuðurinn byrjaði þar og héldi áfram niður eftir öllum stigum þjóðfélagsins.

Ég fagna þessu frumvarpi. Mér finnst það ekki ganga nógu langt, en ég styð það í þeirri mynd sem það er núna sem fyrsta skref á braut okkar til aukins jöfnuðar í íslensku þjóðfélagi.



[17:33]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það jákvæða sem ég sé við þetta frumvarp er að það kallar á umræðu um eðli þess starfa sem við gegnum hér. Ég get því miður ekki tekið undir með hv. þingmanni Þráni Bertelssyni þó að það feli í sér jöfnuð. Ég sé engan jöfnuð í því að allir fái það sama fyrir mjög misjafnt vinnuframlag. Mér finnst satt að segja menn í þessari umræðu vera fulluppteknir af hugtökunum áhrif og völd því ég lít svo á að áhrif og völd séu samlegðaráhrif meiri hluta í nefndum og störfum þingsins. Formennska í nefndum er í mínum huga miklu frekar trúnaðarstarf sem þingmenn taka að sér fyrir þingið, fyrir löggjafarsamkomuna, ákveðið verkstjórnarhlutverk sem þeir taka að sér. Því fylgir náttúrlega umtalsverður vinnuauki og ég dreg ekki í efa að menn lýsi því rétt. Það hefur reyndar verið reynsla mín þann tíma sem ég hef verið formaður í nefnd að því fylgir umtalsvert vinnuálag.

Ég sé ekki alveg sanngirnina í því að láta menn gjalda áhuga síns á að taka að sér slík störf, því ef ég á að velja á milli þess að launa manni starf sem hefur áhuga á því eða öðrum sem ekki hefur áhuga, mundi ég frekar vilja velja þann mann til starfans sem hefur áhuga og forustuhæfileika.

Ég sé ekkert að því að umbuna fólki fyrir vel unnin störf eða aukið vinnuálag. Ég bið menn líka að velta fyrir sér anda kjarasamninga og þeirra áherslna sem lagðar eru af stéttarfélögum eða erum við svo sérstök og sér á báti og upphafin hér, alþingismenn, að við getum ekki lotið sömu lögmálum og sömu áherslum og gilda á almennum vinnumarkaði um verkaskiptingu og misjafnt vinnuálag og misjafna ábyrgð sem er lögð mönnum á herðar gegn launum. 15% álag á nefndarformennsku er ekki (Forseti hringir.) hátt álag.



[17:35]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu andsvari kom fram sjónarmið sem ég átti alveg von á að kæmi fram, það að sumir vinni meira en aðrir og eigi því að fá meira borgað en aðrir. Við því sjónarmiði er ekkert að segja, nema bara það að ég hef þá skoðun að þingmenn eru ekki kosnir af almenningi inn á þing til að verða þingflokksformenn, ráðherrar, formenn í nefndum eða eitthvað svoleiðis. Það er verkaskipting innan þingsins. Það er enginn skyldugur til að taka að sér þá vinnu nema sá sem sækist eftir henni.

Að borga það aukalega finnst mér bara ekki vera jöfnuður. Við Gunnar Bragi Sveinsson erum sammála um að þingmennska sé starf sem er 24 tímar á sólarhring sjö daga í viku, að vísu sef ég líka svona sjö, átta tíma og svo borða ég stundum svo það dragast þarna frá nokkrir tímar sem ég gæti þá væntanlega eytt í nefndarformennsku eða eitthvað svoleiðis ef því væri að skipta.

Ég hafna því að það sé hægt að mæla starf þingmannsins til launa með því hvort menn eru formenn í einhverri nefnd eða formenn í þingflokki. Við erum þingmenn. Við höfum umboð frá þjóðinni til að bæta þetta samfélag okkar. Við gerum það ekki betra þótt við fáum 15% álag á þingfararkaup.



[17:37]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni að menn sinna sínu starfi mjög misvel á þessum vettvangi. Það er auðvitað erfitt að ætla að mæla misgóða frammistöðu manna til launa en það er ekki það sem ég er að tala um. Ég er að tala um eitthvað sem við köllum ábyrgð og álag. Við köllum hér ákveðinn hluta þingheims til ríkari ábyrgðar eða verkstjórnarábyrgðar getum við sagt. Ég sé í prinsippinu ekkert athugavert við það að virða fólki það til launa, vegna þess að þar með er náttúrlega líka lögð ákveðin áhersla á það eða gerð ákveðin krafa um það að menn rísi vel undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin, þeim trúnaði sem þeim er falinn.

