139. löggjafarþing — 21. fundur
 5. nóvember 2010.
aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, fyrri umræða.
þáltill. BjarnB o.fl., 141. mál. — Þskj. 156.

[11:41]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að greitt skuli hafa verið fyrir því að þetta mál kæmist á dagskrá. Það er greinilega samhljómur um það hér í þingsalnum að málið varði brýnt umræðuefni. Mig langar til að byrja á því að segja að hvarvetna þar sem maður kemur í þessu þjóðfélagi og spyr fólk um trú þess á framtíðina kemur mjög skýrt fram að fólk hefur þá sannfæringu í brjósti að við á Íslandi getum búið íbúunum bestu lífskjör í heimi, a.m.k. sambærileg við það sem best gerist í heiminum. Þessi trú er alveg ótrúlega sterk. Það eru allir sammála um það að við erum að ganga í gegnum tímabundna erfiðleika, en langflestir þeirra sem maður spyr eru sannfærðir um að við Íslendingar getum búið fólkinu í þessu landi lífskjör sem jafnast á við það sem best gerist í heiminum.

Það er mjög athyglisvert að kalla eftir skýringum á því hvers vegna fólk hefur þessa trú. Hún byggir í fyrsta lagi á því að við höfum verið gæfusöm í fortíðinni þegar við höfum tekið ákvarðanir um að nýta auðlindirnar. Það hefur gefið okkur forskot. Auðvitað höfum við náttúrulegt forskot í gegnum þær auðlindir sem við höfum úr að spila, bæði í hafinu og á landi, í iðrum jarðar. Það er líka vegna þess að við höfum fjárfest í innviðum þessa samfélags. Við höfum byggt hér upp velferðarkerfi og samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnustarfsemina.

Við höfum líka fjárfest í menntakerfinu. Við höfum byggt hér upp öflugt heilbrigðiskerfi með þéttriðnu öryggisneti með því sem við erum að gera hjá almannatryggingum. Við höfum allar forsendur þess að halda áfram á sömu braut og við höfum gert undanfarna áratugi og endurheimta lífskjörin tiltölulega hratt.

Þessum tillögum er teflt fram á þinginu vegna þess að við teljum að ríkisstjórnin sé á rangri leið. Við leggjum þetta hérna til og við tökum til umfjöllunar þrjá meginflokka aðgerða sem verður að grípa til núna svo við snúum af þeirri röngu leið sem stjórnvöld hafa verið á og komumst aftur á sporið. Það fyrsta sem við tökum til umfjöllunar í þessari þingsályktunartillögu er aðgerðir fyrir heimilin.

Mig langar til að byrja á því að segja áður en ég fer inn í einstakar aðgerðir fyrir heimilin að hér er ekki að finna tillögu um flatan niðurskurð skulda. Menn hafa kallað eftir því og ríkisstjórnin hefur ekki enn tekið af skarið um það hvort í slíkar aðgerðir verður farið. Okkar niðurstaða er sú að það yrði gríðarlega kostnaðarsöm aðgerð sem mundi ekki nýtast þeim sem eru í brýnustu þörfinni. Þess vegna er mikilvægt að menn fari að komast að niðurstöðu um þetta atriði og hætti að senda misvísandi skilaboð út í samfélagið.

Tillögur okkar snúa annars vegar að þeim sem eru í allra verstu stöðunni. Ef við tökum það til umfjöllunar fyrst er t.d. gengið út frá því að þeir sem missa húsnæði sitt eigi kost á að leigja það aftur á sanngjörnum kjörum. Ég tek það fram að þessu úrræði er til að dreifa í kerfinu í dag, en leigukjörin sem hafa staðið til boða eru ósanngjörn, algjörlega óraunhæf. Sá sem ekki getur staðið undir, segjum 100 þús. kr. afborgun af lánum og tapar húsnæðinu á þeirri forsendu getur ekki greitt 200 þús. kr. í leigu. (Gripið fram í: Þetta er …) Þannig hefur það verið í framkvæmd.

Við erum líka með tillögur hér sem snúa að þeim sem hafa tapað atvinnu sinni, að þeir fái heimild til að frysta greiðslur vegna fasteignalána í sex mánuði til að fá lágmarksskjól, til þess að þá safnist t.d. ekki upp dráttarvextir vegna gjaldfellinga.

Það úrræði sem mun skila mestum árangri fyrir þá sem hafa treyst á úrræðin sem þó er búið að lögfesta er það sem snýr að greiðsluaðlöguninni. Þar bendum við á hversu þröng neysluviðmiðin eru. Það hefur sýnt sig m.a. í því að sumir þeirra sem hafa farið í greiðsluaðlögun lenda aftur í vanskilum og því hversu mikil tregða hefur verið hjá fólki til að leita greiðsluaðlögunar. Við teljum að neysluviðmiðin séu þar allt of lág og endurspegli ekki þann vilja þingsins að nýta þetta úrræði til að koma til móts við forsendubrest.

Ef menn eru þeirrar skoðunar að hér hafi orðið ákveðinn forsendubrestur og að af þeirri ástæðu sé tilefni til að koma á úrræði á borð við greiðsluaðlögunina er ekki hægt að þröngva öllum í gegnum það úrræði á forsendum neysluviðmiða sem eru í engum takti við það sem fólk hefur lifað eftir undanfarin ár.

Að auki teljum við hægt að ryðja úr vegi öðrum hindrunum sem er að finna í löggjöfinni og reglunum um þessi mál sem leiða til þess að færri verða samþykktir í greiðsluaðlögun en ella. Ég tek þar sem dæmi viðmiðin sem snúa að ábyrgri fjármálahegðun í aðdraganda hrunsins. Þetta er afar matskennt atriði og eftir því sem menn ætla að fara að túlka það þrengra komast færri að.

Þeir sem hafa verið að mæta til umboðsmanns skuldara og brjóta þar stóla og borð, ryðja niður skilrúmum, hafa m.a. vísað til þessa þegar fólk er spurt hvað hafi vakað fyrir því á árinu 2006 eða 2007 í aðdraganda hrunsins þegar það greip til þessarar eða hinnar ráðstöfunarinnar. Ætli menn að elta ólar við þetta endalaust munu menn einungis valda þeim vonbrigðum sem þeir þykjast vera að koma til hjálpar.

Hér vil ég síðan koma inn á það sem talið er upp í 3. tölulið vegna aðgerða fyrir heimilin, það að fólk eigi kost á því að slá niður greiðslubyrði vegna fasteignalána sinna um 50% í þrjú ár gegn lengingu lánanna. Í umræðu um aðgerðir okkar vegna skuldavanda heimilanna er gjarnan bent á þetta úrræði og sagt: Ja, það eina sem sjálfstæðismenn vilja gera er að lengja í lánunum og fresta því að taka á vandamálunum. Þetta er rangt. Þetta er alrangt vegna þess að greiðsluaðlögunin er auðvitað stóra úrræðið fyrir þá sem sækjast eftir því að fá felldar niður skuldir. Það er úrræðið sem við á þinginu sammæltumst um í fyrra. Þó að skilyrðin hafi verið allt of þröng á þeim tíma og allt of seint brugðist við af hálfu stjórnvalda til að rýmka þau er það meginúrræðið sem fólk á að nýta sér til þess að fá skuldir felldar niður.

Við hliðina á þeim stóra hópi sem þarf að fá skuldir felldar niður er stóra millistéttin í þessu landi sem er að berjast við að láta enda ná saman, rétt svo getur það í dag en sér ekki fram á vöxt kaupmáttar á næstu árum og er að sligast undan þessum nýju byrðum. Fyrir allan þennan stóra hóp teljum við skynsamlegt að leiða inn í löggjöfina úrræði sem gerir honum kleift að slá á greiðslubyrði sína um allt að helming þannig að hann fái tímabundið svigrúm til að losa sig við yfirdráttarheimildina. Þannig getur hann losað sig við aðrar dýrari skuldir og komið betra skipulagi á fjármál sín án þess að gera samning um að nýta allar ráðstöfunartekjur sínar í þágu lánardrottna eftir greiðsluaðlögunarúrræðinu og án þess að fara í einhvers konar nauðasamninga, heldur gerir einfaldlega þessi almenna opna leið fólki kleift að fá skjól í þennan tíma. Höfum það hugfast að þessi þrjú ár sem við horfum til eru árin þar sem við trúum því að við komum atvinnustarfseminni aftur í gang þannig að fólk endurheimti möguleikann til að taka að sér yfirvinnu, þannig að fólk fái aftur fullt starfshlutfall, það sem er komið núna niður í segjum 80–90% starfshlutfall, og að mörg heimili endurheimti aftur báðar fyrirvinnurnar í þeim tilvikum þar sem önnur hefur tapað starfinu. Það er í gegnum þennan tíma sem við erum sérstaklega að horfa til að hjálpa fólki.

Hér er ekki tími til þess að fara nákvæmlega ofan í öll önnur úrræði. Ég bara vek athygli á því að í 7. töluliðnum erum við að tala um að styrkja vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur í fjárlagafrumvarpinu um að fara í hina áttina, að veikja vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið. Það eru kolrangar áherslur vegna þess að ef einhvers staðar er með markvissum hætti hægt að ná til þeirra sem eru í mestum greiðsluvanda við þær aðstæður sem núna eru uppi er það í gegnum þessi kerfi. Það er einmitt þar og miklu frekar en í gegnum flatar niðurfærslur.

Ég get minnt hér á að við teljum að stimpilgjöldin eigi að fella niður í þeim tilgangi sem fram kemur í tillögunni. Ég ætla að leyfa mér að taka hérna örstutta stund í að minnast á að það verður auðvitað opnað fyrir það að fólk geti fengið afskrifaðar skuldir á sig án þess að hafa farið í greiðsluaðlögun eða í gegnum gjaldþrot eða nauðasamninga án þess að það leiði til skattlagningar. Ef fyrir liggur að fólk hefur afhent allar eigur sínar, hvers vegna ættum við á löggjafarþinginu að vilja skattleggja sérstaklega þá sem eru tilbúnir utan nauðasamninga, gjaldþrots eða greiðsluaðlögunar að afhenda allar eigur sínar? Af hverju ættum við að vilja skattleggja niðurfellingu skulda á það fólk? Við eigum ekki að vera með slíkar reglur. Því þarf að breyta.

Ég verð að nýta tímann vel til að komast að kaflanum um atvinnulífið. Það er algjört grundvallaratriði og stærsta hagsmunamál heimilanna í dag að okkur takist að fjölga störfum að nýju. Við höfum nefnt 22 þús. störf. Það eru störfin sem hafa tapast. Við vitum að 11–12 þús. manns eru atvinnulaus í dag og þess vegna er eðlilegt að sumir spyrji hvers vegna sé þörf fyrir að skapa 22 þús. störf. Jú, við þurfum að endurheimta lífskjörin í þessu landi og framleiðsluna sem áður var. Við þurfum að ná aftur þeim fyrri styrk sem við höfðum. Það gerum við með því að skapa hér á landi 22 þús. störf.

