139. löggjafarþing — 16. fundur
 20. október 2010.
þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar, fyrri umræða.
þáltill. ÓÞ o.fl., 44. mál. — Þskj. 45.

[18:35]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Helgi Hjörvar, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Valgerður Bjarnadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Magnús Orri Schram.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um eignarhald auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.

Þetta mál var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki á dagskrá þess þings og er hér í rauninni mælt fyrir því í fyrsta skipti. Í sáttmála stjórnarflokkanna er kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Þar er enn fremur kveðið á um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að undangengnu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það samráð hefur nú staðið yfir í rúmt ár og niðurstaða þess liggur fyrir í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórn sem nýlega var afhent sjávarútvegsráðherra.

Skoðanakannanir undanfarna mánuði og undanfarin missiri hafa sýnt ríkan vilja meðal þjóðarinnar til þess að fyrirheit ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu nái fram að ganga. Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að fá úr því skorið hver þjóðarviljinn er í þessu efni.

Markmiðið með sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.

Í stjórnarstefnunni er enn fremur mörkuð sú stefna að veiðiheimildir skuli ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni og því er heitið að með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar í samræmi við það sem kemur fram í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum.

Þá er því einnig heitið að brugðist verði frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttar og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífs og efnahagslífs sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöll hennar til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða eins og stjórnvöld hafa áform um. Meðal brýnna aðgerða sem stjórnarsáttmálinn kveður á um er að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára, stofna auðlindasjóð sem fari með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar, að arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar. Og þá er því enn fremur heitið að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með því markmiði að stuðla að verndun fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð í landinu, skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á u.þ.b. 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Flutningsmenn tillögunnar telja að ekki verði undan því vikist að efna þessi fyrirheit stjórnarflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórninni. Niðurstaða starfshóps sjávarútvegsráðherra og málflutningur forsvarsmanna Landssambands íslenskra útvegsmanna undanfarið bendir hins vegar til þess að breytingar á kerfinu muni vart nást fram í fullu samkomulagi við alla hagsmunaaðila. Flutningsmenn telja að full ástæða sé til þess að þjóðin fái að tjá hug sinn um þetta mikilvæga mál. Með þingsályktunartillögu þessari er ríkisstjórninni falið að vinna að framgangi málsins og láta orða þær spurningar sem æskilegt væri að þjóðin svaraði.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, frú forseti, en legg til að tillögunni verði vísað til allsherjarnefndar þar sem hér er um stjórnsýslulegt málefni að ræða sem varðar ekki beint efnislega fiskveiðistjórnarmál eða sjávarútvegsmál sem slík.



[18:40]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara hér mikið efnislega í þetta mál í kjölfar framsöguræðu hv. þingmanns, 1. flutningsmanns tillögunnar, en vil þó gera athugasemd við það að þessu máli verði vísað til allsherjarnefndar. Ég tel að í málum af þessum toga eigi fyrst og fremst að horfa á efni tillögunnar sjálfrar. Ég tel eðlilegt að henni verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vegna þess að það er í raun og veru verið að fjalla hér um fiskveiðistjórnarkerfið. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem slík er tæknileg útfærsla. Við vitum að allar kosningar eru á hendi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, framkvæmd þeirra, enda þótt efni þeirra geti fallið undir annað ráðuneyti. Er nærtækt að minnast þar t.d. á sveitarstjórnarkosningar. Þær heyra undir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið þótt sveitarstjórnarmál heyri undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Ég get líka nefnt í þessu sambandi að þegar verið var að fjalla hér sumarið 2009 um þingsályktunartillögu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var sömuleiðis umræða um það hvort ætti að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál og kom m.a. fram sérstök tillaga þar að lútandi. Um það mál var fjallað á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem hér var um utanríkismál að ræða þannig að það var efni málsins sjálfs sem réð því hvar málið var til umfjöllunar.

Ég tel þess vegna með sama hætti eðlilegt að um þetta mál sé rætt á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þó að það kunni að vera rök fyrir því að fá umsögn frá allsherjarnefnd um málið tel ég að forræði málsins eigi að vera á hendi þeirrar nefndar.



[18:42]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég leggst alls ekki gegn því að málinu verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til efnislegrar umfjöllunar en ég legg áherslu á að ég tel eðlilegt að málið fari til allsherjarnefndar þar sem þetta er ekki eiginlegt fiskveiðistjórnarmál, þetta er frekar mál sem varðar þjóðaratkvæðagreiðslu og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Það er hins vegar rétt sem þingmaðurinn bendir á, það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að umsögn hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar liggi jafnframt fyrir hvað málið varðar.



[18:43]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Til umræðu er þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, eða samstarfsyfirlýsingu eins og það heitir, að leita skuli leiða til að koma málefnum sjávarútvegs í einhvern sáttafarveg og leita víðtæks samráðs um að leysa þau deilumál sem hafa verið uppi í þeirri grein.

Sú vinna hefur staðið yfir eða stóð yfir í rétt liðlega eitt ár og lauk nú í sumar. Víðtækt samráð var meðal allra hagsmunaaðila í greininni, þ.e. sjómanna, útgerðarmanna, smábátaeigenda, fiskverkafólks, stjórnmálaflokka á þingi o.s.frv. Þessi hópur skilaði síðan áliti í lok sumars í viðamikilli skýrslu sem heitir Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Hópurinn var skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í júlí 2009 og ég vitna beint í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi og vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þar er ítarlegur kafli um fiskveiðar, sem skiptist í kafla um þjóðareign og mannréttindi, brýnar aðgerðir, vistvænar veiðar — rannsóknir o.fl. og endurskoðun laga um fiskveiðar. […]

Í bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 4. júní 2009, þar sem hann gaf tilteknum aðilum kost á að tilnefna fulltrúa í starfshópinn, segir um verkefni hópsins: „Gert er ráð fyrir að vinna starfshópsins felist í að skilgreina álitaefni, sem fyrir hendi eru í fiskveiðistjórninni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða. Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta [sem] hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.““

Við allt þetta var staðið nema dagsetninguna, ekki tókst að skila skýrslunni fyrir 1. nóvember 2009 eins og ætlunin var heldur dróst sú vinna af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að fara út í hér. En markmiðin voru skýr og í anda samstarfsyfirlýsingar þessara tveggja flokka, þ.e. að reyna að ná sátt um deilumál í sjávarútvegi, skilgreina þau álitaefni sem uppi hafa verið og gera tillögu til lausnar á þeim til úrbóta fyrir framtíðarskipan þessa málaflokks.

