139. löggjafarþing — 17. fundur
 21. október 2010.
húsnæðismál, 1. umræða.
stjfrv., 100. mál (uppboðsíbúðir á kaupleigu og lánsheimildir Íbúðalánasjóðs). — Þskj. 107.

[13:54]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál var lagt fyrir á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það var síðan tekið til endurskoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og er nú lagt fram á ný með töluverðum breytingum.

Í stuttu máli miða breytingarnar sem hér eru lagðar til að því að gera Íbúðalánasjóði kleift að bregðast við breyttum aðstæðum fólks á húsnæðismarkaði. Lögð er til heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að leigja út íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði með ákvæði um kauprétt, í öðru lagi að sjóðnum verði heimilt að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og í þriðja lagi að heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita lán til endurbóta verði auknar. Er þá miðað við lán til endurbóta á fjöleignarhúsum og til að bæta aðgengi að húsnæði fyrirtækja og stofnana.

Árið 2008 var gerð lagabreyting sem heimilar Íbúðalánasjóði að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Kveðið var nánar á um framkvæmdina í reglugerð ráðuneytisins, nr. 7/2010, um útleigu uppboðsíbúða Íbúðalánasjóðs.

Með breytingunni sem hér er lögð til verður Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða á kaupleigu uppboðsíbúðir eða aðrar íbúðir sem sjóðurinn hefur leyst til sín og henta til slíkrar ráðstöfunar þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti ef leigjandinn kýs að nýta sér þennan möguleika. Gert er ráð fyrir að sett verði nánari ákvæði um fyrirkomulag kaupleigu í reglugerð.

Virðulegi forseti. Ég bind vonir við að þetta ákvæði um kaupleigu muni auka verulega á húsnæðisöryggi þeirra sem eru illa staddir fjárhagslega og að með þessu opnist fólki sem misst hefur húsnæði á uppboði möguleiki á að eignast húsnæðið á nýjan leik.

Í núgildandi lögum er kveðið á um að verðbréf Íbúðalánasjóðs skuli vera verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hér er lagt til að sjóðurinn fái heimild til að bjóða óverðtryggð lán og er meginhugmyndin sú að gera óverðtryggð langtímalán að raunhæfum valkosti fyrir viðskiptavini Íbúðalánasjóðs.

Í bráðabirgðaákvæði er tillaga um tímabundna breytingu á lánaheimildum Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt því verður sjóðnum heimilt að veita einstaklingum allt að 20 ára lán til endurbóta eða viðbyggingar við sameign í fjöleignarhúsi þar sem þeir búa ef endurbæturnar miða að því að setja lyftu í húsið eða bæta á annan hátt aðgengi að íbúðinni. Lagt er til að slíkar lánveitingar verði heimilar jafnvel þótt fjárhæð lána sem þegar hvíla á fasteigninni sé hærri en hámarksfjárhæðir Íbúðalánasjóðsveðbréfa.

Í ákvæði til bráðabirgða er einnig lagt til að víkkaðar verði tímabundið heimildir sjóðsins til að lána fyrirtækjum og sveitarfélögum til að fjármagna breytingar eða viðbót á húsnæði í því skyni að bæta aðgengi fatlaðra. Miðað er við að lánveitingar geti numið allt að 90% af kostnaði við framkvæmdir en þó aldrei sem nemi hærra hlutfalli en 50% af fasteignamati viðkomandi fasteignar.

Loks er í bráðabirgðaákvæði lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita einstaklingum lán til endurbóta þó að fjárhæð lána sem þegar hvíla á fasteigninni sé hærri en hámarksfjárhæðir Íbúðalánasjóðs sem nú eru 20 millj. kr. Samanlögð fjárhæð áhvílandi lána má þó aldrei vera hærri en sem nemur fasteignamati eignarinnar. Miðað er við að sett verði reglugerð um nánari útfærslu bráðabirgðaákvæðis um lán til endurbóta. Heimildir til útlána samkvæmt þessu ákvæði renna út í lok árs 2013.