Jöfnuður í mínum huga er nefnilega ekki það að allir fái það sama undir öllum kringumstæðum. Það er ekki þannig. Jöfnuður er miklu frekar það að menn uppskeri á einhvern hátt í samræmi við vinnuframlag og það sem þeir leggja af mörkum.

Auðvitað er þetta mjög viðkvæm og erfið umræða. Það er erfitt að ætla mönnum að fara í slíkan mannjöfnuð á þessum vettvangi. Eins og ég sagði áðan held ég að kosturinn við þetta frumvarp sé fyrst og fremst sá að það vekur okkur öll til umhugsunar um eðli þeirra starfa sem við gegnum og þá ábyrgð sem fylgir þeim störfum sem við gegnum hér. Það er gott.

Ég vona að þetta fái málefnalega og góða umræðu í allsherjarnefnd og síðan skynsamlegar lyktir í atkvæðagreiðslu í þinginu, hverjar sem þær verða.



[17:39]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekkert frekar um það að segja sem hv. þingmaður Ólína Þorvarðardóttir hefur fram að færa sem sína skoðun á þessu máli. Það er grundvallarágreiningur milli mín og hv. þingmanns um það að annars vegar virðist hún skilja jöfnuð sem að allir fái nákvæmlega það sama. (ÓÞ: Nei.) Þú varst að segja það. (ÓÞ: Ég …) Jöfnuður í mínum huga er allt annar hlutur en að allir eigi að vera nákvæmlega jafnir. Ég held að allir þingmenn eigi að vera nákvæmlega jafnir. Ég held það. Ég held ekki að þingmenn eigi að hafa sama kaup og skurðlæknar, flugmenn, bændur eða hvað sem er. Ég held að allir þingmenn eigi að fá sama kaup fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi. Svo einfalt er það.

Ég hef heldur ekkert að athuga við þá skoðun að aukna ábyrgð eigi að meta til fjár. Ég hafna því að meta alla skapaða hluti til fjár. Ég fyrir mitt leyti sækist eftir aukinni ábyrgð hér á þingi, ég sækist eftir auknum áhrifum og með því að koma einhverju góðu til leiðar fæ ég mína greiðslu. Ég þarf ekki þessi 15%. Við skulum ekki meta allt til fjár.



[17:41]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill minna hv. þingmann á að ávarpa forseta en ekki þingmenn úti í sal.



[17:41]Útbýting:

[17:42]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að ég vona að þessi umræða verði til þess að draga athyglina að því máli sem hér er um að ræða, þ.e. starfsumhverfinu og öðru slíku. Það hefur hins vegar verið bent á ýmsa þætti í þessari umræðu sem hljóta að koma til skoðunar þegar mál sem þetta er lagt fram. Það breytir því hins vegar ekki, frú forseti, að það að leggja þetta mál fram núna er að mínu viti popúlismi og lýðskrum. Það er verið að draga athyglina frá þeim vandamálum sem ríkisstjórnin er á flótta undan og því kjósa þessir hv. þingmenn væntanlega að leggja þetta mál fram núna. Það er mitt mat á þessu.

Einn hv. þingmaður sagði áðan að launin ættu ekki að vera grunnur þess að fólk gefi sig fram í þetta starf. Ég ímynda mér — og nú ætla ég að segja orð sem má ekki segja í ræðustól, en það getur varla verið að miðað við starfsumhverfi og kjör alþingismanna sé nokkur maður að sækjast eftir laununum hér. Það er í rauninni bara alveg galið. Ég trúi ekki að nokkur sé að því. Umhverfi það sem okkur er útvegað hér eða okkur er ætlað að starfa í, hvort sem það er þjónusta þingsins, þá er ég ekki að tala um starfsfólkið, það er frábært starfsfólk sem vinnur hér í þinginu — en það hvernig framkvæmdarvaldið hefur dregið til sín aflið frá þinginu er vitanlega með ólíkindum og það kemur niður á störfum okkar að einhverju leyti.

En að segja það að formenn nefnda, stórra nefnda t.d., séu ekki að leggja neitt meira af mörkum heldur en — nú nota ég orðið sem hv. þingmaður notaði áðan sem er reyndar ekki gott orð — óbreyttir þingmenn. Í sjálfu sér erum við öll jöfn og eigum að sjálfsögðu að vera það, en sum okkar taka á sig aukaábyrgð eða aukavinnu eða eitthvað slíkt, aukaviðveru, og fyrir það finnst mér eðlilegt að greiða.