Hér eru tillögur um að grípa til aðgerða sem ávallt hafa reynst okkur vel. Við teljum að nú séu skilyrði til þess að auka kvótann um 35 þús. tonn, en þá er algjört grundvallaratriði að úthlutunin fari fram innan kerfisins eins og það er í dag. Fari menn hina leiðina sem sjávarútvegsráðherra mælir stanslaust fyrir, ætli menn að halda áfram á lofti hugmyndinni um fyrningarleiðina, munu menn einungis grafa undan fjárfestingu í þessari grein, auka á óvissuna og óstöðugleikann í kringum greinina og það mun leiða til sóunar. Það er bara það sem mun gerast. Við eigum að taka af skarið um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins. Við eigum að setja vinnu um endurskoðun þess í þann farveg sem við höfum sammælst um. Fyrir liggur skýrsla endurskoðunarnefndarinnar og við eigum að byggja samræðuna áfram á þeirri niðurstöðu og úthlutunin á að fara fram innan kerfisins.

Við færum fyrir því rök í greinargerðinni sem ég ætla ekki að rekja hér í smáatriðum að stofnarnir hafi vaxið svo ört undanfarin ár að það séu full vísindaleg rök fyrir því að bæta nú við nýtingarhlutfall stofnsins. Bæði hrygningarstofninn og viðmiðunarstofninn hafa verið að stækka. Það eru skilyrði uppi sem rúmast innan hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar (Gripið fram í: Nohh.) til þess að auka við þorskkvótann.

Við eigum líka að taka af skarið með fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Það bara gengur ekki að við völd í þessu landi sé ríkisstjórn sem hefur enga ákveðna stefnu um það hvort eigi að virkja, hvort menn vilji fá fjárfestingar inn í landið, hvort það sé stuðningur við verkefni eins og Helguvík á Suðurnesjunum eða önnur slík mál. Það bara gengur ekki lengur.

Ríkisstjórnin verður að fara að horfast í augu við það að ruglið og hringlandahátturinn í kringum t.d. Magma-málið veldur tjóni. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að koma í ræðustól og halda einhverju öðru fram. Nú síðast í þessari viku var lögð áhersla á að eignarhluturinn í HS Orku yrði ríkisvæddur, það yrði einhvers konar eignarnám. Þessari umræðu verður að fara að ljúka. Ef menn eru með einhverjar væntingar um að orkusölusamningar takist við fjárfestana á Suðurnesjunum, þá sem vilja reisa álver í Helguvík, geta menn ekki haldið á lofti hugmyndum um ríkisvæðingu orkunýtingarfyrirtækjanna. Þetta bara gengur ekki lengur.

Við tölum um að beita hvata til að örva hagkerfið. Það er hægt að nota skattkerfið í margvíslegum tilgangi til örvunar. Gefum t.d. fyrirtækjum sem vilja ráða til sín fólk skattalegt hagræði af því í stað þess að leggja tryggingagjald á nýju störfin.

Loks verð ég að segja í örfáum orðum að í 3. kafla þessarar tillögu — þetta er auðvitað allt of stuttur tími til að fara yfir þetta stóra mál — tölum við um ríkisreksturinn. Bara þannig að það sé sagt hér: Við viljum að markmiðum um (Forseti hringir.) jöfnuð í ríkisfjármálunum eins og hann birtist í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra (Forseti hringir.) stjórnvalda verði náð þannig að við verðum hér með hallalaus fjárlög árið 2012. Það þýðir mikinn niðurskurð (Forseti hringir.) (Utanrrh.: 2013.) — 2013. Það þýðir mikinn (Forseti hringir.) niðurskurð en við höfum enga aðra kosti en að fara að (Forseti hringir.) endurhugsa það hvernig við stöndum að opinberum rekstri.



[11:57]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru margar góðar tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn flytur hér. Ég get sagt það að ég styð margar þeirra og hef lýst stuðningi við sumar. Ég styð t.d. allar nema eina af þeim atvinnutillögum sem þarna er að finna.

Hv. þingmann skorti hins vegar tíma til þess að fara í eitt algjört lykilatriði í þessum tillögum. Ég sé þegar ég les þær að talað er um að það eigi að taka til baka, byrja á næsta ári og síðan árið 2012, allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Samt sem áður á að skila hallalausum fjárlögum árið 2013. Hvernig í ósköpunum á að gera það? Jú, hv. þingmaður sagði hérna: Auðvitað þarf að fara í mikinn niðurskurð. En til þess að þetta dæmi Sjálfstæðisflokksins gangi upp þarf augljóslega að fara í botnlausan niðurskurð.

Ég tek þessum tillögum vel en þær eru hins vegar óreiknaðar þrátt fyrir alla reiknimeistara Sjálfstæðisflokksins. Það er sjálfsagt að fara yfir þessar tillögur. Þær þarf þó að reikna. Þessar tillögur Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) held ég einfaldlega að gangi ekki upp. Þær munu leiða til (Forseti hringir.) slíks niðurskurðar í félagslega kerfinu að við höfum (Forseti hringir.) aldrei séð annað eins áður (Forseti hringir.) ef það verður farið eftir þessu. (Forseti hringir.) (BJJ: Rólegur.)



[11:58]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þennan punkt upp af því að það er eðlilegt að fólk spyrji: Er hægt að taka til baka skattahækkanirnar? Við leggjum áherslu á það til að koma súrefni til heimilanna og hins vinnandi manns og til þess að létta byrðum af atvinnustarfseminni. Þetta er hægt ef mönnum tekst að skapa ný störf. 12 þús. ný störf munu skila ríkinu 36 milljörðum kr. Og við eigum þá alveg eftir. Til allra frestuðu skattteknanna í séreignarsparnaðinum er líka hægt að sækja 70–80 milljarða kr.

Það sem er alvarlegt í tíðindum dagsins í dag er að allar hagvaxtarspár sem okkur berast eru um minni hagvöxt á næsta ári og þar af leiðandi færri störf en við horfðum til í upphafi þessa árs. (Gripið fram í.) Hvað þýðir það? Það þýðir að það þarf að skera meira niður eins og hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af. Okkar tillögur eru um að snúa þessari þróun við, tryggja að (Forseti hringir.) hér verði hagvöxtur, að þannig komi ný störf. (Forseti hringir.) Það mun skila ríkinu tekjum. (Forseti hringir.)



[11:59]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég greiddi fyrir því að þetta mál kæmi á dagskrá er að ég hef trú á samkeppni hugmynda. Mér finnst að stjórnmálaflokkar eigi að leggja fram valkosti. Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram valkost. Ég tek mark á honum og það er margt mjög athyglisvert í honum. En það verður að vera klárt þegar menn leggja fram svona tillögur að þær gangi upp. Að halda því fram að það sé hægt að taka allar skattahækkanirnar til baka, fara í þessa einskiptistekjuöflun sem lífeyrissjóðirnir eru og samt sem áður skila (ÓN: Einskiptis?) hallalausum — víst er það einskiptis — fjárlögum 2013 er, ég skal ekki halda því fram að það sé óskhyggja en ég vil sjá það skýrt á blaði að það gangi upp. Ég leyfi mér að efast um það. (Gripið fram í.)

Ég óttast að það sem þessar tillögur feli í sér sé miklu skelfilegri niðurskurður í hinu félagslega kerfi á velferðarsviðinu en við höfum nokkru sinni áður séð.

Síðan ætla ég, frú forseti, að nota síðustu þrjár sekúndur mínar til þess að segja: Ég er að reyna hér að eiga (Forseti hringir.) málefnalega umræðu. Þarna situr fólk úti í sal (Forseti hringir.) sem reynir að svipta mig (Forseti hringir.) málfrelsinu í þessa eina mínútu. Maður getur ekki (Forseti hringir.) talað (Gripið fram í.) vegna þess að þetta fólk er hrætt við sínar eigin tillögur. [Frammíköll í þingsal.]



[12:01]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti biður hv. þingmenn enn og aftur að virða tímamörk.



[12:01]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra verður ekki sakaður um að grípa hér fram í hjá ræðumönnum svona að jafnaði.

Gengur þetta upp? Við erum að segja: Við viljum verja 10 milljörðum kr. á næsta ári til þess að létta byrðum af heimilunum. Við viljum verja öðrum 11 milljörðum kr. í að létta byrðum af atvinnustarfseminni. Þetta er vel hægt ef menn skapa þau störf sem eru í pípunum. Það er vel hægt að gera það.

Ég rakti áðan að það mun leiða til u.þ.b. 36 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkið ef þessi störf verða til sem hér er farið yfir að eru bein afleiðing af því að framkvæmdir hefjist t.d. í Helguvík. Af þeirri framkvæmd einni mun ríkið hafa u.þ.b. milljarð á mánuði í tekjuauka.

Það sem við hæstv. ráðherra erum í raun og veru að takast á um er hver ábati ríkisins sé af því að skapa ný störf. Hvort eigum við að fara þá leið að skera niður og skattleggja (Forseti hringir.) eða fara hagvaxtarleiðina? (Forseti hringir.) Ég vil að við vöxum út úr þessu vandamáli.



[12:02]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki skrýtið að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra segja að hann mundi styðja margar af þessum góðu tillögum sem koma fram hjá Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mótaði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá efnahagsáætlun sem núverandi ríkisstjórn hefur meira og minna starfað eftir. Þar má telja endurreisn á allt of stóru og veiku bankakerfi, tryggingu allra innstæðna, jafnvægi í ríkisjöfnuði á mjög skömmum tíma 2013 sem hv. þm. Bjarni Benediktsson var að staðfesta að hann vill enn þá halda sig við og að það mætti helst ekki koma nálægt því að leiðrétta skuldir heimilanna.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort þessi þingsályktunartillaga þýði að Sjálfstæðisflokkurinn telji þá áætlun sem þau stóðu að hafa mistekist. Eða er þetta bara frekari útfærsla á stefnu Þingvallastjórnarinnar?



[12:03]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Allar þær tillögur sem hér eru lagðar fram rúmast innan efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2008. En er það rétt sem ég heyri frá hv. þingmanni að hann harmi það að innstæður hafi verið tryggðar? Er hv. þingmaður að tala fyrir því hér að ríkisstjórnin hefði átt að láta alla innstæðueigendur á Íslandi afskiptalausa? Er það það sem hún mælir fyrir? Er hv. þingmaður að tala fyrir því að atvinnustarfsemin á Íslandi hefði betur verið skilin eftir með samskipti sín við skilanefndirnar en ekki starfhæfa banka í landinu? Er það það sem hún er að tala fyrir? Hvers konar gagnrýni er það sem hún er að koma hérna fram með? Ég bara næ því ekki.



[12:04]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti minnir hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta en ekki hv. þingmanna.



[12:04]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft fyrir því að reikna áður en hann ákvað að tryggja allar innstæður hefði hann fengið þá tölu að ef hann hefði haldið sig við lágmarkstrygginguna hefði hann átt að tryggja innstæður rúmlega 90% allra innstæðueigenda á Íslandi.

Síðan staðfesti seðlabankastjóri núna í vikunni að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin vegna þess að íslenska bankakerfið væri of veikburða þannig að þeir fóru þá í staðinn í vaxtalækkun. Þetta er staðfesting á því sem t.d. Bankasýslan benti á, að nýja bankakerfið sem var endurreist samkvæmt áætlun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er allt of stórt og veikburða.