Eins og ég sagði eru í skýrslunni, sem skilað hefur verið, gerðar tillögur um öll álitaefni sem uppi hafa verið og allir þeir aðilar sem komu að borðinu skiluðu inn til nefndarinnar. Í flestum tilfellum voru menn sammála um þær leiðir og þær tillögur sem gerðar voru eins og kemur fram í helstu niðurstöðum hópsins. Reyndar held ég að það hafi ekki verið nema í einu eða tveimur atriðum, og þá veigalitlum, sem ekki var yfirgnæfandi meiri hluti á bak við þær tillögur sem gerðar voru um helstu álita- og ágreiningsefnin.

Hópurinn kallaði eftir gögnum víða að úr samfélaginu, úr háskólasamfélaginu, úr greininni sjálfri, frá bönkum, viðskiptabönkum sjávarútvegsfyrirtækja o.s.frv., til að gefa vinnunni það gildi sem henni var ætlað og til að færa góð rök fyrir máli sínu. Þessum gögnum hefur nú verið skilað. Í samræmi við erindisbréf ráðherra og það bréf sem fylgdi hópnum, það erindi sem ráðherra fylgdi sjálfur á fyrsta fundi hópsins, ætlast hópurinn til að farið sé eftir þeim tilmælum sem hann leggur fram fyrir ráðherra, enda segir í bréfi ráðherrans, með leyfi forseta:

„Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.“

Á grundvelli þessarar vinnu ætlar ráðherra að leggja grunn að annarri tilhögun við stjórn fiskveiða. Ég held að ráðherra hafi ekki í hyggju að ganga á bak orða sinna hvað það varðar, enda var það markmið stjórnarflokkanna að leita sameiginlegra leiða allra aðila í sjávarútvegi ef það væri á annað borð mögulegt fyrir ráðherrann til að byggja endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða á.

Eins og ég sagði áðan varð víðtæk sátt um þær tillögur sem er að finna í þessari viðamiklu skýrslu. Ég held ég geti fullyrt að allir utan tveggja aðila sem skipuðu þennan hóp hafi verið sammála heildarniðurstöðum starfshópsins.

Bent hefur verið á eða komið hefur fram í umræðunni, m.a. á þingi, að ekki hafi verið gætt hagsmuna almennings eða þjóðarinnar í þessari vinnu. Þykir mér það vera fulldjarft ályktað ef við lítum til þeirra aðila sem þarna sátu og fyrir hönd hverra þeir tóku þátt í þessu starfi, fyrir utan að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi sátu í þessum hóp og einhverja hafa þeir á bak við sig. Þá sátu þarna fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þarna sátu fulltrúar allra stéttarfélaga sjómanna — yfirmanna, vélstjóra, undirmanna. Þarna sátu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda. Þarna sat fulltrúi fyrir hönd starfsgreinasambandsins innan ASÍ. Þarna sat fulltrúi Samtaka eigenda sjávarjarða. Þarna sat fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þarna sátu fulltrúar Samtaka fiskframleiðenda o.s.frv. Ég vil meina að þessir aðilar hafi komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna og lagt mat á þær tillögur sem fram komu og þau gögn sem við fengum í hendurnar, því að víða var kallað eftir gögnum, með hagsmuni umbjóðenda sinna í huga, fólksins í landinu — almennings sem er á skipunum, sem vinnur í fiskvinnslustöðvunum, sem býr í sveitarfélögunum, sem styður stjórnmálaflokkana. Niðurstaðan bendir til þess að víðtæk samstaða hafi verið um þær meðal þessara aðila og þar með umbjóðendum þeirra úti í samfélaginu.

Þeir sem skiluðu inn gögnum í þessa vinnu voru m.a. Háskólinn á Akureyri, þ.e. rannsóknardeild Háskólans á Akureyri, sem skilaði inn viðamiklum gögnum, sama gerðu aðilar úr Háskólanum í Reykjavík, Davíð Már Kristófersson, Jón Steinsson hagfræðingur skilaði inn umsögn og fleiri slíkir, auk þeirra gagna sem viðskiptabankar sjávarútvegsfyrirtækjanna lögðu inn til okkar til að gera mögulegt að ná utan um allt það sem fram fór.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að byggja áfram á þeirri skýrslu sem hér var lögð fram, eins og ráðherra óskaði eftir og ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir óskuðu eftir að yrði gerð og lögð fram. Mér fyndist ég vera að ganga á bak orða minna ef ég ætlaði að bakka út úr þeirri vinnu sem við skiluðum af okkur á þeim forsendum sem ég fór í þetta starf, ásamt öllum þeim aðilum sem þar voru, og legði til að þessu yrði öllu kastað fyrir róða og við skyldum gera eitthvað annað en til var ætlast í upphafi. Það væri ekki að mínu viti drengileg framkoma gagnvart þeim sem tóku þátt í starfi okkar, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu. Ég legg því til að við byggjum framtíðarskipan stjórnar fiskveiða á þeim tillögum, hugmyndum og þeim ábendingum um ágreiningsefni og álitaefni (Forseti hringir.) sem lögð hafa verið fram í þessari skýrslu.