Ég get sagt við hv. þingmenn og verið heiðarlegur og hreinskilinn í því: Ég sæi ekki eftir laununum eða titlinum sem ég ber sem formaður þingflokks ef ég gæti verið aðeins meira með fjölskyldu minni. En vegna þess að ég gegni þessu starfi er ég með meiri viðveru hér margir aðrir. Ég finn til ákveðinnar ábyrgðar á því að vera hér og gera ákveðna hluti. Ég er alveg til í að fórna því og þessum þúsundköllum eða tíuþúsundköllum sem ég fæ fyrir það ef ég get verið meira með fjölskyldu minni. Ég er alveg til í það, (MÁ: Að launin komi í staðinn fyrir fjölskylduna?) það er ekki vandamálið. Veistu það, frú forseti, að það sem hv. þingmaður er að grípa hér fram í með er honum alveg til skammar. Hann er held ég, já, algjörlega til skammar eins og hans málflutningur allur í þessu máli.

Það að koma fram með þetta hér á þessum punkti þegar við erum að tala um að við þurfum að bjarga eða reyna að koma fjölskyldum í skjól, og hv. þingmenn hafa lítið lagt til þeirra mála vil ég meina, þá koma menn með svona frumvarp til að slá sig til riddara í augum þeirra sem um sárt eiga að binda.

Við skulum taka þessa umræðu. Ég get upplýst hv. þingmenn um það að ég er búinn að óska eftir því að það verði gerður samanburður á starfskjörum íslenskra þingmanna og þingmanna á Norðurlöndunum og í tveimur Evrópulöndum. Við skulum bara fara í gegnum þetta. Það er alveg sjálfsagt mál. En þetta mál eins og það er sett fram er eingöngu að mínu viti til þess að slá sig til riddara og alveg sorglegt að það skuli koma fram með þessum hætti.

Frú forseti. Ég ætla að endingu að segja að þeir útúrsnúningar sem hér voru hafðir uppi varðandi það að þingmenn séu hér á vaktinni 24 tíma sjö daga vikunnar, mér finnst það ekki sanngjarnt, því það getur vel verið að sumir þingmenn slökkvi á símanum sínum þegar þeir fara út úr þessu húsi, taki ekki símtöl eða eitthvað slíkt, en mörg okkar gera það ekki, hvort sem við erum í fríum með fjölskyldu eða annars staðar.



[17:46]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið alveg prýðileg. Auðvitað er það þannig að það er dagamunur á því í hvernig skapi við erum, hvernig við tölum hvert við annað og hvaða virðingu við sýnum málefnum hvert annars og það verður bara að hafa það, það er þannig.

Það getur vel verið að í þessu frumvarpi sé einhver popúlismi. Ef svo er held ég að það sé góðkynja popúlismi sem ekki skaði neinn nema skap hv. þingflokksformanns Framsóknar. Ég held að vert sé að muna að það voru jafnaðarmenn, það voru samferðarmenn og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sem í raun og veru báru það fram sem baráttumál að það væri þingfararkaup yfir höfuð á þjóðþingum Evrópulanda. Það var þannig í upphafi að það var upp og ofan hvort borgað var fyrir starfið því að þetta var meira hobbí yfirstéttarmanna að koma á þingið meðfram þeim störfum sem þeir sinntu við rekstur óðala og umsvifamikilla fyrirtækja. Þingfararkaup komst á vegna þess að fulltrúar verkalýðsstéttar, lágstéttar, kröfðust þess að það yrði svo til þess að skapa þeim jafna stöðu, til þess að allir gætu komist á þingið, þannig að þegar þingfararkaup er búið til er það jafnaðarmál í sjálfu sér.

Í öðru lagi fjallar frumvarpið um það sem það fjallar. Það var skýrt í lok ræðu minnar af hverju það fjallar ekki um annað, af hverju það fjallar ekki um varaforseta og ekki um formenn stjórnmálaflokka eða um formenn stjórnmálaflokka. Ég er nákvæmlega sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að það fari betur á því að stjórnmálaflokkarnir borgi sjálfir forustumönnum sínum ef þeir telja þörf á því, einkum vegna þess að þau störf koma að forminu til Alþingi ekkert við. Þeir eru ekki kosnir á Alþingi, þiggja ekki umboð sitt frá alþingismönnum heldur þiggja þeir umboð sitt frá félögum í flokkum þeirra. Ég er sammála því en það er ekki það sem við ætlum að hreyfa hér við.