Ég sé margvíslegan ávinning í auknum lánaheimildum Íbúðalánasjóðs til endurbóta á húsnæði sem miða að bættu aðgengi. Fjölgun lyftuhúsa leiðir til aukins búsetufrelsis fólks óháð aldri og hreyfigetu. Þetta stuðlar þannig að auknum lífsgæðum fólks með fötlun og eins getur það dregið verulega úr kostnaði samfélagsins af stofnanaþjónustu við aldraða og fatlaða. Við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í aðgengismálum fólks með fötlun og er ljóst að víða þarf að gera miklu betur í þeim efnum, jafnt í húsnæði opinberra stofnana ríkis og sveitarfélaga og hjá fyrirtækjum.

Síðast en ekki síst bind ég vonir við að með því að ýta undir framkvæmdir af þessum toga getum við hleypt auknu lífi í byggingarframkvæmdir og fjölgað þannig störfum.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið í megindráttum efni frumvarpsins sem ég vona að fái góða umfjöllun og jákvæðar viðtökur í félags- og tryggingamálanefnd.



[13:59]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Þetta frumvarp er mjög þarft og brýnt og kem ég til með að styðja það. Í því eru m.a. lagðar til þær breytingar að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða til leigu þær íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti. Þarna er í fyrsta sinn hér á landi verið að hverfa frá hinni svokölluðu séreignarstefnu húsnæðiseigenda þar sem allir eiga að eiga húsnæði eða réttara sagt bankastofnanir eiga það húsnæði sem fólk býr í en fólki er talin trú um að það eigi eignarhlut í því, en sá hlutur hvarf nú í hruninu.

Virkan leigumarkað hefur vantað, leigumarkað eins og við þekkjum frá Norðurlöndunum þannig að þetta er sérstakt fagnaðarefni. Til þess að leigumarkaður ríkis geti þrifist er forsendan sú að ríkið eigi viðkomandi íbúðarhúsnæði sem fólk leigir þá af ríkinu sjálfu til að ekki sé hægt að spenna upp verð á leigumarkaði. Við vitum að nú eru stórir og fjársterkir aðilar að kaupa upp íbúðarhúsnæði og ætla svo í framtíðinni að ráða leigumarkaðnum, þ.e. verðleggja hann. Því vík ég nú að 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Hvers vegna kemur þar fram að Íbúðalánasjóði verði heimilt að fela öðrum með samningi að annast miðlun íbúðanna? Hvers vegna getur Íbúðalánasjóður ekki haft þetta innan húss hjá sér svo fulls jafnræðis sé gætt og að þetta fari ekki, eins og liggur fyrir í frumvarpinu, í hendur einkaaðila sem geta ráðið leiguverði?



[14:01]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka undirtektirnar og tek heils hugar undir að það sem skiptir mjög miklu máli nú á næstu vikum er að endurskoða húsnæðiskerfið. Hef ég ákveðið að skipa hóp hagsmunaaðila og þverpólitískra aðila til að fara yfir kerfið í heild til að bæta búsetuskilyrði fólks, þ.e. bæði hvað varðar leigu, búsetuform og kaupleigu.

Það er alveg rétt sem hér hefur líka komið fram að það hefur vantað öryggi, þ.e. stundum hafa verið byggð hús sem hafa átt að vera til leigu en síðan hafa fasteignafélögin mörg hver sem eignuðust þessar eignir bara ákveðið að selja þær, jafnvel ofan af fólkinu sem þar var flutt inn.