Ég spyr enn á ný: Er þetta þá staðfesting á því að sú áætlun hafi mistekist? Eða er verið að reyna að sparsla í þessi risastóru göt?



[12:05]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er hér haldið á lofti rangri staðhæfingu um að ríkið hafi ábyrgst allar innstæður í landinu. Við komum þeim í skjól í nýju bankakerfi. Það eru bankar sem eru í eigu kröfuhafanna annars vegar og ríkissjóðs í gegnum Landsbankann hins vegar sem skulda þessar innstæður í dag. Á móti þeim eru eignir þessara banka. Ríkið er ekki í ábyrgð fyrir innstæðunum, það er bara risastór misskilningur, en sú aðgerð var skynsamleg á sínum tíma.

Hv. þingmaður hefur komið upp og talað fyrir því að við hefðum átt að skilja allt sem var umfram lágmarkstrygginguna bara eftir og láta reka á reiðanum. Er hv. þingmaður virkilega að tala fyrir því að allar innstæður í þessu landi, sama hvort þær voru í eigu sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana, hjálparsamtaka þess vegna, ríkisins eða einstaklinga, fjölskyldnanna í þessu landi, sparifjáreigenda, hefði átt að láta reka á reiðanum? Áttum við bara að sjá til hvort þrotabú gömlu bankanna gætu ráðið við að endurgreiða þær? Ég skil ekki þennan málflutning. (Gripið fram í.) Ég bara næ þessu ekki. (Forseti hringir.)



[12:06]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir framsöguna og þær hugmyndir sem hér liggja til grundvallar. Það er margt mjög gott í þessum hugmyndum. Sérstaklega er ég ánægður með þann kafla sem fjallar um að beita hvötum til að örva hagkerfið þar sem menn tala um skattafslætti til fyrirtækja, þá sérstaklega t.d. að menn leggi til að afsláttur af tryggingagjaldi verði veittur til fyrirtækja sem geta sýnt fram á að störfum hafi fjölgað árin 2011 og 2012 en þeirri hugmynd hreyfði ég einmitt hér í þessum þingsal fyrir réttum mánuði. Ég er hlynntur skattafslætti til hlutabréfakaupa, undanþágu frá tryggingagjaldi og fleiru góðu. Spurningar set ég hins vegar við aðra hluti sem ég mundi kannski hafa undir yfirskriftinni „lán hjá framtíðinni“, t.d. aukningu kvóta og skattlagningu lífeyristekna séreignarsparnaðar.

Ég spyr hv. þingmann: Í hvað ætla menn að nota þessa peninga?

Mín nálgun er sú að við eigum fyrst að örva hagkerfið, örva atvinnulífið til að fjölga störfum, um það erum við sammála, og síðan eigum við að fara í umtalsverðar skattalækkanir og hjálpa þannig atvinnulífinu. Við eigum ekki að setja (Forseti hringir.) rammann í uppnám sem ég óttast að hér sé (Forseti hringir.) verið að leggja til.



[12:07]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé nú ekki mikill ágreiningur í raun og veru milli mín og hv. þingmanns. Staðan er nefnilega sú að ef örvunaraðgerðir einar og sér mundu leysa vandann, ef við gætum bara með því að lækka skattana skapað þau störf sem hér þarf að gera, værum við í fínum málum. En staðan er því miður ekki þannig. Þess vegna þurfum við að grípa til róttækari aðgerða, eins og þeirra að auka nýtingarhlutfallið í fiskveiðunum. Við þurfum að gera það. Við getum vel gert það án þess að taka lán hjá framtíðinni, eins og hv. þingmaður orðaði það. Jú, það má svo sem halda því fram að stofnarnir vaxi hægar, en þeir verða samt sem áður í vexti.

Við erum líka að tala fyrir fjárfestingu í orkufrekum verkefnum. Það er á engan hátt lán hjá framtíðinni.

Hann nefndi hér séreignarsparnaðinn. Þetta er í sjálfu sér bara kerfisbreyting. Af því að hér kom fram í umræðunni að þetta væri einskiptisaðgerð vil ég láta þess getið að hún mun skila u.þ.b. 11 milljörðum kr. á ári miðað við núverandi forsendur (Forseti hringir.) um alla framtíð, fyrir utan þennan (Forseti hringir.) stóra stabba sem kemur í upphafi.



[12:08]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ein mínúta í tvígang er náttúrlega allt of stuttur tími til að taka hér málefnalega umræðu um þessar tillögur sem eru um mjög margt góðar. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar setja fram spurningu við eitt sem hér kemur fram hvað varðar álverið í Helguvík. Stíflan þar er í orkusölusamningnum á milli þess sem býr til orkuna og þess sem kaupir hana. Þar eru menn ekki sammála um verð, þess vegna er það mál komið fyrir gerðardóm í Svíþjóð. Svo gjarnan vildi ég ýta því máli eitthvað áfram, en það er bara ekki í höndum okkar alþingismanna. Við hv. þingmaður erum sammála um að við eigum að örva hagkerfið með skattalegum hvötum en ég tel við eigum ekki að fara að eyða peningum sem eru ekki til í dag. Við eigum að gefa fyrirtækjum vilyrði um að við munum hjálpa þeim þegar ríkissjóður getur komið til móts við þau árið 2011 eða 2012 eða síðar, en þau vita þá af því í dag og geta gert ráð fyrir því í viðskiptaáætlunum sínum að þau muni fá afslætti ef þau leggjast í framkvæmdir eða nýráðningar núna. Um það erum við sammála en ég tel að við ættum fyrst að taka það skref og örva hagkerfið og svo eigum við að gefa loforð um (Forseti hringir.) hluti sem við eigum (Forseti hringir.) kannski í erfiðleikum með að standa við eins og rammi okkar er (Forseti hringir.) í dag.



[12:09]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Langflestar af þeim aðgerðum sem við tínum til sem eru að okkar mati til þess fallnar að örva hagkerfið eru aðgerðir sem má sjá að ríkisstjórnir annarra landa hafa gripið til. Það er sama hvort við lítum til Bandaríkjanna eða Bretlands eða annarra Evrópuríkja, þetta eru aðgerðir þar sem ríkisstjórnir leggja áherslu á að fjölga störfum, koma fólki af atvinnuleysisskrá þannig að það sé ekki á bótakerfunum og koma því til starfa þannig að það geti hjálpað sér sjálft. (Gripið fram í.) Það er það sem er algjört lykilatriði varðandi örvunaraðgerðir.

Stóri hausverkurinn í raun og veru, þau neikvæðu tíðindi sem okkur hafa borist að undanförnu gegnum hagvaxtarspárnar, er að allt það sem hv. þingmaður er að kalla eftir að gerist er að fara í hina áttina. Við erum sammála um að hér þurfi að búa til hagvöxt en hagvaxtarspárnar eru allar á leiðinni niður. (Forseti hringir.) Hagvöxtur á næsta ári verður (Forseti hringir.) minni en við (Forseti hringir.) vonuðumst til í upphafi ársins (Forseti hringir.) þannig að hans eigin ríkisstjórn stendur sig ekki (Forseti hringir.) í stykkinu.



[12:11]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér finnst ýmislegt óljóst í tillögum sjálfstæðismanna varðandi skattbreytingar sem þeir kalla eftir með þessum tillögum sínum. Í fyrsta lagi: Hvaða kostnaður er lagður á heildarbreytingarnar sem Sjálfstæðisflokkurinn vill sjá? Fyrir næsta ár er talið að þær muni kosta um 10 milljarða kr. en fyrir árið 2012 og liggur það ekki skýrt fyrir. Kannski í leiðinni: Hvaða breytingar stendur til að afturkalla og verður að gera að mati Sjálfstæðisflokksins í þessum tillögum? Það finnst mér ekki vera skýrt.

Hér er talað um að stighækkandi tekjuskattur leiði til þess að fólk skjóti sér undan skattlagningu o.s.frv. Leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að bakkað verði út úr þrepaskipta skattkerfinu? Er verið að kalla eftir því að fara aftur í sama farið og var fyrir þær skattbreytingar sem voru í fyrra og aftur í það ferli sem var hér á árum áður í því flata (Forseti hringir.) skattkerfi sem var? (Forseti hringir.)

Fyrst og fremst: Hvaða breytingar (Forseti hringir.) er verið að (Forseti hringir.) leggja til að (Forseti hringir.) verði farið í hér? (Forseti hringir.) Hvað koma þær (Forseti hringir.) til með að kosta? (Forseti hringir.)



[12:12]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að leggja til 10 milljarða kr. skattalækkanir á einstaklingana og rúmlega það á fyrirtækin strax á næsta ári. Síðan segjum við hér: Það þarf að fara í heildarendurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að einfalda það og draga til baka þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur hér innleitt.

Það er spurt um þrepaskipta skattkerfið. Ég er á móti því. Ég er á móti því að við séum með þrepaskipt skattkerfi og háan persónuafslátt. Það er rangt hjá hv. þingmanni að við séum með flatan skatt á Íslandi vegna þess að við erum með hæsta persónuafsláttinn af öllum Norðurlöndunum. Það er leið til þess að skattakúrfan sé ekki flöt, heldur fer hún stigvaxandi. Þeim mun hærri tekjur sem menn eru með, þeim mun hærra hlutfall tekna þeirra fer í skatta. Það er rangt að lýsa gamla skattkerfinu þannig að þetta sé flatur skattur.

Óhagkvæmu skattarnir eru t.d. staðgreiðsluskattar á fjármagnstekjur og skattlagning á arðgreiðslur úr dótturfélögum, kolefnisgjöldin, tryggingagjaldið og annað þess háttar. (Forseti hringir.) Þetta eru óhagkvæmu skattarnir sem eru að fæla fjárfesta frá landinu.



[12:13]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta voru nokkuð skýr svör frá formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, um að afnema þrepaskipta skattkerfið sem þó skilar þeim árangri, miðað við álagningu síðasta árs, að færa skattbyrðina af lágum launum yfir á hærri launin. Það hefur tekist, gögn (TÞH: Þetta kerfi var ekki á síðasta ári.) sýna það og það á að afturkalla (Gripið fram í.) þær skattbreytingar að mati Sjálfstæðisflokksins og fara aftur í það sem áður var.

Það er annar þrepaskattur í gangi sem heitir auðlegðarskattur og er lagður á hreina eign umfram háar upphæðir, 120 millj. kr. hjá hjónum ef ég man rétt. Um lágan skatt er að ræða. Er Sjálfstæðisflokkurinn að leggja til að sá skattur verði sömuleiðis afturkallaður, þ.e. þrepaskattkerfið annars vegar í tekjuskattskerfinu og sömuleiðis auðlegðarskatturinn? Er Sjálfstæðisflokkurinn að leggja til að það verði afturkallað sömuleiðis?



[12:14]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sá mikli árangur sem hv. þingmaður vísar til að hafi orðið er miðaður við tölulegar staðreyndir frá árinu 2009 en staðreyndin er sú að þrepaskipta skattkerfið var þá ekki komið til framkvæmda þannig að það er ákveðinn misskilningur í þessu hjá hv. þingmanni.

