139. löggjafarþing — 21. fundur
 5. nóvember 2010.
um fundarstjórn.

greinargerð með atkvæði og mál til umræðu.

[11:38]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir fundarstjórn og ábendinguna um það hvenær við eigum að óska eftir að fá að gera grein fyrir atkvæði okkar. Ég vil hins vegar fá að ræða fundarstjórnina, þ.e. að þetta mál skuli vera komið á dagskrá. Ég studdi það og styð það.

Ég vil hins vegar jafnframt fá að koma þeim óskum á framfæri við stjórn þingsins að mál Hreyfingarinnar fái sem allra fyrst að koma á dagskrá. Það er mjög mikilvægt að við ræðum hér um tillögur til að fást við efnahagsvanda heimila og fyrirtækja.

Við framsóknarmenn ræddum tillögur okkar í gær, Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ræða sínar í dag, Hreyfingin vonandi á mánudaginn og vonandi förum við svo að sjá eitthvað af tillögum frá ríkisstjórninni á næstu dögum. (Gripið fram í: … ræða þetta alla daga …)



[11:40]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér varð það á áðan að biðja of seint um að fá að gera grein fyrir atkvæði mínu og ætla ekki að misnota þetta tækifæri til að gera það, en vil lýsa yfir stuðningi við fundarstjórn forseta í þessu máli. Það er auðvitað þannig að menn eiga að láta þetta í ljós fyrir fram. Ég vil jafnframt hvetja forseta til að skýra betur út fyrir mönnum muninn á því annars vegar að gera grein fyrir atkvæði sínu og hins vegar að ræða um atkvæðagreiðsluna sem einnig hefur nokkuð þvælst saman hér í þróun þingstarfa.

Það er auðvitað þannig að umræða er umræða og greinargerð er greinargerð og við það skal staðið. Þá verður að hafa það þó að ég hafi ekki getað gert grein fyrir samstöðu minni með Margréti Tryggvadóttur og skilningi í því máli sem hún ræddi hér áðan og greiddi atkvæði í samræmi við það.