Varðandi 1. gr. og þetta orðalag varðandi miðlun, það er ekki átt við að þetta sé fullkomlega á vegum Íbúðalánasjóðs, þ.e. ábyrgðin er þar. Þetta er spurning um það hvort Íbúðalánasjóður eigi að setja upp þjónustuskrifstofu til að fara með leiguna. Ákvörðun um verð og annað slíkt er áfram hjá Íbúðalánasjóði. Spurningin er bara hver sér um umsýsluna. Það getur verið að einhver leigumiðlun eða einhverjir aðrir aðilar sem eru með slíka starfsemi nú þegar geti fellt þetta undir sína starfsemi en regluverkið og öll ákvarðanataka verður eftir sem áður í Íbúðalánasjóði. Ég vona að ég skýri það rétt. Það er sem sagt ekki verið að útvista forsendunum. Það er verið að útvista framkvæmdinni í sjálfu sér í staðinn fyrir að búa til enn eina stofnun innan opinbera geirans á sama tíma og fullt af fólki sem hefur verið að vinna í þessum bransa, þekkir vel til og er treystandi til að sjá um umsýsluna er atvinnulaust. En það á ekki að hafa áhrif á leiguverð eða annað slíkt.



[14:03]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði getur skipt sköpum í þeirri hugsun sem ég var að tala um. Í stað þess að búa til nýja stofnun segir hæstv. ráðherra að það eigi að útvista því að annast um miðlun íbúðanna þó að stjórnsýslan eigi að fara fram innan Íbúðalánasjóðs. Það verður að vera alveg á hreinu hvernig þetta er framkvæmt samkvæmt lögunum því að við vitum að það er ekki hægt að koma upp virkum leigumarkaði nema ríkið hafi þar puttana í alla leið. Þó að regluverkið sé skilið eftir hjá Íbúðalánasjóði og þessu sé útvistað á einhvern annan hátt þá leggst umsýslugjald og annað ofan á verð viðkomandi leiguhúsnæðis, því við vitum að einkaaðilar vilja gjarnan komast í þau verkefni sem Íbúðalánasjóður á að sýsla með. Þar sem þetta er bara 1. umr. um frumvarpið hvet ég ráðherrann til að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að hafa allan ferilinn og alla framkvæmdina í deild inni í Íbúðalánasjóði því eins og málin standa núna er það lífsspursmál fyrir íslensku þjóðina til framtíðar, í þeirri gjaldþrotahrinu sem nú er fyrirsjáanleg, að fólk hafi þak yfir höfuð sér.

Það er grundvallaratriði að einkaaðilar komi ekki að þessu með þessum hætti. Við sáum hvernig þessir svokölluðu einkaaðilar léku okkur í hruninu. Bankarnir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn og það olli hér allsherjarbankahruni á haustdögum 2008.

Ég treysti ráðherranum til allra góðra verka og skora á hann enn á ný að skoða þetta mál vel og hvet hann til að standa vörð um Íbúðalánasjóð og væntanlega leigjendur, að þessi mál verði í lagi svo fjármálasnillingarnir komist ekki líka með puttana í leigumarkaðinn.



[14:05]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek þeirri hvatningu sem hér er flutt af hv. þingmanni. Sú hvatning á ekki síður að fara til hv. félags- og tryggingamálanefndar sem tekur málið til skoðunar og þá verða menn auðvitað að ganga eftir því og við skulum reyna að vinna að því í sameiningu að tryggja þau meginmarkmið sem hér eru. Það er búseta og það er sanngjörn leiga.

Félög sem hafa m.a. verið á vegum borgarinnar og námsmannahreyfingarinnar hafa séð um umsýslu með eignum og það sem vakti fyrir Íbúðalánasjóði var í raun að vera ekki að búa til nýtt batterí við hliðina á þessum batteríum þar sem sérþekkingin er. Það var það sem ég var að reyna að skýra út.

Mér heyrist meginmarkmiðin hjá hv. þingmanni vera ljós og við deilum þeirri skoðun að þau eru aðalatriðið.



[14:07]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps sem kveður á um möguleika Íbúðalánasjóðs til að leigja með kauprétti það húsnæði sem hann hefur leyst til sín. Þetta er mikilvægur þáttur í því að fólk sem hefur misst húsnæði sitt geti búið áfram í því og átt von um að eignast það aftur. Þetta eykur húsnæðisöryggi þó að þessi lagabreyting ein og sér sé ekki með neinu móti fullnægjandi til að tryggja húsnæðisöryggi í landinu. Það mun verða verkefni næstu mánaða að fá aðra aðila sem leysa til sín íbúðarhúsnæði til að reyna að beita sömu aðferðafræði.

