139. löggjafarþing — 17. fundur
 21. október 2010.
umræður utan dagskrár.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:40]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist hafa það á stefnuskrá sinni að henda sprengjum inn í sjávarútveginn með reglulegu millibili. Afleiðingin er alger óvissa sem hefur ríkt í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar núna í hér um bil tvö ár. Það er sama við hvern talað er, alls staðar er sömu sögu að segja, menn þora sig hvergi að hræra. Vandamálið er ekki við fiskveiðarnar, ekki við vinnsluna, ekki við markaðssetninguna. Vandamálið er við Skúlagötu 4 í Reykjavík, í sjálfu ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þar er núna stærsti þröskuldurinn í vegi þess að sjávarútvegurinn fjárfesti, leggi í markaðsvinnu, búi til verðmæti, skapi aukinn gjaldeyri og fleiri störf.

Ég gerði það í morgun að hafa samband við nokkra aðila í skipaviðgerðaiðnaðinum, slippunum sem hæstv. ráðherra hefur stundum talað um hér í þinginu og talað um nauðsyn þess að efla. Sagan sem þeir sögðu var ekki glæsileg. Þeir notuðu orð eins og hrun og auðn og tómarúm. Einn sagði mér frá því að það væri ekki eitt einasta fiskiskip sem hefði pantað slipp það sem eftir lifir af árinu. Ástæðan fyrir þessu er skýr, það vita þeir, það vita útgerðirnar, það vita sjómennirnir — það er óvissan sem núna ríkir, hin pólitíska óvissa.

Það er enginn vafi á því að áhrifaríkasta og skjótvirkasta efnahagsaðgerðin núna væri í því fólgin að forustumenn ríkisstjórnarinnar stigju fram og lýstu því yfir að ætlunin væri að hverfa frá fyrningarhugmyndum og fara þá samningaleið sem endurskoðunarnefnd ráðherrans lagði til. Það mundi aflétta óvissunni, hrinda af stað fjárfestingum upp á marga milljarða króna og skapa umsvifalaust hundruð starfa. En þetta virðist ekki vera í boði. Þvert á móti, nýjasta útspil hæstv. ráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda eykur óvissuna, bætir gráu ofan á svart, grefur okkur enn þá dýpra ofan í stöðnunina.

Orð ráðherrans eru sannarlega brigð á fyrri yfirlýsingum hans, svardagar og loforð hans frá fyrri tíð eru greinilega orðin fullkomið útsölugóss.

En við hverju er verið að bregðast af hálfu hæstv. ráðherra með því útspili sem hann kom fram með í síðustu viku? Jú, vandamáli sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur skapað. Yfirlýsingar hans varðandi skötuselinn voru að eðlilegt væri að leigja skötuselinn frá kvótaleigu ráðuneytisins af því að handhafar veiðiréttarins hefðu ekki nýtt hann sjálfir. Í þessu felast mjög skýr skilaboð sem útgerðir um allt land skilja mjög vel. Það er verið að segja að það sé ekki rétt að leigja frá sér aflaheimildir af því að það kunni að leiða til þess að menn verði skertir í framtíðinni. Þess vegna hefur leigumarkaðurinn frosið. Þess vegna er hann orðinn botnfrosinn og vélstjórinn sem keyrir frystipressuna heitir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason.

En hvernig er þessu máli tekið í sjávarútveginum? Tökum fyrst smábátaeigendurna, trillukarlana, sem ráðherra heiðraði með þessum vafasama hætti með því að kynna þessar hugmyndir um kvótaleigu sína í auknum mæli af hálfu ríkisins. Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var ályktað með því að þar er sagt, með leyfi forseta:

„Fundurinn krafðist þess að auknum heimildum yrði úthlutað til núverandi handhafa veiðiheimilda enda hefðu þeir þurft að þola miklar skerðingar á undanförnum missirum og árum. Yrði ákvörðun ráðherra að veruleika mundu laun sjómanna lækka verulega og verið væri að kasta stríðshanska inn í greinina.“