[18:54]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður Björn Valur Gíslason bendir á, og ég nefndi reyndar í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að það liggur allmikil vinna að baki þeirri skýrslu sem nú hefur verið lögð inn til sjávarútvegsráðherra, vinna svokallaðrar viðræðunefndar eða sáttanefndar í sjávarútvegi. Í þeirri skýrslu er tekin afstaða til velflestra þeirra álitamála sem upp hafa komið í þessari umræðu.

Er hv. þingmaðurinn hv. að segja að þar með sé málinu lokið? Nú veit ég að hv. þingmaður hefur ásamt formanni nefndarinnar skrifað sjávarútvegsráðherra bréf og óskað sérstaklega eftir því að skipaður verði pólitískur starfshópur til þess að vinna málið áfram. Þingmaðurinn virðist því ekki standa í þeirri meiningu að málinu sé fullkomlega lokið þó að skýrsla nefndarinnar sé auðvitað mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.

Ég er ekki heldur sannfærð um að sáttin sé svo mikil eða að hún sé fullkomlega til staðar því að umræðan og viðbrögðin við niðurstöðu skýrslunnar benda ekki til að sáttin í samfélaginu sé fullkomin um þetta mál.

Hitt er annað mál að skýrslan hlýtur að vera veigamikill áfangi inn í þeirri vinnu sem er fram undan, þ.e. lokahnykkur málsins, því að skýrslan skilaði ekki frumvarpi. Hún skilaði áliti en ekki frumvarpi. Frumvarpið er óskrifað. Það er á grundvelli þess að frumvarpið hefur enn ekki verið lagt fram sem þingsályktunartillagan sem hér er flutt gengur út frá því að ríkisstjórninni verði falið að orða þær spurningar sem máli skipta (Forseti hringir.) í þessu samhengi.



[18:56]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel málinu ekki lokið með skýrslunni, langt því frá, hún var eins og segir í erindisbréfi ráðherra unnin til þess að leggja fram tillögur, með leyfi forseta:

„… skilgreina álitaefni sem fyrir hendi eru í fiskveiðistjórninni og lýsa þeim.“ — Og gera tillögur til úrbóta.

Það er það sem við gerðum. Í framhaldinu af því mun ráðherra, eins og hann segir í bréfi sínu, ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Í framhaldi af þessari vinnu mun hann endurskoða hana.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni Ólínu Þorvarðardóttur að ég sem varaformaður þessa hóps og Guðbjartur Hannesson, formaður hópsins, létum fylgja skriflegt erindi frá okkur samhliða skýrslunni sem var skilað til sjávarútvegsráðherra þar sem við lýstum þeirri skoðun okkar að halda ætti áfram vinnu byggðri á þessari skýrslu, á þeim hugmyndum sem þar eru, við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, með pólitískum starfshóp stjórnarflokkanna til þess að halda vinnunni áfram og klára hana á þessum grunni. Það er tillaga okkar og þannig hljóðaði bréf okkar sem í raun og veru var aðeins viljayfirlýsing um hvernig við mundum vilja sjá hlutina gerast í framhaldinu. Við héldum áfram með málið á þeim grunni sem lagður var í skýrslunni og hvernig því lyki sem hér kemur fram eins og ráðherra óskaði sérstaklega eftir að við legðum til að yrði gert.



[18:58]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá er það sameiginlegur skilningur okkar, mín og hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar, að vinnunni sé ekki lokið. Vinnunni þarf að halda áfram. Það þarf að taka lokahnykk í þessu máli.

Samráðinu er kannski lokið og má líta á að svo sé eftir þá margra mánaða vinnu sem liggur að baki skýrslunni, en sáttinni við þjóðina var líka heitið. Á þá sátt verður ekki fullkomlega reynt fyrr en fram er komið frumvarp með einhverjum meginatriðum sem hægt er að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi ég telja að væri hið eðlilega framhald þessa máls og í samræmi við það fyrirheit sem stjórnvöld gáfu við myndun síðustu ríkisstjórnar og stjórnarflokkarnir báðir fyrir síðustu kosningar, að þetta mál yrði leyst í sátt. Og sátt getur aldrei orðið nema hún sé altæk og nái til þjóðarinnar allrar, að svo miklu leyti sem það er hægt í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[18:59]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, vinnunni er ekki lokið enda var það í rauninni ekki markmið þessa hóps að með því að skila af sér skýrslunni yrðu einhver endalok á þessu ferli, heldur var þetta eitt skref á leiðinni eins og ég hef margítrekað fyrr í þessari umræðu.

Sáttin við þjóðina náðist að mínu mati eins og ég rökstuddi áðan með því að langflestir, yfirgnæfandi meiri hluti fulltrúa þjóðarinnar sem sátu í þessum hópi, fulltrúar verkafólks, sjómanna, smábátaeigenda, jarðeigenda, sveitarfélaga og stjórnmálaflokka, náðu saman um þær tillögur sem lagðar eru fram. Því vil ég meina að víðtæk sátt hafi tekist um meginlínur við stjórn fiskveiða, hvernig við viljum sjá skipan fiskveiðistjórnar í framtíðinni.

Vissulega er ekki farið í smáatriði í öllum tillögunum, enda var það ekki markmiðið. Markmiðið var að reyna að ná utan um þá hugmyndafræði sem felst í þessum gögnum, skýrslunni, um breytta skipan mála. Það tókst að megninu til. Ég tel og ítreka að við eigum að halda þessari vinnu áfram og byggja á gögnunum í skýrslunni, það er skynsamlegasta leiðin. Það er það sem til var ætlast í upphafi og þannig munum við geta staðið við fyrirheit flokkanna um að ná sem víðtækastri sátt um þetta mál.



