139. löggjafarþing — 17. fundur
 21. október 2010.
þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar, frh. fyrri umræðu.
þáltill. ÓÞ o.fl., 44. mál. — Þskj. 45.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:53]

[13:51]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég kem upp til að falla frá tillögu um að málið fari til allsherjarnefndar. Ég felli mig ágætlega við að það fari til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og að þar verði leitað umsagnar allsherjarnefndar um málið. Ég heiti því síðan sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að málið mun fá skjóta afgreiðslu þar. [Hlátur í þingsal.]



[13:52]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er lýðræðissinni. Ég fagna því að það hefur ein þingsályktunartillaga borist fyrir þingið og er atkvæðagreiðsla um hana. Verði þingsályktunartillaga mín og sex annarra þingmanna ekki samþykkt hér og það verður ekki hægt að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið um leið og stjórnlagaþingið verður kosið er upplagt að ég sem flutningsmaður þeirrar tillögu og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, höfum samráð um að ákveða hvaða dag í framtíðinni þessar þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram. Geri ég það að tillögu minni að fái mín tillaga ekki brautargengi verði þessar tillögur saman bornar fram í þjóðaratkvæðagreiðslu til að þjóðin þurfi þá a.m.k. bara einu sinni að borga 250 millj. kr. þannig að málið sé farsælt.

Frú forseti. Ég segi já. [Kliður í þingsal.]



[13:53]
Forseti (Þuríður Backman):

Þar sem samkomulag hefur orðið um að fram komin þingsályktunartillaga gangi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fellur niður atkvæðagreiðsla um hvert málinu verði vísað.



Till. vísað til sjútv.- og landbn.  án atkvgr.