Það er ekki margt sem ég vil segja um þetta á þessari stundu. Félags- og tryggingamálanefnd mun reyna að vinna þetta mál með sæmilegum hraða og verður það sent út til umsagnar strax í dag. Þar eru ákvæði til bráðabirgða, sem eru nýmæli, um lán til framkvæmda til fyrirtækja og eins aukin lán til framkvæmda til fjölbýlishúsa til að greiða fyrir aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að húsnæðinu. Þetta eru mjög jákvæðar tillögur því að þær ýta undir framkvæmdir sem ekki veitir af á þessum tímum atvinnuleysis og hafa jafnframt áhrif á aðgengismál fatlaðra sem er mjög mikilvægt að efla á Íslandi og þeim málaflokki hefur ekki verið veitt næg athygli. Það hefur ekki verið tekið af fullri alvöru á því að allir samfélagsþegnar þurfa að eiga óhindrað aðgengi að opinberum stofnunum sem og ýmissi annarri þjónustu rekinni af einkaaðilum.

Varðandi þennan þátt segir í umsögn fjármálaráðuneytisins að þetta séu lán sem geti numið allt að 100% af fasteignamati eignarinnar og geti því haft áhrif á áhættu sjóðsins en það hafi ekki farið fram greining á þeirri áhættu. Það er náttúrlega mikilvægt að nefndin leitist við að átta sig á hvað gert er ráð fyrir að þetta verði umfangsmikil útlán og hvort við metum það svo að þetta geti skapað þá hættu að við þurfum að gera breytingar á þessu bráðabirgðaákvæði. Nú vona ég að við getum gert ákvæðið eins og það er að lögum því að þetta er mjög jákvæð tímabundin aðgerð sem gagnast bæði atvinnustiginu sem og að sjálfsögðu mannréttindum í landinu. En ég vil samt hafa þann fyrirvara á að þetta vekur upp ákveðnar spurningar sem ég tel að nefndin þurfi að leitast við að fá svör við.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til félags- og tryggingamálaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og vona að við getum sem fyrst afgreitt það sem lög frá Alþingi.



[14:10]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mér er eiginlega vandi á höndum með þetta frumvarp því mér finnst það ekki alslæmt. Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi séreignarstefnunnar og hér hefur tilfinnanlega skort öruggan og góðan leigumarkað, sanngjarnan markað, þar sem fólk getur ákveðið að kaupa sér ekki húsnæði og tekið meðvitaða ákvörðun um að leigja og verið þá tryggt með öruggt húsnæði og eigi ekki á hættu að þurfa að rífa börn úr skóla eða rífa sig upp á jafnvel nokkurra mánaða fresti.

Þó finnst mér að það eigi ekki að flokkast sem áhættufjárfesting á Íslandi að koma sér upp hóflegu þaki yfir höfuðið fyrir sig og sína fjölskyldu ef það er vilji manns. Efnahagskreppur einkennast af stórfelldri eignatilfærslu, jafnvel mætti kalla það eignaupptöku. Að mínu mati er það hlutverk stjórnvalda að stýra því hvernig eignatilfærslan fer fram en ef henni er ekki stýrt tapa þeir sem telja sig hafa átt eitthvað, almenningur í landinu, sínum eignum. Það er nákvæmlega það sem við erum að horfa upp á hér. Fólk er að tapa húsnæði sínu og forsendubresturinn, bæði verðbólguskotið og náttúrlega gengismálin, hefur ekki verið leiðréttur og mér sýnist að í þessari ríkisstjórn standi það ekki til. Það veldur því að fólk missir húsnæði sitt og ævisparnaðinn, gleymum því ekki. Fólk á Íslandi hugsar um húsnæði sitt sem lífeyri líka. Fólk missir ævisparnaðinn úr húsnæðinu á einu bretti og því finnst mér það eiginlega nánast eins og brandari að ætla að leigja fólki húsnæði sitt aftur án þess að leiðrétta forsendubrestinn. Því get ég ekki stutt þetta frumvarp þótt mér þyki margt í því gott og mér fyndist það ágætt við aðrar kringumstæður, t.d. ef forsendubresturinn yrði leiðréttur fyrst. Við vitum að það er alltaf einhver hluti fólks sem lendir engu að síður í einhverju veseni og þarf auðvitað að taka afleiðingum gjörða sinna en forsendubresturinn er ekki afleiðing af gjörðum þess og hann verður að leiðrétta. Því get ég ekki stutt þetta frumvarp.