[19:01]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, það náðist vissulega sátt í þeirri nefnd en hún er að mínu mati fyrst og fremst nefnd hagsmunaaðila. Þar vantaði stóra hagsmunaaðilann sem er almenningur, fólkið í landinu. Ég veit alveg að þarna voru fulltrúar verkalýðsfélaga, en það er bara því miður ekki alltaf þannig að þeir fulltrúar sem eru skipaðir í hópa af þessu tagi nái hinni miklu breidd sem er í samfélaginu. Ég veit að ég get ekki sagt um það alveg örugglega en ég hef á tilfinningunni að sú sátt sem náðist í þessari nefnd sé sátt þeirra sem hafa mesta fjárhagslega hagsmuni í dag af óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi. Mörg sjónarmið koma fram í þessari skýrslu og ekki eru allir á eitt sáttir þar. Það er vísað í hina og þessa áttina eins og vera ber þegar hlutir eru skoðaðir svona.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason: Þegar hópurinn sem á nú að halda áfram hefur komist að niðurstöðu og tilbúið er frumvarp um framtíðartilhögun, gæti hann sæst á að það frumvarp yrði borið undir þjóðina eins og það lægi þá fyrir?



[19:03]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að leyfa mér að mótmæla því að ekki hafi verið fulltrúar fólksins í landinu, eins og hv. þingmaður orðar það, í þessum hópi heldur hafi sáttin fyrst og fremst náðst við þá sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ég leyfi mér að mótmæla því og beini til hv. þingmanns þessum spurningum: Hvaða fjárhagslega hagsmuni telur hv. þingmaðurinn að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi af því að ná samkomulagi um þetta mál? Hvaða fjárhagslegu hagsmuni höfðu báðir fulltrúar Samfylkingarinnar í hópnum? Hvaða fjárhagslegu hagsmuna var fulltrúi fiskverkafólks, Starfsgreinasambandsins, að gæta í þessum hópi o.s.frv.? Þetta stenst enga rökræðu. Þetta var ekki sátt um fjárhagslega hagsmuni, enda þótt einhverjir í þessum hópi hafi að sjálfsögðu slíka hagsmuni í huga. Það var ekki sú breiða sátt sem náðist í þessum hópi, heldur fyrst og fremst um tilhögun veiðanna í framtíðinni. Það eru hagsmunir okkar allra en ekki endilega fjárhagslegir hagsmunir, þ.e. það sem kemur beint í vasann hjá okkur.

Varðandi það hvort bera eigi væntanlegt frumvarp undir þjóðaratkvæðagreiðslu sé ég engan tilgang í því vegna þess að það hefur náðst breið samstaða um málið meðal stjórnmálaflokka á Alþingi, allra stjórnmálaflokka utan eins flokks, og meðal fulltrúa allra aðila í samfélaginu, stéttarfélaga, útgerða, undirmanna, yfirmanna, fiskverkafólks o.s.frv. Ég sé ekki tilganginn í því að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir það, verði frumvarpið á annað borð byggt á þeim gögnum og þeim niðurstöðum sem hópurinn skilaði frá sér.



[19:05]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég les þessa skýrslu sýnast mér eiginlega lagðar til tvær leiðir. Þær eru mjög ólíkar eftir því sem ég les það. Ég er kannski með eitthvað skrýtin gleraugu. Svo ég tali hreint út hefur mér t.d. skilist að LÍÚ, sem hefur beina fjárhagslega hagsmuni af fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það er í dag, alveg afneitað annarri leiðinni sem þarna er nefnd. Ekki veit ég betur en hv. þingmaðurinn leiðréttir mig þá í því. Það er það sem ég er að segja.

Eins og alltaf tek ég ónákvæmt til orða þegar ég tala um sátt um fjárhagslega hagsmuni en á náttúrlega við sátt við LÍÚ um fjárhagslega hagsmuni svoleiðis að ég tali tæpitungulaust. Það er það sem ég spyr um: Er sáttin í þjóðfélaginu um það að þeir sem ráða og veiða fiskinn í dag, þeir sem fengu hann afhentan fyrir mörgum árum, haldi sínum rétti? Er það sáttin sem við öll hin eigum að sættast á?



[19:07]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það gætir ákveðins misskilnings í málflutningi hv. þingmanns um þær leiðir sem eru lagðar til í skýrslunni. Það voru ekki lagðar fram tvær leiðir, í starfshópnum var ekki rætt um tvær leiðir. Sú leið sem starfshópurinn mælir með og hefur verið kölluð samningaleiðin var sú leið sem þróaðist í umræðu í hópnum alveg frá síðustu áramótum og fram undir sumar og endaði í þeim farvegi sem sjá má í skýrslunni. Það var sú leið sem hópurinn þróaði með sér í vinnunni og fól tveim aðilum síðan undir lokin að útfæra nánar, þ.e. hvort það væri mögulegt og hvaða leiðir væri best að fara með hana.

Hin leiðin sem hefur verið kölluð tilboðsleið var aldrei rædd í þessum hópi. Hún var lögð inn af tveim utanaðkomandi aðilum, lögð inn sem skýrsla í hópinn. Hún var aldrei rædd þar, þróaðist aldrei þar í umræðu og var aldrei tekið undir hana. Þess vegna var hópurinn ekki að velja milli tveggja leiða, heldur þróaðist umræðan um þá leið sem niðurstaða varð um og tók alllangan tíma að gera.