Og um varaforsetana, sjálfsagt er að ræða þær ábendingar sem hér hafa komið fram í nefndinni. Það var skýrt líka hvers vegna við tókum ekki varaforsetana með, en það er ekki þannig, eins og Birkir Jón Jónsson, háttvirtur og ágætur og skapgóður þingmaður, hefur misskilið að þeir eigi að fá laun fyrir virðingu sína og það traust sem þeim er sýnt með því að taka að sér störf í forsetastóli, heldur er það einmitt öfugt. Það er ekki það sem þeir fá borgað fyrir, það sem þeir fá borgað fyrir er álag fyrir sérstaka þjónustu umfram þau áhrif og völd sem þessu starfi fylgja. Þetta er þjónusta við okkur í þinginu en það felast engin sérstök áhrif eða völd í þessari stöðu. Annað mál er hvort það á að vera, hvort það á að vera mikið, en það gegnir öðru máli um þessi störf að okkar viti en hin. Það skiptir ekki meginmáli.

Um ráðherrana er það auðvitað að segja og þingmenn líka að það er ekki þingið sem ákveður laun þeirra, þau eru ákveðin í kjaradómi þannig að þessar greinar í lögunum um þingfararkaup eru í raun og veru anómalía, þær koma þvert á þá meginstefnu að kjaradómur ákveður launin sem menn hafa komist hér að niðurstöðu um eftir sára og bitra reynslu af því að þingmenn séu að gera þetta sjálfir. Um forseta þingsins er það að segja, ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega, að hann er jafnsettur ráðherra í launum þannig að það miðast líka við kjaradóm.

Jafnræði, það er bara tvennt í þessu. Annaðhvort eru þingmenn jafnir þegar þeir koma á þingið eða, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði, við ættum að draga dám af því sem gerist á almennum vinnumarkaði, hjá ríkinu vissulega en líka á almennum vinnumarkaði. En bíðum við, er þá eina breytan, er þá eini parametrinn eða kennivíddin ábyrgð, það að vera í þessari formennsku? Nei, á almennum vinnumarkaði eru margar kennivíddir. Ein kennivíddin er ábyrgð, önnur tengd henni eru mannaforráð, sú þriðja er vinnutími, sú fjórða er dugnaður, skilvirkni. Hv. þm. Þráinn Bertelsson kom að mér áðan og spurði hvort ég ætti ekki að fá laun fyrir að flytja þau þingmál sem hér voru kynnt áðan, ég átti tvö af þremur, eigum við kannski að fá bónus fyrir þingmál? Það væri kannski ráð til að auka framleiðslu þingmála. Ég veit ekki hvort það mundi verða þjóðinni mjög til heilla eða þinginu en það væri þó alla vega ein kennivídd sem menn gætu tekið mark á. Sá sem flytur þingmál er a.m.k. að gera eitthvað, hann sýnir það. Eða eigum við að hafa laun vegna reynslu, að þeir sem eru reyndir á þinginu eða í sambærilegum störfum sem koma því að gagni? Sumir hafa verið hér í 20 ár. Sá sem þingreyndastur er okkar þingmanna, hæstv. forsætisráðherra, hefur verið hér síðan árið 1978. Ætti hún að fá sérstök laun í samræmi við það? Nei, okkur hefur aldrei komið það til hugar að láta það skipta máli. Eða eigum við að láta það fara eftir menntun og þá hvaða menntun? Er það almenn menntun? Er það sú menntun sem kemur hér að sérstöku gagni? Ættu þá lögfræðingar að fá hærra kaup en aðrir? Ættu menn, af því að hér situr doktor í salnum í íslenskum fræðum og er mjög hátt virtur sem slíkur, ætti hann að fá meiri laun fyrir sitt doktorspróf en arkitektinn, hv. þingmaður sem situr mér til hægri handar? Eða einhver sem hefur minni menntun en er fullkomlega bær og jafnvel þess vegna æskilegur á þinginu? Nei, okkur finnst það ekki. Ef við ætlum að taka eina kennivídd í þetta dæmi þá eigum við líka að spekúlera í hinum, þannig að ég hafna því að launastrúktúr eigi að vera hér með einhverjum þeim hætti sem tíðkast á vinnumarkaði. Ég tel það andstætt meginreglu lýðræðisskipunar og þeim almennu prinsippum sem við eigum að virða í þinginu.