Stríðshanska sem væri verið að kasta inn í greinina. Og er þetta ekki einmitt kjarni málsins? Menn hafa tekið á sig skerðingar í þorski í trausti þess að það mundi leiða til þess að þegar kvótinn ykist gætu menn bætt sér upp tekjutapið með vaxandi aflaheimildum. Nú er hins vegar slegið á þessar væntingar. Það blasir auðvitað við öllum að þorskkvótinn mun aukast á næstu árum. Nú grípur hæstv. ráðherra inn í og segir: Þeir sem hertu að sér, tóku á sig skellinn, munu ekki fá að njóta afrakstursins af uppsveiflunni í þorskstofninum. Og ekki bara þetta, hvað með fisktegundir þar sem kvóti kann að dragast saman á næsta fiskveiðiári eða á næstunni? Eins og t.d. í ýsunni, þar ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma tvöfalda skerðingu hjá útgerðunum í landinu, fyrst með því að kvótinn dregst saman og síðan með því að taka hluta þess sem eftir er og leigja hann út. Þetta er vísasta leiðin til þess að menn gefast upp í greininni, sérstaklega minni aðilarnir, smærri fyrirtækin sem standa höllum fæti.

Það vita líka allir að sjómenn hafa árum saman barist gegn kvótaleigunni. Þeir lögðu höfuðáherslu á þetta í endurskoðunarvinnunni sem ég vék að hér áðan. Orð ráðherrans eru eins og blaut tuska framan í þá eins og þeir lýsa þessu sjálfir og þeir segja jafnvel að kjarasamningar sem eiga að fara fram nú í haust séu í hreinu uppnámi. Og það væri svo sem eftir öðru, ofan í allt annað er stefnan í sjávarútvegsmálum farin að spilla kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, ekki vegna ágreinings þeirra í milli heldur vegna sjávarútvegsstefnu hæstv. ráðherra. Ég þori ekki að segja sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar því að það veit auðvitað enginn hvort að baki þessu sé vilji annarra ráðherra eða þingmanna stjórnarliðsins.

Þeir brosa hins vegar núna þessa dagana hringinn, mennirnir sem seldu kvótana og eygja núna von um að komast með þægilegum hætti að fiskveiðum að nýju. (Forseti hringir.) Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra gleður þessa aðila, það er ljóst mál að sá (Forseti hringir.) hluti sjávarútvegsstefnunnar er skýr, að koma sérstaklega til móts við þá.



[11:45]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu og jafnframt fyrir að fá tækifæri til að gera grein fyrir hugmyndum og áformum sem unnið er að varðandi þau atriði sem hann kom inn á og ég vakti upp umræðu um á þeim aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem fyrirspyrjandi vitnar til.

Það er alveg hárrétt að hugmyndir mínar snúast um að á fiskveiðiárinu 2010/2011 og einnig 2011/2012 geti ráðherra haft til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar aflaheimildir, hvort árið um sig ákveðið magn í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og síld og einnig að ráðherra geti ákveðið hámarksheildarmagn af skráplúru, skarkola og sandkola, þykkvalúru og langlúru sem gæti verið úthlutað svona. Þetta gæti verið ákveðinn hluti af ráðlögðu aflamagni eða hægt að fara með inn á hverja tegund. Það verður tilgreint þegar kemur fram frumvarp í þessu efni hversu mikið magn það verður.

Til viðbótar þessu er einnig vel athugandi að á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 verði skipstjóra skips heimilt að ákveða að hluti keilu- og lönguafla skips reiknist ekki til aflamarks þess. Hugmyndin lýtur að því að sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skuli ekki vera meiri en ákveðinn hluti af þeim heildarafla sem landað er hverju sinni enda sé afli ekki fluttur óvigtaður á markaði erlendis. Þessi leið er sambærileg við svokallaðan VS-afla sem hefur það markmið að auka sveigjanleika kerfisins og minnka hvata til brottkasts.

