139. löggjafarþing — 22. fundur
 8. nóvember 2010.
bygging nýs fangelsis.

[15:22]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp af svipuðu tilefni og vil spyrja hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra álíkrar spurningar og kannski þá tveggja. Er það bindandi samningur sem ríkisstjórnin getur ekki sagt sig frá þegar fyrir liggur margra ára samkomulag við einhverja danska arkitektastofu? Öðru eins hefur hún sagt sig frá hér á síðustu vikum, mánuðum og missirum. Ég held að það sé með ólíkindum þegar það er 60% atvinnuleysi í stétt arkitekta og byggingargeirinn hér er lamaður á margan hátt að enn skuli vera haldið við samningi, eða hvort það var samkomulag, við einhverja danska arkitektastofu um byggingu á Hólmsheiði og segja það afráðið.

Þá vil ég spyrja hinnar spurningarinnar. Þessi ákvörðun hlýtur að vekja verulega furðu í byggðarlögum landsins þar sem efnt hefur verið til eins konar opinberrar samkeppni milli byggðarlaga um að fá til sín fangelsi. Sveitarfélagið Árborg hefur lagt fram verulega fjármuni og verið í baráttu fyrir því, sveitarfélagið Sandgerði hefur jafnframt dúkkað upp á síðustu dögum og svo er um fleiri. Ég hélt kannski að Reykjavíkurborg væri þá einn aðilinn að þessu Hólmsheiðarverkefni. Er ríkisvaldið búið að ákveða að byggt skuli á Hólmsheiði, búið að greiða fjármunina, búið að gera samninga við danska arkitektastofu — þar sem 60% atvinnuleysi er hjá arkitektum á Íslandi? Á meðan eru önnur byggðarlög látin vera að keppa um eitthvað allt í plati. Ég bara trúi ekki því sem ég heyri hér og vil gjarnan fá að heyra svör frá hæstv. ráðherra um hvort þetta sé virkilega svona, hvort það sé ekki neinn jafnréttisgrundvöllur hér og ekki verið að leita skynsamlegra leiða um að byggja fangelsi á Íslandi (Forseti hringir.) Það veitir víst ekki af því.



[15:24]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður heyrir yfirleitt, en ég var að reyna að segja hér áðan og koma því til skila að tillaga hefði komið fram um að reisa fangelsið á Hólmsheiði nærri Reykjavík. Jafnframt var látið fylgja með þessum yfirlýsingum að við værum opin fyrir því að reisa það annars staðar ef sveitarfélög sæju sér fært að bjóða hagkvæmari kost. Ýmis sveitarfélög eru að hugleiða þetta, þar á meðal Árborg og Reykjanesbær, fyrst og fremst þessir aðilar. (Gripið fram í: Og Sandgerði.) Og Sandgerði. Það eru þessir aðilar sem eru að skoða þessa kosti, það er ekkert athugavert við það. (Gripið fram í.)

Hvar hagkvæmast er síðan að reisa fangelsið og reka ræðst af þeim tilboðum sem fram kunna að koma. Þetta er ekkert óeðlilegt. (Gripið fram í.)



[15:26]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér einfaldlega ekki nógu góð svör hjá hæstv. ráðherra. Er það virkilega tilfellið að ríkisvaldið sé búið að ákveða að það sé skynsamlegast að byggja á Hólmsheiði þrátt fyrir að skýrslur liðinna ára hafi sýnt fram á að mesta hagræðingin, ódýrast, væri að byggja við Litla-Hraun við Eyrarbakka í Sveitarfélaginu Árborg? Er það virkilega svo að samt sem áður haldi ríkisstjórnin áfram að dæla fjármunum út í staðinn fyrir að dæla þeim fjármunum inn í íslenskt hagkerfi þar sem þeir margfaldast? Á að dæla þeim út úr kerfinu til danskrar arkitektastofu þar sem er verið að hanna byggingu nýs fangelsis? Eiga önnur byggðarlög síðan þess kost að eyða sínum fjármunum, sveitarfélaganna, í að keppa við ríkisvaldið sem bæði tekur ákvörðunina um hvar það á að vera, hver hannar og hvernig það lítur út? Síðan á það að velja.

Þetta hefði einhvern tíma ekki þótt sérstaklega smart, ekki sérstaklega lýðræðislegt og að það hefði ekkert með jafnræði að gera.



[15:27]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta snýst aðallega um hagkvæmni. Menn eru að skoða hvar hagkvæmast er að reka fangelsið. (SIJ: Það er vitað.) Nei, aðrar hagkvæmniathuganir hafa sýnt fram á að best og hagkvæmast sé að hafa fangelsið sem næst dómstólunum og sem næst (Gripið fram í.) Reykjavík. Það er staðreynd. (Gripið fram í.) Við erum hins vegar reiðubúin að skoða aðra kosti og það er það sem skýrt hefur verið frá.

Tillagan er um að reisa fangelsið á Hólmsheiði en við erum reiðubúin að skoða aðra kosti ef þeir reynast hagkvæmari fyrir ríkissjóð.