139. löggjafarþing — 17. fundur
 21. október 2010.
friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010, fyrri umræða.
þáltill. utanrmn., 93. mál. — Þskj. 99.

[14:29]
Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Þann 8. október sl. tilkynnti nóbelsverðlaunanefndin norska að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlyti friðarverðlaun Nóbels í ár. Liu Xiaobo hefur barist fyrir lýðræðisumbótum og mannréttindum í Kína í meira en tvo áratugi og var í fararbroddi þeirra sem kröfðust lýðræðisumbóta á torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar þarlend stjórnvöld sendu herinn til að brjóta þau mótmæli á bak aftur. Hann hefur um langt skeið setið í fangelsi í Kína fyrst og fremst fyrir skoðanir sínar.

Norska nóbelsverðlaunanefndin segir í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni um að veita honum friðarverðlaun Nóbels að Kínverjar þurfi nú, þegar Kína sé orðið eitt helsta efnahagsveldi heims, að taka á sig aukna ábyrgð og nefndin bendir á að Kínverjar hafi brotið gegn ýmsum alþjóðasáttmálum auk þess sem kínversk stjórnvöld brjóti þau ákvæði um tjáningarfrelsi sem sé að finna í sjálfri stjórnarskrá Kína.

Þann 11. október sl. var birt yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, þar sem hann hvetur kínversk stjórnvöld til að sleppa Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels, úr haldi og segir ráðherra jafnframt í yfirlýsingu sinni að enginn eigi að sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar. Þar kemur jafnframt fram það álit ráðherrans að nóbelsverðlaunanefndin norska hafi tekið ákvörðun sína að vel ígrunduðu máli og Liu Xiaobo sé verðugur handhafi nóbelsverðlauna og það sé mikilvæg viðurkenning á framlagi hans fyrir baráttu- og mannréttindamálum í Kína.

Málefni friðarverðlaunahafans voru til umræðu á fundi utanríkismálanefndar í síðustu viku. Þar kom fram almennur stuðningur við þá stefnu og yfirlýsingu sem komið hefur fram af hálfu íslenskra stjórnvalda. Sú umræða hefur enn fremur farið fram í þingsal hvort rétt sé að Alþingi samþykki sérstaka ályktun af þessu tilefni þar sem því sé fagnað að friðarverðlaun Nóbels árið 2010 hafi fallið þessum þekkta baráttumanni fyrir mannréttindum í Kína í skaut. Á fundi nefndarinnar í gær varð samstaða um það meðal allra viðstaddra nefndarmanna að leggja fram tillögu til þingsályktunar um friðarverðlaunahafa Nóbels fyrir árið 2010 og er hún hér til umræðu nú á þskj. 99 og er flutt af utanríkismálanefnd. Texti tillögurnar er svohljóðandi:

„Alþingi fagnar því að Liu Xiaobo hafi verið veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í Kína. Alþingi skorar á kínversk stjórnvöld að leysa Liu Xiaobo úr haldi nú þegar og sýna með því í verki virðingu sína fyrir mannréttindum.“

Með þessum hætti og ef Alþingi samþykkir þessa þingsályktunartillögu er það með þeim ráðum sem Alþingi býr yfir að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi Íslands við mannréttindabaráttu í Kína og taka undir með öðrum, bæði innan lands og víða um heim, sem hafa tjáð skoðanir sínar í þessu efni með sama hætti þar sem kínversk stjórnvöld eru eindregið hvött til að láta þennan mannréttindafrömuð lausan og styðja þannig, ekki bara í orði heldur einnig á borði, við mannréttindabaráttu þar sem annars staðar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu. Hún skýrir sig sjálf. Henni fylgir engin sérstök greinargerð, ég held að hún skýri sig algerlega sjálf. Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu.



[14:34]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér stöndum við á Alþingi Íslendinga að ræða mál sem var tekið fram fyrir önnur mál sem liggja fyrir þinginu. Þetta mál var sett á dagskrá þingsins með afbrigðum, svo áríðandi er málið. Ég fór fram á það í morgun og í gærkvöldi að þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarpið færi á dagskrá en við því var ekki orðið vegna þess að það hafði svo hátt númer. Nú vill svo til að þetta mál hefur hærra númer.

Úr því að ríkisstjórnin hefur þessa forgangsröðun, að ræða um friðarverðlaunahafa Nóbels árið 2010, í stað þess að ræða málefni heimilanna og fjölskyldnanna í landinu, þá er það vel, sýnir jafnvel skort á málefnum á dagskrá þingsins. Því vil ég spyrja hv. flutningsmann þessarar tillögu: Sér hann ekkert athugavert við þessa forgangsröðun hjá löggjafanum, að vera að ræða þessi mál á meðan ekki er verið að hjálpa heimilum og fjölskyldum í landinu?



[14:35]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Árið 2009 var Liu Xiaobo handtekinn og dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir það eitt að skrifa undir stefnuyfirlýsingu lýðræðissinna, stefnu sem gerir kröfu um aukið frelsi, mannréttindi og lýðræðisumbætur í Kína. Þessi maður öðlaðist heimsfrægð fyrir skömmu þegar hann hlaut friðarverðlaun Nóbels en hann er helst þekktur í heimalandinu fyrir ritstörf og fræðimennsku ásamt því að vera mikill baráttumaður fyrir lýðræðisumbótum og mannréttindum.