Þegar þessi leið verður farin verður það væntanlega gert að skilyrði að keilu- og lönguafli verði boðinn upp á viðurkenndum uppboðsmarkaði og að ákveðið hlutfall af andvirði aflans renni í ríkissjóð og kæmi það þá í staðinn fyrir greiðslu gjalds fyrir þær aflaheimildir.

Ég vek athygli á því að hér er um að ræða aflaheimildir sem að hámarki gætu verið til úthlutunar gegn gjaldi. Margir þættir munu hins vegar ráða hvort það verður gert, hversu mikið magn verður þá lagt í þetta og síðan úthlutað. Gert yrði síðan ráð fyrir því að útgerðir þyrftu að greiða gjald fyrir aflaheimildirnar og gjaldið yrði, að mínum hugmyndum, fast verð á hvert kíló vegna þess að hér er um hreina tímabundna aðgerð að ræða sem gæti verið hlutfall af ákveðnu meðalvirði í viðskiptum með t.d. aflamark viðkomandi tegundar á einhverju undangengnu tímabili. Að öðru leyti mundi gilda regla um gildi aflamarks sem úthlutað er á grundvelli aflaheimildar. Ef þetta yrði að raunveruleika og heimildir nýttar sem ráð væri fyrir gert að hægt væri að setja í þennan pott, þótt á lægra verði væri, væri um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem ríkið gæti fengið til ráðstöfunar við okkar erfiðu aðstæður.

Ég tek hins vegar fram enn og aftur að margir þættir geta ráðið því við hvaða magn verður miðað. Í mínum hugmyndum felst jafnframt, í samræmi við markmið 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að tekjur ríkissjóðs vegna þessa mundu renna til verkefna, t.d. á landsbyggðinni og þá sérstaklega í sjávarbyggðum til að renna styrkari stoðum undir atvinnu og byggð í landinu, og á sama hátt verði veitt aukið fé til rannsókna er stuðli að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna hér við land.

Fram hefur komið spurning um hvort ætlunin sé að skilyrða úthlutunina að einhverju leyti þeirri endurskoðun sem nú fer fram á aflareglunni. Svarið við því liggur alveg fyrir, heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða mun ekki verða á þessu fiskveiðiári. Hugmyndir mínar um þessi áform taka því til aðgerða sem yrðu settar til bráðabirgða þar til sú endurskoðun tæki gildi. Áform þessi hafa svo að sjálfsögðu ákveðna tilvísun til umfjöllunar endurskoðunarnefndarinnar um svokallaða pottaleið.

Frú forseti. Ég gæti vikið að fleiri atriðum í fyrirspurn hv. þingmanns en ég legg áherslu á að þetta er fyrst og fremst bráðabirgðaaðgerð sem yrði, ef um verður að ræða, aukning á núverandi aflaheimildum þannig að enginn verður skertur. Ég tel (Forseti hringir.) að við þær efnahagsaðstæður sem núna eru í samfélaginu verði (Forseti hringir.) næsta ár okkur mjög erfitt, frú forseti, og þá ber okkur að horfa til allra (Forseti hringir.) þátta hvað það varðar.