[14:13]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að ítreka það sem kannski kom ekki nógu vel fram í kynningu minni á frumvarpinu að verulegur hluti af þeim íbúðum sem eru í höndum Íbúðalánasjóðs eru íbúðir sem aldrei hefur verið búið í, sem voru byggðar af verktökum. Þeim var kannski lokið en voru ekki komnar í notkun eða þá að leigutakar hafa verið þar inni, einhverjir einstaklingar sem leigðu af verktökunum. Það er stór hluti af því sem þarna kemur á markaðinn. Ég vildi bara að það kæmi fram.

Að öðru leyti þekkjum við umræðuna um almennar leiðréttingar og stöðuna á þeirri vinnu í dag þar sem verið er að reikna út alla möguleika, þann möguleika líka að gera ekki neitt og við vonum að út úr því komi sem sagt upplýsingar sem menn geta þá unnið frekar með, þingmenn og stjórnvöld.



[14:15]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er margt gott um þetta mál að segja en það má gagnrýna ýmislegt við það líka. Ég fagna sérstaklega mjög áhugaverðu innleggi hæstv. ráðherra um þessar íbúðir, að stór hluti af þessum eignum séu e.t.v. eignir sem enn hefur ekki verið búið í.

Varðandi frumvarpið þá er þessi stefnubreyting af hinu góða. Það er verið að hverfa frá stefnu og breyta stefnu sem löngu var tímabært að gera. Séreignarkerfið er um margt ágætt en það hentar einfaldlega ekki öllum og Ísland er og hefur verið algjörlega sér á báti að ég held bara í öllum heiminum hvað þessa stefnu varðar og nú er hún einfaldlega hrunin.

Það sem er hins vegar að þessu frumvarpi, hvað svo sem því líður hvort í augnablikinu sé um að ræða íbúðir sem ekki hefur verið búið í, er að í framtíðinni verður í auknum mæli um að ræða íbúðir sem Íbúðalánasjóður leysir til sín vegna þess að fólk missir þær út af þeim forsendubresti sem bankahrunið og efnahagshrunið leiddu til. Það eru þær aðferðir sem ég mótmæli, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, að fyrst sé verið að hirða eignir af fólki og síðan geti það eða einhver annar leigt eignirnar aftur. Þetta finnst mér vera algjörlega ótækt og ósiðlegt að gera fyrr en það er þá alla vega búið að leiðrétta þennan forsendubrest og endurgreiða fólki að hluta til þá fjármuni sem það hefur lagt í íbúðina og sem það með réttu á, því það er verið að láta fólk borga af lánum sem það aldrei tók og hirða eignir af fólki vegna forsendna sem það á engan þátt í nema þá að því leytinu til að það trúði ríkisstjórninni og Seðlabankanum og öllum efnahagsspám um líklega framvindu efnahagsmála þegar það keypti eignir sínar.

Þetta frumvarp væri fínt ef það hefði verið lagt fram við aðrar kringumstæður, eins og svo mörg önnur frumvörp sem hafa komið frá ríkisstjórninni, lög um greiðsluaðlögun og lög um sértæka greiðsluaðlögun, sem eru mjög brýn og fín mál ef þau hefðu verið lögð fram við eðlilegar efnahagsaðstæður þar sem þessir hlutir eru alltaf hluti af venjulegri dýnamík í stöðugu hagkerfi og alltaf einhverjir sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Að gera það með þessum hætti á þessum tíma er bjarnargreiði við fólk.