Sáttin er ekki við LÍÚ frekar en Landssamband smábátaeigenda eða aðra aðila eins og þarna hefur komið fram. Vissulega eru hagsmunir Landssambands íslenskra útvegsmanna, og hafa verið í gegnum árin, mjög miklir í því kerfi sem við höfum búið við í sjávarútvegi en því er verið að breyta. Það er ekki verið að festa í sessi það kerfi sem fyrir hefur verið. Það er verið að gjörbreyta því. Það er verið að gjörbreyta því kerfi sem fyrir hefur verið í sjávarútveginum og á það féllust allir aðilar í hópnum og við það verða þeir að sætta sig sem hafa fjárhagslegra (Forseti hringir.) hagsmuna að gæta og hafa varið gamla kerfið fram í rauðan dauðann síðustu tvo áratugina.



[19:09]Útbýting:

[19:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það sem hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, Árni Þór Sigurðsson, nefndi, það er að mínu viti augljóst að þetta mál á að fara til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem það varðar fiskveiðistjórnarkerfið og tillögu um að leggja einhverjar, sem enginn veit reyndar enn þá hverjar eru, tillögur eða breytingar á því undir þjóðaratkvæði. Ég held að það sé alveg einsýnt.

Að mínu viti er þessi tillaga meingölluð og algjörlega vanhugsuð því að það eru ekki neinar leiðbeiningar eða neinar hugmyndir um hvað á að greiða atkvæði um eða tala um í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu heldur að greiða atkvæði um fiskveiðistjórnarkerfið. Um hvaða kerfi eða hvaða hugmyndir á að greiða atkvæði er ekkert fjallað eða einu sinni gefið í skyn hvað eigi að tala um. Það er líka mjög sorglegt í sjálfu sér eftir þá miklu vinnu sem var lögð í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og um náðist mjög breið sátt af þeim sem unnu það starf, fulltrúum langflestra hópa í samfélaginu. Það má hugsanlega finna einhverja hópa sem ekki áttu þar fulltrúa, t.d. Lions-félög, en flestir áttu þar fulltrúa, verkalýðsfélög og fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga og aðrir eins og hefur komið hér fram.

Tillögur nefndarinnar eru gjörbreyting á því umhverfi sem áður hefur verið. Nefndin leggur henni til frekari vinnu eins og hér hefur komið fram og vísar því til ráðherra í rauninni. En meginlínurnar eru lagðar. Þær eiga að snúast um það sem mér finnst í rauninni mestu skipta, það er lagt til að orðið „þjóðareign“ verði bundið í stjórnarskrá, það á reyndar eftir að skilgreina það orð í sjálfu sér, þjóðareign á auðlindinni. Það er kveðið upp úr með það. Menn hafa deilt um það lengi hvort það sé skýrt eða ekki skýrt, nú er bara kveðið upp úr með það í tillögu nefndarinnar, þ.e. að það verði skýrt í stjórnarskrá.

Það er líka lagt til að það verði samið um nýtingarrétt. Þá erum við um leið í rauninni að gefa frat ef ég má orða það svo í það sem menn hafa talið eignarrétt hingað til. Þar er talað um nýtingarrétt. Við leggjum til að fyrir það verði greitt gjald sem renni til þjóðarinnar. Þetta er gjörbreyting á þeirri hugsun sem verið hefur um sjávarútveginn.

Ég verð því að segja að það er því miður eins og sumir stjórnmálamenn sætti sig í rauninni ekki við að þær tillögur sem þeir fóru með í kosningabaráttuna, um að fara svokallaða fyrningarleið, hafi ekki reynst tækar. Það sætta þeir sig ekki við og vilja þar af leiðandi reyna allt sem hægt er til að koma fyrningarleiðinni í framkvæmd þrátt fyrir að búið sé að benda á að sú leið muni væntanlega hafa í för með sér gríðarlegt tjón fyrir sjávarútveginn og í framhaldinu þjóðarbúið.

Það sem mér finnst alveg skelfilegt við þessa tillögu er að það er enn og aftur verið að auka á óvissu um framtíð þessarar einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar. Þeir sem standa í þessu í dag, þeir sem eru að draga björg í bú fyrir þjóðina og skapa útflutningstekjur, geta enn þá ekki horft á bátinn sinn eða starfsfólkið sitt í fiskvinnslunni og sagt: Ja, það eru komnar línur í þetta sem við erum ekkert alveg sátt við en við munum starfa eftir. Nei, þá koma hér nokkrir þingmenn og leggja fram afar óljósa og undarlega tillögu um að eitthvað skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekkert nánar skilgreint.

Ég vona að þingmenn geri sér grein fyrir því að ef menn komast niður á eitthvert orðalag á tillöguna þarf að fara fram gríðarleg kynning á sjávarútveginum, sjávarútvegskerfinu í rauninni, út á hvað það gengur og hvernig það virkar. Við hljótum líka að spyrja okkur hvort þau verðmæti sem eru í þessari grein úti um allt land, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem langstærsti hlutur verðmætanna verður til, eigi að enda í höfuðborginni. Það er búið að sýna fram á að verðmætin í þessari grein verða til úti á landi en meginhlutanum er síðan eytt hér í höfuðborginni. Við hljótum að spyrja okkur hvort það sé þá — nú rekur hv. þingmaður upp stór augu en ég skal finna þessa útreikninga fyrir hv. þingmann. Það gengur ekki að þegar nokkuð góð sátt er komin um hvaða leið eigi að fara eigi að rugga bátnum á ný. Auðvitað verða ekki allir sáttir við þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað kemur út úr henni heldur, það er heldur engin leið til að skapa sátt.