[11:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því á hvaða vegferð hæstv. sjávarútvegsráðherra er varðandi þessa almikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Maður spyr sig: Var skötuselurinn forsmekkurinn að því sem koma skyldi? Var hann forsmekkurinn að leikrænni tjáningu ráðherra gagnvart þingi og þeim sem í þessari grein starfa? Var sáttanefndin blekking? Var verið að blekkja okkur og plata sem tókum þátt í henni? Til hvers var hún sett af stað ef það er sífellt komið með aðrar útfærslur og aðgerðir? Ég velti fyrir mér: Var verið að plata okkur sem fórum í þá nefnd? Fyrningin er í raun hafin. Fari ráðherrann þá leið sem hann er að boða er hann að hefja þá fyrningu sem hann hefur m.a.s. lýst sig andsnúinn ef ég veit rétt. Það er enn stefnt að óvissu um sjávarútveginn. (Gripið fram í: Ég veit um …) Það er enn stefnt að því að auka óvissuna hjá þúsundum einstaklinga sem starfa í sjávarútvegi á sjó og í landi. Það er verið að stefna byggðunum í mikla óvissu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sem á hátíðarstundum talar fjálglega um byggðirnar tekur ekkert mark á því núna, gleymir því hvað hann hefur sagt. Það er búið að skerða atvinnuréttindi fólks úti um allt land í gegnum árin með niðurskurði á aflaheimildum og það á ekkert að koma til baka samkvæmt þessu. Hæstv. ráðherra er algjörlega á villigötum. Hann hefur ekki upplýst hversu mikið magn hann er með í huga. Hversu miklu ætlar hann að úthluta með þessu? Hversu mikið af kökunni á ekki að koma til þeirra sem búið er að skera? Á hvaða vegferð er hæstv. ráðherra? Ég spyr að því. Smábátasjómenn (Forseti hringir.) og talsmenn sjómanna eru æfir (Forseti hringir.) út af þeirri vegferð sem ráðherra er á.



[11:53]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Íslenskur sjávarútvegur er í járnum, hann þarf nýjar lausnir. Atvinnugreinin skuldar næstum 600 milljarða kr. og það er gífurleg óánægja með kvótakerfið sem hefur skilið mörg byggðarlög eftir í flakandi sárum. Viðleitni stjórnvalda til að bregðast við og breyta kerfinu hefur mætt hörku og hótunum, samráð hefur verið langvarandi og erfitt. Atvinnuskilyrði kvótalausra útgerða fara síversnandi, skortur á leigukvóta hefur neytt marga til að binda báta sína við bryggjur. Við svo búið má ekki una lengur. Það þarf að bregðast við þessu ástandi, annars vegar að sjálfsögðu með þeim varanlegu breytingum sem boðaðar hafa verið á fiskveiðistjórnarkerfinu og er sérstakt verkefni út af fyrir sig og hins vegar núna með skammtímaráðstöfunum til að bregðast við bráðum vanda sem er vandi hinna kvótalausu útgerða sem eiga allt sitt undir leigukvóta á markaði sem er botnfrosinn. Þar er ekki aðeins um að ræða þá fáu einstaklinga sem seldu sig úr greininni á sínum tíma heldur þá fjölmörgu sem tilheyra þessu leiguliðakerfi í fyrirkomulagi sem er tvískipt. Það er annars vegar kerfi kvótahafanna og hins vegar hinna sem eiga allt sitt undir því að fá leigðan kvóta frá þessum aðilum.

Fyrningin er að sjálfsögðu ekki hafin. Það er verið að ræða það hér að auka við veiðiheimildir og það hefur verið kallað mjög eftir því að aukið verði við veiðiheimildir. Það er eðlilegt að sjávarútvegsráðherra bregðist við því kalli á einhvern hátt.

Hins vegar legg ég áherslu á það — um leið og ég fagna því að verið er að hugleiða það í alvöru að auka við veiðiheimildir og bæta þeim við á þann hátt (Forseti hringir.) að það verði tekið gjald fyrir sem er (Forseti hringir.) bara eðlilegt eins og nú árar — að við förum ekki í mikinn bútasaum (Forseti hringir.) á kerfinu heldur hugum að framtíðarbreytingu þess. Það er stóra verkefnið.