Í umsögn nóbelsnefndarinnar segir að Liu Xiaobo sé eitt helsta tákn viðamikillar baráttu fyrir mannréttindum í Kína. En Liu hefur gert fleira. Hann hefur jafnframt, ásamt fleiri kínverskum fræðimönnum, skrifað undir yfirlýsingu með yfirskriftinni 12 tillögur um hvernig takast má á við ástandið í Tíbet þar sem m.a. er kallað eftir því að kínverskir ráðamenn hefji samræður við Dalai Lama. Ég er í Alþjóðasambandi þingmanna frá 30 löndum sem láta sig málefni Tíbets varða og tók þátt í sambærilegri yfirlýsingu um að Liu verði tafarlaust látinn laus úr fangelsi.

Ég fagna því þessari þingsályktun frá utanríkismálanefnd og vona að ef nægilega mörg þjóðþing láti frá sér fara sambærilegar yfirlýsingar að skáldið og lýðræðissinninn Liu fái að láta að sér kveða sem friðarverðlaunahafi Nóbels.

Ég vil líka beina sérstökum þökkum til hv. þm. Marðar Árnasonar fyrir að koma þessari ályktun í þann farveg sem hún er nú og ég vil þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir snögg viðbrögð. Hver dagur í fangelsi er langur og ég hef jafnframt heyrt að kona Liu Xiaobo sé í stofufangelsi og finnst full ástæða til að vekja athygli á því að hún fái um frjálst höfuð strokið. Ég er mjög ánægð með þingið okkar. Þó að það sé margt annað sem brennur meira á varðandi okkar þjóð þá man ég svo vel eftir stórkostlega sterkri setningu frá vini mínum frá Tíbet þegar við stóðum og mótmæltum fyrir utan kínverska sendiráðið á sínum tíma. Hann sagði: Ef þú hjálpar ekki nágranna þínum að slökkva eldinn í hans húsi mun eldurinn fara yfir í þitt hús.



[14:38]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og þakka hinni háu utanríkismálanefnd og formanni hennar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir snörp viðbrögð og vel unnið verk. Ég tel að það sé eðlilegt að Alþingi bregðist við þegar aðstæður eins og þessar koma upp og held að það hafi nú gerst með miklum sóma. Ég er ánægður með að hafa átt svolítinn hlut að því verki. Við verðum að muna, af því að okkur hættir til að stara upp á Arnarhólinn og aðra þá staði þar sem framkvæmdarvaldið hefur hreiðrað um sig, að þó að ríkisstjórnin kunni að sitja í heiðurssessi þá er Alþingi Íslendinga sá staður þar sem æðsta valdið kemur saman. Það getur jafnvel skipt meira máli fyrir þjóðina og orðstír hennar að Alþingi samþykki ályktun af þessu tagi frekar en að framkvæmdarvaldshafarnir geri það eða forsetinn beiti sér með einhverjum slíkum hætti fyrir utan að þeir eiga stundum ekki jafnhægt um vik og Alþingi alla jafna.

Ég verð að segja að mér finnst ekki viðkunnanlegt að einn hv. þingmaður komi inn í þetta mál með athugasemdir sem ekki eiga þar heima en það verður hver að fljúga sem hann er fiðraður eins og sagt var fyrr í dag. Það fyrnist yfir þann þátt málsins meðan hitt, held ég, stendur nokkra hríð að Alþingi hefur stutt nóbelsnefndina og hinn kínverska andófsmann og ljóðskáld, sem hann er, í sinni baráttu.



[14:40]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mannréttindi eru æðri öllum öðrum gildum, þau eru æðri trúarbrögðum o.s.frv. þó að réttur til trúar sé hluti af mannréttindum. Okkur ber að standa vörð um mannréttindi hvar sem þau eru og þess vegna er ég mjög fylgjandi þessari tillögu. Þessi maður situr í fangelsi vegna skoðana sinna, nýtur ekki málfrelsis, og þar er verið að brjóta mannréttindi. Þrátt fyrir alla efnahagslega hagsmuni sem við gætum haft af því að fara þessa leið þá eru mannréttindi miklu sterkari en allir aðrir hagsmunir og það verða menn að skilja, líka Kínverjar.

Þetta er vel meint tillaga, hún er jákvæð og hún felst í því að skora á kínversk stjórnvöld að leysa þennan mann úr haldi og sýna þannig virðingu fyrir mannréttindum. Það hefur mjög margt breyst í Kína, afskaplega margt. Þarna var hungursneyð fyrir ekki mörgum áratugum og þegar menn deyja úr hungri eru mannréttindi ekki sérstaklega mikils virt. Það er mikil og ég mundi segja að mörgu leyti jákvæð þróun í Kína en þetta er einmitt sá hlutur sem kínversk stjórnvöld ættu að skoða og fara í gegnum og taka jákvætt í svona ábendingar frá okkur um að gæta að mannréttindum.



Till. gengur til síðari umr.