Árangurinn sem hv. þingmaður telur að hafi hlotist af því að hækka skatta á alla tekjuhópa er mjög mikill misskilningur almennt séð. Það kemur engum til góða að hækka skatta á lágar tekjur, eins og ríkisstjórnin hefur gert með afnámi verðtryggingar persónuafsláttarins, og millitekjur og á hæstu tekjurnar og síðan að bæta við nýja auðlegðarskattinum sem er auðvitað ekkert annað en eignarskattur með nýju nafni ofan á allt saman. Við greiddum atkvæði á móti auðlegðarskattinum á sínum tíma og við erum enn þá á móti auðlegðarskattinum. Nú eru Svíar að afnema þennan eignarskatt sem sósíaldemókratarnir komu á á sínum tíma vegna þess að þeir sem eru í því skattþrepi eru einfaldlega að fara frá Svíþjóð. Það sama mun gerast á Íslandi. Það er nú þegar hafið að þeir sem eru á því skattabili (Forseti hringir.) eru að leita leiða til að koma sér undan skattinum. (Forseti hringir.) Þeim er bæði gert ókleift að (Forseti hringir.) ávaxta sparifé sitt (Forseti hringir.) með fáránlega hárri skattlagningu og (Forseti hringir.) þeir þurfa síðan að selja eigur sínar til að standa undir (Forseti hringir.) auðlegðarskattinum.



[12:16]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Tillögur sjálfstæðismanna í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er verið að ræða um að stuðli að sátt við heimilin og verji velferðina með ábyrgum ríkisfjármálum, efli atvinnulífið og fjölgi störfum er af svipuðum meiði og við ræddum í gær frá framsóknarmönnum um samvinnuráð um þjóðarsátt. Ég skildi reyndar ekki af hverju samvinnuráðið var ekki kallað samvinnuráð íslenskra stjórnvalda, skammstafað SÍS, það hefði verið táknrænt. Af því að tíminn er naumur hér í umræðu um þingsályktunartillöguna, aðeins 10 mínútur hjá hverjum þingmanni, ætla ég að gera að umræðuefni það sem hér kemur fram um að efla atvinnu og gefa í hvað það varðar. Það er auðvitað annað grundvallaratriði sem blasir við öllum stjórnmálamönnum í dag og okkur hér á Alþingi, það er að gefa í hvað varðar atvinnulífið, skapa forsendur til að atvinnulífið geti eflst. Við ætlum ekki að skapa störf. Ríkið, Alþingi, á ekki að skapa störf, við eigum að skapa forsendur.

Hitt atriðið er skuldavandi heimilanna. Ég hef ekki tíma til að ræða hann hér nú en geri það kannski síðar í dag. Ég minni hins vegar á að það er verið að vinna í honum og vonandi koma út úr þeirri vinnu vitrænar tillögur þar sem þeim verður hjálpað mest sem þurfa á mestri hjálp að halda, en þeim ekki hjálpað neitt sem ekki þurfa á hjálp að halda.

Virðulegi forseti. Yfir í atvinnumálin. Það er grundvallaratriði til þess að við vinnum okkur út úr þessari kreppu að við aukum hér hagvöxt og aftur hagvöxt. Það er forsenda fyrir því að við vinnum okkur út úr þessari kreppu. Þess vegna verðum við að snúa okkur að uppgangi atvinnulífsins og efla störf. Þá er allt undir að mínu mati, alveg sama hvað það heitir. Í þeirri kreppu sem við erum í þar sem 11 þús. samborgarar okkar ganga lausir, sem kostar okkur 27–30 milljarða á ári, getum við ekkert flokkað úr og sagt: Þetta kemur ekki til greina, en frekar hitt.

Virðulegi forseti. Þetta er grundvallaratriðið. Í þessu sambandi vil ég líka nefna endurskipulagningu á þeim fyrirtækjum sem eru í gangi í dag. Þau eru mörg og eru í vandræðum og þurfa fjárhagslega endurskipulagningu. Það er talað um að það séu 5–6 þús. fyrirtæki. Ef okkur tækist að gefa í hvað það varðar og bankakerfið hjálpaði þessum fyrirtækjum og hvert og eitt einasta þeirra gæti ráðið einn starfsmann (Gripið fram í: Já.) væru það 5–6 þús. störf, eða ef það væri bara annað hvert fyrirtæki væru það 2.500–3.000 störf. Þar að auki eru stór verkefni í gangi sem geta komið líka hér til og eiga að koma til.

Ef það er rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hér áðan, að við gætum aukið tekjur ríkissjóðs um 36 milljarða kr. með því að skapa hér 12 þús. störf, að 12 þús. menn komist til vinnu, þ.e. þeir sem ganga atvinnulausir í dag, minni ég á að við losnum við 27–30 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur. (TÞH: Það er inni í þessu.) Þetta eru 60–66 milljarðar kr., virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það er inni í þessu.) Niðurskurðurinn hjá okkur núna er 33 milljarðar kr. og það er allt vitlaust af þeim niðurskurði, eðlilega. Þannig þarf að gefa í og þá er alveg sama hvað er undir.

Við þurfum hér erlenda fjárfestingu. Hún hefur jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og er nauðsynleg vegna þess að við þurfum meira eigið fé í verkefnin, í atvinnuuppbygginguna og þeir peningar eru ekki mikið til hér í íslenskum fyrirtækjum í dag.

Þegar við tölum núna um að Helguvíkurverkefnið, sem mikið er rætt um, sé stopp vegna stjórnvalda spyr ég: Er það sanngjarnt og er rétt að segja það? Ég held ekki, virðulegi forseti. Sem nýkjörinn formaður iðnaðarnefndar hef ég farið svolítið vel ofan í þessi mál. Að mínu mati kemur þar fram að ekki hefur staðið á hlutum þar. Skipulagsmál Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar eru hins vegar ekki búin, forsendan fyrir frekari stækkun Reykjanesvirkjunar.

Eftir hrun hefur lánshæfi fyrirtækja versnað til mikilla muna sem kemur fram í verri lánskjörum og erfiðleikum við fjármögnun. Ætli það sé ekki eitt af atriðunum þarna suður frá sem stoppar okkur núna?

Framvinda verkefnisins suður í Helguvík sem er að byggja þar 270 þús. tonna álver í þremur áföngum, sem var byrjað áður en þessi ríkisstjórn var mynduð og var samið um að mundi hafa sinn framgang, mun hafa sinn framgang eins og formaður Vinstri grænna hefur sagt á íbúafundi þar suður frá. Þess vegna þarf að gefa í hvað þetta varðar og gera allt sem hægt er að gera til að koma þessu verkefni í fluggír á ný. Þarna munu skapast 10 þús. ársverk og upp undir 12 milljarðar kr. munu koma til ríkisins á hverju ári. Þetta verkefni er hins vegar að mínu mati núna í höndum hagsmunaaðilanna, þ.e. framkvæmdaraðilans og orkufyrirtækjanna, auk þeirra sveitarfélaga sem eiga orkuauðlindirnar eins og ég talaði um um áðan, sem þurfa að ná samkomulagi um verð á raforku og öðrum þáttum. Þá er hægt að gefa í. Ég hef fulla trú á því að sá mánuður sem nýbyrjaður er gæti verið sá mánuður þegar þetta mál klárast og að verkefnið fari þá á fulla ferð, hvort sem það er 1. áfangi eða 1. og 2. áfangi.

Virðulegi forseti. Úr því að ég er að tala um stóriðjuna á Suðurnesjum er hún studd af hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, bæði Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins. Fulltrúar Norðurþings óskuðu eftir að koma á fund iðnaðarnefndar sem haldinn var með fjarfundabúnaði og tókst mjög vel. Þar kynntu Norðurþingsmenn fyrir nefndinni nýja úttekt sem gerð hefur verið á 180 þús. tonna álver við Húsavík. Staðreyndin er sú að arðsemismat af þeirri stærð er gott og þetta verkefni mun ganga upp peningalega ef stofnað verður eitt félag um þetta allt saman, þar með talið orkuvinnsluna til að byrja með. Þess vegna held ég líka, virðulegi forseti, að það verkefni fái aukið vægi og verði gert meira í núna á næstu mánuðum þegar hinu sameiginlega umhverfismati lýkur í lok þessa mánaðar. Þá verður að skoða þá þætti. Það er umdeilt atriði.

Margir tala um að það eigi að gera eitthvað þar annað en að byggja álver. Norðurþingsmenn og Þingeyingar hafa beðið eftir þessu einhverju öðru í langan, langan tíma — en það hefur bara ekki komið. Ég þekki það sem þingmaður þessa kjördæmis að fyrir hverjar einustu kosningar voru boðaðar einhverjar verksmiðjur sem áttu að skapa störf, en engin þeirra er komin. Núverandi hæstv. iðnaðarráðherra setti þetta í ákveðinn farveg með samstarfsnefnd sem gengur undir nafninu Naust. Sú nefnd er að skila niðurstöðu þar sem tvö atriði eru sett í A-flokk og annað þeirra er álverksmiðja sem byggð yrði þar. Þar eru líklegir tveir aðilar, Alcoa og Bonsai.

Ef ekkert annað er í boði eftir þessa miklu athugun en að gera þetta þar eigum við að einhenda okkur í það verkefni. Það eina sem Norðlendingar og Þingeyingar fara fram á er í raun og veru þetta, þá langar að virkja orkuna sem er á norðausturhorninu, búa til úr henni atvinnu og útflutningsverðmæti til að skapa störf. Það er nákvæmlega það sama og er búið að gera í tugi ára uppi á Hellisheiði. Orkuveita Reykjavíkur hefur virkjað allt uppi á Hellisheiði og gerir enn með stuðningi allra flokka sem hafa átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta er flott, þetta eru miklar virkjanir um heitt vatn og rafmagn. Fyrirtækið hefur verið gott hingað til og vonandi leysist úr fjárhagsvanda þess þegar krónan styrkist enn frekar. Þessi orka hefur verið notuð og þá hlýtur það að vera líka með samkomulagi allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur vegna þess að allir flokkar hafa að mínu mati komið að samningum um orkusölu til álversins í Straumsvík, til álversins á Grundartanga, til stækkunar þar, og nú til framkvæmda suður í Helguvík.

Virðulegi forseti. Sá sem hér talar er enginn sérstakur unnandi þess og telur ekki að við getum leyst atvinnuvanda okkar með því að reisa álver í hverjum firði og hverri vík. Það er engin óskastaða að vera með öll eggin í sömu körfunni, sama hvort það er þetta eða eitthvað annað. En ef ekkert annað er í stöðunni, virðulegi forseti, nú þegar við erum í þessari kreppu verðum við að einhenda okkur í þetta verkefni.