[11:55]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það skýrist alltaf betur og betur fyrir mér það sem gamli bóndinn sem ég hitti norður í Skagafirði sagði við mig fyrir nokkru síðan. Hann sagði: Passaðu þig á að telja á þér puttana eftir að þú hefur tekið í höndina á hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann átti náttúrlega við það, virðulegi forseti, að það er ekki orð að marka það sem þessi maður segir eða gerir. Hann sest í stól hæstv. sjávarútvegsráðherra og boðar okkur það að hann ætli að sitja á sáttastóli, hann ætli að hafa víðtækt samráð við alla sem að málum koma og stofnar til þess sérstaka sáttanefnd sem allir stjórnmálaflokkar og allir hagsmunaaðilar eiga og áttu aðild að. Henni var stýrt af hv. þm. Guðbjarti Hannessyni.

Það tókst eftir mikla vinnu í þessari nefnd að ná víðtækri sátt af skynsemi þar sem farið var yfir allar hliðar málsins, farið yfir hörmulegar afleiðingar þess ef sú fyrningarleið sem var boðuð hefði verið farin algjörlega óbreytt. Menn lögðu á sig mikla vinnu. Hvað gerir síðan hæstv. ráðherra núna? Algjörlega í andstöðu við alla þessa aðila stígur hann fram og skapar enn fullkomna ósátt í þessari mikilvægu atvinnugrein þegar það er þjóðarbúinu langmikilvægast að stöðugleiki og sátt ríki í sjávarútvegi. Ef þessari hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra auðnaðist að ganga fram og segja þjóðinni og þeim sem starfa í þessari grein, útgerðum um allt land, að sáttaleiðin yrði farin mundu skapast í næstu viku þúsund störf í því sem hefur hér verið farið yfir, viðhaldi, fjárfestingum og öllu því sem tilheyrir. (Forseti hringir.) Það er besta bótin fyrir landsbyggðina, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. (Forseti hringir.) Það yrði besta meðalið fyrir hana, en ekki þessi óvissa.



[11:58]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég var að hugsa um að látast ekki hafa heyrt orð síðasta ræðumanns, svo dæmalaus fannst mér ræða hans vera að mörgu leyti.

Niðurstaða þess starfshóps sem sjávarútvegsráðherra skipaði á síðasta ári og sú vinna sem hann vann og þær tillögur sem hann gerði byggðust fyrst og fremst á þeim hörmulegu afleiðingum sem núverandi stjórnkerfi hefur haft á sjávarútveginn og byggðirnar í landinu, ekki á einhverjum ætluðum afleiðingum í framtíðinni miðað við breytingar á stjórnkerfinu. Það var ástæðan fyrir því að sá starfshópur var skipaður, þær afleiðingar sem núverandi stjórnkerfi hefur leitt af sér.

Starfshópurinn skilaði ítarlegum niðurstöðum sem um varð allgóð sátt í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, í samræmi við það sem rætt var í hópnum og þá umræðu sem þar þróaðist meðal allra þeirra sem þar voru og endaði með því að um þær niðurstöður sem sjá má í skýrslu starfshópsins var nánast einhuga sátt með örfáum undantekningum. Heildarhugmyndafræðin sem í tillögunum felst var studd af öllum aðilum fyrir utan fulltrúa Hreyfingarinnar, og þar með talið fulltrúa sjómanna, fiskverkafólks, allra stjórnmálaflokka á Alþingi o.s.frv.

Ég tel að það eigi að fylgja tilmælum í bréfi ráðherra til hópsins, að á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á muni ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. (Forseti hringir.) Ég tel að við eigum að halda okkur við það. Allt annað væri stílbrot á þeirri vinnu (Forseti hringir.) sem þegar hefur verið unnin og er í stefnu stjórnvalda.