Ég held satt að segja að þetta álagsmál sé svona 2007-mál. Þetta var eins og ég rakti í ræðu minni, þetta kom inn árið 1995 þegar samfélagið er einmitt að byrja að sporðreisast í vitleysisgangi og ég lýsti því hvernig það gerist. Þetta gerist ekki í skjóli nætur, þetta gerist um mitt sumar, þetta gerist þannig að þetta fer lágt, þingmenn ræða þetta ekki opið, það er ekki rætt í ræðustól hvernig standi á þessu. Það er gert í nefnd og ég gleymdi að bæta því við að allir þingflokkar voru sammála um þetta á þeim tíma nema einn. Það er svolítið merkilegt hvaða þingflokkur það var því að það var sá þingflokkur að tveir úr honum eru eftir á þinginu frá 1995 og það eru ekki mjög margir þingmenn sem hafa svo háan starfsaldur. Þeir þingmenn eru annars vegar hæstv. forsætisráðherra, sem ég minntist á áðan, Jóhanna Sigurðardóttir, og hins vegar hæstv. forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Sá þingflokkur tók ekki þátt í afgreiðslu þessa máls af prinsippástæðum sem reyndar vörðuðu fleira en nákvæmlega þetta atriði.

Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu. Ég vonast til að hún haldi áfram í allsherjarnefnd. Auðvitað koma einhverjar umsagnir um þetta og þar verður hægt að ræða málið. Ég á reyndar von á því líka, ég skil ekki í öðru en forseti Alþingis og forsætisnefnd hljóti að íhuga þetta frumvarp í tengslum við það erfiða verkefni sem þar er fram undan sem er það, eins og ég orðaði það áðan, að skera fituna af Alþingi og það þarf jafnvel að skera meira. Það getur þurft að segja hér upp fólki þó að það verði ekki alþingismenn og breyta þingstörfunum að einhverju leyti því að Alþingi verður að taka þátt í því vonda verki sem við verðum að vinna, að draga að okkur ólina til þess að bæði við sjálf og börnin okkar getum horft fram á betra líf eftir þau ósköp sem yfir okkur dundu og þessar álagsgreiðslur voru einn örlítill anginn af.



[17:55]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var umræðan um kennivíddirnar sem hleypti mér núna af stað upp í ræðustól. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að þær eru ýmsar kennivíddirnar sem miðað er við úti á hinum almenna launamarkaði; aldur, menntun og fyrri störf meðal annars. Okkur finnst hins vegar fráleitt að taka slík viðmið til álita gagnvart þingstarfinu vegna þess að það er eitt og sama ábyrgðarhlutverkið auðvitað sem felst í hinum almennu þingstörfum og ekki viljum við fara að láta draga okkur í dilka út frá slíkum kennivíddum.

Við erum í raun og veru sammála um að þingmannsstarfið sem slíkt er eitt starf sem á að meta á einn og sama hátt til launa að svo miklu leyti sem um er að ræða þennan grunn sem við köllum þingmannsstarf. Ofan á þann grunn leggjum við síðan meiri skyldur á herðar ákveðnum kollegum okkar og félögum, samstarfsmönnum í þinginu, og það er í raun og veru það sem málið snýst um. Hvort það er sanngirni í því að hér séu allir á sömu launum fyrir mjög mismikla vinnu er auðvitað grundvallaratriði sem deilan snýst um. En við erum sammála um ábyrgð þingmannsins og vinnuframlag, við gerum ekki mannamun, og ég vona að menn hafi ekki skilið orð mín þannig að ég teldi eðlilegt að við færum að gera hér mannamun á forsendum aldurs, reynslu, menntunar eða annarra óskyldra þátta sem í raun og veru hafa sáralítið með okkar ábyrgð og skyldur að gera sem almennra þingmanna.

Svo þakka ég líka fyrir þessa umræðu því að mér finnst hún skemmtileg.



[17:57]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Við hv. þingmaður erum greinilega ekki sammála um þetta en kannski verðum við það þegar málið þroskast meira í aðra hvora áttina eða finnum einhverja „syntesu“ ofan á þessar andstæður. En mín afstaða og meðflutningsmanns míns, hv. þingmanns, er einfaldlega sú að þegar menn eru mættir á þingið eru þeir jafnir. Þeir eru fulltrúar kjósenda sinna, hver og einn, eiga að bera sömu virðingu hver fyrir öðrum og fyrir sjálfum sér og taka að sér þau störf sem þeir telja heppilegust í þágu síns málefnis og sinna kjósenda, síns lands og sinnar þjóðar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.