Við erum líka að fá hér inn í þingið lög um gengistryggð lán þar sem í ljós hefur komið að það fólk sem hefur ofgreitt af lánum sínum mun ekki fá ofgreiðslu sína endurgreidda. Hverjum er verið að hygla þar öðrum en fjármálafyrirtækjunum? Við erum að fá hér inn í þingið lög um fyrningarfrest á kröfum vegna gjaldþrota sem verið var að veita umsagnir um og sem við skiluðum okkar umsögnum um til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra í gær. Það frumvarp er að okkar mati það meingallað að það er í raun nánast ónýtt. Það er galopið fyrir allar þær leiðir til riftunar á þeim fyrningarfresti sem það á að hafa fyrir dómstólum. Það frumvarp er það galopið fyrir þær leiðir að, eins og ég sagði áðan, það er nánast ónýtt. (Utanrrh.: Hefurðu séð það?) Ég hef séð það, já. (Utanrrh.: Ertu búinn að lesa það í þaula?) Búinn að lesa það í þaula, hæstv. utanríkisráðherra.

Þetta finnst mér dapurlegt því að þetta frumvarp þyrfti ekki að vera svona. Eina ákvæðið sem þyrfti að vera þarna er að fyrningarfresturinn sé riftanlegur ef sýnt er að um saknæmt athæfi sé að ræða en það er aukaatriði og það er tekið fram í texta athugasemda með frumvarpinu að það ásamt öðrum atriðum, svo sem ámælisverðri háttsemi, sé ástæða til riftunar á frestun. Ámælisverð háttsemi er allt mögulegt og það getur m.a. talist til ámælisverðrar háttsemi að greiða ekki af lánum sínum þannig að við skulum athuga að hér er ekki verið að ganga nógu langt.

Fyrir marga sem standa fyrir utan þinghúsið er hér í gangi einhvers konar leiksýning þar sem verið er að slengja fram frumvörpum sem eiga að nafninu til að hjálpa til í þeim hörmungum sem fólk er að ganga í gegnum í húsnæðismálum en gera það ekki. Þetta eru eftiráaðgerðir sem koma of seint. Það þarf að laga stöðuna í skuldamálum heimilanna áður en fólk verður gjaldþrota, það er það sem skiptir máli. Það þarf að laga stöðuna hjá fólki sem hefur keypt sér húsnæði með lánum frá Íbúðalánasjóði áður en Íbúðalánasjóður hirðir af því eignirnar. Það er ekki leið út úr vandanum að hirða af fólki eignir og leigja því þær aftur. Það er ekki verið að taka á vandanum heldur er einfaldlega verið að slá hér um einhverjum pappírum og frumvörpum sem við aðrar kringumstæður væru mjög góð en eru eins og ástandið er í dag, eins og ég sagði áðan, í flestum tilvikum einhvers konar bjarnargreiði.

Hvers vegna er ekki búið að finna út úr því hvernig á að laga þennan forsendubrest? Ríkisstjórnin virðist koma af fjöllum þegar talað er um að eina leiðin út úr þessu sé almenn niðurfærsla á lánum eða leiðrétting vegna þess forsendubrests sem varð. Þetta hefur verið talað um í bráðum tvö ár en ríkisstjórnin virðist koma algjörlega af fjöllum.

Ég fagna því að í þessu frumvarpi og sumum öðrum sem hafa komið fram örlar aðeins á nýrri hugsun en endurtek það sem ég sagði að þau hafa komið fram of seint og eru ekki nógu vel úr garði gerð til að gera það gagn sem þau þurfa að gera og það er ekki gott.