[12:00]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þar til í umræðum í gær hér á Alþingi stóð ég í þeirri meiningu að viðræðunefndin, eða sú sem hv. þm. Jón Gunnarsson kallar sáttanefndina um sjávarútvegsmál, hefði skoðað og bent á tvær leiðir sem fara mætti í fiskveiðistjórnarmálum. Hvorug tillagan væri fullkomin og nú hæfist vinna við gerð lokatillögu í frumvarpsdrögum. Svo kom í ljós að önnur tillagan, hin svokallaða tilboðsleið, var aðeins fylgiplagg sem fæstir eða nokkur í nefndinni vildi nokkuð með hafa. Þetta fundust mér ekki góðar fréttir, virðulegi forseti. Til að segja hlutina eins og þeir eru þá er ég ekki par hrifin af sáttinni sem sögð er felast í samningaleiðinni svokölluðu. Ég veit að þannig háttar um marga aðra. Það skiptir gífurlega miklu máli að í vinnunni sem nú fer af stað verði litið til þeirra sjónarmiða sem fram koma í tilboðsleiðinni svokallaðri. Í lokalausninni verður að vera kristaltært að jafnræðis sé gætt og atvinnufrelsi sé tryggt í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í október 2007. Um annað er einfaldlega ekki hægt að semja, virðulegi forseti. Í mínum huga er aðeins einn eigandi og einn rétthafi að fiskinum í sjónum og hann er við, við öll, fólkið í landinu. Ríkisvaldið getur síðan fyrir okkar hönd leyft einhverjum að veiða, það er aðferðin við leyfisveitinguna sem nú þarf að semja frumvarp um. Í þeirri vinnu þarf að taka tillit til þeirra sem hafa stundað veiðarnar undanfarin ár, en þeir eiga ekki að ráða ferðinni



[12:02]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegur forseti. Ég sat í þessari endurskoðunarnefnd og skal staðfesta að niðurstaða nefndarinnar var sú að við lögðum til að farin yrði samningaleiðin, ekki tilboðsleiðin. Þetta var samþykkt af öllum nema tveimur í þessari fjölskipuðu nefnd. Í henni voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka og allra hagsmunasamtaka. Um þetta var víðtæk samstaða í nefndinni sem ríkisstjórnin lagði upp með.

Varðandi sáttina er það þannig að ríkisstjórnin hóf vegferðina með orðið sátt á vörum, bera klæði á vopnin. Mér hefur hins vegar fundist upp á síðkastið, þegar ég fylgist með umræðunni, að ríkisstjórnin sé hætt að bera klæði á vopnin, nú geri hún eins og segir í kvæði Megasar, beri vopn á klæðin. Það er það sem hefur verið að gerast upp á síðkastið. Menn hafa hent sprengjum inn í umræðuna sem hefur torveldað allar leiðir til að ná samkomulagi um sjávarútveginn. Þetta síðasta sem hæstv. ráðherra gerði vekur spurningu um það hversu langt hæstv. ráðherra ætli að ganga. Hann segir að hann geri sér vonir um að það verði umtalsverðar upphæðir sem komi út úr leigubraskinu úr sjávarútvegsráðuneytinu. Hann segir jafnframt að það verði ekki leigður út kvóti nema þegar um aukningu er að ræða. Við vitum að í ýsunni eru meiri líkur en minni á því að þar verði kvótaminnkun. Er hæstv. ráðherra að segja að þetta nái fyrst og fremst til þorsksins? Hann nefnir líka íslensku sumargotssíldina. Við vitum hvernig ástandið er á henni, er einhver von um að þar verði kvótaaukning?

Að öðru leyti vil ég segja að þetta er blaut tuska í andlit fólksins sem hefur tekið á sig skerðingar undanfarin ár í von um að þeir fengju að njóta þess þegar betur gengi og betur áraði í hafinu. Nú segir hæstv. ráðherra: Nei, það kemur ekki til greina. Litlu karlarnir, litlu útgerðarmennirnir og hinir stærri sem þrengt hafa sultarólina, hert að sér, munu ekki njóta aukningarinnar. Það verður tryggt með því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) mun setja á stofn sérstaka leigumiðlun, leigubrasksfyrirtæki, (Forseti hringir.) sem hann ætlar að stjórna sjálfur.