Virðulegi forseti. Nú er tími minn að verða búinn. Ég ætla að nefna eitt atriði í lokin, stórátak í samgönguframkvæmdum sem líka mun skapa fjölmörg störf. Þær viðræður eru í gangi við lífeyrissjóðina, hafa gengið seint vegna þess að ekkert hefur verið til í forskrift um hvernig þetta ætti að vera, en það hefur líka gengið seint vegna þess að þegar einhver ætlar að taka lán og einhver ætlar að lána er aðalatriðið hverjir vextirnir verða. Núna er tekist á um það. Ég er hins vegar orðinn mjög bjartsýnn á að þetta verkefni klárist. Þá munu fjölmargir fá vinnu við þetta stórátak í samgönguframkvæmdum, plús það að skapa enn meira umferðaröryggi á þeim svæðum sem við ætlum að fara í.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna um leið og ég þakka sjálfstæðismönnum (Forseti hringir.) fyrir þessa þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) svo og framsóknarmönnum fyrir tillöguna í gær. Ég tel að hér sé kominn (Forseti hringir.) grundvöllur fyrir núverandi (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn og stjórnmálaflokka á Íslandi til að taka höndum saman (Forseti hringir.) og klára þessi verkefni (Forseti hringir.) sem eru svo brýn (Forseti hringir.) án þess að vera sífellt (Forseti hringir.) í fýlu og hlaupa út af (Forseti hringir.) fundum eða ekki hlaupa út af fundum.



[12:26]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðuna sem var um margt alveg prýðileg. Ég er alveg hjartanlega sammála honum í því að það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að skapa forsendur til þess að auka hér hagvöxt. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum, stóra málið er að auka hagvöxt. Það er óþolandi að sjá fólk ganga um atvinnulaust. Það er ekki bara óþolandi, það skapar endalaus vandamál. Við horfum upp á að fólk bíður hundruðum saman eftir matargjöfum og við nýtum ekki þau tækifæri sem Ísland hefur upp á að bjóða til að skapa hér atvinnu. Ég taldi að hv. þingmaður væri að tala á þeim nótum og tæki fagnandi þeim hugmyndum sem hér eru. Það skiptir auðvitað engu máli hvaðan hugmyndirnar koma, aðalatriðið er að þær komist í framkvæmd og við náum þeim markmiðum sem hv. þingmaður nefndi.

Þá erum við komin að þeim þætti málsins sem snýr að framkvæmdinni. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin og sérstaklega — kannski eingöngu, ég veit það ekki — Vinstri grænir hafa staðið gegn því að við nýttum hér þau tækifæri sem þetta land hefur upp á að bjóða. Þau hafa staðið gegn því að við sköpuðum hér atvinnu. Þau hafa þar af leiðandi staðið fyrir því að fólk er ýmist atvinnulaust eða flytur úr landi.

Ég spyr hv. þingmann í fullri einlægni: Hvað getum við gert? Það er enginn vafi í mínum huga að það er þingmeirihluti til að fara í langflest þessara verkefna sem eru nefnd. Það er þingmeirihluti fyrir því að skapa hér skilyrði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og nýta orkuna til að skapa atvinnu í landinu.

Hv. þingmaður þekkir þessi mál frá fyrstu hendi, nýkominn úr hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn. Ég spyr hann bara ráða: Hvað getum við gert? (Forseti hringir.)



[12:29]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar sem gefur mér færi á að útskýra mál mitt örlítið betur. Mér er eiginlega illa við að nota tiltekið orð, en hæstv. fjármálaráðherra hefur notað það og notaði það suður frá, „umkenningaleik“, þ.e. hverjum er um að kenna að ekki gangi betur og einhverjar uppbyggingar fari ekki af stað þarna suður frá.

Ég held að ég hafi sagt það í ræðu minni að eftir hrunið hefur lánshæfismat hrunið og vantrú erlendra aðila á að lána okkur peninga skiljanlega verið mikil. Það er hluti af því vandamáli sem við höfum átt við að etja plús að ýmis atriði varðandi umhverfismat tekur alveg óralangan tíma oft og tíðum, hefur tekið lengri tíma en ætti að gera.

Það má kannski segja sem svo að við höfum byrjað allt of seint á öllu þessu ferli. Það er því miður oft háttur okkar Íslendinga að byrja mjög seint á undirbúningi, smella svo nánast saman fingrum og segja að við þurfum að byrja á þessu á morgun. Fimm, sex, sjö, átta ára undirbúningsferli er frekar óþekkt dæmi.

Bara af því að gagnrýni hefur verið sérstaklega mikil hvað varðar þetta þarna suður frá er það þannig að þegar maður fer í gegnum þetta sér maður að það er ýmislegt sem stjórnvöld eru löngu búin að gera. Fjárfestingarsamningur var afgreiddur á Alþingi samkvæmt frumvarpi iðnaðarráðherra, Suðvesturlínur eru í útboðsferli og skipulag og leyfamál eru leyst. Virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar er í vinnslu í góðu samstarfi við Orkustofnun og HS Orku.

Engar kvartanir hafa borist vegna þess, en þar er eitt atriði og það er ekki við stjórnvöld að sakast vegna þess að stjórnvöld klára ekki skipulagsmál. Reykjanesbær og Grindavík eru öðru sinni að ljúka skipulagsferli vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar og því gæti lokið nú í haust. Orkustofnun má lögum samkvæmt ekki gefa út virkjanaleyfi fyrr en það skipulag liggur fyrir.

Þetta er grundvallaratriði í þessu máli (Forseti hringir.) plús það að fjármögnunarþátturinn er auðvitað eins og við ræddum hér áðan.



[12:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Róbert Trausti Árnason skrifaði grein í Pressuna 14. október 2010 þar sem hann rakti lið fyrir lið hvernig hæstv. umhverfisráðherra hefur þvælst fyrir í þessum orkumálum. Ég trúi því ekki í fullri einlægni að hv. þingmaður haldi því fram að það hafi ekki verið gert.

En látum orkumálin eiga sig, förum þá að ræða um önnur atvinnumál. Ræðum þau tækifæri sem eru í íslenskri heilbrigðisþjónustu, t.d. að fá hingað fólk sem annars fer til annarra landa en Íslands til að fá heilbrigðisþjónustu. Ekki þrætir hv. þingmaður fyrir að ráðherra Vinstri grænna, hæstv. núverandi dómsmála- og mannnréttindaráðherra, hafi stoppað að leigðar yrðu tómar skurðstofur sem hefðu getað gert það að verkum að hér væru komnar bæði gjaldeyristekjur og störf fyrir heilbrigðisstarfsmenn.

Hv. þingmaður hlýtur líka að gangast við því (Forseti hringir.) að menn hafa gert hér í ríkisstjórn (Forseti hringir.) það sem þeir geta (Forseti hringir.) til þess að koma í veg fyrir það að (Forseti hringir.) hægt sé að nota (Forseti hringir.) starfsemi (Forseti hringir.) eða aðstöðu (Forseti hringir.) á Keflavíkurflugvelli. (Forseti hringir.) Sleppum orkumálum, (Forseti hringir.) bara þessi tvö mál.



[12:32]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara af því að hv. þingmaður, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, ræðir um framkvæmd um einkarekið sjúkrahús suður í Reykjanesbæ, (GÞÞ: Nei, leigu á skurðstofum.) leigu á stofum, já, ég sagði á fundi þar að að mínu mati væri það þannig að ef einhverjir vildu fórna peningum sínum með því að taka áhættu á því að opna svoleiðis stofu og reka þannig starfsemi væri þeim það bara velkomið. (Gripið fram í.) Ef þeir eru með sína peninga í því gera þeir það bara og afla til þess sjúklinga. Ég var næstum búinn að segja viðskiptavina, það má nú ekki vera svoleiðis, en afla tekna þar á móti, þá er það bara þeirra mál. En það á ekki að vera þannig að um leið sé gengið í ríkissjóð til einhverra þátta í þeim efnum ef það hefur verið. Ég geri alveg mun á því hvort um ríkisrekstur er að ræða eða einkaframtak, eins og ég segi, með sínum eigin peningum til uppbyggingar og til reksturs. Ef svo er er það að mínu mati kostur eins og hver annar kostur (Forseti hringir.) sem við verðum að skoða.



[12:33]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir nokkuð jákvæða ræðu og yfirgripsmikla. Ég vil gera athugasemd við það að búið er að reisa tvö fyrirtæki í kjördæmi hans, þ.e. aflþynnuverksmiðjuna sem reist var 2007 og veitir mörgu fólki atvinnu og svo er hljóðlega verið að grafa fyrir kerverksmiðju í Reyðarfirði sem er líka í kjördæmi hans og veitir 160 manns atvinnu á byggingartímanum sem breytir stöðu ríkissjóðs. Annars vegar borgar ríkissjóður ekki atvinnuleysisbætur með fólkinu, 160 manns, sem eru um 2 milljónir á ári og hins vegar fær hann skatta frá þessu fólki af auknum tekjum þannig að þetta er mjög jákvætt.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hann talaði um ráðstafanir fyrir heimilin, að þær séu nú í bígerð og allt slíkt: Líður honum ekki illa með það að verið sé að gera ráðstafanir fyrir heimilin sem ekki byggja á raunverulegum staðreyndum? Þær upplýsingar sem eru nýjastar eru samkvæmt skattframtali, þær eru ársgamlar, og þær eru frá því fyrir dóm Hæstaréttar sem gjörbreytti stöðu 40.000 heimila til bóta. Er hann ekki sammála mér um að það þurfi að kortleggja þetta landslag áður en menn fara í gang? Hver er t.d. staða leigjenda og hvað eru þeir margir? Ég fæ ekki einu sinni tölu um það. Ég giska á að 15% þjóðarinnar séu leigjendur. Þeir búa við síhækkandi leigu og svo á að fara að skerða húsaleigubæturnar. Hjá sýslumanni í Keflavík voru 36 útburðir á leigjendum og einn vegna húseiganda sem skuldaði.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Þarf ekki að fá miklu skarpari og betri mynd af þessu landslagi sem við siglum um og ætlum að fara að gera miklar breytingar á með þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hyggst gera?



[12:36]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég get alveg tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal hvað varðar allar þær upplýsingar sem vantar til að kortleggja skuldavanda heimilanna og komast í gegnum það.

Virðulegi forseti. Það kemur upp í huga minn og rifjast upp aftur til hruntímans, upphafsins, þegar menn fóru að kanna hvað þyrfti að gera. Þá kom í ljós að hvergi í íslenska stjórnkerfinu var hægt að prenta út á einum stað í skyndi upplýsingar um skuldastöðu heimila í landinu og hvað fjölskyldur og aðrir skulda. Seðlabankinn var fenginn til þess verks. Man ég ekki nákvæmlega hvort það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða Samfylkingar og Vinstri grænna en ég man þá stund þegar fulltrúar Seðlabankans komu í ráðherrabústaðinn og kynntu þar fyrir okkur fyrstu niðurstöður og sögðu: Þetta eru samt sem áður ekki fullkomin gögn, okkur vantar upplýsingar varðandi bílalánin. Og áfram var unnið og unnið. Svo kom niðurstaðan og hún var auðvitað ekki glæsileg. En það dapra við framhaldið er svo það að vegna persónuupplýsinga þurfti að eyða öllum þessum gögnum. Þeim var bara eytt.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki almennilega hvaða orð á að nota um svona lagað. Þetta eru náttúrlega hlutir sem verða að vera á borðunum. En ég get auðvitað ekki látið hjá líða að nefna að það hefði verið gott að hafa Þjóðhagsstofnun starfandi sem hefði verið með þessi gögn og hefði getað prentað þau út.