Mig langar að spyrja hv. þingmenn sem hér eru og eru á þessari tillögu, af því að ég veit að hv. þingmenn ætla að koma í andsvar við mig: Hvað með þjóðaratkvæðagreiðslu um stefnu í heilbrigðismálum? Ríkisstjórn þessara hv. þingmanna kynnir núna gjörbreytingu á heilbrigðisstefnunni í gegnum fjárlagafrumvarpið. Ekki hafði fólkið úti á landi neitt um það að segja hvernig sú breyting var sett fram. Henni er bara kastað fram og það er verið að skerða lífskjör úti á landi. Eigum við að greiða þjóðaratkvæði um stefnu í heilbrigðismálum? Við skulum þá ræða það og koma okkur niður á einhverja tillögu úr því. Hvað með Evrópusambandið? Af hverju greiðum við ekki tillögu um það hvort við hefðum átt að fara í þessar viðræður við Evrópusambandið eða halda þeim áfram? Það er væntanlega, eða getur, við skulum taka varlega til orða, sú ákvörðun sem að baki því liggur getur haft miklu varanlegri og alvarlegri áhrif á íslenskan efnahag heldur en nokkurn tímann sjávarútvegurinn, og þá á sjávarútveginn. Eru hv. þingmenn til í að styðja það og samþykkja að fara með í þjóðaratkvæði hvort halda eigi áfram þessum viðræðum við Evrópusambandið?

Við hljótum að velta upp þessum spurningum ef hægt er að fara með þetta í þjóðaratkvæði, ekki síst þegar málin eru svona stór eins og Evrópusambandsmálið allt saman.

Svo verð ég líka að segja það, frú forseti, að það er alveg með ólíkindum hvað sumir þingmenn geta verið með þessi samtök, LÍÚ, á heilanum. Það er eins og LÍÚ sé upphaf og endir alls á Íslandi. Þetta eru hagsmunasamtök, ekkert mjög stórs hóps, en jú, stórs hóps sem heldur á miklum aflaheimildum, en þar eru svo margir aðrir sem væru fylgjandi því að fara þá leið sem nefnd er í tillögu nefndarinnar. Það er algjör misskilningur að halda því fram að allir sem voru í nefndinni séu sáttir við þá tillögu sem við lögðum fram. Það gáfu flestir eitthvað eftir. Það voru helst fulltrúar stjórnmálasamtakanna sem héldu ekki fram einhverjum ákveðnum stefnum eða hagsmunum. Allir urðu að gefa eitthvað eftir. Þetta er sáttaleið allra þeirra aðila, eða langflestra, sem þarna voru og það er ekkert óeðlilegt við það þó að einn eða tveir séu með aðra skoðun á þessu eða vilji fara aðrar leiðir. Það er hins vegar sorglegt, finnst mér, að lítill hópur þingmanna skuli taka sig út úr og ætli sér að halda við þeirri óvissu sem hefur verið um sjávarútveginn og þá framtíð sem hann á í þessu landi.

Ég veit til þess að aðilar sem starfa til hliðar við sjávarútveginn, veita honum þjónustu í tæknigreinum og víðar, hafa jafnvel sagt að í hruninu hafi ástandið verið mjög slæmt því að þá vissu menn lítið hvað framtíðin bæri í skauti sér en að óvissan núna sé enn þá verri því að við, stjórnmálamennirnir, sem erum að tala um og eigum að móta stefnu í sjávarútveginum virðumst alltaf hafa einhvern veginn tök á því að skapa meiri óvissu. Þessu verður að linna því að við verðum að geta komist áfram með þessa grein, þróað hana þannig að fólk haldi áfram að starfa í henni. Þúsundir einstaklinga úti um allt land vinna við greinina og það gengur ekki að vera með þessa óvissu endalaust.



[19:19]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er enginn ágreiningur um það við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að það þarf að eyða óvissunni. Til þess er farið í þessa vegferð, að eyða óvissunni. Deilurnar um kvótakerfið hafa staðið í áratugi eða allar götur frá því að þessu kerfi var komið á, illu heilli. Ástæðan eru afleiðingar sem við þekkjum og landsbyggðarþingmenn eiga að þekkja öðrum betur, byggðaröskun og ýmislegt ójafnræði og óréttlæti sem af þessu kerfi hefur hlotist. Það er því engan veginn hægt að bera það saman við þær aðgerðir sem við stöndum núna frammi fyrir í tímabundnum niðurskurðaraðgerðum í velferðarkerfinu, að ræða þörfina á þjóðaratkvæðagreiðslu í því samhengi. Svo vil ég minna hv. þingmann á að spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu mun verða lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ástæðan fyrir því að við teljum tilefni til að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er 20 ára rauna- og deilusaga þessa máls. Það er náttúrlega ekki rétt heldur að við séum að tala um að láta spyrja þjóðina um bara eitthvað. Tillagan gengur út á það að fela ríkisstjórninni, ekki þingnefnd heldur ríkisstjórninni, að undirbúa þessa atkvæðagreiðslu og orða þær spurningar sem máli skipta og það gef ég mér að muni að sjálfsögðu gerast að framlögðu frumvarpi um endanlegt fyrirkomulag.

Síðan aðeins að lokum varðandi þá útfærslu samningsleiðarinnar sem kynnt hefur verið í skýrslu viðræðunefndarinnar, það er nú ekki eins og hún sé svo nákvæm niðurstaða að byggja á. Það ætti þingmaðurinn að þekkja hafandi lesið þá leið að hún er ekki nákvæm niðurstaða að byggja á. Hún er þvert á móti (Forseti hringir.) verulega óljós tillaga sett fram á tugum blaðsíðna og ekki aðgengileg til að hægt sé að skrifa upp úr henni frumvarp eins og hún liggur fyrir að svo stöddu.



[19:21]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ég algerlega ósammála hv. þingmanni um að niðurstaða úr skýrslunni sé eitthvað óljós. Þar eru taldar upp, að mig minnir, á einni og hálfri eða tveimur blaðsíðum niðurstöður nefndarinnar og því beint til sjávarútvegsráðherra hvað eigi að gera. Það er lagt til á hverju eigi að byggja, það er m.a. lagt til að áfram verði byggt á því aflamarkskerfi sem við höfum. Það er lagt til að samningaleiðin verði farin, það er lagt til að farið verði í samninga, það er lagt til að sett verði af stað vinna til að skýra í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindinni. Það er ýmislegt að byggja á.