[12:05]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson talar um aðra og nefnir leigubrask. Að mínu mati verður efnahagsstaðan næsta ár eitt það erfiðasta eftir efnahagshrunið bæði tæknilega og atvinnulega. Við heyrum um allt land um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og niðurskurð í velferðarþjónustunni. Þá horfir maður til þess hvort við þessar aðstæður sé ekki réttlætanlegt að huga að því hvaða áhættu megi taka með því að auka tímabundið við aflaheimildir til að koma til móts við erfiðleikana. Ég minni á að vísað hefur verið til endurskoðunarhópsins einn af þáttunum sem þar eru nefndir, svokallaða pottaleið. Þetta er með tilvísun til hennar þó að hér sé fyrst og fremst um bráðabirgðaáform að ræða sem gildir aðeins í eitt eða tvö ár meðan verið er að vinna framtíðarskipan fiskveiðistjórnarmála. Það má öllum vera ljóst að þetta mun taka nokkurn tíma. Það er óvíst hvort það getur komið til framkvæmda á þessu ári.

Hverjar verða þær upphæðir? Ég segi: Það munar um allt, hvort það eru 2, 3 eða 4 milljarðar kr. sem hægt væri að fá með þessum hætti. Það munar um allt við þessar erfiðu aðstæður (Gripið fram í.) og ég trúi því að það verði samstaða á þinginu um að skoða þessar leiðir til að mæta þeim mikla efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir vítt og breitt um landið. Við skoðum þá hvort það sé hægt að taka nokkra áhættu gagnvart (Forseti hringir.) fiskveiðiauðlindinni í þessu sambandi (Forseti hringir.) en það verður náttúrlega farið mjög vandlega yfir þá þætti, frú forseti.



[12:07]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Hér hafa orðið á mistök við skráningu á mælendaskrá. Það er óvenjuleg staða en hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson tekur nú til máls öðru sinni í þessari utandagskrárumræðu.



[12:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þakka þér fyrir að leiðrétta þetta en svona getur gerst. Við verðum að lifa við það. Það sem ég vil segja á þessum seinni tveimur mínútum sem ég hef til umráða er að það gengur ekki að ráðherra ætli að beita sér fyrir því að verðlauna þá sem ákváðu að fara út úr þessari grein. Það verður gert nái þetta fram að ganga. Það á ekki að koma til móts við þá sem tóku á sig skerðingar en héldu samt áfram uppi atvinnu í byggðunum hringinn í kringum landið. Þeir fóru í hagræðingu í sínum rekstri en héldu samt áfram í þeirri von að fá bætur eða fá til baka það sem tekið var af þeim.

Með þessu er verið að skerða atvinnuréttindi þeirra sem vinna í greininni og eru búnir að vinna í henni lengi.

Óvissan um stefnu stjórnvalda, það er fyrst og fremst hún, frú forseti, sem heldur leigumarkaðnum í heljargreipum. Menn þora ekki að leigja frá sér heimildir vegna þess að þeir óttast að verða skertir. Þeir óttast að heimildirnar verði skertar og þeir fái ekki bætur til baka. Það eru stjórnvöld sem halda þessum markaði með leiguheimildir og gera það að verkum að menn geta ekki leigt til sín. Það eru engir aðrir en stjórnvöld sem halda því í frosti.

Ég skora á hæstv. ráðherra að hætta við þær fyrirætlanir sem hann hefur haldið á lofti, að hætta við þær og gefa niðurstöðunni sem endurskoðunarnefnd um sjávarútvegsstefnuna lagði til tækifæri, fara í gegnum hana og reyna að koma fram með frumvarp sem leysir flest málin. Við getum aldrei leyst öll málin sem deilt er um. Við erum öll sammála um að það er, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi, (Forseti hringir.) þjóðin sem á aflaheimildir og fiskinn í sjónum.