Að lokum varðandi þetta andsvar, virðulegi forseti, þá ætla ég að taka undir það sem hv. þingmaður nefndi úr mínu kjördæmi, sem er annars vegar Becromal-verksmiðjan á Akureyri sem var byggð ákaflega hljóðlega en er stórt og mikið og gott fyrirtæki og svo hins vegar þau jákvæðu tíðindi sem komu í gær eða fyrradag um frekari uppbyggingu hjá Alcoa á Reyðarfirði þar sem verið er að byggja kerverksmiðju, sem eins (Forseti hringir.) og hér kom fram (Forseti hringir.) mun veita allt að 160 (Forseti hringir.) manns vinnu og skapa 70 framtíðarstörf. (Forseti hringir.) Þetta er einn (Forseti hringir.) af þessum jákvæðu þáttum sem hafa komið fram.



[12:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Seðlabankinn var fenginn til þessa verks í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn var þátttakandi í. Þær niðurstöður voru birtar en það vantaði ýmislegt inn í og þar var aðalþröskuldurinn Persónuvernd. Ég skora á hv. þingheim að bara núna um helgina eða í næstu viku verði fundað með Persónuvernd og fundin lausn á þessu. Það gengur ekki að þjóðfélagið sé allt að því í hættulegri stöðu vegna þess að menn finni ekki leiðir til að komast hjá Persónuvernd. Þær leiðir eru til. Það er hægt að safna svona gögnum saman í eitthvað sem mætti kalla myrkraherbergi þar sem upplýsingarnar fara inn en koma ekki aftur út. Þetta er allt hægt. Þetta eigum við að gera og við eigum að gera þetta reglulega héðan í frá. Mér finnst að þingheimur eigi að vinna í þessu núna. Ég mundi fagna því ef hv. þingmaður tæki höndum saman með okkur í því að vinna svona frumvarp hratt og vel en örugglega í næstu viku.



[12:39]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er alveg hárrétt og hv. þingmaður hefur rifjað það upp með mér þegar sú vinna hófst að ná í þessi grundvallargögn sem verða auðvitað að liggja á borðum þegar verið er að tala um hvernig koma eigi skuldsettustu heimilunum í landinu til aðstoðar og þeim sem verst hafa farið út úr hruninu. En þessi persónuverndarmál eru náttúrlega þannig og það er þungt að þurfa að segja það að við neyddumst svo til þess að fallast á að þessum gögnum væri öllum eytt eftir þá miklu vinnu og gagnaöflun sem fór fram. Það gengur náttúrlega ekki upp vegna þess að þetta er grundvallarstjórntæki, hagstjórnartæki hjá einu ríki að vera með þessar upplýsingar. Það hlýtur að vera hægt að hafa þær þannig að ekki sé hægt að rekja þær eftir persónu hvers og eins. Það er hægt að hafa það svoleiðis.

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður nefndi hér atriði varðandi atvinnuuppbygginguna sem ég gerði hér að meginmáli mínu vil ég taka það skýrt fram sem ég sagði áðan að þótt mér hafi orðið tíðrætt um tvö verkefni sem eru á næstu grösum, (Forseti hringir.) Helguvík og hugsanlega einhverjar framkvæmdir fyrir norðan, þá (Forseti hringir.) hefur margt annað verið gert fyrir ferðaþjónustuna, (Forseti hringir.) gagnaverin og fleira þó að margt (Forseti hringir.) mætti ganga betur, en (Forseti hringir.) við verðum að hafa fjölbreytt atvinnulíf, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.



[12:40]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í lokaorðum hv. þm. Kristjáns Möllers í fyrra andsvari hans að það er auðvitað meginatriði að hér séu sköpuð skilyrði fyrir fyrirtæki af öllum stærðum, lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt með þeim stórfyrirtækjum sem við höfum nú þegar og munum væntanlega sjá fleiri.

Hv. þingmaður fór sérstaklega í gegnum atvinnumálin í ræðu sinni og kemur kannski ekki á óvart að hann skyldi gera það, enda vitum við að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þeim þætti mála. Ég vil draga það fram, vegna þess að meginþunginn í ræðu hans fór auðvitað í þau stóru verkefni sem hafa verið í pípunum og sérstaklega var nefnt álverið suður með sjó, að í þeim tillögum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram og leggjum fram sem innlegg okkar í umræðuna hér fjöllum við töluvert um einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki, enda vitum við að þar er meginþungi atvinnustarfseminnar í landinu. Það er mjög mikilvægt að við alþingismenn gerum okkur grein fyrir því að það er þar sem atvinnulífið er borið uppi.

Mig langar að varpa fram spurningu til hv. þm. Kristjáns Möllers og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem var hér fyrr í dag um störf þingsins. Nú er það svo að þau verkefni sem við tilgreinum í þessari þingsályktunartillögu er m.a. að finna í þeim stöðugleikasáttmála sem undirritaður var fyrir 16 mánuðum að ég tel og hafa ekki enn komist á koppinn. Ég vil því spyrja hv. þm. Kristján Möller í ljósi þess að nú hefur þingflokkur sjálfstæðismanna lagt fram þessa ítarlegu tillögu og í gær var umræða af hálfu Framsóknarflokksins: Hvað telur þingmaðurinn að hægt sé að gera til að ná því fram að atvinnulífið komist í gang og sá hagvöxtur sem við þurfum nauðsynlega á að halda? Ég vil í því sambandi nefna að í spám Seðlabankans hefur verið dregið úr fjárfestingarþætti hagvaxtarspárinnar og þunginn settur á einkaneyslu. (Forseti hringir.) Hvað sér þingmaðurinn (Forseti hringir.) fyrir sér að hægt sé að gera?



[12:43]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér hvað varðar innspýtingu í atvinnulífið og að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar og þar með auka hagvöxt og skapa fleiri störf — ég sé fyrir mér að það gerist núna í nóvember og desember. Ég hika ekki við að halda því fram, og bera þá von í brjósti um leið að sjálfsögðu, að í mörgum þáttum sem hefur verið ágreiningur um og jafnvel rifist um en er talað um hér og sumir eru sammála og aðrir andvígir muni skapast skilyrði í nóvember og desember til að klára þau mál. Ég nefndi það sem ég tel, eftir að hafa skoðað það, vera eina atriðið sem eftir er varðandi uppbygginguna á Suðurnesjum, þ.e. samning milli þess sem ætlar að selja orku og þeirra sem ætla að kaupa hana, og að það klárist í nóvember/desember. Ég held að það strandi fyrst og fremst á því máli.

Síðan vil ég taka undir það sem hv. þingmaður sagði um lítil og meðalstór fyrirtæki. Auðvitað eru þau stór drifkraftur í atvinnulíf okkar. Ég nefndi töluna áðan, 5–6 þúsund fyrirtæki, stór og smá, og ef þau gætu hvert og eitt ráðið í eitt starf væri helmingurinn af atvinnuleysinu farið, eða segjum bara annað hvert fyrirtæki, þá væri fjórði parturinn farinn.

Virðulegi forseti. Maður á kannski ekki að taka dæmi sem tengjast manni eða maður hefur orðið áskynja um nýlega, og eins og kannski má sjá borða ég stundum fullmikið en ég fór á Hamborgarafabrikkuna ekki alls fyrir löngu og mér þótti það ákaflega merkilegt. Þar hitti ég þá ágætu menn sem drifu þá starfsemi áfram og voru að fá markaðsverðlaun í gær eða fyrradag. Við þann veitingastað sem þar var opnaður hafa orðið til hvorki meira né minna en 50 störf. (Gripið fram í: Og transfitur.) Það eru álíka mörg störf og munu skapast við kerverksmiðjuna fyrir austan. Það má taka ýmisleg fleiri dæmi en það eru vaxtarbroddar út um allt.

Grundvallaratriðið er þetta: Við þurfum (Forseti hringir.) á Alþingi að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og að (Forseti hringir.) atvinnulífið fari í gang. Við munum ekki skapa störfin. Við munum ekki (Forseti hringir.) vinna okkur út úr þessari kreppu með því að hækka skatta (Forseti hringir.) eða skera niður eða ráða í fleiri störf hjá ríkinu. Það mun ekki ganga.



[12:45]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram í lokaorðum hv. þm. Kristjáns Möllers að hann sé ekki alveg fullsáttur við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur það auðvitað að meginmarkmiði að hækka skatta eins og við þekkjum.

Ég gleðst auðvitað, eins og hv. þingmaður, yfir hverju nýju starfi sem skapast í þjóðfélaginu og að það séu aðstæður og jarðvegurinn sé með þeim hætti í atvinnustarfseminni að menn sjái hvata til þess að skapa ný fyrirtæki og ráða til sín fólk. Það er þar sem meginverkefni okkar alþingismanna liggur, að búa til þennan frjósama jarðveg.

Ég ætla ekki að fara að oftúlka orð hv. þm. Kristjáns Möllers en ég tel þó að í orðum hans hafi legið að það skipti máli fyrir okkur á Alþingi og meiri hluta þingsins að ná árangri í þessum mikilvægu málum áður en fjárlagagerðinni lýkur, að það sé sá tímarammi sem hv. þingmaður gefur sér til að leysa úr þessum brýnu málum, það þurfi að vera kominn botn í það hvernig menn sjá fyrir sér næsta ár á þessu fjárlagaári. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta mjög merkileg tíðindi.



[12:46]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni í umræðu um þessa tillögu skattana eða skattahlutann þar. Hæstv. utanríkisráðherra gerði það áðan og ég get tekið undir þau orð. Það er ekki með glöðu geði sem núverandi stjórnarflokkar hækka skatta, hvorki á atvinnulífið né fólkið í landinu, í þeirri krísu sem við erum, eftir það þjóðargjaldþrot sem varð. Og enda þótt greiðslustöðvun hafi ekki orðið og það hafi tekist á aðeins einni nóttu að koma í veg fyrir það erum við enn þá að vinna okkur út úr krísunni.

Virðulegi forseti. Þegar ég tala af þeirri bjartsýni sem ég vil hafa varðandi uppbyggingu atvinnulífs og segi að nóvember og desember verði þýðingarmiklir mánuðir í tveimur, þremur, fjórum verkefnum sem munu skapa þúsundir starfa þegar allt fer í gang, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan. Það verður ekkert endilega verkefni þessarar ríkisstjórnar að búa þau til. Við þurfum að leggja grunninn að því. Þetta verður alltaf að lokum samkomulag milli kaupenda og seljenda vöru og þjónustu sem þarf að ná fram (Forseti hringir.) og þá er sama hvort það er raforkusala (Forseti hringir.) suður frá eða lán frá lífeyrissjóðunum (Forseti hringir.) til að fara í stórátak í samgöngumálum.



[12:48]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem fram fer um þá þingsályktunartillögu sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram og tekin var á dagskrá fyrr í dag. Ég tel að það sé mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í í íslensku samfélagi að allir leggi sitt af mörkum og leggi allir fram hugmyndir sínar. Að því leyti tek ég undir með hæstv. utanríkisráðherra sem sagði að eðlilegt sé að menn tefli fram hugmyndum sínum, setji þær í pott og takist síðan á um þær eftir atvikum.