En 20 ára deilur um kvótakerfið eins og hv. þingmaður orðaði það, kvótakerfið eða fiskveiðistjórnarkerfið hefur breyst töluvert og þeir sem voru í því fyrir 20 árum eru margir hverjir farnir út úr því með mikla fjármuni, illu heilli, ég tek undir það ef það er sú gagnrýni sem hv. þingmaður er að tala um. En inn í greinina hafa aðrir komið sem hafa fjárfest og byggt hana upp, hafa skuldsett sig og fjölskyldur sínar, sín fyrirtæki, lagt heimilin að veði. Þetta er sú óvissa sem hv. þingmaður er að skapa með tillögum sem þessari, algerlega órökstuddri. Það er mjög sérstakt að leggja fram tillögu, ef ég skil þetta rétt, þar sem hv. þingmenn hafa ekki hugmynd um hvernig spurningar eigi að leggja fyrir þjóðina heldur ætla ríkisstjórninni að semja þær fyrir sig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hún sammála því að sú tillaga sem nú liggur fyrir um að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um það hvort áfram verði haldið viðræðum við Evrópusambandið nái fram að ganga? Ég geri mér alveg grein fyrir því að stjórnarflokkarnir segja að endanlegur samningur fari fyrir þjóðina en nú er komin fram tillaga um að þjóðin fái að segja álit sitt á framhaldinu, hvort eigi að halda áfram, er þingmaðurinn sammála því? Eins vil ég segja að það er fólk (Forseti hringir.) úti á landi, á landsbyggðinni fyrst og fremst, sem er að vinna í sjávarútvegi í dag.



[19:24]
Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samningaleiðin eins og hún er kynnt í skýrslu viðræðunefndarinnar er afar óljós leið. Hún er ekkert sérlega skýr í framsetningu. Og samstaðan sem hv. þingmaður vísar til var ekki svo ýkjamikil um þá leið, hún var ekki algjör. Auðvitað má byggja á þeim hugmyndum sem settar eru fram í samningsleiðinni og það er sjálfsagt að skoða þessa leið. Mér finnst líka jafnsjálfsagt að skoða tilboðsleiðina og það kemur mér satt að segja verulega á óvart að það skuli upplýst hér að sú leið hafi aldrei verið rædd í viðræðunefndinni, að nefndin skuli leggja fram og kynna með skýrslu tillögu sem aldrei hefur fengið umræðu í nefndinni og efnislega umfjöllun. Hvernig á þá að meta skoðanir nefndarmanna á þeim möguleika sem varpað er upp gagnvart tilboðsleiðinni? Það á bara að skoða báðar þessar leiðir mjög vel.

Markmiðið er það að ná einhverju öryggi varðandi framtíðarskipan fiskveiðistjórnarinnar. Sjávarútvegurinn sem grein á skilið að búa við rekstraröryggi. Og það stunda fleiri sjávarútveg í landinu en kvótahafarnir. Stór hluti þeirra sem stunda sjávarútveg eru leiguliðar hjá kvótahöfunum. Er það kerfi sem við viljum festa í sessi? Við lögðum niður leiguliðakerfi bændasamfélagsins fyrir meira en 100 árum síðan. Okkur þótti það ekki eðlilegt. Okkur þykir það ekki eðlilegt í dag. Viljum við viðhalda svona lénsherrakerfi í sjávarútveginum?

Við vitum að það eru gríðarmargir sem eiga hagsmuna að gæta að þetta kerfi verði opnað, að það verði festar í sessi réttlátar og sanngjarnar reglur og það er að því sem þessi vinna miðar, að það sé rúm og sanngjörn aðlögun sem mér sýnist vera í kortunum núna varðandi þær tillögur sem fram hafa komið og að leiðin sé hófsöm. (Forseti hringir.) Allt þetta virðist mér vera á góðri leið og síðan að vinnunni lokinni er eðlilegt að þjóðin fái að segja af eða á.



[19:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að samstaðan í nefndinni var ekki algjör. Af þessum rúmlega 20 manna hóp voru einn eða tveir sem voru á annarri skoðun. Þetta minnir mig svolítið á það að við erum með ríkisstjórn sem virðist ekki vera mikil samstaða í. Ég hef efasemdir um að það sé þingmeirihluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram og hvað eigum við þá að gera? Eigum við að segja að ríkisstjórnin eigi að fara frá, það sé ekkert mark á henni takandi? Eru það ekki bara svipuð skilaboð og að segja að þessi nefnd hafi klúðrað málunum, eins og ég skil hv. þingmann vera að segja? (Gripið fram í.)

Þessi svokallaða tilboðsleið sem hv. þingmaður nefndi var kynnt fyrir nefndinni. Annar þeirra aðila sem skrifaði þessa leið kom og kynnti hana fyrir nefndinni á fundi. Niðurstaða okkar eftir þá kynningu var að sú leið væri ekki til þess fallin að skapa þá sátt eða leysa það vandamál sem við áttum að fást við heldur leggjum við til aðra leið.

Hv. þingmaður svaraði hins vegar ekki spurningu minni varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og við munum þá bara eiga það inni í síðari umræðu um þetta mál. En mestu skiptir í þessu og ég er sammála hv. þingmanni um það að það þarf að ná öryggi og framtíðarsýn fyrir sjávarútveginn. Ég held að við gerum það ekki með því að koma með sífellt nýja vinkla af því að einhver ákveðinn hópur þingmanna er ósáttur við þá niðurstöðu sem kom út úr þessu mikla nefndarstarfi. Svo set ég náttúrlega spurningarmerki við það þegar við þingmenn stöndum hér og tölum fyrir hönd þjóðarinnar, þegar við erum jafnvel að tala um nefndarvinnu þar sem fulltrúar langstærsta hluta þjóðarinnar voru í, við hljótum þá að vera sammála um að skapa ró um greinina. En af hverju látum við ekki á það reyna hvort hægt (Forseti hringir.) er að byggja á þeirri vinnu sem við fórum fram með og náðum þokkalegri sátt um? Af hverju látum við ekki á það reyna áður en við komum fram með svona vitleysu?