[14:22]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hélt frábærlega góðar ræður í morgun sem a.m.k. hrærðu mig til umhugsunar um það sem skiptir máli í samfélaginu. Ef ég vissi ekki betur mundi ég halda að hv. þingmaður væri kaldhæðinn náungi sem tryði ekki á neitt miðað við ræðu hans áðan. Það virðist sem hann telji að ríkisstjórnin sé beinlínis að leggja lykkju á leið sína til að slá upp einhverri spilaborg og plata fólk.

Þegar hv. þingmaður talar um frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og sem hann hefur lofsungið hér, a.m.k. á síðustu mánuðum, eins og fyrningarfrumvarpið, og kallar þau bjarnargreiða við fólk, þá er ég hættur að skilja þessa hluti. Mér finnst að hv. þingmaður eigi ekki að leyfa sér að slá það frumvarp út af borðinu áður en það er komið til umræðu í þinginu, svo einfalt er það nú.

Það er ekki búið að leggja það mál fram. Það kann vel að vera að á því séu einhverjir ágallar en það er þá ekki vegna þess að sá ágæti ráðherra sem flytur málið geri það viljandi, það vitum við báðir að hann vill gera sitt besta í því máli. Það frumvarp var að ýmsu leyti byggt á öðru frumvarpi sem hér var flutt af einum af hv. þingmönnum stjórnarliðsins og ég veit að hv. þm. Þór Saari tók því ákaflega vel á sínum tíma.

Hv. þingmaður getur talað svona þegar komið er að skapadægri þess frumvarps, þegar búið er að ganga frá því af hálfu þingsins og ef hv. þingmaður er enn þeirrar skoðunar eftir að hafa sjálfur fengið tækifæri til að koma með sínar röksemdir að það sé jafnhundónýtt og hann er að segja, ja, þá skal ég sitja í mínum stól og þegja. En þar til að hv. þingmaður hefur séð hver viðbrögð þingsins og stjórnarliðsins verða, m.a. við þeim ábendingum sem hann kann að koma fram með við það frumvarp, finnst mér að hann eigi að spara sér svona yfirlýsingar.



[14:24]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gleðja hæstv. utanríkisráðherra með því að við höfum farið mjög ítarlega yfir þetta frumvarp sem leggja skal fram um fyrningarfresti. Við höfum sent ráðherranum athugasemdir við það. Við höfum gert athugasemdir við að það verði lagt fram í óbreyttri mynd og það hefur ekki verið hlustað á þær athugasemdir. Engu að síður var ákveðið að leggja frumvarpið fram.

Hér í upphafi var talað um að það ætti að vera samráð og það ætti að senda stjórnarandstöðunni frumvörpin til að hún gæti gert við þau athugasemdir. Það er ekki mikið samráð þegar ekki er hlustað á athugasemdirnar og þetta frumvarp er einfaldlega meingallað. Það er ekkert hægt að líta fram hjá því að það er galopið fyrir öll slit á fyrningarfresti og þar með nær það ekki tilgangi sínum.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða það hér er einfaldlega sú að undanfarna fimm daga hefur ríkisstjórnin barið á brjóst sér í fjölmiðlum og opinberlega sagt að hún sé á leiðinni með frumvörp sem muni hjálpa heimilunum og þar á meðal frumvarp um fyrningarfrest á kröfum sem ég hef fagnað. Ég hefði aldrei tekið undir þau fagnaðarlæti ef ég hefði vitað hvernig þetta frumvarp liti út, það er bara þannig. Ég get ekki tekið þátt í þeim leikaraskap sem ríkisstjórnin er í og ég bið hæstv. utanríkisráðherra einfaldlega að virða það og að kynna sér frumvarpið vel. Ég skal lesa það yfir með honum og benda á hvaða ágallar eru á því þannig að við getum þá kannski reynt að laga það í sameiningu því að svo sannarlega þarf að gera það og svo sannarlega mun ég styðja það ef frumvarpið verður lagað, það er engin hætta á öðru.