Á dagskrá í gær var líka þingsályktunartillaga frá þingmönnum Framsóknarflokksins um samvinnuráð um þjóðarsátt. Á fundum Alþingis höfum við iðulega rætt um aðgerðir, stjórnarfrumvörp til aðstoðar fólki í erfiðleikum, hvort sem það hafa verið fjárhagslegir þættir eða lagatæknilegir þættir og annað slíkt. Allir hafa lagt sitt af mörkum og það er mikilvægt.

Vegna ásakana ýmissa þingmanna í umræðum undir störfum þingsins fyrr í dag um að ríkisstjórnin gerði ekki neitt til að takast á við vandann segi ég að auðvitað eru þessar fullyrðingar rangar, það vita menn. Menn geta slegið fram slíkum fullyrðingum í hita leiksins, í hinu pólitíska þrátefli, en auðvitað vita þeir að það er ekki rétt. Verið er að vinna mjög ötullega að frekari aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vænti þess að sá starfshópur sem haft hefur umsjón með því verki ljúki skýrslu sinni um helgina og að hún verði kynnt fljótlega eftir helgi. Í kjölfarið þarf að taka upp pólitískar ákvarðanir því að það gerir ekki starfshópur á vegum stjórnvalda. Það er stjórnmálamanna að taka hinar pólitísku ákvarðanir um það til hvaða ráðstafana verður gripið. Það bíður þá okkar á þingi að takast á við það á næstu dögum.

Ég vil líka segja að ég tel að það innlegg sem Sjálfstæðisflokkurinn kemur með hér sé mikilvægt inn í þessa umræðu og að taka eigi því fagnandi að fram komi hugmyndir burt séð frá því hvort menn eru fyllilega sammála þeim öllum eða ekki eða vilja kannski draga í efa að þær skili þeim árangri sem flutningsmenn telja að þær eigi að gera. Það er eðlilegt að tekist sé á um það.

Það er engum blöðum um það að fletta, frú forseti, að við þurfum efnahagslegan vöxt. Við þurfum efnahagslegan vöxt til þess að koma okkur út úr þeirri efnahagslægð og þeim efnahagserfiðleikum sem við erum í í kjölfar þess hruns sem varð haustið 2008. Við þurfum efnahagslegan vöxt til að tryggja atvinnu í landinu, til að tryggja velferð í landinu, til að tryggja menntun í landinu, til að tryggja undirstöður fyrir framtíðarkynslóðir, komandi kynslóðir í landinu, fyrir börnin okkar. Við þurfum á því að halda.

Við þurfum líka að tryggja að sá vöxtur sé byggður á sjálfbærum forsendum. Af hverju? Vegna þess að við megum ekki búa þannig um hnútana að við göngum á auðlindirnar í einhverju fljótræði á kostnað komandi kynslóða. Þarna þarf að vera eðlilegt samspil á milli og ég vonast til að við getum verið sammála um það. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji sig þegar lagt er til að auka heildarafla þorsks um 35 þús. tonn: Er það skynsamlegt? Er það á sjálfbærum forsendum? Menn geta að sjálfsögðu deilt um það. Vísindamenn geta hugsanlega deilt um það. Stjórnmálamenn geta það líka að sjálfsögðu því að engum er betur lagið að deila um hluti en einmitt stjórnmálamönnum. En það er eðlilegt að sett séu spurningarmerki við svona hluti.

Hið sama á við um orkunýtinguna. Hún verður líka að vera á sjálfbærum forsendum. Þar hefur okkur sannarlega greint á í íslenskum stjórnmálum um langt skeið. Það verður örugglega ekkert lát á því, en það er mikilvægt frá mínum bæjardyrum séð að orkunýtingin sé á sjálfbærum forsendum.

Af því ekki er hægt að komast yfir allt á stuttum ræðutíma í fyrri umr. um þingsályktunartillögu langar mig til að ræða aðeins um skattamálin.

Hv. þingmaður Björn Valur Gíslason vakti athygli á því í andsvari við ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að náðst hefði verulegur árangur með skattkerfisbreytingunum sem gerðar voru, m.a. með því að hlífa tekjulágum hópum en leggja auknar byrðar á þá sem hafa meira úr að spila. Brugðist var við og sagt að þessar skattkerfisbreytingar hefðu ekki orðið fyrr en 2010. Það er rangt. Breytingar voru gerðar 1. júlí 2009 með því að setja sérstakan 8% aukaskatt á tekjur yfir 700 þúsundum, ef ég man rétt, og síðan tók þrepaskipti skatturinn að fullu gildi 1. janúar 2010. Það voru sannarlega komnar breytingar fyrir hálft árið 2009 inn í þær upplýsingar sem teflt var fram.

Auðvitað vitum við alveg að það hefur verið ágreiningur. Ég tek undir með hv. þingmanni Bjarna Benediktssyni um að skattkerfið er ekki alveg flatt vegna persónuafsláttarins, að sjálfsögðu, jafnvel þótt það sé ein prósentutala. En spurningin er hversu prógressíft maður vill hafa skattkerfið engu að síður. Þar höfum við verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera stigvaxandi, stighækkandi í ríkari mæli en flöt, einföld prósenta með persónuafslætti gefur. Það hefur sýnt sig með þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar að það kemur betur út fyrir tekjulága hópa.

Mér fannst líka aðeins koma fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar að þeir sem hafa úr meiru að spila muni ekki sætta sig við að borga meiri skatt, þeir muni ekki sætta sig við að borga hærri tekjuskatt, þeir muni ekki sætta sig við að borga auðlegðarskatt eða fjármagnstekjuskatt eða þess háttar, heldur fari þá bara úr landi.

Er það þá þannig að þeir sem bera meira úr býtum eigi einfaldlega að setja leikreglurnar og geti bara sagt hinum að éta það sem úti frýs? Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta ekki viðkunnanleg nálgun. Það verða auðvitað allir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, til þeirrar samfélagslegu þjónustu sem allir vilja að sé í boði, velferðarþjónustu, menntakerfið, innviði samfélags, samgöngur, fjarskipti o.s.frv. Það verða auðvitað allir að leggja sitt af mörkum og það verður að gera þá kröfu til fólks í samfélagi að það sé reiðubúið til þess að leggja sanngjarnan skerf til samfélagsins og það sé tekið tillit til þess úr hverju það hefur að spila.

Margir af þeim sem hafa úr miklu að spila hafa notið t.d. góðs menntakerfið sem samfélagið hefur byggt upp þannig að auðvitað höfum við öll einhverjar skuldbindingar við samfélagið sem við erum vaxin upp í og höfum notið góðs af, að sjálfsögðu. Við eigum að sýna það með því að við séum reiðubúin til að leggja síðan okkar af mörkum þegar við höfum aðstæður til og í samræmi við það sem við höfum aðstæður til.

Varðandi ýmsar aðrar hugmyndir sem komið hafa fram vil ég segja sumar þeirra eru þess eðlis að ég tel klárlega að vinna eigi með þær áfram. Hér er vikið að hlutum eins og fyrningarfrestinum og greiðsluaðlögun sem þegar eru til staðar að einhverju marki og má vel hugsa sér að vinna með þá frekar og gera jafnvel frekari breytingar á þeim í samræmi við hugmyndir Sjálfstæðisflokksins. Það eru möguleikar fyrir hendi í kerfinu til að lækka greiðslubyrðina að einhverju marki. Hér eru ákveðnar hugmyndir um að ganga mun lengra í því efni. Ég tel fulla ástæðu til þess að fara betur yfir það.

Ég vil nefna að það eru og hafa verið ákveðin atriði á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og sum af þeim hafa þegar komið fyrir Alþingi og verið afgreidd, eins og framlenging á heimildum til að fresta nauðungarsölum, fyrningarmálin, heimildir til umboðsmanns til þess að veita skuldugum heimilum skjól fyrir uppboðum o.fl. Við höfum verið að skoða möguleikann á heimildum til innheimtumanna ríkissjóðs til þess að fella niður skattskuldir. Við höfum fjallað um skattlagningu niðurfellinga, hvernig á að fara með þær og aukið skjól fyrir ábyrgðarmenn á lánum. Það er því ýmislegt sem rætt hefur verið. Síðan er undirbúnings frumvarp vegna gengislánanna.

Ég segi einfaldlega: Það eru auðvitað fjöldamargir þættir sem eru í skoðun og athugun á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því að fá innlegg í þá umræðu frá stjórnarandstöðuflokkunum. Ég vænti þess að það fari að sjá fyrir endann á vinnu starfshópsins sem hefur verið að greina öll þessi gögn. Ég get alveg viðurkennt að ég er sjálfur orðinn býsna óþreyjufullur gagnvart því og tel (Forseti hringir.) að það liggi á að grípa til ráðstafana (Forseti hringir.) og ég vænti þess að það verði gert fljótlega. En ég (Forseti hringir.) fagna þeirri umræðu sem fram fer um þessi mál.



[12:58]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætis móttökur við tillögur okkar sjálfstæðismanna. Þetta eru 41 tillaga. Eins og gengur og gerist er ekki hægt að ætlast til að menn séu sammála um allt. Mig langar að spyrja þingmanninn að einu. Þegar menn innbyggja hvata í skattkerfi er eitt grundvallarprinsippið að þau mega ekki vera of prógressív eða of brött því það leiðir til þess að fólk reynir að skjóta undan sköttum. Það leiðir líka til þess að fólk er ekki tilbúið að leggja jafnmikið á sig og ella. Er þingmaðurinn ósammála þessari grundvallarniðurstöðu skattahagfræðinnar, að hægt sé að byggja svona hvata inn í (Forseti hringir.) skattkerfið til að (Forseti hringir.) drífa fólk áfram á vinnumarkaði eða (Forseti hringir.) eru þetta bara einhver pseudovísindi?



[13:00]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér ekki ósammála því. Sjálfsagt er að byggja inn hvata í skattkerfið með ýmsum hætti og skattkerfið er hægt að nota og á að nota með margvíslegum hætti. Það á m.a. að nota til tekjujöfnunar í samfélaginu. Að sjálfsögðu er hægt að gera það. Menn geta líka að sjálfsögðu gengið of langt í skattalegu tilliti. Menn geta farið of hátt með skattprósentur. Hér þarf auðvitað alltaf ákveðið jafnvægi að vera til staðar.

Nú stöndum við frammi fyrir því í ríkisrekstri okkar að við þurfum bæði að skera niður og auka tekjur. Þannig er hin raunverulega staða sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum kosið að fara blandaða leið. Sumir hefðu kannski viljað hafa skattahækkanirnar meiri og niðurskurðinn minni. Aðrir hefðu viljað hafa þetta öfugt. Ég tel að við séum á skynsamlegu róli í þessu efni. Ég tek samt undir og svara játandi fyrirspurn hv. þingmanns. Að sjálfsögðu er hægt að nota skattana í þeim tilgangi sem hann talaði um, sem einhvers konar hvata til að örva hagvöxt (Forseti hringir.) í samfélaginu.



[13:01]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að við erum sammála um þetta.