[19:28]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rak upp stór augu áðan því það er fullt af fólk í Reykjavík sem vinnur við fiskvinnslu. (Gripið fram í: Stærsta verstöð landsins.) Þar er stærsta verstöð landsins og meira að segja í mínu kjördæmi, Reykjavík norður.

Hv. þingmanni er gjarnt að tala um allt annað en það sem við erum að tala um. Hann talaði um fjárlagafrumvarpið. Hann talaði um þjóðaratkvæðagreiðslu þetta og þjóðaratkvæðagreiðslu hitt. Ég er á því að greiða eigi þjóðaratkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir. Við leggjum til að greidd verði atkvæði um fiskveiðistjórnarlög þegar þau liggja fyrir. Við erum ekki að leggja til að það verði greidd atkvæði um það hvort eigi að semja frumvarp um stjórn fiskveiða. Ég er á móti því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort við eigum að halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið. Þar erum við komin vel á veg og eigum að halda áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu vegna þess að við höfum verið uppfrædd um það að hin svokallaða tilboðsleið hafi aldrei verið rædd, hún hafi verið kynnt og fólk hafi séð „kviss bang“ að hún væri ómöguleg. Nefndin leggur klárlega til samningaleiðina og þá vil ég spyrja þingmanninn: Telur hann að leiðin uppfylli og komi til móts við álitið sem við fengum frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 24. október 2007?



[19:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það að ég tali út og suður um óskyld mál þá er ekkert að því að setja málið í samhengi við önnur mál. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún mun væntanlega koma aftur í andsvar, hver er munurinn á því að greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið eða leyfa þjóðinni að ákveða það? Leyfa Íslendingum að ákveða hvort við eigum að halda áfram eða fylgja tillögunni sem hv. þingmaður er aðili að? Hver er munurinn á þessu? Að mínu viti er enginn munur. Misstór mál kannski. Evrópusambandsmálið er enn þá stærra en þetta. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni hvernig við teljum að það sé uppfyllt m.a. með því að fara pottaleiðina svokölluðu, þ.e. að skipta þessu upp í tvær deildir eða tvo potta eða hvað við köllum þetta. Ég tel að verið sé að uppfylla það, já.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu að Reykjavík er mjög stór verstöð, líklega stærsta einstaka verstöðin. En það breytir því ekki að um 90% af aflaheimildum og vinnunni er úti á landi. Að segja við starfsfólk eða fólk í landvinnslu á Norðurlandi, Austurlandi, Snæfellsnesi eða Vestfjörðum að það sé áframhaldandi óvissa um framtíð þess og vinnu er ekki gott að mínu mati þegar búið er að leggja fram tillögu sem hægt er að byggja á. Við eigum að vinna áfram með tillöguna sem nefndin skilaði, eins og lagt er til og klára málið. Athuga hvort við náum fram frumvarpi eins og hv. þingmenn hafa nefnt sem almenn sátt getur verið um. Ég fullyrði að það verður aldrei alger sátt, aldrei nokkurn tíma. Ef næst almenn sátt eða meiri hluti, þá tel ég það býsna góðan árangur. Ég held að við ættum frekar að stefna að því.



[19:32]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að útskýra fyrir hv. þingmanni að ég tel að við eigum ekki að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort semja eigi nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég tel að það eigi að fara með frumvarpið um fiskveiðistjórnarkerfið þegar það liggur fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alveg á sama hátt tel ég að fara eigi með samninginn sem við fáum við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu en við eigum ekki að greiða atkvæði um það hvort við eigum að gera samning. Ég skil þetta þannig. Við erum í þessu núna og eigum ekki að greiða atkvæði. En þegar við erum komin á leiðarenda, já, þá greiðum við atkvæði svo við förum ekki út og suður.

Það er óvissa um allt. Ég held að þó að málin séu rædd frekar og komist til botns í þeim þá verði greidd um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það ali ekki á neinni óvissu. Við erum að reyna að fá festu í málið og þá skiptir ekki máli, hv. þingmaður, hvar fólk á heima, hvort það býr í Reykjavík eða úti á landi. Alls staðar hvar sem við eigum heima þá skiptum við máli.



[19:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Í rauninni skipta allir Íslendingar miklu máli.

Ég þakka fyrir ágæta útskýringu á meiningu hv. þingmanns í þessu máli. Ég fullyrði að ég hafi náð þessu núna, ég var reyndar búinn að því. Mig langar að velta upp, fyrirgefið frú forseti, ég átta mig á því núna að hv. þingmaður kemst ekki í andsvar við mig þannig að ég ætla að umorða það sem ég ætla að segja. Við þingmenn hljótum að velta fyrir okkur, ef þetta er niðurstaðan eða rökin sem við höfum uppi varðandi þingmál, að mál eins og fjárlagafrumvarpið sem sett er fram með þeim hætti sem hér er gert sem er beinlínis stefnubreyting, grundvallarbreyting á t.d. heilbrigðisþjónustu í landinu, þá hljótum við að velta því fyrir okkur, frú forseti, hvort mál eigi ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hljótum við ekki að ætlast til þess að fjárlagafrumvarp sem umturnar lífi stórs hluta þjóðarinnar fari í þjóðaratkvæði ef þetta á að vera viðmið?



Till. gengur til síðari umr. en vísun til nefndar frestað.