[14:25]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það afar óviðkunnanlegt að hér sé verið að ræða efni frumvarps sem er ekki einu sinni búið að leggja fram. Það fóru fram málefnalegar umræður um það frumvarp í ríkisstjórn á sínum tíma. Sá sem lagði það fram hlustaði með opin eyru bæði tvö á þær umræður og tók tillit til ábendinga.

Í krafti yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um samráð við stjórnarandstöðuna hafa a.m.k. leiðtogar stjórnarandstöðunnar fengið að sjá þetta frumvarp. Það er ekki þar með sagt að í því felist að það eigi að hlusta á allt og taka allt til greina sem þeir segja. Hins vegar hefur hv. þm. Þór Saari, sem er með greindari og gleggri mönnum á þessu sviði, fullkominn rétt til þess þegar málið kemur hér fyrir í þinginu að koma með sínar athugasemdir og rökræða þær, og ef það er ekki tekið tillit til þeirra og hann getur sýnt fram á það með rökum þá, eins og ég sagði hér áðan, skal ég sitja í mínu sæti og þegja. En þangað til tel ég að hann hafi engan móralskan rétt til að slá það út af borðinu sem af góðum vilja er gert og góðum huga og byggt, að því er menn a.m.k. eru að reyna að gera, á þeim ráðleggingum sem hafa komið fram, m.a. frá hv. þingmanni. Það er því allt of snemmt að ætla að slá þetta út af borðinu og ég vek athygli hv. þingmanns á því að það frumvarp sem hann hélt ræður um hér í fyrra og dásamaði gekk þó ekki hvað frestinn varðar jafnlangt og það frumvarp sem ríkisstjórnin er að setja fram hér núna. Hv. þingmaður ætti þá frekar að verja tíma sínum og þrótti í að sýna fram á það með hvaða hætti megi bæta frumvarpið og t.d. það sem hv. þingmaður las upp hér áðan, það væri þá hægt að setja skilgreiningar við það ákvæði þannig að það væri ekki eins víðtækt og hv. þingmaður er að tala um.

Spyrjum að leikslokum. Ef leikslok verða þannig að hv. þingmaður telur að hann geti enn þá sagt að þetta sé hundónýtt þá getur hann komið og lamið okkur í hausinn með því, en ekki fyrr.



[14:27]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki sagt að þetta frumvarp sé hundónýtt, ég hef sagt að það nái ekki markmiðum sínum eins og það er. Þegar frumvarp kemur svona frá ríkisstjórninni og það eru gerðar athugasemdir við það sem ekki eru teknar til greina þá veit maður alveg hvað er fram undan. Frumvarpið fer væntanlega til allsherjarnefndar og þar verða ekki gerðar á því neinar breytingar. Það væri annaðhvort búið að fresta því að leggja fram frumvarpið eða taka tillit til athugasemdanna áður en það er lagt fram, það er það sem ég geri athugasemdir við.

Það er með þetta frumvarp — og ég veit sjálfur að það er lagt fram af góðum hug og samið af góðum hug af hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra því að ég hef setið fimm eða sex af þeim fundum þar sem þessi mál hafa verið rædd og enginn ráðherranna ber þessi mál meira fyrir brjósti en sá hæstv. ráðherra. Það er ekki þar með sagt að öll þau mál sem komið hafa fram þurfi að hljóta hér einhverja hallelújameðferð alveg sama hvernig þau líta út.

Ég legg einfaldlega til að þessu frumvarpi verði kippt í liðinn hið snarasta áður en það verður lagt fram, það einfaldar málsmeðferðina og flýtir málinu í gegnum þingið. Við búum ekki við slíkar aðstæður í samfélaginu í dag að við eigum að leggja út í kapp með það hvort þingmál sem lögð eru fram nái markmiðum sínum eða ekki. Auðvitað eiga þau að ná markmiðum sínum, til þess er verið að leggja þau fram. Þetta frumvarp nær ekki því markmiði að veita fólki skjól frá kröfuhöfum sínum eftir tvö ár.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.