Þá langar mig að víkja að því hvort þingmaðurinn hafi kynnt sér niðurstöðu skýrslu sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna bað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að gera og sjóðurinn skilaði af sér í sumar þar sem farið var yfir skattkerfið. Niðurstaðan var m.a. sú að skattkerfið hefði verið hagkvæmt og hvetjandi fyrir verðmætasköpun en að þær skattbreytingar sem höfðu verið innleiddar væru að mörgu leyti óhagkvæmar. Rétt væri að breyta skattkerfinu á þann hátt að það stuðlaði enn frekar að verðmætasköpun en það gerir nú. Í því sambandi benti sjóðurinn á að hægt væri að ná inn meiri tekjum, bara með því að raða aðeins öðruvísi upp í skattkerfinu og hafa þessa hvata fyrir hendi.

Hefur þingmaðurinn kynnt (Forseti hringir.) sér skýrsluna? Er hann ósammála þeim dómi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að (Forseti hringir.) skattkerfið hafi verið fært í (Forseti hringir.) óhagkvæmnisátt?



[13:02]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ekki las ég skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þetta efni í þaula, hins vegar var farið lauslega yfir hana á vettvangi okkar. Ef ég man rétt var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í skýrslu sinni með margvíslegar hugmyndir um frekari skatta en þegar hefur verið ráðist í og þótti sumum sem gjarnan aðhyllast frekar háa skatta nóg um. Ég man þetta þannig.

Hins vegar, ef ég man það rétt líka, var farið frekar jákvæðum orðum um íslenska skattkerfið í skýrslunni en þó sagt að ýmislegt mætti gera miklu betra. Ég viðurkenni að skýrsluna kann ég ekki í þaula en við ræddum hana lauslega á okkar vettvangi.

Ég tel að þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu (Forseti hringir.) séu réttlátar og (Forseti hringir.) auki jöfnuð í samfélaginu. Ég tel (Forseti hringir.) mikilvægt að skattkerfinu sé beitt í þeim tilgangi.



[13:04]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ánægður að heyra hjá hv. þingmanni að hann lagði áherslu á hagvöxt vegna þess að það er í raun og veru megininntakið í okkar tillögu, sérstaklega að skapa atvinnu í gegnum hagvöxt. Ríkisstjórnin hefur ekki svarað spurningunni um hvernig við búum til þann hagvöxt ef ekki er farið eftir þeim leiðum sem við leggjum til, þ.e. með því að veiða meira, nýta orkuna og laða hingað þá fjárfesta sem hafa sýnt áhuga. Ef ekki á að fara þær leiðir, hvernig á þá að búa til hagvöxtinn? Möguleikar okkar til hagvaxtar eru í raun og veru það sem skilur okkur frá öðrum ríkjum sem eru í kreppu eins og t.d. Spáni, Portúgal og Ítalíu og öðrum slíkum ríkjum — þau eiga ekki þá möguleika sem við höfum úr að spila. Þegar okkur hefur gengið hvað best að auka lífskjörin á Íslandi hefur það verið á þeim tímum sem við höfum gripið tækifærin til aukins hagvaxtar. Þannig höfum við í gegnum tíðina náð að auka kaupmátt og náð betri lífskjörum og betra velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfis en við höfum haft (Forseti hringir.) fram til þess tíma.



[13:05]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áðan í andsvari að Sjálfstæðisflokkurinn legði mikla áherslu á að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, þau væru hryggjarstykkið í atvinnulífi okkar. Ég er sammála því. Ég tel skipta miklu máli að almenna atvinnulífið í landinu nái vopnum sínum á nýjan leik og fari að vaxa og blómstra. Í gegnum það tel ég að hagvöxtur verði.

Ég tel að núna séu mörg jákvæð teikn á lofti hjá okkur og jákvæðir hlutir að gerast. Verðbólgan hefur verið á niðurleið. Vextirnir hafa verið á niðurleið. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi. Ég tel því að ýmislegt bendi til þess að almenna atvinnulífið í landinu fari nú að ná sér á strik og það mun sannarlega leiða til aukins hagvaxtar.



[13:06]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að ná hagvexti þar sem störfin eru flest í landinu. Það er hjá litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Eitt af því versta sem hefur gerst hér í krísunni síðan ríkisstjórnin tók við er sú stöðnun sem hefur ríkt varðandi endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja. Talið er að um 7.000 fyrirtæki þurfi endurskipulagningu en einungis nokkur hundruð þeirra hafa fengið hana hjá bönkunum.

Aðeins um skattana. Spurt er hvort við látum í það skína að þeir sem best hafi það á Íslandi eigi ekki að leggja mest til. Jú, við erum þeirrar skoðunar en það eru efri mörk á því hversu langt má ganga í aukinni skattlagningu á þá sem eru eignamestir og tekjuhæstir. Horfum t.d. til Danmerkur. Þar höfum við skýrt dæmi úr fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Í Danmörku eru 1.000 milljarðar danskra króna í skattaskjólum frá atvinnustarfsemi og einstaklingum vegna þess hvernig skattstigið er þar — 1.000 milljarðar danskra króna sem skatturinn er á eftir. Ég er ekki að segja að peningar muni streyma í þeim mæli úr landinu vegna (Forseti hringir.) auðlegðarskattsins en hann er eignarskattur og eignarskattur er ósanngjarn (Forseti hringir.) vegna þess að hann leggst ekki bara á stóreignafólk. Hann leggst líka á fólk á efri árum, eldri borgara og þá (Forseti hringir.) sem hafa notað (Forseti hringir.) starfsævi sína til (Forseti hringir.) að koma sér upp ævisparnaði.



[13:07]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að endurskipulagning skuldsettra fyrirtækja hefur gengið of hægt — allt of hægt. Þar tel ég að sé fyrst og fremst við bankakerfið að sakast. Ég tel mjög brýnt að spýtt sé í lófana hvað þau mál varðar.

Varðandi eignarskattinn. Ég er ekki sammála hv. þingmanni að eignarskatturinn eða auðlegðarskatturinn eða hvað menn vilja kalla hann sé ósanngjarn vegna þess að hann leggist ekki bara á stóreignafólk. Eins og hann er útfærður er auðvitað gert ráð fyrir frítekjumarki þannig að hann leggst á hreina eign yfir 100 millj. kr. eða rúmlega það hjá hjónum. Það eru auðvitað mikil verðmæti þegar um er að ræða hreina eign að frátöldum skuldum. Þetta eru stórar og miklar eignir. Mér finnst það nú ekki vera gustuk fyrir þá sem þannig er ástatt um að leggja eitthvað til í formi auðlegðarskatts. Auðvitað má alltaf deila um hvernig svona hlutir eru útfærðir og hvar einstök viðmiðunarmörk eiga að (Forseti hringir.) liggja.



[13:09]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Árna Þór Sigurðssyni fyrir jákvæðar undirtektir við tillögur Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað eru menn ekki sammála um alla þætti. Það sem ég vildi gera að umtalsefni er að hann taldi hættulegt að ganga á auðlindir, eins og að veiða meira. Ef við veiðum meira núna er náttúrlega ljóst að við getum veitt minna í framtíðinni. Ef við virkjum hins vegar meira núna, allt vatnsafl, göngum við ekki á framtíðina. Hið sama á við um séreignarsparnaðinn. Þar náum við vissulega í eignir ríkissjóðs núna í staðinn fyrir að ná í þær þegar lífeyrir er greiddur út.

Þá er það spurningin sem ég vil spyrja hv. þingmann. Er ekki mikilvægara fyrir þjóðina að hafa vinnu núna heldur en eftir tíu ár? Erum við ekki, að mínu mati alla vega, að stefna lóðbeint í stöðnun sem veldur enn meiri brottflutningi fólks, enn minni fjárfestingu og enn minni neyslu í þjóðfélaginu og getur orðið stórhættuleg?



[13:10]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr: Er ekki mikilvægara að hafa vinnu nú heldur en eftir tíu ár? Ég get ekki svarað þeirri spurningu. Ég veit ekki hvernig staðan verður í íslensku samfélagi eftir tíu ár. Það getur vel verið að á þeim tímapunkti séum við í slíkri stöðu að jafnmikilvægt sé að hafa jafnmikla vinnu þá eins og nú. Það er ómögulegt að svara því. En auðvitað er mikilvægt að efla atvinnustigið í landinu í dag, skapa fleiri störf, skapa hagvöxt. Um það er enginn ágreiningur, held ég. Ágreiningurinn er meira um það hvaða leiðir eru færar.

Þingmaðurinn talaði líka um að við værum að stefna í stöðnun. Ég er þeirrar skoðunar að við allar efnahagsaðgerðir, hvort sem eru sérstakar aðgerðir til að taka á skuldsettum heimilum eða fyrirtækjum eða almennar aðgerðir eins og í ríkisfjármálum með fjárlögum, niðurskurði og slíku, verði að meta hin heildarþjóðhagslegu áhrif á samfélagið. Hvort hætta sé t.d. á því með niðurskurðinum (Forseti hringir.) að við kælum hagkerfið of mikið. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að fram fari mat á því á vettvangi þingsins (Forseti hringir.) á næstu dögum og vikum.



[13:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að líta þurfi á allt þjóðfélagið í heild sinni en líka framtíðina, til 10, 15, 20 ára til að sjá hvernig það virkar. Þetta er svipað eins og maður ætti jörð sem væri að blása upp. Mikill uppblástur væri og öll túnin væru að blása burt. Í þeirri stöðu er mjög mikilvægt að rækta áður en allt túnið verður að klöpp. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa vinnu núna en ekki eftir tíu ár því þá er allt orðið að auðn. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir heimilin. Hugsum okkur fjölskyldur sem ná ekki endum saman og standa frammi fyrir því að þurfa að borga námslán. Það er töluvert mikið um háskólafólk sem stendur frammi fyrir þessu vali: Á ég að fara til útlanda og vinna þar fyrir miklu hærri laun og get þá borgað námslánin mín og átt fyrir bíó einu sinni í mánuði? Þetta er staðan sem fólkið stendur frammi fyrir.



[13:13]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að notfæra mér rétt minn samkvæmt þingsköpum til að koma að athugasemd sem í reynd er árétting. Hún tengist líka máli hv. þingmanns Péturs H. Blöndals. Hv. þingmaður Árni Þór Sigurðsson sagði að menn yrðu að fara með mikilli gætni gagnvart auðlindum. Hann tók mönnum vara fyrir því að kaupa tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka kvóta um 35.000 tonn án þess að hafa fyrir því full rök. Ég vil taka undir það.

Tillagan er byggð á skýrslu frá Hafró í fyrra sem sýnir fram á að ef menn fara upp í 35.000–40.000 tonn þá er alla vega ekki gengið á stofninn. Ég vil samt segja að ég tel að 35.000 tonn séu í það allra mesta. Miðað við þá reglu sem Hafró hefur sjálf sett og felur í reynd í sér 22% aflareglu en ekki 20% við ákjósanlegustu skilyrði, mætti segja að hættulítið væri að fara upp í 15.000 tonn. Ef farið væri yfir 20.000 tonn tel ég að við kynnum að vera í hættu komin. Ég er ekki að biðja hv. þingmann að svara þessu, (Forseti hringir.) ég vildi einungis kom þessari áréttingu að.